Geðdagurinn 2023 - ágrip
Hvað er hugsun?
Nanna Briem
Geðsviði Landspítala
nannabri@landspitali.is
Á málþingi íslenskrar erfðagreiningar í janúar 2023 fékk ég þá áskorun að svara spurningunni „Hvað er hugsun?“ Mun ég endurtaka leikinn og nálgast viðfangsefnið úr frá starfi mínu sem geðlæknir, þar sem allt snýst um hugsun. Fjallað verður um hugsun eins og hún blasir við okkur geðheilbrigðisstarfsfólki.
Reynslusaga
Sigríður Gísladóttir
Okkar heimur, Geðhjálp
Sigríður Gísladóttir, framkvæmdastjóri Okkar heims og formaður Geðhjálpar Sigríður mun fara yfir upplifun sína af því að vera barn foreldris með geðsjúkdóm. Hún mun fara yfir áhrifin sem hún varð fyrir og hvernig stuðning hún hefði viljað.
Okkar heimur
Þórunn Edda Sigurjónsdóttir, Sigríður Gísladóttir
Okkar heimur starfar í þágu barna sem eiga foreldra með geðvanda
Starfið er byggt á hugmyndafræði Our time, breskra góðgerðarsamtaka sem hafa verið leiðandi í réttindabaráttu fyrir þennan hóp barna í Bretlandi síðastliðin 22 ár.
Fjallað verður um börn sem aðstandendur. Farið verður yfir stöðu þessa hóps hér á landi, þau áhrif sem veikindi foreldra geta haft á líðan og velferð barna og verndandi þætti. Þá verður starfsemi Okkar heims kynnt.
Erfðabreytileikar sem tengjast geðsjúkdómum beint og óbeint
Hreinn Stefánsson1, Guðrún A. Jónsdóttir1, Guðmundur Einarsson1, Bragi Walters1, Unnur Unnsteinsdóttir1, Þorgeir Þorgeirsson1, Engilbert Sigurðsson2,3, Kári Stefánsson1
1Íslensk erfðagreining, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3geðsviði Landspítala
Erfðir og umhverfi leggja til geðsjúkdóma. Fjölgenaskor margra algengra erfðabreytileika, þar sem hver breytileiki um sig eykur lítillega áhættuna á tilteknum geðsjúkdómi, skýra meira af viðkomandi sjúkdómsmynd en sjaldgæfir breytileikar sem stórauka áhættuna á sama sjúkdómi. Þeir síðarnefndu hafa víðtæk áhrif á starfsemi heilans, svo sem getu við að leysa úr taugasálfræðiverkefnum, og geta glætt skilning á starfsemi heilans og hvernig frávik í starfsemi hans geta ýtt undir og orsakað sjúkdóma. Fjölgenaskor fyrir ákveðinn sjúkdóm eru einnig gagnleg og hægt er að reikna slík skor fyrir alla einstaklinga í rannsóknarþýði. Erfðabreytileikar sem leggja til fjölgenaskorsins, en erfast ekki frá foreldri til barns, hafa óbein áhrif á afkvæmin í gegnum hegðun foreldris. Áhrif fjölgenaskora ýmissa sjúkdóma og eiginleika, bein og óbein, á einstaklinga má skoða með hjálp erfðafræðinnar.
Aðstandendafræðsla í geðhvarfateymi Landspítala
Sævar Þór Sævarsson
geðsviði Landspítala
Geðhvörf eru geðröskun í flokki alvarlegra geðraskana og geta oft reynst fólki erfið og þungbær. Veikindalotur eru nokkuð algengar og á það bæði við um geðhæðir og geðlægðir. Þáttur aðstandenda í geðhvörfum getur oft verið flókinn og erfiður. Algengt er að aðstandendur skorti þekkingu á geðhvörfum og oft veit fólk ekki hvernig á að bregðast við veikindalotum fjölskyldumeðlima.
Geðhvarfateymið er þverfaglegt sérhæft teymi í meðferðareiningu lyndisraskana á geðsviði Landspítala. Teymið var stofnað árið 2017 og hefur allt frá stofnun sinnt fólki með geðhvörf. Fræðsla hefur alla tíð verið mikilvægur hluti í þjónustu geðhvarfateymis og frá upphafi hefur verið rekinn fræðsluhópurfyrir skjólstæðinga teymis. Í hverjum slíkum fræðsluhópi eru 10-14 skjólstæðingar og er hver tími þannig upp settur að hann innihaldi fræðsluerindi tengt geðhvörfum og umræðu því tengt. Um er að ræða vikulega fræðslu sem telur um 90 mínútur í senn á alls 16 vikna tímabili. Meðal þess sem tekið er fyrir í hópnum er fræðsla um greiningu geðhvarfa, lyfjameðferð, sálfræðimeðferð, mikilvægi svefns og rútínu og gerð viðbragðsáætlana tengdum veikindalotum. Þegar skjólstæðingur hefur lokið fræðsluhóp býðst honum að bjóða allt að þremur aðstandendum í aðstandendafræðslu teymis. Sú fræðsla telur þrjár kvöldstundir þar sem starfsemi teymis er kynnt, frætt er um geðhvörf, farið er yfir hluta þess efnis sem skjólstæðingar fara í gegnum í sinni fræðslu og settar eru fram gagnlegar leiðir til að ræða og takast á við geðhvörf og veikindalotur.
Í þessu erindi verður rætt um aðstandendafræðslu Geðhvarfateymis og innihald hennar kynnt. Farið verður yfir stöðu fræðslunnar í dag og framtíðarsýn rædd.
Þróun nýgengis sjálfsvíga frá aldamótum: Ísland og önnur Norðurlönd. Og svo kom COVID
Högni Óskarsson1, Engilbert Sigurðsson2,3, Sigurður Páll Pálsson2
1Humus ehf, 2 geðsviði Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Nýgengi sjálfsvíga hefur farið lækkandi á heimsvísu frá aldamótum. Lækkunin hefur verið mikil í Evrópu, þó minnst í Austur-Evrópu, en um 20% á Norðurlöndum. Áhrif COVID-19 á nýgengi sjálfsvíga hafa verið áhyggjuefni.
Markmið: Að greina þróun sjálfsvíga á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd, m.t.t. kyns og aldurs, árin 2000-18, og greina möguleg áhrif COVID-19 á nýgengi sjálfsvíga á Íslandi árin 2020-21 samanborið við undanfarna áratugi.
Aðferð: Stuðst var við tölur úr dánarmeinaskrám Norðurlanda árin 2000-18, kóðar X60-84, 15 ára og eldri, eftir kyni og aldursflokkunum 15-24, 25-44, 45-64 og 65 ára og eldri. Áhrif COVID-19 á Íslandi voru einnig skoðuð fyrir árin 2020-21. Við tölfræðilega úrvinnslu var notuð Joinpoint aðhvarfsgreining, Poisson módel, til að reikna breytingar yfir tímabilin fimm. Marktæknimörk P<0,05.
Niðurstöður: Á Norðurlöndum var lækkunin langmest í Finnlandi, tæp 35%, þar sem nýgengið hefur verið hæst. Minnst var lækkunin í Noregi, 1.4%, sem skýrist meðal annars af hækkun nýgengis hjá norskum konum. Á Íslandi varð væg hækkun nýgengis hjá körlum, að undanskildum þeim yngstu, 15-24ra ára. Lækkun undir 10% kom fram hjá sænskum körlum 15-64ra ára og þeim norsku 25-44ra ára. Hækkun varð á nýgengi kvenna á aldrinum 15-24ra ára nema á Íslandi. Hækkun varð í öllum aldursflokkum norskra kvenna og 25-44ra ára kvenna í Svíþjóð.
Í samanburði við meðaltal áranna 2000-19 varð verulega lækkun 2020-21 á nýgengi sjálfsvíga hjá körlum í flestum aldursflokkum hér á landi. Hins vegar varð mikil hækkun á nýgengi kvenna á sama tíma. Íslenskar tölur náðu hvergi marktækni.
Umræða: Þrátt fyrir verulega heildarfækkun sjálfsvíga á Norðurlöndum er enn að finna áhættuhópa, hópa með minni lækkun en 10% eða jafnvel aukningu á nýgengi. Sú grundvallarbreyting verður á Íslandi á COVID-19 tímanum að sjálfsvígum karla fækkar, en hjá konum fjölgar þeim. Vissulega þarf að hafa í huga að tilviljanakenndar sveiflur milli ára og tímabila í fámennu samfélagi. Til lengri tíma er mikilvægt að reyna að greina á milli tilviljana og raunverulegrar þróunar. Hafa ber í huga að langtíma áhrif COVID-19 sýkingar geta komið fram með mögulega neikvæðum áhrifum á geðheilsu og nýgengi sjálfsvíga. - Mikilvægt er að beina sértækum forvarnaraðgerðum að undirhópum í áhættu.
Endurtekin segulörvun á heila við meðferðarþráu þunglyndi. Uppgjör á árangri meðferðarinnar fyrstu 15 mánuðina á Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2022-2023
Elín María Árnadóttir1, Dagur Bjarnason2, Jón Gauti Jónsson2, Nicolas Pétur Blin2, Engilbert Sigurðsson1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3geðsviði Landspítala
Bakgrunnur: Þunglyndi er algengur, alvarlegur og oft langvinnur sjúkdómur og leiðandi orsök heilsubrests í heiminum. Það er nú önnur algengasta ástæða örorku á heimsvísu og eitt mesta lýðheilsuvandamál nútímans. Þunglyndi veldur mikilli vanlíðan, færni- og lífsgæðaskerðingu og því fylgir oft vonleysi og hjálparleysi. Það er helsta ástæða sjálfsvíga meðal karla og kvenna. Ársalgengi þunglyndis er 5-10%, tvöfalt hærra hjá konum en körlum, og lífstíðaralgengi um 20%. Allt að þriðjungur þunglyndra fær litla eða enga svörun af þunglyndislyfjameðferð. Talað er um meðferðarþrátt þunglyndi ef fólk svarar ekki meðferð með tveimur þunglyndislyfjum í að minnsta kosti 6 vikur með hvoru lyfi í meðferðarskömmtum. Síðustu áratugi hefur meðferð með segulörvun komið fram á sjónarsviðið sem meðferðarúrræði við meðferðarþráu þunglyndi. Frá því í janúar 2022 hefur Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins boðið upp á segulörvunarmeðferð fyrir fullorðna sem þjást af meðferðarþráu þunglyndi, í fyrsta skipti hér á landi.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að meta árangur meðferðarinnar.
Aðferð: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn. Þátttakendur voru einstaklingar sem hófu og luku eða hættu í segulörvunarmeðferð hjá Heilaörvunarmiðstöðinni frá 26. janúar 2022 til 30. apríl 2023. Rannsóknin byggði á svörum þátttakenda við sjálfsmatskvörðum sem lagðir voru fyrir í upphafi meðferðar, á meðan á meðferð stóð og við lok meðferðar. Sjálfsmatskvarðarnir sem notaðir voru eru PHQ-9 og BDI-II til að meta þunglyndi, GAD-7 til að meta kvíða, auk lífsgæðakvarða, QoL, og heildarmats á breytingu, PGIC. Upplýsingum var einnig safnað úr sjúkraskrám þátttakenda.
Niðurstöður: Á tímabilinu fengu 57 einstaklingar segulörvunarmeðferð hjá Heilaörvunarmiðstöðinni (64,9% konur, meðalaldur 45,3 ár, þar af unipolar þunglyndi 84,2%, en bipolar þunglyndi 15,8%). Hlutfall þátttakenda sem svaraði meðferðinni (≥50% lækkun á PHQ-9 eða BDI-II) samkvæmt PHQ-9 og BDI-II var 34,5% og 42,0%, og hlutfall þeirra sem fóru í fullt sjúkdómshlé samkvæmt PHQ-9 (<5) og BDI-II (<14) var 14,5% og 32,0%. Brottfallshlutfall var 10,5%. Ekki komu fram neinar alvarlegar aukaverkanir við meðferðina.
Ályktanir: Árangur segulörvunarmeðferða Heilaörvunarmiðstöðvarinnar við meðferðarþráu þunglyndi er sambærilegur niðurstöðum erlendra rannsókna. Rannsóknin bendir til þess að segulörvunarmeðferðir Heilaörvunarmiðstöðvarinnar séu öruggt og virkt meðferðarúrræði við meðferð á meðferðarþráu þunglyndi.
Þekking og viðhorf til raflækninga (electroconvulsive therapy, ECT) meðal geðheilbrigðisstarfsmanna og almennings á Íslandi
Díana Sif Ingadóttir
Leiðbeinendur: Brynja Björk Magnúsdóttir og Rannveig Sigurvinsdóttir
Háskólanum í Reykjavík
Bakgrunnur: Raflækningar er meðferð sem er notuð fyrir ýmsar geðraskanir. Þrátt fyrir að ECT sé almennt talin vera örugg og árangursrík meðferð þá er þetta ein umdeildasta meðferðin í geðlækningum. Neikvætt viðhorf til ECT má finna víða, það mætti rekja til fyrrum notkunar á meðferðinni og hvernig kvikmyndir hafa útfært ECT á rangan hátt. Rannsóknir hafa sýnt fram á takmarkaða þekkingu og neikvætt viðhorf til ECT meðal almennings og hefur meðferðinni verið lýst sem ofbeldisfullri og skaðlegri meðferð. Rannsóknir benda til þess að betri þekking á ECT tengist jákvæðara viðhorfi til meðferðarinnar. Skortur er á rannsóknum varðandi viðhorf og þekkingar til ECT og hefur slík rannsókn ekki verið framkvæmd á Íslandi.
Markmið: Kanna viðhorf og þekkingu til ECT á Íslandi meðal geðheilbrigðisstarfsmanna og almennings á Íslandi.
Aðferð: Rannsóknin var megindleg þversniðsrannsókn og var aflað gagna með spurningalista sem var hannaður af rannsakanda. Spurningalistinn var að mestu byggður á The Questionnaire on Attitudes and Knowledge of ECT (QuAKE) scale. Listinn var styttur, þýddur á íslensku og spurningar úr öðrum rannsóknum var bætt við, sem og bakgrunnsspurningum. Spurningalistanum var deilt á persónulega Facebook síðu rannsakanda og í lokuðum hópum geðheilbrigðisstarfsmanna, á Facebook og Workplace.
Niðurstöður: Þátttakendur voru 224, þar af 79 geðheilbrigðisstarfsmenn. Þátttakendur voru almennt með jákvætt viðhorf og góða þekkingu á ECT, þó bendir rannsóknin á tilvist neikvæðra viðhorfa og ranghugmynda varðandi meðferðina. Það voru tengsl milli betri þekkingar á ECT og jákvæðs viðhorfs til meðferðarinnar. Geðheilbrigðisstarfsmenn voru með marktækt betri þekkingu og jákvæðara viðhorf til ECT en almenningur og voru líklegri til að hafa heyrt um ECT.
Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að þörf sé á frekari fræðslu meðal geðheilbrigðisstarfsmanna, þar sem fyrri rannsóknir hafa sýnt að markviss ECT fræðsla auki þekkingu og jákvæð viðhorf til meðferðarinnar. Neikvæð viðhorf og ranghugmyndir eru til staðar meðal almennings, sem getur haft áhrif á sjúklinga sem gangast undir ECT og geðheilbrigðisstarfsmenn. Því er þörf á vitundarvakningu varðandi ECT meðal almennings. Mikilvægt er að framkvæma rannsóknir með stærra úrtaki varðandi ECT á Íslandi, þar sem viðhorf og þekking meðal almennings, geðheilbrigðisstarfsmanna, sem og þessa sjúklingahóps yrði rannsakað.
Sjúkdómsmynd geðhvarfa meðal skjólstæðinga geðhvarfateymis geðsviðs Landspítala
Halla Ósk Ólafsdóttir1, 2, Brynja Björk Magnúsdóttir1,2, Kim Wright3, Engilbert Sigurðsson1,4, Berglind Guðmundsdóttir1,4, Ragnar Pétur Ólafsson4
1Geðsviði Landspítala, 2Háskólanum í Reykjavík, 3University of Exeter, 4Háskóla Íslands
Geðhvörf eru alvarleg geðröskun sem hefst oftast snemma á lífsleiðinni og er ein meginorsök örorku hjá ungu fólki. Þunglyndi í geðhvörfum er yfirleitt mjög langvinnt og hamlandi og hafa rannsóknir leitt í ljós að fólk með alvarleg geðhvörf ver allt að einum þriðja til helmingi lífsins með truflandi þunglyndiseinkenni. Á heimsvísu hafa fáar rannsóknir verið gerðar á sérhæfðri meðferð við þunglyndi í geðhvörfum og er tilfinnanlegur skortur á árangursríkum gagnreyndum meðferðarúrræðum. Sjálfsvígshætta meðal fólks með geðhvörf er mikil og sjálfsvígstíðni með því hæsta sem sést meðal fólks með geðraskanir. Hættan er mest snemma í sjúkdómsferlinu og meðal þeirra sem upplifa endurteknar og viðvarandi þunglyndislotur. Bendir það til þess að snemmtækt inngrip og viðeigandi meðferð við þunglyndi séu sérlega mikilvægir þættir í meðhöndlun geðhvarfa.
Með tilkomu geðhvarfateymis Landspítala árið 2017 var í fyrsta sinn á Íslandi byrjað að veita þverfaglega sérhæfða meðferð við geðhvörfum með áherslu á snemmtæka íhlutun. Í þessu erindi verður sagt frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem kannaði hvað einkennir fólk sem sækir meðferð í geðhvarfateymi Landspítala með tilliti til aldurs, kyns, ICD-greininga við komur á göngudeild og við innlagnir, innlagnartíðni fyrir og eftir komu í teymi, tíðni sjálfsvígstilrauna, atvinnu- og námsstöðu og fleiri þátta. Einnig verður sagt frá meðferðarforminu atferlisvirkjun sem aðlagað hefur verið fyrir fólk með þunglyndi í geðhvörfum og fyrirhugaðri meðferðarrannsókn í geðhvarfateymi.
MDMA sem þáttur í meðferð áfallastreituröskunar
Helga Þórarinsdóttir, Engilbert Sigurðsson
geðsviði Landspítala
helthora@landspitali.is
Bakgrunnur: MDMA (3,4-methylenedioxymethamphetamine) er skylt svokölluðum ofskynjunarefnum og hefur verið rannsakað undanfarin ár sem möguleg meðferð við áfallastreituröskun, geðröskun þar sem fáar lyfjameðferðir hafa sýnt fram á virkni.
Markmið: Tilgangur greinarinnar er að fara yfir núverandi þekkingu á MDMA og virkni þess í meðferð áfallastreituröskunar.
Aðferð: Gerð var leit á PubMed, Web of Science og Google Scholar og farið yfir heimildir í birtum rannsóknar- og yfirlitsgreinum.
Niðurstöður: Meðferð með MDMA er lýst sem viðbótarmeðferð samhliða samtalsmeðferð. Meðferðin felst í 2-3 skiptum af nokkurra klukkustunda samtalsmeðferð þar sem sjúklingur fær 1-2 skammta af MDMA. Áhrif MDMA eru talin minnka tilfinningalegt uppnám og auðvelda þannig úrvinnslu áfalla. Algengar aukaverkanir eru gnístran tanna, kvíði, taugaspenna, höfuðverkur og ógleði. Nýleg safngreining sýndi að samtalsmeðferð gaf meiri árangur samhliða notkun MDMA en án virkra skammta af MDMA. Notkun MDMA samhliða samtalsmeðferð jók einnig hlutfall þeirra sem mættu ekki lengur greiningarskilmerkjum fyrir áfallastreituröskun við lok meðferðar.
Ályktanir: Niðurstöður úr rannsóknum benda til þess að MDMA dragi marktækt úr áfallastreitueinkennum og þolist almennt vel. Frekari rannsóknir eru í gangi og munu leiða í ljós hvort MDMA hljóti markaðsleyfi á næstu árum. Brýn þörf er á fleiri meðferðarúrræðum fyrir þá sem glíma við áfallastreituröskun.
Stöðumat jafningja í geðþjónustu
Nina Eck
geðsviði Landspítala
ninaa@landspitali.is
Jafningjastuðningur er mikilvæg viðbót við geðheilbrigðisþjónustu í þágu notenda. Í geðheilbrigðisáætlun til ársins 2030 kemur fram að auka eigi aðkomu notenda að geðheilbrigðisþjónustu, meðal annars með því að bjóða þeim að hefja störf sem jafningjar. Jafningjastuðningur varð hluti af geðþjónustu Landspítala í lok árs 2021. Síðan þá hefur jafningjum fjölgað og námskeið hafa verið haldin til að styrkja jafningja í störfum sínum.
Jafningjar eru nú á fjórum legudeildum og í einu göngudeildarteymi. Öll hafa þau tekið námskeið hjá Intentional Peer Support og tekið virkan þátt í umbótastörfum sem hluta af sínu starfi. Samstarf við erlenda aðila sem sinna svipuðum innleiðingarferlum hefur leitt ýmislegt í ljós hvað varðar Íslenskar kringumstæður og hefur varpað ljósi á styrkleika geðsviðs Landspítala þegar kemur að breytingum í þágu notenda. Í þessu erindi verður fjallað um hvaða lærdóm notendur geta fært inn í þjónustuna, hvað jafningjar vilja segja um þjónustuna og síðast en ekki síst hvort jafningjarnir eru sáttir við störf sín.
Hugræn atferlismeðferð og áhugahvetjandi samtal fyrir fólk með geðrofsraskanir og vímuefnavanda: Innleiðing og árangursmat
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir1, Birta Brynjarsdóttir1, Styrkár Hallsson1, Oddný Dögg Friðriksdóttir2, Stefán Þorri Helgason2
1Landspítali, 2Háskólanum í Reykjavík
Bakgrunnur: Vímuefnavandi er algengur meðal fólks með geðrofsraskanir, algengt er að talað sé um tvígreiningu, en faraldsfræðilegar rannsóknir benda til að milli 40 til 60% fólks með geðrofsraskanir misnoti vímuefni. Vímuefnavandi hefur áhrif á batahorfur og lífsgæði en fólk með tvígreiningar er líklegt til að hafa alvarlegri geðrofseinkenni, fleiri sjúkrahúsinnlagnir, verri meðferðarheldni ásamt fleiri og alvarlegri félagslegum vandamálum heldur en fólk með geðrofsröskun án vímuefnavanda. Þrátt fyrir þetta er skortur á gagnreyndum meðferðum og þörf á fleiri rannsóknum. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar benda til árangurs samþættaðrar meðferðar með áhugahvetjandi samtali og hugrænni atferlismeðferð.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar voru að innleiða og árangursmeta hugræna atferlismeðferð og áhugahvetjandi samtalstækni sem vímuefnameðferð fyrir fólk með geðrofsraskanir í geðþjónustu Landspítala. Auk þess var leitast eftir því að fá innsýn í reynslu þátttakenda af meðferðinni.
Aðferð: Öllum einstaklingum sem sóttu þjónustu í geðrofslínu Landspítala og voru greindir með geðrofsröskun og vímuefnavanda var boðin þátttaka. Þátttakendum var handahófskennt skipt upp í tvo hópa þar sem annar hópurinn fékk 6 vikna vímuefnameðferð til viðbótar við hefðbundna meðferð en hinn hópurinn hélt áfram hefðbundinni meðferð. Mælingar fóru fram á báðum hópum fyrir og eftir meðferð þar sem lagt var mat á vímuefnavanda, viðhorf til neyslu, áhugahvöt til breytinga á vímuefnaneyslu, vitræna þætti, líðan og lífsgæði. Djúpviðtöl voru tekin við alla þá sem fengu meðferðina eftir að meðferð lauk að fá upplýsingar um reynslu þeirra af meðferðinni.
Niðurstöður: Alls tók 21 einstaklingur þátt (meðalaldur: 29,6 ár; 93,8% karlar), flestir (70%) greindir með geðklofa og höfðu verið edrú í meira en 30 daga (60%). Marktækur munur kom fram milli hópa á mælingum á líðan og lífsgæðum en ekki viðhorfum til neyslu eða áhuga til breytinga. Þátttakendur voru ánægðir með meðferðina og var mæting góð.
Ályktanir: Niðurstöður veita vísbendingar um gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar og áhugahvetjandi samtals sem meðferðar við vímuefnavanda hjá fólki með geðrofsraskanir þegar markmiðið er að bæta líðan og lífsgæði. Auk þess gefa niðurstöður mikilvægar upplýsingar um reynslu þátttakenda af slíkri meðferð. Er þetta fyrsta rannsóknin á slíku úrræði á Íslandi og nær engin útilokunarskilyrði voru fyrir þátttöku í rannsókninni.
Hversu trú erum við hugmyndafræðinni um snemmíhlutun í geðrof?
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir
Landspítala
Geðrofsraskanir byrja venjulega á unglingsárum eða snemma á fullorðinsárum og valda mikilli truflun á sálfélagslegri aðlögun. Undanfarna áratugi hefur snemmíhlutun í geðrof verið talin ein mikilvægasta þróunin í umbótum á geðheilbrigðisþjónustu. Þróun snemmíhlutunar í geðrof byggir á vísbendingum um yfirburðarárangur slíkrar þjónustu fram yfir hefðbundna þjónustu. Auk þess sýna rannsóknir að því fyrr sem gripið er inn í með sérhæfðri þjónustu því betri eru skammtíma- og langtímabatahorfur. Þetta á við um klínísk einkenni og starfræna færni. Markmið snemmíhlutunar í geðrof eru því að fyrirbyggja geðrof hjá fólki með forstigseinkenni og að veita árangursríka meðferð fyrir fólk snemma í veikindafasanum.
Til þess að hægt sé að kalla þjónustu sérhæfða snemmíhlutun í geðrof þurfa ákveðnir lykilþættir að vera til staðar. Notkun tryggðarskala (fidelity scale) setur þjónustunni ákveðin viðmið sem þarf að ná til að hægt sé að kalla hana sérhæfða snemmíhlutun í geðrof. Í þessu erindi verður tryggðarskali fyrir slíka sérhæfða snemmíhlutun kynntur og farið yfir niðurstöður óformlegrar gæðaúttektar sem gerð var í apríl 2023 á starfsemi Laugarássins, deild sem veitir sérhæfða snemmíhlutun í geðrof innan geðsviðs Landspítala.
Íþróttafræðingar geðsviðs – hreyfing er lífsnauðsynleg
Björn Orri Hermannsson, Elín Helga Ingadóttir, Eydís Helga Gunnarsdóttir, Rafn Haraldur Rafnsson, Sigurður Sveinsson, Sunna Rut Ragnarsdóttir, Þorsteinn Helgi Guðmundsson
geðsviði Landspítala
thorstgu@landspitali.is
Mikil framþróun hefur átt sér stað í starfi íþróttafræðinga þegar kemur að faglegri vinnu og umsvifum innan geðsviðs. Það hefur lengi verið vitað að hreyfing hefur jákvæð áhrif á líðan. Nýjar rannsóknir eru farnar að staðfesta marktækan mun á andlegri heilsu fyrir einstaklinga með ýmsa geðsjúkdóma sem stunda hreyfingu. Rannsóknir hafa sýnt að með heildrænni nálgun, sem inniheldur hefðbundið klínískt starf ásamt hreyfingu undir stjórn íþróttafræðinga sem hluta af meðferð, eru auknar líkur á bættum lífsgæðum, betri meðferðarheldni og minni líkur á endurinnlögn.
Með því að framkvæma afkastamælingar; submaximal göngupróf sem mælir þol og hámarkssúrefnisupptöku (VO₂ max), stand-to-sit próf sem að mælir styrk í neðri líkama og gripstyrksmælingu sem segir til um heildarstyrk líkamans er hægt að öðlast mikilvægar upplýsingar um líkamlegt ástand. Þessar mælingar, ásamt hefðbundnum þyngdarmælingum og blóðprufum, gefa skýra mynd af heilsufari þjónustuþega. Bandarísku hjartaverndarsamtökin (American Heart Association) hafa nýlega gefið út að þolmælingar eigi að vera hluti af uppvinnslu innan allrar heilbrigðisþjónustu.
Þetta er mikilvægt þar sem nýjar rannsóknir benda til þess að þol hafi mikið forspársgildi í tengslum við dauðsföll, jafnvel meira en hefðbundnar mælingar eins og blóðþrýstingur og blóðfitur. Fyrstu afkastamælingarnar á Laugarásnum, meðferðargeðdeild fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma, koma illa út þrátt fyrir mjög ungt þýði. Það helst í hendur við þá staðreynd að einstaklingar með geðrofssjúkdóma lifa að meðaltali 15-20 árum skemur en aðrir sem rekja má til lífsstílstengdra sjúkdóma.
Með þessa þætti í huga er gríðarlega mikilvægt að grípa snemma inn í með íhlutunum sem auka þol og heilbrigt líferni. Einnig er mikilvægt að auka aðgengi skjólstæðinga að hreyfiúrræðum óháð staðsetningu innan geðsviðs þannig ađ allir nái lágmarksviđmiđum Alþjóđaheilbrigđisstofnunarinnar um hreyfingu. Með þessar staðreyndir að leiðarljósi, og heilsu þjónustuþegans í öndvegi, ætti að leggja meiri áhersla á hreyfingu þegar kemur að meðferð fólks með geðsjúkdóma.
Nýtt meistaranám í geðhjúkrun á Íslandi
Helga Sif Friðjónsdóttir1, Gísli Kort Kristófersson2, Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir3, Jóhanna Bernharðsdóttir3 og Kristín Linda Hjartardóttir2
1Landspítali, 2Háskólanum á Akureyri, 3Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Geðheilbrigðisþjónusta hefur verið mikið í umræðunni, ítrekað bent á að hana þurfi að efla verulega og að fjölga þurfi fagfólki sem geti veitt heildræna geðheilbrigðisþjónustu. Hjúkrunarfræðingar í mismunandi hlutverkum t.d. á geðdeildum sjúkrahúsa, í geðheilsuteymum heilsugæslu eða skaðaminnkandi úrræðum velferðarþjónustu eru í þörf fyrir sérfræðimenntun í geðhjúkrun til að takast á við áskoranir í geðheilbrigðisþjónustu í næstu framtíð. Nauðsynlegt var að bregðast við ákalli um aukna þjálfun og menntun hjúkrunarfræðinga til að taka þátt í veitingu geðheilbrigðisþjónustu, bæði í nærumhverfi notandans eða á sjúkrahúsum landsins.
Markmið: Fimm hjúkrunarfræðingar með doktorsgráðu í geðhjúkrun unnu um tveggja ára skeið að skipulagningu nýs metnaðarfulls meistaranáms í geðhjúkrun. Voru kraftar Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, geðþjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri lagðir saman til að þróa nýja meistaranámið sem til viðbótar við akademísk meistaranámskeið innihélt klínísk námskeið og starfsþjálfun á vettvangi.
Aðferð: Undirbúningur og þróun nýs meistaranáms í geðhjúkrun tók mið af hefðbundnum framgangi verkefna og ferli þróunar nýrra námsleiða í háskólum á Íslandi.
Niðurstöður: Inntaka hófst haustið 2022 í sameiginlegt 120 ECTS meistaranám í geðhjúkrun sem lýkur með sameiginlegri meistaragráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Námið er fullt nám í tvö ár, með 60 ECTS á fyrra ári, sem er jafnframt launað starfsnám fyrir þá 12 nemendur sem standast inntökuskilyrði, og 40 ECTS á seinna ári. Samkvæmt reglum háskólanna fást síðan 20 ECTS úr fyrra námi metnar og skilyrði 120 ECTS meistaranáms því uppfyllt. Námið er sveigjanlegt með reglulegum staðlotum á námstímanum. Samstarf háskólanna og geðþjónustu Landspítala felur í sér að háskólarnir í sameiningu bjóða upp á fræðilega undirstöðu og spítalinn skipuleggur klínísk námskeið og þjálfun á vettvangi (sérnámspláss og faghandleiðslu). Miðað er við 12 sérnámsstöður í heildina, 10 á Landspítala og 2 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Ályktarnir: Meginmarkmið nýja meistaranámsins er að mennta og þjálfa hjúkrunarfræðinga í geðhjúkrun sem nýta þekkingu og hæfni til að mæta þörfum notenda og aðstandenda í sem víðustu samhengi, út frá batamiðaðri hugmyndafræði og valdeflingu. Viðfangsefnin eru ærin til framtíðar í geðheilbrigðismálum og munu hjúkrunarfræðingar með framhaldsmenntun í geðhjúkrun gegna veigamiklu hlutverki í uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu, bæði úti í samfélaginu og innan stofnanna.
Hermikennsla fyrir meistaranema í geðhjúkrun
Kristín Linda Hjartardóttir1, Þórhalla Sigurðardóttir1, Gísli Kort Kristófersson1, Merrie Kaas2
1Háskólanum á Akureyri, 2University of Minnesota
Bakgrunnur: Haustið 2022 hófst samstarfsverkefni Landspítala, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Sjúkrahúss Akureyrar um nýtt framhaldsnám fyrir hjúkrunarfræðinga í geðhjúkrun. Þetta var gert til að svara kalli samfélagsins um að fjölga þyrfti fagaðilum sem gætu veitt heildræna geðheilbrigðisþjónustu. Nokkrir mikilvægir grundvallar hæfniþættir í náminu eru klínísk færni í viðtalstækni, framkvæmd geðræns mats og greiningarvinnu og þróun meðferðarsambands við notendur og aðstandendur. Rannsóknir hafa sýnt að færniþjálfun með hermikennslu fyrir nemendur í geðhjúkrun eykur öryggi og færni með tilliti til slíkra grundvallar hæfniþátt. Því var það mikilvægt fyrir leiðbeinendur að þróa hermikennslu fyrir þennan hóp.
Markmið: Að hanna og framkvæma hermikennslu fyrir hjúkrunarfræðinga í nýju meistaranámi í geðhjúkrun til að mæta hæfniviðmiðum um færni í samskiptum, geðrænu mati og greiningarvinnu, myndun meðferðarsambands, og gerð meðferðaráætlana.
Aðferð: Við undirbúning var fengin sérfræðiráðgjöf frá University of Minnesota sem hefur verið leiðandi í hermikennslu í bandarískum háskólum. Hermikennslan fór fram bæði á haust- og vorönn. Tilfellin voru þýdd og staðfærð að íslenskum veruleika. Leikarar úr Freyvangsleikhúsi voru ráðnir til að leika tilfellin. Á haustmisseri vann hver nemenda með tvö tilfelli sem höfðu sitt hvora einkennamynd geðvanda. Nemendur hittu sína „skjólstæðinga“ og að auki fylgdist einn nemandi og kennari með hverju samtalinu. Eftir hvert viðtal fékk nemandi tækifæri til að viðra sína upplifun með viðstöddum og hver leikari fékk líka tíma til að segja frá sinni upplifun. Seinni Hermikennsla á vorönn var uppbyggð á sambærilegan hátt. Sú breyting var þó gerð því voru nemendur að hitta „skjólstæðing“ í fyrsta viðtal og svo eftirfylgdarviðtal. Spurningakönnun var send á nemendur eftir báðar lotur til að meta þeirra reynslu.
Niðurstöður: Í umræðum við leikara að lokinni hermikennslu kom fram að almenn ánægja með framkvæmd kennslunnar. Bent var á að atriði sem mættu betur fara næst t.d. var eitt tilfellið talið of kynjað. Sömu leikarar tóku þátt í hermikennslunni á báðum misserum og var það mat þeirra að hjúkrunarfræðingarnir sýndu meiri færni í seinni hermikennslunni þegar kom að meðferðarsambandi og öryggi. Í sama streng tóku kennarar og leiðbeinendur hermikennslunnar í umræðum að lokinni seinni hermikennslu. Niðurstöður könnunar sem var send til nemenda sýndi að nemendum fannst hermikennslan uppfylla sett hæfniviðmið. Jafnframt kom fram að helmingur nemenda upplifði kvíða í hermikennslunni og að allir töldu að hermikennslan myndi koma að gagni í starfi þeirra sem geðhjúkrunarfræðingur.
Ályktanir: Af þessu nýstárlega verkefni í geðhjúkrun má ráða að hermikennsla með leikurum geti orðið mikilvægt tæki í menntun hjúkrunarfræðinga í geðheilbrigðisþjónustu. Meiri reynsla og rannsóknir er mikilvægt í framtíðinni.
Þróun ráðgjafar sérfræðings í geðhjúkrun fyrir fólk með alvarlega geðsjúkdóma. Tækifæri og áskoranir fyrir geðsvið Landspítala
Margrét Eiríksdóttir
geðsviði Landspítala
Inngangur: Samkvæmt starfslýsingu skal sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala veita ráðgjöf á sínu sérsviði til þjónustuþega, samverkamanna og annarra stofnanna. Innan Geðsviðs Landspítala skortir verklag og sýnileika varðandi ráðgjöf sérfræðinga í hjúkrun. Sérfræðingur á sérsviði hjúkrunar fólks með alvarlega geðsjúkdóma (SMI) og Geðráðgjöf Geðsviðs á Landspítala hafa stofnað til samstarfs í þeim tilgangi að koma á framfæri geðhjúkrunarráðgjöf fyrir fólk með tekst á við SMI. Hér verður gerð grein fyrir afrakstri samstarfsins.
Aðferð: Fengnar voru upplýsingar úr sjúkraskrárkerfi Sögu fyrir 12 mánaða tímabil um ráðgjafarbeiðnir til sérfræðings í hjúkrun vegna SMI-fólks. Athugað var fjöldi, tilefni og innihald beiðna um ráðgjöf sérfræðings í hjúkrun og tilheyrandi ráðgjafar svara.
Niðurstöður: Á tímabilinu apríl 2021 til mars 2022 bárust 24 beiðnir um ráðgjöf sérfræðings í geðhjúkrun vegna SMI. Meirihlutinn (97%) frá Geðráðgjöfinni og örfáar (3%) frá búsetukjörnum og hjúkrunarheimilum. 13 sjúklingar voru inniliggjandi á Landspítala, 8 voru endurtekið ferlisjúklingar á bráðaþjónustu og 3 voru í búsetukjarna og á hjúkrunarheimili. Innihald ráðgjafar: 52% beiðna fengu eitt ráðgjafarsvar en aðrir fengu tvö eða fleiri svör yfir lengra tímabil. Aflað var upplýsinga hjá sjúklingi sjálfum, nánustu aðstandendum og meðferðaraðilum hans innan / utan Landspítala. Í meiri hluta tilfella (66%) voru vandamál vegna þess að einstaklingarnir höfðu ekki stjórn á lífi sínu vegna andlegrar vanlíðanar, geðrofseinkenna og / eða fíkniefnaneyslu. Greiningu vanda, samfellda meðferð og stuðning skorti. Ráðgjöfin snerist um fræðslu og eflingu samstarfs milli teyma/ stofnana. Þriðjungur átti í erfiðleikum vegna breytinga á getu, færni og aðstæðum vegna vaxandi ellihrumleika og skorts á viðeigandi stuðningi. Ráðgjöfin snerist um að fræða, upplýsa og efla samstarf heilbrigðisstarfsmanna, félastþjónustustarfsmanna og aðstandenda.
Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að mögulegt sé að auka skilvirkni og gæði í þjónustu og stuðningi við SMI fólk með heildrænni geðhjúkrunarráðgjöf. Forsenda skilvirkni er að ráðgjöfin sé aðgengileg fyrir sjúklingana sjálfa, aðstandendur þeirra og starfsmenn heilbrigðis- og félagsþjónustu sem ætlað er að veita SMI-fólki þjónustu. Milliliðalaust aðgengi ofan talinna að slíkri ráðgjöf eykur gæði þjónustunnar og er þar með áhugavert sameiginlegt verkefni geðsviðs Landspítala, heilsugæslustöðva og félagsþjónustu sveitarfélaga.
Reynsla og viðhorf starfsmanna geðdeilda Landspítala til reglubundinnar eftirlits- og sjálfsvígsgátar
Ólafía Daníelsdóttir1,2, Páll Biering2
1Geðsviði Landspítala, 2Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Gát er notuð til að bregðast við og reyna að koma í veg fyrir atvik á geðdeildum svo sem munnlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, strok, sjálfsskaða, sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Ein tegund gátar er reglubundin gát á 5-15 mínútna fresti. Rannsóknir sýna að misbrestur á framfylgd gátar getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér eins og alvarlegan sjálfsskaða og sjálfsvíg. Skortur á mönnun og viðhorf starfsmanna og sjúklinga til gátar getur truflað framkvæmd gátar. Gátarfyrirkomulagi á geðdeild Landspítala var breytt árið 2019 í kjölfar tveggja sjálfsvíga og gát var skipt í eftirlits- og sjálfsvígsgát. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á framfylgd gátar og lítið er því vitað um framkvæmd gátar á geðsviði Landspítala.
Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna reynslu og viðhorf starfsfólks geðdeilda Landspítala til framfylgdar reglubundinnar eftirlits- og sjálfsvígsgátar og hvaða þættir hafa áhrif á hana.
Aðferð: Túlkunarfræðilegri aðferð var beitt og gagna aflað með rýnihópum. Fimmtán starfsmenn tóku þátt, 9 karlar og 6 konur. Meðalaldur var 38,3 ár og meðalstarfsaldur 7,16 ár. Forsendur fyrir þátttöku voru að minnsta kosti eins árs starfsreynsla og 50% starfshlutfall; faglært og ófaglært hjúkrunarstarfsfólk annað en hjúkrunarfræðingar.
Niðurstöður: Reynsla þátttakenda var sú að gátin væri yfirleitt gerð reglulega og drægi úr atvikum. Einnig að stundum væri það hugboð starfsfólks sem kæmi í veg fyrir þau. Gátin gat þó farið úrskeiðis vegna skipulagsleysis, ofnotkunar, rangrar notkunar eða vöntunar á gátarblöðum/vaktara og vantrausts milli fagstétta. Þættir sem höfðu áhrif á framfylgd gátar voru: umhverfisþættir, sérstaklega á nóttunni, óhentug staðsetning gátarblaða/vaktara, samskiptaleysi milli starfsfólks og léleg mönnun. Togstreita gat myndast milli starfsfólks og sjúklinga og starfsfólk gat misst stjórn á kringumstæðum. Gátarblöð virðast bæta framfylgd gátar og sjálfsvígsgátin er öruggari en eftirlitsgátin.
Ályktanir: Gera þarf úrbætur á umhverfi geðdeilda til að auðvelda framkvæmd gátar. Bæta þarf mönnun, sérstaklega á nóttunni, til að tryggja öryggi sjúklinga. Bæta þarf samskipti milli starfsstétta og starfsmanna innan sömu starfsstétta til að fyrirbyggja misskilning og auka öryggi sjúklinga. Æskilegt væri að nota reglubundna sjálfsvígsgát með vaktara á öllum deildum geðsviðs ef sjúklingar eru metnir í sjálfsvígshættu. Gátarblöð ætti einnig að nota á öllum geðdeildum Landspítala þar sem reglubundin gát er notuð.
Þjálfun starfsfólks á geðdeild í samskiptafærni til að setja mörk og auka jákvæð samskipti við sjúklinga
Margrét G. Kristjánsson, Berglind Sveinbjörnsdóttir
Geðsviði Landspítala
Bakgrunnur: Atferlismiðuð færniþjálfun (behavior skills training) er gagnreynd þjálfunaraðferð til að kenna fólki nýja færni. Þessi aðferð hefur verið notuð til að kenna umönnunaraðilum og starfsfólki margskonar færni með góðum árangri. Starfsmenn sem vinna með fólki með geðsjúkdóma þurfa að læra samskiptafærni til að eiga árangursrík samskipti við sjúklinga sem svo stuðla að bættu innsæi, lífsgæðum og samkennd og auka öryggi starfsmanna og sjúklinga. Niðurstöður erlendra rannsókna sýna fram á mikilvægi starfsmannaþjálfunar til að bæta líðan starfsfólks, bæta jákvæð samskipti og draga úr þörfum á þvingandi aðgerðum. Rannsóknir hafa sýnt jákvæða fylgni milli samhygðar og fjölda þátta, svo sem ánægju með meðferð, traust og samskipti. Speglun er hluti af samhygð og er góð leið til að sýna skilning og virka hlustun. Það er nauðsynlegt að kenna starfsfólki að setja mörk og sýna samhyggð.
Markmið: Veita starfsmönnum þjálfun þar sem lögð er áhersla á jákvæð samskipti og endurgjöf með því að spegla og setja mörk. Einnig að nýta atferlismiðaða færniþjálfun til að þjálfa samskiptafærni.
Aðferð: Notað var einhliða rannsóknar snið (single-subject research design) til þess að skoða áhrif íhlutunar (frumbreytu) á hegðun hjá þremur starfsmönnum (fylgibreytur). Starfsmenn fengu þjálfun þar sem lögð var áhersla á jákvæð samskipti og endurgjöf með því að spegla og setja mörk.
Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru að atferlismiðuð færniþjálfun leiddi til þess að starfsmenn nýttu oftar að speglun á viðeigandi hátt og voru færari að setja mörk. Speglun jókst úr 1% að meðaltali upp í 35% að meðaltali. Að setja mörk jókst úr 31% að meðaltali í 88% að meðaltali eftir þjálfun.
Ályktanir: Niðurstöður sýna að atferlismiðuð færniþjálfun geti verið árangursrík aðferð til að kenna geðheilbrigðisstarfsfólki samskiptafærni í mismunandi aðstæðum.
Stuðningur við börn og fjölskyldur í Þunglyndis- og kvíðateymi Landspítala
Anna Rós Jóhannesdóttir
geðþjónustu Landspítala
annajoh@landspitali.is
Bakgrunnur verkefnis: Mikil þörf á skipulögðum stuðningi við fjölskyldur. Vitað er að aukin þátttaka fjölskyldu í meðferð þeirra sem glíma við geðræn veikindi skilar betri árangri í meðferð.
A. Nokkuð stór hluti skjólstæðinga teymisins á börn undir 18 ára aldri. Samkvæmt löggjöf verður að sinna þessum hópi. Samþykkt lög á alþingi v. réttar barna um rétt á viðeigandi ráðgjöf og stuðningi sem aðstandendur foreldris sem glímir við alvarleg veikindi
Réttur barna sem aðstandendur.
Lög nr. 50 18. júní 2019
Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna,
nr. 86 22. júní 2021
B. Ört stækkandi hópur ungmenna í þjónustu ÞOK teymis er á aldrinum 18 – 25 ára sem búa heima. Mikil þörf á þátttöku fjölskyldu í meðferð þessa hóps. Því var ákveðið að bjóða upp á fjölskylduvinnu sem hluta af meðferð þessa hóps.
Markmið: Að bæta þjónustu og auka þverfagleg inngrip og árangur í meðferð
Aðferð: Skima fyrir börnum undir 18 ára aldri. Bjóða foreldrum viðtal vegna barna samkvæmt löggjöf og verklagi. Bjóða skjólstæðingum 18-25 ára að foreldrar/nánir aðstandendur taki þátt í meðferð samkvæmt verklagi.
Ályktun: Mikilvægt að veita meira samsetta meðferð með tilliti til aðstæðna hvers skjólstæðings. Auka þverfaglega meðferð og bæta árangur samkvæmt niðurstöðum rannsókna um slík inngrip.