Fylgirit 108 - XXIV þing Félags íslenskra lyflækna, 2021

VELKOMIN Á LYFLÆKNAÞING 2021!

VELKOMIN Á LYFLÆKNAÞING 2021!

Kæru lyflæknar og aðrir þinggestir

Það er mér sérstök ánægja að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á XXIV. þing Félags íslenskra lyflækna sem haldið verður í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu í Reykjavík 5.-6. nóvember 2021.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur heldur betur umbylt hefðbundnu lífsmynstri okkar undanfarna 18 mánuði. Það á ekki síst við um ýmiss konar samkomuhald en Lyflæknaþingi 2020 hefur til að mynda verið frestað í þrígang og eru þrjú ár liðin frá síðasta þingi. Það er því mikið gleðiefni að geta loksins hist til að fræðast, skemmta okkur aðeins og endurvekja kynnin.

Faraldurinn hefur heldur betur reynt á heilbrigðiskerfið en það er þó nokkuð samdóma álit flestra að allvel hafi tekist til hérlendis í baráttunni við þennan vágest. Þar hafa lyflæknar verið í forgrunni og hefur svokölluð COVID-19 göngudeild, sem stofnuð var á Landspítala með stuttum fyrirvara, vakið sérstaka eftirtekt. Þá hefur framlag Íslenskrar erfðagreiningar til baráttunnar við faraldurinn verið ómetanlegt, bæði hvað varðar þjónustu við greiningu smita og vísindalegt framlag. Samstarf ÍE og lyflækna á Landspítala í rannsóknum á þessum nýja sjúkdómi hefur skilað afar áhugaverðum niðurstöðum.

Það má með sanni segja að lyflækningar séu umfangsmesta sérgrein læknisfræðinnar. Sérgreinin spannar ansi vítt svið og kannski höfuðáhersla undanfarinna tveggja áratuga eða svo verið að efla undirsérgreinar lyflækninga, mögulega á kostnað lyflækninga. Víða hefur þetta leitt til vaxandi sjálfstæðis undirsérgreina og hafa sameiginlegir hagsmunir lyflækninga stundum vikið fyrir sérhagsmunum undirsérgreinanna. Nú eru hins vegar blikur á lofti með vaxandi mikilvægi breiðrar nálgunar lyflækninga. Æ fleiri sjúklingar, oft aldraðir, með fjölþætt vandamál frá mismunandi líffærakerfum kallar á mun yfirgripsmeiri nálgun en veitt er af undirsérgreinunum. Almennar lyflækningar, í fjölbreyttum birtingarmyndum, hafa verið að öðlast sífellt stærri sess í starfsemi sjúkrahúsa og höfum við ekki farið varhluta af þessari þróun hérlendis.

Þing Félags íslenskra lyflækna hafa um árabil verið mikilvægur vettvangur fyrir kynningu á niðurstöðum vísindarannsókna, sem og umfjöllun um nýjungar og áleitin viðfangsefni innan lyflækninga hérlendis. Svo verður einnig í þetta sinn og verða yfir 70 vísindaágrip kynnt á þinginu. Margir af okkar fremstu vísindamönnum í læknisfræði hafa þreytt frumraun sína á þingum félagsins og finnst okkur því mikilvægt að hlúa sérstaklega að þessum þætti. Sem fyrr verða veitt verðlaun fyrir bestu ágrip unglæknis og læknanema.

Dagskrá þingsins verður að vanda fjölbreytt og ætti að höfða til sem flestra lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem fást við hin ýmsu verkefni lyflækninga í starfi sínu. Meðal þess sem hæst ber er málþing um blæðingar frá meltingarvegi, en mikil gróska hefur verið í vísindarannsóknum á því sviði. Amie Burbridge frá Bretlandi mun fjalla um hvernig hugræn bjögun getur leitt okkur af leið í ákvarðanatöku í læknisfræði. Þá verður fjallað um áhugaverðar tækninýjungar sem nýtast í starfi innan lyflækninga, heilsueflandi borgarskipulag auk umfjöllunar um áhugaverðustu nýjungarnar í undirsérgreinum lyflækninga. Runólfur Pálsson, sem hefur verið forseti Evrópusamtaka lyflækna og forstöðumaður lyflækninga á Landspítala, mun segja okkur frá stöðu lyflækninga árið 2021.

Eins og á síðustu þingum Félags íslenskra lyflækna verða sérstök málþing um viðfangsefni hjúkrunar á sviði lyflækninga. Er þetta liður í að gera þingið áhugaverðara fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar fagstéttir. Á þessu þingi eru nokkur málþing skipulögð þannig að þau höfði til bæði lækna og hjúkrunarfræðinga þar sem fyrirlesarar frá báðum stéttum taka þátt. Það að bjóða hjúkrunarfræðingum og öðrum stéttum sem starfa við lyflækningar á þingið er liður í að treysta samvinnu þessara stétta og er að okkar mati lykilatriði í frekari framþróun heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst hvað varðar teymisvinnu á legudeildum og göngudeildum.

Þing Félags íslenskra lyflækna er ekki síður mikilvægt fyrir félagslega eflingu þeirra sem starfa innan lyflækninga. Eftir aðalfund Félags íslenskra lyflækna á föstudagskvöldinu verður haldið á hið glænýja Marriott Edition hótel við hlið Hörpu, en hótelið opnar einmitt formlega fyrir veitingaþjónustu þann dag. Á laugardagskvöldinu verður svo kvöldverður í Björtuloftum í Hörpu, sem er afar skemmtilegur salur. Vonumst við til að sjá sem allra flesta þinggesti þar og lofum góðri stemningu.

Eins og ávallt hafa margir lagt hönd á plóg við undirbúning þessa þings og færum við þeim öllum bestu þakkir fyrir. Við viljum einnig þakka mörgum stuðningsaðilum þingsins fyrir þeirra mjög svo mikilvæga framlag. Einsog undanfarin ár eru öll ágrip vísindaþingsins varðveitt sem fylgirit á heimasíðu Læknablaðsins. Að síðustu viljum við þakka þeim Þórunni Dögg og Þorbjörgu hjá Athygli ráðstefnum fyrir framúrskarandi samstarf í gegnum árin.

Fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra lyflækna,

Davíð O. Arnar, formaður





Þetta vefsvæði byggir á Eplica