Fylgirit 111 - Vísindi á vordögum 2022

Ágripum fylgt úr hlaði - ávarp formanns Vísindaráðs Landspítala

Fylgirit Læknablaðsins - Vísindi á vordögum 2022

Þessar línur eru skrifaðar til að fylgja úr hlaði ágripum sem bárust Vísindaráði Landspítala til kynningar á Vísindi á vordögum. Í ár voru samþykkt 39 ágrip til birtingar í Læknablaðinu. Fjöldi ágripa er meiri en í fyrra, en þá voru þau 28 og endurspegluðu óheyrilegt álag á starfsfólk spítalans vegna kórónuveirufaraldursins. Þó fjöldinn í ár sé langt frá því þegar fjöldi ágripa var sem mestur að þá er hann uppá við og það gefur von um betri vísindauppskeru á komandi árum. Ágripin lýsa öll áhugaverðum vísindaverkefnum sem spennandi verður að kynna sér betur á veggspjöldum uppskeruhátíðarinnar sem verður haldin 4. maí næstkomandi. Á hátíðinni verða valin 3 áhugaverðustu vísindaverkefnin og fyrstu höfundar þeirra verðlaunaðir með styrk til að kynna vísindaverkefnið og niðurstöður þess á ráðstefnu erlendis. Verðlaun sem þessi eru orðin ein af hefðum Vísindi á vordögum. Vísindaráð hefur umsjón með faglegum yfirlestri ágripa sem berast og standa einnig að baki vali á bestu veggspjöldunum og áhugaverðustu vísindaverkefnunum með háu vísindalegu gildi.

Þetta er í 16. sinn sem ágrip veggspjalda sem kynnt eru á Vísindi á vordögum eru birt í fylgiriti Læknablaðsins. Fylgiritin eru því orðin mikilvæg heimild um vísindaverkefni sem unnið hefur verið að á Landspítala, því ekki enda öll vísindaverkefni með birtingu vísindagreina. Aldrei er of oft minnt á mikilvægi vísindastarfsemi á Landspítala, með henni verður til þekking sem kemur skjólstæðingum spítalans og vísindasamfélaginu til góða.

Vonandi hafa sem flestir tækifæri til að kynna sér veggspjöld vísindaverkefnanna. Njótið lestur ágripanna vel.

Rósa Björk Barkardóttir

formaður Vísindaráðs Landspítala

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica