Fylgirit 109 - Bráðadagurinn 2022

Ágrip Bráðadagsins 2022

MENNTUN

 

Sérnám í bráðalækningum á Norðurlöndunum

Hjalti Már Björnsson1,2, Lars Petter Bjørnsen3,4, Christian Baaner Skjærbæk5, Katrin Hruska6, Ari Palomäki7,8, the Nordic EM Study Group

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Bráðamóttöku Landspítala, 3Clinic of Emergency Medicine and Prehospital Care, St. Olav's University Hospital, Þrándheimi, Noregi, 4Department of Circulation and Medical Imaging, Norwegian University of Science and Technology, Þrándheimi, Noregi, 5Department of Emergency Medicine, Regionshospitalet Randers, Randers, Danmörk, 6Capio Rapid Response Vehicles, Stokkhólmi, Svíþjóð, 7Faculty of Medicine and Health Technology, Tampere University, Tampere, Finnlandi, 8Emergency Department, Kanta-Häme Central Hospital, Hämeenlinna, Finnlandi

hjaltimb@landspitali.is

Bakgrunnur: Bráðalækningar eru nú viðurkennd sjálfstæð sérgrein í öllum fimm Norðurlandanna.

Markmið: Að afla upplýsinga um skipulag sérnáms í bráðalækningum í hverju landi.

Aðferðir: Fundið var leiðandi sjúkrahús í kennslu í bráðalækningum, eitt eða fleiri, í hverju Norðurlandanna. Rafræn könnun var send til kennslustjóra á hverju sjúkrahúsi og aflað upplýsinga um fjölda sjúklinga sem sinnt er á bráðamóttöku, mönnun lækna, marklýsingu og skipulag sérnáms, handleiðslu sérnámslækna og mat á framvindu í sérnámi.

Niðurstöður: Gagna var aflað frá einu sjúkrahúsi á Íslandi og í Noregi, tveimur í Finnlandi og Svíþjóð og fjórum í Danmörku. Gögn voru sameinuð frá öllum sjúkrahúsum í hverju landi í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Hlutfall sérfræðilækna með sérfræðiviðurkenningu í bráðalækningum reyndist vera á bilinu 49-100%. Fjöldi sjúklinga sem sinnt er á hverju ári á hvern sérfræðing á bráðamóttöku reyndist vera lægst í Svíþjóð eða 3063 en hæst í Finnlandi eða 8010. Á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð var sérfræðingur ávallt til staðar allan sólarhringinn á bráðamóttökunni en slík mönnun var ekki til staðar á öllum sjúkrahúsum í Noregi eða Finnlandi. Munur reyndist milli landanna á sjálfstæði sérnámslækna í störfum en í öllum löndum störfuðu sérnámslæknar meira sjálfsstætt eftir því sem lengra var komið í sérnámi. Mikill munur reyndist á milli landa hvað varðar kröfur um að sérnámslæknir ljúki stöðluðum námskeiðum, hvernig staðið er að mati á framvindu milli ára í sérnámi, kröfum um að standast formleg próf eða hvort sérnámslæknir þurfi að ljúka vísinda- eða gæðaverkefni.

Ályktanir: Allar Norðurlandaþjóðir hafa innleitt sérnámskennslu í bráðalækningum. Þrátt fyrir að samfélögin séu náskyld er umtalsverður munur á því milli landanna hvernig staðið er að sérnámi í bráðalækningum. Íhuga ætti að skrifa og innleiða sameinaða marklýsingu og matskerfi um framgang til að nota í sérnámi á öllum Norðurlöndunum.

 

Bráðaþjálfun landsbyggðarlækna

Ásta Evlalía Hrafnkelsdóttir1 Hjalti Már Björnsson1,2, Jón Pálmi Óskarsson3, Steinþór Runólfsson4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Bráðamóttöku Landspítala, 3Bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, 4Heilbrigðisstofnun Suðurlands

aeh26@hi.is

Bakgrunnur: Störf landsbyggðarlækna eru umtalsvert ólík störfum við heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir utan að sinna hinu hefðbundna verksviði heilsugæslulækna þurfa landsbyggðarlæknar að annast greiningu og fyrstu meðferð í öllum neyðartilvikum sem er venjulega sinnt á bráðadeildum sjúkrahúsa í þéttbýli. Í könnun sem gerð var hér á landi árið 2011 reyndist þessi hópur lækna telja að sú þjálfun sem hann hafði fengið til að sinna þessum verkefnum mætti vera betri.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar voru að kanna hvernig landsbyggðarlæknar meta eigin hæfni til að bregðast við bráðum vandamálum, viðhorf þeirra til námskeiða í bráðalæknisfræði og þátttöku í þeim og stöðu endurmenntunar á sviði bráðalækninga.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn og samanstóð þýðið af sérfræðilæknum og almennum læknum með alla vega tveggja ára starfsreynslu að loknu kandidatsári sem starfa að minnsta kosti fjórðung ársins utan höfuðborgarsvæðisins. Upplýsingum var safnað með rafrænum spurningalista. Notast var við t-próf og voru marktæknimörk p<0,05.

Niðurstöður: Könnunin var send til 84 lækna og bárust svör frá 47 (56%). Yfir 90% þátttakenda höfðu farið á námskeið í sérhæfðri endurlífgun að meðaltali fyrir 6,25 árum síðan. Einungis 18% þátttakenda höfðu farið á námskeið í bráðalækningum utan sjúkrahúsa að meðaltali fyrir 11 árum síðan, en það námskeið er sérhannað fyrir þennan markhóp. Yfir 90% þátttakenda töldu að námskeið í sérhæfðri endurlífgun fullorðinna og barna, greiningu og meðferð slasaðra og bráðalækningar utan sjúkrahúsa væru gagnleg. Meira en helmingur þátttakenda taldi sig hafa góða þjálfun til að framkvæma eða geta framkvæmt af nokkru öryggi 7 af 11 neyðarinngripum sem spurt var út í. Yfir 40% þátttakenda töldu að bæta þyrfti endurmenntun í 7 af 10 flokkum bráðaþjónustu. Að lokum taldi yfir helmingur þátttakenda að skortur á afleysingarlæknum væri þess valdandi að þau gætu ekki sótt sér endurmenntun.

Ályktanir: Meirihluti landsbyggðarlækna taldi sig hafa góða þjálfun til að veita bráðaþjónustu. Helst reyndist þörf á að bæta þjálfunina varðandi störf á vettvangi í sjúkrabíl, bráðavandamálum barna, fæðingum og bráðum kvensjúkdómum. Þá benda niðurstöður til þess að auka þurfi aðgengi landsbyggðarlækna að sérhæfðum bráðanámskeiðum.

 

Starfsnám sjúkraflutningamanna á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi á tímum Covid-19 – samantekt

Sveinbjörn Dúason1, Ingimar Eydal1

1Sjúkraflutningaskólanum

sduason@simnet.is

Bakgrunnur: Covid-19 heimsfaraldurinn hefur víða haft mikil áhrif á nám sjúkraflutningamanna sem og margra annarra heilbrigðisstétta. Mikilvægur þáttur í þeirra námi er starfsnám á sjúkrabílum, hjá Neyðarlínu, á ýmsum deildum sjúkrahúsanna og þar á meðal á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi (BMT). Sjúkraflutningaskólinn hefur á undanförnum árum átt mjög gott samstarf við BMT og sent þangað sjúkraflutningamenn í starfsnám sem er meðal annars fólgið í að kynnast starfsemi BMT, móttöku og flæði sjúklinga ásamt að veita aðstoð við meðferð. Nám sjúkraflutningamanna skiptist í grunnnám og framhaldsnám. Í grunnnáminu eiga nemendur að skila 8 tíma starfsnámi á BMT en í framhaldsnáminu 32 tímum. En hvernig hefur tekist að halda uppi starfsnámi á tímum Covid-19 þegar BMT þarf að fást við fordæmalausar áskoranir?

Markmið: Tilgangur samantektar þessarar var að skoða hvernig til hefur tekist með starfsnám sjúkraflutningamanna á BMT á tímum Covid-19 og hvort tafir hafi verið á námslokum.

Aðferð: Tekin voru tölfræðigögn úr nemendaskrá Sjúkraflutningaskólans á árunum 2020 og 2021. Að loknu starfsnámi var nemendum gefinn kostur á að koma með umsagnir um námið og voru þær umsagnir einnig hafðar til hliðsjónar.

Niðurstöður: Frá upphafi Covid-19 faraldursins í byrjun árs 2020 og til ársloka 2021 voru 221 starfsnámsvaktir sjúkraflutningamanna á BMT. Sjúkraflutningamenn í grunnnámi tóku 74 vaktir samtals 592 stundir og í framhaldsnámi voru 147 vaktir, samtals 1176 stundir. Þann 11. mars 2020 stöðvaði BMT starfsnám sjúkraflutningamanna vegna Covid-19 þar til í nóv 2020 en þá hófst starfsnám að nýju og hefur staðið óhindrað síðan. Tafir í starfsnámi höfðu áhrif á námslok 63 grunnnema á árinu 2020 en höfðu óveruleg áhrif á framvindu starfsnáms framhaldsnema eða námslok sjúkraflutningamanna á árinu 2021. Í umsögnum nemenda kom fram almenn ánægja með hvernig til hefur tekist með starfsnámið og samskipti við starfsfólk BMT.

Ályktanir: Það er mat höfunda að sökum óvissu og fordæmalausra áskorana á starfsfólk BMT þá urðu tafir á námslokum grunnnema á árinu 2020 að öðru leyti tókst að veita sjúkraflutningamönnum það starfsnám á BMT sem þeim ber að leggja stund á.

 

"In situ trauma simulations. Review of its role and challenges ahead

Éric Contant1, Þórir Bergsson1, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir1

1Bráðamóttöku Landspítala

Background: Trauma is a major cause of death and serious injuries in children and adults in Iceland. Initial evaluation and stabilization of trauma patients at Landspitali is managed by a multidisciplinary team led by the emergency physician. Combining staff from several departments and professions to work effectively during these high intensity moments is challenging. Trauma team training has traditionally been done mostly through simulation in a specific simulation lab.

Method: In situ simulation is an emerging method to improve trauma management. It is defined as simulation that is integrated in the clinical environment and is one way to improve realism and prepare for resuscitations.

Results: A core group of an emergency nurse specialist, an emergency medicine resident and an emergency medicine consultant have been doing in situ trauma simulations at the Landspítali for the last few years, but this has been complicated by increased boarding, lack of space, lack of nurses and doctors to attend and the covid pandemic.

Conclusion: In this session, we will briefly discuss the trauma committee structure at the Landspítali, the challenges of doing in situ simulations and its evidence, and where we see the future.


VERKLAG


Verklag í heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis

 Drífa Jónasdóttir1, Auður Harðardóttir2

1Heilbrigðisráðuneytinu, 2Embætti landlæknis

drifa.jonasdottir@hrn.is

Bakgrunnur: Nýjar íslenskar rannsóknir á umfangi og eðli heimilisofbeldis eins og birtist í heilbrigðiskerfinu benda til þess fjórar af hverjum tíu konum sem koma á bráðamóttöku Landspítala (BMT) með áverka í kjölfar ofbeldis eru að koma vegna heimilisofbeldis. Tæp 40% þeirra koma ítrekað á BMT vegna heimilisofbeldis. Heimilisofbeldi hefur neikvæð áhrif á heilsu og lífsgæði þolenda, svo sem auknar líkur á þunglyndi, áfallastreituröskun, kvíðaröskunum og sjálfsvígstilraunum. Eitt af verkefnum heilbrigðiskerfisins í baráttunni við heimilisofbeldi er að styrkja viðbragðið, með því að veita þolendamiðaða þjónustu með skýru verklagi, viðeigandi tilvísunum og bættri skráningu. Hingað til hefur skýrt samræmt verklag ekki verið til staðar varðandi móttöku þolenda heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnunum á Íslandi en slíkt væri mikilvægt fyrir stjórnendur og stefnumótun innan málaflokksins sem og þolendum til hagsbóta.

Markmið: Að styrkja þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis.

Aðferð Hönnun og innleiðing verklags byggir á samstarfsverkefni ráðuneyta dómsmála-heilbrigðismála- og félagsmála með fjárstuðningi frá tveimur síðarnefndu. Með tilkomu verklagsins getur heilbrigðisstarfsmaður skráð allar viðeigandi upplýsingar um komu vegna heimilisofbeldis á skýran og aðgengilegan hátt. Áhersla er lögð á rafræna skráningu og örugga miðlun gagna með aðgangsstýringum, dulkóðun og rekjanleika. Tveir félagsráðgjafar munu þjónusta sjúklingahópinn og sömuleiðis verður stöðugildi sálfræðings bætt við á áfallamiðstöð Landspítala.

Niðurstöður: Samkvæmt áætlun er reiknað með að verklagið verði tilbúið til prófunar í raunheimum haustið 2022. Mikilvægt er að mæla árangur innleiðingar og verður ein af afurðum verklagsins möguleikinn á að taka saman nákvæmari tölfræði varðandi málaflokkinn.

Ályktanir: Vonast er til að með innleiðingu verklagsins verði til verkfæri sem mun koma enn betur til móts við þjónustuþarfir sjúklingahópsins; grípa fyrr og markvissar inn í þróun mála og mögulega koma þannig í veg fyrir stigmögnun ofbeldis og hugsanlega alvarlegri áverka. Til lengri tíma litið ætti ítrekuðum komum vegna heimilisofbeldis að fækka og innlagnarhlutfall ætti að lækka. Jafnframt er vonast til að verklagið stuðli að enn snemmtækari íhlutun varðandi barnaverndarmál og því að gerendur leiti sér aðstoðar.

 

Handleggjareglan: Mat á gagnsemi einfaldrar skoðunar til útilokunar á áverkum á bein og liði í handlegg

Líney Ragna Ólafsdóttir1, Hjalti Már Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttöku Landspítala

lro5@hi.is

Bakgrunnur: Áverkar á handleggi eru meðal algengustu komuástæðna á bráðamóttökur. Þrátt fyrir að brot, alvarlegir liðbandaáverkar eða liðhlaup greinist aðeins í minni hluta tilvika þá er í flestum tilfellum tekin röntgenmynd til nánara mats og útilokunar á þessum áverkum. Handleggjareglan er einföld skimunarskoðun sem byggir á að meta hreyfigetu í öxl og olnboga auk gripkrafts í hendi í einstaklingum sem hlotið hafa áverka.

Markmið: Að meta gagnsemi handleggjareglunnar til útilokunar á áverkum á bein og liði í handlegg.

Aðferð: Rannsóknin var framskyggn og framkvæmd á bráðamóttöku Landspítala og var framhald fyrri rannsóknar frá árinu 2011. Sjúklingum sem leituðu á bráðamóttöku með áverka á öðrum handlegg var boðin þátttaka. Próf sem mat hvort skert hreyfigeta væri til staðar í öxl eða olnboga eða skerðing á gripkrafti var lagt fyrir sjúklinga og niðurstöður röntgenmyndataka bornar saman við prófið með næmi, sértæki og forspárgildum. Tölfræðiforritið RStudio var notað til gagnavinnslu. Notast var við tvíkostadreifnipróf til þess að reikna 95% vikmörk (VM).

Niðurstöður: Alls tóku 114 sjúklingar þátt í rannsókninni; 97 sjúklingar fengu jákvætt próf og þar af voru 48 sem greindust með áverka við röntgenmyndatöku. Af þeim 17 sem fengu neikvætt próf var einn sem greindist með áverka við röntgenmyndatöku. Næmi og sértæki handleggjareglunnar voru 98% (95% VM: 89-100%) og 25% (95% VM: 15-37%). Neikvætt forspárgildi var 94% (95% VM: 71-100%) og jákvætt forspárgildi 49% (95% VM: 39-60%). Frekari undirhópar voru skoðaðir með tilliti til aldurs, kyns og áverkasvæðis á handlegg.

Ályktanir: Rannsóknin bar kennsl á klíníska þætti sem spáð gætu fyrir um sjáanlega áverka á röntgenmyndum. Handleggjareglan hafði hátt næmi og neikvætt forspárgildi en taka þarf niðurstöðum með varúð vegna lítils úrtaks. Þörf er á frekari rannsóknum með stærra úrtaki til að meta nánar nákvæmni handleggjareglunnar með tilliti til ólíkra áverkasvæða í handlegg.


 

SELMA, aukin heilbrigðisþjónusta í heimahúsi: Innleiðing og árangur

Margrét Guðnadóttir¹, María Ólafsdóttir²,³

¹Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, ²Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, ³Læknavaktinni

margret.gudnadottir@reykjavik.is

Bakgrunnur: Með öldrun þjóðar fjölgar þeim sem búa við mikinn hrumleika og þurfa stuðning til að geta búið sem lengst heima, við sem besta líðan. Aukið álag og hraðara gegnumstreymi á sjúkrahúsum leiðir til þess að einstaklingar eru veikari heima, með fjölþætta sjúkdóma og flóknari þarfir. Það kallar á breyttar áherslur í heimaþjónustu, aukna tengingu við læknisþjónustu og svigrúm til að bregðast við heilsufarsvandamálum í heimahúsi.

Markmið: Markmið SELMU er að styrkja heimahjúkrun, auka viðbrögð í heimahúsi til hrumra einstaklinga sem ekki komast til mats og meðferðar á heilsugæslu eða göngudeild. Gera heimahjúkrun kleift að sinna sínum skjólstæðingum lengur og betur í heimahúsi og draga þannig úr óþarfa komum á bráðamóttöku Landspítala og mögulegum innlögnum.

Aðferð: SELMA var stofnuð í nóvember 2020. Þverfaglegt teymi, tveir hjúkrunarfræðingar af velferðarsviði Reykjavíkurborgar og einn læknir af Læknavaktinni á hverri vakt, sinnir vitjunum og ráðgjöf á dagvinnutíma að beiðni heimahjúkrunar eða heilsugæslu. SELMU-teymi metur ástand og veitir læknismeðferð ásamt eftirfylgd í heimahúsi í samvinnu við heimahjúkrun og heimilislækni skjólstæðings. Áhersla er lögð á skýrar boðleiðir, að flæði þjónustu og upplýsinga sé sem best.

Niðurstöður: Fyrsta árið kom SELMA að 259 málum heimahjúkrunar í Reykjavík (10% þýðis), þar af voru 198 mál leyst alfarið í heimahúsi. Af þeim sem fluttir voru á bráðamóttöku (n=61) lögðust 85% inn á legudeild til sérhæfðrar meðferðar. Algengustu viðfangsefni SELMU voru sýkingar, sár, vökvasöfnun og verkir. Auk þess var gengið í þverfaglegar úrlausnir í 14 flóknum málum úr öllum byggðum borgarinnar sem kallað höfðu brýnt eftir aukinni samvinnu milli þjónustukerfa. Því var stofnað lausnateymi, þverfræðilegur hópur sérfræðinga þvert á þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala. Lausnateyminu er ætlað að finna úrlausnir flókinna mála í heimahúsi, lituðum af fíkn, ofbeldi eða bágborinni félagslegri stöðu í bland við önnur heilsufarsógnandi viðfangsefni fjölskylda.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að teymi sem SELMA geti stuðlað að farsælli búsetu hrumra í heimahúsi, með auknu öryggi og vellíðan skjólstæðinga, aðstandenda og starfsfólks heimahjúkrunar. Með stuðningi SELMU er mögulegt að fækka óþarfa komum á bráðamóttöku og hvetja til aukinnar samfellu innan þjónustukeðju með því að leiða samtal og samvinnu þvert á heilbrigðis- og félagsþjónustu.

 

Innlagnir kvenna á Landspítala eftir ofbeldi í nánum samböndum - afturskyggn rannsókn á skráningu hjúkrunar

Eyrún Baldursdóttir1, Drífa Jónasdóttir1,2,3,4, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3Hagstofu Íslands, 4heilbrigðisráðuneytinu

eyrunbaldurs@gmail.com

Bakgrunnur: Ofbeldi í nánum samböndum er stórt samfélagsmein sem getur haft alvarleg og langvarandi áhrif. Ofbeldið er kynbundið; kona er oftar þolandi og karl, núverandi eða fyrrum maki, oftar gerandi. Lítið er vitað um hjúkrunarþarfir, skráningu hjúkrunar og framkvæmda hjúkrun kvenna sem þarfnast innlagnar á spítala vegna líkamlegra áverka eftir ofbeldi í nánu sambandi. Þörf er á innsýn í hjúkrun þolenda ofbeldis í nánum samböndum og hvernig megi bæta verklag og þjónustu við þennan hóp.

Markmið: Að skoða hjúkrunarþarfir og afdrif kvenna sem þörfnuðust innlagnar á spítala eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi eins og skráðar voru í sjúkraskrá.

Aðferðir: Afturskyggn rannsókn úr sjúkraskrám kvenna sem lögðust inn á legudeildir Landspítala vegna áverka eftir ofbeldi í nánu sambandi á rannsóknartímabilinu 2005-2019 og skoðaðar hjúkrunargreiningar, framvindunótur og eyðublöð hjúkrunarfræðinga. Lýsandi greining var gerð á aldri, búsetu, þjóðerni, komuástæðu, ICD-10 sjúkdómsgreiningum, innlagnardeild, kyni og tengslum við geranda, hjúkrunargreiningum og hvaða hjúkrunargreiningar voru notaðar við skráningu um ofbeldi, skráð hjúkrun, skráð aðkoma annarra fagstétta og afdrif eftir útskrift.

Niðurstöður: Á tímabilinu lögðust inn 49 konur, meðalaldur 36,5 ár, allar búsettar á höfuðborgarsvæðinu og 8% voru erlendar. Meðallegutími var 20 dagar. Flestar lögðust inn á bæklunarskurðdeild (26%), geðdeild (22%) eða háls-, nef- og eyrnaskurðdeild (14%). Að meðaltali höfðu konurnar 2,5 ICD-10 sjúkdómsgreiningar, áverka- og geðgreiningar algengastar. Í 96% tilvika var gerandinn karl og í 71% tilvika núverandi maki. Alls voru 46 hjúkrunargreiningar notaðar, algengastar voru verkir (29%) og undirbúningur útskriftar (24%). Hjúkrunargreiningarnar andleg (sálræn) vanlíðan og röskun á fjölskyldulífi voru notaðar hjá 12% kvennanna. Hjúkrunarfræðingar skrifuðu um ofbeldið undir 12 hjúkrunargreiningum, algengust var andleg (sálræn) vanlíðan en í 57% tilvika var ekki minnst á ofbeldið eða viðbrögð við því í framvinduskráningu. Skráð aðkoma annara fagstétta var helst um félagsráðgjafa, áfallahjálp og sálfræðinga. Í 12% tilvika var skráð aðkoma barnaverndar eða rannsóknarlögreglu. Algengast var að konur útskrifuðust heim (31%) eða heim til fjölskyldu (18%). Í 14% tilvika voru afdrif við útskrift ekki skráð. 14% kvennanna í úrtakinu voru látnar við rannsókn og var meðalaldur þeirra við andlát 52 ár.

Ályktun: Þessi fyrsta rannsókn um hjúkrun kvenna sem liggja á Landspítala eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum sýndi að þörf er á fleiri rannsóknum um hjúkrun þessa hóps, bættri skráningu og samhæfðu verklagi til þess að veita heildstæða þjónustu við þolendur ofbeldis í nánum samböndum.


FJÖLBREYTTUR STARFSVETTVANGUR


Andleg vellíðan, aðgengi og sókn í sálfræðiþjónustu á meðal slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og starfsfólks bráðamóttöku

Þóra María Hjaltadóttir1, Þorlákur Karlsson1

1Háskólanum í Reykjavík

thoramaria@simnet.is

Bakgrunnur: Slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn og starfsfólk bráðamóttöku er berskjaldað fyrir streituvaldandi aðstæðum og áföllum í starfi sínu. Því eru þau líklegri en aðrir til að þróa með sér áfallastreituröskun og líklegri til að upplifa þunglyndi, kvíða og streitu. Fáar rannsóknir hafa skoðað sókn í sálfræðiþjónustu meðal þessarra hópa og engin slík verið gerð hér á landi.

Markmið: Að rannsaka andlega líðan, aðgengi að og sókn í sálfræðiþjónustu á meðal slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og starfsfólks bráðamóttöku og kanna hvort fylgni sé á milli þessarra þátta.

Aðferð: Rafræn spurningakönnun var send á starfsfólk bráðamóttökunnar í Fossvogi og á slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Spurningakönnunin innihélt mælitæki fyrir áfallastreitu (PCL-5) og kvíða, þunglyndi og streitu (DASS-21). Könnunin innihélt einnig spurningar um aðgengi að og sókn í sálfræðiþjónustu.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 193, 34,2% voru slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, 43,0% voru starfsfólk bráðamóttöku og 22,8% svöruðu ekki til um starf sitt.

Bæði slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og starfsfólk bráðamóttöku voru með háa tíðni af líklegu (líkleg til að greinast með) þunglyndi, kvíða og streitu samkvæmt DASS-21. Starfsfólk bráðamóttöku var líklegra en slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn til að vera með einkenni kvíða, streitu og áfallastreitu. Fleiri slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn (90,9%) en starfsfólk bráðamóttöku (39,8%) sögðu að vinnuveitandi þeirra veitti þeim aðgang að sálfræðiþjónustu og öðrum úrræðum á kostnað stofnunarinnar. Einnig höfðu fleiri slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn en starfsfólk bráðamóttöku leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi, félagastuðningi vinnustaðar og mætt á viðrunarfundi. Niðurstöðurnar sýndu einnig neikvæða fylgni á milli kvíða, streitu og áfallastreitu og að vinnuveitandi byði uppá sérstakan félagastuðning, sem og á milli þunglyndis og að vinnuveitandi veitti aðgang að sálfræðitímum. Einnig var neikvæð fylgni á milli streitu og hversu oft viðrunarfundir voru haldnir eftir stór eða erfið mál og útköll.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að félagastuðningur sé einn mikilvægasti þátturinn í að minnka streitu, kvíða og áfallastreitu. Einnig benda niðurstöður til þess að starfsfólk er líklegra til að sækja sér sálfræðilegrar aðstoðar ef vinnuveitandi býður upp á slíka aðstoð (til dæmid að mæta á viðrunarfundi eða fara til sálfræðings).

 

Hlutverk hjúkrunarfræðinga í fangelsum og hjúkrunarþarfir fanga

Þóra Björg Jóhannsdóttir1,2, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir2,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,3

1Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3Landspítala

thj118@hi.is

Bakgrunnur: Hjúkrunarfræðingar hafa starfað í fangelsum, þó hefur ekki verið skráð sérstaklega hve lengi. Þeir sinna margvíslegum verkefnum sem miðast við þarfir hvers og eins fanga og byggja þannig á einstaklingsmiðaðri nálgun sem miðast við að veita bestu þjónustu sem völ er á. Hlutverk hjúkrunarfræðinga í fangelsum hefur ekki verið skilgreint og hjúkrunarþarfir fanga eru óljósar eða ekki þekktar.

Markmið: Að kanna hvert er æskilegt hlutverk hjúkrunarfræðinga í fangelsum á Íslandi og hverjar helstu hjúkrunarþarfir fanga séu.

Aðferð: Tekin voru tvö viðtöl með eigindlegri aðferð og gerð var kerfisbundin leit í gagnabönkunum PubMed og CINAHL að rannsóknum og fræðigreinum um hjúkrun í fangelsum, hlutverk hjúkrunarfræðinga í fangelsum og hjúkrunarþarfir fanga. Notast var við ákveðin leitarorð og inntöku- og útlilokunarskilyrði notuð til að afmarka val á grein eða rannsókn og áttu rannsóknir að vera frá árunum 2011-2021.

Niðurstöður: Fjórar rannsóknir stóðust ströng inntökuskilyrði. Tvær rannsóknir voru eigindlegar, ein var megindleg og ein var unnin með blandaðri aðferð af bæði eigindlegri- og megindlegri aðferðafræði. Rannsóknirnar sýndu að hlutverk hjúkrunarfræðinga voru fjölbreytt og víðtæk en tengdust flest öll hjúkrun, til dæmis geðhjúkrun, eftirlit með lyfjagjöfum og fíknimeðferð. Rannsóknir um hjúkrunarþarfir fanga sýndu sömuleiðis að þarfir fanga væru fjölbreyttar og meðal annars fyrir fræðslu, ráðgjöf og stuðning. Viðtölin tvö sem voru tekin gáfu innsýn í þær þarfir sem fangar krefjast og að verkefnin séu alla jafna ólík, eins og þau eru mörg. Þarfir væru mismunandi og fjölbreytileiki í meðferðum, notkun viðeigandi lyfja sem og aðgangur að almennri heilbrigðisþjónustu væru mikilvægir þættir.

Ályktun: Hlutverk hjúkrunarfræðings og hjúkrunarþörf fanga haldast ekki alltaf í hendur, því þarfirnar eru svo ólíkar og fjölbreyttar. Enginn fangi er eins og því þarf að taka mið af þörfum hvers og eins. Mikil þörf er á frekari rannsóknum hér á landi svo hægt sé að gera samanburð og styrkja með því verkferla, setja fram klínískar leiðbeiningar og samþætta alla heilbrigðisþjónustu í fangelsum, hér á landi.


Réttarmeinahjúkrun - Hver er þörfin fyrir innleiðingu á Íslandi?

Eva Björk Kristinsdóttir1,4, Sóley Rut Purkhús2,4, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir3,4, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4

1Hrafnistu Hafnarfirði, 2Purkhúi, heimilisvöruverslun, 3Landspítala, 4hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

evabjork123@gmail.com, soley.rut.purkhus@gmail.com

Bakgrunnur: Margir skjólstæðingar leita árlega á bráðamóttöku vegna áverka og ofbeldis. Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökum eru oftar en ekki fyrstir til að skoða og meta skjólstæðinga og eru því í lykilstöðu til að afla réttarmeinafræðilegra gagna. Réttarmeinahjúkrun er sérhæfing þar sem heilbrigðis- og réttarkerfið skarast og leggur áherslu á hjúkrun þolenda og gerenda sem hafa orðið fyrir slysum og áverkum. Skjólstæðingar sem koma inn á bráðamóttöku vegna áverka og ofbeldis gætu orðið málsaðilar að sakamáli og ættu því að vera meðhöndlaðir sem slíkir þar til annað kemur í ljós. Innan réttarmeinahjúkrunar hefur áherslan mikið til snúið að kynferðisofbeldi en hér var áhersla lögð á aðra þætti réttarmeinahjúkrunar þar sem sérhæfingin hefur almennt ekki verið formlega innleidd á Íslandi.

Markmið: Að fjalla um réttarmeinahjúkrun á bráðamóttökum, hvort þörf væri á slíkri sérhæfingu á Íslandi og kanna hver væri hagur skjólstæðinga í þeim tilgangi að að kanna möguleika á innleiðingu sérhæfingarinnar á bráðamóttöku hérlendis.

Aðferð: Framkvæmd var leit að rannsóknargreinum í fræðigagnasöfnum með leitarorðum eins og réttarmeinahjúkrun og bráðamóttaka. Sett voru fram ákveðin inntöku- og útilokunarskilyrði: greinar birtar á árunum 2011-2021, væru á ensku, væru ritrýndar og fjölluðu um réttarmeinahjúkrun á bráðamóttökum.

Niðurstöður: Við leit fundust 91054 greinar og voru að lokum 9 rannsóknargreinar greindar frekar. Í fæstum tilfellum hafði réttarmeinahjúkrun verið hluti af námsskrá hjúkrunarfræðináms. Fáir höfðu fengið kennslu á því sviði en flestir töldu þörf á henni. Þekking reyndist takmörkuð varðandi meðferð, öflun og varðveislu sakargagna. Með skýrum verklagsreglum ásamt auknu aðgengi að kennslu og þjálfun var talið að auka mætti þekkingu, færni og öryggi hjúkrunarfræðinga og þar af leiðandi tryggja öryggi skjólstæðings sem og rétt hans. Ávinningur þess að hafa réttarmeinahjúkrunarfræðing starfandi á bráðamóttöku var bæði talinn jákvæður og neikvæður. Meðal jákvæðra áhrifa var að minni líkur voru á að brotið yrði á réttindum skjólstæðinga, nákvæmari meðferð og minni kostnaður. Meðal neikvæðra afleiðinga voru hlutverkaágreiningur milli fagstétta.

Ályktun: Með viðeigandi menntun og kennslu gætu hjúkrunarfræðingar gegnt lykilhlutverki í að bera kennsl á og afla réttarmeinafræðilegra gagna á bráðamóttökum og verið talsmenn þolenda ofbeldis sem og einstaklinga með áverka í kjölfar mögulegra brota. Skortur er á rannsóknum þar sem fagið er tiltölulega nýtt og er því þörf á frekari rannsóknum hér á landi til að meta ávinning innleiðingar, bæði með hag skjólstæðinga sem og hjúkrunarfræðinga í huga.

 

Sjúkraflug á Íslandi 2012 til 2020

Björn Gunnarsson1,2, Kristrún María Björnsdóttir3, Sveinbjörn Dúason4

1Sjúkrahúsinu á Akureyri, 2Háskólanum á Akureyri, 3Háskóla Íslands, 4sjálfstætt starfandi bráðatæknir

bjorngun@unak.is

Bakgrunnur: Oft skiptir máli að koma mikið veikum og slösuðum sjúklingum sem fyrst á viðeigandi sjúkrahús. Þetta á sérstaklega við þegar um tímanæman (time-sensitive) heilsuvanda er að ræða, til dæmis hjartaáfall eða heilaslag. Sjúkraflug getur þá komið að miklu gagni og því er mikilvægt að henda reiður á helstu verkefnum í sjúkraflugi á hverjum tíma, hversu langan tíma það tekur að bregðast við útköllum og flytja sjúklinga á áfangastað.

Markmið: Gera grein fyrir sjúkraflugi með sjúkraflugvélum frá Akureyri árin 2012 til 2020.

Aðferðir: Í hvert sinn sem farið er í sjúkraflug er fyllt út sérstök flugskýrsla og upplýsingar úr henni svo færðar inn í rafrænan gagnagrunn sem var notaður í þessari rannsókn. Rannsakaður var fjöldi sjúkrafluga eftir árum, útkallsflokki, ástæðu flutnings, aldri og kyni sjúklings og brottfarar- og lendingarstað. Viðbragðs- og heildarflutningstími í bráðaflutningum (forgangur F1 og F2) var borinn saman á milla ára og staða. Poisson-aðhvarfsgreining var notuð til að bera saman fjölda sjúkrafluga eftir árum. Einhliða fervikagreining var notuð við samanburð á meðaltölum bæði útkallstíma og heildar flutningstíma eftir árum og stöðum.

Niðurstöður: Alls voru 6011 sjúklingar fluttir með sjúkraflugvél innanlands á rannsóknartímabilinu. Árlegur fjöldi sjúklinga óx frá 2012, þegar þeir voru 425, þar til hámarki var náð 2018 þegar 878 sjúklingar voru fluttir (p<0,001). Karlar voru í meirihluta (54,3%). Miðgildi aldurs var 64 ár (spönn 0-99 ár). Mikill meirihluti sjúklinga var fluttur vegna lyflækningavandamála. Áverkar voru ástæða flutnings í 15,8% tilfella. Hjá konum á aldursbilinu 20-44 ára var meðganga eða fæðing ástæða flutnings í 30,5% tilfella. Tveir þriðju sjúklinga voru fluttir til Reykjavíkur (n=3937) og fimmtungur til Akureyrar (n=1139). Miðgildi viðbragðstíma (tímalengd frá því að beiðni um sjúkraflug berst áhöfn þar til komið er til sjúklings) í bráðaflutningum á öllu tímabilinu var 84 mínútur og spönn núll til 2870 mínútur. Miðgildi heildarflutningstíma (tímalengd frá því að beiðni berst þar til að ábyrgð á sjúklingi færist frá sjúkraflutningamanni eða lækni í sjúkraflugi til annarra heilbrigðisstarfsmanna) í bráðaflutningum var 150 mínútur og spönn 50 til 2930 mínútur. Við samanburð á heildarflutningstíma milli brottfararstaða kom í ljós munur (F=32,19; DF 9, 2678; p<0,001) og skáru Egilsstaðir, Norðfjörður, Höfn og að nokkru leyti Ísafjörður sig úr með lengstan heildar flutningstíma.

Ályktun: Heildarflutningstími í sjúkraflugi á Íslandi er oft langur og líklegt að það hafi áhrif á horfur sjúklinga með tímanæman heilsuvanda. Aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu er misskipt eftir búsetu og mikilvægt að leita leiða til að jafna þann mun eins og hægt er.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica