Ágrip Geðdagsins 2022
Áherslur og sýn í geðþjónustu Landspítala
Nanna Briem
Geðþjónustu Landspítala
Geðþjónusta Landspítala sinnir veikustu einstaklingunum sem þurfa þjónustu geðheilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma. Til geðþjónustunnar leita tæplega 5000 manns á hverju ári, en um 75% þeirra fá þjónustu í dag- og göngudeildum. Um 600 manns starfa í þjónustunni og meira en 200 nemar á hverju ári eru í verknámi á einingum hennar. Stefnan í þjónustunni byggir á framtíðarsýn þar sem helstu áhersluþættir eru meðal annars valdefling notenda í þjónustunni, aukin hæfni mannauðs, aukið aðgengi að þjónustunni meðal annars með þróun á rafrænum lausnum, að dregið verði úr þvingandi meðferð og nútímalegt og batamiðað húsnæði fyrir þjónustuna. Geðþjónusta Landspítala er hluti af háskólasjúkrahúsinu og mikilvægar áherslur í starfseminni eru vísindastörf og þjálfun og menntun starfsfólks. Á þessum fyrsta nýsköpunar- og vísindadegi geðþjónustunnar fáið þið innsýn í þau vísindastörf og þá nýsköpun sem á sér stað í þjónustunni.
Heilsufar í kjölfar áfalla
Unnur Anna Valdimarsdóttir
Læknadeild Háskóla Íslands
Flestir verða fyrir einhverskonar áföllum á lífsleiðinni og verður þekkingingargrunnur um áhrif þeirra á heilsufar sífellt sterkari. Tengsl áfalla við andlega líðan og þróun geðraskana, svo sem áfallastreituröskunar, eru þekkt. Undanfarinn áratug hefur einnig skapast mikilvæg þekking á áhrifum áfalla á líkamlega heilsu og þróun langvinnra sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma og sjálfsofnæmissjúkdóma. Lýðgrundaðir gagnagrunnar Norðurlandanna ásamt framskyggnum ferilrannsóknum, til dæmis rannsókninni Áfallasaga kvenna, hafa stóraukið möguleika á aukinni þekkingu á þessu flókna samhengi. Þó hætta á heilsubresti sé aukin í kjölfar áfalla er það raunar minnihluti útsettra einstaklinga sem missa heilsu til lengri tíma. Því er mikilvægt að auka þekkingu á hvaða þættir spá fyrir um mismunandi heilsufarsáhrif á fólk eftir áföll. Einstaklingar sem verða fyrir áföllum eru oft á tíðum í tengslum við heilbrigðiskerfið á einn eða annan hátt, og þar liggja því mögulega vannýtt tækifæri til forvarna gegn langvinnum vanda þessara einstaklinga, til dæmis með skimun, þverfræðilegu samstarfi og auknu aðgengi að meðferð við áfallatengdum röskunum.
Alvarleg áföll og afleiðingar meðal einstaklinga innan geðheilbrigðisþjónustu
Berglind Guðmundsdóttir1,2
1Geðþjónustu Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
berggudm@landspitali.is
Rannsóknir hafa í auknum mæli bent til þess að algengi áfalla og áfallastreituröskunar sé talsvert hærra meðal einstaklinga með geðraskanir samanborið við almennt þýði. Þrátt fyrir það er ekki mikil áhersla lögð á afleiðingar áfalla í geðheilbrigðiskerfinu og áfallastreituröskun gjarnan vangreind eða misgreind meðal einstaklinga sem leita eftir þjónustu vegna annarra geðkvilla. Slíkt skapar hættu á að stór hluti einstaklinga sem sækir þjónustu fái ekki alltaf viðeigandi meðferð við áfallastreitueinkennum sem getur leitt til minni þátttöku í annarri meðferð, endurteknu bakslagi og hindrunum í bataferli einstaklingsins. Í þessu erindi verður fjallað um afleiðingar áfalla og áskoranir við greiningu þegar vandi er fjölþættur. Reifaðar verða helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar sem kannaði tíðni áfallastreituröskunar og hvort hún sé vangreind í geðheilbrigðisþjónustu hér á landi. Niðurstöður sýndu að meðal 167 þátttakenda greindu 97% þeirra frá að minnsta kosti einu alvarlegu áfalli og um helmingur (55%) uppfylltu viðmið um greiningu á áfallastreituröskun. Þrátt fyrir það voru einungis 2,7% þeirra með skráða greiningu í sjúkraskrá. Þá sýndu niðurstöður að þeir sem uppfylltu viðmið áfallastreituröskunar voru með lengri þjónustutíma og fleiri innlagnir á geðdeild samanborið við þá sem ekki uppfylltu viðmið um röskunina. Niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir á þessu sviði og undirstrika þörfina á skilvirkri skimun og meðferð við áfallastreituröskun samhliða öðrum vanda í geðheilbrigðiskerfinu. Fjallað verður um lykilþætti í áfallamiðaðri þjónustu og hindranir heilbrigðisstarfsfólks við mat á áföllum og áfallastreituröskun.
CPT-vef, rafræn meðferð við áfallastreituröskun
Berglind Guðmundsdóttir1,2
1Geðþjónustu Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
berggudm@landspitali.is
Með vaxandi meðvitund um alvarlegar afleiðingar áfalla hefur eftirspurn vaxið ört eftir gagnreyndri meðferð við áfallastreituröskun. Þrátt fyrir vitundarvakningu meðal heilbrigðistarfsmanna um áhrif áfalla á heilsufar er enn mikill skortur á aðgengi að gagnreyndri meðferð við áfallastreituröskun. Biðlistar eru langir og aðgengi ekki jafnt eftir búsetu fólks. Með þróun á tæknilausnum hefur skapast tækifæri til fjölbreyttari útfærslu á meðferð og hvernig hún er veitt. Í þessu erindi verður fjallað um þróun rafrænnar gagnreyndrar meðferðar við áfallastreituröskun sem ber nafnið Cognitive Processing Therapy eða CPT. CPT er áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð sem hefur verið mikið rannsökuð og er ein af leiðandi meðferðum á þessu sviði í heiminum í dag vegna þess hve árangursrík hún er. Fjallað verður um þróun á rafrænni útfærslu á meðferðinni og hvernig henni er ætlað að auka getu heilbrigðisstarfsmanna til að mæta fjölbreyttum þörfum einstaklinga sem greinast með röskunina og leita eftir meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Farið verður yfir þróun á rafrænni útfærslu á meðferðarefninu og hvernig skjólstæðingar fara í gegnum meðferðina á þeim tíma og hraða sem hentar þeim best. Þá verður fjallað um hvernig hægt er að nýta meðferðina á sveigjanlegan hátt og veita þjónustuþegum endurgjöf og stuðning með rafrænum hætti í gegnum örugga samskiptamáta. Framtíðarmöguleikar á notkun efnisins verða reifaðar.
Nýtt meðferðarúrræði í þunglyndis- og kvíðateymi Landspítala
Erla Björg Birgisdóttir, Júlíana G. Þórðardóttir
Meðferðareiningu lyndisraskana í geðþjónustu Landspítala
Einstaklingar sem útskrifast af móttökugeðdeild standa oft frammi fyrir áskorunum sem eru enn til staðar eftir að innlögn lýkur. Þá getur fólk enn verið að glíma við andlega erfiðleika sem þarfnast lengri meðferðarvinnu eða eru að snúa til baka í erfiðar aðstæður. Þekkt er að sjálfsvígshætta er algeng innlagnarástæða á móttökugeðdeild og aukin sjálfsvígshætta getur verið til staðar fyrstu vikurnar eftir að einstaklingar útskrifast af móttökugeðdeild. Segja má að í innlögninni hafi verið brugðist við og veitt meðferð við bráðu sjálfsvígshættunni en þörf er á að vinna með langvarandi sjálfsvígshættu eftir að innlögn lýkur. Mikilvægt er að einstaklingar fái aðstoð eftir innlögnina við að takast á við þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir og bjóðist meðferð við undirliggjandi geðvanda. Þunglyndis- og kvíðateymi (ÞOK) er þverfaglegt meðferðarteymi í meðferðareiningu lyndisraskana í geðþjónustu Landspítala. Árið 2018 bætti ÞOK við sig nýju hlutverki sem kallast í daglegu tali Byggjum brú – ÞOK og er þjónusta fyrir sjúklinga sem eru að útskrifast af móttökugeðdeild og þurfa áframhaldandi samfellda meðferð í ÞOK-teymi. Hér er um að ræða sjúklinga sem eru að kljást við alvarlegar kvíðaraskanir, þunglyndi og sjálfsvígshættu. Byggjum brú - ÞOK samanstendur af sálfræðiviðtölum, þátttöku í grunnhóp og fjölskylduvinnu fyrir sjúklinga sem eiga börn. Úrræðið er tímabundið og sumir sjúklingar útskrifast eftir meðferðarvinnu í brúnni en aðrir fá áframhaldandi meðferð í ÞOK-teymi og er þá tryggður forgangur í meðferð í ÞOK ef þörf krefur.
Í þessu erindi verður rætt um umbótaverkefnið Byggjum brú – ÞOK. Hvers vegna var farið af stað í verkefnið og í hverju úrræðið felst. Farið verður í stöðuna á verkefninu í dag og framtíðarsýn rædd.
Umbótaverkefni: Meðferð við áráttu- og þráhyggjuröskun í þunglyndis- og kvíðateymi geðþjónustu Landspítala
Brynjar Halldórsson1,2
1Geðþjónustu Landspítala, 2Háskólanum í Reykjavík
Áráttu- og þráhyggjuröskun er alvarleg og langvinn geðröskun sem hrjáir um það bil 1-4% fólks. Röskunin einkennist af þrálátum, óboðnum hugsunum, ímyndum, hvötum og/eða sjúklegum efa. Neikvæð túlkun fólks á þessum upplifunum veldur því að það bregst við með áráttum eða athöfnum (til dæmis endurtekinn handþvottur) með það að markmiði að afstýra hættu og draga úr kvíða. Þrátt fyrir alvarleikann fær aðeins lítill hluti þeirra einstaklinga sem þurfa á meðferð að halda aðgang að hugrænni atferlismeðferð (HAM) - sem er árangursríkasta sálfræðimeðferðin sem til er við röskuninn. Erlendar rannsóknir sýna að í sumum tilfellum bíður fólk hátt í 17 ár eftir réttri meðferð og algengt er að fólk fái ekki viðeigandi greiningu og/eða er vísað í ranga meðferð. Þetta má að einhverju leyti rekja til (i) vanþekkingar meðal heilbrigðisstarfsfólks um hvað röskunin er, (ii) hvernig skal greina vandann og (iii) skorti á þjálfun fyrir heilbrigðisstarfsfólk í því að beita HAM.
Um þessar mundir er unnið að umbótarverkefni innan þunglyndis- og kvíðateymisins (ÞOK) á Landspítala sem snýr að því að bæta þjónustu við fólk með röskunina. Markmið umbótaverkefnisins eru að: (i) þjálfa sálfræðinga innan teymisins í að veita HAM meðferð við áráttu- og þráhyggjuröskun, (ii) koma á laggirnar sérfræðiþekkingu, (iii) vera leiðandi innan heilbrigðiskerfisins í að sinna fólki með alvarleg einkenni röskunarinna, (vi) miðla þekkingu til annarra starfsstétta innan og utan spítalans og (v) bæta meðferðarárangur. Í þessum fyrirlestri verður birtingarmynd áráttu- og þráhyggjuröskunar rædd og farið yfir helstu viðhaldsþætti. Einnig verður rætt hvað er mikilvægt fyrir heilbrigðisstarfsfólk að hafa í huga þegar það kemur að greiningu og fjallað verður um nokkur þeirra mála sem ÞOK-teymið hefur haft til meðhöndlunar undanfarna mánuði. Einnig verður farið yfir stöðuna á umbótarverkefninu og framtíðarsýn teymisins rædd.
Staða þekkingar á notkun psilocybins við meðferðarþráu þunglyndi
Árný Jóhannesdóttir1, Engilbert Sigurðsson1,2
1Geðþjónusta Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
Psilocybin er ofskynjunarefni sem hefur verið rannsakað undanfarin ár sem möguleg meðferð við þunglyndi, einkum meðferðarþráu þunglyndi. Tilgangur greinarinnar er að fara yfir núverandi þekkingu á psilocybini og virkni þess í meðferð þunglyndis. Gerð var leit á PubMed, Web of Science og Google Scholar og farið yfir heimildir í birtum rannsóknar- og yfirlitsgreinum og á heimasíðu COMPASS Pathways. Psilocybin meðferð er fólgin í gjöf 25 mg psilocybin hylkis, oftast í eitt skipti, samhliða sálfræðilegum stuðningi í 5-8 klst meðan skynvíkkandi áhrifin vara. Algengar aukaverkanir eru höfuðverkur, ógleði, þreyta og svefnleysi. Nýleg safngreining sýndi marktækan árangur psilocybin meðferðar hjá vissum hópum við þunglyndi, sambærilegan þeim sem sést í hugrænni atferlismeðferð (HAM). Nýbirt tvíblind, slembiröðuð rannsókn sýndi ekki marktækan mun á virkni psilocybins og SSRI lyfsins escitalopram í meðferð þunglyndis. Í nýlokinni fasa 2 rannsókn COMPASS Pathways leiddi psilocybin-COMP360 meðferðin til svörunar og verulegs bata hjá um þriðjungi þátttakenda þegar í lok þriðju viku. Niðurstöður úr rannsóknum benda til þess að psilocybin dragi marktækt úr þunglyndiseinkennum og þolist almennt vel. Frekari rannsóknir munu leiða í ljós hvort psilocybin hljóti markaðsleyfi gegn meðferðarþráu þunglyndi á næstu árum. Brýn þörf er á nýjum meðferðarúrræðum fyrir þá sem svara ekki hefðbundinni þunglyndismeðferð.
Nýting faraldsfræði lyfjanotkunar til að leita að nýjum orsakaþáttum geðrofs og örlyndis
Engilbert Sigurðsson
Geðþjónustu Landspítala, Háskóli Íslands
Í þessu erindi mun ég ræða hvernig rafrænir gagnagrunnar eins og Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis geta nýst við leit að tengslum lyfja við alvarleg geðræn veikindi eins og geðrof og örlyndi. Ég mun einnig reifa hvernig hægt er að prófa tengsl sem þar finnast í lyfjagagnagrunnum annarra Norðurlanda. Nokkuð hefur borið á veikindum innan geðþjónustu Landspítala á síðustu árum þar sem einstaklingar hafa í fyrsta sinn veikst af geðrofi eða örlyndi eftir að hafa farið á ADHD-lyf, einkum metýlfenídat, sem er langmest notaða ADHD-lyfið hér á landi (>90% skilgreindra dagskammta). Einnig er vel þekkt að amfetamín getur valdið slíkum veikindum, og hefur raunar verið tengt meiri slíkri áhættu en metýlfenídat. Notkun amfetamíns í meðferð ADHD hér á landi hefur verið afar lítil þar til síðastliðin tvö ár, en á þeim tíma hefur notkun nýlegs sérlyfs, Elvanse (lisdexamfetamín), aukist hratt. Það er raunar sérstaklega mikilvægt að leggja mat á hugsanlegar alvarlegar aukaverkanir ADHD-lyfja hér á landi þar sem notkun þeirra hefur fjórfaldast hér á síðustu tveimur áratugum og vaxið raunar hlutfallslega hraðar meðal fullorðinna en barna og unglinga. Lyfið Strattera (atomoxetín) hefur verið talið mögulegur valkostur fyrir einstaklinga með sögu um fíknivanda og eins fyrir einstaklinga sem glíma við áberandi kvíða, en minna er vitað um hugsanleg tengsl þess við áhættu á geðrofi og örlyndi.
Áföll í æsku og vímuefnavandi á fullorðinsárum - niðurstöður úr Áfallasögu kvenna
Sandra Friðriksdóttir1, Edda Björk Þórðardóttir2, Jóhanna Jakobsdóttir2, Unnur Valdimarsdóttir2, Arna Hauksdóttir2
1Geðþjónustu Landspítala, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Alþjóðlegar rannsóknir hafa gefið til kynna tengsl milli áfalla í æsku og áfengis- og/eða fíkniröskunar á fullorðinsárum. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á skammtaháða svörun milli fjölda áfalla í æsku og áfengis- og/eða fíkniröskunar.
Markmið: Að kanna hvort tengsl eru á milli fjölda og tegunda áfalla í æsku og lotudrykkju og áfengis- og/eða fíkniröskunar á fullorðinsárum.
Aðferð: Þátttakendur voru 32.795 konur sem tóku þátt í lýðgrunduðu ferilrannsókninni Áfallasögu kvenna árin 2018-2019. Konurnar voru á aldrinum 18-69 ára, búsettar á Íslandi og svöruðu rafrænum spurningalista, meðal annars um bakgrunnsþætti, áföll í æsku (ACEs), sögu um greiningu á áfengis- og/eða fíkniröskun og lotudrykkju áfengis undanfarinn mánuð. Tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til til að reikna sambandið á milli áfalla í æsku og áfengis- og/eða fíkniröskunar og lotudrykkju síðustu ár.
Niðurstöður: 82% þátttakenda höfðu upplifað að minnsta kosti eitt áfall í æsku og 35% höfðu upplifað fjögur eða fleiri. Þær konur sem höfðu upplifað fjögur áföll eða fleiri í æsku voru líklegri til þess að greina frá lotudrykkju síðastliðið ár og að hafa greinst með áfengis- og/eða fíkniröskun á lífsleiðinni. Einnig voru tengsl milli ákveðinna tegunda áfalla í æsku og þess að hafa greinst með áfengis- og/eða fíkniröskun, til dæmis þess að hafa upplifað geðræn vandamál (lGH 1.44, 95% ÖB 1.21-1.70) eða vímuefnavanda á heimili (lGH 1.52, 95% ÖB (1.28-1.81), tilfinningalega vanrækslu af hálfu foreldra (lGH 1.96, 95% ÖB 1.65-2.33) eða kynferðislegt ofbeldi (lGH 1.47, 95% ÖB 1.26-1.72).
Ályktanir: Sterk tengsl eru á milli áfalla í æsku og áfengis- og/eða fíkniröskunar á fullorðinsárum meðal kvenna á Íslandi. Niðurstöðurnar varpa enn frekari stoðum undir mikilvægi þess að bæta forvarnir og inngrip til að fyrirbyggja áföll í æsku og afleiðingar þeirra.
Jafningi í geðþjónustu Landspítala
Nína Eck, Sandra Sif Gunnarsdóttir
Geðþjónustu Landspítala
ninaa@ landspitali.is
Jafningi er nýtt starfsheiti í geðþjónustu Landspítala og er starfsmaður sem nýtir reynslu sína af andlegum veikindum og bataferli til þess að byggja upp gagnkvæmt samband við þjónustuþega. Jafningjastuðningur byggir á sameiginlegum skilning og sameiginlegri reynslu, en starfsmaðurinn talar mikið um eigin leiðir til bata, notkun færni í daglegu lífi og hvetur þjónustuþega til þess að taka stjórn á eigin bataferli. Rannsóknir hafa sýnt að þjónustuþegar sem kynnast jafningja sem hluti af meðferð sinni hafa meiri von og jákvæðari framtíðarsýn, en eðli sambandsins við jafningja hefur líka áhrif á aukna vellíðan beggja aðila.
Nína hefur verið jafningi í hlutastarfi á Laugarás síðan í desember og hefur þetta leitt af sér jákvæðar breytingar á ýmsum sviðum. Starfsmenn upplifa teymisfundina jákvæðari, enda getur jafningi oft komið með tillögur, spurningar og sjónarhorn sem fagaðilar höfðu ekki leitt hugann að. Leiðbeinendur hópastarfs segja jafningja góða viðbót, enda getur hann stuðlað að umræðum í hópastarfi, komið með dæmasögur úr eigin lífi og hjálpað að aðlaga námsefnið að notendum. Þjónustuþegar lýsa jafningja sem einum af þeim og segja samskiptin vera náttúrulegri en við aðra starfsmenn.
Starfið er nýtt á Landspítala og því fylgir mikil þróunarvinna. Sem hluti af þessu er að kynna fleiri deildum starfið. Markmiðið er að leyfa starfsmönnum fleiri deilda að sjá þennan ágóða á eigin notendahóp og stuðla þannig að ráðningu fleiri jafningja í geðþjónustu.
Case Report: Successful implementation of integrative cognitive remediation for early psychosis
Ólína Viðarsdóttir1,2, Brynja B. Magnúsdóttir1,3, David Roberts4, Elizabeth W. Twamley5, Berglind Guðmundsdóttir1,2, Engilbert Sigurðsson1,2
1Háskóli Íslands,2Landspítali, 3Háskólanum í Reykjavík, 4The University of Texas Health Science Center at San Antonio, 5University of California, San Diego and VA San Diego Healthcare System
Many individuals demonstrate functionally relevant impairment in neurocognition as well as social cognition early on in the course of their psychotic disorder. There is robust evidence supporting cognitive remediation as an effective treatment of cognitive dysfunction in schizophrenia. Increasingly it is accepted that earlier treatment is associated with better outcome and that it is important to systematically assess and treat cognitive dysfunction before the cognitive and functional disabilities are fully realized. However, the clinical availability of these interventions remains sparse. As we move forward with implementing evidence-based interventions into multi-component treatment for early psychosis, it is important to reflect on experience as well as evidence. This case-report aims to describe the implementation of an integrative cognitive remediation program in coordinated specialty care (CSC) for early psychosis in Iceland and investigate whether the intervention is sustainable in a CSC setting. Data on the number of patients treated, facilitators trained, groups conducted, and funding was used to assess the sustainability. The results show that since initial implementation in 2016, the intervention has been routinely available as part of standard care, with over 100 patients having received the treatment. The report discusses key factors in the successful implementation of the program.
Rannsókn á nýgengi og algengi geðklofa og annarra geðrofssjúkdóma á Íslandi.
Erna Hinriksdóttir1, Magnús Haraldsson1,2, Engilbert Sigurðsson1,2, Oddur Ingimarsson1,2, James MacCabe3, Halldóra Jónsdóttir1,2
1Geðþjónustu Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Institute of Psychiatry, London
ernahi@landspitali.is
Geðklofi og aðrir geðrofssjúkdómar eru á meðal alvarlegustu geðsjúkdóma og eiga stóran þátt í sjúkdómsbyrði á heimsvísu. Áður var almennt talið að lítill breytileiki væri í faraldsfræði geðrofssjúkdóma á heimsvísu og að vægi umhverfisþátta væri því mjög lítið. Nýlegri rannsóknir hafa hins vegar bent til þess að breytileikinn sé talsvert meiri en áður var talið. Upplýsingar um nýgengi, algengi, bata og lífslíkur eru mikilvægar í undirbúningi og skipulagningu heilbrigðiskerfisins, meðferðarúrræða og fyrir frekari rannsóknir. Skortur er á þessum upplýsingum víða og ekki hafa verið gerðar neinar nýlegar rannsóknir á nýgengi og algengi geðrofssjúkdóma á Íslandi.
Markmið rannsóknar er að finna tölur yfir nýgengi og algengi geðklofa og annarra geðrofssjúkdóma á Íslandi. Einnig er fyrirhugað að skoða kynjahlutfall, meðalaldur við greiningu og meðalaldur hópsins. Í þeim tilgangi verður aflað gagna frá öllum stöðum í íslensku heilbrigðiskerfi sem líklegir eru til að hafa upplýsingar um þetta. Óskað hefur verið og verður eftir upplýsingum um sjúklinga sem fengið hafa greiningu F20.x til og með F29 og/eða greiningu um neyslutengt geðrof.
Aflað hefur verið gagna frá flestum heilbrigðisstofnunum á Íslandi auk þess sem haft hefur verið samband við geðlækna á stofum. Búið er að yfirfara stærstan hluta aflaðra gagna og frekari gagnasöfnun stendur yfir.
Í erindinu verður rannsóknin kynnt og farið yfir þær niðurstöður sem liggja fyrir.
Tengsl bata og lífsgæða við þjónustu og meðferð einstaklinga sem takast á við alvarlega geðsjúkdóma
Margrét Eiríksdóttir1, Snæbjörn Ómar Guðjónsson2,3, Jóhanna Bernharðsdóttir4
1Geðþjónustu Landspítala, 2Sjúkrahúsi Akureyrar, 3Háskólanum á Akureyri, 4Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Margir sem veikjast af geðrofssjúkdómum fá endurtekin veikindaköst og/eða verða aldrei einkennalausir. Í þessari rannsókn nefnt: Alvarlegir geðsjúkdómar (SMI). Bati og lífsgæði SMI-sjúklinga er undir því kominn þeir fái auk sjúkdómsmeðferðar uppfylltar margþættar þjónustuþarfir sínar til komnar vegna veikindanna, njóti félagslegs stuðnings og hafi traust samband við vini og meðferðaraðila. Um það bil 1% Íslendinga tekst á við SMI. Þjónustuþarfir þeirra eða fengin þjónusta/meðferð eða hvernig veitt þjónusta tengist bata þeirra og lífsgæðum hefur ekki verið rannsakað á skipulegan hátt.
Markmið: Að varpa ljósi á hvernig SMI-sjúkir á Íslandi meta eigin lífsgæði, andlegt jafnvægi og bata og hvernig matið tengist þjónustuþörfum þeirra, meðferð og stuðningi sem þeir fá frá heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Aðferðir: Þátttakendur uppfylltu skilmerki um SMI og voru skráðir í meðferð á Landspítala eða SAk við upphaf rannsóknar. Í framskyggnri langsniðs panel rannsókn eru gerðar endurteknar mælingar hjá sömu þátttakendum (N=164) x 3 á 8 mánaða fresti með eftirfarandi mælitækjum sem öllum er beitt sem sjálfsmatskvörðum: Mælitæki fyrir þarfir fullorðinna geðsjúkra einstaklinga (Camberwell Assessment of Needs), Heilsutengd lífsgæði, Batamatsskali (Recovery Assessment Scale - Domains & Stages, Depression Anxiety Stress Scale), Mat á þjónustu, meðferð og tengslum við meðferðaraðila (spurningalisti saminn af rannsakendum).
Niðurstöður: Munu sýna: Tengsl bata og lífsgæða við a) þjónustuþarfir og uppfyllingu þeirra, b) við tengsl þátttakenda við meðferðaraðila sína, samfellu meðferðar, innihald meðferðar og meðferðarheldni.
Vísindalegt gildi rannsóknarinnar er að afla með stöðluðum mælitækjum þekkingar á tengslum metinna lífsgæða og þróunar bataferlis hjá Íslendingum sem takast á við SMI við þjónustu og meðferð sem þeir njóta eða njóta ekki og nota niðurstöðurnar sem leiðarljós við að efla beitingu batahvetjandi hugmyndafræði og notkun viðeigandi klínískra mælitækja í meðferðarstarfi og þjónustu við SMI-sjúklinga á Íslandi.
Starfsendurhæfing IPS og skapandi greinar í meðferðareiningu geðrofssjúkóma
Hlynur Jónasson1, Sandra Sif Gunnarsdóttir1, Halldóra Jónsdóttir1,2
1Geðþjónustu Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
hlynurj@landspitali.is
Á síðustu árum hefur þróast starfsendurhæfing sem miðar að því að hjálpa einstaklingum sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma að auka færni sína og komast út á almennan vinnumarkað. Þetta form starfsendurhæfingar kallast Individual Placement and Support (IPS).
IPS er gagnreynd aðferð sem byggist á því að einstaklingar fá fyrst vinnu og svo þjálfun á vinnustaðnum. Aðferðin tekur mið af óskum einstaklinganna og þeirri grunnhugmynd að hægt sé að finna störf fyrir alla sem vilja vinna, þrátt fyrir að þeir séu með virk einkenni sjúkdóms síns.
Á síðustu árum hefur þessi aðferð verið tekin í gagnið víða á Vesturlöndum og fjöldi vísindagreina birtur um árangur hennar, bæði um lífsgæði, betri árangur en þegar hefðbundin starfsendurhæfing er reynd og efnahagslegan ávinning.
Hugmyndafræðin var innleidd á Íslandi árið 2012 á Laugarási meðferðargeðdeild og hefur skilað á þriðja hundrað störfum. Haustið 2021 var ráðinn verkefnastjóri IPS og ákveðið að IPS stæði öllum sem eru í langtímameðferð á Landspítala vegna geðrofssjúkdóms til boða. Frá þeim tíma hafa 20 einstaklingar hafið störf í gengum IPS á Landspítala og 30 eru nú á biðlista. Von okkar er að geta ráðið fleiri IPS ráðgjafa til starfa og ná til um 150 þjónustuþega á næstu þremur árum.
Í vetur var ákveðið að efla hlutverk skapandi greina í endurhæfingu á Laugarási og hafinn vinna með fagfólki innan listgreina til skipulagningar. Niðurstaða þess er 9 vikna námskeið sem nú stendur yfir. Einnig er hafinn undirbúning að því að geta boðið upp á mismunandi námskeið tengd skapandi greinum á næstu árum, meðal annars í samstarfi við Opna Listaháskólann.
Algengi aukaverkana af völdum geðrofslyfja hjá sjúklingum í geðrofsteymi Landspítala
Lukasz Bednarek, Guðrún Dóra Bjarnadóttir
1Geðþjónustu Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Geðrofslyf eru notuð til að meðhöndla geðklofa og aðra geðrofssjúkdóma. Þekkt er að lyfin geta haft íþyngjandi aukaverkanir.
Markmið: Að meta algengi aukaverkana og stigun þeirra hjá sjúklingum í geðrofsteymi Landspítala. Kannað var hvaða þættir sem tengdust sjúklingum, lyfjum og lífsstíl kunnu að hafa áhrif á algengi aukaverkana.
Aðferðir: Rannsóknin var megindleg þversniðsrannsókn og var gagna aflað með tveimur spurningalistum, Glasgow Antipsychotic side effect scale (GASS) og GASS-clozapin. Svörun listanna var framkvæmd af sjúklingunum sjálfum ásamt undirritun upplýsts samþykkis sem gaf rannsakanda leyfi til að afla gagna úr sjúkraskrám þeirra. Niðurstöðum rannsóknar var lýst með lýsandi tölfræði en einnig var notast við T-próf og ANOVA-próf við útreikninga og voru marktektarmörk sett sem p<0,05.
Niðurstöður: Þátttakendur rannsóknar voru 44 og voru karlmenn nokkuð fleiri en konur. Meirihluti þátttakenda upplifði vægar eða engar aukaverkanir af geðrofslyfjameðferð sinni (88,6%) og enginn upplifði miklar aukaverkanir. Algengasta aukaverkun svarenda beggja lista var syfja á daginn, einnig voru þyndaraukning og aukin munnvatnsframleiðsla algengar. Samband mátti finna milli aukinna aukaverkana og reykinga. Ekki fannst samband við aðra þætti og aukningu aukaverkana.
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknar benda til þess að meirihluti sjúklinga í geðrofsteymi Landspítala upplifi vægar eða engar aukaverkanir af geðrofslyfjameðferð sinni. Finna mátti samband á milli aukinna aukaverkana og reykinga en ekki annarra þátta sem skoðaðir voru. Niðurstöður voru sambærilegar niðurstöðum annarra rannsókna. Mikilvægt er að frekari rannsóknir verði gerðar á stigun aukaverkana þessa sjúklingahóps og að samband þeirra við lífsstílsþætti verði rannsakað, þá með stærri rannsókn hér á landi.
Einstaklingar sem nota vímuefni í æð á Íslandi: Bráðakomur og innlagnir á Landspítala og dánartíðni
Bjarni Össurarson Rafnar1,2, Magnús Haraldsson1,2, Guðrún Dóra Bjarnadóttir1,2
¹Geðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
bjarnior@landspitali.is
Inngangur: Misnotkun vímuefna er stór áhrifaþáttur í ótímabærum veikindum og dauða í heiminum og verst settir eru þeir sem nota vímuefni í æð. Hópurinn á erfitt með að nýta sér hefðbundna heilbrigðisþjónustu og leitar frekar á bráðamóttökur spítala með sín vandamál.
Markmið: Að kanna notkun einstaklinga sem nota vímuefni í æð á bráðamóttökum og innlagnardeildum Landspítala yfir tveggja ára tímabil og rannsaka dánartíðni þeirra 7 árum eftir komuviðtal.
Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Til að meta þjónustuþunga voru komur, innlagnir og innlagnardagar taldir. Fjöldi koma á bráðamóttökur Landspítala var borinn saman við parað úrtak almennings. Komuástæður á bráðamóttökur voru greindar og gerður samanburður milli þeirra sem notuðu aðallega metylfenidat og annarra. Að lokum var dánartíðni rannsóknarhópsins skoðuð 7 árum eftir inntökuviðtal.
Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn átti marktækt fleiri komur á bráðamóttökur Landspítala en almenningur. Meðalfjöldi koma rannsóknarhópsins á ári var 4,8 og 43% átti fjórar komur eða meira á ári. Meirihluti koma var vegna geðrænna einkenna (65%) og þar af var þriðjungur vegna alvarlegra geðrænna einkenna. Algengustu líkamlegu vandamálin voru húðsýkingar og slys/ofbeldi. Ekki reyndist marktækur munur á þeim hluta hópsins sem notaði aðallega metýlfenídat og önnur vímuefni. Dánartíðni var marktækt hækkuð hjá rannsóknarhópnum og áhættuhlutfall fyrir andláti var 26,4 (vikmörk 16,7-41,5).
Ályktun: Einstaklingar sem nota vímuefni í æð eru viðkvæmur hópur með flókin andleg og líkamleg vandamál. Mikilvægt er að þessir einstaklingar hafi greiðan aðgang að gagnreyndri fíknimeðferð en ekki síður að almennri heilbrigðisþjónustu.
Vímuefnaneysla í æð: Rannsókn á notuðum sprautunálum í Reykjavík
Hjördís Tinna Pálmadóttir1, Kristín Ólafsdóttir1,2, Valþór Ásgrímsson2, Ingibjörg Snorradóttir2, Guðrún Dóra Bjarnadóttir1
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði
Inngangur: Misnotkun vímuefna í æð er alþjóðlegt vandamál sem getur haft alvarlegar og neikvæðar afleiðingar í för með sér. Fáar rannsóknir eru til um misnotkun vímuefna í æð meðal íslenskra vímuefnaneytenda og byggja þær flestar á frásögnum einstaklinga á meðferðarstofnunum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða hvaða vímuefni finnast í notuðum sprautubúnaði sem skilað er til förgunar, hvaða efni er algengast að finna og algengi þess að fleiri en eitt efni sé notað í hverja sprautu.
Efniviður og aðferðir: Gagnasöfnun fór fram í Reykjavík frá október 2021 til mars 2022 og söfnuðust alls 203 sýni á tímabilinu. Eftir sýnameðhöndlun voru efnin greind með gasgreini sem tengdur er massaskynjara (GC/MS) og niðurstöður metnar með Masshunter hugbúnaði með aðstoð staðalefna helstu fíkniefna á markaði.
Niðurstöður: Í sprautunum fundust 10 mismunandi vímuefni og var metýlfenídat algengast eða í 51,7% sprauta. Önnur örvandi efni fundust í um 45% sprauta og ópíóíðar í rúmlega þriðjungi sprauta. Fjögur virk íblöndunarefni fundust og var koffín algengast eða í 42,4% sprauta. Rúmlega helmingur sprauta (54,2%) innihélt tvö eða fleiri vímuefni eða íblöndunarefni.
Ályktanir: Í Reykjavík virðist metýlfenídat algengara til vímuefnaneyslu í æð samanborið við önnur lönd. Neyslan virðist blönduð, tæplega þriðjungur sprauta í Reykjavík innihélt fleiri en eitt vímuefni. Algengt var að sjá blöndu með örvandi vímuefni og ópíóíða en einnig blöndu örvandi vímuefna. Íblöndunarefni eru algeng og óljóst er hvort notendur viti af því.
Þróun þjónustu í farsóttarhúsi
Ólöf Jóna Ævarsdóttir, Sandra Sif Gunnarsdóttir, Erna Hinriksdóttir, Helga Sif Friðjónsdóttir, Bjarni Össurarson Rafnar
Landspítala
olofja@landspitali.is
Inngangur: COVID-19 heimsfaraldur geisaði frá því snemma árs 2020 til byrjunar ársins 2022. Fljótlega eftir að fyrstu tilfelli greindust á Íslandi fólu Almannavarnir, Rauða krossi Íslands (RKÍ) að opna og reka farsóttarhús. Tilgangur farsóttarhúsa er að veita skjól þeim einstaklingum sem eiga ekki í önnur hús að venda til að dvelja í sóttkví eða einangrun í þeim tilgangi að draga úr COVID-19 smitum í samfélaginu. Fljótlega var ljóst að heimilislausir einstaklingar í virkri vímuefnanotkun á Íslandi þyrftu sérhæfða þjónustu til að geti dvalið í farsóttarhúsi og fylgt þeim takmörkunum sem giltu fyrir einstaklinga í sóttkví eða einangrun. Til að mæta þessum þörfum var stofnað til samstarfs RKÍ, fíknigeðdeildar Landspítala og lögreglunnar á höfuðborgasvæðinu um þróun þjónustu sem byggði á skaðaminnkandi hugmyndafræði. Markmið þjónustunnar í farsóttarhúsi var að mæta þörfum einstaklinganna og stuðla að samfélagslegri skaðaminnkun.
Aðferðir: Einstaklingar sem dvalið höfðu í neyðargistiskýlum á höfuðborgarsvæðinu fyrir konur annarsvegar og fyrir karla hinsvegar komu í farsóttarhús í sóttkví og/eða einangrun á sitthvoru tímabilinu. Tólf karlar og 10 konur, nánast allir þessir einstaklingur voru í virkri notkun vímuefna. Safnað var upplýsingum hjá skjólstæðingum með sérstaka áherslu á mat á vímuefnanotkun. Gerð var einstaklingsmiðuð áætlun og samningur varðandi lyfjameðferð í skaðaminnkandi tilgangi á meðan á dvöl þeirra stóð. Stöðug viðvera læknis og hjúkrunarfræðinga var í húsinu, auk stuðnings frá öðru starfsfólki, þannig að reglulegur stuðningur og eftirlit var með skjólstæðingum á meðan þeir dvöldu í farsóttarhúsi.
Niðurstöður og ályktun: Heilt yfir gekk þjónustan mjög vel og allir skjólstæðingar luku sóttkví/einangrun í farsóttarhúsi. Tilrauna- og þróunarverkefni þetta bendir til þess að skaðaminnkandi nálgun með lyfjameðferð sé góður kostur til þess að styðja við einstaklinga sem glíma við heimilisleysi og virkan vímuefnavanda og þurfa að fylgja ströngum ramma eins og til dæmis sóttvarnareglum í farsóttarhúsi.
Af eigin reynslu og störfum með óvirkum unglingum
Guðrún Þórsdóttir
stjórnarmaður í Geðhjálp og sérfræðingur í atvinnumálum ungmenna /virkni ungmenna
gudrunthorsd@gmail.com
Í erindi dagsins mun Guðrún deila eigin reynslu af geðheilbrigðiskerfinu og segja frá störfum sínum með NEET (No education, no employment no training) ungmennum á 5 ára tímabili á Akureyri, sinni sýn á kerfin og hvernig vinna má að því að þau vinni betur saman í þágu ungmenna með andlegar áskoranir.