Fylgirit 115 - Vísindi á vordögum 2023

Vísindi á vordögum 2023 - Ávarp formanns Vísindaráðs

Rósa Björk Barkardóttir

Tími er afstæður og hvort hann er langur eða stuttur fer eftir því í hvaða samhengi hann er settur. Vísindi á vordögum hefur verið árlegur viðburður á Landspítala í meira en tvo áratugi og dagskráin með nokkuð hefðbundnu sniði öll árin. Í sögu Landspítala eru tveir áratugir langur tími, miklar breytingar hafa orðið á starfseminni á þessum tíma. Það á að einhverju leyti líka við um vísindastarfið á Landspítala, það hefur tekið breytingum og það hefur átt sínar hæðir og lægðir. Það er ýmislegt sem bendir til þess að vísindastarfið hafi verið og sé í einhvers konar lægð. Að minnsta kosti ef horft er til fjölda tilvitnana í þær vísindagreinar sem birtar eru í nafni spítalans. Ef horft er til fjölda viðburða innan spítalans sem tengjast vísindum er sagan önnur. Undanfarinn áratug eða svo hefur það aukist að svið, deildir og fagstéttir haldi eigin vísindaviðburði og flétti vísindin saman við klíníska starfsemi spítalans. Það er mikið fagnaðarefni og endurspeglar áhuga starfsmanna á að stunda vísindi og efla þannig klínískt starf. Þar má nefna Bráðadaginn, Sameiginlegt vísindaþing skurðlækna og fleiri, Geðdaginn og vísindatengda viðburði sem Félag íslenskra lyflækna og Félag íslenskra geðlækna halda. Þá er samt ekki allt talið.

Þrátt fyrir þetta hafa Vísindi á vordögum haldið sérstöðu sinni og mikilvægi, einkum sem viðburður og sérstök uppskeruhátíð fyrir allt vísindafólk starfandi á spítalanum. Meginþema viðburðarins frá upphafi hefur verið úthlutun vísindastyrkja og kynning áhugaverðra vísindaverkefna. Í ár verður úthlutað 118 milljónum úr Vísindasjóði Landspítala og úr Minningargjafasjóði Landspítala Íslands (MLÍ) 7,5 milljónum. Kynningar á vísindaverkefnum og niðurstöðum þeirra verða fjölmargar, bæði í formi fyrirlestra og veggspjalda: Heiðursvísindamaður Landspítala, Ungur vísindamaður á Landspítala, verðlaunahafi úr sjóði Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar, og tveir af styrkhöfum úr sjóði MLÍ. Öll fimm kynna vísindaverkefni með fyrirlestrum. Til viðbótar verða 29 önnur vísindaverkefni kynnt með veggspjöldum á hátíðinni, sem fá að hanga uppi að loknum viðburði fyrir framan hátíðarsal Landspítala, Hringsalinn. Þannig fær starfsfólk, skjólstæðingar og gestir tækifæri til að kynna sér efni þeirra.

Vísindi á vordögum snýst ekki síður um mikilvægi þess að gefa ungu og upprennandi vísindafólki tækifæri til að þreyta frumraun sína í kynningu á vísindaverkefnum sínum. Í þessu fylgiriti Læknablaðsins er að finna ágrip veggspjaldanna sem verða kynnt á Vísindum á vordögum í ár. Rannsóknaefnin eru fjölbreytt eins og áður og endurspegla vel vísindaflóruna á Landspítala. Öll ágrip sem bárust voru metin af nefnd sem skipuð var meðlimum Vísindaráðs Landspítala. Eins og áður voru valin verðlaunaágrip. Um er að ræða peningaverðlaun sem nýta á til kynningar á vísindaverkefnunum á erlendri vísindaráðstefnu. Í ár voru verðlaunuð tvö ágrip: Árangur meðferðar og afdrif minnstu fyrirburanna á Íslandi 1990-2019, þar sem fyrsti höfundur er Þórður Björgvin Þórðarson, og Dietary fish oil enhances early hallmarks of inflammation resolution in antigen-induced peritonitis, þar sem fyrsti höfundur er Kirstine Nolling Jensen.

Fyrir hönd Vísindaráðs Landspítala eru hér færðar þakkir til allra sem hafa lagt hönd á plóg við undirbúning dagskrár Vísinda á vordögum fyrir þeirra mikilsverða framlag. Sérstaklega viljum við þakka fyrirlesurum, höfundum ágripa og kynnum veggspjalda. Án þeirra væri enginn viðburður, engin uppskeruhátíð.

 

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica