Fylgirit 107 - þing Félags íslenskra geðlækna, 2021

Ágrip á þing Félags íslenskra geðlækna 2021

1. Rannsókn á nýgengi og algengi geðklofa og annarra geðrofssjúkdóma á Íslandi

Erna Hinriksdóttir1, Magnús Haraldsson1,2, Oddur Ingimarsson1,2, James MacCabe3, Halldóra Jónsdóttir1,2

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Institute of Psychiatry, London

Geðklofi og aðrir geðrofssjúkdómar eru á meðal alvarlegustu geðsjúkdóma og eiga stóran þátt í sjúkdómsbyrði á heimsvísu. Áður var almennt talið að lítill breytileiki væri í faraldsfræði geðrofssjúkdóma á heimsvísu og að vægi umhverfisþátta væri því mjög lítið. Nýlegri rannsóknir hafa hins vegar bent til þess að breytileikinn sé talsvert meiri en áður var talið. Upplýsingar um nýgengi, algengi, bata og lífslíkur eru mikilvægar í undirbúningi og skipulagningu heilbrigðiskerfisins, meðferðarúrræða og fyrir frekari rannsóknir. Skortur er á þessum upplýsingum víða og ekki hafa verið gerðar neinar nýlegar rannsóknir á nýgengi og algengi geðrofssjúkdóma á Íslandi.

Markmið rannsóknar er að finna tölur yfir nýgengi og algengi geðklofa og annarra geðrofssjúkdóma á Íslandi. Einnig er fyrirhugað að skoða kynjahlutfall, meðalaldur við greiningu og meðalaldur hópsins. Í þeim tilgangi verður aflað gagna frá öllum stöðum í íslensku heilbrigðiskerfi sem líklegir eru til að hafa upplýsingar um þetta. Óskað hefur verið og verður eftir upplýsingum um sjúklinga sem fengið hafa greiningu F20.x til og með F29 og/eða greiningu um neyslutengt geðrof.

Aflað hefur verið gagna frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins auk þess sem haft hefur verið samband við geðlækna á stofum. Búið er að yfirfara stærstan hluta aflaðra gagna og frekari gagnasöfnun stendur yfir.

Í erindinu verður rannsóknin kynnt og farið yfir þær niðurstöður sem liggja fyrir.

2. Samfélagsleg virkni og örorka ungs fólks á Íslandi eftir snemmíhlutun í geðrof

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir1, Oddur Ingimarsson1,2, Birna Guðrún Þórðardóttir2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2geðsviði Landspítala

Inngangur: Einstaklingar greinast almennt ungir með geðrofssjúkdóma og þrátt fyrir meðferð hefur stór hluti viðvarandi einkenni sem leiða oft til skertrar samfélagslegrar virkni og örorku. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hversu hátt hlutfall ungra einstaklinga sem fengu snemmíhlutun í geðrof hér á landi árin 2010-2020 var á örorku og tók þátt í námi eða vinnu að endurhæfingu lokinni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn sem byggði á upplýsingum úr sjúkraskrám allra sem útskrifuðust af Laugarásnum meðferðargeðdeild á árunum 2010-2020 eftir lengri en 6 mánaða endurhæfingu (n=144). Tvíkosta aðhvarfsgreining var framkvæmd til að kanna hvaða breytur höfðu forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku og framfærslu af örorku að endurhæfingu lokinni.

Niðurstöður: Við útskrift var helmingur þjónustuþega í vinnu eða námi og tæpur helmingur hafði framfærslu af örorku. Þættir sem reyndust bæði hafa forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku og örorku voru þeir þættir sem endurspegluðu alvarlegan geðrofssjúkdóm, þ.e. geðklofagreining og meðferð með geðrofslyfinu clozapine en einnig stúdentspróf og atvinnuþátttaka fyrir endurhæfingu. Jafnframt virtist starfsendurhæfing vera sá þáttur sem hafði mest forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku við útskrift.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að endurhæfing á Laugarásnum geti aukið samfélagslega virkni ungra einstaklinga með geðrofssjúkdóma, en færri voru atvinnulausir eftir endurhæfinguna en við innritun. En betur má ef duga skal, þar sem tæplega helmingur þjónustuþega var hvorki í námi né vinnu við útskrift. Einnig virðist mikilvægt að tryggja skilvirka starfsendurhæfingu á Laugarásnum þar sem starfsendurhæfing var einn fárra þátta sem hafði forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku við útskrift sem hægt er að hafa áhrif á í endurhæfingunni.

3. Áhrif segulörvunar á heyrnarofskynjanir og síun skynáreita (sensory gating) hjá einstaklingum með geðklofa

Magnús Haraldsson1,2, Ovidiu C. Banea3,4, Viktor D. Jónasson1,4, Brynja B.Magnúsdóttir1,4, Aron D. Jónasson3,4, Eysteinn Ívarsson4, Paulo Garigiolo4

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3taugalækningadeild Landspítala, 4Háskólanum í Reykjavík

Heyrnarofskynjanir í formi radda eru algengt einkenni geðklofa. Geðrofslyf geta dregið úr slíkum einkennum en verulegur hluti sjúklinga heyrir áfram raddir þrátt fyrir að vera á fullri lyfjameðferð. Rannsóknir benda til þess að segulörvun á ákveðnum svæðum heilans geti dregið úr heyrnarofskynjunum. Hugsanlega tengjast heyrnarofskynjanir truflunum í síun heilans á skynáreitum (sensory gating) en slíka síun er hægt að mæla með ákveðnum taugalífeðlisfræðilegum mælingum t.d. P50, N100 og P200.

Þrettán sjúklingar með geðklofa sem þjást af daglegum heyrnarofskynjunum sem höfðu ekki svarað lyfjum og 14 heilbrigðir einstaklingar fengu segulörvun annaðhvort yfir heyrnarberki heilans (virk meðferð) eða yfir hvirfilhluta (vertex) heilans (óvirk meðferð) í 10 daga. Heyrnarofskynjanir voru metnar fyrir og eftir meðferð og einnig eftir einn og þrjá mánuði með PSYRAT-spurningalistanum. Síun skynáreita var metin fyrir og eftir meðferð með mælingum á P50, N100 og S200 bylgjum á heilariti bæði hjá einstaklingum með geðklofa og heilbrigðum.

Tíðni, tímalengd og styrkur heyrnarofskynjana varð lægri hjá þeim sjúklingum sem fengu virka segulörvun en munurinn var ekki tölfræðilega marktækur. Ekki komu fram marktæk áhrif á síun skynáreita við mælingar á N100 og P200 hjá sjúklingum og heilbrigðum.

Niðurstöður benda til þess að segulörvun yfir heyrnarberki geti dregið úr heyrnarofskynjunum hjá einstaklingum með geðklofa. Helsti veikleiki þessarar rannsóknar er skortur á tölfræðilegu afli vegna fárra þátttakenda.

4. Er æskilegt að nota geðrofslyf sem meðferð við svefntruflunum? Notkun geðrofs- og svefnlyfja við svefntruflunum á Íslandi 2011-2020

Tómas Hrafn Ágústsson 1, Guðrún Dóra Bjarnadóttir1,2

1Geðþjónustu Landspítala,2heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

Inngangur: Notkun geðrofslyfja við svefntruflunum er óhefðbundin en virðist vaxandi víða um heim á undanförnum árum. Lyfin: Levómeprómazín (Nozinan), quetiapín og klórprótixen (Truxal) hafa helst verið notuð í þessum tilgangi á Íslandi. Þó hefur notkun og verkunarmáti þeirra við svefntruflunum lítið verið rannsakað.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar um fjölda lyfjaávísana frá Embætti landlæknis yfir notkun levómeprómazín (Nozinan), quetiapín (Quetiapine), klórprótixen (Truxal), zópíklón (Imovane) og zolpidem (Stilnoct) á árunum 2011-2020. Einnig var gerð leit á PubMed og Google Scholar leitarvélum. Notað var Excel við úrvinnslu gagna.

Niðurstöður: Á árunum 2011-2020 hefur orðið tæplega 112,7% aukning á lyfjaávísunum fyrir quetiapín (Quetiapine), þar af hefur ávísunum á 25 mg skammti aukist um 154,7%. Ávísun á klórprótixen (Truxal) hefur aukist um 9,3% en levómeprómazín (Nozinan) minnkað um 51,9%. Ávísun hefðbundinna svefnlyfja, zópíklón (Imovane) og zolpidem (Stilnoct) hefur minnkað á sama tíma. Niðurstöður voru fengnar út frá fjölda lyfjaávísana á 1000 íbúa.

Ályktanir: Þetta er fyrsta íslenska rannsóknin sem ber saman notkun hefðbundinna svefnlyfja og annarra lyfja sem hafa sefandi áhrif og eru notuð til að stuðla að bættum svefni. Fyrstu niðurstöður benda til aukningar á notkun geðrofslyfja sem svefnlyfja á meðan notkun hefðbundinna svefnlyfja minnkar. Þar sem skortur er á rannsóknum um notkun geðrofslyfja sem svefnlyfja er notkun þeirra við svefntruflunum talin óæskileg þar til frekari rannsóknir hafa verið gerðar. Læknar sem skrifa út geðrofslyf við svefntruflunum þurfa því að sýna varkárni þegar þeir ávísa lyfi utan ábendingar.

5. Hægðatregða, Ileus og önnur lyfjameðferð samhliða notkun clozapine í meðferð geðklofa á Íslandi

Oddur Ingimarsson1,2, James MacCabe3, Engilbert Sigurðsson1,2

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Institute of Psychiatry, London

 

Inngangur

Clozapine er eina geðrofslyfið sem hefur ábendingu fyrir meðferð geðklofa sem svarar illa meðferð með geðrofslyfjum. Hægðatregða er vel þekkt aukaverkun clozapine. Markmið rannsóknarinnar var kanna algengi hægðatregðu og Ileus hjá sjúklingum á clozapine meðferð. Einnig var könnuð notkun annarra lyfja sem geta valdið hægðatregðu og hvaða meðferð var beitt við hægðatregðu.

Efniviður og aðferðir

Gerð var textaleit í sjúkraskrá 1191 sjúklings sem höfðu samþykkt þátttöku í rannsókn á erfðabreytileika og geðrofssjúkdómum að leitarorðum sem tengjast clozapine notkun. Samtals fannst 181 sjúklingur á tímabilinu 1.1.1998 – 21.11.2014 með geðklofa þar sem hægt var að staðfesta notkun á clozapine. Gerð var rafræn leit að leitarorðum tengjast hægðatregðu og ileus til að finna tilfelli ileus og hægðatregðu. Ítarleg lyfjanotkun fannst fyrir 154 sjúklinga sem höfðu notað clozapine í að minnsta kosti eitt ár.

Niðurstöður

Fjórir af 188 sjúklingum greindust með ileus sem leiddi til innlagnar á spítala. Tveir af þessum sjúklingum enduðu með varanlegt stóma. Hægðalyf voru notuð hjá 24 af 154 sjúklingum (15.4%) samhliða clozapine notkun. Samtals voru 40,9% sjúklinga annaðhvort á hægðalyfjum eða minnst var á hægðatregðu í sjúkraskrá samhliða clozapine meðferð. Samtals notuðu 28 af 154 sjúklingum önnur lyf sem eru þekkt af því að valda hægðatregðu auk clozapine-meðferðar.

Ályktanir

Hægðatregða er algengt vandamál á clozapine meðferð en það getur valdið ileus sem getur orðið lífshættulegt ástand. Meðferðaraðilar þurfa að fylgjast með einkennum hægðatregðu þegar clozapine er notað og beita viðeigandi meðferð eins og lífsstílsráðleggingum og lyfjameðferð.

6. Einstaklingar sem nota vímuefni í æð á Íslandi: Bráðakomur og innlagnir á Landspítala og dánartíðni

Bjarni Össurarson Rafnar1,2, Magnús Haraldsson1,2, Guðrún Dóra Bjarnadóttir1,2

¹Geðdeild Landspítala, læknadeild Háskóla Íslands, 2heilbrigðisvísindasviði Háskólans

Misnotkun vímuefna er stór áhrifaþáttur í ótímabærum veikindum og dauða í heiminum og verst settir eru þeir sem nota vímuefni í æð. Hópurinn á erfitt með að nýta sér hefðbundna heilbrigðisþjónustu og leitar frekar á bráðamóttökur spítala með sín vandamál.

Markmið: Að kanna notkun einstaklinga sem nota vímuefni í æð á bráðamóttökum og innlagnardeildum Landspítala yfir tveggja ára tímabil og rannsaka dánartíðni þeirra 7 árum eftir komuviðtal.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn. Til að meta þjónustuþunga voru komur, innlagnir og innlagnardagar taldir. Fjöldi koma á bráðamóttökur Landspítala var borinn saman við parað úrtak almennings. Komuástæður á bráðamóttökur voru greindar og gerður samanburður milli þeirra sem notuðu aðallega metýlfenídat og annarra. Að lokum var dánartíðni rannsóknarhópsins skoðuð 7 árum eftir inntökuviðtal.

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn átti marktækt fleiri komur á bráðamóttökur Landspítala en almenningur. Meðalfjöldi koma rannsóknarhópsins á ári var 4,8 og 43% átti fjórar komur eða meira á ári. Meirihluti koma var vegna geðrænna einkenna (65%) og þar af var þriðjungur vegna alvarlegra geðrænna einkenna. Algengustu líkamlegu vandamálin voru húðsýkingar og slys/ofbeldi. Ekki reyndist marktækur munur á þeim hluta hópsins sem notaði aðallega metýlfenídat og önnur vímuefni. Dánartíðni var marktækt hækkuð hjá rannsóknarhópnum og áhættuhlutfall fyrir andláti var 26,4 (vikmörk 16,7-41,5).

Ályktun: Einstaklingar sem nota vímuefni í æð eru viðkvæmur hópur með flókin andleg og líkamleg vandamál. Mikilvægt er að þessir einstaklingar hafi greiðan aðgang að gagnreyndri fíknimeðferð en ekki síður að almennri heilbrigðisþjónustu.

7. Skaðaminnkun á vettvangi: árangur mats og meðferðar við sýkingum

Helga Sif Friðjónsdóttir1, Elísabet Brynjarsdóttir2

1Geðþjónustu Landspítala, 2fyrrum hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri Frú Ragnheiður- Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu

Bakgrunnur

Frú Ragnheiður – skaðaminnkun var stofnað 2009 og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Þjónustan er í sér innréttuðum bíl og á hverri vakt er hjúkrunarfræðingur og læknir á bakvakt. Verkefnið sinnir skjólstæðingum á vettvangi sem flestir eru húsnæðislausir og nota vímuefni um æð. Slík notkun vímuefna eykur hættu á bakteríusýkingum. Ýmsar hindranir stuðla að því að markhópurinn leitar seint aðstoðar hefðbundinnar heilbrigðisþjónustu. Hefur þjónusta á vettvangi byggð á hugmyndafræði skaðaminnkunar reynst árangursrík fyrir markhópinn.

Markmið

Árið 2018 var ákveðið að þróa sýklalyfjameðferð á vettvangi með það markmið að auka aðgengi marhóps að snemminngripi. Sýkingin er meðhöndluð í upphafsfasa og komið í veg fyrir að hún þróist yfir í alvarlega eða lífshættulega sýkingu.

Aðferð

Afturskyggn rannsókn byggð á gagnagrunni sýklalyfjameðferðarverkefnis frá 1. apríl 2018 er verkefnið hófst.

Niðurstöður

Frá 1. apríl til 31.des 2108 hófu 25 einstaklingar samtals 40 sýklalyfjameðferðir og fengu viðeigandi eftirfylgd á vettvangi. Samtals 37 (92,5%) sýklalyfjameðferðum var lokið á árangursríkan hátt í gegnum Frú Ragnheiði án aðkomu annarrar heilbrigðisþjónustu. Heildarfjöldi koma vegna sýklalyfjameðferðar voru 186, þar af 34 fyrstu komur og 152 eftirfylgdarkomur.

Ályktanir

Sýklalyfjameðferð á vettvangi fyrir jaðarsetta einstaklinga er mikilvæg viðbót við heilbrigðisþjónustu sem fyrir er. Til að auka líkur á góðri meðferðarheldni markhóps er æskilegt að mati og eftirfylgd sýklalyfjameðferðar fari fram á vettvangi í starfsemi sem jaðarsettir einstaklingar treysta. Vettvangshjúkrun fyrir jaðarsetta einstaklinga á Íslandi dregur úr skaða, eykur lífsgæði og heldur einstaklingum á lífi.

8. Fíkniefni í frárennsli frá Reykjavík

Arndís Sue Ching Löve, Kristín Ólafsdóttir

Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, læknadeild Háskóla Íslands

 

Mælingar á fíkniefnum og lyfseðilsskyldum lyfjum í frárennslisvatni hafa undanfarin ár verið notaðar til þess að meta notkun efnanna. Áreiðanlegar niðurstöður eru fengnar á mjög fljótvirkan hátt án þess að inngripum sé beitt.

Langtímaþróun í fíkniefnanotkun í Reykjavik var metin með reglulegum mælingum á frárennslisvatni frá Ffebrúar 2017 til jJúní 2020. Sýnum var safnað með sjálfvirkum sýnatökubúnaði í 24 klst. yfir 7 daga í hvert skipti. Algeng fíkniefni sem notuð eru á Íslandi voru valin til greiningar. Notkun efnanna var metin í mg/dag/1000 íbúa.

Notkun kókaíns hækkaði verulega frá 2017 til 2019 en hafði minnkað umtalsvert í júní 2020 á tímum kórónuveirunnar. Notkun bæði amfetamíns og metamfetamíns sýndu merki aukningar frá 2017 til 2020, en notkun amfetamíns var mun meiri en metamfetamíns. Notkun 3,4-methylene-dioxymethamphetamine (MDMA) var stöðug frá 2017 til 2020. Notkun kannabis var stöðug frá 2017 til 2019 en sýndi merki aukningar á tímum kórónuveirunnar árið 2020. Aukning í notkun kókaíns og MDMA sást um helgar þegar borið var saman við aðra vikudaga og einnig á tónlistarhátíð sem haldin var í Reykjavík. Niðurstöður byggðar á mælingum á frárennslisvatni voru bornar saman við aðra vísa að fíkniefnanotkun, fjölda mála vegna fíkniefnaaksturs og gögn um haldlagt magn fíkniefna, og voru niðurstöður almennt sambærilegar.

Hægt er að ná fram heildstæðari mynd af notkun fíkniefna í Reykjavík með því að sameina niðurstöður sem byggðar eru á mælingum á frárennsli og önnur gögn. Þetta getur veitt hagsmunaaðilum eins og lögregluyfirvöldum og heilbrigðisstarfsmönnum mikilvægar upplýsingar sem nota má í baráttunni gegn fíkniefnavandanum.

9. Nonmedical Use of Prescription Opioid Medications Among Icelandic University Students

Jennie Maria Katarina Jönsson1, Bergljót Gyða Guðmundsdóttir2, Guðrún Dóra Bjarnadóttir1,3
1Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2menntavísindasviði Háskóla Íslands, 3geðþjónustu LandspítalaIn recent years, the use of prescription opioids in Iceland has seen a marked increase compared to its neighboring Nordic countries, demonstrating trends in rates of prescription administration and treatment admissions similar to those seen in the U.S. (Embætti landlæknis, 2018; Lyfjastofnun, 2016). This study is the first to give insight to the prevalence of nonmedical use of prescription opioids (NMPO) in Iceland, albeit with a focus on university students.

Sampling a total of 1587 (79,8% female) university students, results revealed prevalence rates of lifetime (11.7%), past year (4.9%), and past month (1.6%) NMPO; rates comparable to international research findings. Students who reported having misused at some point during their lifetime also reported significantly higher levels of psychological distress, pertaining to depression, anxiety and stress. Notably, female students with a history of NMPO did not report higher levels of psychological distress compared to their male peers. Males were more likely to endorse motives for misuse related to social, enhancement, and coping, whereas females were more likely to report pain-management as a motive. Additionally, students who reported having misused PO during their lifetime reportedly had significantly poorer emotional control.
Findings suggest that a significant subgroup of university students in Iceland may be using opioid medications as a way of coping with psychological distress. Importantly, emotional dysregulation fully accounted for the relationship between participant age, sex, pscyhological distress, and lifetime NMPO history. Implications for campus support professionals are significant, indicating prevention and intervention efforts should include effective emotion regulation skills-training for students.

10. Þróun þjónustu í farsóttarhúsi

Ólöf Jóna Ævarsdóttir, Sandra Sif Gunnarsdóttir, Erna Hinriksdóttir, Helga Sif Friðjónsdóttir, Bjarni Össurarson Rafnar

Landspítala

Inngangur

COVID-19 heimsfaraldur hefur geisað frá því snemma árs 2019. Fljótlega eftir að fyrstu tilfelli greindust á Íslandi fólu Almannavarnir Rauða krossi Íslands (RKÍ) að opna og reka farsóttarhús. Tilgangur farsóttarhúsa er að veita skjól þeim sem eiga ekki í önnur hús að venda til að dvelja í sóttkví eða einangrun í þeim tilgangi að draga úr COVID-19 smitum í samfélaginu.

Fljótlega var ljóst að heimilislausir einstaklingar í virkri vímuefnanotkun á Íslandi þyrftu sérhæfða þjónustu til að geti dvalið í farsóttarhúsi og fylgt þeim takmörkunum sem gilda fyrir einstaklinga í sóttkví eða einangrun. Til að mæta þessum þörfum var stofnað til samstarfs RKÍ, fíknigeðdeildar Landspítala og lögreglu höfuðborgarsvæðisins um þróun þjónustu sem byggði á skaðaminnkandi hugmyndafræði. Markmið þjónustunnar í farsóttarhúsi var að mæta þörfum þessara einstaklinga og þannig stuðla að samfélagslegri skaðaminnkun.

Aðferð

Tólf einstaklingar í virkri vímuefnanotkun sem dvalið höfðu í neyðargistiskýli komu í farsóttarhúsi í sóttkví. Tekin var saga af skjólstæðingum með sérstakri áherslu á mat á vímuefnanotkun. Sett var upp einstaklingsmiðað plan og samningur varðandi lyfjameðferð í skaðaminnkandi tilgangi. Stöðug viðvera læknis og hjúkrunarfræðinga var í húsinu, auk stuðnings frá öðru starfsfólki, þannig að reglulegt eftirlit var með skjólstæðingum í húsi og stuðningur.

Niðurstöður og ályktun

Heilt yfir gekk verkefnið mjög vel og allir skjólstæðingar luku sóttkví í farsóttarhúsi. Tilraun þessi bendir til þess að skaðaminnkandi nálgun með lyfjameðferð sé góður kostur til þess að styðja við þá sem glíma við heimilisleysi og virkan vímuefnavanda og þurfa að fylgja ströngum ramma eins og sóttvarnareglum í farsóttarhúsi.

11. Algengi kynferðisofbeldis hjá sjúklingum við fyrsta geðþjónustumat (interRAI Mental Health) á endurhæfingu geðsviðs Landspítala

Sigurður Páll Pálsson1, Sigríður Karen Bárudóttir2, Halldór Kolbeinsson1

1Geðlækningar, endurhæfing að Kleppi, 2EMDR stofan

Bakgrunnur: Mikil umræða er í þjóðfélaginu um kynferðisofbeldi en þörf er á ítarlegri kortlagningu á algengi kynferðisofbeldis hjá innlögðum sjúklingum á geðdeildir. Vitað er að algengi geðsraskanna og líkamlegra vandamála er aukið hjá þessum einstaklingum.

Efni og aðferð: Notað var mælitækið InterRAI MH sem er heildrænt geðheilbrigðismat, og hefur notkun þess sýnt, góðan árangur nú þegar, það er mat á geðhag, heilsufari, lífsstíl og félagslegri stöðu sjúklinga. Upplýsingar í þessari rannsókn eru úr fyrsta interRAI mati við innlögn 246 sjúklinga á endurhæfingu geðsviðs. Karlar voru 143 og konur 103. Meðalaldur 40 ár. Flestir voru atvinnulausir, ógiftir og bjuggu einir.

Niðurstöður: Algengasta geðgreining þýðis var geðklofi (52,2%) síðan lyndisröskun (19,8%) og fíkniröskun (10,5%). Alls voru 20,7 % með sögu um kynferðisofbeldi, konur í meirihluta (42,7 % á móti 4,9 % karla). Karlar höfðu marktækt aukna sögu um beitingu ofbeldis miðað við konur (33,6 % á móti 14,6 %). Marktæk aukning var á eftirfarandi andlegum einkennum: að tárast (gráta), sektarkennd (skömm), viðvarandi reiði gagnvart sjálfum sér og öðrum og kvíði. Sterk tengsl voru við sjálfsskaða hugsanir. Kvíðaröskun, hvataröskun og persónuleikaröskun var marktækt algengari sjúkdómsgreining hjá þeim sem orðið höfðu fyrir kynferðisofbeldi. Kynferðisofbeldi jók líkur á sögu um önnur áföll. Sterkt samband var við sögu um áfengis- og fíkniefnamisnotkun foreldris. Ekki var samband við aldur eða félagslega virkni, né skráð að sérhæfð meðferð hefði verið veitt vegna áfalls.

Ályktun: Stór hópur sjúklinga sem leggst inn á geðendurhæfingardeildir hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi. Með interRAI geðheilbrigðismatinu er mögulegt að fá góða mynd af vandanum og bæta meðferð hjá þessum hópi í framtíðinni.

 

 

12. „Það er eitthvað brotið innra með mér“ - reynsla fullorðinna af áföllum á unglingsaldri, afleiðingum þeirra og viðbrögðum samfélagsins

 

Guðný Jóna Guðmarsdóttir1,2, Þorbjörg Jónsdóttir2, Sigrún Sigurðardóttir2

1Rauði krossinn á Íslandi, 2heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri

 

Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða reynslu fullorðinna einstaklinga af áföllum á unglingsaldri, afleiðingum þeirra og viðbrögðum samfélagsins, og auka þannig þekkingu og dýpka skilning á slíkri reynslu.

Rannsóknaraðferð: Notaður var Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði og þátttakendur fundnir með tilgangsúrtaki. Tekin voru 18 viðtöl við 8 konur og 1 karl sem urðu fyrir áföllum á aldrinum 12-18 ára og voru orðin 18 ára þegar viðtölin fóru fram.

Niðurstöður: Fram komu 6 meginþemu út frá reynslu þátttakenda. Yfirþema og meginniðurstaða rannsóknarinnar er að þátttakendurnir upplifðu sig andlega brotna í kjölfar áfallanna og að þeir hefðu þurft faglega aðstoð við að vinna úr áföllum sínum. Slík aðstoð var þó sjaldan boðin. Þátttakendur lýstu einnig brotinni sjálfsmynd, þunglyndi og kvíða, sem leiddi flesta þeirra í sjálfsskaðandi hegðun. Viðbrögð annarra einstaklinga við áföllunum voru misjöfn, meðal annars góður stuðningur nánasta fólks, vinslit og neikvæðar athugasemdir ókunnugra. Viðbrögð annarra og líðan þátttakenda, höfðu mikil áhrif á mætingu flestra þátttakenda í skóla og námslega framvindu. Viðmót fagfólks var yfirleitt gott en athygli þess beindist hins vegar nær eingöngu að líkamlegum afleiðingum. Aðeins einum þátttakanda bauðst stutt viðtal hjá sálfræðingi en þroska- og þekkingarleysi hindraði hina í að biðja um nauðsynlega aðstoð til að öðlast betri líðan.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að auka þurfi skilning og þekkingu á afleiðingum áfalla á líðan unglinga. Innleiðing á samræmdri áfallamiðaðri nálgun í öll opinber fagkerfi væri ákjósanlegur kostur, sem bætt gæti þjónustu og dregið úr neikvæðum afleiðingum áfalla. Einnig er mikilvægt að auðvelda aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

13. Gagnadrifin heilbrigðisþjónusta: Færum máttinn til þeirra sem glíma við geðrænan vanda

Steinunn Gróa Sigurðardóttir1, Anna Sigríður Islind1, Halla Ósk Ólafsdóttir2,3, María Óskarsdóttir1, Oddur Ingimarsson2,4

1Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, 2geðsviði Landspítala, 3sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 4læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar er að stuðla að bættri þjónustu fyrir þjónustuþega Laugaráss og geðhvarfateymis Landspítala með því að veita þeim aukna innsýn í eigin heilsu með hjálp stafræns vettvangs (digital platform). Rannsóknarspurningarnar eru: i) Hvert er forspárgildi gagna sem safnað er með snjallúri og smáforriti á versnun í geðhag þjónustuþega? ii) Hver er ágóðinn af því að nota gögn úr snjalltækjum til stuðnings ákvarðanatöku varðandi meðferð?

Efni og aðferðir: Þjónustuþegar fá að láni snjallúr sem mælir hreyfingu, hjartslátt og svefn. Einnig er veittur aðgangur að smáforriti með stuttum, daglegum spurningum um andlega og líkamlega líðan. Meta á hvort gögn úr snjalltækum geti spáð fyrir um versnun á geðhag. Fyrrnefndum heilsugögnum er safnað samfellt í 6 vikur, ásamt því að þjónustuþegar svara ítarlegum spurningalista þrisvar yfir tímabilið. Meðferðaraðilar hvers þjónustuþega munu auk þess hafa aðgang að gögnunum, með það að leiðarljósi að styðja við upplýsta ákvarðanatöku og meðferð.

Niðurstöður: Rannsóknin er á fyrstu stigum, en á þessum tímapunkti hafa 13 þjónustuþegar við Laugarás tekið þátt. Meirihluta þátttakenda finnst hvetjandi að fylgjast með sínum gögnum jafnt og þétt og hafa áhuga á áframhaldandi gagnasöfnun.

Umræða: Með rannsókninni er möguleikinn á að nýta gögn úr snjallúrum í geðheilbrigðisþjónustu kannaður. Mikilvægar upplýsingar safnast um það hvaða gögn eru nytsamleg í geðheilbrigðisþjónustu og í hvaða tilfellum þau reynast áhrifarík viðbót við núverandi þjónustu.

 

14. Lækkandi sjálfsvígstíðni á Norðurlöndum, en …

Högni Óskarsson1, Helgi Tómasson2

1geðlæknir Humus ehf, 2prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, hagfræðideild Háskóla Íslands

Inngangur

Tíðni sjálfsvíga á Norðurlöndum 15 ára+ lækkaði marktækt á árabilinu 1980 til 2009. Þessi rannsókn er framhald þeirrar fyrri, með áherslu á þróun í aldurshópum. Kannað er sérstaklega hvaða undirhópar hafa minnstu áhrif til lækkunar á tíðni.

Aðferðir

Tölur um sjálfsvíg og mannfjölda 1980-2018 voru fengnar frá samstarfsaðilum á Norðurlöndum. Tölfræðileg úrvinnsla í hverjum kyn-og aldursflokki byggir á tímaraðagreiningu þar sem aldur, hvert almanaksár ásamt mannfjölda í áhættu, er óháða breytan. Aldur og árgangsáhrif eru sýnd með „smoothing“ aðferð.

Niðurstöður

Sjálfsvígstíðni hefur lækkað áfram frá 2009, mest þar sem tíðnin var hæst, í Danmörku. Á síðasta áratugnum eru Danmörk lægst, 12,4/100.000, Finnland hæst með 18,2. Heildarlækkun á tímabilinu er frá 64,8%, Danmörk, niður í 23,0 % í Noregi. Lækkun hjá körlum og konum er svipuð, lægst hjá íslenskum körlum. Í öllum aldurshópum karla verður lækkun nema hjá íslenskum körlum 25-44 ára. Í aldursflokki kvenna 15-24ra ára varð tíðnihækkun hjá öllum nema í Danmörku.

Umræða

Tíðni sjálfsvíga á Norðurlöndum lækkar áfram. Fall tíðnikúrvna er stöðugt. Löndin hafa svipaðan endapunkt, nema hærri hjá Finnum. Fallhraði er mestur í Danmörku hjá báðum kynjum og aldurshópum. Staða kvenna 15-24ra ára er áhyggjuefni. Hjá þeim hækkar sjálfsvígstíðni hjá öllum nema í Danmörku. Íslenskir karlmenn 15-44 ára eru, þrátt fyrir lækkun, ásamt Finnum með hæstu tíðnina

Forvarnarverkefni hafa verið rekin í öllum löndunum undanfarna áratugi. Velferðar-og heilbrigðiskerfin eru svipuð. Mikilvægt er að greina hvað í félagslegu umhverfinu skýrir heildarlækkunina, og ekki síður, hvers vegna ekki næst betri árangur þeirra hópa, þar sem tíðni er óásættanlega há.

15. Valdbeiting eða nauðsynleg meðferð? Upplifun sjúklinga á geðdeild af þvingunaraðgerðum

Íris Hrönn Sigurjónsdóttir1,2, Kristín Björnsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 2geðsviði Landspítala

Ágrip

Tilgangur ritgerðarinnar var að fá aukinn skilning á því hvernig sjúklingar á geðdeild upplifa þvingunaraðgerðir. Í gegnum reynslu sína geta sjúklingar veitt okkur dýrmæta innsýn varðandi gæði meðferðar sem erfitt væri að koma auga á frá öðru sjónarhorni.

Beiting þvingunaraðgerða í geðheilbrigðisþjónustunni hefur aukist um allan heim undanfarna áratugi, þrátt fyrir aukna umræðu um að draga þurfi úr þeim. Þvingunaraðgerðir hafa neikvæð áhrif á sjúklinga og geta leitt til verri meðferðarútkomu. Ýmis siðferðileg álitamál tengjast slíkum aðgerðum og ekki er alltaf ljóst hvenær beiting þeirra er réttmæt og hvenær gengið er of langt. Þvingunaraðgerðir fela meðal annars í sér að sjúklingar eru vistaðir á geðdeild gegn vilja sínum, beittir innilokun, fjötrum og þvingaðri lyfjameðferð.

Framkvæmd var kerfisbundin fræðileg samantekt á eigindlegum rannsóknum. Stuðst var við aðferð Joanna Briggs Institute um samsetta heildarmynd (meta-aggregation). Ellefu rannsóknir uppfylltu skilyrði samantektarinnar. Úr þessum rannsóknum fengust 5 samsettar niðurstöður. Samsettu niðurstöðurnar voru: Vanmáttur, aðskilnaður á milli starfsfólks og sjúklinga, niðurlæging, sátt og bjargráð.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að þvingunaraðgerðir hafi víðtæk áhrif á sjúklinga og að þeir upplifi flóknar og erfiðar tilfinningar tengdar þeim. Þó sumir sjúklingar hafi skilning á að beiting þvingunar hafi verið nauðsynleg, eru flestir ósáttir og telja að brotið hafi verið á sér. Mikilvægt er að starfsfólk átti sig á hvaða áhrif þvingunaraðgerðir hafa á sjúklinga og hversu miklu máli framkoma starfsfólks skiptir þegar kemur að slíkri valdbeitingu. Starfsfólk ætti stöðugt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort ávinningur þess að beita sjúkling þvingun sé meiri en sá skaði sem slíkt getur valdið honum.

 


 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica