Fylgirit 106 - Vísindi á vordögum, 2021

Ávarp Rósu Bjarkar Barkardóttur í tilefni Vísinda á vordögum 2021

Þá er aftur komið að Vísindum á vordögum sem er árleg uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala. Þetta er í 21. skipti sem Vísindi á vordögum er haldin á Landspítala og í 15. sinn sem ágrip veggspjalda eru birt í fylgiriti Læknablaðsins. Það var gæfuspor á sínum tíma að gera samning við blaðið um birtingu á faglega ritrýndum ágripum. Þannig geta áhugasamir nálgast upplýsingar um þau vísindaverkefni sem unnið er að á Landspítala. Mikilvægi vísindastarfsemi á Landspítala er óumdeild, með því verður til þekking sem kemur skjólstæðingum spítalans og vísindasamfélaginu til góða.

Að þessu sinni eru þetta 28 ágrip sem vægast sagt eru óvenju fá, hafa líklegast aldrei verið færri þessi 21 ár sem hátíðin hefur verið haldin. Hér að neðan má sjá stöplarit sem sýnir fjölda innsendra ágripa í tengslum við Vísindi á vordögum síðastliðinn 5 ár. Í fyrra voru þau 49 og árið á undan 50. Kórónuveiran er líklegasta skýringin á þessari rýru uppskeru vísindastarfsemi Landspítala á liðnu ári. Vegna faraldursins hefur klínískt álag sjaldan verið meira á spítalanum. Ekki bara á það við um starfsfólk spítalans sem kom beint að því að sinna smituðum einstaklingum. Líka hinna sem þurftu að skiptast á að koma til vinnu til að minnka hættu á að starfsemin á vinnustaðnum þeirra legðist alveg niður, ef upp kæmi smit. Eðlilega leiddi þetta ástand til þess að minni tími gafst til að sinna vísindum en ella. Það endurspeglaðist líka í færri umsóknum í Vísindasjóð spítalans en í venjulegu árferði ásamt minni þátttöku í hefðbundnum dagskrárliðum eins og innsendum ágripum í tengslum við veggspjaldakynninguna.

Þetta er í annað sinn sem Vísindi á vordögum verður haldið í skugga kórónuveirufaraldursins og verður hátíðin eingöngu á rafrænu formi eins og síðasta ár. Það er ekki allt slæmt við það. Breyttir tímar kalla á nýjar lausnir sem oft verða betri en þær sem voru fyrir. Reynslan frá í fyrra er góð. Með því að hafa Vísindi á vordögum á rafrænu formi gafst fleirum tækifæri til að fylgjast með viðburðum hátíðarinnar. Þá hafa margir skoðað efni hátíðarinnar á sérstakri vefsíðu sem hönnuð var í tilefni hennar. Þar á meðal eru veggspjöldin. Hafa þau eflaust fengið mun meiri skoðun en ef þau hefðu einungis verið kynnt á pappírsformi. Rafræna fyrirkomulag veggspjaldakynninga er góð viðbót við hefðbundnar kynningu á pappírsforminu og einnig góð viðbót við birtingu ágripa í Læknablaðinu. Þetta fyrirkomulag er komið til að vera.

Njótið lestursins vel.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica