Fylgirit 104, Vísindi að hausti, þing Landspítala

Ávarp í tilefni Vísinda að hausti 2020

Rósa Björk Barkardóttir, formaður vísindaráðs Landspítala

Vísindi á vordögum, nú undir heitinu Vísindi að hausti, eru haldin í tuttugasta skipti og eiga því 20 ára afmæli. Þessi viðburður hefur verið og er uppskeruhátíð vísindanna á Landspítala. Hryggjarstykki hans eru afhending vísindastyrkja, tilkynning um val á heiðursvísindamanni Landspítala og ungum vísindamanni á Landspítala og fyrirlestrar þeirra, kynningar á niðurstöðum áhugaverðra vísindarannsókna, bæði á formi fyrirlestra og veggspjaldakynninga og verðlaun fyrir áhugaverðustu veggspjöldin í formi ráðstefnustyrkja.

Í þessu fylgiriti Læknablaðsins má finna ágrip 49 veggspjalda sem bárust Vísindaráði Landspítala í tengslum við viðburðinn í ár. Fjöldi ágripa sem barst í ár er nokkuð minni en sá fjöldi sem hefur borist undanfarin ár. Mögulega skrifast það á COVID eins og svo margt annað. COVID hafði þau áhrif að við gátum ekki haldið Vísindi á vordögum í vor þannig að ákveðið var að flytja viðburðinn til haustsins. En til þess að gefa starfsfólki spítalans færi á að nýta sumarið til vísindarannsókna með nemum og öðru samstarfsfólki þá var ákveðið að úthlutun vísindastyrkja skyldi fara fram þrátt fyrir frestun uppskeruhátíðarinnar sjálfrar. Styrkjaúthlutun fór því fram strax í byrjun maí og með hjálp tölvupósta. Það bárust 94 styrkumsóknir upp á samtals tæpar 167 milljónir, en að hámarki má sækja um til sjóðsins tvær milljónir á hvert verkefni. Úthlutunarupphæðir voru veglegri en oft áður þar sem framkvæmdastjórn spítalans hafði árið áður hækkað framlög í vísindasjóðinn um 15 milljónir. Þannig að í staðinn fyrir heildarúthlutun upp á tæplegar 70 milljónir voru úthlutaðar 85 milljónir. Þessar 85 milljónir deildust svo niður á þau 80 vísindaverkefni sem hlutu náð vísindaráðs Landspítala, eftir vandað faglegt jafningjamat fjölda aðila. Við skulum því vona að úthlutun þessa árs leiði af sér tilefni til þess að hægt verði að kynna niðurstöður fleiri vísindarannsókna á viðburði næsta árs

Öll ágrip sem bárust fóru í faglegt mat sem var í umsjá Vísindaráðs. Stóðst innihald allra ágripanna faglegt mat ráðsins og voru þau því samþykkt til birtingar í þessu fylgiriti Læknablaðsins og til kynningar á viðburðinum Vísindi að hausti. Vegna COVID mun kynningin fara fram í gegnum nýjan rafrænan veggspjaldakynningarvef Landspítala. Finna má í þessu fylgiriti ágrip frá fulltrúum margra fagstétta innan Landspítala og endurspegla þau því nokkuð vel þá breidd sem er að finna í vísindaflóru Landspítala. Það er mjög ánægjulegt í ljósi þess hve mikilvægt það er að sem flestir leggi lóð á vogarskál vísindanna, því Landspítali er háskólaspítali og ein af þremur mikilvægustu stoðum allra háskólaspítala er jú vísindastarfsemi.

Njótið lesturs ágripanna sem hér er að finna!
Þetta vefsvæði byggir á Eplica