Fylgirit 106 - Vísindi á vordögum, 2021

Leiðari Magnúsar Gottfreðssonar: Vísindi og heimsfaraldur nýrrar kórónuveiru

Ársins 2020 verður vafalítið minnst í sögunni sem ársins sem heimsfaraldur nýrrar kórónuveiru herjaði grimmilega á alla heimsbyggðina. Jafnvel þótt núverandi faraldur COVID-19 sé langt frá því að vera yfirstaðinn nú í apríl 2021, hefur hann þegar kennt okkur margt. Í baráttu íslensks samfélags við faraldurinn hefur traust almennings gagnvart upplýsingum og ráðleggingum sérfræðinga, ásamt vísindalegri nálgun á viðfangsefnið skipt höfuðmáli. Án áreiðanlegra upplýsinga sem almenningur treystir verður ákvarðanataka ómarkviss og dýr. Faraldurinn afhjúpaði takmarkanir og veikleika Landspítala þegar fyrsta bylgja skall á hvað varðar mannskap, gjörgæslurými, fullnægjandi einangrunaraðstöðu og tækjabúnað til greiningar. Einnig skorti hér fullnægjandi búnað og þekkingu til raðgreiningar sýkla, sem er eitt mikilvægasta vopnið í baráttu við farsóttir, þar á meðal til smitrakningar. Sérstaka athygli vekur að slík aðstaða skuli enn ekki hafa verið byggð upp, þrátt fyrir að nauðsyn slíkrar uppbyggingar hafi orðið öllum ljós fyrir meira en ári síðan.

Í reynd má segja að íslenskt heilbrigðiskerfi og samfélag hafi staðist prófraun heimsfaraldursins með miklum ágætum, en lengri tíma þarf til að sjá víðtækari heilsufars- og samfélagslegar afleiðingar, líkt og gildir um önnur áföll og kreppur. Yfirveguð vísindaleg vinnubrögð eru alger nauðsyn við aðstæður eins og þær sem skapast hafa um heim allan vegna COVID-19 og höfuðmáli skiptir að fullnægjandi mannskapur, þekking og tími sé til staðar til að sinna slíkum verkefnum.

Landspítali er einn stærsti vinnuveitandi fólks með doktorspróf á landinu. Þetta er starfsfólk sem hefur varið mörgum árum af ævi sinni í þjálfun til vísindarannsókna og margir brenna fyrir nýsköpun og rannsóknum. Mikilvægt er að því sé skapaður vettvangur til að halda áfram að vinna að rannsóknum meðfram klínískum störfum eftir að doktorsnámi lýkur. Það er sjúklingum og heilbrigðiskerfinu öllu til hagsbóta auk þess sem það viðheldur rannsóknarmenningu og elur upp framtíðarvísindamenn. Það vekur því áhyggjur að nokkur fækkun varð á birtingum vísindagreina í hópi starfsmanna spítalans á árinu 2020, einkum í erlendum vísindatímaritum og nam fækkunin tæpum 6% samanborið við árin á undan, mynd 1. Þessi niðurstaða er vonbrigði því hún gengur þvert á þau markmið sem spítalinn hefur sett sér, til dæmis með starfsáætlun og vísindastefnu spítalans 2019-2024. Vert er að árétta að sú stefna gengur meðal annars út á að auka fjárframlög til rannsókna og nýsköpunar.

Fjölda leyfa sem siðanefndir veittu starfsmönnum spítalans fyrir nýjum vísindarannsóknum má sjá á mynd 2. Eins og sjá má á myndinni var fjöldi þeirra leyfa sem vísindasiðanefnd gaf út óbreyttur samanborið við fyrri ár en fækkun varð um nærri fjórðung í fjölda veittra leyfa frá siðanefnd heilbrigðisrannsókna á spítalanum. Líta má að fjölda umsókna og veittra leyfa sem sterka vísbendingu um rannsóknaráform til framtíðar og því er þessi fækkun áhyggjuefni og kallar á nánari skoðun. Er ástæðan of mikið álag á þá starfsmenn sem hefðu áhuga á að stunda rannsóknir eða fer virkum vísindamönnum á spítalanum fækkandi? Sams konar viðvörunarmerki má sjá þegar fjöldi umsókna um styrki úr vísindasjóði spítalans er skoðaður. Ef möguleikar starfsmanna til að sinna þessu mikilvæga hlutverki fer dvínandi boðar það ekki gott fyrir framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu, enda fara rannsóknir, menntun og gæði klínískrar þjónustu saman. Jafnvel þótt öflugt og metnaðarfullt fagfólk sé til staðar þarf fullnægjandi fjármögnun og tími til rannsóknastarfsins að koma til.

Á mynd 3 má sjá samantekt á upphæðum þeirra vísindastyrkja sem starfsmenn Landspítala hafa aflað undanfarin 6 ár. Á árinu 2020 var heildarupphæðin óbreytt frá árinu áður, - vel á fimmta hundrað milljóna króna var aflað alls. Styrkir erlendis frá drógust hins vegar saman en innlendir styrkir jukust að sama skapi. Ráðstöfunarupphæð vísindasjóðs Landspítala var óbreytt. Á árinu 2019 var samþykkt vísindastefna fyrir Landspítala þar sem fram kom að stefnt skuli að því að því að 3% af veltu renni til vísindastarfs árið 2024. Þetta hóflega markmið er hið sama og samþykkt var árið 2007 en efndir urðu engar í það skiptið. Nú er gerð önnur tilraun. Forsenda þess að við náum settu marki er að vísindahlutvert spítalans sé fjármagnað sérstaklega. Tíminn leiðir í ljós hvort efndir verða betri nú.

Mikilvægi Landspítala sem kennslustofnunar má glögglega sjá á mynd 4, en hún sýnir fjölda meistara- og doktorsnema sem stunda nám sitt að hluta eða heild á spítalanum. Allar þessar tölur minna á mikilvægi spítalans fyrir vísindarannsóknir, mönnun og nýliðun heilbrigðiskerfisins til framtíðar. Sagnfræðingar þreytast ekki á að benda á að framfarir eigi sér oft stað í kreppum og að þær séu ekki línulegar heldur komi þær í stökkum. Það sama gildir hins vegar um afturför, hún er sjaldnast línuleg eða algerlega fyrirsjáanleg. Vonandi endurspegla þessar tölur fyrir árið 2020 tímabundið álag fremur en afturför. Mikilvægi rannsókna og gagnreyndar þekkingar hefur líklega aldrei verið almenningi og ráðamönnum ljósara en nú.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica