Ágripin
V-01
Streituviðbrögð sjúklinga sem greinast með lungnakrabbamein
Hrönn Harðardóttir
Landspítali
Inngangur: Það að greinast með krabbamein er streituvaldur og þekkt er fylgni við aukna áhættu á greiningu geðraskana og andláta vegna sjálfsvíga og hjartasjúkóma. Lítið er þó vitað um breytingar á streituviðbrögðum sjúklinga og streitulífmarka á þessu viðkvæma greiningartímabili. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða sálræn einkenni og þvagútskilnað streituhormóna fyrir og eftir lungnakrabbameinsgreiningu.
Efniviður og aðferðir: LUCASS rannsóknin (Lung CAncer, Stress and Survival study) er framsýn ferilrannsókn á sjúklingum sem vísað er í greiningarrannsóknir vegna gruns um lungnakrabbamein annars vegar á Landspítala, Íslandi (n=166) og hins vegar á Háskólasjúkrahúsinu í Uppsala, Svíþjóð (n=120). Rannsóknarþýði þessarar rannsóknar samanstendur af 95 sjúklingum sem svöruðu spurningarlistum um streitu (Hospital Anxiety and Depression Scale, HADS) og söfnuðu þvagi næturlangt til mælinga streituhormóna (þ-Adrenalín, þ-Noradrenalín) á tveimur tímapunktum samhliða klínískri uppvinnslu, þ.e. fyrir/samhliða greiningarrannsóknum og að miðgildi 25 dögum síðar eða eftir að greining lá fyrir en áður en meðferð hófst.
Niðurstöður: Af 95 sjúklingum greindust 71 (74.7%) með lungnakrabbamein, meðalaldur 70.1 ár og konur voru 45.3%. Marktæk hækkun (p=0.0061) var á heildar-HADS skori sjúklinga sem greindust með lungnakrabbamein (9.37 stig í 12.2, p<0.001) miðað við þá sem reyndust ekki vera með þá greiningu eftir rannsóknir (9.33 stig í 7.75, p=0.082). Aukinn útskilnaður var til staðar á þ-Adrenalíni fyrir greiningu hjá þeim sem síðar greindust með lungnakrabbamein. Tengsl voru milli aukins kvíða og lækkunar á þ-Adrenalín útskilnaði eftir greiningu.
Ályktun:Mikil aukning verður á einkennum kvíða og þunglyndis við greiningu lungnakrabbameins og eru streituhormón í þvagi hækkuð strax við fyrstu skoðun.
V-02
Tjáning beta 2-adrenergra viðtækja á lungnakrabbameinsfrumum og tengsl við streitu
Hrönn Harðardóttir,
Landspítali
Inngangur: Tjáning á beta-2 adrenergum viðtökum (β2-AR) á yfirborði krabbameinsfruma hafa verið tengdar við hraðari æxlisvöxt og framvindu krabbameins, bæði í dýramódelum og rannsóknum á mönnum. Ekki er vitað hvort líðan sjúklinga með lungnakrabbamein tengist tjáningu β2-AR. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða tengsl streituviðbragða sjúklinga við greiningu lungnakrabbameins við tjáningu β2-AR á yfirborði krabbameinsfrumanna sjálfra og aðra æxlistengda þætti.
Efniviður og aðferðir: LUCASS rannsóknin (Lung CAncer, Stress and Survival study) er framsýn ferilrannsókn á sjúklingum sem vísað er í greiningarrannsóknir vegna gruns um lungnakrabbamein annars vegar á Landspítala, Íslandi (n=166) og hins vegar á Háskólasjúkrahúsinu í Uppsala, Svíþjóð (n=120). Rannsóknarþýði þessarar greiningar samanstendur af 54 sjúklingum sem svöruðu spurningarlistum um streituviðbrögð (Hospital Anxiety and Depression Scale, HADS) fyrir/samhliða greiningarrannsóknum og fóru síðar í skurðmeðferð á Landspítala vegna lungnakrabbameins að miðgildi 32 dögum eftir greiningu. Tveir meinafræðingar mátu tjáningu β2-AR viðtækja með sértækri mótefnalitun sem og aðra æxlisþætti.
Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 69 ár og 50% þeirra voru konur. Lungnakrabbameinið var af kirtilmyndandi toga hjá 34 (63%) og af annarri frumugerð hjá 20 (37%). Tjáning β2-AR var hærri hjá þeim æxlum sem voru af annarri frumugerð en kirtilmyndandi (p=0.041). Vísbendingar voru um tengsl hærra streitustigs (HADS) í greiningarferli og tjáningar β2-AR á yfirborði lungnakrabbameinfruma (p=0.044) í fjölþátta aðhvarfsgreiningu.
Ályktun: Fyrstu niðurstöður þessarar rannsóknar benda til tengsla milli streituviðbragða sjúklinga í greiningaferli lungnakrabbameins og tjáningu á B2-AR viðtökum á yfirborði lungnakrabbameinsfruma.
V-03
Breytingar í lungnavef á tölvusneiðmyndum sjúklinga með kórónuveirusjúkdóm 2019 (COVID-19)
Arnljótur Halldórsson, Gísli Þór Axelsson, Gunnar Guðmundsson, Hrönn Harðardóttir, Helgi Már Jónsson, Sif Hansdóttir
Landspítali
Inngangur: Sýking af völdum kórónuveiru sem veldur kórónuveirusjúkdómi 2019 (COVID-19) getur leitt til lungnabólgu sem í sumum tilvikum er lífshættuleg eða jafnvel banvæn. Þekkt er að þeir sem fá alvarlegri sjúkdóm hafa meiri breytingar í lungnavef á tölvusneiðmyndum (TS) af brjóstholi. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa myndbreytingum í lungum í bráðafasa COVID-19 og í eftirliti og um leið að meta hvort umfang lungnabreytinga á TS hefði tengsl við alvarleika sjúkdómsins, bakgrunnsþætti og fyrra heilsufar.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra einstaklinga með staðfestan COVID-19 sem komu í eftirlit á göngudeild og fóru í TS eftirlitsrannsókn af brjóstholi á Landspítala frá 06.05.2020 til 24.09.2020. Upplýsingar um sjúkrasögu sjúklinga voru fengnar úr gagnagrunni Landspítala á afturskyggnan máta. Allar tölvusneiðmyndir voru endurskoðaðar og notast var við alþjóðlegt stigunarkerfi til að meta umfang lungnabreytinga.
Niðurstöður: Alls voru 85 þátttakendur í rannsókninni, meðalaldur var 59 ár og karlar í meirihluta (52%). Sextíu (71%) lögðust inn á sjúkrahús, þar af 18 (21%) á gjörgæslu. Útbreiddari lungnabreytingar sáust oftar hjá karlmönnum og sjúklingum sem voru inniliggjandi á gjörgæslu. Jafnframt voru þeir líklegri til að þurfa öndunarvélameðferð. Í eftirliti sáust marktæk tengsl færri TS stiga við kvenkyn en marktæk tengsl fleiri TS stiga voru við hækkandi aldur, gjörgæslulegu og lengd gjörgæslulegu. Lungnabreytingar voru horfnar hjá tæplega þriðjungi þátttakenda við eftirlit (að miðgildi 68,5 dögum eftir bráðarannsókn).
Ályktun: Einstaklingar með alvarlegan COVID-19 hafa umfangsmeiri lungnabreytingar í bráðum veikindum og við eftirlit en þeir sem fá vægari sjúkdóm. Eldri einstaklingar og karlmenn eru í aukinni áhættu.
V-04
Tengsl millivefslungnabreytinga við greiningar krabbameina og dauðsföll þeim tengd
Gísli Þór Axelsson1, Rachel Putman2, Thor Aspelund3, Elías Guðmundsson3, Tomayuki Hida2, Tetsuro Araki2, Mizuki Nishino2, Hiroto Hatabu2, Vilmundur Guðnason3, Gary M. Hunninghake2, Gunnar Guðmundsson1
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Brigham and Women's Hospital, 3Hjartavernd
Aukið nýgengi lungnakrabbameina er vel þekkt meðal sjúklinga með lungnatrefjun (e. Idiopathic pulmonary fibrosis). Ekki er þekkt hvort millivefslungnabreytingar (MLB), myndgreiningarteikn sem taldar eru snemmbúin teikn um lungnatrefjun í sumum tilfellum, séu áhættuþáttur fyrir lungnakrabbameini eða öðrum krabbameinum í almennu þýði. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort millivefslungnabreytingar tengdust greiningum eða dánartíðni lungnakrabbameina og annarra krabbameina.
Gögn úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, voru notuð (n=5764). Gögn um krabbameinsgreiningar og dánartíðni krabbameina voru fengin úr sjúkraskrárkerfum og frá Hagstofu. Gray‘s próf og Cox áhættulíkön voru m.a. notuð til að greina tengsl MLB við greiningar og dánartíðni lungnakrabbameina og allra krabbameina.
Uppsafnað nýgengi (cumulative incidence) greininga og dauðsfalla vegna lungnakrabbameina var hærra meðal þátttakenda með millivefslungnabreytingar (p < 0,001, mynd 1). Þeir höfðu aukna hættu á lungnakrabbameinsgreiningum (hættuhlutfall = 2,77, p = 1.08∙10-5) og dauðsföllum vegna lungnakrabbameina (hættuhlutfall = 2,89, p = 1.26∙10-5) í leiðréttum Cox áhættulíkönum. Tengsl millivefslungnabreytinga við greiningar allra krabbameina og dauðsföll þeirra vegna fundust í Cox áhættulíkönum þar sem greiningar lungnakrabbameins voru með taldar (p=0,006 og 0,005) en ekki í líkönum þar sem greiningar lungnakrabbameins voru útilokaðar (p=0,07 og 0,43).
Þannig reyndust þátttakendur með millivefslungnabreytingar í aukinni áhættu fyrir greiningum og dauðsföllum vegna lungnakrabbameina en ekki fyrir greiningum og dauðsföllum vegna annarra krabbameina. Ekki hefur áður verið sýnt fram á þessi tengsl í almennu þýði en þau samræmast þekktum tengslum millivefslungnasjúkdóma við lungnakrabbamein. Niðurstöðurnar benda til að rannsóknir á sameiginlegum líffræðilegum ferlum lungnakrabbameins og lungnatrefjunar séu viðeigandi og benda á millivefslungnabreytingar sem áhættuþátt fyrir lungnakrabbameinum.
V-05
Tengsl millivefslungnabreytinga, langvinnra sjúkdóma og lifunar
Gísli Þór Axelsson1, Jason Sanders2, Rachel Putman2, Aravind Menon2, Josée Dupuis3, Hanfei Xu3, Shuai Wang4, Joanne Murabito5, Ramachandran Vasan3, Tetsuro Araki2, Mizuki Nishino2, George Washko2, Hiroto Hatabu2, George O'Connor5, Gunnar Guðmundsson1, Vilmundur Guðnason6, Gary M. Hunninghake2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Brigham and Women's Hospital, 3Boston University School of Public Health, 4Pfizer Inc, 5Boston University, 6Hjartavernd
Inngangur: Millivefslungnabreytingar (MLB, interstitial lung abnormalities) eru tiltölulega algengar breytingar á myndgreiningu lungna sem líkjast millivefslungnasjúkdómum og eru mögulega forveri þeirra. Verri lifun fólks með MLB er þekkt en hversu mikið hún skýrist af langvinnum sjúkdómum og hvernig lifun er í samanburði við slíka sjúkdóma er óþekkt.
Efniviður og aðferðir: Notast var við gögn úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (n=5180) og Framingham rannsókninni (2449). Tölvusneiðmyndir af þátttakendum þessara rannsókna hafa verið lesnar m.t.t. MLB. Gögn um hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, langvinnan nýrnasjúkdóm, langvinna lungnateppu og krabbamein voru fengin úr sjúkraskrám og úr gagnasöfnum viðkomandi rannsókna. Tengsl MLB og sjúkdóma voru borin saman með fjölkosta (multinomial) aðhvarfsgreiningu og lifun þátttakenda með MLB og ofangreinda sjúkdóma metin með Cox aðhvarfslíkani sem einnig var leiðrétt fyrir blandandi þáttum.
Niðurstöður: Í Framingham tengdust MLB langvinnum nýrnasjúkdómi (gagnlíkindahlutfall [OR] 1,90, öryggisbil [ÖB] 1,01-3,57) og í Öldrunarrannsókninni tengdust þær hjarta- og æðasjúkdómum (OR 1,42, ÖB 1,12-1,81). MLB tengdust ekki öðrum sjúkdómum. Þegar ofangreindir langvinnir sjúkdómar og blandandi þættir voru teknir með í reikninginn tengdust MLB verri lifun í Framingham (hættuhlutfall [OR] 1,95, ÖB 1,23-3,08) og Öldrunarrannsókninni (HR 1,60, ÖB 1,41-1,82). Langvinnir sjúkdómar tengdust allir verri lifun í slíku líkani, fyrir utan langvinna lungnateppu í Framingham. Tengsl MLB við verri lifun voru ámóta mikil eða meiri en annarra langvinnra sjúkdóma (Mynd 1).
Ályktun: Ekki er hægt að skýra tengsl MLB við verri lifun með tengslum þeirra við langvinna sjúkdóma. Horfur fólks með MLB með tilliti til lifunar virðast sambærilegar horfum fólks með þekkta alvarlega og langvinna sjúkdóma.
V-06
Algengi augnþurrks meðal sjúklinga á bráðalyflækningadeild Landspítala
Helga Rut Steinsdóttir, Freyja Jónsdóttir, Gunnar Már Zoéga, Björn Guðbjörnsson
Landspítali
Inngangur: Augnþurrkur er algengt fyrirbæri, sérlega meðal eldri einstaklinga. Aðalorsakir augnþurrks eru skert gæði tárafilmu sem orsakast meðal annars af táraskorti eða umfram uppgufun tára. Þekkt er að mörg altæk lyf geta valdið augnþurrki t.d. andkólínvirk lyf. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi augnþurrks meðal sjúklinga á bráðalyflækningadeild Landspítalans, og að meta hvort algengi augnþurrks sé hærra meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð og þá hvaða lyfjaflokkar hafa tengsl við augn- og munnþurrk. Einnig voru könnuð tengsl við aldur, kyn og sjúkdómaflokka.
Aðferðir: Framskyggn lýsandi rannsókn meðal einstaklinga á aldursbilinu 18-85 ára á bráðalyflækningardeild (A2). Rannsóknargögn samanstóðu af stöðluðum heilsufarsupplýsingum úr sjúkraskrám, ásamt upplýsingum um lyfjanotkun sjúklinga. Staðlaðir spurningalistar með tilliti til einkenna augnþurrks (OSDI) og sex spurningar til greiningar á Sjögrens heilkenni voru lagðir fyrir þátttakendur rannsóknarinnar í stöðluðu viðtali. Schirmer-I próf var framkvæmt til mats á táraframleiðslu.
Niðurstöður: 100 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni (53% konur), en 12 sjúklingar voru útilokaðir vegna óáreiðanlegs Schirmer-I prófs. 51,2% sjúklinga upplifði einkenni augnþurrks samkvæmt OSDI spurningalista og 57,9% sjúklinga var með óeðlilegt Schirmer-I próf. Algengi augnþurrks meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð var hærra samanborið við sjúklinga sem ekki voru á fjöllyfjameðferð (61% vs 36,4%). Algengi augnþurrks var hærra meðal eldri sjúklinga (≥50 ára) (59,7% vs 40,3%) og einnig meðal kvenna (60,4% vs 55%).
Ályktun: Algengi augnþurrks er hátt á bráðalyflækningadeild Landspítala. Sjúklingar sem nota lyf að staðaldri eru líklegri til þess að upplifa einkenni augn- og munnþurrks. Mikilvægt er að huga að þessum einkennum meðan á dvöl sjúklinga á sjúkrahúsum varir
V-07
Arfgerð Íslendinga með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu
Daníel Arnar Þorsteinsson1, Vigdís Stefánsdóttir2, Þór Eysteinsson2, Sigríður Þórisdóttir2, Jón Jóhannes Jónsson2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítali
Inngangur: Arfgengir hrörnunarsjúkdómar í sjónhimnu (AHS) er stór hópur ágengra sjónskerðingarsjúkdóma og eru samanlagt ein aðalorsök fyrir sjónskerðingu/blindu í heiminum. Þeir stafa af breytingum í genum sem eru nauðsynleg fyrir eðlilega virkni í sjónhimnu, sem er sérhæfður ljósnæmur taugavefur í augnbotnum. Sjúkdómsflokkar AHS eru t.a.m. litefnahrörnun í sjónhimnu (e. retinitis pigmentosa, RP) og X-litningatengt sjónhimnurof. Markmið rannsóknar var að kortleggja erfðaorsakir AHS á Íslandi. Ávinningur rannsóknar er m.a. endurskilgreining á erfðabrigðum og skilgreining á erfðafræðilegum einsleitum sjúklingahópum, sem gætu komið til greina fyrir rannsóknir á sameindafræðilegum framtíðarmeðferðum.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknarúrtak samanstóð af íslenskum AHS sjúklingum. Upplýsingar voru fengnar frá erfða - og sameindalæknisfræðideild Landspítala (ESD), Þjónustu – og þekkingarmiðstöð blindra og Blindrafélaginu. Gagnabanki var útbúinn með upplýsingum um sjúkdóm sjúklinga og niðurstöður erfðafræðiprófa. Erfðabrigði voru endurflokkuð skv. ACMG/AMP stöðlum.
Niðurstöður: Alls voru 140 sjúklingar með AHS (algengi 1/2.600). Af þeim höfðu 70 undirgengist erfðafræðilega uppvinnslu á ESD á tímabilinu 2004 - október 2020. Af þessum 70 voru 2/3 með þekkta erfðaorsök. Þrettán mismunandi meingen greindust í RP sjúklingum, algengasta genið var RLBP1 (n = 4). Tveir RP sjúklingar voru arfhreinir fyrir erfðabrigðinu c.1073+5G>A í PRPF31 geni. Allir erfðaprófaðir sjúklingar með X-litningatengt sjónhimnurof voru með sama erfðabrigðið, c.441G>A (p.Trp147X) í RS1 geni. Fjögur erfðabrigði voru endurskilgreind sem líklega meinvaldandi.
Ályktun: Líklega veldur erfðabrigðið c.1073+5G>A í PRPF31 geni sjálfslitnings víkjandi RP en erfðabrigði í PRPF31 eru þekkt fyrir að valda ríkjandi RP. Erfðaorsakir AHS á Íslandi samsvaraði ekki skyldum þjóðum í Norðvestur-Evrópu. Einstakt íslenskt erfðabrigði skilgreindi einsleitan sjúklingahóp með X-litningatengt sjónhimnurof.
V-08
Samanburður á meðferðarheldni blóðþynningarlyfja um munn: Landlæg þýðisrannsókn
Arnar B. Ingason1, Jóhann P. Hreinsson2, Arnar S. Ágústsson1, Sigrún H. Lund3, Edward Rumba1, Daníel A. Pálsson1, Indriði E. Reynisson4, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll T. Önundarson1, Einar S. Björnsson1
1Landspítali, 2Sahlgrenska, 3Íslensk erfðagreining, 4Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Inngangur: Á meðan warfarínmeðferð er stýrt með reglulegum INR-mælingum er engin slík eftirfylgd með beinum storkuhemlum (e. direct oral anticoagulants). Þetta gæti leitt til skertrar meðferðarheldni beinna storkuhemla. Fyrri rannsóknir hafa takmarkast af því að ekki hefur verið leiðrétt fyrir því að warfarínskömmtun er síaðlöguð í samræmi við INR-mælingar á meðan svo gildir ekki um skömmtun beinna storkuhemla.
Efniviður og aðferðir: Sóttar voru upplýsingar frá Lyfjagagnagrunni um alla sjúklinga með gáttatif sem hófu warfarínmeðferð eða háskammtameðferð með apixaban, dabigatran, og rivaroxaban á tímabilinu 2014-2019. Meðferðarheldni var metin út frá hlutfalli daga á meðferð (HDM) sem var reiknað út frá meðaldagskömmtum lyfja. Meðaldagskammtur warfaríns var reiknaður að teknu tilliti til skammtabreytinga með því að nota upplýsingar úr skömmtunarkerfi Segavarna. Sjúklingar á warfaríni, sem vantaði upplýsingar um skammtabreytingar hjá, voru útilokaðir úr rannsókninni. Sjúklingur var skilgreindur með lélega meðferðarheldni ef HDM var undir 80%. HDM var borið saman milli hópa með fervikagreiningu (e. analysis of variance) og Tukey „posthoc“ prófi og léleg meðferðarheldni með kí-kvaðratprófi.
Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 1,309 sjúklingum á apixaban, 218 á dabigatran, 1,830 á rivaroxaban og 341 á warfaríni. Dabigatran var tengt við marktækt lægri meðferðarheldni en apixaban (HDM 84.3% á móti 91.7%), rivaroxaban (HDM 84.3% á móti 90.9%) og warfarín (HDM 84.3% á móti 90.3%) (mynd 1A). Að sama skapi var léleg meðferðarheldni marktækt algengari hjá sjúklingum á dabigatran samanborið við sjúklinga á öðrum lyfjum (Mynd 1B).
Ályktun: Dabigatran var tengt við marktækt verri meðferðarheldni en aðrir storkuhemlar. Meðferðarheldni var svipuð hjá apixaban, rivaroxaban og warfarín.
V-09
Góðkynja einstofna mótefnahækkun og COVID-19: Lýðgrunduð rannsókn
Sæmundur Rögnvaldsson1, Elías Eyþórsson2, Sigrún Þorsteinsdóttir3, Brynjar Viðarsson2, Páll Torfi Önundarson2, Bjarni Agnar Agnarsson2, Margrét Sigurðardóttir2, Ingunn Þorsteinsdóttir2, Ísleifur Ólafsson2, Hrafnhildur Runólfsdóttir2, Daði Helgason2, Arna Rut Emilsdóttir2, Arnar Snær Ágústsson2, Aron Hjalti Björnsson1, Guðrún Kristjánsdóttir2, Ásdís Rósa Þórðardóttir1, Ólafur Skúli Indriðason2, Ásbjörn Jónsson4, Gauti Kjartan Gíslason1, Andri Ólafsson1, Hlíf Steingrímsdóttir, Petros Kampanis5, Malin Hultcrantz6, Brian GM Durie7, Stephen Harding5, Ola Landgren8, Runólfur Pálsson2, Þorvarður Jón Löve1, Sigurður Yngvi Kristinsson1
1Háskóli Íslands, 2Landspítali, 3Rigshospitalet, 4Sjúkrahúsið á Akureyri, 5The Binding Site, 6Memorial Sloan Kettering Cancer Center, 7Cedar-Sinai Samual Oschin Cancer Center, 8Sylvester Cancer Center
Inngangur: Einstaklingar með mergæxli hafa aukna hættu á alvarlegum veikindum af völdum COVID-19 sjúkdómsins sem orsakast af kórónuveirunni SARS-CoV-2. Góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) er forstig mergæxlis og hefur, líkt og mergæxli, verið tengd við ónæmisbælt ástand sem gæti leitt til alvarlegs COVID-19. Auk þess hefur MGUS verið tengt við áhættu á bakteríu- og veirusýkingum. Tengsl MGUS og COVID-19 hafa hins vegar ekki verið könnuð. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort MGUS tengist SARS-CoV-2-smiti eða alvarleika COVID-19.
Aðferðir: Þátttakendur rannsóknarinnar voru 75.422 einstaklingar á Íslandi sem hafa verið skimaðir fyrir MGUS í rannsókninni Blóðskimun til bjargar. Gögn um próf fyrir SARS-CoV-2 og útkomu COVID-19 hjá þessum einstaklingum voru fengin frá Landspítala. Notast var við próf-neikvætt rannsóknarsnið (e. test-negative design) og logistíska aðhvarfsgreiningu til að kanna tengsl milli MGUS og þess að greinast með SARS-CoV-2 og að veikjast alvarlega, skilgreint sem koma á COVID-göngudeild, innlögn á sjúkrahús eða dauði af völdum COVID-19.
Niðurstöður: Alls höfðu 32.047 einstaklingar gengist undir greiningarpróf fyrir COVID-19, þar af reyndust 1.754 hafa MGUS. SARS-CoV-2-smit greindist hjá 1.100 einstaklingum, þar af 65 með MGUS, og veiktust 230, þar af 16 með MGUS, alvarlega af COVID-19. Ekki reyndust tengsl milli MGUS og SARS-CoV-2-smits (gagnlíkindahlutfall (GH): 1.05; 95% öryggisbil (ÖB): 0.81-1.36; p=0.72) eða alvarlegra veikinda af völdum COVID-19 (GH: 0.99; 95%ÖB: 0.52-1.91; p=0.99).
Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að MGUS auki ekki hættuna á því að fá COVID-19 eða að veikjast alvarlega af völdum sjúkdómsins.
V-10
Lifrarskaði af völdum ribociclib meðal brjóstakrabbameinssjúklinga
Stefanía Katrín Finnsdóttir, Ásgerður Sverrisdóttir, Einar Stefán Björnsson
Landspítali
Inngangur: CDK 4/6 hemlar eru ný lyf sem eru í vaxandi mæli notaðir með andhormónalyfjum við hormónaviðtaka-jákvæðu, Her-2 neikvæðu útbreiddu brjóstakrabbameini. Hækkaðar lifrarprufur sáust meðal sjúklinga í klínískum prófunum á ribociclib. Einungis einu tilfelli lifrarskaða af völdum ribociclib hefur áður verið lýst.
Efniviður og aðferðir: Tilfelli með verulega hækkuðum lifrarprufum í kjölfar meðferðar með ribociclib voru skoðuð. Tölur um notkun ribociclib á Íslandi 2019-2020 voru fengnar frá Lyfjanefnd LSH.
Niðurstöður: Tvö tilfelli lifrarskaða vegna ribociclib fundust hjá 43 sjúklingum 2019-2020.
Tilfelli 1: 54 ára kvk greindist 2019 með brjóstakrabbamein með útbreiddum beinmeinvörpum og fékk meðferð með letrózól ásamt frumudrepandi lyfjum. Ribociclib var bætt við letrózól meðferð í 28 daga meðferðarlotum. Eftir fyrstu lotuna greindist ALAT hækkun, gula og hækkað INR þrátt fyrir að meðferð væri hætt (Tafla).
Tilfelli 2: 66 ára kvk greindist 2007 með brjóstakrabbamein og og gekkst undir fleygskurð og eitlabrottnám. Meðhöndluð 2017 með fulvestrant þegar beinmeinvörp greindust, 2019 var ribociclib bætt við í meðferðarlotum. Eftir þrjár lotur greindust hækkuð lifrarensím (Tafla). Meðferð var stöðvuð en lifrarensím héldust áfram há.
Vegna viðvarandi hækkunar á lifrarprufum fengu báðir sjúklingar meðferð með prednisólón og urðu lifrarprufur eðlilegar á nokkrum vikum. Báðar höfðu eðlileg lifrarensím við upphaf meðferðar, eðlilegar tölvusneiðmyndir af lifur og neikvæða serologiu gegn lifrarbólgu A, B, C og E og neikvæð ANA og SMA.
Ályktun: Tvö tilfelli lifrarskaða greindust meðal rúmlega 40 sjúklinga sem fengu meðferð með ribociclib. Í báðum tilfellum héldust lifrarensím lengi hækkuð þrátt fyrir að meðferð væri stöðvuð en náðu eðlilegu gildi eftir barksteragjöf.
V-11
Alhliða skimun fyrir Lynch heilkenni með litun fyrir misræmispróteinum á ristil-, endaþarms- og legbolskrabbameinum á Íslandi
Haukur Einarsson1, Jóhanna Rún Rúnarsdóttir1, Þórður Tryggvason1, Pétur Snæbjörnsson2, Agnes Smáradóttir1, Vigdís Stefánsdóttir1, Ásgeir Thoroddsen1, Reynir Arngrímsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson1, Sigurdís Haraldsdóttir1
1Landspítali, 2Netherlands Cancer Institute
Inngangur: Alhliða skimun á ristil- og endaþarmskrabbameinum (REKM) og legbolskrabbameinum (LBKM) fyrir Lynch heilkenni (LH) hófst árið 2017. LH eykur áhættu á REKM, LBKM, eggjastokka- og heilakrabbameini á lífsleiðinni. Skimunin er framkvæmd með mótefnalitunum fyrir MMR misræmispróteinum á æxlisvef. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur skimunarinnar og nákvæmni MMR mótefnalitana með því að bera niðurstöðurnar saman við arfgerðargagnagrunn Íslenskrar Erfðagreiningar (ÍE).
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga á Íslandi sem greindir voru með REKM og LBKM á árunum 2017-2019. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og meinafræðiskýrslum. Niðurstöður mótefnalitana og sameindarannsókna, þ.m.t. BRAF stökkbreytigreininga og MLH1 methýleringsprófa, voru bornar saman við gagnagrunn ÍE.
Niðurstöður: MMR mótefnalitanir voru framkvæmdar á æxlisvef frá 404 sjúklingum með REKM og 74 sjúklingum með LBKM. Vöntun var á einni eða fleiri mótefnalitunum í 61 (15,1%) REKM og 15 (20,3%) LBKM. Sjö (1,3%) sjúklingar með REKM og einn (1,2%) sjúklingur með LBKM reyndust vera með LH samkvæmt gagnagrunni ÍE. Næmi MMR mótefnalitana til að finna sjúklinga með LH var 100% og jákvætt forspárgildi var 10,5%. Aðeins helmingi sjúklinga var réttilega vísað í erfðaráðgjöf á tímabilinu og leiddi það til vangreiningar á LH.
Ályktun: Alhliða skimun á REKM og LBKM með notkun mótefnalitana fyrir MMR misræmispróteinum á æxlisvef er afar árangursrík aðferð til að finna þá sjúklinga sem vísa ætti í erfðaráðgjöf með tilliti til LH á Íslandi. Vegna skorts á tilvísun í erfðaráðgjöf leiddi skimunin hins vegar eingöngu til greiningar á helmingi sjúklinga með LH.
V-12
Nýgengi ósamtíma (metachronous) ristil- og endaþarmskrabbameina hjá einstaklingum með Lynch-heilkenni á Íslandi er lágt
Arna Kristín Andrésdóttir1, Sigurdís Haraldsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson1, Einar Stefán Björnsson1, Pétur Snæbjörnsson2, Hildur Jónsdóttir1
1Landspítali, 2Netherlands Cancer Institute
Inngangur: Orsök Lynch heilkennis (LS) er meðfædd stökkbreyting í einu fjögurra mispörunarviðgerðargena DNA (MLH1, MSH2, MSH6 og PMS2) sem erfist ríkjandi. LS veldur hátt í 3% tilfella ristil- og endaþarmskrabbameina (REK). Tíðni ósamtíma REK í LS hefur verið lýst hátt í 20-30% í sumum rannsóknum. Algengi LS á Íslandi er 1:226 og stökkbreytingar í MSH6 og PMS2 eru algengastar. Hér voru nýgengi ósamtíma REK og horfur einstaklinga með REK tengt LS rannsakaðar ásamt skráning á fjölda og gerð ristil- og endaþarmssepa.
Efniviður og aðferðir: Upplýsingum um alla einstaklinga með LS stökkbreytingar í gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar og REK greiningu úr Krabbameinsskrá frá 1955 til árins 2017 var safnað. Upplýsingar um mikilivægar klíníkar breytur fengust úr sjúkra- og meinafræðiskrám.
Niðurstöður: Alls voru 65 einstaklingar hluti af rannsókninni, þar af 24 (37%) konur og 41 (63%) karlar. Samanlagt 25 (39%) voru með stökkbreytingar í MSH6 og 34 (52%) í PMS2. Miðgildi aldurs við greiningu voru 63 ár (Q1 54,9, Q3 72,5). Alls fóru 63 (97%) sjúklingar í skurðaðgerð sem hluta af meðferð og tveir (3%) í fullt ristilbrottnám. Uppsafnað nýgengi ósamtíma REK voru tvö tilfelli (3%) og miðgildi eftirfylgdartíma voru 58 mánuðir
(Q1 8,0, Q3 167,0). Tubular adenoma voru algengustu separnir hjá þessum einstaklingum. Fimm ára REK-lifun var 81% hjá PMS2 berum og 72% hjá MSH6 berum.
Ályktun: Ósamtíma REK er sjaldgæft hjá einstaklingum með Lynch heilkenni á Íslandi og fimm ára lifun er tiltölulega há. Þessar niðurstöður verða hafðar til hliðsjónar við gerð klínískra leiðbeininga varðandi skimun Íslendinga með Lynch heilkenni.
V-13
Réttmæti langvinnra sjúkdómsgreininga í íslenskum heilbrigðisgagnagrunnum
Sæmundur Rögnvaldsson, Þórir E Long, Sigrún Þorsteinsdóttir, Þorvarður Jón Löve, Sigurður Yngvi Kristinsson
Háskóli Íslands
Inngangur: Miðlægir heilbrigðisgagnagrunnar eru mikilvægir rannsóknum í heilbrigðisvísindum, ákvörðunum er varða lýðheilsu og stjórnun heilbrigðiskerfa. Þetta á sérstaklega við þegar kemur að langvinnum sjúkdómum en slíkir sjúkdómar geta haft mikil áhrif í vísindarannsóknum, lýðheilsu og heilbrigðiskerfum. Slíkir gagnagrunnar hafa verið til á Íslandi um nokkurt skeið en ekki liggja fyrir rannsóknir á réttmæti gagna í þeim. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna réttmæti langvinnra sjúkdómsgreininga í íslenskum heilbrigðisgagnagrunnum.
Aðferðir: Átta langvinnir sjúkdómar frá mismunandi sérgreinum voru metnir. Úr þýði rúmlega 80,000 þátttakenda rannsóknarinnar Blóðskimunar til bjargar fæddir 1975 og fyrr voru, fyrir hvern sjúkdóm, slembivaldir 30 einstaklingar með og 30 einstaklingar án skráðrar sjúkdómsgreiningar. Í blindaðri sjúkraskráryfirferð þriggja lækna var svo kannað hvort einstaklingar höfðu sjúkdóm eða ekki samkvæmt fyrirfram tilgreindum skilmerkjum og stigað hvort greiningarnar byggðu á mati læknis eða einnig á hlutlægum gögnum.
Niðurstöður: Heildarnákvæmni langvinnra sjúkdómsgreininga var 96% (95% Öryggisbil (ÖB: 94-97%) og var á bilinu 92-98% eftir sjúkdómum. Eftir vigtun fyrir algengi sjúkdómanna í gögnunum var heildarnákvæmni metin 98.5%. Jákvætt forspárgildi (JFG) langvinnra sjúkdómsgreininga var 93% (95%ÖB: 89-96%) og neikvætt forspárgildi (NFG) var 99% (95%ÖB: 96-100%). Langvinnar sjúkdómsgreiningar voru byggðar á hlutlægum gögnum í 96% tilfella.
Umræður: Þegar á að kanna hvort langvinnir sjúkdómar séu til staðar eru gögn úr Íslensku heilbrigðisgagnagrunnunum nákvæm og hafa hátt JFG og NFG. Auk þess byggja langvinnar sjúkdómsgreiningar oftast á hlutlægum gögnum líkt og myndgreiningu eða blóðrannsóknum. Niðurstöðurnar benda til að langvinnar sjúkdómsgreiningar skráðar í íslenskum heilbrigðisgagngarunnum geti nýst við rannsóknir, ákvarðanatöku í lýðheilsumálum og stjórnun heilbrigðiskerfa.
V-14
Samanburður á meðferð og alvarleika nefblæðinga tengdri notkun storkuhemla: Landlæg þýðisrannsókn
Edward Rumba, Arnar B. Ingason, Einar S. Björnsson, Geir Tryggvason
Landspítali
Inngangur: Fyrri rannsóknir hafa ekki sýnt fram á alvarlegri nefblæðingar hjá sjúklingum á blóðþynningu samanborið við almennt þýði. Þær rannsóknir hafa þó verið takmarkaðar við sérhæfðar HNE deildir. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman meðferð og alvarleika nefblæðinga hjá einstaklingum á storkuhemlum við einstaklinga sem eru ekki á storkuhemlum.
Efniviður og aðferðir: Útkoma nefblæðinga var borin saman milli sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku á tímabilinu 2014 –2019 eftir því hvort þeir voru á blóðþynningu eða ekki. Um landlæga rannsókn var að ræða og voru upplýsingar sóttar frá Lyfjagagnagrunni, Landspítalanum og sjúkrahúsunum á Akranesi, Akureyri, Ísafirði og Neskaupsstað. Fisher‘s próf var notað til að bera saman flokkabreytur og Kruskal–Wallis próf fyrir talnabreytur.
Niðurstöður: Alls fengu 1401 sjúklingar nefblæðingu á tímabilinu; 295 á storkuhemlameðferð um munn og 1106 sjúklingar sem voru ekki á blóðþynningu. Storkuhemlar leiddu hlutfallslega oftar til stórvægra nefblæðinga (11,2% á móti 6,1%, gagnlíkindahlutfall [GL] 1,92, 95% öryggisbil [ÖB] 1,20-3,03) og voru sjúklingar líklegri til að þarfnast blóðgjafar (5,4% á móti 1,8%, GL 3,11, ÖB 1,49-6,41). Sjúklingar á storkuhemlum höfðu hærri tíðni innlagna (16,0% á móti 9,5%, GL 1,81, ÖB 1,22-2,65) og voru líklegri til að þarfnast inngripa eins og brennslu og uppsetningu tróðar (nasal packing). Hjá báðum hópum var um aftari nefblæðingu að ræða í fimmtungi tilfella.
Ályktun: Nefblæðingar hjá sjúklingum á storkuhemlum voru líklegri til að leiða til alvarlegri blæðinga, blóðgjafar og innlagnar en hjá þeim sem ekki voru á blóðþynningu. Þessir sjúklingar þarfnast því yfirleitt nánari eftirfylgni en aðrir sjúklingar með nefblæðingar.
V-15
Meðferðarheldni við lyfjameðferð kransæðasjúkdóms eftir kransæðahjáveituaðgerð
Leon Arnar Heitmann1, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir2, Freyja Jónsdóttir2, Tómas Guðbjartsson2, Martin Ingi Sigurðsson2
1Háskóli Íslands, 2Landspítali
Inngangur: Lyfjameðferð við kransæðasjúkdómi er nauðsynleg í kjölfar kransæðahjáveituaðgerðar. Við kortlögðum meðferðarheldni við statín, beta-blokka og hemla á renín-angíótensín kerfið (RAS) í kjölfar kransæðahjáveituaðgerðar og greindum þætti sem tengjast ómeðferðarheldni.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sem undirgengust kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala árin 2007 til 2018, alls 1536. Upplýsingar um lyfjanotkun fengust úr Lyfjagagnagrunni landlæknis og aðrar sjúklingatengdar upplýsingar úr Íslenska aðgerðargrunninum. Meðferðarheldni var mæld með hlutfalli daga sem sjúklingur hafði fræðilegt aðgengi að lyfi (proportion of days covered, PDC) fyrstu tvö árin eftir aðgerð. Meðferðarheldni var skilgreind sem PDC yfir 80%, en ómeðferðarheldni sem PDC undir 50%. Aðhvarfslíkan var notað til að skilgreina þætti sem tengdust ómeðferðarheldni.
Niðurstöður: Meðferðarheldni innan tveggja ára frá aðgerð var 39.2% fyrir statín, 36.9% fyrir beta-blokka og 30.1% fyrir RAS hemla. Ómeðferðarheldni var 14.4% fyrir statín, 25.9% fyrir beta-blokka en 43.6% fyrir RAS hemla. Áhættuþættir tengdir ómeðferðarheldni voru hærri hrumleikastigun (Statín; GH: 2.29, ÖB: [1.02, 4.86], RAS hemlar; GH: 2.06, ÖB: [1.04, 4.04]), ósæðarlokuskipti samhliða kransæðahjáveituaðgerð (Statín; GH: 1.64, ÖB: [1.11, 2.38], RAS hemlar; GH: 1.78, ÖB: [1.26, 2.52]) og ný ávísun fyrir lyfi í kjölfar aðgerðar (Statín; GH: 2.87, ÖB: [2.06, 4.01], Beta-blokkar GH: 1.70, ÖB: [1.32, 2.18], RAS hemlar; GH: 6.95, ÖB: [5.27, 9.25]).
Ályktanir: Ómeðferðarheldni við statín, beta-blokka og RAS hemla eftir kransæðahjáveituaðgerð er algeng. Sérlega ætti að huga að nánu eftirliti og aukinni fræðslu um þátt lyfjameðferðar í kjölfar aðgerðar meðal hrumra og fjölveikra einstaklinga og þeirra sem undirgangast aðgerð samtímis greiningu kransæðasjúkdóms.
V-16
Ábendingar og ávinningur ósæðarlokuísetningar með þræðingartækni (TAVI) á Íslandi
Katrín Júníana Lárusdóttir, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, Tómas Guðbjartsson, Árni Johnsen, Martin Ingi Sigurðsson, Hjalti Guðmundsson
Landspítali
Inngangur: Ósæðarlokuþrengsl eru algengasti lokusjúkdómurinn á Vesturlöndum. Hefðbundin meðferð við alvarlegum þrengslum hefur verið opin ósæðarlokuskipti en síðastliðin ár hefur ósæðarlokuísetning með þræðingartækni (TAVI) rutt sér til rúms hér á landi sem erlendis. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur TAVI-aðgerða á Íslandi með áherslu á ábendingar, fylgikvilla og lifun.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra TAVI-aðgerða sem framkvæmdar hafa verið á Íslandi frá janúar 2012 til 7. maí 2021. Skráðir voru bakgrunnsþættir sjúklinga, afdrif og fylgikvillar en einnig heildarlifun sem borin var saman við íslenskt viðmiðunarþýði af sama kyni og aldri. Meðal eftirfylgd var 2,7 ár.
Niðurstöður: Alls voru framkvæmdar 223 aðgerðir (meðalaldur 82 ± 6 ár, 41,5% konur), allar með sjálfþenjandi loku. Flestir sjúklingar (81,7%) höfðu alvarleg hjartabilunareinkenni (NYHA-flokkar III-IV) og miðgildi EuroSCORE-II var 4,8 (bil 0,9-32). Á hjartaómskoðun fyrir aðgerð var meðaltal hámarks þrýstingfallandi 78 mmHg og lokuflatarmál 0,67 cm2. Fjórðungur (24,6%) sjúklinga þurfti ísetningu varanlegs gangráðs í kjölfar TAVI. Aðrir fylgikvillar voru oftast æðatengdir (11,1%), hjartaþröng í 3,1% tilfella og tíðni heiladreps vegna heilablóðþurrðar var 4,9%. Mikill randstæður leki við gerviloku sást hjá 0,4% sjúklinga. Dánartíðni innan 30 daga frá aðgerð var 1,8% (n=4) og lifun einu ári frá aðgerðadegi 93,8% (95% ÖB: 90,6-97,1), en heildarlifun var sambærileg lifun viðmiðunarþýðis af sama kyni og sama aldri (p=0,15).
Ályktanir: Árangur TAVI-aðgerða hér á landi er mjög góður, ekki síst þegar litið er til lágrar 30-daga dánartíðni og heildarlifunar sem var sambærileg viðmiðunarþýði. Þar að auki var tíðni alvarlegra fylgikvilla lág.
V-17
Meðferð höfuðstofnsþrenginga á Íslandi: Víkkun, hjáveituaðgerð eða lyfjameðferð?
Heiðrún Ósk Reynisdóttir, Brynjólfur Árni Mogensen, Martin IngiSigurðsson, Ingibjörg JónaGuðmundsdóttir
Landspítali
Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð hefur lengi verið talin kjörmeðferð fyrir sjúklinga með höfuðstofnsþrengingu en rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að kransæðavíkkun gefur sambærilegan árangur í ákveðnum sjúklingahópum. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman bakgrunnsþætti, sjúkdómsástand og lifun sjúklinga með höfuðstofnsþrengingu og meta tengsl þeirra við meðferðarval. Jafnframt var kannað hvort meðferðarval hafi breyst frá 2010-2020.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn, lýðgrunduð gagnarannsókn þar sem gögn voru færð í Swedeheart-gagnagrunninn í rauntíma þegar sjúklingar fóru í kransæðamyndatöku. Rannsóknin náði til sjúklinga með höfuðstofnsþrengingu á Íslandi 2010-2020. Sjúklingar með sögu um fyrri hjáveituaðgerð eða frábendingu fyrir aðgerð voru útilokaðir. Langtímalifun var skoðuð með aðferð Kaplan-Meiers og sjálfstæðir forspárþættir lifunar með COX-aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Alls sýndu 702 kransæðamyndatökur höfuðstofnsþrengingu, 195 voru meðhöndlaðar með víkkun, 460 með hjáveituaðgerð og 47 með lyfjameðferð. Mesta spönn á aldri sjúklinga var í víkkunarhóp og meðalaldur lyfjameðferðarhóps var hæstur (p<0,001). Sjúklingar með höfuðstofnsþrengingu og þriggja æða sjúkdóm eða samhliða lokusjúkdóm fóru oftast í hjáveituaðgerð (76,1% og 84,4%, p>0,001). Sjúklingar sem höfðu eingöngu höfuðstofnsþrengingu voru oftast víkkaðir (62,1%) sem og sjúklingar með hjartadrep með ST-hækkun eða hjartabilunarlost (67,1% og 70%, p<0,001). Hlutfall víkkana jókst úr 19,8% á fyrri hluta rannsóknartímabilsins í 42,7% á seinni hluta. Ekki var martækur munur á heildarlifun í víkkunarhóp og hjáveituhóp (p=0,41).
Ályktun: Þættir sem tengjast meðferðarvali sjúklinga með höfuðstofnsþrengingu eru aldur, dreifing sjúkdóms og hversu brátt ástand sjúklings er. Veruleg aukning hefur orðið á höfuðstofnsvíkkunum og langtímahorfur virðast jafngóðar.
V-18
Meðferðarval sjúklinga með sykursýki og kransæðasjúkdóm: Víkkun, hjáveituaðgerð eða lyfjameðferð?
Margrét Kristín Kristjánsdóttir1, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir2, Martin Ingi Sigurðsson3, Brynjólfur Árni Mogensen2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjartadeild Landspítala, 3Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala
Inngangur: Fjöldi sjúklinga með sykursýki vex stöðugt en þessir sjúklingar hafa aukna áhættu á æðakölkun og útbreiddum kransæðasjúkdómi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl bakgrunns- og sjúkdómstengdra þátta við meðferðarval sykursjúkra með kransæðasjúkdóm á Íslandi á árunum 2010-2020, og bera saman heildarlifun meðferðarhópa.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn, lýðgrunduð gagnarannsókn en gögnum var aflað í rauntíma með skráningu í SwedeHeart gagnagrunninn sem geymir upplýsingar um bakgrunnsþætti sjúklinga, niðurstöður kransæðaþræðinga og -víkkana og meðferðaráform. Meðtaldir voru allir sykursjúkir með kransæðasjúkdóm greindan í kransæðamyndatöku á árunum 2010-2020 á Íslandi.
Niðurstöður: Af 1905 tilfellum fengu 1230 (65%) meðferð með kransæðavíkkun (e. percutaneous coronary intervention, PCI), 274 (14%) með kransæðahjáveituaðgerð (e. coronary artery bypass grafting, CABG) en 401 (21%) eingöngu lyfjameðferð. Aldursdreifingin var ólík á meðferðarhópunum þremur þar sem víkkunarhópurinn var á breiðasta aldursbilinu, hjáveituhópurinn á því þrengsta og meðalaldur lyfjameðferðarhópsins var hæstur (p<0,001). Sjúklingar með ST-hækkunar-hjartadrep eða í hjartabilunarlosti voru frekar víkkaðir og sjúklingar sem einnig höfðu hjartalokusjúkdóm fóru frekar í hjáveituaðgerð (p<0,001). Hlutfall hjáveituaðgerða jókst eftir því sem sjúkdómurinn varð flóknari: 2% hjá einnar æðar sjúkdómi, 30% hjá þriggja æða sjúkdómi og 41% hjá höfuðstofnsþrengslum með þriggja æða sjúkdómi. Frá 2010 til 2020 jókst hlutfall víkkana úr 49% í 72% en samtímis dró úr hlutfalli hjáveituaðgerða og lyfjameðferða eingöngu. Enginn munur var á heildarlifun sjúklinga eftir kransæðavíkkun og kransæðahjáveituaðgerð (p=1).
Ályktun: Stærri sjúklingahópur er nú meðhöndlaður með víkkun en áður og langtímalifun eftir víkkun og hjáveituaðgerð er jöfn. Niðurstöðurnar eru í samræmi við evrópskar leiðbeiningar um val á meðferð.
V-19
Sjaldgæf stökkbreyting í SCN5A hefur áhrif á rafleiðni í hjarta
Daníel Hrafn Magnússon1, Garðar Sveinbjörnsson2, Davíð O Arnar3, Hilma Hólm2, Kári Stefánsson2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Íslensk erfðagreining, 3Landspítali
Inngangur: Þekkt er að stökkbreytingar í SCN5A geninu geta valdið hjartasjúkdómum, þar á meðal Brugada heilkenni. Brugada heilkenni veldur truflun á rafleiðni í hjarta og eykur líkur á skyndidauða. Markmið rannsóknarinnar var að skoða svipgerð einstaklinga með sjaldgæfa íslenska stökkbreytingu í SCN5A geninu og meta hvort hún valdi Brugada heilkenni á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til Íslendinga sem hafa tekið þátt í erfðarannsóknum hjá Íslenskri erfðagreiningu. Til að meta áhrif stökkbreytingarinnar voru notaðar upplýsingar úr 434.000 hjartalínuritum og upplýsingar um útskriftargreiningar frá Landspítala. Til að meta nánar svipgerð var safnað upplýsingum úr sjúkraskrám arfbera stökkbreytingarinnar og viðmiðunarhópi.
Niðurstöður: Við fundum 34 arfbera c.3838-3 C>G stökkbreytingarinnar í SCN5A geninu. Tíðni samsætunnar er 0,009% og því ætti stökkbreytingin að finnast hjá einum af hverjum 5.555 Íslendingum. Meðallengd PR bils og QRS bils var 30,0 ms (P = 4,8x10-6) og 18,3 ms (P = 3,5x10-4) lengra hjá arfberum en hjá einstaklingum án stökkbreytingarinnar. Stökkbreytingin hefur fylgni við skyndidauða (P = 0,025, OR = 6,13). Upplýsingar úr sjúkraskrám sýndu að fjórir af 34 arfberum (11,8%) höfðu látist skyndidauða samanborið við einn af 28 í viðmiðunarhópi (3,6%). Hjartalínurit voru aðgengileg fyrir 26 arfbera og 18 í viðmiðunarhópi. Brugada mynstur af gerð 1 sást í hvorugum hópnum. Einn arfberi hafði farið í flekaíníð próf vegna gruns um Brugada heilkenni sem var neikvætt.
Ályktun: Rannsóknin veitir innsýn í samband arfgerðar og svipgerðar. Stökkbreytingin hefur áhrif á rafleiðni í hjarta en ekki fannst neinn einstaklingur með dæmigerðar línuritsbreytingar fyrir Brugada heilkenni.
V-20
Snemmkomið heilablóðfall eftir ósæðarlokuskipti. Tíðni, áhættuþættir og horfur
Elín Metta Jensen, Tómas Guðbjartsson
Landspítali
Inngangur: Einn af alvarlegustu fylgikvillum ósæðarlokuskipta er heilablóðfall sem getur skert lífsgæði og jafnvel dregið sjúklinga til dauða. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna snemmkomið heilablóðfall eftir ósæðarlokuskipti en slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður hérlendis.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 740 sjúklingum (meðalaldur 71 ár, 34% konur) sem gengust undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2019. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og sjúklingar með heilablóðfall <30 daga frá aðgerð bornir saman við þá sem ekki fengu slíkan fylgikvilla.
Niðurstöður: Þrettán (1,8%) sjúklingar fengu snemmkomið heilablóðfall og breyttist tíðnin ekki marktækt á rannsóknartímabilinu. Helstu einkenni voru helftarlömun, breytt meðvitund og málstol, og greindist heilablóðfall í rúmum helmingi tilvika innan tveggja sólarhringa frá aðgerð. Hjá 70% gengu einkenni að verulegu leyti til baka á fyrstu vikum og mánuðum eftir heilablóðfall. Sjúklingar í heilablóðfallshópi voru með marktækt lægri líkamsþyngdarstuðul en viðmiðunarhópur en ekki sást marktækur munur á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, aðgerðartengdum þáttum né tíðni alvarlegra fylgikvilla annarra en heilablóðfalls. Um 9 af 13 sjúklingum úr hópi þeirra sem fengu heilablóðfall greindust með gáttatif eftir aðgerð. Miðgildi heildarlegutíma sjúklinga með heilablóðfall var 14 dagar, þar af 2 dagar á gjörgæslu, samanborið við 10 daga og 1 dag á gjörgæslu hjá viðmiðunarhópi. Ekki reyndist marktækur munur á 30 daga dánartíðni milli hópa (4,5% sbr. 7,7%, p=0,285).
Ályktun:Tíðni heilablóðfalls var lág (1,8%) og sambærileg við erlendar rannsóknir. Um er að ræða alvarlegan fylgikivilla sem getur leitt sjúklinga til dauða en hjá 2/3 sjúklinga gengu einkenni þó að verulegu leyti til baka.
V-21
Kynheilsa einstaklinga sem koma á göngudeild kynsjúkdóma á Landspítala
Snædís Inga Rúnarsdóttir1, Már Kristjánsson2, Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir2
1Læknanemi, 2Landsspítali
Inngangur: Kynheilbrigði felur m.a. í sér að vera laus við kynsjúkdóma; þeim geta fylgt alvarlegir fylgikvillar og þar sem smit eru oft einkennalaus er mikilvægt að auðvelda fólki aðgang að kynsjúkdómaeftirliti. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa hópnum sem sækir sér þjónustu göngudeildar kynsjúkdóma á Landspítala og kanna hver kynhegðun þess hóps er.
Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru allir þeir einstaklingar sem komu á göngudeild kynsjúkdóma frá 1. júlí 2019 til 31. desember 2019. Á rannsóknartímabilinu voru 3483 komur frá 3190 einstaklingum. Allir þátttakendur svöruðu spurningalista um kynhegðun sína. Fyrir niðurstöður um komur á deildina voru skoðaðar heildarkomur á tímabilinu en fyrir þær sem snéru að kynhegðun voru aðeins skoðaðar komur frá einstaklingum sem höfðu stundað kynmök.
Niðurstöður: Af komunum voru 43,2% frá konum en 56,7% frá körlum. Meðalaldur var 26,4 ár; yngsti einstaklingurinn 14 ára en sá elsti 71 árs. Meirihluta þátttakenda höfðu einungis stundað kynmök með gagnstæðu kyni (83,6% karla og 83,0% kvenna). Hlutfall komna frá einstaklingum sem höfðu haft kynmök með sama kyni var svipað milli kynja en þó voru fleiri konur sem höfðu haft kynmök með báðum kynjum. Síðustu 12 mánuðina fyrir komu höfðu 93,0% stundað kynmök um leggöng, 83,4% munnmök og 25,4% stundað endaþarmsmök. Fyrir komu höfðu 41,7% smitast áður af kynsjúkdómi. Við komu merktu 8,1% þátttakenda við það að nota smokkinn alltaf.
Ályktanir: Flestar komur voru frá einstaklingum undir 30 ára aldri. Erfitt er að meta hvort hinsegin fólk nýtur sér þjónustuna. Meirihluti þátttakenda hafði stundað bæði munnmök og kynmök um leggöng.
V-22
Kerfislæg æðakölkun veldur skerðingu á blóðflæði til heila
Maríanna Garðarsdóttir1, Sigurður Sigurðsson2, Thor Aspelund3, Davíð O. Arnar1, Vilmundur Guðnason2
1Landspítali, 2Hjartavernd, 3Háskóli Íslands
Inngangur: Fyrri rannsóknir okkar sýndu skert heilablóðflæði hjá einstaklingum með gáttatif og langvarandi áhrif á formgerð heilans og starfsemi ásamt vitrænni getu. Æðakölkun er hjarta- og æðasjúkdómur sem hefur áhrif á sömu þætti og áhugavert er að bera saman áhrif æðakölkunar og gáttatifs á heilablóðflæði. Stífleiki í ósæð metur æðakölkun í líkamanum og þannig er hægt að skoða samband æðakölkunar, metið með stífleika ósæðar, og heilablóðflæði. Aukinn stífleiki í ósæð tengist auknum þrýstingi í háræðaneti heilans þar sem þrýstingsbylgjan frá ósæð dofnar síður á mótum hennar og hálsslagæðanna. Þá berst óhófleg þrýstingsbylgjuorka út í smáæðar heilans sem getur valdið skemmdum á háræðanetinu og heilavef og einnig skertri heilastarfsemi.
Efniviður og aðferðir: Stífleiki í ósæð var metinn hjá 261 einstaklingi í þýðisrannsókn (meðalaldur 63±4 ár) með þrýstingsnema í hálsslagæðum og náraslagæðum og afleidd þrýstingsbylgja (HNBH) reiknuð. Gegnumstreymi blóðs um heila var mælt í segulómun með róteindamerkti blóðflæðismælingu og magnbundnar myndir af öllum heilanum metnar, sem og af gráa og hvíta vef heilans.
Niðurstöður: Þátttakendum var skipt í tvo hópa eftir miðgildi HNBH. Hópurinn með hærri HNBH hafði marktækt lægra heilablóðflæði samanborið við hópinn með lægri HNBH (p<0.0001). Gegnumstreymi um allan heila var 46,1±9,8 samanborið við 48,4±10,0 ml/100g/mín, um gráa vef 51,4±11,2 samanborið við 53,9±11,4 ml/100g/mín og um hvítan vef 38,8±7,9 samanborið við 40,7±8,2 ml/100g/mín. Hærri HNBH tengdist lægra gegnumstreymi blóðs í öllum heila, gráa og hvíta vef heilans eftir að leiðrétt var fyrir aldri, kyni og hjartsláttartíðni (p<0,05).
Ályktun: Aukinn stífleiki ósæðar tengist marktækt lægra heilablóðflæði, óháð öðrum mögulegum truflandi þáttum.
V-23
Lífmerki í segulómmyndum af heila fyrir snemmbúna greiningu á taugahrörnunarsjúkdómum
Hugrún Lilja Ragnarsdóttir1, Magnús Magnússon1, Anna Björnsdóttir2, Áskell Löve3, Lotta María Ellingsen1, Steinunn Þórðardóttir4
1Háskóli Íslands, 2Heilsuklasinn, 3Sjúkrahúsið á Akureyri, 4Landspítali
Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar með progressive supranuclear palsy (PSP) eða multiple system atrophy (MSA) hafa oft einkennandi hrörnun í heilastofni. Óljóst er hvort slíkt eigi einnig við Lewy sjúkdóm (DLB). Markmið rannsóknarinnar er að magngreina hrörnun í heilastofni út frá segulómmyndum og þannig styðja snemmbúna greiningu á DLB, PSP og MSA sem er forsenda nýrra meðferðarmöguleika og lyfjaþróunar.
Efniviður og aðferðir: Heildarfjöldi sjúklinga í þýðinu var 16 (8 DLB, 4 PSP og 4 MSA). Rannsóknarteymi okkar við Háskóla Íslands hefur þróað myndgreiningaraðferð fyrir segulómmyndir af heila, sem merkir heilasvæði á sjálfvirkan og nákvæman hátt. Aðferðinni var beitt á segulómmyndir sjúklinganna sem gaf tölulegar upplýsingar um rúmmál undirsvæða heilastofnsins. Í samanburðarhópi var 21 heilbrigður einstaklingur úr gagnagrunni Alzheimer‘s Disease Neuroimaging Initiative.
Niðurstöður: Niðurstöður benda til að brú sé marktækt minni í MSA miðað við samanburðarhóp (14%, p=0,007) og miðað við DLB (12%, p=0,026), og marktækt minni í PSP miðað við samanburðarhóp (18%, p=0,026). Miðheili var marktækt minni í MSA (19%, p=0,014) og PSP (25%, p=0,001) miðað við samanburðarhóp og marktækt minni í PSP miðað við DLB (21%, p=0,014). Efri hnykilstoðir voru marktækt minni í PSP miðað við samanburðarhóp (62%, p=0,003) og miðað við DLB (56%, p=0,025). Í tveimur tilfellum PSP voru til segulómmyndir af heila sem teknar voru fyrir greiningu og bendir það til möguleika á snemmbúinni greiningu.
Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að sjálfvirk myndgreining á hrörnun heilastofns gæti stutt við greiningarnar PSP og MSA. Erfitt er að fullyrða að snemmbúin greining sé möguleg vegna lítils sjúklingaþýðis í rannsókninni.
V-24
Ofbeldi og áhættuþættir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma í sænsku þýði
Rebekka Lynch1, Nancy Pedersen2, Thor Aspelund1, Arna Hauksdóttir1, Filip K. Arnberg3, Unnur Valdimarsdóttir1
1Háskóli Íslands, 2Karolinska Institutet, 3Uppsala University
Inngangur: Ýmiskonar áföll hafa verið tengd aukinni áhættu fyrir greiningum á hjarta- og æðasjúkdóma. Ofbeldi er algengt áfall en áhrif þess á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hefur aðallega verið rannsakað hjá konum.
Efniviður og aðferðir: LifeGene er sænsk langtímarannsókn sem notaði slembiúrtak til að bjóða einstaklingum á aldrinum 18-45 þátttöku á árunum 2011-2016, með 20% þátttökuhlutfall. 26,182 einstaklingar svöruðu netkönnun um félagslega stöðu, ofbeldisútsetningu og heilsufar og mættu á rannsóknarstöð þar sem líkamsþyngdarstuðull, blóðþrýstingur og blóðprufur til að mæla langtímasykur, ApoB/ApoA1 hlutfall og heildarkólesteról voru teknar. Útsetning var athuguð með Life Stressor Checklist-Revised, sem inniheldur sjö spurningar um ofbeldi. Við notuðum Poisson hlutföll (PH) og línulega aðhvarfsgreiningu (B) með öryggisbilum (ÖB) til að skoða sambandið á milli ofbeldis og áhættuþátta fyrir hjarta-og æðasjúkdóma eftir leiðréttingu fyrir aldri, menntun og hjúskaparstöðu.
Niðurstöður: 23% kvenna og 15% karla höfðu orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Einstaklingar sem höfðu orðið fyrir ofbeldi voru líklegri til að reykja (PH 1.87, ÖB: 1.67 – 2.08), að hafa verið greindir með háþrýsting (PH 1.32 ÖB: 1.16, 1.50) og að vera með hærri líkamsþyngdarstuðul (B 0.36 ÖB: 0.25 – 0.48), en ekki var munur á langtímasykri, apoB/ApoA1 hlutfalli eða heildarkólesteróli. Kynjamunur var óverulegur.
Ályktun: Í hraustu, ungu þýði sænskra einstaklinga er aukning á áhættuþáttum fyrir hjarta-og æðasjúkdóma meðal þeirra sem hafa orðið fyrir obeldi, óháð kyni.
V-25
Sýkingar eftir hjartainngrip á Landspítala 2012 – 2020: Ósæðarloku-, gangráðs- og bjargráðsígræðslur
Gyða Jóhannsdóttir, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, Ragnar Danielsen, Hjörtur Oddsson, Kristján Orri Helgason, MárKristjánsson
Landspítali
Tilgangur: Hjartainngrip með þræðingartækni hafa farið vaxandi, þ.m.t. ísetning á ósæðarloku (TAVI) og meðhöndlun takttruflana með gang- (PM) eða bjargráðum (ICD). Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni, greiningu og meðhöndlun sjúklinga með sýkingar eftir slíkar aðgerðir.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem greindust með sýkta hjartaþelsbólgu (IE) eða sýkingu eftir TAVI-, PM- eða ICD- aðgerð á Landspítala frá 1. janúar 2012- 30. júní 2020. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám.
Niðurstöður: Af 2616 PM-sjúklingum voru 24 greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega (79% karlar, meðalaldur 76 ár). Af 515 ICD-sjúklingum voru 11 greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega (65% karlar, meðalaldur 64 ár). Af 194 TAVI- sjúklingum voru fimm greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega (71% karlar, meðalaldur 80 ár).
Nýgengi sýkinga var 2,8 (PM), 7,2 (ICD) per 1000 tækjaár og 1,49 (TAVI) per 100 lokuár. Algengasta bakterían var S. aureus (27% PM, 43% TAVI, 29% ICD). Sjúklingar fóru bæði í hjartaómun frá brjóstvegg (TTE) og vélinda (TEE) í 52% (PM) og 31% (ICD) tilvika.
Ef grunur lék á IE eftir TAVI voru í 13% tilvika tekin þrjú sett eða fleiri í blóðræktun og 40% sjúklinga fóru bæði í TTE og TEE. Í 40% tilvika var framkvæmd blóðræktana ekki fullnægjandi til greiningar á IE með skilmerkjum Dukes.
Ályktun: Nýgengi er sambærileg (PM, TAVI) og há (ICD) hér á landi í samanburði við erlendar rannsóknir. Uppvinnsla vegna gruns um IE eftir þræðingaraðgerðir er ábótavant. Samræmt verklag gæti bætt greiningu og meðferð.
V-26
Stafræn nálgun að göngudeildarþjónustu fyrir sjúklinga með hjartabilun: Fýsileikakönnun
Davíð O. Arnar1, Sæmundur J. Oddsson2, Þrúður Gunnarsdóttir2, Elías F. Guðmundsson2, Guðbjörg J. Gunnlaugsdóttir3, Auður Ketilsdóttir3, Hulda Halldórsdóttir3, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir1, Hallur Hallson2, María L. Ámundadóttir2, Tryggvi Þorgeirsson2
1Landspítali Háskólasjúkrahús, Læknadeild, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóla Íslands, 2Sidekick Health, 3Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Hjartabilunarsjúklingum er ráðlagt að fylgja meðferðaráætlun til að halda niðri sjúkdómseinkennum og bæta lífsgæði. Göngudeildarmeðferð samanstendur af ráðleggingum, eftirfylgni með lífsstílsbreytingum, lyfjatöku, þyngd og sjúkdómseinkennum. Stafræn nálgun með smáforriti bætir hugsanlega meðferð og meðferðarheldni sem skiptir sköpum við að draga úr sjúkdómsbyrði og kostnaði.
Markmið fýsileikakönnunarinnar var að meta lífsstílsmeðferð og reglulegt einkennamat með Sidekick Health smáforriti í göngudeildarmeðferð.
Efniviður og aðferðir: Sérfræðingar göngudeildar hjartabilunar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi þróuðu átta vikna lífsstílsmeðferð og einkennamatslista í samstarfi við Sidekick Health. Spurningalistarnir The Hospital Anxiety and Depression Scale (HADS) og Kansas City Cardiomyopathy Questionnaire (KCCQ) voru lagðir fyrir í upphafi og lok meðferðar ásamt spurningum um lyfjatöku og ánægju með úrræðið.
Niðurstöður: Tuttugu sjúklingar (meðalaldur 57,5 ár, 80% karlmenn) hófu meðferð. Daglega var fylgst með orkustigi, streitustigi, svefngæðum, hreyfingu, neyslu ávaxta og grænmetis. Hagstæðar breytingar urðu á flestum útkomum. Meðalneysla ávaxta jókst (úr 4,6 í 7,7 skammta/viku, p<0,01). HADS og KCCQ sýndu hagstæðar breytingar fyrir sex af sjö þáttum. Kvíði lækkaði úr 5,2 í 4,2 stig (p<0,05) og sjúklingar upplifðu minni hömlur vegna mæði (KCCQ skor úr 2,6 í 3,9,p<0,05). Sjúklingar mundu frekar eftir lyfjatöku með aðstoð Sidekick (83% 10/12, skor úr 1,92 í 1,25, p<0,001). Mikil ánægja var með smáforritið og gáfu þátttakendur því að meðaltali 6,8/7 í einkunn þegar spurt var um það hversu líklegir þeir væru að mæla með smáforritinu.
Ályktun: Stafræn nálgun með Sidekick Health reyndist fýsileg í göngudeildarmeðferð fyrir hjartabilunarsjúklinga. Jákvæðar breytingar urðu á einkennum og líðan sjúklinga. Gagnsemi úrræðisins verður kannað frekar í stærri slembirannsókn.
V-27
Tengsl blóðþrýstings í æsku við blóðþrýsting og háþrýsting hjá ungum fullorðnum
Ásdís H Sigurðardóttir1, Ólafur S. Indriðason2, Sigurður S. Stephensen2, Þórdís J. Hrafnkelsdóttir2, Viðar Ö. Eðvarðsson2
1Háskóli Íslands, 2Landspítalinn
Inngangur: Blóðþrýstingur í æsku spáir fyrir um stök gildi blóðþrýstings hjá fullorðnum en tengsl við sólarhringsblóðþrýstingsmælingar (ABP) hafa ekki verið könnuð. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tengsl stakra blóðþrýstingsmælinga í æsku við stakar mælingar og APB hjá ungum fullorðnum.
Efniviður og aðferðir: Einstaklingum sem tóku þátt í lýðgrundaðri þversniðsrannsókn á blóðþrýstingi við 9–10 ára aldur var 10-12 árum síðar boðin þátttaka í eftirfylgdarrannsókn. Af 970 einstaklingum úr upphaflega þýðinu hefur 121 (50 karlar, 71 konur) undirgengist átta stakar blóðþrýstingsmælingar og ABP-mælingu. Sambandið á milli blóðþrýstings í æsku og við eftirfylgd var skoðað með Pearson fylgnistuðli og línulegri aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Jákvæð fylgni var á milli slagbilsþrýstings (SBÞ) í æsku og SBÞ við eftirfylgd (stakar mælingar: r=0.386, p<0.001; ABP: r=0.370, p<0.001). Sú fylgni var sterkari hjá körlum (stakar mælinga: r=0.580, p<0.001, slagbils-ABP: r=0.491, p<0.001) en konum (stakar mælingar: r=0.298, p=0.012, slagbils-ABP: r=0.323, p=0.006). Fylgni var á milli hlébilsþrýstings (HBÞ) í æsku og við eftirfylgd hjá konum (stakar mælingar: r=0.355, p=0.003; ABP: r=0.439, p<0.001), en ekki hjá körlum.Leiðrétt línuleg aðhvarfsgreining sýndi að SBÞ-mælingar við eftirfylgd tengist SBÞ í æsku hjá bæði körlum (beta=0.65, p<0.001) og konum (beta=0.26, p=0.012). 10 mmHg hærri SBÞ í æsku spáir fyrir 4,9 mmHg hærri (p<0.001) slagbils-ABP við eftirfylgd, ómarktækur munur var milli kynja. Tengsl HBÞ við eftirfylgd og í æsku voru ekki marktæk í fjölþátta greiningu.
Ályktun: Marktækt samband er á milli stakra SBÞ-mælinga í æsku og bæði stakra og ABP-mælinga hjá ungum fullorðnum. Sambandið er sterkara hjá körlum en konum.
V-28
Góð lifun íslenskra kvenna eftir bráða kransæðastíflu
Helga Rún Garðarsdóttir1, Martin Ingi Sigurðsson2, Karl Andersen2, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir2
1Karolinska háskólasjúkrahúsið, 2Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms hefur lækkað umtalsvert á síðustu áratugum en þó minna hjá konum en körlum. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif kyns á meðferð og lifun eftir bráða kransæðastíflu á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fóru í kransæðaþræðingu vegna STEMI (2008-2018) og NSTEMI (2013-2018) og höfðu marktækar þrengingar í kransæðum. Rannsóknargögn voru fengin úr SCAAR-gagnagrunni og sjúkraskrám en upplýsingar um dánardag fengust frá Hagstofu Íslands. Aðferð Kaplan-Meier var notuð til að til að reikna heildarlifun og forspárþættir lifunar voru metnir með aðhvarfsgreiningu Cox. Umfram dánartíðni var metin með að bera saman lifun sjúklinganna við áætlaða lifun Íslendinga af sama aldri og kyni í 30 daga tímabilum.
Niðurstöður: Það voru 1345 STEMI sjúklingar (24% konur) og 1249 NSTEMI (24% konur). Konur voru eldri, bæði hjá STEMI-hópnum (meðalaldur: 7111 vs. 6712) og NSTEMI-hópnum (6913 vs. 6212). Það var enginn kynjamunur á útbreiðslu kransæðasjúkdómsins eða meðferð. Lifun kvenna eftir STEMI var síðri en karla en kvenkyn var þó ekki sjálfstæður forspárþáttur fyrir verri lifun. Lifun eftir NSTEMI var sambærileg og var kvenkyn verndandi forspárþáttur lifunar. Það sást umfram dánartíðni hjá báðum kynjum fyrstu 30-60 dagana eftir STEMI og NSTEMI borið saman við áætlaða lifun Íslendinga en síðan var dánartíðnin svipuð.
Ályktanir: Konur og karlar á Íslandi fá sambærilega meðferð við bráðri kransæðastíflu. Horfur eftir NSTEMI eru betri fyrir konur en hærri dánartíðni fyrir konur eftir STEMI mætti að hluta rekja til hærri aldurs þeirra þar sem kvenkyn var ekki sjálfstæður forspárþáttur fyrir lifun.
V-29
Áhrif skertrar nýrnastarfsemi á snemmkominn árangur kransæðahjáveituaðgerða
Nanna Sveinsdóttir, Tómas Guðbjartsson, Martin Ingi Sigurðsson, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, Þórir Einarsson Long, Sunna Rún Heiðarsdóttir, Alexandra Aldís Heimisdóttir, Hera Jóhannesdóttir
Landspítalinn
Skert nýrnastarfssemi eins og við langvinnan nýrnasjúkdóm (LNS) er áhættuþáttur kransæðasjúkdóms og hefur verið tengd við aukna tíðni fylgikvilla og dánartíðni eftir kransæðahjáveituaðgerð. Árangur hjáveituaðgerða hjá þessum sjúklingahópi hefur ekki verið rannsakaður sérstaklega hér á landi og er markmið rannsóknarinnar að bæta úr því, með áherslu á snemmkomna fylgikvilla og 30 daga dánartíðni.
Afturskyggn ferilrannsókn á 2300 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveitu á Landspítala 2001-2020. Sjúklingunum var skipt í fjóra hópa eftir gaukulsíunarhraða (GSH) fyrir aðgerð og voru hóparnir bornir saman; GSH 45–59 mL/mín/1.73m2, GSH 30-44 mL/mín/1.73m2, GSH <30 mL/mín/1.73m2og viðmiðunarhópur með eðlilega nýrnastarfsemi (GSH >60 mL/mín/1.73m2). Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og lógistísk aðhvarfsgreining notuð til að meta forspárþætti 30 daga dánartíðni.
Alls höfðu 429 sjúklingar (18,7%) skerta nýrnastarfssemi og voru þeir eldri, einkennameiri, höfðu hærra meðal EuroSCORE II (5,0 sbr. 1,9 p<0,001) og miðgildi legutíma þeirra var tveimur dögum lengra en hjá sjúklingum í viðmiðunarhópi. Auk þess var útfallsbrot vinstri slegils lægra, oftar þrengsli í vinstra höfuðstofni og tíðni alvarlegra snemmkominna fylgikvilla og 30 daga dánartíðni hærri. Tíðni fylgikvilla og dánartíðni hækkaði með lækkandi GSH. Í fjölþáttagreiningu reyndust hærri aldur og útfallsbrot vinstri slegils <30% vera sjálfstæðir forspárþættir hærri 30 daga dánartíðni, líkt og GSH <30 mL/mín/1,73m2 sem reyndist langsterkasta forspárgildið (OR=10,4; 95% ÖB: 3,98-25,46).
Sjúklingar með skerta nýrnastarfssemi eru eldri og hafa oftar alvarlegan kransæðasjúkdóm en þeir sem hafa eðilega nýrnastarfsemi. Tíðni snemmkominna fylgikvilla og 30 daga dánartíðni reyndist verulega hærri hjá sjúklingum með verstu nýrnastarfssemina sem jafnframt var sterkasti sjálfstæði forspárþáttur 30 daga dánartíðni.
V-30
Lyfjanotkun á göngudeild hjartabilunar á Landspítala - eru sjúklinga meðhöndlaðir í samræmi við klínískar leiðbeiningar Evrópsku hjartalæknasamtakanna?
Íris E. Gísladóttir1, Inga S. Þráinsdóttir2, Karl Andersen3, Ingibjörg Gunnþórsdóttir4, Guðbjörg J. Guðlaugsdóttir4, Auður Ketilsdóttir3, Pétur S. Gunnarsson4
1Lyfja hf., 2Landspítali, 3Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Hjartabilun er algeng og alvarleg gerð af hjarta- og æðasjúkdómum. Fjórir megin lyfjaflokkar eru notaðir í meðferð við hjartabilun, ACE- og ARB-hemlar, beta blokkar og saltstera/aldósterón viðtaka blokkar. Markmið rannsóknarinnar var að athuga hver staða lyfjanotkunar hjá sjúklingum á göngudeild hjartabilunar á Landspítalanum er miðað við klínískar leiðbeiningar Evrópsku hjartalæknasamtakanna (ESC).
Aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og lýsandi þar sem gögnum var safnað úr rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala fyrir alla sjúklinga, 18 ára eða eldri, miðað við síðustu heimsókn þeirra á göngudeild hjartabilunar LSH á árinu 2016. Notast var við viðmiðunarskammta sem gefnir eru upp í klínískum leiðbeiningum ESC.
Niðurstöður: Í úrtakinu voru 253 sjúklingar sem áttu að minnsta kosti eina heimsókn á göngudeild hjartabilunar árið 2016. Meðalaldur sjúklinganna var 69 ár og meirihlutinn voru karlmenn (75.5%). Alls voru 219 sjúklingar á ACE- eða ARB hemlum, 227 sjúklingar á beta blokkum og 130 sjúklingar á saltstera/aldósterón viðtaka blokkum. Viðmiðunarskömmtum var náð hjá 14% sjúklinga á ACE- eða ARB hemlum, 12% sjúlinga á beta blokkum og 16% sjúklinga á saltstera/aldósterón viðtaka blokkum.
Ályktanir: Helstu ályktanir eru þær að lágt hlutfall sjúklinga í úrtakinu er á viðmiðunarskömmtum sem gefnir eru upp í klínískum leiðbeiningum Evrópsku hjartalæknasamtakanna. Helstu ástæður fyrir því að sjúklingar voru ekki á viðmiðunarskömmtum voru skert nýrnastarfsemi, lágur blóðþrýstingur þegar skammtar voru hækkaðir eða skammtaaukning lyfs ekki fullreynd. Eru þessar niðurstöður í takt við sambærilegar rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar í Evrópu.
V-31
Hjartastopp hjá ungri konu; einn eða tveir sjaldgæfir erfðasjúkdómar?
Helga Þórunn Óttarsdóttir, Gunnlaugur Sigfússon, Björn Flygenring, Davíð O.Arnar
Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Hjartastopp hjá ungum einstaklingum er með erfiðari klínskum viðfangsefnum lækna. Hjartavöðvakvilli í hægri slegli (ARVC) er hjartavöðvasjúkdómur sem einkennist af því að vöðvavef í hægri slegli er umbreytt í bandvef og fitu, auk þess sem slegillinn víkkar. Lenging á QT bili (LQTS) er heilkenni sem veldur röskun á endurskautun vöðvafruma í sleglum og báðir sjúkdómar geta valdið lífshættulegum sleglatakttruflunum og hjartstoppi.
Tilfelli: 16 ára hraust stúlka fór í hjarstopp eftir áreynslu í heimahúsi og var endurlífguð með góðum árangri. Það gefur grun um ARVC. Fyrsta hjartalínurit sýnir lengingu á QT bili og ómskoðun af hjarta sýnir víkkun á hægri slegli. Segulómun af hjarta sýnir sömuleiðis víkkun á hægri slegli. Óvissa var um hvort hún hefði ARVC, LQTS eða jafnvel báða sjúkdóma. Erfðarannsókn sýndi stökkbreytingu í PKP2 sem er þekkt ARVC gen. Fimm einstaklingar í fjölskyldunni reyndust vera með stökkbreytinguna en aðeins einn með svipgerð sjúkdómsins.
Ályktun: Þessi unga kona reyndist vera með ARVC sem orsök hjartastoppsins. EKG sýndi langt QT bil en hún var ekki með þekkta QT lengjandi stökkbreytingu og tók engin QT lengjandi lyf. Ástæðan fyrir QT lengingunni á EKG er því óviss. Erfðarannsókn gengdi lykilhlutverki við staðfestingu á sjúkdómsgreiningu og áhættumat á ættingjum. Þar sem fjórir af fimm voru með eðlilega svipgerð hefði klínískt áhættumat ekki dugað eitt og sér. Líklegt er að erfðarannsóknir muni spila stærra hlutverk við mat á orsökum skyndidauða ungs fólks og áhættumati ættingja í náinni framtíð.
V-32
Heildar langásálag hjarta í íslenskum ungmennum og tengsl við blóðþrýsting, líkamsbyggingu og lífsstíl
Ólöf Hafþórsdóttir1, Ásdís Hrönn Sigurðardóttir1, Viðar Örn Eðvarðsson2, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir1
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins
Inngangur: Rannsóknir benda til að mat á heildar langásálagi (HLÁ) nemi fyrr breytingar á starfsemi vinstri slegils en reiknað útstreymisbrot. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa HLÁ gildi Íslendinga á aldrinum 20 – 21 árs og tengslum þess við slagbilsþrýsting, líkamssamsetningu og lífsstíl.
Efniviður og aðferðir: Þátttakendur, fæddir 1999, svöruðu spurningalista um lífsstíl, lyfjanotkun og sjúkdómsgreiningar. Þeir gengust undir líkamsskoðun, sólarhringsmælingu á blóðþrýstingi, mælingu á líkamssamsetningu og hjartaómun. Mat var lagt á HLÁ vinstri slegils í fjögurra, tveggja og þriggja hólfa myndum. Hækkaður blóðþrýstingur var miðaður við slagbilsþrýsting yfir 120 mmHg við læknisskoðun. Háþrýstingur var miðaður við slagbilsþrýsting yfir 110 mmHg í næturmælingum og yfir 125 mmHg í sólarhringsmælingum. Við tölfræðiúrvinnslu voru notuð kí-kvaðrat próf, t-próf, Fisherspróf og línuleg aðhvarfsgreining.
Niðurstöður: Þátttakendur voru 102. HLÁ þátttakenda var -18,59 (SD, 2,01) %. Konur voru með hærra HLÁ en karlar. HLÁ var marktækt lægra hjá einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma, hækkaðan slagbilsþrýsting við læknisskoðun, háþrýsting að næturlagi, háþrýsting við sólarhringsmælingu og hlutfall mittismáls af hæð >0,5. Neikvæð fylgni fékkst milli HLÁ og slagbilsþrýstings á næturnar og HLÁ og hlutfalls mittismáls af mjaðmamáli.
Ályktun: Meðaltal HLÁ gildis í okkar rannsókn er í samræmi við niðurstöður annarra og reyndust karlar vera með lægra HLÁ en konur. Að auki virðist vera neikvætt samband milli HLÁ og slagbilsþrýstings og miðlægrar offitu. Fáar rannsóknir eru til á HLÁ í þessum aldurshópi og því verður áhugavert að fylgjast með þegar fleiri rannsóknir hafa verið gerðar á sambandi HLÁ við fyrrnefnda þætti.
V-33
Faraldsfræði heilkenni lengingar á QT bili á Íslandi
Bára Dís Benediktsdottir1, Garðar Sveinbjörnsson2, Gunnlaugur Sigfússon1, Daníel F Guðbjartsson2, Hilma Hólm2, Davíð Ottó Arnar1, Kári Stefánsson2
1Landspítali, 2Decode
Inngangur: Algengi lengingar á QT bili á hjartalínuriti er áætlað 1:2000 til 1:5000. Algengi arfbera stökkbreytinga sem lengja QT bil gætu þó verið nær 1:1000, en faraldsfræðileg gögn um heilkenni lengingar á QT bili eru takmörkuð. Markmið rannsóknarinnar er að finna og áætla tíðni stökkbreytinga sem valda heilkenni lengingar á QT bili á Íslandi og öðlast þannig mikilvægar upplýsingar um faraldsfræðilega erfðafræði heilkenni lengingar á QT bili.
Efniviður og aðferðir: Arfgerðarupplýsingar voru byggðar á heilraðgreiningu erfðamengis um 45.000 einstaklinga og örflögugreiningu 155.000 einstaklinga. Áhrif stökkbreytinga á QTc bilið var metið út frá 434.000 hjartalínuritum frá 80.694 einstaklingum.
Niðurstöður: Algengi sjaldgæfra stökkbreytinga í útröðum í þekktum genum sem valda heilkenni lengingar á QT bili í íslenska þýðinu er 572 af hverjum 100.000 einstaklingum (1:175). Ef algengustu stökkbreytingunni (p.Val215Met í KCNQ1), sem er tilkomin vegna landnemaáhrifa, er sleppt er algengið 212 af hverjum 100.000 einstaklingum (1:602). Meðal þeirra arfbera sem til er hjartalínurit af, má skoða hlutfall arfbera sem hafa QTc>460 ms á hjartalínuriti og þannig áætla tíðni einstaklinga sem hafa heilkenni lengingar á QT bili á Íslandi. Tíðni heilkenni lengingar á QT bili í íslenska þýðinu er 289 á hverja 100.000 einstaklinga (1:345) eða 145 af hverjum 100.000 (1:688) ef stökkbreytingunni p.Val215Met er sleppt.
Ályktun: Tíðni stökkbreytinga sem valda lengingu á QTbili á Íslandi er mun hærra en algengistölur hafa áður bent til. Þetta á bæði við um heildarfjölda arfbera og fjölda arfbera sem hafa QTc >460 ms á hjartalínuriti og gætu þannig talist hafa heilkenni lengingar á QT bili.
V-34
Vegferðin að útrýmingu lifrarbólgu C: á lokaspretti eða eltingaleikur að síkviku endamarki?
Ragnheiður Friðriksdóttir1, Sigurður Ólafsson1, Valgerður Rúnarsdóttir2, Ingunn Hansdóttir2, Þórarinn Tyrfingsson2, Þorvarður Löve1, Óttar Bergmann1, Einar Björnsson1, Birgir Jóhannsson1, Bryndís Ólafsdóttir2, Arthúr Löve1, Guðrún Baldvinsdóttir1, Ubaldo Benitez Hernandez1, María Heimisdóttir3, Magnús Gottfreðsson1, TrapHepC Samstarfshópur1
1Landspítali, 2SÁÁ - Sjúkrahúsið Vogur, 3Sjúkratryggingar Íslands
Inngangur: Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) setti takmark um útrýmingu lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvár fyrir árið 2030. Árið 2016 var sett af stað meðferðarátak gegn lifrarbólgu C á Íslandi. Öllum með virkt lifrarbólgu C smit var boðin lyfjameðferð með veirulyfjum á 36 mánaða tímabili. Í kjölfarið tók við 24 mánaða tímabil (til áramóta 2021/2022) þar sem einblínt er á endur- og nýsmit án takmarkana á fjölda meðferða.
Aðferðir: Bornir eru saman einkennandi þættir sjúklingahóps sem fékk meðferð á fyrra tímabili meðferðarátaksins (1/2016-2/2019) við sjúklingahóp á hluta síðara tímabils (2/2019-12/2020) úr sjúkraskrárgögnum sem safnað var í átakinu.
Niðurstöður: Á fyrra tímabili staðfestust 835 tilfelli lifrarbólgu hjá 791 einstaklingi. 729 (92%) fengu matsviðtal, og 782 meðferðir voru gefnar 705 einstaklingum. Á síðara tímabili fengu 140 einstaklingar matsviðtal og gefnar voru 127 meðferðir. Á fyrra tímabili, fengu 77 (11%) sjúklingar endurtekna meðferð samanborið við 44 (35%) á síðara tímabili. Meðalaldur lækkaði milli tímabila (45 vs 39 ár). Hlutfall sjúklinga sem voru fæddir utan Íslands jókst úr 13% í 28% milli tímabila. Heimilisleysi jókst á síðara tímabili, úr 7% í 17%. Nýleg neysla vímuefna um æð jókst úr 39% sjúklinga sem sprautuðu sig síðustu 6 mánuði í 61% sjúklinga.
Ályktun: Viðtökur hafa verið framúrskarandi í átakinu, en lítill hópur sjúklinga í aukinni hættu á endursýkingu vegna neyslu og samnýtingu notaðra áhalda er áfram áskorun. Að auki, eru meðal nýsmita aukið hlutfall innfluttra smita. Til að ná markmiðum WHO þurfa átaksverkefni að aðlagast breytilegum þörfum sjúklinga með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn og þeirra sem neyta vímuefna um æð.
V-35
Skipulag þjónustu til útrýmingar á lifrarbólgu: þjónustulíkan fyrir Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C á Íslandi
Ragnheiður Friðriksdóttir1, Anna Tómasdóttir1, Bjartey Ingibergsdóttir1, Bergþóra Karlsdóttir1, Hildigunnur Friðjónsdóttir1, Kristín Alexíusdóttir1, Þóra Björnsdóttir2, Ásdís Finnbogadóttir2, Bryndís Ólafsdóttir2, Valgerður Rúnarsdóttir2, Sigurður Ólafsson1, Magnús Gottfreðsson1
1Landspítali, 2SÁÁ - Sjúkrahúsið Vogur
Inngangur: Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C á Íslandi hófst 2016 og var öllum sjúklingum boðin meðferð með veirulyfjum. Yfir 90% lifrarbólgu C smitaðra hafa hafa neytt vímuefna um æð. Mikið brottfall úr meðferð hefur einkennt þennan hóp og skipulag þjónustu þarf að miða að þeirra þörfum.
Aðferðir: Hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í meðferðarátakinu með innköllun sjúklinga, tengingu við þjónustu, eftirfylgd og fyrirbyggingu endursýkinga með skaðaminnkandi nálgun.. Samhæfðir gagnagrunnar eru nýttir til innköllunar. Þjónustan er þverfagleg og í samvinnu við önnur kerfi s.s velferðar-og réttarkerfi og geta sjúklingar færst á milli þjónustuveitenda án meðferðarrofs. Brottfallnir sjúklingar og/eða endursýktir eru hvattir til að hefja endurmeðferð.
Niðurstöður: Eftir 36 mánuði höfðu 705 einstaklingar hafið meðferð við lifrarbólgu C. Meðalaldur var 44 ár, 67,2% karlar. Alls höfðu 234 (33,2%) sprautað sig í æð nýlega (innan 6 mánuða).Örvandi efni voru fyrsta val 85,2% þeirra sem höfðu sprautað sig (505/593) en 12,8% kusu helst ópíóða og 65 (9,2%) voru á lyfjameðferð við opíóðafíkn. Af þeim sem hófu meðferð náðu 635 (90,1%) lækningu eftir fyrstu meðferð. Sjúklingar sem ekki luku meðferð náðu engu að síður lækningu í 51% tilfella. Í heild fengu 70 einstaklingar tvær meðferðir, 6 þrjár meðferðir og einn einstaklingur fjórar meðferðir. Með endurinnköllunum og endurmeðferrðum náðu samtals 973 (95,5%) að lokum lækningu.
Ályktun: Í samanburði við fyrri þjónustulíkön fyrir lifrarbólgu C hefur þessi sveigjanlega, þverfaglega uppsetning þjónustu i meðferðarátakinu með meðferðarstuðningi, endurskimunum, opnu aðgengi að meðferð og endurmeðferð leitt til framúrskarandi árangurs í meðhöndlun sjúklinga sem neyta vímuefna í æð.
V-36
Viðvarandi lækkun á algengi lifrarbólgu C í fangelsum eftir 3ja starfsár meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C á Ísland
Ragnheiður Friðriksdóttir2, Þórarinn Tyrfingsson1, Gottfreðsson Magnús2, Sigurður Ólafsson2, María Heimisdóttir3, Bryndís Sigurðardóttir2, Birgir Jóhannsson2, Einar Björnsson2, Óttar Bergmann2, Valgerður Rúnarsdóttir1, Bryndís Ólafsdóttir1, Ásdís Finnbogadóttir1, Þóra Björnsdóttir1, Anna Tómasdóttir2, Bergþóra Karlsdóttir2, Hildigunnur Friðjónsdóttir2, Bjartey Ingibergsdóttir2
1SÁÁ - Sjúkrahúsið Vogur, 2Landspítali, 3Sjúkratryggingar Íslands
Inngangur: Algengi lifrarbólgu C veiru (hepatitis C virus, HCV) hefur verið hátt meðal fanga enda algengt að þeir sem neyta vímuefna um æð lendi í fangelsi. Í meðferðarátaki gegn lifrarbólgu C á Íslandi hefur frá 2016 verið boðið upp á skimun og meðferð með veirulyfjum í fangelsum. Fyrri greining sýndi lækkun á algengi HCV úr 29% í 7% meðal fanga á fyrstu 19 mánuðum átaksins.
Aðferðir: Frá júní 2016 fóru hjúkrunarfræðingar reglulega í fangelsin og buðu föngum skimun fyrir HCV og HIV. Allir fangar með virkt smit fengu meðferð með veirulyfjum og tengdir göngudeild ef afplánun lauk áður en meðferð lauk. Frá árslokum 2018 var reglulegum skimunarheimsóknum hætt, en meðferðarheimsóknir héldu áfram fyrir fanga með þekkt smit. Snemma árs 2020 var öllum föngum boðin skimun á ný til að fylgjast með breytingum á algengi.
Niðurstöður: Af 127 föngum þáðu 64 skimun og reyndust tveir með virkt lifrarbólgu C smit (3% algengi) eða 57% lækkun frá fyrri greiningu. Báðir smituðust erlendis. Þrjátiuogeinn fangi átti áður neikvætt próf, án nýrrar áhættuhegðunar og skimunarþekja því 75% (95/127). Meirihluti fanga sem þáðu skimun hafði verið prófaður áður en upplýstu um nýja áhættuhegðun innan eða utan fangelsis.
Ályktun: Skimun og meðferð við lifrarbólgu C má bjóða með skilvirkum og öruggum hætti innan fangelsa á Íslandi. Umtalsverðum árangi í lækkun algengis HCV hefur verið náð og viðhaldið í há-áhættuhópi þrátt fyrir að tíðni skimana minnkaði. Mögulega er árangursríkara að bjóða skimun við upphaf afplánunar til að tryggja skimunarþekju en að bjóða endurskimun án tillits til áhættuhegðunar.
V-37
Verkefnið Meðferð sem forvörn gegn lifrarbólgu C á Íslandi (Treatment as Prevention for Hepatitis C (TraP HepC). Meðferðarflæði (cascade of care) fyrstu 36 mánuði átaksins
Sigurður Ólafsson1, Ragnheiður H. Friðriksdóttir1, Þorvarður J. Löve1, Þórarinn Tyrfingsson2, Valgerður Rúnarsdóttir2, Ingunn Hansdóttir2, Óttar M. Bergmann1, Einar S. Björnsson1, Birgir Jóhannsson1, Bryndís Sigurðardóttir1, Arthur Löve1, Guðrún E. Baldvinsdóttir1, Ubaldo Benitez Hernandez1, Þórólfur Guðnason3, María Heimisdóttir4, Margaret Hellard5, Magnús Gottfreðsson1
1Landspítali, 2Sjúkrahúsið Vogur, 3Sóttvarnarlæknir, Embætti Landlæknis, 4Sjúkratryggingar Íslands, 5Burnet Institute
Inngangur: Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett það markmið að útrýma lifrarbólgu C sem meiri háttar lýðheilsuvanda fyrir árið 2030. Með því er átt við 80% lækkun á nýgengi og 65% lækkun á dánartíðni. Forsenda þess að ná þessu markmiði er að greina 90% smitaðra og meðhöndla 80% greindra. Árið 2016 hófst átak þar sem öllum með lifrarbólgu C var boðin lyfjameðferð. Í þessari rannsókn er athugaður árangur á fyrstu 36 mánuðum átaksins.
Efniviður og aðferðir: Átakið var byggt á þverfaglegu samstarfi með áherslu á að ná til fólks sem sprautar sig með vímuefnum í æð samhliða aukinni skimun fyrir lifrarbólgu C og skaðaminnkandi þjónustu. Við áætlun á fjölda smitaðra var m.a. stuðst við lifrarbólguskrá sóttvarnarlæknis og skimun meðal há-áhættu og lág-áhættu hópa. Fjöldi þeirra sem greindra, þeirra sem fengu þjónustu, hófu meðferð og læknuðust var skráður.
Niðurstöður: Í upphafi var áætlaður fjöldi smitaðra 760 (95% (CI) 690-851), þar af 75 (95% CI 6-166, 11%) ógreindir. 682 einstaklingar voru með smit staðfest með PCR prófi. Á næstu þremur árum greindust 183 ný smit, þar af 42 endursmit og var heildarfjöldi smita á tímabilinu 865 hjá 823 einstaklingum. Meira en 90% smita höfðu verið greind í janúar 2017. Á tímabilinu fengu 824 (95.3% greindra) þjónustu átaksins og 795 (96.5%) lyfjameðferð. Lækning náðist við meðferð 717 (90.2%) af 795 smitum.
Ályktun: Með þverfaglegri og lýðheilsumiðaðri nálgun náðust á þremur árum þau markmið um sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett fyrir árið 2030 um greiningu og meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C.
V-38
Árangur meðferðar við lifrarbólgu C á fyrstu þremur árum TraP HepC verkefnisins
Þorvarður Löve1, Ragnheiður Friðriksdóttir1, Valgerður Rúnarsdóttir2, Arthur Löve1, Magnús Gottfreðsson1, Sigurður Ólafsson
1Landspítali, Háskóli Íslands, 2SÁÁ - Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann
Inngangur: Árið 2016 hófst íslenskt meðferðarverkefni til þriggja ára: „Treatment as Prevention for Hepatitis C“ eða TraP HepC, sem var síðar framlengt og stendur enn. Hér er gerð grein fyrir árangri fyrstu þriggja ára verkefnisins.
Efniviður og aðferðir: Öllum 18 ára og eldri með PCR staðfesta lifrarbólgu C var boðin meðferð samkvæmt birtum meðferðarleiðbeiningum og þátttaka í vísindarannsókn frá janúar 2016 til janúar 2019. PCR neikvæðir 12 vikum eftir meðferð töldust læknaðir. Aðrar útkomur voru „bakslag“ (e. relapse), „endursýking“, „enn smitaður“ og „fannst ekki“. Tengsl neyslu vímugjafa í æð (VíÆ), heimilisfesti, aldurs og kyns við meðferðarárangur voru skoðuð hver fyrir sig og í aðhvarfsmódeli.
Niðurstöður: Af 718 einstaklingum sem fengu meðferð á rannsóknartímabilinu undirrituðu 705 (98%) upplýst samþykki. Eftir fyrstu meðferð læknuðust 635 (90,1%), 29 (4,1%) voru enn smitaðir, 17 (2,4%) fundust ekki, 13 (1,8%) höfðu náð bata í meðferð en fengu bakslag og 11 (1,6%) höfðu endursýkst. Sjötíu fengu aðra meðferð, sex þriðju meðferð og einn fjórðu meðferð. Af þeim 705 sem hófu meðferð læknuðust 673 (95,5%) í meðferðarátakinu. Lægri aldur, VíÆ síðustu 6 mánuði fyrir meðferð, VíÆ á meðan á meðferð stóð, og skortur á föstu heimili tengdust minni líkum á meðferðarárangri í fyrstu meðferð (p<0.002). Marglínuleiki milli VíÆ og skorts á föstu heimili gerði aðhvarfsmódel ómarktækt.
Ályktun: Yfir 90% læknuðust í fyrstu tilraun og alls læknuðust 95% í rannsókninni. Helstu þættir sem draga úr árangri meðferðar eru notkun VíÆ og heimilisleysi. Ef takast á að útrýma heilsuvá af völdum lifrarbólgu C þarf meðferð að beinast að áhættuhópum.
V-40
Lýðgrunduð rannsókn á áhættu á primary biliary cholangitis meðal sjúklinga með mótefni gegn hvatberum en ekki önnur merki um sjúkdóminn
Kristján Torfi Örnólfsson, Einar Stefán Björnsson
Landspítali
Inngangur: Mótefni gegn hvatberum (e. antimitochondrial antibodies, AMA) finnast hjá yfir 90-95% sjúklinga sem uppfylla greiningarskilmerki fyrir primary biliary cholangitis (PBC). Lítið er hins vegar vitað um afdrif þeirra sjúklinga sem reynast hafa slík mótefni en uppfylla þó ekki greiningarskilmerkin.
Tilgangur rannsóknarinnar var því að nýta lýðgrunduð gögn heillar þjóðar til að varpa skýrara ljósi á afdrif þeirra sem mælast með mótefni gegn hvatberum en uppfylla ekki greiningarskilmerki PBC.
Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar með jákvæðar AMA mælingar á Ónæmisfræðideild Landspítala 2006-2019 voru fundnir. Kannað var hvort AMA jákvæðir sjúklingar sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki PBC þegar AMA mælingin var gerð (viðvarandi hækkun á alkalískum fosfatasa eða breytingar sem samræmast PBC á lifrarsýni) uppfylltu þau síðar.
Niðurstöður: Alls 343 sjúklingar höfðu jákvæða AMA mælingu á rannsóknartímabilinu. Fullnægjandi gögn fundust fyrir 265 (77%) til að unnt væri að meta hvort greiningarskilmerki PBC væru þá uppfyllt. Af þeim uppfylltu 198 greiningarskilmerki PBC við fyrstu jákvæðu AMA mælingu. Fyrir þá 67 sjúklinga sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki PBC voru fullnægjandi gögn til staðar fyrir 34 (51%) til að unnt væri að meta hvort sjúkdómurinn hefði síðar komið fram. Samanlagt 10 (29%) sjúklingar sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki PBC við fyrstu jákvæðu AMA mælingu gerðu það síðar á rannsóknartímabilinu (miðgildi eftirfylgdartíma 9,8 ár, IQR 9,2 ár).
Ályktun: Um þriðjungur sjúklinga sem voru með mótefni gegn hvatberum, en uppfylltu ekki greiningarskilmerki PBC í upphafi, þróaði með sér sjúkdóminn eftir u.þ.b. 10 ára eftirfylgni. Sjúklingar með jákvæð hvatberamótefni og eðlileg lifrarpróf þarfnast því náinnar eftirfylgdar.
V-41
Kortlagning valbjögunar í fyrri rannsóknum á góðkynja einstofna mótefnahækkun – mikilvægi skimunar: Niðurstöður úr Blóðskimun til bjargar
Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir, Sæmundur Rögnvaldsson, Sigrún Þorsteinsdóttir, Ingigerður Sverrisdóttir, Guðrún Ásta Sigurðardóttir, Brynjar Viðarsson, Páll Torfi Önundarson, Bjarni A. Agnarsson, Margrét Sigurðardóttir, Ingunn Þorsteinsdóttir, Ísleifur Ólafsson, Ásdís Rósa Þórðardóttir, Gauti Kjartan Gíslason, Andri Ólafsson, Petros Kampanis, Malin Hulcrantz, Brian G. M.Durie, Stephen Harding, Ola Landgren, Þorvarður Jón Löve, Sigurður Yngvi Kristinsson
Háskóli Íslands
Inngangur: Góðkynja einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) er einkennalaust forstig mergæxlis og skyldra sjúkdóma, en hefur einnig verið tengt við önnur heilsufarsvandamál. MGUS greinist oftast ekki nema fyrir tilviljun, við uppvinnslu annarra heilsufarskvilla. Þetta gæti valdið valbjögun í fyrri rannsóknum á MGUS, sem byggja flestar á tilviljanagreindum þýðum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þessa valbjögun með því að bera saman eintaklinga með tilviljanagreint MGUS og MGUS greint við skimun.
Efni og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum Blóðskimunar til bjargar, lýðgrundaðrar skimunarrannsóknar þar sem 75.422 eintaklingar á Íslandi, >40 ára, voru skimaðir fyrir MGUS. Upplýsingar um fyrri MGUS-greiningar voru fengnar úr Krabbameinsskrá og rannsóknarstofum Landspítala og Læknasetursins. Fylgisjúkdómar voru fengnir úr miðlægum heilbrigðisgagnagrunnum.
Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 3300 einstaklingum með MGUS, þar af 224 með tilviljanagreint MGUS. Einstaklingar með tilviljanagreint MGUS voru eldri (p <0,01), líklegri til að búa á höfuðborgarsvæðinu (p=0,02) og höfðu hærri meðalstyrk M-próteins (1,4 g/L hærri, 95% öryggisbil [95% ÖB] 0,10-0,19 g/dL, p <0,001). Tilviljanagreindir voru einnig líklegri til að vera með fylgisjúkdóm (gagnlíkindahlutfall [GH] 1,73, 95% ÖB 1,14-2,72, p 0,01) og höfðu marktækt fleiri fylgisjúkdóma (2,79 vs. 2,09, p <0,001). Þá voru einstaklingar með tilviljanagreint MGUS líklegri til að vera með hjartsláttaróreglu, nýrnasjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, hjartabilun, taugasjúkdóma eða gigtsjúkdóma.
Umræður: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að einstaklingar með tilviljanagreint MGUS séu eldri og heilsuveilli en hið almenna MGUS-þýði. Þetta bendir til valbjögunar í fyrri rannsóknum á MGUS og að tengsl milli MGUS og ákveðinna sjúkdóma séu veikari en áður hefur verið haldið fram.
V-42
Faraldsfræði briskrabbameins á Íslandi 2010-2014
Þóra Hlín Þórisdóttir1, Einar Stefán Björnsson2, Ásta Ísfold Jónasardóttir2, Kristín Huld Haraldsdóttir2
1Háskóli Íslands - nemi, 2Landspítali háskólasjúkrahús
Inngangur: Krabbamein í brisi er um 2% allra greindra krabbameina á Íslandi en er fimmta algengasta dánarorsök vegna krabbameina. Þegar einkenni eru komin fram er meinið oftast illviðráðanlegt og lífslíkur sjúklinga takmarkaðar við greiningu. Þrátt fyrir miklar framfarir í greiningu og lyfjaþróun á síðustu árum er skurðaðgerð eina mögulega lækningin. 85-90% krabbameina í brisi eru af kirtilmyndandi gerð (e.adenocarcinoma) og eru viðfangsefni rannsóknarinnar.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn faraldsfræðirannsókn og tekur til einstaklinga sem greindust á tímabilinu 1.1.2010-31.12.2014. Niðurstöðurnar voru bornar saman við niðurstöður íslenskrar rannsóknar sem Sara B. Jónsdóttir et al gerðu fyrir tímabilið 1998-2009 (Jonsdottir et al., 2017).
Niðurstöður: Heildarfjöldi greininga á tímabilinu var 243, þar af voru 142 með kirtilmyndandi krabbamein, 80 karlar og 62 konur. Nýgengi á tímabilinu var 8,9 per 100.000 persónuár. Meðalaldur við greiningu var 67 ár hjá körlum og 70 ár hjá konum. Alls voru 64% með staðfest meinvörp við greiningu 12% sjúklinga gengust undir brisnám að hluta eða heild á tímabilinu og 6% sjúklinga var ekki treyst í aðgerð vegna annarra undirliggjandi veikinda eða aldurs.
Sex mánaða lifun sjúklinga á tímabilinu var 46% en 37,5% í fyrri rannsókn (p=0,1415), 12 mánaða lifun 25,3% vs. 19,9% (p=0,1406) og 5 ára lifun 4,9% vs. 0,9% (p=0,035) (log-rank test).
Ályktanir: Nýgengi briskrabbameins helst svipað milli ára. Ekki var marktækur munur á 6 og 12 mánaða lifun en 5 ára lifun sýndi marktækt betri horfur. Framfarir í myndgreiningu og lyfjameðferðum eiga líklega þátt í betri horfum þó horfur séu heilt yfir slæmar.
V-43
ALD á Íslandi: nýgengi, áhættuþættir og horfur sjúklinga með alkóhóllifrarsjúkdóm
Alexander Jóhannsson1, Einar Stefán Björnsson1, Valgerður Rúnarsdóttir2
1Landspítali, 2Sjúkrahúsið Vogur
Inngangur: Tíðni alkóhóllifrarsjúkdóms (e. alcoholic liver disease, ALD) hefur verið lág á Íslandi þrátt fyrir að ofnotkun áfengis hafi verið algeng. Áfengistengd skorpulifur á Íslandi hefur hins vegar aukist á síðustu áratugum. Óljóst er hversu stór hluti þeirra sem misnota áfengi greinast með skorpulifur eða áfengistengda lifrarbólgu (e. alcoholic hepatitis). Markmið rannsóknarinnar var að meta það.
Efni og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem greindust á tímabilinu 2010-2020 með skorpulifur og/eða áfengistengda lifrarbólgu á Íslandi á tímabilinu. Sjúkdómsgreiningar sem leitað var að á Sjúkrahúsinu Vogi voru: skv. greiningarskilmerkjum DSM 5: 303.9 og ICD F10.2: alcohol use disorder eða alcohol dependence F10,2.
Niðurstöður: Eingöngu 2% sjúklinga sem höfðu farið í meðferð á Vogi þróuðu með sér áfengistengdan lifrarsjúkdóm. Nýgengi ALD á tímabilinu var 6.47 ± 1.37/100.000 íbúar, samanborið við 1990 ± 542 hjá sjúklingum sem lögðust inn á Vog á sama tímabili. Alls greindust 238 sjúklingar með ALD: 114 með skorpulifur, 47 með áfengisorsakaða lifrarbólgu en 77 sjúklingar höfðu einkenni beggja. Alls 155 sjúklingar (65%) höfðu sótt áfengismeðferð á Vogi fyrir greiningu ALD en 69 (29%) sóttu meðferð eftir greiningu. Samkvæmt mati meðferðaraðila létu 92 einstaklingar (39%) algjörlega af drykkju eftir greiningu. Sjúklingar sem lifðu lengur en 1 ár og hættu áfengisdrykkju höfðu bættar lífslíkur miðað við þá sem ekki hættu.
Ályktanir: Aðeins lítill hluti þeirra sem lagðist inn á Vog greindist með ALD (2%) en nýgengi meðal þeirra var mun hærra en í þýðinu í heild. Minnihluta sjúklinga (39%) tókst að láta algjörlega af áfengisdrykkju eftir greiningu ALD.
V-44
Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: Framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn
Telma Huld Ragnarsdóttir1, Margrét Kristjánsdóttir1, Gísli Gíslason1, Ólafur Samúelsson1, Margrét Ólafía Tómasdóttir2, Runólfur Pálsson1, Ólafur Skúli Indriðason1
1LSH, 2Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins
Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli bráðra veikinda og hefur neikvæð áhrif á batahorfur. BNS hefur verið rannsakaður ítarlega hjá inniliggjandi sjúklingum en lítið er vitað um þennan kvilla utan spítala. Markmiðið með þessarri rannsókn er að skoða áhættuþætti og orsakir BNS meðal sjúklinga sem leita á bráðamóttöku (BMT).
Aðferðir: Þetta er framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á BMT Landspítala voru metin með tilliti til BNS. Hér eru birtar niðurstöður tímabilanna 1. janúar til 3. mars og 19. maí til 21. september 2020. Aðra hluta ársins var gert hlé á rannsókninni vegna Covid-19. Öllum sjúklingum sem uppfylltu kreatínínskilmerki KDIGO-flokkunarkerfisins fyrir BNS var boðin þátttaka í rannsókninni ásamt pöruðum viðmiðum (1:2). Þátttakendur undirrituðu upplýst samþykki og voru spurðir um heilsufarssögu og lyfjanotkun, þ.m.t. notkun lausasölulyfja. Hópar voru bornir saman með hefðbundnum tölfræðilegum aðferðum.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru greind 371 tilfelli af BNS, þar af tóku 316 (85%) þátt. Meðalaldur BNS-tilfella var 66,6±16,1 ár og og viðmiða 66,3±16,2 ár; 46% tilfella og viðmiða voru konur. Einstaklingar með BNS voru marktækt líklegri en viðmið til að hafa notað bólgueyðandi verkjalyf (BVL) í vikunni fyrir komu á BMT, (31,1% sbr. við 22,2%, p=0,003), einkum slík lyf keypt án lyfseðils (24,7% vs 16,2%, p=0,001). Í fjölþáttagreiningu voru marktæk tengsl við notkun BVL (p=0,003), uppköst (p<0,001), niðurgang (p=0,05) og sögu um sykursýki (p=0,004).
Ályktun: Þessar frumniðurstöður benda til mikilvægs þáttar BVL sem keypt eru í lausasölu í meinmyndunarferli BNS meðal sjúklinga sem leita á BMT.
V-45
Bráður nýrnaskaði í kjölfar bæklunarskurðaðgerða á Landspítala 2006-2018: Nýgengi, áhættuþættir og horfur sjúklinga Íslands
Helga Þórsdóttir1, Þórir Einarsson Long2, Ólafur Skúli Indriðason2, Runólfur Pálsson2, Martin Ingi Sigurðsson2
1Læknanemi, HÍ, 2Landspítali
Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli bráðra veikinda og inngripa á borð við skurðaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða á Landspítala og tengsl milli BNS og sjúklinga- og aðgerðatengdra þátta.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk ferilrannsókn byggð á breytum úr Íslenska aðgerðagrunninum. Sjúklingar 18 ára og eldri sem gengust undir bæklunarskurðaðgerð á Landspítala 2006-2018 og áttu kreatínínmælingu, bæði innan 30 daga fyrir aðgerð og 7 daga eftir aðgerð, voru teknir með. BNS var greindur samkvæmt kreatínínhluta KDIGO-skilmerkjanna. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að skoða tengsl sjúklinga- og aðgerðartengdra þátta við BNS, og Poisson-aðhvarfsgreining til að kanna breytingu á nýgengi.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 222 tilfelli af BNS í kjölfar 3208 aðgerða (6,9%) og jókst nýgengið um 17% á ári. Sjálfstæðir áhættuþættir voru hærri aldur (líkindahlutfall (LH) 1,02, 95% öryggisbil (ÖB), 1,01-1,04 á ári) og undirliggjandi skerðing á nýrnastarfsemi (LH 1,93 (1,30-2,81), 3,24 (2,08-4,96) og 4,08 (2,35-6,96) fyrir reiknaðan gaukulsíunarhraða (r-GSH) 30-59, 15-29 og <15 ml/mín./1,73 m2, samanborið við r-GSH >60 ml/mín./1,73 m2). Áhættan var lægri fyrir konur (LH 0,73 (0,54-0,98)). Eftir leiðréttingu fyrir aldri, kyni, nýrnastarfsemi fyrir aðgerð, bráðleika aðgerðar og undirliggjandi sjúkdóms- og hrumleikabyrði sjúklinga voru marktæk tengsl milli BNS og hættu á dauða í kjölfar aðgerðarinnar (áhættuhlutfall 1,41, 95% ÖB 1,08-1,85).
Ályktanir: Nýgengi BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða virðist vera að aukast og BNS tengist auknum dánarlíkum í kjölfar aðgerðanna. Mikilvægt er að aldraðir og einstaklingar með skerta nýrnastarfsemi fái viðeigandi undirbúning, meðferð og vöktun kringum aðgerðirnar.
V-46
Shiga toxín-myndandi E. coli og blóðlýsu- og nýrnabilunarheilkenni hjá íslenskum börnum
Ólafur Jens Pétursson1, Viðar Örn Eðvarðsson2, Valtýr Stefánsson Thors2, Hjördís Harðardóttir2, Kristján Orri Helgason2
1Háskóli Íslands, 2Landspítali
Inngangur: Tíu til 15% barna með Shiga toxín-myndandi E. coli (STEC) iðrasýkingu fá fullkomið blóðlýsu- og nýrnabilunarheilkenni (HUS), sem er rauðalosblóðleysi, blóðflögufæð og bráður nýrnaskaði (BNS). HUS er ófullkomið þegar BNS greinist ekki. Markmið verkefnisins voru að rannsaka nýgengi STEC-iðrasýkinga og HUS í íslenskum börnum á árunum 2010-2020.
Efniviður og aðferðir: Leitað var afturvirkt í sjúkraskrárkerfum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri að einstaklingum 0-17 ára sem á rannsóknartímabilinu greindust með STEC-iðrasýkingu eða HUS. Einnig var leitað að ICD-10 greiningarkóðum fyrir BNS, langvinnan nýrnasjúkdóm (LNS), og skilun. Sjúkraskrár einstaklinga sem fundust með leitaraðferðinni voru skoðaðar með tilliti til HUS, og klínískrar birtingarmyndar og afdrifa HUS sjúklinga. KDIGO flokkunarkerfið var notað til að skilgreina BNS og LNS.
Niðurstöður: Fjöldi staðfestra bakteríuiðrasýkinga á rannsóknartímabilinu var 281, þar af höfðu 34 (12%) STEC. Nýgengi STEC-iðrasýkinga var 3.8/100,000 börn 0-17 ára og 8.0/100,000 fyrir 0-5 ára; aldur (miðgildi, spönn) við greiningu var 3.5 (0-12) ár. Sextán (48%) greindust með HUS; 7 með fullkomið og 9 með ófullkomið. Tími frá fyrstu einkennum STEC-iðrasýkingar að greiningu HUS var 7.5 (1-15) dagar. Nýgengi HUS á rannsóknartímabilinu var 1.8/100,000 börn 0-17 ára. Þrjú (43%) börn með fullkomið HUS þurftu bráða skilunarmeðferð. Sex (38%) börn með HUS fengu einkenni frá öðrum líffærum en nýrum og 9 (56%) þróuðu með sér LNS.
Ályktun: HUS er algengur og alvarlegur fylgikvilli STEC-iðrasýkinga og þurfa sýktir einstaklingar nákvæmt eftirlit í kjölfar STEC-greiningar. Bráð einkenni frá öðrum líffærum en nýrum eru algeng hjá börnum með HUS og hátt hlutfall þeirra fær LNS.
V-47
Þáttur lyfja í bráðum nýrnaskaða meðal sjúklinga á bráðamóttöku
Ólafur Skúli Indriðason, Ingibjörg Kristjánsdóttir, Runólfur Pálsson
Landspítali
Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál á sjúkrahúsum og tengist alvarlegum veikindum og skurðaðgerðum. Ýmis lyf eru einnig talin geta aukið áhættu á BNS þótt rannsóknir þar að lútandi séu takmarkaðar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tengsl lyfja ákveðinna lyfjaflokka við BNS á bráðamóttökum Landspítala.
Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn er náði til ársins 2010. Leitað var að öllum einstaklingum 18 ára og eldri er komu á bráðamóttökur Landspítala og voru með mælingu á kreatíníni í sermi (SKr). BNS var skilgreindur út frá kreatínínhluta KDIGO-skilmerkjanna. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr rafrænni sjúkraskrá og upplýsingar um ávísanir lyfja úr Lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl áhættuþátta við BNS.
Niðurstöður: SKr var mælt við 21.702 bráðamóttökukomur 15.649 einstaklinga á árinu 2010. BNS greindist við 619 heimsóknir 586 einstaklinga. Síðustu 12 mánuði fyrir komu þessara einstaklinga voru bólgueyðandi verkjalyf (BV) leyst út fyrir 6254 komur, cýklóoxygenasa-2-hemill (COX-2-H) fyrir 817 komur, ACE-hemill (ACE-H) fyrir 2998 komur, angíótensínviðtakablokki (A-II-B) fyrir 3292 komur, lykkjuþvagræsilyf (LÞL) fyrir 3162 komur, veik þvagræsilyf (VÞL) fyrir 3209 komur og prótónupumpuhemill (PPH) fyrir 6757 komur. Að teknu tilliti til annarra áhættuþátta var notkun BV, ACE-H, A-II-B og VÞL marktækt tengd BNS og voru tengslin almennt sterkari eftir því sem skemmri tími var á milli afgreiðslu lyfsins og heimsóknarinnar á bráðamóttöku (Tafla).
Ályktanir: Lyf geta átt mikinn þátt í myndun BNS meðal einstaklinga sem koma á bráðamóttöku og þarf því að fara vel yfir lyfjanotkun í slíkum tilvikum.
V-48
Langvinnur nýrnasjúkdómur af völdum litíums á Íslandi
Gísli Gíslason1, Ólafur Skúli Indriðason2, Engilbert Sigurðsson3, Runólfur Pálsson2
1Háskóli Íslands, 2Nýrnalækningaeining Lyflækningaþjónustu, 3Geðþjónusta Landspítala
Inngangur: Áhrif meðferðar með litíum á þróun langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) hafa verið misvísandi í fyrri rannsóknum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl litíummeðferðar við algengi LNS að teknu tilliti til annarra áhættuþátta.
Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn. Þátttakendur voru allir sjúklingar sem fengu meðferð með litíum á árunum 2003-2018. Til samanburðar voru einstaklingar sem leituðu þjónustu göngudeildar Geðþjónustu Landspítala á árunum 2014-2016 vegna lyndisraskana (ICD-10 greiningar F30-F39) og höfðu ekki fengið litíum. Skoðaður var LNS á stigi 3-5, skilgreindur sem gaukulsíunarhraði <60 ml/mín./1,73 m2 í meira en 3 mánuði samkvæmt KDIGO-leiðbeiningum frá 2012. Gaukulsíunarhraði var reiknaður með CKD-EPI-jöfnunni út frá kreatínínmælingum í sermi (SKr). Einstaklingar með LSN fyrir 2008 og/eða færri en tvær SKr-mælingar eftir 2008 voru útilokaðir frá rannsókninni. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl við LNS.
Niðurstöður: Alls voru 2682 einstaklingar í litíumhópnum. Þar af tóku 2051 (76,5%) þátt í rannsókninni og af þeim uppfyllti 221 (10,8%) skilmerki fyrir LNS á stigi 3-5. Viðmiðahópurinn samanstóð af 1424 einstaklingum. Þar af tóku 1010 (70,8%) þátt og 29 (2,9%) uppfylltu skilmerki fyrir LNS á stigi 3-5. Notkun litíum var marktækt tengd við þróun LNS eftir að leiðrétt var fyrir kyni, aldri, upphafsgaukulsíunarhraða, háþrýstingi, sykursýki og bráðum nýrnaskaða (Tafla).
Ályktanir: Niðurstöðurnar styðja að litíum tengist þróun LNS hjá sjúklingum með lyndisraskanir.
V-49
Bráður nýrnaskaði af völdum litíums á Íslandi
Gísli Gíslason1, Ólafur Skúli Indriðason2, Engilbert Sigurðsson3, Runólfur Pálsson2
1Háskóli Íslands, 2Nýrnalækningaeining Lyflækningaþjónustu, 3Geðþjónusta Landspítala
Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er þekktur fylgikvilli litíumeitrunar. Áhrif langvarandi litíumnotkunar á tilkomu BNS hjá mönnum hafa ekki verið mikið rannsökuð en dýrarannsóknir benda til að litíum geti verndað gegn bráðu pípludrepi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhættu á BNS hjá fólki á litíummeðferð.
Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn. Þátttakendur voru allir sjúklingar sem fengu meðferð með litíum á árunum 2003-2018. Til samanburðar voru einstaklingar sem leituðu þjónustu göngudeildar Geðþjónustu Landspítala á árunum 2014-2016 vegna lyndisraskana (ICD-10 greiningar F30-F39) en höfðu ekki fengið litíum. BNS var skilgreindur út frá kreatíníni í sermi (SKr) samkvæmt KDIGO-skilmerkjunum. Einstaklingar með færri en tvær SKr-mælingar voru útilokaðir frá rannsókninni. Lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að meta áhættu á BNS.
Niðurstöður: Alls voru 2682 einstaklingar í litíumhópnum. Þar af tóku 2310 (85,5%) þátt og af þeim uppfylltu 297 (12,9%) skilmerki fyrir BNS á rannsóknartímanum. Viðmiðahópurinn taldi 1424 einstaklinga. Þar af tóku 1218 (85,5%) þátt og 97 (8,0%) uppfylltu skilmerki fyrir BNS. Þegar leiðrétt var fyrir öðrum áhættuþáttum var notkun litíum ekki tengd BNS (gagnlíkindahlutfall [GH] 0,93, 95% öryggisbil [ÖB] 0,72-1,20;Tafla). Þegar litíumhópurinn var skoðaður sérstaklega með fjölþáttagreiningu voru litíumeitrun (GH 2,34, 95% ÖB 1,33-4,09), lengd litíummeðferðar (GH 1,01, 95% ÖB 1,00-1,01) og meðallitíumþéttni (GH 1,22, 95% ÖB 1,14-1,30) allt marktækir áhættuþættir fyrir BNS.
Ályktanir: Notkun litíums sem slík tengist ekki aukinni áhættu á BNS eftir að leiðrétt hefur verið fyrir þekktum áhættuþáttum, en litíumeitrun, tími á litíummeðferð og meðalþéttni litíums tengjast þó aukinni áhættu á BNS.
V-50
Greining og skráning bráðs nýrnaskaða á bráðamóttöku Landspítala
Margrét Kristjánsdóttir1, Telma Huld Ragnarsdóttir1, Gísli Gíslason2, Vicente Sanchez-Brunete1, Runólfur Pálsson1, Ólafur Skúli Indriðason1
1Landspítali, 2Háskóli Íslands
Inngangur: Á síðustu árum hafa nýjar skilgreiningar á bráðum nýrnaskaða (BNS), byggðar á breytingum á kreatíníngildum, komið fram en óvíst er hversu vel þær hafa náð fótfestu meðal lækna. Tilgangur þessarar rannsóknar var kanna greiningu og skráningu BNS meðal sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framsýn. Kreatíníngildi allra einstaklinga sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala voru metin með tilliti til BNS. Rannsóknargagna var aflað fyrir tímabilin 1. janúar-3. mars 2020, 19. maí-21.september 2020 og 1. febrúar-1. maí 2021. Öllum sjúklingum sem mættu KDIGO-skilmerkjum fyrir BNS var boðin þátttaka. ICD-10 greiningarkóðarnir N17 (bráður nýrnaskaði) og N19 (ótilgreindur nýrnaskaði) voru túlkaðir sem greining BNS.
Niðurstöður: Samtals voru greind 527 tilfelli af BNS og tóku 445 (84%) þátt. Meðalaldur (±SD) tilfella var 67,2±16,8 ár; 47% voru konur. Alls fengu 104 (23,4%) BNS-greiningu skráða á bráðamóttökunni. Enginn munur var á konum og körlum (20,9% og 23,9%, p=0.85) og ekki var marktækur munur á milli aldurshópa. Meðal þátttakenda voru 39 (8,7%) með fyrri greiningu um langvinnan nýrnasjúkdóm (LNS), af þeim fengu 38,5% skráða BNS-greiningu samanborið við 21,9% af þeim sem voru án sögu um LNS (p=0,003). Þátttakendur með BNS á stigi 3 fengu skráða greiningu BNS í 48,0% tilvika samanborið við 25,2% þeirra með BNS á stigi 2 og 15,1% þeirra með BNS á stigi 1 (p<0,01).
Ályktun: Skráningu á greiningu BNS virðist nokkuð ábótavant á bráðamóttöku Landspítala. Ýmsar ástæður geta legið að baki en vanþekking á skilgreiningum BNS er ein möguleg skýring. Mikilvægt er að bæta greiningu og skráningu BNS á bráðamóttökunni.
V-51
Ný viðmiðunargildi fyrir fríar léttar keðjur í sermi hjá einstaklingum með skerta nýrnastarfsemi
Þórir Einarsson Long7, Ísleifur Ólafsson1, Sigurður Yngvi Kristinsson1, Ola Landgren2, Stephen Harding3, Brian G. M. Durie4, Malin Hultcranz5, Petros Kampanis3, Hlíf Steingrímsdóttir1, Andri Ólafsson6, Gauti Kjartan Gíslason6, Ásbjörn Jónsson1, Elías Sæbjörn Eyþórsson1, Ásdís Rósa Þórðardóttir6, Ingunn Þorsteinsdóttir1, Margrét Sigurðardóttir1, Bjarni A. Agnarsson1, Páll Torfi Önundarson1, Brynjar Viðarsson1, Ingigerður Sverrisdóttir6, Sigrún Þorsteinsdóttir8, Þorvarður Jón Löve6, Sæmundur Rögnvaldsson1, Runólfur Pálsson1, Ólafur Skúli Indriðason1
1Landspítali, 2Sylvester Comprehensive Cancer Center, 3The Binding Site
Cedar-Sinai Samual Oschin Cancer Center, 5Memorial Sloan Kettering, 6Háskóli Íslands, 7Skånes Universitetssjukhus, 8Rigshospitalet
Inngangur: Mæling á fríum léttum keðjum (FLK) í sermi er lykilrannsókn við greiningu og eftirfylgd eitilfrumusjúkdóma en nýrnastarfsemi getur haft áhrif á styrk þeirra. Nýrnaviðmiðunargildi fyrir FLK-hlutfall (0,37-3,10) voru byggð á fámennum hópi einstaklinga, fyrst og fremst til að greina mergæxli en ekki aðra einstofna mótefnasjúkdóma. Einungis almenn viðmiðunargildi fyrir kappa (3,3-19,4 mg/dl) og lambda (5,7-26,3 mg/dl) eru til en ekki aðlöguð nýrnastarfsemi. Markmið rannsóknarinnar var að endurmeta viðmiðunargildi FLK með tilliti til nýrnastarfsemi.
Efniviður og aðferðir: Alls eru skráðir 80.759 þátttakendur í rannsóknina Blóðskimun til bjargar. Þátttakendur voru skimaðir með mælingu FLK í sermi og prótínrafdrætti. Kreatínínmæling næst skimun var notuð til að reikna gaukulsíunarhraða (r-GSH). Þátttakendur með M-prótín, r-GSH 60 ml/mín./1,73 m2, eða án kreatínínmælingar innan 1 árs frá skimun voru útilokaðir. Viðmiðunargildi voru ákvörðuð sem 2,5-97,5% hundraðshlutamörk og 95% öryggisbil metið með „nonparametrískri“ (bootstrap) aðferð. Hópaskipting viðmiðunargilda var ákveðin út frá hlutfalli undirhópa með óeðlilegt gildi.
Niðurstöður: FLK í sermi voru mældar hjá 6503 einstaklingum með r-GSH <60 ml/mín./1,73 m2. Miðgildi (fjórðungabil) kappa var 21,7 mg/l (16,6-29,4), lambda 19,0 mg/l (14,8-25,0) og FLK-hlutfall 1,16 (0,97-1,39). Alls höfðu 60% einstaklinga kappa og 21% lambda utan við núverandi nýrnaviðmiðunargildi. FLK-hlutfallið var utan við núverandi almenn viðmiðunargildi hjá 9% og utan við nýrnaviðmiðunargildi hjá 0,6% einstaklinga. Ný viðmiðunargildi fyrir kappa, lambda og FLK-hlutfall fyrir einstaklinga með r-GSH 45-59, 30-44 og <30 ml/mín./1,73 m2 sjást í meðfylgjandi töflu.
Ályktun: Núverandi viðmiðunargildi fyrir FLK og FLK-hlutfall eru ónákvæm hjá einstaklingum með skerta nýrnastarfsemi. Við leggjum því til ný viðmiðunargildi fyrir þennan hóp.
V-52
Þróun á klínískri massagreiningaraðferð fyrir eftirlit með lyfjameðferð sjúklinga með APRT-skort
Margrét Þorsteinsdóttir1, Unnur A. Þorsteinsdóttir1, Hrafnhildur L. Runólfsdóttir2, Finnur F. Eiríksson3, Viðar Ö. Eðvarðsson4, Runólfur Pálsson5
1Háskóli Íslands, 2Lyflækninga- og bráðaþjónusta, Landspítala, 3ArcticMass, 4Barnaspítali Hringsins, Landspítala, 5Lyflækninga- og bráðaþjónusta, Landspítala
Inngangur: Adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT)-skortur leiðir til aukins útskilnaðar 2,8-díhýdroxýadeníns (DHA), sem er torleyst í þvagi og veldur nýrnasteinum og langvinnum nýrnasjúkdómi sem er afleiðing kristallaútfellinga í nýrnavef. Hægt er að draga úr sjúkdómsbyrði með allópúrínóli og febúxóstati sem eru xanþínoxídóredúktasa (XOR)-hemlar.
Þörf er á áreiðanlegri aðferð til eftirlits með lyfjameðferð sjúklinga með APRT-skort. Markmið rannsóknarinnar var þróun og hámörkun greiningaraðferðar sem byggir á samhliða magngreiningu DHA, adeníns, allópúrinóls, oxýpúrinóls og febúxóstats í blóðvökva með háhraðavökvagreini tengdum tvöföldum massagreini (UPLC-MS/MS).
Efniviður og aðferðir: Við hámörkun á UPLC-MS/MS-magngreiningaraðferðinni var fjölþáttagreiningaraðferðinni hönnun tilrauna (design of experiments [DoE]) beitt og notast var við DoE-forritið MODDE Pro 12 (Sartorius Stedim Data Analytics, Umeå, Svíþjóð). Notuð var fractional factorial-hönnun til skimunar fyrir breytum sem höfðu marktæk áhrif á rástíma, aðgreiningu og flatarmál allra efnanna. Blóðvökvasýni frá ómeðhöndluðum og meðhöndluðum sjúklingum með APRT-skort voru greind með UPLC-MS/MS-magngreiningaraðferðinni eftir prótínfellingu með merktum innri stöðlum fyrir sérhvert virkt efni.
Niðurstöður: Þróun UPLC-MS/MS-magngreiningaraðferðarinnar með DoE var skilvirk og með fáum tilraunum náðist að hámarka sértæka og hraðvirka aðferð fyrir samhliða magngreiningu allra efnanna í blóðvökva. Nákvæmni og samkvæmni mælinga innan sama dags og milli daga reyndust framúrskarandi. Miðgildi (spönn) DHA-styrks í blóðvökva var 248 (224-395) ng/ml hjá ómeðhöndluðum sjúklingum og undir greiningarmörkum hjá þeim sem voru á meðferð með allópúrínóli eða febuxóstati. DHA greindist ekki í blóðvökva heilbrigðra einstaklinga.
Ályktun: Þróuð var harðvirk og áreiðanleg UPLC-MS/MS-aðferð til magngreiningar á DHA, adeníni og XOR-hemlum í blóðvökva. Þessi aðferð auðveldar og styrkir eftirlit lyfjameðferðar sjúklinga með APRT-skort.
V-53
Samanburður á blæðingum frá meltingarvegi hjá sjúklingum með skorpulifur
Sara Daðadóttir1, Arnar Bragi Ingason1, Jóhann Páll Hreinsson2, Einar Stefán Björnsson1
1Landspítali, 2Salgrenska háskólaskólasjúkrahúsið
Inngangur: Blæðingar frá æðagúlum í vélinda eru algeng orsök skyndilegra meltingarvegsblæðinga hjá skorpulifrarsjúklingum og tengdist áður hárri dánartíðni. Markmið rannsóknarinnar var að bæta við takmarkaða þekkingu um núverandi horfur við blæðingar frá æðagúlum auk þess að kanna eðli og horfur annarra meltingarvegsblæðinga hjá sjúklingahópnum.
Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem greindust með skorpulifur á tímabilinu 2010 – 2021 voru þátttakendur í framsýnni rannsókn 2010 – 2015 á Íslandi. Nýgreindir skorpulifrarsjúklingar hafa verið skráðir í gagnagrunn frá 2016. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. MELD (e. model for end-stage liver disease) var notað sem mælikvarði á alvarleika lifrarsjúkdómsins.
Niðurstöður: Alls greindust 402 sjúklingar með skorpulifur. Miðgildi eftirfylgni var 23 mánuðir (spönn 0 – 126). Alls blæddu 111 (28%) frá meltingarvegi, 70 (63%) við greiningu og 41 (37%) síðar, 86 (77%) frá efri hluta en 13 (12%) frá neðri hluta meltingarvegar, staðsetning var óljós hjá 12 (11%) sjúklingum. Meðaltal MELD var 13,6 hjá þeim sem blæddu og 11,6 hjá þeim án blæðingar. Fleiri sjúklingar sem blæddu voru með skinuholsvökva (e. ascites) og einnig voru þeir líklegri til að vera með lifrarheilakvilla. Fjórir sjúklingar (2,5%) létust úr bráðri blæðingu sem ekki gekk að stöðva. Í öllum þeim tilvikum var um blæðingar frá æðagúlum að ræða og var meðal MELD 16.
Ályktanir: Blæðingar frá efri meltingarvegi voru mun algengari en þær frá neðri. Merki um alvarlegan lifrarsjúkdóm höfðu tengsl við aukna blæðingartilhneigingu. Lítill hluti sjúklinga lést úr blæðingu því hana tókst að stöðva hjá flestum en þeir sem létust úr blæðingu höfðu verulega skerta lifrarstarfsemi.
V-54
Samanburður á orsökum neðri meltingarvegsblæðinga milli einstaklinga á blóðþynningu og án blóðþynningar um munn
Arnar Snær Ágústsson1, Arnar Bragi Ingason1, Daníel Pálsson1, Edward Rumba1, Indriði Reynisson2, Jóhann Páll Hreinsson3, Einar Stefán Björnsson1
1Landspítali, 2Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 3Sahlgrenska
Inngangur: Orsakir neðri meltingarvegsblæðinga (NMB) eru vel þekktar úr lýðgrunduðum rannsóknum. Orsakir NMB meðal einstaklinga á blóðþynningu eru lítið rannsakaðar. Markmið þessarar lýðgrunduðu samanburðarrannsóknar var að kanna orsakir blæðinga frá neðri hluta meltingarvegar meðal einstaklinga á blóðþynningu og án blóðþynningar.
Efniviður og aðferðir: Listi yfir einstaklinga á blóðþynningu um munn var sóttur frá lyfjagagnagrunni Landlæknis. Leitað var að bráðum meltingarvegsblæðingum á árunum 2014-2019 með ICD-10 kóðaleit á Landspítalanum og öllum fjórðungssjúkrahúsum og allar greiningar staðfestar handvirkt með sjúkraskrárleit. Samanburðarhópur var fenginn úr lýðgrundaðri rannsókn á orsökum allra NMB hjá einstaklingum án blóðþynningar á árunum 2010-2013. Blönduð tvíkosta aðhvarfsgreining (e. mixed effects logistic regression) var notuð til að bera saman hlutfallslega tíðni mismunandi orsaka NMB sem leiðrétti fyrir aldri, kyni, fylgisjúkdómum og samhliða lyfjanotkun.
Niðurstöður: Af 12.005 einstaklingum á blóðþynningu voru 391 með staðfesta NMB. Einstaklingar á blóðþynningu voru eldri og oftar karlkyns samanborið við einstaklinga án blóðþynningar (Tafla 1). Einstaklingar á blóðþynningu voru líklegri til að hafa ristilkrabbamein (Líkindahlutfall 3,73, Öryggisbil: 1,97 – 7,04, p= <0,001) og sepa í ristli (LH 6,59, ÖB: 2,44 – 17,76, p= <0,001) sem orsök blæðinga en ólíklegri til að hafa blóðþurrð í ristli (e. ischemic colitis) (LH 0,11, ÖB: 0,04 – 0,26, p= <0,001) (Tafla 2).
Ályktanir: Blóðþynningarlyf virðast hafa áhrif á orsakir NMB. Aukin tíðni blæðinga frá ristilkrabbameinum og sepum gæti stuðlað að snemmgreiningu þeirra. Hugsanlegt er að blóðþynningin hafi verndandi áhrif gegn blóðþurrð í ristli þar sem það reyndist sjaldgæf orsök blæðinga hjá einstaklingum á blóðþynnandi lyfjum.
V-55
Samanburður á orsökum efri meltingarvegsblæðinga milli einstaklinga á blóðþynningu og án blóðþynningar um munn
Arnar Snær Ágústsson1, Arnar Bragi Ingason1, Daníel Pálsson1, Edward Rumba1, Indriði Reynisson2, Jóhann Páll Hreinsson3, Einar Stefán Björnsson1
1Landspítali, 2Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 3Sahlgrenska
Inngangur: Orsakir efri meltingarvegsblæðinga (EMB) eru vel þekktar úr lýðgrunduðum rannsóknum. Hvort ákveðnar orsakir EMB séu hlutfallslega algengari meðal sjúklinga á blóðþynningu er þó óþekkt. Í þessari lýðgrunduðu samanburðarrannsókn var algengi orsaka EMB hjá einstaklingum á blóðþynningu borið saman við einstaklinga án blóðþynningar.
Efniviður og aðferðir: Listi yfir einstaklinga á blóðþynningu um munn fékkst frá lyfjagagnagrunni Landlæknis. Leitað var að meltingarvegsblæðingum á árunum 2014-2019 með ICD-10 kóðaleit á Landspítalanum og öllum fjórðungssjúkrahúsum og allar greiningar staðfestar handvirkt með sjúkraskrárleit. Samanburðarhópur var fenginn úr lýðgrundaðri rannsókn á orsökum allra EMB hjá einstaklingum án blóðþynningar á árunum 2010-2011. Blönduð tvíkosta aðhvarfsgreining (e. mixed effects logistic regression) var notuð til að bera saman hlutfallslega tíðni mismunandi orsaka EMB og leiðrétt var fyrir aldri, kyni, fylgisjúkdómum og samhliða lyfjanotkun.
Niðurstöður: Af 12.005 einstaklingum sem voru á blóðþynningu fengu 273 (2.3%) einstaklingar EMB á rannsóknartímabilinu. Einstaklingar á blóðþynningu voru eldri en samanburðarhópurinn og voru líklegri til að taka blóðflöguhindrandi lyf samhliða en síður líklegir til að taka NSAID lyf (Tafla 1). Einstaklingar á blóðþynningu fengu oftar EMB vegna æðamissmíða (Líkindahlutfall 3,7, Öryggisbil: 1,6 – 8,7, p= <0,001) og slímhúðarsára (LH 4,5, ÖB: 2,5 – 8,0, p= <0,001) en sjaldnar með blæðingu vegna vélindabólgu (LH 0,13, ÖB: 0,05 – 0,33, p= <0,001) (Tafla 2).
Ályktanir: Orsakir efri meltingarvegsblæðinga meðal þeirra á blóðþynningarmeðferð eru ólíkar almennu þýði. Sjúklingar á blóðþynningu voru líklegri til að blæða vegna slímhúðarsára og æðamissmíða sem oft valda ekki klínískt marktækri blæðinga í almennu þýði, þetta undirstrikar mikilvægi klínísks áhættumats fyrir inntöku blóðþynningarlyfja.
V-56
Hefur meðferð með blóðþynningarlyfjum um munn tengsl við aukna lifun sjúklinga með ristilkrabbamein?
Arnar Snær Ágústsson1, Arnar Bragi Ingason1, Daníel Pálsson1, Edward Rumba1, Indriði Reynisson2, Jóhann Páll Hreinsson3, Einar Stefán Björnsson1
1Landspítali, 2Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins, 3Sahlgrenska
Inngangur: Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein í heiminum og greinast um 150 sjúklingar árlega á Íslandi. Meirihlutinn greinist vegna blæðingartengdra einkenna svo sem blóðs í hægðum og/eða vegna járnskorts. Hugsanlegt er að einstaklingar á blóðþynningu greinist fyrr og hafi þannig betri lifun. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum blóðþynningar og lifunar þessara sjúklinga.
Efniviður og aðferðir: Listi frá Krabbameinsskrá yfir alla einstaklinga sem greindust frá 2003 til 2019 með ristilkrabbamein var samkeyrður við lista frá lyfjagagnagrunni Landlæknis yfir alla einstaklinga á blóðþynningu á sama tímabili. Samanburðarhópurinn samanstóð af öllum einstaklingum sem greindust með ristilkrabbamein á tímabilinu og voru ekki á blóðþynningu. Kaplan-Meier lifunargreining og Cox aðhvarfsgreining voru notuð til að bera saman lifun.
Niðurstöður: Alls greindust 1369 einstaklingar, með ristil og endaþarmskrabbamein á tímabilinu, þar af 97 (7,1%) einstaklingar á blóðþynningu. Blóðþynningarhópurinn reyndist eldri og fleiri með fylgisjúkdóma. Kaplan-meier lifunargreining sýndi ekki marktækan mun á lifun milli hópa en blóðþynningarhópurinn hafði fylgni við verri lifun (Mynd 1). Hins vegar sýndi Cox aðhvarfsgreining þar sem leiðrétt var fyrir aldri, kyni og fylgisjúkdómum fram á 24% lækkun á dánarlíkum meðal þeirra á blóðþynningu (Hættuhlutfall 0,76, Öryggisbil: 0,55-1,04, p= 0,08).
Ályktanir: Færri en 10% allra einstaklinga sem greindust með ristilkrabbamein voru á blóðþynningu um munn við greiningu. Leiðréttar niðurstöður benda til betri lifunar meðal einstaklinga á blóðþynningu þegar leiðrétt er fyrir fylgisjúkdómum en eru þó ekki afgerandi. Frekari rannsóknir með stærra þýði, þar á meðal sjúklinga með hááhættu sepa í ristli, gætu skýrt þessi tengsl nánar.
V-57
Rivaroxaban hefur tengsl við hærri tíðni meltingarvegsblæðinga en aðrir beinir storkuhemlar
Arnar B. Ingason1, Jóhann P. Hreinsson2, Arnar S. Ágústsson1, Sigrún H. Lund3, Edward Rumba1, Daníel A. Pálsson1, Indriði E. Reynisson4, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Páll T. Önundarson1, Einar S. Björnsson1
1Landspítali, 2Sahlgrenska, 3Íslensk erfðagreining, 4Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Inngangur: Tíðni meltingarvegsblæðinga hefur verið ítarlega borin saman milli warfaríns og beinna storkuhemla (direct oral anticoagulants). Enn er þó óljóst hvort blæðingartíðni sé mismunandi milli einstakra beinna storkuhemla.
Efniviður og aðferðir: Tíðni meltingarvegsblæðinga var borin saman milli sjúklinga sem hófu meðferð með apixaban, dabigatran og rivaroxaban á tímabilinu 1. mars 2014 – 28. febrúar 2019 í lýðgrunduðu þýði. Upplýsingar voru sóttar frá Lyfjagagnagrunni, dánarmeinaskrá, Landspítalanum og sjúkrahúsunum á Akranesi, Akureyri, Ísafirði og Neskaupsstað. Líkindaskorspörun (e. inverse probability weighting) var notuð til að mynda samanburðarhæfa hópa og var tekið tillit til aldurs, kyns, samhliða lyfjanotkunar, undirliggjandi sjúkdóma, ábendingu meðferðar, búsetu og fyrri blæðingar- og blóðsegaáfalla. Tíðni meltingarvegsblæðinga var borin saman með Kaplan-Meier lifunarmati og Cox aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 2.157 sjúklingum á apixaban, 494 á dabigatran og 3.217 á rivaroxaban. Rivaroxaban hafði hærri tíðni meltingarvegsblæðinga (3,2 tilfelli hver 100 sjúklingaár samanborið við 2,5 tilfelli, hættuhlutfall [HH] 1,42, 95% öryggisbil [ÖB] 1,04-1,93) og stórvægra meltingarvegsblæðinga (1,9 tilfelli hver 100 sjúklingaár samanborið við 1,4 tilfelli, HH 1,50, ÖB 1,00-2,24) samanborið við apixaban. Rivaroxaban hafði einnig hærri tíðni meltingarvegsblæðinga samanborið við dabigatran sem hafnaði þó ekki núlltilgátunni (HH 1,63, ÖB 0,91-2,92) (Mynd 1). Þegar greiningin var einskorðuð við sjúklinga með gáttatif var rivaroxaban með hærri meltingarvegsblæðingartíðni en bæði apixaban (HH 1,40, ÖB 1,01-1,94) og dabigatran (HH 2,04, ÖB 1,17-3,55). Rivaroxaban var tengt við hærri tíðni efri meltingarvegsblæðinga en dabigatran í báðum greiningum.
Ályktun: Rivaroxaban var tengt við hærri tíðni meltingarvegsblæðinga en apixaban og dabigatran óháð ábendingu lyfjanna.
V-58
Bráð brisbólga af völdum blóðþurrðar er mikilvæg orsök bráðrar brisbólgu hjá sjúklingum á gjörgæslu
María Björk Baldursdóttir1, Jóhannes Aron Andrésson1, Sigrún Jónsdóttir1, Halldór Benediktsson1, Evangelos Kalaitzakis2, Einar Stefán Björnsson1
1Landspítali, 2Háskólasjúkrahúsið í Heraklion
Inngangur: Brisbólga af völdum blóðþurrðar (ischemic Pancreatitis, IP) hefur aðallega verið lýst í einstökum sjúkratilfellum. Markmiðið var að meta tíðni, klínísk einkenni og útkomu sjúklinga með IP meðal þeirra sem lögðust inn á gjörgæslu vegna brisbólgu.
Efniviður og aðferðir: Sjúklingar með fyrstu bráðu brisbólgu 2011-2018 sem lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítala voru með í rannsókninni. Greiningarskilmerki brisbólgu af völdum blóðþurrðar voru; lost með blóðþrýstingsfalli af hvaða orsök sem er og/eða súrefnisskortur í slagæðablóði (PaO2≤60 mmHg) sem undanfari klínískra einkenna og greiningu brisbólgu. Aðrar orsakir brisbólgu voru útilokaðar. Sjúklingar með IP voru bornir saman við sjúklinga með brisbólgu af öðrum orsökum sem einnig þurftu innlögn á gjörgæslu.
Niðurstöður: Alls voru 67 sjúklingar lagðir inn á gjörgæslu vegna bráðrar brisbólgu á rannsóknartímabilinu, miðgildi aldurs 60 ár, 37% kvk. Orsakir brisbólgu voru eftirfarandi: 22% af völdum blóðþurrðar, 24% áfengistengd, 31% óþekkt orsök, 5% gallsteinar og 8% aðrar orsakir. 15 sjúklingar (22%) uppfylltu greiningarskilmerki fyrir IP, 7 kk (64%), miðgildi aldurs 62 ár (IQR 46-65). Orsakir IP voru aðallega lost með blóðþrýstingsfalli og súrefnisþurrð. Aðrar orsakir voru blóðsegar í æðum sem næra bris. Drep í brisi reyndist fátítt, aðeins einn sjúklingur þurfti aðgerð til að fjarlægja drep í brisi. Dánarhlutfall var hærra hjá þeim sem höfðu IP samanborið við brisbólgu af öðum orsökum (33% samanborið við 14%, P=0,12)
Ályktun: Brisbólga af völdum blóðþurrðar (IP) greindist hjá talsverðum fjölda sjúklinga sem lagðist inn á gjörgæslu með bráða brisbólgu. Aðal orsakir IP voru lost með blóðþrýstingsfalli og súrefnisþurrð. Dánarhlutfall IP er hátt eða um 30%.
V-59
Horfur taugainnkirtlaæxla í smágirni: vefjafræðilegir og klínískir áhrifaþættir
Sif Snorradóttir1, Alexandra Ásgeirsdóttir1, Sæmundur Rögnvaldsson2, Hallbera Guðmundsdóttir3, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Einar Stefán Björnsson2
1Háskóli Íslands, 2Landspítali, 3Mayo Clinic
Inngangur: Illkynja æxli eru sjaldgæf í smágirni en taugainnkirtlaæxli (e. neuroendocrine tumors, NET) eru þau algengustu. Lítið er til af rannsóknum á NET. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl birtingarmyndar krabbameinsins við horfur og hvort horfur einstaklinga sem gangast undir bráðaaðgerð séu frábrugðnar þeirra sem gangast undir valaðgerð.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn lýðgrunduð rannsókn sem náði til allra einstaklinga sem greindust með NET frá upphafi skráningar hjá Krabbameinsskrá Ísland og meinafræðideild Landspítalans á tímabilinu 1966-2017. Skurðaðgerð var flokkuð sem bráð (<72klst) og valkvæð (>72klst). Viðeigandi upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrá um einkenni við greiningu, meðferð, endurkomu og lifun.
Niðurstöður: Alls greindust 113 sjúklingar með SI-NET en 3 sjúklingar voru útilokaðir vegna skorts á gögnum og/eða greiningarvillu, en 110 sjúklingar voru eftir til lokagreiningar, 55 konur og 55 karlar, meðalaldur 65 ár. Alls greindust 46 sjúklingar (42%) fyrir tilviljun en 64 vegna einkenna. Carcinoid heilkenni greindist hjá 34 sjúklingum (31%). Alls 98 tilfelli (89%) fóru í skurðaðgerð á frumæxli. Á heildina litið fóru 30 sjúklingar (31%) í bráða eða aðkallandi skurðaðgerð (<72klst) og 68 valaðgerð (69%). 5 ára lifun allra sjúklinga frá 1966-2017 var 61%, 76% sjúklinga sem fóru í valaðgerð voru lifandi eftir 5 ár en 50% þeirra sem fóru í bráðaaðgerð (p=0.02). Ekki reyndist munur á lifun sjúklinga sem greindust fyrir tilviljun og vegna einkenna, 63% vs 59% (p=0.72).
Ályktanir: Horfur tengdust ekki því hvort sjúklingar með SI-NET greindust vegna einkenna eða tilviljun. Sjúklingar sem þurftu á bráðaaðgerð að halda höfðu verri horfur en þeir sem gengust undir valaðgerð.
V-60
Lifrarskaði hjá COVID-19 sjúklingum í samanburði við sjúklinga með inflúensu A H1N1 frá 2009: lýðgrunduð samanburðarrannsókn
Jökull Sigurðarson1, Elías Eyþórsson2, Agnar Bjarnason2, Einar Björnsson2
1Landspítali / Háskóli Íslands, 2Landspítali
Inngangur: Lifrarprufuhækkun er algeng í COVID-19. Orsök þess er óljós en gæti skýrst af lifrarbólgu af völdum SARS-CoV-2 eða lifrarskaða af völdum lyfja (e. drug-induced liver injury, DILI) sem notuð eru í meðferð COVID-19. Fyrri rannsóknir hafa verið án samanburðarhóps og líkur á DILI ekki metnar. Markmiðið var að kanna tíðni lifrarprufuhækkana í COVID-19 samanborið við heimsfaraldur inflúensu A (H1N1)v2009.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af öllum sem voru jákvæðir fyrir SARS-CoV-2 á kjarnsýrumögnunarprófi árið 2020 eða fyrir inflúensu A (H1N1)v2009 árið 2009. Algengi hækkana yfir efri mörkum (EM) í alanín amínótransferasa (ALAT), aspartat amínótransferasa (ASAT), alkalískum fosfatasa (ALP), gamma-glútamýl transferasa (GGT), kreatín kínasa og kreatíníni var borið saman. COVID-19 sjúklingar með >5x EM í ALAT eða ASAT, eða >2x EM í ALP voru metnir með Roussel Uclaf Causality Assessment Method (RUCAM-stigun) sem áætlar líkindi á DILI.
Niðurstöður: Rannsóknarþýðið taldi 5218 sjúklinga með COVID-19 (225 innlagðir) og 665 sjúklinga með inflúensu (73 innlagðir). ALAT, ASAT, GGT og ALP mældist hækkað hjá 29-36% COVID-19 sjúklinga í innlögn. Í inflúensu voru hækkanirnar álíka algengar, fyrir utan ASAT (64% >EM) sem var marktækt hærra í inflúensu A (miðgildi 63 vs. 34, p=0,001). Enginn sjúklinganna sem fylgt var eftir hafði viðvarandi ALAT-hækkanir tengdar COVID-19. Enginn innlagðra COVID-19 sjúklinga hafði líklegan DILI en þrír höfðu mögulegan DILI samkvæmt RUCAM-stigun.
Ályktun: Lifrarprufuhækkanir virðast jafnalgengar í heimsfaraldri COVID-19 og inflúensu A (H1N1)v2009. Hluti af hækkuðu amínótransferösunum koma frá vöðvum. COVID-19 veldur ekki viðvarandi hækkunum á lifrarprófum. DILI virðist ekki skýra hækkanir á lifrarprófum við COVID-19.
V-61
Blóðþurrð í lifur hjá gjörgæslusjúklingum
Sigrún Jónsdóttir1, Margrét B. Arnardóttir2, Jóhannes A. Andrésson3, Helgi K. Björnsson1, Sigrún H. Lund4, Einar S. Björnsson1
1Landspítali, 2University of Southern Denmark, 3Háskóli Íslands, 4DeCODE Genetics
Bakgrunnur: Blóðþurrð í lifur (hypoxic hepatitis) er klínískt heilkenni sem einkennist af miklum en tímabundnum hækkunum á lifrarensímum (ASAT og ALAT), sem kemur yfirleitt fram við undirliggjandi blóðrásartruflun, hjartabilun eða öndunarbilun. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa algengi, orsökum blóðþurrðar og afdrifum sjúklinga með blóðþurrð í lifur á gjörgæslu.
Efniviður og aðferðir: Blóðþurrð í lifur var skilgreint sem yfir tíföld hækkun á ALAT eða ASAT á meðal gjörgæslusjúklinga sem lágu inni á Landspítala frá 2011 til 2018 samhliða blóðrásartruflun, hjartabilun eða öndunarbilun. Aðrar orsakir fyrir ALAT og ASAT hækkun voru útilokaðar. Upplýsingar um afdrif sjúklinga sem uppfylltu fyrrnefnd skilmerki var safnað úr sjúkraskrám.
Niðurstöður: Af 9931 sjúklingum á gjörgæsludeild uppfylltu 159 (1,6%) skilmerki fyrir blóðþurrð í lifur, 89 karlar (56%), meðalaldur 66 ára. Í legu dóu 53% sjúklinga (n=85) og eingöngu 38% lifðu lengur en eitt ár eftir útskrift. Meðallegutími á spítala var 16 dagar (IQR 7-32) en meðallegutími á gjörgæslu 5 dagar (IQR 3-10). Lost (48%), hjartastopp (25%) og súrefnisskortur (e. hypoxia) (13%) voru algengustu orsakir blóðþurrðar. Bráður nýrnaskaði (81%), rákvöðvaleysing (e. rhabdomyolysis) (50%), blóðþurrð í görn (6%) og blóðþurrð í brisi (3%) komu fram samhliða blóðþurrð í lifur. Aldur og hækkun á laktat og LD (e. lactate dehydrogenase, LD) voru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir dánartíðni í legu.
Ályktun: Sjúklingar með blóðþurrð í lifur höfðu háa dánartíðni í legu. Lost var orsökin í um 50% tilfella. Blóðþurrð í öðrum líffærum var algeng samhliða blóðþurrð í lifur. Horfur sjúklinga tengdust hækkuðum aldri, laktat og LD í sermi.
V-62
IL2 forgenameðferð og T stýrifrumur draga úr bólgu og liðskemmdum í Staphylococcus aureus liðsýkingu í músum
Berglind Bergmann1, Ying Fei2, Pernilla Jirholt1, Zhicheng Hu1, Maria Bergquist1, Abukar Ali1, Catharina Lindholm1, Olov Ekwall1, Guillaume Churlaud3, David Klatzmann3, Tao Jin1, Inger Gjertsson1
1Dept of Rheumatology and Inflammation Research, Sahlgrenska Academy GU, 2Department of Microbiology and Immunology, GuiZhou Medical University, 3Sorbonne Université, INSERM, Immunology-Immunopathology-Immunotherapy (i3)
Inngangur: Bráð liðsýking af völdum Staphylococcus aureus (S. aureus) er alvarlegur liðsjúkdómur sem getur valdið varanlegum liðskemmdum innan fárra daga, þrátt fyrir sýklalyfjameðferð en það er hið sterka ónæmissvar sem virkjast við sýkinguna sem er ein aðalorsökin fyrir liðskemmdunum. Í rannsókn þessari var hlutverk IL2 og T stýrifrumna í S. aureus liðbólgu skoðað í vel þekktu músamódeli. Tilgátan var að með því að auka þátt ónæmisstýringar í S. aureus liðsýkingu með stækkun T stýrifrumuhólfsins væri hægt að koma í veg fyrir skaðlega þætti ónæmissvarsins sem valda liðskemmdunum án þess að hindra verndandi hlutverk ónæmissvarsins. Gjöf lágskammta interleukin 2 (IL2) hefur sértæk áhrif á T stýrifrumuhólfið og stækkar það en margar rannsóknir á áhrifum lágskammta IL2 meðferðar á ýmsa sjálfsónæmissjúkdóma eru í bígerð.
Efniviður og aðferðir: Recombinant adeno-associated veiruvigur (rAAV) stuðlar að innrænni IL2-losun og var sprautað í mýs áður en komið var á smiti. S. aureus LS-1 eða Newman var sprautað í æð á C57BL/6 eða NMRI músum sem veldur blóðbornu S. aureus smiti og S. aureus liðsýkingu. Meðferð með antiCD25 mótefnum, recombinant IL2 og T stýrifrumum voru einnig skoðuð. Dánartíðni, þyngdartap, bólgumiðlar, bakteríuhreinsun og liðskemmdir voru m.a. þau áhrif íhlutunar sem skoðuð voru.
Niðurstöður: Fjölgun T stýrifrumna með IL2 genameðferð áður en komið er á sýkingu hefur jákvæð áhrif á ónæmissvarið í S. aureus liðsýkingu og olli minni liðskemmdum og bólgusvörun á sama tíma sem bakteríuhreinsun var aukin.
Ályktun: IL2 genaformeðferð (pre-treatment) hemur skaðlega þætti ónæmisviðbragðisins í S. aureus liðsýkingu en viðheldur verndandi þáttum þess.
V-63
Pneumókokka mótefnavakaleit í þvagi. Gagnsemi Binax NOW S. pneumoniae prófsins og tengsl við sjúkdómsmynd
María Rós Gústavsdóttir, Helga Erlendsdóttir, Magnús Gottfreðsson, Agnar Bjarnason
Landspítali
Inngangur: Streptococcus pneumoniae (pneumókokkur) er baktería sem getur valdið lífshótandi sýkingum með hröðum klínískum gangi. Því er mikilvægt að greina sýkingar á skömmum tíma til þess að geta brugðist fljótt og rétt við. Binax NOW S. pneumoniae greiningapróf mælir mótefnavaka pneumókokka í þvagi. Markmið rannsóknarinnar var að meta forspárgildi greiningarprófsins sem og tengsl pneumókokka mótefnavaka í þvagi við alvarleika ífarandi pneumókokkasýkingar.
Efniviður og aðferðir: Fyrir lágu upplýsingar um tilfelli ífarandi pneumókokkasýkinga í pneumókokkagagnagrunni Sýklafræðideildar hjá þeim sjúklingum þar sem einnig hafði verið gerð mótefnavakaleit í þvagi. Alvarleiki sýkinga var metinn með PSI (pneumonia severity index), CURB-65 og quick-SOFA stigunarkerfum. Hlutfall jákvæðra niðurstaðna úr greiningarprófinu var borið saman milli alvarleikaflokka. Forspárgildi prófsins var ákvarðað með því að bera saman næmi og sértækni við blóð- og hrákaræktanir.
Niðurstöður: Þegar blóðræktun var notuð sem gull-viðmið reyndist ræmi og sértækni greiningarprófsins vera 72,6% og 97,1%. Þegar hrákaræktun var notuð sem gull-viðmið reyndist næmi og sértækni vera 71,4% og 89,0%. Hlutfall jákvæðra niðurstaðna úr prófinu hækkaði eftir auknum alvarleika í öllum tilfellum (nema í PSI flokki 5) en hækkunin var aðeins marktæk í CURB-65 flokki 3. Hlutfall jákvæðra niðurstaðna reyndist marktækt hærra hjá þeim sem lögðust inn á gjörgæslu (p=0,008) eða létust innan 30 daga (p=0,034) samanborið við aðra.
Ályktun: Niðurstöður þessarar rannsóknar geta veitt betri innsýn í gagnsemi og forspárgildi greiningarprófsins sem og tengsl við alvarleika, innlögn á gjörgæslu og 30 daga dánartíðni. Gagnlegt væri að skoða stærri rannsóknarhóp og bera saman niðurstöður milli pneumókokka hjúpgerða ásamt því að skoða áhrif niðurstaðna á sýklalyfjaval.
V-64
Pneumókokkar í nefkoki leikskólabarna 2016-2020. Sýklalyfjanæmi og hjúpgerðir
Emil Sigurðarson1, Helga Erlendsdóttir2, Ásgeir Haraldsson2, Karl Gústaf Kristinsson2
1Læknanemi, 2Landspítali
Inngangur: Pneumókokkar eru algeng orsök öndunarfærasýkinga og geta valdið ífarandi sýkingum. Sýklalyfjaónæmi pneumókokka lækkaði í kjölfar upptöku ungbarnabólusetningar á Íslandi en hefur farið vaxandi undanfarin ár. Börn eru lykil smitberar pneumókokka til annarra aldurshópa.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er yfirstandandi þversniðskönnun. Rannsóknin náði til 2236 barna frá 15 leikskólum á höfuðborgarsvæðinu sem tóku þátt á tímabilinu 2016-2020. Nefkoksýni voru tekin árlega í mars. Sýnunum var sáð til ræktunar á pneumókokkum. Hjúpgreining var gerð með Latex-kekkjunarprófi og PCR. Sýklalyfjanæmi var fundið með lyfjaskífum, stuðst við Eucast staðal, og Etest.
Niðurstöður: Berahlutfall var 53%, 1184 sýni voru jákvæð fyrir pneumókokkum, þar af 94 með tvo stofna. Alls ræktuðust 1278 pneumókokka stofnar. Marktæk hækkun var á sýklalyfjaónæmi eftirfarandi sýklalyfja 2016-2020, (p<0,01): erýtrómýsín (12,9 í 38,2%), tetrasýklín (11,8 í 25,2%), klindamýsín (9,3 í 28,2%), trímetóprím-súlfametoxazól (11,5 í 22,1%), fjölónæmi (12,1 í 26,0%), minnkað penisillín næmi (18.8 í 58,0%). Aukning var á algengi hjúpgerðar 6C á tímabilnu 13,8 í 22,1% (p<0,01), og aukning á minnkuðu penisillín næmi þeirrar hjúpgerðar 32,7 í 75,9% (p=0,018). Aukning var á algengi hjúpgerðar 35B á tímabilinu úr 0,6 í 6,9% (p<0,001), minnkað penisillín næmi og erýtrómýsín ónæmi var hvort um sig 82%. Fjölónæmi var algengt hjá hjúpgerðum 6C (46,3%) og 15A (74,4%). Það var einnig algengt hjá hjúplausum stofnum (54,9%).
Ályktun: Sýklalyfjaónæmi pneumókokka í nefkoki barna sem fór minnkandi er að aukast aftur. Mikilvægt er að huga að sýklalyfjanotkun barna, fylgjast með faraldsfræði og sýklalyfjanæmi pneumókokka. Meta þarf hvaða hjúpgerðir eru að valda aukningu á sýklalyfjaónæmi og sjúkdómsbyrði á Íslandi.
V-65
Tengsl acetýlsalicýlsýru við lækkaða dánartíðni sjúklinga með lungnabólgu og blóðsýkingu af völdum Streptococcus pneumoniae
Kristján Godsk Rögnvaldsson1, Agnar Bjarnason, Karl Kristinsson, Hörður Tryggvi Bragason1, Helga Erlendsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson2, Magnús Gottfreðsson2
1Háskóli Íslands, 2Landspítali
Inngangur: Lungnabólga er algengur sjúkdómur með háa dánartíðni sem hefur nánast ekkert lækkað síðustu áratugi. Hjarta- og æðatengdir fylgikvillar í kjölfar lungnabólgu eru algengir. Vísbendingar eru um að acetýlsalicýlsýra (ASA) tengist bættum skammtímahorfum sjúklinga með lungnabólgu, en rannsóknir á langtímalifun og á lýðgrunduðu þýði skortir. Markmið rannsóknarinnar er að kanna tengsl notkunar ASA og lifunar allt að einu ári eftir greiningu S. pneumoniae (pneumokokka) lungnabólgu.
Efniviður og aðferðir: Sjúkragögn þeirra sem greindust með blóðsýkingu af völdum pneumokokka og staðfesta lungnabólgu á Íslandi árin 1975-2019 voru yfirfarin og skoðuð m.t.t. notkunar á ASA. Cox aðhvarfsgreiningar voru framkvæmdar með beinni leiðréttingu og vigtun eftir líkindaskori. Endapunktar í rannsókninni voru dauði við 30 daga, 90 daga og 1 ár.
Niðurstöður: Alls greindust 822 sýkingar, þar af tóku 123 ASA við greiningu. ASA-tilfelli voru að meðaltali eldri og með þyngri sjúkdómsbyrði. Óleiðrétt var dánartíðni ASA-hópsins 13,8%, 16,3% og 22,0% við 30 daga, 90 daga og 1 ár en 13,2% 18,0% og 25,2% í hópnum sem var ekki á ASA. Samkvæmt Cox aðhvarfsgreiningu með beinni leiðréttingu undirliggjandi þátta var áhættuhlutfallið 0,61 (0,35-1,05), 0,55 (0,32-0,93) og 0,53 (0,35-0,83). Fullleiðrétt módel með líkindaskorsvigtun gaf áhættuhlutfall dauða ASA-tilfella 0.54 (95% öryggisbil 0,30-0,97), 0,44 (0,26-0,74) og 0,44 (0,28-0,68) fyrir 30 daga, 90 daga og 1 ár.
Ályktanir: Notkun á ASA við greiningu lungnabólgu tengdist betri lifun sjúklinga allt að 1 ári eftir sýkinguna. Upplýsingarnar geta nýst til þess að undirbúa tvíblinda slembirannsókn með lyfleysu til þess að meta enn frekar áhrif lyfsins á horfur í kjölfar lungnabólgu.
V-66
Þróun bólgusvars í COVID-19
Þóra Óskarsdóttir1, Elías Eyþórsson2, Runólfur Pálsson2, Martin Ingi Sigurðsson2
1Læknadeild Háskóli Íslands, 2Landspítali
Bakgrunnur: Yfirdrifið bólgusvar er hluti af klínískri birtingarmynd alvarlegs COVID-19 en lítið er vitað um þróun bólgusvars á dögunum fyrir sjúkrahúsinnlögn. Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa þróun lífmerkja sem tengjast bólgusvari frá upphafi einkennagefandi SARS-CoV-2- sýkingar hjá sjúklingum sem höfðu mismunandi klíníska útkomu.
Efni og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sem greindust SARS-CoV-2-jákvæðir á kjarnsýrumögnunarprófi á Íslandi frá 28. febrúar til 31. desember 2020 og þörfnuðust heilbrigðisþjónustu umfram símaeftirfylgd. Þátttakendum var skipt í þrjá hópa eftir alvarlegustu útkomu: 1) mat eða meðferð á göngudeild einvörðungu; 2) innlögn á spítala; 3) innlögn á gjörgæslu eða dauði. Gögnum var safnað úr sjúkraskrárkerfi Landspítala. Þróun bólgulífmerkja var borin saman milli hópanna með skilyrtu meðaltali blóðmælinga sem fall af tíma frá upphafi einkenna.
Niðurstöður: Alls voru 571 þátttakendur í rannsókninni. Samtals nægði 310 (54,3%) þátttakendum meðferð á göngudeild, 202 (35,4%) lögðust inn á sjúkrahús og 59 (10,3%) lögðust jafnframt á gjörgæslu eða létust. Munur var á fjölda eitilfrumna og styrk CRP og ferritíns milli hópanna þriggja dagana fyrir innlögn á sjúkrahús og gjörgæslu. Umfang eitilfrumufæðar og hækkun CRP og ferritíns stigversnaði eftir alvarleika útkomunnar. Hvít blóðkorn, daufkyrningar, prókalsítónín og D-Dímer voru hæst hjá sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæslu eða létust. Af þeim sem seinna lögðust inn á gjörgæslu eða létust höfðu 26 (44,1%) eitilfrumufæð í sinni fyrstu blóðrannsókn, 57 (96,6%) höfðu hækkað CRP og 41 (69,5%) höfðu hækkað ferritín.
Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að eitilfrumur, CRP og ferritín séu gagnlegar blóðmælingar við klínískt mat snemma á sjúkdómsskeiði COVID-19.
V-67
Hröð lækkun á algengi lifrarbólgu C hjá fólki sem sprautar sig með vímuefnum í æð á Íslandi
Magnús Gottfreðsson1, Valgerður Rúnarsdóttir2, Þorvarður Jón Löve1, Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir3, Arthur Löve1, Þórarinn Tyrfingsson2, Sigurður Ólafsson1
1Landspítali og Háskóli Íslands, 2Sjúkrahúsið Vogur, 3Landspítali og Sjúkrahúsið Vogur
Inngangur: Árið 2016 hófst íslenskt meðferðarverkefni gegn lifrarbólgu C án meðferðartakmarkana: „Treatment as Prevention for Hepatitis C“ eða TraP HepC. Ekkert bóluefni er til gegn þessum sjúkdómi, en fíkniefnaneytendur sem sprauta vímuefnum í æð (VíÆ) eru líklegastir er til að smitast hérlendis. Mikilvægt er að kanna hvort meðferðarátakið hafi skilað árangri innan þessa hóps. Sjúkrahúsið Vogur er góð varðstöð (sentinel site) til að fylgjast með algengi smits með lifrarbólgu C meðal VíÆ.
Efniviður og aðferðir: Öllum 18 ára og eldri með PCR staðfesta lifrarbólgu C var boðin meðferð samkvæmt birtum meðferðarleiðbeiningum og þátttaka í vísindarannsókn frá janúar 2016 til janúar 2019. PCR neikvæðir 12 vikum eftir meðferð töldust læknaðir. Algengi virkrar lifrarbólgu C meðal þeirra sem lögðust inn á Vog og gáfu jafnframt sögu um VíÆ var könnuð fyrir tímabilið 2010-2019.
Niðurstöður: Af 705 einstaklingum sem hófu meðferð á rannsóknartímabilinu kváðust 234 (33%) hafa neytt vímugjafa í æð nýlega (innan 6 mánaða). Af þeim læknuðust 82.8%, borið saman við 92.5% sem ekki gáfu sögu um nýlega VíÆ (p<0.001). Algengi virks smits með lifrarbólgu C (HCV RNA jákvæðir) var 48.7% meðal VíÆ sem lögðust inn á Sjúkrahúsið Vog árabilið 2010-2015, en féll niður í 16.2% árið 2017 og 10.2% árið 2018 (p<0.001).
Ályktun: Árangur meðferðar er góður, jafnvel meðal VíÆ sem eru í virkri neyslu meðan á meðferð stendur. Algengi smits innan þessa hóps hefur lækkað um >70% eftir að meðferðarátakið hófst. Mikilvægt er að fylgja þessum árangri eftir með áframhaldandi vöktun og góðu aðgengi að meðferð.
V-68
Há tíðni endursýkinga með lifrarbólgu C meðal einstaklinga sem nota fíkniefni í æð: Niðurstöður úr verkefninu Meðferð sem forvörn gegn lifrarbólgu C – framskyggn, lýðgrunduð rannsókn
Jón Magnús Jóhannesson1, Valgerður Rúnarsdóttir2, Arthur Löve1, Þorvarður Löve1, Sigurður Ólafsson1, Magnús Gottfreðsson1
1Landspítali, 2SÁÁ - Sjúkrahúsið Vogur
Inngangur: Í febrúar 2016 hófst á Íslandi átak gegn lifrarbólguveiru C (hepatitis C virus, HCV) þar sem öllum sem greinst höfðu með HCV var boðin lyfjameðferð með það að markmiði að útrýma sjúkdómnum sem meiriháttar lýðheilsuvanda. Endursýkingar vegna notkunar fíkniefna í æð (e. injection drug use, IDU) geta ógnað árangri átaksins. Við reiknuðum endursýkingartíðni með HCV meðal sjúklinga í verkefninu.
Efniviður og aðferðir: Sjúklingagögnum var safnað framsýnt. Rannsóknarhópurinn náði til allra sem læknuðust af HCV og voru með áætlaða meðferðarsvörun frá 1. febrúar 2016 til 20. nóvember 2018, með eftirfylgd til 20. nóvember 2019. Eftirfylgdartími var skilgreindur frá fyrstu neikvæðu mælingu HCV RNA til síðustu mælingar. Endursýkingartíðni var reiknuð sem endursýkingar á 100 persónuár. Tími endursýkingar var við staðfestingu endursýkingar.
Niðurstöður: 640 meðferðir hjá 614 sjúklingum (417 karlar, meðalaldur 44,3 ár) leiddu til lækningar. 52 endursýkingar greindust í kjölfarið hjá 50 sjúklingum (37 karlar). Eftirfylgd var 693,0 persónuár og miðgildi tímans til endursýkingar var 329 dagar. Við upphaf meðferðar gáfu 523 sjúklingar sögu um notkun fíkniefna í æð (84,8%) og nýlega slíka neyslu í 220 (34,4%). Endursýkingartíðni var 7,5/100 persónuár. Í Cox proportional hazards líkönum var lægri aldur (HR 0,77, 95% CI 0,66-0,91) og nýleg notkun fíkniefna í æð samkvæmt upphafsviðtali (HR 3,08, 95% CI 1,35-6,99) marktækt tengd líkum á endursýkingu.
Ályktun: Endursýkingartíðni eftir meðferð HCV er há á Íslandi, sérstaklega meðal ungra einstaklinga með nýlega notkun fíkniefna í æð. Aukin áhersla á hááhættu einstaklinga er nauðsynleg til að lækka algengi og draga úr dreifingu HCV.
V-69
Faraldsfræði ífarandi pneumókokkasýkinga meðal fullorðinna á Íslandi árin 2001-2020
Helga Erlendsdóttir1, Sigríður Júlía Quirk1, Karl Gústaf Kristinsson1, Ásgeir Haraldsson2
1Landspítali, Sýkla-og veirufræðideild, 2Barnaspítali Hringsins
Inngangur: Algengt er að börn beri einkennalaust pneumókokka í nefkoki, en bakterían getur valdið alvarlegum sýkingum hjá bæði börnum og fullorðnum. Fjölsykruhjúpurinn er helsti meinvirkniþátturinn, þekktar um 100 hjúpgerðir. Árið 2011 hófst á Íslandi ungbarnabólusetning gegn pneumókokkum með 10-gildu bóluefni (PCV-10). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði ífarandi pneumókokkasýkinga meðal fullorðinna síðustu tvo áratugi.
Efniviður og aðferðir: Allar ífarandi pneumókokkasýkingar á Íslandi eru skráðar á Sýkla-og veirufræðideild Landspítalans. Teknar voru út upplýsingar um aldur og afdrif (andlát) fullorðinna sjúklinga (hagstofa.is), hjúpgerð pneumókokkanna og sýklalyfjanæmi. Tímabilinu var skipt í fjögur 5 ára tímabil. Tíðnihlutföll voru borin saman með nákvæmisprófi byggðu á Poisson-dreifingu.
Niðurstöður: Alls greindust 607 ífarandi sýkingar á árunum 2001-2020; 167, 172, 124 og 130 sýkingar á tímabilunum fjórum. Árlegt heildar-nýgengi lækkaði úr 15,9 í 9,7 sýkingar/100.000 íbúa á tímabilinu (tíðnihlutfall 0,62, 95% öryggisbil 0.49-0,77, p<0,001). Dánarhlutfallið var 7,6% hjá 18-44 ára, 9,6% hjá 45-64 ára og 20,2% hjá >65 ára og breyttist ekki á tímabilinu. Hlutfall PCV-10 hjúpgerða fór úr 73% í 18% síðustu 5 árin. Hlutfall pneumókokkastofna með minnkað næmi fyrir penisillíni jókst úr 8% í 16% síðustu 5 árin. Síðustu tvö árin er hlutfallið komið í 29%.
Ályktun: Í kjölfar pneumókokka ungbarnabólusetningarinnar hefur ífarandi sýkingum meðal fullorðinna fækkað marktækt. Dánarhlutfallið er þó óbreytt. Vegna vals á næsta bóluefni er mikilvægt að fylgjast með breytingum á faraldsfræðinni og vera vel á verði, enda hafa nýjar hjúpgerðir sem ekki er að finna vörn fyrir í bóluefninu og hafa aukið sýklalyfjaónæmi komið í stað fyrri hjúpgerða.
V-70
Fríar fitusýrur úr lýsi í 1-2% styrk eyða 99.9% af SARS-CoV-2 í veiruræktun
Einar Stefánsson1, Stella Sigurðardóttir2, Michelle Mendenhall3, Katrín Pétursdóttir4, Sigurður Guðmundsson1, Arthur Löve1, Halldór Þormar1, Þorsteinn Loftsson1
1Háskóli Íslands, 2Lipid Pharmaceuticals ehf, 3Utah State University, 4Lýsi hf
Markmið: Fríar fitusýrur (FFA) eru náttúruleg niðurbrotsefni í lýsi, sem eru nú í 0,2% styrk í þorsklifrarlýsi, en voru um og yfir 1% áður fyrr. Halldór Þormar og samstarfsmenn hafa sýnt að FFA eyðileggja hjúpaðar veirur, ýmsar bakteríur og sveppi. Coronaveirur eru hjúpaðar veirur. Við prófum þá kenningu að FFA úr lýsi eyðileggi SARS-CoV-2 í veiruræktun.
Aðferðir: Fríar fitusýrur úr lýsi voru framleiddar með vatnsklofningi á tilraunastofu Lýsis hf í Reykjavík. Veirueyðandi áhrif fitusýra í styrkleika 0.1-2% voru mæld í veiruræktun á Institute for Antiviral Research, Utah State University.
Niðurstöður: 1% og 2% FFA eyðileggja 99,9% af SARS-CoV-2 á 10 mínútum í veiruræktun (p=0,0001). 0,1% fitusýrur og lyfleysa hafa engin áhrif á veiruþéttni.
Umræða: Lifrarlýsi og aðrar fiskiolíur innihalda fríar fitusýrur og hafa verið notaðar sem fæðubótarefni um aldir, m.a. í þeirri trú að lýsi dragi úr pestarsækni. Fitusýrur í styrkleika, sem er nálægt því sem tíðkaðist í lýsi, eyða Covid veirunni, SARS-CoV-2. Lýsi þolist vel, er til reiðu í nær takmarkalausu magni og auðvelt að auka styrk FFA. Lýsi með 2% FFA kann að hafa notagildi, t.d. sem munn-hálsskol, til að draga úr þéttni lífvænlegra veira í munnvatni og slímhúð í munni og hálsi og draga þannig úr smithættu. Við leitum eftir samstarfsmönnum til klínískra rannsókna.
V-71
Fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf fyrir brjóstnám með tafarlausri uppbyggingu með ígræði, á Landspítala 2010-2019
Hafdís Rún Einarsdóttir1, Pétur S. Gunnarsson2, Agnar Bjarnason2, Halla Fróðadóttir2
1Lyfjaver, 2Landspítali
Inngangur: Brjóstnám og tafarlaus brjóstauppbygging er áhættuminnkandi aðgerð hjá konum með arfgenga áhættuþætti eða hluti meðferðar við brjóstakrabbameini. Aðgerðin telst til ,,hreinna“ aðgerða með <5% hættu á sýkingu eftir aðgerð án allra áhættuþátta. Klínískar leiðbeiningar á Landspítala og víða um heim fjalla um notkun fyrirbyggjandi sýklalyfja fyrir skurðaðgerðir til að draga úr sýkingartíðni.
Markmið: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða hvort fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf væri gefin fyrir brjóstnám og tafarlausa uppbyggingu með ígræði og hvort sú gjöf væri í samræmi við gildandi klínískarleiðbeiningar. Undirmarkmið voru að skoða sýkingartíðni innan 90 daga frá aðgerð og bera saman konur með og án krabbameinsgreiningar.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn lýsandi gagnagrunnsrannsókn byggð á gögnum frá Landspítala. Sýklalyfjagjöf tengd brjóstnámi og tafarlausri uppbyggingu með ígræði á tímabilinu janúar 2010 til desember 2019 var skoðuð.
Niðurstöður: Gögn fundust um 335 aðgerðir á rannsóknartímabilinu. Meirihluti sjúklinga fengu fyrirbyggjandi sýklalyf (96%, n=321). Tímasetning gjafar var rétt í 44% (n=146) tilfella á rannsóknartímabilinu. Í aðeins einni aðgerð var klínískum leiðbeiningum fylgt að fullu en sýklalyf voru gefin umfram þann tíma sem mælt er með í 98% (n=329) tilfella. Að meðaltali voru fyrirbyggjandi sýklalyf gefin í fjóra daga legunnar í tengslum við aðgerð. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á tíðni áhættuþátta og sýkinga milli hópa.
Ályktun: Fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf var ábótavant og ekki í fullu samræmi við gildandi klínískar leiðbeiningar Landspítala. Mesta ósamræmi var við lengd meðferðar sem var talsvert umfram ráðleggingar. Ljóst er að skráning greiningar- og aðgerðarkóða þarf að vera betri og sýkingar eftir aðgerð eru almennt illa skráðar.