Fylgirit 105 - Bráðadagurinn

Ágrip erinda

Slævingar fyrir inngrip á bráðamóttöku

Eric Contant1, Rosemary Lea Jones1, Jón Magnús Kristjánsson1, Hjalti Már Björnsson1,2

1Bráðamóttöku Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

hjaltimb@landspitali.is

Bakgrunnur: Algengt er að beita þurfi slævingu með lyfjum til að unnt sé að framkvæma sársaukafull inngrip hjá sjúklingum á bráðamóttöku. Slík inngrip eru ekki hættulaus þar sem þeim getur fylgt hættuleg öndunarbæling. Til að auka öryggi sjúklinga og staðla framkvæmd slævinga á bráðamóttöku var í lok árs 2018 innleitt staðlað verklag til nota við allar slævingar á deildinni.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að meta árangur slævinga bráðalækna á bráðamóttöku, nákvæmni notkunar gátlista, notkun lyfja, árangur og fylgikvilla á árunum 2019 og 2020.

Aðferðir: Allar slævingar frá 1. janúar 2019 voru skráðar með framsýnum hætti á sérstök skráningarblöð. Þar var tiltekin yfirferð gátlista fyrir inngrip, starfsfólk sem kemur að inngripinu, tiltækan búnað, lífsmörk, gefin lyf, gangur inngrips og fylgikvillar ef einhverjir voru.

Niðurstöður: Unnið er að því að taka saman niðurstöður. Hefur nú verið metinn árangur í 131 slævingu, hjá 50 konum og 81 karli, enginn með aðra kynskráningu. Algengasta ástæða slævingar var rafvending eða í 73 (56%) tilvikum en rétting liðhlaups eða beinbrots var ástæða slævingar í 55 (42%) tilvikum. Til slævingar var propofol notað í 109 (83%) slævingum, þar af eingöngu notað propofol í 91 (69%) tilviki. Gefið var propofol og fentanyl í 9 (7%) tilvikum, ketamin eingöngu í fjórum tilvikum en ketamin og propofol í 12 tilvikum. Minni háttar fylgikvillar komu fyrir í alls 8 (6%) tilvikum, þar af tímabundið blóðþrýstingsfall í þremur tilvikum, hypoxia <90% í þremur tilvikum og ófullnægjandi slæving í tveimur tilvikum. Engir alvarlegir fylgikvillar komu fram, enginn þurfti barkaþræðingu.

Ályktun: Öryggi og árangur slævinga framkvæmdum af bráðalæknum er góð og sambærileg við árangur í erlendum rannsóknum. Áfram þarf að fylgjast með árangri slævingar við þessar aðstæður.


Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn

Telma H. Ragnarsdóttir1,2, Margrét Kristjánsdóttir2, Gísli Gíslason2, Ólafur Samúelsson2, Vicente S B Ingelmo2, Margrét Ó. Tómasdóttir1,3, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason1.2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

telmhuld@landspitali.is

Bakgrunnur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er sjúkdómsástand þar sem bráð versnun verður á nýrnastarfsemi, oftast á klukkustundum eða dögum. BNS hefur verið rannsakaður ítarlega hjá inniliggjandi sjúklingum en lítið er vitað um BNS utan spítala.

Markmið: Að skoða áhættuþætti og orsakir BNS meðal sjúklinga sem leita á bráðamóttöku (BMT).

Aðferð: Um er að ræða framskyggna, tilfellamiðaða rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á BMT á Landspítala voru skoðuð og metin með tilliti til BNS. Rannsóknin hófst 1. janúar 2020 en hlé var gert á gagnasöfnun vegna COVID-faraldursins og við birtum niðurstöður tveggja tímabila, 1. janúar til 3. mars og 19. maí til 21. september. Öllum sjúklingum sem uppfylltu skilmerki KDIGO fyrir BNS var boðin þátttaka í rannsókninni. Viðmið (1:2) voru valin með tilliti til aldurs, kyns og komutíma á BMT. Þátttakendur undirrituðu upplýst samþykki og voru spurðir um heilsufarssögu, venjur og lyfjanotkun, þar á meðal notkun lausasölulyfja og fæðubótarefna. Sjúkraskrá var yfirfarin með tilliti til fyrri sjúkdómsgreininga og lyfjaávísana.

Niðurstöður: Alls voru á ofangreindum tímabilun greind 371 tilfelli af BNS og þar af tóku 316 (85%) þátt í rannsókninni. Meðalaldur BNS-tilfella og viðmiða var 66,6±16,1 ár og 66,3±16,2 ár; 46% tilfella og viðmiða voru konur. Tilfelli BNS voru marktækt líklegri en viðmið til að hafa notað bólgueyðandi og verkjastillandi lyf (NSAIDs) (31,1% vs 22,2%, p=0,003) í vikunni fyrir komu á BMT. Hjá bæði tilfellum og viðmiðum var notkun bólgueyðandi og verkjastillandi lyfja sem ekki eru lyfseðilskyld meiri en notkun lyfeðilskyldra lyfja af sama flokki (24,7% vs 16,2%, p=0,001). BNS-tilfelli voru jafnframt líklegri en viðmið til að taka ACE-hemla eða angíótensín II-viðtakablokka (44,6% vs 35,2%, p=0,05). Ekki var marktækur munur á notkun prótónpumpu-hemla (32,0% vs 36,0%, p=0,21) eða statína (26,9% vs 30,1%, p=0,294).

Ályktanir: Þessar frumniðurstöður benda til mikilvægs hlutverks bólgueyðandi og verkjastillandi lyfja í lausasölu í myndun BNS meðal sjúklinga sem leita á BMT. Ítarlegar upplýsingar um fylgikvilla slíkra lyfja ættu að vera kynntar kaupendum þegar þessi lyf eru seld án lyfseðils.


Rafræn algrím til greiningar á bráðum nýrnaskaða á bráðamóttöku

Telma H. Ragnarsdóttir1,2*, Margrét Kristjánsdóttir2, Gísli Gíslason2, Vicente S.B. Ingelmo2, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason1.2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala

telmhuld@landspitali.is

Bakgrunnur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál á sjúkrahúsum en talið er að meira en 50% tilfella af BNS eigi sér stað utan spítala. Því er mikilvægt að greina BNS snemma hjá sjúklingum sem leita á bráðamóttöku (BMT). Rannsóknir benda til að notkun algríma gæti nýst til að flýta fyrir greiningu á BNS hjá inniliggjandi sjúklingum og þar með mögulega stytta sjúkrahúslegu og minnka dánartíðni.

Markmið: Að skoða næmi og sértæki rafrænna kerfa til greiningar á BNS meðal einstaklinga er leita á BMT.

Aðferð: Gildi kreatíníns í sermi (SKr) allra sjúklinga er leituðu á BMT á Landspítala á tímabilinu 22. september 2020 – 31. desember 2020 voru yfirfarin af lækni í rannsóknarteyminu og metin með tilliti til BNS. Stuðst var við greiningarskilmerki KDIGO til greiningar á BNS. Hönnuð voru tvö rafræn algrím í rafrænni sjúkraskrá Landspítala til að meta hvort BNS væri til staðar út frá SKr við komu. Algrímin voru hönnuð á þann veg að nýtt eru öll fyrirliggjandi SKr-gildi eitt ár aftur í tímann. Í tilfellum þar sem SKr-gildi var ekki að finna í sjúkraskrárkerfinu árið fyrir komu var notast við tvenns konar nálgun. Annars vegar voru þeir einstaklingar ekki taldir hafa BNS (Algrím 1) og hins vegar var áætlað grunngildi SKr notað (Algrím 2). Áætlað grunngildi var 80 µmól/l fyrir konur og 90 µmól/l fyrir karla. Niðurstöður rannsakenda og rafrænu algrímanna voru borin saman og næmi og sértæki algrímanna kannað.

Niðurstöður: Alls voru á tímabilinu skoðaðar 8494 SKr-mælingar í tengslum við 14715 BMT-komur. Alls voru 155 tilfelli af BNS greind af lækni rannsóknarteymisins. Í tilviki Algríms 1 reyndist næmi 60,6%, sértæki 99,4%, jákvætt forspárgildi 66,2% og neikvætt forspárgildi 99,3%. Algrím 2 reyndist hafa 80,6% næmi, 98,9% sértæki, 58,1% jákvætt forspárgildi og 99,6% neikvætt forspárgildi.

Ályktanir: Rafrænu algrímin reyndust talsvert næm og mjög sértæk fyrir greiningu BNS ef grunngildi SKr var áætlað þegar mælingar lágu ekki fyrir. Algrímið gæti komið að gagni við greiningu á BNS á BMT og þar með bætt þjónustu við sjúklinga.


Áverkaflokkun í dreifbýli

Jóhann M. Ævarsson, Vignir Þ. Bjarnason, Víðir Óskarsson

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

johann.mar.aevarsson@hsu.is

Bakgrunnur: Ísland er dreifbýlt svæði, og einungis tvö sjúkrahús á landinu er geta tekið við mikið slösuðum einstaklingum. Tekinn var upp verkferill til forgangsflokkunar og flutningsákvarðana á Suðurlandi, árið 2018.

Markmið: Eftirlit með verkferli til forgangsflokkunar með því að skoða tíðni yfir- og undirflokkunar, hvaða atriði í verkferli gætu verið að leiða til rangrar forgangsflokkunar, og hvort breytinga sé þörf á verkferli.

Aðferð: Skoðaðir voru allir sjúkraflutningar á Suðurlandi árið 2019. Flutningar sem flokkaðir voru sem slys eða áverkar voru skoðaðir nánar. Tilfelli voru flokkuð eftir atriðum í verkferli. Skoðað var hvort að sjúklingur reyndist með áverka sem þurfti sérhæfða aðstoð, aðgerð eða innlögn á gjörgæslu. Ef sjúklingur var fluttur beint á Landspítala, og reyndist ekki með alvarlega áverka þá var það skilgreint sem yfirflokkun. Er sjúklingur var ekki fluttur og reyndist síðar með áverka, eða ef sjúklingur var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og reyndist með áverka sem voru þess eðlis að þurfti sérhæfða aðstoð eða eftirlit, þá var það flokkað sem undirflokkun, óháð því hvort hann var síðar fluttur á LSH.

Niðurstöður: Alls voru 3875 sjúkraflutningar í umdæmi H.Su árið 2019. Sjúkraflutningar vegna slysa voru 504. Það voru 87 flutningar (17%) voru skilgreindir sem yfirflokkun, og 23 (5%) sem undirflokkun. Af yfirflokkun voru 12 flutningar sem lenda utan þess tíma sem aðgengi er að röntgenrannsóknum. Utan verkferlis voru 59 tilfelli. Af undirflokkun voru 15 tilfelli utan verkferils. Níu þeirra voru flutt á H.Su, og sex afgreidd á staðnum. Í fjórum tilfellum var um að ræða fólk yfir 75 ára, og tveir með fleiri en eitt atriði í verkferli.

Ályktanir: Engar skilgreiningar eru til um ásættanlegt hlutfall yfir- eða undirflokkunar. Miða ætti að því að halda tilfellum undirflokkunar í lágmarki í dreifbýli. H.Su. hefur ekki tryggðan aðgang að úrlestri röntgenlækna utan dagvinnutíma sem skýrir hluta af tilfellum yfirflokkunar. Atriði sem mætti bæta í verkferli eru lærbrot og aflimanir að hluta eða að fullu. Frekara eftirlits er þörf með verkferli, þar sem tilfelli undirflokkunar eru fá. Skýra þarf feril varðandi afgreiðslu sjúkraflutninga á staðnum frekar.


Útköll Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna slysa og bráðra veikinda á árunum 2017-2018

Ragna Sif Árnadóttir1, Hjalti Már Björnsson1,2

1Bráðamóttöku Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

hjaltimb@landspitali.is

Bakgrunnur: Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) eru öflug sjálfboðaliðasamtök sem sinna um 1200 útköllum á ári hverju. Hluti þeirra útkalla varðar björgun slasaðra/veikra einstaklinga. Ekki liggja fyrir rannsóknir á þeirri þjónustu sem SL veitir við þessar aðstæður.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um heilbrigðisþjónustu sem SL veitir, hvort um slys eða veikindi sé að ræða, hvort þeir einstaklingar fái viðeigandi meðferð á vettvangi og hver afdrif þeirra eru.

Aðferð: Upplýsingar voru fengnar úr rafrænum aðgerðargrunni SL, en þar eru skráðar allar aðgerðir sem SL kemur að. Skoðuð voru þau tilvik þar sem einstaklingar þurftu flutning og meðferð á heilbrigðisstofnun árin 2017-18. Út frá Björgum, skráningarkerfi Neyðarlínu, var hægt að nálgast kennitölur viðkomandi aðila og að lokum voru endanlegar greiningar og afdrif viðkomandi fengnar úr SÖGU-kerfi og Heilsugátt.

Niðurstöður: Alls voru 189 aðgerðir teknar inn í rannsóknina með samtals 239 einstaklingum. Þriðjungur aðgerða var boðaðar á hæsta forgangi (F1) og í rúmlega 70% tilfella var biðtími eftir björgum undir 1 klst. Flestar aðgerðir voru skráðar á Suðurlandi. Í rúmlega helmingi tilfella var um karlmann að ræða, helmingur voru erlendir ferðamenn og meðalaldur var 44,4 ár. Slys voru mun algengari en veikindi, eða 86% tilvika. Algengasta atvik var að viðkomandi skrikaði fótur, hrasaði eða féll og í 40% tilfella var um áverka á neðri útlim að ræða. Meirihluti einstaklinga var með lítinn eða meðalmikinn áverka samkvæmt stöðluðu áverkaskori. Af þeim sem veiktust voru hjartatengd vandamál algengust. Í yfir 70% aðgerða var ekki skráð rafrænt hvaða meðferð var beitt á vettvangi eða hvaða búnaður var notaður. Notkun á börum/grjónadýnu var skráð hjá 22% einstaklinga og skorðun hryggjar skráð hjá sex einstaklingum, aldrei var minnst á notkun hálskraga. Súrefni var notað í einni aðgerð og þá af sjúkraflutningamönnum. Endurlífgun var skráð í 11 tilfellum og sjálfvirk hjartastuðtæki notuð alls sex sinnum.

Ályktanir: Björgunarsveitir þurfa reglulega að veita heilbrigðisþjónustu. Algengast reyndist að björgunarsveitir sinntu einstaklingum eftir slys sem oftast voru á neðri útlim. Veikindi sem sinnt var af björgunarsveitum voru oftast tengd hjartasjúkdómum. Skráning á notkun búnaðar og meðferðar á vettvangi reyndist ónákvæm og má bæta.


Brot í nökkvabeini greind á bráðamóttöku Landspítala árin 2015-2019

Hilmir Gestsson1, Ármann Jónsson2, Hjalti Már Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttöku Landspítala

hig44@hi.is

Bakgrunnur: Brot í nökkvabeini er algengur áverki og verður oftast við fall á útrétta hönd. Erfitt getur verið að greina slík brot þar sem þau eru oft dulin á röntgenmynd. Algengustu fylgikvillar brota í nökkvabeini eru vangróning og blóðþurrðardrep. Þeim geta fylgt langvarandi verkir og tap á liðleika í úlnlið. Mikilvægt er að greina brotin sem fyrst til að draga úr líkum á fylgikvillum.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að greina umfang, faraldsfræði og alvarleika brota í nökkvabeini sem komu inn á bráðamóttöku Landspítalans á árunum 2015-2019.

Aðferð: Rannsóknin náði til allra þeirra sem greindust með brot í nökkvabeini á bráðamóttöku Landspítala árin 2015-2019. Var brot talið útilokað og sjúkdómsgreining röng ef sjúklingur sýndi engin merki um brot í endurkomu hvorki við læknisskoðun né á myndum og var útskrifaður eftir fyrsta eða annan endurkomutíma án frekara eftirlits.

Niðurstöður: Alls greindust 295 einstaklingar með staðfest brot í nökkvabeini. Karlar voru 211 og konur 84. Staðlað nýgengi var 2,7 per 10.000 íbúa/ári. Marktækur munur var á tíðni brota milli kynjanna, var tíðnin hæst hjá karlmönnum á aldrinum 10-29 ára en hjá 60 ára og eldri var brotið algengara meðal kvenna. Mörg brotanna sáust ekki á röntgenmynd en einungis 66,8% þeirra greindust á fyrstu röntgenmynd. Hjá þeim 10,5% þar sem tekin var tölvusneiðmynd voru engin dulin brot. Í heildina voru 20 manns sem ekki fengu rétta greiningu við fyrstu komu og voru ekki bókaðir í endurkomu vegna áverkans. Greindust þó 75% þeirra (15 af þessum 20) innan tveggja vikna, annað hvort því þeir leituðu sjálfir aftur á bráðamóttöku, eða í endurkomu vegna annars vandamáls. Greindust því 98% allra brotanna án teljandi greiningartafar.

Ályktun: Nýgengi nökkvabeinsbrota á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu virðist hliðstætt því sem lýst er í erlendum rannsóknum. Röntgenmyndir greindu einungis 66,8% brotanna í fyrstu komu. Þrátt fyrir ónákvæmni röntgenmynda voru einungis 6,8% sjúklinganna vangreindir í fyrstu komu og í heildina fundust 98% þessara brota í fyrstu komu eða innan 2 vikna frá áverka.


Rafskútuslys á höfuðborgarsvæðingu sumarið 2020

Sigrún Guðný Pétursdóttir¹, Hjalti Már Björnsson¹,²

¹Bráðamóttöku Landspítala, ²rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum

sigrungp@landspitali.is

Bakgrunnur: Forvarnir eru mikilvægar í samfélaginu og starfsfólk í bráðaþjónustu er í aðstöðu til að hafa þar mikil áhrif. Rafskútur eru orðnar vinsælar á höfuðborgarsvæðinu. Erlendis hefur notkun þeirra fylgt nokkur slysatíðni en ekki er vitað um tíðni slíkra slysa á Íslandi.

Markmið: Að meta orsakir, eðli og afleiðingar rafskútuslysa á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2020.

Aðferð: Einstaklingar sem leituðu til bráðamóttöku Landspítala vegna rafskútuslysa á tímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst 2020 voru beðnir um að skrá hvar slysið átti sér stað, ástæður slyss, notkun á hlífum og ef um áfengisneyslu hefði verið að ræða. Upplýsingum um áverka og afdrif var safnað úr sjúkraskrám Landspítala. 

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu leituðu 149 einstaklingar á bráðamóttöku vegna rafskútuslysa, að meðaltali 1,6 á dag. Aldursbilið var frá 8 árum upp í 77 ár; 45% voru yngri en 18 ára og 58% voru karlkyns. Í 60% tilvika reyndist orsök slyss vera að farið hafi verið of hratt, viðkomandi misst jafnvægi eða ójafna í götu. Reyndust 79% barna hafa notað hjálm en einungis 17% fullorðinna. Engin börn voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna en meðal 18 ára og eldri sögðust 40% hafa verið undir áhrifum þegar slysið átti sér stað. Reyndust 38% með beinbrot og 6% þurftu innlögn á sjúkrahúsið til eftirlits eða meðferðar en enginn flokkaðist sem alvarlega slasaður samkvæmt AIS flokkun.   

Ályktun: Sumarið 2020 slösuðust einn til tveir einstaklingar á dag á höfuðborgarsvæðinu vegna rafskúta en enginn hlaut alvarlega áverka. Reyna þarf að draga úr slysatíðni vegna rafskúta með því að bæta hjólastíga, hvetja til hjálmanotkunar og auka fræðslu um hættu af notkun rafskúta undir áhrifum áfengis og vímuefna.   


Sjúklingar í einangrun á bráðamóttöku: Kerfisbundin fræðileg samantekt

Andrea Eir Jóhannsdóttir1, Rebekka Langdal Waage2, Dóra Björnsdóttir3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir4,5

111EG Blóð- og krabbameinslækningadeild, 222ED barnadeild, 3bráðamóttöku, 4rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 5hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

andreaej@landspitali.is - rebekkaw@landspitali.is

Bakgrunnur: Sjúklingar með grun um eða staðfest smit af völdum smitandi örvera þurfa að vera í einangrun til að hindra útbreiðslu örveranna. Einangrun getur haft áhrif á líkamlega og andlega líðan sjúklinga, öryggi þeirra getur verið ógnað á ýmsa vegu og jafnvel orðið alvarlegar eða varanlegar afleiðingum.

Markmið: Að skoða og draga saman þekkingu úr rannsóknum um sjúklinga í einangrun á bráðamóttökum í von um að auka þekkingu hjúkrunarfræðinga og þannig bæta líðan, þjónustu og útkomur þessara sjúklinga. Auk þess var markmiðið að skyggnast inn í reynslu hjúkrunarfræðinga af hjúkrun sjúklinga í einangrun á bráðamóttökum.

Aðferð: Framkvæmd var kerfisbundin leit í gagnasafninu PubMed með fyrirfram ákveðnum leitarorðum að rannsóknum sem gefnar voru út á árunum 2010-2020 og birtar á ensku eða íslensku og fjölluðu um fullorðna einstaklinga í einangrun á bráðamóttöku. Skýr inntöku- og útilokunarskilyrði voru sett til afmörkunar og niðurstöður leitar settar fram í PRISMA flæðiriti. Gæði rannsóknanna voru metin út frá matslistum Joanna Briggs stofnunarinnar.

Niðurstöður: Inntökuskilyrðin stóðust 13 rannsóknir með ýmsum rannsóknarsniðum. Sjúklingar í einangrun reyndust líklegri til að fá lakari þjónustu og voru útsettari fyrir afleiðingum eins og þunglyndi og kvíða en sjúklingar sem voru ekki í einangrun. Hjúkrunarfræðingar upplifðu aukið álag og fækkuðu jafnvel innlitum til sjúklinga.

Ályktun: Bætt hjúkrun sjúklinga í einangrun á bráðamóttöku gæti leitt til færri alvarlegra atvika, betri líðan sjúklinga og afdrifa þeirra. Með fræðslu til hjúkrunarfræðinga um líðan og þarfir sjúklinga, afleiðingar einangrunar á afdrif sjúklinga og störf hjúkrunarfræðinga er hægt að bæta öryggi og þjónustu. Til að hægt sé að bæta þjónustu þarf að rannsaka frekar líðan sjúklinga í einangrun á bráðamóttöku.


Hvað varð um eldra fólkið í heimsfaraldri COVID-19? Komur 67 ára og eldri á bráðamóttöku Landspítala 2020 samanborið við 2019

Elísabet Guðmundsdóttir1, Ingibjörg Sigurþórsdóttir2,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4

1Hagdeild Landspítala, 2bráðamóttöku Landspítala, 3rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 4hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Bráðamóttökur hafa reynst mikilvægt úrræði fyrir bráðveika aldraða. Fyrri rannsókn á komum 67 ára og eldri á bráðamóttökur Landspítala sýndi að komum þeirra fjölgaði í takt við lýðfræði árin 2008-12, aldraðir áttu 20% allra koma og hver einstaklingur kom að meðaltali þrisvar. Komuástæðurnar reyndust mismunandi eftir kyni og hjúskaparstaða var tengd þjónustuþörf. Alþjóðlega er talin ástæða til að auka þekkingu um aldraða á bráðamóttökum til að geta veitt viðeigandi þjónustu. Slík þekking er ekki síður mikilvæg í ljósi heimsfaraldurs og samfélagslegra aðgerða í kjölfarið sem gætu hafi haft áhrif á að aldraðir leituðu sér bráðrar heilbrigðisþjónustu.

Markmið: Að skoða hvort samfélagslegar aðgerðir og faraldur COVID-19 hafi haft áhrif á tíðni koma aldraðra á bráðamóttöku Landspítala.

Aðferð: Gagna var aflað úr vöruhúsi gagna á Landspítala um komur allra 67 ára og eldri á bráðamóttökur Landspítala frá 1. janúar 2019 til 31. desember 2020. Skoðað var hvort breyting varð á komufjölda og hlutfalli mismunandi aldurshópa aldraðra, komuástæðum og útkomum (innlagnatíðni, dvalarlengd (BMT og legudeildir) eftir mánuðum árið 2020 miðað við 2019 og hvort framangreind væri mismunandi meðal karla og kvenna.

Niðurstöður: Alls fækkaði komum hjá þessum aldurshópi um 2.600 milli áranna 2019 og 2020 og innlögnum af bráðamóttöku um ca. 200. Komum fækkaði um 16,1% hjá konum en 16,4% hjá körlum milli áranna 2019 og 2020. Mest var fækkunin milli ára í mars og apríl eða um 34% og í október um 23%. Fækkun koma kom fram í öllum yfirflokkum ICD-10, en mest var hún í yfirflokkum I (diseases of the circulatory system), J (diseases of the respiratory system) og M (diseases of the musculosceletal system and connectivity tissue).

Ályktanir: COVID-19 heimsfaraldurinn virðist hafa haft áhrif á komufjölda aldraðra á bráðamóttöku Landspítala og þá sérstaklega á tímabilum þegar fjöldi smita var sem hæstur í samfélaginu. Vísbendingar eru um færri komur vegna hjarta- og æðasjúkdóma víðar í heiminum. Færri smitleiðir fólks á milli og minni samfélagsleg virkni gætu skýrt færri komur vegna öndunfærasjúkdóma og stoðkerfisvanda. Greina mætti nánar áhrif lífstílsbreytinga á bráð vandamál eldra fólks og ef til vill byggja forvarnir til framtíðar þar á.


Frú Ragnheiður í heimsfaraldri

Elísabet H. Brynjarsdóttir og Helga Sif Friðjónsdóttir

Frú Ragnheiður- Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu

elisabetb@redcross.is

Bakgrunnur: Sjálfboðaliðaverkefnið Frú Ragnheiður – skaðaminnkun var stofnað árið 2009 af Rauða krossinum í Reykjavík og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Verkefnið sinnir skjólstæðingum á vettvangi sem flestir eru húsnæðislausir og nota vímuefni um æð. Árið 2020 skall á heimsfaraldur og þar með nýjar áskoranir fyrir jaðarsetta einstaklinga. Samhliða voru líka nýjar áskoranir fyrir þetta hjúkrunarstýrða sjálfboðaliðaverkefni. Lögð var áhersla á að halda úti sjálfboðnu starfi og nærþjónustu til jaðarsetts hóps í heimsfaraldri og gera sóttvarnarfræðslu aðgengilega fyrir hóp sem hefur öðruvísi heilsulæsi en aðrir hópar samfélagsins.

Markmið: Markhópur Frú Ragnheiðar hefur almennt ekki auðvelt aðgengi að aðstöðu til að stuðla að hreinlæti né tryggja öryggi sitt. Á stuttum tíma þurfti að endurskoða og þróa innihald þjónustunnar til að geta áfram stutt við notendur á þeirra forsendum og taka mið af viðbrögðum þjóðarinnar í heimsfaraldri. Markmið verkefnisins var að þjónusta áfram 550 einstaklinga 6 kvöld vikunnar án verulegra skerðinga á þjónustu, skima fyrir aðstæðum þeirra og miðla fræðslu um sóttvarnir tengdar covid-19.

Aðferð: Afturskyggn rannsókn byggð á gagnagrunni Frú Ragnheiðar frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2020.

Niðurstöður: 2020 leituðu 596 einstaklingar til Frú Ragnheiðar í 4.407 heimsóknir. Engin vakt féll niður og skiluðu sjálfboðaliðar rúmlega 6.240 klukkustundum í sjálfboðnu starfi. Enginn sjálfboðaliði smitaðist af COVID-19 á vakt í verkefninu. Hjúkrunarfræðingar Frú Ragnheiðar náðu að vera í takt við viðbrögð yfirvalda við faraldrinum, allt frá fyrsta degi. Þróað var verklag m.t.t. sóttvarnar fyrir sjálfboðaliða á vakt. Skimað var í hverri heimsókn fyrir einkennum covid-19 og notendur studdir við að fá þjónustu við hæfi. Fræðsluefni um covid-19, sem sniðið var að heilsulæsi jaðarsettra, var þróað og miðlað til allra notenda.

Ályktanir: Sérþekking hjúkrunarfræðinga og annarra sjálfboðaliða verkefnisins var nýtt til heilsuverndar og sóttvarna fyrir jaðarsetta notendur sem önnur kerfislæg þjónusta á erfitt með að ná til. Hægt er að halda úti óskertri hjúkrunarstýrðri nærþjónustu fyrir jaðarsetta einstaklinga í heimsfaraldri. Líklegt er að vegna óskertar þjónustu hafi Frú Ragnheiður skilað samfélagslegum árangri í baráttu gegn heimsfaraldi og dregið úr álagi innan heilbrigðisþjónustu á öllum stigum.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica