Fylgirit 116 - Geðdagurinn 2023

Geðdagurinn 2023 - ávarp

Geðdagurinn 26. maí 2023 á Grand Hótel Reykjavík

Hjartanlega velkomin á Geðdaginn.

Í ár er yfirskrift dagsins „Þekking og samvinna í þágu samfélags, Þróun – nýsköpun – vísindi.“ Yfirskriftin felur í sér mikilvægi þess að efla þekkingu á geðheilbrigðismálum bæði hjá okkur sjálfum og í samfélaginu. Það er mikilvægt að fylgjast með þróun og nýjungum í meðferð en jafnframt að skoða og þróa starfið með rannsóknum og umbótum á þeirri meðferð sem við veitum. Um þetta verðum við að eiga samvinnu við notendur þjónustunnar og þau kerfi sem við vinnum náið með.

Í dagskrá Geðdagsins í ár langar okkur að beina sjónum að fjölskyldum. Rannsóknir hafa lengi sýnt að börn sem búa við erfiðar aðstæður í uppvexti sínum eru líklegri til að lenda í erfiðleikum sem fullorðin og eru í aukinni áhættu að þróa með sér geðraskanir. Samfélagið hefur verið lengi að bregðast við en þó er óhætt að segja að við séum orðin meðvitaðri um mikilvægi þess að grípa börn sem eiga foreldra sem glíma við geðraskanir og börn sem sýna merki um erfiðleika og vanlíðan. Það er því sérstök ánægja að fá erindi frá Okkar heimi sem er stuðningsúrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda. Við fáum einnig erindi frá Íslenskri erfðagreiningu um hvernig erfðir hafa bæði bein og óbein áhrif á þróun geðsjúkdóma. Síðasta haust var farið af stað með nýtt meistaranám í geðhjúkrun á Íslandi sem verður kynnt, en það hefur lengi verið skortur á geðhjúkrunarfræðingum á Íslandi. Dagskráin dagsins er fjölbreytt og ásamt þessum erindum er fjöldi erinda frá starfsfólki geðsviðs sem endurspegla bæði virkni í vísindastarfi og mikilvægar nýjungar í meðferð og þjálfun starfsfólks.

Í dag höldum við Geðdaginn í annað sinn. Undirbúningferlið hefur verið mjög ánægjulegt ekki síst vegna mikils áhuga sem við höfum fundið hjá samstarfsfólki okkar á geðsviði Landspítala. Það styrkir okkur í því að Geðdagurinn sé kominn til að vera.

Við þökkum höfundum og kynnum ágripa, gestafyrirlesurum, fundarstjórum og starfsfólki geðsviðs Landspítala þeirra mikilvæga framlag til Geðdagsins.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar,

Halldóra Jónsdóttir

yfirlæknir Meðferðareiningar geðrofssjúkdóma og dósent

geðsviði Landspítala

 

Undirbúningsnefnd Geðdagsins 2023

Halldóra Jónsdóttir, dósent og yfirlæknir meðferðareiningar geðrofssjúkdóma, formaður undirbúningsnefndar

Guðbjörg Sverrisdóttir, verkefnastjóri á geðsviði

Berglind Guðmundsdóttir, prófessor og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Engilbert Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir á geðsviði

Júlíana Guðrún Þórðardóttir, deildarstjóri, göngudeild lyndisraskana

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica