Vísindi á vordögum 2023 - Mikilvægi rannsókna og nýsköpunar hefur aldrei verið augljósara - leiðari
Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir og prófessor, Landspítala og Háskóla Íslands
Þegar sagan er skoðuð sést að kreppur eru oft aflvaki breytinga. Í heimsfaraldri COVID-19 var gríðarlegum fjármunum varið til rannsókna og nýsköpunar til að koma heimsbyggðinni til bjargar. Ein áhrifamesta kraftbirting þessarar stefnubreytingar eru bóluefnin sem þróuð voru gegn sjúkdómnum, sem björguðu um 20 milljónum mannslífa á fyrstu 12 mánuðunum eftir að þau voru tekin í notkun. Ákvörðunin reyndist heilladrjúg því að þessi nýju bóluefni gerðu heilbrigðisyfirvöldum víða um heim kleift að taka skrefið fyrr til baka, til eðlilegra lífs, og standa þannig vörð um hagsmuni einstaklinga og samfélaga. Einnig voru þróuð öflug lyf með hraði til hagsbóta fyrir sjúklinga en veiran hefur reynst fljót að bregðast við með ónæmum afbrigðum og baráttan mun því halda áfram. Í þeirri baráttu munu vísindalegar rannsóknir og þekking skipta meginmáli. Nú þegar er orðið ljóst að þróun mRNA tækninnar sem var nýtt við gerð bóluefnanna muni auðvelda okkur að búa til öflug bóluefni gegn öðrum smitsjúkdómum í framtíðinni. Einnig bendir margt til að þessi tækni muni jafnframt hafa þann óvænta en ánægjulega ávinning í för með sér að bæta meðferð margra annarra kostnaðarsamra sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma og illkynja sjúkdóma. Þessi reynsla okkar undanfarin þrjú ár minnir því enn á að rannsóknir og nýsköpun margborga sig en jafnframt þarf langtímasýn stjórnvalda, fjármagn og þolinmæði að koma til.
Á meðan starfsmenn heilbrigðiskerfisins fengust við COVID-19 sátu sum önnur verkefni á hakanum, ekki aðeins margar valkvæðar aðgerðir líkt og liðskiptaaðgerðir heldur virðist sem vísindaleg virkni hafi haldið áfram að gefa eftir, að minnsta kosti ef marka má tölur um fjölda birtinga starfsmanna spítalans í erlendum fræðitímaritum (mynd 1).
Þetta er þó líklega ekki tengt COVID-19 heldur framhald á þróun sem því miður á sér lengri aðdraganda eins og sést á myndinni. Starfsmenn Landspítala halda þó áfram að laða að sér meistara- og doktorsnema en fjöldi þeirra helst í horfinu frá fyrra ári eða lækkar lítillega (mynd 2).
Svipuð mynd sést þegar litið er til veittra leyfa af hálfu siðanefnda en fjöldi leyfa er vísbending um fjölda áformaðra vísindarannsókna (mynd 3).
Fjármagn innlendra styrkja er á uppleið í krónum talið en lækkun á erlendum vísindastyrkjum á sama tíma er sérstakt áhyggjuefni (mynd 4).
Þegar nánar er rýnt í tölur um Vísindasjóð Landspítala sést að sókn eftir styrkjum virðist hafa dregist saman, þrátt fyrir aukið fjármagn sem ef til vill ber vott um tíma- og aðstöðuleysi starfsfólks. Af þessum tölulegu gögnum má draga þá ályktun að kyrrstaða sé ríkjandi hvað varðar rannsóknarstarf innan háskólaspítalans, þrátt fyrir að flestum sé orðin ljós nauðsyn þess að bæta þar úr. Til að geta veitt heilbrigðisþjónustu í fremstu röð er lykilatriði að unnt sé að flétta saman klínískt starf og rannsóknir. Það skapar nýja þekkingu en er jafnframt mikilvæg hagnýt aðgerð til að auka gæði þjónustunnar, bæta öryggi sjúklinga og draga úr brottfalli starfsfólks. Rannsóknir eru spítalanum lífsnauðsynlegt vítamín! Þörfin fyrir vel menntað heilbrigðisstarfsfólk fer vaxandi um heim allan og ef við viljum ekki dragast aftur úr þarf að bregðast við með því að styrkja kennslu og rannsóknir á þeim stöðum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, eins og á háskólasjúkrahúsi okkar Íslendinga.
Sú þróun sem sést í gröfunum sem hér eru sýnd speglast jafnframt í lækkandi gengi heilbrigðisvísinda við Háskóla Íslands á alþjóðlegum matslistum á árinu 2022 og tengist sílækkandi framlögum hér á landi til menntunar nema í sumum þessara greina. Sú þróun vekur óneitanlega furðu því á sama tíma er mikið innlent fjármagn flutt úr landi til að byggja upp deildir og ráða öfluga kennara til erlendra háskóla sem sinna kennslu í grunnnámi í læknisfræði! Er skynsamlegt flytja grunnmenntun í heilbrigðisvísindum úr landi? Að mínu mati er þessi stefna hvorki skynsamleg né sjálfbær nálgun á viðfangsefnið. Á síðasta ári hvöttu skýrsluhöfundar McKinsey til að sett yrði aukið fjármagn til vísindastarfs á spítalanum, eftir að sýnt var fram á að innan við 1% af rekstrarfé rennur til þessa mikilvæga hlutverks. Það hlutfall er aðeins brot af því sem sambærilegar stofnanir erlendis hafa úr að spila. Með nýlegum skipuritsbreytingum sem komu til framkvæmda á haustmánuðum 2022 var málaflokkurinn færður beint undir forstjóra og endurspeglar sú breyting aukna áherslu á rannsóknir og vísindi innan spítalans. Það mun vonandi leiða til bættrar fjármögnunar og að bjartari tímar fari senn í hönd.