12. ráðstefnan um rannsóknin í líf- og heilbrigðisvísindum í HÍ 4.-5. janúar

Ágrip veggspjalda

V 01 Bein einangrun erfðabreytilegra raða úr erfðamengjum með mispörunarskimun á samsvörunum erfðamengja

Hans G. Þormar1,3, Bjarki Guðmundsson2, Guðmundur H. Gunnarsson1,2, Jón J. Jónsson1,3

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa, læknadeild Háskóla Íslands, 2Lífeind ehf., 3erfða- og sameindalæknisfræðideild rannsóknastofnunar Landspítala

hans@hi.is

Inngangur: Í erfðamengi mannsins eru þekktar yfir 650 þúsund örtunglaraðir (microsatellites), þar af rúmlega 100 þúsund erfða­breytilegar. Við kynnum hér aðferð til að einangra á einfaldan hátt þúsundir erfðabreytilegra raða úr erfðamengjum með mispörunarskimun á samsvörunum erfðamengja.

Efniviður og aðferðir: Magnaðar voru upp úr erfðamengi tíu einstaklinga hundruðir þúsunda 3? hjáraða Alu endurtaka. Þessum flóknu PCR afurðum var síðan blandað saman, þær bræddar upp og endurblendaðar. Eftir endurblendingu voru aðhæfar til sérhæfðrar mögnunar límdir á enda PCR afurðanna og sýnið sett í tvívíðan lögunarháðan rafdrátt (2D-CDE) sem aðskilur á skilvirkan hátt milli réttparaðs og misparaðs DNA í flóknum erfðaefnissýnum. Sá hluti gelsins sem innihélt misparaðar DNA raðir var skorinn út og DNA raðir magnaðar upp á sértækan hátt, klónaðar og raðgreindar. Arfgerðargreining var gerð á upphaflegu tíu erfðaefnissýnunum.

Niðurstöður og ályktanir: 70% raða sem einangraðar voru reyndust vera erfðabreytilegar. Þessi aðferðafræði gerir okkur kleift að reyna einangrun erfðabreytilegra raða úr öðrum lífverum, hvort sem erfðamengi þeirra eru raðgreind eða ekki. Slík söfn eru mikilvæg í margvíslegum líffræðirannsóknum, til dæmis við gerð erfðakorta.

V 02 Epigenetísk óvirkjun BRCA1 gens í brjóstakrabbameini

Valgerður Birgisdóttir1,2, Sigríður Klara Böðvarsdóttir1,2, Hólmfríður Hilm­arsdóttir1, Guðríður Ólafsdóttir3, Jón Gunnlaugur Jónasson2,3,4, Jórunn Erla Eyfjörð1,2

1Rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði Krabbameinsfélagi Íslands, 2læknadeild HÍ, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 4meinafræðideild Landspítala

jorunn@krabb.is

Inngangur: Ættlæg áhætta á brjóstakrabbameini hefur verið tengd kímlínu stökkbreytingum í æxlisbæligenunum BRCA1 og BRCA2. Stökkbreytingar í BRCA hafa ekki greinst í stökum brjóstakrabbameinum þó svo að algengt sé að finna tap/ójafnvægi (AI) á BRCA genasvæðum í æxlunum. Rannsóknir sýna að metýlering á BRCA1 stýrilsvæði getur leitt til óvirkjunar BRCA1 í stökum brjóstakrabbameinum. Markmið rannsóknarinnar: 1) Að rannsaka stök brjóstakrabbameinssýni með tilliti til metýleringar á BRCA1 stýrilsvæði og AI á BRCA genasvæðum. 2) Að rannsaka BRCA1 metýleringu æxli með tilliti til fjölda eintaka BRCA1 gens, tjáningu BRCA1 próteins og tíðni p53 stökkbreytinga. 3) Kanna möguleg tengsl milli þessara þátta og einnig hugsanleg tengsl við tap/ekki tap á hormónaviðtökum.

Efniviður og aðferðir: Sýni úr 143 stökum brjóstakrabbameinsæxlum, metýleringarsérhæft PCR, mögnun örraðasvæða og raf­dráttur, FISH (fluorescence in situ hybridization), litun með MS110 mótefni, CDGE (const. denat. gel electr.) og raðgreining.

Niðurstöður: BRCA1 met. greindist í ~9% æxlissýna og AI á BRCA1 í 37,4% og á BRCA2 í 31,1% sýna. Sterk tengsl fundust á milli AI á BRCA1 og BRCA2. Átta af 13 metýleruðum æxlum sýndu AI á BRCA1. Af þessum átta sýndu sex annaðhvort úrfell­ingu á BRCA1, stóra úrfellingu á litningi 17 eða mikinn litninga­óstöðugleika. Tíu af 13 met. sýnum höfðu minnkaða BRCA1 próteintjáningu og 38% metýleraðra æxla báru p53 stökkbr. BRCA1 met. sýndi marktæk tengsl við tap á estrogenviðtaka og AI á BRCA1 sýndi marktæk tengsl við tap á ER og PGR hormónaviðtökum.

Ályktanir: Í ljósi þess að sýnt hefur verið fram á AI á BRCA1, tap á hormónaviðtökum, tap á BRCA1 próteintjáningu og háa tíðni p53 stökkbreytinga í æxlum BRCA1 arfbera benda niðurstöður okkar eindregið til að svipgerð æxla með BRCA1 metýleringu sé mjög lík svipgerð æxla með BRCA1 stökkbreytingu.

V 03 Áhrif lækkaðs súrefnisþrýstings á ræktun og litn­inga­gerð eðlilegs og illkynja brjóstvefs

Hilmar Viðarsson1, Margrét Steinarsdóttir2, Jón Gunnlaugur Jónasson3,4, Hildur Júlíusdóttir2, Halla Hauksdóttir2, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Kristín Halldórsdóttir1, Helga M. Ögmundsdóttir1,5

1Rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði Krabbameinsfélagi Íslands, 2litningarannsóknadeild rannsóknastofu í meinafræði, 3rannsóknastofa í meina­fræði Landspítala, 4Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 5lækna­deild HÍ

margst@landspitali.is

Inngangur: Súrefnisþurrð verður í föstum æxlum þegar þau stækka. Því hefur verið haldið fram að krabbameinsfrumur, sérstaklega p53 stökkbreyttar, þoli betur súrefnisskort en eðlilegar frumur. Í fyrri rannsóknum okkar sést að frumur með mjög mikið litninga­brengl greinast oftar í beinum heimtum en í ræktunum. Hugsanlegt er að ræktunarskilyrðin henti ekki þessum afbrigði­legu frumum. Mark­mið rannsóknarinnar var að athuga hvort auka mætti vöxt krabba­meinsfrumna með ræktun við lágan ildis­þrýsting og fjölga þannig skiptingum frumna með mjög afbrigðilega litninga.

Efniviður og aðferðir: Pöruð sýni frá brjóstakrabbameinum og eðlilegum brjóstvef úr sama brjósti voru ræktuð við eðlileg loftskilyrði (20%), 5% súrefnisþrýsting og algjöra súrefnisþurrð (0%). Fjöldi frumna í skiptingu var metinn, gerð litningagreining og leitað að p53 stökkbreytingum.

Niðurstöður: Krabbamein og eðlilegur vefur lifðu af súrefnisleysið. Engin merki sáust um betri vöxt krabbameinsfrumna við lægri ildisþrýsting. Eðlilegar frumur svöruðu súrefnisskorti með aukinni tjáningu á p53 og stöðvun í G1 fasa. Í 12 sýnispörum ræktuðum við 20% og 5% súrefnisþrýsting greindist afbrigðileg litningagerð úr 6, en í 10 af 20 pörum sem ræktuð voru við 20% og 0% súrefnisþrýsting. Litningabrengl fannst við lækkaðan ildisþrýsting sem ekki var við eðlileg súrefnisskilyrði og öfugt. TP53 stökkbreyting fannst í 7/32 (22%) sýnum. Af þeim fannst litningabrengl í fjórum, þar af tvö við lægri ildisþrýsting.

Ályktanir: Lækkaður ildisþrýstingur örvaði ekki vöxt krabbameinsfrumna með afbrigðilega litningagerð umfram eðlilegar frumur. Frumur með p53 stökkbreytingu virtust vaxa heldur betur og sýna meiri litningabrengl við lágan ildisþrýsting.

V 04 Rannsókn á genatjáningu í BRCA2 999del5 frumulínum með DNA örflögutækni

Ólafur Andri Stefánsson1, 2, 3, Hlynur Sigurgíslason2, Sigríður Valgeirsdóttir2, Jórunn Erla Eyfjörð1,3

1Krabbameinsfélag Íslands, 2NimbleGen Systems, 3læknadeild HÍ

jorunn@krabb.is

Inngangur: Arfberar stökkbreytinga í BRCA2 geni eru í aukinni áhættu á að fá krabbamein af þekjuvefsuppruna í brjóst, blöðruhálskirtil og fleira. Sýnt hefur verið fram á mun á genatjáningu í æxlisvef úr arfberum BRCA breytinga borið saman við æxli án slíkra breytinga. Hér eru frumulínur með og án ákveðinnar stökkbreytingar í BRCA2 geni notaðar til rannsókna á áhrifum á genatjáningu allra þekktra gena mannsins.

Efniviður og aðferðir: Brjóstaþekjufrumulínur: A176 (með BRCA2 999del5) og Th69 (án BRCA breytinga). RNA var ein­angr­að úr frumulínum, öfugumritað í cDNA sem síðan var um­ritað í cRNA og biotinmerkt. Loks var cRNA þáttaparað við Human Whole Genome örflögur frá Nimblegen Systems. Til að bera saman tjáningarmynstur frumulínanna var metinn ákvörðunarstuðull (R2) með línulegu aðhvarfi og gerður tölulegur samanburður á tjáningarmynstri sýnanna.

Niðurstöður: Samanburður á tjáningarmynstri A176 og Th69 með línulegu aðhvarfi gaf til kynna mun milli þeirra (R2=0,9). Að meðaltali voru yfir tvöfalt fleiri gen ólíkt tjáð milli frumulínanna tveggja miðað við samanburð milli mismunandi sáninga sömu frumulínu. Um 4000 gen sýndu meira en tvöfaldan mun á tjáningu milli frumulína, um 300 gen sýndu meira en fjórfaldan mun og um 10 gen sýndu yfir áttfaldan mun á genatjáningu.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til ólíkrar genatjáningar í frumu­línunum A176 og Th69 sem mögulega má rekja til BRCA2 stökkbreytingar. Þau gen sem sýna ólíka tjáningu milli frumulína má nota til áframhaldandi samanburðar á genatjáningu, til dæmis með nýjum DNA örflögum með völdum þreifurum.

V 05 Breytingar á litningi 3 og framvinda æxlisvaxtar í nag­dýrum og mönnum

Þórgunnur Eyfjörð Pétursdóttir1, Unnur Þorsteinsdóttir3, Jón Gunnlaugur Jónasson1,4, Páll Helgi Möller2, Chen Huiping5, Jóhannes Björnsson1, Val­garður Egilsson1, Stefan Imreh6, Sigurður Ingvarsson5

1Rannsóknastofa í meinafræði og 2skurðdeild Landspítala, 3Íslensk erfða­grein­ing, 4Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 5Tilraunastöð Há­skóla Ís­lands í meinafræði að Keldum, 6Microbiology and Tumor Biology Center (MTC), Karolinska Institutet, Stokkhólmi

thorgep@landspitali.is

Inngangur: Litningur 3 er afbrigðilegur í æxlum. Á Karolinska Institutet var þróað próf til að finna litningasvæði sem innihalda æxlisbæligen. Prófið byggir á því að þegar músa/manna örfrumu­blendingar eru látnir vaxa í ónæmisbældum músum, þá þurfa þessar frumur að losa sig við ákveðin litningasvæði áður en þær geta myndað æxli. Með notkun þessa prófs hefur fundist svæði á 3p sem kallast C3CER1. Þetta svæði nær yfir 1.4 Mb á 3p21.3, þar eru 19 virk gen. Samskonar svæði eru felld út í tveimur mismunandi æxlisgerðum, músa fíbrósarkmeinum og manna nýrnakrabba­meini. Þetta bendir til þess að mikilvægi C3CER1 svæðisins sé hvorki háð tegund né vefjagerð.

Efniviður og aðferðir: Við greindum tap á arfblendni í 576 manna æxlum frá 10 mismunandi líffærum. Við bárum saman úrfellingartíðnina á C3CER1 við úrfellingartíðni tveggja annarra svæða á 3p í sömu æxlum, FHIT/FRA3B svæðið á 3p14.2 og VHL svæðið á 3p25.3.

Niðurstöður: Yfir heildina var um að ræða 83% úrfellingartíðni á C3CER1, helmingur þeirra æxla (47%) greindust með tap á öllum erfðamörkum sem bendir til þess að um tiltölulega stóra úrfellingu sé að ræða. Hinn helmingurinn (53%) var með ósamfelldar úrfellingar sem er merki um brotpunkta eða minni úrfellingar með bili á milli. Þegar litið var á tíðni úrfellinga með tilliti til æxlisgerðar kom í ljós að hlutfall æxla með C3CER1 úrfellingar var hátt í öllum líffærum, 70-94%, að undanskildum sarkmeinum, 40%. Við fundum úrfellingar á VHL svæðinu í 73% æxla og á FHIT svæðinu 43%.

Ályktanir: C3CER1 úrfellingar eru hvorki tegunda né vefja sértækar. Hæsta tíðni úrfellinga er á C3CER1, ekki virðist vera um að ræða brot á litningnum á FRA3B brothætta svæðinu sem leiðir til þess að mestur hluti 3p týnist heldur eru litlar ósamfelldar úrfellingar meðal annars á C3CER1 mun algengari.

V 06 Rannsókn á umhverfu á litningi 8p leiddi í ljós tengsl við felmtursröskun (panic disorder) á Íslandi

Sóley Björnsdóttir1, Catalina López-Correa1, Sigurborg Matthíasdóttir1, Högni Óskarsson2, Jón G. Stefánsson3, Halldór Kolbeinsson3, Eiríkur Líndal3, Margrét Steinarsdóttir3, Hreinn Stefánsson1, Jóhannes Björnsson3, Natasa Desnica1, Jesus Sainz1, Adam Baker1, Einar Guðfinnsson1, Mike Frigge1, Jeffrey Gulcher1, Augustine Kong1, Þorgeir Þorgeirsson1, Kári Stefánsson1

1Íslensk erfðagreining, 2Þerapeia hf., 3Landspítali Hring­braut

soley.bjornsdottir@decode.is

Inngangur: Umhverfur, bæði ættgengar og einstök tilvik, breyta byggingu litninga. Niðurstöður rannsókna sýna að þær geta verið sjúkdómsvaldandi með áhrifum á gen í og við umhverfuna, eða með því að valda öðrum byggingarbreytingum í afkvæmum arfbera. Umhverfuna sem hér um ræðir fundu Karl W. Broman og James L. Weber fyrir fjórum árum og er þekkt að hún geti vald­ið ýmsum byggingarbreytingum (Am J Hum Genet. Giglio, et al. 2001 og 2002).

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn voru bacterial arti­­fi­cial chromosomes, BAC-ar, notaðir til að kortleggja um­­hverfu­­svæð­ið með fluorescent in situ hybridisation, FISH, á litningum. Brotsvæðin voru staðsett nánar og BAC-a pör inn­­an umhverfunnar notuð til að arfgerðagreina 244 sýni úr ein­staklingum með tilliti til umhverfunnar á 8p.

Niðurstöður: Tíðni umhverfunnar reyndist tölfræðilega mark­tækt hærri í felmtursröskunarhópnum en í viðmiðunarhópnum (áhættu­hlutfall=1,5). Með samanburði á FISH gögnum og arf­gerð­um erfðamarka á svæðinu fannst sterk fylgni milli erfða­marka og FISH-litningagerðar. Með þessum erfðamörkum var hægt að meta litningagerð án þess að gera FISH og þannig var fylgni á milli umhverfunnar og felmtursröskunar staðfest í stærra þýði (p=5X10-4). Einnig kom í ljós að sú basaröð sem gefin er upp í gagnabanka University of California í Santa Cruz, UCSC, júlí 2003, build 34, er sú sem er sjaldgæfari á Íslandi.

Ályktanir: Ekki er ljóst hvort áhættuþátturinn er sjálf bygg­ing­arbreytingin eða breytileiki í geni á eða í námunda við um­­hverfusvæðið sem er um 5 Mb að stærð. Niðurstöður okkar styðja þá hugmynd að breytileiki í litningagerð geti átt hlut í myndun flókinna erfðasjúkdóma.

V 07 Afbrigðileg geislaskaut og frumuskautun í myndun brjóstakrabbameins

Jenný Björk Þorsteinsdóttir1,2, Þórarinn Guðjónsson1,2, Valgarður Sig­urðs­­­son1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson3, Jens Kjartansson4, Helga M. Ög­­mundsdóttir1,2

1Rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði Krabbameinsfélagi Íslands, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknastofa í meinafræði Landspítala, 4St. Jósefsspítali Hafn­ar­firði

jenny@krabb.is

Inngangur: Í eðlilegri skautaðri þekjufrumu er eitt geislaskaut fyrir ofan kjarnann, fjærst grunnhimnunni. Geislaskautin taka þátt í myndun skiptispólu og sjá um eðlileg lok frumuskiptingar. Einnig eru vísbendingar um að geislaskaut séu mikilvæg í viðhaldi á eðlilegri skautun frumunnar. Eitt augljósasta sérkenni illkynja frumuvaxtar er brenglun á réttri vefjabyggingu og skautun. Lýst hefur verið afbrigðum í fjölda og útliti geislaskauta í krabba­meinum og eru vísbendingar um að slíkar breytingar geti orðið mjög snemma í myndun krabbameina. Afbrigði í geislaskautum eru talin hugsanlegur undanfari litningabreytinga.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru annars vegar frumulínur úr brjóstvef: MSF10A (úr góðkynja brjóstvef), nokkrar línur úr eigin safni búnar til með innsetningu á E6/E7 genum úr papillomaveiru í frumur úr eðlilegri og afbrigðilegri brjóstaþekju. Hins vegar voru notaðar frumur einangraðar beint úr brjóstaminnkunaraðgerðum. Frumurnar voru skoðaðar eftir mismargar uppskiptingar, flúrlitaðar með mótefnum gegn ?-tubulini og pericentrini og skoðaðar í confocal smásjá. Starfræn frumuskautun var metin með rafviðámsmælingu.

Niðurstöður: Frumniðurstöður sýna að afbrigði í geislaskautum koma fram við ræktun á brjóstvef og fjölgar þeim með auknum fjölda uppskiptinga. Frumulínan MCF10A, talin eðlileg en eftir áralanga ræktun má sjá aukinn fjölda geislaskauta. Af frumulínum úr eigin safni sýndu þær sem bera stökkbreytt BRCA2 meiri afbrigði en aðrar og þar sáust gallaðar skiptispólur. Starfræn frumu­skautun metin með rafviðnámi var lítil í frumulínunum. Unnið er að frekari tilraunum, sérstaklega á ferskum brjósta­þekju­frumum.

Ályktanir: Geislaskautum fjölgaði við ræktun í brjóstaþekju. Afbrigði voru sérlega áberandi í frumulínum sem bera stökkbreytt BRCA2 og tengdust þar gölluðum skiptispólum.

V 08 Smíði sprouty genaferja til að kanna hlutverk sprouty stjórnpróteina í týrósín kínasa örvuðum æxlisfrumum

Silja Dögg Andradóttir1, Magnús Karl Magnússon2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofa í blóðmeinafræði og erfða- og sam­einda­læknisfræði Landspítala

magnuskm@landspitali.is

Inngangur: Týrósín kínasar eru lykilvaxtarstjórnarprótein og hafa örvandi stökkbreytingar í þessari genafjölskyldu verið tengd­ar fjölmörgum æxlistegundum. Við höfum klónað og lýst eigin­leikum nýs krabbameinsgens af þessum flokki, Rabaptin5-PDGFßR, sem er samrunagen þar sem PDGFßR týrósín kínasa-hneppi hins nýja samrunapróteins er viðvarandi örvað. Genið var einangrað úr sjúklingi með langvinnt mergfrumuhvítblæði en skyldum samrunagenum af flokki týrósín kínasa hefur verið lýst í mörgum undirflokkum mergfrumuhvítblæða. Nýlega hefur verið lýst nýrri genafjölskyldu sem kallast sprouty og hafa þau hlutverki að gegna í því að bæla boð frá týrósín kínösum. Fjögur afbrigði eru þekkt í mönnum (sprouty 1-4) en ekkert er vitað um hlutverk þessara gena við að bæla boð frá örvuðum týrósín kínösum í æxlisfrumum. Við höfum lokið smíði genaferja til að rannsaka hugsanlegt stjórnunarhlutverk sprouty í vaxtarstjórnun PDGFßR örvaðra æxlisfrumna og þannig fá beinar upplýsingar um hvort þessi genafjölskylda hafi hlutverki að gegna í þeim flokki æxla sem einkennast af stökkbreyttum týrósín kínösum.

Aðferðir og niðurstöður: Sprouty 1-3 genin eru öll í einni útröð og var því hægt að magna genin beint upp úr genómísku manna-DNA. Öll genin voru mögnuð upp framan við stopp-kóða genanna til að hægt væri að klóna þær inn í tjáningargenaferju sem inniheldur 3´endamerkt Myc og His epítóp. PCR afurðirnar voru í fyrsta skrefi klónaðar TA-klónunar-genaferju. Sprouty genin þrjú í genaferjunum voru öll raðgreind til að tryggja að engar stökkbreytingar hefðu átt sér stað. Lokaskrefið í smíði ferja var síðan flutningur genanna úr TA-klónunar ferjunum yfir í tjáningarferju, pcDNA3.1-3´His-myc-tag. Þessar sprouty-genatjáningarferjur eru nú tilbúnar til notkunar í frumulínum. Nú standa yfir sýkingar með genatjáningarferjunum í frumulínuna Ba/F3, sem innihalda Rabaptin-5-PDGFßR samrunagenið til að kanna áhrif sprouty fjölskyldunnar á týrósín kínasa æxlisgen.

Ályktanir: Smíðaðar hafa verið genaferjur sem innihalda sprouty 1-3 og því verið sköpuð forsenda til að kanna hlutverk þessarar genafjölskyldu í stjórnun á æxlisgenum af fjölskyldu týrósín kínasa.

V 09 Varðveisla Mitf umritunarþáttarins veitir upplýsingar um starfsemi

Jón Hallsteinn Hallsson, Alexander Schepsky, Eiríkur Steingrímsson

Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ

jonhal@hi.is

Inngangur: Mitf umritunarþátturinn er meðlimur í MYC fjölskyldu basic-Helix-Loop-Helix Leucine zipper umritunarþátta. Yfir 25 stökkbreytingar hafa fundist í Mitf geni músarinnar auk fjölmargra stökkbreytinga í Mitf geni annarra lífvera. Í mönnum eru þekktar að minnsta kosti átta stökkbreytingar og valda þær Tietz og Waardenburg IIA heilkennum í mönnum. Mitf er einnig tjáð í nær öllum melanóma æxlum sem skoðuð hafa verið. Mitf er því mikilvægt líkan fyrir rannsóknir á mannasjúkdómum auk þess að vera áhugavert líkan fyrir grunnrannsóknir á starfsemi umritunarþátta.

Efniviður og aðferðir: Í þessu verkefni berum við saman yfir 40 Mitf gena og afurðir þeirra í mismunandi lífverum, frá þráðormum til spendýra. Notast er við aðferðir lífupplýsingafræðinnar til að bera raðirnar saman, meta skyldleika og greina varðveitt hneppi í próteininu. Þessar upplýsingar mætti einnig nýta til þess að bera kennsl á aðrar mikilvægar raðir, svo sem áður óþekktar útraðir og stjórnraðir í stýrisvæðum gensins.

Niðurstöður og ályktanir: Mitf genið er mjög vel varðveitt meðal spendýra. Sem dæmi má nefna að amínósýruröð próteinsins er því sem næst fullkomlega varðveitt. Meðal fjarskyldari lífvera minnkar varðveislan og ákveðin hneppi standa upp úr sem mjög vel varðveitt, þar með talið DNA bindihneppi próteinsins og tvenndarmyndunarhneppi. Auk þessara þekktu varðveittu svæða eru þrjár áður óþekktar raðir innan Mitf próteinsins sem eru mjög vel varðveittar milli fjarskyldra dýrategunda. Þessar raðir hafa enn ekki verið tengdar við ákveðið hlutverk í próteininu en gætu hugsanlega skýrt margt í hegðun Mitf próteinsins.

V 10 Hlutverk SUMO próteins í starfsemi Mitf umritunar­þátt­arins

Bryndís Krogh Gísladóttir1, Alexander Schepsky1, Jón Hallsteinn Hallsson1, Gunnar J. Gunnarsson1, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ

bryndgi@hi.is

Inngangur: Mitf próteinið er meðlimur MYC stórfjölskyldunnar og tilheyrir umritunarþáttum af bHLHZip fjölskyldu. Rannsóknir á stjórnun á virkni Mitf umritunarþáttarins hafa leitt í ljós að fosfórýlering gegnir mikilvægu hlutverki í að auka umritunarvirkni og minnka stöðugleika próteinsins. Amínósýrurnar S73, S298, S307 og S409 eru fosfórýleraðar á sérvirkan hátt. Einnig er vitað að Mitf er ubiquitylerað á K201 og niðurbroti þess þannig stjórnað. Ýmislegt bendir til þess að SUMO-hópurinn skipti máli fyrir starfsemi Mitf próteinsins en algengt er að viðbót hans bæli umritunarvirkni umritunarþátta. Markprótein sumoyleringar verða að innihalda svokallað SUMO-set, ?KXE, þar sem K gegnir aðalhlutverki í tengingu við SUMO. Tvö slík set eru varðveitt í Mitf geninu.

Efniviður og aðferðir: Til að greina hlutverk SUMO í starfsemi Mitf próteinsins í músum hafa bæði SUMO-setin verið stökkbreytt í Mitf geninu. Stökkbreyting var útbúin í BAC klóni sem ber allt Mitf genið fyrir utan exon1 með notkun endurröðunaraðferðar. Notast var við svokallaða "Hit and Fix" aðferð.

Niðurstöður: Búin hafa verið til tvö BAC klón með sitt hvora stökkbreytinguna í SUMO setunum, það er K182R og K316R. Unnið er að því að koma þeim klónum fyrir í mús sem ber Mitf stökkbreytingu en þannig má ákveða hvort og þá hvenær SUMO skiptir máli í starfsemi Mitf próteinsins. Auk þess er verið að búa til klón sem mun bera báðar stökkbreytingarnar.

Ályktanir: Framköllun stökkbreytinga í BAC klónum með þessum hætti hefur reynst bæði fljótlegt og ódýrt í framkvæmd. Mýs sem bera óvirk SUMO-set í Mitf munu hjálpa okkur að ákvarða þýðingu sumoyleringu á Mitf í lifandi lífveru. Í kjölfarið verða gerðar in vitro og in vivo tilraunir til sjá hvort Mitf sé sumoylerað og skoða áhrif þess á lífefnafræðilega eiginleika Mitf.

V 11 Stökkbreytingar í hylkispróteini og Vif próteini mæði-visnuveiru hafa áhrif á víxlritun veirunnar

Stefán Ragnar Jónsson, Sigríður Rut Franzdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Ólafur S. Andrésson, Valgerður Andrésdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

stefanjo@hi.is

Inngangur: Lentiveirur eru flokkur retróveira sem valda langvinnum sjúkdómum í spendýrum. Meðal lentiveira eru alnæmis­veiran (HIV-1) í mönnum og mæði-visnuveiran (MVV) í kindum. Tvö klón af mæði-visnuveirunni hafa afar ólíka svipgerð í frumu­ræktum og in vivo þrátt fyrir að aðeins sé 1% munur á amínósýruröð þeirra. Klónaða veiran KV1772 er mjög sýkingarhæf og fjölgar sér vel í æðaflækjufrumum og fósturliðþelsfrumum, en klónaða veiran KS1 vex aðeins í æðaflækjufrumum en ekki í öðrum frumugerðum. Við höfum rakið þennan svipgerðarmun til tveggja stökkbreytinga, annarrar í hylkispróteini og hinnar í Vif próteini, og hefur hvorug stökkbreytingin þessi áhrif ein og sér. Í þessari rannsókn voru áhrif þessara stökkbreytinga á víxlritun könnuð.

Efniviður og aðferðir: Liðþelsfrumur úr kindafóstri og æðaflækju­frumur voru sýktar með mæði-visnuveirustofnum sem voru með hylkisbreytinguna eina og sér, stökkbreytinguna í Vif eina og sér, og báðar stökkbreytingarnar saman. DNA var einangrað með ákveðnu millibili fyrstu 36 tímana eftir sýkingu. Magn veiru-DNAs var ákvarðað með rauntíma PCR tækni. Tvö vísapör voru notuð, annað mælir upphaf, en hitt lok víxlritunar.

Niðurstöður og ályktanir: Hvorki stökkbreytingin í hylki né stökkbreytingin í Vif hafði áhrif á víxlritun í fósturliðþelsfrumum eða í æðaflækjufrumum. Báðar stökkbreytingarnar saman drógu hins vegar bæði úr upphafi og lokum víxlritunar í fósturliðþelsfrumum. Tilgáta okkar er sú að Vif próteinið verji hylkispróteinið fyrir veiruhindra úr frumunni. Þessi veiruhindri virðist virka fyrir víxlritun eða við upphaf hennar.

V 12 Rannsókn á breytileika í príongeni í heilbrigðu ís­­lensku þýði

Stefanía Þorgeirsdóttir1, Ásta Dögg Jónasdóttir2, Þórður Tryggvason2, Sveinn Guðmundsson3, Guðmundur Georgsson1

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2læknadeild HÍ, 3Blóðbankinn

stef@hi.is

Inngangur: Creutzfeldt-Jakob sjúkdómur (CJD) telst til príonsjúkdóma sem draga nafn sitt af smitefninu príon (PrPSc) sem er einungis prótein, það er án erfðaefnis. PrPSc er umbreytt þrívíddargerð eðlilegs himnupróteins (PrPC). Sýnt hefur verið fram á 22 stökkbreytingar í príongeninu (PRNP), allmargar þöglar en nokkrar valda ættlægum sjúkdómum. Að auki hefur fundist breyti­leiki í nokkrum táknum og hefur mest athygli beinst að tákna 129, þareð breytileiki í honum hefur áhrif á næmi fyrir sýkingu og jafnframt svipfar sýkingar, svo sem lengd meðgöngutíma, sjúkdómseinkenni og meinafræði. Markmið rannsóknarinnar var að ákvarða tíðni mismunandi breytileika í táknum 117 og 129 í príongeni heilbrigðra Íslendinga og bera saman við tíðni hjá öðrum þjóðum. Auk þess var tíðni 24 basapara úrfellinga innan svæðis í N-enda príongensins rannsökuð.

Efniviður og aðferðir: Við rannsóknina voru notuð sýni úr 208 heilbrigðum íslenskum blóðgjöfum, 104 af hvoru kyni. Erfðaefni var einangrað, príongenið fjölfaldað og skerðibútagreining notuð til að kanna breytileika í táknum 117 og 129. Við könnun á úrfell­ingum var samanburður gerður á stærð PCR-afurða og ef grunur lék á úrfellingu var skerðibútagreining framkvæmd.

Niðurstöður og ályktanir: 4,7% reyndust vera arfblendin um breyti­leikann í tákna 117, enginn var arfhreinn og 95,3% höfðu ekki breytileikann. Breytileikinn hefur ekki verið kannaður víða en þetta er sambærileg tíðni og fundist hefur í Tyrklandi. Af íslenska úrtakinu voru 46,6% M/M í tákna 129, M/V voru 44,7% og 8,7% voru V/V. Niðurstöður rannsóknarinnar á tákna 129 sýndu að tíðni mismunandi breytileika hérlendis var áþekk því sem lýst er með nágrönnum okkar í Evrópu. Þess væri því að vænta að tíðni spCJD væri svipuð hér. Árleg dánartíðni hérlendis er hins vegar 0,4-0,5 á milljón íbúa, en víðast hvar í grannlöndum okkar um 1 á milljón íbúa. Úrfelling á 24 basapörum fannst ekki innan úrtaksins en tíðni þessa breytileika í heilbrigðu þýði er talin vera mjög lág.

V 13 Áhrif erfðabreytileika í MCP-1 og CCR2 á krans­æða­sjúkdóma. Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar

Kristjana Bjarnadóttir1, Guðný Eiríksdóttir1, Thor Aspelund1, Vilmundur Guðnason1,2

1Rannsóknastöð Hjartaverndar, 2læknadeild HÍ

kristjana@hjarta.is

Inngangur: Rannsóknir á músalíkönum hafa sýnt að skortur á geni fyrir MCP-1 (monocyte chemotactic protein-1) eða geni fyrir CCR2, viðtaka MCP-1, hindrar myndun æðakölkunar og gætu þessar sameindir spilað stórt hlutverk í þróun kransæðasjúkdóms. Tilgangur þessarar rannsóknar var að rannsaka áhrif erfðabreytileika í MCP-1 geninu í stöðu -2518 og -2076 og erfðabreytileika í stöðu 190 í CCR2 geninu á æðakölkun í íslensku þýði.

Efniviður og aðferðir: Gerð var viðmiðatilfella rannsókn úr Reykja­víkurrannsókn Hjartaverndar á 279 einstaklingum. Tilfelli (93) voru skilgreind sem þeir sem höfðu fengið hjartaáfall, gengist undir PTCA eða CABG fyrir 70 ára aldur. Tvö sjúkdómslaus viðmið (186) fyrir hvert tilfelli voru pöruð með tilliti til aldurs og kyns. Arfgerðagreining var gerð með PCR, skerðiensímum og rafdrætti á MADGE gelum. Tíðni samsæta milli tilfella og viðmiða var borin saman með kí-kvaðrat prófi og samverkun milli erfðabreytileika og helstu áhættuþátta kransæðasjúkdóma (kólesteról, þríglyseríð, ESR, BMI, blóðþrýstingur og reykingar) var metin með logistic regression.

Niðurstöður: Tíðni G allels í MCP-1 geni í stöðu -2518 var hækkuð hjá tilfellum (p=0,04). Ekki fannst marktækur munur á tíðni allela í MCP-1 -2076 eða CCR2 190. Engin marktæk samverkun fannst milli erfðabreytileika og helstu áhættuþátta.

Ályktanir: Hækkuð tíðni G allels í MCP-1 hjá tilfellum bendir til að það gæti stuðlað að aukinni áhættu á kransæðasjúkdómum.

V 14 Tölvustýrð myndbandsupptaka (OPS technique) stað­festir tilvist reglulegra sveiflna í smáæðaflæði þarma

Gísli H. Sigurðsson, Luzius Hiltebrand, Vladimir Krejci

Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, svæfinga- og gjörgæsludeild, Insel­spital Háskólasjúkrahús í Bern, Sviss

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna: 1. Hvernig breytingar á svæðisbundnu blóðflæði hafa áhrif á reglu­legar sveiflur í smáæðablóðflæði (flow motion, FM) sem hefur verið lýst með laser Doppler flæðismælingum (LDF). 2. Hvort hægt sé að sjá þessar sveiflur í blóðflæði með orthogonal polarization spectral imaging (OPS) tækni - vídeómyndataka af blóðflæði í smáæðum.

Efniviður og aðferðir: Þrettán svín voru svæfð og lögð í öndunarvél. Í átta þeirra var blóðflæði minnkað í stigum um 15% í senn í arteríu mesenterica superior (SMA) á meðan hin fimm voru til viðmiðunar. Smáæðablóðflæði var mælt bæði í slímhúð og vöðvalagi smágirnis, með þremur LDF nemum hvort. Útslag (amplitude) og tíðni sveiflna í smáæðablóðflæði (FM) sem var sýnileg á LDF var mæld. Jafnframt var stöðug mæling gerð með OPS tækni í smágirnisslím­húð.

Helstu niðurstöður: Við óhindrað blóðflæði í SMA sást regluleg FM (tíðni 5.5 bpm) í 16 af 24 LDF mælingum. Þegar blóðflæðið var minnkað um 40% hvarf FM í helmingi þeirra. Útslag FM minnkaði samsíða minnkun á blóðflæði en tíðnin hélst óbreytt. FM sást í öllum viðmiðunardýrunum. Engin FM sást í vöðvalagi garna. OPS mælingin staðfesti að FM á sér stað í smágirnis villi.

Ályktanir: Sveiflur í smáæðablóðflæði (flow motion) á sér eingöngu stað í slímhúð garna og minnkar hún við minnkað blóðflæði. Hún hverfur alveg við mjög lágt blóðflæði. Þessar niðurstöður mæla gegn fyrri hugmyndum um að "flow motion" sé til að bæta aðgang að súrefni í vefjum með takmarkað blóðflæði. Líklegra er að þetta sé fyrirbrigði sem hefur með "trans-capillary fluid exchange" að gera enda truflast það við minnkað flæði.

Orthogonal polarization spectral imaging (OPS) tækni sem er einskonar vídeómyndataka af blóðflæði í smáæðum þarmaslímhúðar staðfesti í þessari rannsókn í fyrsta sinn að flow motion á sér stað í villi smágirnis.

Samstarfsverkefni LSH - HI og UniBE #3

V 15 "Arterial buffer response" í lifur er virkur í septísku losti

Gísli H. Sigurðsson, Luzius Hiltebrand, Vladimir Krejci

Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, svæfinga- og gjörgæsludeild Inselspital Háskólasjúkrahús í Bern, Sviss

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Á undanförnum árum hefur vasopressín verið notað í auknum mæli til að hækka blóðþrýsting hjá sjúklingum í septísku losti. Ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi þessarar meðferðar í klínískum rannsóknum. Þessi notkun lyfsins er nokkurt áhyggju­efni þar sem vitað er að það veldur æðaherpingu í kviðarholslíffærum samanber notkun þess til að draga úr blæðingu frá vélinda varisum. Við slíka meðferð hefur blóðþurrð í lifur og þörmum verið lýst. Áhrif vasopressíns á blóðflæði í lifur hefur ekki verið könnuð áður, en sá var einmitt tilgangur þessarar rannsóknar.

Efniviður og aðferðir: 32 svín voru svæfð og lögð í öndunarvél. Septískt lost var framkallað hjá 16 dýrum með "faecal penitonitis", hópur SV (n=8) fékk vasopressín og hópur S (n=8) lyfleysu, meðan hin 16 tilheyrðu tveimur ósýktum viðmiðunarhópum, hópur V (n=8) fékk vasopressín og hópur C (n=8) lyfleysu). Eftir fjögurra klukkustunda sepsis (S og SV) var gefinn i.v. vökvi til þess að hækka CVP upp í eðlileg gildi á 60 mín. Síðan fékk hópur SV vasopressín 0,06 U/kg/mín en S fékk lyfleysu. Hjartaútfall, blóðflæði í arteria hepatica og vena porta voru mæld stöðugt í þrjár klukkustundir á eftir. Jafnframt var smáæðablóðflæði í lifur mælt með laser Doppler flowmetry (LDF).

Niðurstöður: MAP hækkaði um 25% og CI lækkaði um 30% í báðum hópunum sem fengu vasopressín (V og SV) en báðir þættir héldust óbreyttir í S og C. Blóðflæði í porta venu minnkaði um 50% í hópi SV miðað við 25% minnkun í S (p<0,01). Jafnframt var 120% aukning í flæði a. hepatica í hópi SV meðan það var 20% minnkun í hópi S (p<0,01).

Ályktanir: Þegar vasopressín er gefið í septísku losti minnkar blóðflæði í porta venu umtalsvert sem eitt sér væri áhyggjuefni. Mikil aukning á blóðflæði í lifrarslagæð bendir þó til þess að "hepatic arterial buffer response" sé að virkur og sporni gegn alvarlegri blóðþurrð með því að halda heildarblóðflæði lifur nær óbreyttu.

Samstarfsverkefni LSH - HI og UniBE #2

V 16 Endurtekning háþrýstingssjúkóma í annarri þungun kvenna í áhættuhópum

Sigrún Hjartardóttir1,2, Reynir Tómas Geirsson1,2, Björn Geir Leifsson3, Val­gerður Steinþórsdóttir4

1Læknadeild HÍ, 2kvennasvið og 3skurðlækningasvið Landspítala, 4Íslensk erfða­greining

reynirg@landspitali.is

Inngangur: Áhætta á endurtekningu háþrýstings í meðgöngu er aukin innan fjölskyldna. Gögn um ættlægan háþrýsting í meðgöngu voru athuguð með tilliti til svipgerða og alvarleika háþrýstingsfylgikvilla og til að athuga áhrif ofþyngdar/offitu og þyngdaraukningar milli meðgangna á endurtekningarlíkur.

Efniviður og aðferðir: Mæðraskrár 784 kvenna sem áttu að baki eina meðgöngu með háþrýstingi og voru skyldar innan fimm rýriskiptinga (meiosis) voru athugaðar til að endurflokka sjúkdómsmyndir og reikna líkur (odds ratios, OR) fyrir áhættu á háþrýstingi í nýrri einburameðgöngu.

Niðurstöður: Endurtekinn háþrýstingur í meðgöngu fannst í allt frá 56% til 88% nýrra meðgangna eftir því hvaða svipgerð háþrýstings var til staðar í fyrstu meðgöngu. Samsvörun sjúkdómsgreininga í fyrstu og annarri þungun var algengust meðal kvenna með langvinnan háþrýsting og meðgönguháþrýsting. Hjá konum með meðgönguháþrýsting og meðgöngueitrun jókst endurtekningaráhættan með greiningu snemma á lokaþriðjungi meðgöngu og auknum alvarleika háþrýstingsins í fyrstu meðgöngu (meðgönguháþrýstingur = OR 1,9; meðgöngueitrun = OR 5,55). Ofþyngd og þyngdaraukning >2 þyngdarstuðulseiningar (BMI) tvöfaldaði áhættu í næstu meðgöngu (OR 2,14 og 2,39) ef meðgönguháþrýstingur var í þeirri fyrstu.

Ályktanir: Meðal kvenna með ættartengsl varðandi háþrýsting í meðgöngu eru endurtekin háþrýstingsvandamál algeng, einkum ef þau urðu snemma í fyrri þungun. Ofþyngd og mikil þyngdaraukning milli þungana eru áhættuþættir hjá konum sem fengu meðgönguháþrýsting í fyrstu þungun.

V 17 Breytingar á sómatíska geninu p53 í legslímuflakki með magnbundinni PCR raunaðferð

Jón Torfi Gylfason1,2, Reynir Tómas Geirsson1,2, Vigdís Pétursdóttir3, Krist­­rún Benediktsdóttir1,3, Dianne Dang4, Joe Leigh Simpson4, Farideh Z. Bischoff4

1Læknadeild HÍ, 2kvennadeild og 3meinafræðideild Landspítala, 4Department of Ob­s­tetrics and Gynecology, Baylor College of Medicine, Houston, Texas, USA

reynirg@landspitali.is

Inngangur: Legslímuflakk einkennist af tilvist legslímuvefs, bæði kirtla og grunnvefs, utan við leghol og legvöðva. Sjúkdómurinn er góðkynja, en hefur ýmsa áþekka eiginleika og illkynja vefur. Tíðni sómatískra kjarnasýrubreytinga í æxlisbæligeninu p53 (17p13;exon 1) voru metnar til að reyna að skýra slíka eiginleika nánar.

Efniviður og aðferðir: Vefjasýni frá íslenskum (n=26) og banda­rískum (n=45) konum með legslímuflakk voru notuð. Íslensku sýnin voru paraffínsneiðar frá 19 konum með sjúkdóminn (affected matched cases) og sjö heilbrigðum konum. Bandarísku sýnin voru fersk sýni frá 17 konum með sjúkdóminn (matched cases) og 28 heilbrigðum konum. DNA einangrun og PCR greining var gerð til að magnákvarða fjölda afrita, bæði af p53 æxlisbæligeninu og GAPDH geninu (16p, viðmiðunargen).

Niðurstöður: Í legslímuflakksvefnum reyndist meðaltalsgildi af­rita/tilraun 1,16 fyrir p53 í íslensku konunum og 3,46 í þeim bandarísku. Marktækur munur sást milli p53 gilda í viðmiðablóð­sýnum og í sjúkdómsvef í bandarískum konum (p=0,008), milli íslenskra og bandarískra sýna (p=0,007), en ekki í eðlilegum legslímuvef, hvorki í íslensku né bandarísku sýnunum (p=0,7).

Ályktanir: Eins og áður hefur verið sýnt fram á virðast breytingar eða óstöðugleiki í p53 geninu á litningi 17 geta verið þáttur í meingerð legslímuflakks, líkt og í sumum krabbameinum. Mismunur milli þýðanna tveggja bendir til að skýra megi tilurð sjúkdómsins út frá þeim áhrifum sem umhverfisþættir geta haft á erfðaþætti.

V 18 Faraldsfræði legslímuflakks á Íslandi yfir 20 ára tímabil

Jón Torfi Gylfason1,2, Kristín Jónsdóttir, Guðlaug Sverrisdóttir1, Kristján Andri Kristjánsson1, Reynir Tómas Geirsson1

1Kvennadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

reynirg@landspitali.is

Inngangur: Algengi legslímuflakks er ekki þekkt með vissu. Grein­ing byggir á skurðaðgerð (kviðarholsspeglun og/eða opinni aðgerð) og reynir á hæfni skurðlæknis í að greina vefjaskemmdir sem geta verið afar smáar. Greining er staðfest með vefjasýni. Algengi hjá íslenskum konum á frjósemisaldri (15-49 ára) var metið á 20 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Gögnum var safnað um allar greiningar sjúkdómsins 1981-2000 á Íslandi, á öllum sjúkrastofnunum þar sem skurðaðgerðir fóru fram, en einnig úr skrám um meinafræðisvör. Upplýsingar komu úr tölvugrunni um sjúkdómsgreiningar á stærri stofnunum, en á öðrum var leitað í aðgerðaskrám. Allar sjúkraskrár voru skoðaðar. Stigun jákvæðra vefjasvara var gerð af sama aðila (JTG) með alþjóðlegu kerfi (ASRM) í stig I-II (vægari sjúkdómsform) eða stig III-IV (þyngri sjúkdómsform). Staðsetning og magn vefjaskemmda og tegundir aðgerða voru skráð. Algengi var reiknað út frá mannfjöldatölum.

Niðurstöður: Alls greindust 1383 konur (klínískar og vefjafræðilegar greiningar). Algengi var 2,12% og vefjafræðilega staðfest algengi 1,24%. Greining var með opinni skurðaðgerð í 589, kviðarholsspeglun í 778 og öðrum hætti í 16 konum; 380 undirgengust brottnám legs. Eggjastokkar voru fjarlægðir úr 481. Vefjasvar staðfesti greiningu í 806 konum. Stig I-II greindist í 298 og stig III-IV í 508 tilfellum. Meðalgreiningaraldur var 35 ár. Konur fóru í 1-9 aðgerðir vegna sjúkdómsins, að meðaltali 1,5. Aukning varð í jákvæðum vefjasvörum á seinni hluta tímabilsins.

Ályktanir: Algengi þessa sjúkdóms, sem veldur verulegum og ára­löngum þjáningum, hefur ekki áður verið kannað í heilu og eins­leitu samfélagi með tvenns konar nálgun við upplýsingaöflun. Ein af hverjum fimmtíu konum fær sjúkdóm sem leiðir til endurtekinna skurðaðgerða og brottnáms líffæra.

V 19 Áhrif 5- og 12-lipoxygenasahindra á vöxt og lifun hvít­blæðisfrumna

Marlies Roessink1,2,3, Guðleif Harðardóttir2,3,4, Sigurdís Haraldsdóttir2,3, Kristín Ingólfsdóttir4, Helga M. Ögmundsdóttir2,3

1GISH-T, International School of Hepatology and Tropical Medicine, Groningen, Holland, 2rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði, Krabba­meinsfélagi Íslands, llæknadeild HÍ, 4lyfjafræðideild HÍ

gudleif@hi.is

Inngangur: Afurðir 5-lipoxygenasa (LOX) gegna mikilvægu hlutverki í bólgusvörun. Einnig hefur komið í ljós að tjáning 5- og 12-LOX er aukin í ýmsum tegundum krabbameina og afurðir 5- og 12-LOX hafa áhrif á fjölgun og lifun krabbameinsfrumna. Hlutdeild þeirra í hvítblæði hefur þó verið umdeild. Við höfum áður lýst vaxtarhemjandi verkun 5-LOX hindra úr fléttum á krabbameinsfrumur. Fléttuefnin eru protolichesterinsýa (PS) úr fjallagrösum, lobarínsýra (LS) úr grábreyskju og bæomycesínsýra (BS) úr ormagrösum. PS eru tvíþættir LOX hindrar, hindra bæði 5- og 12-LOX, en BS er sértækur 5-LOX hindri.

Efniviður og aðferðir: Prófuð var vaxtarhemjandi og frumu­drepandi verkun PS, LS og BS gegn sex frumulínum úr mismunandi tegundum hvítblæðis; HL-60 og K-562 af mýelóíð uppruna, JURKAT, CCRF-CEM og CCRF-SB af eitilfrumuuppruna og RPMI-8226 úr mergfrumuæxli (mutliple myeloma). Til samanburðar var prófað lyfið zileuton sem er sértækur 5-LOX hindri. Notað var thymidinupptökupróf til að meta frumufjölgun og stýrður frumudauði var mældur með TUNEL prófi.

Niðurstöður: PS olli marktækri vaxtarhindrun og frumudauða í öllum frumulínum, EC50 fyrir vaxtarhindrun 13-35 ?M. LS var ekki eins öflugur vaxtarhindri en olli jafnmiklum frumudauða. BS og zileuton, sem hindra aðeins 5-LOX en ekki 12-LOX höfðu lítil vaxtarhemjandi áhrif, BS framkallaði stýrðan frumudauða en zileuton hafði minni áhrif í þá veru.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að hindrun á 5-LOX hefur aðeins takmörkuð áhrif á vöxt hvítblæðisfrumna en þau fléttuefni sem hindruðu bæði 5- og 12-LOX höfðu marktæk vaxtarhemjandi og frumudrepandi áhrif. Líklegt er að áhrifin, sérstaklega af PS, skýr­ist ekki að öllu leyti af LOX hindrandi verkun.

V 20 Genamengi mismunandi tegunda og stofna af ætt­kvísl­inni Aeromonas hafa basaraðir aspzincin metal­lo­­endo­pep­tidasans AsaP1 sem er úteitur A. salmonicida ssp. achromo­genes, en framleiða ekki ensímið vegna fasa­skipta­breytinga

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, Íris Hvanndal, Helga Árnadóttir, Val­gerð­ur Andrésdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

bjarngud@hi.is

Inngangur: Ýmsar tegundir lagarbaktería tilheyra ættkvíslinni Aeromonas og eru sumar þekktar sem sýklar í fiskum og spen­dýrum. Endopeptíðasinn AsaP1 er úteitur ýmissa A. salmonicida stofna og fyrsta ensím af fjölskyldu málmháðra aspzincin peptíðasa sem hefur verið skilgreint sem bakteríueitur. Markmið verkefnisins var að kanna tíðni arfgerðar og svipgerðar asaP1 gensins meðal 44 Aeromonas stofna.

Efniviður og aðferðir: Stofnasafnið samanstóð af einkennisstofn­um A. bestarium, A. caviae, A. hydrophila og fimm undirtegunda A. salmonicida, þremur A. hydrophila stofnum og 33 A. salmon­icida stofnum einangruðum úr sjúkum fiski. E. coli stofn var notaður sem neikvætt viðmið. DNA var einangrað og notað í PCR-próf og til raðgreininga. Við raðgreiningu asaP1 gensins var notað DNA A. salmonicida, stofns 265-87, og var sú röð notuð við gerð vísa fyrir PCR-próf. PCR mögnun var gerð á ORF asaP1 gensins og virkniseti ensímsins. Samanburðarraðgreining var gerð á ORF valinna stofna. ELISA próf byggt á einstofna anti-AsaP1 mótefnum, ónæmisþrykk byggt á fjölstofna mótefni og ensímvirknilitun á SDS-PAGE voru notuð til að greina ensímið í útensímalausnum. Til að kanna skyldleika AsaP1 við önnur ensím í aspzincin fjölskyldunni var gert skyldleikatré með aðstoð tölvuforrits.

Helstu niðurstöður: PCR mögnun varð með vísum sem magna virkniset asaP1 gensins hjá öllum Aeromonas stofnunum og allt genið var magnað hjá 39 stofnum. Hins vegar var AsaP1 prótein aðeins tjáð hjá 17 stofnum. Samanburðarraðgreining leiddi í ljós varðveitta fasaskiptabreytingu í asaP1 geninu, sem skýrir skort á tjáningu 22ja stofna.

Ályktanir: Gen AsaP1 bakteríueitursins er þróunarsögulega vel varðveitt og er ekki bundið við tegundina A. salmonicida. Varðveitt fasaskiptabreyting kemur í veg fyrir tjáningu gensins hjá mörgum Aeromonas stofnum.

V 21 Breytingar á hjúppróteini mæðivisnuveiru (MVV) við náttúrulegar sýkingar

Hallgrímur Arnarson1, Valgerður Andrésdóttir1, Sigríður Matthíasdóttir1, Margrét Guðnadóttir2

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2veirurann­sókna­stofnun læknadeildar HÍ

hallgra@hi.is

Inngangur: Mikill breytileiki, sérstaklega í yfirborðspróteinum, er meðal þátta sem torvelda virkni bólusetninga gegn lentiveirum á borð við HIV og MVV.

Mótefnasvar fékkst í kindum með því að sprauta þær með dauðum veiruögnum og sýnt var að það gat varið bólusett dýr gegn smiti í einhverjum tilvikum. Reynt var á bólusetningu í gegnum náttúrulegar smitleiðir en ekki með hefðbundnum rannsóknaraðferðum.

Ræktun úr þessari bólusetningartilraun var nýtt til að kanna breytileika í vækisröð á yfirborðspróteini og einnig voru gerð hlutleysandi mótefnapróf gegn þeim. Niðurstöður þessara próf­ana voru bornar saman og kannað hvort bólusetning hefði áhrif á breytingar á væki.

Efniviður og aðferðir: Í bóluefni voru notaðar fixeraðar veiruagnir af stofni K796 ásamt ónæmisglæði. Tvílembingapör þar sem annar einstaklingur var bólusettur en hinn ekki voru með kindum sýktum með bóluefnisstofni. Pari var fórnað þegar viðmiðunardýr sýndi merki sýkingar í blóðprófi. Sýking var ákvörðuð með veiruræktun.

Klónaðir voru um það bil 450 bp forveiru DNA-bútar úr þess­um ræktum og þeir nýttir til ákvörðunar á vækisröð.

Hlutleysandi mótefnapróf voru framkvæmd með sértæku sermi gegn bóluefnisstofni og með breiðvirkara sermi.

Niðurstöður og ályktanir: Bólusetning leiddi til mótefnasvars sem veitti vörn gegn sýkingu í einhverjum tilvikum. Raðgreiningar bentu til að við náttúrulegar sýkingar komi upp fjöldi breytinga í afvirkjandi væki og mótefnapróf sýndu að þessar breytingar höfðu veruleg áhrif á virkni afvirkjandi mótefna. Þó var ekki hægt að greina að bólusetning hefði áhrif á þessar breytingar.

V 22 Mat á aðferðum við DNA-bólusetningu gegn lenti­veiru­­sýkingum í kindum

Hallgrímur Arnarson, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Guðmundur Pétursson, Valgerður Andrésdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

hallgra@hi.is

Inngangur: Kostir DNA-bóluefna eru meðal annars að þau geta verið ódýr og einföld í framleiðslu auk þess sem endingartími þeirra getur verið meiri en hefðbundinna bóluefna. DNA-bólu­efni geta líka framkallað frumubundið ónæmissvar sem er eftirsóknarvert til varnar ýmsum veirusýkingum, til dæmis HIV og MVV.

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum er í samstarfi við átta evrópskar rannsóknarstofnanir þar sem könnuð eru áhrif ónæmisörvandi þátta á svar við bólusetningu. Einnig eru bornar saman aðferðir við að koma bóluefninu á áfangastað í kindum.

Hlutverk Keldna í þessu verkefni eru annars vegar að tjá yfirborðsprótein MVV sem skráð eru af env-geni. Þessi pró­tein verða nýtt til að prófa ónæmisviðbrögð tilraunadýra. Tján­ing próteinanna er tæknilega flókin meðal annars vegna þess að mRNA afrit af env-geni eru óstöðug og hafa ýmsa óæski­lega eiginleika hvað varðar mikla tjáningu. Þar að auki eru próteinafurðir gensins mjög óstöðugar og gríðarlega sykraðar. Hitt hlutverkið er að annast ýmsar ónæmisprófanir.

Vonast er til að niðurstöður þessa verkefnis geti gefið upp­lýs­ingar sem nýst gætu við frekari rannsóknir á eðli lentiveira og þeim þáttum í ónæmiskerfi spendýra sem mikilvægir eru til varnar sýkingum af þeirra völdum.

Efniviður og aðferðir: Við tjáningu á yfirborðspróteinum hafa meðal annars eftirfarandi aðferðir verið notaðar. 1. Genaleiðsla í spendýra­frumum, með og án hjálparþátta. 2. Tjáning í RTS kerfi sem er in vitro tjáningarkerfi byggt á þáttum úr E. coli.

Við ónæmisprófanir er beitt ýmsum hefðbundum aðferðum á borð við ELISA, ónæmisþrykk og hlutleysandi mótefnapróf.

Niðurstöður og ályktanir: Tjáning próteina hefur reynst mjög flókin og hefur ekki enn verið tjáð í verulegu magni. T-frumupróf hafa bent til örvunar af völdum bólusetningar en samanburður á aðferðum er ekki enn tiltækur.

V 23 Stökkbreytigreining Vif próteins mæðivisnuveiru

Sigríður Rut Franzdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Ólafur S. Andrésson, Val­gerður Andrésdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

valand@hi.is

Inngangur: Mæði-visnuveira (MVV) er af hópi lentiveira og náskyld HIV veirunni. Allar lentiveirur nema hrossaveiran EIAV bera vif gen og er afurð þess nauðsynleg fyrir sýkingargetu veiranna. Nýlega kom í ljós að Vif prótein HIV-1 veiru ver erfðaefni hennar gegn afamíneringu cytidíns á meðan á víxlritun stendur með því að koma í veg fyrir innlimun cytidín deamínasans APOBEC3G og skyldra próteina úr myndunarfrumu í veiruagnir. APOBEC3 virðist vera að finna í öllum spendýrum og fyrri niðurstöður hafa bent til þess að Vif prótein MVV verji veiruna gegn slíkum próteinum. Rannsóknin beindist að þessu hlutverki Vif.

Efniviður og aðferðir: Stökkbreytingar voru innleiddar í vif genið með PCR aðferð og áhrif þeirra á veiruvöxt og afamíneringu víxlritunarafurða metin. Æðaflækjufrumur og fósturliðþelsfrumur úr kindum voru sýktar með stökkbreyttum veirustofnum og veirufjölgun metin með því að mæla veiru-RNA með rauntíma RT-PCR. Einnig var veiru cDNA klónað og raðgreint.

Niðurstöður og ályktanir: Breytingar bæði á C- og N-helmingi Vif próteinsins höfðu áhrif á sýkingarhæfni veiranna sem rekja mátti til aukinnar tíðni G-A stökkbreytinga í veirunum en þær eru vísbendingar um afamíneringu cytidíns. Ein innleidd breyting á C-helmingi Vif hafði engin áhrif ein og sér en dró úr sýkingarhæfni veiranna þegar hún var klónuð í veiru með breytt hylkis­prótein. Veirur með þessa breytingu urðu ekki fyrir afamíneringu og benda niðurstöðurnar til þess að Vif gegni fleiri en einu hlutverki og að fleiri frumuþættir en cytidín deamínasar komi þar við sögu.

V 24 Óvirkjun á AsaP1 úteitri fisksýkilsins Aeromonas salmon­icida undirteg. achromogenes og áhrif breytinganna á sýkingarmátt bakteríunnar

Helga Árnadóttir1, Sarah Burr2, Valgerður Andrésdóttir1, Joachim Frey2, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2Institute for Veterinary Bacteriology, University of Bern, Sviss

bjarngud@hi.is

Inngangur: Aeromonas salmonicida undirteg. achromogenes (Asa) er Gram neikvæð baktería sem veldur kýlaveikibróður í laxfiskum og öðrum fisktegundum. Málmháði aspzincin peptíðasinn AsaP1, er úteitur margra atýpískra A. salmonicida stofna og þar á meðal týpustofns undirtegundar achromogenes. AsaP1 er úteitur sem uppfyllir lögmál Kochs og getur eitt og sér valdið einkennum kýlaveikibróður.

Efniviður og aðferðir: AsaP1 genið var klónað úr Asa lambdasafni. Virkniset peptíðasans var melt úr asaP1 geninu og í staðinn komið fyrir geni sem veitir þol gegn kanamycini. Óvirka genið var flutt úr E. coli stofni S17.1 yfir í Asa 265/87 stofn með tengi­æxlun. PCR greining var notuð til að staðfesta hvort óvirka eða virka asaP1 genið væri til staðar hjá Asa stofnum. SDS-PAGE rafdráttur, ensímvirknilitun og ónæmisþrykk á seyti og frumum voru notuð til að greina AsaP1 ensímið. Laxaseiði voru baðsmituð eða sýkt með sprautun í kviðarhol. Fylgst var með dauða í mánuð og sýni tekin í bakteríuræktun og til vefjameinafræðiskoðunar. Kannað var hvort óvirka eða virka asaP1 genið væri til staðar hjá einangruðum stofnum. Reiknaður var 50% banaskammtur sprautusýktu stofnanna en dauði metinn í prósentum hjá baðsýktum fiski.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að í kjölfar tengiæxlunar skipti endurröðunarkerfi Asa bakteríunnar út villigerðargeninu fyrir óvirka genið og AsaP1- stökkbrigðið voru einangruð. Smit beggja stofna var staðfest í sprautu- og baðsmituðum fiski. Fimmtíuprósent banaskammtur stökkbrigðis og villigerðar var sambærilegur. Fiskar sýktir með stökkbrigði voru lengur að deyja en þeir sem voru sýktir með villigerð stofnsins.

Ályktun: AsaP1 úteitur Aeromonas salmonicida undirteg. achromo­genes er ekki nauðsynlegt til að bakterían sýki lax sem bendir til þess að sýkingamáttur hennar sé flókið ferli.

V 25 Tjáning á líklegum ofnæmisvakagenum úr Culicoides mýflugum með veiruframleiðslu í skordýrafrumum

Þórunn Sóley Björnsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Guðbjörg Ólafsdóttir, Lisa Harwood, Eliane Marti, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Department of Clinical Veterinary Medicine, University of Bern, Sviss

thorunnbj@hotmail.com

Inngangur: Sumarexem (SE) er ofnæmi í hrossum gegn próteini sem berst við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides. Ofnæmið er vandamál í íslenskum hestum á erlendri grund en þessi ættkvísl mýflugna lifir ekki á Íslandi. Rannsóknir sýna að hestar með sumarexem svara á sameiginlega ofnæmisvaka í mismunandi Culicoides tegundum. Við höfum einangrað tvö gen úr Culicoides nubeculosus rCul n 1 og pQEPP2C. Ef prótein genanna eru tjáð í E. coli er hægt að sýna fram á sérvirka bindingu pQEPP2C próteinsins en ekki rCul n 1 við IgE úr sumarexemshestum. Til að sykrun, umbrot og önnur meðhöndlun á próteinum sé sem líkust og í lífverunni, var notað baculoveirukerfi sem er öflugt próteintjáningarkerfi í skordýrafrumum. Baculoveirur eru stórar skordýraveirur ræktaðar í fiðrildalirfufrumum (Sf 9).

Markmið verkefnisins er að finna og framleiða ofnæmisvakana í sumarexemi.

Efniviður og aðferðir: Bac-to-Bac Baculovirus Expression System frá Invitrogen með flutningsferju pFastBac HT og DH10Bac E. coli stofni. Genaleitt var inn í Sf-9 frumur með Lipofectamin 2000 (Invitrogen) eða ExGen500 (Fermentas). Tjáning var prófuð í ónæmisþrykki og litað fyrir HisTag.

Niðurstöður og ályktanir: Genin rCul n 1 og pQEPP2C voru mögnuð upp með PCR og límd inn í pFastBac flutningsferjur. Ferjum með hvoru geni fyrir sig var komið með hitasjokki inn í DH10Bac E. Coli sem innihalda baculoveirustökkul (bacmid) og hjálparferju. Hjálparferjan hefur gen fyrir stökkulensím sem endurraðar genum af flutningsferjunni inn í bacmiðið. Með fúkka­lyfjum er valið fyrir endurraðað bacmið og það hreinsað úr bakt­eríuræktinni. Prófað var hvort genin væru inni á ferjunum með PCR. Með ónæmisþrykki var sýnt að genaleiðsla í Sf-9 frumur tókst með Lipofectamin 2000. Veiruagnir voru síðan framleiddar við endursýkingu á Sf-9 frumum og framleiðsla aukin í þremur passeringum. Verið er að hreinsa próteinin á nikkelsúlum. Þau verða síðan prófuð fyrir ofnæmisvirkni og þær niðurstöður ráða framhaldi rannsókna.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.

V 26 Samanburður á útþekjufrumum og flutningskerfum fyrir Na+, glúkósa og amínósýrur í ristli og coprodeum hjá rjúpu (Lagopus mutus) og langvíu (Uria aalge)

Sighvatur S. Árnason1, Gary Laverty2, Vibeke S. Elbrönd3

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Department of Biological Sciences, University of Delaware, USA, 3Institut for Veterinær Anatomi og Fysiologi, Kgl. Veteri­nær & Landbohøjskole, Kaupmannahöfn

ssa@hi.is

Inngangur: Rjúpur (Lagopus mutus) lifa í vatnsríku umhverfi og á saltsnauðri fæðu. Langvíur (Uria aalge) lifa í umhverfi snauðu af osmótískt fríu vatni en með ofgnótt af salti í fæðunni. Samanburður á þekjustarfsemi ristils og coprodeum í rjúpu og langvíu er því áhugaverður, en þar fer fram úrvinnsla á þvagi og iðramauki.

Efniviður og aðferðir: Rjúpur (n=9) og langvíur (n=13) voru veiddar á suðvesturhorni landsins. Vefjasýni úr ristli og coprodeum voru tekin til raflífeðlislegra mælinga á jónaflutningi, mótefnamælinga á SGLT-próteinmagni með Western blot og fyrir vefjaskoðun með ljós- og rafeindasmásjá.

Niðurstöður: Ristill og coprodeum rjúpa voru með bæði totur og kirtilhol, en einungis kirtilhol sáust í ristli langvía, og var útþekjan einföld stuðlaþekja með þremur frumugerðum: upptökufrumur, hvatberaríkar frumur og slímfrumur. Í coprodeum langvía var einungis marglaga flöguþekja. Enginn Na+/glúkósa-samferjun fannst í ristli beggja tegunda, þar sem glúkósi hafði engin áhrif á Isc og ekkert mótefnasvar mældist með sérhæfðu SGLT-mótefni. Hins vegar fannst Na+/amínusýru-samferjun hjá báðum tegundum, þar sem lysine/leucine örvuðu Isc um +3?1,0 µA/cm2 í fyrri hluta ristilsins hjá rjúpunum og +11?3,5 µA/cm2 í ristli langvía. Sértæk Na+-göng fundust mest í seinni hluta ristilsins og í coprodeum hjá rjúpum, þar sem amiloríð hamdi Isc um 6-18 µA/cm2, en engin áhrif voru sjánleg í ristli langvía. Coprodeum hjá langvíu var ónæmur og með hátt viðnám (1000 Ohm*cm2).

Ályktanir: Ristill og coprodeum hjá rjúpu var byggingarlega svipaður og hjá lágsalt-hænsnfuglum, og sýndu svipaða starfræna eiginleika, nema hvað varðar tilvist Na+/amínósýru-samferjunar. Ristill langvíu var byggingarlega svipaður ristli spendýra og starfrænt svipaður ristli hásalt-hænsna, nema hvað varðar vöntun á Na+/glúkósa-samferjun.

Þakkir: Styrkt af RANNÍS 991220002 og NSF IBN9870810.

V 27 Fiskolía í fæði músa eykur frumuboðamyndun miltis­átfrumna

Dagbjört Helga Pétursdóttir, Ingibjörg Harðardóttir

Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeild HÍ

ih@hi.is

Inngangur: Frumuboðar eru mikilvæg boðefni við miðlun bólgu- og ónæmissvars. TNF-? er bólguhvetjandi frumuboði og IL-10 bólgutemprandi frumuboði. Við höfum sýnt að fiskolía í fæði músa eykur TNF-? og IL-10 myndun miltisfrumna eftir örvun með LPS. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig fiskolía eykur frumuboðamyndun miltisfrumna.

Efniviður og aðferðir: BalbC mýs fengu fæði bætt með fiskolíu eða kornolíu í fjórar vikur. Miltisfrumur voru einangraðar og viðloðandi frumur og flotfrumur aðgreindar með ræktun á frumu­ræktardiskum í tvær klukkustundir. Viðloðandi frumur og flotfrumur voru örvaðar með LPS í 24 klst. og TNF-? og IL-10 mælt með ELISA aðferð. Viðloðandi frumur og flotfrumur voru jafn­framt litaðar með flúrljómandi mótefnum gegn yfirborðssam­eind­unum CD11b (átfrumur), CD3 (T-frumur), CD19 (B-frumur) og CD49b (NK-frumur) og greindar í frumuflæðisjá. Einnig voru miltisfrumur litaðar með flúrljómandi mótefnum gegn ofangreindum yfirborðssameindum ásamt flúrljómandi mótefni gegn TNF-? og greindar í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Fiskolía í fæði músa hafði ekki áhrif á LPS örvaða TNF-? og IL-10 myndun viðloðandi miltisfrumna. Hins vegar mynduðu flotfrumur úr músum sem fengu fiskolíubætt fóður meira TNF-? og IL-10 en flotfrumur úr músum sem fengu kornolíubætt fóður. Stærsti hluti TNF myndandi frumna voru átfrumur. Hlutfall átfrumna var minna meðal flotfrumna en meðal viðloðandi frumna. Hins vegar var hærra hlutfall átfrumna sem tjáðu mikið af CD11b meðal flotfrumna. Fiskolía í fæði jók hlutfall CD11bhigh frumna í milta.

Ályktanir: Fiskolía í fæði músa eykur hlutfall ákveðinnar tegundar átfrumna (CD11bhigh) í milta. Aukið hlutfall þessara frumna meðal flotfrumna úr miltum músa sem fengu fiskolíuríkt fóður skýrir líklega aukna frumuboðamyndun þeirra.

V 28 Samband DNA skemmda í heilkjarnafrumum úr blóði og heildarandoxunargetu plasma við fjölómettaðar fitusýrur í rauðum blóðkornum úr konum

Auður Ý. Þorláksdóttir1, Guðrún V. Skúladóttir2, Laufey Tryggvadóttir3, Anna L. Pétursdóttir2, Sigrún Stefánsdóttir3, Hafdís Hafsteinsdóttir3, Helga M. Ögmundsdóttir3, Jórunn E. Eyfjörð3, Jón J. Jónsson1, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 3Krabbameinsfélag Íslands

ih@hi.is

Inngangur: Talið er að oxun fjölómettaðra fitusýra fjölgi myndefnum lípíðperoxunar og minnki andoxunargetu og að hvoru tveggja geti leitt til aukinna DNA skemmda.

Efniviður og aðferðir: Safnað var blóðsýnum úr 99 konum. Fitusýrusamsetning í rauðum blóðkornum var greind í gasgreini. Andoxunarvirkni í plasma var mæld með TEAC aðferð. DNA brot, H2O2 framkallaðar DNA skemmdir og basaskemmdir greindar með formamídópýrimídín glýkósýlasa (FPG) í einkjarna frumum voru metnar með halaaðferð (comet assay). Styrkur tókóferóla og karótenóíða í plasma var mældur með vökvagreini. Upplýsingar um lífsstílsþætti fengust með spurningalista (reykingar, áfengisneysla og lýsisneysla) og líkamsþyngd og hæð var skráð. Samband milli breyta var metin með Pearsons fylgnistuðli og fjölþátta aðhvarfsgreiningu.

Helstu niðurstöður: Jákvæð fylgni var milli heildarandoxunargetu í plasma og n-3 fjölómettaðra fitusýra í rauðum blóðkornum. Neikvæð fylgni var milli heildarandoxunargetu og n-6 fitusýra sem skýrðist af sterkri neikvæðri fylgni milli n-6 og n-3 fjölómettaðra fitusýra í rauðum blóðkornum. Jákvæð fylgni var milli DNA brota í einkjarna frumum og fjölómettaðra (n-3 og n-6) fitusýra í rauðum blóðkornum. Engin fylgni var milli H2O2 framkallaðra DNA skemmda og fjölómettaðra fitusýra, né milli FPG-staða í DNA og fjölómettaðra fitusýra. Þá var engin fylgni milli DNA skemmda í einkjarna frumum úr blóði og heildarandoxunargetu í plasma.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að aukinni inntöku á ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum fylgi aukin andoxunargeta í plasma. Hin jákvæða fylgni milli DNA brota í einkjarna frumum og fjölómettaðra fitusýra í rauðum blóðkornum er ekki talin tengjast oxun þar sem engin fylgni var milli sértækari oxunarskemmda á DNA og fjölómettaðra fitusýra í rauðum blóðkornum.

V 29 Áhrif af ofáti fjölómettaðra fitusýra á líkamsþyngd og fitusýrusamsetningu vefja í rottum

Kjartan Ólafsson1, Guðrún V. Skúladóttir1, Jón Ó. Skarphéðinsson1, Ragn­hildur Heiðarsdóttir1, Aðalheiður R. Jóhannesdóttir1, Helgi B. Schiöth2, Logi Jónsson1

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2taugalífeðlisfræðideild Háskólans í Uppsölum

kjartol@hi.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að þegar dýr fá mjög hátt hlutfall orku (58%) úr fitu, leiðir neysla á fóðri með háu hlutfalli af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum til minni fitusöfnunar en neysla á öðrum gerðum af fitusýrum. Tilgangur þessarar tilraunar var að kanna áhrif ofáts af fóðri með orkuinnihald úr fitu í meðallagi (7,5%) en með mismunandi fjölómettun á þyngdaraukningu og fitu­sýru­samsetningu fituefna í blóðvökva, fituvef og rákóttum vöðva.

Efniviður og aðferðir: Wistar rottum var skipt í þrjá fóðurhópa, sem innihélt mettaða fitu (tólg), ómega-6 fjölómettaða fitu (sólblómaolíu) eða ómega-3 fjölómettaða fitu (lýsi). Orkuinnihald fitu í fóðri var 7,5%. Ofát og offita var framkölluð með stöðugu innrennsli af hindra melanókortín viðtaka í heilahol í 14 daga. Viðmiðunardýr fengu tilbúinn mænuvökva.

Niðurstöður: Dýrin sem fengu hindrann átu 50% meira fóður og þyngdaraukningin var fjórfalt meiri en hjá viðmiðunardýrunum. Í fosfólípíðum vöðva leiddi ofát í fóðurhópunum þremur til hærri hluta (%) af einómettuðum fitusýrum og ómega-6 fitusýrunni línólsýru og til lægri hluta af ómega-6 fitusýrunni arakidónsýru (AA) og ómega-3 fitusýrunni dókósahexaensýru (DHA) en í viðmiðunardýrunum. Jákvætt línulegt samband var á milli hluts DHA í fos­fólípíðum blóðvökva og vöðva. Tilraunadýrin sem fengu lýsisfóður höfðu lægri hlut af AA og hærri af DHA í fosfólípíðum vöðva borið saman við þau dýr sem fengu tólg- eða sólblómafóður.

Ályktanir: Lífsnauðsynlega ómega-3 fitusýran DHA í fæðu end­ur­speglast í fosfólípíðum blóðvökva og verður byggingarefni fitu­efna himnu í vöðva. Fitusöfnun sem myndast við ofát virðist vera óháð gerð fitusýra í fóðri, þegar hlutfall orku úr fitu er í með­­al­lagi.

V 30 Áhrif ómega-3 fjölómettaðra fitusýra á frumuboða­mynd­un kviðarholsátfrumna in vitro

Ingibjörg Helga Skúladóttir, Ólöf Birna Margrétardóttir, Dagbjört Helga Pétursdóttir, Ingibjörg Harðardóttir

Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ

ih@hi.is

Inngangur: Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur hafa margvísleg áhrif á bólgu- og ónæmissvör. Þessi áhrif ómega-3 fitusýra eru talin að hluta vera vegna áhrifa ómega-3 fitusýra á frumuboðamyndun. Niðurstöður rannsókna á áhrifum ómega-3 fitusýra á frumuboðamyndun kviðarholsátfrumna ex vivo og in vitro hafa ekki verið samhljóða. Mismunandi niðurstöður gætu skýrst af því að í in vitro rannsóknum hefur verið notast við frumulínur en ekki frumur beint úr kviðarholi músa. Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif ómega-3 fjölómettaðra fitusýra á myndun bólguhvetjandi frumuboða, TNF-?, og bólguhemjandi frumuboða, IL-10, í kviðarholsátfrumum úr músum in vitro.

Efniviður og aðferðir: Frumum var safnað úr kviðarholi BalbC músa og þær viðloðunareinangraðar og ræktaðar með og án mismunandi fitusýra (línólsýru (LA), arakídonsýru (AA), eikósapentaensýru (EPA) og dókósahexaensýru (DHA)). Fyrir ræktun voru fitusýrurnar tengdar albúmíni í hlutfallinu 3:1 í 16 klst. Fitusýrurnar voru fjarlægðar áður en frumurnar voru örvaðar með LPS í 24 klst. TNF-? og IL-10 var mælt með ELISA-aðferð.

Niðurstöður: Kviðarholsátfrumur sem voru ræktaðar með ómega-3 fitusýrunum, EPA og DHA, mynduðu meira TNF-? og minna IL-10 en kviðarholsátfrumur sem voru ræktaðar með ómega-6 fitusýrunum, LA og AA. Þessar niðurstöður eru samhljóða niðurstöðum okkar og annarra á áhrifum ómega-3 fitusýra á frumuboðamyndun kviðarholsátfrumna músa ex vivo.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að áhrif ómega-3 fitusýra í rækt á frumuboðamyndun kviðarholsátfrumna úr músum in vitro eru svipuð áhrifum ómega-3 fitusýra í fæði á frumuboðamyndun kviðarholsátfrumna ex vivo. Þessar niðurstöður benda til að hægt sé að nota in vitro rannsóknir á kviðarholsfrumum úr músum til að kanna með hvaða hætti ómega-3 fitusýrur hafa áhrif á frumuboðamyndun þeirra.

V 31 Tjáning kítínasa-líkra gena breytist með kítósan með­höndlun á manna hnattkjarna átfrumulínu (THP-1)

Ólafur B. Einarsson1, Jón M. Einarsson2, Jóhannes Gíslason2, Finnbogi R. Þormóðsson1

1Rannsóknarstofan í líffærafræði HÍ, 2Primex ehf.

olafure@hi.is

Inngangur: Kítínasa-lík gen tjá prótein í mönnum með tiltölulega óþekkta virkni. Þetta eru prótein eins og HCgp-39 / YKL-40, YKL-39, TSA1902 / AMCase og Chitotriosidase. Aðeins AMCase og Chitotriosidase hafa reynst vera með kítín ensímvirkni (Owhashi M 2000) en virkni hinna próteinanna er lítið þekkt. Aukin tjáning próteinanna hefur leitt í ljós tengsl þeirra við ýmis meinferli og er hún meðal annars talin merki um mismunandi stig eða þróun krabbameina (Morrison BW, Leder P 1994; Jensen BV 2003; Hogdall EV 2003; Tanwar MK 2002; Johansen JS 2003). Aukin HCgp-39 tjáning hefur verið tengd við glioblastoma multiforme krabbamein í stórátfrumum umhverfis æxlisvöxt (Shostak K 2002) og tjáningin því ekki endilega í æxlifrumum krabbameina. Við könnuðum tjáningu genanna í ýmsum vefjasöfnum og í æxlisfrumulínunni THP-1. Í framhaldi af því könnuðum við hvort hægt væri að hafa áhrif á þessa tjáningu með kítósan meðhöndlun.

Efniviður og aðferðir: Tjáning í vefjum var skoðuð í aðkeyptum cDNA söfnum (Clontec). THP-1 frumulína var fengin frá ATCC og viðhaldið í rækt með RPMI-1640 æti 5% kálfasermi, 100 U penicillín/ml og 100 µg afstreptómýcín/ml (Gibco). Frumur voru meðhöndlaðar með 10-7 M PMA (Sigma) og 500 µg/ml kítósan (Primex). RNA var einangrað með Triagent (Molecular probes) aðferð og cDNA búið til með revertAidTM (Fermentas) með oligo(dT)18 primerum. Taq DNA polymerasi (Fermentas) war notaður fyrir hefðbundin PCR hvörf.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að kítínasa-lík gen eru tjáð í örvuðum (PMA) og óörvuðum THP-1 frumum. Þá sýna bráðabirgðaniðurstöður að hægt er að hafa áhrif á þessa tjáningu með kítósan meðhöndlun frumnanna í rækt.

V 32 Bólgueyðandi áhrif methotrexats (MTX) byggist ekki á eyðingu (apoptosis) heldur á bælingu virkjunar- og við­loð­unarsameinda T-eitilfrumna

Andrew Johnston, Jóhann Elí Guðjónsson, Hekla Sigmundsdóttir, Björn Rúnar Lúðvíksson, Helgi Valdimarsson

Læknadeild HÍ, ónæmisfræðideild Landspítala

andrewj@landspitali.is

Inngangur: Tiltölulegar litlir skammtar af MTX er algeng og yfirleitt áhrifarík meðferð gegn sóra eða iktsýki (RA). Það er hins vegar ekki ljóst hvernig MTX hamlar gegn þessum sjúkdómum. Upphaflega var talið að MTX hefði beina hamlandi virkni á fjölgun hornfrumna í sórasjúklingum. Nú er hins vegar vitað að offjölgun hornfrumna í sóra er drifin áfram af efnum sem myndast við samspil T-frumna og makrófaka í sóraútbrotum. Við rannsökuðum því áhrif MTX á T-frumur.

Efniviður og aðferðir: Hnattkjarna hvítfrumur voru einangraðar úr blóði og örvaðar með streptókokka antigenum, ofurvökum (superantigen) eða PHA. Áhrif MTX upp í 10µM þéttni á tjáningu viðloðunar- og ræsisameinda T-frumna voru könnuð í flæðifrumu­sjá. Einnig var kannað hvort MTX örvar apoptosis T-frumna, þá voru könnuð áhrif MTX á adenosinháð innanfrumu­boðferli.

Niðurstöður: MTX hindraði ræsingu T-frumna og tjáningu þeirra á viðloðunarsameindum. Þessi bæling tengdist ekki apoptosu. Bæling á viðloðunarsameindinni ICAM-1 var háð adenosini, en bæling á húðsæknisameindinni cutaneous lymphocyte antigen (CLA) var óháð adenosini. MTX þurfti að vera til staðar allan ræktunartímann (3-5 daga) til þess að viðhalda bælingu á CLA, en bæling á ICAM-1 hélt áfram eftir að MTX var fjarlægt úr ræktunum.

Ályktanir: Það er ólíklegt að bólguhamlandi áhrif MTX byggist á því að lyfið drepi T-frumur. Hins vegar bælir MTX ræsingu T-frumna og tjáningu viðloðurnarsameinda. Þessi bælivirkni er sumpart háð uppsöfnun á adenosini og sumpart ekki.

Þakkir: Styrkt af Evrópusambandinu.

V 33 Viðbótarræsing í gegn um CD28 upphefur bæliáhrif TGF-ß1 á eitilfrumur

Brynja Gunnlaugsdóttir1,3, Sólrún Melkorka Maggadóttir2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2,3

1Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum, 2læknadeild HÍ, 3ónæmisfræðideild rannsóknastofnunar Landspítala

brynja@landspitali.is

Inngangur: Transforming growth factor beta1 (TGF-?1) er eitilfrumuboðefni (cytokín) sem hefur umfangsmikil áhrif á T-frumu­starfsemi og er forsenda T-frumujafnvægis. Ekki er ljóst hvort áhrif TGF-?1 á T-frumur ráðast af svipgerð (CD4 vs. CD8) eða ræsingarstyrk (lágur vs. hár styrkur anti-CD3 +/- anti-CD28). Markmið rannsóknarinnar var að svara þessari spurningu.

Efniviður og aðferðir: Óþroskaðar T-frumur voru einangraðar úr naflastrengsblóði og ræstar með ?CD3 (0,1 og 10 ?g/mL) með og án ?CD28 með eða án TGF-?1 (10 ng/mL) í fjóra daga. Frumufjölgun (3H-Thymidín innlimun) og styrkur cytokína í rækt voru mæld.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að áhrif TGF-B1 mótast að verulegu leyti af hvoru tveggja svipgerð markfrumna og ræsingarstyrk. Þannig reyndust CD8+ frumur næmari fyrir bæliáhrifum TGF-B1 en CD4+. Eitilfrumuboðefnamælingar á frumuræktarflotum sýndu að óþroskaðar T-frumur seyttu Th1 tengdum boðefnum í meirihluta. TGF-B1 bældi seytingu IL-2 (Th0), IFN? (Th1) og IL-5 (Th2) en örvaði seytingu Th2 og Th1 boðefnanna IL-10 og TNFa. Bæliáhrif TGF-B1 á IL-2 og IFNy (en ekki IL-5) reyndust háð ræsingarstyrk og féllu að miklu leyti niður við hámarksræsingu (aCD3=10 +?CD28). Bæliáhrif TGF-B1 á fjölgun T-frumna sýndu sama mynstur.

Ályktanir: Þetta samspil TGF-B1 og ræsingar er mikilvægt í ljósi þeirra aðstæðna sem gera má ráð fyrir að séu raunverulega fyrir hendi in vivo. Ekki er æskilegt að veik boð um CD3 stuðli að öflugri ræsingu óþroskaðra T-frumna. Ef að T-fruman fær hins vegar öflug boð um hvoru tveggja T-frumuviðtakann og hjálparsameindir er það vísbending um að hún þurfi að verjast utanaðkomandi áreiti og því er æskilegt að hún starfi með óheftum hætti.

V 34 Veirusýking í nef og svipgerð eitilfrumna í neftengdum eitilvef

Ingibjörg Ólafsdóttir1, Jóna Freysdóttir1, Arnór Víkingsson1,2, Ingibjörg Harðardóttir3, Auður Antonsdóttir4, Friðrika Harðardóttir1

1Lyfjaþróun hf., 2gigtlækningadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ, 4rannsókna­stofa í veirufræði Landspítala

fridrika@lyf.is

Inngangur: Á síðustu árum hefur áhugi manna beinst að því að gefa lyf og bóluefni um nef enda hefur verið sýnt fram á að með því má fá mjög öflugt ónæmissvar. Talið er að ónæmisvakning eigi sér stað í neftengdum eitilvef (NALT) sem leiði til ræsingar ónæmiskerfsins. Þær frumur sem taka þátt í ónæmissvarinu hafa hins vegar ekki verið vel skilgreindar né heldur hlutverk þeirra og samspil í stjórnun svarsins. Ennfremur er lítið vitað um hvaða áhrif til dæmis sýking í nefi geti haft á lyfjagjöf eða bólusetningu um nef. Markmið þessa verkefnis var að fylgja eftir ónæmissvari gegn staðbundinni veirusýkingu í nefi.

Efniviður og aðferðir: Rottur voru sýktar í nef með Respiratory Syncytial veiru. Við höfðum áður sýnt fram á að í þessu sýkingarlíkani fæst staðbundin sýking í nefslímhúð. Tveimur, 5, 12 og 30 dögum síðar voru NALT, hálseitlar (CLN) og milta fjarlægð úr sýktum rottum og ósýktum til samanburðar. Veirusýking í nef­slímhúð var metin með flúrlitun. Svipgerð eitilfrumna í þessum líffærum var skoðuð með því að lita frumur með flúrskinsmerktum einstofna mótefnum gegn ýmsum yfirborðssameindum og þær skoðaðar í flæðifrumusjá. Á 30. degi voru rottur endursýktar með RSV og þrem og 12 dögum síðar voru NALT, CLN og milta fjarlægð úr þeim og skoðuð eins og fyrr.

Niðurstöður: Niðurstöður okkar sýna að hlutfall eitilfrumna í heilbrigðu NALT er frábrugðið því sem finnst í öðrum eitil­vefjum. Þar er aukið hlutfall B frumna og CD4/CD8 hlufall er 3:1 meðan það er nær 2:1 í öðrum eitilvefjum. Við sýkingu í nef sést íferð eitilfrumna í neftengda eitilvefinn sem nær hámarki á 5. degi en lækkar síðan en eykst aftur við endursýkingu. Við sýkingu eykst fjöldi CD8+ frumna í NALT. Við mælum nær engar T frumur þar né NK frumur.

Ályktanir: Þessar niðurstöður gefa innsýn inn í ferli veirusýkingar í nefi og samspil frumna sem taka þátt í því.

Þakkir: RANNÍS styrkti verkefnið.

V 35 Komplement 4B (C4B) á þátt í meingerð í Henoch-Schönlein purpura en ekki Mannose binding lectin (MBL)

Valtýr Stefánsson Thors1,3, Ragnhildur Kolka2, Sigrún L. Sigurðardóttir2, Viðar Örn Eðvarðsson1,3, Guðmundur Arason2, Ásgeir Haraldsson1,3

1Barnaspítali Hringsins, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3læknadeild HÍ

valtyrst@yahoo.com

Inngangur: Henoch-Schönlein purpura (HSP) er æðabólga af óþekktum toga sem leggst nánast eingöngu á börn. Klínísk einkenni sjúkdómsins eru purpurarauð útbrot auk liðverkja og kviðverkja. Tíðni sjúkdómsins er um 6-8 tilfelli á ári.

Æðabólgurnar stafa af útfellingum á mótefnafléttum af IgA gerð í smáar æðar í húð og nýru auk meltingarvegar. Líklegt er að hreinsun þessara mótefnafléttna úr blóðrásinni sé ábótavant. Komplement 4 (C4) er mikilvægt prótein í komplementkerfinu og sérstaklega við hreinsun mótefnafléttna. Þetta gæti endurspeglað lykilhlutverk C4 í meingerð HSP. Próteinið hefur 2 ísótýpur, C4A og C4B sem gegna misjöfnu hlutverki.

Tilgangur rannsóknarinnar var því að kanna hvort sjúklingar sem greinst hafa með HSP hafi aukna tíðni komplementgalla eða óeðlileg gildi á MBL eða IgA.

Efniviður og aðferðir: Sermi úr 56 sjúklingum sem greinst höfðu með HSP á árunum 1984-2000 var rannsakað. Gildi IgA, C4, C4A og MBL voru mæld í sermi og magn C4B var reiknað út. Samanburðarhópur var notaður til viðmiðs.

Niðurstöður: Flestir sjúklinganna (66%) höfðu skort á að minnsta kosti einni C4 samsætu (C4 null allele) samanborið við 41% viðmiðunarhópnum (p=0,018). Þessi munur var vegna skorts á C4B samsætum í HSP hópnum þar sem samsætutíðni (allele frequency) af C4B*Q0 hjá HSP hópnum var 0,25 en 0,11 hjá viðmiðunarhópi (p=0,002). MBL og IgA gildi voru sambærileg milli hópanna.

Umræða: Almennt er HSP sjúkdómur sem gengur yfir án verulegra vandamála. Hins vegar er vel þekkt að langvarandi vandamál tengd nýrnabólgu auk kviðverkja geta haft talsverð áhrif á líf þessara barna. Rúm 66% HSP sjúklinga höfðu C4 núll samsætu og marktækt fleiri en í viðmiðunarhópi. Niðurstöður okkar benda til þess að C4B eigi hlut að máli í meingerð HSP og börn með C4 galla eru í aukinni áhættu að fá sjúkdóminn.

V 36 Hvað er rykmauraofnæmi í rykmaurafríu samfélagi?

Berglind Aðalsteinsdóttir1, Davíð Gíslason2, Þórarinn Gíslason2, Bjarne Kristensen3, Helgi Valdimarsson4, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir4

1Læknadeild HÍ, 2göngudeild ofnæmis-, lungna- og svefnsjúkdóma Land­spít­ala, 3Pharmacia Diagnostics Kaupmannahöfn, 4rannsóknastofa í ónæm­is­fræðum Landspítala

davidg@landspitali.is

Inngangur: Í Evrópurannsókninni Lungu og heilsa árið 1990 (ecrhs.org) höfðu 9,2% þátttakenda sértæk IgE mótefni (?0,35 kU/l) gegn rykmaurum (D. pteronyssinus). Þegar könnuð var útbreiðsla rykmaura í húsum 197 þátttakenda fannst óverulegt magn rykmaura og ofnæmisvaka þeirra (Hallas et al. Allergy 2004). Skýrist rykmauraofnæmið af búsetu erlendis eða af krosssvörun við aðra ofnæmisvaka?

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur komu úr Evrópurannsókninni Lungu og heilsa 1990 og 2000 (ELH-I og ELH-II). Annars vegar þeir sem höfðu sértæk IgE mótefni fyrir rykmaurum en hins vegar samanburðarhópur neikvæður fyrir rykmaurum en jákvæður fyrir grasfrjói. Rykmaurahópnum var skipt upp í þrjá undirhópa: 1. jákvæðir 1990 og 2000 (+/+, n=24), 2. jákvæðir 1990 en neikvæðir 2000 (+/-, n=20), 3. neikvæðir 1990 en jákvæðir 2000 (-/+, n=4). Spurt var um búsetu erlendis, búsetu/dvöl í sveit, hestamennsku, fisk-/skelfisksóþol, viðbrögð við flugnabiti og um fiskabúr. Einnig var notað gagnasafn ELH. Sértæk IgE mótefni voru mæld fyrir sjö ofnæmisvökum með þekkt krossnæmi við rykmaura.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 48 í rykmaurahópnum og 35 í viðmiðunarhópnum. Í +/+ hópi voru karlar 75% en 31% í viðmiðunarhópi (p<0,01). Öll IgE mótefni reyndust neikvæð í viðmiðunarhópi en í +/+ hópi voru 67% (16/24) jákvæðir fyrir heymaur (p<0,0001), 58% fyrir rækju (p<0,0001), 33% fyrir kakkalökkum (p<0,01), 17% fyrir moskító og tropomyosini (p<0,05), 13% fyrir kleggi og 4% fyrir blóðormi. Alls voru 75% jákvæðir fyrir einu mótefni eða fleirum. Ekki var marktækur munur á búsetu erlendis milli hópa en fleiri höfðu verið í sveit á sumrin í +/+ hópnum en í viðmiðunarhópnum (p<0,05).

Ályktanir: Ekki var unnt að tengja jákvæð RAST próf fyrir ryk­maurum við búsetu erlendis. Jákvætt RAST fyrir rykmaurum tengj­ast sterklega krosssvörun við aðra ofnæmisvaka, sérstaklega heymaura.

V 37 Samanburður á ofnæmisástandi barna sem fædd eru á Indlandi og ættleidd til Íslands og barna sem fædd eru á Ísland og alin upp við sambærilegar aðstæður

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Hrefna Grímsdóttr2, Unnur Steina Björnsdóttir3, Michael Clausen4, Gestur I. Pálsson4

1Rannsóknastofnun Landspítala, ónæmisfræðideild, 2læknadeild HÍ, 3göngu­deild lungna, ofnæmis og svefns Landspítala, 4Barnaspítali Hringsins

veiga@landspitali.is

Tilgangur: Aukin tíðni á ofnæmissjúkdómum í hinum vestræna heimi er talin geta stafa af hreinlæti. Til að meta áhrif umhverfis á nýburaskeiði á tilkomu ofnæmissjúkdóma síðar, bárum við saman tvo hópa íslenskra barna sem fæddir eru við mismunandi aðstæður en aldir upp í sambærilegu umhverfi; indverskættuð börn sem ættleidd eru frá Kalkútta á Indlandi (hópur I) og börn sem fædd eru og uppalin á Íslandi (hópur II).

Efniviður og aðferðir: Ofnæmisástand hópanna var borið saman með stöðluðum spurningalista (ISAAC), prick húðprófum fyrir átta ofnæmisvökum í lofti og fimm í fæðu og heildar-IgE í blóði. Aldursstaðlaður viðmiðunarhópur fékkst frá ættingjum og vin­um á sama tíma. Einnig var athugað hvort útsetning fyrir lifrar­bólgu A (IgG mót­efni við komu til Íslands), Salm­onella eða Cam­phylobacter (jákvæð saur­ræktun við komu til Íslands) hefði áhrif á ofangreinda þætti.

Niðurstöður: 46 og 26 börn fengust í hóp I og II, meðalaldur 8 og 7,4 ár. Enginn munur var á hópunum með tilliti til jákvæðra húðprófa, 19 (41%) og 9 (32%) (OR: 1,2; p=0,8); sögu um hvæsiöndun 13 (28%) og 8 (30%), (OR: 0,9; p=1,0); eða exem 12 (26%) og 9 (35%) í hópi I og II. Vegið meðaltal IgE í sermi var 65,4 og 19,1 kU/L (P=0,024; T-próf) í hópi I og II. Börn með IgG fyrir lifrarbólgu A (N=14) höfðu lægra IgE en þau sem voru neikvæð; 64,82 miðað við 16 KU/L (P=0,006; T-próf).

Niðurstaða: Enginn marktækur munur fannst á húðprófum eða sögu um ofnæmissjúkdóma í börnum sem fædd voru á Indlandi og ættleidd til Íslands miðað við börn sem fædd voru á Íslandi og alin upp við sambærilegar aðstæður. Útsetning fyrir hepatitis A snemma á lífsleiðinni getur leitt til lægra IgE síðar. Samt sem áður var heildarmagn IgE hærra í ættleiddu börnunum.

V 38 Áhrif endurbólusetningar með fjölsykrubóluefni gegn pneumó­kokkum (PPS) á ónæmisminni barna sem voru frum­bólu­sett með próteintengdu fjölsykrubóluefni (Pnc) sem unga­börn

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Katrín Davíðsdóttir2, Ingileif Jónsdóttir1,3

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Miðstöð heilsuverndar barna, 3læknadeild HÍ

veiga@landspitali.is

Tilgangur: Við höfum áður sýnt fram á öryggi og ónæmisvekjandi eiginleika 8-gilda bóluefnisins PncT (hjúpgerðir 3, 4, 6B, 9V, 14, 18C, 19F og 23F, tengdar tetanus próteini) (Aventis Pasteur) þegar gefið við 3, 4 og 6 mánaða aldur. Endurbólusetning með 23-gildu PPS olli sambærilegu eða hærra IgG svari og PncT við 13 mánaða aldur. Til að svara hvort fullur skammtur af PPS geti eytt ónæmisminni sem varð til við bólusetningu með PncT, rann­sökuðum við endursvar hjá sömu börnum við 1/10 af PPS skammti þegar þau voru 7 ára að aldri.

Efniviður og aðferðir: Mælt var magn og sækni sértækra IgG mótefna, magn sértæks IgG1 og IgG2 (ELISA) og tilvist B-minnisfrumna (CD19+, CD80+, CD27+, FACS) og borið saman við óbólusett börn á sama aldri. Af 41 barni höfðu 17 fengið PncT við 13 mánaða aldur (PncT-hópur), 15 fengið PPS (PPS-hópur) og 9 höfðu ekki áður verið bólusett gegn pneumókokkum (viðmið). Blóðprufur voru teknar á degi 0, 7 og 28.

Niðurstöður: GMC IgG (?g/ml), 4 vikum eftir 1/10 PPS við 7 ára (tafla I). Viðmiðunarhópurinn svaraði engri af 8 PncT hjúpgerðunum. IgG fyrir hjúpgerð 1, 5 og 7 (í PPS en ekki PncT) hækkaði fyrir hjúpgerð 1 og IgG fyrir hjúpgerðir 1 og 5 voru hærri í PPS hópnum. Tíðni B-minnisfrumna var sambærileg hjá hópunum.

Ályktanir: Ungbörn sem bólusett eru með PncT hafa enn ónæm­is­minni fyrir hjúpgerðum bóluefnisins við 7 ára aldur. Endur­bólu­setning með PPS við 13 mánaða aldur eyðir ekki B-minnisfrumum í börnum sem áður voru bólusett með PncT.

V 39 Áhrif ónæmisglæðanna MF-59, CpG, LT-R72 og LT-K63 á ónæmissvar nýburamúsa gegn próteintengdum pneumó­kokkafjölsykrum með slímhúðar- og stungubólu­setningu

Brenda C. Adarna1,2, Håvard Jakobsen1,2, Emanuelle Trannoy3, Giuseppe del Giudice4, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Aventis Pasteur, Frakk­landi og IRIS, 4Chiron Srl, Ítalíu

ingileif@landspitali.is

Inngangur: Við höfum áður sýnt að bóluefni (Pnc-TT) úr pneumó­kokkafjölsykrum (PPS) tengdum við burðarpróteinið tetanus toxóíð (TT) geta vakið mótefnasvar í nýburamúsum og verndað þær gegn pneumókokkasýkingum. Ónæmisglæðirinn LT-K63 var öruggur og jók mótefnasvarið ef hann var gefinn með Pnc-TT, undir húð eða með nefdropum.

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn voru áhrif ónæmisglæðanna MF-59, CpG-ODN, LT-R72 og LT-K63 (viðmið), á mótefna­svar nýburamúsa gegn Pnc-TT prófuð, en þeir eru taldir öruggir til notkunar í mönnum.

Niðurstöður: Marktæk hækkun PPS-mótefna varð þegar CpG, LT-R72 eða LT-K63 voru gefnir með Pnc-TT bæði undir húð og um nef. Ónæmisglæðarnir juku myndun IgG2a og IgG3 mótefna, sem Th1-frumur hvetja, og var aukningin sambærileg við stungu- og slímhúðarbólusetningu. Auking á IgG1 sem Th2 frumur hvetja var meiri eftir bólusetningu undir húð en aukning á IgG2b, sem TGFß hvetur, var meiri eftir bólusetningu um nef. MF-59 jók PPS-mótefnasvar marktækt einungis þegar bólusett var undir húð. Áhrif ónæmisglæðanna á mótefni gegn TT- og PPS- hlutum bóluefnisins voru sambærileg, og áhrifin voru sambærileg á svörun gegn PncTT bóluefnum af hjúpgerðum 1 og 19F.

Ályktanir: Við drögum þá ályktun að ónæmisglæðar geti aukið fjölsykrusértækt mótefnasvar nýbura með próteintengdum fjölsykrum, og CpG og LT-afbrigði séu virk bæði við stungu undir húð og í nefdropum. LT-K63 er algerlega afeitraður, öruggur og mjög virkur ónæmisglæðir og virðist ákjósanlegur til bólusetningar nýbura til varnar gegn sýkingum af völdum fjölsykruhjúpaðra baktería.

V 40 Virkni og verndandi eiginleikar nýs próteintengds fjöl­­­sykrubóluefnis pneumókokka, Pnc6B-FHA, í nýfæddum mús­um

Brenda Ciervo Adarna1,2, Håvard Jakobsen1,2, Jean-Francois Haeuw3, Ultan F. Power3, Camille Locht4, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Centre d´Immunologie Pierre-Fabre, Frakklandi, 4Institute Pasteur-Lille, Frakklandi

ingileif@landspitali.is

Inngangur: Próteintengd fjölsykrubóluefni geta vakið ónæmis­svar snemma á ævinni. Tetanus toxóíð-tengd fjölsykrubóluefni pneumókokka (Pnc-TT) vekur verndandi ónæmi gegn pneumó­kokkasýkingum. Nýtt bóluefni úr 6B-fjölsykru tengdri við pró­teinið FHA var smíðað, en FHA er einn aðalsýkiþáttur B. pertussis og hafa samstarfsaðilar okkar sýnt fram á ónæmisglæðandi eiginleika þess og aukna mótefnamyndun gegn próteinum sem voru gefin samtímis, einkum í lípósómum, með bólusetningu um nef. Við höfum áður sýnt að virkni og vernd Pnc6B-FHA var sambærileg við Pnc6B-TT við bólusetningu fullorðinna músa undir húð. Slímhúðarbólusetning með Pnc6B-FHA án ónæmis­glæðis vakti mótefnamyndun og vernd gegn blóðsýkingu. Þessa niðurstöður hvöttu okkur til að rannsaka nýja bóluefnið Pnc6B-FHA í nýfæddum músum og bera saman við Pnc6B-TT.

Efniviður og aðferðir: Nýfæddar mýs voru bólusettar þrisvar með 2 eða 5 µg af Pnc6B-FHA eða Pnc6B-TT, undir húð eða með nefdropum. Mótefni í sermi voru mæld með ELISA. Mýsnar voru sýktar um nef með pneumókokkum af hjúpgerð 6B og fargað til að meta vernd gegn blóðsýkingu og lungnasýkingu með talningu bakteríuþyrpinga.

Niðurstöður: Bæði Pnc6B-FHA og Pnc6B-TT (bæði 2 og 5 µg) vöktu marktæka myndun PPS-sérstækra mótefna, bæði með bólu­setningu undir húð og um nef, án þess að ónæmisglæðar væru gefnir með. Vernd fékkst gegn blóðsýkingu en ekki gegn lungnasýkingu.

Ályktanir: Við drögum þá ályktun að FHA sé gott burðarprótein fyrir pneumókokkafjölsykrur og ónæmisvekjandi og verndandi eiginleikar Pnc6B-FHA í nýburamúsum sambærilegir við Pnc6B-TT. Slímhúðarbólusetning með prótein-tengdum fjölsykrum virðist raunhæf leið til að vernda nýbura gegn sýkingum af völdum fjölsykruhjúpaðra baktería.

V 41 Bólusetning sandhverfu (Scophthalmus maximus L.) gegn kýlaveikibróður og vetrarsárum

Bryndís Björnsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir, Bergljót Magnadóttir, Bjarn­heiður K. Guðmundsdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

bryndisb@hi.is

Inngangur: Bakteríusjúkdómar hafa valdið töluverðum usla í eldi sandhverfu (Scophthalmus maximus L.) í Evrópu. Meðal þeirra baktería sem einangrast hafa úr sjúkri sandhverfu eru týpískir og atýpískir stofnar Aeromonas salmonicida og sýnt hefur verið fram á með tilraunasýkingum að sandhverfa er næm fyrir Moritella viscosa (Mv). A. salmonicida undirt. achromogenes (Asa) veldur kýlaveikibróður í ýmsum fisktegundum og Mv veldur vetrarsárum í laxfiskum og þorski (Gadus morhua L.). Fjölgilda laxabóluefnið Alphaject 5200 hefur verið notað til að bólusetja lax (Salmo salar L.) gegn Asa og Mv. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort Alphaject 5200 gæti varið sandhverfu gegn Asa og Mv sýkingum og að meta hliðarverkanir bólusetningarinnar.

Efniviður og aðferðir: Sandhverfa (50g) var bólusett með Alpha­ject 5200 við 14°C og 13 vikum síðar var fiskurinn sýktur með Asa eða Mv við 9°C. Sandhverfa sprautuð með saltdúa eða olíu­­ónæmisglæði var notuð sem viðmið. Fylgst var með fiskinum í fimm vikur eftir sýkingu og sýking staðfest með einangrun viðkom­andi bakteríu úr framnýra. Fiskurinn var veginn og samgrón­ing­ar í kviðarholi metnir. Sermi var safnað og notað til að mæla mótefni gegn bakteríunum með ELISA prófi.

Niðurstöður: Bólusetning með Alphaject 5200 varði sandhverfu hvorki gegn Asa né Mv sýkingu. Sandhverfa myndaði mótefni gegn frumum Asa eftir bólusetningu en ekki gegn frumum Mv. Mótefnasvar gegn Mv hækkaði í öllum hópum eftir sýkingu en lítil breyting varð á svari hópanna gegn Asa. Smávægilegir samgróningar sáust í kviðarholi bólusettra sandhverfa en þeir höfðu ekki marktæk áhrif á vaxtarhraða fisksins.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að laxabóluefnið Alphaject 5200 henti ekki til bólusetningar gegn Asa og Mv í sandhverfu.

V 42 Þroskun ónæmiskerfis þorsks, Gadus morhua L. greind með rafdrætti, ónæmis- og ensímvefjaskoðun

?Bergljót Magnadóttir1, Sigrún Lange1, Slavko Bambir1, Agnar Stein­ars­son2, Sigríður Guðmundsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Tilraunaeldisstöð Haf­rann­sóknarstofnunar á Stað við Grindavík

bergmagn@hi.is

Inngangur: Í þorskeldi eru orsakir affalla meðal annars raktar til tækifærissýkinga úr umhverfinu. Sjúkdómsvarnir hryggdýra skiptast í sérhæft og ósérhæft ónæmiskerfi. Sérhæfða kerfið er öflugra og sérvirkara og byggir meðal annars á framleiðslu mótefna. Sérvirkir ónæmisþættir þroskast tiltölulega seint hjá þorski og á fyrstu vikum eftir klak treysta þorskalirfur á ósérvirka ónæmisþætti til varnar gegn sýkingum, til dæmis komplementkerfið og átfrumur.

Efniviður og aðferðir: Hrogna- og lirfusýni voru tekin á tveggja mánaða tímabili, frá frjóvgun þar til 57 dögum eftir klak. Sýni voru a) fryst í fljótandi köfnunarefni og geymd við -80°C fyrir próteineinangrun, b) formalínfest fyrir ónæmisvefjaskoðun og c) sett í TissueTek og fryst fyrir ensímvefjaskoðun. Prótein voru greind í rafdrætti og ónæmisþrykki með mótefnum gegn ýmsum mótefnavökum. Sneiðar úr formalín festum sýnum voru greindar með ónæmisvefjaskoðun og fryst vefjasýni voru lituð fyrir ensímvirkni.

Niðurstöður: Vitellogenin, forðaprótein hrogna, entist þar til fóð­ur­inntaka hófst fjórum dögum eftir klak. Komplement pró­teinið C3 og tengt stjórnprótein, Apolipoprotein A-I, greindust frá og með líffæramyndun, sjö dögum eftir frjóvgun. C3 sást fyrst í kviðpokahimnu, heila og vöðva. Ekkert mótefni (IgM) kom frá hrygnu og eigin mótefnaframleiðsla greindist ekki á tímabilinu. Ensímlitanir vefjasýna voru jákvæðar í ýmsum líffærum allt frá klaki og ensímvirkni í meltingarvegi jókst fjórum dögum eftir klak.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að komplementkerfið taki þátt í þroskun líffæra auk sjúkdómsvarna. Ólíkt ýmsum fisktegundum berast mótefni ekki frá hrygnu til fósturs og eigin framleiðsla á mótefnum hefst seint. Ensímvirkni tengdist upphafi meltingar og þroskun líffæra ónæmiskerfisins, til dæmis tímus og nýra.

V 43 Mótefnasvar í þorski, bólusettum gegn Listonella anguillarum

Sigríður Guðmundsdóttir, Bryndís Björnsdóttir, Bergljót Magnadóttir, Helga Árnadóttir, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

siggag@hi.is

Inngangur: Bólusetningu er beitt til varnar ýmsum sjúkdómum í eldisfiski. Bólusetning örvar myndun sérvirkra mótefna og þótt slík svörun sé lág í þorski, getur hann getur samt öðlast vörn. Í blóði þorsks er talsvert magn náttúrulegra mótefna. Hér er greint frá rannsókn á mótefnasvari eftir bólusetningu gegn bakteríunni Listonella anguillarum, La, sem veldur víbríuveiki.

Efniviður og aðferðir: Þorskseiði, í eldi á Stað við Grindavík, voru bólusett með böðun í 30 mínútur, dýfingu í 30 sekúndur eða stungu í kviðarhol (0,1 ml). ALPHARMA Inc. lagði til sérlöguð bóluefni fyrir þorsk, sem innihalda dauðar La bakteríur af sermisgerðum O1a, O2a og O2a. Til böðunar og dýfingar var bóluefni í vatnsfasa, en stungubóluefnið var blandað olíuónæmisglæði. Blóði til mót­efna­mælinga var safnað tvisvar, fyrir stungu (15 vikum eftir böðun, 9 eftir dýfingu) og 9 vikum eftir stungu. Mótefni gegn frumum La og náttúruleg mótefni gegn TNP-BSA voru mæld í ELISA prófi og með ónæmisþrykki. Þegar bólusett var og blóði safnað var fiskurinn jafnframt þyngdar- og lengdarmældur. Áhrif ónæmisglæðis á vefi í kviðarholi voru metin 9 vikum eftir stungubólusetningu samkvæmt skala Speilbergs, en þar er ástand metið á skalanum 0-6.

Niðurstöður: Þorskur bólusettur með böðun og/eða dýfingu sýndi ekki aukningu í mótefnum gegn frumum La í ELISA prófi, en stungubólusetning hækkaði mótefnasvarið marktækt. Sams konar svaranir, en lægri, mældust gegn TNP-BSA. Í ónæmisþrykki gegn La frumum sást aðallega eitt band, nærri 33kD að stærð. Ónæmisglæðir hafði ekki áhrif á vöxt og einkenni samkvæmt kvarða Speilbergs voru 1,06 að meðaltali.

Ályktanir: Stungubólusetning olli mótefnahækkun, einkum náttúrulegra mótefna. Ónæmisglæðir hafði hverfandi áhrif á ástand vefja í kviðarholi og engin á vöxt þorsksins.

Þakkir: Verkefnið var styrkt af Tæknisjóði RANNÍS.

V 44 Hestahvítfrumur örvaðar in vitro með peptíðum og CpG röðum á tjáningarferju

Guðbjörg Ólafsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

gudbjol@hi.is

Inngangur: Sumarexem (SE) er ofnæmi í hrossum gegn próteinum sem berast við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides. Ofnæmið er af gerð I sem er ónæmissvar með IgE framleiðslu á Th2 braut. Sýnt hefur verið fram á að viss peptíð og vissar ómetýleraðar kirnaraðir úr bakteríum (CpG stef) geta virkað sem Th1 ónæmisglæðar. Ákveðin tegundasérvirkni er gagnvart CpG stefjunum, GACGTT virkar best í músum (músastef) en GTCGTT í hestum (hestastef). Markmið verkefnisins er að finna ónæmisglæða sem örva Th1 ónæmissvar í hestum með því framtíðarmarkmiði að nota þá í bóluefni gegn SE.

Efniviður og aðferðir: Prófuð voru peptíðin Polyarginine (PA) og Muramyl dipeptid (MDP) sem voru keypt frá Sigma. Einþátta raðir með tveimur músa- eða tveimur hestastefjum voru keyptar frá TAG Copenhagen. Raðirnar voru eðlissviptar, látnar þátta­tengjast með samloðunarendum og límdar inn í klippta bluescript tjáningarferju. Bluescriptferja án innskots er með einu músa- og þremur hestastefjum. Bluescriptferja án innskots og ferjur með innskotum, 8 músa- eða hestastefjum, voru einangraðar, hreinsaðar á Quiagen súlum og magnmældar. Hvítfrumur voru aðskildar úr hestablóði á sykurstigli og síðan örvaðar með mismunandi þynningum af PA, MDP og ferjum. Örvun hvítfrumna var mæld í eitilfrumuörvunarprófi með upptöku á geislavirku thymidini.

Niðurstöður og ályktanir: PA örvaði eitilfrumufjölgun í einum af sex hestum en ekki MDP. Bæði peptíðin juku örvun ef þau voru notuð með vaka. Örvað var með bluescript ferjunni; án innskots, með átta hesta- eða átta músastefjum. Bráðabirgðaniðurstöður benda til að ferjan með hestastefjunum örvi frumufjölgun meira en ferjan með músastefjunum og ferja án innskots. Til þess að athuga hvort peptíðin og ferjurnar beina svarinu á Th1 eða Th2 braut verða eitilfrumur örvaðar með kjörsamsetningu og -styrk og boðefnasnið mælt.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Aðstoðarmannasjóði HÍ og RANNÍS.

V 45 Samanburður á ónæmissvari hesta eftir prótein­bólu­setningu með tveimur mismunandi ónæmisglæðum

Guðbjörg Ólafsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Eliane Marti, Sigurbjörg Þor­steinsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

gudbjol@hi.is

Inngangur: Sumarexem (SE) er ofnæmi í hrossum gegn próteinum sem berast við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides. Ofnæmið er af gerð I sem er ónæmissvar með IgE framleiðslu á Th2 braut. Alumium hydroxid (alum) sem hefur verið ráðandi glæðir í bólu­efnum er Th2 stýrandi. Í þróun eru Th1 stýrandi glæðar sem hægt er að nota til að efla ofnæmisbóluefni. Einn þessara glæða er Monophosphoryl-lipid A (MPL) sem innheldur afeitrað lipið A úr lípópólísakkaríði (LPS) Salmonellu minnesota R595 og er Th1 stýrandi glæðir bæði í músum og mönnum. Markmið verkefnisins er að finna ónæmisglæða sem örva Th1 ónæmissvar í hestum með því framtíðarmarkmiði að nota þá í bóluefni gegn SE.

Efniviður og aðferðir: Tveir hestar voru bólusettir undir húð með human serum albumin (HSA) í alum ónæmisglæði einu sinni og aðrir tveir hestar með HSA í MPL ónæmisglæði tvisvar. Gerðar voru mælingar á sérvirkum mótefnum, IgG, IgG undirflokkum og IgE, í elísuprófi. Einnig voru hvítfrumur örvaðar in vitro með HSA og gerðar mælingar á boðefnum með rauntíma PCR, IL-4 fyrir Th2 braut og y-IFN fyrir Th1 braut, ß-actin notað sem viðmið.

Niðurstöður: Alum bólusettu hestarnir framleiddu 2-4 sinnum meira af IL-4 en y-IFN en MPL hestarnir 4-10 sinnum meira af y-IFN en IL-4. Heildar IgG og IgG undirflokkasvörun var svipuð hjá báðum hópunum. Alum hestarnir sýndu kröftugt IgE svar á viku tvö sem var stöðugt að minnsta kosti þar til í viku 11. MPL hestarnir framleiddu einnig IgE en mun minna og svarið dvínaði fljótt.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að hægt sé að nota MPL sem Th1 stýrandi ónæmisglæði í hestum.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Aðstoðarmannasjóði HÍ og RANNÍS.

V 46 Verndandi magn móðurmótefna gegn pneumókokk­um getur stuðlað að auknu ónæmissvari nýfæddra af­kvæma við bólusetningu með próteintengdum pneumó­kokka­fjöl­sykrum

Margrét Y. Richter1, Håvard Jakobsen1, Jean-François Haeuw2, Ultan F. Power2, Ingileif Jónsdóttir1,3

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2CIPF, Frakklandi, 3læknadeild HÍ

ingileif@landspitali.is

Inngangur: Móðurmótefni flytjast til fósturs á meðgöngu og geta verndað afkvæmin gegn sýkingum, en geta líka truflað ónæmissvar þeirra við bólusetningu. Við höfum sýnt að bólusetning kvenmúsa með pneumókokkafjölsykrum (PPS) tengdum tetanus toxóíði (TT), Pnc-TT, getur verndað afkvæmin gegn sýkingum mikilvægra hjúpgerða pneumókokka.

Efniviður og aðferðir: Til að kanna áhrif móðurmótefna á ónæmissvar afkvæma bólusettum við fullorðnar kvenmýs 2x með Pnc-TT og afkvæmi þeirra einnar viku (nýburar) eða þriggja vikna (ungar) gömul og 2x aftur með þriggja vikna millibili.

Niðurstöður: Há PPS sértæk móðurmótefni (>3 log10 EU/mL) í afkvæmum kvenmúsa sem voru bólusettar með Pnc-TT hindruðu algerlega mótefnamyndun afkvæmanna. Hins vegar höfðu lág og meðalhá móðurmótefni gegn PPS (~1-2 log10 EU/mL) engin truflandi áhrif heldur juku marktækt ónæmissvar afkvæmanna og ungarnir sýndu minnissvar við aðra bólusetningu. Móðurmótefni gegn TT-hluta bóluefnisins höfðu hverfandi áhrif á ónæmissvar afkvæmanna. Öll afkvæmi sem voru bólusett með Pnc1-TT í viðurvist eða án móðurmótefna voru vernduð gegn blóðsýkingu og lungnabólgu.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að jafnvel í viðurvist móðurmótefna getur Pnc-TT bóluefni vakið myndun mótefna í afkvæmum í nægjanlegum styrk til að vernda þá gegn sýkingum og getur jafnframt örvað myndun fjölsykrusértæks ónæmisminnis. Mikilvægast er að lág eða meðalhá móðurmótefni gegn pneumókokkafjölsykr­unni vernduðu ekki bara afkvæmin gegn sýkingum heldur var ónæmissvar nýbura og ungra músa betra en í afkvæmum sem voru bólusettir án viðurvistar móðurmótefna.

Bólusetning mæðra er raunhæfur kostur til að vernda afkvæmi þeirra gegn pneumókokkasýkingum. Þróaðar verða leiðir sem byggja á samþættingu bólusetninga verðandi mæðra og afkvæma þeirra til að fá verndandi ónæmi gegn sýkingum af völdum fjölsykruhjúpaðra baktería snemma á ævinni.

Niðurstöðurnar hafa verið samþykktar til birtingar í Infection and Immunity, 2004.

V 47 Faraldsfræðileg rannsókn á vöðvaslensfári á Íslandi

Haraldur Ólafsson1, Haukur Hjaltason1,2, Finnbogi Jakobsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2taugalækningadeild Landspítala

haukurhj@islandia.is

Inngangur: Vöðvaslensfár (Myasthenia gravis, MG) er áunninn sjálfsónæmissjúkdómur í mótum hreyfitauga og þverrákóttra vöðva, sem einkennist af breytilegri minnkun á vöðvastyrk. Mark­mið rannsóknarinnar var að kanna algengi sjúkdómsins á Íslandi, og meta sjúklingana með tilliti til einkenna, sjúkdómsgangs, greiningar og meðferðar.

Efniviður og aðferðir: Upplýsinga um sjúklinga var aflað úr gögn­um taugalækningadeildar Landspítala og haft var samband við starfandi taugalækna og yfirlækna heilsugæslustöðva hérlendis. Þegar völ var á voru sjúklingar kallaðir inn til viðtals og staðlaðrar skoðunar.

Niðurstöður: Alls fundust 26 sjúklingar með MG, 14 konur og 12 karlar. Algengi miðað við 1. desember 2002 reyndist 9,0/100.000. Fjórtán sjúklingar (54%) voru með útbreidd einkenni, 5 (19%) með einkenni frá augum eingöngu og 7 (27%) reyndust einkenna­lausir til margra ára án lyfjameðferðar. Fyrstu einkenni komu frá augum í yfir helmingi tilfella og 70% sjúklinga greindust innan árs frá fyrstu einkennum. Meðalaldur við upphaf einkenna var 43 ár, 29 ár hjá konum og 59 ár hjá körlum. Mótefni gegn acetýlkólín­viðtökum höfðu fundist í blóði 85% sjúklinga. Um 35% sjúklinga voru á ónæmisbælandi meðferð og rúm 40% höfðu gengist undir brottnám á hóstarkirtli.

Ályktanir: Algengið 9,0/100.000 er hærra en fyrri rannsóknir hérlendis hafa sýnt (6,4 árið 1968 og 6,8 árið 1991). Munurinn gæti skýrst af betri horfum sjúklinga, betri greiningu og aukinni tíðni sjúkdómsins vegna hækkaðs meðalaldurs íbúanna. Þá er algengið 9,0/100.000 í samræmi við niðurstöður flestra erlendra rannsókna. Nýleg sænsk rannsókn sýndi þó algengið 14,1/100.000 og vekur þá spurningu hvort sjúkdómurinn kunni að vera vangreindur á Íslandi.

V 48 Segulörvun heila með tvíáreiti sýnir aukna hömlun á hreyfisvæðum heilabarkar hjá sjúklingum með geðlægð

Anna L. Möller1, Ómar Hjaltason2, Ómar Ívarsson2, Sigurjón B. Stefáns­son1,3

1Taugarannsóknastofa taugalækningadeildar, 2geðdeild Landspítala, 3lækna­deild HÍ

annaltho@landspitali.is

Inngangur: Segulörvun heila (transcranial magnetic stimulation, TMS) hefur verið notuð til þess að meta örvandi og hamlandi ferli á hreyfisvæðum heilabarkar. Greint hefur verið frá lengingu þögla tímabilsins (cortical silent period, CSP) hjá sjúklingum með geðlægð sem bendir til aukinnar hömlunar í heilaberki. Í þessari rannsókn var örvunarástand heilabarkar kannað eftir eitt seguláreiti (CSP) og eftir tvíáreiti (paired-pulse TMS, ppTMS).

Efniviður og aðferðir: Skráð var útslag vöðvasvars (m. abductor pollicis brevis, APB) eftir contralateral segulörvun á hreyfisvæði heilabarkar hjá sjúklingum með geðlægð og sjö sjálfboðaliðum (control). Skráð var vöðvarit eftir eitt seguláreiti þar sem þátttakendur viðhéldu viljastýrðum samdrætti í APB og eftir tvö ppTMS seguláreiti með 100 ms millibili (conditioned pulse and test pulse).

Niðurstöður: Lengd þögla tímabilsins var svipað í báðum hópum (p=.36, óparað t-test). Meðal útslag vöðvasvars eftir seinna tví­áreiti var 63% af fyrra vöðvasvari hjá viðmiðunarhópi en 18% hjá sjúklingahópi. Töf seinna vöðvasvars var lengd í báðum hópum.

Ályktanir: Minnkað vöðvasvar eftir seinna seguláreiti með ppTMS bendir til aukinnar hömlunar á hreyfisvæðum heilabarkar hjá sjúklingum með geðlægð. Hins vegar kom aukin hömlun ekki fram í CSP.

V 49 Útfellingar mýlildis í líffæri sjúklinga með arfgenga heilablæðingu önnur en heila

Hannes Blöndal, Finnbogi R. Þormóðsson

Rannsóknastofa í líffærafræði, læknadeild HÍ

finnbogi@hi.is

Inngangur: Arfgeng heilablæðing á Íslandi einkennist af uppsöfnun mýlildis (amyloid) í veggi heilaæða og endurteknum heila­blæðingum er draga sjúklinginn til dauða langt um aldur fram. Mýlildið, gert af erfðabreyttu Cystatín C, finnst einnig í öðrum vefjum sjúklinga, en veldur ekki merkjanlegum vefjaskemmdum nema í heilaæðum. Vefjarannsóknir okkar á heilasýnum sýna að uppsöfnun mýlildisins er í nánum tengslum við sléttvöðvafrumur heilaæðanna, en þær hverfa með tímanum og mýlildi sest í þeirra stað. Vefjasýni úr öðrum líffærum sjúklinga hafa verið rannsökuð á rannsóknastofu í líffærafræði meðal annars í þeim tilgangi að lesa úr þeim niðurstöðum hvaða aðstæður hvetja til mýlildismyndunar.

Efniviður og aðferðir: Formalínhertur vefur úr innri líffærum 15 sjúklinga, 6 karla og 9 kvenna, sem komu til krufningar stuttu eftir andlát, var notaður í þessa rannsókn. Vefjasneiðar voru litaðar á hefðbundinn hátt með hæmatoxylin og eosín (HE), Congo red og einnig mótefnalitaðar fyrir Cystatín C með ABC-litunarkerfi fá Dako.

Niðurstöður: HE litun sýndi ekkert óeðlilegt, en Congo red litun og sérstaklega mótefnalitun fyrir Cystíni C sýndu mýlildisútfellingar í flestum líffærum sjúklinganna. Staðsetning útfellinganna var þrenns konar:

  • í sléttvöðvalagi og úthjúp (adventitia) slagæða og band­vefnum umhverfis vessa- og blóðháræðar,
  •  á mótum milli yfirborðsþekju, kirtilþekju og mesothelíum og undirliggjandi bandvefjar,
  •  í peri- og endoneurial vef úttauga.

Ályktanir: Frumniðurstaða okkar er sú að Cystín C mýlildisútfellingarnar virðist fylgja grunnhimnu og að magn þeirra sé gjarnan í réttu hlutfalli við umfang og þroska hennar. Áætlað er að fylgja þessum niðurstöðum eftir og prófa þá tilgátu að grunnhimna sé nauðsynleg forsenda Cystatín C mýlildismyndunar.

Þakkir: Styrkt af Heilavernd.

V 50 Algengi svefnraskana og svefnheilkenna í Parkinsons veiki

Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir1,2, Elsa Eiríksdóttir2, Þórarinn Gíslason1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítali

sigurls@landspitali.is

Inngangur: Truflanir á svefni eru algengar hjá sjúklingum með Parkinsons veiki. Orsakirnar eru margþættar, meðal annars rösk­un á samsetningu svefnsins með hlutfallslegri skerðingu á djúp­svefni, truflun á hreyfingum í svefni og tíð næturþvaglát. Heild­ar­algengi svefnraskana meðal Parkinsons sjúklinga eða eðli þeirra hefur þó ekki verið vel kortlagt. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna heildaralgengi svefnvandamála hjá Parkinsons sjúklingum á Íslandi miðað við staðlaðan samanburðarhóp.

Aðferðir og efniviður: Sendur var sex liða svefnspurningalisti til 377 einstaklinga með Parkinsons veiki og jafnstórs samanburðarhóps. Svörun var 52% hjá Parkinsons hópnum en 51% hjá samanburðarhópi. Meðalaldur Parkinsons hópsins var 70 ára og 53% svarenda voru karlar.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna að svefnvandamál eru allt að fjórfalt algengari meðal Parkinsons sjúklinga en hjá viðmiðunarhópi. Við samanburð hópanna voru eftirtalin einkenni marktækt algengari meðal Parkinsons sjúklinga: Brotakenndur svefn, dagsyfja, REM svefnhegðun, fótaóeirð, ofskynjanir í svefnrofunum, svefnlömunartilfinning og einkenni um kæfisvefn.

Umræða: Svefnraskanir eru algengar hjá sjúklingum með Park­in­sons veiki. Skert svefngæði, dagsyfja og heilkenni, svo sem REM hegðunarsvefn, fótaóeirð og kæfisvefn virðast marktækt al­gengari hjá þeim en hjá viðmiðunarhópi. Hafa ber þó í huga að heild­arþátttaka í þessari rannsókn var einungis 52%.

V 51 Vísindi á Landspítala. Innlendur og erlendur saman­burður

Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir1, Anna Sigríður Guðnadóttir2, Bjarni Þjóð­leifs­son3

1Skrifstofa kennslu, vísinda og þróunar, 2Bókasafn og 3LYF-1, Landspítala

bjart@mi.is

Inngangur: Rannsóknin lýsir úttekt á vísindavirkni á Landspítala fyrir tímabilið 1999-2003 og samanburð við innlendar stofnanir og faggreinar. Ennfremur er vísindavirkni Íslands borin saman við önnur lönd.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru ?bibliometriskar? aðferðir til að mæla magn og gæði nýrrar þekkingar. Skráður var fjöldi greina sem birtist í tímaritum skráðum á Institute of Scientific In­formation (ISI) gagnagrunninum og fjöldi tilvitnana í greinar skráðar í gagna­grunninn Science Citation Index. Könnunin var gerð fyrir Landspítala, Íslenska erfðagreiningu (ÍE) og Hjarta­vernd.

Niðurstöður: Innlendur ISI samanburður: Landsframleiðsla á ISI greinum 1999-2003 var 2094, 517 (25%) voru frá Landspítala, 102 (5%) frá ÍE og 35 (1,7%) frá Hjartavernd. Samanburður á fag­sviðum sýnir að heilbrigðis- og læknisfræði hefur afgerandi forystu með 147 greinar. Landspítali stóð að 70% greina um heilbrigðis- og læknisfræði 2001.

Erlendur ISI samanburður: Fjöldi ISI greina í klínískri lækn­isfræði miðað við fólksfjölda árið 1998 er langt yfir meðal­tal 22 OECD landa og sama gildir um erfðafræði og sameindalíffræði.

Tilvitnanir: Könnun fyrir tímabilið 1994-98 sýndi að klínísk læknisfræði er í fyrsta sæti á heimslista með að meðaltali 6,7 tilvitnanir í hverja grein en heimsmeðaltal er 4,1. Sameindalíffræði og erfðafræði er í 10. sæti á heimslista. Gerð var könnun á fjölda tilvitnana hjá 134 vísindamönnum á Landspítala og höfðu 14 vísindamenn yfir 1000 tilvitnanir og þar af þrír yfir 5000. Allar tilvitnanir voru taldar óháð höfundaröð.

Ályktanir: Könnun okkar sýnir að vísindastarf á Landspítala stendur vel bæði hvað varðar magn og gæði og að spítalinn er greinilega öflugasta þekkingarfyrirtækið á Íslandi.

V 52 Notagildi geislavirks efnasambands og blás litarefnis til að finna varðeitil (sentinel node) í konum með brjósta­krabba­mein

Eysteinn Pétursson1, Þorvaldur Jónsson2

1Isótópastofa, 2skurðlækningadeild LSH

eysteinn@landspitali.is

Inngangur: Einungis 20-40% kvenna með brjóstakrabbamein reynast með meinvörp í holhandareitlum. Sé hægt að finna og skoða "varðeitilinn" (VL) sem fyrstur tekur við frumum frá æxlinu á að vera unnt að hlífa 60-80% kvenna við frekari eitlatöku sé VL án meinvarps.

Efniviður og aðferðir: 33 konur á aldrinum 32-85 ára (meðaltal 59 ár), sem ákveðið var að þyrftu aðgerð með töku allra holhandareitla. Geislavirku 99mTc-nanocolloíði (NC) var sprautað grunnt undir húð yfir þreifanlegu æxli í 20 sjúklinga. Í 13 sjúklinga með óþreifanlegt æxli var sprautað eftir vísbendingu frá ómskoðun í leitarstöð KÍ. Síðan voru teknar myndir með gammamynda­vél að framan og frá hlið. Þegar geislavirkni hafði safnast á af­markaðan stað var hann merktur á húðina með vatnsheldu bleki. Samdægurs fór sjúklingur í aðgerð sem hófst með því að sprautað var bláu litarefni undir húð og fylgst með því safnast í eitil; síðan mæld geislavirkni á svæðinu með handhægum geislamæli og allir geisla­virkir eitlar fjarlægðir og sendir í frystiskurð. Síðan aðrir eitlar fjarlægðir ásamt frumæxlinu. Allur fjarlægður vefur að lokum skoðaður vandlega, vefjameinafræðilega.

Niðurstöður: Í 30 sjúklingum sást vel afmörkuð samsöfnun á NC. Í þremur sjúklingum sást ekki ákveðin afmörkuð upphleðsla. Merkt var þó á húðina þar sem líklegast þótti að eitlar væru til staðar. Í aðgerð fundust geislavirkir eitlar í öllum sjúklingum svarandi til merkinga á húð. Blálitaður eitill fannst í 31 sjúklingum. Geislavirkur/blár eitill var án æxlisvaxtar í 21 sjúklingi. Í þremur þessara fannst krabbamein í öðrum eitlum, það er VL gaf falska vísbendingu. Í einum þessara sjúklinga var þó stórt meinvarp nálægt VL og kann að hafa breytt sogæðaflæðinu í þessum sjúklingi sem í raun hefði ekki farið í rútínu varðeitilsleit. Í 7 af þeim 12 sjúklingum sem voru með mein í VL voru aðrir eitlar án meins.

Ályktanir: Varðeitilsleit með geislavirku nanokolloíði og bláu litarefni virðist áreiðanleg aðferð.

V 53 Stromaæxli í meltingarvegi (GIST) á Íslandi 1990-2003, meinafræði, faraldsfræði og einkenni

Geir Tryggvason1, Þórarinn Kristmundsson2, Magnús K. Magnússon3, Hjört­ur G. Gíslason2, Jón G. Jónasson1,4,5

1Meinafræðideild, 2skurðdeild og 3blóðmeinafræði- og erfða- og sam­einda­læknisfræðideild Landspítala, 4Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Ís­lands, 5læknadeild HÍ

geirt@landspitali.is

Inngangur: GIST er algengasta bandvefskímsæxlið (mesenchymal tumor) í meltingarvegi. Greiningarskilyrði er jákvæð mótefnalitun fyrir viðtakanum c-kit. Þetta er fyrsta rannsóknin sem lýsir meinafræði æxla, nýgengi sjúkdómsins og einkennum sjúklinga í heilli þjóð.

Efniviður og aðferðir: Öll bandvefskímsæxli sem greinst hafa á landinu á árunum 1990 til 2003 voru rannsökuð. Öll c-kit jákvæð æxli voru skilgreind sem GIST. Upplýsingar um aldur, einkenni, staðsetningu og stærð æxla og meinvarpa, dánarorsakir og lifun sjúklinga voru skráðar.

Niðurstöður: Alls fundust 57 GIST æxli á þessu 14 ára tímabili. Tuttugu og fjórar konur og 33 karlar. Nýgengið var 1,1 á 100.000 á ári (1,4 fyrir karla og 0,9 fyrir konur). Meðalaldur sjúklinga við greiningu var 66,9 ár (23,9-89,5 ár). Flest æxlin voru staðsett í maga (61,4%) og smágirni (29,8%) en komu einnig fyrir í vélinda, botnlanga og endaþarmi. Meðalstærð æxlanna var 4,6 cm (0,4-20 cm). Æxli utan maga (non-gastric) voru marktækt stærri en í maga (6,5 cm á móti 3,3 cm). Um 39% æxla lentu í NIH flokki 3 og 4 (stærri og með fleiri mítósur). Æxli í vélinda og endaþarmi lentu eingöngu í NIH flokki 4. Algengasta einkenni æxlanna var bráð og langvinn magablæðing (46%), þar á eftir kviðverkir (32%) og síðan þreifanlegt æxli (13%). Stór hluti fannst fyrir tilviljun við aðrar aðgerðir (28%). Átta æxli af 57 sýndu illkynja hegðun (meinvörp). Bæði vélindaæxlin og annað af endaþarmsæxlunum ásamt fjórum af 17 smágirnisæxlum og tveimur af 35 magaæxlum voru illkynja. Margþátta aðhvarfsgreining leiddi í ljós að æxlisstærð og mítósufjöldi eru breytur sem hafa marktæk tengsl við illkynja hegðun.

Ályktanir: Nýgengi GIST er 1,1 tilfelli/100.000/ári. Staðsetning utan maga er áhættuþáttur fyrir illkynja hegðun æxlis. Ekkert æxli sem lenti í NIH flokkum 1 og 2 sýndi illkynja hegðun. Helmingur æxla í flokki 4 sýna illkynja hegðun. Stærð og mítósufjöldi hafa sterk tengsl við illkynja hegðun. Blæðing frá meltingarvegi er algengasta einkenni GIST.

V 54 Eistnakrabbamein á Íslandi 1955-2002. Meinafræðileg rannsókn

Bjarni A. Agnarsson1,4, Tómas Guðbjartsson2, Guðmundur Vikar Ein­ars­son2,4, Kjartan Magnússon3, Ásgeir Thoroddsen2, Jón Þór Bergþórsson1,5, Rósa Björk Barkardóttir1, Laufey Ámundadóttir5, Jóhannes Björnsson1,4

1Rannsóknastofa í meinafræði, 2þvagfæraskurðdeild og 3krabbameinslækn­ingadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ, 5Íslensk erfðagreining

bjarniaa@landspitali.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknar var að athuga meinafræðilega þætti kímfrumuæxla í eistum sem greinst hafa á Íslandi 1955-2002.

Efniviður og aðferðir: Öll sýni voru endurskoðuð með smá­sjár­skoðun og flokkuð samkvæmt skilmerkjum WHO. Meina­fræði­legir þættir voru athugaðir og stig útbreiðslu við greiningu metið og kannað hvort samband væri milli tegundar æxlis og stigunar.

Niðurstöður: Alls greindust 214 sjúklingar á tímabilinu. Ald­urs­staðlað nýgengi reyndist vera 6,1 á 100.000 og hafði aukist sexfalt á rannsóknatímabilinu. Seminoma greindust hjá 55% (meðalaldur 38 ár) og non-seminoma greindust hjá 45% sjúklinga (meðalaldur 29 ár) en þau skiptust í blönduð kímfrumuæxli (33%), embryonal carcinoma (8%), teratoma (3%) og yolk sac tumor (n=1).

Af blönduðu kímfrumuæxlunum var algengasta samsetningin teratoma + embryonal carcinoma (teratocarcinoma (n=17) og teratoma + embryonal carcinoma + yolk sac tumor (n=13). Í 33 blönduðum æxlum voru tvær æxlisgerðir, í 25 æxlum þrjár æxlisgerðir, í 11 æxlum fjórar æxlisgerðir og í einu æxli fimm æxlisgerðir. Seminomaþáttur var í 27 æxlum og choriocarcinoma þáttur í átta æxlum.

Non-seminoma æxlin greindust á marktækt hærra stigi en semi­noma æxlin (p<0,001). Þannig voru 81% seminoma æxla bundin við eistað við greiningu (stig I), í 17% sjúklinga hafði æxl­ið dreifst til eitla (stig II og III) en aðeins 2% sjúklinga höfðu fjarmeinvörp utan eitla (stig IV) við greiningu. Hvað non-seminoma sjúklingana varðar greindust aftur á móti 56% sjúk­linga á stigi I, 24% á stigi II eða III og 20% á stigi IV. Enginn munur var á stigun milli mismunandi gerða non-seminoma æxla.

Marktæk tengsl reyndust vera milli bæði dreps og æðaíferðar í frumæxlinu og meinvarpa við greiningu (p=0,002).

Ályktanir: Marktæk (sexföld) aukning hefur orðið á kímfrumu­æxlum á Íslandi á rannsóknartímabilinu og greinast seminoma hjá um það bil 9 ára eldri sjúklingum en non-seminoma. Flokkun æxla er svipuð og gerist á öðrum Vesturlöndum. Meinafræðilegir þættir í kímfrumuæxlum á Íslandi sem stuðla að hærra stigi við greiningu eru non-seminoma æxli, drep og æðaíferð í frumæxlinu.

V 55 Algengi þunglyndiseinkenna hjá íslenskum börnum í 9. og 10. bekk og tengsl þeirra við helstu lýðfræðilegu þætti

Guðrún Kristjánsdóttir1,2, Guðný Arnardóttir1, Járnbrá Hrund Gylfadóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

gkrist@hi.is

Inngangur: Þunglyndi á unglingsárum er heilsufarsvandamál sem valdið getur þjáningum fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Ómeðhöndlað þunglyndi getur haft verulega truflandi áhrif á líf og þroska unglinga. Staðfest er að þunglyndi barna og unglinga er sterkur fyrirboði þunglyndis á fullorðinsárum. Því er tilgangur þessarar rannsóknar að skoða algengi þunglyndiseinkenna og tíðni þeirra eftir kyni, aldri og lýðfræðilegum þáttum, svo sem búsetu, menntun foreldra og fjölskylduforms.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á spurningakönnun á tilviljunarlandsúrtaki 3913 íslenskra skólabarna í 9. og 10. bekk. Svörun reyndist 91%. Við mat á þunglyndiseinkennum var stuðst við þunglyndiskvarða Pearlins og félaga sem inniheldur 10 spurningar þar sem möguleg stig eru 0-30.

Helstu niðurstöður: Um fimmtungur barna í 9. og 10. bekk grunnskóla hafa alvarlegri þunglyndiseinkenni, að þeim forsendum gefnum að væg þunglyndiseinkenni séu á bilinu 1-10 stig og alvarlegri einkenni milli 11-30 stig. Marktækur munur var eftir kyni og tjáðu stúlkur sig oftar með þunglyndiseinkenni en drengir. Börn í 10. bekk reyndust marktækt hafa meiri þunglyndiseinkenni en þau sem yngri voru. Í heild sýndu niðurstöður rannsóknarinnar að marktæk tengsl eru á milli alvarlegri þunglyndiseinkenna og allra lýðfræðilegu þáttanna, það er lægri menntunar foreldra, bú­setu í dreifbýli og raskaðs fjölskylduforms.

Helstu ályktanir: Þessar niðurstöður varpa ljósi á mikilvægi þess að skima fyrir vanlíðan hjá börnum og unglingum til að geta aðstoðað þau til að takast á við og vinna úr vanlíðan sem tengist daglegri tilveru þeirra og ef vel væri þyrfti að vera lykilþáttur í allri skólaheilsugæslu.

V 56 Samanburður á áhrifum andlegrar og líkamlegrar líð­an­ar á foreldra heilbrigðra og veikra nýbura

Guðrún Kristjánsdóttir1,2, Margrét Eyþórsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

gkrist@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman foreldra heilbrigðra og veikra nýbura og aðlögun þeirra að foreldrahlutverkinu hvað andlega og líkamlega líðan þeirra varðar.

Efniviður og aðferðir: Notast var við framskyggnt langtímasnið (panel). Tilviljanaúrtak heilbrigðra nýbura úr Hreiðrinu og sængurkvennagangi og foreldrar allra barna sem útskrifuð voru af vökudeild á þeim tíma sem rannsóknin stóð yfir var valið. Samtals 220 foreldrar (63,2% heimtur) 100 úr Hreiðri, 52 af sængurkvennagangi og 68 af vökudeild. Þátttakendur svöruðu SCL90 spurningalistanum um andlega og líkamlega líðan síðustu sjö daga fyrir heimferð af deild (T 0). Frekari gögnum var safnað í tveimur heimsóknum á heimili foreldranna, viku (T I) og sex vikum eftir útskrift (T II). Í báðum heimsóknum svöruðu foreldrar aðlögunarspurningalista Kenners auk lýðfræðilegra spurninga, og á TII svöruðu þau aftur SCL90 um andlega og líkamlega líðan.

Helstu niðurstöður: Að teknu tilliti til kyns, aldurs og deildar sem dvalið var á hefur líðan fyrir heimferð (T 0) marktæk áhrif á foreldraaðlögun eina viku eftir heimferð (p<0,001) sem síðan hafði marktæk áhrif á líðan þeirra sex vikum eftir heimferð (Beta= <0,05). Líðan fyrir heimferð er háð kyni, aldri og deild sem dval­ið var á. Aðlögun einni viku eftir heimferð er aðeins háð kyni en líðan sex vikum eftir heimferð háð deild sem dvalið var á. Að teknu tilliti til kyns, aldurs og deildar sem dvalið var á hefur líðan við útskrift óháð aðlögun bein áhrif á líðan sex vikum eftir heimferð (p<0,001).

Helstu ályktanir: Meta þarf andlega og líkamlega líðan foreldra fyrir heimferð frá fæðingarstofnun og heima fyrstu vikurnar eftir heimkomu og veita viðeigandi þjónustu bæði til fyrirbyggingar og íhlutunar ef ástæða þykir til þar sem líðan fyrir heimferð hafi áhrif á aðlögun og líðan.

V 57 Rannsókn á breytingum á líkamsstærð barna sem fædd eru 1986, 1991 og 1995 fram til 2002

Guðrún Kristjánsdóttir1,2, Áslaug Kristjánsdóttir1, Elínborg Einarsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

gkrist@hi.is

Inngangur: Umræða er um hvort íslensk börn séu að þyngjast og rannsóknir sýna misvísandi niðurstöður þess efnis þó svo að flestum sýnist svo vera. Tilgangur var að rannsaka vaxtarsögu þriggja árganga íslenskra skólabarna til að athuga hvort greina megi breytingar á milli árganga.

Efniviður og aðferðir: Úrtak var tilviljunarúrtak 602 barna úr 14 völdum grunnskólum fædd 1986, 1991 og 1995 á höfuðborgarsvæðinu. Kynjahlutföllum var haldið jöfnum, 299 stúlkur og 303 drengir í endanlega úrtakinu. Gögnum var safnað úr heilbrigðiskrám barnanna. Skráð var hæð í cm og þyngd í grömmum og reiknaður líkamsþyngdarstuðull kg/m2 við fæðingu, 4, 6, 9, og 14 ára aldur. Skráð var kyn, lífaldur í mánuðum við mælingu og búseta eftir skólaheilsugæsluumdæmi.

Helstu niðurstöður: Tilgátu um að íslensk börn á skólaaldri á Reykjavíkursvæðinu væru að þyngjast umfram hæð var hafnað. Tíðni of feitra drengja fer þó vaxandi, 1,0% drengja fæddra árið 1986 á móti 3,9% drengja fæddra 1995 við fjögurra ára aldur. Minni munur reynist þó í þessum sömu árgöngum við 6 ára aldur, eða 2,0% á móti 3,2%, og er ekki marktækur. Tíðni of feitra stúlkna fer hins vegar lækkandi. Við fjögurra ára aldur voru 6,9% stúlkna sem fæddar eru árið 1986 of feitar en 3,2% þeirra sem fæddar eru 1995. Við 6 ára aldur eru tölurnar 4,0% á móti 3,2% fyrir sömu árganga en ekki marktækur. Í heild eru börn ekki að þyngjast umfram hæð en marktækur munur er eftir búsetu í Vesturbæ Reykjavíkur/Seltjarnarness annars vegar og Breiðholts hins vegar (p<0,01).

Helstu ályktanir: Skoða verði nánar og fylgjast með líkamsstærð barna og hafa gætur á þeim þáttum sem tengjast þyngdaraukningu umfram hæð fremur en að alhæfa um að þau séu að þyngjast. Niðurstöðurnar benda þó til að ákveðnir hópar barna í samfélaginu séu að þyngjast umfram aðra og einnig léttast.

V 58 Áhrifaþættir á notkun getnaðarvarna meðal unglings­stúlkna og pilta

Sóley S. Bender

Hjúkrunarfræðideild HÍ, læknadeild HÍ

ssb@hi.is

Inngangur: Rannsóknir á notkun getnaðarvarna meðal unglinga hafa einkum beinst að stúlkum og er algengt að skoða notkun eftir tegundum getnaðarvarna. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga hvort munur væri á afstöðu kynjanna til notkunar getnaðarvarna og hvort sú afstaða ásamt öðrum áhrifaþáttum gæti skýrt út notkun getnaðarvarna meðal þeirra.

Efniviður og aðferðir: Gerð var landskönnun meðal 2500 ungmenna 17-20 ára sem valin voru eftir lagskiptri slembiúrtaksaðferð úr þjóðskrá, 20% piltar og 80% stúlkur. Gagnagreining byggðist á kynferðislega virkum einstaklingum, alls 1405 ungmennum, 224 piltum og 1181 stúlku. Ólík afstaða kynjanna var skoðuð með Mann-Whitney prófi og var lógistísk fjölbreytuaðhvarfsgreining notuð til að skýra notkun getnaðarvarna.

Niðurstöður: Stúlkur voru almennt jákvæðari gagnvart notkun getnaðarvarna en piltar og síður tilbúnar til að taka áhættu. Þær áttu fremur vini sem höfðu jákvæða afstöðu til notkunar getn­aðarvarna og foreldra sem veittu þeim stuðning. Bæði kynin voru líklegri að nota getnaðarvarnir ef þau gerðu sér grein fyrir alvarleika þungunar og höfðu þá afstöðu að auðvelt væri að gera áætlun um notkun getnaðarvarna. Stúlkur voru líklegri til að nota getnaðarvarnir ef þær voru eldri þegar þær hófu kynlíf (OR 5,42; 95% CI 3,01-9,78), voru á föstu (OR 2,28; 95% CI 1,58-3,30), töldu kynheilbrigðisþjónustuna góða (OR 1,62; 95% CI 1,12-2,36), trúðu ekki á að taka áhættu (OR 8,73; 95% CI 3,66-20,79) og foreldrum þeirra var kunnugt um notkunina (OR 2,17; 95% CI 1,09-4,30).

Ályktanir: Neikvæðari afstaða pilta til notkunar getnaðarvarna og minni stuðningur eru þættir sem huga þarf að í forvarnarstarfi þeirra. Kynlífsreynsla stúlkna á ungum aldri er áhættuþáttur varðandi notkun getnaðarvarna. Skoða þarf nánar áhrifaþætti meðal pilta.

V 59 Notkun getnaðarvarna meðal kvenna fyrir og eftir fóst­ureyðingu

Sóley S. Bender1,2,3, Reynir T. Geirsson2,3

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ, 3kvennasvið LSH

ssb@hi.is

Inngangur: Rannsóknir á upplýsingum úr umsóknum um fóstureyðingu hafa sýnt að meirihluti (56-68%) íslenskra kvenna sem sótti um fóstureyðingu á tímabilinu 1976-1996 notaði ekki getn­aðarvarnir þegar getnaður varð. Tilgangur þessarar rannsóknar var að taka viðtöl við konur sem sækja um fóstureyðingu, fyrir og eftir aðgerð, og bera notkun getnaðarvarna meðal unglingsstúlkna saman við konur í eldri aldurshópum.

Efniviður og aðferðir: Af 210 konum í rannsóknarúrtaki tóku 202 þátt og var 148 fylgt eftir að aðgerð lokinni. Viðtal fyrir aðgerð fór fram á kvennadeild Landspítala nokkrum dögum fyrir aðgerð en hið síðara var símleiðis um 4-6 mánuðum síðar. Sérstakur spurn­ingalisti var þróaður fyrir rannsóknina. Konum var skipt í aldurshópana 14-19, 20-24 og 25-43 ára og skoðað hver væri hlutfallsleg notkun getnaðarvarna fyrir aðgerð, við getnað og eftir aðgerð.

Niðurstöður: Alls voru 46% yngri en 20 ára. Langflestar (85%) voru búsettar á Reykjavíkursvæðinu. Stúlkur yngri en 20 ára höfðu ólíka notkun getnaðarvarna almennt og þegar getnaður varð, í samanburði við eldri konur. Þær höfðu almennt sjaldnar notað öruggar getnaðarvarnir og þegar getnaður varð. Hærra hlutfall kvenna í öllum aldurshópum notuðu öruggar getnaðar­varnir 4-6 mánuðum eftir fóstureyðingu heldur en fyrir aðgerð.

Ályktanir: Getnaðarvarnanotkun kvenna undir tvítugu var slælegri fyrir og við getnað. Unglingsstúlkur geta átt erfiðara með að nálgast öruggar getnaðarvarnir heldur en eldri konur. Eftir fóstureyðingu batnaði notkun getnaðarvarna verulega. Lengri eftir­fylgni þarf til að fá heildstæðari mynd af getnaðarvarnanotkun eftir fóstureyðingu.

V 60 Með barn á brjósti. Áhrifaþættir á gang brjóstagjafa og þá tímalengd sem börn eru höfð á brjósti

Hildur Sigurðardóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

hildusig@hi.is

Inngangur: Samkvæmt nýjustu stefnu alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO) er lögð áhersla á að börn séu höfð eingöngu á brjósti í sex mánuði og lengur með annarri fæðu. Nýlegar íslenskar rannsóknir gefa til kynna að við getum bætt okkur hvað þetta varðar. Tilgangur rannsóknarinnar er forprófun á spurningalistum sem ætlað er að mæla áhrifaþætti á þá tímalengd sem börn eru höfð á brjósti.

Efniviður og aðferðir: Valið var kerfisbundið tilviljunarúrtak 140 kvenna er fæddu á tímabilinu janúar-febrúar 2003 á Landspítala. Gagna­söfnun með spurningalistum fór fram í tveimur hlutum, 1-2 mánuðum eftir fæðingu og um ári síðar. Fyrri spurningalistinn innihélt spurningar um bakgrunn, árangur og reynslu af brjóstagjöf, viðhorf til þjónustu, sjálfsálitakvarða Rosenbergs og einnig var prófuð íslensk útgáfa af sjálfsöryggiskvarða tengdum brjósta­gjöf. Seinni spurningalistinn mældi meðal annars reynslu af brjóstagjöf, viðhorf til þjónustu og upplýsingar um tímalengd þá sem börn voru höfð á brjósti.

Niðurstöður og ályktanir: Svarhlutfall í fyrri hluta rannsóknar­innar var 60% (n=84) og 63% (n=53%) í seinni hlutanum. BSES kvarðinn reyndist áreiðanlegur með Cronbachs alpha 0,91. Þáttagreining sýndi einnig sterka innbyrðis fylgni á milli breytna sem hlóðu hátt á einn þátt og því notast við meðalskor í úrvinnslu gagna. Niðurstöður rannsóknarinnar samræmdust fyrri rannsóknum. Eftirfarandi þættir sýndu jákvæða fylgni við þá tímalengd sem börn voru höfð á brjósti: sjálfsöryggi við brjóstagjöf (BSES) (P<0,01); áætluð tímalengd brjóstagjafa sem konan setur sér á meðgöngu (P<0,01); konan segir brjóstagjöfina vera ánægjulega (P<0,01), og árangursríka reynslu (P<0,01) og að konan segist trúa á mikilvægi brjóstagjafar (P<0,01). Þættir sem höfðu neikvæða fylgni við tímalengd brjóstagjafa voru: vandamál/erfiðleikar við brjóstagjöf (P<0,05), ónóg mjólkurmyndun (P<0,05) og aldur barns þegar það byrjar að fá ábót við brjóstagjöf.

Með smávægilegum formbreytingum eru spurningalistarnir taldir áreiðanleg mælitæki til frekari rannsókna á þáttum sem áhrif hafa á gang og tímalengd brjóstagjafa.

V 61 Streita í starfi og heilbrigðistengd hegðun starfsfólks sem annast fólk með krabbamein

Birna G. Flygenring

Hjúkrunarfræðideild HÍ

bgf@hi.is

Inngangur: Streita í starfi hefur hlotið aukna athygli rannsakenda þar sem rannsóknir leiða í ljós neikvæð áhrif hennar á vellíðan og heilsu starfsfólks. Umönnun sjúklinga með krabbamein hefur verið tengd ákveðnum streituþáttum.

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna: 1) Hvaða þættir valda streitu í starfi, 2) hvort hjúkrunarfræðingar finni fyrir meiri streitu en aðrar starfsstéttir, 3) samband streitu og heil­brigðistengdrar hegðunar og 4) hvaða stuðningi starfsfólk óskar eftir í starfi.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða þversniðskönnun. Úrtakið var allir starfsmenn (N=131) lyflækningasviðs II Landspítala. Streituþættir voru mældir á kvarðanum 0 (aldrei) til 5 (daglega).

Niðurstöður: Þátttakendur voru 53 (40,5%) og skiptust í þrjá hópa: hjúkrunarfræðinga (60%), sjúkraliða (21%) og aðra (19%). Streita í starfi var nokkur og fundu hjúkrunarfræðingar oftar fyrir streitu en aðrir starfshópar (3,1+0,87 vs. 2,5+0,83; P=0,026). Meginstreituþættir voru: skortur á starfsfólki (3,31+0,98; a=0,81), tímaskortur tengdur hjúkrun sjúklings (3,24+0,76; a=0,92), tíma­bil fyrir og við andlát sjúklings (2,79+0,59; a=0,82) og samskipti við sjúklinga og aðstandendur (2,76+0,49; a=0,78). Þeir sem fundu fyrir meiri streitu fundu einnig fyrir fleiri líkamlegum einkennum (r=0,363; P=,009), þeir sváfu verr (r=0,343; P=,013) og drukku oftar áfengi (r=0,290; P=0,056) (P< 0,1).

Ályktanir: Þátttakendur finna fyrir nokkurri eða mikilli streitu í starfi. Þeir þættir sem einkum valda streitu eru: skortur á starfs­fólki, tímaskortur og tímabil fyrir og við andlát sjúklings. Þátttakendur óska eftir stuðningi í starfi, svo sem handleiðslu, stuðn­ingi nánasta samstarfsfólks og stuðningi fagfólks (sjúkrahúsprests, sálfræðings og félagsráðgjafa). Einnig óska þeir eftir stærra húsnæði, bættri vinnuaðstöðu og minna vinnuálagi.

V 62 Fræðsluþarfir verðandi feðra og viðhorf þeirra til föður­hlutverksins

Helga Gottfreðsdóttir

Háskóli Íslands, Heilsugæslan í Reykjavík

helgagot@hi.is

Inngangur: Ein afdrifaríkasta breyting sem verður í lífi fólks er fæðing barns. Meðgangan er ekki eingöngu tími mikilla líkamlegra breytinga hjá verðandi mæðrum heldur er hún jafnframt tími aðlögunar og undirbúnings fyrir nýtt hlutverk, foreldrahlutverkið. Í dag er litið á meðgöngu og fæðingu sem sameiginlega reynslu verðandi foreldra og undirstrikar tilkoma laga um fæðingarorlof þessa hugmyndafræði hér á landi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að lýsa fræðsluþörfum þeirra feðra sem eiga von á sínu fyrsta barni og öðlast skilning á viðhorfum þeirra til föðurhlutverksins. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem felst í því að skoða fræðslu­þarfir verðandi feðra og þátttöku þeirra í meðgönguvernd.

Efniviður og aðferðir: Kenningaþróun við þessa rannsókn er aðleiðsla en til upplýsingasöfnunar voru tekin viðtöl við rýni­hópa. Viðtölin voru vélrituð og niðurstöður skoðaðar í ljósi fyrirbærafræðinnar. Þátttakendur voru 15 verðandi feður og var meðgöngulengd kvenna þeirra 27-37 vikur. Þeir voru allir á líkum aldri og bjuggu í Reykjavík.

Niðurstöður: Í viðtölunum voru greind nokkur þemu. Mest áberandi voru: kvíði og áhyggjur, hjálparleysi, að hafa ekki stjórn og gleði og tilhlökkun. Verðandi feður eru leitandi í hugmyndum sínum um föðurhlutverkið þar sem viðhorf og væntingar til feðra hafa breyst á síðustu áratugum. Í viðtölunum var þeim tíðrætt um neikvæða orðræðu samfélagsins sem felst aðallega í umfjöllun um aukin útgjöld vegna réttinda feðra til fæðingarorlofs.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa ljósmæðrum tilefni til að skoða umönnun og fræðslu sem þær veita á meðgöngu og undirstrika að verðandi feður hafa þörf fyrir upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á þeirra forsendum.

V 63 Hverfandi áhrif árstíða á andlega og líkamlega líðan sjónskertra

Sigurveig Gunnarsdóttir1, Guðmundur Viggósson2, Jóhann Axelsson1, Þór Eysteinsson1

2Læknadeild HÍ, Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Sjónstöð Íslands

thoreys@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar er að athuga viðbrögð sjónskertra við árstíðabreytingum.

Efniviður og aðferðir: Alls voru 40 þátttakendur valdir úr skrám Sjónstöðvar Íslands með tilliti til sjónskerðingar þeirra og hún flokkuð eftir flokkunarkerfi alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í fimm aðskilda flokka. Rannsakaðir voru átta hópar einstaklinga með mismunandi orsakir blindu eða sjónskerðingu: achromatopsia, heilatengd sjónskerðing, retinitis pigmentosa, anophthalmia, sjóntaugarrýrnun og gláka, fyrirburaaugnveiki, aldursháð hrörnun miðgrófar og blinda vegna tréspíradrykkju. Sami athugandi las spurningalista sem greinir vetrarþunglyndi og metur árstíða­sveiflu, Seasonal Pattern Assessment Questionnaire (SPAQ), fyrir alla þátttakendur og skráði svör.

Niðurstöður: Meðalárstíðasveifla alls hópsins var 2,08 +/- 2,41. Kynjamunur var ómarktækur. Hjá 35% þátttakenda mældist eng­in árstíðasveifla. Enginn marktækur munur var á árstíða­sveiflu þátttakenda með skert sjónskyn og með ekkert sjónskyn. Hins vegar var marktæk neikvæð fylgni milli aldurs og árstíða­sveiflu þátttakenda. Enginn þátttakenda mældist með árstíða­sveiflu sem samræmist skilgreiningu á vetrarþunglyndi.

Ályktanir: Árstíðasveifla sjónskertra reyndist til muna lægri en hjá tilviljunarúrtaki íslensku þjóðarinnar, þar sem meðaltal árstíðasveiflu reyndist 55 og aðeins 10% sýndu enga árstíða­sveiflu (Magnússon og Stefánsson, 1993). Algengi vetrarþunglyndis hjá sjáandi reyndist 3,6% en ekkert meðal sjónskertra. Þessar niðurstöður samrýmast þeirri tilgátu að óskert sjón sé forsenda árstíða­sveiflu og þar með vetrarþunglyndis.

V 64 Vellíðan og heilsa fyrsta árið eftir missi ástvinar. Rann­sókn á fullorðnum Íslendingum

Arndís Jónsdóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2, Rúnar Vilhjálmsson1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

gkrist@hi.is

Inngangur: Rannsóknir sýna að missir ástvinar geti haft í för með sér langvinna röskun á heilsu og vellíðan. Rannsókn þessi beind­ist að tengslum missis ættingja (maka, barns, fjölskyldumeðlims) eða vinar og andlegrar og líkamlegrar heilsu og vellíðunar einstaklinga á fyrsta árinu eftir slíkan missi.

Efniviður og aðferðir: Af tilviljunarúrtaki 1924 18-75 ára Íslend­inga reyndust 711 hafa orðið fyrir missi ástvinar eða náins vinar innan 12 mánaða fyrir gagnasöfnunina. Fjölbreytuaðlögunarlíkan var prófað á úrtakið að fyrirmynd Roy (1999) með missisbreytum, samhengisbreytum og fjórum aðlögunarþáttum. Óháðu breytur rannsóknarinnar voru: missir ættingja eða vinar að teknu tilliti til samhengisbreyta, geta til að sinna eigin grunnþörfum, trú á eigin getu, virkni í hlutverkum, veittur stuðningur, upplifaður stuðningur. Háðu breyturnar voru: sjálfmetið líkamlegt og andlegt heilbrigði, sállíkamleg einkenni, kvíði og þunglyndi.

Helstu niðurstöður: Niðurstöður sýndu marktæk tengsl milli missis ættingja eða vinar og andlegrar og líkamlegrar heilsu og vellíðunar. Þegar fjölbreytulíkanið var prófað, urðu tengslin veikari en þau héldust áfram marktæk. Kyn, aldur og menntun voru þær breytur sem spáðu fyrir um heilsu eftir missi. Niðurstöðurnar sýndu að með hækkandi aldri eru einstaklingar líklegri til að meta líkamlega heilsu sína sem slæma. Hins vegar voru yngri einstaklingar marktækt líklegri til að vera kvíðnir eftir missi. Yngri konur og þeir sem minni menntun höfðu voru líklegri til að finna fyrir þunglyndi og sállíkamlegum einkennum og eldri konur voru líklegri til að meta heilsu sína slæma. Þegar tekið var tillit til annarra samhengisbreytna (annar missir/áföll) reyndist missir vinar vera það eina sem marktækt spáði fyrir um sállíkamleg einkenni og missir barns á öllum aldri það eina sem marktækt spáði fyrir um sjálfmetna andlega heilsu. Líkt og fram kemur í aðlögunarlíkani Roys tempra aðlögunarþættir áhrif allra annarra þátta líkansins.

Helstu ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að þörf sé fyrir frekari rannsóknir á þessu sviði og ennfremur að það sé brýnt að hjúkrunarfræðingar hafi vakandi auga og beini athygli sinni meir að þeim sem nákomnir eru deyjandi sjúklingum og bjóði þeim og þrói samhliða þá hjúkrun sem þeir eru í þörf fyrir.

V 65 Viðhorf Íslendinga til geðdeyfðarlyfja og þættir sem hafa áhrif á viðhorfin

Þórdís Ólafsdóttir, Magnús Gottfreðsson, Engilbert Sigurðsson

Lyfjafræði- og læknadeild HÍ, Landspítali

tholafsdottir@actavis.is / engilbs@landspitali.is

Inngangur: Í ljósi algengis og alvarleika þunglyndis og ekki síður vegna vaxandi notkunar geðdeyfðarlyfja er mikilvægt að kanna þekkingu og viðhorf fólks til lyfjanna og hvaða þættir virðast helst móta viðhorfin.

Efniviður og aðferðir: Valdir voru af handahófi 2000 Íslendingar úr þjóðskrá á aldrinum 18-80 ára. Saminn var spurningalisti sem þeim var sendur í pósti þar sem spurt var um viðhorf til geðdeyfðarlyfja (12 spurningar), bakgrunn þátttakenda og reynslu af notkun lyfjanna (7) og þekkingu á þeim (12 spurningar).

Niðurstöður: Svarhlutfall var 47,3%. Fram kom að flestir gátu hugsað sér að taka inn geðdeyfðarlyf við þunglyndi (71,5%) sem og að hvetja nána vini eða ættingja til hins sama (61,5%). Að auki nefndi stór hluti (69,8%) geðdeyfðarlyf sem virka meðferð við þunglyndi. Fordómar gagnvart notkun þeirra reyndust litlir, en þrátt fyrir að hátt hlutfall svarenda teldi að hvorki dagleg geðdeyfðarlyfja- (49,5%) né gigtarlyfjanotkun (70,0%) einstaklinga sem þeir eru að kynnast drægi úr áhuga á nánari kynnum, voru þeir marktækt fleiri sem töldu að dagleg geðdeyfðarlyfjanotkun hefði slík áhrif (20,7% á móti 8,8%). Tæplega helmingur (41,4%) taldi ávísanir á þunglyndislyf of algengar. Nær helmingur þátttakenda vissi ekki að vikuleg eða tíðari áfengisnotkun dregur úr virkni lyfjanna og minnkar líkur á bata í þunglyndi. Konur voru líklegri en karlar til að telja óhefðbundna meðferð eins og heilun, nudd og grasalækningar virka meðferð við þunglyndi (p<0,05).

Ályktanir: Þekking almennings á notagildi geðdeyfðarlyfja reynd­ist nokkuð góð og höfðu þeir einstaklingar sem betur voru upplýstir oftar jákvætt viðhorf til notkunar þeirra. Viðhorf Íslendinga til geðdeyfðarlyfja reyndust jákvæðari en viðhorf í erlendum könn­unum og kann það meðal annars að skýra meiri notkun þeirra hér á landi.

V 66 Forvarnir aftanlæristognana í knattspyrnu

Árni Árnason1,2,3, Stefán B. Sigurðsson2, Árni Guðmundsson, Thor Einar Andersen1, Lars Engebretsen1, Roald Bahr1

1Oslo Sports Trauma Research Center, Norwegian University of Sport and Physical Education, Osló, 2Lífeðlisfræðistofnun, læknadeild HÍ, 3sjúkra­þjálfunarskor læknadeildar HÍ

arnarna@hi.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að allt að 16% meiðsla í knattspyrnu eru aftanlæristognanir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi aftanlæristognana meðal knattspyrnumanna í efstu deildum á Íslandi og í Noregi og kanna hvort eksentrísk styrkþjálfun og vöðvateygjur gætu dregið úr tíðni þessara meiðsla.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru leikmenn frá 16 af 20 knattspyrnuliðum í tveimur efstu deildum karla á Íslandi og öllum 14 liðunum í norsku úrvalsdeildinni. Rannsóknin hófst árið 1999 á Íslandi og árið 2000 í Noregi með því að sjúkra­þjálfarar skráðu meiðsli og þjálfarar skráðu þátttöku leikmanna í æfingum og leikjum. Á árunum 2001-2002 var reynt forvarnar­pró­gramm, sem var samsett úr léttum teygjum í upphitun, liðleikaþjálfun fyrir aftanlærisvöðva og eksentrískri styrkæfingu (Nordic hamstring). Árið 2001 var óskað eftir því við öll íslensku liðin að þau notuðu allt prógrammið, en norsku liðin voru aðeins beðin um að nota teygjur í upphitun ásamt liðleikaþjálfun. Árið 2002 var óskað eftir því við öll liðin í báðum löndunum að þau notuðu léttar teygjur í upphitun og eksentríska styrkþjálfun.

Niðurstöður: Þau lið sem notuðu léttar teygjur í upphitun ásamt liðleikaþjálfun fengu sambærilega tíðni aftanlæristognana og árið áður (0,54 meiðsli/1000 klst.), og heldur hærri tíðni en þau lið sem ekki notuðu slíka þjálfun (0,35 meiðsli/1000 klst). Þau lið sem notuðu eksentríska styrkæfingu fengu færri aftanlæristognanir (0,22 meiðsli/1000 klst.) en þau lið sem ekki notuðu slíka þjálfun (0,44 meiðsli/1000 klst).

Ályktanir: Eksentrísk styrkþjálfun með ?Nordic hamstring? virðist fækka aftanlæristognunum meðal knattspyrnumanna.

V 67 Sjúklingar með langvinna lungnateppu eru oft með skert heilsutengd lífsgæði, kvíða og þunglyndi við útskrift af sjúkrahúsi

Gunnar Guðmundsson1, Stella Hrafnkelsdóttir1, Christer Janson2, Þórarinn Gíslason1

1Lungnadeild Landspítala, 2lungnadeild háskólasjúkrahússins Uppsölum, Svíþjóð

ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Sjúklingar með langvinna lungnateppu (LLT) lýsa oft kvíða og þunglyndi samfara skertum lífsgæðum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna samband milli kvíða, þunglyndis, lífs­gæða og líkamlegs ástands hjá sjúklingum með LLT við útskrift af sjúkrahúsi.

Efniviður og aðferðir: Um var að ræða framvirka samnorræna rannsókn sem fram fór samtímis á fimm háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndunum. Sjúklingar sem innlagðir höfðu verið vegna versnunar á LLT svöruðu spurningum um heilsutengd lífsgæði (St. George Respiratory Questionnaire) og kvíði og þunglyndi voru metin með Hospital Anxiety and Depression Scale. Einnig var safnað upplýsingum um öndunarmælingar, reykingar og fleiri þætti.

Niðurstöður: Alls voru 416 sjúklingar í rannsókninni sem uppfylltu skilmerki um LLT. Þunglyndi og kvíði voru algeng meðal sjúklinga með LLT sem legið höfðu á sjúkrahúsi vegna versn­unar á LLT. Kvíði var algengari hjá konum en körlum (47% vs. 34%, p=0,009) og þeir sjúklingar með LLT sem enn reyktu voru kvíðnari (54% vs. 37%) og þunglyndari en þeir sem ekki reyktu (p<0,01). Það var ekki marktækt samband milli skerðingar á lungnastarfsemi og geðrænna kvilla. Heilsutengd lífsgæði voru lakari hjá þeim sem voru kvíðnir, þunglyndir eða hvoru tveggja. Geðkvillar tengdust öllum þáttum heilsutengdra lífsgæða.

Ályktanir: Kvíði og þunglyndi eru algeng hjá sjúklingum með LLT og þeir hafa jafnframt skert heilsutengd lífsgæði. Einföld skimun fyrir kvíða og þunglyndi getur hjálpað til að greina LLT sjúklinga með lakari lífsgæði. Þannig má stuðla að sértækari meðferð og bættu heilsufari.

V 68 Örorka vegna sykursýki á Íslandi

Sigurður Thorlacius1,2, Sigurjón B. Stefánsson1,2,3, Ástráður B. Hreiðarsson4, Arna Guðmundsdóttir4

1Tryggingastofnun ríkisins, 2læknadeild HÍ, 3taugalækningadeild, 4göngu­deild sykursjúkra Landspítala

sigurdur.thorlacius@tr.is

Inngangur: Algengi offitu og sykursýki henni tengdri hefur farið vaxandi á Íslandi á undanförnum árum. Því má búast við að algengi örorku vegna sykursýki hafi einnig vaxið. Til að ganga úr skugga um hvort svo sé er hér borið saman algengi örorku vegna sykursýki á árunum 1990 og 2003.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar voru unnar úr gagnasafni Tryggingastofnunar ríkisins um alla sem metnir höfðu verið til örorku 1. desember árin 1990 og 2003. Kannað var í hve mörgum tilvikum greining sykursýki kom fyrir í örorkumati og hvort hún krafðist meðferðar með insúlíni eða ekki. Aflað var upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda Íslendinga á aldrinum 16-66 ára á sama tíma. Reiknað var algengi örorku vegna sykursýki.

Helstu niðurstöður: Á milli áranna 1990 til 2003 jókst algengi örorku vegna sykursýki úr 0,162% í 0,243% hjá konum (50% aukning) og úr 0,101% í 0,211% hjá körlum (109% aukning). Örorka vegna sykursýki sem krafðist meðferðar með insúlíni jókst úr 0,047% í 0,102% hjá konum (118% aukning) og úr 0,023% í 0,079% hjá körlum (248% aukning) og vegna annarrar sykursýki úr 0,115% í 0,141% hjá konum (22% aukning) og úr 0,078% í 0,131% hjá körlum (68% aukning). Á sama tíma jókst algengi örorku almennt úr 5,667% í 8,281% hjá konum (46% aukning) og úr 3,871% í 5,398% hjá körlum (39% aukning).

Ályktanir: Hjá körlum hefur algengi örorku vegna sykursýki aukist verulega umfram algengi örorku almennt frá 1990 til 2003, sérstaklega vegna sykursýki sem krefst meðferðar með insúl­íni. Hjá konum hefur á sama tíma ekki orðið marktæk aukning á örorku vegna sykursýki umfram algengi örorku almennt, en nokkur aukning á örorku vegna sykursýki sem krefst meðferðar með insúlíni.

V 69 Hvar stendur hjúkrun í sambandi við lágmarksskrán­ingu vistunarupplýsinga á Landspítala?

Ásta Thoroddsen1,2, Guðrún Bragadóttir2, Laura Sch. Thorsteinson1,2, Lilja Þorsteinsdóttir2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

astat@hi.is

Inngangur: Tilmæli Landlæknisembættisins um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum og almenn kröfulýsing fyrir sjúkraskrárkerfi hafa aukið kröfur til hjúkrunarskráningar. Rétt greining hjúkrunarvandamála er mikilvæg fyrir val á hjúkrunarmeðferð sem best hentar og skráning hjúkrunargreininga og -meðferðar undirstrikar faglega ábyrgð hjúkrunarfræðinga í starfi. Tilgangur hjúkrunarskráningar á Landspítala er meðal ann­ars að veita yfirsýn yfir ástand og meðferð sjúklings, skapa samfellu í hjúkrunarmeðferð og grundvöll til að meta gæði veittrar hjúkrunar, tryggja öryggi sjúklings og skapa grunn fyrir kennslu og rannsóknir í hjúkrun.

Efniviður og aðferðir: Átak var gert á Landspítala 2003 til að bæta hjúkr­unarskráninguna. Kannanir voru framkvæmdar á öll­­um legudeild­um þar sem staða skráningar á spítalanum var könnuð fyrir (n=362 hjúkrunarskrár) og eftir (n=355 hjúkrunarskrár) átakið.

Eftirfarandi þættir hjúkrunarskráningar voru athugað­ir: upp­lýs­ingasöfnun, hjúkrunargreiningar, markmið, hjúkr­un­ar­áætl­un og framvinduskráning. Engum persónugreinanlegum upp­­lýs­ingum var safnað.

Helstu niðurstöður: Skráningin batnaði í öllum þáttum er varða lágmarksskráningu vistunarupplýsinga á milli ára. Notkun heilsufarslykla fyrir upplýsingasöfnun jókst marktækt (p<.05). Notkun einstaklingshæfðra hjúkrunaráætlana jókst úr 68% í 82%, NANDA hjúkrunargreininga úr 71% í 86% á milli ára, skráning einkenna úr 43% í 73%, orsakaþátta úr 84% í 91% og NIC flokkunarkerfisins til skráningar á hjúkrunarmeðferð um 55% (úr 5% í 60%).

Ályktanir: Hinir ýmsu þættir hjúkrunarskráningar skapa þekkingargrunn fyrir klínískt starf og rannsóknir og eru nauðsynlegir við þróun upplýsingakerfa í hjúkrun. Niðurstöður varpa ljósi á gæði hjúkrunarskráningar á Landspítala og nýtast við frekara rannsókna- og þróunarstarf innan hjúkrunar.

V 70 Þróun á insúlíni á neflyfjaformi

Ebba K. Baldvinsdóttir, Ólöf G. Sigurðardóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Svein­björn Gizurarson

Lyfjaþróun hf.

sigridur@lyf.is

Inngangur: Mikil eftirspurn er eftir lyfjaformi insúlíns sem er ekki stungulyf. Ein af leiðunum fyrir prótein inn í líkamann er gegnum slímhúðir nefsins en þar er ekki eins virkt próteinniðurbrot eins og það sem eyðileggur prótein og peptíðlyf í meltingarvegi. Frásog stórra sameinda gegnum nefslímhúð er afar takmörkuð ef engin hjálparefni eru notuð. Í þessari rannsókn voru áhrif Softigens®767 sem frásogshvata fyrir insúlínneflyf prófuð á rottum.

Efniviður og aðferðir: Rottur voru látnar fasta yfir nótt. Þær voru svæfðar með Hypnorm (fluanisone/fentanyl) og Dormicum (midazolam) og þeim gefið insúlín með og án hjálparefna í nef. Til að kanna frásog insúlíns var fylgst með styrk blóðsykurs sem falli af tíma.

Niðurstöður: Svæfingin hefur veruleg áhrif á styrk glúkosa í rottum. Þannig hækkar blóðsykurinn úr um það bil 4 mM í 10 mM á tveimur tímum eftir svæfingu. Rotturnar voru látnar jafna sig í tvo tíma áður en insúlín var gefið. Insúlín án hjálparefna hefur engin áhrif á blóðsykur umfram þau sem sjást hjá rottum sem ekkert lyf fengu. Þegar Softigen er í lyfjaforminu fæst hröð lækkun á blóðsykri sem sýnir að aðgengi insúlíns er verulega aukið.

Ályktanir: Softigen®767 er áhrifamikill frásogshvati fyrir insúlín þegar það er gefið í nef á rottum.

V 71 Notkun lyfja við háþrýstingi og háum blóðfitum. Hafa ný lyf áhrif á notkun eldri lyfja og útkomur í heilbrigðis­þjónustunni?

Arna Hrund Arnardóttir1, Anna Birna Almarsdóttir2, María Heimisdóttir3

1Actavis hf., 2lyfjafræðideild HÍ, 3Landspítali

annaba@hi.is

Inngangur: Á síðustu árum hefur umræða um lyf að miklu leyti snúist um ný lyf á markaði og kostnað sem af þeim hlýst. Misgóðar rannsóknir hafa skoðað ávinning af nýjum lyfjum og niðurstöður þeirra rannsókna eru umdeildar. Lyf af flokkum C08 og C09 eru lyf við háþrýstingi. Lyf af flokki C10 eru notuð við hárri blóðfitu. Markmið rannsóknarinnar var 1) að kanna þróun notkunar lyfja af ATC-flokkum C08, C09 og C10 árin 1991-2003; 2) að skoða hvaða áhrif ný lyf á markaði hafa á útkomuskráningar sjúkrahúsanna. Leitast er við að kanna hvaða áhrif íhlutandi aðgerðir hafa á lyfjamarkaðinn og hvort ný lyf á markaði taki notkun frá eldri lyfjunum.

Efniviður og aðferðir: Gögn um lyfjanotkun fengust úr IDM og útskriftargreiningar og aðgerðakóðar frá Landspítala og FSA. Röskuð tímaraðgreining var notuð til að kanna áhrif íhlutandi aðgerða á tímaraðir. Microsoft Excel var notað til lýsandi greininga, en SPSS 12.0.1 for Windows var notað til íhlutunartímaraðgreiningarinnar.

Niðurstöður: Notkun lyfjaflokkanna hefur aukist nokkuð á tíma­bil­inu. Notkun kalsíumgangaloka hefur nær fimmfaldast og notkun ACE-hemla hefur tæplega fjórfaldast á sama tíma. Notkun angíotensín II viðtakahemla hefur aukist hratt eftir að þeir komu fyrst á markað í janúar 1995. Notkun blóðfitulækkandi lyfja hefur rúmlega 450 faldast á rannsóknartímabilinu þar sem notkun statína á mestan þátt í þessari miklu aukningu, en frá því fyrstu statínin komu á markað í október 1988 hefur sala þeirra aukist mjög hratt.

Ályktanir: Niðurstöðurnar eru í samræmi við fyrri rannsóknir. Ný lyf á markaði hafa ekki áhrif á eldri lyf strax við markaðssetningu, en gætu gert það til langtíma. Það má staðhæfa að ný lyf ryðji eldri lyfjum ekki úr vegi, en notkun þeirra stafar einna helst af nýjum greiningum og nýjum sjúklingum.

V 72 Akstur undir áhrifum alkóhóls og/eða lyfja á Íslandi 2000 til 2002

Guðlaug Þórsdóttir, Kristín Magnúsdóttir, Jakob Kristinsson

Lyfjafræðistofnun, Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræði

gudlaugt@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að draga saman niðurstöður mælinga á alkóhóli og/eða lyfjum í blóði ökumanna sem grunaðir voru um að aka undir áhrifum áfengis og/eða lyfja frá ársbyrjun 2000 til ársloka 2002.

Efniviður og aðferðir: Ef einstaklingur er grunaður um ölvunarakstur má samkvæmt íslenskum lögum krefja hlutaðeigandi um blóð, þvag og öndunarsýni til greiningar á styrk alkóhóls og/eða lyfja. Rannsóknin nær yfir öll sýni úr ökumönnum sem bárust rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði í á ofangreindu tíma­bili. Fjöldi mála var samtals 6487. Styrkur alkóhóls var mældur í öllum sýnunum og í 154 sýnum (2,4%) var einnig beðið um lyfja­mælingu.

Niðurstöður: 85% tilfella reyndust vera með áfengismagn í blóði yfir leyfilegum mörkum (>0,5? w/v). Þar sem beðið var um lyfjamælingar töldust 89 (57,8%) hafa ekið undir áhrifum lyfja. Algengsta lyfið/efnið sem greindist hjá ökumönnum var tetra­hýdrókannabínól í 60 tilfellum (39,0%), benzódíazepín í 57 tilfellum (37,0 %), amfetamín í 31 tilfelli (20,19%) og sterk verkja­lyf (ópíöt) í 26 tilfellum (16,9%). Áfengismagn í blóði var oftast á bilinu 0,5-0,99?. Karlar voru í meirihluta (80,3%) og flestir yngri en 30 ára (57,1%).

Umræður og niðurstaða: Akstur undir áhrifum áfengis er einn af áhættuþáttum fyrir banaslys í umferðinni. Við vitum minna um áhrif hinna ýmsu lyfja á akstur en rannsóknir erlendis frá hafa sýnt fram á aukna hættu á umferðaróhöppum við akstur eftir töku á benzódíazepínum. Sá efniviður sem hér er kynntur er ekki tilviljanakennt úrtak úr umferðinni heldur valinn hópur sem tekinn hefur verið af lögreglu vegna gruns um að aka undir áhrifum áfengis eða lyfja. Frekari rannsókna er þörf til þess að unnt sé að komast að því hver sé raunveruleg tíðni aksturs undir áhrifum áfengis og/eða lyfja hér á landi.

V 73 Áhrif vatnsextrakts úr fjallagrösum (Cetraria island­ica) á frumuboðaseytun angafrumna in vitro og ónæm­is­vakasértæka liðbólgu í rottum

Sesselja Ómarsdóttir1, Hulda Klara Ormsdóttir1, Jóna Freysdóttir2, Kristín Ingólfsdóttir1, Elín Soffía Ólafsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Lyfjaþróun hf.

sesselo@hi.is

Inngangur: Fjallagrös, Cetraria islandica (L.) Ach. (Parmeliaceae) er ein fárra fléttutegunda sem notuð er í lækningalegum tilgangi. Vatnsextrakt og hrein efni einangruð úr fjallagrösum hafa sýnt áhugaverða líffræðilega verkun. Markmið þessarar rannsóknar var að magnákvarða fjögur helstu innihaldsefni fjallagrasaextrakts og kanna áhrif þess í in vitro angafrumulíkani og í in vivo liðbólgulíkani í rottum.

Efniviður og aðferðir: Vatnsextrakt var framleitt með því að sjóða mulin fjallagrös í fimm mínútur og frostþurrka flotið. RP-HPLC var notað til að magngreina prótólichesterínsýru og fúm­ar­prótócetrar­ínsýru og 1H og 13C-NMR til að magngreina isolichenan og lich­enan. Vatnsextraktið var prófað í angafrumulíkani þar sem að mónócýtar voru einangraðir úr blóði og látnir þroskast í óþroskaðar angafrumur. Óþroskaðar angafrumur voru síðan ræktaðar með extraktinu og látnar þroskast áfram í þroskaðar angafrumur. Floti af frumurækt var safnað og seytun frumuboða mæld með ELISA. Vatnsextraktið var einnig prófað í ónæmisvakasértæku liðbólgulíkani í rottum þar sem bólga var framkölluð í vinstra hné rottnanna. Rotturnar voru svo sprautaðar með fjallagrasaextrakti eða saltvatnslausn s.c. þrisvar í viku í sex vikur og umfang liðbólgunnar mælt.

Niðurstöður: Angafrumur sem ræktaðar voru með vatnsextrakti úr fjallagrösum í háum styrk (200 og 100 µg/ml) seyttu auknu magni af IL-10 (2,6 og 2,1 ng/ml) og minna magni af IL-12 (14 og 13 ng/ml) miðað við grunngildi. Einnig minnkaði bólga í ónæmisvakasértækri liðbólgu í rottunum sem fengu 2,5 mg/kg af extrakti þrisvar í viku.

Ályktanir: Vatnsextrakt úr fjallagrösum hefur áhrif á þroskun anga­frumna þannig að þær seyta bólguhemjandi boðefnum og virðist hafa bólgueyðandi áhrif í liðbólgulíkani í rottum. Tekist hefur að magn­ákvarða fjögur helstu innihaldsefnin í fjallagrasavatns­extrakti.

V 74 Fjölsykrur úr ormagrösum (Thamnolia vermicularis var. subuliformis) og áhrif þeirra á frumufjölgun miltisfrumna og frumuboðaseytun miltisfrumna og kviðarholsmakróvaka úr rottum in vitro

Sesselja Ómarsdóttir1, Jóna Freysdóttir2, Berit Smestad Paulsen3, Elín Soffía Ólafsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Lyfjaþróun hf., 3Dept. of Pharmacognosy, Institute of Pharmacy, University of Oslo

sesselo@hi.is

Inngangur: Fléttur eru hægvaxta samlífsverur sem samanstanda af svepp og þörungi. Margar fjölsykrur úr sveppum og fléttum hafa sýnt áhrif á ýmsa þætti ónæmiskerfisins. Markmið þessarar rannsóknar var að einangra og byggingarákvarða fjölsykur úr ormagrösum og rannsaka in vitro áhrif þeirra á frumufjölgun miltisfrumna og frumuboðaseytun miltisfrumna og kviðarhols­makróvaka úr rottum.

Efniviður og aðferðir: Fjölsykrurnar voru úrhlutaðar með heitu vatni og 0,5 M NaOH, einangraðar með etanólfellingum og díalýsu, hreinsaðar upp með jónskiptaskiljun, gelsíun og preparatíft á GP-HPLC. Byggingarákvörðun á efnunum var gerð með 1H og 13C-NMR, metanólýsu, metýleringsgreiningu á GC-MS og með ensímhýdrólýsu. Kviðarholsmakróvakar og miltisfrumur og voru fengnar úr rottum og þær ræktaðar með/án fjölsykranna. Frumufjölgun miltisfrumna var ákvörðuð með því að mæla 3H-thýmidín upptöku frumna í skiptingu með sindurteljara. Frumu­boðaseytun miltisfrumna og kviðarholsmakróvaka var mæld með ELISA.

Niðurstöður: Ormagrös framleiða að minnsta kosti þrjú flókin heteróglýk­ön og eitt ?-glúkan af lentinan gerð. Allar fjölsykrurn­ar, nema Ths-4, í styrknum 100 µg/ml juku frumufjölgun miltisfrumna. Ths-4 og Ths-2 í styrknum 100 µg/ml og Ths-5 í styrkjun­um 100 og 33 µg/ml juku marktækt IL-10 seytun miltisfrumna en engin sykranna hafði áhrif á IL-4 seytun þeirra. Fjölsykran Ths-4 (100 µg/ml) jók marktækt seytun TNF-? hjá kviðarhols­makróvökum.

Ályktanir: Ormagrös framleiða fjölsykrur með óvenjulegar bygg­ing­ar. Niðurstöður virkniprófana gefa til kynna að þessar fjöl­sykr­ur hafi bæði áhrif á frumur ósérhæfða og sérhæfða ónæmiskerfis­ins. Frekari rannsóknir á þessum fjölsykrum og samanburður á áhrifum þeirra og fleiri byggingargerða fléttufjölsykra á ónæmis­kerfið mun vonandi leiða til aukins skilnings á sambandi á milli bygginga og verkunar.

V 75 Lyfjaeiginleikar pólýketíðanna alnumycin og helio­mycín

Eva Lind Helgadóttir1, Davíð R. Ólafsson2, Sigríður Ólafsdóttir2, Sveinbjörn Gizurarson1,2

1Lyfjaþróun hf., 2lyfjafræðideild HÍ

elh@lyf.is

Inngangur: Actinomycetes og Streptomycetes bakteríur framleiða margar gerðir af annars stigs afurðum af flokki pólýketíða. Algengt er að pólýketíð hafi lyfjavirkni og til þeirra teljast lyf eins og erythromýcín, tetracýclín, lovastatín og simvastatín. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvort nýta megi pólýketíðin alnumycín og heliomycín sem lyf. Alnumycin hindrar vöxt K562 hvítblæðisfrumna en þessi virkni bendir til þess að alnumycin hafi sambærileg áhrif og naphthopyranomycín og því líklegt til að gagnast sem lyf gegn krabbameini. Heliomycín hefur virkni gegn ýmsum sveppum og bakteríum. Stefnt er að því að rannsaka lyfja­eiginleika sameindanna í dýrum.

Efniviður og aðferðir: Þróaðar voru HPLC greiningaraðferðir fyrir bæði alnumycín og heliomycín. Notuð var vatnsfælniskilja og ACN/maurasýru/vatns blanda í ferðafasa. Greiningaraðferðirnar voru notaðar til að mæla octanol/vatns dreifistuðul (Kow) efnanna en hann gefur hugmynd um fitusækni lyfjaefna.

Niðurstöður: HPLC greiningaraðferðirnar voru línulegar á bilinu 9,4 til 93,6 ng/mL og greiningarmörkin kringum 11,0 ng/mL. Octanol-/vatns dreifistuðull sýndi að bæði efnin eru mjög fitusækin og varla uppleysanleg í vatni. Út frá byggingu þeirra og niðurstöðum octanol/vatns hlutfalls tilraunanna má ætla að efnin muni dreifast hratt og auðveldlega um vefi líkamans. Þau munu væntanlega setjast að í fituríkum vefjum og líffærum eins og lifur, lungum og heila.

Ályktanir: Þróuð hefur verið aðferð til að greina lyfjaefnin alnumycín og heliomycín í lyfjaformum og verið er að fullgera greiningaraðferðir fyrir þessi efni úr blóði. Niðurstöður benda til að fituleysar verði notaðir í til að búa til fljótandi lyfjaform.

V 76 Bakteríuhemjandi efni úr krækilyngi

Ragnheiður Gunnarsdóttir1, Ingibjörg Hilmarsdóttir2, Helga Erlendsdóttir2, Rannveig Thoroddsen3, Kristín Ingólfsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2sýklafræðideild Rannsóknastofnunar Landspítala Bar­ónsstíg, 3Líffræðistofnun HÍ

kring@hi.is

Inngangur: Krækilyng (Empetrum nigrum) er ein af fáum nytja­plöntum sem vex villt á Íslandi. Innihaldsefni plöntunnar, önnur en vítamín, hafa ekki verið skilgreind. Markmið verkefnisins var að rannsaka annars stigs efni (secondary metabolites) laufa og berja krækilyngs og skima fyrir bakteríu- og sveppahemjandi virkni in vitro.

Efniviður og aðferðir: Krækilyng flokkast í tvær deilitegundir, ssp. hermaphroditum og ssp. nigrum, og var sú fyrrnefnda efniviður rannsóknarinnar. Útdrættir voru gerðir úr frostþurrkuðum berjum og laufum og fornæmispróf síðan gerð á útdráttum til að meta bakteríu- og sveppahemjandi virkni gegn fimm sjúkdóms­valdandi örverutegundum með þynningarprófum í fljótandi æti. Lífvirknileidd einangrun (bioguided fractionation) var notuð til að staðsetja bakteríuhemjandi efni í útdráttum og til að stýra einangrun þeirra.

Niðurstöður: Tvö virk efni af flokki tríterpena voru einangruð, annað úr laufi, hitt úr berjum. Efnin voru prófuð fyrir virkni gegn átta örverutegundum (fjórum Gram jákvæðum-, þremur Gram neikvæðum- bakt­eríum, einum gersvepp) og sýndu mesta virkni gegn Gram jákvæðum bakteríum, þar á meðal methicill­ín-ónæmum Staphylococcus aureus (MÓSA). MIC (minimal inhibitory concentration) gildi voru á bilinu 8-32 µg/ml. Blanda 5 náskyldra litarefna af flokki anthocyanína var jafnframt einangruð úr kræki­berjum, sem og þriðja efnið af tríterpen flokki sem ekki sýndi virkni.

Ályktanir: Frumrannsóknir á innihaldsefnum íslensks krækilyngs hafa sýnt fram á tilvist bakteríuhemjandi efna. Þessi efni hafa ekki verið greind í erlendu krækilyngi, og væri áhugavert að rannsaka deilitegundina ssp. nigrum sem einnig vex á Íslandi. Niðurstöður gefa jafnframt tilefni til frekari rannsókna á sambandi milli efnabyggingar og örveruhemjandi virkni tríterpena.

V 77 Lyfjavirk efni úr sjávardýrum

Sandra Steingrímsdóttir1, Jörundur Svavarsson2, Helga M. Ögmundsdóttir3, Gordon M. Cragg4, Kristín Ingólfsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Líffræðistofnun HÍ, 3læknadeild HÍ, 4Natural Products Branch, Division of Cancer Treatment and Diagnosis, National Cancer Institute, Bethesda, Maryland, USA

kring@hi.is

Inngangur: Þrátt fyrir árangur við leit að lyfjavirkum efnum úr sjávarlífverum frá suðlægum hafsvæðum, hafa lífverur frá norðlægum slóðum lítið verið skoðaðar. Innan íslenskrar efnahagslögsögu lifa að líkindum 6000-8000 tegundir sjávardýra. Verkefnið felst í leit að lyfjavirkum efnum í íslenskum sjávardýrum, svo sem svömpum, holdýrum, lindýrum, liðormum, krabbadýrum, mosadýrum, skrápdýrum og fiskum. Markmið er jafnframt að afla upplýsinga um efnafræðieiginleika innihaldsefna sjávardýranna.

Efniviður og aðferðir: Þrjátíu og fimm tegundum sjávardýra var safnað í fjöru, við köfun og við veiðar á dragnótabátum við strendur Íslands. Skeljar voru fjarlægðar af lindýrunum og útdrættir (extracts) unnir úr hökkuðum vef þeirra og vaxtarhindrandi virkni þeirra á eftirfarandi illkynja frumulínur mæld hjá bandarísku krabbameinsstofnuninni (National Cancer Institute); lungnakrabbameinsfrumur (NCI-H460), miðtaugakerfiskrabbameinsfrumur (SF-268) og brjóstakrabbameinsfrumur (MCF-7). SPE (solid phase extraction) súluskiljun var notuð við einangrun virkra efna. Við lífvirknileidda einangrun (bioguided fractiona­tion) var notuð lungnakrabbameinslínan NCI-N917.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu marktæka og mjög áhugaverða virkni hjá fjórum tegundum sjávardýra, þar á meðal sniglinum klettadoppu (Littorina saxatilis), en útdráttur úr sniglinum sýndi öfluga virkni gegn lungnakrabbameinsfrumulínunni. Tekist hefur að staðsetja virka efnið með því að skilja virka útdráttinn í þrjá þætti, en einn þeirra sýnir vaxtarhindrandi virkni gegn lungnakrabbameinsfrumum í rækt.

Ályktanir: Fullhreinsun á virku efni fer nú fram, og eru næstu skref að staðfesta hreinleika, sameindabyggingu og virkni. Niðurstöður gefa tilefni til frekari rannsókna á lyfjavirkum efnum í íslenskum sjávarlífverum.

V 78 Einangrun (+)- og (-)-úsnínsýru úr íslenskum fléttum og virkniprófanir gegn ýmsum örverum

W. Peter Holbrook1, Þórey V. Þorgeirsdóttir2, Kristín Ingólfsdóttir2

1Tannlæknadeild HÍ, 2lyfjafræðideild HÍ

kring@hi.is

Inngangur: Úsnínsýra er algengt fléttuefni og finnst í sumum tegundum sem (+)-handhverfan (enantiomer), en í öðrum sem (-)-handhverfan. Úsnínsýra hefur sýnt áhugaverða lífvirkni og í sumum tilfellum hefur verið munur á virkni handhverfanna. Tilgangur rannsóknarinnar var þríþættur; i) skima hemjandi virkni handhverfanna in vitro gegn örverum, sérstaklega örverum úr munnholi, ii) kanna hvort munur sé á virkni handhverfanna, iii) kanna hvort munur sé á virkni þegar næmispróf eru gerð í fljótandi örverurækt annars vegar og örveruþekjurækt hins vegar. Örverur í munni til dæmis vaxa yfirleitt á formi örveruþekju.

Efniviður og aðferðir: (+)-Handhverfa úsnínsýru var einangruð úr fléttunni Cladonia arbuscula (hreindýrakrókar) og (-)-formið úr Alectoria ochroleuca (skollakræða). Efnabygging og hreinleiki efnanna voru staðfest með 1H og 13C NMR og mælingum á optískum snúningi pólariseraðs ljóss. Skífunæmispróf voru gerð til skimunar gegn 4 örverutegundum frá munnholi; Streptococcus mutans, Streptococcus sanguis, Lactobacillus og Candida albicans og 2 algengum sýklum; Escherichia coli og Staphylococcus aureus. Þynningarnæmispróf voru gerð á tvenns konar örveruræktum; fljótandi rækt og örveruþekjurækt.

Niðurstöður: Handhverfur úsnínsýru voru jafnvirkar gegn öllum Gram jákvæðu bakteríunum sem prófaðar voru. Mesta virkni var gegn Streptococcus sanguis og voru MIC (minimum inhibitory concentration) og MBC (minimum bactericidal concentration) gildi jöfn í fljótandi rækt; 3,9 ?g/ml.

Ályktanir: Enginn munur var á örveruhemjandi virkni handhverfanna tveggja. Eins og búast mátti við, miðað við niðurstöður sem fengist hafa fyrir sýklalyf og önnur örveruhemjandi efni, voru bakteríurnar ónæmari fyrir virkni úsnínsýru þegar þær voru ræktaðar í örveruþekju samanborið við fljótandi rækt.

V 79 Veiruhemjandi efni úr íslenskum fléttum

Anna Kristín Óladóttir1, Þorgerður Árnadóttir2, Auður Antonsdóttir2, Hörður Kristinsson3, Kristín Ingólfsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Rannsóknastofa í veirufræði Landspítala, 3Nátt­úru­fræði­stofnun Íslands, Akureyrarsetur

annao@hi.is

Inngangur: Markmið var að rannsaka innihaldsefni ellefu ís­lenskra fléttna (sambýli sveppa og þörunga) efnafræðilega og skima fyrir veiruhemjandi virkni þeirra gegn þremur veirutegundum; RSV (respiratory syncytial virus), HSV I (herpes simplex virus type I ) og HSV II (herpes simplex virus type II).

Efniviður og aðferðir: Útdrættir úr fléttunum voru gerðir í Soxhlet búnaði með misskautuðum leysiefnum og veiruhemjandi virkni þeirra metin in vitro með PRA (Plaque Reduction Assay) aðferð. Auk þess voru eituráhrif fléttuefnanna á ósýktar apanýrnafrumur (MA 104) metin með smásjárskoðun og litun. Í hverjum útdrætti eru fjölmörg efni og til að þrengja leit að virku efni er stuðst við lífvirknileidda einangrun (bioguided fractionation). Við einangrun virkra efni á hreinu formi er notuð SPE (solid phase extraction) súluskiljun og þunnlagsgreining (TLC). Sameindabyggingar virkra efna eru einkum skilgreindar með vetnis- og kolefniskjarnagreiningu (1H og 13C NMR).

Niðurstöður: Útdrættir úr fimm fléttutegundum sýndu marktæka veiruhemjandi virkni gegn öllum veirunum þremur; Parmelia saxatilis (snepaskóf), Cladonia subcervicornis (skorulauf), Peltigera kristinssonii (dældaskóf), Alectoria nigricans (surtarkræða) og Cetraria islandica (fjallagrös). Almennt höfðu útdrættirnir öflugri áhrif á RS-veiruna heldur en herpes simplex veirurnar. Fléttuefnin höfðu í flestum tilvikum engin eituráhrif á MA 104 frumurnar í þeim styrkleika sem sýndi veiruhemjandi áhrif.

Ályktanir: Veiruhemjandi virkni var staðfest fyrir innihaldsefni fimm fléttutegunda. Virknin var nægilega öflug til að verðskulda frekari rannsóknir þar sem virk efni verða einangruð úr útdráttum, hreinsuð og greind til að ákvarða sameindabyggingu. Veiruhemjandi virkni hreinna skilgreindra efna verður borin saman við virkni markaðssettra lyfja.

V 80 Þróun á alginatfilmum til notkunar í munnholi

Skúli Skúlason1,2, Magnes S. Ásgeirsdóttir1, Þórdís Kristmundsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Líf-Hlaup ehf.

skulis@hi.is

Inngangur: Vaxandi áhugi er á að nota lífhimnubindandi filmur til að gefa lyf staðbundið í munnhol eða systemískt um munnhol­ið. Markmið verkefnisins var að þróa aðferð sem gefur einsleitar filmur en hafi jafnframt ekki áhrif á eiginleika burðarefna og lyfja. Margar fjölliður hafa góða lífhimnubindandi eiginleika og henta því sem burðarefni.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru þrjár mismunandi fjölliður til að búa til himnur og voru þær bornar saman með tilliti til viðloðunar-, slitþols- og bólgnunareiginleika. Fjölliðurnar voru karbopól 981 NF, karbopól 1382 og natríum alginat. Hýdroxýprópýlmetýlcellulosa (HPMC) var notuð með fjölliðunum til að bæta eiginleika filmanna. Viðloðunar- og slitþolsmælingar voru framkvæmdar með TA-XT2i texture analyser. Gervimunnvatnslausn var notuð til að meta bólgnun og sundrun filmanna.

Niðurstöður: Allar filmurnar sýndu ágæta viðloðunareiginleika en alginatið gaf bestu niðurstöðurnar. Bólgnun karbopólfilmanna var óviðunandi þar sem bólgnunin fól aðallega í sér verulega aukningu á flatarmáli þeirra. Bólgnun alginatfilmanna var viðunandi og kom í ljós að þær vildu eyðast/sundrast eftir tiltekin tímabil í munnvatnslausninni háð styrk alginatsins í samsetningunni. Slitkraftur og teygjanleiki filmanna var metinn með slitþolsprófi en með auknu HPMC magni jókst slitkraftur þeirra. Alginatfilmurnar höfðu mestan slitkraft en jafnframt minnstan teygjanleika. Niðurstöður sýndu að magn mýkingarefnis hafði áhrif en eftir því sem styrkur mýkingarefnisins jókst, þá minnkaði viðloðun og slitkraftur filmanna.

Ályktanir: Þróuð var aðferð til að framleiða slímhimnubindandi filmur. Aðferðin er einföld í framkvæmd og hægt að nota sömu framleiðsluaðferðina fyrir mismunandi fjölliður. Niðurstöður sýndu að alginat getur hentað vel sem burðarefni í filmur.

V 81 Aukin leysni torleystra fléttuefna af flokki díbensófúr­ana, depsíða og depsídóna og virkniprófanir á illkynja frum­ur

Þórdís Kristmundsdóttir1, Elsa Jónsdóttir1, Helga Ögmundsdóttir2,3, Kristín Ingólfsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði Krabba­meinsfélagi Íslands, 3læknadeild HÍ

thordisk@hi.is

Inngangur: Það hefur torveldað rannsóknir á vaxtarhemjandi áhrifum fléttuefna á illkynja frumur hversu torleysanleg mörg fléttuefni eru. Þó svo að oft sé hægt að leysa fléttuefnin upp í leysum eins og DMSO, etanóli eða tetrahydrofuran þá eru þetta ekki kjörleysar fyrir prófanir á virkni á frumulínur. Markmið verkefnisins var að auka leysni torleystra fléttuefna þannig að hægt væri að kanna áhrif þeirra á illkynja frumulínur. Valin voru þrjú fléttuefni, atranorín, fúmarprótosetrar sýra og (+)-úsnín sýra sem dæmi um torleyst efni af flokki depsíða, depsídóna og díbensófúrana. Leitast var við að finna hentug leysiefni sem ekki hafa áhrif á vöxt illkynja frumna.

Efniviður og aðferðir: Könnuð voru áhrif leysiefna á frumuvöxt. Þeir leysar sem höfðu lítil áhrif á frumuvöxt voru notaðir til að leysa fléttuefnin til að meta frumudrepandi áhrif þeirra. Virkni leysa og fléttuefnanna var könnuð á frumuvöxt illkynja mannafrumna; hvítblæðifrumulínu (K-562), brjóstakrabbameinsfrumulínu (T-47D), briskirtilskrabbameinslínu (Panc-1) og blöðruháls­kirtilskrabbameinslínu (PC-3).

Niðurstöður: Í frumuprófunum höfðu própýlen glykól, PEG 400 og 2-hydroxyprópyl-B-cyclodextrín og 2-hydroxyprópyl-B-cyclodextrín minnst frumudrepandi áhrif. Cyklódextrín-afleiðurnar reyndust henta best til að auka leysni fléttuefnanna. Hvorki fúmarprótosetrar sýra né atranorín reyndust hafa virkni á frumu­línurnar í þeirri þéttni sem prófað var en (+)-úsnín sýra sýndi talsverða frumuhemjandi virkni; ED50 var 4,3 mg/mL gegn Panc-1, 2,9 mg/mL gegn T47D, 4,7 mg/mL gegn K562 og 8,9 mg/mL gegn PC-3.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að leysarnir própýlen glykól og PEG 400 svo og cýklódextrínafleiður hafa lítil áhrif á frumulínur og henta því til að að kanna frumudrepandi áhrif torleystra fléttu­efna og hugsanlega annarra náttúruefna.

V 82 Virkni mónókaprínlausna gegn örverum sem sýkja munnhol

Þórunn Ó. Þorgeirsdóttir1, Þórdís Kristmundsdóttir1, Halldór Þormar2, W. Peter Holbrook3

1Lyfjafræðideild, 2Líffræðistofnun og 3tannlæknadeild HÍ

thordisk@hi.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að náttúrulegt fituefni, mónó­kaprín (1-mónóglýseríð af kaprínsýru), er virkt gegn hjúpuðum veirum, svo sem vesicular stomatitis veiru, herpes simplex veiru, cytomegaloveiru, respiratory syncytial veiru, visnuveiru og alnæmisveirunni í frumuræktaræti í tilraunaglösum. Markmið þessa verkefnis var að kanna áhrif mónókaprínlausna á vöxt örvera sem eru algengar og sérstaklega með tilliti til munnholsflóru. Þar sem þessar örverur vaxa yfirleitt í örveruþekju (biofilm) á slímhúðinni var virkni mónókapríns könnuð gegn bakteríu sem ræktuð var við snertingu á flötum (það er að segja einföld örveruþekja) jafnframt því að prófa virknina í venjulegri vökvaræktun (planktonic ræktun).

Efniviður og aðferðir: Framleidd var röð lausna af mónókapríni þar sem notuð voru yfirborðsvirku efnin polysorbate 20/40 og leysarnir própýlen glýkól eða glýkófúról 75 til að ná mónóglýs­eríðinu í lausn. Sýrustig lausnanna var stillt á 7. Virkni lausnanna var prófuð gegn Streptococcus mutans, Candida albicans, Lactobacillus sp. og til samanburðar einnig gegn Staphylococcus aureus, Echerichia coli og Pseudomonas aeruginosa. Örveruþekja af stofnunum var gerð með því að láta bakteríurækt drjúpa á steríla síupappírsskífu sem komið hafði verið fyrir á blóðagarplötu; síðan var ræktað yfir nótt við 37°C.

Niðurstöður: Mónókaprínlausnirnar sýndu virkni gegn þeim ör­verum sem prófaðar voru. Nokkur mismunur var á virkni eftir samsetningu lausnarinnar. Í öllum tilfellum var virkni mónó­kapríns minni á örverur í örveruþekju heldur en í ?planktonic? ræktun. C. albicans var sú örvera sem sýndi mesta næmni gegn mónókapríni en Strept. mutans sýndi einnig næmni.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að mónókaprín sé vænlegur kostur til að hindra myndun örveruþekju á slímhúð og mætti hugsanlega nota á gervitennur.

V 83 Bakteríudrepandi monocaprín gel. Rannsókn á þoli og áhrifum á skeiðarflóru

Arndís Vala Arnfinnsdóttir1, Reynir Tómas Geirsson1, Ingibjörg Hilm­ars­dóttir2, Guðrún S. Hauksdóttir2, Þórdís Kristmundsdóttir3, Þórunn Ósk Þor­geirsdóttir3, Halldór Þormar4

1Kvennasvið og 2sýklafræðideild Landspítala, 3lyfjafræði- og 4líffræðideild HÍ

reynirg@landspitali.is

Inngangur: Gel sem innihalda 1- monoglycerid af capric sýru (monocaprín) eru virk gegn ýmsum veirum og bakteríum, meðal annars kynsjúkdómum í in vitro rannsóknum. Monocaprín finnst víða í náttúrunni og heldur virkni sinni í súru umhverfi. Þessi rannsókn var gerð til að kanna hvernig monocaprín gel þolist í leggöngum og hvaða áhrif það hefur á skeiðarflóru.

Efniviður og aðferðir: Tvíblind rannsókn var gerð á 46 konum sem leituðu eftir fóstureyðingu snemma í meðgöngu á kvennadeild Landspítalans. Helmingurinn fékk gel með monocapríni í leggöng en hinn helmingurinn fékk lyfleysu og réði hending því í hvorum hópnum þær lentu. Strok voru tekin frá leggöngum til að meta fjölda lactobacillus baktería og til greiningar á bacterial vaginosis. Jafnframt var tekið strok fyrir klamydíu. Konurnar svöruðu spurningalista með spurningum um útferð og óþægindi eftir gjöf gelsins. Það voru tveir rannsóknarhópar: Í fyrri hópnum var gel sett upp í leggöng 3-5 dögum fyrir fóstureyðingu og sýnataka endurtekin fyrir aðgerð. Í seinni hópnum voru 26 konur sem settu gelið upp sjálfar 7-10 klukkustundum fyrir seinni sýnatöku og aðgerð. Í þessum hópi var að auki sýnataka fyrir GBS og E. coli.

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir en í fyrri sýnatöku voru fleiri konur með bacterial vaginosis í lyfleysuhópnum, eða 56,5% borið saman við 26,1% í monocaprín hópnum. 39% kvennanna sem fengu monocaprín fundu fyrir vægum sviða en aðeins 9% í lyfleysuhópnum. Í fjórum tilfellum urðu áhrif bacterial vaginosis vægari og í einu tilfelli jukust þau. GBS ræktaðist frá fimm konum (11%) og sveppir frá 10 (22%). E. coli ræktaðist frá einni konu. Fimm konur (11%) voru með klamydíu.

Ályktanir: Monocaprín getur valdið vægum sviða sem stendur yfir í stutta stund en hefur lítil áhrif á eðlilega skeiðarflóru eða á bacterial vaginosis.

V 84 Eiginleikar mjúkra bakteríudrepandi efna

Már Másson, Þorsteinn Þorsteinsson, Þorsteinn Loftsson

Lyfjafræðideild HÍ

mmasson@hi.is

Inngangur: Katjónísk yfirborðsvirk fjórgild ammóníumsambönd (QASA) eru mikið notuð sem breiðvirk bakteríudrepandi efni. Notkun þeirra í lyfjum takmarkast þó við not á yfirborð líkamans, þar sem þau eru mjög eitruð ef þau komast inn í líkamann. Þessi efni eru dæmigerð hörð efni sem brotna hægt niður í líkamanum og í umhverfinu. Mjúk efni eru efni sem brotna hratt niður í líffræðilega óvirk og skaðlaus efni. Nýlegar rannsóknir okkar á röð af mjúkum hliðstæðum QASA (Thorsteinsson T, Másson M, Kristinsson KG, Hjálmarsdóttir MA, Hilmarsson H og Loftsson T. J Med Chem 2003; 46: 4173) sýna að þær geta haft veruleg bakteríudrepandi áhrif og jafnframt minni eituráhrif á frumur en sambærileg hörð efni. Tilgangur rannsóknarverkefnisins var að kanna betur niðurbrotseiginleika þessara mjúku hliðstæða og skilgreina samband byggingar og eiginleika.

Efniviður og aðferðir: Niðurbrot efnanna, við mismunandi hitastig, díelektrískan stuðul lausnar og pH, var ákvarðað með HPLC mælingum. Línuleg bestun og tölfræðileg úrvinnsla gerð með tölfræðiforritinu R.

Niðurstöður: Niðurbrotið sýndi sérvirka sýruhvötun við lágt pH og sérvirka basahvötun við hátt pH. Jónstyrkur hafði lítil eða enginn áhrif á niðurbrotið en það dró úr því við að auka díelektr­ískan fasta lausnarinnar. DH- var jákvætt og DS- var neikvætt fyrir þau efni sem innhéldu estertengi en það bendir til þess að um tvísameindahvörf sé að ræða. Örryggisstuðull (safety index, SI) efnanna var skilgreindur sem hlutfall hraðafasta niðurbrots á móti lágmarksdrápstyrk. Samband byggingar, eðlisefnafræðilegra eiginleika og SI var ákvarðað fyrir þau 23 efni þar sem gögn um hvarfhraða og lágmarksdrápsstyrk eru til.

Ályktanir: Efni sem hafa hæst SI er tiltölulega fitusækin og helm­ingunartími þeirra við stofuhita er um það bil tvær vikur.

V 85 Notkun fasadreifingaraðferðar til að ákvarða bindi­stuðla fyrir sýklódextrínfléttur

Már Másson, Birna V. Sigurðardóttir, Kristján Matthíasson, Þorsteinn Lofts­son

Lyfjafræðideild HÍ

mmasson@hi.is

Inngangur: Sýklódextrín eru hringlaga fásykrur sem geta myndað vatnsleysanlegar fléttur við fitusækin lyf og önnur óleysanleg efni. Ákvörðun bindistuðuls (K1:1) fléttunnar er mikilvægur hluti þróunar lyfjaforma sem byggja á notkun sýklódextrína. Þær aðferðir sem nú eru notaðar í þessum tilgangi, eins og til dæmis fasa-leysni aðferðin, hafa margvíslega galla og það er því þörf á því að finna betri aðferðir. Í verkefninu var rannsakað notagildi aðferða sem byggir á því að mæla dreifingu lyfs milli og oktanólfasa og sýkló­dextrín-vatnsfasa.

Efniviðir og aðferðir: Oktanól lausn lyfs var hrist saman við oktanól mettaða vatnsfasa sem innhélt hýdróxýprópýl-B-sýkló­dextrín. Fasarnir voru síðan aðskildir og magn lyfs í þeim ([D]oct og [D]aq(tot)) var ákvarðað með vökvaskiljuaðferð og dreifistuðullinn (Pobs = ([D]oct/[D]aq(tot). Mettunarstyrkur oktanóls í sýkló­dextrínlausninni var einnig ákvarðaður með gasgreiningu.

Niðurstöður: Fasa-mettunarferill oktanóls í sýklódextrínlausnum var línulegur en það samræmist því að oktanól myndi 1:1 fléttu við sýklódextrín. Fléttunarnýtnigildi oktanóls (K1:1(oct)[O]aq) var reiknað út frá hallatölunni (HT). Fasadreififerill (1/Pobs gegn [HPßCD]) var línulegur fyrir hýdrókortisón, prednisólón, díase­pam, 17ß-estradíól og díeþýlstilbestról, sem staðfesti að þessi lyf mynda 1:1 fléttur. Eftirfarandi jafna var leidd út til að reikna gildi bindistuðuls lyfjanna út frá hallatölu ferlanna:

K1:1= (P(1+ K1:1(oct)[O]aq)HT)/(1-[D]octHT)

Það var líka hægt að nota þessa aðferð til að ákvarða K1:1 fyrir jónað og ójónað form jónanlegra lyfja og aðferð var einnig hægt að nota til að ákvarða K1:1 fyrir mjög fitusækin lyf.

Ályktanir: Fasadreifiaðferðin er einföld, fljótvirk og almenn aðferð til að ákvarða sýklódextrínfléttubindistuðla fyrir lyf og takmarkast ekki af leysni lyfja í vatnslausn.

V 86 Athugun á áhrifum ammoníaks á myndun sýkló­dextrín­fléttna

Dagný Hreinsdóttir, Ína Björg Össurardóttir, Hákon Hrafn Sigurðsson, Þorsteinn Loftsson, Már Másson

Lyfjafræðideild HÍ

dah3@hi.is

Inngangur: Sýklódextrín eru hringlaga fásykrur sem myndast við niðurbrot sterkju. Sýklódextrín afleiður eru vatnsleysanlegri en náttúrulegu sýklódextrínin en afleiðurnar eru stærri og taka því meira pláss í endanlegu lyfjaformi. Þau geta aukið leysni torleysanlegra efna í vatnslausn með því að mynda svokallaðar fléttur við efnin. Með því að jóna efnin er hægt að auka S0 (apparent solubility) og ýta jafnvæginu í átt að frekari fléttumyndun sem aftur eykur leysanleika efnisins. Með jónun ætti einnig að vera hægt að minnka magn sýklódextríns sem notað er, sem er mjög eftirsóknarvert í lyfjaframleiðslu.

Efniviður og aðferðir: Rannsökuð voru fitusæknu efnin tríklósan, tríklókarban og própófól sem öll eru torleysanleg í vatni. Þau voru leyst upp í mismunandi magni af ßCD og HPßCD (0-30% w/v) með og án ammoníaks. Lyfin voru sett í yfirmagni út í og blandað saman í hettuglösum, innsiglað með gúmmítöppum og hafðar í hljóðbaði í klukkutíma. Tríklósan og tríklókarban voru höfð á hristiborði í fimm daga en vegna óstöðugleika própófóls var það einungis í klukkutíma á hristiborði áður en magngreining fór fram í vökvaskiljugreini (HPLC).

Niðurstöður: S0 jókst þegar notað var ammoníak hjá tríklósan og tríklókarban, fyrir tríklósan jókst til dæmis leysnin í vatni úr 1 mg/ml í rúmlega 7 mg/ml með 4% ammoníaki (tríklósan full jónað við þær aðstæður). Fyrir tríklókarban jókst leysanleikinn með ammoníakinu upp að 5-10% styrk ßCD, en féll svo aftur. Forathuganir sýna að ammoníak eykur leysanleika própófóls en hins vegar virðist ßCD ekki hafa jákvæð áhrif á leysanleika lyfsins með þeim aðferðum sem beitt hafa verið hingað til.

Ályktanir: Hægt er að nota ammoníak til að auka fléttumyndun og leysni fitusækinna lyfja, en lítill leysanleiki er ein af helstu ástæðum fyrir því að lyf komast ekki á markað.

V 87 Yfirlit yfir áhrif sýklódextrína á leysanleika ýmissa tor­leysanlegra lyfja

Dagný Hreinsdóttir, Þorsteinn Loftsson, Már Másson

Lyfjafræðideild HÍ

dah3@hi.is

Inngangur: Sýklódextrín eru hringlaga vatnsleysanlegar fásykrur sem mynda keilulaga fitusækin hólk þar sem fituleysanleg efni geta bundist. Þannig er hægt að auka vatnsleysanleika, stöðugleika og aðgengi ýmissa lyfja, en sýklódextrín eru frekar nýleg hjálparefni í lyfjagerð. Fléttustuðull (KC) segir til um hversu vel lyfið binst sýkló­dextríninu og hversu stöðug bindingin er. Ýmis­legt bendir til þess að betra sé að nota fléttumyndunarstuð­ul, complexation efficiency (CE), sem er margfeldi KC og S0 (leysni lyfs í hreinu vatni) til að meta hversu mikil og stöðug bindingin sé.

Efniviður og aðferðir: Unnið var úr gögnum sem safnað hefur verið saman á undanförnum 10 árum, samtals 65 torleysanleg lyf, sjö mismunandi sýklódextrín og nokkrar gerðir af fjölliðum. Reiknað var meðal annars S0 með þremur mismunandi aðferðum. Einnig voru K1:1 og CE reiknuð fyrir öll lyfin, bæði með og án fjölliða. Mæld S0 gildi voru borin saman við fræðileg gildi, meðal annars út frá jöfnu Yalkowsky (logS0= 0,5-0,01(Brm-25)-CLogP).

Niðurstöður: S0, K1:1 og CE voru reiknuð með skekkjumörkum þar sem fleiri en eitt mælt gildi voru til staðar. Tölfræðileg óvissa í ákvörðun á S0 var töluverð og mun meiri en óvissan í hallatölu leysanleikaferla. Þar sem hægt er að ákvarða CE eingöngu út frá hallatölunni (CE= slope/(1-slope)), en gildið á K1:1 er ákvarðað út frá hallatölu og S0 (K1:1= slope/S0*(1-slope)) var óvissan í CE mun minni.

Ályktanir: CE gildi eru mun nákvæmari mælikvarði á getu sýkló­dextrína til að leysa upp lyf en bæði S0 og K1:1.

V 88 Augnlyf á duftformi

Sveinn Hákon Harðarson1, Hákon Hrafn Sigurðsson2, Guðrún Eva Níels­dóttir2, Jón Valgeirsson3, Þorsteinn Loftsson2, Einar Stefánsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2lyfjafræðideild HÍ, 3Actavis hf., 4augndeild Landspítala

sveinnha@hi.is

Inngangur: Augndropar eru algengasta form augnlyfja, en þeir hafa ýmsar takmarkanir. Lítill hluti lyfs frásogast í augað, rotvörn er nauðsynleg og mörg lyf er ekki hægt að útbúa á dropaformi. Augnlyf á duftformi geta ef til vill aukið frásog til auga, minnkað rotvarnar- og geymsluvandamál auk þess sem gefa má flest lyf sem duft. Hins vegar er hætta á að duft erti augun og því var erting af dufti könnuð í þessari rannsókn.

Efniviður og aðferðir: Tímólól maleat dufti var skammtað í annað auga kanínu en hitt augað var viðmið. Prófað var bæði hreint tímólól maleat og frostþurrkað með PVP fjölliðu (2,4% af massa) í skammtastærðunum 1 mg (n=3) og 0,1 mg (n=6). Fjórar kanínur fengu 0,1 mg af hreina duftinu þrisvar á dag í átta daga. Roði á hvítu og magn slíms á yfirborði augna var metið blint til stiga af ljósmyndum (0-3, heil og hálf stig). Augun voru skoðuð í raufarsmásjá. Litaðar (H&E) sneiðar úr augum voru skoðaðar í ljóssmásjá að lokinni átta daga gjöf.

Niðurstöður: Engin alvarleg eða óafturkræf merki komu fram um ertingu. Ekki kom fram munur á ertingu af hreinu og frostþurrkuðu dufti. Roði á hvítu einni klukkustund eftir 1 mg skammt af hreinu dufti mældist 1,0 (1,0-1,5) stig (miðtala og bil, n=3). Roði í viðmiðunaraugum á sama tíma mældist 1,0 (1,0-1,0) stig. Einni klukkustund eftir 0,1 mg skammt af hreinu dufti mældist roði 1,5 (1,0-2,0) stig (n=6). Roði í viðmiðunaraugum á sama tíma mældist 1,3 (1,0-1,5) stig. Óverulegur munur var á roða í viðmiðunaraugum og lyfjaaugum 24 klukkustundum eftir gjöf 0,1 mg eða 1 mg. Að lokinni átta daga gjöf reyndist enginn munur á augum sem fengu lyf og viðmiðunaraugum samkvæmt mati með raufarlampa­skoðun, á ljósmyndum og vefjafræði.

Ályktanir: Rannsóknir á kanínum benda til þess að erting sé óveruleg af 0,1 mg skammti og óhætt sé að prófa tímólól maleat duft í mönnum.

V 89 Dorzólamíð/sýklódextrín augndropar

Þorsteinn Loftsson1, Hákon H. Sigurðsson1, Elínborg Guðmundsdóttir2, Þór Eysteinsson2, Margrét Þorsteinsdóttir3, Einar Stefánsson2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ, 3Íslenskar lyfjarannsóknir ehf.

thorstlo@hi.is

Inngangur: Dorzólamíð er kolsýruanhýdrasahemill (CAI) og glákulyf. Dorzólamíð er torleysanlegt í vatni við pH 7,4 og því er sýrustig sérlyfsins (Trusopt® frá MSD, inniheldur 22,3 mg dorzól­amíð hýdróklóríð í einum ml) stillt á 5,65, en við það sýrustig er lyfið katjón og því leysanlegt í vatni. Til að auka magn dorzól­amíðs sem frásogast af yfirborði augans inn í augað er seigjustig (viscosity) augndropanna aukið í 100 cps (seigfljótandi lausn) en við það eykst snertitími lyfsins við yfirborð augans. Þetta lága sýru­stig og háa seigjustig Trusopt® augndropa leiðir til margvíslegra aukaverkana, svo sem sviða í augum, aukinnar táramyndunar og þokusýnar. Markmið þessa verkefnis var að hanna dorzól­amíð augndropa sem hafa pH 7,4 og seigjustig um eða undir 5 cps (þunnfjótandi eins og vatn).

Niðurstöður: Dorzólamíð myndar vatnsleysanlega fléttu með ýmsum sýklódextrínum. Búnir voru til tveir styrkleikar af augndropunum sem innihéldu 19,7 og 38,8 mg/ml af dorzólamíði. Vatnsleysanlegt en nokkuð fitusækið sýklódextrín (RM?CD) var notað til að leysa dorzólamíð upp í vatni, sýrustig augndropanna var 7,5 og seigjustigið 3 og 5 cps. Augndroparnir voru gefnir kanínum og magn dorzólamíðs í hinum ýmsu hlutum augans mælt 1, 2, 4 og 8 klukkustundum eftir gjöf lyfsins. Trusopt® augndropar voru gefnir til viðmiðunar. Þrátt fyrir lágt seigjustig augndropanna reynd­ist aðgengi dorzólamíðs frá augndropunum vera sambærilegt aðgengi dorzólamíðs frá Trusopt®. Mælanlegt magn dorzólamíðs var í bakhluta augans og sjóntauginni í að minnsta kosti átta klukkustundir eftir gjöf dropanna. Ekki varð vart við aukaverkanir í kanínunum eftir gjöf augndropanna.

Ályktanir: Með hjálp sýklódextrína er hægt að auka sýrustig dorzól­amíð augndropa úr 5,65 í 7,4 og draga úr seigjustigi augndropanna úr 100 cps í 3 til 5 cps án þess að draga úr aðgengi lyfsins.

V 90 Bygging fiskroðs og notkun þess til að kanna flutning lyfja yfir lífrænar himnur

Fífa Konráðsdóttir, Sigurður Daði Sigfússon, Már Másson, Þorsteinn Lofts­son

Lyfjafræðideild HÍ

fifa@hi.is

Inngangur: Himnulíkön sem eru gegndræp fyrir fitusækin efni eru vel þekkt en það hefur ekki gengið eins vel að finna líkön þar sem vatnsflæðilag himnunnar er ráðandi þáttur í flutningi lyfja. Talið er líklegt að vatnsflæðiháður flutningur verði meðal annars með hársekkjum, svitaholum og í millifrumulagi. Steinbítsroð hefur lítið sem ekkert hreisturlag og virðist hleypa í gegnum sig stórum sameindum og jónanlegum sameindum óháð jónunar­ástandi þeirra. Í efsta lagi roðs eru meðal annars yfirhúðarfrumur og slím­myndandi frumur, miðlag er þéttpakkað af grófum trefjaþráðum en fitufrumur raða sér í neðsta hluta roðsins ásamt taugafrumum, æðum og fínlegum trefjaþráðum. Bygging og eiginleikar steinbíts­roðs sem himnulíkans var rannsakað og þá sérstaklega hvort neðri lög roðsins og/eða vefur sem liggur undir roðinu haga sér að einhverju leyti sem fitusækin himna vegna fitufrumna sem þar er að finna.

Efniviður og aðferðir: Flæðið var ákvarðað með Franz-flæðisellum. Gjaffasi innihélt hýdrókortisón (HC) sem er fituleysanlegur steri eða staðdeyfilyfið lídókaín. Móttökufasinn var fosfatstuðpúði (pH 7,4) í vatni. 2-Hýdroxýpropýl-ß-sýklódextrín var notað til að auka leysni HC í báðum fösum (2,5% v/w). Flæði var mælt í gegnum steinbítsroð sem var: i) roðflett í vél, ii) handroðflett með veflagi. Þykkt roðs var mæld milli tveggja álþynna með skífumáli. Sýni tekin og mæld í vökvaskilju (HPLC).

Niðurstöður: Flæði HC var helmingi hægar í gegnum roð með vefjalagi heldur en roð án vefjar, en þegar tekið var tillit til himnu­þykktar var ekki lengur marktækur munur á flæði.

Ályktanir: Steinbítsroð hagar sér því ekki líkt og fitusækin himna. Líklega ferðast lyfin í gegnum vatnssækin göng eða millifrumu­vökva í roðinu, sem eykur líkur á því að hægt verði að nota það í rannsóknum á eðli vatnsflæðilags í lífrænum himnum.

V 91 Fitusæknar himnur, þróun líkans til að rannsaka himnu­flæði

Fífa Konráðsdóttir, Birna Vigdís Sigurðardóttir, Már Másson, Þorsteinn Loftsson

Lyfjafræðideild HÍ

fifa@hi.is

Inngangur: Í leit okkar að himnu þar sem við getum stjórnað bæði vatnsflæðilagi við yfirborð himnunnar og fitusækni hennar höfum við meðal annars rannsakað hvaða áhrif það hefur á flæði hydró­kortisóns (HC) að staðsetja oktanóllag (fitulag), og/eða filter bleyttan í oktanóli, undir sellófanhimnu (vatnsflæðilag). Einnig var fitusækin himna mynduð með því að blanda saman oktanóli og nítróselluósa (kollódíon). Gegndræpni himnunnar var hægt að stjórna með því að breyta hlutfalli oktanóls í kollódíon-oktanólhimnunni eða þykkja/þynna kollódíon-oktanólhimnuna. Vatnsflæðilagi var hægt að breyta með því að nota einfalda eða tvöfalda sellófanhimnu og með því að breyta gatastærðinni (það er molecular weight cutoff) himnunnar.

Efniviður og aðferðir: Kollódíon, sem er nitróselluósi í eter-etanól blöndu var notaðað sem ?burðarefni? (matrix) fyrir oktanólið. Kollódíonlausnin var þynnt með ether-etanól blöndu og lausninni annaðhvort dreift á glerplötu eða borin á sellófanhimnur og þær þurrkaðar. Flæði HC yfir himnurnar var mælt í Franz-flæðisellum. Gjaffasi og móttökufasi innihéldu 2-hýdroxýprópýl-ß-sýklódextrín til að auka leysni HC og móttökufasinn var mettaður með oktanóli. Í kollódíontilraununum var gjaffasinn yfirmettuð HC vatnslausn, en 1 mg/ml HC lausn var notuð þegar áhrif hreins oktanóls undir himnu var kannað.

Niðurstöður: Flæði HC yfir sellófanhimnu var hægast þegar oktanóllag eða oktanólbleyttur filter voru undir sellófanhimnunni, en 2 ml oktanóllag hægði meira á flæðinu en oktanólbleyttur filter eingöngu. Flæði HC virðist minnka í réttu hlutfalli við þykkt oktanóllagsins, en einnig varð töluverð söfnun HC í oktanóllaginu og jókst söfnunin með þykkt lagsins.

Ályktanir: Kollódíum/oktanólhimnur á sellófani lýsa vel óvirkum flutningi lyfja yfir lífrænar himnur.

V 92 Rannsóknir á stofnum Streptococcus mutans frá ein­staklingum með og án tannátu

W. Peter Holbrook1, Margrét O. Magnúsdóttir1, Jingping Ge2, Zhiyun Chen2, R. L. Gregory2

1Tannlæknadeild HÍ, 2Indiana University, School of Dentistry, Indianapolis, USA

phol@hi.is

Inngangur: Streptococcus mutans stofnar úr einstaklingum með og án tannátu bindast mismunandi fast við apatite og losa mismikið kalk úr því í rækt. Markmið þessarar rannsóknar var að meta mismun í sýkiþáttum meðal þessara stofna.

Efniviður og aðferðir: Bacteriocin-lík virkni 16 klínískra Strep. mutans stofna frá einstaklingum með tannskemmdir (CA stofnar) og án tannskemmda (CF stofnar) var rannsökuð með stungu-sáningu hvers stofns í "pour-plates" sáningar sem hver innihélt einn af öllum hinum 15 stofnunum, og að auki 25 rannsóknastofu­stofna af streptókokkum, pneumókokkum, stafýlókokkum og mjólkursýrubakteríum úr munni.

Niðurstöður: Þó CA stofnarnir sýndu meiri bacteriocin-líka virkni gegn öðrum Streptococcus mutans (3,4 vs, 1,2 stofnar; p<0,01) höfðu CF stofnarnir meiri hindrandi áhrif á aðrar munnholsbakteríur (88/126 vs. 59/126 próf; p<0,001). Á rafeindasmá­sjármyndum af neikvætt lituðum bakteríum sást ?fuzzy coat?. Ónæmislitun með gullmerktum crude fimbriu mótefnum var notuð til að meta mun á fimbrium CA of CF stofna. Þrátt fyrir mikinn breytileika milli stofna sást skýr leitni í átt að þykkari "fuzzy coat" á CF stofnunum, þó munurinn reyndist ekki vera marktækur (p=0,057). Þetta ytra lag á nær öllum stofnunum batt gull en enginn munur sást milli CA og Cf stofnanna.

Ályktanir: Greinilegur útlits- og hegðunarmunur virðist vera milli CF og CA stofna Strep. mutans, en hvernig þessi munur kemur fram í mismunandi tannátu virkni þessara stofna er, enn sem komið er, óljóst.

V 93 Virkni mónókapríns gegn sveppasýkingum undir gervi­tönnum

W. Peter Holbrook1, Íris Axelsdóttir2, Þórunn Ósk Þorgeirsdóttir3, Skúli Skúlason3,4, Þórdís Kristmundsdóttir3

1Tannlæknadeild, 2læknadeild og 3lyfjafræðideild Hí, 4Líf-Hlaup ehf.

thordisk@hi.is

Inngangur: Slímhúðarbólgur undir gervitönnum af völdum Cand­ida sp. eru algengar hjá öldruðum. Í stað fúkkalyfjameðferðar er sótthreinsun góður kostur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna sótthreinsun gervitanna með mónóglýceríðinu mónó­kaprín sem hefur reynst vel in vitro gegn sveppum.

Efniviður og aðferðir: 32 sjálfboðaliðar á dagdeild, öldrunardeild Landspítala tóku þátt í rannsókninni. Sjúklingum var gert að sótthreinsa gervitennur sínar í 0,5% mónókaprínlausn í að minnsta kosti tvær klukkustundir í senn. Sjúklingar voru skoðaðir í upphafi rannsóknar þar sem ástand slímhúðar og hreinlæti gervit­anna var metið og spurt var stuttra spurningar er vörðuðu gervi­tennur og munnhol. Tekin voru sýni fyrir svepparæktun úr gómi, gervitönnum og tungu fyrir meðferð, eftir meðferð og fjórum vikum eftir meðferð. Til ræktunar var notaður CHROMagar Candida®.

Niðurstöður: Sveppasýking er enn mjög algeng hjá öldruðum með gervitennur. Hefur ástandið ekki batnað frá fyrri rannsóknum 1988-1990. Einungis 4/32 (12,5%) sjúklinga voru með heilbrigða munnslímhúð og 21/32 (66%) voru með munnþurrk. Að meðaltali voru 26/32 (83%) með sveppasýkingu í munn­slímhúð. Marktæk lækkun var á sveppatalningu eftir meðferð á gervitönnum og tungu en lækkun var ekki marktæk fyrir góm. Sveppatalning hækkaði með þriðju sýnatöku sem bendir til þess að mónókaprín hafi ekki langtímaáhrif. Efnið virkaði betur á hreinar tennur.

Ályktanir: Vegna algengi sýkingar og munnþurrks og ástands munnslímhúðar og gervitanna eru lífsgæði þessa sjúklingahóps skert. Mónókaprín sýndi virkni á sýkingum en nauðsynlegt er að gera viðameiri rannsókn. Ennfremur er þörf á frekari athugunum á öðrum þáttum munnheilbrigðis, til dæmis munnþurrki og ástandi slímhúðar og gervitanna.

V 94 Algengi og nýgengi sykursýki og efnaskiptavillu á Íslandi

Jóhannes Bergsveinsson1, Thor Aspelund2, Rafn Benediktsson1,2,3

1Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd, 3innkirtladeild Landspítala

johaber@hi.is

Inngangur: Algengi og nýgengi sykursýki og efnaskiptavillu (Metabolic Syndrome) hefur aukist gríðarlega í hinum vestræna heimi en einnig í svokölluðu þróunarlöndum. Á síðustu árum hafa verið lögð til ný og mismunandi greiningarskilmerki fyrir sykursýki sem leitt hefur til ósamræmis hvað algengistölur varðar. Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta algengi og nýgengi sykursýki af tegund 2 (SS2) og efnaskiptavillu á Íslandi á tímabilinu 1967-2002 með mismunandi greiningarskilmerkjum (WHO´85, ADA´97, WHO´99).

Efniviður og aðferðir: Notuð voru gögn úr þremur rannsókn­um Hjartaverndar: Hóprannsókn Hjartaverndar, Afkom­enda­rannsókninni og Rannsókn á ungu fólki. Alls voru þetta 16.184 ein­staklingar 7747 karlar og 8437 konur. Skoðað var aldursbilið 45-64 ára. Rannsóknartímabilinu var skipt niður í fimm þversniðs­tímabil, 1967-72, 1974-79, 1979-84, 1985-91 og 1997-02, og var al­­gengi og nýgengi SS2 og efnaskiptavillu metin á hverju tíma­bili.

Niðurstöður: Algengi (95% öryggismörk) SS2 samkvæmt ADA´97 hefur á 30 ára tímabili vaxið úr 3,3% (2,6-4,0) í 4,9% (3,5-5,3) hjá körlum sem er um 48% hækkun og úr 1,9% (1,4-2,4) í 2,9% (1,9-3,9) hjá konum á sama aldri, eða um 53% hækkun. Tímaleitnin var marktæk bæði hjá körlum og konum. Fyrir hvern einn sem er með þekkta sykursýki eru nú þrír með óþekkta sykursýki, en hlutfall óþekktrar sykursýki var vaxandi á rannsóknartímabilinu. Algengi efnaskiptavillu hefur aukist enn meira en SS2, úr 4,6% (3,8-5,4) í 8,7% (6,9-10,5) hjá körlum sem er um 90% hækkun og úr 2,8% (2,2-3,4) í 5,0% (3,8-6,2) hjá konum sem er um 80% hækkun.

Ályktanir: Ljóst er að sama þróun er að eiga sér staðar hérlendis og annars staðar hvað varðar hækkun á algengi SS2 og efnaskipta­villu en þó er algengi SS2 á Íslandi með því lægsta sem þekkist í Evrópu.

V 95 Hefur blóðþrýstingslækkun hjá konum og körlum á lyfjameðferð við háþrýstingi forspárgildi fyrir dauða? Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar

Lárus S. Guðmundsson1, Magnús Jóhannsson1, Guðmundur Þorgeirsson1,2, Nikulás Sigfússon2, Helgi Sigvaldason2, Jacqueline C.M. Witteman3

1Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 2Hjartavernd, 3Dpt. of Epide­m­io­logy and Biostatistics, Erasmus Medical Center, Rotterdam, Hollandi

lsg@hi.is

Efniviður og aðferðir: Langsniðsrannsókn á 9328 körlum og 10.062 konum úr rannsókn Hjartaverndar. Þátttakendur voru teknir inn í rannsóknina á tímabilinu 1967-1996. Tveir hópar einstaklinga á meðferð við háþrýstingi voru skilgreindir í upphafi: þar sem meðferðarmarkmið náðust og þar sem þau náðust ekki (slagbilsþrýstingur (SBP) ?160 mmHg og/eða hlébilsþrýstingur (DBP) ?95 mmHg).

Helstu niðurstöður: Endapunktar voru dauði vegna hjarta- og æðasjúkdóma og dauði af hvaða orsök sem er. Af körlum með háþrýsting voru 24,8% (692 af 2792) á meðferð og af þeim náðu 38,3% (265 af 692) meðferðarmarkmiðum. Samsvarandi gildi fyrir konur voru 45,3% (1196 af 2642) og 52,7% (630 af 1196). Þegar einstaklingar sem ekki náðu meðferðarmarkmiðum voru bornir saman við hina í eftirfylgni sem stóð í allt að 30 ár, voru þeir sem ekki náðu meðferðarmarkmiðum í aukinni hættu á dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma: hazard ratio (HR) =1,47 (95% öryggismörk (CI): 1,06-2,02) hjá körlum og HR 1,70 (CI: 1,23-2,36) hjá konum. Hætta á dauða af hvaða orsök sem er var aukin hjá konum og körlum sem ekki náðu meðferðarmarkmiðum en sú hækkun var ekki tölfræðilega marktæk. Þegar blóðþrýstingur var greindur sem samfelld breyta var SBP heppilegri spábreyta en DBP fyrir báða endapunkta hjá konum. Slík niðurstaða fékkst ekki fyrir karla.

Ályktanir: Blóðþrýstingslækkun einstaklinga á meðferð við háþrýstingi var tengd minnkaðri hættu á dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma í eftirfylgni sem stóð í allt að 30 ár. Slagbilsþrýstingur var heppilegasta spábreyta dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma og dauða af hvaða orsök sem er. Konur með háþrýsting sem ekki náðu meðferðarmarkmiðum voru í meiri hættu á hjarta- og æðasjúkdómum en samsvarandi hópur karla.

V 96 Beinhagur sjúklinga með herslismein

Bjarki Þór Alexandersson1, Árni Jón Geirsson3, Gunnar Sigurðsson1,3, Ís­leifur Ólafsson4, Leifur Fransson5, Björn Guðbjörnsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknarstofa í gigtsjúkdómum, 3lyflækningasvið, 4Rann­sóknarstofnun, 5erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

bjorngu@landspitali.is

Bakgrunnur: Herslismein (Systemic Sclerosis) er sjaldgæfur fjöl­­kerfasjúkdómur. Sjúklingar með herslismein verða oft fyrir hreyfi­­fötl­un meðal annars vegna vöðvabólgu (myositis) og annarra stoðkerf­is­einkenna, þeir fá frásogstruflanir í meltingarfærum og þessir sjúk­lingar eru oft meðhöndlaðir með sykursterum og annarri ónæm­isbælandi meðferð. Allt þetta getur valdið beinþynningu. Mark­miðið var að mæla beinþéttni og meta beinumsetningu í öll­um sjúklingum með herslismein er greinst hafa á Íslandi og meta hvort sérstakra ráðstafana sé þörf með tilliti til beinverndar.

Efniviður og aðferðir: Fjöldi sjúklinga var 29, 24 sjúklingar komu til rannsóknar. Meðalaldur hópsins var 61 ár, fjórir karlar og 20 konur, þar af 16 komnar í tíðahvörf. Tólf sjúklingar höfðu beinbrotnað og fjórir einstaklingar voru á bisfosfónatmeðferð.

Sjúklingum var boðið að koma í viðtal með tilliti til áhættu­þátta fyrir beinþynningu og sjúkdómsvirkni þeirra var metin, með tilliti til herslismeinsins. Þátttakendur skiluðu þvagprófi og gáfu blóðsýni til mælinga á efnavísum, svo sem alkal­ísk­um fosfatasa, osteokalsíni og CrossLaps. Þá gengust allir sjúk­ling­arn­ir undir fullkomna DEXA mælingu.

Niðurstöður: Sjúklingahópurinn í heild var með kalsíumútskilnað undir viðmiðunarmörkum. Beinvísar voru hins vegar eðlilegir. DEXA mælingar sýndu að átta sjúklingar höfðu beinrýrnun en þrír beinþynningu. Samanborið við einstaklinga á sama aldri (Z-gildi) þá voru sex sjúklingar með beinþéttni einu staðalfráviki neðan aldursviðmiðana.

Ályktanir: Íslenski sjúklingahópurinn er lítill og því verður að takmarka ályktanir. Í heild virðist hópurinn hafa eðlilega beinumsetningu og beinþéttni, en einstaka sjúklingar voru þó með lægri beinþéttni borið saman við aldursviðmið og virðist ástæður þess vera margvíslegar.

V 97 Há tíðni oxasillín ónæmra en penisillín næmra pneumó­­kokka í leikskólum á Íslandi

Karl G. Kristinsson1, Þóra Gunnarsdóttir1, Helga Erlendsdóttir1, Brynja Laxdal2, Þórólfur Guðnason2

1Sýklafræðideild og 2barnadeild Landspítala

karl@landspitali.is

Inngangur: Penisillín ónæmi er vaxandi vandamál við meðferð pneumókokkasýkinga. Skimað er fyrir penisillín ónæmi með því að athuga næmi fyrir oxasillín lyfjaskífum. Flestir oxasillín ónæmir stofnar eru líka penisillín ónæmir. Há tíðni oxasillín ónæmra en penisillín næmra pneumókokka var hvatinn að rannsókn á sameindafaraldsfræði ónæmra pneumókokka á leikskólum á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var hluti þriggja ára fjölsetra rannsóknar til að minnka ónæmi hjá pneumókokkum í börnum (European Resistance Intervention Study, EURIS). Börnum á leikskólum í Kópavogi og Hafnarfirði var boðin þátttaka. Eftir upplýst samþykki voru nefkoksstrok tekin tvisvar hvern vetur í þrjú ár og ræktuð fyrir pneumókokkum. Skimað var fyrir penisill­ín ónæmi með oxasillín skífuprófi. Lágmarksheftistyrkur (LHS) penisillíns var mældur hjá ónæmu stofnunum (E-test) sem svo voru hjúpgreindir og stofnagreindir með rafdrætti eftir skerði­bútun á DNA (PFGE).

Niðurstöður: Alls ræktuðust 4118 pneumókokkar frá 7082 nef­koks­strokum úr 1-6 ára börnum (meðalaldur 4,1 ár, beratíðni 55%). 1119 (27%) voru oxasillín ónæmir og penisillín LHS þeirra var: <0,047 mg/l, 777 stofnar; 0,064, 95; 0,094, 20; 0,125-0,94, 227 og >1,0. Þeir tilheyrðu 59 klónum, þar af 88% stofnanna 10 klónum og 47% þremur algengustu klónunum. Algengustu klónarnir voru af hjúpgerðum 6A (n=220), 23F (n=189) og 9V (n=105) og fundust þeir í 81-96% af leikskólunum 27.

Ályktanir: Oxasillín ónæmir og penisillín næmir klónar hafa náð talsverðri útbreiðslu á leikskólum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Stofnarnir hafa hækkaðan lágmarksheftistyrk fyrir penisillíni og gætu verið að þróast í penisillín ónæma stofna.

V 98 Andnauð fyrir og eftir sex vikna endurhæfingu lungna­sjúklinga

Elfa Dröfn Ingólfsdóttir, Guðbjörg Pétursdóttir, Marta Guðjónsdóttir

Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð

DeildB3@REYKJALUNDUR.is

Andnauð er algengt einkenni hjá lungnasjúklingum. Mat á andnauð (MAT, Shortness of Breath Questionnaire) er mælitæki sem metur andnauð við athafnir daglegs lífs hjá einstaklingum með langvinnan lungnasjúkdóm. MAT byggist á 24 spurningum sem sjúklingurinn svarar sjálfur og gefa samanlagt stig frá 0 (engin mæði) og upp í 120 (mesta mæði).

Markmiðið var að meta áhrif sex vikna alhliða endurhæfingar á andnauð. Spurningalistinn hafði áður verið þýddur og for­próf­aður hjá 38 sjúklingum með langvinna lungnateppu (LLT) og reyndist áreiðanleikastuðull hár (a=0,94) (Dóróthea Bergs, MSN). Af 210 sjúklingum sem lagðir voru inn á lungnadeild Reykjalundar á 15 mánaða tímabili, svöruðu 206 listanum á fullnægjandi hátt, bæði við innlögn og við útskrift, en svo taldist vera ef að minnsta kosti 19 spurningum hafði verið svarað. Með­al­aldur +/-SD var 63,7+/-11,0 ár. Meirihluti sjúklinganna hafði LLT, en aðrir al­gengir sjúkdómar voru kæfisvefn, bandvefssjúkdómar í lung­um og asmi. Öndunarmæling sem gerð var við komu sýndi FEV1 1,68?0,82 L (67?25% af áætluðu) og FEV1/FVC 0,60?0,16. Líkamsþyngdarstuðull (BMI) var 30,5+/-7,8 kg/m2. Heildar andnauðarstig lækkuðu úr 50,4?22,8 við innlögn í 42,5+/-22,4 við útskrift (p<0,05). Við innlögn voru andnauðarstig hjá konunum (N=131) 52,5+/-23,0 og hjá körlunum (N=75) 47,3+/-22,4 (NS), en við útskrift var munur á andnauðarstigum orðinn marktækur, þar sem konur skoruðu 45,2+/-22,9 og karlar 37,7+/-20,8 (p<0,05). Sjúklingar með alvarlega offitu BMI>35 (N=49) sýndu ekki hærri andnauðarstig við innlögn en þeir sem voru með BMI+/-35 (50,9+/-23,0 vs. 48,9+/-22,5 NS). Veik en þó marktæk fylgni var á andnauðarstigum og FEV1 % af áætluðu gildi (r2=0,138) fyrir endurhæfingu. Þegar BMI var bætt inn í fylgniútreikninginn breytti það litlu (r2=0,149).

Þar sem mjög gott svarhlutfall fékkst við MAT listanum, telj­­um við hann hentugt mælitæki til að meta andnauð hjá lungna­sjúklingum. Listinn er næmur á breytingar á andnauð fyrir og eftir endurhæfingu og gefur viðbótarupplýsingar við líf­eðlisfræðilegar rannsóknir.

V 99 Samanburður á meinvirkni Candida dubliniensis og Candida albicans í tilraunasýkingum í músum

Lena Rós Ásmundsdóttir1,2, Ragnar Freyr Ingvarsson1, Helga Erlendsdóttir1, Bjarni A. Agnarsson1,2, Magnús Gottfreðsson1,2

1Landspítali, 2læknadeild HÍ

lenaros@internet.is

Inngangur: Candida dubliniensis er gersveppur sem fyrst var lýst meðal sjúklinga með alnæmi og sveppasýkingar í munni, koki og vélinda. Upphaflega var talið að þessi tegund ylli fyrst og fremst slímhúðarsýkingum hjá ónæmisbældum en orsakaði ekki ífarandi sýkingar. Nýlegar rannsóknir benda hins vegar til að blóðsýkingar af völdum þessa sýkils séu vangreindar. Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka meinvirkni C. dubliniensis í músalíkani.

Efniviður og aðferðir: Tveir stofnar af C. albicans (ATCC 90028 og einn klínískur stofn úr blóði) og þrír stofnar af C. dubliniensis (allt klínískir stofnar frá Landspítala) voru notaðir. Kvenkyns NMRI mýs, sem ekki voru ónæmisbældar, voru sýktar í blóðbraut með sama magni af sveppum. Fylgst var með lifun dýranna þrisvar á dag í sjö daga. Eftir sjö daga voru þau aflífuð og nýru og lifur fjarlægð. Fjöldi sveppa í líffærunum var ákvarðaður með líftölu (viability counting). Einnig voru gerðar sérlitanir fyrir sveppi og vefjafræðilegar breytingar metnar af meinafræðingi sem ekki hafði vitneskju um hvaða sveppategund orsakaði sýkinguna.

Niðurstöður: Dánartíðni eftir sjö daga hjá dýrum sem sýkt voru með C. dubliniensis var 36%, en hjá þeim sem sýkt voru með C. albicans var hún 10% (p=0,001). Meðal dýra sem fengu sama fjölda sveppa í æð var sýklamagn í nýrum og lifur um það bil tvöfalt meira ef sýkt var með C. dubliniensis, í samanburði við C. albicans. Góð tengsl virtust vera á milli myndunar gerviþráða (pseudohyphae) annars vegar og dreifðra sýkinga og hærri dánartíðni hins vegar.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að C. dubliniensis sé jafnmeinvirk eða jafnvel meinvirkari en C. albicans. Þessar niðurstöður koma nokkuð á óvart þar sem meinvirkni C. dubliniensis hefur reynst minni en C. albicans í sumum erlendum rannsóknum, en í þeim rannsóknum var uppruni stofnanna ekki frá blóði.

V 100 Skeiðarsýklun (bacterial vaginosis). Hlutverk rann­sókna­stofunnar

Ingibjörg Hilmarsdóttir1, Guðrún Svanborg Hauksdóttir1, Jóna Dögg Jó­­hann­es­dótt­ir1, Þórunn Daníelsdóttir2, Hugrún Þorsteinsdóttir2, Jón Hjalta­lín Ólafsson2

1Sýklafræðideild og 2húð og kynsjúkdómadeild Landspítala

gusvhauk@landspitali.is

Inngangur: Skeiðarsýklun (bacterial vaginosis) er algengasta or­sök skeiðarbólgu. Sýnt hefur verið fram á að skeiðarsýklun teng­ist sýkingum í kynfærum kvenna og fyrirburafæðingum. Greining skeiðarsýklunar hefur annars vegar byggst á aðferð Amsels sem gerð er á læknastofum og hins vegar á aðferð Nugents sem gerð er á rannsóknastofum. Báðar aðferðirnar hafa reynst fremur þungar í vöfum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að bera saman nýja og einfaldari aðferð Thomassonar við fyrrnefndar aðferðir Amsels og Nugents. Aðferð Thomassonar er gerð á rannsóknastofum og byggir á Gramslituðum glerjum.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru strok hátt úr skeið 327 kvenna sem komu á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala. Sýni frá öllum konunum voru metin með aðferðum Amsels, Nugents og Thomassonar. Öll sýnin voru ennfremur ræktuð fyrir sveppum.

Helstu niðurstöður: Skeiðarsýklun greindist hjá 106 (32%) kvennanna með aðferð Amsels, hjá 115 (35%) með aðferð Nugents og jafnmörgum með aðferð Thomassonar. Næmi, sértækni, jákvætt og neikvætt forspárgildi aðferðar Thomassonar borið saman við Amsel voru 88%, 90%, 81% og 94%, en 90%, 94%, 90% og 94%, borið saman við aðferð Nugents. 198 kvennanna höfðu einkenni um skeiðarbólgu, 76 (38%) þeirra greindust með skeiðarsýklun samkvæmt Thomasson aðferðinni og 59 (30%) með sveppasýkingu (níu höfðu hvort tveggja).

Ályktanir: Rannsóknaraðferðir til að greina skeiðarbólgu hafa reynst þungar í vöfum. Þar sem einkenni hennar eru oft á tíðum ósértæk hafa orsakirnar oft ekki verið rétt greindar og því ekki meðhöndlaðar á réttan hátt. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að nýrri og einfaldari aðferð til greiningar skeiðarsýklunar, aðferð Thomassonar, sé fyllilega sambærileg við eldri viðurkenndar greiningaraðferðir. Aðferð Thomassonar ásamt samhliða sveppa­ræktun er góð og ódýr greiningaraðferð sem einungis tekur einn til tvo sólarhringa. Aðferðin auðveldar greiningu á skeiðarbólgum og getur þannig stuðlað að markvissari meðferð.

V 101 Þýðing vægra blæðingaeinkenna og minnkaðrar virkni von Willebrands faktors hjá unglingum

Brynja R. Guðmundsdóttir, Páll Torfi Önundarson

Rannsóknastofa í blóðmeinafræði LSH

brynjarg@landspitali.is

Bakgrunnur og efniviður: Til að meta algengi og þýðingu end­ur­tekinna blæðingaeinkenna (recurrent bleeding, RB) hjá al­menn­ingi dreifðum við spurningum um blæðingahneigð meðal tí­undu bekkinga. Storkumælingar voru gerðar á þeim sem höfðu blæð­inga­ein­kenni ásamt fjórum einkennalausum viðmiðum fyrir hvern einstakling með einkenni. Hér eru kynntar niðurstöður mælinga á von Willebrand faktor (vWF). Minnkuð virkni von Willebrand faktors (vWF:ac) var mæld sem ristocetin kofaktor (vWF:RCo) og/eða kollagen binding (vWF:CB). Skilyrt var að mælingin væri lág í tveimur sýnum frá sama einstaklingi. Í mælingahlutanum voru 39 (62%) þátttakenda með (RB) mældir auk 151 einkennalauss í viðmiðunarhópi.

Niðurstöður: Af 809 sem svöruðu voru 63 (8%) með RB ef langar tíðablæðingar voru ekki taldar með. RB var til staðar hjá 7% pilta og 10% stúlkna (en hjá 14% stúlkna ef blæðingar ?8 dagar voru teknar með). Minnkuð vWF:ac var hjá hjá 26% í RB hópi en 8% í viðmiðunarhópi (p=0,0044). Af 10 sem voru með lágan vWF:ac uppfylltu tveir skilgreiningu fyrir von Willebrands sjúkdóm (vWD) (lágur vWF:ac með fjölskyldusögu) en ekki hinir átta. Enginn úr viðmiðunarhópi uppfyllti skilgreiningu fyrir vWD. Af þeim sem mældust með minnkað vWF:ac voru 20/22 (91%) í blóðflokki O (55% Íslendinga eru í blóðflokki O). Einstaklingar í blóðflokki O voru með lengri PFA-100 lokunartími (CT coll/epi eða CT coll/ADP) og CT var í öfugu hlutfalli við vWF. RB og lágur vWF:ac var til staðar hjá 1,8% þeirra sem voru rannsakaðir.

Ályktanir: Minnkuð vWF virkni (vWF:ac) er marktækur áhættuþáttur fyrir RB hjá unglingum jafnvel þótt vWD væri ekki til staðar. Minnkuð virkni vWF var oftast tengd blóðflokki O. Skimpróf (BT and CT) tengdust minnkaðri vWF:ac hjá einstaklingum með blæðingaeinkenni.

V 102 Greining Campylobacter smits í saur alifugla, saman­burður á PCR tækni og hefðbundnum ræktunaraðferðum

Sigríður Hjartardóttir1, Vala Friðriksdóttir1, Signý Bjarnadóttir1, Guðbjörg Jónsdóttir1, Katrín Ástráðsdóttir1, Eggert Gunnarsson1, Jarle Reiersen2

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2embætti yfirdýra­læknis

sigrhj@hi.is

Inngangur: Campylobactersýking er algengasta orsök matarsýkinga á Íslandi í dag. Ein aðaluppspretta sýkingarinnar eru alifuglar, sérstaklega þó kjúklingar en neysla á kjúklingum hefur stóraukist á kostnað annarra kjötafurða hin síðari ár.

Á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er unnið við eftirlit á Campylobactermengun í alifuglaeldi. Eftirlitið byggist á því að tekin eru saursýni úr fuglunum fyrir slátrun og þeim sáð út með hefðbundnum aðferðum á sértækan agar sem greinir Campylobacterþyrpingar frá öðrum bakteríum í saur. Þeim eldishópum sem greinast Campylobacter jákvæðir er slátrað sér og kjötið fryst. Jafnframt eru tekin botnlangasýni úr hverjum sláturhópi og ræktað frá þeim á sama hátt og saursýnunum.

Stundum kemur fyrir að Campylobacter greinist við slátrun en ekki í eldi. Þá getur krossmengun átt sér stað milli neikvæðra og jákvæðra hópa í sláturhúsinu og hætta á að menguð vara fari á markað. Mikilvægt er að fá að vita með sem stystum fyrirvara um ástand eldisstofnsins áður en til slátrunar kemur.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru sýni úr eldisfuglum yfir sumarmánuðina árið 2004. Saursýnunum var sáð á tvær tegundir af sér­tæk­um agar auk þess sem DNA var einangrað úr sýnunum. Not­aðir voru vísar sem magna upp raðir á 16S rRNA baktería sem tilheyra flokki Campylobacter spp.

Niðurstöður: Niðurstaðan er sú að sameindalíffræðilega aðferðin, PCR tæknin, er bæði næmari og hraðvirkari en hefðbundnu ræktunaraðferðirnar en hún tekur um það bil átta klukkustundir á móti 48 klukkustundum sem ræktanirnar taka.

Ályktanir: Til þess að tryggt sé að menguð vara blandist ekki saman við ómengaða við slátrun þarf að stytta þann tíma sem tekur að greina Campylobacter í saur eldisdýra. PCR aðferðin er kjörin til þessara nota.

V 103 Selen og glútationperoxídasavirkni (GPX virkni) í blóði úr meðgengnum og ólembdum ám og selen í heysýnum á riðulausum bæjum, fjárskiptabæjum og riðubæjum á Ís­­landi

Þorkell Jóhannesson1, Kristín Björg Guðmundsdóttir2, Tryggvi Eiríksson3, Jed Barash1,2*, Jakob Kristinsson1, Sigurður Sigurðarson2

1Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði Lyfjafræðistofnun HÍ, 2rann­sókna­deild yfirdýralæknis í dýrasjúkdómum að Keldum, 3Rann­sókna­stofnun landbúnaðarins Keldnaholti, *Fulbright styrkþegi

kristigu@hi.is

Inngangur: Kannað var hvort selen (Se) í heyi eða Se og GPX virkni í blóði sauðfjár gæti tengst staksettri (sporadic) uppkomu riðuveiki hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Bæjum var skipt í þrjá flokka. Fyrsti flokkur: riðulausir bæir á riðusvæðum. Annar flokkur: fjárskiptabæir (riða komið upp eftir 1980, en síðar skipt um fé). Þriðji flokkur: riðubæir (riða í gangi á rannsóknatímabilinu). Heysýnum (rúllu­baggar, 88 sýni) var safnað á 19 bæjum (14 í Vatnsdal og Víðidal) af uppskeru áranna 2002 og/eða 2003 og Se ákvarðað. Selen og virkni GPX var ákvarðað í blóð áa á átta riðulausum bæjum og fjárskiptabæjum í Vatnsdal, fyrst ólembdra haustið 2002 og síðar lembdra vorið 2003. Þá var Se ákvarðað í blóði ólembdra áa á fjór­um riðubæjum. Loks var aflað gagna frá 20 dýralæknum um land allt um tíðni einkenna um selenskort.

Niðurstöður: Þéttni Se var lítil eða mjög lítil í öllum heysýnum og var staðtölulega hin sama í öllum flokkum. Gögn frá dýralæknum bentu til þess að einkenni um selenskort þekkist um land allt. Þéttni Se í blóði ánna ólembdra (haust) var marktækt meiri en lembdra (vor). Virkni GPX, sem að öllu jöfnu ákvarðast af magni Se, minnkaði einnig marktækt frá hausti til vors, en hlutfallslega minna. Enginn marktækur munur var á þéttni Se eða virkni GPX milli flokka.

Ályktanir: Þéttni Se í heyi bendir sterklega á selenskort. Sam­kvæmt gögnum dýralækna gæti selenskortur verið um allt land. Við byrjandi selenskort minnkar virkni GPX minna en nemur minnkun á Se þéttni, og er því varasamt að nota GPX óskilyrt sem mælikvarða á Se þéttni. Ólíklegt er að Se tengist beint uppkomu á staksettri (sporadic) riðu í sauðfé á Íslandi.

V 104 Eru tengsl milli mangan- og koparinnihalds í heyi og uppkomu riðuveiki í sauðfé á Íslandi?

Þorkell Jóhannesson1, Kristín Björg Guðmundsdóttir2, Tryggvi Eiríksson3, Jakob Kristinsson1, Sigurður Sigurðarson2

1Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði Lyfjafræðistofnun HÍ, 2rannsókna­deild yfirdýralæknis í dýrasjúkdómum að Keldum, 3Rannsóknastofnun landbúnaðarins Keldnaholti

kristigu@hi.is

Inngangur: Kannað var hvort misvægi milli spormálmanna mangans (Mn) og kopars (Cu) gæti skipt máli fyrir uppkomu riðu á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Heysýnum (rúllubaggar, 172 sýni) var safn­að á 47 bæjum af uppskeru áranna 2001, 2002 og 2003 og Mn og Cu ákvarðað. Bæjum var skipt í fjóra flokka. Fyrsti flokkur: níu riðulausir bæir á riðulausum svæðum. Annar flokkur: sautján riðulausir bæir á riðusvæðum. Þriðji flokkur: tólf fjárskiptabæir (riða komið upp eftir 1980, en síðar skipt um fé). Fjórði flokkur: níu riðubæir (riða í gangi á rannsóknatímabilinu).

Niðurstöður: Þéttni mangans í heysýnum frá bæjum þar sem riða hefur aldrei komið upp (1. og 2. flokkur) var marktækt meiri en í heysýnum frá bæjum í 3. eða 4. flokki. Þéttni mangans í heysýnum í 1. flokki var marktækt meiri en í öllum hinum flokkunum. Þéttni mangans í heysýnum í 2. flokki var marktækt meiri en í 4. flokki, en ekki marktækt meiri en í 3. flokki. Þéttni kopars var staðtölulega hin sama í öllum flokkum.

Ályktanir: Mikil þéttni mangans í heyi eða hátt Mn/Cu hlutfall gæti haft varnandi verkun gegn uppkomu riðu. Ein helsta smitleið riðu, sem er talin vera príonsjúkdómur, er um meltingarveg. Mn virðist flýta fyrir innferð príonpróteina í frumur, en Cu seinka. Varnandi verkun Mn á uppkomu riðu gæti því verið bundin við þekjufrumur í meltingarvegi.

V 105 Sýkingar af völdum einfruma sníkjudýra í ásetn­ings­gimbrum með áherslu á tegundasamsetningu og árs­tíða­sveiflu hnísla (Eimeria spp.) í hjörðinni

Karl Skírnisson1, Berglind Guðmundsdóttir1, Hákon Hansson2

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Ásvegi 31, 760 Breiðdalsvík

karlsk@hi.is

Inngangur: Um árabil hafa alvarlegar niðurgangssýkingar hrjáð lömb í Fossárdal í Suður Múlasýslu á haustin og hafa sum lambanna drepist þrátt fyrir ýmsar lyfjagjafir. Sláturlömb hafa sum hver fengið skitu eftir nokkra daga dvöl á láglendi. Sama er að segja um ásetningsgimbrar og síðheimtunga sem oft veikjast þó ekki fyrr en húsvist er hafin.

Efniviður og aðferðir: Sníkjudýrasýkingar voru rannsakaðar í 10 ásetningsgimbrum í 23 skipti frá september 2002 til júlí 2003. Til viðbótar voru athuguð 11 lömb sem fengu skitu á haust­mán­uðum.

Niðurstöður: Þolhjúpar Giardia sp. fundust í öllum ásetnings­lömbunum og í flestum viðbótarlambanna, þolhjúpar Crypto­sporidium sp. voru sjaldséðir en amaban Entamoeaba ovis fannst í hverju einasta sýni. Tíu hníslategundir Eimeria spp. fundust í hjörðinni. Algengast var að finna allar tegundirnar í hverju lambi. Sumar voru algengastar framan af vetri, aðrar um miðjan vetur og enn aðrar sýndu toppa undir vor.

Ályktanir: Engin einhlít skýring fannst á orsökum skitu í haustlömbum á bænum. Sum þeirra lamba sem runnu út í sótt eftir nokkra daga á túni voru með mikið magn Giardia þolhjúpa í saur. Flest lömbin fengu misalvarlega hníslasótt í október sem varði fram í nóvember og jafnvel desember hjá sumum lambanna. Langflest lömbin jöfnuðu sig af sjálfsdáðum.

Þakkir: Verkefnið hlaut styrk úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

V 106 Iðrahníslar í hreindýrskálfum. Lýsing áður óþekktrar tegundar og endurlýsing á Eimeria mayeri

Berglind Guðmundsdóttir, Karl Skírnisson

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

karlsk@hi.is

Inngangur: Einfrumu sníkjudýr af ættkvíslinni Eimeria eru nefnd hníslar. Við óhagstæðar aðstæður geta sýkingar magnast upp og dýrin, einkum þó ungviði, fengið niðurgang sem gengur undir nafninu hníslasótt. Fimm tegundum iðrahnísla hefur verið lýst í hreindýrum Rangifer tarandus. Allar fundust þær á árunum 1935-1939 í norðvestur Rússlandi. Lýsingar flestra þeirra eru þó það ófullkomnar að sérfræðingar sem hafa rekist á hnísla við sníkju­dýraathuganir á hreindýrum í Skandinavíu, á Grænlandi og í Kanada hafa ekki treyst sér til að segja hvaða tegundir hafa verið þar á ferðinni.

Efniviður og aðferðir: Forfeður íslenskra hreindýra komu frá Finnmörku í Noregi fyrir ríflega tveimur öldum. Rannsóknir hafa sýnt að hreindýr þar um slóðir eru sýkt af iðrahníslum. Þar sem hníslar fylgja gjarnan hýslum sínum hvert á land sem er var ákveðið að kanna hvort íslensk hreindýr væru smituð af hníslum. Væri sú raunin mætti ganga út frá því að hníslarnir hefðu borist til Íslands þegar við innflutning dýranna 1787 og ekki dáið út þótt svo að íslenski hreindýrastofninn hafi komist í útrýmingarhættu á fyrri hluta 20. aldarinnar.

Niðurstöður: Sumarið 2003 var safnað 193 saursýnum úr hreindýrs­kálfum sem héldu til á Heinabergsdal á Mýrum, á Gerpissvæðinu og á Snæfellsöræfum og leitað í þeim að hníslum.

Ályktanir: Þolhjúpar tveggja misstórra tegunda fundust. Minni hnísillinn Eimeria mayeri fannst á öllum svæðunum en var alls staðar sjaldgæfur. Stærri tegundin fannst í sitt hvorum kálfinum á Snæfellsöræfum og á Heinabergsdal. Þar var á ferðinni áður óþekkt tegund. Lokið hefur verið við lýsingu hennar og hlaut hún nafnið Eimeria rangiferis n.sp. Grein um efnið bíður prentunar í Journal of Parasitology. Í henni er einnig að finna endurlýsingu á Eimeria mayeri.

Þakkir: Nýsköpunarsjóður námsmanna og Umhverfisstofnun styrktu verkefnið.

V 107 Sníkjudýr í þorskseiðum í strandeldi?

Matthías Eydal, Árni Kristmundsson, Slavko H. Bambir, Sigurður Helga­son

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

meydal@hi.is

Inngangur: Tilraunaeldi á þorskseiðum er nýlega hafið hér á landi. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka hvaða sníkjudýrasýkingar finnast í strandeldi þorskseiða og að meta áhrif þeirra á heilsufar seiðanna.

Efniviður og aðferðir: Þorskseiði voru veidd í Ísafjarðardjúpi haustið 2002, að meðaltali um 4 g á þyngd. Þau voru alin í um það bil 100-200 g þyngd og flutt í sjókvíar snemmsumars 2003. Á eldistímanum var einkum fylgst með ákveðnum tegundum sníkju­dýra og framvindu sýkinga. Beitt var aðferðum í sníkjudýra- og vefjameinafræði, auk annarra sýklarannsókna.

Niðurstöður: Eftirtalin sníkjudýr greindust í seiðunum.

Frumdýr: Bifdýrin Trichodina cooperi og T. murmanica á tálkn­um og roði og svipudýrið Ichthyobodo sp. á tálknum, auk svipudýrs í þvagblöðru. Myxidium sp., Zschokkella sp. og Loma sp. í ýmsum innri líffærum. Enn eitt frumdýr olli æxlisvexti í gervi­tálknum.

Fjölfruma dýr: Agðan Gyrodactylus sp. á tálknum og roði og í meltingarvegi ögðutegundirnar Brachyphallus crenatus, Dero­­genes varicus, Lepidapedon elongatum og Podocotyle ato­mon. Lirfustig bandorma og hringormanna Anisakis simplex og Hysterothylacium aduncum fundust í innyflum. Þá greindust krabbadýrin Caligus sp. og Clavella adunca á roði.

Aðrar sýkingar: Vörtur mynduðust á roði sökum veiru­sýk­ingar.

Trichodina spp., Loma sp. og hugsanlega Ichthyobodo sp., ásamt æxlum í gervitálknum ollu sjúkdómseinkennum á þessu tímabili.

Ályktanir: Sníkjudýr með einfaldan lífsferil (án millihýsla) eru lík­legust til að valda sjúkdómi í strandeldi. Umfang og afföll vegna sníkjudýra, svo sem Loma sp., voru meiri en búist var við. Rann­sóknin bendir til að Trichodina bifdýrasýkingar hafi marktæk neikvæð áhrif á holdstuðul seiða.

Rannsóknum á sjúkdómsvöldum í eldi þorskseiða er haldið áfram.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af sjávarútvegsráðuneytinu.

V 108 Sjúkdómseinkenni í sandhverfu (Scophthalmus maxi­mus L.) með kýlaveikibróður eða vetrarsár

Bryndís Björnsdóttir, Slavko H. Bambir, Sigríður Guðmundsdóttir, Bjarn­heiður K. Guðmundsdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

bryndisb@hi.is

Inngangur: Sandhverfa (Scophthalmus maximus L.) er mikilvæg eldistegund víða í Evrópu. Týpískir og atýpískir stofnar af Aeromonas salmonicida hafa einangrast úr sjúkum sandhverfum og sýnt hefur verið fram á næmi tegundarinnar fyrir Moritella viscosa (Mv). Aeromonas salmonicida undirt. achromogenes (Asa) veldur kýlaveikibróður og Mv veldur vetrarsárum. Mark­mið rannsóknarinnar var að lýsa sjúkdómseinkennum í sandhverfu sýktri með Asa eða Mv.

Efniviður og aðferðir: Sandhverfa (50g) var sýkt með sprautun í vöðva með mismunandi þynningum af Asa eða Mv. Sýkingin var framkvæmd við 9°C og fiskurinn alinn í 500 lítra kerum. Fylgst var með sandhverfunni í fimm vikur og dauði skráður daglega. Sýking var staðfest með einangrun viðkomandi bakteríu úr nýra. Sjúkum og deyjandi fiskum var safnað til vefjaskoðunar og sjúkdómseinkennum lýst. Vefjasýni voru fixeruð í 10% formalíni og lituð með Giemsa litun.

Niðurstöður: Dauði hófst 10 dögum eftir sýkingu með Asa og sáust opin sár við stungustað sjö dögum eftir sýkingu. Roði í húð og blæðingar við kjaft voru algeng ytri einkenni. Mikill gulleitur kviðarholsvökvi sást í fiskinum og blæðingar voru í ýmsum innri líffærum. Dauði hófst fjórum dögum eftir sýkingu með Mv og sáust opin sár við stungustað þrem dögum eftir sýkinguna. Sárin voru oft nokkuð djúp. Hreisturlos og blæðingar umhverfis kjaft voru einnig algeng einkenni. Drep sást í holdi og blæðingar í lifur. Aukin blóðsókn var í lifur, nýra og milti.

Ályktanir: Sjúkdómseinkenni í sandhverfu sýktri með Asa eða Mv líkjast að mestu þeim einkennum sem áður hefur verið lýst í laxi sýktum með sömu bakteríum. Ekki var hægt að greina á milli Asa og Mv sýkingar með því að skoða sjúkdómseinkenni, heldur þurfti að staðfesta sýkingu með einangrun viðkomandi bakteríu.

V 109 Tilraunir til að bólusetja þorsk gegn bakteríu­sjúk­dóm­um

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, Bryndís Björnsdóttir, Bergljót Magna­dóttir, Sigríður Guðmundsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

bjarngud@hi.is

Inngangur: Fisksýklarnir Aeromonas salmonicid undirteg. achro­mogenes (Asa), Listonella anguillarum (La) og Moritella viscosa (Mv) hafa valdið miklum usla í laxeldi og eru einnig að valda skaða í þorskeldi. Eina þorskabóluefnið á markaði er gegn La. Fjölgilt laxabóluefni, AlphaJect5200 (ALPHARMA inc.), með La, Mv og A. salmonicida undirteg. salmonicida (Ass), er á markaði. Það ver lax gegn öllum nefndum bakteríum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna vörn bólusetts þorsks í tilraunasýkingum og meta áhrif bólusetningar á vöxt.

Efniviður og aðferðir: Þorskseiði voru bólusett með AlphaJect 5200 með sprautun (0,1 ml) í kviðarhol (i.p.). Átta vikum síðar var sýkt með böðun eða sprautun í vöðva (i.m.). Fiskurinn var veginn í upphafi tilraunar og átta og 13 vikum frá bólusetningu. Samgróningar í kviðarholi af völdum ónæmisglæðis voru metnir átta og 13 vikum frá bólusetningu og einkunn gefin frá 0-6. Magn mótefna gegn hverjum bakteríustofni í blóðvatni var mælt með ELISA-prófi. Ónæmisvörn var metin út frá hlutfallslegri lifun óbólusettra og bólusettra fiska. Marktækni niðurstaðna var metin með Fishers exact og Kruskal-Wallis prófum.

Helstu niðurstöður: Bóluefnið veitti þorski góða ónæmisvörn gegn La, en ekki gegn Asa eða Mv. Einu sértæku mótefnin sem greindust í bólusettum þorski voru gegn Mv. Bólusetning dró marktækt úr þyngdaraukningu og breytingar í kviðarholi vegna ónæmisglæðis voru töluverðar. Í fyrri rannsókn veitti sama bólu­efni laxi og lúðu en ekki sandhverfu vörn gegn kýlaveikibróður og enn fremur vakti það verndandi ónæmissvar í laxi gegn roðsárum en ekki í sandhverfu.

Ályktanir: Laxabóluefnið AlphaJect5200 myndar ónæmisvörn í þorski gegn La sýkingu, en hvorki gegn Mv né Asa. Bólusetning dregur úr þyngdaraukningu að minnsta kosti í 13 vikur eftir bólusetningu.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica