01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Bókin mín. Lestrarnautnin endurheimt. Karl Kristjánsson

Sem barn var ég ekki mikið gefinn fyrir íþróttir, var ekki góður í fótbolta en ég var bókaormur og las mikið af bókum af ýmsu tagi. Ég dró heim bókastafla úr bókasafni grunnskólans, get enn munað ilminn og ánægjuna af að gramsa í hillunum og á jólunum voru bækur uppáhaldsgjafirnar.

Um tíma í læknadeildinni missti ég eiginlega þennan hæfileika til yndislestrar, var einhvern veginn alltaf að reyna að muna öll nöfn og smáatriði í bókinni þannig að maður náði ekki að hverfa inn í söguna eins og áður.

Ég hef sem betur fer endurheimt lestrargleðina og les talsvert mikið af ýmislegum bókum. Að einhverju leyti er það sjálfsagt konunni minni, Steinunni Helgadóttur að þakka, en hún er rithöfundur. Áhugavert er að sjá nýjar sögur verða til og hvað það þarf mikla einbeitingu og úthald til að koma slíku verki saman.

Það er erfitt að velja bækur sem hafa haft áhrif á líf mitt í gegn um tíðina en hér er mín tilraun.

Babels hus held ég að hafi verið fyrsta bókin sem ég stautaði mig fram úr á sænsku og lærði talsvert af orðaforða sem nýttist í vinnunni í Svíþjóð. Bókin kom út 1978 og er skrifuð af P.C. Jersild sem er læknir. Sagan segir frá eldri manni, sem veikist skyndilega af hjartaáfalli og lendir á stóru sjúkrahúsi í Stokkhólmi. Bókin lýsir heldur kaldranalegu og mjög lagskiptu samfélagi starfsfólks og sjúklinga á háskólasjúkrahúsinu og ég held að hún hafi átt talsverðan þátt í því að ég valdi síðar að verða heimilislæknir. Babelsturninn vísar í kunnuglegar aðstæður á stóru sjúkrahúsi þar sem töluð eru mörg tungumál og hvað samskiptin geta líka verið brotakennd, jafnvel þó við tölum sama tungumálið.

Ég les í seinni tíð talsvert af ævisögum og tek líka gamlar árbækur Ferða-félags Íslands með ef ég er að ferðast um landið. Stundum geta þær verið eins og tímavél sem bregður upp myndum af horfnu mannlífi í eyðibyggðum sem maður er að fara um.

Ég hef nokkuð lengi haft talsverðan áhuga á siglingum og bókum um siglingar. Bókin Sailing alone around the world er hið heilaga gral í þeim bókaflokki, en hún er skrifuð af kapteini Joshua Slocum, sem var ævintýramaður og sjálfur fyrstur manna til að sigla einn og vélarlaus á seglbátinum Spray í kringum hnöttinn á árunum 1895-1898. Frásögn þessa fyrrverandi skipstjóra á því hvernig hann endurbyggði nánast ónýtt skip og litríkt ferðalagið sem fylgdi er heillandi.

Ævisaga eldklerksins Jóns Steingrímssonar er líka mjög eftirminnileg bók sem lýsir því hvernig hann og hans fólk þraukaði í gegnum hörmungar móðuharðindanna og í þessu riti skynjum við hvernig þrátt fyrir allt var reynt að halda í mennskuna, jarða sína nánustu á sómasamlegan hátt og sýna samkennd.

Nýjasta bók Steinunnar, Síðustu dagar skeljaskrímslisins, lýsir líka samfélagslegu og tæknilegu hruni hvað almenning varðar, en í framtíðinni. Við búum á eyju eftir sem áður og ef forsendur breytast í kringum okkur getum við einangrast, jafn viðkvæm gagnvart náttúrunni, en búin að glutra niður þekkingu forfeðranna á því hvernig hægt er að tóra hér. Söguhetja bókarinnar lumar þó sem betur fer á seglskútu, sem kemur sér auðvitað vel, alltaf gott að eiga skútu.

Ég skora á Þorbjörgu Karlsdóttur heimilislækni að skrifa næsta bókapistil.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica