Fylgirit 105 - Bráðadagurinn

Ávarp formanns undirbúningsnefndar

Síðastliðið ár hefur verið einstakt. Við höfum tekist á við heimsfaraldur sem hefur markað djúp spor í samfélagið allt og sett ríkan svip á störf okkar sem sinna bráðaþjónustu. Það er því einstaklega ánægjulegt fagna Bráðadeginum nú þegar svo góður árangur hefur náðst í baráttunni við faraldurinn og bólusetningar, sem vonandi marka endalok hans, eru hafnar. Það er einnig ánægjulegt að tekist hefur að viðhalda styrkri bráðaþjónustu í skugga faraldursins og sinna öflugu rannsókna- og umbótastarfi þar sem fjölbreytni og framtíðaráskoranir hafa ekki gleymst.

Í ár er yfirskrift Bráðadagsins, þverfræðilegrar ráðstefnu bráðakjarna Landspítala og Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, Samvinna og samskipti í bráðaþjónustu. Yfirskriftinni er ætlað að endurspegla mikilvæg grundvallaratriði í góðum árangri bráðaþjónustu. Hún byggir á árangri heildarinnar sem næst fram með góðri samvinnu og skýrum samskiptum. Með þessum leiðarljósum hefur tekist að umbreyta bráðaþjónustu til að takast á við heimsfaraldur. Á sama tíma hefur tekist að viðhalda fagmennsku í starfi og rannsóknum á fjölbreyttu sviði sem nær langt út fyrir áhrifasvið faraldursins. Allir hafa lagt sitt að mörkum og tekið þátt í þeim hröðu breytingum sem nauðsynlegar voru í upphafi og síðar síbreytilegu eðli faraldursins. Þetta ár hefur falið í sér miklar áskoranir. Þessi tími hefur þó einnig leitt til hugarfarsbreytingar þar sem aðilar í heilbrigðisþjónustu leita inn á við að lausnum sem byggja á samstarfi og samvinnu. Krefjandi tímar sem þessir geta, ef rétta viðhorfið er til staðar, fært okkur nýja þekkingu og vinnubrögð sem styrkja okkur til framtíðar. Í þessu umhverfi hafa risið upp leiðtogar í öllum starfstéttum heilbrigðisþjónustu og reyndar víðar í samfélaginu.

Bráðadagurinn er að þessu sinni með mjög breyttu sniði. Það er von okkar í undirbúningsnefndinni að hann geti þrátt fyrir það endurspeglað styrk og kraft starfsfólksins og þeirra verkefna sem unnið er að. Að ári gefst okkur svo vonandi tækifæri til að hittast í raunheimum og fagna nýjum sigrum á þessari uppskeruhátíð bráðaþjónustunnar.

Ráðstefnuritið sem hér birtist er mikilvæg heimild í bráðafræðum. Ritrýnd ágrip erinda sem hér eru birt endurspegla fjölbreytileika og metnað bráðaþjónustu.

Höfundum og kynnum ágripa, gestafyrirlesurum, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki bráðakjarna Landspítala eru færðar bestu þakkir fyrir mikilsvert framlag til Bráðadagsins.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar,

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir
Sérfræðingur í bráðahjúkrun og aðjúnkt
Meðferðarsviði Landspítala

 

Undirbúningsnefnd Bráðadagsins 2021

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun
Dagný Halla Tómasdóttir, skrifstofustjóri
Dóra Björnsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun
Hjalti Már Björnsson, lektor og yfirlæknir
Jón Ragnar Jónsson, sérfræðilæknir
Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, dósent og forstöðumaður



 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica