Fylgirit 111 - Vísindi á vordögum 2022

Efla þarf vísindin - það er augljóst!

Árið 2021 hélt kórónuveiran áfram að gera heimsbyggðinni lífið leitt, starfsmenn og skjólstæðingar Landspítala fóru ekki varhluta af því. Fyrri hluti árs einkenndist af talsverðum takmörkunum meðan verið var að verja viðkvæma hópa og bólusetja landsmenn. Um mitt ár var takmörkunum aflétt við nokkurn fögnuð. Hann reyndist skammvinnur því að fljótlega hófst ný smitbylgja sem herjaði mjög á landsmenn, einkum með tilkomu ómíkrónafbrigða veirunnar. Heimsfaraldurinn hefur því haldið áfram að reyna á þolrifin. Eitt af því sem getur takmarkað getu sjúkrahúsa til að bregðast við óvæntu álagi er skortur á starfsfólki og of mikil rúmanýting en þeir kvillar hafa sett sitt mark á þjóðarsjúkrahúsið. Við aðstæður eins og ríktu árið 2021 geta slík vandamál bitnað á öðrum mikilvægum verkefnum. Nýkomin skýrsla sem unnin var að beiðni heilbrigðisyfirvalda af alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey fjallar um framtíðarþróun þjónustu Landspítala. Sérstakur kafli er helgaður vísindastarfi, umgjörð þess og stuðningi við það á spítalanum undanfarin ár auk þess sem gerður er samanburður við erlend háskólasjúkrahús. Þetta er mikilvægt því í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram „að læknisfræðilegar rannsóknir eigi að vera sambærilegar að gæðum og umfangi við rannsóknir annars staðar og að heilbrigðis­starfsfólk skuli eiga kost á að stunda rannsóknir“, eins og segir í skýrslunni. Niðurstöður ráðgjafanna eru afdráttarlausar: Framlag til vísindastarfs og stuðningur við það er í skötulíki og langt undir þeim markmiðum sem sett hafa verið. Aðeins 1,3% af rekstrarútgjöldum Landspítala renna til vísindastarfs en þar af eru 0,4% fjármögnuð af ytri aðilum. Á sama tíma renna 3,1% af rekstrarútgjöldum Sahlgrenska sjúkrahússins, 8,8% af útgjöldum Háskólasjúkrahússins í Osló og 8,1% af útgjöldum dæmigerðra bandarískra háskólasjúkrahúsa til vísindastarfs! Í skýrslunni er einnig bent á að rannsóknir margborgi sig, bein ávöxtun geti numið allt að 25% sem telst frábært. Reyndar er erfitt að finna fjárfestingarkosti sem gefa betri ávöxtun! Mikilvægast er þó að gæði þjónustu við sjúklinga batna og auðveldara er að laða að og halda í gott starfsfólk á sjúkrahúsum þar sem hlúð er að vísindastarfi. Það má því velta fyrir sér velta fyrir sér hversu mikil tækifæri fari forgörðum þegar sannfæringuna fyrir þessu skortir og tækifæri til að gera betur eru ekki nýtt.

Á árinu 2021 hélt birtingum vísindagreina með aðild starfsmanna spítalans áfram að fækka (mynd 1). Það er sérstakt áhyggjuefni. Einnig benda tölurnar til að hlutfall greina þar sem fyrsti eða síðasti höfundur er starfsmaður spítalans fari lækkandi. Aðrar tölur um vísindastarf, fjölda nema, styrkja og leyfa frá siðanefndum má sjá á myndum 2-4.

Ýmislegt hefur þó gengið okkur í haginn. Á árinu 2019 var tekin ákvörðun um að stofna sérstakan birtingasjóð fyrir andvirði hlutabréfa sem spítalinn seldi í sprotafyrirtækinu Oculis en fyrirtækið stofnuðu Einar Stefánsson, yfirlæknir og prófessor, og Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræði. „Birtingasjóður Landspítala“ tók til starfa á árinu 2021 og voru þá fyrstu greiðslur úr honum til rannsakenda. Markmiðið er að styðja við rannsakendur á spítalanum sem birta vísindagreinar sem fyrsti eða síðasti höfundur í viðurkenndum vísindaritum. Vonir standa til að sjóðurinn verði efldur og fái mótframlag frá spítalanum þegar fram líða stundir. Einnig er ánægjulegt að á árinu 2021 var hafist handa við innleiðingu sérhæfðs upplýsingakerfis á landsvísu, sem er mikilvægt tæki til að halda utan um allar þær upplýsingar sem myndast í kringum rannsóknir. Kerfið hefur fengið heitið ÍRIS og er stýrt frá Landsbókasafni – Háskólabókasafni en Landspítali á aðild að því ásamt háskólum landsins. Vonir standa til að með innleiðslu kerfisins verði mun auðveldara að fylgjast með og greina upplýsing­ar sem snúa að rannsóknum og nýsköpun á spítalanum.

Til að unnt sé að halda uppi þróttmikilli starfsemi háskólasjúkrahúss er fjármagn og hæft starfsfólk frumforsenda. Við höfum enn mikinn og góðan mannauð sem því miður fær ekki nægjanlegt svigrúm til að nýta menntun sína, tengslanet og frumkvæði til rannsókna og nýsköpunar. Aukin fjárfesting í þessum málaflokki er skynsamleg til framtíðar sem allir virðast vera sammála um. Sá stuðningur má ekki bara vera í orði. Skýra framtíðarsýn þarf til sem og sérgreint fjármagn til að uppskeran verði eins og efni standa til. Vonandi tekst að efla vísindastarfið með bættri fjármögnun á árinu 2022 í samræmi við ráðleggingar McKinsey. Þannig hrindum við bæði vísindastefnu spítalans og heilbrigðisstefnu stjórnvalda í framkvæmd og færumst nær þeim löndum sem við berum okkur gjarna saman við. Við megum engan tíma missa.

Magnús Gottfreðsson

yfirlæknir vísindadeildar Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica