Fylgirit 112 - Geðdagurinn 2022

Ávarp á Geðdegi

Geðdagurinn 20. maí 2022 á Hótel Natura

Hjartanlega velkomin á fyrsta Geðdaginn!

Yfirskrift dagsins er: Í takt við tímann: Þróun - nýsköpun - vísindi. Yfirskriftin endurspeglar að okkar mati mikilvægi þess að geðheilbrigðisþjónusta sé í stöðugri endurskoðun og að við vinnum markvisst að betri og nútímalegri þjónustu. Geðheilbrigðismál hafa verið mikið í umræðunni síðustu ár og bent hefur verið á að margt í þjónustunni sé gamaldags, það þurfi að breyta, bæta og færa til nútímans. Það er mikilvægt að við hlustum á þessar raddir og jafnframt að við fylgjumst með nýjungum í meðferð og nálgunum. Í dag munum við fá innsýn í ýmis þeirra verkefna sem verið er að vinna innan geðþjónustu Landspítala. Dagskráin er fjölbreytt og kynnt verða meðal annars nýsköpunarverkefni, vísindarannsóknir og nýjungar í meðferð. Á þessum fyrsta Geðdegi eru flestir fyrirlesararnir starfandi í geðþjónustu Landspítala en einnig fáum við gestafyrirlesara frá Háskóla Íslands og frá Geðhjálp.

Við stefnum að því að halda Geðdaginn árlega hér eftir. Að dagurinn verði fastur punktur þar sem starfsfólk geðþjónustu Landspítala og aðrir sem starfa að geðheilbrigðismálum og/eða hafa reynslu af málaflokknum komi saman og fjalli um nýsköpun, umbótaverkefni, rannsóknir, meðferðir og framtíðastefnu. Það gefur okkur einnig tækifæri til að tala hvert við annað, til að kynnast og reifa hugmyndir og byggja upp samstarf.

Við þökkum höfundum og kynnum ágripa, gestafyrirlesurum, fundarstjórum og starfsfólki geðþjónustu Landspítala þeirra mikilvæga framlag til Geðdagsins.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar,

Halldóra Jónsdóttir

yfirlæknir meðferðareiningar geðrofssjúkdóma og lektor

Geðþjónustu Landspítala

 

Undirbúningsnefnd Geðdagsins 2022

Halldóra Jónsdóttir, lektor og yfirlæknir meðferðareiningar geðrofssjúkdóma, formaður undirbúningsnefndar

Dagný Halla Tómasdóttir, skrifstofustjóri meðferðarsviðs, verkefnastjóri undirbúningnefndar

Berglind Guðmundsdóttir, prófessor og yfirsálfræðingur geðþjónustu

Helga Sif Friðjónsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun, göngudeild fíkniraskana

Júlíana Guðrún Þórðardóttir, deildarstjóri, göngudeild lyndisraskana

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica