Fylgirit 111 - Vísindi á vordögum 2022

Ágripin

1. Samanburður á virkni og öryggi beinna storkuhemla: Lýðgrunduð líkindaskorsvigtuð þýðisrannsókn

Arnar B. Ingason1,2,*, Jóhann P. Hreinsson3, Arnar S. Ágústsson1,2, Sigrún H. Lund4, Edward Rumba1,2, Daníel A. Pálsson1,2, Indriði E. Reynisson5, Brynja R. Guðmundsdóttir6, Páll T. Önundarson1,6, Einar S. Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meltingarlækningadeild Landspítala, 3meltingarlækningadeild Sahlgrenska, Gautaborg, Svíþjóð, 4Íslenskri erfðagreiningu, 5Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 6Segavörnum Landspítala

abi12@hi.is

Inngangur: Slembiraðaðar rannsóknir hafa sýnt fram á beinir storkuhemlar (direct oral anticoagulants) hafi lægri tíðni stórvægra blæðinga en svipaða tíðni blóðsega samanborið við warfarín. Slembiraðaðar rannsóknir hafa hins vegar ekki borið saman virkni og öryggi beinna storkuhemla innbyrðis. Auk þess hafa fyrri áhorfsrannsóknir haft talsverðar takmarkanir.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að bera saman tíðni stórvægra blæðinga og blóðsega milli sjúklinga á apixaban, dabigatran og rivaroxaban í lýðgrunduðu þýði.

Aðferðir: Upplýsingum var safnað um alla sjúklinga sem hófu meðferð með apixaban, dabigatran og rivaroxaban á tímabilinu 1. mars 2014 til 28. febrúar 2019 og þær paraðar við sjúkraskrárkerfi Landspítalans og sjúkrahúsanna á Akranesi, Akureyri, Ísafirði og Neskaupsstað. Líkindaskorsvigtun (inverse probability weighting) var notuð til að fá samanburðarhæfa hópa. Líkanið tók tillit til aldurs, kyns, ábendingu meðferðar, undirliggjandi sjúkdóma, samhliða lyfjanotkunar, búsetu og fyrri sögu um blæðingar- og blóðsegaáföll. Tíðni stórvægra blæðinga og blóðsega var metin með Kaplan-Meier lifunarmati og Cox-aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 2157 sjúklingum á apixaban, 494 á dabigatran, og 3217 á rivaroxaban. Rivaroxaban tengdist hærri tíðni stórvægra blæðinga í samanburði við apixaban (2,9 tilfelli á hver 100 sjúklingaár [tilfelli/100-sj-ár] samanborið við 1,9 tilfelli/100-sj-ár, hættuhlutfall [HH] 1,65, 95% öryggisbil [ÖB] 1,17-2,31) og dabigatran (2,9 tilfelli/100-sj-ár samanborið við 1,9 tilfelli/100-sj-ár, hættuhlutfall [HH] 1,63, 95% ÖB 0,91-2,94), seinni samanburðurinn hafnaði þó ekki núlltilgátunni. Notkun dabigatrans tengdist hærri tíðni blóðsega samanborið við notkun rivaroxabans (2,3 tilfelli/100-sj-ár samanborið við 1,4 tilfelli/100-sj-ár, HH 1,81, 95% ÖB 1,01-3,24). Þessi munur skýrðist að stórum hluta til af hærri tíðni hjartadreps en sjúklingar á dabigatran voru með tvöfalt hærri tíðni hjartadreps samanborið við sjúklinga á bæði apixaban og rivaroxaban. Tíðni heilablóðfalls var svipuð milli sjúklinga á lyfjunum þremur. Niðurstöðurnar voru sambærilegar þegar greiningin var einskorðuð við sjúklinga með gáttatif.

Ályktun: Sjúklingar á rivaroxaban voru með hærri tíðni stórvægra blæðinga samanborið við sjúklinga á öðrum beinum storkuhemlum. Dabigatran tengdist hærri tíðni blóðsega samanborið við notkun rivaroxabans. Þetta skýrðist að stórum hluta til af aukinni tíðni hjartadreps hjá sjúklingum á dabigatran.

 

2. Heilavirkni mænu- og heilaskaða út frá tSCS

Arndís Þóra Þórisdóttir1,2, Linda Björk Halldórsdóttir1,2, Sara Kristinsdóttir1,2, Þórður Helgason1,2

1Háskólanum í Reykjavík, 2Landspítala

arndist17@ru.is

Inngangur: Undanfarin ár hafa rannsóknir sýnt fram á að raförvun mænu geti minnkað síspennu í neðri útlimum og hjálpað til við göngu einstaklinga með mænuskaða. Hins vegar hafa þessar aðferðir ekki leitt til verulegs árangurs við meðferð einstaklinga með heilaskaða og þjást af síspennu. Talið er að mænuraförvun hafi áhrif á tauganet mænu með hamlandi merkjum sem koma að hluta til í stað merkja frá heila. Tauganetið í mænu sem stýrir virkni neðri hreyfitaugar er viðfangsefni meðferðar á síspennu í neðri útlimum.

Markmið: Markmið verkefnisins er að þróa og prófa aðferðir til að skoða vakin viðbrögð (event-related potentials) í heila, rannsaka áhrif áreita á patellar sinina og aftari taugarætur, tengingar miðtaugakerfisins og hvaða áhrif skaði hefur á þessar tengingar. Okkar kenning er að greiningar á heila-og vöðvaritum gefi okkur innsýn á breytingar hraða taugaboða heilans og útslagi þeirra, kallað fram af vöðvasamdrætti og hreyfingu. Einn megin hluti verkefnisins er að þróa úrvinnsluaðferð mælinganna.

Aðferðafræði: Mælingar felast í upptöku á heila-og vöðvariti á meðan raförvun mænu stendur eða hnjásinarpróf, og 3 stöðluðum hreyfiprófum notuðum við sjúkraþjálfun. Hver mæling er endurtekin oft hjá hverjum einstakling (200x) til að grundvöllur sé fyrir tölfræðilegri greiningu. Gögnin eru síðan greind með forritunum Matlab, Brainstorm og EEGLAB, þar sem atburðatengd vakin viðbrögð ásamt greiningu á tíðnisfösum (event related des-/synchronization) í heilanum er framkvæmd. Þróun á úrvinnsluleið (pipeline) er tekið fyrir og markmiðið er að hafa einfalda og áhrifaríka aðferð við mælingar og úrvinnslu gagna. Til verður gagnabanki með fjölda mælinga og niðurstöður endurspegla eðlilega hegðun miðtaugakerfisins í þessum prófum og gefa, ef kenning okkar er rétt, vísbendingar um afleiðingar skaða.

Niðurstöður: Niðurstöður verkefnisins er þróuð úrvinnsluleið til að sjá vakin viðbrögð og tíðnisfösun í heilanum þegar áreiti hnéskeljarprófs og mænuraförvun eiga sér stað. Fyrir liggur gagnagrunnur eftir mælingar á 21 heilbrigðum einstakling og samanburður við einn einstakling með mænuskaða.

Ályktun: Fyrir liggja viðmiðunargögn sem hægt er að nýta til frekari rannsókna á fólki með miðtaugakerfisskaða ásamt úrvinnsluaðferð á heilaritsmerkjum.


3. Ónæmisglæðar auka tjáningu á APRIL og BCMA og langlífi mótefnasvara eftir bólusetningu nýburamúsa

Auður A. Aradóttir Pind1,2, Sigrún Sif Þórsdóttir2, Andreas Meinke3, Giuseppe Del Giudice4, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Valneva Austria GmbH, Vín, Austurríki, 4GSK Vaccines, Siena, Ítalíu

audurap@landspitali.is

Inngangur: Ónæmiskerfi ungviðis er frábrugðið ónæmiskerfi fullorðinna og mótefnasvörun við sýkingum og bólusetningum er lág og skammlíf. Ein ástæða skammlífra mótefnasvara nýbura er takmörkuð lifun mótefnaseytandi plasmafrumna í beinmerg. Eftir sérhæfingu B frumna yfir í plasmafrumur ferðast þær í beinmerginn þar sem þær geta viðhaldist í langan tíma fái þær næg lifunarboð frá umhverfi sínu, til dæmis APRIL og IL-6. BCMA er viðtaki sem bindur APRIL og er tjáður á plasmafrumum/plasmablöstum. Ónæmisglæðar eru efni sem auka svörun við bólusetningum og geta því eflt svörun nýbura við bólusetningum.

Markmið: Við framkvæmdum samanburðarrannsókn á hæfni ónæmisglæðanna LT-K63, mmCT, MF59, IC31 og alum til að auka langlífi sértækra ónæmissvara eftir bólusetningu nýburamúsa með stífkrampabóluefni (TT) í tengslum við tjáningu á APRIL, IL-6 og BCMA.

Aðferðir: 7 daga gamlar mýs voru bólusettar með TT með eða án ónæmisglæðanna LT-K63, mmCT, MF59, IC31 eða alum. Tjáning á lifunarboðunum APRIL og IL-6 meðal beinmergsfrumna og tjáning BCMA meðal plasmablasta/plasmafrumna í milta og beinmerg var ákvörðuð með frumuflæðisjá. Sértæk mótefni voru mæld með ELISA og sértækar mótefnaseytandi frumur með ELISPOT.

Niðurstöður: Við sýndum að bólusetning og ónæmisglæðar auka APRIL+ frumur en minnka IL-6+ frumur í beinmerg stuttu eftir bólusetningu. Eósínófílar, makrófagar, mónócýtar og eitilfrumur voru helstu frumurnar sem tjáðu APRIL og IL-6. Bólusetning með ónæmisglæðum jók einnig BCMA tjáningu plasmablasta og plasmafrumna í milta og beinmerg sem hélst í hendur við aukin sértæk vessabundin ónæmissvör.

Ályktun: Eins og við gátum okkur til um virðast lifunarboðefnið APRIL og lifunarviðtakinn BCMA mikilvægir fyrir viðhald sértækra ónæmissvara í nýburamúsum en allir ónæmisglæðarnir juku tjáningu þeirra eftir bólusetningu nýburamúsa, sem hélst í hendur við kröftug og viðvarandi ónæmissvör eftir bólusetningu nýburamúsa. Við höfum því varpað ljósi á líffræðilega ferla sem æskilegt er að ónæmisglæðar ræsi til framköllunar á öflugu og viðvarandi ónæmissvari í nýburum.


4. Bráðar kviðarholsaðgerðir í kjölfar kviðarholsáverka á Íslandi 1997-2017

Auður Gunnarsdóttir1, Elsa B. Valsdóttir1,2, Guðjón Birgisson2, Hulda María Einarsdóttir2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningasviði Landspítala

audurgun@landspitali.is

Inngangur: Bráðir kviðarholsáverkar sjást oftast í tengslum við háorkuáverka og eru ýmist sljóir, t.d. bílslys, eða skarpir, t.d. hnífstunga. Ef sjúklingur er í óstöðugu ástandi við komu á spítala þarf að taka hann til bráðaaðgerðar. Á heimsvísu eiga fjöláverkar stóran þátt í dánartíðni, sérstaklega ungs fólks, þar sem umferðarslys og sjálfsvíg eru algengustu orsakir.

Markmið: Að lýsa nýgengi, ástæðum og eðli áverka, notkun myndrannsókna og myndstýrða inngripa og afdrifum þeirra sem undirgengust bráða kviðarholsaðgerð í kjölfar kviðarholsáverka á Íslandi á 21 árs tímabili.

Aðferðir: Um er að ræða afturskyggna rannsókn þar sem gögnum um 109 einstaklinga var aflað úr sjúkraskrám Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri eftir ICD-10 greiningarkóðum. Þar af uppfyllti 61 einstaklingur (56%) inngangsskilyrði. Rannsóknartímabilinu var skipt í tvennt, 1997-2006 og 2007-2017. Við greiningu gagna var lýsandi tölfræði reiknuð og notuð t-próf, kí-kvaðrat próf og sambærilegar aðferðir til að bera saman tímabil.

Niðurstöður: Flestir áverkar urðu vegna bílslysa, því næst hnífstungur en skotáverkar voru sjaldgæfir. Hlutfall erlendra ríkisborgara samanborið við íslenska var marktækt hærri á seinna rannsóknartímabili. Einnig jókst notkun áverkaómunar. Allir sjúklingar með skarpa áverka fóru í tölvusneiðmynd. Ekki reyndist marktækur munur milli tímabila hvað varðar aðrar rannsóknarspurningar, s.s. meðalaldurs, kyns, tegund aðgerðar, ástæður áverka, fjölda sjálfsvíga, eðli áverka eða notkun annarrar myndgreiningartækni.

Ályktanir: Nýgengi, orsakir og eðli bráðra kviðarholsáverka breyttust ekki marktækt á rannsóknartímabilinu. Einstaklingum af erlendu bergi sem undirgengust aðgerð í kjölfar kviðarholsáverka fjölgaði en það gæti skýrst af fjölgun ferðamanna og innflytjenda með íslenskt ríkisfang. Aukin tíðni áverkaómunar við komu á bráðamóttöku hefur ekki leitt til minni notkunar tölvusneiðmynda fyrir aðgerð sem er ólíkt niðurstöðum erlendra rannsókna.

 

5. Bráðaþjálfun landsbyggðarlækna

Ásta Evlalía Hrafnkelsdóttir1, Hjalti Már Björnsson1,2, Jón Pálmi Óskarsson3, Steinþór Runólfsson4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttöku Landspítala, 3bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, 4Heilbrigðisstofnun Suðurlands

aeh26@hi.is

Bakgrunnur: Störf landsbyggðarlækna eru umtalsvert ólík störfum við heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir utan að sinna hinu hefðbundna verksviði heilsugæslulækna þurfa landsbyggðarlæknar að annast greiningu og fyrstu meðferð í öllum neyðartilvikum sem er venjulega sinnt á bráðadeildum sjúkrahúsa í þéttbýli. Í könnun sem gerð var hér á landi árið 2011 reyndist þessi hópur lækna telja að sú þjálfun sem hann hafði fengið til að sinna þessum verkefnum mætti vera betri.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar voru að kanna hvernig landsbyggðarlæknar meta eigin hæfni til að bregðast við bráðum vandamálum, viðhorf þeirra til námskeiða í bráðalæknisfræði og þátttöku í þeim og stöðu endurmenntunar á sviði bráðalækninga.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn og samanstóð þýðið af sérfræðilæknum og almennum læknum með alla vega tveggja ára starfsreynslu að loknu kandidatsári sem starfa að minnsta kosti fjórðung ársins utan höfuðborgarsvæðisins. Upplýsingum var safnað með rafrænum spurningalista. Notast var við t-próf og voru marktæknimörk p<0,05.

Niðurstöður: Könnunin var send til 84 lækna og bárust full svör frá 47 (56%). Yfir 90% þátttakenda höfðu farið á námskeið í sérhæfðri endurlífgun að meðaltali fyrir 6,25 árum síðan. Einungis 18% þátttakenda höfðu farið á námskeið í bráðalækningum utan sjúkrahúsa að meðaltali fyrir 11 árum síðan, en það námskeið er sérhannað fyrir þennan markhóp. Yfir 90% þátttakenda töldu að námskeið í sérhæfðri endurlífgun fullorðinna og barna, greiningu og meðferð slasaðra og bráðalækningar utan sjúkrahúsa væru gagnleg. Meira en helmingur þátttakenda taldi sig hafa góða þjálfun til að framkvæma eða geta framkvæmt af nokkru öryggi 7 af 11 neyðarinngripum sem spurt var út í. Yfir 40% þátttakenda töldu að bæta þyrfti endurmenntun í 7 af 10 flokkum bráðaþjónustu. Að lokum taldi yfir helmingur þátttakenda að skortur á afleysingarlæknum væri þess valdandi að þau gætu ekki sótt sér endurmenntun.

Ályktanir: Meirihluti landsbyggðarlækna taldi sig hafa góða þjálfun til að veita bráðaþjónustu. Helst reyndist þörf á að bæta þjálfunina varðandi störf á vettvangi í sjúkrabíl, bráðavandamálum barna, fæðingum og bráðum kvensjúkdómum. Þá benda niðurstöður til þess að auka þurfi aðgengi landsbyggðarlækna að sérhæfðum bráðanámskeiðum.


 6. Immersive virtual reality and digital applied gaming interventions for the treatment of mental health problems in children and young people: The need for rigorous treatment development and clinical evaluation

Brynjar Halldórsson1,2,3, 4, Claire Hill5, Polly Waite1,2,5, Kate Partridge 6, Daniel Freeman2, 7 and Cathy Creswell2,3

1 Department of Experimental Psychology, University of Oxford, Oxford, UK; 2 Department of Psychiatry, University of Oxford, Oxford, UK; 3 Department of Psychology, Reykjavik University, Reykjavik, Iceland; 4 The Landspitali, The National University Hospital of Iceland, Reykjavik, Iceland; 5 School of Psychology and Clinical Language Sciences, University of Reading, Reading, UK; 6 CAMHS Anxiety & Depression Pathway, Berkshire Healthcare Foundation Trust, University of Reading, Reading, UK; 7 Oxford Health NHS Foundation Trust, Oxford, UK

brynjarh@landspitali.is

Background: Mental health problems in children and young people are common and can lead to poor long-term outcomes. Despite the availability of effective psychological interventions for mental health disorders, only a minority of affected children and young people access treatment. Digital interventions, such as applied games and virtual reality (VR), that target mental health problems in children and young people may hold a key to increasing access to, engagement with, and potentially the effectiveness of psychological treatments. To date, several applied games and VR interventions have been specifically developed for children and young people. This systematic review aims to identify and synthesize current data on the experience and effectiveness of applied games and VR for targeting mental health problems in children and young people (defined as average age of 18 years or below).

Methods: Electronic systematic searches were conducted in Medline, PsycINFO, CINAHL, and Web of Science.

Results: Nineteen studies were identified that examined nine applied games and two VR applications, and targeted symptoms of anxiety, depression, and phobias using both quantitative and qualitative methodologies. Existing evidence is at a very early stage and studies vary extensively in key methodological characteristics. For applied games, the most robust evidence is for adolescent depressive symptoms (medium clinical effect sizes). Insufficient research attention has been given to the efficacy of VR interventions in children and young people.

Conclusions: The evidence to date is at a very early stage. Despite the enthusiasm for applied games and VR, existing interventions are limited in number and evidence of efficacy, and there is a clear need for further co-design, development, and evaluation of applied games and VR before they are routinely offered as treatments for children and young people with mental health problems.

 

7. Nýgengi langvarandi svefnlyfjanotkunar eftir skurðaðgerðir

Daníel Hrafn Magnússon1, Freyja Jónsdóttir2,3, Martin Ingi Sigurðsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 3Landspítala

dhm1@hi.is

Inngangur: Notkun svefnlyfja á Íslandi er meiri en á hinum Norðurlöndunum. Rannsóknir hafa sýnt að langvarandi notkun þeirra auki líkur á byltum, vitrænni skerðingu og hækki dánartíðni.

Markmið: Að meta tíðni og áhættuþætti fyrir langvarandi svefnlyfjanotkun eftir skurðaðgerðir á Landspítalanum meðal þeirra sem ekki voru á svefnlyfi fyrir aðgerðina.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem fóru í skurðaðgerð á Landspítalanum á árunum 2006 til 2019 og höfðu ekki fengið lyfseðil fyrir svefnlyfi einu ári fyrir aðgerðina. Upplýsingar um lyfjaávísanir cýklópyrrólon lyfja (N05CF) og benzódíazepín afleiða (N05CD) voru fengnar úr lyfjagagnagrunni landlæknis. Sjúklingar sem fengu lyfseðil fyrir svefnlyfi á tímabilinu 30 dögum fyrir, til 14 dögum eftir aðgerð voru skilgreindir sem nýir notendur. Þeir sem fengu líka lyfseðil 15 til 365 dögum eftir aðgerð voru skilgreindir sem nýir langvarandi notendur. Áhættuþættir fyrir langvarandi svefnlyfjanotkun voru reiknaðir með fjölþátta aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Alls fóru 43.297 einstaklingar sem ekki voru á svefnlyfi í skurðaðgerð á rannsóknartímabilinu. Af þeim fengu 4,6% lyfseðil fyrir svefnlyfi á tímabilinu í kringum aðgerðina og tíðni langvarandi svefnlyfjanotkunar hjá þeim hópi var 51,6%. Áhættuþættir fyrir langvarandi svefnlyfjanotkun eftir skurðaðgerð voru aldur, kvenkyn, krabbamein, kransæðasjúkdómur, hjartaskurðaðgerð og brjóstholsskurðaðgerð. Eftir leiðréttingu fyrir sjúklinga- og aðgerðartengdum þáttum sem voru mismunandi milli hópanna var dánartíðni hærri hjá nýjum notendum svefnlyfja (HH:1,18, ÖB:1,06-1,32) og hjá nýjum langvarandi notendum svefnlyfja (HH:1,39, ÖB:1,22-1,59) samanborið við þá sem fengu ekki lyfseðil fyrir svefnlyfi.

Ályktun: Sjúklingar sem fá ávísað svefnlyfjum eftir skurðaðgerð verða oft langvarandi notendur lyfjanna. Horfur þeirra sem verða langvarandi notendur svefnlyfja eftir skurðaðgerðir eru verri en þeirra sem fá ekki lyfseðil fyrir svefnlyfi.

 

8. Áreiðanleg hraðgreining á SARS-CoV-2 með munnvatni og LAMP aðferð

Daníel Óskarsson1, Kristján M. Gunnarsson1, Salómon Christer1, Hörður I. Gunnarsson1,2, Jón Steinar Jónsson3, Valtýr Stefánsson Thors2,4, Már Kristjánsson5, Karl G. Kristinsson2,6

1ArcanaBio, 2Háskóla Íslands, 3Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 4Barnaspítala Hringsins, 5lyflækningasviði, 6sýkla- og veirufræðideild Landspítala

karl@landspitali.is

Inngangur: Viðmiðunaraðferðin við greiningu á COVID-19 er PCR fyrir SARS-CoV-2 á nefkoks-/hálsstrokum. Sú aðferð krefst sérþjálfaðs starfsfólks og flókins tækjabúnaðar. Antigen hraðgreiningapróf hafa lélegt næmi og oft ekki fullnægjandi sértæki. LAMP (Loop-mediated isothermal amplification) er ný aðferð sem byggist líka á kjarnsýrumögnun getur náð sama næmi og sértæki og PCR.

Markmið: Að hanna og þróa LAMP aðferð til greiningar á SARS-CoV-2 í munnvatni með sambærilegt næmi og sértæki og PCR á nefkoks-/hálsstrokum

Aðferðir: Þróaðir voru sérstakir þreifarar, varðveisluvökvar og efnablöndur fyrir framkvæmd LAMP prófanna. Einstaklingum sem komu með COVID-einkenni til PCR sýnatöku á starfsstöð heilsugæslunnar við Suðurlandsbraut, COVID-göngudeildina eða bráðamóttöku barna á Landspítala var boðin þátttaka í rannsókninni. Nefkoks-/hálsstrokssýnin voru greind með PCR aðferð á Cobas 8800 tæki. Munnvatnssýnin voru greind með LAMP í 50 mínútur við 63°C. Notast var við MIC-qPCR tæki með flúrljómandi ljósmælingu til að fá stafrænt merki. Hægt væri að greina jákvæð sýni án tækjabúnaðar með litarbreytingu hvarfefna.

Niðurstöður Tekin voru sýni frá 90 einstaklingum, 79 fullorðnum og 11 börnum. Eitt munnvatnssýni var óhæft til rannsóknar. Af þeim 89 samhliða greiningum sem voru framkvæmdar þá bar þeim fullkomlega saman í 81 tilfellum, 26 neikvæð próf og 55 jákvæð. Báðar aðferðir misstu af 4 greiningum. Þar sem 4 nefkoks-/hálsstroksýni voru neikvæð í PCR en munnvatnssýnin jákvæð í LAMP, þá voru munnvatnssýnin einnig greind með PCR og reyndust þá einnig jákvæð með þeirri rannsókn. Næmi beggja prófanna var því 93,2% og sértæki LAMP aðferðarinnar 100%. Flest LAMP prófin urðu jákvæð á mínútu 17-21.

Ályktanir: Greining á SARS-CoV-2 með munnvatni og LAMP aðferð getur verið jafn næm og sértæk og greining á nefkoks-/hálsstrokum með PCR aðferð. Með notkun LAMP tækninnar er hægt að greina veiruna á innan við 60 mínútum. Hvarefnakostnaður er mun lægri, sýnataka auðveldari og þægilegri, sérstaklega hjá börnum og viðkvæmum hópum. Auðvelt er að skala tæknina upp og sjálfvirknivæða með notkun pípetturóbóta.

 

9. Sýklasótt á íslenskum gjörgæsludeildum – þróun faraldsfræði yfir tíma

Edda Vésteinsdóttir1,2, Martin I. Sigurðsson1,2, Ásbjörn Blöndal3, Magnús Gottfreðsson4, Sigurbergur Kárason1,2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, 4smitsjúkdómadeild Landspítala

skarason@landspitali.is

Bakgrunnur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á vaxandi nýgengi sýklasóttar ásamt lækkandi dánarhlutfalli, en grunað er að hluti breytinganna stafi af bættri skráningu vegna vitundarvakningar um heilkennið í kjölfar „Surviving Sepsis Campaign“ meðferðarátaksins. Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa breytingum á nýgengi, fyrstu meðferð og afdrifum sjúklinga sem leggjast inn á gjörgæsludeildir vegna sýklasóttar á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursæ, áhorfsrannsókn og voru þátttakendur allir sjúklingar sem lögðust inn á gjörgæsludeildir á Íslandi vegna svæsinnar sýklasóttar eða sýklasóttarlosts á árunum 2006, 2008, 2010, 2012, 2014 og 2016.

Niðurstöður: Á rannsóknarárunum sex lögðust 9166 sjúklingar inn á íslenskar gjörgæsludeildir, 971 þeirra (10,6%) vegna sýklasóttar. Árlegt nýgengi sýklasóttar sem krafðist innlagnar á gjörgæsludeild var 0,55-0,75/1000 íbúa og breyttist ekki yfir tímabilið. Engin breyting varð heldur á meðalaldri sjúklinga (miðgildi 67 ár), alvarleikastigi veikinda (APACHE II skor 21, SOFA skor 8) né tíðni undirliggjandi sjúkdóma (Charlson Comorbidity Index skor 4). Fyrir sjúklinga sem lögðust inn beint frá bráðamóttöku (477 (49%)) var miðgildi tíma frá komu til sýklalyfjagjafar 1,8 klst og breyttist ekki yfir tímabilið, tími þar til mjólkursýra í blóði var mæld (laktat) lækkaði úr 4,1 klst 2006 í 1,2 klst 2016 en dvalartími á bráðamóttöku lengdist úr 2,9 klst 2006 í 4,9 klst 2016. Dánarhlutfallið við 28-daga var 25% og eftir eitt ár 41% og breyttist hvorugt yfir tíma.

Ályktanir: Nýgengi sýklasóttar sem krafðist innlagnar á gjörgæsludeild breyttist ekki yfir 11 ára rannsóknartímabil hér á landi. Dánarhlutfallið var einnig stöðugt og litlar breytingar urðu á fyrstu meðferð sjúklinga á bráðamóttökum.

 

10. Járnbúskapur fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala

Elín Helga Káradóttir1, Berglind Lilja Guðlaugsdóttir1,2, Svava Engilbertsdóttir2, Hjörtur Gíslason3, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2

1Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala, 2næringarstofu, Landspítala, 3skurðlækningaþjónustu Landspítala

ingigun@landspitali.is

Inngangur: Við efnaskiptaaðgerðir fyrir einstaklinga með alvarlega offitu, eru gerðar breytingar á meltingarveginum sem hafa áhrif á efnaskipti, líkamsþyngd, fylgisjúkdóma offitu og lífsgæði almennt. Hins vegar geta þessar aðgerðir aukið líkur á næringarefnaskorti, eins og til dæmis járnskorti.

Markmið: Að kanna járnbúskap einstaklinga fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala.

Aðferðir: Upplýsingar um niðurstöður mælinga á styrk hemoglóbíns (Hb) (n=804) og ferritíns í sermi (n=718) voru fengnar úr sjúkraskrám þeirra sem fóru í efnaskiptaaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018, annars vegar magahjáveituaðgerð (n=902) og hins vegar magaermi (n=64) sem framkvæmd hefur verið frá árinu 2015. Um 80% einstaklinganna sem fóru í efnaskiptaaðgerð, voru konur. Blóðleysi var skilgreint sem Hb <134 g/L fyrir karla og Hb <118 g/L fyrir konur. Járnskortur var skilgreindur sem ferritin <30 µg/L fyrir karla og konur >50 ára, en sem ferritin <15 µg/L fyrir konur ≤50 ára. Sjúklingar fá ráðleggingar um inntöku fæðubótarefna við útskrift og við endurkomur á göngudeild efnaskiptaskurðaðgerða á Landspítala. Við samanburð milli tegunda aðgerða var einungis horft til áranna 2015-2018.

Niðurstöður: Fyrir aðgerð voru 6 karlar (4,2%) og 24 konur (3,6%) með blóðleysi, en 18 mánuðum eftir aðgerð voru 26 karlar (25,2%) ) og 57 konur (10,3%) með blóðleysi. Með járnskort fyrir aðgerð voru 3 karlar (2,5%) og 46 konur (7,7%), en 18 mánuðum eftir aðgerð hafði þeim fjölgað í 11 karla (12,6%) og 109 konur (21,7%). Þegar tegundir aðgerða eru bornar saman kom í ljós marktækur munur á breytingu í styrk ferritíns eftir því hvort einstaklingur fór í magahjáveitu- eða magaermisaðgerð, þrátt fyrir að enginn marktækur munur hafi verið á styrk ferritíns milli hópanna fyrir aðgerð. Þannig lækkaði ferritín um 23±60 µg/L hjá hópnum sem fór i magahjáveituaðgerð en hækkaði að meðaltali um 30±101 µg/L eftir magaermisaðgerð (P=0,008).

Ályktun: Blóðleysi og járnskortur sást hjá hluta einstaklinga sem voru á leið í efnaskiptaaðgerð á Landspítala. Þegar líður frá aðgerð fjölgar þeim sem teljast vera með járnskort og blóðleysi. Frekari rannsókna er þörf til að skoða ástæður þess að það sást munur á breytingu í styrk ferritíns eftir aðgerðategund.


11. Hvað skýrir aukningu í framköllun fæðingar á síðustu 20 árum?

Emma M Swift1,2, Jóhanna Gunnarsdóttir2,3,4, Helga Zoëga2,5, Þóra Steingrímsdóttir3,4, Ragnheiður I. Bjarnadóttir3,4, Kristjana Einarsdóttir2

1Ljósmóðurfræði, hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum, læknadeild, Háskóla Íslands, 3kvennadeild Landspítala, 4Llæknadeild, Háskóla Íslands, 5Centre for Big Data Research in Health, Faculty of Medicine, University of New South Wales, Sydney, Ástralíu

emmas@hi.is

Inngangur: Framköllun fæðingar hefur aukist verulega á síðustu árum hér á landi. Ekki er ljóst hvað liggur þar að baki þótt hugmyndir séu um að aukning á ákveðnum áhættuþáttum geti skýrt þessa aukningu að einhverju leyti. Ekki hafa verið birtar upplýsingar um hvaða ábendingar liggja helst að baki framköllun fæðingar hér á landi.

Tilgangur: Markmið þessarar rannsóknar var að gefa yfirlit yfir helstu ábendingar fyrir framköllun fæðingar hér á landi og svo að meta hvort aukning á slíkum ábendingum meðal kvenna á Íslandi skýri aukningu á framköllun fæðingar hér á landi.

Aðferðir: Gögn voru fengin frá Fæðingarskrá Íslands. Tíðni framkallaðra fæðinga var lýst fyrir alla einbura sem fæddust á árunum 1997-2018, sem og öllum helstu ábendingum fyrir framköllun fæðingar yfir sama tímabil. Breyting yfir tíma á tíðni á framköllun fæðingar var fengin með því að reikna hlutfallslega áhættu með Poisson aðhvarfsgreiningu (RR) og var módelið leiðrétt fyrir bakgrunnsþáttum kvenna og ábendingum um framköllunar fæðingar.

Niðurstöður: Tíðni framköllun fæðingar jókst úr 12,5% árin 1997-2001 í 23,9% á árunum 2014-2018 (RR=1,91; 95%CI:1,81-2.',01). Niðurstöður voru nær óbreyttar eftir að leiðrétt hafði verið fyrir bakgrunnsþáttum kvenna, en þegar leiðrétt var fyrir ábendingum um framköllun fæðingar þá var hlutfallsleg áhætta á framköllun fæðingar RR =1,43 (95%CI:1,35-1,51). Á síðasta tímabilinu var meðgöngusykursýki ábending fyrir framköllun fæðingar í 16,5% tilfella (aukning frá 2,4% á árunum 1997-2001). Meðgöngulengd var einnig í auknum mæli ábending fyrir framköllun fæðingar (23,7% miðað við 16,2% á árunum 1997-2001), háþrýstingur jókst úr 7,0% í 11,1%, áhyggjur af vellíðan barns jókst úr 3,2% í 6,9% og aldur móður jókst úr 0,5% í 1,2%. Engin ábending fannst fyrir 9,2% framkallana á árunum 2014-2018 samanborið við 16,3% á árunum 1997-2001.

Ályktun: Aukning í framköllun fæðinga skýrist að miklu leyti af aukningu í ýmsum undirliggjandi kvillum meðal kvenna og leiðbeiningum um að framkalla fæðingar fyrr hjá konum vegna meðgöngulengdar. Þó eru um 9,2% framkallana sem ekki fundust læknisfræðilegar skýringar á.

 

12. Meinvaldandi áhrif BRCA1 breytingar könnuð í frumumódelum

Eydís Bergmann Gunnarsdóttir1,3, Aðalgeir Arason1,3, Inga Reynisdóttir2,3, Rósa Björk Barkardóttir1,3, Bylgja Hilmarsdóttir1,3

1Sameindameinafræði, 2frumulíffræði, meinafræðideild Landspítala, 3Lífvísindasetri HÍ

eydis.bergmann@gmail.com

Inngangur: Meðfæddar stökkbreytingar í BRCA-genum valda áhættu á að fá krabbamein, einkum í brjóstum og eggjastokkum. Stökkbreytingar í splæsisetum í útröð 11 í BRCA1 geninu geta valdið splæsiröskun umrita gens þannig að útröðin er splæst alveg út eða að hluta til og kallast það Δ11q splæsiafbrigði. Útröð 11 samsvarar 60% af lengd BRCA1 próteinsins og ræður hún bindisetum ýmissa próteina. BRCA1 c.4096+3A>G breytingin er staðsett í splæsiseti við útröð 11 en rannsóknir okkar á íslenskum fjölskyldum með þessa breytingu benda til aukinnar hættu á myndun krabbameins í brjóstum og eggjastokkum og að áhættuaukningin sé mun meiri fyrir krabbamein í eggjastokkum. Því er nauðsynlegt að skoða áhrif breytingarinnar á þróun krabbameins með nýjum rannsóknarmódelum og þar með varpa frekara ljósi á áhrif og virkni mismundandi splæsiafbrigða BRCA1.

Markmið: Að nota CRISPR/Cas9 aðferðina til að búa til brjóstakrabbameinsfrumulínu, með c.4096+3A>G stökkbreytinguna og í framhaldi rannsaka meinvaldandi áhrif breytingarinnar.

Aðferðir: CRISPR/Cas9 aðferðin var notuð til að innleiða c.4096+3A>G stökkbreytinguna í brjóstakrabbameinsfrumulínuna T47D og breytingin staðfest með raðgreiningu. Multiplex PCR var notað til að rannsaka mRNA splæsibrigði T47Dc.4096+3A>G. Western blottun var notuð til að skoða próteintjáningu BRCA1. Áhrif breytingarinnar á vaxtarhraða frumna og næmni við PARP hindrum var metin með Incucyte og MTT assay.

Niðurstöður: CRISPR/Cas9 complex var innleiddur í T47D með rafgötun og frumur klónaðar. Raðgreining sýndi að það tókst að innleiða c.4096+3A>G breytinguna í T47D. Greining á mRNA splæsiprófíl með multiplex PCR sýndi að c.4096+3A>G hefur áhrif á splæsingu BRCA1 og minnkar myndun fulllengdar BRCA1. Próteintjáning BRCA1 metin með Western blot sýndi að frumur með c.4096+3A>G tapa nær alveg fulllengdar BRCA1 en tjá Δ11q splæsiafbrigðið. Niðurstöðurnar staðfesta því að c.4096+3A>G hefur áhrif á splæsingu gensins. Lyfjatilraunir með PARP hindra benda til þess að frumur með Δ11q splæsiafbrigðið séu ekki jafn næmar fyrir PARP hindrun eins og frumur með algjört tap á BRCA1. Næstu tilraunir munu snúa að því að skoða áhrif c.4096+3A>G breytingarinnar á viðgerðarhæfileika frumna og svipgerð þeirra.

Ályktanir:c.4096+3A>G stökkbreytingin hefur splæsiraskandi áhrif á BRCA1 og frumur með breytinguna tjá nær eingöngu styttra splæsiform BRCA1. T47Dc.4096+3A>G eru ekki jafn næmar fyrir PARP hindrun eins og frumur með algjört tap á BRCA1.


13. Faraldsfræði fjöllyfjameðferðar hjá eldri skurðsjúklingum

 Freyja Jónsdóttir1,2, Anna Bryndís Blöndal1,3, Aðalsteinn Guðmundsson4,5, Ian Bates6, Jennifer Stevenson7,8, Elín S. Ólafsdóttir1, Martin I. Sigurðsson5,9

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands,2lyfjaþjónustu, Landspítala, 3Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 4öldrunarlækningum Landspítala, 5læknadeild, Háskóla Íslands, 6School of Pharmacy, University College London, 7King's College, London, 8Guys and St Thomas' NHS Foundation Trust, London, 9svæfinga- og gjörgæslulækningum, Landspítala

freyjaj@landspitali.is

Inngangur: Eldri sjúklingar undirgangast í auknum mæli skurðaðgerðir. Sjúklingahópurinn er líklegri til að vera á fjöllyfjameðferð og í hættu á lakari klínískum útkomum.

Markmið: Markmiðið var að meta algengi fjöllyfjameðferðar fyrir skurðaðgerð og nýgengi fjöllyfjameðferðar eftir skurðaðgerð. Einnig var kannað hvaða sjúklinga- og aðgerðartengdu þættir tengdust fjöllyfjameðferð og hvort munur væri á klínískum útkomum sjúklinga, eftir skurðaaðgerð.

Aðferðir: Rannsóknarsnið var aftursýn lýsandi rannsókn meðal skurðsjúklinga ≥65 ára á Landspítala á tímabilinu 2006–2018. Þátttakendur voru flokkaðir eftir fjölda lyfja sem þeir tóku árið fyrir aðgerð, ekki fjöllyfjameðferð (<5), fjöllyfjameðferð og ofur fjöllyfjameðferð (>10).

Niðurstöður: Meðal 18278 sjúklinga (54% karlar; 75±7,5) var algengi fjöllyfjameðferðar fyrir skurðaðgerð 35,2% (95% CI:34,6-36,0) og ofur-fjöllyfjameðferðar 43,2% (42,5-49,9). Sjúklingar á fjöllyfjameðferð voru eldri, með aukna sjúkdómsbyrgði og aukinn hrumleika. 30-daga dánartíðni var hærri meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð (2,6%) og ofur-fjöllyfjameðferð (3,5%) samanborið við sjúklinga sem ekki voru á fjöllyfjameðferð (1,9%, p<0,001). 30-daga nýgengi endurinnlagna var hærra meðal sjúklinga með ofur-fjöllyfjameðferð (11,4%) samanborið við fjöllyfjameðferð (7,6%) og án fjöllyfjameðferðar (7,2%, p<0,001 3). Af 3934 sjúklingum sem ekki voru á fjöllyfjameðferð fyrir skurðaaðgerð var nýgengi fjöllyfjameðferðar/ofur-fjöllyfjameðferðar eftir skurðaðgerðar 47,1%(45,4-48,6), og fyrir 6445 sjúklinga á fjöllyfjameðferð fyrir aðgerð var nýgengi ofur-fjöllyfjameðferðar eftir aðgerð 37,9% (36,7-39,1).

Ályktun: Algengi fjöllyfjameðferð meðal eldri skurðsjúklinga er hátt og einnig nýgengi fjöllyfjameðferðar. Tengsl eru milli fjöllyfjameðferðar og auknum líkum á endurinnlögn. Leggja þarf áherslu á yfirferð lyfjameðferðar hjá eldri skurðsjúklingum fyrir og eftir skurðaðgerð og tryggja að lyfjameðferðin sé örugg og árangursrík til að draga úr líkum á lakari klínískum útkomum og lyfjatengdum skaða.


14. Próffræðileg afbrigði mælikvarða byggð á þremur mismunandi líkönum Rasch greiningar

Guðrún Árnadóttir1,2, Laufey Halla Atladóttir2

1Meðferðarsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

gudrunar@landspitali.is

Inngangur: Nauðsynlegt er að nota mæligildi við að meta árangur endurhæfingar. Iðjumatstækið „ADL-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation“ (A-ONE) er notað af iðjuþjálfum til að meta áhrif taugaeinkenna á framkvæmd iðju. Fyrri rannsóknir sýna að mögulegt er að umbreyta 55 tví- og fjölkosta raðkvarðastigum Taugaatferliskvarða þess í mælieiningar með notkun Tvíkosta líkans fyrir Rasch greiningu. Það líkan varð upphaflega fyrir valinu því fjölkosta Raðkvarðalíkanið gerir kröfu um að öll atriði hafi sama þrepakvarða. Fleiri Rasch greiningarlíkön hafa þróast á síðustu árum sem opnar möguleika á að nýta fleiri þrep fjölkosta atriða kvarðans. Þar með yrði hægt að auka næmi hans, en slíkt kæmi að góðum notum við árangursmælingar og yfirstandandi hugbúnaðargerð fyrir umbreytingu A-ONE stiga í mælitölur.

Markmið: Að kanna hvort auka megi næmi Taugaatferliskvarða A-ONE með því að auka þrepafjölda atriða hans. Spurt var hvort munur væri á próffræðilegum eiginleikum kvarðans með notkun Þrepafrelsislíkans (sér þrepakvarði fyrir hvert atriði) eða Atriðafylkjalíkans (hópar atriða fylkja sér um fleiri en einn þrepakvarða) og upphaflega Tvíkosta líkaninu við Rasch greiningu A-ONE gagna. Einnig, hvort munur væri á spönn stiga í umbreytingatöflu mælieininga eftir líkani.

Aðferðir: Rasch greining kvarðans með WINSTEPS 4.7.0 út frá líkönunum þremur var notuð til að fá fram réttmætis og áreiðanleika gildi kvarðans fyrir hvert líkan ásamt umbreytingatöflum stiga fyrir 477 einstaklinga með heilablóðfall (n=242) og heilabilun. Viðmið fyrir innra réttmæti kvarðans var (MnSq ≤1,4 og z < 2), PCA fyrstu andstæðu ≤10%; áreiðanleika stuðul ≥0,8 og aðgreiningaskrá (G) ≥2 færnilög. Þrepakvarðaviðmiðin voru: stigatíðni þrepa ≥10, hækkun þrepakvörðunar >1,0 logit og rétt röðun þrepaþröskulda.

Niðurstöður: Hægt er að auka heildar stigafjölda úr 55 stigum bæði með notkun Þrepafrelsis- og Atriðafylkjalíkansins. Bæði greiningarlíkönin standast öll réttmætis- og áreiðanleikaviðmið fyrir Rasch greiningu mælikvarða, en Þrepafrelsislíkanið stenst hins vegar ekki þrepakvarðaviðmiðin. Þrepakvarðar sem byggja á Atriðafylkjalíkaninu hafa tví-, þrí- og fjórkosta atriði.

Ályktun: Með notkun Atriðafylkjalíkansins við Rasch greiningu má auka stigaspönn í umbreytingatöflu Taugaatferliskvarða A-ONE fyrir einstaklinga með heilablóðfall og heilabilun um 32 stig á réttmætan og áreiðanlegan hátt. Með notkun þeirra niðurstaðna við hugbúnaðargerð fyrir A-ONE eykst næmi kvarðans umtalsvert.

 

15. Áhrif músíkmeðferðar á líðan einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma

Gunnhildur María Kildelund1, Jóna Þórsdóttir2, Þóra Gunnarsdóttir3, Anna Herdís Pálsdóttir4, Þóra Jenný Gunnarsdóttir5, Ingibjörg Hjaltadóttir1,5

1Meðferðarsviði Landspítala, 2Tónstofu Valgerðar, 3Stuðnings- og öldrunarþjónustu Garðabæjar, 4Eir hjúkrunarheimili, 5hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

ingihj@landspitali.is

Inngangur: Þeim sem eru með heilabilunarsjúkdóm fer fjölgandi vegna hærri lífaldurs á heimsvísu. Einkenni heilabilunar eru krefjandi sérstaklega hegðunartruflanir. Rannsóknir sýna að geðrofslyf eru notuð í nokkru mæli til að draga úr hegðunartruflunum en mikilvægt er að skoða aðrar leiðir en lyf, til að bæta líðan sjúklinga. Rannsóknir hafa sýnt að mögulega getur músíkmeðferð bætt líðan fólks með heilabilunarsjúkdóma.

Markmið: Að kanna áhrif músíkmeðferðar á líðan einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma.

Aðferðir: Rannsóknin var framsýn megindleg áhorfsrannsókn og notað var mælitækið Music in Dementia Assessment Scales (MiDAS). Við tölfræðilega úrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði. Þeim sem var boðin þátttaka voru sjúklingar á deild L-4 á Landakoti sem voru í músíkmeðferð á rannsóknartímabilinu.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 52 einstaklingar (29 konur; 23 karlar), meðalaldur var 78,7 ár (lægst 55 ár, hæst 95 ár, staðalfrávik 10,3). Niðurstöður sýndu að músíkmeðferð hafði jákvæð áhrif á líðan einstaklinga með heilabilunarsjúkdóm. Heildareinkunn úr mælitækinu gaf til kynna að 50-75% einstaklinga sýndi betri líðan eftir músíkmeðferð og vísbendingar eru um að endurtekin meðferð hafi í sumum tilfellum jákvæð áhrif. Þegar horft er til vísbendinga um líðan samkvæmt einstökum þáttum mælitækisins sést aukinn áhugi (hjá 50% einstaklinga), svörun (50%), frumkvæði (50%), aðild (50-75%) og ánægja (50-75%) hjá þátttakendum.

Ályktun: Niðurstöður sýna jákvæð áhrif músíkmeðferðar á fólk með heilabilunarsjúkdóm og að hún geti verið gagnleg sér eða samhliða lyfjameðferð til að bæta líðan þeirra sem eru með heilabilunarsjúkdóm. Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk hafi í huga kosti músíkmeðferðar þegar meðferð fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóm er valin. Jafnframt er mikilvægt að huga að innleiðingu á notkun músíkmeðferðar bæði snemma í sjúkdómsferlinu og þegar einstaklingurinn er kominn á hjúkrunarheimili.

 

16. Ósæðarflysjun í rishluta ósæðar á Íslandi

Hafþór Ingi Ragnarsson1, Inga Hlíf Melvinsdóttir2, Arnar Geirsson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2hjartadeild, 3hjartaskurðdeild Yale-háskólasjúkrahúsins í New Haven, 4læknadeild Háskóla Íslands

hafthorir@gmail.com

Inngangur: Ósæðarflysjun í rishluta ósæðar (gerð A) er lífshættulegur sjúkdómur þar eina meðferðin felst í umfangsmikilli bráðaskurðaðgerð.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni og afdrif þeirra sem greinast með sjúkdóminn hérlendis, bæði þeirra sem greinast innan og utan spítala.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem greindust með bráða ósæðarflysjun af Stanford gerð A á Íslandi 1992-2019. Bæði voru teknir með sjúklingar sem náðu lifandi inn á sjúkrahús en einnig þeir sem létust skyndilega heima eða í flutningi á sjúkrahús. Leitað var að sjúklingum í greiningar- og aðgerðarskrám allra sjúkrahúsa landsins, en einnig dánarmeinaskrá og réttarkrufningagögnum meinafræðideildar Landspítala. Nánari klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Borin voru saman fjögur 7 ára tímabil, m.a. hvað varðar 30 daga dánartíðni eftir aðgerð.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 124 sjúklingar með sjúkdóminn og var meðalaldur þeirra 65,8 ár og 38% þeirra konur. Meðalaldur eða kynjahlutfall breyttist ekki marktækt milli tímabila. Alls greindust 38 (31%) sjúklingar heima eða á leið á sjúkrahús, en 86 (69%) náðu lifandi inn á spítala og gengust 58 þeirra (47%) þeirra undir bráða skurðaðgerð sem 44 (76%) lifðu af <30 daga. Hlutfall sjúklinga sem gekkst undir skurðaðgerð hækkaði úr 31% 1992-1998 í 61% 2013-2019, og á sömu tímabilum lækkaði 30 daga dánartíðni eftir aðgerð úr 40% í 20%.

Ályktun: Síðastliðna þrjá áratugi ná fleiri sjúklingar með flysjun í rishluta ósæðar lifandi inn á sjúkrahús og gangast undir skurðaðgerð þar sem 30 daga dánarhlutfall hefur lækkað. Heildarhorfur sjúklinga með þennan flókna sjúkdóm hefur því vænkast.


17. Tengsl stærðardreifni rauðra blóðkorna við framrás langvinns nýrnasjúkdóms eftir skurðaðgerðir á Íslandi

Halldór Bjarki Ólafsson1, Sigurbergur Kárason1,2, Magnús Karl Magnússon1,4, Ólafur Skúli Indriðason3, Þórir Einarsson Long3,5, Martin Ingi Sigurðsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3meltingar- og nýrnadeild, Landspítala, 4Íslenskri erfðagreiningu, 5Skånes universitetsjukhus, Lundi

hbo10@hi.is

Inngangur: Stærðardreifni (Red cell distribution width, RDW) er hluti af eiginleikum rauðra bóðkorna. Hér voru tengsl milli RDW og framrásar langvinns nýrnasjúkdóms eftir skurðaðgerðir könnuð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn þýðisrannsókn sem náði til 84,009 skurðaðgerða á Landspítalanum milli 2005-2018. Einstaklingum var skipt upp í fimm hópa miðað við gildi RDW fyrir aðgerð. Stig langvinns nýrnasjúkdóms, sjúkdómsbyrði og lyfjanotkun var borin saman með einþáttagreiningu og framrás langvinns nýrnasjúkdóms borin saman milli einstaklinga með hækkað RDW og paraðra viðmiðunareinstaklinga úr hópnum með lægsta RDW, þar sem m.a. var parað fyrir undirliggjandi nýrnastarfsemi. Leiðrétt var fyrir tengslum milli RDW og verri lifunar við mat á versnun á nýrnastarfsemi með samkeppnisáhættugreiningu (competing risk analysis).

Niðurstöður: Einstaklingar með hækkað RDW voru eldri, fjölveikari, tóku fleiri lyf og höfðu verri nýrnastarfsemi. Í öllum hópum með hækkað RDW voru líkur á framrás langvinns nýrnasjúkdóms auknar. Mestur munur var fyrir einstaklinga með RDW >15,8% (HR: 1,37, 95% CI: 1,04 – 1,79, p = 0.02) samanborið við paraðan viðmiðunarhóp með RDW <13,3%.Tengslin voru viðvarandi eftir að leiðrétt var fyrir verri lifun í hópi sjúklinga með hækkað RDW, en einstaklinga sem lifðu á eftirfylgdartímanum og höfðu RDW 14-14,7% eða 14,8-15,8% voru í marktækt aukinni hættu á framrás langvinns nýrnasjúkdóms samanborið við paraða viðmiðunareinstaklinga með RDW <13,3%.

Ályktanir: Hækkun á RDW fyrir aðgerð tengist aukinni hættu á framrás langvinns nýrnasjúkdóms eftir skurðaðgerðir á Íslandi. Þetta kann að nýtast til að greina áhættu sjúklinga á versnun á nýrnastarfsemi í kjölfar skurðaðgerða.


 

18. „Ég styrktist í starfi“ – Lærdómur hjúkrunardeildarstjóra af COVID-19 heimsfaraldrinum

Helga Bragadóttir1,2, Birna G. Flygenring1, Sigrún Gunnarsdóttir3

1Hjúkrunarfræðideild, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3viðskiptafræðideild, félagsvísindasviði Háskóla Íslands

helgabra@hi.is

Inngangur Störf hjúkrunardeildarstjóra á sólarhringslegudeildum eru að öllu jöfnu flókin, umfangsmikil og ögrandi þar sem hlutverk þeirra er að tryggja örugga gæðahjúkrun með takmörkuðum auðlindum. COVID-19 heimsfaraldurinn hafði áhrif á alla heilbrigðisþjónustu þar sem reyndi á alla heilbrigðisstarfsmenn, ekki síst þá sem gegna forystuhlutverkum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða reynslu hjúkrunardeildarstjóra og varpa ljósi á þann lærdóm sem þeir draga af störfum sínum í COVID-19 heimsfaraldrinum.

Efniviður og aðferð Um eigindlega rannsókn var að ræða þar sem tekin voru hálfstöðluð einstaklingsviðtöl við 13 hjúkrunardeildarstjóra sem höfðu reynslu af því að stýra sólarhringslegudeildum á heilbrigðisstofnunum á Íslandi árið 2020. Viðtölin voru hljóðrituð, rituð upp orðrétt og þemagreind.

Niðurstöður Þátttakendur störfuðu á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum. Þeir drógu margskonar lærdóm af reynslu sinni sem fjögur þemu lýsa: 1) þetta styrkti mig í starfi, 2) þetta sýnir hvað samstaða getu gert mikið, 3) þetta mun gerast aftur, 4) hjúkrunarfræðingar leiddu þetta eiginlega algjörlega. Reynslunni lýstu þeir sem dýrmætri fyrir sig sem einstaklinga, þroskandi og mikilvægan þátt í starfsþróun þeirra. Faraldurinn hafði þétt starfsmannahópinn á deildinni og sýnt starfsfólkinu að hjúkrunardeildarstjórinn var starfi sínu vaxinn. Mikilvægi gagnreyndra starfshátta, sýkingavarna og stuðnings á öllum stigum varð hjúkrunardeildarstjórunum ljós.

Ályktanir Heimsfaraldur hefur jákvæðar hliðar ekki síður en neikvæðar. Covid-19 heimsfaraldurinn reyndist hjúkrunardeildarstjórum sem tóku þátt í rannsókninni tækifæri til þroska og starfsþróunar og styrkti þá og starfsfólk þeirra í störfum sínum. Góð menntun, þjálfun og reynsla auk samstöðu og aðgengilegra gæðahandbóka er mikilvægur undirbúningur fyrir árangur hjúkrunardeildarstjóra í áskorunum framtíðarinnar.


19. Hugbúnaður sem mælir áhrif taugaeinkenna á framkvæmdafærni við ADL: Forkönnun á áreiðanleika mælinga

Helgi Sigtryggsson1, Garðar Ingvarsson2, Guðrún Árnadóttir3,4

1Raunvísindadeild Háskóla Íslands, 2tölvunarfræðideild Cambridge háskóla, Englandi, 3meðferðarsviði Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

gudrunar@landspitali.is

Inngangur: Meta má áhrif taugaeinkenna á framkvæmdafærni við athafnir daglegs lífs (ADL) með Taugaatferliskvarða iðjumatstækisins „ADL-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation“(A-ONE). Rannsóknir sýna að breyta megi raðkvarðastigum hans í mælieiningar með Rasch-greiningu, en þær eru nauðsynlegar til mælinga á frammistöðubreytingum og árangri íhlutunar. Mikil vinnuhagræðing væri af áreiðanlegum notendavænum hugbúnaði til að skrásetja og umbreyta raðstigum kvarðans í mælitölur.

Markmið: Annars vegar að útvíkka ADL hugbúnað A-ONE með viðbót Taugaatferliskvarða sem byggir á niðurstöðum Rasch-greiningar. Hins vegar að kanna áreiðanleika mæligilda fenginna með reiknilíkani hugbúnaðarins með samanburði við upprunaleg mæligildi Rasch-greiningar.

Aðferðir: Niðurstöður Rasch greiningar 477 einstaklinga með heilablóðfall (n=242) og heilabilun voru notaðar til að þróa reiknirit sem var ætlað að sjálfvirknivæða viðamikla gagnaúrvinnslu fyrir Taugaatferliskvarðann. Ritið byggði á líkindastigatöflu áætlaðrar dreifingar raðkvarðastiga, sem tekur mið af miserfiðum atriðum kvarðans og nýtist við að varpa stigum í mæligildi, og umbreytingatöflu stiga. Vænt stigagjöf myndar lóðrétta línu næst flestum punktum gagnasafnsins í einvíðu bestunarverkefni sem gagnaðist við að sporna við úrtaksbjaga. Þríundarleit var notuð við ákvörðun lággildis kúpta grafsins. Hugbúnaðurinn byggir á veframmanum Djangó, vefþjóninum Gunicorn, forritunarmálinu Python, gagnahirslu hugbúnaðnum Git og staðgengisþjóninum NGINX. Til að kanna áreiðanleika mæligilda forritsins voru mæligildi 25 (>5%) handahófsvalinna einstaklinga reiknuð með A-ONE hugbúnaðinum og borin saman við mæligildi sömu einstaklinga fengin með Rasch-greiningu Winsteps forritsins. Mismunarviðmiðið ≥ 0,5 logit var notað til að ákvarða marktækni mæligildamismunar auk paraðs tvíhliða t-prófs.

Niðurstöður: Reiknirit hugbúnaðar Taugaatferliskvarða A-ONE umbreytir skráðum raðkvarðagildum í mælieiningar og færir um leið nauðsynlegar tölfræðiaðferðir sem sporna við úrtaksbjaga vegna brottfalls mæligilda. Aðferðin tekur mið af miserfiðum atriðum og mismunandi þrepafjölda þeirra auk þess að reikna út marktækni mæligildamismunar við árangursmat. Kóðun er geymd á lokuðu svæði GitHub og búnaðurinn hýstur á Landspítala. Mismunur mæligilda hugbúnaðarins og Winsteps forritsins fyrir mælitölu sérhvers einstaklings var ≤ 0,21 logit. Hann var því ómarktækur eins og parað t-próf (p = 0,3) staðfesti.

Ályktun: Réttmætur notendavænn hugbúnaður byggður á niðurstöðum rannsókna með Rasch greiningu fyrir skráningu upplýsinga Taugaatferliskvarða A-ONE, umbreytingu raðkvarðastiga matstækisins í mæligildi og skýrslugerð býður upp á umtalsverðan vinnusparnað fyrir iðjuþjálfa. Hann raungerir einnig notkun mælieininga til að meta árangur beint út frá tölfræðilegri marktækni.

20. Krabbameinslyf til inntöku. Lyfjaskil og viðhorf til endurnýtingar lyfja

Hera Jóhannsdóttir1, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Hrefna Magnúsdóttir3, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir1,2

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2lyfjaþjónustu, 3krabbameinsþjónustu Landspítala

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Notkun á krabbameinslyfjum til inntöku hefur aukist síðustu ár og áratugi. Lyfjasóun er vaxandi vandamál á heimsvísu, með neikvæðum áhrifum á umhverfið og náttúruna, auk sóunar á gífurlegum verðmætum.

Markmið: Að kanna notkun og verðmæti krabbameinslyfja um munn, af flokki próteinkínasahemla (PKH), lenalidomide, thalidomide og pomalidomide (LTP), á árs tímabili. Að kanna umfang, gæði og verðmæti lyfja, af flokki PKH og LTP, sem skilað var á deildir Landspítala, ásamt ástæðum fyrir skilunum. Að kanna viðhorf sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks til lyfjaskila, lyfjasóunar og endurnýtingar lyfja. Að setja fram tillögur að verkferlum til þess að draga úr lyfjasóun.

Aðferðir: Rannsóknin var bæði afturskyggn og framskyggn. Notkun og verðmæti lyfja af flokki PKH og LTP var kannað hjá fullorðnum einstaklingum sem fengið höfðu leyfi lyfjanefndar Landspítala fyrir meðferð árið 2020. Lyfjaskilum var safnað og skráð af deildum Landspítalans og verðmæti þeirra reiknað út frá núvirði, og ástæðum skila var safnað úr sjúkraskrá. Viðhorf sjúklinga á meðferð með PKH eða LTP til lyfjaskila og endurnýtingar lyfja fór fram með símaviðtali og stöðluðum spurningalista. Rafrænn spurningalisti varðandi viðhorf til lyfjasóunar og endurnýtingar lyfja var sendur á alla starfandi lækna, lyfjafræðinga og hjúkrunarfræðinga á Landspítala.

Niðurstöður: 453 leyfi voru gefin út fyrir lyf af flokki PKH og LTP árið 2020 til 283 einstaklinga. Heildarverðmæti afgreiddra lyfja árið 2020 nam um 608 milljónum króna. Í heildina var 2.193 lyfjaskilaeiningum safnað af deildum Landspítalans en heildarverðmæti þeirra var rúmlega 23 milljónir króna. Rannsakandi mat 71% lyfjaskilanna endurnýtanleg eftir ákveðnum forsendum og þannig væri hægt að forða 75% verðmætanna frá sóun. Viðhorf sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks til endurnýtingar lyfja var jákvætt og vilji til staðar til að nýta þau með þeim skilyrðum að gæði lyfjanna væru tryggð. Afgerandi meirihluti heilbrigðisstarfsfólks taldi þörf á úrbótum á verkferlum til þess að draga úr lyfjasóun á Landspítala.

Ályktun: Kostnaður vegna lyfjameðferða með PKH og LTP er mikill og miklu magni lyfja hent sem unnt væri að nýta. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að viðhorfið er jákvætt og möguleikar til innleiðingar verkferla sem stuðla að minni sóun með endurnýtingu lyfja, eru til staðar.

21. Nýjar svipgerðir T frumna út frá tjáningarmynstri flakkboðaviðtaka stjórnast af ratvísisameindum og hafa sterk tengsl við sjúkdómsvirkni sóra

Hildur Sigurgrímsdóttir1,2, Jenna Huld Eysteinsdóttir3, Árni Kjalar Kristjánsson3, Jóna Freysdóttir1,2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild, Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Húðlæknastöðinni

hildusig@landspitali.is

Inngangur: Skellusóri er bólgusjúkdómur í húð þar sem frumur ónæmiskerfisins fara í húðina og valda offjölgun hyrnisfrumna og óeðlilegu bólguástandi. Virkni sjúkdómsins er metin vefjafræðilega í húð með Trozak skori og sjónrænt með PASI skori. Th1 og Th17 frumur eru taldar aðal verkfrumurnar í meingerð sóra. Flakkboðar og viðtakar þeirra gegna lykilhlutverki í ferð ónæmisfrumna um líkamann. Flakkboðaviðtakinn CCR4 stýrir ferð ónæmisfrumna inn í húð en CXCR3 er tengdur Th1 svarinu og CCR6 Th17 svarinu. CLA og CD103 eru sameindir á yfirborði frumna sem stýra ratvísi þeirra í húð. Sýnt hefur verið fram á tengsl þessara flakkboða og CLA og CD103 við meingerð sóra.

Markmið: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kortleggja tjáningu flakkboðaviðtaka í mismunandi svipgerð húðsækinna T-frumna og að meta mögulegt hlutverk þeirra í meingerð sóra.

Aðferðir: T-frumur voru einangraðar úr blóði sórasjúklinga og heilbrigðra einstaklinga, litaðar með flúrljómandi mótefnum gegn flakkboðaviðtökum, CLA, CD103, CD4 og CD8 og mældar í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Við ítarlega kortlagningu húðsækinna T-frumna kom í ljós áður óskilgreindar svipgerðir T-frumna. Af þeim voru mest áberandi T-frumur með svipgerðina CD4+CLA++CCR4+ (~15%) þar sem tjáning CCR4 virðist stjórnast aðallega af tjáningu CLA. Einnig kom í ljós frumuhópur með lága tjáningu á CXCR3 (CXCR3lo/med) í yfir 80% CD4+CD103+CLA+ T-frumna. Athyglisvert er að þessi frumuhópur var hlutfallslega lægri í einstaklingum með sóra en í heilbrigðum viðmiðum. Tjáning CCR6 var sambærileg við CCR4 tjáningu með mesta fylgni við CLA tjáningu meðal CD4+ T-frumna en CD103 tjáningu meðal CD8+ T-frumna. CCR6 var hlutfallslega meira tjáð meðal CD4+CLA+ og CD8+CD103+ á T-frumum einstaklinga með sóra en á T-frumum heilbrigðra. Þegar kom að tengslum við alvarleika sjúkdóms þá kom í ljós sterk tengsl milli vefjafræðilega bólguvirkni (Trozak skor) við tjáningu CCR6 og CXCR3.

Ályktun: Tjáning á flakkboðaviðtökum með þekkt tengsl við húðsækni og svipgerð Th1/Th17 virknifruma er aðallega bundin við sértæka svipgerð CLA+ T-frumna í blóði. Þar ber hæst áður óskilgreind svipgerð CLA++CCR6+ T-frumna sem gefa nýja sýn á langvinnt bólguástand og alvarleika sóra. Niðurstöðurnar benda til þess innrás og bólguvirkni T-frumna í húð stjórnist af öflugri ratvísi þessar sértæku frumuhópa úr blóði einstaklinga með sóra sem gætu gefið tilefni til nýstárlegra meðferðarúrræða.

22. Greining á SARS-CoV-2 sértækum mótefnum með multiplex aðferð í COVID-19

Hildur Sigurgrimsdottir1,2, Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Elín Einarsdóttir2, Guðrún Á. Björnsdóttir1,2, Brynja Ármannsdóttir3, Guðrún E. Baldvinsdóttir3, Agnar Bjarnason1,4, Ólafur Guðlaugsson4, Sveinn Gudmundsson5, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1,2, Arthúr Löve1,3, Karl G. Kristinsson1,3, Björn R. Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3sýkla- og veirufræðideild, 4smitsjúkdómadeild Landspítala, 5Blóðbankanum

hildusig@landspitali.is

Inngangur: Með tilkomu bóluefna er það mikilvægt að geta skilið nákvæmlega hvernig mótefnasvar gagnvart SARS-CoV-2 er vakið. Multiplex aðferð þar sem IgM, IgG og IgA mótefnasvar gagnvart receptor binding domain (RBD), spike 1 (S1) og nucleocapsid (N) próteinum SARS-CoV-2 veirunnar var sett upp.

Markmið: Að setja upp aðferð til þess að mæla sértæk mótefni gangvart próteinum SARS-CoV-2 veirunnar.

Aðferðir: Mótefnamagn gagnvart SARS-CoV-2 veirunnar var greint í 251 sýni frá 221 sjúklingum sem sýkst höfðu af SARS-CoV-2. Multiplex aðferðin var kvörðuð með jákvæðum og neikvæðum sýnum, gagnvart Elecsys® Anti-SARS-CoV-2 prófinu á Roche Cobas® tækinu. Næmnin var 100% og sértæknin 98%.

Niðurstöður: Marktæk hækkun var í mótefnum af öllum gerðum (IgM, IgG, og IgA) gegn RBD á fyrstu og þriðju viku eftir greiningu. IgG mótefnamagn gegn S1 hækkaði marktækt á milli viku 1, 2 og 3 frá greiningu. Flokkaskipti yfir í IgA áttu sér stað fyrr en fyrir IgG. Sjúklingar sem þurftu á innlögn að halda voru með hærra mótefnamagn af SARS-CoV-2 sértæku IgA mótefni en göngudeildarsjúklingar.

Ályktanir: Þessar niðurstöður lýsa myndun mótefnasvars á fyrstu vikum COVID-19 sjúkdóms og sýna fram mikilvægi þess að mæla fleiri mótefni en bara IgG. Sérstaklega IgA þegar verið er að rannsaka ónæmissvars í COVID-19 sjúkdómi.

 

23. Sérnám í bráðalækningum á Norðurlöndunum

Hjalti Már Björnsson1,2, Lars Petter Bjørnsen3,4, Christian Baaner Skjærbæk5, Katrin Hruska6, Ari Palomäki7,8 and the Nordic EM Study Group

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttöku Landspítala, 3Clinic of Emergency Medicine and Prehospital Care, St. Olav's University Hospital, Trondheim, Norway, 4Department of Circulation and Medical Imaging, Norwegian University of Science and Technology, Trondheim, Norway, 5Department of Emergency Medicine, Regionshospitalet Randers, Randers, Denmark, 6Capio Rapid Response Vehicles, Stockholm, Sweden, 7Faculty of Medicine and Health Technology, Tampere University, Tampere, Finland, 8Emergency Department, Kanta-Häme Central Hospital, Hämeenlinna, Finland

hjaltimb@landspitali.is

Inngangur: Bráðalækningar eru nú viðurkennd sjálfsstæð sérgrein í öllum fimm Norðurlandanna.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um skipulag sérnáms í bráðalækningum í hverju landi.

Aðferðir: Fundið var leiðandi sjúkrahús í kennslu í bráðalækningum, eitt eða fleiri, í hverju Norðurlandanna. Rafræn könnun var send til kennslustjóra á hverju sjúkrahúsi og aflað upplýsinga um fjölda sjúklinga sem sinnt er á bráðamóttöku, mönnun lækna, marklýsingu og skipulag sérnáms, handleiðslu sérnámslækna og mat á framvindu í sérnámi.

Niðurstöður: Gagna var aflað frá einu sjúkrahúsi á Íslandi og í Noregi, tveimur í Finnlandi og Svíþjóð og fjórum í Danmörku. Gögn voru sameinuð frá öllum sjúkrahúsum í hverju landi í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Hlutfall sérfræðilækna með sérfræðiviðurkenningu í bráðalækningum reyndist vera á bilinu 49-100%. Fjöldi sjúklinga sem sinnt er á hverju ári á hvern sérfræðing á bráðamóttöku reyndist vera lægst í Svíþjóð eða 3063 en hæst í Finnlandi eða 8010. Á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð var sérfræðingur ávallt til staðar allan sólarhringinn á bráðamóttökunni en slík mönnun var ekki til staðar á öllum sjúkrahúsum í Noregi eða Finnlandi. Munur reyndist milli landanna á sjálfstæði sérnámslækna í störfum en í öllum löndum störfuðu sérnámslæknar meira sjálfsstætt eftir því sem lengra var komið í sérnámi. Mikill munur reyndist á milli landa hvað varðar kröfur um að sérnámslæknir ljúki stöðluðum námskeiðum, hvernig staðið er að mati á framvindu milli ára í sérnámi, kröfum um að standast formleg próf eða hvort sérnámslæknir þurfi að ljúka vísinda- eða gæðaverkefni.

Ályktanir: Allar Norðurlandaþjóðir hafa innleitt sérnámskennslu í bráðalækningum. Þrátt fyrir að samfélögin séu náskyld er umtalsverður munur á því milli landanna hvernig staðið er að sérnámi í bráðalækningum. Íhuga ætti að skrifa og innleiða sameinaða marklýsingu og matskerfi um framgang til að nota í sérnámi á öllum Norðurlöndunum.

24. The adjuvants mmCT and dmLT confer vaccine dose sparing effects on protective antibody response in neonatal mice.

Jenny Lorena Molina Estupiñan1,2, Poorya Foroutan Pajoohian1,2, Jan Holmgren3, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Auður Anna Aradóttir Pind1,2

1Faculty of Medicine, School of Health Sciences, University of Iceland, 2Department of Immunology, Landspitali, the National University Hospital of Iceland, 3University of Gothenburg, Dept. Microbiology and Immunology, Institute of Biomedicine, Sahlgrenska Academy, and University of Gothenburg Vaccine Research Institute (GUVAX), Sweden.

jennyle@landspitali.is

Introduction: Childhood immunization give long term protection against many infectious diseases in young children, but multiple vaccinations are required. In many cases, vaccine demand exceeds vaccine production capacity. Adjuvants can enhance both magnitude and duration of immune responses and may reduce vaccine dose needed to induce protective immunity, allowing dose sparing and cost savings.

Aim: To assess the dose sparing effects of the adjuvants dmLT and mmCT on pneumococcal conjugate vaccine induction of antibody response in neonatal mice.

Methods: Neonatal mice were immunized subcutaneously with fractional doses of the pneumococcal conjugate vaccine Pn1-CRM197, (0.5, 0.75, 1 and 2 µg) with or without dmLT or mmCT compared with a full dose of Pn1-CRM197 (4 µg) without adjuvants. Pn1-specific IgG antibodies were measured by ELISA in serum collected biweekly up to 8 weeks after immunization.

Results: Antibody levels of neonatal mice immunized with full or fractional doses of Pn1-CRM197 were low. Inclusion of the adjuvants in the vaccine formulation significantly enhanced IgG antibody responses up to 8 weeks after immunization. Both mmCT and dmLT enhanced vaccine-specific IgG Abs elicited by fractional doses of Pn1-CRM197 compared with full dose of Pn1-CRM197 without an adjuvant. The dose sparing effect of mmCT was significant at all time points for all four fractional doses tested, down to 0.5 µg Pn1-CRM197, providing at least 8-fold sparing of the Pn1-CRM197 vaccine dose. The dose sparing effect of dmLT was significant at all time points for three of the fractional doses tested (2, 1 and 0.75 µg Pn1-CRM197) but only at the earlier timepoints (2 and 4 weeks after immunization) for 0.5 µg Pn1-CRM197, indicating that dmLT can promote dose sparing by reducing Pn1-CRM197 vaccine dose by at least 5-fold. Importantly, 2 µg Pn1-CRM197 with mmCT or dmLT induced protective antibody levels against bacteremia (91-75%) and pneumonia (45-50%) whereas 4 µg Pn1-CRM197 alone did not.

Conclusion: The adjuvants dmLT and mmCT enhanced the antibody response to low doses of the vaccine Pn1-CRM197, inducing protective levels in neonatal mice. Such approach may be a promising option for vaccine dose sparing and cost saving, in particular when vaccine supply is limited.

25. Keisarafæðingar og fylgikvillar nýbura á Íslandi á tímum aukinnar tíðni framkallana fæðinga

Jóhanna Gunnarsdóttir1,2, Emma M. Swift1,3, Jóhanna Jakobsdóttir1, Alexander Smárason4, Þórður Þórkelsson5, Kristjana Einarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, læknadeild Háskóla Íslands, 2kvennadeild, Landspítala, 3ljósmóðurfræði, hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands, 4heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri og Sjúkrahúsinu á Akureyri, 1nýburadeild, Landspítala

johagunn@hi.is

Inngangur: Þekkt er að tíðni framkallana fæðinga hefur aukist verulega síðustu ár hérlendis sem erlendis. Almennt er talið rétt að flýta fæðingu ef hættan á fylgikvillum móður er talin meiri við áframhaldandi meðgöngu en við fæðingu. Ábendingar framkallana eru missterkar og enn er tekist á um það hversu gagnlegt inngripið er fyrir mæður eða nýbura þegar hættan á fylgikvillum eru talin lítil. Sennilega má fækka andvana fæðingum með framköllun fæðinga þegar meðgangan lengist meira en viku fram yfir áætlaðan fæðingardag. Hins vegar er óljóst hvort framköllun fæðinga minnki fylgikvillahættu nýbura þegar börnin eru lifandi við upphaf fæðingar.

Tilgangur: Markmið rannsóknar var að skoða tíðni keisarafæðinga og fylgikvilla nýbura á tímabilinu 1997 til 2018 og meta hvort breytt tíðni gæti skýrst af aukningu á tíðni framkallana fæðinga.

Aðferðir: Gögn voru fengin frá Fæðingarskrá um fæðingar kvenna sem fóru af stað í sjálfkrafa sótt eða voru framkallaðar og fæddu einbura á tímabilinu 1997 til 2018 (n=85 971). Fylgikvillar nýbura voru eftirfarandi útkomur: Dauði í eða eftir fæðingu, fæðingaráverkar, apgar undir 7 við 5 mín, heilakvillar tengdir súrefnisskorti, lungnabólga, bakteríusótt, barnabikssvelging eða andnauð nýbura. Tíðni keisarafæðinga og fylgikvilla nýbura var reiknuð sem hlutföll af öllum fæðingum á fjórum tímabilum. Breyting á tíðni yfir tíma var metin með því að reikna hlutfallslega áhættu með tvíkosta aðhvarfsgreiningu þar sem tíðnin á fyrsta tímabilinu (1997 – 2001) var höfð til viðmiðunar. Leiðrétt var fyrir einkennum móður, meðgöngukvillum, framköllun fæðinga og meðgöngulengd.

Niðurstöður: Hlutfall framkallana af fæðingum kvenna sem létu reyna á fæðingu, jókst úr 13,6% á fyrsta tímabilinu upp í 28,1% á síðasta tímabilinu 2014-2018. Tíðni keisaraskurða lækkaði frá fyrsta til síðasta tímabils bæði meðal frumbyrja (aRR 0,76; 95% CI: 0,69 to 0,84) og fjölbyrja (aRR 0,55; 95% CI: 0,49 to 0,63). Tíðni fylgikvilla nýbura lækkaði einnig yfir rannsóknartímann úr 6,4% á fyrsta tímabilið niður í 5,3% síðasta tímabilið. Hlutfallsleg áhættulækkun keisarafæðinga og fylgikvilla nýbura breyttist lítið við leiðréttingu fyrir framköllun og meðgöngulengd.

Ályktun: Tíðni keisarafæðinga og neikvæðra útkoma nýbura lækkaði yfir rannsóknartímann en niðurstöðurnar styðja ekki að breytingarnar skýrist af aukningu í framköllunum fæðinga. Hins vegar gætu aðrar breytingar á fæðingarþjónustu og nýburalækningum yfir tíma skýrt bætta útkomu.

26. Lækkandi tíðni þungburafæðinga – skoðuð með hliðsjón af breyttu verklagi um framköllun fæðinga

Jóhanna Gunnarsdóttir1,2, Jónína Rún Ragnarsdóttir3, Matthildur Sigurðardóttir2, Kristjana Einarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, læknadeild Háskóla Íslands, 2kvennadeild, Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

johagunn@hi.is

Inngangur: Fæðingar þungbura auka hættuna á fylgikvillum eins og bráðakeisaraskurðum og fæðingaráverkum nýbura. Konur sem ganga fram yfir áætlaðan fæðingardag og konur með sykursýki eru líklegri til að fæða þungbura en aðrar konur. Framköllun fæðinga er nú valkostur þegar meðganga lengist meira en viku fram yfir áætlaðan fæðingardag, en áður var beðið í tvær vikur. Greiningarskilmerki meðgöngusykursýki voru hert árið 2012 og sú breyting fjölgaði bæði greiningum og framköllunum. Ofangreindar breytingar hafa aukið tíðni framkallana sem gæti fækkað börnum sem fæðast þungburar.

Tilgangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni þungburafæðinga á Íslandi með hliðsjón af fjölgun framkallana fæðinga. Tíðni þungburafæðinga var könnuð eftir meðgöngulengd. Hættan á þungburafæðingu við framköllun var borin saman við biðmeðferð, skilgreind sem fæðingar eftir lengri meðgöngu en í framköllunarhóp.

Aðferðir: Gögn Fæðingarskrár frá 92 424 fæðingum einbura á tímabilinu 1997 til 2018 voru nýtt í þessa ferilrannsókn. Barn með fæðingarþyngd yfir fjóru og hálfu kg var skilgreint sem þungburi. Meðaltíðni þungburafæðinga var reiknað fyrir þrjú tímabil 1997-2004, 2005-2011 og 2012-2018, lagskipt eftir meðgöngulengd. Hlutfallsleg áhætta þungburafæðinga var reiknuð með tvíkosta aðhvarfsgreiningu, seinni tvö tímabilin borin saman við það fyrsta. Hlutfallsleg áhætta þungburafæðinga við framköllun miðað við biðmeðferð var reiknuð fyrir fæðingar á tímabilinu 2012 til 2018 og leiðrétt fyrir aldri, bæri, ríkisfangi sykursýki.

Niðurstöður: Fjöldi þungbura sem fæddust á rannsóknartímabilinu var 5110 og af þeim áttu einungis 313 mæður með sykursýki. Flestir þungburar fæddust við eða eftir áætlaðan fæðingardag við 40 vikur. Framköllun fæðinga meðal kvenna án sykursýki jukust frá og með miðju rannsóknartímabilinu en fjölgun framkallana meðal kvenna með sykursýki varð upp úr 2014. Tíðni þungburafæðinga var 6,5% fyrsta tímabilið 1997-2004, 5,3% annað tímabilið og 4,6% síðasta tímabilið 2012-2018. Hlutfallsleg áhættulækkun þungburafæðinga sást fyrir 2012 og einungis meðal fæðinga frá og með áætluðum fæðingardegi. Þegar framköllun fæðinga var borin saman við biðmeðferð mátti sjá áhættulækkun á þungburafæðingum, en áhrifin voru til staðar jafnvel þó leiðrétt væri fyrir sykursýki.

Ályktun: Tíðni þungburafæðinga fór lækkandi síðastliðna tvo áratugi, en aðeins lítill hluti þungburanna áttu mæður með sykursýki. Framköllun fæðinga minnkaði líkur á þungburafæðingum en slík verndandi áhrif virtust óháð sykursýkigreiningu.


 

27. Öndunarvélatengdur lungnaskaði: Er oxunarálag í fyrirrúmi?

Jón Pétur Jóelsson1, Sævar Ingþórsson1, Snævar Sigurðsson1, Jennifer Kricker1, Bryndís Valdimarsdóttir1, Árni Ásbjarnarson1, Hólmfríður Þórarinsdóttir1, Eir Starradóttir1, Þórarinn Guðjónsson1,2, Sigurbergur Kárason1,3

1Lífvísindasetri, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2rannsóknakjarna blóðmeinafræði, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

skarason@landspitali.is

Inngangur: Meðferð í öndunarvél léttir vinnu öndunarvöðva, styður við loftskipti og er lífsbjargandi þáttur í meðferð alvarlegra veikra sjúklinga. Óvarleg öndunarvélarmeðferð getur hins vegar leitt til óhóflegs þrýstings- og slitálags á lungnavef og framkallað bólgusvar, sem er nefnt öndunarvélatengdur lungnaskaði (ÖTL) (e. Ventilator-induced lung injury, VILI) og leitt til aukinnar dánartíðni. Markmið þessarar rannsóknar var að þróa staðlað ÖTL-módel í músum og rannsaka áhrif á bólgusvörun, lífeðlisfræðilegar breytingar í lungum, oxunarálag og genatjáningu í þeim tilgangi að nýta módelið síðan til að kanna svörun við meðferðum gegn ÖTL.

Aðferðir: Hjá fjórum 12 músa hópum kvenkyns C57BL/6 músa var lögð barkaraufarrenna í svæfingu. Einn hópur var notaður til viðmiðunar og fórnað strax eftir aðgerð en svæfingu viðhaldið áfram í hinum þremur og veitt misskaðleg öndunarvélarmeðferð með 10, 20 og 30 mL/kg andrýmd (e.tidal volume) í fjórar klukkustundir. Þeim var þá fórnað og sýnum safnað.

Niðurstöður: Hærri andrýmd leiddi til aukins styrks próteina í lungnaskoli (Bronchoalveolar lavage), ásamt aukins magns IL-6 bólgumiðils. Rafeindasmásjármyndir sýndu stækkun hvatbera eftir öndunarvélameðferð. RNA raðgreining á lungnavefjum sýndi skýra aukningu í ferlum tengdum oxunarálagi og glutathione framleiðslu eftir því sem andrýmd jókst.

Ályktun: Þetta er fyrsta skrefið í þróun staðlaðs ÖTL-músamódels. Hærri andrýmd leiddi til aukins þekjubrests sem kom fram í auknu bólgusvari og gegndræpi fyrir próteinum. Genabreytingar sem komu fram benda til stærra hlutverks oxunarálags í ÖTL en almennt hefur verið talið. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til verndandi áhrifa sameindarinnar glutathione gegn slíku oxunarálagi, sem mögulega gæti opnað nýja meðferðarmöguleika gegn ÖTL.

 

28. Hin hverfula íferð: neðri öndunarfærasýkingar án íferða á lungnamynd

Kristján Godsk Rögnvaldsson1, Agnar Bjarnason1,2, Inga Sif Ólafsdóttir1,2, Kristján Orri Helgason1, Aðalsteinn Guðmundsson1,2, Magnús Gottfreðsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala

magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir á sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús vegna samfélagslungnabólgu (SL) krefjast langflestar staðfestingar á íferð í lungum með röntgenmynd. Í reynd eru sjúklingar hins vegar oft lagðir inn vegna gruns um lungnabólgu þrátt fyrir skort á íferðum á lungnamynd. Hörgull er rannsóknum á þessum hópi sem hefur einkenni lungnabólgu en er án íferða (LÁÍ).

Markmið: Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að kanna hvort munur væri á dánartíðni tilfella sem höfðu LÁÍ samanborið við SL eftir 30 daga eða 1 ár. Önnur markmið snéru að því að bera saman klíníska birtingarmynd tilfella með SL annars vegar og LÁÍ hins vegar.

Aðferðir: Sjúklingum sem grunaðir voru um SL var boðin þátttaka við innlögn á Landspítala á eins árs tímabili 2018-2019. Rannsóknin er lýðgrunduð þar sem Landspítali er eina sjúkrahúsið á höfuðborgarsvæðinu. Tilfelli sem höfðu tvö eða fleiri einkenni lungnabólgu var boðin þátttaka.

Niðurstöður: Rannsóknarúrtakið samanstóð af 623 tilfellum (miðgildi aldurs var 75 ár og 215 [51%] var kvenkyns), 405 með SL og 218 með LÁÍ. Nýgengi innlagna SL var 23,2 og LÁÍ 12,5 fyrir hverja 10,000 fullorðna á ári. Sjúklingar með SL voru líklegri til að hafa hita (≥38,0°C) (66,8% og 49,3%, p<0.001), hærra CRP (miðgildi 107 og 41, p<0,001), Streptococcus pneumoniae (18,1% og 5,8% af þeim sem voru prófaðir, p=0,002) og að fá sýklalyfjameðferð (99,8% á móti 86,7%, p<0,001) en ólíklegri til að greinast með öndunarfæraveiru (26,0% á móti 50,6% af þeim sem voru prófaðir, p=0,003). Leiðrétt gagnlíkindahlutfall LÁÍ miðað við SL fyrir 30 daga dánartíðni var 0,76 (95% CI 0,35-1,67) og 1,22 (95% CI 0,76-1,94) fyrir 1 árs dánartíðni.

Ályktun: LÁÍ er algeng orsök sjúkrahúsinnlagna. Þrátt fyrir vægari birtingarmynd LÁÍ er dánartíðni sjúklinga svipuð og í SL. Þetta gæti skýrst af lélegu næmi lungnamynda til greiningar lungnabólgu eða því að færri sjúklingar í LÁÍ hópnum fá meðferð gegn viðeigandi sýkingarvaldi.

29. Meðferðarheldni við lyfjameðferð kransæðasjúkdóms eftir kransæðahjáveituaðgerð

Leon Arnar Heitmann1, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir1,2, Freyja Jónsdóttir3, Tómas Guðbjartsson1,4, Martin Ingi Sigurðsson1,5

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild Landspítala, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 4hjarta- og lungnaskurðdeild, 5svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

leonheitmann97@gmail.com

Inngangur: Lyfjameðferð við kransæðasjúkdómi er nauðsynleg í kjölfar kransæðahjáveituaðgerðar. Við kortlögðum meðferðarheldni við statín, beta-blokka og hemla á renín-angíótensín kerfið (RAS) í kjölfar kransæðahjáveituaðgerðar og greindum þætti sem tengjast ómeðferðarheldni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sem undirgengust kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala árin 2007 til 2018, alls 1536. Upplýsingar um lyfjanotkun fengust úr Lyfjagagnagrunni landlæknis og aðrar sjúklingatengdar upplýsingar úr Íslenska aðgerðargrunninum. Meðferðarheldni var mæld með hlutfalli daga sem sjúklingur hafði fræðilegt aðgengi að lyfi (proportion of days covered, PDC) fyrstu tvö árin eftir aðgerð. Meðferðarheldni var skilgreind sem PDC yfir 80%, en ómeðferðarheldni sem PDC undir 50%. Aðhvarfslíkan var notað til að skilgreina þætti sem tengdust ómeðferðarheldni.

Niðurstöður: Meðferðarheldni innan tveggja ára frá aðgerð var 39,2% fyrir statín, 36,9% fyrir beta-blokka og 30,1% fyrir RAS hemla. Ómeðferðarheldni var 14,4% fyrir statín, 25,9% fyrir beta-blokka en 43,6% fyrir RAS hemla. Áhættuþættir tengdir ómeðferðarheldni voru hærri hrumleikastigun (Statín; GH: 2,29, ÖB: [1,02, 4,86], RAS hemlar; GH: 2,06, ÖB: [1,04, 4,04]), ósæðarlokuskipti samhliða kransæðahjáveituaðgerð (Statín; GH: 1,64, ÖB: [1,11, 2,38], RAS hemlar; GH: 1,78, ÖB: [1,26, 2,52]) og ný ávísun fyrir lyfi í kjölfar aðgerðar (Statín; GH: 2,87, ÖB: [2,06, 4,01], Beta-blokkar GH: 1,70, ÖB: [1,32, 2,18], RAS hemlar; GH: 6,95, ÖB: [5,27, 9,25]).

Ályktanir: Ómeðferðarheldni við statín, beta-blokka og RAS hemla eftir kransæðahjáveituaðgerð er algeng. Sérlega ætti að huga að nánu eftirliti og aukinni fræðslu um þátt lyfjameðferðar í kjölfar aðgerðar meðal hrumra og fjölveikra einstaklinga og þeirra sem undirgangast aðgerð samtímis greiningu kransæðasjúkdóms.

 

30. Newborn Screening for Cystic Fibrosis in Iceland; A Pilot Study

Lizette Marchadesch1, Leifur Franzson2,3, Saga Rúnarsdóttir2

1Rannsóknakjarna Fossvogi, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild, Landspítala, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands

lizettec@landspitali.is

Introduction: Cystic fibrosis (CF) is the most frequent life-shortening autosomal recessive disease which is diagnosed through newborn screening (NBS). Prior to starting a NBS program for CF, it is vital to have a fail-safe procedure to minimize avoidable risks and maximize benefits.

Aim: The objective of this pilot study is to establish the feasibility of newborn screening for cystic fibrosis in Iceland in order to provide a reliable screening process.

Methods: Newborn screening for cystic fibrosis is performed by measuring Immunoreactive Trypsinogen (IRT) with an immunoassay, using the PerkinElmer Delfia IRT kit. A total of 4520 stored dried blood spots from the year 2020 were tested and used as a study population. The association between IRT concentrations and study variables, birthweight, gestational age, age at sampling, length, gender, and season using IBM SPSS statistics 27.01.1 and R software 4.0.5 at 5% level of significance were evaluated.

Results: The calculated incidence of cystic fibrosis in Iceland is 1:9,713 based on number of births from 1955 to 2020. On the first screening of IRT, 62 samples were above cutoff level (50 ng/mL). But upon reassaying from the same DBS, 58 samples remain elevated. No newborn was diagnosed with CF in 2020. Elevated IRT level could be however false positives due to CF carriers or perinatal and demographic factors which showed statistically significant association to IRT. Factors which were significant to IRT concentration were gestational age, age at sampling and birthweight (p-values are <0.001, 0.027, and 0.022 respectively). Seasonal variation was also statistically significant to IRT concentration with a p-value of <0.001.

Conclusion: An implementation of IRT measurement using PerkinElmer as a first-tier test in NBS for CF is an acceptable strategy. This study further recommends that gestational age, age at sampling, birthweight and season of birth be considered as optimal adjustment factors in IRT testing.

31. Nýgengi bláæðasega í kjölfar bæklunar- og kviðarholsskurðaðgerða á Landspítala árin 2010-2020

Margrét I. Daðadóttir1, Ingibjörg Gunnþórsdóttir1,4 , Martin I. Sigurðsson2,3, Anna I. Gunnarsdóttir1,4, Hjörtur F. Hjartarson2, Páll H. Möller2,3

1Lyfjafræðideild, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3aðgerðasviði, 4lyfjaþjónustu Landspítala

pallm@landspitali.is

Inngangur: Skurðaðgerðir eru einn af áhættuþáttum fyrir myndun bláæðasega. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að oft á tíðum er fyrirbyggjandi blóðþynningarmeðferð ábótavant. Á Íslandi hefur nýgengi bláæðasega í kjölfar bæklunar- eða kviðarholsskurðaðgerða og hvort verið sé að fara eftir klínískum leiðbeiningum varðandi fyrirbyggjandi blóðþynningu lítið verið rannsakað.

Markmið: Að kanna nýgengi bláæðasega eftir bæklunar- eða kviðarholsskurðaðgerðir á Landspítala, áhrif undirliggjandi áhættuþátta og afdrif sjúklinga í kjölfar greiningar. Einnig að skoða hvort fyrirbyggjandi blóðþynningarmeðferð í kringum skurðaðgerðir var í samræmi við vinnureglur Landspítala og klínískar leiðbeiningar frá NICE.

Aðferðir: Aftursýn lýsandi rannsókn þar sem þátttakendur voru sjúklingar sem undirgengust bæklunar- eða kviðarholsskurðaðgerð á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2020 og greindust með bláæðasega innan 90 daga frá skurðaðgerð. Rannsóknin var byggð á gögnum frá Landspítala og lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis.

Niðurstöður: Alls voru 156 sjúklingar sem greindust með bláæðasega. Árlegt nýgengi bláæðasega í kjölfar bæklunarskurðaðgerða var 3,3 á hverjar 1.000 skurðaðgerðir og 2,3 á hverjar 1.000 skurðaðgerðir í kjölfar kviðarholsskurðaðgerða. Sjúklingar með ábendingu fyrir fyrirbyggjandi blóðþynningarmeðferð samkvæmt vinnureglum Landspítala fengu meðferð í 93% tilfella. Af þeim sjúklingum sem fengu fyrirbyggjandi blóðþynningarmeðferð voru 63% sjúklinga sem fengu ekki meðferð í samræmi við vinnureglur Landspítala og 73% sjúklinga sem fengu ekki meðferð í samræmi við klínískar leiðbeiningar frá NICE. Í flestum tilfellum var meðferðarlengd fyrirbyggjandi blóðþynningarmeðferðar ekki í samræmi við leiðbeiningar.

Ályktanir: Nýgengi bláæðasega í kjölfar bæklunar- og kviðarholsskurðaðgerða á Landspítala var lágt sem bendir til þess að árangur Landspítala í forvörnum gegn bláæðasega sé góður. Hins vegar fékk hátt hlutfall sjúklinga ekki meðferð í samræmi við vinnureglur Landspítala og klínískar leiðbeiningar frá NICE sem sýnir að svigrúm er til úrbóta hvað varðar fyrirbyggjandi blóðþynningarmeðferð.

32. Kerfislæg æðakölkun orsakar skerðingu á blóðflæði til heila

Maríanna Garðarsdóttir1,3, Sigurður Sigurðsson2, Thor Aspelund2,3, Davíð O. Arnar1,3, Vilmundur Guðnason2,3

1Landspítala, 2Hjartavernd, 3Háskóla Íslands

marianna@landspitali.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir okkar hafa sýnt skert blóðflæði til heila hjá einstaklingum með gáttatif auk langvarandi áhrifa á heilarúmmál og skerta vitræna getu. Áhrifin voru meiri þegar um langvinnt gáttatif var að ræða og voru þau óháð heilaáföllum. Æðakölkun er hjarta- og æðasjúkdómur sem eykst með hækkandi aldri og hefur áhrif á sömu þætti og því er áhugavert að bera saman áhrif æðakölkunar og gáttatifs á heilablóðflæði. Stífleiki í ósæð metur æðakölkun í líkamanum og þannig er hægt að skoða samband æðakölkunar, metið með stífleika ósæðar, og heilablóðflæðis. Aukinn stífleiki í ósæð veldur auknum þrýstingi í háræðaneti heilans þar sem þrýstingsbylgjan frá ósæð dofnar síður á mótum ósæðarinnar og hálsslagæðanna. Þá berst óhófleg þrýstingsbylgjuorka út í smáæðar heilans sem veldur skemmdum á háræðanetinu og heilavef og vitrænni skerðingu.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman áhrif æðakölkunar og gáttatifs á heilablóðflæði með róteindamerktri blóðflæðismælingu og kanna þannig hvort æðakölkun metin með stífleika í ósæð hafi sömu áhrif og áður þekkt áhrif gáttatifs.

Aðferðir: Stífleiki í ósæð var metinn hjá 261 einstaklingi í afkomendarannsókn Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar (meðalaldur 63±4 ár) með þrýstingsnema í háls-, handleggs- úlnliðs- og náraslagæðum og afleidd þrýstingsbylgja (AÞB) reiknuð. Gegnumstreymi blóðs um heila var mælt í segulómun með róteindamerkti blóðflæðismælingu og magnbundnar myndir af gráa og hvíta vef heilans sem og af öllum heilanum metnar.

Niðurstöður: Þátttakendum var skipt í tvo hópa eftir miðgildi AÞB, 8,6 m/sek. Hópurinn með hærri AÞB hafði marktækt lægra heilablóðflæði samanborið við hópinn með lægri AÞB. Gegnumstreymi um allan heila var 46,1±9,8 samanborið við 50,7±9,6 ml/100g/mín (p<0,001), um gráa vef 51,4±11,2 samanborið við 56,5±10,9 ml/100g/mín (p<0.001) og um hvítan vef 38,8±7,9 samanborið við 42,6±8,0 ml/100g/mín (p<0,001). Hærri AÞB tengdist lægra gegnumstreymi blóðs í öllum heila, gráa og hvíta vef heilans eftir að leiðrétt var fyrir aldri, kyni og hjartsláttartíðni (p<0,05).

Ályktun: Aukinn stífleiki ósæðar tengist marktækt lægra blóðflæði til heila, óháð öðrum mögulegum truflandi þáttum. Þessi áhrif eru sambærileg við þau áhrif sem gáttatif hefur á heilablóðflæði.

 

33. SARS-CoV-2 sértækt T-frumusvar eftir COVID-19

Marít Grímsdóttir2, Hildur Sigurgrímsdóttir1,2, Siggeir F. Brynjólfsson1,2, Björn R. Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

maritg@landspitali.is

Inngangur. Heimsfaraldur af völdum kórónuveirunnar SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19 sjúkdómi hefur geisað frá árinu 2020. Á Íslandi hafa 158.533 manns greinst með COVID-19 og 79 manns látist af völdum veirunnar frá því í febrúar 2020. T-frumur sem taka þátt í frumubundnu ónæmissvari eru flokkaðar í T-hjálparfrumur (CD4+ T-frumur) og T-drápsfrumur (CD8+ T-frumur). Þær eru einnig flokkaðar eftir þeim boðefnum sem þær seyta í ónæmissvari gegn sýklum af mismunandi gerðum, í veirusýkingum er Th1 svar ráðandi og einkennist af IFN-γ tjáningu.

Markmið. Að kanna sértækt minnissvar T-frumna hjá einstaklingum sem hafa náð bata eftir SARS-CoV-2 sýkingu, allt að 17 mánuðum frá sýkingu.

Aðferðir. Rannsóknarþýðið samanstendur af einstaklingum með fyrrum, PCR greinda, SARS-CoV-2 sýkingu. Einkjarna hvítfrumur voru einangraðar úr heilblóði 45 einstaklinga og ræstar með einu SARS-CoV-2 sértæku veirupróteini (S1, RBD, N), öllum blönduðum saman eða PHA. Innanfrumulitun var framkvæmd og litað var fyrir CD3+, CD4+ og CD8+ T-frumum auk IFN-γ, IL-2, IL-6 og TNF-α. Frumurnar voru greindar á frumuflæðisjá. Ræsingarstuðull (e. Stimulation index, SI) var notaður við mat á svari ræstra frumna miðað við bakgrunnssvar óræstra frumna. Jákvæð svörun var skilgreind ef SI≥1.2.

Niðurstöður. 44 af 45 einstaklingum í rannsókninni sýndu jákvæða T-frumusvörun eftir ræsingu með a.m.k. einu SARS-CoV-2 próteini. Algengasta SARS-CoV-2 sértæka bólguboðefnasvarið var TNF-α tjáning CD4+ T-frumna eftir ræsingu með S1-veirupróteini (93.0%). Tjáning TNF-α hjá SARS-CoV-2 sértækum CD4+ T-frumum er einnig marktækt hærri en tjáning þeirra á öðrum bólguboðefnum (p<0.05), að undanskildri IL-2 tjáningu CD4+ T-frumna eftir ræsingu með RBD-próteini. Þegar sértæk T-frumusvörun var skoðuð m.t.t. aldurs sýndu eldri einstaklingar (>65 ára) marktækt hærri IL-6 tjáningu CD8+ T-frumna við ræsingu með N-veirupróteini (P=0.0243) og blönduðum veirupróteinum (P=0.0274). Þegar þýðinu var skipt eftir kynjum sýndu karlar hærri IFN-γ tjáningu CD4+ T-frumna við ræsingu með N-veirupróteini (P=0.0349).

Ályktun. T frumu minnissvar gegn SARS-CoV-2 veirupróteinum er til staðar allt að 17 mánuðum frá upphaflegri sýkingu. Helsta T-frumuminnissvar gegn SARS-CoV-2 er hjá CD4+ T-frumum sem seyta TNF-α. Einstaklingar yfir 65 ára aldri hafa sterkara CD8+ T-frumusvar og karlar sýna meira Th1 svar.


34. Is it possible to expand immune response in early life by heterologous prime-boost strategy?

Poorya Foroutan Pajoohian1,2, Jenny Lorena Molina Estupiñan1,2, Auður Anna Aradottir Pind1,2, Dennis Christensen3, Jan Holmgren4, Thorunn A. Olafsdottir5, Ingileif Jonsdottir1,2, Stefania P. Bjarnarson1,2

1Faculty of Medicine, School of Health Sciences, University of Iceland, 2Department of Immunology, Landspitali, the National University Hospital of Iceland, 3Statens Serum Institute, Copenhagen, Denmark, 4University of Gothenburg, Dept. Microbiology and Immunology, Institute of Biomedicine, Sahlgrenska Academy, and University of Gothenburg Vaccine Research Institute (GUVAX), Sweden, 5deCODE genetics, Reykjavík, Iceland

pooryaf@landspitali.is

Introduction: Most pathogens enter the body through mucosal surfaces. Immunoglobulin A (IgA) is a key element in this first line of defense and IgG is critical for killing of most bacteria.

Aim: The aim of the study is to show if heterologous route prime-boost strategy induces strong mucosal and systemic antibody response and antibody secreting cells (AbSC) in early life.

Methods: Neonatal mice (7 day old) were immunized with 0.5µg Pnc1-CRM197 pneumococcal conjugate vaccine using a heterologous subcutaneous (s.c.) and intranasal (i.n.) prime-boost strategy. The adjuvant CAF01 was used for s.c. priming and 1µg or 2µg the mucosal adjuvant mmCT for i.n. or s.c. booster 16 days later and compared with homologous route s.c. priming with Pn1-CRM197 and CAF01 and s.c. booster with Pn1-CRM197 and mmCT.

Results: Preliminary results show that 7-35 days after booster Pn1-specific IgG level in serum and lung homogenates was higher after homologous route immunization, but Pn1-specific IgA level in serum and lung homogenates was comparable between heterologous and homologous route immunization. Moreover, Pn1-specific IgA level in saliva was high after heterologous route immunization but undetectable after homologous route immunization. Homologous prime-boost induced higher number of Pn1-specific IgG AbSCs in spleen, BM, and inguinal lymph nodes (ILNs), whereas heterologous and homologous prime-boost induced comparable number of Pn1-specific IgG AbSCs in cervical LNs (CLNs). Heterologous and homologous prime-boost induced similar number of Pn1-specific IgA AbSCs in spleen and ILNs, whereas heterologous prime-boost with 1µg of mmCT induced higher numbers of Pn1-specific IgA AbSCs in CLNs.

Conclusion: The results suggest that heterologous route prime-boost strategy for Pn1-CRM197 priming with CAF01 and booster with mmCT induce comparable production and persistence of Pn1-specific IgA AbSCs but not beneficial for systemic or local IgG response in early life.


 

35. Næringarástand inniliggjandi sjúklinga með COVID-19 á Íslandi

Sandra Dögg Guðnadóttir1, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Jenný Kaaber2, Áróra Rós Ingadóttir1,2

1Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, 2næringarstofu Landspítala

aroraros@lsh.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir benda til að tengsl séu á milli næringarástands sjúklinga og alvarleika COVID-19 kransveirusjúkdóms, lengri legutíma og aukinni tíðni dauðsfalla. Þetta samband hefur ekki verið rannsakað hérlendis.

Markmið: Að meta næringarástand inniliggjandi sjúklinga með COVID-19 á Íslandi. Leitast var við að svara eftirfarandi spurningum.

1. Hver er tíðni áhættu á vannæringu hjá inniliggjandi COVID-19 sjúklingum á Íslandi?

2. Tengist áhætta á vannæringu legutíma >7 daga, gjörgæsluinnlögnum og dánartíðni?

Aðferðir: Um er að ræða lýsandi afturskyggna rannsókn. Þátttakendur eru sjúklingar sem lögðust inn á Landspítala með COVID-19 í fyrri bylgjum sjúkdómsins, 28. febrúar 2020 til 19. mars 2021 (n=273). Upplýsingar um þátttakendur sóttar í sjúkraskrá. Niðurstöður eru birtar með lýsandi tölfræði og tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl milli áhættu á vannæringu samkvæmt gildismetnu skimunareyðublaði (0-2 stig; litlar líkur á vannæringu, 3-4 stig; ákveðnar líkur á vannæringu, ≥5 stig; sterkar líkur á vannæringu) og legutíma >7 daga, gjörgæsluinnlögnum og dánartíðni á meðan á sjúkrahúsdvöl stóð.

Niðurstöður: Samkvæmt skimunareyðublaði voru sterkar líkur á vannæringu meðal 85 (31%) sjúklinga sem lögðust inn með COVID-19, 116 (43%) með ákveðnar líkur en litlar líkur voru á vannæringu meðal 72 (26%) sjúklinga. Legutími var marktækt lengri hjá sjúklingum með sterkar líkur á vannæringu (19,5 dagar) borið saman við sjúklinga með ákveðnar líkur (9,6 dagar) og litlar líkur á vannæringu (3,7 dagar), p=<0,001. Sjúklingar með sterkar líkur á vannæringu voru einnig líklegri til að liggja >7 daga á spítala (p=<0,001), eftir leiðréttingu fyrir aldri, kyni og skráðum fylgisjúkdómum (sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum, lungnasjúkdómum og nýrnasjúkdómum). Alls lögðust 28 sjúklingar með sterkar líkur á vannæringu inn á gjörgæslu en enginn með litlar líkur á vannæringu. Líkur á dauðsföllum virtust einnig meiri meðal sjúklinga með sterkar líkur á vannæringu borið saman við sjúklinga með litlar líkur (OR: 22; 95% CI: 2,85-167,2; p=0,003), en eftir leiðréttingu fyrir aldri var munurinn ekki lengur tölfræðilega marktækur (OR: 7; 95% CI: 0,87-59,84; p=0,067).

Ályktun: Sterkar líkur á vannæringu hjá inniliggjandi sjúklingum með COVID-19 tengist lengri legutíma og meiri líkum á sjúkrahúsdvöl lengur en 7 daga. Niðurstöðurnar eru í samræmi við rannsóknir á ýmsum öðrum sjúklingahópum.

36. Aðferðir við mælingar á mænu- og vöðvaviðbrögðum

Sara Kristinsdóttir1,2, Arndís Þóra Þórisdóttir1,2, Linda Björk Halldórsdóttir1,2, Þórður Helgason1,2

1Heilbrigðistæknisetri Háskólans í Reykjavík, 2Landspítala

sarak17@ru.is

Inngangur: Nýgengi mænuskaða á Íslandi er um 5.3 á ári og þjást iðulega af síspennu (spasma) sem takmarkar lífsgæði þeirra verulega.

Markmið: Markmið fyrirliggjandi verkefnis er að þróa aðferðafræði til nákvæmnar tímamælingar milli atburða í mænuviðbragðsprófum sem og að þróa forskrift til úrvinnslu merkja. Niðurstöður mælinga hjá einstaklingum með og án miðtaugaskaða eru bornar saman til að kortleggja frávik í kjölfar skemmda á miðtaugakerfi (MTK).

Aðferðir: Mæliuppsetning með vöðvaritsrásum samfasaðar við raförvun annars vegar og hamar til að áreita hnéskeljarsin hins vegar er hönnuð og prófuð. Mælingar voru gerðar á einstaklingum með og án miðtaugaskaða. Hver einstaklingur var prófaður með teygjuviðbragðsprófi (patellar reflex test) á lærvöðvum, með raförvun á aftari taugarótum mænu við T11-T12 og þremur staðalhreyfiprófum (10m walk, time up and go, 5x sit to stand). EMG og heilarit (EEG) voru tekin í öllum tilfellum auk liðarhorns samfasað við snertingu hæls og gólfs. Þessi gögn voru greind m.t.t tíma á milli einstakra atburða. Hver mæling var endurtekin oft hjá hverjum einstaklingi, allt að 200x, til að grundvöllur sé fyrir tölfræðilegri greiningu.

Matlab R2020a var notað til að forvinna gögnin með tilheyrandi síum og búa til úrvinnslu forskrift svo hægt sé að lesa úr gögnum og koma með niðurstöður.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar er aðferðafræði til mælingar á vöðvariti meðan mæna er raförvuð eða slegið á patellar sin. Niðurstaðan er einnig úrvinnsluaðferð til rannsókna á mónosynaptíska viðbragðshringnum (H-viðbragð). Þá liggur fyrir gagnagrunnur vegna mælinga á ungum heilbrigðum (27) einstaklingum auk mænuskaða (2). Niðurstöður tilviksrannsókna sýna að teygjuviðbragðið hjá C6 mænuskaða eftir slys seinkar um 23% en eftir krabbamein við T3 styttist tíminn um 34%.

Ályktanir: Fyrir liggur prófuð úrvinnsluaðferð fyrir samanburð á merkjum vöðva þegar áreitt er með patellar höggi eða með raförvun á aftari taugarætur. Einnig viðmiðunargagnagrunnur heilbrigðara einstaklinga auk tveggja mænuskaða. Vænta má einkennandi munar á viðmiðunargögnum og frá ýmsu miðtaugakerfissköðum.

 

37. Árangur hugrænnar atferlismeðferðar fyrir háskólanemendur sem greindir hafa verið með ADHD

Sylvía Ingibergsdóttir1,2, Eiríkur Örn Arnarson1, Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir1

1Háskóla Íslands, 2Landspítala

sylviai@landspitali.is

Inngangur: Athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD) getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf og haft hamlandi áhrif á bæði nám og starf. Lyfjameðferð hefur oft verið eina meðferðarúrræðið fyrir ungt fólk sem greinst hefur með ADHD. Lyfjameðferð gagnast hins vegar ekki hluta þessa hóps. Sjónir manna hafa í vaxandi mæli beinst að mikilvægi viðtalsmeðferðar.

Markmið: Að meta árangur af hugrænni atferlismeðferð (HAM) fyrir háskólanemendur sem greindir hafa verið með ADHD, ásamt því að meta áhrif meðferðarinnar á ósjálfráðar neikvæðar hugsanir, sjálfsvirðingu, almenna líðan og þunglyndi.

Aðferðir: Rannsóknin er slembiröðuð meðferðarprófun. Þátttakendur voru 73 háskólastúdentar sem höfðu verið greindir með ADHD og var þeim raðað með slembiúrtaki í hóp sem fékk inngrip og hóp sem fór á biðlista. Auglýst var eftir þátttakendum í tveimur háskólum á Íslandi og þeim boðin hugræn atferlismeðferð við ADHD. Meðferðin var veitt í hóptímum einu sinni í viku í sex vikur, 90 mínútur í senn.

Niðurstöður: Hjá meðferðarhópnum var marktæk lækkun á fyrir og eftir prófun á kvörðum sem mældu ADHD einkenni, þunglyndiseinkenni og ósjálfráðar neikvæðar hugsanir. Marktæk lækkun var á kvarða sem mælir almenna líðan, til marks um betri líðan. Einnig var marktæk hækkun á kvarða sem mælir sjálfsvirðingu. Hjá samanburðarhópnum urðu ekki marktækar breytingar á fyrir og eftir prófun á neinum af þeim kvörðum sem notaðir voru. Einnig var marktækur munur á hópunum tveimur þegar þeir voru bornir saman hvað varðar breytingar á öllum kvörðum.

Ályktun: Niðurstöður benda til þess að HAM hópmeðferð við ADHD gagnist háskólastúdentum sem greindir hafa verið með ADHD. Geðhjúkrunarfræðingar ættu að þróa og veita meðferð við geðrænum vandamálum í samfélaginu, þar með talið taugaþroskaröskunum. Þannig mætti koma til móts við óuppfylltar þarfir í heilbrigðisþjónustunni.

38. Súrefnismettun í sjónhimnuæðum við væga vitræna skerðingu eða Alzheimersjúkdóm

Védís Helgadóttir1, Margrét Sturludóttir2, Sveinn Hákon Harðarson1, Þórunn Scheving Elíasdóttir3,4, Jón Snædal3, Ólöf Birna Ólafsdóttir1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Domus Medica, 3Landspítala, 4hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

vedishe@landspitali.is

Inngangur: Algengi Alzheimersjúkdómsins í heiminum fer sífellt vaxandi með hækkandi aldri mannkyns. Væg vitræn skerðing er oft undanfari Alzheimersjúkdómsins og einstaklingar með væga vitræna skerðingu eru líklegri en aðrir til þess að þróa með sér Alzheimer síðar meir. Mikilvægt er að finna nýja lífvísa fyrir Alzheimersjúkdóminn til að gera greiningu sjúkdómsins greiðari og til að spá fyrir um framvindu vægrar vitrænnar skerðingu í Alzheimer. Þar sem sjónhimnan er af sama fósturfræðilega uppruna og heilinn þá gæti súrefnismettun í sjónhimnuæðum verið mögulegur lífvísir Alzheimersjúkdómsins.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar er að bera saman súrefnismettun í sjónhimnuæðum hjá einstaklingum með mismikla hrörnun í miðlægum hluta gagnaugablaðs heilans.

Aðferðir: Scheltensskalinn er skali frá 0 til 4 sem er notaður til að meta segulómunarmyndir með tilliti til hrörnunar í miðlægum hluta gagnaugablaðsins. Hækkandi stig gefa til kynna aukna hrörnun í miðlæga gagnaugablaðinu. 77 einstaklingum með væga vitræna skerðingu eða Alzheimer var skipt í tvo hópa eftir því hversu mikil hrörnun í heila var. Annar hópurinn var með hrörnun sem samsvaraði 0-1,5 stigum á Scheltensskalanum en hinn með hrörnun sem samsvaraði 2-4 stigum. Súrefnismettun í sjónhimnuæðum og æðavídd var borin saman milli hópanna tveggja.

Niðurstöður: Súrefnismettun í slagæðlingum var lægri í einstaklingum með 2-4 Scheltensstig heldur en í einstaklingum með 0-1,5 stig (93,7 ± 2,4 % á móti 95,8 ± 3,7 %, p=0,0054, n (samtals) = 77). Enginn marktækur munur var á súrefnismettun í bláæðlingum milli hópanna (p=0,25). Æðavídd í slagæðlingum var lægri í einstaklingum með 2-4 stig heldur en í einstaklingum með 0-1,5 stig (8,3 ± 0,7 pixlar á móti 8,8 ± 0,8 pixlar, p=0,025, n (samtals) = 77). Enginn marktækur munur var á æðavídd bláæðlinga milli hópanna (p=0,073).

Ályktun: Súrefnismettun og æðavídd slagæðlinga í sjónhimnu eru lægri í einstaklingum með meiri hrörnun í miðlægu gagnaugablaði heilans. Þessar niðurstöður benda til þess að súrefnismettun í sjónhimnuæðum gæti verið mögulegur lífvísir í vægri vitrænni skerðingu og Alzheimersjúkdómnum.

39. Þróun bólgusvars í COVID-19 sjúkdómi

Þóra Óskarsdóttir1, Elías Sæbjörn Eyþórsson2, Runólfur Pálsson1,3, Martin Ingi Sigurðsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3lyflækningasviði Landspítala

martin@landspitali.is

Inngangur: COVID-19 vegna SARS-CoV-2 veldur í sumum tilfellum alvarlegum einkennum sem tengjast yfirdrifnu bólgusvari líkamans en lítið er vitað um þróun bólgusvars dögum fyrir sjúkrahúsinnlögn.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa myndrænt þróun lífmerkja sem tengjast bólgusvari miðað við tíma frá upphafi veikinda hjá sjúklingum sem höfðu mismunandi klíníska útkomu.

Aðferðir: Rannsóknin náði til allra þeirra sem greindust SARS-CoV-2 jákvæðir á Íslandi frá 28. febrúar til 31. desember 2020 og þurftu klínískt mat umfram símaeftirfylgd. Þátttakendum var skipt niður í þrjá hópa eftir verstu upplifðu klínísku útkomu. Blóðprufugögn og gögn um klínískan gang sýkingarinnar fengust frá sjúkraskrárkerfi Landspítala. Þróun bólgusvars var borin myndrænt saman milli hópanna með skilyrtu meðaltali blóðmælinga sem fall af tíma frá upphafi einkenna.

Niðurstöður: Alls voru 571 þátttakendur í rannsókninni. Samtals komu 310 (54,3%) eingöngu á göngudeild, 202 (35,4%) lögðust inn á sjúkrahús og 59 (10,3%) lögðust inn á gjörgæslu eða létust. Magn eitilfrumna, C-virks próteins (CRP) og ferritíns var frábrugðið milli einstaklinga með mismunandi klíníska útkomu snemma á veikindatímabilinu eða á dögunum fyrir innlögn á sjúkrahús og gjörgæslu. Lækkun á eitilfrumum og hækkun á CRP og ferritíni varð meiri með versnandi klínískri útkomu. Hvít blóðkorn, daufkyrningar, prókalsítónín og D-Dímer hækkuðu mest hjá sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæslu eða létust. Óverulegur munur var á magni blóðflagna milli hópanna.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að magn eitilfrumna, CRP og ferritíns séu gagnlegustu blóðprufumælingarnar í klínísku mati snemma á sjúkdómstímabili COVID-19 og geta mögulega spáð fyrir klínískri útkomu.

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica