Fylgirit 62 - Sameiginlegt vísindaþing skurð- og svæfingalækna

Fylgirit 62 - Vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

Umbúnaður, frágangur og innihald efnisins er birt á ábyrgð þinghaldara.

12. Vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og

Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

 

Í samvinnu við Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna og Félag íslenskra bráðalækna

50 ára afmæli Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

 

Hótel Hilton Nordica, Reykjavík

19.-20. mars 2010


Velkomin á þingið

 

Ágætu kollegar og aðrir þinggestir.

Sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands er nú haldið í 12. sinn, nánar tiltekið dagana 19. – 20. mars á Hótel Hilton Nordica. Þingið í ár er jafnframt 50 ára afmælisþing Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands og verða þeim tímamótum gerð sérstök skil í dagskránni. Að þessu sinni koma Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna og Félag íslenskra bráðalækna að þinginu og verður dagskráin því óvenju fjölbreytt. Að öðru leyti er uppbygging þingsins með svipuðu sniði og síðastliðin fjögur ár, með málþingum, fyrirlestrum og kynningu vísindaerinda og veggspjalda.

 

Félögin hafa boðið til landsins 7 erlendum fyrirlesurum sem leiða munu málþing um ýmis vandamál sem tengjast sérgreinum okkar. Kynning rannsóknarverkefna mun þó áfram skipa verðskuldaðan sess á þinginu, enda eitt helsta markmið félaganna að gefa ungum vísindamönnum tækifæri til að kynna rannsóknir sínar. Góður rómur hefur verið gerður að þessum áherslum og þátttaka aukist á milli ára sem er ánægjuleg þróun.

 

Flestir eiga að geta tekið undir að þingið er eins konar uppskeruhátíð fyrir vísindastarf félagsmanna þar sem ýtt er undir skoðanaskipti milli sérgreina. Þingið er þó ekki síður mikilvægt í félagslegu tilliti og eflir samstöðu hópsins. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning og félagsmenn aðildarfélaganna aldrei fleiri. Þingið ætti því að geta orðið öflugra en nokkru sinni. En til þess að það geti orðið er mikilvægt að sem flestir mæti á þingið og taki virkan þátt í umræðum, bæði föstudag og laugardag. Vísindaþing af þessari stærðagráðu er ekki hægt að halda án stuðnings fyrirtækja í heilbrigðisrekstri og þjónustu. Kunnum við þeim fyrirtækjum sem styðja okkur í ár hinar bestu þakkir. Um leið og við bjóðum ykkur velkomin á þingið er það einlæg von okkar að þið hafið gagn og gaman af þeirri dagskrá sem boðið er upp á.

 

 

Stjórn Skurðlæknafélags Íslands

Tómas Guðbjartsson, formaður

Fritz Berndsen, gjaldkeri

Anna Björk Magnúsdóttir, varaformaður

Gunnar Auðólfsson, ritari

Kristján Skúli Ásgeirsson, meðstjórnandi

Stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

Kári Hreinsson, formaður

Guðmundur K Klemenzson, gjaldkeri

Alma D. Möller, ritari

Sigurbergur Kárason, varaformaður

 

 

Ritari þingsins

Gunnhildur Jóhannsdóttir

 

Ráðstefnuhald

Congress Reykjavík, Engjateigi 5, 105 Reykjavík

 

Skráning á þingið

www.congress.is


12. vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og

Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

 

 


 

Salur A

08:30

Setning: Kári Hreinsson, formaður SGLÍ

Ávarp: Björn Zöega, forstjóri LSH

 

09:00-12:00  Málþing: Fast track surgery

Fundarstjórar: Sveinn Geir Einarsson og Tómas Guðbjartsson

09:00

Welcome: Tómas Guðbjartsson

Introduction: Sveinn Geir Einarsson

09:05 The fast track concept: Henrik Kehlet, MD, PhD
10:00 Fast track surgery in Iceland: Gynaecology & obstetrics: Kristín Jónsdóttir
10:15

E-01   Árangur ristilaðgerða hjá 70 ára og eldri á Landspítala háskólasjúkrahúsi

Árni Þór Arnarson, Elsa Björk Valsdóttir, Karl Kristinsson, Kristján Jónasson, Páll Helgi Möller

 

E-02   Gallblöðrutaka um kviðsjá á dagdeild. – Lýðfræði og árangur

Gunnar Thorarensen, Páll Helgi Möller, Guðjón Birgisson

10:30 Kaffihlé
11:00 Outcome after surgery: Michael P. Grocott, MRCP, FRCA
11:45 Umræður

 

12:00 Hádegishlé

 

Salur A

13:00-14:30   Almennar skurðlækningar og aðrar sérgreinar skurðlækninga (7+3 mín)

Fundarstjórar: Alma D Möller og Fritz Berndsen

13:00 E-03

Árangur fóðringa ósæðargúla á Íslandi á árunum 2001–2009

Magnús Sveinsson, Elín Laxdal, Jón Guðmundsson, Kristbjörn I. Reynisson

13:10 E-04

Algengi, orsök og meðferð rofs á ristli á Landspítala árin 1998-2007

Kristín Jónsdóttir, Elsa Björk Valsdóttir, Páll Helgi Möller

13:20 E-05

Endurkoma á bráðamóttöku eftir skurðaðgerð

Guðrún Eiríksdóttir, Elsa Björk Valsdóttir, Páll Helgi Möller

13:30 E-06

Kirtilfrumukrabbamein í botnlanga á Íslandi 1990-2009

Halla Viðarsdóttir, Jón Gunnlaugur Jónasson, Páll Helgi Möller

13:40 E-07

Illkynja iðraþekjuæxli í fleiðru á Íslandi 1985–2008

Eyrún Valsdóttir, Tryggvi Þorgeirsson, Helgi J. Ísaksson, Hrönn Harðardóttir, Tómas Guðbjartsson

13:50 E-08

Skurðaðgerðir vegna lungnameinvarpa á Íslandi 1984-2008

Halla Viðarsdóttir, Páll Helgi Möller, Jón Gunnlaugur Jónasson, Tómas Guðbjartsson

14:00 E-09

Hreyfanleiki hálshryggjar við notkun hálskraga

Þóra Þorgilsdóttir, Árni Ingimundarson, Bjarni Gunnarsson, Duane Romo, Yessenia Lopez, Þorvaldur Ingvarsson

14:10 E-10

Vanstarfsemi heiladinguls í síðfasa í kjölfar höfuðáverka (HÁ) eða innanskúmsblæðingar (SAH) – Framsýn rannsókn

Ásta Dögg Jónasdóttir, Pétur Sigurjónsson, Guðrún Höskuldsdóttir, Ingvar Hákon Ólafsson, Sigurbergur Kárason, Guðrún Karlsdóttir, Rafn Benediktsson, Guðmundur Sigþórsson, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

14:20 E-11

Vöðvahólfaheilkenni sem fylgikvilli bráðrar ósæðarflysjunar af gerð I. - Sjúkratilfelli

Sigurður Ragnarsson, Gunnar Mýrdal

 

Salur H

13:00-14:30   Gjörgæslu-, svæfinga- og brjóstholsskurð­lækningar (7+3 mín)

Fundarstjórar: Anna Gunnarsdóttir og Felix Valsson

13:00 E-12

Míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006

Sigurður Ragnarsson, Þórarinn Arnórsson, Tómas Guðbjartsson

13:10 E-13

Notkun utanbastsdeyfingar við fæðinga­verki

Aðalbjörn Þorsteinsson, Ragnheiður I. Bjarnadóttir

13:20 E-14

Bráður nýrnaskaði á gjörgæsludeildum LSH

Íris Ösp Vésteinsdóttir, Kristinn Sigvaldason, Ólafur Skúli Indriðason, Gísli H. Sigurðsson

13:30 E-15

Bringubeinsfistlar eftir opnar hjarta­skurðaðgerðir

Steinn Steingrímsson, Tómas Guðbjartsson, Ronny Gustafsson, Arash Mokhtari, Richard Ingemansson, Johan Sjögren

13:40 E-16

Framsýn rannsókn á skurðsýkingum eftir 246 opnar hjartaaðgerðir

Helga G Hallgrímsdóttir, Magnús Gottfreðsson, Tómas Guðbjartsson

13:50 E-17

Brátt andnauðarheilkenni (BAH) á gjörgæsludeildum LSH 2004-2008

Þórður Skúli Gunnarsson, Kristinn Sigvaldason, Kristbjörn I. Reynisson, Alma D. Möller

14:00 E-18

Fylgikvillar blaðnámsaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi 1999-2008

Rut Skúladóttir, Guðrún Nína Óskarsdóttir, Helgi J. Ísaksson, Steinn Jónsson, Húnbogi Þorsteinsson, Tómas Guðbjartsson

14:10 E-19

Forspárþættir lífshorfa eftir blaðnám við lungnakrabbameini á Íslandi 1999–2008

Guðrún Nína Óskarsdóttir, Rut Skúladóttir, Húnbogi Þorsteinsson, Helgi J. Ísaksson, Steinn Jónsson, Tómas Guðbjartsson

14:20 E-20

Fleyg- og geiraskurðir við lungnakrabba­meini á Íslandi

Ásgeir Alexandersson, Steinn Jónsson, Helgi J. Ísaksson, Tómas Guðbjartsson

 

14:30 Kaffihlé

Salur H

15:00-16:00    Þvagfæra- og brjóstaskurðlækningar (7+3 mín)

Fundarstjórar: Guðmundur Geirsson og Sigurbergur Kárason

15:00 E-21

Góðkynja stækkun á hvekk, breytingar á meðferð og ábendingum fyrir aðgerðir.

- Framhaldsrannsókn

Jóhann P. Ingimarsson, Guðmundur Geirsson

15:10 E-22

Endursköpun brjósta með fríum TRAM-flipa og mat sjúklinga á árangri 7-18 árum síðar

Davíð Þór Þorsteinsson, Sigurður E. Þorvalds­son, Rafn A. Ragnarsson, Sigurður Björnsson

15:20 E-23

Greining BRCA2 stökkbreytinga fyrir skurð­aðgerðir við brjóstakrabbameini. - Bót eða böl?

Svanheiður L Rafnsdótttir, Þorvaldur Jónsson, Óskar Þór Jóhannsson, Kristján Skúli Ásgeirsson

15:30 E-24

Stærð nýrnafrumukrabbameina, líkur á meinvörpum og lífshorfur

Jóhann P. Ingimarsson, Sverrir Harðarson, Vigdís Pétursdóttir, Eiríkur Jónsson, Guðmundur Vikar Einarsson, Tómas Guðbjartsson

15:40 E-25

Nýrnafrumukrabbamein af litfælugerð á Íslandi 1971-2005

Jóhann P. Ingimarsson, Sverrir Harðarson, Vigdís Pétursdóttir, Eiríkur Jónsson, Guðmundur Vikar Einarss, Tómas Guðbjartsson

15:50 E-26

Notkun munnslímhúðar við aðgerðir á þvagrás

Kristín Jónsdóttir, Eiríkur Jónsson

 

Salur A

15:00-16:00    Gjörgæslu-, svæfinga- og brjóstholsskurð­lækningar (7+3 mín)

Fundarstjórar: Guðmundur K. Klemenzson og Gunnar Mýrdal

15:00 E-27

Gáttatif eftir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir, Hannes Sigurjónsson, Inga Lára Ingvarsdóttir, Sæmundur J. Oddsson, Martin Ingi Sigurðsson, Davíð O. Arnar, Þórarinn Arnórsson, Tómas Guðbjartsson

15:10 E-28

Aukin noktun ECMO meðferðar á Íslandi

Halla Viðarsdóttir, Þorsteinn Ástráðsson, Bjarni Torfason, Líney Símonardótir, Tómas Guðbjartsson, Felix Valsson

15:20 E-29

Áhrif noradrenalíns á smáæðablóðflæði í þörmum við opnar kviðarholsaðgerðir

Gísli H. Sigurðsson, Oliver Limberger, Sebastian Brandt, Luzius B. Hiltebrand

15:30 E-30

Notkun espaðs storkuþáttar VII á Landspítala á 10 ára tímabili

Róbert Pálmason, Brynjar Viðarsson, Felix Valsson, Kristinn Sigvaldason, Tómas Guðbjartsson, Páll Torfi Önundarson

15:40 E-31

Lungnaskurðaðgerðir við lungnakrabbameini á Íslandi: Tegund aðgerða og árangur

Húnbogi Þorsteinsson, Ásgeir Alexandersson, Guðrún Nína Óskarsdóttir, Rut Skúladóttir, Helgi J. Ísaksson, Steinn Jónsson, Tómas Guðbjartsson

15:50 E-32

Rof á hjarta eftir gangráðsísetningu: Tilfellaröð af Landspítala

Ingvar Þ. Sverrisson, Halla Viðarsdóttir, Gizur Gottskálksson, Tómas Guðbjartsson

16:00 Kaffihlé

 

 

 

Salur A

16:15-17:05    Veggspjaldakynning með stuttri kynningu    (2+3 mín)

Fundarstjórar: Eiríkur Jónsson og María Sigurðardóttir

16:15 V-01

Krabbamein í botnlanga með fistil yfir í þvagblöðru. - Sjúkratilfelli

Halla Viðarsdóttir, Páll Helgi Möller, Kristrún R. Benediktsdóttir, Guðmundur Geirsson

16:20 V-02

Er þörf á holhandarstigun hjá öllum brjóstakrabbameinssjúklingum? - Framsæ þýðisrannsókn frá Svíþjóð

Helena Sveinsdóttir, Lars-Gunnar Arnesson, Stefan Emdin, Lars Löfgren, Johan Ahlgren, Helena Fohlin, Lisa Rydén, Christian Ingvar

16:25 V-03

Breytt staða axlargrindar og hálshryggs hjá einstaklingum með hálsverki

Harpa Helgadóttir, Eyþór Kristjánsson, Halldór Jónsson jr.

16:30 V-04

Fylgni milli beinþéttni og hvetjandi vöðva­samdrátts í þverlömuðum sjúklingum er hljóta raförvunarmeðferð

Paolo Gargiulo, Benedikt Helgason, Páll Jens Reynisson, Egill Axfjörð Friðgeirsson, Þórður Helgasson, Halldór Jónsson jr.

16:35 V-05

Faraldsfræði mænuskaða og hryggbrota í slysum á Íslandi

Sigrún Knútsdóttir, Herdís Þórisdóttir, Páll Ingvarsson, Kristinn Sigvaldason, Aron Björnsson, Halldór Jónsson jr.

16:40 V-06

Árangur LSH í fyrirbyggjandi meðferð gegn bláæðasegasjúkdómum. - Framsýn þver­sniðsrannsókn

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir, Guðný Stella Guðnadóttir, Sigríður Bára Fjalldal, Hulda Rósa Þórarinsdóttir, Agnar Bjarnason, Óskar Einarsson

16:45 V-07

Rof á ósæð eftir bílveltu

Bergrós K. Jóhannesdóttir, Felix Valsson, Þórir Sigmundsson, Tómas Guðbjartsson

16:50 V-08

Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi

Hannes Sigurjónsson, Sólveig Helgadóttir, Sæmundur J. Oddsson, Martin Ingi Sigurðsson, Þórarinn Arnórsson, Tómas Guðbjartsson

16:55 V-09

Brottnám heiladingulsæxla gegnum nef. 2007-2009

Kristín Eyglóardóttir, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, Rafn Benediktsson, Arnar Þór Guðjónsson, Ingvar Hákon Ólafsson

17:00 V-10

Krabbamein í munnvatnskirtlum á Íslandi 1996-2009

Hannes Hjartarson, Arnar Þór Guðjónsson

 

 

 

 

Veggspjöld án kynningar

V-11

Hlutabrottnám á nýra vegna nýrnafrumukrabbameins á Íslandi

Elín Maríusdóttir, Sverrir Harðarson, Vigdís Pétursdóttir, Eiríkur Jónsson, Valur Þór Marteinsson, Guðmundur Vikar Einarsson, Tómas Guðbjartsson

V-12

Stórdýramódel til rannsókna á umhverfisviðbögðum nýrra ígræða

Halldór Jónsson jr., Elín Laxdal, Sigurbergur Kárason, Atli Dagbjartsson, Bergþóra Eiríksdóttir, Eggert Gunnarsson, Gissur Örlygsson, Jóhannes Gíslason, Jón M. Einarsson, Ng Chuen How, Jóhannes Björnsson

V-13

Smádýramódel til magngreiningar á beinvef

Halldór Jónsson jr., Elín Laxdal, Bergþóra Eiríksdóttir, Atli Dagbjartsson, Eggert Gunnarsson, Gissur Örlygsson, Jóhannes Gíslason, Jón M. Einarsson, Ng Chuen How, Jóhannes Björnsson

V-14

IceSG – meðferðarteymi sarkmeina á Íslandi

Bjarni A Agnarsson, Eiríkur Jónsson, Halldór Jónsson jr., Halldóra Kristín Þórarinsdóttir, Helgi Hafsteinn Helgason, Helgi Sigurðsson, Hildur Einarsdóttir, Hlynur N. Grímsson, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Jón R. Kristinsson, Kristrún R. Benediktsdóttir, Margrét Snorradóttir, Ólafur Gísli Jónsson, Óskar Þór Jóhannsson, Þráinn Rósmundsson

V-15

Menntun, starfsvettvangur og framtíðarhorfur á vinnumarkaði íslenskra skurðlækna

Tómas Guðbjartsson, Halla Viðarsdóttir, Sveinn Magnússon

 

17:20-18:20    Aðalfundir SKÍ og SGLÍ

Salur A: Skurðlæknafélag Íslands

Salur H: Svæfinga- og gjörgæslulæknafélag Íslands

 

 

Salur A

09:00-12:00   Málþing: “Hnífurinn líknar”

Fundarstjórar: Elsa B. Valsdóttir og Helgi Kjartan Sigurðsson

09:00 Setning: Helgi Kjartan Sigurðsson
09:05 Að hefja líknarmeðferð: Valgerður Sigurðardóttir
09:20 Líknarmeðferð: Leiðbeiningar og lífsskrár: Jón Eyjólfur Jónsson
09:35 Líknandi aðgerðir í efri hluta meltingarvegs: Guðjón Birgisson/Sigurður Blöndal
09:50 Líknandi aðgerðir í taugakerfi: Ingvar H. Ólafsson
10:10 Kaffihlé
10:40 Líknandi aðgerðir í öðrum líffærakerfum: Elsa Björk Valsdóttir
11:10 Sjúkratilfelli, umræður: Helgi Kjartan Sigurðsson /Elsa B. Valsdóttir

 

Salur H

09:00-12:00  Málþing: Svæfingar og verkjameðferð

Fundarstjórar: Kári Hreinsson

09:00 Lífshættuleg blæðing eftir fæðingu. Sjúkratilfelli frá Landspítala: Ýr Frisbæk og Íris Axelsdóttir
09:15 Meðferð blæðinga eftir fæðingar: Guðmundur K. Klemenzson
09:35 Umræður
09:45 Neuropathic Pain - Touching a raw nerve: Prof. Andrew S.C. Rice, FRCA
10:30 Kaffihlé
11:00 Cannabinoids as analgesics - Pros and Cons: Prof. Andrew S.C. Rice, FRCA
11:45 Umræður

 

Salur I

09:00-12:00  Málþing: Bráðalækningar. Symposium arranged by the Icelandic Training Programme in Emergency Medicine

Fundarstjóri: Bo E Madsen

09:00 FAST exam (Focused abdominal sonography in trauma): Reinier Van Tonder MD & Darrell Sutijono MD, Emergency Medicine, Yale
09:45 Trauma systems: Jón Baldursson MD, Emergency Medicine, LSH
10:30 Kaffihlé
11:00 Initial fluid resuscitation and permissive hypotension in trauma: Alok Gupta MD, Trauma Surgery, Beth Israel Deaconess Medical Center

 

12:00 Hádegishlé

 

Salur A

13:00-14:30    Besta vísindaerindi unglæknis eða læknanema. Sex bestu keppa til Hvatningaverðlauna Jónasar Magnússonar (10+5 mín)

Fundarstjóri: Þorvaldur Ingvarsson

13:00 E-33

Meinafræðileg eitlastigun brjóstakrabba­meins við Landspítala 2000-2007

Anna Kristín Höskuldsdóttir, Þorvaldur Jónsson, Lárus Jónasson, Kristján Skúli Ásgeirsson

13:15 E-34

Alvarleg sýklasótt á íslenskum gjörgæslu­deildum - Tíðni, meingerð og meðferðar­árangur

Edda Vésteinsdóttir, Sigurbergur Kárason, Sigurður E. Sigurðsson, Magnús Gottfreðsson, Sigrún
Hallgrímsdóttir, Alma Gunnarsdóttir, Gísli H. Sigurðsson

13:30 E-35

Lægri dánartíðni sjúklinga með blóðfitu­hækkun eftir kransæðahjáveituaðgerð.
– Verndandi áhrif blóðfitulækkandi statína?

Sæmundur J. Oddsson, Hannes Sigurjónsson, Sólveig Helgadóttir, Martin Ingi Sigurðsson,
Þórarinn Arnórsson, Tómas Guðbjartsson

13:45 E-36

Flýtibatameðferð getur stytt sjúkrahúslegu við valkeisaraskurði

Jóhanna Gunnarsdóttir, Þorbjörg Edda Björnsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Reynir Tómas Geirsson

14:00 E-37
Lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2006

Inga Lára Ingvarsdóttir, Sólveig Helgadóttir, Ragnar Danielsen, Tómas Guðbjartsson

14:15 E-38

Meðferð með fíbrínógenþykkni við alvarlegar blæðingar

Hulda Rósa Þórarinsdóttir, Friðrik Þ. Sigur­björnsson, Kári Hreinsson,
Páll Torfi Önundarson, Tómas Guðbjartsson, Gísli H. Sigurðsson

 

14:30-17:00    Hátíðardagskrá í tilefni 50 ára afmælis SGLÍ

Fundarstjórar: Kári Hreinsson og Tómas Guðbjartsson

14:30 Hátíðarfyrilestur í tilefni 50 ára afmælis SGLÍ. Félag svæfingalækna í 50 ár: Jón Sigurðsson

 

15:15 Kaffihlé

 

15:45 Hypoxia and human performance at high a1titudes: Denny Levitt, FRCA
16:45 Rektor HÍ flytur stutt ávarp og afhendir verðlaun fyrir besta vísindaerindi

 

17:00 Þingi slitið

 

19:30       Hátíðarkvöldverður og dansleikur á Rúbín

 Ágrip erinda

 

E-01     Árangur ristilaðgerða hjá 70 ára og eldri á Landspítala háskólasjúkrahúsi

Árni Þór Arnarson1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Karl Kristinsson1, 2, Kristján Jónasson3, Páll Helgi Möller1, 2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands

arnithor@landspitali.is

Tilgangur: Að kanna útkomu og afdrif sjúklinga eldri en 70 ára sem gengust undir valaðgerð á ristli, borið saman við yngri sjúklinga. Einnig að athuga hvort eldri sjúklingar fái frekar fylgikvilla, hafi hærri dánartíðni eða fleiri legudaga. Slíkt hefur ekki verið kannað á Íslandi áður.

Efniviður: Þetta var afturskyggn rannsókn. Rannsóknarþýðið voru allir sjúklingar sem gengust undir hluta- eða heildarbrottnám á ristli á LSH árið 2008. Bráðaaðgerðir voru ekki teknar með. Lengd aðgerðar, ASA flokkun, fylgikvillar, dánartíðni og fjöldi legudaga voru m.a. þeir þættir sem skráðir voru og bornir saman milli hópanna.

Niðurstöður: Alls voru í rannsókninni 106 sjúklingar. Tæplega helmingur þeirra var eldri en 70 ára (44,3%). Flestir fóru í aðgerð vegna krabbameins (54,7%), en aðrir vegna endurtekinnar sarpbólgu í digurgirni (24,5%), sepa í ristli (10,4%) eða annarra sjúkdóma (10,4%).

Tæplega fjórðungur sjúklinga fékk fylgikvilla (23,6%). Algengustu fylgikvillar voru sárasýking (6,6%), ígerð (5,7%), leki á garnatengingu (6,6%), þvagfærasýking (3,7%) og lungnabólga (2,8%). Tveir sjúklingar fengu ígerð í kjölfar leka á garnatengingu. Tíðni sýkinga hjá eldri sjúklingum var 23,4% og tíðni allra fylgikvilla 25,5%. Sambærilegar tölur hjá yngri sjúklingum voru 20,3% og 22,0%. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á tíðni fylgikvilla milli hópanna (p=0,71 og p=0,68). Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð. Sjúklingar eldri en 70 ára voru inniliggjandi að jafnaði í 6 daga en yngri sjúklingar í 5 daga og var munurinn tölfræðilega marktækur.

Ályktanir: Sjúklingum eldri en 70 ára sem gangast undir val ristilaðgerð á LSH vegnar ekki verr m.t.t fylgikvilla, þrátt fyrir að þurfa lengri legutíma. Aldur einn og sér ætti því ekki að vera frábending fyrir aðgerð.

 

E-02     Gallblöðrutaka um kviðsjá á dagdeild – Lýðfræði og árangur

Gunnar Thorarensen1, Páll Helgi Möller1,2, Guðjón Birgisson1,2

1Skurðlækningadeild Landpítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

gunnithor@gmail.com

Tilgangur: Dagdeildarmeðferð færist sífellt í vöxt og hafa sjúklingar sem gangast undir gallblöðrutöku verið útskrifaðir samdægurs í auknum mæli síðast­liðin ár. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða þá sjúklinga sem koma í gallblöðrutöku um kviðsjá (GK) í dagdeild m.t.t. lýðfræðilegra þátta og meta árangur aðgerðarinnar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er aftursýn og nær til allra sjúklinga sem gengust undir valaðgerð á tímabilinu maí 2007 til febrúar 2010. Skoðaðir voru lýðfræðilegir þættir og bornir saman fyrir dag- og legudeildarsjúklinga, auk þess sem tíðni endurinn­lagna var athuguð.

Niðurstöður: Fjöldi valaðgerða sem fór í gegnum dagdeild var 334. Milli áranna 2008 og 2009 jókst fjöldi dagdeildaraðgerða um 240% og hlutfall þeirra af öllum skipulögðum GK fór úr 31,2% í 59,7%. Sjúklingar dagdeildar voru yngri en sjúklingar legu­deildar (46,1 ár og 55,6 ár) og höfðu lægra ASA skor að meðaltali (p<0,05). Hlutfall kvenna var hærra meðal dagdeildarsjúklinga en legudeildarsjúklinga (p<0,05). Ekki sást munur á tíðni endurinnlagna milli dag- og legudeildarsjúklinga (1,5% og 3,8%) og hlut­fall dagdeildarsjúklinga sem þurfti að leggja inn á legudeild í kjölfar aðgerðar lækkaði úr 20,8% árið 2007 í 9,7% 2009 (p<0,05).

Ályktun: Dagdeildarsjúklingar sem fóru í GK eru yngri og heilsuhraustari en legudeildarsjúklingar. Tíðni endurinnlagna meðal dagdeildarsjúklinga sem fóru í GK er lág. Hlutfall þeirra sem ekki tókst að útskrifa samdægurs var 9,7% árið 2009 og hvetur til áframhaldandi þróunar á verklagsreglum m.a. við val á sjúklingum í dagdeild og verkjastillingu eftir aðgerð.

 

E-03     Árangur fóðringa ósæðargúla á Íslandi á árunum 2001–2009

Magnús Sveinsson1, Elín Laxdal1,2,3, Jón Guðmundsson4, Kristbjörn I. Reynisson4

1Æðaskurðdeild Landspítalans, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Dept. of Surgical Sciences, University of Bergen, Norway, 4myndgreiningarsvið Landspítala

magsve@gmail.com

Inngangur: Allt frá lokum 9. áratugarins hefur fóðring verið notuð til viðgerðar á ósæðargúlum, aðgerðinni var fyrst lýst í grein sem birtist 1991, en erlendar rannsóknir benda til lægri dánar- og aukaverkanatíðni í samanburði við opna aðgerð á einkennalausum ósæðagúlum neðan nýrnaæða. Þó hefur ekki verið sýnt fram á betri langtíma lifun. Kostnaður við aðgerðina er töluverður, en sparnaður næst vegna styttri legutíma og færri fylgikvilla. Aðferðin hefur verið notuð á Íslandi frá árinu 2001. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða árangur af aðgerðunum hérlendis, tíðni fylgikvilla og dánartíðni.

Aðferðir: Rannsóknin var aftursæ. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám sjúklinga sem gengist hafa undir fóðringu á ósæðargúlum neðan nýrnaæða frá árinu 2001 til 2009. Tölvuforritið SPSS var notað við tölfræðilega úrvinnslu.

Niðurstöður: Þrjátíu og sex einstaklingar gengust undir 37 fóðringar vegna ósæðargúla á tímabilinu, 32 karlar og 4 konur. Meðalaldur var 69 ár (dreifing 55-83 ár) og meðal legutími var 7 (bil 3-18) dagar. Dauði innan 30 daga frá aðgerð var 2/37 eða 5,4%. Tíðni snemmkominna fylgikvilla var 13/37 eða 35%, þar af voru meiriháttar fylgikvillar hjá 2 (5,3%). Við lok aðgerðar var skráður leki (endoleak) af gerð 1 hjá einum sjúklingi sem dó innan 30 daga og var því ekki meðhöndlaður frekar. Leki af gerð 2 sást hjá 18 sjúklingum sem lokaðist sjálfkrafa hjá öllum nema einum sjúklingi. Einn sjúklingur gekkst undir endurfóðringu vegna leka af gerð 3. Í dag eru 30 einstaklingar (83%) á lífi.

Álit: Fóðrun ósæðargúla í kviðarholi er góður meðferðarkostur þegar gúll er staðsettur neðan nýrnaæða. Tíðni fylgikvilla er sambærileg og gerist í nágrannalöndum.

 

E-04     Algengi, orsök og meðferð rofs á ristli á Landspítala árin 1998-2007

Kristín Jónsdóttir1,Elsa B. Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

kristijo@landspitali.is

Inngangur: Rof á ristli er alvarlegur sjúkdómur en samkvæmt erlendum rannsóknum er dánartíðnin há, eða frá 15-30%. Orsakir rofs á ristli eru margar, en helstar eru sarpabólga, krabbamein og utanaðkom­andi áverki, t.d. við ristilspeglun. Erlendar rannsókn­ir hafa sýnt að meðferð hefur breyst á umræddu tímabili og færri fara nú í aðgerð sem fyrstu meðferð samanborið við áður. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða algengi, orsakir og afdrif sjúklinga með rof á ristli á Landspítala á tímabilinu 1998-2007.

Efniviður og aðferðir: Gerð var leit í gagnagrunn­um Landspítala eftir líklegum greiningarkóðum (ICD-10). Farið var yfir sjúkraskrár og gögn um kyn, aldur, orsakir og afdrif einstaklinga með rof safnað.

Niðurstöður: Alls fundust 618 einstaklingar en þar af voru 193 með staðfest rof á ristli, 108 konur og 85 karlar. Meðalaldur var 66 ár (bil 30-93 ára). Algeng­asta ástæða rofs var sarpabólga (67%), en aðrar ástæður voru áverkar, þar með talið eftir speglanir (15%) og fylgikvillar aðgerða (4%). Aðrar sjaldgæfari orsakir sáust í 14% tilfella. Í upphafi rannsóknar­tímabilsins var aðgerð algengasta fyrsta meðferð (67%) en í lok hans var það hlutfall komið niður í 35%. Vægi sýklalyfja og kera jókst á sama tíma.

Ályktun: Sarpabólga var algengasta ástæða rofs á ristli á Landspítala. Vægi skurðaðgerða sem fyrsta meðferð hefur minnkað á rannsóknartímabilinu og er það í samræmi við þróun annars staðar.

 

E-05     Endurkoma á bráðamóttöku eftir skurðaðgerð

GuðrúnEiríksdóttir1, Elsa Björk Valsdóttir1,2, Páll Helgi Möller1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningadeild, Landspítala

gudruei@hi.is

Inngangur: Endurkoma sjúklinga á bráðamóttöku eftir aðgerð er þekkt vandamál. Ástæður eru margvíslegar, svo sem blæðingar, sýkingar, verkir, ófullnægjandi upplýsingar við útskrift, ónógur skilningur sjúklings á bataferlinu eða ótímabær útskrift. Í sumum tilfellum leiðir þetta til endurinn­lagnar. Tilgangur rannsóknar var að skoða endur­komur sjúklinga skurðdeildar á bráðamóttöku innan 30 daga frá útskrift, með tilliti til helstu áhættuþátta fyrir endurkomu.

Efniviður og aðferðir: Um var að ræða afturskyggna rannsókn. Rannsóknarþýðið voru allir sjúklingar sem gengust undir valaðgerð á almennri skurðdeild árið 2009 og leituðu á bráðamóttöku innan 30 daga frá útskrift. Tegund aðgerðar, aðgerðarlengd, ASA flokkun, helstu fylgikvillar aðgerðar, lengd innlagnar, ástæða endurkomu og afdrif á bráðamóttöku voru m.a. þeir þættir sem skráðir voru.

Niðurstöður:Alls gengust 1299 sjúklingar undir valaðgerð á tímabilinu. Alls leituðu 175 sjúklingar (13,5%) á bráðamóttöku innan 30 daga frá útskrift, þar af voru 140 komur sem tengdust aðgerðinni (10,7%). Af þessum 140 sjúklingum voru 87 konur (62,1%). Meðalaldur var 56,6 ár (20-87 ár). Meðaltími frá útskrift að endurkomu var 11 dagar. Algengustu ástæður endurkomu voru sýking í skurðsári eða í 33 tilfellum (23,6%), þar á eftir óútskýrðir kviðverkir hjá 26 (18,6%), og að lokum verkir í skurðsári hjá 19 sjúklingum (13,6%). Helstu afdrif á bráðamóttöku voru ráðgjöf (31%) eða gjöf sýklalyfja (26%). Alls voru 10 endurinnlagnir af þessum 140 endurkomum eða hjá 7% sjúklinga.

Ályktun: Tíðni endurinnlagna er ásættanleg. Hátt í þriðjungur þeirra sem leita á bráðamóttöku fær enga meðferð, heldur aðeins ráðgjöf. Athuga þarf hvort finna megi betri farveg fyrir slík tilfelli svo sem göngudeildarþjónustu, símatíma eða betri aðgang að deildarlæknum.

 

E-06     Kirtilfrumukrabbamein í botnlanga á Íslandi 1990-2009

Halla Viðarsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3, Páll Helgi Möller1,3

1Skurðlækningadeild Landspítala, 2rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

hallavidars@gmail.com

Inngangur: Kirtilfrumukrabbamein í botnlangatotu er sjaldgæft, eða minna en 0,5% af öllum krabba­meinum í meltingarvegi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða tíðni, einkenni, meinafræði og meðferð þessa krabbameins hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem greindust með kirtilfrumukrabba­mein í botnlangatotu á Íslandi 1990-2009. Skoðaðir voru faraldsfræðilegir þættir, meðferð og lifun (Kaplan-Meier). Meðaleftirfylgni var 35 mánuðir (bil: 0-145).

Niðurstöður: Alls greindust 22 sjúklingar með kirtilfrumukrabbamein í botnlanga (aldur 60 ár, bil: 30-88, 50% karlar). Aldurstaðlað nýgengi mældist 0,4/100.000/ár. Algengasta einkennið var kviðverkur (n=17) en 8 sjúklingar höfðu klínísk einkenni botnlangabólgu. CEA (carcinoembryonic antigen) var mælt hjá 9 sjúklingum og reyndist hækkað hjá tveimur. Flestir greindust í aðgerð eða við vefjagreiningu eftir aðgerð, eða samtals 21 sjúklingur (95%). Einn var greindur við krufningu. Fimm sjúklingar fóru í botnlangatöku, 11 í brottnám á hægri hluta ristils og einn í brottnám á öllum ristli. Einn sjúklingur fór ekki í skurðaðgerð og hjá 3 var eingöngu tekið sýni til vefjarannsóknar. Tólf sjúklingar fengu krabbameinslyfjameðferð þar af 7 við útbreiddum sjúkdómi. Ellefu sjúklingar höfðu slímkrabbamein, 7 kirtilfrumukrabbamein, 2 sigð­frumukrabbamein og 2 kirtilfrumukrabbalíkisæxli. Hjá 3 sjúklingum var æxlið upprunnið í kirtilæxli. Flestir höfðu sjúkdóm á stigi IV (n=12), 3 á stigi III, 3 á stigi II og 3 á stigi I. Skurðdauði var 4,5% (n=1). Eins og 5 ára lifun var 75 og 44%.

Ályktun: Kirtilfrumukrabbamein í botnlanga er sjaldgæft. Flestir sjúklingar greinast í aðgerð eða við vefjarannsókn eftir botnlangatöku. Rúmlega helmingur sjúklinga greindist með útbreiddan sjúkdóm og 5 ára lifun var 44%.

 

E-07     Illkynja iðraþekjuæxli í fleiðru á Íslandi 1985–2008

Eyrún Valsdóttir1, Tryggvi Þorgeirsson1, Helgi J. Ísaksson2, Hrönn Harðardóttir3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði og 3lungnadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

eyrunv@hotmail.com

Inngangur: Æxli í fleiðru eru aðallega af tveimur gerðum, góðkynja SFTP-æxli (solitary fibrous tumor of pleura) eða illkynja fleiðruæxli (malignant mesothelioma). Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á illkynja fleiðruæxlum á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða tíðni sjúkdómsins hérlendis, einkenni, áhættuþætti og lífshorfur.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn hjá 33 sjúklingum (meðalaldur 71,5 ár, bil 49-89 ár, 88% karlar) sem greindust með illkynja fleiðruæxli á Íslandi 1985-2009. Farið var yfir sjúkraskrár og einkenni sjúklinganna skráð ásamt atvinnu- og reykingasögu og hvort sjúklingar hefðu komist í snertingu við asbest. Æxlin voru endurskoðuð af meinafræðingi og stiguð skv. kerfi International Mesothelioma Interest Group. Einnig voru reiknaðar lífshorfur (hráar) og miðast útreikningar við 31. des. 2009.

Niðurstöður: Aldursstaðlað nýgengi var 4,9 fyrir milljón karla og konur (95% CI 3,32-7/106). Alls höfðu 87% sjúklinganna sögu um reykingar og 63% höfðu staðfesta sögu um snertingu við asbest. Algengastu einkenni sem leiddu til greiningar voru mæði og brjóstverkur Alls voru 78% sjúklinganna á stigi III eða IV við greiningu, þar af 11 (41%) með staðfest fjarmeinvörp, oftast í lifur og lungum. Enginn greindist á stigi I og 6 sjúklingar (22%) voru á stigi II. Ekki var hægt að stiga 6 sjúklinga þar sem upplýsingar vantaði eða þær voru ófullnægjandi. Skurðaðgerðir til greiningar voru gerðar hjá 14 sjúklingum og tekin fleiðrusýni, annaðhvort í gegnum brjóstholsskurð (n=8) eða með brjósthols­spelgun (n=6). Enginn sjúklinganna gekkst undir brottnám á fleiðru og lunga með lækningu að markmiði. Lífshorfur voru 8,3 mánuðir að meðaltali (miðgildi 6 mán), eða frá 2 vikum og upp í 40 mánuði fyrir þann sem lifði lengst. Í dag eru 5 af 33 sjúklingum á lífi, allir greindir innan 48 mánaða.

Ályktun: Illkynja fleiðruæxli eru fátíðari á Íslandi miðað við nágrannalönd. Flestir (78%) greinast með útbreiddan sjúkdóm þar sem lækning kemur ekki til greina. Ljóst er að stigun þessara sjúklinga er oft ábótabant og athyglisvert að enginn hafi gengist undir brottnám á fleiðru og lunga.

 

E-08     Skurðaðgerðir vegna lungnameinvarpa á Íslandi 1984-2008

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller1,4, Jón Gunnlaugur Jónasson3,4, Tómas Guðbjartsson2,4

1Skurðlækningadeild, 2hjarta- og lungnaskurðdeild og 3rannsóknar­stofu í meinafræði á Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

hallavidars@gmail.com

Inngangur: Rúmur þriðjungur sjúklinga með krabbamein greinist með lungnameinvörp. Þegar meinvörpin eru bundin við lungu kemur til greina að fjarlægja þau með skurðaðgerð til að bæta lífshorfur. Markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna algengi og árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem gengust undir brottnám á lungnameinvörpum með lækningu að markmiði á Íslandi 1984-2008. Litið var nánar á sjúklinga með 3 algengustu frumæxlin, m.a. kannaðar ábendingar, fylgikvillar aðgerða og reiknuð út lifun (Kaplan-Meier). Útreikningar miðuðust við 31. des. 2009 og var eftirfylgni 45 mán. (bil: 3-311).

Niðurstöður: Alls fóru 83 sjúklingar í aðgerð vegna lungnameinvarpa á tímabilinu (aldur 55 ár, bil: 2-81, 51% karlar). Algengustu frumæxlin voru krabbamein í ristli og endaþarmi (32%, n=27), sarkmein (25%, n=21) og nýrnafrumukrabbamein (17%, n=14). Fjórðungur sjúklinga hafði önnur krabbamein, flestir sortuæxli (n=4). Hlutfall sjúklinga sem fóru í aðgerð var 1.0%, 6,5% og 1,4% fyrir þrjár algengustu æxlis­gerðirnar. Þessir 62 sjúklingar gengust undir 79 aðgerðir. Fleygskurður (n=45) og blaðnám (n=30) voru algengastar en 3 sjúklingar fóru í lungna­brottnám. Skurðdauði var 1,2%. Miðgildi legutíma var 11 dagar (bil: 4-85). Fimm ára lifun fyrir sjúklinga með ristil og endarþarmskrabbamein var 45%, nýrna­frumukrabbamein 39% og sarkmein 19% (p=0,11).

Ályktun: Hlutfall sjúklinga sem greindust með krabbamein og fóru í brottnám á lungnameinvörpum var lágt. Árangur hér á landi er góður og sambæri­legur við erlendar rannsóknir. Bestur var árangur hjá sjúklingum með ristil- og endaþarmskrabbamein en tæpur helmingur þeirra var á lífi 5 árum eftir aðgerð.

 

E-09     Hreyfanleiki hálshryggjar við notkun hálskraga

Þóra Þorgilsdóttir1, Árni Ingimundarson1, Bjarni Gunnarsson1, Duane Romo1, Yessenia Lopez1, Þorvaldur Ingvarsson1,2,3

1Össuri hf, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3bæklunardeild FSA

thingvarsson@ossur.com

Tilgangur: Að meta möguleika nýs hálskraga (Miami J® Advanced) til að takmarka hálshreyfingar (halda hálsliðum í skorðum) í samanburði við eldri tegund hálskraga (Miami J®)

Efniviður og aðferðir: Fjörutíu og átta sjálfboða­liðar sem ekki höfðu áverka á hálsliðum (31 karlar og 17 konur) tóku þátt í rannsókninni. Hreyfingar í hálsi, beygja (flexion), rétta (extension), hliðrun (lateral tilt) og snúningur (rotation) voru mældar án og með hálskraga Miami J® og Miami J Advanced® (Össur). Með starfrænu mælitæki (Goniometer, CROM). Niðurstöður voru skráðar í Excel-skjal og unnið úr niðurstöðunum með ANOVA greiningu, þar sem notast var við 80% öryggismörk.

Niðurstöður: Sjá töflu 1. Allar mælingar eru gefnar upp í gráðum. Samkvæmt ANOVA greiningunni gefur p-gildi undir 0,20 marktækan mun.

Ályktanir: Beygjugeta í hálsi heilbrigðra einstaklinga án kraga mældist um 48 gráður en með krögum um 14 gráður. Báðir hálskragarnir skertu allar hreyfingar í hálsi (beygju, réttu, hliðrun og snúning). Ný gerð kraga, svo kölluð “Miami J Advanced®”, skerti hreyfingar marktækt betur en eldri gerð “Miami J®” í réttu, hliðrun og við snúning. Ekki var til staðar marktækur munur á skerðingu á beygju í hálsi milli þessara hálskraga. Báðar tegundir takmörkuðu hreyfingu verulega sem eykur líkur á því að hálsliðir haldist í skorðum.

Fylgirit-62-Tafla-I


E-10     Vanstarfsemi heiladinguls í síðfasa í kjöl­far höfuðáverka (HÁ) eða innanskúmsblæðingar (SAH) – Framsýn rannsókn

Ásta Dögg Jónasdóttir1, Pétur Sigurjónsson1, Guðrún Höskuldsdóttir2, Ingvar Hákon Ólafsson3, Sigurbergur Kárason4, Guðrún Karlsdóttir5, Rafn Benediktsson6, Guðmundur Sigþórsson7, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir6

1Lyflækningadeild, 2slysa- og bráðadeild, 3heila- og taugaskurð­lækningadeild, 4gjörgæslu- og svæfingadeild, 5endurhæfingardeild, 6innkirtla- og efnaskiptadeild og 7klínísk lífefnafræðideild Landspítala

astadogg@landspitali.is

Inngangur: Niðurstöður nýlegra rannsókna benda til að vanstarfsemi heiladinguls sé algengur fylgikvilli höfuðáverka (HÁ) og innanskúmsblæðinga (SAH). Rannsóknir hafa sýnt að slík vanstarfsemi getur gengið til baka, en einnig komið fyrst fram síðar hjá öðrum. Flestir sjúklingar með miðlungs alvarlega HÁ og allir með alvarlega HÁ og SAH á Íslandi eru lagðir inn á Landspítala. Markmið þessarar rannsóknar er að meta algengi og þróun heiladingulsbilunar í síðfasa eftir HÁ og SAH á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: 18-65 ára sjúklingar sem koma á Landspítala og eru greindir með miðlungs alvarlega (GCS 9-13) og alvarlega (GCS <9) HÁ eða SAH á eins árs tímabili. Rannsóknin hófst þann 9. mars 2009. Sjúklingunum verður fylgt eftir í 2 ár og verða metnir 3, 12 og 24 mánuðum eftir greiningu. Þremur og 12 mánuðum eftir HÁ/SAH verður framkvæmt ítarlegt mat á heiladingulsstarfsemi. Mæld verða hormónagildi í blóði og framkvæmt insúlínþolpróf. Ef frábendingar fyrir insúlínþolprófi eru til staðar verður framkvæmt GHRH+ Arg og Synachten próf. Líkamsþyngdarstuðull (BMI), Rankin og GOS verður skráð og sjúklingar fylla út AGHDA lífsgæðaspurningalista. Tuttugu og fjórum mánuðum eftir greiningu munu þeir sjúklingar sem þurft hafa uppbótarhormónameðferð fylla út AGHDA-lífsgæðaspurningalista.

Niðurstöður: Þrjátíu og átta sjúklingar, 22 sjúklingar með höfuðáverka og 16 sjúklingar með SAH, hafa samþykkt þátttöku í rannsókninni. Fjórtán sjúklingar (9 karlmenn og 5 konur) hafa verið metnir 3 mánuðum eftir höfuðáverka. Einn sjúklingur reyndist hafa vaxtarhormónaskort eftir SAH sem staðfest var með GHRH+Arg prófi.

Ályktanir: Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að skoða starfsemi heiladinguls í kjölfar SAH. Skilgreining á alvarlega höfuðáverka getur skýrt niðurstöður rannsóknarinnar.

 

E-11     Vöðvahólfaheilkenni sem fylgikvilli bráðrar ósæðarflysjunar af gerð I - Sjúkratilfelli

Sigurður Ragnarsson, Gunnar Mýrdal

Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

sigurra@landspitali.is

Við kynnum óvenjulegt tilfelli af vöðvahólfa­heilkenni (compartment syndrome) í fjölda vöðvahólfa ganglima einstaklings sem fékk bráða ósæðarflysjun af gerð I. Um er að ræða 41 árs karlmann með sögu um háan blóðþrýsting og offitu sem kom á bráðamótttöku vegna brjóstverkja auk verkja í báðum ganglimum. Hann var með kalda og púlslausa ganglimi við komu. Tölvusneiðmyndataka leiddi í ljós ósæðarflysjun frá rishluta ósæðar, eftir endilangri ósæðinni og niður í báða nára og þaðan út í allar stærstu greinar ósæðarinnar. Skuggaefnisupp­hleðsla í slagæðum ganglimanna var takmörkuð.

Sjúklingurinn fór í lokusparandi ósæðarrótarskipti. Í kjölfarið á aðgerð myndaðist svæsið vöðvahólfa­heilkenni í báðum ganglimum sem leiddi til fjölda fellisskurða (fasciotomy) í hvorum ganglimi fyrir sig. Setja þurfti stoðnet í hægri iliaca æðakerfið. Hann fékk mikla rákvöðvaleysingu (rhabdomyolysis) og fjöllífærabilun og þurfti blóðskilun vegna bráðrar nýrnabilunar. Þar að auki sýktist skurðsár með fjölónæmum bakteríum (Vancomycin Resistant Enterococcus, VRE). Með endurteknum sárahreins­unum og brottnámi á dauðum vef, auk húðflutnings, var unnt var að forða sjúklingnum frá aflimun.

 

E-12     Míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006

Sigurður Ragnarsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

sigurra@landspitali.is

Tilgangur: Árangur míturlokuskipta á Íslandi hefur ekki verið kannaður áður en fyrsta slíka aðgerðin hér á landi var gerð 1990. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna skammtímaárangur þessara aðgerða, þ.m.t. dánartíðni og fylgikvilla.

Aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fóru í míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006, samtals 52ja sjúklinga. Karlmenn voru 34 (65%) og meðalaldur 61 ár (bil 17-85). Rúmlega 2/3 voru með míturlokuleka en 15 með þrengsli. Sex sjúklingar höfðu hjartaþelsbólgu, 7 nýlegt hjartadrep og 90% voru í NYHA flokki III-IV fyrir aðgerð. Meðal logEuroSCORE var 16,2% (bil 1,5-78,9%). Helmingur fór samtímis í kransæðahjáveituaðgerð, 19,2% í ósæðarlokuskipti og 9,6% í þríblöðkuloku­viðgerð. Fjórðungur hafði áður farið í opna hjartaaðgerð.

Niðurstöður: Tveir fengu lífræna loku en 50 gerviloku. Meðalstærð nýju lokanna var 30,3 mm (bil 27-31). Meðaltími á hjarta- og lungnavél var 162 mín. og tangartími 107 mín. Meðallegutími á gjörgæslu var 9,4 sólarhringar (bil 0,5-77). Marktæk hækkun á hjartaensímum (CK-MB >70) greindist hjá 62% sjúklinganna og alvarlegir fylgikvillar hjá 46%. Nýtilkomið hjartadrep var algengast (22%), en aðrir alvarlegir fylgikvillar voru öndunarbilun (n=5) og bráð nýrnabilun (n=4). Sjö sjúklingar (13,5%) fóru í enduraðgerð vegna blæðingar og 2 þurftu ósæðardælu (IABP) eftir aðgerð. Minniháttar fylgikvillar greindust hjá helmingi sjúklinga, og voru gáttatif, lungnabólga og skurðsýkingar algeng­astar. Þrír sjúklingar létust <30 d. (7,1%), en tveir til viðbótar létust fyrir útskrift.

Ályktun: Míturlokuskipti er umfangsmikil aðgerð þar sem tíðni alvarlegra fylgikvilla er há, sérstaklega hjartadrep og blæðingar sem krefjast enduraðgerða. Hér á landi er dánartíðni <30 daga tiltölulega lág, sérstaklega þegar haft er í huga að margir sjúkling­anna eru alvarlega veikir fyrir aðgerð.

 

E-13     Notkun utanbastsdeyfingar við fæðinga­verki

Aðalbjörn Þorsteinsson1, Ragnheiður I. Bjarnadóttir2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild og 2kvennadeild Landspítala

adalbjn@landspitali.is

Alþjóðleg verkjasamtök völdu árið 2008 sem “Global year against pain in woman”. Meðganga kemur oft af stað verkjum sem geta orðið þrálátir. Fæðing veldur verkjum sem eru með þeim verstu sem þekkjast. Á svokölluðum VAS skala (0 er enginn verkur og 10 er versti hugsanlegur verkur) er versti verkur í fæðingu að meðaltali metinn um 8.

Fjölmargar aðferðir hafa verið notaðar í gegnum aldirnar til að lina þessa verki. Engin þeirra er þó eins áhrifamikil og örugg eins og utanbastsdeyfing. Notkun utanbastsdeyfingar við fæðingaverkjum byrjaði um 1942. Í byrjun áttunda áratugs síðustu aldar hófst notkun hennar á Norðurlöndum. Um svipað leiti eða 1975 er fyrsta utanbastsdeyfing vegna fæðingaverkja lögð hérlendis. Kannað var hvernig þróunin hefur verið hérlendis.

Í ljós kom að á síðustu 10 árum hefur hlutfallslegur fjöldi kvenna sem nýta sér þessa leið til að lina fæðingaverki tvöfaldast og farið úr um 17% af fæðandi konum í 34%. Flestar þessar deyfingar eru lagðar á Landspítala og þar hefur notkunin aukist á þessum tíma úr 24% í 28%. Annars staðar á landinu hefur notkun utanbastsdeyfingar einnig aukist. Á árunum 2007-08 gátu um 23% af 1400 konum sem fæða annarstaðar notfært sér þennan möguleika.

 

E-14     Bráður nýrnaskaði á gjörgæsludeildum Landspítala

Íris Ösp Vésteinsdóttir1,Kristinn Sigvaldason2, Ólafur Skúli Indriðason3, Gísli H. Sigurðsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild og 3meltinga- og nýrnadeild Landspítala

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (Acute Kidney Injury) er algengt vandamál hjá gjörgæslusjúklingum sem veldur verulegri aukningu á dánartíðni þeirra. Fram að þessu hafa rannsóknir verið ómarkvissar þar sem ekki hefur verið alþjóðleg samstaða um skilgreiningu ástandsins. Nýlega náðist sátt um alþjóðlegan staðal, s.k. RIFLE skilmerki, og er því nú hægt að bera saman niðurstöður rannsókna milli landa. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi og eðli bráðs nýrnaskaða hjá fullorðnum sjúklingum á gjörgæsludeildum Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið var allir sjúklingar 18 ára og eldri sem lögðust inn á gjörgæsludeildir LSH árið 2007. Leitað var að s-kreatínín grunngildi í gagnagrunni LSH og hjá heilbrigðisstofnunum lands­byggðarinnar. Reiknað var út frá RIFLE skilmerkjum hvort sjúklingur fékk bráðan nýrnaskaða eða ekki. Sjúkraskrár voru skoðaðar m.t.t. orsaka og meðferðar bráðs nýrnaskaða.

Niðurstöður: Alls voru 1026 sjúklingar 18 ára og eldri lagðir inn á gjörgæsludeildir LSH á árinu (meðalaldur 60,6 ár (±17,8), karlar 61,1%). Þar af voru 231 (22,5%) með bráðan nýrnaskaða skv. RIFLE skilmerkjum. Meðalaldur þeirra sem hlutu bráðan nýrnaskaða var 67,0 (±16,0) ár á móti 58,7 (±18,0) ár hjá þeim sem ekki hlutu bráðan nýrnaskaða (p<0,001). Sjúklingar með nýrnaskaða dvöldu að meðaltali 8,3 (±13,1) daga á gjörgæslu en sjúklingar án nýrnaskaða dvöldu 3,2 (±4,0) daga (p<0,001). Spítaladánartíðni nýrnaskaðahóps var 40,7% samanborið við 9,1% hjá þeim sem ekki hlutu nýrnaskaða.

Ályktanir: Algengi bráðs nýrnaskaða á gjörgæslu­deildum Landspítala var 23% sem er marktækt lægri tíðni en í nýlegum erlendum rannsóknum. Dánar­tíðni þeirra sjúklinga sem fá bráðan nýrnaskaða er þó sambærileg hér og erlendis.

 

E-15     Bringubeinsfistlar eftir opnar hjarta­skurðaðgerðir

Steinn Steingrímsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,3, Ronny Gustafsson2, Arash Mokhtari2, Richard Ingemansson2, Johan Sjögren2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2hjartaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð, 3læknadeild Háskóla Íslands

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Bringubeinsfistlar eru alvarlegir en fátíðir fylgikvillar opinna hjartaaðgerða. Erfitt er að uppræta þessa fistla og oft þörf á langvarandi sýkla­lyfjameðferð og endurteknum skurðaðgerðum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni þessara fistla, skilgreina áhættuþætti og kanna afdrif og lifun sjúklinganna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á fram­sýnum gagnagrunni hjartaskurðdeildar háskólasjúkra­hússins í Lundi, eða 12.297 opnum hjartaaðgerðum frá 1999-2008. Af þeim greindust 32 sjúklingar með bringubeinsfistil. Aðhvarfsgreining var notuð við mat á áhættuþáttum og 128 (4:1) sjúklingar án fistla notaðir sem samanburðarhópur.

Niðurstöður: Tíðni bringubeinsfistla var 0,23% einu ári frá aðgerð. Meðaldur sjúklinga var 68 ár, þar af 77% karlar. Flestir, eða 63%, höfðu farið í kransæðahjáveituaðgerð og 20% í ósæðarlokuskipti. Kóagulasa neikvæðir staphylokokkar voru eini sýkingarvaldurinn hjá 18 sjúklingum (56%) og S. Aureus hjá 4 (13%). Sex sjúklingar höfðu fjölda sýkla og í 3 tilfellum ræktaðist ekkert. Helstu áhættuþættir fistla voru fyrri saga um sýkingu í bringubeinsskurði (OR=15,7), nýrnabilun (OR=12,5), reykingar (OR=4,7) og þegar beinvax var notað í upphaflegu aðgerðinni (OR=4,2). Sárasugu var beitt í 20 alvarlegustu tilfellunum og létust 2 sjúklingar á meðan meðferð stóð. Fimm ára heildarlifun sjúklinga með fistla var 58% borið saman við 85% í viðmiðunarhóp (p=0,003).

Ályktun: Dánartíðni er aukin hjá sjúklingum með bringubeinsfistla og fylgikvillar tíðir. Fyrri sýking í bringubeinsskurði og nýrnabilun eru langmikil­vægustu áhættuþættirnir. Flestir þessar sjúklinga hafa þó ekki fyrri sögu um sýkingu í bringubeini, sem bendir til að í þorra tilfella sé um síðbúna sýkingu að ræða í kringum stálvíra sem halda saman bringubeininu. Á síðari árum hefur sárasuga reynst vel í meðferð þessara sjúklinga.

 

E-16     Framsýn rannsókn á skurðsýkingum eftir 246 opnar hjartaaðgerðir

Helga G Hallgrímsdóttir1, Magnús Gottfreðsson2, Tómas Guðbjartsson3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2smitsjúkdómadeild Landspítala. 3læknadeild Háskóla Íslands

helgahal@landspitali.is

Inngangur: Í framsýnni rannsókn á Landspítala árið 2007 kom óvænt í ljós að tíðni skurðsýkinga á ganglim eftir bláæðatöku við kransæðahjáveituaðgerðir (CABG) var 23,1%. Í kjölfarið var ákveðið að yfirfara verkferla, m.a. húðþvott og frágang umbúða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig til tókst, en í þetta sinn á heilu ári og í ferfalt stærra þýði en í fyrri rannsókn. Einnig var markmiðið að kanna tíðni sýkinga í bringubeinsskurði.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn sem tók til allra sjúklinga sem gengust undir opna hjartaaðgerð á Landspítala á 12 mánaða tímabili, frá 18. nóv. 2008 til 17. nóv. 2009, samtals 246 einstaklinga (191 karlar, meðalaldur 66,5 ár). Flestir (60,1%) gengust undir kransæðahjáveitu (CABG/OPCAB), ósæðalokuskipti (11,4%) eða báðar aðgerðirnar saman (13,4%). Skurð­sár voru metin á 2., 4. og 6.-7. degi þegar sjúklingar lágu inni. Einnig var haft samband við alla sjúklinga nema þrjá símleiðis, 30 dögum frá útskrift. Skurðsár voru skilgreind skv. staðli CDC. Bornir voru saman sjúklingar með og án sýkingar og lagt mat á áhættu­þætti.

Niðurstöður: Alls greindust 39 sjúkl. með skurð­sýkingu, 15 á bringubeini, 20 á ganglim og 4 á báðum stöðum. Í flestum tilvikum var um yfirborðssýkingu að ræða (79,1%) en 7 af 15 sjúkl. með bringubeinssýkingu höfðu djúpa sýkingu með miðmætisbólgu. Fóru þeir allir í enduraðgerð með sárasugu. Af 184 sjúkl. sem gengust undir hjáveituaðgerð fengu 24 sýkingu í skurðsár á ganglim, eða 13,0%, langflestir yfirborðs­sýkingu (90%). Tæpur helmingur bringubeinssýkinga var greindur þegar sjúkl. lágu inni en aðeins 15% sýkinga á ganglim. Miðgildi legutíma var marktækt hærra hjá sjúkl. með skurðsýkingu í bringubeini en ganglim (15 vs. 9 dagar, p=0,045). Alls létust 9 sjúklingar <30 d. (3,6%).

Ályktun: Skurðsýkingar eru töluvert vandamál eftir opnar hjartaaðgerðir og reyndust mun algengari á ganglim eftir bláæðatöku (13,0%) en á brjóstholi (6,1%). Ljóst er að tíðni þessara sýkinga á ganglim hefur lækkað um helming frá fyrri rannsókn, en tíðni djúpra bringubeinssýkinga (2,8%) er svipuð og í eldri rannsókn (2,5%).

 

E-17     Brátt andnauðarheilkenni (BAH) á gjörgæsludeildum LSH 2004-2008

 

Þórður Skúli Gunnarsson1, Kristinn Sigvaldason2, Kristbjörn I. Reynisson3, Alma D. Möller2

 

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild og 3myndgreiningadeild Landspítala

 

krisig@lanspitali.is

 

Inngangur: Brátt andnauðarheilkenni (BAH) eða acute respiratory distress syndrome (ARDS) er einn af erfiðustu sjúkdómum sem fengist er við á gjörgæsludeildum. Heilkennið felur í sér bráða öndunarbilun með dreifðum íferðum í báðum lungum í kjölfar annars sjúkdóms, slyss eða skurðaðgerðar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni BAH á Íslandi og horfur sjúklinga tímabilið 2004-2008 og bera saman við eldri íslenska rannsókn tímabilið 1988-1997.

 

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til gjörgæsludeilda Landspítala (LSH) 2004-2008. Safnað var gögnum um alla sjúklinga sem lögðust inn á gjörgæsludeildir LSH á tímabilinu með alvarlega öndunarbilun og metið samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu hvort um BAH væri að ræða. Skráðar voru upplýsingar um aldur, orsakir heilkennis, APACHE II stig, tegund öndunarvélameðferðar, legutíma og afdrif.

Niðurstöður: Alls reyndust 224 sjúklingar vera með alvarlega öndunarbilun, þar af féllu 120 undir alþjóðlega skilgreiningu á BAH, 66 karlar og 54 konur, meðalaldur var 55 ár. Meðallegutími á gjörgæsludeild var 17,5 dagar (±13,5 dagar) en legutími á sjúkrahúsi 33,1 dagur (±29,5 dagar). Meðaltími frá áfalli að staðfestum BAH var 3,3 dagar (±2,2 dagar). Nýgengi var 24 tilfelli á ári, eða 7,9 tilfelli á 100.000 íbúa/ár. Tilfellum hefur fjölgað frá tímabilinu 1988-1997, en þá voru tilfelli 15,5 á ári eða 6,9 tilfelli á 100.000 þús íbúa/ár. Alls létust 36 sjúklinganna á gjörgæsludeild eða 30%. Dánarhlutfall á gjörgæslu hefur því lækkað um 25% frá tímabilinu 1988-1997 en þá var dánarhlutfall 40%.

Ályktun: Nokkur aukning virðist hafa orðið á nýgengi BAH á Íslandi en dánarhlutfall hefur hins vegar lækkað töluvert líkt og á gjörgæsludeildum nágrannaþjóða. Framfarir í gjörgæslumeðferð virðast vera að skila sér í betri horfum sjúklinga með BAH.

 

E-18     Fylgikvillar blaðnámsaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi 1999-2008

Rut Skúladóttir1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Helgi J. Ísaksson2, Steinn Jónsson1,3, Húnbogi Þorsteinsson1, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild og 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

rus2@hi.is

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta meðferðin við lungnakrabbameini og er langoftast beitt blaðnámi. Markmið þesssarar rannsóknar var að kanna ábend­ingar og snemmkomna fylgikvilla blaðnáms á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: 213 sjúklingar sem gengust undir blaðnám vegna lungnakrabbameins á árabilinu 1999-2008. Kannaðar voru ábendingar, fylgikvillar, æxlisgerð og TNM-stigun. Aðhvarfsgreining var notuð
til að meta áhættuþætti fylgikvilla.

Niðurstöður: 85 sjúklingar (40%) greindust fyrir tilviljun en aðrir vegna einkenna sjúkdómsins.
Kirtil­myndandi (62%) og flöguþekjukrabbamein (29,1%) voru algengust. Flestir greindust á stigi I (59,6%)
og stigi II (17,8%), 7% á stigi IIIA og 14,8% á stigum IIIB-IV. Miðmætisspeglun var gerð hjá 13,6%
sjúklinga fyrir blaðnámið. Meðal aðgerðartími var 128 mín. og blæðing í aðgerð 580 ml. Sextán sjúklingar
(7,5%) fengu alvarlega fylgikvilla og 36 (17%) minniháttar fylgikvilla, oftast lungnabólgu (6,1%) og
gáttatif/flökt (6,1%). Tólf sjúklingar þurfu enduraðgerð, tveir vegna fleiðruholssýkingar og einn vegna
berkjufleiðrufistils. Eldri sjúklingar með hátt ASA skor og langa reykingasögu voru í aukinni hættu á
að fá fylgikvilla eftir aðgerðirnar. Legutími eftir aðgerð var 10 dagar (miðgildi). Enginn sjúklingur
lést <30 daga frá aðgerð en fjórir (1,9%) <90 daga frá aðgerð.

Ályktun: Skammtímaárangur blaðnámsaðgerða vegna lungnakrabbameins er góður hér á landi samanborið við
aðrar rannsóknir.

 

E-19     Forspárþættir lífshorfa eftir blaðnám við lungnakrabbameini á Íslandi 1999–2008

Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut Skúladóttir1, Húnbogi Þorsteinsson1, Helgi J. Ísaksson2, Steinn Jónsson3,4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3 lungnadeild og 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

gno1@hi.is

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta læknandi meðferð við lungnakrabbameini. Tilgangur þessarar rann­sóknar var að kanna stigun, lífshorfur og forspárþætti lífshorfa hjá sjúklingum sem gengist hafa undir lungnablaðnám vegna lungnakrabbameins á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 213 sjúklingum (meðalaldur 66,9 ár) sem gengust undir blaðnám á Íslandi við lungnakrabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) á tímabilinu 1999-2008. Æxlin voru stiguð samkvæmt TNM-stigunarkerfi og ein- og fjölþáttagreining notuð til að meta forspárþætti lífshorfa.

Niðurstöður: Heildarlífshorfur (Kaplan-Meier) eftir 1 og 5 ár voru 82,7% og 45,1%, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Algengustu vefjagerðir voru kirtilfrumu- (62%) og flöguþekjukrabbamein (29,1%) og meðalstærð æxlanna var 3,7 cm. Flestir sjúkling­anna greindust á stigi I (59,6%) eða II (17,8%,) en 7% á stigi IIIA og 14,6% á stigi IIIB-IV. Stigun, stærð æxlis, kirtilfrumukrabbamein (HR=0,5, p=0,002), skert lungnastarfsemi og hjartsláttaróregla reyndust sjálfstæðir forspárþættir lífshorfa í fjölbreytugreiningu.

Ályktun: Lífshorfur eru sambærilegar við erlendar rannsóknir, en tæplega helmingur sjúklinga var á lífi fimm árum eftir aðgerð. Hátt TNM sjúkdómsstig, skert lungnastarfsemi og saga um hjartsláttaróreglu fyrir aðgerð skerða lífshorfur þessara sjúklinga. Sjúklingum með kirtilfrumukrabbamein vegnar hins vegar betur en sjúklingum með flöguþekjukrabba­mein, ólíkt því sem flestar aðrar rannsóknir hafa sýnt.

 

E-20     Fleyg- og geiraskurðir við lungna­krabbameini á Íslandi

Ásgeir Alexandersson1, Steinn Jónsson1,2, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild, 3rannsóknarstofu í meinafræð og, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

asa6@hi.is

Inngangur: Hefðbundin aðgerð við lungnakrabba­meini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) er blaðnám. Í völdum tilvikum er þó gripið til fleyg- eða geiraskurðar, t.d. ef lungnastarfsemi er mikið skert. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir fleyg- eða geiraskurð vegna lungnakrabbameins (ÖES) á Íslandi 1994–2008. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru kannaðar ábendingar aðgerðar, TNM-stigun, fylgikvillar, og heildarlífshorfur. Öll vefjasýni voru endurskoðuð.

Niðurstöður: Alls gengust 44 sjúklingar (52,3% konur) undir samtals 47 fleyg- eða geiraskurði. Meðalaldur var 69,1 ár og greindust 38,3% sjúklinga fyrir tilviljun. Alls höfðu 55,3% sögu um krans­æðasjúkdóm og 40,4% langvinna lungnateppu. Meðal ASA-skor var 2,6. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 82,5 mínútur (bil 30-131), blæðing í aðgerð var 260 ml (bil 100-650) og miðgildi legutíma 9 dagar (bil 4-24). Sýni úr eitlum voru tekin í 12,8% aðgerðanna en miðmætisspeglun aðeins gerð einu sinni. Helstu fylgikvillar voru lungnabólga (14,9%), langvarandi loftleki (12,8%) og blæðing í aðgerð (>500 ml) (8,7%). Tveir sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla, 36,2% dvöldu á gjörgæslu yfir nótt, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Meðalstærð æxlanna var 2,3 cm (bil 0,8–5). Kirtilmyndandi krabbamein var algeng­asta vefjagerðin (66,7%) og 43,8% æxlanna illa þroskuð. Eftir aðgerð voru 78,7% sjúklinga á stigi IA/IB, 17,0% á stigi IIA/IIB og tveir á stigi IIIA. Eins og 5 ára lífshorfur voru 85,1% og 40,9%.

Ályktun: Tíðni fylgikvilla eftir fleyg- og geiraskurði er lág á Íslandi, og lítið hærri en eftir blaðnám. Lífshorfur eru einnig nokkuð sambærilegar og eftir blaðnám. Þetta er athyglisvert þar sem flestir þessara sjúklinga hafa undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma.

 

E-21     Góðkynja stækkun á hvekk, breytingar á meðferð og ábendingum fyrir aðgerðir. - Framhaldsrannsókn

Jóhann P. Ingimarsson1, Guðmundur Geirsson1,2

1Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

johanningimars@gmail.com

Inngangur: Fyrri íslenskar rannsóknir hafa sýnt lækkandi tíðni skurðaðgerða og aukna lyfjanotkun við meðferð einkenna vegna góðkynja stækkunar á hvekk (BPH). Markmið þessarar framhalds­rannsóknar var að athuga hvort áframhald væri á sömu þróun.

Efniviður: Safnað var upplýsingum úr sjúkraskrám sjúklinga sem fóru í aðgerð á Landspítala vegna BPH á árunum 2006-08. Skoðaðar voru ábendingar, lyfjanotkun, legutími, enduraðgerðir, fylgikvillar o.fl. Upplýsingar um heildarlyfjanotkun voru fengnar frá Lyfjastofnun.

Niðurstöður: Áframhaldandi fækkun varð á skurðaðgerðum við hvekksstækkun á tímabilinu, samtíma aukningu í notkun lyfja (úr 239 í 157 aðgerðum og úr 3672 í 4539 ársskömmtum á hverja 100.000 karla yfir 35 ára). Þannig hefur orðið veruleg aukning í meðhöndlun einkenna BPH. Algengasta aðgerðin (96%) var brottnám hvekks um þvagrás (TURP). Meðalaldur hélst óbreyttur frá fyrri rannsóknum. Meðallegutími styttist úr 4,4 í 3,1 dag. Fjórðungur sjúklinga hafði sögu um fyrri aðgerð á hvekk og 64% höfðu reynt lyf. Hlutfall algerra ábendinga á móti afstæðum hélst óbreytt, eða 55% á móti 45%. Tilviljanagreining hvekkskrabbameins jókst úr 10% í 15%. Tíðni blóðgjafa (5%), endurinnlagna (7%) og enduraðgerða (4%) hélst óbreytt. Heildar­fylgikvillum fjölgaði úr 10% í 15%, einkum vegna fjölgunar þvagfærasýkinga úr 1% í 4%. Skurðdauði var enginn. Kostnaður vegna meðferðar hélst stöðugur á tímabilinu og vó minnkuð tíðni aðgerða upp aukinn lyfjakostnað.

Umræður: Samtímis og fleiri karlar eru meðhöndl­aðir við einkennum góðkynja stækkunar á hvekk, fyrst og fremst með aukinni lyfjanotkun, fækkar aðgerðum, bæði vegna afstæðra og algerra ábendinga. Aukin tíðni þvagfærasýkinga eftir aðgerð þarfnast frekari skoðunar.

 

E-22     Endursköpun brjósta með fríum TRAM-flipa og mat sjúklinga á árangri 7-18 árum síðar

Davíð Þór Þorsteinsson1, Sigurður E. Þorvaldsson2, Rafn A. Ragnarsson3, Sigurður Björnsson4

1Landspítala, 2Læknastöðinni ehf, 3Orkuhúsinu, 4lyflækninga­deild Landspítala

dth@simnet.is

Endursköpun brjósts í kjölfar brottnáms er gerð til að bæta lífsgæði. Valkostir aðgerða til endursköpunar brjósts eru í meginatriðum þrír: Ígræðsluefni, tilflutningur vöðva og ígræðsluefni og eigin vefur eingöngu.

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna mat sjúklinga á árangri aðgerðar með fríum vefjaflutningi húðar og fitu frá neðri hluta kviðveggjar (frá nafla að lífbeini) s.k. fríum TRAM-flipa. Sjúklingahópurinn samanstóð af öllum konum sem gengust undir fríar TRAM-flipaaðgerðir á tímabilinu 1992-2003, alls 70 konur. Allar konurnar höfðu gengist undir brottnám brjósts vegna brjóstakrabbameins. Fimmtán konur voru látnar við upphaf rannsóknar. Fimmtíu og fimm konur (79%) skipuðu rannsóknarþýðið. Miðgildi aldurs var 61 ár (45-74). Konunum var sendur spurningalisti með 17 spurningum varðandi hið endurskapaða brjóst og gjafarsvæði. Einkunn var gefin á bilinu 0-10.

Hjá fjórum konum (5,7%) lifði flipi ekki eftir aðgerð og voru niðurstöður reiknaðar með og án þessara kvenna. 52 konurnar sendu svarbréf til baka eða 97,5%. Heildarárangur meðferðar var metinn 7,4 og árangur miðað við væntingar 7,5 (miðgildi 8,0). Af þeim sem svöruðu spurningunni (n=44) sögðust 32 (73%) vilja sömu aðgerð aftur og 33 (75%) sögðust mundu mæla með aðgerðinni við aðrar konur.

Mat kvenna á árangri er jákvætt og svipað og í rannsókn frá Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð sem höfð var til viðmiðunar við gerð spurningalistans. Við teljum að frí TRAM-flipaaðgerð sé góður valkostur til endursköpunar brjósts í kjölfar brottnáms.

 

E-23     Greining BRCA2 stökkbreytinga fyrir skurðaðgerðir við brjóstakrabbameini. - Bót eða böl?

Svanheiður Lóa Rafnsdótttir1, Þorvaldur Jónsson1, Óskar Þór Jóhannsson2, Kristján Skúli Ásgeirsson1

1Skurðlækningadeild og 2krabbameinslækningadeild Landspítala

kriskuli@landspitali.is

Stökkbreyting í BRCA2 geni finnst í 7-8% kvenna og 40% karla sem greinast með brjóstakrabbamein á Íslandi. Erfðapróf sem meta tilvist þessarar stökkbreytingar hefur til þessa fyrst og fremst verið notað til að meta lífsáhættu á myndun brjóstakrabbameins. Fjölda stökkbreytinga hefur verið lýst í þessu geni, en á Íslandi hefur einungis ein fundist, þ.e. landnemastökkbreytingin 999del5. Stökkbreyting þessi gerir það að verkum að mjög fljótlegt og auðvelt er að kemba fyrir hana hjá íslenskum sjúklingum. Þetta hefur opnað fyrir þann möguleika að erfðaprófa greinda brjóstakrabba­meinssjúklinga og nýta upplýsingarnar við ákvarðanatöku um tegund skurðaðgerðar.

Við lýsum sjúkratilfellum þar sem BRCA2 stökkbreytingagreining var gerð, áður en til skurðaðgerða kom, hjá tveimur nýgreindum brjósta­krabbameinssjúklingum. Í báðum tilfellunum hafði útkoman áhrif á skurðmeðferðina. Við ræðum hvernig þessi erfðapróf hjá nýgreindum brjósta­krabbameinssjúklingum geta hjálpað en jafnframt valdið erfiðleikum við ákvörðun um skurðmeðferð.

 

E-24     Stærð nýrnafrumukrabbameina, líkur á meinvörpum og lífshorfur

Jóhann P. Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1,4, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði og 3skurðdeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

johanningimars@gmail.com

Inngangur: Sífellt fleiri nýrnafrumukrabbamein greinast fyrir tilviljun, og mörg þeirra eru smá (<4 cm). Oftast er mælt með brottnámi þessara æxla. Sumir hafa þó hallast að virku eftirliti (active surveillance), einkum hjá eldri sjúklingum og þeim sem síður eru taldir þola aðgerð. Slíkt eftirlit hefur verið byggt á þeim forsendum að smærri æxlin hafi aðra klíníska hegðun en þau stærri og meinverpist síður. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif stærðar nýrnafrumukrabbameins á tíðni meinvarpa við greiningu og lífhorfur sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 791 sjúklingum með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2005. Aðeins voru tekin með tilfelli þar sem greining var staðfest með vefjasýni og stærð æxlis lá fyrir. Öll sýni voru endurskoðuð og TNM-kerfi notað við stigun. Upplýsingar fengust úr sjúkra­skrám. Fjölbreytugreining var notuð til að meta áhrif stærðar á tíðni meinvarpa og lífshorfur (sjúkdóma sértækar).

Niðurstöður: 28% sjúklinganna höfðu meinvörp og jókst tíðni þeirra marktækt með vaxandi æxlisstærð; eða frá 9% fyrir æxli <4 cm í 48% fyrir æxli >11 cm. Fimm ára lífshorfur versnuðu marktækt með aukinni stærð, eða úr 86% fyrir æxli <4 cm í 35% fyrir >11 cm æxli (p<0,001). Við fjölþáttagreiningu reyndist stærð marktæktur sjálfstæður forspárþáttur, bæði fyrir meinvörpum við greiningu (OR 1,08, p=0,01), og lífshorfum (OR 1,09, p<0,01), þótt leiðrétt hafi verið fyrir TNM stigi (OR=2,58, p<0,01).

Umræður: Eftir því sem nýrnafrumukrabbamein eru stærri aukast líkur á meinvörpum og lífshorfur skerðast. Þessi áhrif stærðar bætast við forspárgildi TNM stigs sem er langsterkasti forspárþátturinn. Æxli <4 cm geta meinverpst, eða í 9% tilfella, og 5 ára sjúkdóma sértækar lífshorfur eru 86%. Þetta ber að hafa í huga þegar íhugað er virkt eftirlit í stað brottnáms þessara æxla.

 

E-25     Nýrnafrumukrabbamein af litfælugerð á Íslandi 1971-2005

Jóhann P. Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1,4, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði og 3skurðdeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

johanningimars@gmail.com

Inngangur: Litfæluæxli (chromophobe) eru sjaldgæfur undirflokkur nýrnafrumukrabbameina. Erlendar rannsóknir benda til betri lífshorfa þessara sjúklinga, en fáar byggja á stóru þýði sjúklinga frá heilli þjóð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna lífshorfur þessara sjúklinga borið saman við aðra vefjaflokka.

Efniviður og aðferðir: 828 vefjafræðilega staðfest nýrnafrumukrabbamein greindust á Íslandi 1971-2000. Öll vefjasýni voru endurskoðuð og reyndust 15 þeirra af litfælugerð. Upplýsingar fengust úr sjúkra­skrám. Æxlin voru stiguð og reiknaðar út lífshorfur (sjúkdóma sértækar), með aðferð Kaplan-Meier. Litfæluæxlin voru borin saman við tærfrumu (n=740) og totugerð (n=66), bæði með ein- og fjölþátta­greiningu. Eftirfylgd var 5 ár að miðgildi.

Niðurstöður: Litfæluæxli voru 1,8% nýrnafrumu­krabbameina og nýgengi 0,17/100.000/ári fyrir bæði kynin. Samanborið við hinar vefjagerðirnar voru sjúklingar með litfælugerð oftar greind vegna einkenna, (93% vs 71%, p=0,02) og á lægri stigum (73% vs 45% á stigum I+II, p<0,01). Einn sjúkl­ingur var með meinvörp við greiningu og annar greindist ári síðar. Báðir létust úr meininu en aðrir 6 létust af öðrum orsökum og og hinir 7 voru á lífi í lok árs 2009. Fimm ára lífshorfur voru 87% fyrir litfæluæxlin, en 59% og 50% fyrir tærfrumu og totufrumgerð. Munurinn var marktækur í einþátta­greiningu, en eftir að leiðrétt var fyrir stigun reyndist litfælugerð ekki sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa.

Umræður: Hlutfall litfæluæxla á Íslandi (1,8%) er ívíð lægra en áður hefur verið lýst (á bilinu 2-3%). Þrátt fyrir að vera oftar einkennagefandi eru litfæluæxli oftar staðbundin í nýrum en æxli af hinum vefja­gerðunum, þ.e á lægra stigi, sem skýrir líklega betri lífshorfur þeirra. Þetta bendir til að litfæluæxli hafi aðra líffræðilega hegðun en hinar vefjagerðirnar.

 

E-26     Notkun munnslímhúðar við aðgerðir á þvagrás

Kristín Jónsdóttir1,Eiríkur Jónsson1,2

1Þvagfæraskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

kristijo@landspitali.is

Inngangur: Góðkynja þvagrásarsjúkdómar hjá körlum geta verið hvimleið vandamál. Þrengingar eru algengustu vandamálin en þekktar orsakir þeirra eru m.a. áverkar eða sýkingar. Þá geta verið til staðar fistlar eða bólgusjúkdómar sem þarfnast opinna aðgerða. Fyrsta meðferð við þvagrásarþrengslum er oftast innri skurður með þvagrásarspeglun. Þá meðferð þarf oft að endurtaka en dugi slíkt ekki til er mælt með opinni aðgerð. Algengast er að skera í þrengslin og græða í flipa. Þá er notuð hárlaus húð, svo sem forhúð, en á síðustu árum hefur notkun munnslímhúðar rutt sér til rúms og þykir ákjósanleg. Við lýsum fyrstu reynslu af slíkum aðgerðum á Landspítala .

Efniviður og aðferðir: Á árunum 2008-09 gengust sjö karlmenn undir aðgerðir þar sem munnslímhúð var notuð á þvagrás. Upplýsingum var safnað um undirliggjandi vandamál, orsakir, fyrri meðferðir og árangur aðgerðar.

Niðurstöður: Meðalaldur var 32 ár (18-48 ára). Fimm höfðu þrengingu á bulbar svæði þvagrásar. Einn þrengingu í þvagrás lims auk fistils eftir fyrri aðgerð vegna neðanrásar (hypospadiasis). Hjá þeim sjöunda var munnslímhúð notuð til lengingar á þvagrás í kjölfar alvarlegrar sýkingar. Af þeim fimm sem höfðu þrengingu á bulbar svæði þvagrásar höfðu allir farið áður í innri skurð (2-3 skipti). Þrenging­arnar voru að meðaltali 2,1 cm langar (0,5-3,0 cm) og þvagflæði fyrir aðgerð að meðaltali 6,6 ml/mín (4,4–8,7 ml/mín). Hjá einum af fimm með þrengsli í bulbar hluta þvagrásar þurfti að framkvæma þvagrásarspeglun og innri skurði vegna endur­þrengsla. Engir alvarlegir fylgikvillar komu fram, hvorki á ígræðslu- né tökusvæði. Þvagflæði eftir aðgerð var 20,5 ml/mín (14,2-30,6 ml/mín). Að meðaltali hefur eftirlitstíminn verið 15 mánuðir (3-24 mánuðir).

Ályktanir: Munnslímhúð er góður valkostur þegar nota þarf aðfluttan vef við opnar þvagrásaraðgerðir.

 

E-27     Gáttatif eftir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1, Hannes Sigurjónsson2, Inga Lára Ingvarsdóttir1, Sæmundur J. Oddsson2, Martin Ingi Sigurðsson2, Davíð O. Arnar3, Þórarinn Arnórsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild og 3hjartadeild, Landspítala

soh2@hi.is

Inngangur: Gáttatif er algengur fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Einkenni eru oftast væg en geta verið hættuleg og aukið tíðni fylgikvilla og lengt legutíma. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni gáttatifs eftir hjartaaðgerðir hér á landi og skilgreina áhættuþætti.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveitu- (n=638) og/eða ósæðarlokuskiptaaðgerð (n=130) á Landspítala (LSH) 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar hjartaaðgerðir eða höfðu þekkt gáttatif fyrir aðgerð var sleppt. Gáttatif/-flökt var greint með hjartalínuriti eða hjartarafsjá, hafði staðið í a.m.k. 5 mínútur, og/eða sjúklingur fengið lyfja­meðferð við gáttatifi. Ein- og fjölþáttagreining var notuð til að meta áhættuþætti gáttatifs og sjúklingar með gáttatif bornir saman við þá sem höfðu reglulegan hjartslátt.

Niðurstöður: Tíðni gáttatifs/-flökts fyrir allan hópinn var 44%, marktækt hærri eftir ósæðarloku­skipti en hjáveituaðgerð (73% vs. 38%, p<0,001). Útfallsbrot (EF) og helstu áhættuþættir kransæða­sjúkdóms voru sambærilegir í báðum hópum, en sjúklingar með gáttatif voru marktækt eldri, oftar konur og með hærra EuroScore. Þeir höfðu einnig lengri vélar- og tangartíma og tíðni bæði alvarlegra og minni fylgikvilla var hærri. Auk þess var legutími sjúklinga með gáttatif 3 dögum lengri (miðgildi) og dánartíðni þeirra marktækt hærri (0,9% vs. 4,8%, p=0,002). Í fjölbreytugreiningu reyndust aðeins aldur og EuroScore sjálfstæðir áhættuþættir gáttatifs eftir aðgerð.

Ályktun: Gátttif er algengasti fylgikvilli hjartaaðgerða og greinist hjá næstum helmingi sjúklinga. Helstu áhættuþættir hér á landi eru hærri aldur og EuroScore, og hefur einnig verið lýst í öðrum sambærilegum rannsóknum.

 

E-28     Aukin noktun ECMO meðferðar á Íslandi

Halla Viðarsdóttir1, Þorsteinn Ástráðsson2, Bjarni Torfason1,3, Líney Símonardótir1, Tómas Guðbjartsson1,3, Felix Valsson2,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild og 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

hallavidars@gmail.com

Inngangur: ECMO-meðferð (extracorporeal membrane oxygenation) getur verið lífsbjargandi í alvarlegri öndunarbilun (Veno-Venous ECMO) eða mikilli hjartabilun (Veno-arterial ECMO). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ábendingar og árangur ECMO-meðferðar hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fengu ECMO-meðferð á Íslandi fram að árinu 2010, bæði V-V og V-A ECMO. Skráðar voru ábendingar og fylgikvillar meðferðar en einnig hverjir lifðu af meðferðina.

Niðurstöður: 29 sjúklingar (20 karlar), með meðalaldur 45,7 ár (bil 14-84), voru meðhöndlaðir á tímabilinu. Alls fóru 17 (59%) sjúklingar í V-A ECMO vegna hjartabilunar, þar af 12 meðhöndlaðir árin 2007-2009, í 8 tilfellum eftir hjartaðaðgerð. Heildarlifun var 35% en 25% fyrir þá sem fóru í ECMO eftir hjartaaðgerð. Meðalaldur sjúklinga í V-A ECMO sem lifðu meðferðina var 36 ár, saman­borið við 60 ár fyrir þá sem létust. Tólf sjúklingar voru meðhöndlaðir með V-V ECMO vegna öndunarbilunar og var lifunin 67%, þar af 2 með H1N1 sýkingu og lifðu báðir. Marktækur munur var á aldri sjúklinga sem lifðu af V-V ECMO og þeirra sem létust (31 vs. 50 ár, p=0,03) en einnig sást marktækt betri lifun hjá sjúklingum sem höfðu verið <7 daga á öndunarvél fyrir ECMO-meðferð (p<0,05). Algengasti fylgikvilli meðferðar voru blæðingar sem sáust í 10 tilfellum, en 4 sjúklingar í V-A ECMO fengu blóðrásarskerðingu í ganglim.

Ályktun: Árangur V-V ECMO-meðferðar er mjög góður á Íslandi (67% lifun) og sambærilegur við það sem best þekkist erlendis. Árangur eftir V-A ECMO, sérstaklega eftir hjartaaðgerð, er hins vegar síðri (25% lifun), og því mikilvægt að meta ábendingar fyrir notkun ECMO í slíkum tilfellum.

 

E-29     Áhrif noradrenalíns á smáæðablóðflæði í þörmum við opnar kviðarholsaðgerðir

Gísli H. Sigurðsson1,2,3, Oliver Limberger1, Sebastian Brandt1, Luzius B. Hiltebrand1

1Department of Anaesthesiology, Inselspital, Berne and University of Bern, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3læknadeild Háskóla Íslands

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Algengt er að blóðþrýstingur lækki undir ásættanleg mörk við svæfingu sjúklinga sem undirgangast stórar kviðarholsaðgerðir. Venjan hefur verið að mæta þessari blóðþrýstingslækkun með aukinni vökvagjöf í æð. Á hinn bóginn hefur því verið haldið fram að ríkuleg vökvagjöf tefji fyrir bata sjúklinga sem fara í valaðgerðir. Við könnuðum áhrif þess að nota noradrenalín í stað aukins vökva til að hækka blóðþrýsting hjá svínum sem undirgengust opna kviðarholsaðgerð í svæfingu þar sem líkt var eftir aðstæðum hjá mönnum eins og frekast var kostur.

Aðferð: 20 svín voru svæfð, lögð í öndunarvél og skipt í viðmiðunarhóp C (n=10) og noradrenalínhóp NA (n=10). Báðir hóparnir fengu Ringer laktat (RL) lausn í æð, 3 ml/kg/klst. Hópur NA fékk auk þess noradrenalín dreypi til að hækka meðalslagæða­þrýsting upp í 65 og 75 mmHg í tveimur skrefum. Hjartaútfall var mælt með stöðugri “thermodilution”, svæðisblóðflæði í superior mesenteric slagæð og nýrnaslagæð með “transit time flowmetry” og smáæðablóðflæði í smáþörmum með laser Doppler flæðimælingu. Súrefnisþrýstingur í garnavef var mældur með Clark-skautum.

Niðurstöður: Hópur C fékk samtals 985 ± 44 ml og hópur NA 964 ± 69 ml af RL. Hópur NA fékk 35 ± 12 ng/kg/mín af noradrenalíni til að hækka meðalslagæðaþrýsting upp í 65 mmHg og 120 ± 50 ng/kg/mín til að hækka þrýsting í 75 mmHg. Blóðþrýstingshækkun með noradrenalíni hafði lítil áhrif á svæðis- eða smáæðablóðflæði í smáþörmum eða nýrum. Súrefnisþrýstingur í garnavef breyttist ekki heldur.

Umræða: Í þessari dýrarannsókn þar sem líkt var eftir aðstæðum við opnar kviðarholsaðgerðir hjá mönnum hafði noradrenalíndreypi lítil sem engin áhrif á blóðflæði og súrefnisþrýsting í görnum og nýrum.

 

E-30     Notkun espaðs storkuþáttar VII á Landspítala á 10 ára tímabili

Róbert Pálmason1, Brynjar Viðarsson2, Felix Valsson3, Kristinn Sigvaldason3, Tómas Guðbjartsson4,5, Páll Torfi Önundarson2,5

1Lyflækningasvið, 2blóðmeinafræðideild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild og 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands

robertpalmason@gmail.com

Inngangur: Espaður storkuþáttur VII (recombinant factor VIIa, rFVIIa) hefur verið notaður á Landspítala (LSH) frá árinu 1999 við blæðingar af ýmsum orsökum. Tilgangur þessarar aftursæju rannsóknar var að athuga ábendingar og árangur af notkun rFVIIa á LSH frá upphafi til ársloka 2008.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar um notkun rFVIIa frá apóteki LSH og gagnagrunni blæðaramiðstöðvar. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og voru m.a. skráðar ábendingar notkunar lyfsins; klínísk svörun að mati meðhöndlandi læknis; fjöldi blóðhluta gefinn 12 klst. fyrir og 12 klst. eftir gjöf rFVIIa; storkupróf fyrir og eftir gjöf; og afdrif sjúklinga.

Niðurstöður: Alls fengu 73 sjúklingar rFVIIa, meðalaldur 51 ár (0-84). Helstu ábendingar voru óviðráðanlegar blæðingar við hjartaskurðaðgerðir (n=23), eftir áverka (n=8) og fæðingu (n=9). Átta sjúklingar fengu lyfið vegna heilablæðingar, níu sem fyrirbyggjandi meðferð fyrir skurðaðgerð og 16 við öðrum ábendingum. Klínísk svörun var góð í 73% tilfella. Notkun rauðkornaþykknis minnkaði að meðaltali úr 10,6 einingum 12 klst. fyrir lyfjagjöf (bil 0-32, miðgildi 10) í 4,3 einingar 12 klst. eftir gjöf lyfsins (bil 0-22, miðgildi 3; p<0.0001); notkun blóðvökva minnkaði úr 10,2 einingum (bil 0-26, miðgildi 8) í 6,2 (bil 0-33, miðgildi 5,5; p <0.002); og PT styttist um 6,9 sek (p<0.0001). Alls létust 24 sjúklingar innan 30 daga (33%), þar af 6 af 9 með heilablæðingu og 10 af 24 sjúkl. eftir opnar hjartaaðgerðir.

Ályktun: Þrír af hverjum fjórum sjúklingum svöruðu rFVIIa vel skv. klínísku mati. Marktæk minnkun á gjöf blóðhluta og stytting PT styður það mat. Þótt dánarhlutfall sé hátt (33%), sérstaklega eftir heilablæðingar (66%), þá ber að hafa í huga að lyfið var aðeins gefið þegar önnur meðferðarúrræði höfðu brugðist.

 

E-31     Lungnaskurðaðgerðir við lungnakrabba­meini á Íslandi: Tegund aðgerða og árangur

Húnbogi Þorsteinsson1, Ásgeir Alexandersson1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut Skúladóttir1, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði og 4lungnadeild Landspítala

hth14@hi.is

Tilgangur: Helstu skurðaðgerðir við lungna­krabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (LÖES) eru blaðnám, lungnabrottnám og fleyg-/geira-skurður. Hér á landi hefur vantað upplýsingar um hversu hátt hlutfall sjúklinga með LÖES gangast undir skurðaðgerð á lungum með lækningu að markmiði. Í Bandaríkjunum hefur þetta hlutfall verið í kringum 30% en lægra í Evrópu (~20%). Markmið þessarar rannsóknar var að kanna þetta hlutfall hér á landi og bera saman árangur aðgerðanna þriggja.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum með LÖES sem gengust undir lungnaaðgerð á Íslandi 1994–2008. Upplýsingar um tegund aðgerða, alvarlega fylgikvilla og skurðdauða (<30 d.) fengust úr sjúkraskrám. Upplýsingar um heildarfjölda greindra tilfella fengust úr Krabbameinsskrá, en þau voru 1757. Æxlin voru stiguð skv. TNM-kerfi og reiknaður lífshorfur. Borin voru saman þrjú 5 ára tímabil.

Niðurstöður: Alls gengust 387 sjúklingar undir 397 aðgerðir; þar af voru 73% blaðnám, 15,1% lungnabrottnám og 11,9% fleyg-/geiraskurðir (tafla 1). Hlutfallið af öllum greindum sjúklingum var 22,6% fyrir allt tímabilið og breyttist ekki marktækt á milli tímabila. Ekki var heldur marktækur munur á tíðni tilviljanagreindra æxla á milli tímabila, hlutfalli sjúklinga á stigi I+II eða hlutfalli kirtilmyndandi krabbameina (58,7% í heild). Skurðdauði var 0,7% eftir blaðnám, 3,3% eftir lungnabrottnám og 0% eftir fleygskurð (p>0,1). Lífshorfur eftir lungnabrottnám reyndust marktækt verri en eftir blaðnám og fleygskurð (p<0,005), og marktækt betri á síðasta tímabili samanborið við það fyrsta (p = 0,04).

Ályktun: Hlutfall sjúklinga með LÖES sem gangast undir skurðaðgerð í læknandi tilgangi á Íslandi (22,6%) er vel sambærilegt við önnur Evrópulönd. Árangur aðgerðanna er góður, enda tíðni alvarlegra fylgikvilla lág og skurðdauði aðeins 1,0% fyrir hópinn í heild.

Tafla 1

  Blað­nám Lungna­brottnám Fleyg-/geira­skurður Samtals
Fjöldi aðg. og hlutfall (%) af heildarfj. greindra (n=1757)

290

(16,5%)

60

(3,4%)

47

(2,68%)

397

(22,6%)

Hlutfall á stigi I+II 78,9% 60,1% 95,7%* 78,1%
Tíðni alv. fylgikvilla 5,9% 18,3%* 4,3% 7,6%
5 ára lífshorfur 44,6% 21,2%* 40,9% 40,3%
Skurðdauði (<30 d.) 0,7% 3,3% 0% 1,0%

* marktækur munur (p<0,05)

 

 

E-32     Rof á hjarta eftir gangráðsísetningu: Tilfellaröð af Landspítala

Ingvar Þ. Sverrisson1, Halla Viðarsdóttir1, Gizur Gottskálksson2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild og 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

ingvarsv@landspitali.is

Inngangur: Gangráðsísetning er algeng aðgerð og tíðni alvarlegra fylgikvilla er lág. Blæðingar og sýk­ingar eru algengastu fylgikvillarnir en einnig er þekkt að rof geti komið á hjartavöðvann og leiðslurnar stungist út úr hjartanu. Um er að ræða sjaldgæfan en hættulegan fylgikvilla. Lýst er 5 tilfellum af Landspítala (LSH) sem meðhöndluð voru á tveggja ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Safnað var upplýsingum um öll tilfelli þar sem rof á hjarta hafði greinst með vissu eftir gangráðsísetningu á LSH frá 1. jan. 2008 til 31. des. 2009. Farið var yfir sjúkraskrár og könnuð meðferð og afdrif sjúklinganna.

Niðurstöður: 5 sjúklingar greindust á tímabilinu, einn árið 2008 og 4 árið eftir. Á sama tímabili voru gerðar 389 nýísetningar á gangráðum á LSH og komið fyrir samtals 700 gangráðsvírum. Tíðni hjartarofs var því 0,7% fyrir hvern vír og 1,3% fyrir hverja gangráðsísetningu. Meðalaldur var 71 ár (51-84 ára) og karlar 2 talsins. Algengasta einkennið var brjóstverkur og hafði enginn sjúkl. klár einkenni um bráða hjartaþröng (tamponade). Greining var staðfest með TS (gated CT) eða ómskoðun og greindust allir nema einn innan tveggja vikna frá aðgerð (bil: 1 sólarhr. - 33 mán.). Hjá 3 sjúklinganna var gerður bringubeins­skurður, blóð tæmt úr gollurshúsi (mest 0,5 L), saumað yfir gatið og nýjum leiðslum komið fyrir. Hjá hinum 2 var vírinn dreginn á skurðstofu með vélindaósmstýringu. Fjórir sjúklingar lifðu af og útskrifuðust en 83 ára kona dó á gjörgæslu úr lungnabólgu sem ekki tengdist gangráðsísetningunni.

Ályktun: Rof á hjartavöðva eftir gangráðsísetningu er hættulegur fylgikvilli sem getur valdið blæðingu inn í gollurshúsið. Fáar rannsóknir eru til um tíðni þessa fylgikvilla og sömuleiðis hvaða meðferð sé skynsamlegast að beita. Mikilvægt er að hafa rof á hjartavöðva í huga hjá sjúklingum með brjóstverk eða lágþrýsting eftir gangráðsísetningu.

 

E-33     Meinafræðileg eitlastigun brjóstakrabba­meins við Landspítala 2000-2007

Anna Kristín Höskuldsdóttir1, Þorvaldur Jónsson1,2, Lárus Jónasson3, Kristján Skúli Ásgeirsson2

1Læknadeild HÍ, 2skurðlækningadeild og 3rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala

akh4@hi.is

Inngangur: Eitlataka úr holhönd hefur lengi verið hluti af skurðmeðferð brjóstkrabbameins enda er staða holhandareitla mikilvægur þáttur í stigun sjúkdómsins. Lengi vel var úrnám 10-20 eitla eina leiðin til stigunar. Eftir að kembileit að brjóstakrabbameini hófst greinast margir sjúklingar sem ekki hafa eitlameinvörp. Með tilkomu varð­eitiltöku, þar sem aðeins þeir eitlar sem líklegastir eru til að hafa meinvörp eru fjarlægðir, gefst kostur á að stiga eitlaneikvæða sjúklinga án þess að gera eitlanám. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort breyting hefur orðið á eitlastigun sjúklinga eftir að varðeitiltaka var tekin upp á Landspítala árið 2004.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn þýðisrannsókn og nær til allra sjúklinga sem skornir voru upp á átta ára tímabili vegna brjóstakrabba­meins á Landspítala og þar sem aðgerð á holhandareitlum var hluti af skurðmeðferðinni. Rannsóknartímabilinu var skipt í tvennt, 2000-2003 og 2004-2007. Skráður var aldur og kyn sjúklinga, stærð, meingerð og gráða frumæxlisins, fjöldi fjarlægðra eitla og fjöldi eitlameinvarpa.

Niðurstöður: Alls voru 1095 sjúklingar í þýðinu (konur 99,3%, miðaldur 58,2) sem fóru í 1128 aðgerðir. Aldursdreifing, kynjaskipting, stærð, meingerð og gráða frumæxlis var sambærileg á báðum tímabilunum. Á fyrra tímabilinu voru fjarlægðir 6885 eitlar og 4195 á því seinna. Hlutfall sjúklinga með eitlameinvörp reyndist sambærilegt á báðum tímabilum, 41,6% á því fyrra og 38,1% á því síðara.

Ályktun: Innleiðing á varðeitiltöku við skurð­meðferð brjóstakrabbameins á Landspítala hefur ekki leitt til uppstigunar á eitlastöðu sjúkdómsins við greiningu. Þetta er ólíkt því sem hefur verið lýst annars staðar, þar sem hlutfall einstaklinga með eitlameinvörp jókst eftir tilkomu varðeitiltöku.

 

E-34     Alvarleg sýklasótt á íslenskum gjör­gæsludeildum. - Tíðni, meingerð og meðferðar­árangur

Edda Vésteinsdóttir1, Sigurbergur Kárason1,4, Sigurður E. Sigurðsson3, Magnús Gottfreðsson2,4, Sigrún Hallgrímsdóttir1, Alma Gunnarsdóttir1, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Svæfinga- og gjörgæsludeild og 2smitsjúkdsómadeild Landspítala, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahúss Akureyrar, 4læknadeild Háskóla Íslands

eddave@landspitali.is

Inngangur: Sýklasótt er ein algengasta ástæða gjörgæsluinnlagna. Nýgengi fer vaxandi og dánartíðni er há, 30-50%. Á árinu 2004 var hrundið af stað átaki til bæta greiningu og meðferð sýklasóttar, Surviving Sepsis Campaign. Tilgangur rannsóknar var að kanna faraldsfræði sýklasóttar sem leiðir til innlagnar á gjörgæslu og meta hve vel áðurnefnd meðferðar­markmið eru uppfyllt.

Efniviður og aðferðir: Framsýn rannsókn á 12 mánaða tímabili, frá 1. apríl 2008 til 31. mars 2009. Þátttakendur voru allir sjúklingar (≥18 ára) sem uppfylltu skilyrði fyrir alvarlegri sýklasótt eða sýklasóttarlosti við innlögn á gjörgæsludeildir Landspítala (LSH) og Sjúkrahússins á Akureyri (FSA). Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám sjúklinga.

Niðurstöður: Á tímabilinu lögðust 115 sjúklingar inn á gjörgæsludeildir vegna sýklasóttar. Nýgengi var 0,48 tilfelli á 1000 íbúa. Blóðrásarbilun (96%), öndunarbilun (69%), nýrnabilun (39%) og blóðsýring (39%) voru algengustu líffærabilanir. Meðal APACHE II skor var 20,7. Dánartíðni við 28 daga var 24,5%. Algengustu sýkingarstaðir voru; lungu (37%), kviðarhol (28%) og þvagfæri (8%). Sýkingar skiptust í gram jákv. (39%), gram neikv. (30%) og blandaða flóru (28%). Empírísk sýklalyf reyndust ekki virk gegn þeim meinvaldi sem ræktaðist í 21% tilfella. Meðferðarmarkmið voru misvel uppfyllt. Lakasti árangur var í sykurstjórnun (52% náðu markmiðum), miðbláæðaþrýstingi (60%) og gjöf sýklalyfja innan tímamarka (62%). Besti árangur var í laktatmælingum (94%) og gjöf forvarnarlyfja (95%). Öll markmið í bráðameðferð (fyrstu 6 klst) uppfylltu 35 % sjúklinga.

Ályktun: Nýgengi sýklasóttar á íslenskum gjörgæsludeildum er svipað og erlendis. Sama á við um uppruna sýkinga og tegund sýkla. Dánartíðni hér er lægri en alþjóðleg skorkerfi spá fyrir um. Svigrúm virðist vera til að bæta fyrstu meðferð sýklasóttar­sjúklinga hér á landi.

 

E-35     Lægri dánartíðni sjúklinga með blóðfituhækkun eftir kransæðahjáveituaðgerð – Verndandi áhrif blóðfitulækkandi statína?

Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

saemiodds@hotmail.com

Inngangur: Hækkun á blóðfitum er þekktur áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og felst meðferð m.a. í lyfjameðferð með statínum. Sýnt hefur verið fram á að statín minnki bólguviðbrögð (SIRS) í líkamanum, m.a. eftir skurðaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif blóðfituhækkunar/statína á tíðni fylgikvilla og dánartíðni eftir kransæðahjáveituaðgerð.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til 720 sjúklinga sem gengust undir kransæða­hjáveituaðgerð á Landspítala (LSH) árin 2002-2006. Bornir voru saman sjúklingar sem höfðu sögu um blóðfituhækkun (S-kólesteról ≥7,8 mmól/L) og voru á statínum (n=421) við sjúklinga sem ekki höfðu hækkaðar blóðfitur eða tóku statín (n=299). Ein- og fjölþáttagreining var notuð til að meta áhrif á fylgikvilla og dánartíðni ≤ 30 daga.

Niðurstöður: Sjúklingar með blóðfituhækkun voru marktækt yngri (65,6 vs. 67,6 ára) og þyngri (BMI 28,3 vs. 27,6), en EuroSCORE þeirra lægra (4,5 vs. 5,2). Ekki var marktækur munur á meiriháttar fylgikvillum í hópunum tveimur, þ.m.t. heilablóðfalli, sýkingu í bringubeini, kransæðastíflu og enduraðgerð vegna blæðingar. Hjá sjúklingum með blóðfitu­hækkun sást tilhneiging til lægri tíðni bráðs andnauðarheilkennis (ARDS) og fjölkerfabilunar (MOF) (2,1% vs 4,7%, p=0,089). Dánartíðni ≤30 d. var marktækt lægri hjá sjúklingum með blóðfitu­hækkun (1,4 vs. 5,7%, p=0,003) en legutími á gjörgæslu og heildarlegutími sambærilegur. Í fjöl­þáttagreiningu, þar sem m.a. var leiðrétt fyrir aldri (OR 1,12, p=0,04) og EuroScore (OR 1,59, p=0,0002) reyndist saga um blóðfituhækkun vera sjálfstæður forspárþáttur lægri dánartíðni ≤30 d. (OR 0,24, p= 0,03).

Ályktun: Sjúklingar með blóðfituhækkun virðast hafa marktækt lægri dánartíðni en þeir sem hafa eðlilegar blóðfitur. Hugsanlega má rekja þessi áhrif til bólguhemjandi áhrifa statína, samanber tilhneigingu til lægri tíðni fjölkerfabilunar og andnauðar­heilkennis.

 

E-36     Flýtibatameðferð getur stytt sjúkrahús­legu við valkeisaraskurði

Jóhanna Gunnarsdóttir1, Þorbjörg Edda Björnsdóttir1, Kristín Jónsdóttir1, Reynir Tómas Geirsson1,2

1Kvensjúkdómadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

johagun@bjarni.muna.is

Tilgangur: Kanna hvort stytta megi sjúkrahúslegu við valkeisaraskurði með aðferðum flýtibatameð­ferðar án fjölgunar endurinnlagna, og skoða hvaða þættir hafa áhrif á lengd legunnar.

Aðferðir: Flýtibatameðferð með fyrirfram skilgreindum útskriftarskilyrðum hófst í nóvember 2008. Haft var eftirlit með breytingum í heilt ár. Konur sem útskrifuðust innan 48 klst. fengu heimaþjónustu ljósmóður. Ástæður lengri legu voru skráðar, ásamt tímalengd að fyrstu framúr ferð og máltíð, notkun verkjalyfja og ógleðilyfja, auk ýmissa atriða um móður. Afturvirk gögn frá heilum árum 2003 og 2007 voru notuð til samanburðar á legutíma og endurinnlögnum.

Niðurstöður: Miðgildi legutíma kvenna með einbura styttist úr 81 í 52 klst. milli 2007 og 2008-09 og 66% gátu útskrifast <48 klst. Endurinnlagnir voru fjórar á báðum tímabilum. Sængurlega kvenna sem fæddu tvíbura með valkeisaraskurði var mun lengri (2008-09: 116,1 klst). Sjúkrahúslega fjölbyrja var styttri 2007 samanborið við 2003 en óbreytt hjá frumbyrjum. Fyrri fæðingar höfðu hverfandi áhrif á legutíma eftir að flýtibatameðferð hófst, þó frumbyrjur ≤25 ára væru heldur líklegri til að liggja inni >48 klst. Engin fylgni fannst milli BMI og legutíma, jafnvel þó einungis helmingur kvenna væru í kjörþyngd (BMI=18.5-25). Konur sem útskrifuðust <48 klst höfðu tilhneigingu til að borða fyrr (4 vs. 5 klst. p=0,11). Þau 11% kvenna sem fengu ógleðilyf borðuðu að jafnaði seinna en hinar (6 vs. 4 klst., p=0,02) og virtust síður útskrifast <48 klst. (p=0,08).

Ályktanir: Flestar hraustar konur með eitt barn geta útskrifast snemma eftir valkeisaraskurð án þess að endurinnlögnum fjölgi, þó frumbyrjur ≤25 ára séu líklegri til að liggja >48 klst. BMI hefur ekki áhrif á legutíma. Fimmta hver kona fær ógleði eftir valkeisaraskurð sem mögulega hamlar snemm­útskriftum.

 

E-37 Lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2006

Inga Lára Ingvarsdóttir1, Sólveig Helgadóttir1, Ragnar Danielsen1,2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild og 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

ili1@hi.is

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta hjartaaðgerðin og er oftast gerð vegna ósæðarloku-
þrengsla. Tilgangur rannsóknarinnar var að gera ítarlega rannsókn á árangri ósæðarlokuskipta vegna
ósæðarlokuþrengsla á Íslandi.

Efniviður og aðferðir
: Aftursæ rannsókn sem náði til allra sjúklinga með ósæðarlokuþrengsl er gengust
undir ósæðarlokuskipti á Landspítala (LSH) á árunum 2002-2006, samtals 156 einstaklinga. Sleppt var
29 sjúklingum sem fóru í aðgerð vegna ósæðar­lokuleka eða höfðu áður farið í hjartaaðgerð. Meðalaldur
var 71,7 ár (bil 41-88) og 64,7% karlar. Skráðir voru áhættuþættir, fylgikvillar aðgerðanna, þ.á.m.
skurð­dauði og niðurstöður hjartaómana.

Niðurstöður: Algengustu einkenni voru mæði (80,8%) og hjartaöng (52,6%), en 11 sjúklingar voru án
einkenna. Fyrir aðgerð var hámarks þrýstings­fallandi (∆P) að meðaltali yfir lokuna 74,1 mmHg,
útfallsbrot (EF) 57% og EuroScore 9,6%. Meðalaðgerðar- og -tangartími voru 282 og 124 mínútur. Ríflega
helmingur sjúklinganna gekkst samtímis undir kransæðahjáveitu og 9 undir aðgerð á míturloku. Lífrænni
loku var komið fyrir í 127 aðgerðanna (81,4%), í 102 tilvikum án grindar (stentless), og gerviloka hjá
18,6% sjúklinganna. Meðalstærð ígræddra loka var 25,6 mm (bil 21-29) og hámarks ∆P yfir nýju lokuna
28,1 mmHg. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru nýtilkomið gáttatif (64%) og nýrnaskaði (32%) en
19 sjúklingar (12,2%) fengu fjöllíffærabilun. Enduraðgerð vegna blæðingar þurfti í 12% tilfella.
Miðgildi legutíma var 13 dagar, þar af 1 á gjörgæslu. Skurðdauði (≤30 d.) var 6,4%.

Ályktun: Alvarlegir fylgikvillar eru tíðir eftir ósæðarlokuaðgerðir, ekki síst blæðingar sem oft
krefjast enduraðgerðar. Skurðdauði er helmingi hærri en eftir kransæðahjáveituaðgerðir, sem er í
samræmi við aðrar rannsóknir.

 

E-38     Meðferð með fíbrínógenþykkni við alvarlegar blæðingar

Hulda Rósa Þórarinsdóttir1, Friðrik Þ. Sigurbjörnsson1, Kári Hreinsson1, Páll Torfi Önundarson2,4, Tómas Guðbjartsson3,4, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2blóðmeinafræðdeild og 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

huldaros@landspitali.is

Inngangur: Fíbrínógen er mikilvægur storkuþáttur sem virðist ná krítískt lágum gildum fyrr en blóðflögur og aðrir storkuþættir við alvarlegar blæðingar. Dýrarannsóknir hafa sýnt bætta storknun blóðs þegar lyfið er notað við alvarlegar blæðingar. Klínískar rannsóknir eru hins vegar af skornum skammti. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur af gjöf fíbrínógenþykknis við alvarlegar blæðingar á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til 30 sjúklinga (meðalaldur 74 ár, bil 23-87, 50% karlar) sem fengu fíbrínógenþykkni við alvarlegum blæðingum (>2,0 L) á Landspítala 2006-2008. Sjúkl­ingar sem fengu marga skammta af fíbrínógeni eða virkjaðan storkuþátt VIIa voru ekki teknir með í rannsóknina. Flestir sjúklinganna fengu alvarlega blæðingu í tengslum við hjarta- (67%) eða kviðar­holsaðgerð (17%). Skráð var tímasetning og skammtur fíbrínógengjafar. Magn blóðhluta, vökvagjöf, blæðingarpróf (APTT, PT), blóðflögur, D-dímer og styrkur fibrinogens í sermi var skráð fyrir og eftir gjöf lyfsins. Notkun annarra storku­hvetjandi lyfja, áhættuþættir blæðinga, undirliggjandi sjúkdómar og afdrif sjúklinganna voru einnig könnuð.

Niðurstöður: Eftir gjöf fíbrínógenþykknis (miðgildi 2g, bil 1-6g) hækkaði s-fíbrínógen úr 1,8g/L í 2,5g/L (p<0.001). Einnig varð marktæk lækkun á APTT og PT-gildum (p<0,001), en blóðflögufjöldi og D-dímer héldust óbreytt. Gjöf rauðkornaþykknis minnkaði marktækt á 24 klst. eftir gjöf fíbrínógens en ekki varð marktæk breyting á gjöf blóðvökva eða blóðflagna. Níu sjúklingar (17%) létust á gjörgæslu, flestir innan 28 daga, en 76% útskrifuðust af sjúkrahúsi og voru á lífi hálfu ári síðar.

Ályktun: Það virðist sem viðbótarmeðferð með fíbrínógenþykkni við alvarlegar blæðingar stuðli að bættum blæðingarprófum og minnkaðri þörf fyrir gjöf rauðkornaþykknis.

 

 

 

Ágrip veggspjalda

 

V-01     Krabbamein í botnlanga með fistil yfir í þvagblöðru - Sjúkratilfelli

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller1,4, Kristrún R. Benediktsdóttir2,4, Guðmundur Geirsson3,4

1Skurðlækningadeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði og 3þvagfæraskurðdeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

hallavidars@gmail.com

Inngangur: Krabbamein í botnlanga er sjaldgæfur sjúkdómur, eða um 0,5% allra illkynja sjúkdóma í meltingarvegi. Hér er kynnt tilfelli krabbameins í botnlanga með fistil yfir í þvagblöðru. Sjúklingur var með óþægindi í kviðarholi og tíð þvaglát en ekki dæmigerð einkenni fyrir þarma-blöðru fistil, s.s loftmigu eða þvagfærasýkingar.

Tilfelli: 64 ára konu var vísað á bráðmóttöku Landspítala með 3ja vikna sögu um kviðverk, hita, slappleika og þyngdartap. Við uppvinnslu var hún með dreifð þreifieymsli, blóðleysi og hægðir voru jákvæðar fyrir blóði. CEA var hækkað 7,8 ng/mL. Þvagskoðun og tölvusneiðmyndir af kvið voru eðlilegar. Tveimur vikum síðar var gerð ristilspeglun sem ekki þótti tæknilega fullkomin og var því fengin röntgenmynd af ristli sem var eðlileg. Sjúkl. hafði áfram óþægindi í kvið og tíð þvaglát. Sex mánuðum síðar leitaði sjúkl. til kvensjúkdómalæknis og fannst þá fyrirferð við leggangaómun. Á segulómun vaknaði grunur um fistil á milli smágirnis og þvagblöðru. Blöðruspeglun leiddi í ljós dæmigert fistilsop í aftari vegg þvagblöðru. Við aðgerð var botnlangi og smágirni vaxið við þvagblöðruvegg og í ristilhengju fundust stækkaðir eitlar. Fyrirferðin var fjarlægð í heilu lagi með góðri skurðbrún á þvagblöðruvegg ásamt hægri hluta ristils. Vefjarannsókn leiddi í ljós slímmyndandi kirtilfrumukrabbamein í botnlanga með rofi yfir í þvagblöðru og vöxt í gegnum öll vegglög yfir á smágirni. Alls fundust 23 eitlar sem allir voru án æxlisvaxtar. Meinafræðileg stigun var T4N0M0. Sjúkl. útskrifaðist á 5. degi eftir aðgerð og er nú í viðbótarkrabbameinslyfjameðferð með 5-fluorouracil, leucovorin og oxaliplatin.

Umræða: Hér er um að ræða sjaldgæft krabbamein með óvenjulega birtingarmynd. Kirtilfrumukrabba­mein í botnlanga með fistil yfir í þvagblöðru eru afar sjaldgæf, en einungis 2 tilfellum hefur áður verið lýst.

 

V-02     Er þörf á holhandarstigun hjá öllum brjóstakrabbameinssjúklingum? - Framsæ þýðis­rannsókn frá Svíþjóð

Helena Sveinsdóttir1, Lars-Gunnar Arnesson2, Stefan Emdin3, Lars Löfgren4, Johan Ahlgren5, Helena Fohlin6, Lisa Rydén1, Christian Ingvar1

1Skurðlækningadeild háskólasjúkrahúss Skåne, Lundi, 2skurð­lækningadeild háskólasjúkrahússins í Linköping, 3skurðlækninga­deild háskólasjúkrahússins í Umeå, 4skurðlækningadeild St.Göran sjúkrahússins í Stokkhólmi, 5krabbameinsdeild sjúkrahússins í Gävle 6krabbameinsskráningin, Linköping, Svíþjóð

helenasveins@gmail.com

Inngangur: Brjóstakrabbameinsskimun hófst í Svíþjóð á níunda áratugnum og hefur bætt horfur sjúklinga þar sem meinið uppgötvast fyrr og hlutfallslega færri sjúklingar hafa því eitlameinvörp við greiningu. Sænsk rannsókn frá þeim tíma sýndi lága tíðni meinvarpa (7%) í holhandareitlum ef brjóstaæxlið var lítið (≤10 mm), greint við skimun og af vefjagráðu I-II. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort sleppa megi holhandareitlastigun í þessu sjúklingaþýði, án þess að það hefði áhrif á horfur.

Aðferðir: Á árunum 1997-2002 voru 1584 skimunar­sjúklingar með brjóstakrabbamein ≤10 mm og af vefjagráðu I-II með í framsærri þýðisrannsókn. Engin holhandaraðgerð var gerð og sjúklingum fylgt eftir í 5 ár. Afdrif sjúklinga voru könnuð í dánar­meinaskrá, krabbameinsskrá og með heimsendum spurningalista.

Niðurstöður: 14 konur af 1584 uppfylltu ekki inntökuskilyrði. Meðalaldur sjúklinga var 61 ár (31-87) og meðalæxlisstærð 8 mm (1-10). Fleygskurður var gerður hjá 94% og 2/3 þeirra fengu geisla­meðferð á brjóstið í samræmi við meðferðartilmæli. Meðaleftirlitstími var 8,8 ár. 158 konur eru látnar, þar af 18 (1,1%) úr brjóstakrabbameini. Spurningalisti var sendur til 1412 kvenna og 96% þeirra svöruðu. Af þeim hafa 109 (7,7%) greinst með endurmein af einhverju tagi; 23 (1,5%) með meinvörp í holhandar­eitlum, þar af 9 (0,6%) eingöngu í eitlum og 13 bæði í brjósti og eitlum. 56 konur (3,9% af heild) hafa eingöngu fengið endurmein í brjóstið og 23 (1,5%) nýtt æxli í hitt brjóstið. 30 sjúklingar hafa greinst með fjarmeinvörp, 12 þeirra eru enn á lífi. 10 ára heildarlifun var 88,7% og sértæk 10 ára brjóstakrabba­meinslifun 97,4%.

Ályktun: Niðurstöðurnar sýna lága tíðni af endurkomu krabbameins í þessu sjúklingaþýði. Rannsóknin veitir mikilvægar upplýsingar um eðli brjóstakrabbameins og áhrif þess að sleppa holhandareitlatöku til stigunar hjá sjúklingum með lítið krabbamein, jafnvel á tímum varðeitiltöku.

 

V-03     Breytt staða axlargrindar og hálshryggs hjá einstaklingum með hálsverki

Harpa Helgadóttir1, Eyþór Kristjánsson1, Halldór Jónsson jr.1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala

harpahe@hi.is

Breytt staða axlargrindar getur orsakað og viðhaldið rangri starfsemi í háls- og brjósthrygg. Þessi rannsókn er sú fyrsta sem notar viðmið International Society of Biomechanics (STCISB) við mat á stöðu axlargrindar hjá einstaklingum með hálsverki. Stöðu axlargrindarinnar er lýst með tveimur snúningum viðbeinsins: upp-/niðursnúningi og fram-/aftur­snúningi, og þremur snúningum herðablaðsins: upp-/niðursnúningi, inn-/útsnúningi og fram-/afturhalla.

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að finna út hvort einstaklingar með hálsverki hefðu breytt mynstur á stöðu axlargrindar miðað við heilbrigða einstaklinga. Aukamarkmið var að meta stöðu hálshryggs hjá þessum sömu hópum.

Einstaklingar með hálsverki eftir bílslys (n=23) og einstaklingar með hálsverki af óþekktum uppruna (n=21) voru bornir saman við 20 heilbrigða einstaklinga. Þrívíddargreinir (Fastrak) mældi stöðu viðbeins og herðablaðs í samræmi við tilmæli STCISB.

Mæligildi á stöðu axlargrindar staðfestu með mark­tækum hætti aukinn framsnúning viðbeins og niðursnúning herðablaðs hjá einstaklingum með hálsverki miðað við heilbrigða einstaklinga. Marktækur mismunur var á milli einstaklinga með hálsverki af óþekktum uppruna og eftir aftanákeyrslu þar sem sá fyrri hafði aukinn niðursnúning viðbeins en seinni aukinn framhalla á herðablaðinu. Aukin framhöfuðstaða fannst einnig hjá einstaklingum með hálsverki miðað við heilbrigða einstaklinga.

Breytt staða axlargrindar hjá einstaklingum með hálsverki bendir til breyttrar starfsemi stöðugleika­vöðva axlargrindar og stuttra ofvirkra vöðva sem geta valdið ofálagi á háls- og brjósthrygg. Aukin framhöfuðstaða bendir til minnkaðrar getu hálshryggjar til þungaburðar sem getur meðal annars stafað af truflaðri starfsemi í djúpu beygjuvöðvum hálsins.

 

V-04     Fylgni milli beinþéttni og hvetjandi vöðvasamdrátts í þverlömuðum sjúklingum er hljóta raförvunarmeðferð

Paolo Gargiulo1,2, Benedikt Helgason5, Páll Jens Reynisson2, Egill Axfjörð Friðgeirsson2, Þórður Helgason1,2, Halldór Jónsson jr.3,4

1Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild, Landspítala, 2heilbrigðis­verkfræðideild, Háskólans í Reykjavík, 3bæklunarskurðdeild, Landspítala, 4bæklunarskurðlæknisfræðasvið læknadeildar Háskóla Íslands, 5skurðtækni- og vefjaverkfræðisvið – verkfræði­deildar Bern háskóla, Swiss

paologar@lsh.is

Eftir mænuskaða verður beinþéttni þverlamaðra einstaklinga fyrir hraðri samfelldri rýrnun sem veldur beinþynningu með þeim afleiðingum að hætta á alvarlegum beinbrotum eykst. Innan RISE verkefnis á vegum Evrópusambandsins hafa sjúklingar með þverlömun hlotið meðferð á lærvöðva með raförvun heima fyrir. Þar af leiðandi hefur vöðvasamdrátturinn búið til álag á bein sem er mjög hagstætt fyrir beinþéttnina, sem stjórnaði þar með beinþéttni meðan á rannsókn stóð.

Upplýsingarnar sem notaðar voru til þess að rannsaka hnéskelina voru teknar úr spíral tölvusneiðmyndum er myndaðar voru yfir rannsókn­ina. Þrívíddar líkanagerð var notuð til þess að rannsaka beinþéttnibreytingar á hnéskel. Aðferðar­fræðin er byggð á gagnaöflun frá háupplausna spíral tölvusneiðmyndum, notkun á vinnsluforritum þeim tengdum (MIMICS, SolidWorks, Matlab, ANSYS) og tölulegum aðferðum. Til að rannsaka beinþéttni var búin til síunargríma; hnéskelin einangruð frá öðrum vefjum og flutt yfir í tölvuvætt form. Þar var fjaðurstuðull umreiknaður frá HU-gildum sneið­mynda og smurður á tölvuvædda líkanið með NI aðferð til þess að sýna myndræna framsetningu á yfirborði hnéskeljarinnar. Rúmfræðilegar breytingar á hnéskelinni voru mældar sem bein afleiðing af raförvuninni. Niðurstöðurnar benda til þess að rýrnunarhraði beinþéttni minnki í þeim sjúklingum sem stundi raförvun samviskusamlega. Eini hugsanlegi þáttur sem útskýrir minnkandi rýrnunar­hraða er krafturinn sem kemur frá lærvöðva við samdrátt.

Líkanið er hægt að nota til að mæla og tengja saman krafta og endursköpun beins ásamt því að sannprófa nýstárlega hugmynd fyrir meðferð á beinþynningu byggða á titrunarkrafti sem örvar bein.

 

V-05     Faraldsfræði mænuskaða og hryggbrota í slysum á Íslandi

Sigrún Knútsdóttir1, Herdís Þórisdóttir1, Páll Ingvars­son1, Kristinn Sigvaldason2, Aron Björnsson3, Halldór Jónsson jr.4, 5

1Sjúkraþjálfun- og endurhæfingadeild Landspítala, Grensási, 2gjörgæslu­deild, 3heila- og taugaskurðdeild og 4bæklunarskurðdeild Landspítala, 5bæklunarskurðlækningasvið læknadeildar Háskóla Íslands

sigrunkn@landspitali.is

Allt frá stofnun endurhæfingardeildar Landspítala á Grensási árið 1973 hafa flestir sem hljóta mænuskaða í slysum fengið þar endurhæfingu. Umferðarslys hafa verið ein algengasta orsök mænuskaða og hefur forvarnarstarf aðallega beinst að þeim. Til að efla forvarnir enn frekar, er víðtækari kortlagning þessara áverka nauðsynleg.

Í fyrsta hluta rannsóknarinnar beindist athyglin að tíðni, orsök, aldri, kyni og alvarleika mænuskaða frá 1973 til 2008. Við afturvirka skoðun á sjúkragögnum frá tímabilinu fundust 191 einstaklingar; karlar 73% (n=140), konur 27% (n=51); meðalaldur 37 ár (5-81). Árlegt meðalnýgengi mænuskaða var 5,3 (36 ár). Á árunum 2005-08 jókst nýgengið í 9,75 sem var marktæk aukning miðað við fyrri ár. 44% (n=84) voru 30 ára eða yngri en 11% (n=28) voru yfir sextugt og var marktæk fjölgun í þessum aldurshópi frá 2001 miðað við 28 árin á undan (p<0,05). Umferðarslys voru orsök skaðans í 46% tilfella (n=87) og föll í 29% (n=55). Föll voru helsta orsök mænuskaða hjá einstaklingum yfir sextíu ára. Frístundaslys voru orsök mænuskaða í 20,5% tilfella (n=39), þar af gerðust 19 þeirra árin 2001-2008 og var það marktæk aukning (p<0.01). Hestaslys voru 13 eða 32,5% af öllum frístundaslysum; sjö áttu sér stað 2001-2008. Tólf hlutu mænuskaða við vetraríþróttir (skíði, snjóþotur, vélsleðar). Tíu voru vegna annarra slysa, oftast vegna höggs. Alvarleiki skaðans var slíkur að tíu manns létust innan 10 daga. Af þeim 181 sem lifðu af hlutu 55% (n=100) tetraplegiu og 45% (n=81) paraplegiu. Níutíu manns urðu háðir hjólastól.

Ljóst er að mikilvægt er að beina forvörnum meira að föllum og frístundaslysum með sérstaka áherslu á hestamennsku og vetraríþróttir. Í öðrum hluta rannsóknarinnar verður sjónum því beint sérstaklega að orsök og tegund hryggbrotanna, aldri og frístundaiðkun.

 

V-06     Árangur Landspítala í fyrirbyggjandi meðferð gegn bláæðasegasjúkdómum - Framsýn þversniðsrannsókn

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir1, Guðný Stella Guðnadóttir1, Sigríður Bára Fjalldal1, Hulda Rósa Þórarinsdóttir2, Agnar Bjarnason1, Óskar Einarsson1

1Lyflækningasvið og 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala háskólasjúkrahúss

huldaros@landspitali.is

Inngangur: Bláæðasegasjúkdómar (venous thromboembolism, VTE) eru taldir valda 5-10% af dauðsföllum hjá inniliggjandi sjúklingum. Margar rannsóknir hafa sýnt að forvörnum er verulega ábótavant þrátt fyrir að klínískar leiðbeiningar hafi verið til um nokkurt skeið. Cohen et al sýndu í fjölþjóðlegri rannsókn árið 2008 að 51,8% sjúklinga á bráðadeildum sjúkrahúsa voru í áhættuhópi fyrir VTE en af þeim fengu 58,5% sjúklinga á skurðdeildum og 39,5% sjúklinga á lyflæknisdeildum viðeigandi forvarnarmeðferð*.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) í að veita fyrirbyggjandi meðferð gegn VTE og bera hann saman við árangur annarra landa.

Efni og aðferðir: Á einum degi í lok október 2009 var farið yfir sjúkraskrár allra inniliggjandi sjúklinga á skurð- og lyflæknisdeildum LSH. Kannað var hvort viðkomandi var með ábendingar eða frábendingar fyrir fyrirbyggjandi meðferð gegn VTE. Einig var kannað hvort viðkomandi sjúkl. var á fyrirbyggjandi meðferð miðað við leiðbeingar frá American College of Chest Physicians (ACCP) frá 2008.

Niðurstöður og umræður: Niðurstöður liggja ekki fyrir en verða tilbúnar á þinginu og verða þá kynntar í fyrsta skipti. Þar ætlum við að kynna árangur LSH í að veita fyrirbyggjandi meðferð gegn VTE og bera saman við önnur lönd úr rannsókn Cohens og fél. Auk þess ætlum við að bera saman árangur lyf- og skurðlæknisdeilda og fara yfir helstu ábendingar og frábendingar gegn VTE.

           

*Cohen AT, et al. Venous thromboembolism risk and prophylaxis in the acute hospital care setting (ENDORSE study): a multinational cross-sectional study. Lancet. 2008 Feb 2;371(9610):387-94.

 

V-07     Rof á ósæð eftir bílslys

Bergrós K. Jóhannesdóttir1, Felix Valsson2, Þórir Sigmundsson4, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild og 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4Karolinska háskólasjúkra­húsinu í Stokkhólmi, Svíþjóð

bkj1@hi.is

Inngangur: Rof á ósæð getur orðið við sjálfsprottna ósæðarflysjun eða eftir áverka, og er þá yfirleitt á mótum boga og fallhluta ósæðar. Rofinu getur fylgt lífshættuleg blæðing og látast flestir samstundis. Sumir ná þó lifandi á sjúkrahús og er hér lýst slíku tilfelli.

Tilfelli: 32ja ára karlmaður var farþegi í bifreið sem rann niður bratta hlíð á NA-landi. Hann var fluttur með mikla áverka á brjóstholi og mjóbaki til Egilsstaða, svæfður og fluttur með sjúkraflugi á LSH. Við komu þangað, 5 klst. eftir áverka, mældist BÞ 100/60 mmHg, púls 110, pH 6,9 og pO2 44 mmHg. Brjóstholskerum var komið fyrir beggja vegna og tæmdust 1700 ml af blóði. Tölvusneiðmyndir sýndu útbreitt lungnamar, loft og blóð í fleiðruholum og fjölda rifbrota. Einnig sást rof á brjósthluta ósæðar, rétt neðan við vi. viðbeins­slagæð, og brot á hrygg (L1-L2) sem þrýsti á mænu. Skömmu eftir komu féll BÞ í 50 mmHg. Hann var því fluttur beint á skurðstofu. Í gegnum bringubeinsskurð var sundurtætt neðra blað hæ. lunga fjarlægt og blæðingar frá millirifjaæðum stöðvaðar. Hækkaði BÞ þá í 90 mmHg. Nokkrum mín. síðar jókst blæðing í vi. kerann. Sjúklingi var velt og í skyndi gerður vi. brjóstholsskurður. Sást blæðing frá margúlnum umhverfis ósæðina sem rofnaði um það bil sem klemmur voru settar á æðina. Saumuð var inn 8 cm gerviæð og tók aðgerðin 6 klst. Heildarblæðing var 55 lítrar og voru samtals gefnar 112 ein. af rauðkornaþykkni, 32 ein. af plasma og 3 pokar af blóðflögum. GG meðferð tók 37 daga, m.a. vegna alvarlegrar öndunar- og nýrnabilunar. Einnig var hryggur spengdur í legunni. Hann útskrifaðist á Grensás eftir 54 daga á sjúkrahúsi. Hann er lamaður á ganglimum en annars við góða heilsu.

Ályktun: Rof á ósæð er lífshættulegur áverki. Tilfell­ið sýnir vel hversu hratt þessum sjúklingum getur versnað. Mikilvægt er að hafa rof á ósæð í huga við háorkuáverka.

 

V-08     Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi

Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Sæmundur J. Oddsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórs­son1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

hannes@landspitali.is

Inngangur: Frá því fyrsta kransæðahjáveitu­aðgerðin var gerð á Íslandi árið 1986 hafa >3500 slíkar aðgerðir verið framkvæmdar á Landspítala. Í flestum tilvikum hefur verið notast við hjarta- og lungnavél (CABG) en á síðasta áratug hafa margar aðgerðanna verið gerðar á sláandi hjarta (OPCAB). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga (n=720) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar aðgerðir samtímis, t.d. lokuaðgerð, var sleppt. Bornir voru saman fylgikvillar og dánartíðni (≤30 d.) þeirra sem gengust undir hefðbundna aðgerð (CABG-hópur, n=513), og á sláandi hjarta (OPCAB-hópur, n=207), og notuð til þess bæði ein- og fjölþáttagreining.

Niðurstöður: Áhættuþættir voru mjög sambærilegir fyrir bæði CABG- og OPCAB-hópa, m.a. aldur, líkamsþyngdarstuðull, fjöldi æðatenginga (2,8) og EuroSCORE (4,8). Aðgerðir á sláandi hjarta tóku lengri tíma (222 vs. 197 mín., p<0,001) og blæðing í var aukin í samanburði við hefðbundna aðgerð og munaði 274 ml (p<0,001). Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga og blóðgjafa var heldur hærri í CABG-hópnum og CK-MB sömuleiðis marktækt hærra (43,4 vs. 36,3 µg/L, p<0,05). Aftur á móti var tíðni gáttatifs (53%) og heilablóðfalls (2%) sambærileg í báðum hópunum, einnig legutími (12 dagar) og skurðdauði (3% vs. 4%). Tegund aðgerðar hafði ekki forspárgildi fyrir skurðdauða. Fjölþáttagreining á áhættuþáttum skurðdauða sýndi að EuroScore var sterkasti áhættuþátturinn, en hækkaðar blóðfitur og magn blóðgjafar reyndist einnig sjálfstæðir forspárþættir. Línuleg aðhvarfsgreining sýndi að tegund aðgerðar, líkamsþyngdarstuðull og fjöldi æðatenginga voru sjálfstæðir áhættu­þættir aukinnar blæðingar.

Ályktun: Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi er góður (3,2% skurðdauði) og sambærilegur við stærri hjartaskurðdeildir erlendis. Þetta á við um bæði hefðbundnar aðgerðir og aðgerðir á sláandi hjarta. Í þessari óslembuðu rannsókn reyndist þó blæðing aukin eftir aðgerðir á sláandi hjarta en tíðni hjartadreps lægri.

 

V-09     Brottnám heiladingulsæxla gegnum nef. 2007-2009

Kristín Eyglóardóttir1, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir2,4, Rafn Benediktsson2,4, Arnar Þór Guðjónsson3, Ingvar Hákon Ólafsson2,4

1Heila- og taugaskurðlækningadeild, 2innkirtla- og efnaskiptadeild og 3háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

kristiey@landspitali.is

Á Íslandi hafa aðgerðir á heiladingulsæxlum verið framkvæmdar með mismunandi aðferðum í gegnum árin. Frá því seinni hluta árs 2007 hafa allar slíkar aðgerðir eingöngu verið gerðar í gegnum nef. Hafa á þessu tímabili verið framkvæmdar 39 slíkar aðgerðir hér á landi. Farið verður yfir ábendingar fyrir aðgerð, árangur aðgerða, fylgikvilla og vandamál í kjölfar aðgerðanna. Þá verður gerður samanburður við árangur þessara aðgerða erlendis.

 

V-10     Krabbamein í munnvatnskirtlum á Íslandi 1996-2009

Hannes Hjartarson, Arnar Þór Guðjónsson

Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

arnarg@landspitali.is

Inngangur: Gerð var afturvirk rannsókn á krabbameini í munnvatnskirtlum á Íslandi á 14 ára tímabili með tilliti til aldurs, kyns, stigunar, stað­setningar, vefjameinafræði, meðferðar og lífslíkum.

Niðurstöður: Um 80% æxlanna reyndust staðsett í munnvatnskirtli (parotis). Vefjagreining var fjöl­breytileg eins og vitað er um þessi æxli. Mikill munur var á lífshorfum eftir tegund og hvort um var að ræða æxli af lágri eða hárri gráðu. Meðferð réðst af vefjagreiningu.

Ályktun: Rétt vefjagreining skiptir höfuðmáli. Skurðaðgerð þar sem æxli er að fullu fjarlægt er aðalmeðferðin. Viðbótargeislameðferð er gefin ef um æxli af hárri gráðu er að ræða. Krabbameinslyf eru einungis gefin sem líknandi meðferð.

 

V-11     Hlutabrottnám á nýra vegna nýrna­frumukrabbameins á Íslandi

Elín Maríusdóttir5, Sverrir Harðarson2,5, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1,5, Valur Þór Marteinsson4, Guðmundur Vikar Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,5

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði og 3skurðsvið Landspítala, 4Sjúkrahúsinu á Akureyri, 5læknadeild Háskóla Íslands

elm1@hi.is

InngangurHlutabrottnám hefur löngum verið beitt við nýrnafrumukrabbamein í stöku nýra eða þegar nýrnastarfsemi er skert. Í vaxandi mæli hefur aðgerð­in verið framkvæmd hjá sjúklingum með lítil æxli og sýna rannsóknir að sjúklingum farnast betur en eftir hefðbundið brottnám á öllu nýranu. Tilgangur þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna ábendingar og árangur hlutabrottnáms hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tekur til sjúkl­inga sem gengust undir hlutabrottnám vegna nýrnafrumukrabbameins árin 1991-2005 á Íslandi. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru tilfellin TNM-stiguð, skráðir fylgikvillar og reiknaðar lífs­horfur (Kaplan-Meier). Miðgildi eftirfylgdar var 94 mán.

Niðurstöður: Alls voru gerð 25 hlutabrottnám (meðalaldur 60 ár, bil 33-80 ár, 20 karlar), eða 6% af 421 aðgerð á nýra við nýrnafrumukrabbameini á tímabilinu. Í 18 (72%) tilfella greindust sjúklingar fyrir tilviljun. Algengasta ábendingin fyrir aðgerð var lítið æxli (<4 cm) hjá 40% sjúklinganna, 28% höfðu þekkta nýrnabilun og 24% stakt nýra. Kreatinín fyrir og eftir aðgerð var 94 mm/L (bil 65-196) og 110 mm/L (bil 64-311) að meðaltali. Meðalstærð æxlanna var 3,6 cm og 84% sjúklinga voru á stigi I eða II. Aðgerðin tók 140 mín. að meðaltali og var meðalblæðing í aðgerð 926 ml (bil 0,1-5,4 L). Allir lifðu aðgerðina en 4 (16%) fengu fylgikvilla eftir aðgerð; blæðingu, þvagleka, ígerð í nýra, garnastíflu eða lungnabólgu. Miðgildi legutíma var 8 d. Tveir sjúklingar (8%) fengu staðbunda endurkomu og fóru í brottnám á nýra. Eins og fimm ára lífshorfur (sjúkdóma sértækar) voru 100% og 91%.

Ályktanir: Hlutfall sjúklinga sem fóru í hlutabrott­nám (6%) er heldur lægra en erlendis en fer vaxandi. Árangur af hlutabrottnámi er góður hér á landi, horfur góðar og staðbundin endurkoma krabbameins fátíð. Hafa verður þó í huga að flestir sjúklinganna höfðu lítil æxli á lágum stigum og því um valinn sjúklingahóp að ræða.

 

V-12     Stórdýramódel til rannsókna á umhverfisviðbögðum nýrra ígræða

Halldór Jónsson jr.1,2, Elín Laxdal1,2, Sigurbergur Kára­son1,2, Atli Dagbjartsson1, Bergþóra Eiríksdóttir3, Eggert Gunnarsson1, Gissur Örlygsson4, Jóhannes Gíslason5, Jón M. Einarsson5, Ng Chuen How5, Jóhannes Björnsson1

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala,3ArcticLAS, 4Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 5Genís ehf.

halldor@landspitali.is

Við þróun ígræða til lækninga þarf að skapa kringumstæður sem líkjast fyrirhuguðum notkunarstað. Nýsköpunarfyrirtækið Genís hefur unnið að þróun efnis til að leiða og örva beinvöxt. Fyrirtækið hefur unnið í nokkur ár með mismunandi samsetningar kítínafleiddra fjöl- og fásykra. Ákveðið var að nota kindur þar sem ætla má að þar sé álag á bein með svipuðum hætti og í manni. Markmiðið með stórdýramódeli var að þróa aðferð til að bera saman ígræði frá Genís og Chronos (tricalcium-phosphate), sem er algengt í klínískum aðgerðum á fólki til að leiða beinvöxt í beinskörðum (osteoconductive).

Rúmlega vetur gamlar gimbrar og ær voru svæfðar með Diprivan (Propofol) í hálsæð og barkaþræðingu og tengdar við svæfingavél. Í hægri hliðarlegu var efri hluti vinstri sköflungs sótthreinsaður og dekkaður með aðgerðarlökum. Gerð var frílagning á innri og efri hluta sköflungs og boruð tvö 8 mm göt rétt neðan liðbils. Bæði göt voru tæmd af beinmerg; efra skilið eftir tómt en neðra fyllt með tilraunaefni (skurðlæknum óþekkt) eða Chronos. Skurði var lokað með saumi í beinhimnu og húð og aðgerðarsvæði staðdeyft (Markain 0,5%). Gefin voru sýkla- og verkjalyf. Eftir 6 og 12 vikur voru kindurnar svæfðar, leggirnir settir í formalín og skannaðir í micro-TS tæki. Tvær kindur féllu út vegna fótbrots gegnum neðra borgatið. Sneiðmyndir sýndu afgerandi mun á beinvexti milli viðmiðunar- og efnisgats. Þá kom einnig fram afgerandi þróun í viðbrögðum á mismunandi tíma. Niðurstöðurnar staðfesta fyrri þekkingu á virkni efnanna í tilraunum sem framkvæmdar voru í Ísrael og Arizona í Bandaríkjunum.

Stórdýramódel með kindum og kortlagning með micro-TS tæki eins og að ofan er lýst er nýlunda á Íslandi. Aðferðin hentar vel til rannsókna á virkni nýrra ígræða og skapar nýja möguleika í íslenskum rannsóknum á þessu sviði.

 

V-13     Smádýramódel til magngreiningar á beinvef

Halldór Jónsson jr.1,2, Elín Laxdal1,2, Bergþóra Eiríksdóttir3, Atli Dagbjartsson1, Eggert Gunnarsson1, Gissur Örlygsson4, Jóhannes Gíslason5, Jón M. Einarsson5, Ng Chuen How5, Jóhannes Björnsson1

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala,3ArcticLAS, 4Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 5Genís ehf.

halldor@landspitali.is

Ferli við þróun nýrra ígræða er mjög flókið. Nýsköpunarfyrirtækið Genís hefur unnið í nokkur ár með mismunandi samsetningar kítínafleiddra fjöl- og fásykra sem ígræðsluefni til að örva virkni beinvefs. Frumniðurstöður í kindum gefa vísbendingu um mjög góða virkni samanborið við efnið Chronos (tricalcium-phosphate), sem er mikið notað í klínískum aðgerðum á fólki til að fylla upp í beinskörð og leiða beinvöxt (osteoconductive). Markmiðið með smádýra­módeli var að athuga hvort hægt væri að hraða bein­myndunarferlinu með mismunandi efniseiginleikum.

Framkvæmdar voru tvær tilraunir; fyrri til að þróa aðferðir og síðari til að mæla eiginleika mismunandi samsetninga. Notaðar voru fullorðnar Sprague Dawley karlrottur og borað 4 mm gat („critical size bone defect“; holrými sem ekki grær sjálfkrafa) í vinstra kjálkabeinið, sem er aðgengilegt og án hættu að skemma yfirliggjandi vefi eða skerða burðarmátt beinsins. Í fyrri tilrauninni var rottum skipt í 4 hópa og voru 7 dýr í hverjum hópi; 4 sem fengu ígræði og 3 með tómt gat. Tekin voru sýni samkvæmt fyrirfram skilgreindu tímaplani; á degi 7, 10, 14 og 21. Micro-TS tækni var notuð til að magngreina rúmmál nýs beinvefs sem myndast hafði á hverjum tímapunkti. Þannig fékkst fram kúrva sem lýsti ferli beinmyndunarinnar yfir tímabilið.

Þessar niðurstöður voru notaðar til að ákvarða lengd líffasa (7 d.) í seinni tilrauninni, þar sem 4 mismunandi samsetningar voru prófaðar í sams konar tilraun. Beinvefsaukningin tengdist á afgerandi hátt samsetningu ígræðisins. Fylgst var náið með líðan dýranna í báðum tilraununum og öll heilsu­einkenni skráð samkvæmt gæðakerfi ArcticLAS. TS-greiningin reyndist öflug til magngreiningar á nýmyndun beins og var hægt að sannreyna beinmyndun með hefðbundinni vefjarannsókn.

Magngreining í smádýramódeli með rottum, eins og að ofan er lýst, til rannsókna á nýjum ígræðum er nýlunda á Íslandi.

 

V-14     IceSG – meðferðarteymi sarkmeina á Íslandi

Bjarni A Agnarsson8, Eiríkur Jónsson6, Halldór Jónsson jr.3, Halldóra Kristín Þórarinsdóttir1, Helgi Hafsteinn Helgason4, Helgi Sigurðsson4, Hildur Einarsdóttir5, Hlynur N. Grímsson4, Ingibjörg Guðmundsdóttir7, Jón R. Kristinsson1, Kristrún R. Benediktsdóttir8, Margrét Snorradóttir7, Ólafur Gísli Jónsson1, Óskar Þór Jóhannsson4, Þráinn Rósmundsson2

1Barnalyflækningadeild, 2barnaskurðlækningadeild, 3bæklunar­skurðlækningadeild, 4krabbameinslækningadeild, 5myndgreiningar­deild og 6þvagfæraskurðdeild Landspítala, 7frumurannsóknardeild í Glæsibæ, 8rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala

halldor@landspitali.is

Sarkmein eru um 1% allra krabbameina. Samkvæmt tveimur íslenskum rannsóknum á nýgengi sarkmeina, mjúkvefja- (1955-88) og beinasarkmeinum (1955-74), var tíðni svipuð og í nágrannalöndunum. Sarkmein voru algengari í mjúkvefjum (1,8/100.000) en beini (0,85/100.000). Í nýrri rannókn 2004 fyrir tímabilið 1989–2003 var veruleg aukning á mjúkvefjaæxlum hjá körlum (1,8 1955-88 í 3,0 1989-02), en tíðni beinsarkmeina var óbreytt.

Þann 17.10.2007 var formlega stofnaður vinnuhópur fyrir greiningu og meðferð sarkmeina á Íslandi sem gefið var nafnið IceSG, í samræmi við SSG í Lundi, Svíþjóð. Eftirfarandi verkferli er viðhaft á Landspítala þegar beiðni berst: Einstaklingur er boðaður í skoðun og mat á endurkomudeild Landspítala í Fossvogi. Þar eru fyrri rannsóknir endurskoðaðar og nýjar pantaðar. Rannsóknir eru: a) Segulómun af mjúkvefjum og rtg + segulómun af beinum. b) Fínnálar-, grófnálar eða vefjasýni, allt eftir eðli æxlis á mynd. c) TS af lungum, beinaskann. - Að fengum niðurstöðum frumu- og/eða vefjarannsókna gera skurð- og krabbameinslæknar stigun og taka ákvörðun um meðferð (sjá einnig heimasíðu Landspítala (ytra net) – Sérþjónusta/ Sarkmein).

Skráning allra tilfella er í Excel-grunn, en afgreiðsla beiðna, meðferð, eftirlit og rannsóknarniðurstöður í Sögukerfið og Röntgenkerfið. Að lokum eru öll staðfest sarkmeinstilfelli skráð í sérstakan gagnagrunn (IceSG Registry) á þar til gert eyðublað sem allir meðlimir hafa aðgang að og fylla út. IceSG gagnagrunnsblöð eru send til sameiginlegs gagna­grunns SSG í Lundi. Samræmingarfundir eru mánaðarlega og þess utan tölvupóstur. Fjöldi aðsendra beiðna jókst frá 40/ári í 80 árið 2009; þar af voru 13 sarkmein sem er í samræmi við það sem búast má við á Íslandi.

Með stofnun IceSG hefur á 2 árum tekist að ná utan um nánast öll útlimasarkmein sem áður voru á sveimi vítt og breitt á Íslandi.

 

V-15     Menntun, starfsvettvangur og framtíðarhorfur á vinnumarkaði íslenskra skurðlækna

Tómas Guðbjartsson1,3, Halla Viðarsdóttir1, Sveinn Magnússon2

1Skurðlækningasvið Landspítala, 2heilbrigðisráðuneytinu, 3lækna­deild Háskóla Íslands

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Hér á landi hefur vantað upplýsingar um menntun íslenskra skurðlækna, starfsvettvang og framtíðarhorfur á vinnumarkaði. Markmið rannsókn­arinnar var að bæta út því.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra íslenskra skurðlækna sem útskrifaðir eru frá læknadeild HÍ, í öllum undirsérgreinum skurð­lækninga, og búsettir eru á Íslandi eða erlendis. Safnað var upplýsingum um sérgrein, menntunarland og prófgráður, en einnig lagt mat á framboð og eftirspurn á vinnumarkaði fram til ársins 2025. Beitt var nálgunum, meðal annars að þörf fyrir þjónustu skurðlækna myndi haldast óbreytt miðað við íbúafjölda.

Niðurstöður: Af 237 skurðlæknum með sérfræði­réttindi í ágúst 2008 voru tveir af hverjum þremur búsettir á Íslandi og 36 komnir á eftirlaun. Rúmlega 2/3 höfðu stundað sérnám í Svíþjóð og flestir störfuðu innan bæklunar (26,9%) og almennra skurð­lækninga (23,9%). Meðalaldur skurðlækna á Íslandi var 52,1 ár og 44 ár erlendis. Hlutfall kvenna var 8% á Íslandi en 17,4% á meðal 36 lækna í sérnámi erlendis (p<0, 01). Alls höfðu 19,7% lokið doktors­prófi. Útreikningar benda til að árið 2025 muni framboð og eftirspurn eftir skurðlæknum á Íslandi haldast í hendur, en framboð (n=248) verði mun meira en eftirspurn (n=156) ef taldir eru með íslenskir skurðlæknar erlendis.

Ályktun: Þriðjungur íslenskra skurðlækna er búsettur erlendis. Hlutfall kvenna er lágt en fer vaxandi. Næsta áratug munu margir skurðlæknar á Íslandi fara á eftirlaun og endurnýjun því fyrirsjáanleg. Ljóst er að ekki munu allir skurðlæknar geta fengið vinnu á Íslandi. Rétt er þó að hafa í huga að óvissuþættir eru margir í þessum útreikningum og ná ekki til einstakra undirsérgreina.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica