Fylgirit 114 - Bráðadagurinn 2023

Bráðadagurinn 2023 – Ávarp formanns undirbúningsnefndar

Í ár er yfirskrift Bráðadagsins „Starfsfólk bráðaþjónustu“. Eftir nokkuð þung síðastliðin ár í heilbrigðiskerfinu er vaxandi skilningur á því að öll heilbrigðisþjónusta byggist á hæfu starfsfólki. Til lítils er að kaupa tæki, innleiða verkferla eða kynna nýjungar ef starfsemin er ekki mönnuð með fullnægjandi hætti af starfsfólki sem hefur bæði starfsorku og færni til að vinna vinnuna. Þá höfum við lært að fyrir okkur sem þjóð er ekki nóg að meðal okkar séu hæfir einstaklingar sem kunna að veita hágæða heilbrigðisþjónustu, við þurfum einnig að skapa þeim tækifæri til að veita þá þjónustu og tryggja að þeim líði vel í starfi þannig að þau kjósi að starfa áfram við fagið.

Í ljósi þessa er áhersla Bráðadagsins í ár að fara yfir hvernig við getum stutt starfsfólk bráðaþjónustu þannig að þau geti sinnt starfi sínu vel.

Því tengt vildi undirbúningsnefndin lyfta fram reynslu einstaklinga sem hafa skilað löngu og farsælu starfi í heilbrigðiskerfinu. Fáum við því að heyra frá tveimur læknum og tveimur hjúkrunarfræðingum sem þrátt fyrir álag, undirmönnun og niðurskurð gegnum áratugina hafa haft orku til að vinna út starfsævina, fundið ánægju í starfi og eru virtir og vinsælir starfsmenn við lok starfsferilsins. Við sem yngri erum getum eflaust lært eitthvað af visku þeirra, hvernig fóru þau að því að brenna ekki út?

Þá er á dagskrá Bráðadagsins kynning á starfi félagsráðgjafa í bráðaþjónustunni. Er nú komin um árs reynsla af þeirri nýjung að hafa félagsráðgjafa í fullu starfi á bráðamóttöku Landspítala og á Bráðadeginum verður farið yfir þá reynslu sem og hvert hlutverk félagsráðgjafa á þessum vettvangi.

Eins og alltaf á Bráðadeginum eru vísindaerindi úr bráðaþjónustu, í ár voru 6 fjölbreytt erindi valin til kynningar auk þess sem ritrýnd ágrip þeirra eru birt sem fylgirit Læknablaðsins.

Eru fyrirlesurum færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt til Bráðadagsins.

Í bráðaþjónustunni höfum við vissulega verið að glíma við álag, undirmönnun og neikvæða umræðu. Þó vissulega hafi ástandið komið niður á gæðum þjónustunnar er margt vel gert, við vitum þó öll að kerfið gæti vel verið enn betra. Við sem störfum á þessum vettvangi vitum þó öll hvað þessi krefjandi starfsvettvangur getur verið einstaklega spennandi og gefandi. Nú þarf að halda áfram endurskipulagningu og uppbyggingu þannig að starfsfólkinu líði vel og geti þar með veitt sjúklingum enn betri þjónustu.

Hjalti Már Björnsson, formaður undirbúningsnefndar Bráðadagsins

Yfirlæknir og kennslustjóri á bráðamóttöku Landspítala

Lektor í bráðalækningum við Háskóla Íslands


Undirbúningsnefndin:

Hjalti Már Björnsson Yfirlæknir og lektor og formaður undirbúningsnefndar

Anna Helga Ragnarsdóttir Hjúkrunarfræðingur
Ágústa Hjördís Kristinsdóttir Sérfræðingur í hjúkrun og deildarstjóri
Dagný Halla Tómasdóttir skrifstofustjóri
Guðrún Katrín Oddsdóttir Sérnámslæknir
Sigrún Guðný Pétursdóttir Sérfræðingur í hjúkrun
Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir prófessor við HÍ í bráðafræðum og forstöðumaður fræðasviðs í bráðahjúkrun við LSH og HÍ

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica