Fylgirit 110 - Sérnámslæknaþing 2022

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum - ÁGRIP

 

Ættlægni sarklíkis á Íslandi. Íslenska sarklíkisrannsóknin

Berglind Árnadóttir1, Sigríður Ólína Haraldsóttir3, Jón Gunnlaugur Jónasson4, Gunnar Guðmundsson3,6, Björn Guðbjörnsson5,6, Ingileif Jónsdóttir2,6

Lyflækningadeild1, lungnadeild3, meinafræðideild4, rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum5, Landspítala, Íslenskri erfðagreiningu2, læknadeild6, Háskóla Íslands

Bakgrunnur: Sarklíki er sjaldgæfara hér á landi en í nágrannalöndum, en samkvæmt nýlegri rannsókn er nýgengi sjúkdómsins hérlendis 4.15 tilfelli/100.000 íbúar/ár. Sarklíki er enn, þrátt fyrir fjölda rannsókna síðustu áratugi, sjúkdómur af óþekktri orsök. Í þessu samhengi er helst horft til umhverfisþátta og erfða, en talið er að erfðir hafi mikilvægt hlutverk í meingerð sjúkdómsins. Ættlægni sarklíkis á Íslandi hefur ekki verið rannsökuð. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða ættlægni sarklíkis meðal allra Íslendinga með vefjafræðilega staðfesta sjúkdómsgreiningu til ársloka 2020.

Aðferðir: Upplýsingar um einstaklinga með vefjafræðilega staðfesta sjúkdómsgreiningu á sarklíki voru fengnar frá meinafræðideild Landspítalans og dulkóðaðar. Með aðstoð dulkóðaðrar Íslendingabókar var ættlægni sjúkdómsins könnuð. Áhættuhlutfall (risk ratio, RR) fyrir að greinast með sarklíki var reiknað fyrir ættingja sjúklinga í fimm ættliði og fyrir ættingja maka þeirra. Ennfremur var skyldleikastuðull (kinship coefficient, KC) reiknaður. Til samanburðar voru 1000 úrtakshópar fyrir áhættuhlutfall og 10.000 fyrir skyldleikastuðul, staðlaðir með tilliti til aldurs og kyns fyrir hvert vísitilvik.

Niðurstöður: Samkvæmt upplýsingum frá meinafræðideild Landspítalans voru 466 einstaklingar með vefjafræðilegu greininguna sarklíki. Fjórtán fjölskyldur höfðu þrjá eða fleiri einstaklinga greinda með sarklíki, 43 fjölskyldur tvo einstaklinga greinda með sarklíki og sex pör alsystkina greindust með sjúkdóminn. Skyldleikastuðull fyrir fyrstu fimm meiósur reyndist marktækur; 1,13, 1,03, 0,89, 0,79, 0,68, 0,58 (p-gildi á bilinu 0.042-<0.0001). Fyrstu gráðu ættingjar höfðu RR 5,04 (p<0,0001). Annarar til fimmtu gráðu ættingjar reyndust hafa áhættuhlutfall 1.64, 1.8, 1.39 og 1.60 sem reyndist ómarktækt. Áhættuhlutfall ættingja maka sjúklinga með sarklíki reyndist ómarktækt.

Umræður: Rannsóknin sýnir ættlægni sjúkdómsins á Íslandi, en aukin áhætta er þó aðeins marktæk meðal fyrstu gráðu ættingja. Ekki var aukin áhætta á sarklíki meðal ættingja maka sjúklinga. Niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður annarra landa, þ.e. að ættartengsl og erfðir virðast hafa áhrif á tilurð sjúkdómsins.

_____________________________________________________________________________________

IL2 forgenameðferð og T stýrifrumur draga úr bólgu og liðskemmdum í Staphylococcus aureus liðsýkingu í músum

Berglind Bergmann1*, Ying Fei2, Pernilla Jirholt1, Zhicheng Hu1,2, Maria Bergquist1§, Abukar Ali1, Catharina Lindholm1, Olov Ekwall1,5, Guillaume Churlaud3,4, David Klatzmann3,4, Tao Jin1 and Inger Gjertsson1

1 Department of Rheumatology and Inflammation Research, Institute of Medicine, Sahlgrenska Academy University of Gothenburg, Gothenburg, Sweden, 2 Department of Microbiology and Immunology, GuiZhou Medical University, P.R. China, 3 AP-HP, Groupe Hospitalier Pitié-Salpêtrière, Biotherapy (CIC-BTi) and Inflammation-Immunopathology-Biotherapy Department (i2B), Paris, France , 4 Sorbonne Université, INSERM, Immunology-Immunopathology-Immunotherapy (i3); Paris, France and 5 Department of Pediatrics, Institute of Clinical Sciences, Sahlgrenska Academy University of Gothenburg, Gothenburg, Sweden

Inngangur: Bráð liðsýking af völdum Staphylococcus aureus (S. aureus) er alvarlegur liðsjúkdómur sem getur valdið varanlegum liðskemmdum innan fárra daga, þrátt fyrir sýklalyfjameðferð en það er hið sterka ónæmissvar sem virkjast við sýkinguna sem er ein aðalorsökin fyrir liðskemmdunum. Í rannsókn þessari var hlutverk IL2 og T stýrifrumna í S. aureus liðbólgu skoðað í vel þekktu músamódeli. Tilgátan var að með því að auka þátt ónæmisstýringar í S. aureus liðsýkingu með stækkun T stýrifrumuhólfsins væri hægt að koma í veg fyrir skaðlega þætti ónæmissvarsins sem valda liðskemmdum án þess að hindra verndandi hlutverk ónæmissvarsins. Gjöf lágskammta interleukin 2 (IL2) hefur sértæk áhrif á T stýrifrumuhólfið og stækkar það en margar rannsóknir á áhrifum lágskammta IL2 meðferðar á ýmsa sjálfsónæmissjúkdóma eru í bígerð.

Efniviður og aðferðir: Recombinant adeno-associated veiruvigur (rAAV) stuðlar að innrænni IL2-losun og var sprautað í mýs áður en komið var á smiti. S. aureus LS-1 eða Newman var sprautað í æð á C57BL/6 eða NMRI músum sem veldur blóðbornu S. aureus smiti og S. aureus liðsýkingu. AntiCD25 mótefni, meðferð með IL2 og T stýrifrumum voru einnig notuð. Dánartíðni, þyngdartap, bólgumiðlar, bakteríuhreinsun og liðskemmdir voru m.a. þau áhrif íhlutunar sem skoðuð voru.

Niðurstöður: Fjölgun T stýrifrumna með IL2 genameðferð áður en komið er á sýkingu hefur jákvæð áhrif á ónæmissvarið í S. aureus liðsýkingu og olli minni liðskemmdum og bólgusvörun á sama tíma sem bakteríuhreinsun var aukin.

Ályktun: IL2 genaformeðferð (pre-treatment) hemur skaðlega þætti ónæmisviðbragðisins í S. aureus liðsýkingu en viðheldur verndandi þáttum þess.

__________________________________________________________________________________

Tengsl millivefslungnabreytinga við greiningar krabbameina og dauðsföll þeim tengd

Gísli Þór Axelsson MD1, Rachel K. Putman MD MPH2, Thor Aspelund PhD1,3, Elías F. Guðmundsson MSc3, Tomayuki Hida4,5, Tetsuro Araki MD4,5, Mizuki Nishino MD MPH4,5, Hiroto Hatabu MD PhD4,5, Vilmundur Guðnason MD PhD1,3, Gary M. Hunninghake MD MPH2,5, Gunnar Guðmundsson MD PhD1,6

1Læknadeild Háskóla Íslands, Reykjavík, Ísland, 2Pulmonary and Critical Care Division, Brigham and Women's Hospital, Harvard Medical School, Boston MA, 3Hjartavernd, Kópavogi, 4Department of Radiology, Brigham and Women's Hospital, Harvard Medical School, Boston, MA, 5Center for Pulmonary Functional Imaging, Brigham and Women's Hospital, Harvard Medical School, Boston, MA, 6lungnadeild Landspítala, Reykjavík

Bakgrunnur: Aukið nýgengi lungnakrabbameina er vel þekkt meðal sjúklinga með lungnatrefjun (idiopathic pulmonary fibrosis). Millivefslungnabreytingar (MLB) eru breytingar á myndgreiningu lungna sem eru skilgreindar í ferilrannsóknum og eru taldar geta verið snemmbúin teikn um lungnatrefjun. Ekki er vitað hvort MLB séu áhættuþáttur fyrir lungnakrabbameini eða öðrum krabbameinum í almennu þýði. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort millivefslungnabreytingar tengdust greiningum og/eða dánartíðni lungnakrabbameina og annarra krabbameina.

Efniviður og aðferðir: Gögn úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar voru notuð (n=5270). MLB höfðu áður verið lesnar af tölvusneiðmyndum af þátttakendum. Gögn um krabbameinsgreiningar og dánartíðni vegna krabbameina voru fengin úr sjúkraskrárkerfum og frá Hagstofu. Gray‘s próf og Cox áhættulíkön voru m.a. notuð til að greina tengsl MLB við greiningar og dánartíðni vegna lungnakrabbameina, allra krabbameina og allra krabbameina að lungnakrabbameinum frátöldum.

Niðurstöður: Uppsafnað nýgengi (cumulative incidence) greininga og dauðsfalla vegna lungnakrabbameina var hærra meðal þátttakenda með MLB (p<0,001) en það átti ekki við um uppsafnað nýgengi greininga og dauðsfalla vegna annarra krabbameina. Í leiðréttum Cox áhættulíkönum voru þátttakendur með MLB voru í aukinni hættu á lungnakrabbameinsgreiningum (hættuhlutfall = 2,77, p = 1,08∙10-5) og dauðsföllum vegna lungnakrabbameina (hættuhlutfall = 2,89, p = 1,26∙10-5). Með sömu aðferðum fundust marktæk tengsl millivefslungnabreytinga við greiningar allra krabbameina og dauðsföll þeirra vegna (p = 0,006 og 0,005) en það átti ekki við þegar greiningar lungnakrabbameins voru útilokaðar (p = 0,07 og 0,43).

Ályktanir: Niðurstöður sýna að þátttakendur með millivefslungnabreytingar höfðu aukna áhættu á greiningum og dauðsföllum vegna lungnakrabbameina. Ekki var sýnt fram á marktækan mun á greiningum og dauðsföllum vegna annarra krabbameina. Þetta er fyrsta rannsóknin sem sýnir fram á tengsl MLB og lungnakrabbameina í almennu þýði en niðurstöðurnar samræmast þekktum tengslum millivefslungnasjúkdóma við lungnakrabbamein. Niðurstöðurnar benda til að millivefslungnabreytingar séu mögulegur áhættuþáttur fyrir lungnakrabbameinum og að rannsóknir á hliðstæðum í meinmyndun lungnakrabbameina og lungnatrefjunar séu viðeigandi.

_____________________________________________________________________________

Greining og skráning bráðs nýrnaskaða á bráðamóttöku Landspítala

Margrét Kristjánsdóttir1, Telma H. Ragnarsdóttir1,2, Gísli Gíslason2, Vicente Sanchez-Brunete1, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason1

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Inngangur: Á síðustu árum hafa nýjar skilgreiningar á bráðum nýrnaskaða (BNS), byggðar á breytingum á kreatíníngildum, komið fram en óvíst er hversu vel þær hafa náð fótfestu meðal lækna. Tilgangur þessarar rannsóknar var kanna greiningu og skráningu BNS meðal sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framsýn. Kreatíníngildi allra einstaklinga sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala voru metin með tilliti til BNS. Rannsóknargagna var aflað fyrir tímabilin 1. janúar-3. mars 2020, 19. maí-21.september 2020 og 1. febrúar-1. maí 2021. Öllum sjúklingum sem mættu KDIGO-skilmerkjum fyrir BNS var boðin þátttaka. ICD-10 greiningarkóðarnir N17 (bráður nýrnaskaði) og N19 (ótilgreindur nýrnaskaði) voru túlkaðir sem greining BNS.

Niðurstöður: Samtals voru greind 527 tilfelli af BNS og tóku 445 (84%)þátt. Meðalaldur (±SD) tilfella var 67,2±16,8 ár; 47% voru konur. Alls fengu 104 (23,4%) BNS-greiningu skráða á bráðamóttökunni. Enginn munur var á konum og körlum (20,9% og 23,9%, p=0,85) og ekki var marktækur munur á milli aldurshópa. Meðal þátttakenda voru 39 (8,7%) með fyrri greiningu um langvinnan nýrnasjúkdóm (LNS), af þeim fengu 38,5% skráða BNS-greiningu samanborið við 21,9% af þeim sem voru án sögu um LNS (p=0,003). Þátttakendur með BNS á stigi 3 fengu skráða greiningu BNS í 48,0% tilvika samanborið við 25,2% þeirra með BNS á stigi 2 og 15,1% þeirra með BNS á stigi 1 (p<0,01).

Ályktun: Skráningu á greiningu BNS virðist nokkuð ábótavant á bráðamóttöku Landspítala. Ýmsar ástæður geta legið að baki en vanþekking á skilgreiningum BNS er ein möguleg skýring. Mikilvægt er að bæta greiningu og skráningu BNS á bráðamóttökunni.

_____________________________________________________________________________

Stenotrophomonas maltophilia blóðsýkingar á Íslandi

Ólafur Orri Sturluson4, Helga Erlendsdóttir1,2, Kristján Orri Helgason2, Magnús Gottfreðsson1,3, Sigurður Guðmundsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, sýklafræðideild Landspítala, 3smitsjúkdómadeild Landspítala, 4sérnámslæknir í almennum lyflækningum á Landspítala

Bakgrunnur: Stenotrophomonas maltophilia er loftháð Gram neikvæð staflaga baktería með almennt litla meinvirkni en getur þó valdið lífshættulegum blóðsýkingum hjá sumum sjúklingum. Ónæmisbæling og inniliggjandi æðaleggir eru meðal áhættuþátta fyrir blóðsýkingu. S. maltophilia hefur útbreitt sýklalyfjaónæmi, þ.á.m. fyrir carbapenem lyfjum. Trimethoprime/sulfamethoxazole (TMP/SMX) er fyrstu línu meðferð.

Tilgangur rannsóknarinnar: Finna hvaða sjúklingahópar fá þessar blóðsýkingar af völdum S. maltophilia á Íslandi. Jafnframt finna hvað væri sameiginlegt með þessum sjúklingum og kanna afdrif þeirra. Gagnagrunnur mun ná yfir allar S. maltophilia blóðsýkingar á Íslandi á 15 ára tímabili.

Aðferðir: Allar jákvæðar S. maltophilia blóðræktanir frá 1/1/2006 til og með 31/12/2021 verða fundnar í gögnum Sýklafræðideildar LSH og SAK. Klínískum upplýsingum verður síðan safnað úr sjúkraskrám sjúklinganna. Nú þegar er búið að skoða tímabilið 2006-2016.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna að alls voru 41 sjúklingur með blóðsýkingu af völdum S. maltophilia árin 2006-2016 á Landspítala. Sjúklingahópurinn var þar helst skipaður krabbameinssjúklingum (36,5%) og vímuefnaneytendum í æð (19,5%). Algengast var að sýkingin væri rakin til æðaleggja (24,5%). Þá var 30 daga dánartíðni fullorðina með S. maltophilia blóðsýkingu 23% en 40% hjá sjúklingum með hvítkornafæð og var munurinn marktækur (P = 0,038). Engin vímuefnaneytandi lést vegna blóðsýkingarinnar. Aðeins 40% allra sjúklinganna voru settir á TMP/SMX en þó fengu fleiri TMP/SMX á seinni árum tímabilsins.

Umræður og ályktanir: Næsta skref er að útvíkka gagnagrunn svo hann spanni 15 ár og greina allar S. maltophilia blóðsýkingar á Íslandi á tímabiliu. Hugsanlega eru sprautufíklar nýr áhættuhópur hvað S. maltophilia blóðsýkingar varðar. Þá höfðu flestir sjúklinganna þekkta áhættuþætti sem auka líkurnar á sýkingu t.d. æðaleggi og ónæmisbælingu.

____________________________________________________________________________

Ofbeldi og áhættuþættir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma í sænsku þýði

Rebekka Lynch1, Nancy Pedersen2,Thor Aspelund1, Arna Hauksdóttir1, Filip K. Arnberg3, Unnur Valdimarsdóttir1,2,4

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóli Íslands, Reykjavík, Íslandi, 2Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institute, Solna, Svíþjóð, 3National Centre for Disaster Psychiatry, Department of Neuroscience, Uppsala University, Uppsölum, Svíþjóð, 4Department of Epidemiology, Harvard T. H. Chan School of Public Health, Boston

Inngangur: Ýmiskonar áföll hafa verið tengd aukinni áhættu fyrir greiningum á hjarta- og æðasjúkdóma. Ofbeldi er algengt áfall en áhrif þess á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hefur aðallega verið rannsakað hjá konum.

Efniviður og aðferðir: LifeGene er sænsk langtímarannsókn sem notaði slembiúrtak til að bjóða einstaklingum á aldrinum 18-45 þátttöku á árunum 2011-2016, með 20% þátttökuhlutfall. 26,182 einstaklingar svöruðu netkönnun um félagslega stöðu, ofbeldisútsetningu og heilsufar og mættu á rannsóknarstöð þar sem líkamsþyngdarstuðull, blóðþrýstingur og blóðprufur til að mæla langtímasykur, C-reactive prótín (CRP), ApoB/ApoA1 hlutfall og heildarkólesteról voru teknar. Útsetning var athuguð með Life Stressor Checklist-Revised, sem inniheldur sjö spurningar um ofbeldi. Við notuðum Poisson hlutföll (PH) og línulega aðhvarfsgreiningu (B) með öryggisbilum (ÖB) til að skoða sambandið á milli ofbeldis og áhættuþátta fyrir hjarta-og æðasjúkdóma eftir leiðréttingu fyrir aldri, menntun og hjúskaparstöðu.

Niðurstöður: 23% kvenna og 15% karla höfðu orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Einstaklingar sem höfðu orðið fyrir ofbeldi voru líklegri til að reykja (PH 1,93, ÖB: 1,74-2,14), að hafa verið greindir með háþrýsting (PH 1,33 ÖB: 1,17, 1,51) og að vera bæði með hærri líkamsþyngdarstuðul (B 0,50 ÖB: 0,39-0,60) og hærra CRP (B 0,09 ÖB: 0,05-0,14), en ekki var munur á langtímasykri, apoB/ApoA1 hlutfalli eða heildarkólesteróli, eftir aldursleiðréttingu. Kynjamunur var óverulegur.

Ályktun: Í hraustu, ungu þýði sænskra einstaklinga er aukning á áhættuþáttum fyrir hjarta-og æðasjúkdóma meðal einstaklinga sem hafa orðið fyrir obeldi, óháð kyni.

________________________________________________________________________________

Afrakstur skimunar fyrir forstigum mergæxlis á Íslandi. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar Blóðskimunar til bjargar

Sæmundur Rögnvaldsson1,2, Elías Eyþórsson2, Sigrún Þorsteinsdóttir1,3, Elín Ruth Reed1, Jón Þórir Óskarsson1, Þórir Einarsson Long1,4, Íris Pétursdóttir1, Guðrún Ásta Sigurðardóttir1, Brynjar Viðarsson2, Páll Torfi Önundarson1,2, Bjarni A Agnarsson1,2, Margrét Sigurðardóttir2, Ingunn Þorsteinsdóttir2, Ísleifur Ólafsson2, Ásdís Rósa Þórðardóttir1, Hrafnhildur L Runólfsdottir2, Daði Helgason2, Arna R Emilsdóttir2, Arnar S Águstsson1,2, Aron H Björnsson1,2, Guðrún Kristjánsdottir2, Ásbjörn Jónsson5, Ólafur Skúli Indriðason1,2, Gauti Kjartan Gíslason1, Andri Ólafsson1, Hlíf Steingrímsdóttir2, Petros Kampanis6, Malin Hulcrantz7, Brian GM Durie8, Runólfur Pálsson1,2, Stephen Harding6, Þorvarður Jón Löve1, Ola Landgren9, Sigurður Yngvi Kristinsson1,2

1Læknadeild, Háskóli Íslands, 2Landspítala, 3Ríkisspítalanum, Kaupmannahöfn, 4Háskólasjúkrahúsinu í Lundi, Svíþjóð, 5Sjúkrahúsinu á Akureyri, 6The Binding Site, Birmingham, 7Memorial Sloan Kettering Cancer Center, New York, 8Cedar-Sinai Samual Oschin Cancer Center, Los Angeles, 9Sylvester Comprehensive Cancer Center, University of Miami

Bakgrunnur: Mergæxli er krabbamein í plasmafrumum. Nýlega hafa rannsóknir sýnt að snemmbúin meðferð á einkennalausu, mallandi stigi geti bætt horfur en aðeins 4-7% sjúklinga greinist á því stigi. Lýðgrunduð skimun fyrir forstigi mergæxlis(e. Monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) gæti bætt þetta hlutfall. Til að kanna þetta er nú framkvæmd stór skimunarrannsókn fyrir MGUS á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að kanna ávinning og áhættu skimunar fyrir MGUS og safna ítarlegu gagnasafni um MGUS.

Efniviður og aðferðir: Íslendingum fæddir 1975 eða fyrr var boðin þátttaka og 80.759 skráðu sig. Skimunarsýnum var safnað frá 75.422 þátttakendum og skimuð með rafdrætti og leit að fríum léttum keðjum. Þeir sem höfðu MGUS var slembiraðað í þrjá arma. Armur 1 hélt áfram eins og hann hafði aldri verið skimaður, armur 2 var kallaður inn í eftirfylgd skv núgildandi leiðbeiningum og armur 3 var kallaður inn í ítarlegri rannsóknir. Þeir sem greinast með virkt eða mallandi mergæxli er boðin meðferð. Gögnum úr skimun og eftirfylgd eru reglulega samkeyrð helstu heilbrigðisgagnagrunnum landsins.

Niðurstöður: Alls greindust 3.725 (4,9%) þátttakenda með MGUS og tíðnin hækkaði með aldri. Eftir að miðgildi 3 ára eftirfylgd höfðu 9, 92, og 133 þátttakendur greinst með virkt eða mallandi mergæxli eða skylda sjúkdóma í örmum 1, 2 og 3 (p<0,001). Aldursstöðluð tíðni mallandi mergæxlis reyndist 0.5% í einstaklingum yfir 40 ára. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var kannað hvort MGUS væri áhættuþáttur fyrir COVID-19 en svo reyndist ekki (gagnlíkindahlutfall: 1,05; 95% öryggisbil: 0,81-1,36; p=0.72).

Ályktanir: Fystu niðurstöður Blóðskimunar til bjargar sýna að tíðni MGUS og mallandi mergæxlis eru 4,9% og 0,5% yfir 50 ára aldri og að ítarlegri uppvinnsla MGUS leiðir til aukinnar greiningar alvarlegra sjúkdóma. Niðurstöður rannsóknarinnar nýttust til að sýna að MGUS auki ekki hættuna á COVID-19. Fyrstu niðurstöður benda til að Blóðskimun til bjargar muni getað svarað mikilvægum spurningum á sviði plasmafrumusjúkdóma.

__________________________________________________________________________________

Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: Framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn

Telma H. Ragnarsdóttir1,2*, Margrét Kristjánsdóttir2, Gísli Gíslason1, Ólafur Samúelsson2, Vicente S. B. Ingelmo2, Margrét Ó. Tómasdóttir1,3, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason1

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningaþjónustu Landspítala, 3Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli bráðra veikinda og hefur neikvæð áhrif á batahorfur. BNS hefur verið rannsakaður ítarlega hjá inniliggjandi sjúklingum en lítið er vitað um BNS utan spítala. Markmiðið með þessarri rannsókn er að skoða áhættuþætti og orsakir BNS meðal sjúklinga sem leita á bráðamóttöku (BMT).

Aðferðir: Þetta er framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á BMT Landspítala voru metin með tilliti til BNS. Hér eru birtar niðurstöður tímabilanna 1. janúar til 3. mars og 19. maí til 21. september 2020. Aðra hluta ársins var gert hlé á rannsókninni vegna Covid-19. Öllum sjúklingum sem uppfylltu KDIGO-skilmerki fyrir BNS var boðin þátttaka í rannsókninni ásamt pöruðum viðmiðum (1:2). Þátttakendur undirrituðu upplýst samþykki og voru spurðir um heilsufarssögu og lyfjanotkun, þar með talið notkun lausasölulyfja. Hópar voru bornir saman með hefðbundnum tölfræðilegum aðferðum.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru greind 371 tilfelli af BNS, þar af tóku 316 (85%) þátt. Meðalaldur BNS-tilfella var 66,6±16,1 ár og og viðmiða 66,3±16,2 ár; 46% tilfella og viðmiða voru konur. Einstaklingar með BNS voru marktækt líklegri en viðmið til að hafa notað bólgueyðandi verkjalyf (BVL) í vikunni fyrir komu á BMT, (31,1% sbr. við 22,2%, p=0,003), einkum slík lyf keypt án lyfseðils (24,7% vs 16,2%, p=0,001). Í fjölþáttagreiningu voru marktæk tengsl við notkun BVL (p=0,003), uppköst (p<0,001), niðurgang (p=0,05) og sögu um sykursýki (p=0,004).

Ályktun: Þessar frumniðurstöður benda til mikilvægs þáttar BVL sem keypt eru í lausasölu í myndun BNS meðal sjúklinga sem leita á BMT.

_______________________________________________________________________________

Alvarlegur astmi á Íslandi og tíðni fylgisjúkdóma

Áslaug Dís Bergsdóttir1, Dóra Lúðvíksdóttir2,4, Unnur Steina Björnsdóttir3, María I. Gunnbjörnsdóttir1,3, Einar Kristinn Hjaltested5

1Lyflækningadeild Landspítala, 2lungnalækningum Landspítala, 3ofnæmislækningum Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands, 5háls-, nef- og eyrnalækningadeild Landspítala

Inngangur: Mikilvægt er að uppvinnsla einstaklinga með mögulegan alvarlegan astma sé framkvæmd á kerfisbundinn hátt þar sem skoðaðar séu meðferðarhindranir og þættir sem auka astmaeinkenni þar á meðal fylgisjúkdómar við astma. Alþjóðlegar astmaleiðbeiningar ráðleggja skoðun þessara þátta í uppvinnslu einstaklinga með alvarlegan astma þar sem hún bætir astma meðferð og minnkar kostnað í heilbrigðisþjónustu. Algengustu fylgisjúkdómar alvarlegs astma eru krónísk nef- og skútabólga, separ í nefi, ofnæmiskvef, brengluð öndun (dysfunctional breathing), truflun á starfsemi raddbanda, kvíði og þunglyndi, ofþyngd, kæfisvefn, efnaskiptavilla, berkjuskúlk, vélindabakflæði, ofnæmissvörun könnusvepps í berkjum og lungum (allergic bronchopulmonary aspergillosis (ABPA)), og ofnæmishnúðager (eosinophilic granulomatous polyangiitis (EGPA)). Fylgisjúkdómar alvarlegs astma geta bæði aukið tíðni versnana og sumir eru einnig afleiðing langvinnrar steranotkunar, svo sem ofþyngd og sykursýki.

Efniviður og aðferðir: Í vinnslu er að taka upp nýtt klínískt skráningarkerfi fyrir alla einstaklinga á Íslandi með alvarlegan astma á líftæknilyfjameðferð og notast verður við íslenska útgáfu á The Danish Severe Asthma Register (DSAR), ASTHMABIO. Upplýsingar um sjúklinga, fylgisjúkdóma og fylgikvilla alvarlegs astma verða skráðar inn við upphaf meðferðar, við eftirlit eftir 4 mánuði, 12 mánuði og árlega eftir það. Einnig verða skoðaðir ýmsir bólguþættir í blóði og öndunarmælingar. Alls eru nú 230 sjúklingar á líftæknilyfjameðferð vegna alvarlegs astma og í eftirliti á astmagöngudeild Landspítala Fossvogi.

Niðurstöður: Gagnasöfnun mun fara fram á tímabilinu 1. mars 2022 - 31. desember 2022.

___________________________________________________________________________________

 

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica