Fylgirit 104, Vísindi að hausti, þing Landspítala

Ágripin

1. Hvort ætti að elta storkuþátt VII eða horfa framhjá honum þegar meðferð með blóðþynningarlyfinu warfarin er stýrt?

Alma Rut Óskarsdóttir1, Brynja R. Guðmundsdóttir1, Hulda María Jensdóttir1, Björn Flygenring2, Ragnar Pálsson3,4, Páll Torfi Önundarson1,4

1Rannsóknarkjarna í blóðmeinafræði, Landspítala, 2hjartalækningum, Landspítala, 3nýrnalækningum, Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

almaros@landspitali.is

Inngangur: Warfarin-meðferð hefur í áratugi verið stýrt með próþrombíntíma-INR (PT-INR). Sveiflur í PT-INR má að hluta rekja til hraðra breytinga á styrk storkuþáttar VII sem hafa ekki klíníska þýðingu. Fiix-PT er, ólíkt PT, einungis háð storkuþáttum II og X. Fiix rannsóknin leiddi í ljós að sjúklingar á warfarini sem stýrt var með Fiix-NR höfðu stöðugri blóðþynningu og marktækt 48% færri tilfelli blóðsega miðað við sjúklinga stýrt með PT-INR, án þess að blæðingum fjölgaði.

Markmið: Að meta tíðni áfalla og stöðugleika blóðþynningar fyrir og eftir að byrjað var að stýra warfarin-meðferð með Fiix-NR á Landspítala þann 1. júlí 2016.

Aðferðir: Afturskyggn tímaraðagreining með íhlutun á þýði sjúklinga á warfarini og stýrt af Segavörnum Landspítala á þremur tímabilum: 12 mánaða PT-INR tímabili, 6 mánaða skiptitímabili og 12 mánaða Fiix-NR tímabili. Allir sjúklingar á fyrrnefndum tímabilum voru með, óháð ábendingu, markgildi og tímalengd meðferðar. Fyrstu 60 dagar í upphafsmeðferð voru ekki teknir með. Leitað var í sjúkraskrárgögnum eftir blóðsega- og blæðingaráföllum auk dauðsfalla. Gæði og breytileiki blóðþynningar voru metin.

Niðurstöður: 2363 sjúklingar (2003 sjúklingaár) á PT-INR tímabili og 1796 sjúklingar (1544 sjúklingaár) á Fiix-NR tímabili. Miðgildi aldurs var 76 ár, 60% voru karlmenn og 56% með gáttatif. Tíðni allra tegunda blóðsega var lægri á Fiix-NR tímabili miðað við á PT-INR tímabili; m.a. blóðsegar í heild 1,23% á móti 2,80% (RR 0,44;p=0,0013), slagæðablóðssegarek 1,10% á móti 2,60% (RR 0,42; p=0,0013) og blóðþurrð í heila 0,58% á móti 1,55% (RR 0,38;p=0,0063). Tíðni stórra blæðinga var 2,33% á Fiix-NR tímabili á móti 2,95% á PT-INR tímabili (RR 0,79; p=0,2946). Á Fiix-NR tímabili var tími innan meðferðarmarka aukinn og breytileiki í INR gildum minnkaður.

Ályktun: Með því að horfa fram hjá storkuþætti VII og skipta PT-INR yfir í Fiix-NR er möguleiki á að auka stöðugleika warfarin-meðferðar og fækka tilfellum blóðsega um 50-60% án þess að fjölga blæðingum.

2. Dans- og hreyfimeðferð fyrir félagslega heilsu á Íslandi, tillaga að meðferðaráætlun

Anna Dúa Kristjánsdóttir1,2, Elizabeth Manders2, Rafn Haraldur Rafnsson1

1Geðþjónustu Landspítala, 2SRH-háskólanum, Heidelberg, Þýskalandi

annadua.kristjansdottir@stud.hochschule-heidelberg.de

Inngangur: Einmanaleiki og félagskvíði eru þekkt vandamál innan geðheilbrigðiskerfisins sem fylgja oft öðrum röskunum. Margt bendir til þess að meðferð í hóp gagnist hvað best þar sem félagsfælnin er afhjúpuð í öruggu umhverfi.

Markmið: Að hanna og leggja til dans- og hreyfimeðferðaráætlun með tilliti til félagskvíðaröskunar og væntinga íslenskra notenda geðrænna samfélagslegra úrræða til dans- og hreyfimeðferðar.

Aðferðir: Lögð var fyrir notendur samfélagslegra úrræða rafræn könnun um viðhorf og væntingar til dans- og hreyfimeðferðar auk þess sem skimað var fyrir félagsfælni. Út frá niðurstöðum könnunarinnar, fræðum um félagskvíða, og dans- og hreyfimeðferðarfræði var meðferðaráætlun sett fram.

Niðurstöður: Alls höfðu 36 þátttakendur nýtt sér samfélagsleg úrræði, þar af 26 konur (72,2%) og 10 karlar (27,8%). Af öllum þátttakendum höfðu 19 konur áhuga á að taka þátt í dans- og hreyfimeðferð (52,8%) og 6 karlar (16,7%). Þátttakendur nefndu atriði tengd félagsfælni, tjáningu, kvíða, trausti, og sjálfsáliti þegar spurðir út í áskoranir sem þeir teldu fylgja dans- og hreyfimeðferð og þegar spurðir út markmið sem þeir myndu vilja vinna með í meðferðinni kaus helmingur eða fleiri sjálfsmynd, sjálfstraust, félagsfærni, og tjáningu. Mæld félagsfælni hafði ekki forspárgildi um hvort þátttakandi játti því að þátt í dans- og hreyfimeðferð eða ekki (p=0,824). Fimm tíma meðferðaráætlun var sniðin með félagskvíða og væntingar þátttakenda í huga, auk þess sem snert var á íslenskum dansmenningararfi.

Ályktanir: Félagskvíði hrjáir um 12% Íslendinga og er algeng samsláttarröskun. Tæpur helmingur allra 75% örorkulífeyrisþega þjáist af geðröskun og því má áætla að minnsta kosti 5% þeirra sé félagskvíðin, en vandinn kann að vera vangreindur og dreifður víðar í samfélaginu. Eðli félagsfælni samkvæmt upplifir sjúklingur miklar líkamlegar skynjanir þegar hann óttast félagslegar aðstæður. Fjársjóður gæti leynst í því að vinna með einkennin í dans- og hreyfimeðferð þar sem óttinn er skoraður á hólm í hreyfitjáningu.

3. Æxli í munnvatnskirtlum á Íslandi á árunum 1986-2015

Anna Lilja Ægisdóttir1, Geir Tryggvason1,3, Anna Margrét Jónsdóttir2 og Jón Gunnlaugur Jónasson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2vefjarannsóknum, Landspítala, 3háls-, nef- og eyrnalækningum, Landspítala

aae27@hi.is

Inngangur: Munnvatnskirtilsæxli eru fjölskrúðugur hópur góð- og illkynja æxla sem lítið hefur verið rannsakaður hérlendis. Æxlin geta komið fyrir í öllum munnvatnskirtlunum en æxli í vangakirtli (parotid gland) eru algengust og æxli í tungudalskirtli (sublingual gland) eru mjög fátíð. Algengustu vefjagerðir illkynja æxla eru mucoepidermoid carcinoma, adenoid cystic carcinoma og acinic cell carcinoma. Meðal góðkynja æxla er pleomorphic adenoma algengast. Aldursstaðlað nýgengi illkynja æxla á heimsvísu er 0,69 á 100.000 hjá körlum og 0,51 á 100.000 hjá konum. Vegna skorts á fyrri rannsóknum er nýgengi góðkynja æxla tormetið.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna staðsetningu, vefjagerðir og nýgengi munnvatnskirtilsæxla sem greindust hérlendis á árunum 1986-2015.

Aðferðir: Rannsóknin náði til allra þeirra sem greindust með munnvatnskirtilsæxli af þekjuvefsuppruna á Íslandi á tímabilinu 1986-2015. Leitað var að öllum góðkynja og illkynja munnvatnskirtilsæxlum í skrám meinafræðideilda Landspítala og SAk, skrám Vefjarannsóknarstofunnar og í Krabbameinsskrá Íslands. Upplýsingar um kyn, aldur, staðsetningu og vefjagerð æxla fengust í vefjagreiningarsvörum. Ef þær upplýsingar skorti voru sýni endurskoðuð. Jafnframt voru öll illkynja munnvatnskirtilsæxli endurskoðuð vegna breytinga á vefjafræðilegri flokkun þeirra yfir rannsóknartímabilið.

Niðurstöður: Á árunum 1986-2015 greindust 687 munnvatnskirtilsæxli hérlendis, þar af 78 illkynja æxli (11%). Í vangakirtli greindust 585 æxli (85%), 51 (7,5%) í kjálkabarðskirtli og 51 (7,5%) í litlu munnvatnskirtlunum í munnslímhúð. Ekkert æxli greindist í tungudalskirtli á rannsóknartímabilinu. Hlutfall illkynja æxla var lægst í vangakirtli (9%) en hæst í litlu munnvatnskirtlunum (26%). Algengustu vefjagerðir illkynja æxla voru mucoepidermoid carcinoma (22%), acinic cell carcinoma (13%) og adenoid cystic carcinoma (13%). Pleomorphic adenoma var algengast góðkynja æxla (81%) og þar á eftir kom Warthin æxli (15%). Aldursstaðlað nýgengi illkynja æxla hjá körlum var 0,57 á 100.000 en hjá konum var það 0,78 á 100.000. Aldursstaðlað nýgengi góðkynja æxla var 4,9 á 100.000 hjá körlum en 7,0 á 100.000 hjá konum.

Ályktanir: Hlutfall góðkynja æxla er hærra hérlendis en áður hefur verið greint frá. Sömu vefjagerðir munnvatnskirtilsæxla greinast hérlendis, með svipaða innbyrðis tíðni, og í öðrum Evrópulöndum sem gögnin voru borin saman við. Nýgengi munnvatnskirtilsæxla er hærra hjá konum en körlum. Nýgengi illkynja æxla er hærra meðal íslenskra kvenna en annarra norrænna kvenna.

4. Samantekt á ábendingum og aukaverkunum krabbameinslyfjameðferða með einstofna mótefni af flokki ónæmisörvandi lyfja

Arna Ársælsdóttir1, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir2,3, Gunnar Bjarni Ragnarsson3

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2lyfjaþjónustu Landspítala, 3krabbameinsþjónustu Landspítala

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Einstofna mótefni af flokki ónæmisörvandi lyfja (varðstöðvahemlar, VSH) hafa valdið miklum breytingum í meðferð gegn ákveðnum tegundum krabbameina. Lyfin virkja ónæmiskerfið til að ráðast gegn krabbameinsfrumum. Meðferðin getur leitt til ónæmistengdra aukaverkana sem geta orðið þess valdandi að fresta þurfi lyfjagjöf eða hætta henni.

Markmið: Að taka saman upplýsingar um notkun og ábendingar VSH meðferða og kanna þol sjúklinga gagnvart þeim með tilliti til aukaverkana og meðferða við þeim.

Aðferðir: Rannsóknin skiptist í tvo meginhluta, afturskyggnan hluta frá 1. janúar til 31. desember 2019 og framskyggnan hluta frá 1. janúar til 15. mars 2020. Rannsóknarþýðið voru sjúklingar á Landspítala, 18 ára og eldri, sem höfðu fengið að minnsta kosti einn skammt af VSH á tímabilinu. Í afturskyggna hlutanum var gagna aflað úr sjúkraskrám en í framskyggna hlutanum voru regluleg símaviðtöl tekin við sjúklinga með stöðluðum spurningalista.

Niðurstöður: Í heildina tók 141 sjúklingur þátt í rannsókninni, 94 í afturskyggna hlutanum og 47 í þeim framskyggna. Meira en helmingur þátttakenda í afturskyggnu rannsókninni (64%) voru með skráða aukaverkun, alls 120 tilfelli. Algengustu aukverkanirnar voru skjaldkirtilstruflanir, húðviðbrögð og liðbólgur. Um 13% sjúklinga þurftu að hætta meðferð vegna alvarlegra aukaverkana. Í framskyggnu rannsókninni greindi mikill meirihluti þátttakenda frá aukaverkunum (96%), alls 369 tilfelli. Flestir nefndu þreytu, mæði og hósta. Aukaverkanir reyndust flestar vægar (94%) en aðeins 6% alvarlegar. Í báðum rannsóknarhlutum voru aukaverkanir oftast meðhöndlaðar með barksterum og þá með lyfinu prednisólón.

Ályktanir: Rannsókn þessi gefur til kynna að meirihluti sjúklinga í lyfjameðferð með VSH fái aukaverkanir. Þær eru þó oftast vægar og viðráðanlegar og flestir geta haldið áfram meðferð þrátt fyrir þær. Aukaverkanir geta eftir sem áður verið alvarlegar og þurfti hluti sjúklinga að hætta meðferð vegna þeirra.

5. Ábendingar, öryggi og meðferðarheldni krabbameinslyfjameðferða um munn með lyfjum af flokki próteinkínasahemla

Arnrún Kristinsdóttir Wiium1, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir2,3, Hrefna Magnúsdóttir3

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2lyfjaþjónustu Landspítala, 3krabbameinsþjónustu Landspítala

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Marksækin lyfjameðferð af flokki próteinkínasahemla (PKH) um munn til meðferðar við blóðsjúkdómum og krabbameinum fer vaxandi sem virk og öflug meðferð. Einstaklingar bera aukna ábyrgð, þar sem þeir stýra sjálfir meðferðinni heima og verða að vera vakandi yfir einkennum aukaverkana sem geta fylgt lyfjameðferðinni.

Markmið: Að gera samantekt á krabbameinslyfjameðferðum um munn með lyfjum af flokki PKH með tilliti til útgefinna leyfa, notkunar og ábendinga. Að kanna gæði og öryggi PKH meðferða með tilliti til fjölda, tegundar og alvarleika aukaverkana og milliverkana, ásamt að kanna meðferðarheldni og helstu áhrifaþætti.

Aðferðir: Rannsóknin var unnin á Landspítala og skiptist í afturskyggnan og framskyggnan hluta. Afturskyggn rannsókn sem lýsandi samantekt á PKH meðferðum fullorðinna einstaklinga. Upplýsinga um lyf og ábendingar var aflað í Heilsugátt Landspítala á kennitölu, út frá veittum leyfum lyfjanefndar Landspítala fyrir meðferð á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2019. Í framskyggnri rannsókn frá janúar til mars 2020, fengust upplýsingar um kennitölur einstaklinga í virkri PKH meðferð hjá teymisstjóra hjúkrunar á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga 11BC. Þátttaka einstaklinga fól í sér stakt símaviðtal við rannsakenda samkvæmt stöðluðum viðtalsramma.

Niðurstöður: Alls voru 252 sjúklingar í afturskyggna hlutanum, og algengasta PKH meðferðin palbociclib við brjóstakrabbameini. Í framskyggna hlutanum tóku 42 sjúklingar þátt og algengasta PKH meðferðin ribociclib við brjóstakrabbameini. Allir þátttakendur greindu frá einhverri aukaverkun á meðferðartímabilinu og voru þær flestar vægar. Klínískt mikilvægar milliverkanir greindust hjá 7 (16,7%) sjúklingum. Meðferðarheldni mældist góð hjá 97,6% sjúklinga og virtust áhrifaþættir ekki hafa mikil áhrif.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að meirihluti sjúklinga sem fá krabbameinslyfjameðferð um munn með lyfi af flokki PKH á Landspítala séu konur með brjóstakrabbamein. Aukaverkanir af völdum PKH lyfja eru í flestum tilfellum vægar og viðráðanlegar. Klínískt mikilvægar milliverkanir, sem voru 5 talsins, greindust einungis hjá 16,7% sjúklinga sem bendir til þess að sjúklingar séu ekki í mikilli hættu á aukaverkunum vegna milliverkana. Gera má ráð fyrir því að meðferðarheldni sjúklinga í krabbameinslyfjameðferð um munn sé almennt góð og að engir sérstakir áhættuþættir spái fyrir um meðferðarheldni.

6. Áhrif TNF- hemla á sýklalyfjanotkun sjúklinga með iktsýki

Aron H. Björnsson1, Ólafur Pálsson2,3, Már Kristjánsson1, Pétur S Gunnarsson4,5, Gerður Gröndal1,3, Björn Guðbjörnsson3,6, Þorvarður J. Löve6,7 fyrir hönd ICEBIO

1Lyflækningum, Landspítala, 2gigtardeild Háskólasjúkrahússins í Lundi, 3rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, Landspítala, 4lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 5sjúkrahúsapóteki Landspítala, 6Háskóla Íslands, 7vísindadeild Landspítala

aronh@landspitali.is

Inngangur: Alvarlegar sýkingar sem krefjast innlagnar á sjúkrahús eru þekkt aukaverkun TNF-hemla. Takmarkaðar upplýsingar eru til um sýkingar sem meðhöndlaðar eru utan sjúkrahúsa.

Markmið: Að rannsaka notkun sýkingalyfja hjá iktsýkissjúklingum og hvaða áhrif fyrsta meðferð TNF-a hemils hefur á sýkingalyfjanotkun.

Aðferðir: Gögnum um 366 einstaklinga með iktsýki sem hófu líftæknilyfjameðferð á árunum 2005-2015 var safnað úr ICEBIO. Úr lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis var afgreiðslum allra sýkingalyfja, sem tekin eru um munn, safnað frá því tveimur árum áður en meðferð hófst og þar til tveimur árum eftir. Fyrir hvern sjúkling voru valin fimm viðmið úr þjóðskrá, af sama kyni og aldursári, og safnað var öllum afgreiddum sýkingalyfjum yfir sama fjögurra ára tímabil. Sýkingalyfjanotkun var skoðuð út frá fyrirfram skilgreindum dagskömmtum, fjölda ávísana og tegund sýkingalyfja.

Niðurstöður: Sjúklingahópurinn fékk nær tvöfalt fleiri lyfjaávísanir en viðmið fyrir meðferð TNF-hemils (2,9 vs 1,6 ; p<0,001). Eftir að meðferð hófst jókst meðalfjöldi lyfseðla hjá sjúklingahópnum úr 2,9 í 3,6 (p<0,001); sýklalyf úr 2,6 í 3,2 (p<0,001), veirulyf úr 0,06 í 0,15 (p<0,001) og sveppalyf úr 0,16 í 0,25 (p<0,05). Fjöldi dagskammta sýklalyfja var óbreyttur, (33,4 til 34,7; p=0,1) en fjöldi dagskammta sveppa- og veirulyfja eftir meðferð TNF-hemils jókst (p<0,05). Engin tengsl fundust á milli fjölda lyfseðla og aldurs, líkamsstuðuls, reykinga og DAS28-CRP. Hins vegar fengu sjúklingar með HAQ stig yfir 2,0 marktækt fleiri lyfseðla eftir upphaf TNF-meðferðar (3,1 vs 5,7; p<0,001).

Ályktanir: Sjúklingar með iktsýki nota marktækt meira af sýkingalyfjum en viðmið á tveggja ára tímabilinu fyrir meðferð með TNF-hemli. Eftir að meðferð hefst, aukast sýkingalyfjaávísanir til sjúklingahópsins út tveggja ára tímabilið. Þetta er ólíkt því sem búast mætti við miðað við rannsóknir á sjúkrahúsinnlögnum vegna sýkinga, sem hafa sýnt að innlagnatíðnin er hæst á fyrsta ári meðferðar en minnkar þegar líður á TNF-meðferð. Hátt HAQ-skor í upphafi TNF-meðferðar er tengt aukinni notkun á sýkingalyfjum í kjölfarið á TNF-meðferð.

7. Hlutverk vacuole membrane protein 1 (VMP1) í æxlismyndun HER2 jákvæðs brjóstakrabbameins

Arsalan Amirfallah1,3, Bylgja Hilmarsdóttir2,3, Rósa Björk Barkardóttir2,3, Inga Reynisdóttir1,3

1Frumulíffræði, 2sameindameinafræði, meinafræðideildar Landspítala, 3Lífvísindasetri læknadeildar Háskóla Íslands

arsalan@landspitali.is

Inngangur: Brjóstakrabbamein (BK) er algengasta krabbamein kvenna á heimsvísu. Orsakir þess eru margvíslegar og því er flókið að finna BK gen sem geta haft forspárgildi. Niðurstöður úr rannsókn okkar sýndu að há tjáning VMP1 er til marks um slæmar horfur sjúklinga með HER2 jákvæð brjóstaæxli. VMP1 er frumuhimnuprótein, sem tengist frymisneti, golgi og innanfrumubólum. Það tekur þátt í upphafsskrefum sjálfsáts og tengir saman frumur. Hlutverk þess í BK hefur lítið verið rannsakað.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort VMP1 hafi áhrif á frumuvöxt og meinvörp í HER2 jákvæðum frumulínum og hvort það eigi þátt í trastuzumab ónæmi HER2 jákvæðra frumna í gegnum sjálfsátshlutverk sitt.

Aðferðir: VMP1 tjáning var könnuð í BK frumulínum í gögnum frá Cancer Cell Line Encyclopedia (CCLE) og COSMIC og í kjölfarið greindum við magn þess með qRT-PCR í úrvali af BK frumulínum. Áhrif VMP1 magns á frumuvöxt, frumudauða og meinvörp verða könnuð í tveimur HER2 jákvæðum frumulínum. siRNA verður notað til að minnka tjáningu frá VMP1, ERBB2 (HER2) eða báðum í einu. Útkoma verður m.a. mæld í IncuCyte, flæðisjá (PI innlimun) og í Transwell prófi. Western blettun og qRT-PCR sannreyna lækkun genatjáningar eftir siRNA meðhöndlun. Lyfjaónæmi verður kannað í BT-474-Clone-5 frumulínunni sem er ónæm fyrir trastuzumab.

Niðurstöður: VMP1 var mun meira tjáð í HER2 jákvæðum en HER2 neikvæðum BK frumulínum. HER2 jákvæðu BK frumulínurnar BT-474 og MDA-MB-361 voru valdar til frekari rannsókna því þær tjá mikið magn VMP1. siVMP1 lækkaði VMP1 genatjáningu um allt að 80% en áhrif þess höfðu ekki áhrif á ERBB2 tjáningu, og öfugt. Bráðabirgðaniðurstöður sýna að áhrif minni VMP1 tjáningar á frumuvöxt voru engin. Tilraunir sem mæla áhrif þess á stýrðan frumudauða og myndun meinvarpa eru í gangi.

Ályktanir: VMP1 tekur þátt í sjálfsáti. Sjálfsát getur bæði komið í veg fyrir æxlismyndun og ýtt undir hana. Virkjun sjálfsáts og samvinna þess með stýrðum frumudauða hefur áhrif á ónæmi frumna gegn trastuzumab í HER2 jákvæðum æxlum. Niðurstöður úr rannsóknum okkar munu varpa ljósi á hlutverk VMP1 í HER2 jákvæðum brjóstaæxlum.

8. LT-K63 eykur virkjun B frumna og lifunarþætti þeirra í nýburamúsum sem leiðir til langlífs ónæmis

Auður A. Aradóttir Pind1,2, Jenny Molina1,2, Guðbjörg J. Magnúsdóttir1,2, Giuseppe Del Giudice3, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3GSK Vaccines, Siena, Ítalíu

audurap@landspitali.is

Inngangur: Mótefnasvörun ungviðis við bólusetningum er lág og skammlíf. Viðtakarnir BAFF-R og BCMA á B frumum og bindlar þeirra BAFF og APRIL eru mikilvægir fyrir myndun og viðhald mótefnasvars. Ónæmisglæðar eru efni sem auka svörun við bólusetningum. Við sýndum að þegar ónæmisglæðirinn LT-K63 var gefinn með próteintengdu fjölsykrubóluefni, Pnc1-TT, hraðaði hann svörun og jók fjölda mótefnaseytandi plasmafrumna í milta og lifun þeirra í beinmerg sem leiddi til viðhalds á verndandi mótefnum.

Markmið: Að kanna hvort eflingu á ónæmissvari nýburamúsa eftir bólusetningu með Pnc1-TT+LT-K63 er miðlað í gegnum áhrif LT-K63 á BAFF-R, BCMA, BAFF og/eða APRIL. Auk þess athugðum við, í fyrsta skipti í nýburamúsum, hvaða frumur seyttu APRI, lifunarboðefni plasmafrumna í beinmerg.

Aðferðir: 7 daga gamlar mýs voru bólusettar með Pnc1-TT með/án LT-K63. Tíðni, fjöldi og tjáning BAFF-R á B-frumum; nýmynduðum(NF), jaðarsvæðis(marginal zone, MZ) og eitilbús-(follicle, FO) B frumum, var ákvörðuð í milta og tíðni, fjöldi og tjáning BCMA á plasmablöstum og plasmafrumum var ákvörðuð í milta og beinmerg með flæðifrumusjá. Tíðni og APRIL tjáning eósínófíla, megakarýócýta og makrófaga í beinmerg var ákvörðuð með flæðifrumusjá. Sértæk mótefni voru mæld með ELISA og sértækar mótefnaseytandi frumur með ELISPOT.

Niðurstöður: Í upphafi var aldursháð þroskun á undirflokkum B frumna og tjáning þeirra á BAFF-R og BCMA athuguð. Nýburamýs höfðu langtum færri B frumur en fullorðnar. NF frumur voru algengastar en lág tjáning þeirra á BAFF-R gæti útskýrt lága tíðni MZ og FO B frumna í þessum aldurshópi. For-plasmablastar/plasmablastar tjáðu einnig minna BCMA í nýburamúsum en fullorðnum. LT-K63 jók tjáningu BAFF-R á MZ, FO og NF B frumum eftir bólusetningu sem leiddi til aukinnar tíðni og fjölda plasmablasta og plasmafrumna og aukinnar tjáningar þeirra á BCMA. LT-K63 jók einnig tíðni og APRIL tjáningu á eósínófílum, makrófögum og megakarýócýtum sem stuðlaði líklega að aukinni lifun plasmafrumna. Allt þetta gaf af sér aukinn fjölda sértækra mótefnaseytandi frumna í milta og beinmerg með aukna lifun og hækkað og viðvarandi sértækt mótefnasvar.

Ályktun: Rannsókn okkar varpar ljósi á virkni ónæmisglæðisins LT-K63 og ber kennsl á líffræðilega ferla sem æskilegt er að ónæmisglæðar ræsi til að framkalla öflugt og viðvarandi ónæmissvar í nýburum.

9. Botnlangaómun gæti verið ásættanleg rannsókn sem gæti leyst af hólmi tölvusneiðmyndir af kviðarholi

Árný Sif Kristínardóttir1, Gunnar Andrésson1, Jónína Guðjónsdóttir2,3

1Röntgendeild Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Geislavörnum ríkisins

arnys@landspitali.is

Inngangur: Botnlangabólga er ein helsta ástæða bráðra tilfella sem tengjast kviðarholinu. Erfitt getur reynst að greina botnlangabólgu þar sem einkenni geta skarast á við ýmsa sjúkdóma. Myndgreining getur aðstoðað við greiningu en ómun og tölvusneiðmyndarannsóknir eru helst notaðar til þess. Í tölvusneiðmyndarannsóknum er notuð jónandi geislun, en vitað er að jónandi geislun getur haft skaðleg áhrif á starfsemi fruma í líkamanum. Val á myndgreiningu getur því haft áhrif á geislaálag sjúklinga.

Markmið: Að athuga hvort ómun sé ásættanleg rannsókn við greiningu á botnlangabólgu með því að kanna notkun og niðurstöður myndgreiningar vegna botnlangabólgu á Landspítala. Einnig að kanna á hvaða svæði botnlanginn liggur og hvort þrengja megi bilið þar sem sneiðmyndin er tekin og þannig minnka svæðið sem geislað er á í TS rannsóknum þegar grunur leikur á botnlangabólgu.

Aðferðir: Um er að ræða afturvirka rannsókn sem var gerð á öllum einstaklingum yngri en 21 árs og konum yngri en 41 árs sem voru grunuð eða með staðfesta botnlangabólgu á Landspítala. Rannsóknartímabilið var 1. september 2018 til 1. september 2019 og var heildarfjöldi sjúklinga 422. Gögn voru skoðuð í myndageymslukerfi, sjúkraskráningarkerfi og aðgerðarkerfi. Skráð var niður hvort viðkomandi fór í myndgreiningu og þá hvaða, hver greiningin var og hvort hún var rétt eða röng ásamt öðrum þáttum. Reiknað var út m.a. næmi og sértæki, jákvætt og neikvætt forspárgildi ásamt ýmsum meðaltölum.

Niðurstöður: Í rannsókninni reiknaðist næmi TS rannsókna hærri en næmi ómunar eða 97% í TS og 68% í ómun. Hins vegar var jákvætt forspárgildi ómunar betra en TS rannsókna. Við nánari skoðun á ómrannsóknum kom í ljós að með því að framkvæma ómun á réttan hátt jókst næmnin um 12%. Þegar staðsetning botnlanga og annarra greininga var metin kom í ljós að í 95% tilfella var botnlanginn staðsettur á bilinu L3-S5. Aðeins 9% annarra greininga voru staðsettar utan þess bils sem botnlanginn lá nær alltaf á.

Ályktun: Ómun af botnlanga ætti að vera fyrsta myndgreiningarannsókn þegar einstaklingar eru grunaðir um að hafa botnlangabólgu. Ef niðurstaða ómrannsókna er ófullnægjandi ætti að skoða aðrar rannsóknir eins og TS rannsókn en íhuga þá að afmarka skannsvæðið til muna.

10. Hlutverk PLD2 í bandvefsumbreytingu þekjufrumna og brjóstakrabbameinum

Bylgja Hilmarsdottir1,2,3,4, Solveig Petersen3, Kotryna Seip3, Anna Barkovskaya3,5, Thorarinn Gudjonsson2,6, Lina Prasmickaite3, Gunhild M. Mælandsmo3

1Frumulíffræði og sameindameinafræði meinafræðideildar Landspítala, 2Lífvísindasetri læknadeildar Háskóla Íslands, 3Department of Tumor Biology, Institute for Cancer Research, Oslo University Hospital, 4Faculty of Medicine, Oslo University, 5Department of Circulation and Medical Imaging, NTNU, Norway, 6rannsóknastofu í stofnfrumufræði, Háskóla Íslands

bylgjahi@landspitali.is

Inngangur: Brjóstakrabbamein er algengasta tegund krabbameins hjá íslenskum konum. Í krabbameinsmeðferð er erfiðast að eiga við meinvörp og þau eru í flestum tilfellum það sem dregur sjúkling til dauða. Ein stærsta áskorunin við meðhöndlun krabbameina er eiginleiki krabbameinsfrumna að laga sig að breyttum aðstæðum, mynda þol við krabbameinsmeðferð og mynda meinvörp. Rannsóknir benda til að ferli sem nefnist bandvefsumbreyting þekjufrumna (epithelial to mesenchymal transition, - EMT) leiki stórt hlutverk í öllum þessum þáttum.

Markmið: Í þessari rannsókn var markmiðið að rannsaka bandvefsumbreytingu krabbameinsfrumna sem einn af orsakaþáttum þess að frumur mynda meinvörp og þol við krabbameinsmeðferð og þannig leita nýrra leiða til að miða meðferð sérstaklega að þessum frumum. Í þeim rannsóknum höfum við fundið gen, phospholipaseD2(PLD2), sem samkvæmt okkar niðurstöðum hefur bein áhrif á bandvefsumbreytingu þekjufrumna. Þekkt er að PLD2 próteinið hefur áhrif á marga boðferla ferla í frumum, það m.a. virkjar mTOR boðferilinn sem hefur bein áhrif á vöxt frumna og PLD2 gegnir einnig mikilvægu hlutverki í choline efnaskiptaferlum.

Aðferðir: PLD2 var yfirtjáð og slegið niður með CRISPR aðferðinni og áhrif á svipgerð brjóstafrumulína skoðuð. Einnig voru áhrif þöggunar/hindrunar PLD2 á frumur með mismunandi svipgerð skoðuð.

Niðurstöður: Niðurstöður okkar sýna að PLD2 hefur hærri tjáningu í þekjuvefsfrumum en bandvefsfrumum í millifrumuefni í eðlilegum brjóstavef. Einnig að frumulínur með þekjuvefssvipgerð tjá meira af PLD2 en frumulínur með bandvefssvipgerð (mesenhycmal-like). Í þessari rannsókn var CRISPR aðferðarfræðin notuð til að slá niður PLD2 í þekjufrumum og yfirtjá PLD2 í bandvefslíkri frumulínu. Niðurstöður okkar benda til að tjáning PLD2 hafi bein áhrif á bandvefsumbreytingu þekjufrumna þar sem há tjáning PLD2 stýrði frumum í átt að þekjuvefssvipgerð, en niðursláttur á PLD2 olli bandvefsumbreytingu í þekjufrumum. Einnig var tjáning PLD2 hindruð með siRNA og virkni PLD2 hindruð með lyfjahindra. Hindrun á PLD2 hefur meiri áhrif á lifun frumna með bandvefssvipgerð en frumur með þekjuvefssvipgerð.

Ályktun: Niðurstöður okkar benda til að PLD2 tjáning stýri að hluta bandvefsumbreytingu brjóstafrumna, ferli sem gegnir lykilhlutverki í lyfjaþoli krabbameina. Frumur með bandvefsvipgerð eru viðkvæmari fyrir PLD2 hindrun sem bendir til þess að PLD2 gæti verið áhugavert lyfjamark.

11. Áhrif alvarlegra fylgikvilla á tengsl milli bráðs nýrnaskaða og lifunar eftir kransæðahjáveituaðgerð

Daði Helgason1, Sólveig Helgadottir2, Runólfur Pálsson1,3, Martin I. Sigurðsson4,5, Ólafur S. Indriðason3, Tómas Guðbjartsson5,6

1Lyflækningum, Landspítala, 2Department of Anesthesia and Intensive Care, Akademiska University Hospital, 3nýrnalækningum, Landspítala, 4svæfinga- og gjörgæslulækningum, Landspítala, 5Háskóla Íslands, 6hjarta- og lungnaskurðlækningum, Landspítala

dadihelg@landspitali.is

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) eftir kransæðahjáveituaðgerð hefur verið tengdur við verri lifun.

Markmið: Að meta áhrif alvarlegra fylgikvilla á tengsl milli BNS og skamm- og langtíma lifunar eftir kransæðahjáveituaðgerð.

Aðferðir: Þetta var afturskyggn rannsókn á öllum kransæðahjáveituaðgerðum sem gerðar voru á Íslandi á árunum 2001-2013. BNS var skilgreindur samkvæmt KDIGO skilmerkjum. Til alvarlegra fylgikvilla töldust hjartadrep, enduraðgerð, heilaslag, miðmætisbólga, bringubeinslos, brátt andnauðarheilkenni og fjölkerfabilun. Sjúklingum var skipt í fjóra hópa: sjúklingar sem fengu BNS með/án alvarlegra fylgikvilla og sjúklingar sem ekki fengu BNS með/án alvarlegra fylgikvilla. Kaplan-meier aðferð (log-rank) var notuð til að meta lifun og lógistísk aðhvarfsgreining til að meta forspárþætti 30 daga lifunar. Forspárþættir langtíma lifunar voru metnir hjá sjúklingum án alvarlegra fylgikvilla með Cox aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Af 1710 sjúklingum fengu 184 (11%) BNS eftir aðgerð. BNS sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla í 21% tilvika samanborið við 10% hjá þeim sem ekki fengu BNS (p<0,001). Langtíma lifun sjúklinga með BNS var verri en þeirra sem ekki fengu BNS (p<0,001). Þegar leiðrétt hafði verið fyrir aldri og fylgisjúkdómum voru sjúklingar með BNS og alvarlega fylgikvilla (ÁH = 30,3, 95% ÖB = 9,1-105,8) og sjúklingar án BNS en með alvarlega fylgikvilla (ÁH = 11,6, 95% ÖB = 4,2-34,9) í aukinni hættu á að deyja innan 30 daga frá aðgerð en áhætta sjúklinga með BNS en án alvarlegra fylgikvilla var ekki marktæk (ÁH 3,5, 95% ÖB = 0.8-13.3). BNS tengdist ekki marktækt verri 5 ára lifun (ÁH = 1,4, 95% ÖB = 0,8-2,4) en þegar allur eftirfylgdartíminn var skoðaður (miðgildi 6 ár) spáði BNS fyrir um verri lifun (ÁH = 1,6, 95% ÖB (1,1-2,2).

Ályktun: BNS tengist verri lifun eftir kransæðahjáveituaðgerð. Hins vegar virðast tengslin skýrast að miklu leyti af öðrum alvarlegum fylgikvillum, sérstaklega hvað varðar skammtíma lifun.

12. Heilkenni barnabiksásvelgingar (meconium aspiration syndrome) á Íslandi árin 1977-2018

Edda Lárusdóttir1, Hildur Harðardóttir1,3, Jurate Ásmundsson4, Þórður Þórkelsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 3kvenna- og barnaþjónustu Landspítala, 4meinafræðideild Landspítala

edl4@hi.is

Inngangur: Heilkenni barnabiksásvelgingar (HBBÁ) er lungnasjúkdómur nýbura sem getur komið til losi fóstrið barnabik í legvatn og ásvelging verði í kjölfarið. Sjúkdómurinn getur valdið öndunarbilun, lungnaháþrýstingi og dauða. HBBÁ er algengast meðal fullburða barna og hefur tengsl við lengda meðgöngu. Rannsóknir hafa bent til tengsla HBBÁ við súrefnisþurrð í móðurkviði. Talið er að langvarandi súrefnisþurrð geti valdið þykknun á vöðvalagi lungnaslagæða sem geti stuðlað að lungnaháþrýstingi eftir fæðingu.

Markmið: Að kanna faraldsfræði HBBÁ frá stofnun Vökudeildar og að meta þróun alvarleika, meðferðar og dánartíðni. Einnig að kanna tengsl við merki um súrefnisþurrð í móðurkviði.

Aðferðir: Afturskyggn, lýsandi rannsókn, að hluta til tilfella-viðmiðarannsókn. Í tilfellahópi voru fullburða börn sem fengu greininguna barnabiksásvelging borin saman við fjögur fullburða börn af Vökudeild. Upplýsingar fengust úr Vökudeildarskrá, sjúkraskrám og vefjasýnasafni meinafræðideildar. Samanburður var gerður á klínískum breytum milli hópanna og milli fyrri og seinni helmings rannsóknartímabilsins. Fjölþáttagreining var gerð á hugsanlegum áhættu- og forspárþáttum.

Niðurstöður: 274 fullburða börn greindust með HBBÁ. Nýgengi var 1,5 á hver 1000 lifandi fædd börn, en árin 2005-2018 var það 0,8 (p<0,0001). Dánartíðni var 3,3% en ekkert dauðsfall varð eftir 1993. Meðgöngulengd ≥40 vikur, kvenkyn og Apgar <7 við 5 mín. voru meðal áhættu- og forspárþátta um sjúkdóminn. Fjöldi kyrndra rauðra blóðkorna hjá börnum sem fengu HBBÁ og þurftu öndunarvélameðferð var hærri en hjá viðmiðahópi (p=0,0001). Vöðvalag barna sem létust úr HBBÁ (n=5) mældist þykkara en hjá samanburðarhópi (p=0,0321).

Ályktanir: Lækkun á nýgengi HBBÁ hér á landi síðustu 15 ár er í samræmi við erlendar rannsóknir, en þar hefur hún verið rakin til bættrar fæðingarhjálpar og fyrri framköllun fæðinga. Niðurstöður um áhættuþætti fyrir HBBÁ eru í samræmi við erlendar rannsóknir, en að stúlkur séu líklegri til að greinast með HBBÁ kemur á óvart. Lágur Apgar og aukinn fjöldi kyrndra rauðra blóðkorna hjá börnum með HBBÁ auk þykkara vöðvalags í lungnaslagæðum barna sem létust með HBBÁ styðja að súrefnisskortur fyrir og í fæðingu sé mikilvægur þáttur í tilurð og alvarleika sjúkdómsins.

13. Kostnaðargreining á innleiðingu 10-gilds samtengds pneumókokkabóluefnis í bólusetningar barna á Íslandi

Elías Sæbjörn Eyþórsson1,2, Samúel Sigurðsson1, Birgir Hrafnkelsson3, Helga Erlendsdóttir1,4, Karl G. Kristinsson1,4, Ásgeir Haraldsson1,5

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningum, Landspítala, 3raunvísindadeild Háskóla Íslands, 4sýkla- og veirufræðideild, 5Barnaspítala Hringsins, Landspítala

elias.eythorsson@gmail.com

Inngangur: Heilbrigðiskerfið veitir aðgang að takmarkaðri auðlind sem dreifa þarf skynsamlega til samfélagsins. Ákvörðun um hvaða þjónustu skal veita byggir m.a. á kostnaði og ávinning. Bóluefni veita bæði þeim sem er bólusettur beina vörn en geta einnig veitt öðrum óbeina vörn á formi hjarðónæmis. Árið 2011 var 10-gilda samtengda pneumókokkabóluefnið (PCV10) innleitt í ungbarnabólusetningar á Íslandi.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta kostnað og ávinning pneumókokka-bólusetningar á Íslandi.

Aðferðir: Rannsóknin byggði á 6 lýðgrunduðum gagnagrunnum sem náðu til allra Íslendinga á árunum 2005-2015. Upplýsingum var safnað um allar komur á heilsugæslur og innlagnir á spítala vegna öndunarfærasýkinga og undirflokka ICD-10 greiningarkerfisins. Með þessum gögnum fylgdu sundurliðaðar kostnaðartölur fyrir hverja komu. Bayesian tímaseríulíkan var byggt til að spá hver fjöldi koma og innlagna vegna miðeyrnabólgna, lungnabólgna og ífarandi pneumókokkasýkinga hefði orðið árin 2011-2015, ef ekki hefði komið til PCV-10. Fjöldi tilfella sem PCV-10 kom í veg fyrir var metinn með því að draga fjölda mældra tilfella frá spámati líkansins. Áætlaður afstýrður kostnaður þessara tilfella var áætlaður með handahófsúrtaksnálgun á kostnaðardreifingu sambærilegra tilfella. Lokakostnaður af innleiðingu bóluefnisins var loks metinn með því að draga sparnað á formi afstýrðs kostnaðar, frá heildarkostnaði bóluefnisins. Allur kostnaður var umreiknaður í bandaríkjadollara á föstu verðlagi 2015.

Niðurstöður: Innleiðing PCV-10 kom í veg fyrir 13,767 tilfelli miðeyrnabólgu, 1,814 spítalainnlagnir vegna lungnabólgu og 53 innlagnir vegna ífarandi pneumókokkasýkingar á tímabilinu 2011-2015. Miðeyrnabólgum fækkaði bæði hjá bólusettum börnum og óbólusettum börnum 5-19 ára, og innlögnum vegna lungnabólgu fækkaði hjá óbólusettum fullorðnum. Heildarkostnaður vegna bóluefnisins á tímabilinu var 3,451,805$. Afstýrður kostnaður vegna miðeyrnabólgutilfella sem PCV-10 kom í veg fyrir var 1,389,900$ (95% öryggisbil 704,319$ til 2,201,925$). Afstýrður kostnaður innlagna vegna lungnabólgu var 13,330,902$ (95% öryggisbil 2,933,955$ til 26,270,332$) og var 673,008$ (95% öryggisbil -189,654$ til 2,081,594$) vegna ífarandi pneumókokkasýkinga. Lokakostnaður samfélagsins af innleiðingu PCV-10 -7,463,176$ (95% öryggisbil -16,159,551$ til -582,135$) í lok desember 2015.

Ályktun: Tilfellum algengra birtingarmynda pneumókokkasýkinga fækkaði eftir upphaf PCV-10 bólusetningar hjá bæði bólusettum og óbólusettum, og hjarðónæmisáhrif voru greinileg. Að teknu tilliti til afstýrðs kostnaðar vegna minni notkunar á heilbrigðisþjónustu var lokakostnaður samfélagsins vegna innleiðingar PCV-10 neikvæður. Samfélagið sparaði -7,463,176$ með innleiðingu bóluefnisins.

14. Heilkornaneysla snemma á meðgöngu, styrkur alkylresorcinols í blóðvökva og meðgöngusykursýki

Ellen Alma Tryggvadóttir1, Laufey Hrólfsdóttir2, Þórhallur I. Halldórsson1, Bryndís Eva Birgisdóttir1, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir3, Óla Kally Magnúsdóttir1,4, Hildur Harðardóttir1, Rikard Landberg5, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,4

1Háskóla Íslands, 2Sjúkrahúsinu á Akureyri, 3kvenna- og barnaþjónustu Landspítala, 4næringarstofu Landspítala, 5Chalmers University of Technology, Svíþjóð

eat2@hi.is

Inngangur: Heilkorn er ríkuleg uppspretta ýmissa næringarefna, til dæmis fæðutrefja. Þó rannsóknum beri ekki öllum saman, þá eru vísbendingar um að heilkornaneysla á meðgöngu tengist minnkuðum líkum á að greinast með meðgöngusykursýki.

Markmið: Að bera saman tíðni heilkornaneyslu og styrk lífvísis (e. biomarker) fyrir heilkornaneyslu (alkylresorcinols í blóðvökva) snemma á meðgöngu hjá konum sem síðar greindust með meðgöngusykursýki og þeim sem greindust ekki. Tíðni heilkornaneyslu var einnig borin saman við ráðleggingar frá Embætti landlæknis um daglega neyslu tveggja skammta af heilkornaafurðum.

Aðferðir: Þátttakendur voru barnshafandi konur (n=756) sem mættu í fósturskimun við 11.-14. viku meðgöngu, á tímabilinu október 2017 - mars 2018. Neysla afurða úr heilkorni var áætluð með rafrænum fæðutíðnispurningarlista. Blóðsýni voru tekin og blóðvökvasýni geymd í frysti við -80°C þar til þau voru send erlendis til mælinga á styrk alkylresorcinols. Upplýsinga um greiningar á meðgöngusykursýki var aflað úr sjúkraskrá.

Niðurstöður: Meðgöngusykursýki greindist hjá 118 konum (15,6%). Um 15% þátttakenda fylgdu ráðleggingum frá Embætti landlæknis um neyslu tveggja skammta af heilkornaafurðum á dag. Tíðni heilkornaneyslu var lægri hjá konum sem greindust með meðgöngusykursýki borið saman við konur sem ekki greindust með meðgöngusykursýki (miðgildi: 5 sinnum í viku miðað við 6 sinnum í viku, p=0,02). Þessi munur í heilkornaneyslu á milli hópa endurspeglaðist í lægra miðgildi styrks alkylresorcinols í blóðvökva kvenna sem greindust með meðgöngusykursýki samanborið við konur sem ekki greindust (164 nmol/L miðað við 209 nmol/L, p=0,008).

Ályktun: Neysla á heilkorni er almennt lítil meðal þátttakenda í rannsókninni. Niðurstöðurnar benda til þess að æskilegt sé að hvetja barnshafandi konur til að auka neyslu sína á heilkornum í takt við ráðleggingar frá Embætti landlæknis.

15. Andleg líðan og notkun á heilbrigðisþjónustu meðal sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki

Erla Svansdottir1, Kristín E. Rögnvaldsdóttir2, Hróbjartur D. Karlsson3, Jón F. Sigurðsson2, Karl Andersen4,5

1Geðþjónustu Landspítala, 2Háskóla Reykjavíkur, 3Spitalzentrum, Biel, Sviss, 4hjarta- og æðaþjónustu Landspítala, 5heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

erlasvan@landspitali.is

Inngangur: Hjartasjúkdómar eru meðal algengustu dánarorsaka í heiminum í dag. Eitt vel þekkasta einkenni hjartasjúkdóma eru brjóstverkir eða óþægindi fyrir brjósti. Af þeim sökum geta slík einkenni vakið áhyggjur meðal fólks og eru metin vandlega af heilbrigðisstarfsmönnum. Hins vegar leitar fjöldi fólks árlega á hjartagátt vegna ótilgreindra brjóstverkja sem ekki stafa af hjartasjúkdómum, heldur orsakast af vefrænum eða sálrænum þáttum. Sálrænir þættir geta haft áhrif á túlkun eða upplifun á brjóstverkjum og ýtt undir aukna notkun á heilbrigðisþjónustu.

Markmið: Þessi rannsókn metur tengsl sálfræðilegra þátta við a) fjölda koma vegna ótilgreindra brjóstverkja á Landspítala, og b) fjölda samskipta við heilsugæslu.

Aðferð: Þátttakendur í rannsókninni voru 390 sjúklingar (18-65 ára, M=52 ±11 ár) sem fengu greiningu á ótilgreindum brjóstverk á Hjartagátt eða Bráðamóttöku Landspítala Fossvogi. Alls 75% þátttakenda höfðu ekki fyrri sögu um kransæðasjúkdóm (þ.e. sjúklingar með ótilgreinda brjóstverki) og 25% voru með fyrri greiningu á hjartasjúkdóm (þ.e. hjartasjúklingar). Haft var samband við þátttakendur 1-8 mánuðum eftir útskrift og þeir beðnir að svara spurningalistum sem meta ýmsa sálræna þætti. Upplýsingum um heilsufar og notkun á heilbrigðisþjónustu, frá 5 árum fyrir komu á Landspítala til 1 ári eftir útskrift, var aflað úr sjúkraskrá.

Niðurstöður: Alls 92% þátttakenda höfðu leitað á Landspítala með ótilgreinda brjóstverki. Af þeim áttu 24% hjartasjúklinga og 34% sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki tvær eða fleiri komur á Landspítala vegna slíkra ótilgreinda brjóstverkja. Hærri fjöldi koma vegna ótilgreindra brjóstverkja hafði jákvæða fylgni við líkamleg einkenni (r=0,42), þunglyndi (r=0,40), heilsukvíða (r=0,22) og fjölda samskipta við heilsugæslu (r=0,20) meðal hjartasjúklinga; og tengsl við líkamleg einkenni (r=0,22), kvíða (r=0,15), heilsukvíða (r=0,33) og fjölda samskipta við heilsugæslu (r=0,20) meðal sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki. Í línulegri aðfallsgreiningu þar sem stjórnað var fyrir áhrifum aldurs, kyns og annara sálrænna þátta, reyndist þunglyndi (β=0,34, p<0,05) og líkamleg einkenni (β=0,38, p<0,05) meðal hjartasjúklinga og heilsukvíði (β=0,30, p<0,05) og líkamleg einkenni (β=0,23, p<0,05) meðal sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki hafa tengsl við fjölda koma vegna ótilgreindra brjóstverkja á Landspítala.

Ályktanir: Fjöldi koma vegna ótilgreindra brjóstverkja á Landspítala hafði tengsl við ýmsa sálræna þætti meðal bæði hjartasjúklinga og sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki. Þunglyndiseinkenni meðal hjartasjúklinga og heilsukvíði meðal sjúklinga með ótilgreinda brjóstverki virðast sérstaklega tengjast aukinni notkun á heilbrigðisþjónustu þessara sjúklinga, og þá bæði á Landspítala og á heilsugæslu.

16. Erfðafræði arfbundinnar kólesterólhækkunar á Íslandi

Eyþór Björnsson1,2,3, Guðmundur Þorgeirsson1,3, Karl Andersen1,2, Daníel F. Guðbjartsson2,3, Hilma Hólm3, Unnur Þorsteinsdóttir2,3, Patrick Sulem3, Kári Stefánsson2,3

1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Íslenskri erfðagreiningu

eythor.bjoernsson@gmail.com

Inngangur: Arfbundin kólesterólhækkun (e. familial hypercholesterolemia, FH) er erfðasjúkdómur sem einkennist af hárri þéttni LDL-kólesteróls í blóði og getur valdið snemmkomnum kransæðasjúkdómi og dauða. Stökkbreytingar í þremur genum valda FH: LDLR, APOB og PCSK9. Áætlað hefur verið að 1 af hverjum 500 einstaklingum hafi FH en nýlegar rannsóknir benda til þess að algengið geti verið allt að tvöfalt hærra.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á algengi og heilsufarslegar afleiðingar FH á Íslandi með því að rannsaka FH stökkbreytingar meðal 166 þúsund Íslendinga.

Aðferðir: Skimað var fyrir þekktum FH stökkbreytingum meðal 166 þúsund Íslendinga sem höfðu verið arfgerðargreindir, þar af höfðu 50 þúsund verið raðgreindir. Víðtækar svipgerðarupplýsingar í gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar voru notaðar til þess að rannsaka tengsl FH við mæligildi í blóði, notkun blóðfitulækkandi lyfja og áhættu á sjúkdómum.

Niðurstöður: Við fundum 20 stökkbreytingar sem valda FH á Íslandi. Samanlagt algengi þeirra var 0.12% eða 1 af hverjum 840. Einstaklingar með FH stökkbreytingu (n=199) voru að meðaltali með mun hærra LDL-kólesteról í blóði (leiðréttur munur, +3,37 mmól/l; P<0,0001) og fimmfalt líklegri til að hafa fengið snemmkominn kransæðasjúkdóm (OR, 5,14; P<0,0001). Arfberar FH stökkbreytinga voru að meðaltali 8,4 árum yngri við greiningu kransæðasjúkdóms (P<0,0001) og lifðu að jafnaði skemur (P<0,0066) en þeir sem ekki bera FH stökkbreytingar. Þrír af hverjum fjórum arfberum höfðu fengið ávísað statínum á tímabilinu 2003-2018 en aðeins um helmingur fengið statín af háum styrkleika. Aðeins 1 af hverjum tíu náði markmiði um LDL-kólesteról lægra en 2,6 mmól/l (klínískar leiðbeiningar ESC frá 2016) og enginn lægra en 1,8 mmól/l (klínískar leiðbeiningar ESC frá 2019) við síðustu blóðfitumælingu.

Ályktun: Arfbundin kólesterólhækkun er vangreindur og undirmeðhöndlaður sjúkdómur á Íslandi. Brýnt er að bæta greiningu, meðhöndlun og eftirlit með einstaklingum með þennan sjúkdóm hér á landi.

17. Áhrif hitastigs á efnaskiptaferli í blóðflögum

Freyr Jóhannsson1, James T. Yurkovich2, Óttar Rolfsson1, Ólafur E. Sigurjónsson3,4

1Kerfislíffræðisetri Háskóla Íslands, 2Institute for Systems Biology, Seattle, 3verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, 4Blóðbankanum, Landspítala

oes@landspitali.is

Inngangur: Hitastig gegnir mikilvægu hlutverki í líffræði með því að hafa áhrif á virkni fruma, hraða efnahvarfa, byggingu sameinda og samspil þeirra. Þrátt fyrir að áhrif hitastigs á efnaskiptaferli sé ágætlega skilgreint in vitro, þá er áhrif hitastigs á efnaskiptaferli ekki eins vel skilgreint og er mikilvæg áskorun við að hámarka geymslu frumna og vefja við lægra hitastig.

Markmið: Hérna notuðum við time-course metabolomics gögn og kerfislíffræðilegar aðferðir til að greina áhrif hitastigs við geymslu á blóðflögum úr mönnum í geymslulausn.

Aðferðir: Við notuðum targeted time-course metabolomics greiningar á blóðflögueiningum sem geymdar voru við fjögur mismunandi hitastig (4°C, 13°C, 22°C og 37°C). Við samþættum þessi gögn inn í reiknilíkan sem lýsir breytingum í efnaskiptaferlum blóðflaga til að spá fyrir efnaskiptaflæði alls efnaskiptakerfisins og gátum þannig metið Q10 gildi fyrir einstök efnaskiptahvörf og efnaskiptaferla og greint breytingar við mismunandi hitastig.

Niðurstöður: Helstu niðurstöðurnar voru þær að breytingar í efnaskiptum fylgja ekki bara breytingum á hitastigi heldur sýna líka flóknar hitastigsháðar breytingar sem ekki fylgja Arrhenius-type. Með því að beita þessum aðferðum komumst við að því að efnaskiptaferli oxunar eru viðkvæmari fyrir hitastigsbreytingum heldur en t.d. glýkólýsa. Hins vegar virðist aukin glýkólýsa vera við lægra hitastig sem sjá má í aukinni myndun á ATP í glýkólýsu.

Ályktun: Þessar niðurstöður benda til þess að hægt sé að bæta gæði blóðflaga við geymslu við mismunandi hitastig með því að eiga við mismunandi efnaskiptaferla.

18. Sjúkraþjálfun á bráðamóttöku Landspítala

Guðbjörg Þóra Andrésdóttir, Þóra Björg Sigurþórsdóttir

Sjúkraþjálfun Landspítala

gthora@landspitali.is

Inngangur: Aðkoma sjúkraþjálfara á bráðamóttöku Landspítala (BMT) hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum í kjölfar skipulagsbreytinga. Stór þáttur í starfi sjúkraþjálfara BMT hefur verið að meta grófhreyfifærni og getu til útskriftar. Erlendis hafa sjúkraþjálfarar lengi verið starfandi á BMT, oftast sem 2. meðferðaraðili en sums staðar þróast sem fyrsti meðferðaraðili hjá sjúklingum með vægari stoðkerfisvanda.

Markmið: Tilgangur þessarar samantektar er að skoða hvers eðlis helstu verkefni sjúkraþjálfara á BMT eru og hvar áherslan liggur.

Aðferðir: Fengin voru gögn frá Hagdeild Landspítala. Skoðaðir voru ICPC (International Classification of Primary Care) kóðar þeirra einstaklinga sem sjúkraþjálfarar sinntu á BMT árið 2019. Rýnt var nánar í ICPC kóðann bakverkir/verkir í baki og hlutfall sem fékk sjúkraþjálfun var skoðað.

Niðurstöður: Sjúkraþjálfarar sinntu 445 komum á BMT 2019. Ríflega þriðjungur (172) útskrifaðist heim og 261 (59%) færðist á legudeild. Algengustu þrír ICPC kóðarnir voru bakverkir, fall eða bylta og slappleiki, en fáir í þessum flokkum (8 af 204) fengu fleiri en einn af þessum algengu kóðum. Sjúkraþjálfarar sinntu 67 með ICPC kóða bakverkir/verkur í baki sem var 3,5% af heildarfjölda með þessa flokkun á BMT. Heildarfjöldi þeirra sem komu á BMT og fengu flokkunina bakverkir/verkur í baki og síðan greininguna þjótak/mjóbaksverkur (ICD-54,3-54,5) var 235. Ellefu af þeim hittu sjúkraþjálfara. Tuttugu og tveir í bakverkjaflokknum fengu greininguna samfallsbrot(ICD-48.5) og hittu 3 þeirra sjúkraþjálfara á BMT.

Ályktanir: Markmið með aukinni aðkomu sjúkraþjálfara í þverfaglegu teymi á BMT er að nýta þekkingu og sérhæfingu þeirra til að bæta heildræna þjónustu við sjúklinginn. Vísbendingar eru um að stór hluti aðkomu sjúkraþjálfara tengist eldri einstaklingum og mati á færni, en leiðbeiningar og fræðsla til dæmis til einstaklinga með bráða stoðkerfisverki í baki, sé þáttur sem mætti efla. Áhugavert væri að skoða ferli beiðna til sjúkraþjálfara og hvort allar beiðnir skili sér. Einnig hvað ræður beiðni um aðkomu sjúkraþjálfara í ákveðnum tilfellum, svo sem þegar um bakverk er að ræða. Samkvæmt ofangreindum tölum eru sjúkraþjálfarar að hitta hlutfallslega fáa einstaklinga með þjótak/mjóbaksverk (ICD-5,3-54,3) þar sem sérfræðiþekking sjúkraþjálfara varðandi næstu skref í meðferðinni getur nýst vel.

19. Útskriftarvandi Landspítalans – leit að lausnum

Guðfríður Hermannsdóttir1, Sigurveig H Sigurðardóttir2

1Aðgerðasviði Landspítala, 2Háskóla Íslands

gudfridu@landspitali.is

Inngangur: Landspítali glímir við flæði- og útskriftarvanda þar sem ekki er hægt að útskrifa aldraða sjúklinga vegna skorts á ytri úrræðum. Útskriftarvandi veldur álagi á starfsemi spítalans og starfsmenn hans, ásamt því að biðtími eftir viðeigandi úrræðum getur haft alvarlegar afleiðingar á heilsu aldraðra. Einnig hindrar þetta ástand umönnun annarra bráðveikra sem þurfa á plássinu að halda og því er brýn nauðsyn á úrbótum.

Markmið: Greina útskriftarvanda Landspítala, hver áhrif hans eru og hvaða lausnir eru vænlegar til að greiða úr vandanum.

Aðferðir: Notast var við lýsandi eigindlega rannsóknaraðferð í formi viðtala og greiningu þeirra. Viðtöl voru tekin við sex starfsmenn Landspítala sem hafa reynslu af útskriftarmálum.

Niðurstöður: Útskriftarvandinn veldur álagi og hindrunum á flæði sjúklinga og margir hnökrar í ferlinu komu í ljós. Innan spítalans er oft of seint hugað að útskrift og uppvinnslu á aðstæðum aldraðra sjúklinga getur verið ábótavant. Utan spítalans er skortur á úrræðum, samstillingu og sveigjanleika. Starfsmenn finna fyrir álagi, kvíða, lýjandi samskiptum og uppgjöf þegar kemur að útskriftarmálum. Að mati þeirra finna aldraðir sjúklingar fyrir kvíða vegna óvissunnar og biðtíminn er skaðlegur heilsu þeirra og færni. Aðstandendur eru einnig margir ráðþrota en vilja öryggi fyrir sinn nánasta. Fjölga þarf úrræðum utan Landspítala, efla það sem er til nú þegar og samþætta þjónustuna.

Ályktanir: Útskriftarvandi Landspítala hefur víðtæk og neikvæð áhrif á starfsemi spítalans, starfsmenn hans, sjúklinga og aðstandendur þeirra. Mikilvægt er að mynduð sé heildræn stefna í málefnum aldraðra og að henni sé fylgt eftir með skýrum hlutverkum þeirra sem að þjónustunni koma, utan og innan spítalans. Þannig er hægt að koma á eðlilegu flæði sjúklinga sem eru útskriftarhæfir af spítalanum í úrræði sem betur henta fyrir þá.

20. Notendahugbúnaður í endurhæfingu: Frá raðtölum í mælitölur

Guðrún Árnadóttir1,2, Garðar Ingvarsson3, Helgi Sigtryggsson4, Bjarni Ármann Atlason5

1Meðferðarsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3tölvunarfræðideild Cambridge-háskóla, 4raunvísindadeild Háskóla Íslands, 5Stem Cell and Regenerative Biology, Harvard háskóla

gudrunar@landspitali.is

Inngangur: Í dag telst ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt að nota mæligildi við að meta árangur endurhæfingar. Flest matstæki innan endurhæfingar byggja á raðkvörðum sem hafa ekki mælieiginleika. Iðjumatstækið „ADL-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation“ (A-ONE) er notað af iðjuþjálfum hérlendis og erlendis til að meta áhrif taugaeinkenna á framkvæmd iðju. Fyrri rannsóknir á matstækinu með Rasch greiningu sýna að mögulegt er að umbreyta raðkvarðastigum þess í mælieiningar með notkun umbreytingartöflu. Slíkt krefst þó bæði sérþekkingar iðjuþjálfa og aukinnar vinnu. Reynslan af notkun Rasch greindra matstækja í endurhæfingu sýnir, samkvæmt heimildum, að skriflegur möguleiki á umbreytingu stiga sé ekki nýttur klínískt sem skildi. Því væri mikill kostur ef hægt væri að útbúa notendavænan hugbúnað til að skrásetja raðkvarðastig A-ONE og umbreyta þeim í mælitölur. Nýrri A-ONE matsgögn bjóða upp á stærra greiningarúrtak, samanburð við fyrri umbreytingatöflu og uppfærslu mæligilda.

Markmið: Annars vegar að endurskoða áreiðanleika umbreytingatöflu ADL kvarða A-ONE með stærra úrtaki en í fyrri rannsókn. Hins vegar að hanna tímasparandi notendavænan hugbúnað byggðan á niðurstöðum áreiðanleika rannsóknarinnar fyrir skráningu A-ONE upplýsinga, umbreytingu raðkvarðastiga matstækisins í mæligildi og skýrslugerð með Nýsköpunarstyrk frá RANNÍS (no. 206546-0091).

Aðferðir: Rasch greining með WINSTEPS 4.6.1 var notuð til að fá fram umbreytingatöflu stiga fyrir 492 einstaklinga. Taflan var borin saman við mæligildi og mælivillur (SEM) fyrir allar hrátölur (1-60) eldri töflunnar með viðmiðinu ≥0,5 logit fyrir marktækni mismunar mæligilda. Einnig var t-próf notað til að kanna marktækni mismunarins. Áætlað var að nýta uppfærðu mæligildin við gerð notendahugbúnaðar fyrir umbreytingu stiga. Forritið tæki tillit til samruna stiga og útreikninga fyrir brottfall mæligilda, auk þess að reikna út marktækni mæligildamismunar við árangursmat. Niðurstöður reiknilíkana forritsins voru bornar saman við skriflega útreikninga á mæligildum.

Niðurstöður: Mismunur mæligilda fyrir sérhvert atriði var ≤0,21 logit. t-próf sýndi einnig ómarktækan mun milli mæligilda úrtakanna tveggja. Nýrri tafla stækkaðs úrtaks var notuð við hugbúnaðargerðina vegna meiri áreiðanleika hennar. Mæligildi skriflegra útreikninga reyndust sambærileg við niðurstöður forritsins.

Ályktun: Forritið býður upp á umtalsverðan vinnusparnað fyrir iðjuþjálfa sem nota A-ONE og notkun mælieininga til að meta árangur beint út frá tölfræðilegri marktækni, en útreikningur mæligildanna hefur hingað til verið þrándur í götu klínískra iðjuþjálfa.

21. Lýsandi sjúkraskrárrannsókn á hjartveikum börnum á gjörgæsludeildum Landspítala á árunum 2011-2018

Gunnhildur Viðarsdóttir1, Ólöf Kristjánsdóttir1, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala

guv19@hi.is, gkrist@hi.is

Inngangur: Meðfæddir hjartagallar eru algengustu meðfæddu gallarnir sem greinast í börnum. Erlendar rannsóknir sýna að hlutfall nýbura sem fæðast með hjartagalla sé um 1% en hér á landi hefur það verið um 1,1-1,7%. Rannsóknir hafa verið gerðar á nýgengi og greiningu meðfæddra hjartagalla á Íslandi, en engar frekari rannsóknir hafa verið gerðar á þessum hóp þar sem skoðað er hvaða börn með meðfæddan hjartagalla leggjast inn á gjörgæsludeildir á Íslandi.

Markmið: Markmið var að kortleggja fjölda innlagðra barna með meðfæddan hjartagalla á gjörgæsludeildir Landspítala, legutíma á gjörgæslu, alvarleika veikinda, tegund veikinda og afdrif barnanna.

Aðferð: Notast var við afturskyggnt rannsóknarsnið þar sem skoðaðar voru innlagnir hjartveikra barna á gjörgæsludeildir Landspítala á árunum 2011-2018 og þeim lýst út frá alþjóðlegum viðmiðunum um innlagnir barna á gjörgæsludeild.

Niðurstöður: Alls lögðust inn 33 börn með meðfæddan hjartagalla í 38 innlögnum á gjörgæsludeildir Landspítala á tímabilinu. Meðalaldur var 3,5 ár og börnin voru frá 10 daga upp í 17 ára gömul. Flestar innlagnir voru á aldursbilinu 0-12 mánaða (15). Fjöldi innlagðra stúlkna var 22 (58%) og bráðainnlagnir voru 19 (50%). Meðallegutími var 4,5 sólarhringar þar sem stysti legutími var hálfur sólarhringur en lengsti legutími 38,1 sólarhringur. Aðeins tvær innlagnir voru á gjörgæsluna í Fossvogi. Fjögur börn (10,5%) létust. PRISM III mælitækið var notað til að meta alvarleikastig veikinda þar sem hærra stig merkir alvarlegri veikindi. Meðaltal PRISM gilda þeirra barna sem létust var 20,8 en meðaltal PRISM gilda þeirra sem lifðu af var 6,4. Fjöldi barna sem fór í hjartaaðgerð á Landspítala á tímabilinu var 21 (55,3%). Öndunarvélameðferð var veitt í 29 tilfellum og meðaltímalengd öndunarvélameðferða var 2,8 sólarhringar.

Ályktanir: Þegar börn með meðfæddan hjartagalla leggjast inn á gjörgæslu þurfa þau flókna og sérhæfða hjúkrunarmeðferð. Þessar upplýsingar gefa okkur vísbendingu um stöðu hjartveikra barna á landsvísu og geta nýst til að efla þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á veikindum og helstu hjúkrunarþörfum barna með meðfæddan hjartagalla. Að auki nýtist sú þekking til að bæta þjónustu við foreldra þessara barna.

22. Algengi augnþurrks meðal sjúklinga á bráðalyflækningadeild Landspítala

Helga Rut Steinsdóttir1, Freyja Jónsdóttir1,4, Gunnar Már Zoega2,4, Björn Guðbjörnsson3,4

1Lyfjaþjónustu, 2augnlækningum, 3rannsóknastofu í gigtarsjúkdómum, Landspítala, 4heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

freyjaj@landspitali.is

Inngangur: Augnþurrkur er algengt fyrirbæri, sérlega meðal eldri einstaklinga. Aðalorsakir augnþurrks eru skert gæði tárafilmu sem orsakast meðal annars af táraskorti eða umfram uppgufun tára. Augnþurrkur tengist mörgum sjúkdómum, t.d. bólgusjúkdómum, hormónaójafnvægi og umhverfisaðstæðum. Vel þekkt er að mörg altæk lyf geta valdið augnþurrki t.d. lyf með andkólínerga virkni.

Markmið: Að kanna algengi augnþurrks meðal sjúklinga á bráðalyflækningadeild Landspítalans, og að meta hvort algengi augnþurrks sé hærra meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð og þá hvaða lyfjaflokkar hafa tengsl við augn- og munnþurrk. Einnig voru könnuð tengsl við aldur, kyn og sjúkdómaflokka.

Aðferðir: Framskyggn lýsandi rannsókn meðal einstaklinga á aldursbilinu 18-85 ára sem lögðust inn á tímabilinu 5. desember 2019 til 9. mars 2020 á bráðalyflækningardeild (A2). Rannsóknargögn samanstóðu af stöðluðum heilsufarsupplýsingum úr sjúkraskrám, ásamt upplýsingum um lyfjanotkun sjúklinga. Staðlaðir spurningalistar með tilliti til einkenna augnþurrks (OSDI: Ocular Surface Disease Index) og sex spurningar til greiningar á Sjögrens heilkenni voru lagðir fyrir þátttakendur rannsóknarinnar í stöðluðu viðtali. Schirmer-I próf var framkvæmt til mats á táraframleiðslu.

Niðurstöður: 100 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni (53% konur), en 12 sjúklingar voru útilokaðir vegna óáreiðanlegs Schirmer-I prófs. Rúmlega helmingur sjúklinga eða 51,2% sjúklinga upplifði einkenni augnþurrks samkvæmt OSDI spurningalista og 57,9% sjúklinga var með óeðlilegt Schirmer-I próf. Algengi augnþurrks meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð var einnig hærra samanborið við sjúklinga sem ekki voru á fjöllyfjameðferð (61% vs 36,4%). Flestir sjúklingar sem upplifðu einkenni augnþurrks og voru með óeðlilegt Schirmer-I próf tóku lyf úr lyfjaflokkum G (þvagfæra-, kvensjúkdómalyf og kynhormónar) og N (tauga- og geðlyf). Algengi augnþurrks var hærra meðal eldri sjúklinga (≥50 ára) (59,7% vs 40,3%) og einnig meðal kvenna (60,4% vs 55%).

Ályktun: Algengi augnþurrks er hátt á bráðalyflækningadeild spítalans þar sem flestir sjúklingar eru fjölveikir og á fjöllyfjameðferð. Sjúklingar sem nota lyf að staðaldri eru líklegri til þess að upplifa einkenni augn- og munnþurrks. Mikilvægt er að huga að þessum einkennum meðan á dvöl sjúklinga á sjúkrahúsum varir.

23. Bráður nýrnaskaði í kjölfar bæklunarskurðaðgerða 2006 – 2018: Nýgengi, áhættuþættir og horfur sjúklinga

Helga Þórsdóttir1,2, Þórir Einarsson Long3, Ólafur Skúli Indriðason1,3, Runólfur Pálsson1,3, Martin Ingi Sigurðsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæslulækningum, 3lyflækningum, Landspítala

helga.thorsdottir29@gmail.com

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er skyndileg skerðing á nýrnastarfsemi sem getur orðið í kjölfar bráðra veikinda, skurðaðgerða eða annarra inngripa. Markmið þessarar rannsóknar var að reyna að varpa ljósi á umfang BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða á Landspítala, sjúklinga-og aðgerðatengda þætti sem tengjast BNS og tengsl BNS við horfur eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk ferilrannsókn sem náði til allra bæklunarskurðaðgerða sem fram fóru á Landspítala 2006–2018 hjá 18 ára og eldri, þar sem til voru kreatínínmælingar fyrir og eftir aðgerð. Gögn um einstaklingana fengust úr íslenska aðgerðargrunninum sem tekur saman rafræn heilsufarsgögn í tengslum við skurðaðgerðir. Munur milli þeirra sem fengu BNS og ekki á tímabilinu var skoðaður með einbreytugreiningu og logistískri aðhvarfsgreiningu. Gerð var Poisson aðhvarfsgreining til að kanna breytingar í nýgengi og logistísk aðhvarfsgreining til að meta áhættuþætti fyrir BNS. Tengsl BNS við lifun voru metin með Kaplan-Meier lifunargrafi og cox aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengu 222 af 3208 (6,9%) BNS. Nýgengi BNS jókst um 17% á ári. Sjúklingatengdir þættir sem tengdust BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða voru aldur, karlkyn og skert nýrnastarfsemi. Þættir sem tengdust auknum dánarlíkum í kjölfar bæklunarskurðaðgerðar voru BNS, aldur, kyn, alvarlegasta stig nýrnaskerðingar fyrir aðgerð (rGSH<15 mL/mín/1,73m2), bráðaaðgerð, ASA-skor III og IV, Elixhauser sjúkdómsþyngdar >8 og hátt hrumleikastig.

Ályktanir: Aukning hefur orðið í nýgengi BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða. BNS tengist verri skamm- og langtímahorfum og auknum dánarlíkum. Mögulega kann þéttara eftirlit og eftirfylgd sjúklinga með aukna áhættu á BNS að vera gagnleg.

24. Lifrarskaði af völdum krabbameinlyfja. Lýðgrunduð rannsókn

Helgi Kristinn Björnsson1,2, Ásgerður Sverrisdóttir1, Einar Stefán Björnsson1,2

1Lyflækningum, Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

helgikrh@landspitali.is

Inngangur: Lifrarskaði af völdum lyfja (Drug-induced liver injury, DILI) er sjaldgæf aukaverkun, en flest lyf valda lifrarskaða hjá 1:1000-1:100.000 sjúklinga sem taka inn tiltekið lyf. Fjöldi krabbameinslyfja hefur verið tengdur við lifrarskaða en skortur er á gögnum varðandi hættu á lifrarskaða í þessum sjúklingahóp.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta tíðni lifrarskaða af völdum krabbameinslyfja í lýðgrunduðu þýði.

Aðferðir: Leit var framkvæmd í gagnagrunni Krabbameinsskrár að einstaklingum greindum á árunum 2007-2018 með 4.stigs blöðruhálskirtilskrabbamein (C61), eistnakrabbamein (C62), nýrnakrabbamein (C64), þvagvegakrabbamein (C65,C66,C67), brjóstakrabbamein (C43) eða 4.stigs sortuæxli (C50). Kennitölur sjúklinga voru samkeyrðar við rannsóknagagnagrunna Landspítala og SAK. Farið var yfir sjúkragögn sjúklinga með ALAT/ASAT ≥ 5x efri viðmiðunarmörk og/eða ALP/bilirúbín ≥ 2x efri viðmiðunarmörk. Útilokaðir voru sjúklingar með lifrarmeinvörp, einangraðar ALP hækkanir vegna nýrnakrabbameina og/eða beinameinvarpa eða aðrar orsakir lifrarprófahækkana.

Niðurstöður: Í heildina greindust 4071 á rannsóknartímabilinu, 841 voru með hækkanir á lifrarprófum samkvæmt inntökuskilyrðum. Af þeim voru 223 ekki í virkri krabbameinslyfjameðferð, 228 með einangraðar ALP hækkanir vegna beinameinvarpa eða nýrnakrabbameina, 199 með lifrarmeinvörp, í 153 tilfellum voru aðrar orsakir og í 21 tilfellum vantaði gögn. Í 7 tilfellum var lifrarskaði mögulega orsakaður af völdum krabbameinslyfs en lagaðist þrátt fyrir áframhaldandi meðferð og því undanskilin. Tilfelli af DILI voru 10, þar af 8 (80%) konur, miðgildi aldurs 61 ár (IQR 53-65). Alls 5 sjúklingar voru með nýrnakrabbamein, 4 með brjóstakrabbamein og 1 með blöðruhálskirtilskrabbamein. Miðgildi tíma frá upphafi meðferðar til lifrarskaða var 44 dagar (38-55). Miðgildi hæstu lifrarprófa: ALAT 402 U/L (276-448), ASAT 191 U/L (131-246), ALP 168 U/L (121-243), bílírúbín 11 µmol/L (10-11). Í 9 tilfellum var stakt lyf talinn orsakavaldur: Pazopanib (4 tilfelli), axitinib, docetaxel, gemcitabine, letrozole og paclitaxel. Í einu tilfelli var lifrarskaðinn vegna docetaxel/cyclophosphamide. Í öllum tilfellum var krabbameinslyfjameðferð stöðvuð vegna lifrarskaðans. Enginn sjúklingur þróaði með sér gulu eða lifrarbilun og enginn lést vegna DILI.

Ályktun: Lifrarskaði er sjaldgæf aukaverkun krabbameinslyfja, en um 1 af hverjum 400 sjúklingum sem greindir voru fengu DILI, sem er þó hærri tíðni en í öðrum sjúklingahópum. Algengustu orsakavaldar voru pazopanib og docetaxel. Engin tilfelli alvarlegs lifrarskaða fundust en breytingar á krabbameinslyfjameðferð vegna DILI gætu haft áhrif á horfur.

25. Samantekt á krabbameinslyfjameðferðum með einstofna mótefnum af flokki ónæmisörvandi lyfja á Íslandi: Ábendingar og þol lyfjameðferða

Helma Björk Óskarsdóttir1, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir2,3, Gunnar Bjarni Ragnarsson3

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2lyfjaþjónustu, 3krabbameinslækningum, Landspítala

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Meðferð með einstofna mótefnum af flokki ónæmisörvandi lyfja (ICPis) hefur valdið byltingu í meðferð á völdum tegundum krabbameina vegna langvarandi áhrifa, sértækni og aukinnar lifunar og þols, samanborið við hefðbundnar krabbameinslyfjameðferðir. Lyfin hindra hömlunarboð T frumna og virkja þannig ónæmissvar gegn krabbameinsfrumum. Með því að auka virkni ónæmiskerfisins geta ICPis leitt til ónæmistengdra aukaverkana sem oft eru bólguviðbrögð. Þessar aukaverkanir geta verið alvarlegar og jafnvel banvænar.

Markmið: Að taka saman notkun ICPis meðferðar á Íslandi, að ákvarða þol ICPis með tilliti til aukaverkana, að gera samantekt á meðferðum aukaverkana og að taka saman hversu margar aukaverkanir hafa verið tilkynntar til Lyfjastofnunar.

Aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn, lýsandi samantekt á meðferðum sjúklinga sem fengu að minnsta kosti einn skammt af nivolumab, pembrolizumab, atezolizumab eða ipilimumab, á Landspítala á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. desember 2018. Kennitölur sjúklinga voru fengnar frá Gagnagátt Landspítala. Öll einkenni sem voru skráð af lækni sem fylgikvilli meðferðar í sjúkraskrá sjúklinga á meðan á meðferð stóð eða eftir meðferð voru skráð sem aukaverkun í rannsókninni. Meginniðurstaða rannsóknarinnar er þol lyfjanna með tilliti til tíðni, tegundar og alvarleika aukaverkana. Einnig var tekið saman hvernig brugðist var við aukaverkunum og hversu margar aukaverkanir hafa verið tilkynntar til Lyfjastofnunar.

Niðurstöður: Alls tóku 135 sjúklingar þátt í rannsókninni. Helmingur sjúklinga fengu samtals 114 aukaverkanir. Algengustu aukaverkanirnar voru húðviðbrögð, skjaldkirtilsviðbrögð og almenn einkenni. 25% sjúklinga sem fengu aukaverkun þurftu að hætta meðferð sem flokkast sem alvarleg aukaverkun af gráðu 3-4. Tveir sjúklingar létust vegna heilabólgu eftir meðferð með nivolumab. 66,2% þeirra sem fengu aukaverkun voru meðhöndlaðir með sterum og var prednisolone algengasta lyfið (í 62,9% tilfella). Samtals 7 aukaverkanir hjá 7 sjúklingum voru tilkynntar til Lyfjastofnunar á tímabilinu 2015 til 2018 og voru þær allar vegna nivolumab.

Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til þess að meirihluti aukaverkana vegna ICPis meðferðar eru viðráðanlegar, þar sem 75% sjúklinga sem fengu aukaverkun gátu haldið áfram meðferð. Samt sem áður geta þessar aukaverkanir verið mjög alvarlegar þar sem 25% sjúklinga sem fengu aukaverkun þurftu að hætta meðferð og tveir sjúklingar létust af völdum heilabólgu eftir meðferð með nivolumab.

26. A novel animal model for hereditary cystatin C amyloid angiopathy (HCCAA)

Hilmar Örn Gunnlaugsson1, Sara Þöll Halldórsdóttir1, Ásbjörg Ósk Snorradóttir1-3, Hans Tómas Björnsson1,3-5

1Department of Biochemistry and Molecular Biology, Biomedical Center, Faculty of Medicine, University of Iceland, 2Department of Pathology, Landspítali, 3Faculty of Medicine, University of Iceland, 4Faculty of Genetics and Molecular Medicine, Landspítali, 5McKusick-Nathans Department of Genetic Medicine, Johns Hopkins University School of Medicine, Baltimore, MD, USA

hon@hi.is

Introduction: Hereditary cystatin C amyloid angiopathy (HCCAA) is a rare genetic disease which occurs in approximately 1 in 10.000 people found exclusively in Iceland. The mutation occurs as a single nucleotide polymorphism (SNP) in the CST3 gene in humans known as CST3L68Q. This mutation causes CST3 to deposit as amyloid in multiple tissues, but most prominently in the brain resulting in fatal cerebral hemorrhages in 20-30 year-old individuals. CST3L68Q is inherited in an autosomal dominant manner and there are currently no clinical treatment options available despite ongoing research efforts. Progress has been limited by the lack of an animal model with a phenotype such as is seen in humans.

Objectives: The objective of this project is to develop a novel animal model of HCCAA. Studies of such an animal model could yield novel insights into the mechanistic basis of HCCAA but also allow for therapeutic testing of the disease in an animal for the first time. As rats are considered more closely related to humans than mice and their immune system works in a different way, we hypothesize that rats will be more likely to show a similar clinical phenotype to humans.

Methods: In this project we are breeding the equivalent CST3L68Q mutation seen in humans into rats known as Cst3M88Q to homozygosity in order to maximize likelihood of observing the disease phenotype. Cst3M88Q/M88Q rats will then undergo a number of behavioral tests such as an open field maze and Morris water maze to test for behavioral abnormalities which may be caused by minor strokes. Brains from the Cst3M88Q/M88Q rats will then be stained for amyloid deposits.

Results: Our preliminary results from Cst3M88Q/M88Q rats has shown that the mutation is not lethal during development nor in adulthood. No obvious strokes have been observed at this time. Furthermore, these rats do not show any behavioral differences in a Morris water maze. We are currently perfusing these rats and staining for amyloid in the brains of the rats and should know soon if they demonstrate a phenotype similar to what is seen in patients.

27. Meðferðarárangur frumkomins aldósterónheilkennis á Íslandi 2007-2016

Hrafnhildur Gunnarsdóttir1,2, Guðbjörg Jónsdóttir2,3, Guðjón Birgisson4, Jón Guðmundsson5, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,2

1Meðferðarsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Háskólasjúkrahúsinu Iowa, 4skurðlækningaþjónustu, 5röntgenlækningum, Landspítala

hrafnhildurg3@gmail.com

Inngangur: Frumkomið aldósterónheilkenni (FA) er mögulega læknanleg orsök háþrýstings með hærri áhættu á hjarta- og æðaáföllum en frumkominn háþrýstingur. Árið 2007 var stöðluð FA uppvinnsla innleidd á Landspítala (LSH).

Markmið: Að kanna meðferðarsvörun sjúklinga með ein- og tvíhliða FA greint á LSH 2007-2016.

Aðferðir: Sjúkraskrár sjúklinga ≥18 ára með FA greint á Landspítala á tímabilinu voru yfirfarnar. Skimað var með mælingu s-aldósteróns, s-reníns og 24 klst. þvagútskilnaði aldósteróns. Salthleðslupróf staðfesti greiningu og nýrnahettubláæðaþræðing aðgreindi ein- og tvíhliða sjúkdóm. Einhliða hóp (EH) bauðst nýrnahettubrottnám en tvíhliða hópur (TH) fékk aldósterónviðtakahemla. Árleg eftirfylgni fól í sér blóðþrýstingsmælingar, mat á kalíumuppbótarþörf og fjölda blóðþrýstingslyfja (BÞL). Tölur fyrir hópa eru gefnar upp sem miðgildi og millifjórðungsbil (e. interquartile range). Notast var við raðsummupróf Wilcoxons og Fischer-próf í JMP14 auk blandaðs línulegs áhrifalíkans (e. linear mixed effect model) í Stata13.

Niðurstöður: Fimmtíu og átta luku uppvinnslu með nýrnahettubláæðaþræðingu á tímabilinu; 27 (47%) reyndust hafa einhliða sjúkdóm og 31 tvíhliða (53%). Miðgildi eftirfylgni var 6 (4) ár. Við greiningu þurftu 25 af 27 (93%) EH og 23 af 31 (74%) TH kalíumuppbót. Slagbilsþrýstingur (SBÞ) var 156 (27) mmHg hjá EH og 158 (29) mmHg hjá TH, p=0,8. Hlébilsþrýstingur (HBÞ) við greiningu var 95 (22) mmHg hjá EH og 89 (18) mmHg hjá TH, p=0,02. Fjöldi BÞL var 3 (2) hjá báðum hópum, p=0,9. Á eftirfylgnitímabili EH varð marktæk lækkun á SBÞ (-3mmHg/ári, p<0,001), HBÞ (-2mmHg/ári, p<0,001) og fjölda BÞL (-0,14lyf/ári, p=0,002). Hjá TH varð marktæk lækkun á SBÞ (-2mmHg/ári, p<0,001) og fjölda BÞL (-0,05/ári, p=0,04). Tveir úr EH (7%) og einn úr TH (3%) þurftu kalíumuppbót þegar eftirfylgni lauk og þörfin því marktækt minni en við greiningu, p<0,0001 fyrir báða hópa.

Ályktun: Sértæk meðferð FA á Íslandi er árangursrík - lækkar blóðþrýsting og dregur úr blóðþrýstingslyfjaþörf auk þess sem langflestir losna við kalíumuppbót. Meðferðarsvörun EH er betri en TH sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna. Fjöldi greindra á tímabilinu bendir til verulegrar vangreiningar en miðað við erlendar skimunarrannsóknir mætti búast við að nokkur þúsund Íslendingar væru með FA. Góður meðferðarárangur hérlendis undirstrikar mikilvægi þess að greina sjúkdóminn og veita sértæka meðferð.

28. Notkun upplýsinga í opinberum arfgerðargagnasöfnum til að meta algengi APRT-skorts

Hrafnhildur L. Runólfsdóttir1,2, John A. Sayer3, Ólafur S. Indriðason2, Viðar Ö. Eðvarðsson1,2, Daníel Guðbjartsson1,4, Unnur Þorsteinsdóttir1,4, Kári Stefánsson1,4, Patrick Sulem4, Runólfur Pálsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Newcastle University, 4Íslenskri erfðagreiningu

hrafnhr@landspitali.is

Inngangur: Skortur á ensíminu adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT) er arfgengur galli í efnaskiptum púrína sem leiðir til myndun nýrnasteina og langvinns nýrnasjúkdóms. Fáum tilfellum hefur verið lýst utan Frakklands, Íslands og Japan sem bendir til að algengið sé mjög lágt, þó vangreining tilfella geti átt hlut að máli.

Markmið: Að meta algengi APRT-skorts byggt á tíðni þekktra meinvaldandi stökkbreytinga í opinberum arfgerðarsöfnum.

Aðferðir: Leitað var að meinvaldandi stökkbreytingum í arfgerðarsöfnum Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE; n=70.233), 100.000 Genomes Project (n=62.000), UK Biobank (50.000), Genome Aggregation Database (gnomAD; n=141.353), Human Genetic Variation Database (HGVD; n=1208) og Korean Variant Archive (KOVA; n=1055). Sjaldgæfir erfðabreytileikar (samsætutíðni [minor allele frequency] <0,01%) voru auðkenndir. Lögmál Hardy og Weinberg var notað til að reikna algengi arfhreinna einstaklinga.

Niðurstöður: Alls voru 62 meinvaldandi breytileikar auðkenndir, þar af 5 nýir. Tíðni íslensku stökkbreytingarinnar, p.Asp65Val, reyndist 1,2% í arfgerðargrunni ÍE og bendir það til að fjöldi arfhreinna á Íslandi gæti verið um 50. Tíðni þessarar stökkbreytingar var 0,17% í 100.000 Genomes Project en fannst ekki í öðrum gagnasöfnum. Í gnomAD var áætluð samsætutíðni samanlagðra stökkbreytinga meðal einstaklinga með uppruna í Evrópu (ekki Finna) 0,0489% og gæti fjöldi arfhreinna verið allt að 220. Meðal einstaklinga frá Austur-Asíu var samanlögð samsætutíðni 0,0451% og fjöldi arfhreinna allt að 200. Samsætutíðni samanlagðra stökkbreytinga meðal Íra var 0,18% sem bendir til að fjöldi arfhreinna geti verið 30.

Ályktun: APRT-skortur virðist mun algengari á Íslandi en annarsstaðar. Athyglisvert er að sjúkdómurinn finnst á Írlandi þótt ekkert tilfelli virðist hafa greinst þar. APRT-skortur er mjög fátíður en engu að síður benda niðurstöður okkar til að algengið sé hærra en fjöldi greindra tilfella hefur gefið tilkynna, einkum á ákveðnum svæðum.

29. Blóðsýkingar tengdar miðlægum bláæðaleggjum hjá börnum með illkynja sjúkdóma á Íslandi 2008-2017

Íris Kristinsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,2, Valtýr Stefánsson Thors1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala

irk13@hi.is

Inngangur: Miðlægir bláæðaleggir (MBL) eru mikilvægir í meðferð barna með illkynja sjúkdóma, s.s. til gjafa krabbameinslyfja, blóðhluta, sýklalyfja og næringar í æð. Notkun þeirra fylgir þó hætta á blóðsýkingum.

Markmið: Að lýsa faraldsfræði blóðsýkinga tengdum miðlægum bláæðaleggjum hjá börnum með illkynja sjúkdóma á Íslandi.

Aðferðir: Rannsóknin tók til barna sem greindust með illkynja sjúkdóma og fengu ísetta > 1 MBL á tíu ára tímabilinu 2008-2017. Til miðlægra bláæðaleggja töldust „non-tunneled“ miðlægir bláæðaleggir, Broviac/Hickman leggir („tunneled“), lyfjabrunnar og PICC-línur. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um tegund MBL, niðurstöður blóðræktana og mögulega áhættuþætti fyrir sýkingu. Skilgreining á blóðsýkingu tengdri MBL var byggð á alþjóðlegum skilgreiningum.

Niðurstöður: Á 10 ára tímabili voru 143 MBL settir í 94 börn: 82 lyfjabrunnar (57,3%), 49 Broviac/Hickman leggir (34,3%) og 12 „non-tunneled“ MBL (8,4%). Engar PICC-línur voru settar. Flestir MBL voru settir í neðanviðbeinsbláæð (131/143, 91,6%). Meðalaldur við ísetningu MBL var 7,6 ár og voru flestir MBL settir vegna meðferðar á bráðu eitilfrumuhvítblæði (53/143, 37,1%). Á tímabilinu urðu 14 blóðsýkingar tengdar 11 MBL. Flestar voru sýkingarnar árið 2011, urðu þá fjórar sýkingar tengdar þremur MBL. Engar blóðsýkingar greindust á árunum 2012-2015. Staphylococcus aureus var algengasti meinvaldurinn, í 7/14 blóðsýkingum. Næstalgengastir voru kóagúlasa-neikvæðir stafýlókokkar (3/14). Engin blóðsýking leiddi til dauða en 10/14 urðu til þess að MBL var fjarlægður. Fjórir MBL voru fjarlægðir vegna gruns um sýkingu þrátt fyrir neikvæðar blóðræktanir. Engir skráðar breytur voru marktækt tengdar aukinni hættu á blóðsýkingu tengdri MBL.

Ályktanir: Blóðsýkingar tengdar miðlægum bláæðaleggjum eru sjaldgæfar hjá börnum með illkynja sjúkdóma á Íslandi og urðu engar sýkingar fjögur ár í röð. Stafýlókokkar eru algengustu sýkingavaldar.

30. Bráðar garnasýkingar hjá ungum börnum á Íslandi – Forsendur fyrir bólusetningu gegn rotaveiru?

Íris Kristinsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,2, Valtýr Stefánsson Thors1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala

irk13@hi.is

Inngangur: Rotaveira er algengasta orsök bráðra garnasýkinga hjá ungum börnum. Tvö bóluefni gegn rotaveiru eru á almennum markaði en ekki er bólusett gegn rotaveiru á Íslandi. Bólusetning hefur verið tekin upp víða í Evrópu. Hefur hún leitt til fækkunar staðfestra sýkinga, koma á bráðamóttökur og innlagna á sjúkrahús.

Markmið: Að meta byrði rotaveirusýkinga á Íslandi og möguleg áhrif upptöku bólusetningar.

Aðferðir: Börnum <5 ára sem leituðu á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins (BMB) vegna bráðra garnasýkinga á árunum 2017 og 2018 var boðin þátttaka. Upplýsingum var safnað um aldur, kyn, daggæslu, nýlega sýklalyfjanotkun, Vesikari alvarleikaskor, þörf á meðferð og/eða innlögn. PCR var gert á saursýnum frá þátttakendum. Ef fleiri en einn meinvaldur greindist en einn þeirra var rotaveira var sýkingin flokkuð sem rotaveirusýking. Hringt var í foreldra innan 14 daga frá komu á BMB og upplýsingum safnað um lengd veikinda, tapaða vinnudaga foreldra og fjölda fjölskyldumeðlima sem veiktust.

Niðurstöður: Rannsóknin tók til 325 barna yfir tveggja ára tímabil. Miðgildi aldurs var 16 mánuðir (spönn 1-71). Börn höfðu verið með einkenni í fjóra daga að miðgildi fyrir komu á BMB. Borin voru kennsl á meinvald í 79% tilfella (258/325), einn meinvaldur greindist í meirihluta tilfella (n=195) en tveir í 55 tilfellum. Rotaveira var algengasti meinvaldurinn (142/258, í 55% sýna þar sem meinvaldur greindist), adenoveira (19% jákvæðra sýna) og noroveira (18% jákvæðra sýna) voru einnig algengar. Börn með rotaveirusýkingu voru eldri en börn sem voru með bráða garnasýkingu af öðrum orsökum (miðgildi 18 vs. 14 mánuðir). Vesikari-skor sýkingarinnar var hærra hjá börnum með rotaveiru (13 vs. 11) og þurfti hærra hlutfall þeirra á vökvagjöf í æð að halda (39% vs. 13%). Rotaveirusýkingar stóðu hins vega yfir í færri daga en bráðar garnasýkingar af öðrum orsökum (miðgildi 3 vs. 4 dagar). Fleiri tilfelli rotaveiru greindust 2018 en 2017 (106 tilfelli vs. 36 tilfelli). Miðgildi tapaðra vinnudaga foreldra var fjórir, bæði hjá foreldrum barna með rotaveirusýkingu og barna með bráða garnasýkingu af annarri orsök.

Ályktanir: Rotaveira er algengasta orsök bráðra garnasýkinga sem leiðir til komu á bráðamóttöku á Íslandi og er sjúkdómsbyrðin umtalsverð. Líklegt er að bólusetning gegn rotaveiru myndi minnka sjúkdómsbyrðina fyrir íslensk börn, fjölskyldur þeirra og heilbrigðiskerfi landsins.

31. Einkennalaus meningókokkasýklun meðal barna, unglinga og ungs fólks á Íslandi

Íris Kristinsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,2, Karl G. Kristinsson1,3, Gunnsteinn Haraldsson1,3, Valtýr Stefánsson Thors1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins, 3sýkla- og veirufræðideild Landspítala

irk13@hi.is

Inngangur: Bólusett hefur verið gegn meningókokkum C (MenC) á Íslandi frá árinu 2002. Síðan þá hafa ífarandi sýkingar af völdum MenC verið afar sjaldgæfar og meningókokkar B verið algengustu meinvaldandi meningókokkarnir á Íslandi. Engar rannsóknir hafa áður verið gerðar á einkennalausri meningókokkasýklun á Íslandi. Á undanförnum árum hafa breytingar á faraldsfræði hjúpgerða meningókokka komið í ljós í Evrópu.

Markmið: Að meta algengi og tímalengd einkennalausrar meningókokkasýklunar, rannsaka hvaða hjúpgerðir eru algengastar og meta hvort þörf sé á breytingum á bólusetningarskema íslenskra barna/ungmenna.

Aðferðir: Nefkoksstrok voru tekin hjá 1-6 ára leikskólabörnum. Hálsstrok voru tekin hjá 15-16 ára unglingum í 10. bekk grunnskóla og hjá menntaskólanemum sem náð höfðu 18 ára aldri. Sýni voru ræktuð og massagreining var notuð til að bera kennsl á N. meningitidis. Berum var fylgt eftir með endurteknum sýnatökum: 3 mánuðum, 6 mánuðum, 12 mánuðum og 16 mánuðum eftir fyrstu sýnatöku. Vegna heimsfaraldurs COVID-19 tókst ekki að klára sýnatökur hjá öllum þátttakendum við 12 mánuði. Öllum berum við 6 mánuði var því boðin þátttaka í sýnatökum eftir 16 mánuði.

Niðurstöður: 460 sýni voru tekin hjá leikskólabörnum, 197 hjá unglingum í 10. bekk og 523 frá menntaskólanemum. Berahlutfall var 0% meðal 1-6 ára barna (0/460), 1,5% hjá 15-16 ára unglingum (3/197) og 6,5% meðal 18-20 ára menntaskólanema (34/523). Eftir 3 mánuði voru 83% (24/29) bera enn sýklaðir af N. meningitidis en 62,5% (10/16) um hálfu ári eftir fyrstu sýnatöku. Sýni voru tekin frá fimm þátttakendum við 12 mánuði, reyndust þau öll jákvæð. Við 16 mánuði voru 37,5% sýna (3/8) jákvæð fyrir N. meningitidis.

Ályktanir: Einkennalaus meningókokkasýklun er afar sjaldgæf hjá ungum börnum en algengi eykst á unglingsárum og snemmfullorðinsárum. Sýklun er oft langvarandi. Fyrirhuguð er ein eftirfylgdarsýnataka til viðbótar. Til stendur að gera hjúpgerðargreiningu á öllum jákvæðum sýnum og heilgenaraðgreiningu á meningókokkum frá langtímaberum til mats á því hvort sömu stofnar sýkli í langan tíma eða hvort fleiri stofnar skýri langtímasýklun.

32. Ónæmisglæðarnir mmCT og dmLT auka mótefnasvar nýburamúsa við bólusetningu um nefslímhúð og með stungu undir húð

Jenny Molina1,2, Auður Anna Aradóttir Pind1,2, Jan Holmgren3, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Sýkla- og ónæmisfræðideild Gautaborgarháskóla, Lífvísindastofnun Sahlgrensku Akademíunnar og Bólusetningarrannsóknastofnum Gautaborgarháskóla (GUVAX).

jennyle@landspitali.is

Inngangur: Ónæmiskerfi nýbura er vanþroskað og óreynt sem leiðir til daufra ónæmissvara og aukins næmis þeirra fyrir smitsjúkdómum. Þess vegna er mikilvægt að þróa betri bólusetningaraðferðir fyrir ungviði. Ónæmisglæðar geta bæði aukið styrk og lengd ónæmissvars og geta breytt eðli svarsins.

Markmið: Að kanna ónæmisvekjandi áhrif mismunandi skammta af próteintengdu pneumókokkafjölsykrubóluefni (Pn1-CRM197) og áhrif ónæmisglæðanna dmLT og mmCT, á ónæmissvör nýbura músa við bólusetningu nefslímhúð og með stungu undir húð.

Aðferðir: Nýburamýs voru bólusettar einu sinni um nefslímhúð eða með stungu undir húð, með Pn1-CRM197 (0,75μg) með/án dmLT eða mmCT (5µg). Blóðsýni voru tekin á mismunandi tímum eftir bólusetningu til að mæla fjölskykrusértæk IgG mótefni með ELISA.

Niðurstöður: Mótefnamagn í músum bólusettum með stungu undir húð með Pn1-CRM197 var lágt. Ef ónæmisglæði, dmLT eða mmCT, var blandað við bóluefnið vakti Pn1-CRM197 sterkt ónæmissvar í músum bólusettum undir húð og styrkur fjölsykrusértækra IgG mótefna í blóði var marktækt hærri 14, 28 og 56 dögum eftir bólusetningu en í músum sem fengu bóluefnið eitt og sér. Bólusetning um nefslímhúð með Pn1-CRM197 ásamt dmLT eða mmCT, vakti ekki sterka ónæmissvörun og styrkur fjölsykrusértækra IgG mótefna í blóði var ekki marktækt hærri en í músum bólusettum undir húð með bóluefninu einu og sér. Magn fjölsykrusértækra IgG mótefna í blóði var sambærilegt eftir slímhúðar- og stungubólusetningu Pn1-CRM197 og mmCT, en var marktækt lægra eftir slímhúðarbólusetningu en eftir stungubólusetningu þegar Pn1-CRM197 var gefinn með ónæmisglæðinum dmLT.

Ályktun: Ónæmisglæðarnir dmLT og mmCT juku báðir mótefnasvör nýburamúsa gegn Pn1-CRM197, sérstaklega með stungubólusetningu. Þessar niðurstöður sýna að báðir ónæmisglæðarnir juku sértæka ónæmissvörun nýburamúsa og eru því efnilegir kanditatar fyrir bólusetningar ungviðis gegn pneumókokkum og öðrum fjölsykruhjúpuðum bakteríum.

33. Gagnsemi serum tryptasa mælinga hjá sjúklingum með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts á bráðamóttöku 2011-2018

Karólína Hansen1, María I. Gunnbjörnsdóttir2, Hjalti Már Björnsson3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ofnæmislækningum, 3bráðalækningum, Landspítala

kah32@hi.is

Inngangur: Bráðaofnæmiskast er nokkuð auðvelt í greiningu í dæmigerðum tilfellum en getur valdið mismunandi einkennum. Til viðbótar við klíníska greiningu læknis hefur verið sýnt fram á að hjá einstaklingum með óljós eða ódæmigerð einkenni sem mögulega eru vegna bráðaofnæmiskasts getur mæling á serum tryptasa verið gagnleg. Einnig nýtist mæling á s-tryptasa til að greina sjúkdóminn mastfrumnager. Byrjað var að kynna s-tryptasa mælingar á bráðamóttöku Landspítala árið 2012 en nýjar klínískar leiðbeiningar voru kynntar í byrjun árs 2018.

Markmið: Að kanna tíðni s-tryptasa mælinga á bráðamóttöku Landspítala og meta gagnsemi þeirra með tilliti til greiningar á bráðaofnæmiskasti og mastfrumnageri.

Aðferðir: Með leyfi siðanefndar heilbrigðisrannsókna á Landspítala voru skoðuð öll tilvik þar sem blóðsýni var sent frá bráðamóttöku til mælingar á s-tryptasa á ónæmisfræðideild á árunum 2011 – 2018. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um uppvinnslu og meðferð sjúklinga á bráðamóttöku og hjá ofnæmislækni.

Niðurstöður: Á tímabilinu voru alls 214 sýni send til s-tryptasa mælingar. Tryptasi var hækkaður (>12 μg/L) í 36 tilvikum. Konur mynduðu 61,2% hópsins og meðalaldur sjúklinga var 40,6 ár. Í 28,0% tilfella voru einstaklingar með einkenni frá einu líffærakerfi, 32,7% frá tveimur kerfum, 25,7% frá þremur kerfum og 12,1% með einkenni frá fjórum kerfum. Þrír sjúklingar (1,4%) voru ekki með nein einkenni. Algengi einkenna eftir flokkum var eftirfarandi: húð- og slímhúðareinkenni – 86,4%, hjarta- og æðaeinkenni – 47,7%, öndunarfæraeinkenni – 49,5% og meltingarfæraeinkenni – 36,0%. Af þessum 214 tilfellum voru 126 sem komu í nánara mat ofnæmislæknis. Þar voru 65 tilfelli (51,6%) metin sem bráðaofnæmisköst. Af þeim voru fjórir einstaklingar (6,2%) sem uppfylltu ekki greiningarskilmerki bráðaofnæmiskasts en voru með hækkuð tryptasa gildi. Næmni mælinga reyndist vera 40,9% (95% CI 26,3% - 56,8%) og sértæki vera 97,1% (95% CI 84,7% - 99,9%). Ekkert tilfelli leiddi til greiningar mastfrumnagers.

Ályktanir: Mælingar á s-tryptasa hjá sjúklingum á bráðamóttöku með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts virðist veita gagnlegar upplýsingar til greiningar sjúkdómsins. Mælingar á s-tryptasa á bráðamóttöku hafa ekki leitt til fjölgunar greininga á mastfrumnageri.

34. Ómega-3 fjölómettaða fitusýran DHA hefur áhrif á samskipti náttúrulegra drápsfrumna og daufkyrninga

Kirstine Nolling Jensen1,2, Sunnefa Yeatman Ómarsdóttir1,2, Margrét Sól Reinharðsdóttir1,3, Ingibjörg Harðardóttir1,2, Jóna Freysdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Lífvísindasetri læknadeildar, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands

knj3@hi.is

Inngangur: Daufkyrningar koma fyrstir á stað sýkingar eða vefjaskemmdar til að útrýma skaðvaldinum. Náttúrulegar drápsfrumur (NK frumur) verja okkur fyrir veirusýktum frumum og æxlisfrumum en þær hvetja einnig sjálfvirkan frumudauða daufkyrninga og eru þannig taldar ýta undir bólguhjöðnun. Fyrri rannsóknir sýna að ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur geta bæði dregið úr bólgu og eflt bólguhjöðnun.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að ákvarða áhrif ómega-3 fjölómettuðu fitusýrunnar dókósahexaensýru (DHA) á samskipti NK frumna og daufkyrninga.

Aðferðir: NK frumur voru einangraðar úr blóði heilbrigðra blóðgjafa og ræktaðar í 18 klst með eða án DHA. Þá voru þær ræstar með boðefnunum IL-2, IL-12 og IL-15 og ræktaðar með ferskum daufkyrningum í 6-18 klst með eða án aðskilnaðarhimnu. Tjáning NK frumna og daufkyrninga á yfirborðssameindum og myndun þeirra á hvarfgjörnum súrefnissameindum (ROS) var metin með frumuflæðisjá, sem og agnaát og sjálfstýrður frumudauði daufkyrninga. Seytun boðefna var mæld með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Samræktun með NK frumum jók agnaát og sjálfstýrðan frumudauða daufkyrninga eftir 6 klst í rækt en dró úr sjálfstýrðum frumudauða eftir 18 klst og enn meira ef NK frumurnar höfðu verið forræktaðar með DHA. Samræktun með NK frumum jók tjáningu daufkyrninga á CD47 (ekki borða mig sameind) og CD11b (ræsisameind) en forræktun NK frumna með DHA dró úr getu þeirra til að auka tjáningu daufkyrninga á þessum sameindum. Samræktun með daufkyrningum dró úr tjáningu NK frumna á ræsisameindunum CXCR3 og NKp46 en þau áhrif hurfu ef aðskilnaðarhimna var á milli frumnanna. Daufkyrningar drógu enn meira úr tjáningu NK frumna á NKp46 ef NK frumurnar höfðu verið forræktaðar með DHA. Samræktun NK frumna og daufkyrninga leiddi til aukinnar seytunar á CXCL8, CXCL10, IFN-γ, TNF-α, IL-1ra og GM-CSF. Forræktun NK frumna með DHA dró úr getu NK frumna til að auka seytingu á IFN-γ, CCL3 og GM-CSF.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að NK frumur og daufkyrningar hafi áhrif á virkni hvor annarrar og að þessum áhrifum sé miðlað bæði í gegnum leysanlegar sameindir og í gegnum frumu-frumu samskipti. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að DHA hafi áhrif á hvernig NK frumur virka í samskiptum við daufkyrninga.

35. Áhrif ómega-3 fjölómettaðra fitusýra á TNF-tengda bindla og viðtaka sem gætu miðlað stýrðum frumudauða daufkyrninga

Kirstine Nolling Jensen1,2,*, Hrönn Guðmundsdóttir1,2,*, Sigríður Eygló Unnarsdóttir1,3, Jóna Freysdóttir1,2, Ingibjörg Harðardóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Lífvísindasetri læknadeildar, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands

*báðar fyrsti höfundur

knj3@hi.is

Inngangur: Bólguhjöðnun er virkt ferli sem dregur úr bólgu og kemur á vefjaviðgerð. Meðal lykilþátta bólguhjöðnunar er stýrður frumudauði daufkyrninga og fjarlæging þeirra af bólgustað til nærliggjandi eitla. Náttúrulegar drápsfrumur (NK frumur) gegna hlutverki í vörnum gegn krabbameini og veirusýkingum. Niðurstöður rannsókna okkar sýna að NK frumur eru einnig mikilvægar fyrir bólguhjöðnun og gera það m.a. með því að ýta undir stýrðan frumudauða daufkyrninga. Þá hafa niðurstöður okkar sýnt að ómega-3 fjölómettaðar fitusýru (FÓFS) í fæði músa leiða til öflugri bólguhjöðnunar. TNF boðferlar gegna margvíslegu hlutverki, bæði í bólgu og stýrðum frumdauða. NK frumur seyta/tjá fjölda mismunandi TNF-tengdra sameinda og daufkyrningar geta tengst þeim í gegnum TNF viðtaka.

Markmið: Að ákvarða áhrif ómega-3 FÓFS í fæði músa á viðtaka og bindla sem gætu tekið þátt í að miðla stýrðum frumudauða daufkyrninga og gætu skýrt með hvaða hætti ómega-3 FÓFS auki bólguhjöðnun.

Aðferðir: Músum var gefið fæði ríkt af ómega-3 FÓFS (FO) eða vestrænt fæði til viðmiðunar (KO) og vakamiðlaðri bólgu komið af stað. Tjáning NK frumna og daufkyrninga á sameindum sem tengjast stýrðum frumudauða var metin með frumuflæðisjárgreiningu og styrkur boðefna í kviðarholsvökva með luminex. Stýrður frumudauði daufkyrninga var metinn með TUNEL litun á garnahengiseitlum.

Niðurstöður: Stýrður frumudauði daufkyrninga og flutningur þeirra til nærliggjandi eitla var meiri í músum sem fengu FO en í músum sem fengu KO. Þá var þroskun NK frumna og íferð þeirra á bólgustað hraðari í músunum sem fengu FO. Tjáning TRAIL, FasL og NKp46 á yfirborði NK frumna var meiri í músum sem fengu FO en þeim sem fengu KO. Styrkur nokkurra TNF-tengdra tálviðtaka (decoy receptors), þar á meðal TNF-RII, var meiri í kviðarholsvökva músa sem fengu FO en þeirra sem fengu KO en styrkur FasL var lægri í músum sem fengu FO.

Ályktun: Áhrif ómega-3 FÓFS á tjáningu TNF-tengdra sameinda á NK frumum gætu skýrt að hluta til áhrif þeirra á stýrðan frumudauða daufkyrninga. Aukning á styrk TNF-RII í kviðarholsvökva músa sem fengu FO bendir til aukins klofnings þess frá yfirborði daufkyrninga og gæti það verið lykilþáttur í að dempa stýrðan frumudauða daufkyrninga og þannig skýrt áhrif ómega-3 FÓFS til aukinnar bólguhjöðnunar.

36. D-vítamín búskapur við 11.-14.viku meðgöngu meðal kvenna sem mættu í fósturskimun á Landspítala

Kristín Sigrún Magnúsdóttir1, Ellen Alma Tryggvadóttir1, Laufey Hrólfsdóttir2, Þórhallur I. Halldórsson1, Bryndís Eva Birgisdóttir1, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir3, Óla Kallý Magnúsdóttir1,4, Hildur Harðardóttir1, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,4

1Háskóla Íslands, 2Sjúkrahúsinu á Akureyri, 3kvenna- og barnaþjónustu, 4næringarstofu Landspítala

ingigun@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir benda til þess að skortur á D-vítamíni á meðgöngu geti haft áhrif á bæði móður og fóstur. D-vítamín búskapur barnshafandi kvenna hefur aldrei áður verið rannsakaður á Íslandi.

Markmið: Að meta D-vítamín búskap (styrk 25(OH)D í sermi) barnshafandi kvenna sem mættu í ómskoðun á Landspítala við 11.-14.viku meðgöngu.

Aðferðir: Þátttakendur voru barnshafandi konur (n=942, 70% af þeim sem fullnægðu skilyrðum um þátttöku) sem mættu í fósturskimun við 11.-14. viku meðgöngu, á tímabilinu október 2017 - mars 2018. Blóðsýni voru tekin og sermi geymt við -80°C þar til styrkur 25(OH)D í sermi var greindur á Landspítala. Þátttakendur voru spurðir út í notkun á fæðubótarefnum sem innihalda D-vítamín, líkamsþyngd, hæð og félagslega stöðu.

Niðurstöður: Meðalstyrkur 25(OH)D í sermi var 63±24 nmol/l. Styrkur 25(OH)D var ≥50 nmol/l (talið fullnægjandi) hjá 70% þátttakenda, en í 25% tilfella reyndist styrkur vera á bilinu 30-49,9 nmol/l (ófullnægjandi) og 5% mældust með gildi <30 nmol/l (skortur). Alls sögðust 77% þátttakenda nota fæðubótarefni sem innihalda D-vítamín daglega og var styrkur 25(OH)D hærri í þessum hópi í samanburði við konur sem neytti fæðubótarefna með D-vítamíni sjaldnar (67±24 miðað við 50±19 nmol/l, p<0,001). Um það bil fjórðungur þeirra sem sögðust neyta D-vítamín fæðubótarefna daglega voru með styrk 25(OH)D undir 50 nmol/l. Alls sögðust 12% kvenna (n=113) aldrei eða sjaldan taka fæðubótarefni með D-vítamíni. Lægstur meðalstyrkur 25(OH)D mældist hjá þeim hópi kvenna (n=113, 12%) sem sögðust aldrei eða sjaldan taka fæðubótarefni með D-vítamíni eða 45±17 nmol/l. Nær 70% kvenna í þessum hópi var með styrk <50 nmol/l og 15% <30 nmol/l. Engin tengsl sáust á milli líkamsþyngdarstuðuls (BMI) eða félagslegrar stöðu og styrks 25(OH)D í sermi.

Ályktanir: Um þriðjungur barnshafandi kvenna sem tók þátt í rannsókninni reyndist vera með ófullnægjandi styrk 25(OH)D í sermi eða D-vítamínskort. Meta þarf ástæður þess að hluti kvenna sem segist taka fæðubótarefni sem inniheldur D-vítamín daglega mælist með ófullnægjandi styrk 25(OH)D í sermi. Leita þarf leiða til að tryggja að allar barnshafandi konur fylgi ráðleggingum frá Embætti landlæknis um töku bætiefna sem innihalda D-vítamín.

37. Visualizing metabolic network dynamics through time-series metabolomics data

Lea F. Buchweitz1, James T. Yurkovich2, Christoph M. Blessing1,3, Veronika Kohler1,3, Fabian Schwarzkopf4, Zachary A. King5,6, Laurence Yang5,6, Freyr Jóhannsson7, Óttar Rolfsson7, Julian Heinrich3, Ólafur E. Sigurjónsson8,9, Andreas Dräger1,3

1Computational Systems Biology of Infection and Antimicrobial-Resistant Pathogens, Center for Bioinformatics Tübingen (ZBIT), Germany, 2Institute for Systems Biology, Seattle, United States, 3Department of Computer Science, University of Tübingen, Germany, 4Works GmbH, Tübingen, Germany, 5Systems Biology Research Group, Department of Bioengineering, University of California, San Diego, United States, 6Novo Nordisk Foundation Center for Biosustainability, Technical University of Denmark, Lyngby, Denmark, 7Center for Systems Biology, University of Iceland, 8The Blood Bank, Landspítali, 9School of Science and Engineering, Reykjavík University

oes@landspitali.is

Introduction: New technologies have given rise to an abundance of -omics data, particularly metabolomics data. The scale of these data introduces new challenges for the interpretation and extraction of knowledge, requiring the development of new computational visualization methodologies.

Aims: Here we present a new method for the visualization of time-course metabolomics data within the context of metabolic network maps.

Methods: We demonstrate the utility of this method by examining previously published data for two cellular systems, the human platelet and erythrocyte under cold storage for use in transfusion medicine.

Results: The results comprise two animated videos that allow for new insights into the metabolic state of both cell types. In the case study of the platelet metabolome during storage, the new visualization technique elucidates a nicotinamide accumulation which mirrors that of hypoxanthine and might therefore reflect similar pathway usage. This visual analysis provides a possible explanation for why the salvage reactions in purine metabolism exhibit lower activity during the first few days of the storage period. The second case study displays drastic changes in specific erythrocyte metabolite pools at different times during storage at different temperatures.

Conclusions: In conclusion, this new visualization technique introduced in this article constitutes a well-suitable approach for large-scale network exploration and advances hypothesis generation. This method can be applied to any system with data and a metabolic map to promote visualization and understand physiology at the network level. More broadly, we hope that our approach will provide the blueprints for new visualizations of other longitudinal -omics data types.

38. Pneumókokka mótefnavakaleit í þvagi. Gagnsemi Binax NOW S. pneumoniae prófsins og tengsl við sjúkdómsmynd

María Rós Gústavsdóttir4, Helga Erlendsdóttir1,4, Agnar Bjarnason2, Magnús Gottfreðsson3,4

1Sýkla- og veirufræðideild, 2smitsjúkdómalækningum, 3vísindadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

mrg11@hi.is

Inngangur: Streptococcus pneumoniae (pneumókokkur) er baktería sem getur verið alvarlegur sjúkdómsvaldur (e. pathogen). Þá er hún einn algengasti sýkingavaldur lungnabólgu, sem getur stundum verið alvarleg og lífshótandi þar sem klínískur gangur getur verið mjög hraður. Því er mikilvægt að greina sjúkdóminn á sem skemmstum tíma til þess að geta brugðist fljótt og rétt við. Binax NOW S. pneumoniae greiningapróf mælir mótefnavaka pneumókokka í þvagi.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta forspárgildi greiningarprófsins hjá sjúklingum með staðfesta ífarandi pneumókokkasýkingu sem og tengsl pneumókokka mótefnavaka í þvagi við alvarleika ífarandi pneumókokkasýkingar.

Efniviður og aðferðir: Fyrir lágu upplýsingar um tilfelli ífarandi pneumókokkasýkinga í pneumókokkagagnagrunni sýklafræðideildar hjá þeim sjúklingum þar sem einnig hafði verið gerð mótefnavakaleit í þvagi. Alvarleiki sýkinga var metinn með PSI (pneumonia severity index), CURB-65 og quick-SOFA stigunarkerfum. Sjúklingum var skipt upp í hópa eftir alvarleika sýkingar og var hlutfall jákvæðra niðurstaðna úr Binax NOW S. pneumoniae prófi borið saman milli hópa. Forspárgildi prófsins var ákvarðað með því að bera saman næmi og sértækni við blóð- og hrákaræktanir.

Niðurstöður: Þegar blóðræktun var notuð sem gull-viðmið reyndist næmi og sértækni Binax NOW S.pneumoniae vera 72,6% og 97,1%. Þegar hrákaræktun var notuð sem gull-viðmið reyndist næmi og sértækni vera 71,4% og 89,0%. Hlutfall jákvæðra niðurstaðna úr prófinu hækkaði eftir því sem alvarleiki jókst í öllum tilfellum (nema í PSI flokki 5) en hækkunin var aðeins marktæk í CURB-65 flokki 3. Hlutfall jákvæðra niðurstaðna reyndist marktækt hærra hjá þeim sem létust innan 30 daga samanborið við aðra (p=0,034). Hlutfall jákvæðra niðurstaðna reyndist marktækt hærra hjá þeim sem voru lagðir inn á gjörgæslu samanborið við þá sem voru ekki lagðir inn á gjörgæslu (p=0,008).

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar geta veitt betri innsýn í gagnsemi og forspárgildi Binax NOW S. pneumoniae prófsins sem og tengsl niðurstöðu prófsins við alvarleika, innlögn á gjörgæslu og 30 daga dánartíðni. Gagnlegt væri að skoða stærri rannsóknarhóp og bera saman niðurstöður milli pneumókokka hjúpgerða ásamt því að skoða áhrif niðurstaðna á sýklalyfjaval.

39. Áhrif smithreinsunar með amotosalen UVA á secretomic breytingar við geymslu blóðflaga

Níels Árni Árnason1,3, Freyr Jóhannson2, Ragna Landrö3, Björn Hardðarsson3, Sveinn Guðmundsson3, Óttar Rolfsson2, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

1Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, 2Kerfislíffræðisetri Háskóla Íslands, 3Blóðbankanum, Landspítala

oes@landspitali.is

Inngangur: Blóðflögueiningar hafa geymslutíma sem takmarkast við 5-7 daga, aðallega vegna aukinnar hættu á vexti baktería og blóðflögugeymsluskemmda. Til að draga úr líkunum á því að bakteríur vaxi í blóðflögueiningum hafa verið þróaðar aðferðir sem byggja á því að krosstengja erfðaefni og hindra þannig vöxt þeirra. Þetta er oft kallað smithreinsun. Blóðflögur innihalda mikið magna vaxtarþátta og frumuglæða sem þær geyma í α-granules og dense-granules. Við virkjun blóðflaga er þessum frumuglæðum og vaxtarþáttum seytt út úr blóðflögunum og er hægt að meta gæði blóðflaga við geymslu með því að mæla þessa þætti.

Markmið: Tilgangur þessa verkefnis var að kanna áhrif smithreinsunar með amotosalen og UVA meðferð á seytingu vaxtarþátta og frumuglæða í geymsluæti blóðflaga.

Aðferð: Með því að nota "pool and split" aðferð voru framleiddar 2 eins blóðflögueiningar með buffy coat aðferð úr 24 heilblóðseiningum. Önnur einingin var notuð sem kontról á meðan að hin einingin var meðhöndluð með amotosalen-UVA meðferð. Blóðflögueiningarnar voru geymar í 7 daga og sýni tekið á degi 1, 2, 3, 5 og 7 og 34 mismunandi frumuglæðar og vaxtarþættir mældi með luminex aðferð.

Niðurstöður: Af þeim 34 frumuglæðum og vaxtarþáttum sem voru mældir sýndu 26 breytingar yfir geymslutímann. Af þessum 26 voru 6 sem sýndu breytingar vegna smithreinsunar.

Ályktun: Smithreinsun hefur ekki veruleg áhrif á seytingu vaxtarþátta og frumuglæða við geymslu blóðflaga í 7 daga. Hluti af smithreinsuninni hefur áhrif á magn vaxtarþátta og frumuglæða fyrir og eftir smithreinsunina en ekki á hlutfallslega seytingu þeirra eftir það. Möguleg skýring á þessu eru áhrif UVA á niðurbrot einhverra vaxtarþátta og frumuglæða og svokallað compound absorption device (CAD) sem er notað til að fjarlægja auka amotasalen eftir UAV meðferð.

40. Uppgötvun frumuferla sem miðla kæliviðbragði í spendýrafrumum

Salvör Rafnsdóttir1, Li Zhang2, Hans Tómas Björnsson2,3,4

1Lyflækningum, Landspítala, 2McKusick Nathans Department of Genetic Medicine, Johns Hopkins University, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 4Háskóla Íslands

sar10@hi.is

Inngangur: Kæling er notuð sem taugaverndandi meðferð eftir alvarleg áföll, til dæmis súrefnisskort í fæðingu og eftir hjartastopp. Kæling virðist vernda taugafrumur fyrir skaða sem annars hefði orðið eftir blóðflæðiskerðingu til taugafrumna en ferlið þar að baki er lítt skilið. Ýmsar aukaverkanir fylgja kælingu, til dæmis aukin tíðni sýkinga og storkutruflanir. Þekkt er að magn nokkurra próteina eins og CIRP, SP1 og RBM3 eykst við kælingu. Tilgáta okkar er að við kælingu virkjist sértækur viðbragðsferill (kæliviðbragð) sem hefur gagnleg áhrif á taugafrumur sem verða fyrir skaða og með því að skilja ferilinn verði hægt að útbúa meðferðarmöguleika byggðan á þessum skilningi.

Markmið: Skilgreina genaferilinn sem hlutverki gegnir í kæliviðbragði spendýrafrumna.

Aðferðir: Við höfum hannað flúrljómandi klögugen fyrir CIRP, SP1 og RBM3. Flúrljómun þeirra leyfir magnmælingu á umritun genanna í rauntíma. Við höfum framkvæmt framsýna stökkbreytiskimun á HEK293 frumulínu með innleiddu SP1 klögugeni með CRISPR-Cas9 aðferð sem stökkbreytir einu geni í hverri frumu í safni frumna en í öllu safninu eru leiðsögusameindir (guide RNA) fyrir öll tjáð gen í mannerfðamenginu. Við notuðum frumuflokkun til einangrunar frumna sem sýndu mestu/minnstu (>95%, <5%) breytingu í flúrljómun eftir stökkbreytiskimun. Við notuðum háafkastaraðgreiningu til að bera saman dreifingu á leiðsögusameindum í báðum hópum miðað við viðmið.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður úr framskyggnri stökkbreytiskimun á safni HEK293 frumna með SP1 klögugen sýndi að flúrljómun frumnanna hliðraðist í átt að minni flúrljómun en einnig var aukning á há-flúrljómunarfrumum. Raðgreininiðurstöður og tölvuúrvinnsla sýndu að þegar dreifing leiðsögusameinda milli hópana var borin saman við viðmið mátti sjá að tvö af efstu þremur genunum (RAP1B og PHGR1) úr há-flúrljómunarhópnum tengjast RAS/MAPK boðefnaferlinum og hjá lá-flúrljómunarhópnum má sjá að tvö af efstu 10 genunum (RFNG og PLD1) tengjast einnig RAS/MAPK boðefnaferlinum.

Ályktun: Minni heildarflúrljómun og aukning á há-flúrljómunarfrumum bendir til þess að til staðar séu mörg gen sem almennt virkja þetta kerfi en einnig hemlar. Það að 4 af 20 genum í frumum með mesta breytingu á flúrljómun séu tengd RAS/MAPK er ólíklegt að gerist fyrir tilviljun (OR: 30,4 reiknað með Fisher's Exact Test for Count Data, P<3x10-05) hins vegar er þetta algengur boðferill og því erum við að endurtaka þessar tilraun fyrir birtingu.

41. Hlutverk snemmbærrar frumusérhæfingar í meingerð Kabuki-heilkennis

Sara Þöll Halldórsdóttir1, Jill A. Fahrner2, Teresa Luperchio2, Hans Tómas Björnsson1,2,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Department of Genetics, Johns Hopkins University, School of Medicine, Baltimore, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

saratholl@hi.is

Inngangur: Kabuki-heilkenni (KH) er sjaldgæf orsök fyrir þroska og vaxtarskerðingu. Áður hefur verið lýst músamódeli fyrir KH (Kmt2d+/βgeo) þar sem virkniseti Kmt2d gensins hefur verið skipt út fyrir merkikassettu með stopptákna sem dregur úr eðlilegri virkni KMT2D próteinsins. Þessar mýs sýna vaxtarskerðingu og styttri lærlegg og sköflung en mýs sem hafa eðlilegt Kmt2d. Þegar vefjafræði beinanna er borin saman sjást hins vegar stækkaðar vaxtaplötur í beinum KH músamódela og sambærilegar stökkbreytingar í frumumódeli valda snemmbærri frumusérhæfingu sem gæti verið möguleg orsök fyrir stækkun á vaxtarplötum. Þar sem fyrra músamódel ber ekki stökkbreytingu sem finnst í sjúklingum höfum við búið til nýtt músamódel sem hefur sjúklinga stökkbreytingu sem í músinni er staðsett á útröð 49 þar sem Arginine er breytt í Histidine á staðsetningu 5230 (Kmt2d+/R5230H) til að skilja meingerð sjúkdómsins betur.

Markmið: Markmið verkefnisins er að staðfesta að Kmt2d+/R5230H mýs sýni sambærilega vaxtaskerðingu ásamt því að staðfesta í frumumódeli að snemmbær sérhæfing eigi sér stað í brjóskfrumum sem möguleg orsök fyrir vaxtaskerðingunni í KH.

Aðferðir: Kmt2d +/R5230H mýs eru kerfisbundið bornar saman við samfeðra mýs og skoðuð þyngd. Bein voru einangruð og lengdarmæld og lituð með Hematoxylin-Eosin (H&E). Magngreining á sérhæfingu var framkvæmd á músa brjóskfrumulínunni ATDC5 með og án stökkbreytingu í Kmt2d geni. Hraði frumusérhæfingar var magngreindur með Alcian blue litun ásamt genatjáningu með einfrumu RNA raðgreiningu (sc-RNA-Seq).

Niðurstöður: Nýtt músamódel sýnir sömu vaxtaskerðingu og fyrra músamódel. Mýs sem bera stökkbreytinguna (n=5) eru léttari (meðalmunur 2,197, p<0,005) og styttri en þær sem ekki bera stökkbreytingu (n=4) þar sem munur var 0,7133, p<0,05 ásamt því að bein þeirra eru styttri. Munur á lengd lærleggs var 1,269, p<0,01 og sköflungs 0.9266, p<0.05. Brjóskfrumur sem skortir Kmt2d, bæði arfhreinar og arfblendnar (Kmt2d-/-, Kmt2dR5551/-) sýna snemmbæra frumusérhæfingu (p<0,01).

Ályktun: Hægt er að nota nýtt músamódel til að skoða möguleg orsök vaxtaskerðingar KH sjúklinga. Brjóskfrumur sem hafa stökkbreytingar í Kmt2d sýna snemmbæra sérhæfingu sem gæti verið tengt svipgerð í KH. Frekari rannsóknir muni reyna að skilja ástæður fyrir þessari svipgerð.

42. Áhrif beinbrota á lifun mergæxlissjúklinga: Niðurstöður lýðgrundaðrar rannsóknar

Sigrún Þorsteinsdóttir1,2, Gauti Gíslason2, Thor Aspelund3, Ingigerður Sverrisdóttir1,2, Ola Landgren4, Ingemar Turesson5, Magnus Björkholm6, Sigurður Y. Kristinsson1,2

1Lyflækningum, Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum læknadeildar Háskóla Íslands, 4Myeloma Service, Division of Hematologic Oncology, Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, New York, 5Department of Hematology and Coagulation Disorders, Skane University Hospital, Malmö, 6Department of Medicine, Division of Hematology, Karolinska University Hospital and Karolinska Institutet, Stokkhólmi

sigrunt@landspitali.is

Inngangur: Mergæxli er illkynja B-frumu sjúkdómur plasmafrumna í beinmerg. Mergæxli veldur beinaúrátum og beinþynningu og einkenni sjúkdómsins stafa oftast af áhrifum hans á bein. Sjúklingar með mergæxli eru í aukinni hættu á að fá beinbrot, en áhrif beinbrota á lifun mergæxlissjúklinga eru óljós.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að greina áhrif beinbrota á lifun allra sjúklinga með mergæxli í Svíþjóð á árunum 1990-2013. Áhrif beinbrota við mergæxlisgreiningu, eftir greiningu og áhrif einstakra beinbrota á lifun voru skoðuð.

Aðferðir: Upplýsingar um alla sem greindust með mergæxli í Svíþjóð á árunum 1990-2013 fengust úr sænsku krabbameinsskránni. Safnað var upplýsingum um aldur, kyn og dánardag sömu einstaklinga. Upplýsingar um beinbrot fengust úr sjúkraskrám, ICD greiningar frá sjúkrahúslegum, bráðamóttökum og göngudeildum. Áhrif beinbrota við mergæxlisgreiningu (innan 30 daga fyrir eða eftir mergæxlisgreiningu) voru metin með Cox líkani. Leiðrétt var fyrir kyni, aldri og greiningarári. Beinbrot (öll brot eða undirflokkar beinbrota) voru einnig skoðuð sem tímaháðar breytur og samanburður á lifun hópa var gerður með Cox líkani.

Niðurstöður: Alls greindust 14.013 sjúklingar með mergæxli á rannsóknartímabilinu. Af þeim voru 1213 (8,7%) sjúklingar með beinbrot við greiningu. Sjúklingar með beinbrot við mergæxlisgreiningu voru í marktækt aukinni hættu á að deyja en þeir sem ekki voru með beinbrot við greiningu (hættuhlutfall (HR) 1,28; 95% öryggisbil (CI): 1,19-1,38). Alls hlutu 3235 beinbrot eftir greiningu (23,1%). Sjúklingar sem hlutu beinbrot eftir mergæxlisgreiningu voru í tvöfaldri hættu á að deyja miðað við þá sem ekki beinbrotnuðu, HR 2,00 (95% CI: 1,90-2,10). Hættuhlutfall fyrir brot á hryggjarlið var 1,74 (95% CI: 1,61-1,87), lærleggsbrot 2,62 (95% CI: 2,32-2,98), upphandleggsbrot 2,57 (95% CI: 2,31-2,85) og sjúkleg brot 2,17 (95% CI: 2,03-2,32). Áhrif beinbrota á lifun breyttust ekki á milli tímabilanna 1990-1999 og 2000-2013 (HR 0,89; 95% CI: 0,89-1,08).

Ályktun: Þessi stóra lýðgrundaða rannsókn sýnir að mergæxlissjúklingar sem hljóta beinbrot við greiningu eru í 28% aukinni hættu á að deyja og að þeir sem fá beinbrot eftir greiningu eru í tvöfaldri hættu á að deyja miðað við þá sem ekki beinbrotna. Niðurstöður okkar benda til þess að beinbrot endurspegli lengra genginn sjúkdóm í mergæxli og undirstrika mikilvægi þess að fyrirbyggja beinasjúkdóm í þessum sjúklingahópi.

43. Offramleiðsla á aldósteróni í einstaklingi með breytingu í ATP1A1 geni - Sjúkratilfelli

Svanborg Gísladóttir1, Herdís Gísladóttir1, Jón Jóhannes Jónsson1,2, Hans Tómas Björnsson1,2,3

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Johns Hopkins University, Baltimore

svanbg@landspitali.is

Tilfellið: Við lýsum 8 ára stúlku sem fékk endurtekin háþrýstingsköst á fyrstu vikum lífs. Erfitt reyndist að meðhöndla háþrýstinginn með hefðbundnum háþrýstingslyfjum. Í tengslum við köstin mældist hækkun á aldósteróni og væg lækkun á magnesíum í blóði. Þegar hún var rúmlega þriggja mánaða fékk hún verulega slæmt kast sem endaði í hjartastoppi. Þá kom í ljós lungnaháþrýstingur og hún fór að fá flog. Þegar stúlkan var 5 mánaða var hún sett á alfa agonista sem hefur komið í veg fyrir frekari háþrýstingsköst. Er einnig á meðferð með ACE-hemli ásamt PDE-hemli við lungnaháþrýstingi og flogalyfjum.

Rannsóknir og tengsl við aðra sjúkdóma: Í erfðarannsókn þegar stúlkan var á sjötta ári kom í ljós breyting á annarri samsætu í ATP1A1 geni (arfblendin skiptibreyting, p.(Asp897Asn)). ATP1A1 genið tjáir fyrir α1 undireiningu Na+/K2+ dælunnar sem hefur hlutverk í að viðhalda rafspennu yfir frumuhimnur. Ári síðar uppgötvuðust tengsl breytinga í ATP1A1 geni við flogaveiki og því lýst sem nýjum sjúkdómi „blóðmagnesíumlækkun, flog og þroskahömlun 2“ (MIM#618314). Hennar einkenni passa ágætlega við þann sjúkdóm, að undanskildum háa blóðþrýstingnum og hækkun aldósteróns í blóði. Á svipuðum tíma fundust tengsl breytinga í geninu við Charcot -Marie-Tooth (CMT) svipgerð og því lýst sem nýrri gerða af CMT sjúkdómi (MIM#618036). Að auki hafa fundist breytingar í ATP1A1 geni í góðkynja aldósterón seytandi nýrnahettuæxlum.

Umræður: Þær breytingar sem fundist hafa í ATP1A1 geninu í aldósterón seytandi æxlum og í sjúkdómnum tengdum flogaveiki, hafa áhrif á svæði próteinsins sem liggur innan frumuhimnunnar. Breytingarnar sem fundust í CMT sjúkdómnum höfðu allar nema ein áhrif á innanfrumuhluta próteinsins. Hins vegar hafði breytingin í tilfelli stúlkunnar áhrif á utanfrumuhluta próteinsins. Utanfrumuhlutinn tengir saman α og β undireiningar próteinsins en β undireiningin hefur það hlutverk að stýra réttri innsetningu próteinsins í frumuhimnuna.

Ályktun: Breytingar í ATP1A1 geninu geta valdið mismunandi svipgerðum bæði í kímlínu og líkamsfrumum. Svipgerðarmunurinn gæti tengst staðsetningu próteinhlutans og hlutverki þess hluta sem breytingin hefur áhrif á. Því er niðurstaða okkar sú að breytingin í ATP1A1 geninu sem fannst í stúlkunni sé að valda nýjum sjúkdómi eða að um sé að ræða viðbót við svipgerð flogaveikisjúkdómsins sem áður hefur verið lýst.

44. Komplement-bindandi and-HLA mótefni sem lífmerki við áhættumat og ákvörðun ónæmisbælingar í börnum með ígrætt nýra

Vaka Sigurjónsdóttir1,6, Natasha Purington2, Bing Zhang3, Marcelo Fernandez Vina3, Abanti Chaudhuri1, Neeraja Kambham4, Vivek Charu4, Lynn Maestretti1, Waldo Concepcion1,5, Amy Gallo1,5, Runólfur Pálsson6,7, Paul Grimm1

1Department of Pediatric Nephrology, Stanford, 2Quantitative Sciences Unit, Department of Medicine, Stanford, 3Histocompatibility, Immunogenetics and Disease Profiling Laboratory, Stanford, 4Department of Pathology, Stanford, 5Surgery - Multi-Organ Transplantation, Stanford University, 6Háskóla Íslands, 7lyflækningum, Landspítala

vakaksi@landspitali.is

Inngangur: Mótefnamiðluð höfnun er algeng orsök þess að börn missa ígrætt nýra. Sjúklingar með komplement-bindandi de novo gjafasérstæk mótefni (dnGSM) eru í aukinni hættu á að missa græðlinginn.

Markmið: Að kanna áhrif ágengrar, markmiðaðrar meðferðar gegn C1q jákvæðum dnGSM hjá börnum með ígrætt nýra og afdrif þessa þýðis.

Aðferðir: Rannsókn þessi var afturskyggn. Rannsóknin náði til barna sem fengu nýraígræðslu frá 1.1.2010-1.3.2018 á Lucile Pacard Barnaspítalanum við Stanford Háskóla. Börn með minna en 12 mánaða eftirfylgni, fleiri en 1 ígrætt líffæri voru útilokuð frá rannsókninni. IgG og C1q dnGSM voru mæld með reglubundinni skimun (LABscreen, single-antigen flow bead assay) eða við vanstarfsemi græðlings. Meginútkoma: tími frá ígræðslu til græðlingstaps. Miðgildi tíma til græðlingstaps var sýnt með Kaplan-Meier aðferð. Cox líkanið var notað til að meta forspárþætti græðlingstaps og áhættuhlutfall hópa borið saman. Ferill IgG og C1q gilda var sýndur. Einnig voru notuð Wilcoxon-Mann-Whitney og kí-kvaðrat próf notað þar sem við átti. Nýrasýni við fyrstu greiningu C1q voru skoruð samkvæmt nýjustu Banff skilmerkjum.

Niðurstöður: Af 231 sjúklingi voru 46% kvenkyns, meðalaldur var 12,3 ár (1-21 árs), (miðgildi, spönn). Flestir voru af rómönskum uppruna (39%), 54% voru með HLA samræmi 0 eða 1 og aðeins 6% með >3. Miðgildi PRA var 7. Eftirfylgni var 45 mánuðir (12-108), (miðgildi, spönn), 52 (22%) mynduðu C1q og varð C1q neikvætt með meðferð í 31 tilvika (58,5%), 16 (7%) töpuðu græðlingi, 14 sem mynduðu C1q og 2 sem gerðu það ekki. Miðgildi tíma til fyrsta jákvæða C1q gildis var 1,63 ár, miðgildi tíma til græðlingstaps C1q jákvæðra var 3 ár. Banff skor var hærra hjá sjúklingum við fyrstu greiningu C1q sem voru með viðvarandi gildi og þeir líklegri til að vera C4d+(p< 0.01) miðað við sjúklinga þar sem C1q svaraði meðferð. Allir C1q jákvæðir sem misstu græðling voru með viðvarandi C1q sem var marktækt tengt við græðlingstap; hættuhlutfall viðvarandi C1q var 45,46, 95% öryggisbil 11,65;177,41.

Ályktun: C1q er gagnlegt lífmerki til að skima fyrir áhættu á græðlingstapi, greina snemma viðmótefnamiðaða höfnun, ákvörðun einstaklingsmiðaðrar meðferðar og svörun við henni. Afdrif sjúklinga þar sem C1q svarar meðferð eru mjög góð. Viðvarandi C1q þrátt fyrir meðferð tengist marktækt græðlingsmissi.

45. Enterobacterales í salati- áhrif skolunar og erfðaflutningur á ónæmisgenum

Vigdís Víglundsdóttir1, Freyja Valsdóttir2, Karl G. Kristinsson2

1Háskóla Íslands, 2sýkla- og veirufræðideild Landspítala

viv20@hi.is

Inngangur: Alþjóðleg verslun með matvæli eykur áhættuna á því að nær alónæmar bakteríur berist á milli heimshluta. Þróun sýklalyfjaónæmis á Íslandi er minni en víða annars staðar í heiminum og benda rannsóknir til þess að erlendar ferskar afurðir innihaldi oftar sýklalyfjaónæmar bakteríur en innlendar. Ekki er víst hvort skolun á salati skili sér í marktækri fækkun óæskilegra baktería. Sýklalyfjaónæmar bakteríur í salati eru áhyggjuefni því margar þeirra geta miðlað ónæmisgenum til meinvirkra baktería með erfðaflutningum.

Markmið: Markmið tilraunanna var annars vegar að kanna fækkun á bakteríum í salati eftir skolun með kranavatni og hins vegar hvort fjölónæmar bakteríur af tegundinni Rahnella aquatilis sem ræktuðust úr salati gætu miðlað ónæmisgenum sínum með erfðaflutningi til næmra E. coli stofna.

Aðferðir: Valin voru 5 sýni af handahófi þar sem bakteríutalning var framkvæmd fyrir og eftir skolun á salati/spínati. Rúmlega 20g af sýni var komið fyrir í sterílu sigti og því haldið undir köldu kranavatni með léttum handahreyfingum um það bil 10 sekúndur. Fimm fjölónæmum og cefotaxime-ónæmum Rahnella aquatilis stofnum sem vaxið höfðu úr salati var sáð í Todd Hewitt broð, tvö glös fyrir hvern stofn. Síðan var ciprofloxacin-ónæmum E. coli stofni bætt í glösin tvö, stofnarnir voru næmir fyrir öðrum sýklalyfjum en ciprofloxacin. Eftir 24 klukkustunda ræktun við 37°C var sáð úr broðinu á bæði cefotaxime- og ceftazidime-bættan MacConkey agar ásamt cipro floxacin-lyfjaskífum. Eftir ræktun í sólarhring við 37°C var leitað að bakteríuvexti innan ciprofloxacin-hindrunarsvæðisins.

Niðurstöður: Fækkun baktería í prósentum var á bilinu 40-81% í salati, en 6% í spínatsýninu. Meðalfjöldi baktería í sýnunum 5 var 590.000 bakt/ml fyrir skolun og 370.000 bakt/ml eftir skolun. Annar E. coli stofninn reyndist vaxa innan hindrunarsvæðis ciprofloxacin-skífunnar á ceftazidime-bættum MacConkey agar í fjórum sýnum af fimm. Á öðrum skálum var ýmist vöxtur utan ciprofloxacin-sónunnar eða enginn vöxtur.

Ályktun: Fækkun á bakteríum eftir skolun bendir til þess að hreinsun skipti máli í fækkun óæskilegra baktería í salati, en fjarlægi þær ekki. Breiðvirk β-laktamasa ónæmisgen fluttust frá Rahnella stofnunum sem ræktuðust úr salati yfir til E. coli. Nánari skoðun á erfðaflutningnum er þörf til að staðfesta að um tengiæxlun hafi verið að ræða.

46. Tjáning ókóðaðra RNA á DLK1-DIO3 genasvæðinu í bandvefsumbreytingu og sérhæfingu brjóstafrumna

Zuzana Budkova1,5, Anna K. Sigurdardottir1,5, Eirikur Briem1,5, Jon T. Bergthorsson2,5, Snaevar Sigurdsson1,5, Magnus K. Magnusson3,5, Gunnhildur A. Traustadottir1,5, Thorarinn Gudjonsson1,2,5, Bylgja Hilmarsdottir1,4,5

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum Háskóla Íslands. 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði, Landspítala, 3rannsóknastofu í lyfja og eiturefnafræði Háskóla Íslands, 4frumulíffræði og sameindameinafræði, meinafræðideildar Landspítala, 5Lífvísindasetri læknadeildar Háskóla Íslands

bylgjahi@landspitali.is

Inngangur: Bandvefsumbreyting þekjufrumna (epithelial to mesenchymal transition, EMT) og viðsnúningur á því ferli, þekjufrumuumbreyting bandvefsfruma (mesenchymal to epithelial transition, MET) eru þroskunarfræðilegir ferlar sem einnig geta haft áhrif á framgang krabbameins. Ókóðuð RNA (ncRNA) eru mikilvægir stjórnþættir í þessum ferlum. DLK1-DIO3 genasvæðinu (14q31) er stjórnað með foreldramörkun (imprinting) og á því eru þrjú löng ókóðandi RNA (long non-codingRNA, e. lncRNA), meðal annars MEG3, og yfir 50 miRNA. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi þeirra við að viðhalda stofnfrumueiginleikum fósturstofnfrumna og einnig að þau geta spilað hlutverk í myndun og framgangi krabbameina, mögulega vegna tengsla við krabbameinsbæligenið p53.

Markmið: Í þessari rannsókn var tjáningarmunstur ncRNAs á DLK1-DIO3 genasvæðinu rannsakað í brjóstafrumum og áhrif tjáningar MEG3 á lifun í brjóstakrabbameini skoðuð. Einnig hlutverk þeirra í stjórnun þekjufrumusérhæfingar og bandvefsumbreytingar brjóstaþekjufrumna.

Aðferðir: Frumuræktun, örflögugreining, háhraðaraðgreining, qPCR, CRISPR/dCAS9 og western blot.

Niðurstöður: Við höfum áður sýnt fram á að æðaþel örvar bandvefsumbreytingu brjóstastofnfrumulínum í þrívíðri rækt. Örflögugreining og háhraðaraðgreining sýndi að ncRNA frá DLK1-DIO3 genasvæðinu eru yfirtjáð þegar brjóstastofnufrumulínurnar D492 og HMLE undirgangast EMT umbreytingu. Tjáning MEG3 og valinna miRNAs af DLK1-DIO3 var einnig hærri í bandvefsfrumum frá brjóstum en þekjuvefsfrumum. Frekari skoðun í brjóstakrabbameinsgagnabönkum leiddi í ljós fylgni milli MEG3 tjáningar og tjáningar gena sem tjáð eru í bandvefsfrumum og við EMT. Fylgni var milli hárrar MEG3 tjáningar og verri lifun sjúklinga með brjóstakrabbamein í tveimur mismunandi þýðum sem skoðuð voru. Greining á gögnum frá TCGA sýndi fylgni milli tjáningar MEG3 og miRNAs á genasvæðinu og því líklegt að aukin tjáning MEG3 sé samhangandi aukinnar tjáningu allra ncRNAs á DLK1-DIO3. Við sýnum einnig fram á að yfirtjáning MEG3 með CRISPR tækni olli bandvefsumbreytingu að hluta í þekjufrumulínunni D492 en niðursláttur á MEG3 með CRISPR tækni dró úr bandvefssvipgerð frumulínunnar D492M.

Ályktun: Bandvefsfrumur í brjóstkirtli hafa háa tjáningu á ncRNAs á DLK1-DIO3 genasvæði og í frumum sem hafa farið í gegnum bandvefsumbreytingu. Einnig benda okkar gögn til þess að MEG3 geti að hluta stýrt svipgerð og sérhæfingu frumna í brjósti með áhrifum á bandvefsumbreytingu.

47. Parasetamóleitranir á Landspítala. Umfang og eðli eitrana og verklag við meðhöndlun

Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir1, Freyja Jónsdóttir1,2, Curtis P. Snook2,3, Einar S. Björnsson1,4, Helena Líndal5

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2sjúkrahúsapóteki, 3bráðalækningum, 4meltingar- og nýrnalækningum, 5eitrunarmiðstöð Landspítala

thorbjaf@landspitali.is

Inngangur: Parasetamól-eitranir eru heilbrigðisvandamál víða um heim og heilbrigðiskostnaður sökum þeirra gífurlegur. Á Íslandi er parasetamól eitt mest notaða verkja- og hitastillandi lyfið. Parasetamól-eitranir eru helsta ástæða bráðrar lifrarbilunar í Bandaríkjunum og Bretlandi í dag. Í meðferðarskömmtum er parasetamól öruggt lyf en við hærri skammta þess getur komið fram eiturverkun á lifur.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða umfang parasetamól-eitrana á Landspítala út frá árlegu nýgengi frá 2010-2017. Auk þess var eðli eitrana kannað, hvort kynið væri í meiri áhættu og hvaða aldurshópar væru í mestri áhættu. Að lokum var verklag við meðhöndlun parasetamóleitrana skoðað og afdrif sjúklinga.

Aðferðir: Rannsóknarsnið var afturskyggn lýsandi rannsókn þar sem upplýsingar voru fengnar úr gagnagrunni Landspítala um allar parasetamól mælingar sem framkvæmdar voru á Landspítala á tímabilinu 1. janúar 2010 - 31. desember 2017. Mælingarnar voru flokkaðar í tvo mismunandi flokka, þá sem voru með mælingar lægri en 66 µmól/L og svo 66 µmól/L eða hærri, en meðferðarmörk eru við 66-200 µmól/L. Sjúklingum var flett upp í sjúkraskrám og safnað var frekari upplýsinga um þá sem uppfylltu viðmið parasetamól-eitrunar.

Niðurstöður: Parasetamól-eitranir voru alls 542 yfir 8 ára tímabil, frá 2010-2017. Meðaltal árlegs nýgengis var 26,7/100.000 íbúa (bil 22-33) og var nokkuð stöðugt yfir rannsóknartímabilið. Tíðni eitrana í sjálfsskaðandi tilgangi var hæst hjá konum í aldurshópi 16-25 ára. Karlar, 65 ára og eldri, voru líklegri til þess að vera með eitrun vegna óhapps en þeim fylgdu verri afdrif. Alls voru 5,4% (29/542) sjúklinga sem hlutu lifrarskaða af völdum parasetamóls og 6 sjúklingar létust þar sem parasetamól átti hlut í dánarorsök.

Ályktanir: Parasetamól-eitranir í sjálfsskaðandi tilgangi voru algengastar hjá konum í aldurshópi 16-25 ára. Eitranir af völdum óhapps voru líklegri til að eiga sér stað hjá körlum eldri en 65 ára þar sem afdrifin voru verri. Afdrif flestra sjúklinga voru jákvæð en aukning í lifrarbilunum og dauðsföllum er áhyggjuefni.

48. Lausnamiðuð rannsókn um þróun hugbúnaðar til að styðja við fjölskyldur barna með alvarlega hjartagalla

Þorvaldur Rúnarsson1,3, Auður Katarína Theodórsdóttir1,4, Ólöf Kristjánsdóttir1, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Sidekick Health, Kópavogi, 4Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands

valdirunars@gmail.com

Inngangur: Há tíðni andlegra kvilla (15-35% áfallastreituröskunar) hefur mælst meðal foreldra barna með alvarlega meðfædda hjartagalla. Rafræn heilbrigðisþjónusta býður upp á nýjar lausnir handa þessum skjólstæðingahópi, sérílagi fjölskyldna barna sem undirgangast hjartaaðgerðir erlendis. Rafrænar tengileiðir til heilbrigðisstarfsfólks hefur sýnt draga úr andlegum kvillum skjólstæðinga.

Markmið: Tilgangur er að hanna gagnreynt viðmót í formi hugbúnaðar, nánar tiltekið vefsíðu og snjallapp, til að prófa tengileiðir milli foreldra hjartveikra barna og fagfólks á sjúkrahúsum, sérílagi þeirra sem þurfa að ferðast erlendis til skurðaðgerða.

Aðferð: Stuðst var við hugmyndaramma um hönnunarvísindi (Johannesson og Perjsons 2014), MRC um „trials of complex interventions”. Beitt var lausnamiðuðu þátttökuferlisniði, þar sem meðal annars er byggt á reynslu foreldra og fagfólks og upplifunum um samskipti og niðurstöðum rannsókna á notkun dagbóka í forvarnarskyni í hjúkrun ásamt öðrum niðurstöðum um viðmót hugbúnaðar í heilbrigðismálum, svo sem hvernig skuli safna rafrænt upplýsingum um líðan foreldranna (upplifanir, vanlíðan og verki). Rætt var við foreldra og fagfólk og fýsilegar samskiptaáherslur voru prófaðar og líkan sniðið að samskiptaleiðum (dagbók, fyrirspurnir, myndsímtal), samskiptaaðilum (fagfólk, foreldrar, börn) og samskiptaþáttum (heilsufarsupplýsingar, fyrirspurnir) til að auðvelda rauntímasamskipti og úrvinnslu upplifana foreldra.

Lögð voru upp verkefnin til lausnar og skoðaðar leiðir til að hugbúnaðurinn uppfyllti alla öryggisstaðla við flutning/geymslu heilbrigðisgagna (til að mynda ISO27001 og GDPR). Útfærð var prótótýpa af vefþjóni til stuðnings hugbúnaðinum og hann síðan frumprófaður.

Niðurstöður: Tvær prótótýpur fyrir viðmótshluta verkefnisins voru prófaðar og lagfærðar og ein leið valin. Af öryggisástæðum var ákveðið að gefa foreldrunum iPada sem læstir væru með einu appi til að þjónusta dagbókar-, skeytis- og myndsímtalslausnir þar sem samskiptin við fagfólk heima og í Lundi ættu sér stað. Appinu til frekari stuðnings var einnig útfærð vefsíða til að auka þægindi við skrif á lengri pistlum sem og að auka aðgengi foreldra að dagbókunum eftir að snjalltækinu hefur verið skilað.

Ályktun: Forfrumgerð hugbúnaðarins lofar góðu og verður fram haldið til að útfæra og hanna til frekari prófunar. Unnið verður áfram við að koma fyrir upplýsingasíðum innan hugbúnaðarins sem inniheldur almennar upplýsingar um hjartasjúkdóma ásamt öðrum sérsniðnum upplýsingum sem fagfólk vill að foreldrarnir hafi sér til stuðnings.

49. Greining á efnaskiptaferlabreytingum í beinséræfingu stofnfrumna

Þóra B. Sigmarsdóttir1, Sarah McGarrity1,2, Óttar Rolfsson2, Ólafur E. Sigurjónsson1,3

1Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, 2Kerfislíffræðisetri Háskóla Íslands, 3Blóðbankanum, Landspítala

oes@landspitali.is

Inngangur: Mesenchymal stromal cells (MSCs) eru fjölhæfar stofnfrumur sem lofa góðu í vefjaverkfræðilegri notkun. Ástæða þess er m.a. að MSC geta sérhæfst í þrjár frumugerðir; beinfrumur, brjóskfrumur og fitufrumur. Beinmyndunarhæfni þeirra er sérstaklega áhugaverð þar sem mikill skortur er á beinígræðsluefni til að meðhöndla beinskaða eftir áföll eða sjúkdóma. Efnaskiptaferli breytist við beinsérhæfingu og er tengt mismunandi stigi sérhæfingar. Nákvæmlega hvernig slíkt á sér stað er ekki vitað og er skortur á upplýsingum um þau ferli sem koma þar að.

Markmið: Skilgreina efnaskiptaferli í beinsérhæfingu með því að skoða 5 lykil-efnaskiptaumbrotsefni (Glucose, Lactate, Glutamine, Glutamic Acid og Ammonia).

Aðferðir: Safnað var floti daglega úr frumurækt þar sem MSC frumur voru sérhæfðar yfir í beinfrumur í tvívíðri frumurækt. Flotið var mælt með annars vegar ABL90 FLEX blood gas analyzer (Glucose, Lacate) og colorimetric assay (Glutamine, Glutamic Acid, and Ammonia) hins vegar. Gæði beinsérhæfingar var metin með QPCR (RUNX2, SPP1, og COL1A2), ALP assay og alizarin red magnmælingu.

Niðurstöður: Út frá greiningum á þessum 5 efnaskiptaumbrotsefnum gátum við skipt beinsérhæfingunni niður í 5 stig með tilliti til breytinga í efnaskiptaferlum, upptöku þeirra og seytingu úr og út í frumuætið. Þessi 5 stig og þær breytingar sem verða við sérhæfingu MSC frumnanna passa vel við áður birt efni um breytingar í efnaskiptaferlum við beinsérhæfingu.

Ályktun: Þau 5 stig breytinga í efnaskiptaferlum, sem við lýsum hér, gefa okkur tækifæri á að greina fleiri efnaskiptaumbrotsefni og mögulega finna lífmörk fyrir beinsérhæfingu í frumum í rækt.Þetta vefsvæði byggir á Eplica