Fylgirit 107 - þing Félags íslenskra geðlækna, 2021

Ávarp formanns á vísindaþingi

Hjartanlega velkomin á sjöunda vísindaþing Geðlæknafélags Íslands hér í Landssveit á Suðurlandi.

Vísindaþingið er að jafnaði haldið á tveggja ára fresti. Síðasta þing var haldið í Borgarnesi árið 2016. Það féll síðan niður árið 2018 þegar norræna geðlæknaþingið var haldið á Íslandi. Næsta þing átti því að fara fram í fyrra. Fyrsta staðfesta smitið á Íslandi, sem markaði upphaf Covid-19 faraldursins á Íslandi, var hins vegar greint í lok febrúar 2020 og framhaldið þekkja allir vel. Það var því óhjákvæmilegt að fresta þinginu um eitt ár.

Það var ekki sjálfgefið að halda vísindaþingið í ár því smit hafa enn verið að greinast. Þegar litið var til þess að flestir eða allir heilbrigðisstarfsmenn hafa verið bólusettir og faraldurinn hefur smám saman verið að missa flugið þá var niðurstaðan sú að réttast væri að halda okkar striki. Upphaflega átti þetta þing þó að vera í tvo daga en það var stytt í einn dag. Það má líta á það sem viðleitni til að stíga varlega til jarðar. Auðvitað var ákveðin óvissa með hversu margir vildu taka slaginn með okkur og það er virkilega ánægjulegt að sjá hvað þátttakan er góð.

Það hefur mikið mætt á heilbrigðisstarfsfólki undanfarin ár og margir orðnir langþreyttir. Við þurfum að huga að okkar eigin heilsu, ekki síst geðheilsu. Hluti af því er að hitta annað fólk og gera okkur glaðan dag. Við skulum því stefna að því að hafa bæði gagn og gaman af því að hittast hér í dag en fara að sjálfsögðu eftir almennum sóttvarnarreglum.

Þegar litið er yfir dagskrána í dag þá eru fjölmörg áhugaverð erindi og það ætti að vera eitthvað fyrir alla. Mikið af því vísindastarfi sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og aðrar stéttir vinna dags daglega er unnið utan venjulegs vinnutíma án styrkja eða stuðnings. Í því ljósi er aðdáunarvert hve margir hér inni eru öflugir á þessu sviði. Það er einnig gaman að sjá að margir þeirra sem eru með erindi koma utan hóps geðlækna og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra framlag. Það er ekki síður gleðilegt að læknanemar og sérnámslæknar eru hér með erindi og veit á gott fyrir framtíðina.

Það fer mikil vinna í að skipuleggja þennan dag. Vísindanefnd Geðlæknafélagsins, undir forystu Guðrúnar Dóru Bjarnadóttur og Odds Ingimarssonar, hefur borið hitann og þungann af því. Ég vil þakka nefndinni fyrir frábært starf.

Að lokum vil ég einnig þakka styrktaraðila þingsins, Janssen, fyrir þeirra framlag og gott samstarf, sem gerir okkur kleift að halda þátttökugjaldinu niðri og auðveldar alla skipulagningu.

Kærar þakkir til ykkar allra sem hingað eru komin í dag.

Góða skemmtun!

Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands
Þetta vefsvæði byggir á Eplica