Fylgirit 114 - Bráðadagurinn 2023

Bráðadagurinn 2023 - Ágripin

Aldraðir á bráðamóttöku

Ingibjörg Sigurþórsdóttir1,2, Gyða Halldórsdóttir1, Elísabet Guðmundsdóttir4 og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3

1Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í bráðafræðum, 2bráðadeild Landspítala, 3hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, 4hagdeild Landspítala.

ingis@landspitali.is

Bakgrunnur: Aldraðir einstaklingar í bráðaþjónustu fá oft ekki úrlausn við hæfi, heldur koma endurtekið á bráðamóttöku. Fyrri rannsókn á komum 67 ára og eldri á bráðamóttökur Landspítala sýndi að þeim fjölgaði í takt við lýðfræði á tímabilinu 2008-12, voru um 20% allra koma og hver einstaklingur kom að meðaltali þrisvar. Endurkomur samkvæmt skilgreiningu voru 27%. Kynjamunur reyndist á komuástæðum og hlutfall einbúa sem komu á bráðamóttöku var hærra en í þýðinu. Alþjóðlega er talin ástæða til að auka þekkingu á bestu leiðum við þjónustu þessa hóps á viðeigandi þjónustustigi og koma í veg fyrir óþarfa endurkomur á bráðamóttöku.

Markmið: Að afla upplýsinga um hvort breyting hafi orðið á einstaklingsbundnum þáttum aldraðra á bráðamóttöku í þeim tilgangi að byggja upp áframhaldandi gagnreynda þekkingu sem nýtist starfsmönnum við þjónustu og viðeigandi úrræði.

Aðferð: Afturskyggn rannsókn á gögnum úr rafrænni sjúkraskrá frá 2013-2021. Gögn voru greind með lýsandi tölfræði með viðeigandi marktækniprófum á muni milli hópa.

Niðurstöður: Komutími, lýðfræðilegur bakgrunnur, komuástæða, bráðleikaflokkun, komuskimun, dvalarlengd á bráðmóttöku og sjúkdómsgreining. Könnuð sambönd þessara þátta við úrræði sem öldruðum er vísað í og önnur afdrif. Niðurstöður verða tilbúnar í byrjun mars 2023 til að kynna á ráðstefnunni.

Ályktanir: Aldraðir eru fjölmennur og fjölbreyttur hópur sem leitar á bráðamóttöku af ólíkum ástæðum. Niðurstöðurnar má nýta til að fræða og efla starfsfólk sem sinnir öldruðum með gagnreyndri þekkingu um þarfir þessa hóps og möguleg úrræði eftir útskrift.


Barkaþræðing byrjenda - samanburður á þremur aðferðum

Bjarni Dagur Þórðarson1, Eric Contant2, Nils Daníelsson2, Hjalti Már Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttaka Landspítala.

bth138@hi.is

Bakgrunnur: Hjá óstöðugum sjúklingum getur þurft að tryggja öndunarveg með barkaþræðingu. Barkaþræðing felur í sér að koma barkarennu á milli raddbanda og niður í barka og er þetta oft lífsbjargandi inngrip. Algengast er að nota barkakýlissjá til barkaþræðingar, með eða án myndavélar. Minna þekkt aðferð er að nota fingur til barkaþræðingar, en sú aðferð getur komið sér vel þegar erfitt er að nota barkakýlissjá vegna t.d. blóðs eða magainnihalds í koki. Til eru rannsóknir á árangri byrjenda í öndunarvegameðferðum með barkakýlissjá, en ekki hafa fundist fyrri rannsóknir á árangri með fingurtækni.

Markmið: Að meta árangur læknanema án fyrri þjálfunar í barkaþræðingu með hefðbundinni barkakýlissjá, með fingrum eingöngu og með fingrum auk langs leiðara.

Aðferð: Öllum læknanemum á 1.-3. ári við Háskóla Íslands var boðið að taka þátt í rannsókninni. Þátttakendurnir horfðu á stöðluð kennslumyndbönd um hverja aðferð fyrir sig auk þess sem þeir fengu handleiðslu um hvernig hver aðferð væri gerð. Allir framkvæmdu hverja aðferð þrisvar sinnum á æfingadúkku í hermisetri þar sem skráð var hvort inngripið heppnaðist og hversu langan tíma það tók.

Niðurstöður: Þátttakendur í rannsókninni voru 51 talsins. Í þriðju tilraun tókst barkaþræðing með fingrum ásamt löngum leiðara í 90% tilvika, með barkakýlissjá 65% og með fingrum eingöngu í 53% tilvika. Sá tími sem tók að barkaþræða með fingrum ásamt löngum leiðara í fyrstu tilraun var 46s (±16s) en 44s (±30s) í þriðju tilraun. Fyrsta tilraun með barkakýlissjá tók 51s (±26s) en þriðja tilraun tók 35s (±16s) og með fingrum tók barkaþræðing 33s (±14s) í fyrstu tilraun og 28s (±10) í þriðju.

Ályktanir: Litla þjálfun virðist þurfa til að framkvæma barkaþræðingu með fingrum og löngum leiðara. Læknanemar án fyrri þjálfunar í barkaþræðingum náðu í þriðju tilraun að barkaþræða í 90% tilfella. Þrátt fyrir að notkun fingra og langs leiðara hafi tekið aðeins lengri tíma teljum við það ásættanlegt þar sem líkur á heppnuðu inngripi eru mun meiri. Niðurstöðurnar benda til þess að barkaþræðing með fingrum ásamt löngum leiðara geti verið heppilegri leið til að barkaþræða fyrir lækna sem ekki hafa fullnægjandi þjálfun í að beita barkakýlissjá.


Flugeldaslys á höfuðborgarsvæðinu 2010-2022 - komur á bráðamóttöku Landspítala vegna flugelda á 12 ára tímabili

Björn Vilhelm Ólafsson1, Hjalti Már Björnsson1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttaka Landspítala.

bvo3@hi.is

Bakgrunnur: Flugeldar voru uppgvötaðir í Kína fyrir um 2000 árum. Á Íslandi, sem og annars staðar í heiminum, hefur skapast sú hefð að kveðja gamla árið með tendrun þeirra á gamlárskvöldi. Flugeldanotkun almennings í landinu er mikil og hefur henni fylgt nokkur slysatíðni. Þekkt eru skaðleg áhrif umhverfismengunar af þeirra völdum og vaxandi umræða er um að takmarka flugeldasölu, bæði vegna umhverfisáhrifa og slysatíðni. Engar fyrri heildstæðar rannsóknir liggja fyrir á flugeldaslysum hér á landi.

Markmið: Að meta tíðni, orsakir, eðli og afleiðingar flugeldaslysa meðal þeirra sem komu til meðferðar á bráðamóttöku Landspítala á tímabilinu frá desember 2010 til janúar 2022.

Aðferð: Með leyfi siðanefndar var gerð textaleit í sjúkraskrám til að finna komur á Bráðamóttöku Landspítala á tímabilinu desember 2010 til janúar 2022 vegna flugelda. Sjúkraskrár voru yfirfarnar til að finna lýsingar á tildrögum slyss, áverkum og afdrifum.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu leituðu 248 einstaklingar á Landspítala vegna flugeldaslysa, þar af 181 (73%) karl. Aldursbilið var frá 9 mánaða til 79 ára, alls 114 börn og þar af 12 á leikskólaaldri. Til viðbótar leituðu 54 á bráðamóttöku vegna hliðarslysa. Í 96 (39%) var flugeldur talinn gallaður. Rakettur ollu flestum slysum eða 56 (23%), þar á eftir skottertur 43 (17%) og blys 32 (13%). Flugeldategund var óskráð í 62 (25%) tilfellum. Brunaáverka hlutu 157 einstaklingar, þar af 104 á höndum. Augnáverkar fundust hjá 67 einstaklingum og 97 einstaklingar hlutu opin sár. Inn á Landspítala lögðust 22 sjúklingar sem lágu samtals í 91 dag. Enginn lést en að minnsta kosti 13 hlutu varanlegt heilsutjón vegna flugeldaáverka.

Ályktanir: Síðasta áratuginn hefur 21 einstaklingur slasast og einn hlotið varanlegt heilsutjón að meðaltali vegna flugeldanotkunar á höfuðborgarsvæðinu ár hvert, sé miðað við heil ár. Meirihluti slasaðra eru karlkyns, börn eru helmingur slasaðra og eitt barn á leikskólaaldri slasast venjulega um hver áramót. Efla þarf forvarnir gegn flugeldaslysum og íhuga að setja strangari reglur um notkun þeirra.


Hjúkrunarskráning á bráðamóttökum - Lýsandi þversniðskönnun á viðhorfi hjúkrunarfræðinga til núverandi skráningaraðferðar

Fanney Guðjónsdóttir1,2, Lilja Lövdahl Arnardóttir1, Ingibjörg Sigurþórsdóttir3,4 og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,4

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2bráðamóttaka Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, 3bráðamóttaka Landspítala, 4 Rannsóknastofa Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum.

fanney.gudjons@gmail.com & lilja2906@gmail.com

Bakgrunnur: Rafræn hjúkrunarskráning hefur verið notuð á Íslandi í mörg ár en lítið verið uppfærð í takt við aukna og sérhæfða þjónustu á bráðamóttökum í gegnum tíðina. Rannsóknir hafa sýnt fram á að skráning hjúkrunar sé líklegri til þess að vera ófullnægjandi þegar notast er við frjálsan texta. Hugsanlegt er að aukin stöðlun og notkun formlegs ramma við skráningu gæti bætt skilvirkni skráningar og öryggi sjúklinga á bráðamóttökum.

Markmið: Að öðlast innsýn í viðhorf hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökum til þeirra skráningarkerfa sem notuð eru. Skoðuð var ánægja, öryggi og skilvirkni við skráningu og einnig þörf fyrir breytingar á skráningarkerfunum í því markmiði að niðurstöður myndu efla og samræma skráningu hjúkrunar á bráðamóttöku.

Aðferð: Lýsandi þversniðskönnun var send rafrænt á starfandi hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Könnunin var lögð fyrir á tímabilinu 25. mars til 10. apríl árið 2022.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 50% og könnuninni svöruðu samtals 61 hjúkrunarfræðingur, þar af voru 49 hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi og 12 á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Heildarmeðaltal ánægju hjúkrunarfræðinga með skráningarkerfi hjúkrunar á bráðamóttöku var 4,59 (0-10). Skilvirkni hjúkrunarskráningar var að heildarmeðaltali 4,11. Heildarmeðaltal þess hve vel skráningin endurspeglar vinnuframlag hjúkrunar á bráðamóttöku var 3,38. Trygging skráningar á öryggi sjúklinga var að heildarmeðaltali 5,84. Heildarmeðaltal ánægju með tengingu og viðmót við önnur sjúkraskrárkerfi var 3,75. Í heildina sögðust 58 hjúkrunarfræðingar af 61 (95%) stundum, oft eða á hverri vakt gleyma að skrá upplýsingar í sjúkrasögu sjúklings.

Ályktun: Þessi rannsókn sýndi fram á þörf fyrir breytingar á skráningarformi hjúkrunar á bráðamóttökum á Íslandi þar sem niðurstöðurnar sýndu töluverða óánægju með núverandi skráningarkerfi. Aukin stöðlun við hjúkrunarskráningu og notkun formlegs ramma gæti stuðlað að auknu öryggi sjúklinga og aukinni ánægju og skilvirkni við skráningu hjúkrunar á meðal hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku.


Lyfjaatvik á bráðamóttöku á árunum 2017-2021 flokkuð eftir 6R: Gæðarannsókn

Anita Rut Adamsdóttir1,3, Birta Líf Reynisdóttir2,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir3,5

1Slysa- og bráðamóttöku HSS, 2gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut, 3hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, 4rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 5bráðadeild Landspítala Fossvogi.

anita.r.adamsdottir@hss.is, birtalr@landspitali.is

Bakgrunnur: Með auknu álagi á bráðamóttökur aukast líkur á atvikum. Hjúkrunarfræðingar eru langoftast síðasti hlekkurinn í lyfjaumsýsluferlinu og gegna því mikilvægu öryggishlutverki. Í því felst að hjúkrunarfræðingur styðst við verklag sem nefnist 6R. Verklagið 6R stendur fyrir rétt lyf, réttur skammtur/styrkleiki, rétt leið lyfjagjafar, réttur sjúklingur, réttur tími og rétt skráning. Rannsóknir hafa sýnt að lyfjaatvik eru algengustu atvikin sem verða í heilbrigðiskerfinu. Góð atvikaskráning er gagnreyndasta aðferðin til að minnka líkur á að atvik endurtaki sig. Það er þó háð því að starfsmenn skrái atvik sem verða, svo hægt sé að afla upplýsinga um umfang og eðli, og þar með finna leiðir til að koma í veg fyrir endurtekin atvik.

Markmið: Tilgangur gæðarannsóknarinnar var að skoða hvers kyns lyfjaatvik flokkuð eftir verklaginu 6R, urðu á bráðamóttöku á árunum 2017-2021 og hvenær tíma sólarhrings þau gerðust. Einnig var skoðað hvað helst var talið valda atvikunum.

Aðferð: Gerð var afturskyggn gæðarannsókn á atvikum sem tengdust lyfjaumsýslu á bráðamóttöku og skráð voru í rafrænan atvikagrunn Landspítala á árunum 2017-2021. Atvik voru flokkuð annars vegar í atvik sem féllu undir verklagið 6R og hins vegar atvik utan 6R og greind. Niðurstöður voru settar fram með lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: 624 lyfjaatvik voru skráð á bráðamóttöku á tímabilinu 2017-2021 og voru notuð til úrvinnslu. 125 lyfjaatvik flokkuðust undir verklagið 6R og 499 flokkuðust utan 6R. Af þeim atvikum sem tilheyrðu verklaginu 6R var algengast að lyf voru ekki gefin á réttum tíma en sjaldnast voru skráð atvik tengd rangri gjafaleið. Mikið álag, truflanir í umhverfi og samskiptaerfiðleikar voru helst skráð sem orsakir atvikanna. Af þeim 499 atvikum sem tilheyrðu ekki 6R voru 376 vegna nýs verklags sem tekið var upp á bráðamóttöku árið 2020. Verklagið snýst um að lyfjapokar innlagðra sjúklinga á bráðamóttöku fylgdu ekki með á legudeild. Þar eftir voru atvik þar sem skorti upplýsinga eða tengdust öðru verklagi en 6R.

Ályktun: Á rannsóknatímabilinu leituðu um 300.000 einstaklingar bráðamóttöku og skráð atvik fá í því samhengi, líklegt er að ekki séu öll atvik skráð. Starfsemi bráðamóttöku hefur einkennst af miklu álagi, manneklu og breytingum í starfsemi þar sem bið eftir innlögn frá bráðamóttöku á legudeild hefur lengst. Hefur þar orðið hálfgerð legudeildarstarfsemi sem bætist ofan á störf hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku. Allt eru þetta þættir sem ógna öryggi sjúklinga og starfsmanna. Við aukið álag aukast líkur á atvikum og eru lyfjaatvik engin undantekning á því.


Vettvangsliðar, hlekkur í bráðaþjónustunni

Sveinbjörn Dúason1, Björn Gunnarsson2, Ingimar Eydal1

1Sjúkraflutningaskólinn, Háskólinn á Akureyri, 2Sjúkrahúsið á Akureyri.

sduason@simnet.is

Bakgrunnur: Vettvangsliði (Emergency First Responder) kallast sá sem lokið hefur 40 klukkustunda námskeiði í vettvangshjálp þar sem þjálfuð eru fyrstu viðbrögð við bráðum veikindum og alvarlegum slysum. Vettvangsliðar geta tilheyrt heilbrigðisstofnun, björgunarsveit, slökkviliði eða myndað eigin hóp. Þeir eru nýttir í vaxandi mæli í dreifbýli til að veita veikum eða slösuðum aðstoð í bráðatilfellum F1 og F2 þar sem löng bið (>20 mínútur) getur verið eftir sjúkrabíl eða læknisþjónustu. Auk þess miðla þeir upplýsingum af vettvangi til Neyðarlínu. Fyrsti hópurinn tók til starfa árið 2006 en ekki liggur fyrir hvernig þróunin hefur verið.

Markmið: Að kortleggja hvar vettvangsliðar starfa, hvaða form er á starfseminni og athuga hvort þörf sé á breytingum varðandi búnað, endurmenntun eða skipulagi starfseminnar.

Aðferð: Spurningalistar í opnu formi voru sendir í tölvupósti til rekstraraðila sjúkraflutninga í öllum sjö heilbrigðisumdæmum landsins og yfirlit unnið upp úr svörum sem fengust frá þeim öllum.

Niðurstöður: Vettvangsliðahópar eru starfandi á 20 stöðum á landinu. Taldir upp eftir heilbrigðisumdæmum: á Vesturlandi eru sex hópar, á Vestfjörðum eru þrír, á Norðurlandi eru sjö hópar, á Austurlandi er einn hópur, á Suðurlandi eru tveir hópar, enginn á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu er einn hópur. Flestir vel útbúnir með bráðatöskur og AED-tæki. Fjöldi útkalla er frá einu upp í 46 á ári. Ábyrgð á boðun er ekki alltaf skýr en Neyðarlínan sér oftast um boðun. Miðlun upplýsinga af vettvangi til Neyðarlínu eykur líkur á að rétt viðbragð berist og góð stjórn náist á vettvangnum. Það er mjög mismunandi hvaða rekstrarform er á starfseminni. Sums staðar eru vettvangsliðarnir sjálfboðaliðar en á öðrum stöðum eru þeir launaðir starfsmenn með vaktskyldu. Flestir fá endurmenntun árlega. Margir svarenda kölluðu eftir skýrari ramma um störf vettvangsliða, skipulag, réttarstöðu, tryggingar og rekstrarform.

Ályktanir: Þéttni vettvangsliðahópa er mjög misjöfn eftir heilbrigðisumdæmum og kemur mest á óvart að aðeins einn hópur starfar á Austurlandi. Skilgreina þarf betur réttarstöðu, hlutverk og verkefni vettvangsliða í bráðþjónustu utanspítala, samræma utanumhald, búnað, tryggingar og endurmenntun. Einnig að skýra nánar hver ber ábyrgð á útkallsboðun.

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica