12. ráðstefnan um rannsóknin í líf- og heilbrigðisvísindum í HÍ 4.-5. janúar

Ágrip erinda

E 01 Algengi Helicobacter pylori og Cag-A mótefna í sermi í Svíþjóð, Íslandi og Eistlandi

Hulda Ásbjörnsdóttir, Rúna Björg Sigurjónsdóttir, Davíð Gíslason, Christer Jansson, Ísleifur Ólafsson, Þórarinn Gíslason, Rain Jogi, Bjarni Þjóðleifsson

Læknadeild HÍ, LYF-1 LSH, rannsóknasvið LSH, Respiratory Medicine and Allergology, Akademiska sjukhuset Uppsala, Lung Clinic, Tartu University Clinics, Eistlandi

bjart@mi.is

Inngangur: Sýkillinn Helicobacter pylori er meginorsakavaldur æti­sára, sérstaklega CagA stofnar. Um 50% jarðarbúa eru sýkt­ir. Algengi sýkinga er misjafnt milli landa og fellur með efna­hagslegri þróun og auknu hreinlæti. Smitleiðir eru ekki að fullu þekktar.

Tilgangur: Faraldsfræðileg rannsókn á algengi H. pylori og Cag-A á Íslandi, í Svíþjóð og Eistlandi og könnun á helstu smitleiðum.

Efniviður og aðferðir: Evrópurannsóknin Lungu og heilsa II er fjölþjóðleg rannsókn á astma og ofnæmi, sem endurtekin var á árunum 1999-2001 meðal einstaklinga 28-53 ára sem voru valdir af handahófi átta árum áður. IgG mótefni gegn H. pylori og CagA voru mæld í sermissýnum með ELISA aðferð hjá 447 einstaklingum í Reykjavík, 359 í Uppsölum og 240 í Tartu Eistlandi. Staðtöluútreikningar gerðir í STATA.

Niðurstöður: Al­gengi H. pylori mótefna var marktækt algengara í Tartu en í Reykjavík (p< 0,0001) og í Reykja­vík miðað við Uppsali (p< 0,0001). Mynd 1. Marktæk aldursbundin aukning H. pylori mótefna fannst í Reykjavík (p<0,001) og Upp­sölum (p<0,03) en ekki í Tartu (p=0,25). Algengi Cag-A hjá ein­stak­lingum með já­kvæð H. pylori mótefni var marktækt lægra í Reykjavík 36% samanborið við 62% í Uppsölum og 69% í Tartu (p<0,0001). Marktæk fylgni fannst milli jákvæðra H. pylori mótefna og reykinga, offitu og lágrar líkamshæðar hjá körlum en ekki var munur milli setra í þessum breytum.

Niðurstaða og ályktun: Rannsóknin kortleggur þekkta fylgni milli efnahagslegrar þróunar og algengis H. pylori sýkingar. Helstu smitleiðir virðast fylgja vanþróun og tengdum þáttum. Reykingar geta stuðlað að smiti með því að sígarettum sé deilt. Lág líkamshæð getur stafað af vannæringu vegna H. pylori sýkingar á viðkvæmu vaxtarskeiði. Lágt algengi Cag-A stofna á Íslandi getur stafað af virkari upprætingu meingena stofna á Íslandi.

E 02 Ífarandi sýkingar af völdum streptókokka af flokki A, samantekt frá 1975-2002

Helga Erlendsdóttir, Magnús Gottfreðsson, Karl G. Kristinsson

Sýklafræðideild og smitsjúkdómadeild Landspítala

helgaerl@landspitali.is

Inngangur: Ífarandi sýkingar af völdum Streptococcus pyogenes (streptókokka af flokki A) geta verið mjög skæðar. Nýlegar rannsóknir benda til að nýgengi þessara sýkinga hafi aukist síðastliðinn áratug. Faraldsfræði þessa sjúkdóms hefur aðallega verið rannsökuð í völdum hópum eða í faröldrum, en hins vegar hefur skort rannsóknir sem ná yfir heila þjóð yfir lengri tíma.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir niðurstöður blóð-, liðvökva- og mænuvökvaræktana á sýklafræðideildum LSH og FSA á 28 ára tímabili, 1975-2002. Sjúklingar með ífarandi sýkingar af völdum streptókokka af flokki A voru skráðir. Einnig dagsetning sýkingar, aldur, kyn, sýkingarstaður og afdrif. Ef sjúklingurinn lést innan sjö daga frá jákvæðri ræktun var sýkingin talin dánarorsök.

Niðurstöður: Á árunum 1975-2002 greindust 176 Íslendingar með 179 ífarandi sýkingar af völdum streptókokka af flokki A. Börn (<16 ára) voru 41 (23%) og fullorðnir 135 (77%). Fjöldi sýkinga var breytilegur milli ára, flestar árið 1993 (16) og 2001 (19). Ef rannsóknartímanum (28 ár) er skipt í fjögur tímabil greindust 11 sýkingar á fyrsta tímabilinu, 40 á öðru, 54 á þriðja og 74 á síðustu sjö árunum. Þetta svarar til nýgengisins 0,7; 2,4; 2,9 og 3,8 sýkingar á 100.000 íbúa/ár þessi sömu tímabil. Eitt barn lést, en heildar­dánartíðni meðal fullorðinna var 15,5%. Hún var 20-23% fyrstu þrjú tímabilin, en féll niður í 6,9% síðasta tímabilið (p=0,03).

Ályktanir: Tíðni ífarandi sýkinga af völdum streptókokka af flokki A hefur aukist til muna síðastliðna þrjá áratugi, þótt fjöld­inn sé breytilegur milli ára. Ekki verður með vissu staðfest hvort þessa aukningu megi rekja til betri rannsóknaraðferða eða hvort um raunverulega aukningu sé að ræða. Á sama tíma hafa marktækt færri látist úr þessum sýkingum, sem gefur til kynna að bætt sjúkdómsgreining geti átt þátt í því.

E 03 Stofngreiningar á meningókokkum á Íslandi 1977-2004 með fjölgena raðgreiningu (MLST)

Magnús Gottfreðsson1, Matthew A. Diggle2, David I. Lawrie2, Helga Erlendsdóttir1, Hjördís Harðardóttir1, Karl G. Kristinsson1, Stuart C. Clarke2 ?1Landspítali, 2Scottish Meningococcus and Pneumococcus Reference Labora­tory, Glasgow, UK

magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Ífarandi sýkingar með Neisseria meningitidis (meningó­kokkum) eru algengari á Íslandi en víða í nágrannalöndunum og eru orsakir þess óljósar. Stofngreiningar sem byggja á fjölgena raðgreiningu (Multi Locus Sequence Typing, MLST) hafa marga kosti umfram eldri aðferðir. Áhugavert er að nota þessa tækni til að rannsaka hvort stofnar sem hér eru í umferð eru frábrugðnir þeim sem algengastir eru í öðrum löndum.

Efniviður og aðferðir: Fjölgena raðgreining var gerð á öllum stofnum sem ræktuðust frá sjúklingum með ífarandi sýkingar á árabilinu 1977-2004. Raðgreining á sjö genum sem ekki tengjast meinhæfni var framkvæmd: hvert um sig er 450-500 basapör. Arfgerð stofnanna var borin saman við stofna sem þegar höfðu verið rannsakaðir og eru aðgengilegir á alþjóðlegri heimasíðu www.mlst.net

Niðurstöður: Allir 362 meningókokkastofnar sem til eru frá tímabilinu 1977-2004 hafa verið raðgreindir. Af þeim eru 4% af hjúpgerð A, 60% hjúpgerð B, 35% af hjúpgerð C og 1% af öðrum hjúpgerðum. Stofnar af raðgerð (Sequence Type, ST) 32 voru algengastir, en þeir orsökuðu 90 af 362 (24,9%) sýkinganna. Þar á eftir komu stofnar af raðgerð 11 (ST 11/ET37) sem ollu 19,9% sýkinga og raðgerð 10 (10,2% sýkinga). Ný raðgerð, ST 3492, var fjórða algengasta orsök ífarandi meningókokkasýkinga hér á landi. Alls greindust 26 mismunandi raðgerðir í rannsókninni og þar af voru 14 nýjar sem virðast vera bundnar við Ísland. Stofnar af þessum nýju raðgerðum orsökuðu 12,4% allra sýkinga. Arfgerð 32 var til staðar hérlendis allt tímabilið, en arfgerð 10 hvarf á árinu 1983. Hin nýja raðgerð, 3492, kom fram árið 1983 og greindist allt til 1996. Tilhneiging til hærri dánartíðni kom fram meðal sjúklinga sem sýktust af stofnum með nýja raðgerð (17,7% vs 8,0%; p<0,07).

Ályktanir: Þessi rannsókn sýnir okkur að umtalsverður breytileiki er á meningókokkastofnum hérlendis, þrátt fyrir einangrun landsins. Áhugavert er að 12,4% stofna virðast vera séríslenskir. Kanna þarf betur orsakir hærri dánartíðni þeirra sjúklinga sem sýkjast af nýjum stofnum.

E 04 Sameindafaraldsfræði Chlamydia trachomatis í sýn­um frá sjúklingum með endurteknar sýkingar

Freyja Valsdóttir, Kristín Jónsdóttir

Sýklafræðideild Landspítala

krijons@landspitali.is

Inngangur: Endurteknar og/eða viðvarandi sýkingar af völdum Chlamydia trachomatis eru stór áhættuþáttur fyrir alvarlega fylgikvilla þessara sýkinga eins og ófrjósemi og utanlegsfóstur. Rannsókninni var ætlað að kanna hvort hér á landi finnist tilfelli þar sem klamydíusýking er viðvarandi eða hvort um endursýkingu sé að ræða. Tíðni þessara sýkinga og hvaða stofnar valda þeim voru einnig til athugunar.

Efniviður og aðferðir: Sýnin sem notuð voru komu úr sýnasafni sýklafræðideildar og höfðu greinst jákvæð fyrir C. trachomatis. Sýnin komu frá sjúklingum á göngudeild húð- og kynsjúkdóma sem áttu fleiri en eitt jákvætt sýni á sex ára tímabili, 1998 til 2004. Sjúklingar voru valdir með tilliti til fjölda og tíma milli greininga, var sá einstaklingur sem átti flest sýni með lengst á milli þeirra valinn fram yfir aðra.

OmpA genið var magnað upp úr sýnunum og gerð skerði­bútagreining til að greina sermisgerð. Stofnar frá sjúklingum, sem greindust tvisvar eða oftar með sömu sermisgerð, voru valdir til stofngreiningar með raðgreiningu.

Niðurstöður: 16,1% sjúklinga greinast aftur jákvæðir að minnsta kosti einu sinni á tímabilinu. Hátt hlutfall sjúklinga í rannsókninni greinist tvisvar eða oftar með C. trachomatis af sömu sermisgerð, eða 81%. Sermisgerð D greinist í 29% tilvika sem er umtalsvert hærri tíðni en almennt gerist í sjúklingum sem koma á göngudeild húð- og kynsjúkdóma.

Ályktanir: Meirihluti þeirra sem greinast oftar en einu sinni á tímabilinu hafa sömu sermisgerð sem gæti bent til viðvarandi sýkinga eða endursýkinga af sama stofni. Sermisgerð D virðist hafa einhverja eiginleika sem stuðla að því að hún upprætist síður við sýklalyfjagjöf.

E 05 Vasopressín minnkar smáæðablóðflæði í görnum í sýklasóttarlosti

Gísli H. Sigurðsson1, Luzius Hiltebrand2, Vladimir Krejci2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Inselspital Háskólasjúkrahús í Bern, Sviss

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Við alvarlegt sýklasóttarlost er stundum takmörkuð hjálp í venjulegum æðaherpandi lyfjum til að hækka blóðþrýsting. Í slíkum tilvikum hefur verið stungið upp á að nota vasopressín. Vandamálið við vasopressín er að það er talið valda æðaherpingu í görnum enda var það áður notað við blæðandi vélindaæða­hnúta. Áhrif vasopressíns á smáæðablóðflæði í kviðarholslíffærum hafa ekki verið könnuð áður, en sá var einmitt tilgangur þessarar rannsóknar.

Efniviður og aðferðir: Sextán svín voru svæfð, andað fyrir þau og sýklasóttarsjokk var framkallað með "faecal penitonitis". Eftir fimm klukkustunda sepsis og vökvagjöf til að fyrirbyggja vanrýmis­sjokk fengu átta dýr meðferð með vasopressíni 0,06 U/kg/mín en hin átta fengu enga æðaherpandi meðferð (viðmiðunarhópur). Hjarta­útfall og blóðflæði í arteria mesenterica superior (SMA) voru mæld stöðugt í þrjár klukkustundir á eftir. Jafnframt var smáæðablóðflæði mælt með laser Doppler flowmetry (LDF) bæði í slímhúð og vöðva­lagi maga, smágirnis og ristils.

Helstu niðurstöður: Vasopressín hækkaði blóðþrýsting marktækt (24%) miðað við viðmiðunarhóp, en hjartaútfall minnkaði að sama skapi (34%). Jafnframt var mikil minnkun á blóðflæði í SMA og á smáæðablóðflæði í slímhúð maga og smágirnis. PtCO2 í garnaslímhúð hækkaði einnig umtalsvert (merki um blóðþurrð).

Ályktanir: Þessi rannsókn staðfestir að vasopressín er áhrifa­mikið lyf til að hækka blóðþrýsting í sýkingarlosti, en það hefur umtalsverðar aukaverkanir, þar sem hjartaútfall, regional blóðflæði og smáæðablóðflæði í slímhúð maga og smáþarma minnkar umtalsvert. Það verður því að teljast varhugavert að nota vasopressín í meðferð á septísku losti nema sýnt verði fram á gagnsemi lyfsins í klínískum rannsóknum.

Samstarfsverkefni LSH - HI og UniBE #1

E 06 Faraldsfræði Campylobacter smits í kjúklingum. Get­ur hænan smitað eggið/ungann?

Vala Friðriksdóttir1, Eggert Gunnarsson1, Guðbjörg Jónsdóttir1, Katrín Ástráðsdóttir1, Kolbrún Birgisdóttir1, Signý Bjarnadóttir1, Sigríður Hjartar­dóttir1, Jarle Reiersen2, Ruff Lowman3, Kelli Hiett4, Ken Callicott4, Norman J. Stern4

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2embætti yfirdýralæknis, 3Cana­dian Food Inspection Agency, Ottawa, Ontario, Kanada, 4USDA-ARS, Russell Research Center, Athens, Georgia, USA

valaf@hi.is

Inngangur: Campylobacter smit af innlendum uppruna var frekar sjaldgæft í mönnum hérlendis þar til upp kom faraldur 1998-2000 sem rakinn var til neyslu á ferskum kjúklingum. Í framhaldi af þeim faraldri varð Campylobacter eftirlit hluti af reglubundnu eftirliti í alifuglaframleiðslu.

Efniviður og aðferðir: Á tímabilinu júní 2001 til júní 2003 voru tekin sýni úr forfeðrahópum í Svíþjóð (í tengslum við innflutning á frjóvguðum eggjum), úr foreldrafuglum sex vikum eftir klak og úr sömu hópum 19 vikna gömlum. Við ræktun á Campylobacter voru notaðar hefðbundin NMKL aðferð og Campy-Cefex aðferð.

Niðurstöður: Campylobacter ræktaðist úr helmingi forfeðrahópa í Svíþjóð á sama tíma og sýni úr sex vikna foreldrafuglum í sóttkví voru öll neikvæð. Þegar sömu hópar foreldrafugla voru svo prófaðir aftur 19 vikna gamlir voru um 70% hópanna orðnir jákvæðir. Ekki fannst samræmi á milli Campylobacter stofna sem einangr­uðust úr forfeðrahópum og stofna sem fundust í foreldrafuglum við 19 vikna aldur.

Ályktanir: Okkar niðurstöður sýna að þótt egg komi til landsins úr fuglum sem smitaðir eru af Campylobacter þá finnst bakterían ekki í afkvæmum þessara fugla eftir klak. Þegar Campylobacter ræktast síðan úr afkvæmunum þegar þau eldast er það vegna ytri aðstæðna, það er umhverfis og umgengni, en ekki vegna smits frá foreldrum.

E 07 Þrek 9 og 15 ára barna og tengsl þess við holdafar og hreyfingu

Sigurbjörn Á. Arngrímsson1, Þórarinn Sveinsson2, Erlingur Jóhannsson1

1Íþróttafræðasetur Kennaraháskóla Íslands, 2rannsóknastofa í hreyfi­vís­ind­um HÍ

sarngrim@khi.is

Inngangur: Ofþyngd og offita barna er vaxandi vandamál hér á landi eins og í öllum nágrannalöndum okkar. Lítil hreyfing er talin ein af orsökum aukinnar líkamsþyngdar og hefur einnig áhrif á þrek barnanna. Þetta leiðir til vítahrings þar sem lítil hreyfing, lítið þrek og aukin þyngd stuðla hvert að öðru. Markmiðið með þessari rannsókn er að meta þrek barna og kanna tengsl þess við hreyfingu og holdafar.

Efniviður og aðferðir: Af 1323 níu og 15 ára börnum í 18 grunnskólum víðsvegar á Íslandi tóku 935 þátt (71%). Holdafar barnanna var kannað með því að mæla líkamsþyngdarstuðul (n=932), þykkt húðfellinga (n=931) og ummál (n=930). Hreyfing var mæld með hröðunarmælum (n=388) sem bornir voru við hægri mjöðm í fjóra virka daga og tvo helgardaga. Þrek (W/kg) barnanna var mælt með stöðluðu þrekpófi á þrekhjóli (n=465).

Niðurstöður: Drengir eru þrekmeiri en stúlkur og 15 ára drengir hafa meira þrek en 9 ára drengir en enginn munur er á stúlkunum. Fylgni á milli þreks og hreyfingar í öllu úrtakinu er mest við heildarhreyfingu (r=0,22) og heildartíma við ákefð >6 MET (r=0,19). Engin tengsl eru á milli þreks og hreyfingar hjá 9 ára börnum en hjá 15 ára börnum er fylgnin mest við heildartíma í hreyfingu við ákefð >9 MET (r=0,30, stúlkur) og við heildartíma af ákefð >3 MET (r=0,39, drengir). Fylgni á milli húðfitu og þreks var góð í úrtakinu öllu (r=-0,63) sem og innan aldurshópa (r=-0,54 til -0,68) en veikari tengsl voru við aðrar holdafarsbreytur (r=-0,27 til -0,35).

Ályktanir: Hreyfing hefur áhrif á þrek hjá 15 ára börnum en ekki 9 ára. Vegna minni hreyfingar 15 ára stúlkna þarf ákefðin að vera meiri til að hafa áhrif á þrek heldur en hjá karlkyns jafnöldrum þeirra. Því feitari sem börnin eru því þrekminni eru þau og sterkt samband á milli þreks og holdafars undirstrikar samspil þessara þátta og heilsufars.

E 08 Prader-Willi heilkenni á Íslandi

Snjólaug Sveinsdóttir1, Stefán Hreiðarsson2, Árni V. Þórsson1,3

1Barnaspítala Hringsins, 2Greiningar-og ráðgjafarstöð ríkisins, 3lækna­deild HÍ

arniv@landspitali.is

Inngangur: Prader-Willi heilkenni (Prader-Willi syndrome, PWS) einkennist af vanþrifum, slappleika og slakri vöðvaspennnu í frumbernsku, en eftir tveggja ára aldur kemur venjulega fram óstöðvandi matarfíkn með offitu sem oft verður sjúklingum að aldurtila á þrítugsaldri. Einstaklingar með Prader-Willi heilkenni eru að jafnaði þroskaskertir með sérstök hegðunarfrávik. Vanstarfsemi undirstúku (hypthalamus) skýrir marga þætti heilkennisins en sýnt hefur verið fram á að einstaklingar með PWS hafa byggingargalla í undirstúku. Ein afleiðing þess er röskun á framleiðslu vaxtarhormóns og kynhormóna.

Markmið rannsóknarinnar var að staðfesta nýgengi PWS á Íslandi og að kanna afdrif þeirra einstaklinga sem hafa greinst með PWS.

Efniviður og aðferðir: Að fengnum tilskildum leyfum voru sjúkra­skrár frá tímabilinu 1976-2000 kannaðar frá barnadeildum sjúkrahúsanna í Reykjavík og barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Upplýsingar fengust einnig frá ungbarnaeftirliti og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Tölur um fæðingafjölda fengust frá Hagstofunni.

Niðurstöður: Á 25 ára tímabili 01.01.1976-31.12.2000 greindust átta börn með PWS, þrjár stúlkur og fimm drengir. Í öllum tilfellum var orsök staðfest erfðafræðilega. Sex einstaklingar voru með brottfall á litningi 15 del(15q11-q13) en tveir voru með tvístæðu litnings frá móður. Miðað við fæðingar lifandi barna er nýgengi PWS á tímabilinu 1:13.500.

Sjö barnanna þurftu meðferð og mislanga dvöl á vökudeild vegna næringarvandamála. Við þriggja ára aldur var komið fram verulegt misræmi á milli hæðar og þyngdar hjá öllum börnunum. Meðal SDS (standard deviation score) þyngdar var 0,82 en meðal SDS hæðar var -1,68 við 36 mánaða aldur. Allir einstaklingarnir eiga við mismikla þroskahömlun að stríða. Eistu höfðu ekki gengið niður hjá neinum drengjanna við fæðingu og fimm fóru í aðgerð. Fjórir einstaklingar hafa verið meðhöndlaðir með vaxtarhormóni, þrír með góðum árangri á vöxt og fitudreifingu en einn án árangurs. Einn hefur farið í aðgerð vegna sjúklegrar offitu með sæmilegum árangri.

Ályktanir: Nýgengi Prader-Willi heilkennis á Íslandi er hærra en tölur um nýgengi erlendis gefa til kynna. Hafa ber í huga að mjög fáar niðurstöður rannsókna á nýgengi PWS hafa verið birtar erlendis. Birtingarmynd heilkennisins er svipuð hérlendis og annars staðar.

E 09 Insúlínháð sykursýki barna á Íslandi. Árangur með­ferðar á göngudeild

Rannveig Linda Þórisdóttir1, Ragnar Bjarnason2, Elísabet Konráðsdóttir2, Árni V. Þórsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2göngudeild sykursjúkra barna og unglinga, Barnaspítala Hringsins

arniv@landspitali.is

Inngangur: Insúlínháð sykursýki er langvinnur, ólæknandi sjúkdómur sem haldið er í skefjum með insúlíngjöf, mataræði og aðgát í hreyfingum. Lýst er árangri meðferðar hjá íslenskum ungmennum með insúlínháða sykursýki á göngudeild sykursjúkra barna og unglinga, sem hefur verið starfrækt síðastliðin 10 ár.

Efniviður og aðferðir: Að fengnum tilskildum leyfum voru sjúkra­skýrslur allra sjúklinga deildarinnar sem greindust á Íslandi á tímabilinu 1.1.1994-1.8.2004 kannaðar. Tekin var þverskurðarathugun á tímabilinu 15.3-14.7.2004 og niðurstöður mælinga við síðustu komu barnanna til deildarinnar voru skráðar. Samtals 83 sjúklingar, 43 drengir og 40 stúlkur.

Niðurstöður: Meðalgildi HbA1c hjá börnum og unglingum í þverskurði 15.3. til 14.7. 2004 var 8,18±1,31%. Stúlkur voru hærri en drengir, 8,30±1,33% á móti 8,08±1,29 %, en þó ekki marktækt (p=0,46). Meðalaldur var 13,26±3,78 ár. Marktæk hækkun var á HbA1c eftir aldri (p=0,003) og tímalengd frá greiningu (p=0,006). Fylgni var milli HbA1c og hækkandi insúlínskammta (p=0,015). Marktæk hækkun var á insúlínskömmtum samanborið við aldur (p<0,05). Tíu börn (12%) fengu slæm blóðsykurföll á tímabilinu 15.3. til 14.7. 2004.

Meðalgildi HbA1c við greiningu var 11,1±2,2%. Meðalgildi SDS (standard deviation score) fyrir hæð drengja við greiningu var 0,46±1,07 og stúlkna -0,06±1,38 (p=0,047). Ekki var hlut­falls­lega marktækur munur á hæð SDS fjórum árum eftir greiningu (p>0,05). Marktæk þyngdaraukning var hjá báðum kynjum fjór­um árum eftir greiningu og mun meiri hjá stúlkum en drengjum (p<0,05). Fimm börn (4,5%) greindust með vanvirkni á skjaldkirtli á tímabilinu 1994-2004.

Ályktanir: Í samantekt sýna niðurstöður rannsóknarinnar að stjórnun blóðsykurs hjá sykursjúkum börnum og unglingum á Íslandi gengur vel miðað við niðurstöður sem birtar hafa verið frá mörgum öðrum löndum. Rannsóknin staðfesti það sem komið hefur fram í flestum erlendum rannsóknum að unglingsstúlkur eiga erfiðara með sykurstjórn en piltar. Hæðarvöxtur var eðlilegur hjá báðum kynjum við greiningu og fjórum árum síðar. Marktækt meiri þyngdaraukning kom fram hjá stúlkum miðað við drengi þegar liðin voru fjögur ár frá greiningu sykursýki.

E 10 Congenital adrenal hyperplasia. Nýgengi, algengi og faraldsfræði erfðaþátta á Íslandi í 35 ár, 1967-2002

Einar Þór Hafberg1, Sigurður Þ. Guðmundsson3, Árni V. Þórsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítali Hringsins, 3lyflækningadeild Landspítala

arniv@landspitali.is

Inngangur: Congenital adrenal hyperplasia (CAH) er sjúkdómur orsakaður af galla í tjáningu ensíma sem taka þátt í myndun barkstera. Meira en 95% sjúkdómstilfella má skýra með galla í geninu sem tjáir 21 hýdroxýlasa. CAH erfist víkjandi og hefur ýmsar birtingarmyndir allt frá því að geta valdið dauða á fyrstu dögum eftir fæðingu í vægari form. Nýgengi sjúkdómsins í flestum löndum Evrópu er 1:10.000-1:15.000 af lifandi fæðingum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna algengi/útbreiðslu sjúkdómsins á Íslandi og erfðafræðilegar orsakir hans. Ennfremur að kanna meðferðarform, afdrif sjúklinga og fylgikvilla sjúkdómsins eða meðferðar.

Efniviður og aðferðir: Að fengnum leyfum voru sjúkraskrár kann­aðar frá sjúkrahúsum í Reykjavík og Akureyri. Upplýsingar voru fengnar frá öllum sérfræðingum í innkirtlafræðum og í viðtölum við sjúklinga eða foreldra. Áreiðanleiki var kannaður með útskrift af 17-OH prógesterón-mælingum síðustu þriggja ára. Þátttakendum var sent bréf til kynningar. Þátttöku samþykktu 95% sjúklinga. Blóðsýnum til erfðarannsóknar var safnað frá þátttakendum.

Niðurstöður: Greining var staðfest hjá 39 einstaklingum, 23 konum og 16 körlum. Algengi 1. des. 2002 var 12,8:100.000. Á tímabilinu fæddust 26 einstaklingar með CAH (12 stúlkur, 14 drengir). Nýgengi sjúkdómsins er því 1:6.005 af lifandi fæddum. Salttapandi formið (ST) greindist hjá 13 (nýgengi 1:12.009) sem er 33,3% sjúklinga. Tvö ung börn hafa látist. Enginn Íslendingur fannst með salttapandi formið eldri en 33 ára. Alls hafa 26 lokið hæðarvexti. Meðal SDS ( standard deviation score) fyrir hæð var -1,4±1,1SD. Meðal þyngdarstuðull (BMI, body mass index) var 29,5±8,0 SD. Tíu hafa eignast barn (38,5%).

Ályktanir: CAH er algengara á Íslandi (1:6005) en í nágranna­lönd­um og marktækt hærra en í Svíþjóð (1:9.800) p<0,003. Dreifing kynja er jöfn. Salttapandi formið fannst hjá 33,3% Íslendinga með CAH (Svíþjóð 85%, Finnland 50%). Veruleg vaxtarskerðing og ofþyngd fannst hjá fullvöxnum sjúklingum sem trúlega er bæði afleiðing sjúkdómsins og meðferðar. Rannsókn á erfðaþáttum stendur nú yfir. Kembileit hjá nýburum er fyrirhuguð á Íslandi sem mun auka öryggi og bæta horfur barna með CAH.

E 11 Áhrif hreyfingar á magn líkamsfitu hjá 9 og 15 ára börn­um

Þórarinn Sveinsson1, Sigurbjörn Á. Arngrímsson2, Kristján Þ. Magnússon3, Erlingur Jóhannsson2

1Rannsóknastofa í hreyfivísindum HÍ, 2Íþróttafræðasetur Kennaraháskóla Íslands, 3Heilbrigðisstofnun Þingeyinga Húsavík

thorasve@hi.is

Inngangur: Tíðni ofþyngdar og offitu barna fer ört vaxandi hér á landi eins og í öllum nágrannalöndum okkar. Einn af orsakavöldum þessarar auknu líkamsþyngdar barna er lítil hreyfing. Markmið rannsóknarinnar er að meta hreyfingu barna og kanna tengsl hennar við holdafar þeirra.

Efniviður og aðferðir: Veturinn 2003-4 voru mælingar gerðar á 9 og 15 ára börnum í 18 grunnskólum sem valdir voru á landsvísu. Í úrtakinu voru 1323 börn og var þátttökuhlutfallið um 71%. Holdafar barnanna var kannað með því að mæla þykkt húðfell­inga og hreyfing var mæld með hröðunarmælum sem börnin báru við hægri mjöðm í fjóra virka daga og tvo helgardaga. Daglegt heildarmagn hreyfingar var skoðað (hreyfibreyta A) en auk þess daglegur heildartími þegar ákefð hreyfingar var yfir ákveðnum mörkum: B) >3 MET (metabolic equivalent); C) >6 MET og D) >9 MET.

Niðurstöður: Fylgni (Pearson r) á milli einstakra hreyfingarbreyta var 0,51-0,88 (?=0,05). Fylgni á milli hreyfingar barnanna um helgar og á virkum dögum var 0,53-0,79 eftir því hvaða hreyf­ingarbreytur voru skoðaðar. Í öllu úrtakinu er fylgni á milli þykktar húðfellinga og mismunandi hreyfingarbreyta ávallt marktæk (r~0,30) en þó áberandi lægst í D (r=0,17). Hreyfing 15 ára stúlka er minnst en níu ára drengja mest; samt sem áður er ekki marktæk fylgni á milli hreyfingar og húðfellinga hjá þessum tveimur hópum. Hins vegar er ágæt fylgni (r=0,18-0,24) á milli hreyfingarbreyta A-C og húðfellinga hjá níu ára stúlkum og 15 ára drengjum en engin fylgni er á milli húðfellinga og D.

Ályktanir: Heildarmagn fremur en ákefð hreyfingar hefur áhrif á fitusöfnun barna. Hreyfing 15 ára stúlkna virðist ekki vera næg til að hafa áhrif á fitusöfnun þeirra öfugt við karlkyns jafnaldra þeirra. Á hinn bóginn virðist hreyfing níu ára stúlkna hafa áhrif á fitusöfnun þeirra.

E 12 Tengsl líkamsstærðar skólabarna í 9. og 10. bekk við sjálfsmynd, depurð og líkamlega heilsu þeirra. Niðurstöður landskönnunar

Guðrún Kristjánsdóttir1,2, Björk Haraldsdóttir1, Hulda Halldórsdóttir1, Sigríður Þórdís Bergsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

gkrist@hi.is

Inngangur: Fjölmargar rannsóknir benda til að ofþyngd hafi varanleg áhrif á heilsufar fólks til lengri tíma. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tengsl líkamsstærðar barna og fjögurra heilsufarslegra útkomuþátta, sjálfsmyndar, depurðar, líkamlegrar heilsu og heilbrigðisupplifunar.

Efniviður og aðferðir: Tilviljunarlandsúrtak 3913 íslenskra skólabarna í 9. og 10. bekk grunnskóla sem þátt tóku í landskönnun á heilsufari var notað. Þyngd þeirra var flokkuð í mikla undirþyngd, undirþyngd, kjörþyngd, ofþyngd og ofurþyngd. Við mat á sjálfsmynd barna var stuðst við sjálfsálitskvarða Rosenbergs, við mat á depurð barna var stuðst við þunglyndiskvarða Pearlins og við mat á líkamlegri heilsu var stuðst við SCL-90 kvarða Derogatis, auk sjálfsmats þeirra á heilsu sinni.

Helstu niðurstöður: Börn sem voru of þung reyndust hafa marktækt lakari sjálfsmynd, voru daprari og höfðu neikvæðari heilbrigðisupplifun en önnur börn. Hins vegar upplifðu of þung börn ekki marktækt lakari sjálfmetna líkamlega heilsu en önnur börn.

Helstu ályktanir: Niðurstöður sýna að líkamsstærð barna hefur áhrif á heilbrigðisupplifun þeirra og að þyngd þeirra tengist frekar andlegum þáttum heilsunnar, svo sem sjálfsmynd og geðslagi, en líkamlegum þáttum heilsufars þeirra á þessum aldri, hvað svo sem síðar verður. Ástæða er til að taka offitu hjá skólabörnum alvarlega enda virðist hún neikvætt tengjast sjálfsmynd þeirra og geðslagi sem getur verið andlega mótandi til framtíðar.

E 13 Hið félagslega samhengi ölvunardrykkju meðal ung­linga

Jórlaug Heimisdóttir1, Rúnar Vilhjálmsson2, Guðrún Kristjánsdóttir2

1Lýðheilsustöð, 2Hjúkrunarfræðideild HÍ

runarv@hi.is

Inngangur: Áfengismisnotkun unglinga getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Hún stefnir heilsufari í hættu til skamms eða langs tíma og eykur líkur á áfengisvandamálum og fíkniefna­notkun í framtíðinni. Tilgangur rannsóknarinnar var að grafast fyrir um algengi ölvunardrykkju meðal íslenskra unglinga og tengsl hennar við félags- og lýðfræðilega þætti.

Efniviður og aðferðir: Á árinu 1997 var gerð þversniðskönnun með­al helmings allra íslenskra skólanemenda á aldrinum 15 og 16 ára. Svarendur fylltu spurningalista út í skólastofum og var svar­hlut­fall­ið 91% (n=3872). Rannsóknin byggir á upplýsingum frá svarendum um ölvunardrykkju, lýðfræðilegan bakgrunn, stuðn­ing frá foreldrum og vinum, eftirlit af hálfu foreldra, andstöðu foreldra og vina við ölvun og ölvunardrykkju foreldra og vina. Tengsl ölvunardrykkju við skýringarbreytur voru metin með að­hvarfs­grein­ingu (logistic regression).

Niðurstöður: Um 30% unglinga greindu frá ölvunardrykku síðastliðna 30 daga. Tengsl voru milli ölvunar unglinganna og ölvunar vina, andstöðu við ölvun meðal vina og foreldra, og stuðnings vina og foreldra.

Ályktanir: Ölvun er algeng meðal íslenskra unglinga. Ölvunin tengist andstöðu, stuðningi og ölvunardrykkju meðal vina og foreldra. Full ástæða er til að leita leiða til að draga úr ölvunardrykkju unglinga. Í því sambandi þarf að beina athygli að viðhorfum til áfengis, áfengishegðun og félagslegum stuðningi af hálfu foreldra og vina unglingsins.

E 14 Ofbeldi á meðal íslenskra unglinga

Gerður Rún Guðlaugsdóttir1, Rúnar Vilhjálmsson2, Guðrún Kristjáns­dóttir2

1Barnaspítali Hringsins, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

gerdurgu@simnet.is

Inngangur: Í skýrslu alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar árið 2002 var ofbeldi kynnt sem alþjóðlegt lýðheilsuvandamál. Ofbeldi getur haft margvíslegar líkamlegar og sálrænar afleiðingar fyrir hlutaðeigandi. Forvarnarstarf byggist á að þekkja og vinna með þá þætti sem leitt geta til ofbeldishegðunar. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna algengi og áhættuþætti ofbeldis meðal 15-16 ára skólabarna á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Á árinu 1997 var gerð þversniðskönnun meðal helmings allra íslenskra skólabarna á aldrinum 15 og 16 ára. Svarendur fylltu út spurningalista í skólastofum og var svarhlutfallið 91% (n=3872). Rannsóknin byggist á upplýsingum frá svarendum um ýmiss konar ofbeldishegðun, félags- og lýðfræðilegan bakgrunn, félagslegan stuðning, álagsþætti og lífsstíl. Tengsl ofbeldishegðunar við skýringarbreytur voru athuguð með hjálp aðhvarfsgreiningar.

Niðurstöður: Meirihluti þátttakenda viðurkenndi að hafa beitt ofbeldi á síðastliðnum 12 mánuðum. Piltar voru líklegri en stúlkur til að beita ofbeldi (OR=5,6; 95% CI: 4,7-6,6). Þátttakendur sem höfðu upplifað 4-12 neikvæða lífsviðburði á síðastliðnu ári voru líklegri til að beita ofbeldi en þeir sem höfðu upplifað færri eða enga slíka viðburði (OR=3,0; 95% CI: 2,2.-4,2). Unglingar sem reyktu sígarettur beittu mun oftar ofbeldi en unglingar sem ekki reyktu (OR=2,5; 95% CI: 1,2.-2,2.). Þeir unglingar sem höfðu neytt áfengis oftar en 20 sinnum á lífsleiðinni voru meira en helmingi líklegri til að beita ofbeldi samanborið við þá sem aldrei höfðu neytt áfengis (OR=2,5; 95% CI: 1,8-3,4). Þá var ofbeldishegðun algengari á meðal unglinga sem töldu sig eiga frekar erfitt með að fá stuðning frá foreldrum sínum samanborið við þá sem áttu auðvelt með það (OR=1,7; 95% CI: 1,2-2,3). Þeir ung­lingar sem oft upplifðu reiði voru nær helmingi líklegri til að beita ofbeldi en þeir sem sjaldan reiddust (OR=1,8; 95% CI: 1,4-2,5).

Ályktanir: Rannsóknin gefur til kynna að hlutfall ofbeldisfullrar hegð­unar á meðal íslenskra skólabarna var hátt og hægt var að draga út ákveðna þætti sem tengdust ofbeldi. Þeir þættir sem voru mark­tækt tengdir ofbeldisfullri hegðun voru kyn, stuðningur frá for­eldrum, streituvaldandi þættir, reiði, reykingar og notkun áfengis.

E 15 Hugur og heilsa. Forvörn þunglyndis

Eiríkur Örn Arnarson1,2, Inga Hrefna Jónsdóttir3, Hulda Sólrún Guð­munds­­dóttir4, Lára Halldórsdóttir5, Hafdís Kjartansdóttir6, Arnfríður Kjart­­ansdóttir7, Brynjólfur Brynjólfsson8, Fjóla Dögg Helgadóttir1, W. Ed Craig­head9

1Sálfræðiþjónusta endurhæfingarsviði Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Reykja­lundur, 4Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar, 5Skólaskrifstofa Reykjavíkur, 6Skóla­skrifstofa Reykjanesbæjar, 7Félagsþjónusta Akureyrar, 8Skólaskrifstofa Garða­bæjar, 9sálfræðideild Coloradoháskóla, Boulder

eirikur@landspitali.is

Inngangur: Á Vesturlöndum er algengi meiriháttar þunglyndis (MDD) á aldrinum 15-21 ára talið 15-22%. Forvarnarnámskeiðið Hugur og heilsa miðar að því að koma í veg fyrir þróun meiriháttar þunglyndis meðal ungmenna. Þeir eru taldir í áhættu sem aldrei hafa greinst með MDD, en með talsverð þunglyndiseinkenni og skýringarstíl sem einkennist af döprum þankagangi. Námskeiðið Hugur og heilsa byggir á kenningum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og er sniðið til að koma í veg fyrir þróun þunglyndis þeirra sem ekki hafa upplifað MDD. Markmið er að koma í veg fyrir fyrsta þunglyndiskast og að fylgjast með geðslagi þátttakenda á námskeiði og í tvö ár á eftir.

Efniviður og aðferðir: Kvarðarnir CDI og CASQ voru lagðir fyrir nema í 9. bekk í grunnskólum. Þeir sem voru með talsvert mörg einkenni á CDI og neikvæðan skýringarstíl á CASQ án fyrri sögu um MDD í 9. bekk voru metnir með K-SADS viðtali. Þeir (N=72) sem uppfylltu skilyrði fyrir þátttöku var dreift af handahófi í tilrauna- og viðmiðunarhópa. Þátttakendur í tilraunahópum tóku þátt í námskeiði sem sálfræðingar stýrðu. Hittust hópar í 14 skipti; tvisvar í viku í þrjár vikur og síðan vikulega í átta vikur.

Niðurstöður: Við 6 og 12 mánaða eftirfylgd með greiningarviðtali kom í ljós að 3% þátttakenda í tilrauna- og 20% í samanburðar­hópi höfðu þróað MDD. Greint frá breytingum á skori hópa á CDI og fleiri fylgibreytum fyrir, eftir námskeið og við eftirfylgd.

Ályktanir: Niðurstöður virðast benda til að sporna megi við þróun þunglyndis ungmenna. Ráðgert er að fylgjast með breytingum einkenna þunglyndis, skýringarstíls og fleiri fylgibreytum rannsóknarhópa uns þátttakendur hafa náð 17 ára aldri.

E 16 Möguleikar netsins í hjúkrunarmeðferð

Erla Kolbrún Svavarsdóttir1, Anna Ólafía Sigurðardóttir2, Sigrún Þórodds­dóttir3

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2barnasvið og 3göngudeild krabbameinsveikra barna Landspítala

eks@hi.is

Krabbamein er ein megindánarorsök barna og unglinga hér á landi. Á hverju ári eru greind að meðaltali 12-14 börn undir 18 ára aldri með krabbamein. Fjölskyldur barna með krabbamein þurfa að aðlagast heilbrigðisástandi barnsins. Þó er ekki vitað hvernig hjúkrunarfræðingar hér á landi geta aðstoðað fjölskyld­urnar við að aðlagast aðstæðum og nýta þau bjargráð sem mögulegt er að bjóða uppá í þeim tilgangi að minnka vanlíðan foreldra. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna áhrif hjúkrunarfræðslu­meðferðar (nursing intervention) sem þróuð var fyrir foreldra barna og unglinga með krabbamein. Hugmyndafræðilegur bak­grunnur rannsóknarinnar var Calgary fjölskyldumeðferðarlík­an­ið (Wright & Leahey, 2000). Meðferðin var þróuð og prófuð sem hluti af stærri landsrannsókn fyrir fjölskyldur hér á landi sem eiga nýgreint barn eða ungling með krabbamein. Áhrif meðferðarinnar var prófuð á aðlögun, bjargráðum, þrautseigju og líðan foreldra. Sérstaða meðferðarinnar er meðal annars fólgin í fræðslu sem var veitt foreldrum á netinu. Rannsóknin miðar að því að hægt sé að meta hvort fræðslumeðferð á netinu skili sér í bættri aðlögun foreldra barna með krabbamein. Verið er að fylgja eftir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í fjarskipta- og upplýsingatækni í heiminum í dag. Leita þarf nýrra leiða til að veita heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem myndi auka gæði þjónust­unnar, bæta heilsu skjólstæðinga og umönnunaraðila og auka hagsæld fyrir þjóðina í heild. Alls tóku 11 fjölskyldur þátt í rannsókninni en gögnum var safnað í tvö ár, frá árinu 2002 til 2004. Frumniðurstöður liggja nú fyrir meðal sjö mæðra og sex feðra. Gögnum var safnað á tveimur tímapunktum yfir sex mánaða tímabil. Meðferðin samanstóð af 60-90 mín stuðningsviðtali fyrir hverja fjölskyldu auk þess sem 137 blaðsíðna heimasíða var þróuð á netinu með fræðsluefni til fjölskyldnanna. Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru þær að líðan foreldra var marktækt betri eftir meðferðina en fyrir meðferðina. Sú þekking sem skapast við þessa meðferðarrannsókn getur nýst sem ákveðið meðferðarform fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem annast fjölskyldur barna- og unglinga með krabbamein hér á landi.

E 17 Sjálfvirkt val mælipunkta í fjölrása augnbotnamyndum til súrefnismælinga í augnbotni

Róbert Arnar Karlsson2, Jón Atli Benediktsson2, Gunnar Már Zoëga3, Gísli Hreinn Halldórsson2, Þór Eysteinsson1,3, Einar Stefánsson1,3

1Læknadeild og 2verkfræðideild HÍ, 3augndeild Landspítala

rak@hi.is

Inngangur: Rannsóknarhópurinn vinnur að þróun tækjabúnaðar til mælinga á súrefnismettun blóðrauða í æðakerfi augnbotna.Tilgangur þessa verkþáttar er að þróa aðferð og hugbúnað sem getur staðsett og þekkt æðar í sjónhimnu og sjóntaugarós í mönnum. Slíkur hugbúnaður er nauðsynlegur til sjálfvirkra mælinga á súrefnismettun í augnbotnum.

Efniviður og aðferðir: Formfræðilegir virkjar eru notaðir til þess að greina staðsetningu æða í augnbotnamyndum og stoðvigra flokkari er notaður til þess að staðsetja sjóntaugarós. Nákvæmni aðferðarinnar var prófuð á 15 augnbotnamyndum úr fimm aug­um.

Niðurstöður: Mælipunktar voru valdir á dekksta svæði innan æða til þess að lágmarka áhrif endurvarps frá æðaveggjum, samsvarandi mælipunktar eru valdir á sjónhimnunni rétt utan við æðina. Við prófanir greindi aðferðin 96±4% (meðaltal ± staðalfrávik) af 100-150 µm breiðum æðum, 82±8% af 70-99 µm breiðum æðum og 43±14% af 30-69 µm breiðum æðum.

Ályktanir: Aðferðin gat greint æðar í augnbotnamyndum með þó nokkurri nákvæmni. Vonast er til að afrakstur þessa verkefnis auðveldi og auki nákvæmni á útreikningum súrefnismettunar blóðrauða og leyfi sjálfvirkar mælingar.

E 18 Geimgeislun og skýmyndun á augasteinum atvinnu­flugmanna

Vilhjálmur Rafnsson1, Eydís Ólafsdóttir2, Jón Hrafnkelsson3, Ársæll Arnarsson2, Giovanni de Angelis4, Hiroshi Sasaki5, Friðbert Jónasson2

1Rannsóknastofa HÍ í heilbrigðisfræðum, 2augndeild, 3krabbameinsdeild Land­spítala, 4NASA Langley Research Center, Hampton VA, USA, 5augn­deild Kanasawa-háskóla, Uchinada, Japan

aarnarsson@actavis.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort at­­vinnu­­flugmennska og geimgeislun sem henni fylgir, tengist skýmyndunum á augastein þegar stjórnað er fyrir áhrifum annarra þekktra áhættuþátta.

Efniviður og aðferðir: Borin voru saman tilfelli skýmyndana á augasteinum sem fundust í rannsókn á atvinnuflugmönnum ann­ars vegar og úr slembiúrtaki meðal Reykvíkinga hins vegar. Alls fóru 445 karlar í gegnum nákvæma augnskoðun auk þess sem þeir svöruðu spurningalista um heilsufar og lífsvenjur. At­vinnuflugmenn voru 79 talsins. Upplýsingum var safnað um starfsaldur þeirra, fjölda floginna klukkustunda og tegund flug­véla, sem voru fengnar frá flugfélögum. Tímatöflur og flugpró­fíl­ar gerðu kleift að reikna út uppsafnaðan geislaskammt (mSv) hvers flugmanns með CARI-6 hugbúnaði. Skýmyndun var skoð­uð með raufarsmásjá og flokkuð og stiguð samkvæmt kerfi al­þjóða­heilbrigðisstofnunarinnar. Áhættuhlutfall (odds ratio) var reikn­að með lógistískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Hættan á skýmyndun í kjarna var 3,02 (95% CI 1,44-6,35) fyrir atvinnuflugmenn samanborið við aðra í rannsókninni þegar stjórnað hafði verið fyrir áhrifum aldurs, reykinga og sólbaða. Hættan á skýmyndun á berki meðal atvinnuflugmanna var lægri en hjá samanburðarhópnum en sá munur reyndist ekki marktækur í lógistískri aðhvarfsgreiningu þar sem stjórnað var fyrir áhrifum sömu þátta. Starfsaldur atvinnuflugmanna og uppsafnaður geislaskammtur (mSv) höfðu marktæk tengsl við hættuna á skýmyndun í augasteinum.

Ályktanir: Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli skýmyndunar í kjarna og jónandi geislunar. Þessi rannsókn leiddi í ljós tengsl milli geimgeislunar hjá atvinnuflugmönnum og ský­mynd­unar í kjarna augasteina, sem gæti bent til orsakasambands.

E 19 Áhrif útfjólublás ljóss sólar á skýmyndun í augastein­um Reykvíkinga. Augnrannsókn Reykjavíkur

Friðbert Jónasson, Ársæll Arnarsson, Eydís Ólafsdóttir, Jóhannes Kári Kristinsson, María S. Gottfreðsdóttir, Dan Öhman

Augndeild Landspítala

fridbert@landspitali.is

Inngangur: Rannsökuð voru hugsanleg áhrif útfjólublás ljóss sól­ar á skýmyndun í augasteinum Reykvíkinga 50 ára og eldri.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak úr þjóðskrá Reykvíkinga 50 ára og eldri, sama hlutfall fyrir hvern árgang og hvort kyn, 1045 einstaklingar voru skoðaðir og teknar Scheimpflug myndir og sneið­myndir af augasteini. Sólargeislar komast best að augum frá temporal hlið og eru með brennipunkt þá nefmegin á auga og þar með nefmegin á augasteini. Við notuðum þessar upplýsingar ásamt upplýsingum um gleraugna- og sólgleraugnanotkun til að meta uppsafnaða (cumulativa) útfjólubláa geislun frá sól fyrir hvern einstakling.

Helstu niðurstöður: Einstaklingar sem voru virka daga meira en fjórar klukkustundir daglega úti við á 3. og 4. áratug ævi sinnar og á 5. og 6. áratug ævi sinnar (fólk sem vinnur utandyra) voru bornir saman við einstaklinga sem voru lítið sem ekkert úti virka daga á sama æviskeiði. Áhættuhlutfall (odds ratio) fyrir ský í berki fyrir þá sem eyddu meiri tíma úti var 2,80 (95% CI 1,01-7,80; p<0,05) fyrir fyrrnefnda aldurshópinn og 2,91 (95% CI 1,13-9,62; p<0,05) fyrir síðarnefnda aldurshópinn. Fyrsta skýmyndun í berki fannst oftast nefmegin og neðan til í augasteini og hlutfallið neðri nasal fjórðungur borinn saman við efri temporal fjórðung var 1,53 (95% CI 1,38-1,68).

Ályktanir: Aukin útivist eykur hættu á skýi í berki augasteins. Algengi skýs í berki er mest í þeim hluta augasteins sem verður fyrir mestri útfjólublárri geislun.

E 20 Tengsl líkamsvaxtar og lengdar og þykktar hinna ýmsu hluta augans í Reykvíkingum, 50 ára og eldri

Þór Eysteinsson1, Friðbert Jónasson1, Ársæll Arnarsson1, Hiroshi Sasaki2, Kazuyuki Sasaki2

1Augndeild LSH, 2augndeild Kanazawa Medical University, Ishikawa, Japan

thore@landspitali.is

Inngangur: Með þessari rannsókn var ætlun að prófa þá tilgátu að tengsl séu milli líkamsvaxtar fólks, það er hæðar og þyngdar, annars vegar og hins vegar lengdar og þykktar hinna ýmsu hluta augans, eins og til dæmis forhólfs, augnhlaups og augasteins.

Efniviður og aðferðir: Tekið var handahófsúrtak úr þjóðskrá yfir Reykvíkinga, 50 ára og eldri. Heildarfjöldi þátttakenda var 846. Scheimpflug myndir voru teknar til að mæla forhólfsdýpt, boglínu hornhimnu, og til að flokka skýmyndun á augasteini. Sónar var notaður til að mæla öxullengd augans, þykkt augasteins og dýpt augnhlaupshólfs. Sjálfvirkur sjónlagsmælir (autorefracto-keratometer) var notaður til að mæla sjónlag og lögun hornhimnu. Þrívíddar augnbotnamyndir voru teknar af sjóntaugum og þvermál sjóntaugaróss mælt með viðeigandi hugbúnaði í tölvu.

Niðurstöður: Meðalöxullengd augans reyndist marktækt meiri (p<.001) meðal karla (23,681 +/- 1,12 mm) en kvenna (23,17 +/- 1,07 mm). Öxullengd augans almennt sýnir marktæka fylgni við bæði líkamshæð (r=.291; p <.001) og þyngd r=.152; p<.001). Forhólfsdýpt hefur marktæka fylgni við hæð (r=.200; p<.001) og þyngd (r=.180; p<.001). Sama gildir um fylgni milli dýptar augnhlaupshólfs og hæðar (r=.240; p<.0001) og þyngdar (r=.123; p<.0001). Það reyndist marktæk neikvæð fylgni milli þykktar auga­steins og forhólfsdýptar (r=-.472; p<.000). Boglína hornhimnu er marktækt flatari (p=.0004) hjá körlum (7,79?0,60 mm) en konum (7,63?0,58 mm), og sýnir marktæka fylgni almennt við bæði líkamshæð (r=.175; p<.001) og þyngd (r=.121; p<.001).

Ályktanir: Niðurstöður benda til að það séu marktæk tengsl á milli líkamsvaxtar og lengdar og þykktar hinna ýmsu hluta augans í því þýði sem var skoðað.

E 21 Sjónskerðing í týpu 2 sykursýki

Eydís Ólafsdóttir1, Dan Andersson3, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Háskólinn í Uppsölum

eydiso@landspitali.is

Inngangur: Sykursýki er algeng orsök sjónskerðingar og blindu í hinum vestræna heimi. Þar sem algengi sykursýki vex stöðugt er sjóndepra vaxandi vandamál. Með því að greina og meðhöndla sykursýki snemma má draga úr fylgikvillum. Einnig er vel þekkt að algengi blindu af völdum sykursýki er minna þar sem skimað er fyrir sykursýkisbreytingum í sjónhimnu. Þetta gildir alla vega fyrir týpu 1. En hvernig er þessu varið fyrir týpu 2 sykursýki? Er hægt að koma alveg í veg fyrir sjónskerðingu og blindu með snemmgreiningu augnsjúkdóma og skimun?

Efniviður og aðferðir: Við skoðuðum algengi sjónskerðingar og blindu hjá einstaklingum með týpu 2 sykursýki, frá Laxå í Svíþjóð og bárum niðurstöðurnar saman við samanburðarhóp frá sama svæði. Allt frá 1983 hefur verið leitað skipulega að týpu 2 sykursýki með skimun í Laxå. Regluleg skimun fyrir sjónhimnubreytingum við sykursýki er einnig vel skipulögð. Öllum einstaklingum með týpu 2 sykursýki (n=276) og samanburðarhópi (n=259) með sömu aldurs- og kynsamsetningu var boðið að taka þátt í rannsókninni. Sjónskerpa var mæld með bestu gleraugum. Augnlæknir skoðaði alla og augnbotnamyndir voru teknar. Blóðsýni voru tekin og og spurningalisti útfylltur.

Niðurstöður: Algengi lögblindu var 2,9% í sykursýkishópnum og 1,2% í samanburðarhópnum. Munurinn er ekki marktækur. Einungis einn einstaklingur í sykursýkishópnum var blindur vegna sjónhimnubreytinga af völdum sykursýki, en flestir hinna sjónskertu með hrörnun í augnbotnum.

Ályktanir: Ekki var marktækur munur á algengi sjónskerðingar og blindu í hópunum. Fáir hafa misst sjón vegna sykursýki, en hrörnun í augnbotnum er algengasta orsök blindu í þessum hópi sjúklinga með sykursýki af tegund 2.

E 22 Leið lyfja á augndropaformi til sjónhimnu auga

Hákon Hrafn Sigurðsson1, Einar Stefánsson2,3, Fífa Konráðsdóttir1, Þor­steinn Loftsson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ, 3augndeild Landspítala

estefans@hi.is

Inngangur: Augndropar eru algengt lyfjaform til að meðhöndla augnsjúkdóma. Leið lyfja til sjónhimnu og sjóntaugar hefur hing­að til verið óljós. Vitað er að hluti augndropalyfja frásogast í blóðrás og dreifist þaðan til allra hluta líkamans, þar með talið aftur til augans. Þeirri spurningu er ósvarað að hve miklu leyti lyf í augndropum fara til sjónhimnu og sjóntaugar augans beint í gegnum augað og að hve miklu leyti með blóðrásinni. Markmið verkefnisins var svara þessari spurningu.

Efniðviður og aðferðir: 0,5% dexamethasone augndropalausn var útbúin með tritium merki. Þrír hópar kanína (n=6) fengu 50 µl af lyfinu eftir mismunandi leiðum; í annað augað, í nös og í bláæð. Blóðsýni voru tekin á 30 mínútna fresti og eftir tvo tíma voru kanínurnar aflífaðar og augun fjarlægð og einstakir vefir augans einangraðir. Styrkur lyfs í ýmsum vefjum beggja augna og blóðsýnum var mældur í geislateljara.

Niðurstöður: Styrkur lyfs í sjónhimnu mældist marktækt meiri í því auga sem fékk augndropa heldur en í sjónhimnu viðmiðunaraugans svo og í kanínum sem fengu lyfið í æð eða í nös. Ekki reynd­ist marktækur munur á styrk lyfs í sjóntaug í "lyfjaauganu" og viðmiðunarauga (í sömu kanínu) sem ekki var dreypt í. Styrkur í sjóntaug var ekki marktækt meiri hjá þeim kanínum sem fengu lyfið í auga og hjá þeim sem fengu lyfið í æð eða nös. Ekki var marktækur munur á styrk lyfs í mismunandi hlutum augans eftir því hvort lyfið var gefið í æð eða í nös.

Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til þess að augnlyf berist til sjóntaugar augans að mestu leyti með blóðrás. Hins vegar berst lyfið til sjónhimnu bæði gegnum blóðrás og einnig með frásogi inn í augað og í gegnum augað sjálft.

E 23 Stökkbreytingar í týrósín kínasa genum í stromaæxlum í meltingarvegi (GIST-æxli)

Geir Tryggvason1, Edda R. Guðmundsdóttir2, Hjörtur G. Gíslason3, Jón G. Jónasson1,4,5, Magnús K. Magnússon2

1Meinafræðideild, 2blóðmeinafræði- og erfða- og sameindalæknisfræðideild og 3skurðdeild Landspítala, 4Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 5lækna­deild HÍ

geirt@landspitali.is

Inngangur: Stromaæxli í meltingarvegi (GIST) er bandvefsæxli í meltingarvegi sem er drifið áfram af stökkbreytingu í týrósín kínasa viðtökum (c-kit eða PDGFRA). Rannsókn þessi á stökkbreytingarmynstri í týrósínkínasa genum er hluti af fyrstu rannsókn sem gerð hefur verið í þessum æxlum hjá heilli þjóð.

Efniviður og aðferðir: Bandvefskímsæxli sem greinst hafa á land­inu á árunum 1990 til 2003 voru rannsökuð. DNA var einangr­að úr paraffín vef og fjórar útraðir (útraðir 9, 11, 13, 17) úr c-kit og tvær útraðir (útraðir 12, 18) úr PDGFRA voru magnaðar upp með PCR. Öll sýni voru raðgreind beint og einnig rafdregin með conformation-sensitive gel electrophoresis (CSGE). Stökk­breytigerðir voru bornar saman við aðrar breytur hjá þessum sjúk­lingum.

Niðurstöður: Af 57 æxlum sem voru skilgreind sem GIST á tíma­bilinu fékkst leyfi fyrir stökkbreytigreiningu hjá 53 (93%). Lokið hefur verið við stökkbreytigreiningu hjá 49 sjúklingum. Í tveimur æxlum af 49 (4%) fundust engar stökkbreytingar í ofangreindum útröðum. Flestar stökkbreytingar voru í útröð 11 í c-kit viðtakanum, 41 af 49 (83,7%). Af þeim æxlum sem voru með stökkbreytingu í útröð 11 þá voru 26 með 3-45 basapara úrfellingar, 14 voru með punktbreytingu í einu basapari og 1 var með tvöföldun á 15 basapararöð. Fjögur æxli af 49 (8,2%) voru með stökkbreytingu í útröð 9 og 2 (4,1%) voru með stökkbreytingu í útröð 18 í PDGFRA. CSGE reyndist mun næmara við stökkbreytigreiningu en hefðbundin bein raðgreining. Þegar bornar voru saman stökkbreytigerðir við aðrar breytur hjá sjúklingum þá kom í ljós munur á mítósufjölda þar sem exon 11 reyndist hafa mun hærra meðaltal mítósa í 50 HPF en hinar útraðirnar.

Ályktanir: Mjög hátt hlutfall æxla hefur örvandi stökkbreytingu í c-kit/PDGFRA (96%). CSGE er mjög næm aðferð til stökkbreytigreiningar á þessum æxlum. Tengsl exon 11 við háan mítósu­fjölda er áhugaverður.

E 24 Staðsetning sprouty-2 og 3 stjórnprótína í eðlilegum brjóstkirtli

Valgarður Sigurðsson1,2, Silja Andradóttir1, Þórhallur Halldórsson1,2, Magnús Karl Magnússon3, Þórarinn Guðjónsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofa Krabba­meins­félags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, 3rannsóknastofa í blóðmeinafræði og erfða- og sam­einda­læknisfræðideild Landspítala

thorarinn@krabb.is

Inngangur: Greinóttur þekjuvefur brjóstkirtilsins er myndaður úr kirtilþekjufrumum og vöðvaþekjufrumum. Boðferlar sem tald­ir eru mikilvægir fyrir greinótta formgerð ýmissa vefja eru vel varðveittir milli mismunandi líffæra og mismunandi dýrategunda. Boð gegnum týrósín kínasa viðtaka eru dæmi um slíka boðferla. Nýlegar rannsóknir sýna að innanfrumustjórnprótín sem tilheyra sprouty fjölskyldunni hafi áhrif á virkni nokkurra týrósín viðtaka og hafa þannig virk áhrif á greinótta formgerð ýmissa líffæra. Fundist hafa fjögur mismunandi sprouty gen; sprouty-1, 2, 3 og 4. Sýnt hefur verið að sprouty prótínin gegni mikilvægu hlutverki í myndun greinóttrar formgerðar í lungum, nýrum og æðakerfi en hlutverk þeirra í brjóstkirtli manna hefur lítið verið kannað. Markmið verkefnisins er að skilgreina tjáningu sprouty-2 og 3 próteina í brjóskirtli.

Efniviður og aðferðir: Tjáning sprouty prótína í brjóstkirtli og frumu­ræktun var metin með mótefnalitun, western blot, og PCR. Vefjasneiðar úr eðlilegum brjóstkirtli voru litaðar með Peroxidase mótefnalitun og einnig með flúrljómun. Einnig voru framkvæmdar mótefnalitanir á brjóstþekjufrumum í rækt á samsvarandi hátt.

Niðurstöður: Mótefnalitanir á vefjasneiðum sýna að sprouty-2 er mun meira tjáð í kirtilþekjufrumum brjóstkirtilsins en vöðvaþekjufrumum. Svipaðar niðurstöður koma í ljós þegar tjáningin er skoðuð í kirtilþekjufrumum og vöðvaþekjufrumum í rækt. Tjáning á sprouty-3 er hins vegar bundin við vöðvaþekjufrumurnar. Mun meiri tjáning fannst í stærri göngum en endastykkjum og kirtilberjum. Verið er að kanna tjáningu þessara gena með PCR og western blot aðferðafræði.

Ályktanir: Niðurstöður okkar sýna að sprouty 2 og 3 er tjáð frumu­sértækt í brjóstkirtli, það er sprouty-2 er bundið við kirtil­þekjufrumur en sprouty-3 við vöðvaþekjufrumur. Það að sprouty-3 sé mun meira tjáð í stærri göngum bendir til að hlutverk þess í brjóstkirtlinum gæti verið að hindra greinótta formgerð sem er áberandi í endastykkjum brjóstkirtilsins.

E 25 Epigenetísk óvirkjun BRCA1 gens í brjóstaæxlum með þekkta BRCA2 stökkbreytingu

Berglind María Jóhannsdóttir1, Valgerður Birgisdóttir1,2, Jórunn Erla Ey­fjörð1,2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði

jorunn@krabb.is

Inngangur: Um 5-10% brjóstakrabbameina tengjast erfðum stökk­breytingum og er í stórum hluta tilfella um að ræða stökkbreytingar í æxlisbæligenunum BRCA1 og BRCA2. Hér á landi hefur fundist ein stökkbreyting í hvoru geni; 5 bp úrfelling í tákna 9 í BRCA2 og sjaldgæf breyting í splæsiseti við tákna 17 í BRCA1. Íslenska BRCA2 stökkbreytingin finnst í um 7% íslenskra kvenna sem fá brjóstakrabbamein en BRCA1 stökkbreytingin í um 0,4% kvenna sem fá sjúkdóminn. Í stökum (sporadic) tilfellum brjósta­krabbameins er þó sjaldnast um stökkbreytingar að ræða. Ný íslensk rannsókn hefur sýnt að í um 10% stakra tilfella brjóstakrabbameins hefur stýrilsvæði BRCA1 hins vegar verið metýlerað og umritun gensins þannig bæld. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort stýrilsvæði BRCA1 væri einnig metýlerað í brjóstakrabbameinum með þekkta stökkbreytingu í BRCA2. Hér er um að ræða fyrstu rannsókn sem kannar þetta sérstaklega.

Efniviður og aðferðir: 50 brjóstaæxlissýni með þekkta íslenska 999del5 stökkbreytingu í BRCA2 geni, metýleringar sérhæft PCR og rafdráttur.

Niðurstöður: Af þeim 50 BRCA2 stökkbreyttu sýnum sem athuguð voru sýndu fimm sýni, eða 10%, sterka metýleringu á BRCA1 stýrilsvæði.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að brjóstakrabbameinsæxli með stökkbreytingu í BRCA2 geni bera svipaða tíðni metýleringar á BRCA1 stýrilsvæði og stök æxli. Okkar fyrri rannsóknir hafa sýnt að æxli sem bera 999del5 stökkbreytinguna í BRCA2 geni tjá ekkert BRCA2 prótein og að stór hluti stakra æxli með metýl­eringu á BRCA1 stýrilsvæði tjá ekkert BRCA1 prótein. Því er líklegt að þau 10% BRCA2 stökkbreyttra æxla sem sýna metýleringu á BRCA1 stýrilsvæði tjái ekkert BRCA prótein. Þar sem BRCA próteinin eru afar mikilvæg fyrir DNA viðgerð og viðhald á heilleika erfðaefnisins eru þetta óvæntar og afar áhugaverðar niðurstöður.

E 26 Tap á RALT/MIG6 tjáningu í brjóstakrabbameinum með HER2 mögnun eykur Her2 háðan æxlisvöxt og stuðlar að ónæmi gegn herceptíni

Sigurður Ingvarsson1, Sergio Anastasi2, Gianluca Sala2, Gísli Ragnarsson3, Chen Huiping1, Oreste Segatto2

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2Regina Elena Cancer Institute, Róm, 3rannsóknastofa Landspítala í meinafræði

siguring@mail.rhi.hi.is

Inngangur: Greinst hafa úrfellingar á litningasvæði 1p í 30-64% tilfella í 11 æxlisgerðum (Ragnarsson et al 1999). Viðkomandi æxli höfðu mismunandi mynstur úrfellinga. Í brjóstaæxlum tengj­ast úrfellingarnar háum S-fasa, lækkun á lifun sjúklinga og úrfell­ingum á öðrum litningasvæðum (Ragnarsson et al 1996). Þetta bendir til að á svæðinu sé æxlisbæligen og að tap þess eigi þátt í æxlisvexti í samspili við tap á öðrum genum. Við frekari kortlagningu hafa rannsóknir okkar beinst að RALT geni. Ralt prótein tekur þátt í afturvirkri stjórnun á viðtökum með týrósín kínasa virkni, en nokkrir þeirra starfa óeðlilega í brjóstaæxlum, meðal annars Her2.

Efniviður og aðferðir: Gerð var SSCP stökkbreytingagreining og DNA raðgreining á RALT geni í 92 brjóstaæxlum. RNAi var framkvæmt í tveimur frumulínum. Tvær brjóstakrabbameinslínur með HER2 mögnun voru skoðaðar með Northern, mótefnalitun og vektorstýrðri tjáningu á RALT. Frumurnar voru ræktaðar í æti með og án bindils og herceptíns. Þrjár brjóstakrabbameinslínur án HER2 mögnunar voru notaðar sem viðmið.

Niðurstöður: Þær breytingar í erfðaefni sem greindust höfðu ekki áhrif á amínósýruröð í próteinum og voru ekki sértækar fyrir brjóstaæxlisvef eða brjóstakrabbameinssjúklinga. Þegar skrúfað var fyrir RALT tjáningu með RNAi jókst EGF háð frumuskipting, sem bendir til að skerðing á RALT boðferli valdi hagstæðum skilyrðum fyrir æxlisvöxt. Veruleg lækkun á mRNA og próteinum greindist í frumulínum sem höfðu magnað HER2. Með vektorstýrðri tjáningu á RALT var hægt að bæla Her2 háða innanfrumuboðleið frumuskiptinga og hindra ónæmi gegn lyfinu herceptíni.

Ályktanir: Tap á RALT tjáningu örvar Her2 boðkerfið og þar með framgang æxlisvaxtar. RALT tjáning hefur einnig áhrif á næmi fyrir lyfinu herceptíni.

E 27 Mögnun æxlisgenanna Aurora-A og c-Myc í brjósta­æxlum með litningaóstöðugleika

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1,3, Margrét Steinarsdóttir2, Valgerður Birgis­dóttir1,3, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson1,2,3, Jórunn E. Eyfjörð1,3

1Krabbameinsfélag Íslands, 2Landspítali, 3læknadeild HÍ

skb@krabb.is

Inngangur: Litningaóstöðugleiki í brjóstaæxlum er algengur. Nýlegar rannsóknir á nagdýralíkunum hafa leitt í ljós að eyðing litningaenda leiði af sér litningaóstöðugleika sem nær hámarki með ífarandi æxlisvexti eftir mögnun ýmissa æxlisgena og virkjun telomerasa. Við það minnkar óstöðugleikinn og frumuskiptingar verða greiðari. Til að rannsaka þetta í mönnum voru sýni úr brjóstaæxlum með þekktan litningaóstöðugleika valin í þeim tilgangi að greina þætti sem hafa áhrif á litningaóstöðugleika.

Efniviður og aðferðir: Valin voru 27 brjóstaæxli með litninga­óstöðugleika og gerð CGH (Comparative Genome Hybridization) greining. Niðurstöður úr CGH voru nýttar við val á staðbundnum FISH (Fluorescense in situ Hybridization) þreifurum fyrir æxlisgen og mögnun þeirra greind á paraffín-steyptum sneiðum úr sömu brjóstaæxlum. Æxlin voru jafnframt greind með tilliti til ójafnvægis BRCA2 gensins, eyðingar litningaenda, tjáningar telomerasa og stökkbreytinga í p53 og BRCA2 genunum. Niðurstöðurnar voru bornar saman innbyrðis og við upplýsingar um hormónaviðtaka, æxlisstærð, meinafræðilega (TNM) stigun og litninga­óstöðugleika.

Niðurstöður: FISH greining sýndi mögnun c-Myc gensins í 59% tilfella og mögnun Aurora-A í 37% tilfella. c-Myc mögnun reynd­ist marktækt meiri í bjóstaæxlum með TNM stigun 1-2 samanbor­ið við æxli með TNM stigun 3-4 (p=0,018). Auk þess reyndist mögnun c-Myc marktækt meiri í æxlum með DNA index >1,5 (p=0,033). Brjóstaæxli með DNA index >1,5 reyndust jafnframt hafa marktækt lága TNM stigun (p=0,033) og vera smá (p=0,012). Mögnun á Aurora-A tengist marktækt BRCA2 stökkbreytingu eða ójafnvægi (p=0,017) og jákvæðum prógesteron viðtaka (p=0,046).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að mögnun c-Myc og Aurora-A gerist snemma í brjóstakrabbameinsmyndun. Tengsl c-Myc mögnunar við lága TNM stigun og mikinn litningaóstöðugleika benda eindregið í þá átt. Ekki hefur áður verið sýnt fram á tengsl milli Aurora-A og BRCA2, en báðir þessir þættir hafa áður verið tengdir við litningaóstöðugleika og upphaf æxlismyndunar. Þessar niðurstöður falla vel að módeli sem byggir á nagdýrarannsóknum um tilurð og þróun litningaóstöðugleika í brjóstaæxlum.

E 28 Boðleiðir og Mitf umritunarþátturinn

Jón Hallsteinn Hallsson, Keren Bismuth, Heinz Arnheiter, Neal Copeland, Nancy Jenkins, Eiríkur Steingrímsson

Læknadeild, Lífefna- og sameindalíffræðistofa HÍ

jonhal@hi.is

Inngangur: Mitf genið skráir fyrir próteini af Myc fjölskyldu bHLH-Zip umritunarþátta. Yfir 25 mismunandi Mitf stökkbreytingar hafa fundist í músinni og hafa þær áhrif á fjölmargar mismunandi frumutegundir, meðal annars litfrumur í húð og RPE frumur augans. Rannsóknir hafa sýnt að virkni Mitf pró­teinsins er stjórnað með umbreytingu eftir þýðingu á fjölmörgum amínósýrum. Margir boðferlar eru ábyrgir fyrir þessum breytingum, en sem dæmi má nefna að c-Kit MAPkínasa ferillinn leiðir til fosfóryleringar á Serín 73 á Mitf próteininu sem eykur virkni Mitf vegna aukinnar sækni í p300/CBP próteinin.

Efniviður og aðferðir: Til að skoða in vivo hlutverk boðleiða í stjórn á Mitf próteininu notum við knock-in og transgenískar mýs þar sem ákveðnum Serín amínósýrum er breytt í Alanín til að koma í veg fyrir fosfóryleringu, án þess að hafa áhrif á byggingu próteinsins. Stökkbreytingar hafa þegar verið útbúnar og mýs framkallaðar. Við höfum búið til annars vegar knock-in mús þar sem Serín 73 er breytt í Alanín en einnig mús þar sem þessi sama breyting er búin til í BAC DNA sameind sem notuð var til að búa til transgenískar mýs.

Niðurstöður og ályktanir: Greining á músunum er á frumstigi, en það er þó ljóst að Mitf genið þolir illa breytingar í DNA röð og geta þessar breytingar meðal annars valdið breytingu á splæsi­mynstri Mitf mRNA sameindarinnar. Auk þess er ljóst að með síauknum fjölda seta innan Mitf próteinsins sem nauðsynleg eru fyrir mismunandi boðleiðir er hin hefðbundna knock-in tækni of tímafrek fyrir greiningu af því tagi sem við höfum áhuga á. Við höfum því snúið okkur að því að notast við BAC recombineering og BAC transgenískar mýs við þessa greiningu. Niðurstöður úr samanburði BAC transgenískra músa við knock-in mýsnar sýna að svipgerð músanna er mismunandi eftir því hvor aðferðin er notuð.

E 29 Greining á hlutverki og stjórnun Mitf gensins í ávaxta­­flugunni

Benedikta S. Hafliðadóttir1,3, Jón H. Hallsson1,2, Chad Stivers4, Ward Oden­wald4, Heinz Arnheiter2, Francesca Pignoni3, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeild HÍ, 2Laboratory of Develop­mental Neurogenetics, National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH, 3Harvard Medical School/Massachusetts Eye and Ear Infirmary, 4Laboratory of Neurochemistry, NINDS, NIH

bsh@hi.is

Inngangur: Mitf próteinið telst til Myc fjölskyldu bHLHZip umritunarþátta. Í músum er Mitf tjáð í öllu auganu snemma í þroskun þess en takmarkast síðar við þær frumur sem verða að litfrumum augans (retinal pigment epithelial, RPE). Nýlega fannst Mitf genið í ávaxtaflugunni Drosophila melanogaster og er helsta samsvörun við Mitf í mús á bHLH-Zip svæðinu. Stökkbreytingar í Mitf hafa fundist í mörgum hryggdýrum og hafa þær áhrif á þroskun litfrumna og augans. Í verkefninu er unnið að greiningu á hlutverki og stjórnun Mitf gensins í Drosophilu.

Efniviður og aðferðir: RNA in situ tilraunir voru notaðar til að sýna staðsetningu á tjáningu Mitf í flugulirfum. Með PCR greiningu var leitað að úrfellingarstofni sem fellir út Mitf genið. Til staðsetningar á varðveittum svæðum í stýrisvæði Mitf var basaröðin borin saman við aðrar Drosophilu tegundir og varðveitt bindiset fundin.

Helstu niðurstöður: Tjáning Mitf er fyrst í þeim frumum sem verða að augum og þreifurum. Síðar takmarkast tjáningin við peripodial himnu, ofan við myndrás augnvefsins. Úrfellingarstofn án Mitf hefur fundist. Varðveitt bindiset umritunarþáttarins broad complex, sem tjáður eru í peripodial himnunni fannst á stýrilsvæði Mitf gensins.

Ályktanir: Rannsóknirnar sýna að ferli tjáningar Mitf er svipað í músum og flugum. Genið er fyrst tjáð í öllum augnvefnum en er síðan takmarkað við frumur sem liggja næst tilvonandi taugafrumum. Starfsemi gensins virðist því vera varðveitt í þessum fjarskyldu lífverum. Úrfellingarstofn án Mitf verður notaður við frekari greiningar á starfsemi gensins. Unnið er að frekari skilgreiningu á stjórnsvæði Mitf í Drosophilu. Einnig verður athugað hvort Mitf getur stjórnað umritun frá E-box stjórnröðum en í músum er það bindisetið sem Mitf örvar umritun frá.

E 30 Samskipti á milli microphthalmia associated transcrip­tion factor MITF og ?-catenin og áhrif á umritun

Alexander Schepsky1, Katja Bruser2, Gunnar Gunnarsson1, Andreas Hecht2, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeild HÍ, 2Institute for Molecular Medicine and Cell Science, University of Freiburg, Þýskalandi

alexansc@hi.is

Inngangur: Mitf próteinið (Microphthalmia associated transcription factor) er af fjölskyldu basic-helix-loop-helix-leucine zipper (bHLH-Zip) umritunarþátta. Mitf hefur áhrif á þroskun ýmissa frumugerða þar á meðal litfrumna, mastfrumna, beinátfrumna og litfrumna augans með virkjun frumusérhæfðra markgena. Með notkun Yeast-2-Hybrid aðferðarinnar fundum við nokkur pró­tein sem starfað geta með Mitf próteininu, þar á meðal -catenin. B-catenin hefur áhrif á cadherin-háða frumuviðloðun en er einnig lykilsameind í Wnt háðum boðleiðum. Örvun Wnt boðleiðarinnar hefur þau áhirf að B-catenin flyst inn í kjarna þar sem það myndar flóka með Lef1/Tcf umritunarþáttunum og virkjar umritun markgena. Hugsanlegt er að svipað eigi við um starfsemi Mitf gensins og að virkni þess sé háð samstarfi við B-catenin próteinið og Wnt boðleiðina. Bæði þessi prótein koma við sögu í þroskun litfrumna og bæði eru tjáð í melanoma æxlum og hafa verið tengd við myndun sjúkdómsins. Hugsanlegt er að samstarf þessara próteina skipti máli fyrir þroskun litfrumna eða í æxlismyndun. Markmið þessarar rannsóknar er að skilgreina prótein-prótein samskipti Mitf og B-catenin og meta áhrif þessara samskipta á umritunarvirkni Mitf próteinsins.

Efniviður og aðferðir: Samskipti próteinanna voru staðfest og skilgreind nánar með co-immunoprecipitation, GST pulldown, Yeast- og Mammalian-2-hybrid aðferðum. Yfirtjáning Mitf minnk­ar umritunarvirkni B-catenin en yfirtjáning á B-catenin eykur umritunarvirkni Mitf.

Niðurstöður og ályktanir: Við sýnum að samskipti B-catenins og Mitf eiga sér stað í kjarnanum og að þessi samskipti draga úr umritunarvirkni B-catenin frá B-catenin/LEF1 sértækum stýrlum og auka umritun frá Mitf sértækum stýrlum.

Rannsóknir okkar veita því nýja innsýn í stjórn umritunar­virkni Mitf próteinsins of áhrif þess á þroskun litfrumna og æxlismyndun.

E 31 Stökkbreyting í TEAD1 erfðavísinum veldur Sveins­son's chorioretinal atrophy, arfgengum augnsjúkdómi í fjölmennri íslenskri ætt

Ragnheiður Fossdal1, Friðbert Jónasson2, Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir1, Augustine Kong1, Hreinn Stefánsson1, Jeffrey R. Gulcher1, Kári Stefánsson1

1Íslensk erfðagreining, 2augndeild Landspítala

ragnheidur.fossdal@decode.is

Inngangur: SCRA (Sveinsson´s chorioretinal atrophy) er ríkjandi erfðasjúkdómur, fyrst lýst af Kristjáni Sveinssyni augnlækni árið 1939. SCRA hefur áhrif í augnbotnum í báðum augum og er greinanlegur frá fæðingu. Vefjabreytingar byrja við sjóntauga­enda sem rof á æðu og sjónu með totulaga munstri er breiðist út eftir augnbotnunum með aldrinum. Áhrif á sjón fara eftir því hvar breytingarnar verða. Ungir arfberar eru oftast einkennalausir en sjúkdómurinn getur valdið lesblindu ef breytingar verða á þeim hluta augnbotnsins sem sér um skarpa sjón (gula blettinum). Um 25% sjúklinga eru einnig með sjaldgæft ský á augasteini.

Efniviður og aðferðir: Erfðarannsókn var gerð á stórri ís­lenskri fjölskyldu með tengsla- og setraðagreiningu auk stökk­breyt­inga­leitar með raðgreiningu. Alls tók 81 sjúklingur og 107 ættingjar þeirra þátt í rannsókninni. Með ættfræðigrunni ÍE voru ættir þeirra raktar aftur til sameiginlegs forföður frá 1540. Vitað er um einstaklinga sem greinst hafa með SCRA í Færeyjum og Dan­mörku og eru þeir af íslenskum uppruna.

Helstu niðurstöður: Rannsóknin leiddi til einangrunar á mein­geni, TEAD1, á litningi 11. Stökkbreytingin í TEAD1 sem veldur SCRA fannst í öllum sjúklingum sem þátt tóku í rannsókninni en engum af heilbrigðum ættingjum þeirra né í 395 einstaklingum úr viðmiðunarhópi. TEAD1 táknar fyrir umritunarþátt sem hefur ekki verið tengdur við erfðasjúkdóm áður. Stökkbreytingin orsakar breytingu á bindistað TEAD1 við hjálparpróteinið YAP65. Þau bindast hvort öðru í kjarna frumna og stjórna umritun annarra gena sem eiga þátt í byggingu og viðhaldi æðu og sjónu.

Þekking á erfðafræðilegri orsök SCRA veitir aðgengi að líf­fræðilegum ferlum sem liggja að baki sjúkdómnum. Það er einnig mögulegt að meinferli SCRA geti varpað nýju ljósi á aðra augnsjúkdóma, svo sem skýmyndun á auga.

E 32 Íslenskur vefþjónn til að finna bindiset í erfðamengjum og framkvæma sýndar PCR hvörf

Haukur Þorgeirsson1, Ýmir Vigfússon1, Hans G. Þormar2,3,4, Jón J. Jóns­son2,3, Magnús M. Halldórsson1

1Tölvunarfræðiskor verkfræðideild HÍ, 2Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild rannsóknastofnunar Landspítala, 4Lífeind ehf.

hans@hi.is

Inngangur: Ein algengasta aðferðin í sameindaerfðafræði er keðju­fjölföldun (polymerase chain reaction, PCR) þar sem tveir vísar eru notaðir til magna upp eina ákveðna erfðaefnisröð (eða, í sumum tilfellum margar raðir, complex PCR). Tilgangur verkefnisins var að hanna forrit til að framkvæma sýndarkeðjufjölföldun og almennt talað finna möguleg bindiset stuttra raða í erfða­mengi. Binding DNA raða er háð því hversu margir basar raðanna geta parast eða hljóta að misparast. Umritun og fjölföldun er einnig háð því hversu vel basar á 3' enda vísisins parast. Forritið var hannað þannig að mögulegt væri að stjórna nokkrum af þessum breytum.

Efniviður og aðferðir: Leit að bindingu ákveðins fjölda misparana er vel þekkt verkefni sem leysa má með kviku bestunarreikniriti kennt við Smith-Waterman. Slík leit er afar kostnaðarsöm þegar henni er beitt á stórar raðir eins og erfðamengi mannsins. Við því var brugðist á ýmsa vegu. Aðferð Chang og Marr var beitt til að sía út innan við 1% af mögulegum bindisetum. Hraðvirk samanburðaraðferð Myers útilokaði síðan langflest röng bindiset, sem lágmarkaði þörfina á nákvæmu aðferðinni. Erfðamengi mannsins var komið fyrir í innra minni tölvunnar (~800 MB) með því að tákna fjóra basa í hverju bæti.

Niðurstöður og ályktanir: Forritið er aðgengilegt lífvísindafólki á slóðinni http://genome.cs.hi.is Það gefur möguleika á að leita að bindistað eins eða tveggja vísa í erfðamengi mannsins og draga út röðina á milli þeirra (sýndarkeðjufjölföldun). Hægt er að breyta ýmsum þáttum, svo sem hversu margir basar: a) þurfi að passa saman frá enda, b) megi vera misparaðir og hversu margar misparanir megi standa hlið við hlið. Forritið er einnig hægt að nota til að draga út hundruð þúsunda raða sem ættu að magnast upp í flóknu PCR hvarfi.

E 33 Sýndar keðjufjölföldun flókinna erfðamengissamsvar­ana úr gagnabönkum

Hans G. Þormar1,4, Haukur Þorgeirsson2, Ýmir Vigfússon2, Guðmundur H. Gunnarsson1,3, Bjarki Guðmundsson3, Magnús M. Halldórsson2, Jón J. Jónsson1,4

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2tölvunarfræðiskor, verkfræðideild HÍ, 3Lífeind ehf., 4erfða- og sameindalæknisfræðideild rann­sóknastofnunar Landspítala

hans@hi.is

Inngangur: Með tilkomu örsýnaraðsafna er mögulegt að bera saman tjáningu gena milli frumna eða bera saman mismunandi mögnun milli erfðaefna. Við höfum yfir að ráða tækni til að gera flókin PCR hvörf á erfðamengi mannsins sem magna upp mörg hundruð þúsund mismunandi raðir í einu hvarfi. Þessi aðferð er byggð á því að nota vísi sem bindst á 3' enda Alu raða. Með tilkomu forrits sem gerir okkur kleift að gera sýndar PCR á erfða­mengisröð mannsins opnast sá möguleiki að búa til örsýnarað­söfn til að bera saman mögnun flókinna PCR hvarfa.

Efniviður og aðferðir: Gert var flókið PCR hvarf þar sem magn­aðar voru upp þúsundir raða í einu vegna bindingu Alu 3' vísis við endurteknar raðir í erfðamenginu. Af þeim röðum sem mögn­uðust upp voru 120 klónaðar, raðgreindar og skoðaðar með tilliti til þess hversu mikill breytileiki væri milli raðar vísis og erfðamengisraðar á bindistað vísisins. Þær upplýsingar voru síðan notaðar til að leggja grunn að þeim keyrslum sem hér er lýst. Fyrstu niðurstöður úr keyrslu forritsins voru sannreyndar með því að bera saman útkomu forritsins við handvirka leit í 250 þúsund basapara röð.

Niðurstöður og ályktanir: Forritið dró út 200 þúsund mismunandi raðir úr erfðamengisröð mannsins. Í nær öllum tilfellum var um skilgreinda Alu 3' hjáröð að ræða. Vísirinn passaði á hluta allra undirfjölskyldna Alu raða og voru raðirnar dreifðar á alla litninga. Niðurstöðurnar erum við að nota í samvinnu við Nimblegen Systems til að búa til örsýnaraðsöfn til að skoða hversu vel flókið sýndar PCR hvarf ber saman við raunverulegt flókið PCR hvarf. Í framhaldi af þeim niðurstöðum er mögulegt að fara að einangra erfðabreytilegar raðir úr flóknu PCR hvörfunum með 2D-CDE og endurblenda þeim á örsýnaraðsöfn.

E 34 Tvívíður þáttháður rafdráttur til rannsókna á flóknum erfðaefnissýnum

Guðmundur Heiðar Gunnarsson1,2, Bjarki Guðmundsson2, Hans Guttormur Þormar1, Jón Jóhannes Jónsson1,3

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 2Lífeind, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

ghg@hi.is

Inngangur: Einþátta kjarnsýrusameindir hafa minni færsluhraða í PAGE rafdrætti en jafnlangar tvíþátta sameindir. Því er á einfaldan hátt hægt að aðskilja og magngreina slíkar blöndur af ein­þátta og tvíþátta kjarnsýrusameindum ef þær eru af einni lengd. Skortur er á öflugum aðferðum til aðskilja, magn- og lengdar­greina ein- og tvíþátta kjarnsýrusameindir í flóknum erfða­efnissýnum. Slíkar aðferðir mætti meðal annars nota til að: i) áætla magn og lengd­ardreifingu bæði ein- og tvíþátta kjarnsýrusameinda, ii) meta skilvirkni endurblendingahvarfa, iii) til að hámarka gæði flókinna mögnunarhvarfa, iv) meta cDNA myndun og v) greina rofset. Við lýsum þróun tvívíðs rafdráttarkerfis fyrir þáttaháðan aðskiln­að á flóknum kjarnsýrusýnum.

Efniviður og aðferðir: Mynduð voru misflókin tvíþátta prófefni með skurði á lambda- og mannerfðaefni. Hluti prófefnanna var gerður einþátta með bræðslu. Flókið cDNA safn var myndað úr RNA einangruðu úr mannafrumum. Prófefnin voru notuð til að staðla rafdráttarkerfið. Magnaðar voru upp flóknar samsvaranir úr erfðamengi mannsins og rafdráttarkerfið notað til að meta samsetningu afurðanna og í framhaldi til að hámarka slík mögnunarhvörf.

Niðurstöður: Hægt var að aðskilja flókin sýni af ein- og tvíþátta kjarnsýrusameindum á magnbundinn hátt auk þess sem hægt var að meta lengdardreifingu innan hvors hóps fyrir sig. Hægt var að meta á magnbundinn hátt skilvirkni endurblendingar á flóknu DNA sýni. Aðferðin var einnig notuð til að hámarka gæði flókinna samsvarana og til að greina rofset í flóknum sýnum.

Ályktanir: Við höfum þróað tvívíðan þáttaháðan rafdrátt til að greina ein- og tvíþátta kjarnsýrur á magnbundinn hátt. Þessi aðferð opnar nýja möguleika á greiningu flókinna sýna og er sérstaklega öflug til að hámarka gæði flókinna mögnunarhvarfa.

E 35 Staðsetning pökkunarraða mæði-visnu veirunnar (MVV)

Helga Bjarnadóttir1,2, Bjarki Guðmundsson1, Janus Freyr Guðnason1, Jón Jóhannes Jónsson1,2

1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeilar HÍ, 2erfða- og sameinda­lækn­is­fræðideild Landspítala

hbjarna@rhi.hi.is

Inngangur: Pökkun tvíþátta RNA erfðaefnis í veiruagnir í tímg­unarhring víxlveira felur í sér sérhæft samspil RNA stilklykkja við kjarnhylkisprótein veirunnar. Þessar RNA stilklykkjur kallast pökkunarmerki og eru almennt staðsettar milli aðalsplæsgjafa (MSD) veirunnar og upphafstákna gag gensins. MVV er frumgerð lentiveira og sýkir kindur. Engar rannsóknir hafa verið birt­ar um pökkunarraðir MVV. Markmið okkar var að skilgreina pökkunarraðir MVV til að auka almennan skilning í pökkun lenti­veira og til að betrumbæta pökkun MVV genaferja.

Efniviður og aðferðir: Við bárum saman "leader raðir" frá bindi­seti vísis að upphafstákna gag nokkurra MVV stofna með tilliti til varðveislu og reiknuðum út stöðugustu RNA strúktúrana með tölvuforritinu Mfold. Síðan smíðuðum við afbrigði af veirunni með ýmsar úrfellingar ofanvert og neðanvert við MSD. Við innleiddum úrfellingaafbrigðin ásamt villigerð veirunnar í kinda- og mannafrumur. RNA erfðaefni var magnmælt innan og utan frumu með rauntíma RT-qPCR í LightCycler. Tjáning Gag próteina var staðfest með Western blettun. Til að skilgreina pökkun úrfellinga­afbrigðanna tókum við hlufall erfðaefnis utan og innan frumu og reiknuðum pökkunarskilvirkni sem prósentu af villigerð.

Niðurstöður: Í ljós kom að raðir ofanvert við MSD miðluðu ekki pökkun. Pökkunarraðir reyndust vera neðanvert við MSD. Úrfelling 168 bp svæði milli MSD og upphafstákna gag sýndi um 15% pökkunarvirkni en olli auk þess smávægilegri skerðingu á Gag tjáningu. Úrfelling varðveittrar 35 bp stilklykkju á þessu svæði minnkaði pökkunarvirkni niður í 40% án þess að skerða tjáningu Gag próteina. Þrátt fyrir skerta pökkunarvirkni 35 bp stilklykkjunnar, mældust 7,3 * 105 veiruerfðaefnis eintök per ml flot.

Ályktanir: Pökkunarraðir MVV virðast vera dreifðar um erfða­efnið, það er þær eru ekki eingöngu í "leader" röðinni.

E 36 HFE arfgerðargreining meðal íslenskra blóðgjafa og hagur þeirra af C282Y arfblendni

Jónína Jóhannsdóttir1,2, Hildur Björnsdóttir1, Sveinn Guðmundsson3, Ina Hjálmarsdóttir3, Guðmundur M. Jóhannesson4, Birna Björg Másdóttir1, Jón Jóhannes Jónsson1,2, Eiríkur Steingrímsson2

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild rannsóknastofnunar Landspítala, 2líf­­­efna- og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ, 3Blóðbankinn, 4blóð­meina­­­fræði­deild

joninajo@hi.is

Inngangur: Járn er lífsnauðsynlegt fyrir allar lífverur en það þarf að vera í hæfilegu magni. Of mikið járn getur valdið líffæra­skemmdum, en of lítið járn veldur blóðleysi. Hemókrómatósa er arfgengur efnaskiptagalli sem stafar af aukinni upptöku járns í smáþörmum og ofhleðslu járns í vefjum. Tilgátur eru uppi um að útbreiðsla C282Y stökkbreytingarinnar hafi orðið mikil vegna þess að hún veiti vörn gegn járnskorti. Tilgangur þessarar rannsóknar var meðal annars að kanna tíðni stökkbreytinga í HFE geni meðal íslenskra blóðgjafa og tengsl stökkbreytinganna við járnbúskap.

Efniviður og aðferðir: Samsætutíðni stökkbreytinga í HFE geni hjá blóðgjöfum var fundin með rannsókn á 350 dulkóðuðum sýn­um. Blóðgjöfum var skipt í fjóra hópa: hetjublóðgjafa sem gefið höfðu blóð oftar en 75 sinnum, blóðgjafa með háar járnbirgðir, blóðgjafa með lágar járnbirgðir og handahófsúrtak. Einnig voru hetjublóðgjafar bornir saman við heildarhóp annarra blóðgjafa (það er hinir hóparnir þrír sameinaðir) og við fyrri rannsókn á handa­hófsúrtaki einstaklinga fæddra 1996. Arfgerð var ákveðin með PCR og ensím skurði.

Niðurstöður og ályktanir: Samsætutíðni C282Y stökkbreytingarinnar meðal blóðgjafa er 6,4% (±1,7%), H63D 10,7% (±2,2%) og S65C 3,6% (±1,3%). Tíðni HFE stökkbreytinga meðal blóðgjafa er sambærileg fyrri rannsóknum á tíðni meðal Íslendinga. Arfblendni með tilliti til C282Y stökkbreytingarinnar (CY-HH-SS arfgerð) er tvöfalt algengari hjá hetjublóðgjöfum en öðrum blóðgjöfum og hjá handahófsúrtaki úr fyrri rannsókn. Áhrif C282Y stökkbreytingarinnar á járnbúskap gæti verið ástæða þess að hetjublóðgjafar geta gefið blóð oftar en aðrir.

E 37 Inntak og fyrirlögn upplýsts samþykkis í erfðarann­sóknum

Vigdís Stefánsdóttir1, Ólöf Ýrr Atladóttir2, Ólafur S. Andrésson2, Björn Guðbjörnsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Vísindasiðanefnd

bjorngu@landspitali.is

Tilgangur: Að rannsaka skilning þátttakanda í erfðarannsóknum á upplýstu samþykki.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti með 32 spurningum var sendur til 416 einstaklinga sem skömmu áður höfðu tekið þátt í tveimur stórum vísindarannsóknum þar sem þeir skrifuðu undir upplýst samþykki. Spurningarnar beindust að upplýsingagjöf, inntaki og fyrirlögn upplýsingaefnis og samþykkisyfirlýsinga, skilningi þátttakenda og upplifun. SPSS tölfræðiforritið var notað til að vinna úr niðurstöðum.

Niðurstöður: Svarhlutfall var rúmlega 50% og dreifðust svörin jafnt milli kynja og aldurshópa. 51% þátttakenda þótti orðalag samþykkisblaðsins skýrt og ekki var marktækur munur á tímalengd lesturs og mati á orðalagi. Meirihluti svarenda skildi text­ann almennt vel (71-90%), en nokkur munur var á skilningi eftir menntunarstigi. 32% svarenda með háskólamenntun voru innan við 15 mínútur að lesa upplýsingatextann, en 16% þeirra svar­enda sem lokið höfðu grunnskólaprófi eingöngu. Athygli vekur að um 78% aðspurðra mundu ekki hvers konar samþykki (takmarkað eða víðara) þeir höfðu undirritað og að 5,6% aðspurðra kváðust annaðhvort hafa undirritað C-samþykki, sem ekki er til, eða að þeir skrifuðu undir fleira en eitt samþykki, sem ekki var boðið upp á.

Umræða: Svör þessarar spurningakönnunar gefa til kynna að nokkur hópur þeirra sem þátt taka í erfðarannsóknum skilji ekki til fullnustu þær upplýsingar sem veittar eru um rannsóknirnar og jafnframt tekur það flesta meira en 15 mínútur að lesa upplýsinga­efni. Stærstur hluti þátttakenda veit ekki hvers konar samþykki þeir undirrita, en auk þess virðist gæta nokkurs misskilnings á því hvers konar samþykki undirritað er.

Gríðarleg áhersla er lögð á að afla upplýsts samþykkis þeirra sem bjóða sig fram til þátttöku í vísindarannsóknum. Til þess að upplýsingar og samþykkisyfirlýsingar uppfylli skilyrði sem sett eru um slíka texta þarf að gæta þess að textinn sé nægilega upplýsandi en um leið ekki of tyrfinn aflestrar. Þess þarf að gæta að aðstæður þátttakenda hamli ekki skilningi þeirra.

Ályktanir: Af niðurstöðum þessarar könnunnar má ráða að þörf sé á að skýra betur muninn á mismunandi samþykkisyfirlýsingum, en auk þess bendir ýmislegt til að almennt megi endurskoða þessa texta með það að markmiði að skýra þá og skerpa. Niðurstöðurnar leiða jafnframt hugann að áhyggjum manna af því að upplýsingatextar séu að verða íþyngjandi fyrir þátttakendur í vísindarannsóknum og að hamla verði gegn þeirri tilhneigingu að gera textana sífellt ítarlegri og flóknari.

E 38 Nýgengi örorku vegna taugasjúkdóma á Íslandi

Sigurður Thorlacius1,2, Sigurjón B. Stefánsson1,2,3, Haraldur Jóhannsson1, Elías Ólafsson2,3

1Tryggingastofnun ríkisins, 2læknadeild HÍ, 3taugalækningadeild Landspítala

sigurdur.thorlacius@tr.is

Inngangur: Rannsókn á algengi örorku hér á landi í desember 2001 sýndi að um einn af hverjum sjö öryrkjum hafði taugasjúkdóm sem meginorsök örorku. Til að kanna frekar vægi taugasjúkdóma í örorku er hér kannað nýgengi örorku vegna taugasjúkdóma á Íslandi og hvaða taugasjúkdómar valdi oftast örorku.

Efniviður og aðferðir: Skoðað var í gögnum Tryggingastofnunar í hve mörgum tilvikum greining taugasjúkdóms var fyrsta sjúkdómsgreining í örorkumati hjá þeim sem metnir voru til örorku í fyrsta sinn á árunum 2001 til 2003 og um hvaða sjúkdóma var að ræða. Notað var meðaltal þessara þriggja ára til að ákvarða fjölda nýrra öryrkja vegna taugasjúkdóma á einu ári. Aflað var upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda Íslendinga á aldrinum 16-66 ára á miðju þessu þriggja ára tímabili (1. júlí 2002). Reiknað var nýgengi örorku vegna taugasjúkdóma.

Helstu niðurstöður: Nýgengi örorku vegna taugasjúkdóma var 50,9 hjá hverjum 100.000 íslenskum konum og 49,3 hjá hverjum 100.000 íslenskum körlum á aldrinum 16 til 66 ára. Nýgengi örorku á 100.000 íbúa á aldrinum 16-66 ára vegna þeirra taugasjúkdóma sem algengast var að yllu örorku var sem hér segir:

Ályktanir: Nýgengi örorku vegna taugasjúkdóma á Íslandi má að miklu leyti rekja til heilablóðfalls, sjúkdóms Parkinsons og MS. Þessir sjúkdómar eiga þannig umtalsverðan þátt í því að fólk þarf að yfirgefa vinnumarkaðinn fyrir aldur fram.

E 39 Heilablóðfall á Landspítala Hringbraut á árunum 1993-2000

Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir1,2, Helga Jónsdóttir2, Gísli Einarsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítali Fossvogi

sigurlaugs@hotmail.com

Inngangur: Heilablóðfall er afleiðing margra sjúkdóma sem hver um sig hefur fjölmarga áhættuþætti. Á heimsvísu er heilablóðfall önnur algengasta dánarorsökin og jafnframt algengasta ástæða varanlegrar fötlunar á meðal fullorðinna.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1997-2000 var gerð kerfisbundin framskyggn (prospective) heilablóðfallsskráning á sjúklingum sem innlagðir voru á Landspítala Hringbraut. Jafnframt var gögn­um safnað um heilablóðfallssjúklinga sem innlagðir voru á árunum 1993-1996.

Niðurstöður: Á umræddum átta árum (1993-2000) lögðust alls 2090 sjúklingar inn með heilablóðfall eða TIA og byggjast niðurstöður á 1729 sjúklingum (929 körlum og 800 konum), sem gögnum hefur verið safnað um. Meðalaldur sjúklinga var 70 ára, hæstur hjá sjúklingum með heiladrep (72 ára) en lægstur hjá heila­blæðingarsjúklingum (64 ára). Heiladrep höfðu 71%, heila­blæð­ingar 13% og TIA 16%. Dánartíðni (1997-2000) var 10% við heiladrep og 36% við heilablæðingar. Hækkandi aldur, gáttatif, hjartabilun og hærri blóðsykurgildi höfðu áhrif á dánartíðnina.

Umræða: Um 220 sjúklingar komu árlega á Landspítala Hring­braut á tímabilinu 1993-2000 vegna heilablóðfalls eða TIA og fækkaði árlegum fjölda innlagna yfir tímabilið. Dánartíðni við 30 daga var 14% fyrir tímabilið 1997-2000, sem er góður árangur á alþjóðavísu.

E 40 Frumulíkan af arfgengri heilablæðingu

Snorri Páll Davíðsson1, Ástríður Pálsdóttir1, Elías Ólafsson2

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2taugadeild Land­spítala

spd@hi.is

Inngangur: Arfgeng heilablæðing erfist ríkjandi, ókynbundið og með mikla sýnd. Sjúkdómurinn orsakast af mýlildismyndun í miðlagi veggja smárra slagæða heilans sem veldur því að veggirnir gljúpna og gefa sig. Mýlildið er myndað af stökkbreyttu cystatíni C þar sem leucini í stöðu 68 hefur verið skipt út fyrir glútamín. Í arfberum kemur sjúkdómurinn að jafnaði fram milli tvítugs og fertugs og lýsir sér með endurteknum heilablæðingum, vitglöpum og lömun og dregur sjúklinga nær undantekningarlaust til dauða innan fárra ára frá fyrsta áfalli. Virkni stökkbreytts cystatíns C er nær óskert en stökkbreytingin raskar byggingu prótínsins nógu mikið til að því hættir til að mynda tvenndir, sérstaklega við hækkað hitastig (39°C-41°C). Hvernig stökkbreytingin breytir meðferð frumna á cystatíni C er ekki vitað en vísbendingar hafa fengist með rannsóknum á fíbróblast frumum ræktuðum úr arfberum.

Efniviður og aðferðir: Frumur úr arfbera voru litaðar með mótefnum gegn cystatíni C annars vegar og frymisneti eða Golgi kerfi hins vegar og skoðaðar í confocal smásjá. Auk þess var prótínþrykk (Western blot) gert á sprengdum frumunum til að leggja mat á útflutning cystatíns C. Tilraunir voru gerðar á frumum sem ræktaðar voru við 37°C og 41°C til að meta áhrif hitastigs en líka í viðurvist próteasómhindra til að leggja mat á virkni ubiquitín/próteasóm kerfisins við niðurbrot stökkbreytta afbrigðisins.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður benda til þess að stökkbreyttu cystatíni C sé haldið eftir í frymisneti frumnanna eða sé að minnsta kosti flutt hægar út en villigerð. Innan frumna virðast tvær, fjórar, sex eða fleiri cystatín C sameindir geta bundist saman en slíks varð ekki vart utan frumna. Ubiquitín/próteasóm kerfið virðist brjóta stökkbreytt cystatín C niður til jafns við villigerð prótínsins.

E 41 Afdrif sjúklinga með tímabundna heilablóðþurrð (TIA)

Ágúst Hilmarsson1, Haukur Hjaltason1,2, Elías Ólafsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2taugalækningadeild Landspítala

agusthi@hi.is

Inngangur: TIA eru tímabundin brottfallseinkenni sem stafa af truflun á blóðflæði til heilans. Samkvæmt erlendum rannsóknum tengist TIA aukinni hættu á heilaslagi og ótímabærum dauða.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur eru allir þeir sem leituðu á Landspítala Hringbraut vegna TIA á þriggja ára tímabili (1999-2002) og voru skoðaðir af taugalæknum. Miðað er við fyrstu heimsókn vegna TIA á tímabilinu. Sjúkraskýrslur sjúklinganna voru notaðar til að endurmeta greiningar með tilliti til birtra skilmerkja og ákvarða hverjir leituðu aftur á spítalann vegna heilaslags á rannsóknartímanum. Skráð var hverjir fengu heilaslag á eftirfylgnitímanum. Fjöldi þeirra sem lést var ákvarðaður úr þjóðskrá.

Helstu niðurstöður: Þeir 119 einstaklingar sem uppfylltu greiningarskilmerki fyrir TIA eru efniviður rannsóknarinnar. Þeir skiptast í 70 karla (59%) og 49 konur (41%). Meðalaldur karla var 68,2 ár (31-93). Meðalaldur kvenna var 70,1 ár (31-94). Meðaleftirfylgnitíminn var 2,8 ár (0,1-4,8). Á þeim tíma fengu 10 heilaslag (8,4%): eftir 0-3 mánuði (2), eftir 3 mánuði til 1 árs (3), eftir 1 til 2 ár (3) og 2-4 ár (2). Átta létust (6,7%).

Ályktanir: Dauðsföll meðal sjúklinga í þessari rannsókn voru færri en lýst hefur verið í erlendum rannsóknum. Einnig var tíðni slags tiltölulega lág þótt erfiðara sé að túlka þær niðurstöður þar sem hér er ekki um þýðisrannsókn (population based study) að ræða. Mikilvægt er að rannsaka frekar líkur á slagi og ótímabærum dauða hjá TIA sjúklingum hér á landi.

E 42 Tíðni hreyfitaugungahrörnunar (Amyotrophic Lateral Sclerosis eða ALS) á Íslandi á 10 ára tímabili

Grétar Guðmundsson1,2, Finnbogi Jakobsson1,2, Elías Ólafsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2taugalækningadeild Landspítala

gretar@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknin kannar tíðni hreyfitaugungahrörnunar (Amyotrophic Lateral Sclerosis, ALS) á Íslandi á 10 ára tímabili (1994 til 2003). ALS er sjúkdómur í miðtaugakerfi þar sem efri og neðri hreyfitaugungar hrörna. Um er að ræða alvarlegan sjúkdóm og reiknað er með að flestir sjúklinganna hafi komið til greiningar hjá taugalæknum.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingarnir eru fundnir úr gögnum tauga­lækningadeildar Landspítala og með upplýsingum úr sjúklingabókhaldi Landspítala. Einnig er leitað til starfandi taugalækna og annarra lækna til að fá frekari upplýsingar.

Helstu niðurstöður: Á rannsóknartímanum greindust 58 einstaklingar með ALS hér á landi. 53% voru konur. Meðalaldur við greiningu var 65,1 ár (dreifing 38-86). Algengustu einkenni við greiningu voru frá neðri útlimum 45%, heilastofni 33%, efri útlimum 14%.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að tíðni ALS hér á landi sé svipuð og í nágrannalöndunum. Þessar niðurstöður eru mikilvægar meðal annars til þess að skipuleggja þjónustu við þessa sjúklinga og frekari rannsóknir á sjúkdómnum á Íslandi. Ítarlegri niðurstöður um einkenni og gang sjúkdómsins verða kynntar.

E 43 Algengi sjálfsprottinnar vöðvaspennutruflunar (idio­pathic primary dystonia) á Íslandi

Hilmir Ásgeirsson1, Finnbogi Jakobsson1,2, Haukur Hjaltason1,2, Helga Jóns­dóttir2, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir1,2

1Læknadeild HÍ, 2Landspítali Fossvogi

sigurlaugs@hotmail.com

Inngangur: Dystonía er samheiti yfir truflun á vöðvaspennu af ýmsum orsökum. Einkennin eru tímabundinn eða viðvarandi vöðvasamdráttur sem veldur óeðlilegri líkamsstöðu eða síend­ur­teknum hreyfingum með vindingi á líkamshlutum. Algengi sjálf­sprottinnar (idiopathic) dystoníu hefur verið lýst á bilinu 6,1 til 32,6 /105.

Efniviður og aðferðir: Upplýsinga var aflað úr gögnum á Land­spítala, hjá starfandi tauga-, barna-, HNE-, augn- og heilsugæslu­læknum og talmeinafræðingum. Þátttakendur voru skoðaðir á göngudeild Landspítala og á landsbyggðinni.

Niðurstöður: Heildaralgengið var 37,1/105 (CI 30,4-44,9; 107 sjúkl.). Staðbundin (focal) dystonía var algengust (31,2/105). Sjaldgæfari gerðir voru geiraskipt (segmental) dystonía (3,5/105), fjölhreiðra (multi-focal) dystonía (2,1/105) og altæk (generalized) dystonía (0,4/105). Af staðbundum dystoníum var hálsdystonía algengust (11,5/105), síðan athafnakrampar (8,0/105), raddbanda­dystonía (5,9/105), hvarmakrampar (3,1/105) og munndystonía (2,8/105). Sjúkdómurinn var algengari meðal kvenna og kynjahlutfall 1:1,9 fyrir allan hópinn (p=0,006). Meðalaldur við byrjun einkenna var 42,7 ára (3-82 ára).

Ályktanir: Algengi sjálfsprottinna dystoníuheilkenna á Íslandi var hærra en almennt gerist. Innbyrðis hlutfall hinna ýmsu heilkenna var svipað og áður hefur verið lýst.

E 44 Algengi spennuvisnunar (myotonia dystrophica) á Íslandi

Gerður Leifsdóttir1, John Benedikz2, Guðjón Jóhannesson2, Jón Jóhannes Jónsson1,2, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir1,2

1 Læknadeild HÍ, 2 Landspítali-Háskólasjúkrahús

sigurlaugs@hotmail.com

Inngangur: Spennuvisnun er fjölkerfasjúkdómur sem erfist A-litnings ríkjandi. Einkenni sjúkdómsins eru meðal annars vöðva­herpingur (myotonia), vöðvarýrnanir og kraftminnkun vöðva, leiðnitruflanir í hjarta, öndunarerfiðleikar, vitsmunaskerðing og innkirtlavandamál. Sjúkdómsmyndin er margbreytileg hvað varð­ar einkenni og alvarleika, en almennt er tilhneiging til þess að ein­kennin versni með hverri kynslóð vegna væntingarerfða (antici­pation). Algengi sjúkdómsins er mishátt eftir löndum, svæð­um og kynþáttum, eða allt frá 0,46 til 189/105.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um sjúklinga og fjölskyldur voru fengnar úr gagnasafni Landspítala, frá starfandi tauga- og barnalæknum og hjá erfðafræðirannsóknarstöð spítalans.

Niðurstöður: Heildaralgengi spennuvisnunar á Íslandi var 27,2/105. 29% íslenskra sjúklinga höfðu meðfædda sjúkdómsgerð. Meðalaldur við byrjun einkenna var 24,4 ára hjá þeim sem ekki höfðu meðfæddu gerðina (5-70 ára) og meðalaldur við rannsókn 43,6 ára fyrir allan hópinn (1-85 ára). Sjúkdómurinn var algengari meðal kvenna og kynjahlutfallið 1,3:1. Könnun á innbyrðis skyldleika sjúklinga leiddi í ljós að sjúkdómurinn lagðist aðallega á 10 fjölskyldur hérlendis.

Ályktanir: Spennuvisnun er algeng á Íslandi miðað við aðrar rannsóknir. Hlutfall meðfæddrar spennuvisnunar er hærra en lýst hefur verið, hugsanlega vegna betri greiningar hjá þeim aldurshópi.

E 45 Andoxunar-ensímin cerúlóplasmín og súperoxíð dis­mútasi í Parkinsons sjúkdómi

Guðlaug Þórsdóttir1,2, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir3, Jakob Kristinsson1, Jón Snædal2, Þorkell Jóhannesson1 prófessor úr embætti

1Rannsóknarstofa Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, 2öldrunarsvið Land­spítala, 3taugalækningadeild Landspítala

gudlaugt@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna magn, oxunarvirkni og sértæka oxunarvirkni cerúlóplasmíns (CP) og virkni súperoxíðs dismútasa (SOD1) í blóði sjúklinga með Parkinsons sjúkdóm. Auk þess að kanna hvort einhver tengsl séu á milli ofangreindra þátta og framgangs sjúkdómsins.

Efniviður og aðferðir: Árið 1999 var gerð tvenndarrannsókn þar sem magn, virkni og sértæk oxunarvirkni CP í sermi ásamt virkni SOD1 í rauðum blóðkornum var ákvarðað í 40 sjúklingum með Parkinsons sjúkdóm og í jafnmörgum heilbrigðum einstaklingum í viðmiðunarhópi. Árið 2004 voru náðist til 28 sjúklinga úr fyrri rannsókn og mælingarnar á CP og SOD1 endurteknar og fenginn nýr hópur heilbrigðra einstaklinga af sama kyni og aldri. Í báðum rannsóknunum höfðu sjúklingarnir verið skoðaðir af sérfræðingi í taugalækningum og sjúkdómur stigaður eftir skala Hoehn & Yahr (H&Y).

Niðurstöður: Í rannsókninni 1999 var marktæk minnkun á magni, oxunarvirkni og sértækri oxunarvirkni CP meðan SOD1 virkni var óbreytt í samanburði við viðmiðunarhóp. Í rannsókninni árið 2004 voru ofangreind gildi marktækt lægri fyrir CP en nú einnig fyrir SOD virkni í samanburði við viðmiðunarhóp. Ekki var munur á sjúklingum hvort sem um var að ræða vægan eða langt genginn sjúkdóm samkvæmt skala H&Y.

Ályktanir: Magn, oxunarvirkni og sértæk oxunarvirkni CP og virkni SOD1 í blóði sjúklinga með Parkinsons sjúkdóm er minni en í heilbrigðum einstaklingum. Það má því gera ráð fyrir að oxunarvörnum þessara sjúklinga sé ábótavant. Þessi munur var viðvarandi gegnum sjúkdómsferlið og virtist ekki tengjast stigi sjúkdómsins samkvæmt skala H&Y. Ekki er hægt út frá þessum niðurstöðum að meta hvort ofangreindur munur tengist fremur orsök sjúkdómsins eða sé ósértæk afleiðing af langvinnu sjúkdómsástandi.

E 46 Heilaritsrannsókn við fyrstu greiningu floga og floga­veiki

Elías Ólafsson1,2, Pétur Lúðvígsson3, Ólafur Kjartansson4, Dale Hesdorffer5, W. Allen Hauser5

1Læknadeild HÍ, 2taugalækningadeild, 3barnadeild og 4röntgendeild Land­spítala, 5Columbia University, New York

eliasol@landspitali.is

Inngangur: Flogaveiki og óvakin flog eru algengur sjúkdómur og byggir greining fyrst og fremst á klínískum einkennum. Heilarit er helsta hjálpartækið við greiningu flogaveiki. Við gerðum fram­skyggna þýðisrannsókn þar sem reynt var að finna alla íbúa Íslands sem greindust í fyrsta sinn með flogaveiki eða óvakin flog (unprovoked seizure) á 39 mánaða tímabili (1995 til 1999) og hér eru kynntar niðurstöður heilaritsrannsókna á þessum hópi.

Efniviður og aðferðir: Einstaklingarnir voru fundnir með leitarkerfi sem náði til allra heilbrigðisstofnana.

Helstu niðurstöður: Á rannsóknartímanum greindist 501 einstaklingur með flogaveiki (n=294) eða óvakið flog (n=207). 51% voru karlar. 86% fóru í heilarit og 36% þeirra reyndust vera með flogabreytingar (epileptiform discharges) í heilariti.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að vænta má floga­breytinga hjá rúmum þriðjungi þeirra sem greinast með flog eða einstök (óvakin) flog. Niðurstöður sem þessar, sem byggjast á rannsókn hjá óvöldu þýði, hafa ekki birst áður og eru mjög mikilvægar við mat á gagnsemi heilarits við greiningu floga og flogaveiki.

E 47 Örblæðingar í heila í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir1,2,3, Ólafur Kjartansson1,3, Mark van Buchen4, Sigurður Sigurðsson1, Guðný Eiríksdóttir1, Thor Aspelund1, Pálmi V. Jónsson1,2, Vilmundur Guðnason1, Lenore Launer3

1Hjartavernd, 2læknadeild HÍ, 3Landspítali, 4Háskólinn í Leiden, Hollandi, 5National Institute on Ageing, Bethesda, USA

sigurls@landspitali.is

Inngangur: Örblæðingar í heila sjást oft við segulómskoðun hjá sjúklingum með heilablóðfall og eru taldar endurspegla staðbundinn smáæðasjúkdóm. Oft gefa þessar blæðingar lítil einkenni, þótt vísbendingar séu um að þær geti haft áhrif á vitræna starfsemi. Örblæðingum hefur verið lýst hjá 4,7-6,4% heilbrigðra, eldri einstaklinga.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í Öldrunarrannsókn Hjarta­verndar (AGES) 68 ára og eldri fara meðal annars í segulómskoðun af heila. Notuð var lógistísk aðhvarfsgreining þar sem leiðrétt var fyrir kyni og aldri.

Niðurstöður: Hjá 2300 fyrstu þátttakendunum voru segulóm­niðurstöður til fyrir 1689 (707 karla og 982 konur) og höfðu 9,2% menjar eftir eina eða fleiri örblæðingar (12,3% karla og 7,0% kvenna, p=0,0003). Meðalaldur beggja kynja var 76 ár (karlar 67-93. ára, konur 66-92. ára). Marktæk fylgni fannst við hækkandi aldur (p=0,0012). Engin tengsl virtust við heildarkólesterólblóðþéttni (p=0,69) en veik tengsl fundust við sögu um sykursýki (p=0,07).

Ályktanir: Örblæðingar í heila finnast hjá tæplega 9% þátttakenda í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar og eru marktækt algengari meðal karla. Þýðing þeirra er óljós en þær eru hugsanlega frábending við segaleysandi meðferð eða fullri blóðþynningu hjá sjúklingum með heilablóðfall.

E 48 Tengsl fjölómettaðra fitusýra í heila við minni í Alz­heimers músalíkani

Anna Lilja Pétursdóttir1, Susan A. Farr2, William A. Banks2, John E. Mor­ley2, Guðrún V. Skúladóttir1

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Geriatric Research Education and Clinical Center (GRECC), VA Medical Center, St. Louis, Missouri, USA

annalp@hi.is

Inngangur: Fituefni er um helmingur af þurrvigt heilans og hlutfall fjölómettaðra fitusýra (FÓFS) þess er hátt. Fljótanleiki og starfsemi frumuhimnu er háð innihaldi FÓFS, sem eru taldar vera næmar fyrir oxun. Amýlóíð-ß (Aß) skellur í heila eru tengdar meingerð Alzheimers sjúkdómsins. Í SAMP8 músum er ellihrörnun hröð, sérstaklega varðandi námsgetu og minni, og lífslíkur styttri en hjá eðlilegum músum. Í hippókampus myndast Aß skellur, sem er talið að valdi oxunarálagi. Mótefni, sem vinnur á Aß svæði á geni amýlóíð forveraprótínsins, bætir námsgetu og minni eldri SAMP8 músa. Tilgangurinn var að kanna hvort öldrun og Aß útfellingar í heila hafi áhrif á samsetningu FÓFS í fituefnum tveggja heilakjarna í SAMP8 músum.

Efniviður og aðferðir: Hippókampus og amygdala úr ómeðhöndluðum ungum og gömlum músum og Aß mótefna meðhöndl­uðum gömlum músum voru fitudregin með klóróform-metanól blöndu. Gerðir fosfólípíða (FL) voru aðskilin á þunnlagsskilju og fitusýrur þeirra aðgreindar í gasgreini. E-vítamín var einangrað úr fituefni heilasýna með EtOH-hexan blöndu og mælt í vökvagreini (HPLC).

Niðurstöður: Munur var á fitusýrusamsetningu FL í hippókampus og amygdala úr músum á sama aldri. Meira (%) var af FÓFS í FL á innra blaði himnu en því ytra í báðum heilakjörnum. Ald­urs­tengdar breytingar á FÓFS voru meiri í hippókampus en amygdala og meiri í FL á innra blaði himnunnar en því ytra. Mótefni á Aß hafði engin áhrif á hlut (%) FÓFS í FL heilakjarnanna.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að nærliggjandi heilakjarnar inni­halda fituefni með mismunandi fitusýrusamsetningu og að öldrunaráhrifin á fitusýrusamsetningu fituefna þeirra eru ekki eins. Niðurstöðurnar styðja ekki þá tilgátu að Aß útfellingar oxi FÓFS í fituefnum heilakjarna, en það hefur verið talin ein af orsökum Alzheimers sjúkdómsins.

E 49 Áhrif efnahags og félagsstöðu á flog og flogaveiki­áhættu meðal Íslendinga

Dale Hesdorffer1,2, Hong Tian1,2, Kishlay Anand1,2, W Allen Hauser1,2,3, Pétur Lúðvígsson4, Elías Ólafsson5, Ólafur Kjartansson6

1The Gertrude Sergievski Center, 2Mailman School of Public Health og 3Dept. of Neurology, Columbia University NY, 4Barnaspítali Hringsins, 5taugasjúkdómadeild og 6röntgendeild Landspítala

peturl@landspitali.is

Markmið: Faraldsfræðirannsóknir hafa bent til þess að tengsl séu milli efnahags og félagsstöðu og hættu á flogum og flogaveiki. Fyrri rannsóknir hafa þó ekki tekið tillit til áhrifaþátta (confoun­ding factors), svo sem höfuðáverka, heilaæðasjúkdóma, miðtauga­kerfissýkinga, meðfæddra heilagalla og áfengisnotkunar. Við rann­sökuðum tengsl milli efnahags og félagsstöðu og nýgreindra sjálfvakinna (unprovoked) floga og flogaveiki að teknu tilliti til ofannefndra áhrifaþátta.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er hluti framskyggnrar rannsóknar á áhættuþáttum floga og flogaveiki meðal Íslendinga. Leitað var allra tilvika floga og flogaveiki meðal Íslendinga á öllum aldri sem greindust í fyrsta sinn á 39 mánaða tímabili á árunum 1995-1999. Fyrir hvert tilvik voru valdir úr þjóðskrá til samanburðar tveir einstaklingar af sama aldri og kyni sem ekki höfðu fengið flog eða flogaveiki. Þjálfaðir spyrlar lögðu ítarlegan staðlaðan spurningalista í síma fyrir öll tilvik (n=418) og samanburðarhóp (n=835). Reiknað var áhættuhlutfall (odds ratio) floga og flogaveiki eftir efnahag og félagsstöðu að teknu tilliti til áhrifaþátta. Hjá börnum innan 16 ára var miðað við efnahag og félagsstöðu foreldra.

Niðurstöður: Hjá fullorðnum hafði góður efnahagur (eigin bifreið, eignarhald á húsnæði, mánaðartekjur og herbergjafjöldi á mann á heimili) verndandi áhrif gegn flogum og flogaveiki í heild (OR=0,68; 95% CI=0,55-0,82) og einnig þegar tekið var tillit til orsaka. Engin marktæk tengsl fundust milli efnahags og félagsstöðu og floga meðal barna yngri en 16 ára.

Ályktanir: Efnahagur og félagsstaða eru áhættuþættir floga og flogaveiki meðal fullorðinna, en ekki meðal barna. Þessi niðurstaða bendir til þess að efnahagur og félagsstaða hafi vaxandi áhrif á flogaáhættu með aldrinum.

E 50 Cystatín C og GILT (gamma inducible lysosomal thiol reductase) og vakasýning í mónócýtum

Snorri Páll Davíðsson1, Herborg Hauksdóttir1, Birkir Þór Bragason1, Leifur Þorsteinsson3, Elías Ólafsson4, Ástríður Pálsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 3Blóðbankinn, 4taugalækninga­deild Landspítala

astripal@hi.is

Inngangur: Cystatín C er lítið prótein, 120 amínósýrur að lengd, sem hindrar virkni cystein próteinasa af papain ætt og af legumain ætt. Cystatín C er framleitt í flestum frumum líkamans og finnst einnig í líkamsvessum, mest þó í mænuvökva og sæðis­vökva. Innan frumna ónæmiskerfisins tekur það þátt í sýningu vaka (anti­gen presentation) með því að hindra cathepsin S og L og legu­m­ain próteinasa við niðurbrot á vaka próteinum og á óbreyttu keðju MHC class II kerfisins (Ii). Stökkbreytt cystatín C prótein fellur út í heilaslagæðum fólks sem eru arfberar fyrir L68Q stökkbreytinguna í cystatín C.

Efniviður og aðferðir: Gersveppa-tvíblendingsskimun var framkvæmd með cystatín C á cDNA genasafni úr hvítum blóðkornum. Þrjú prótein ónæmiskerfisins tengdust cystatín C í gersveppum. Eitt þeirra er GILT (gamma inducible lysosomal thiol reductase), sem er tjáð víða við gamma-interferon örvun en er þar að auki stöðugt tjáð í sýnifrumum ónæmiskerfisins, eins og angafrumum (dendritic cells) og mónócýtum. GILT rýfur brennisteins­brýr í vakapróteinum við lágt pH í endosóm frumulíffærinu fyrir sýningu vaka í MHC class II sameindum á yfirborði sýnifrumna. Einnig finnst GILT utanfrumna sem tvísúlfíð tengd tvennd þar sem hlutverk þess er óþekkt.

Mónócýtar voru einangraðir úr blóði og ónæmislitaðir með fjöl­stofna cystatín C mótefni úr kanínu og einstofna GILT mót­efni úr mús. Flúrmerkt annars stigs mótefni voru síðan notuð gegn músamótefnum annars vegar og kanínúmótefnum hins vegar.

Niðurstöður og ályktanir: Þegar græn flúrlitun (cystatín C) var lögð yfir rauða flúrlitun (GILT) í con-focal smásjá kom fram gulur litur sem sýnir að GILT og cystatín C voru algjörlega á sömu stöðum í frumum.

Þar sem cystatín C letur vakasýningar sem cystein próteinasa hindri gæti það einnig verið að hindra GILT í hlutverki sínu við undirbúning próteina fyrir vakasýningu.

E 51 Softigen, áhrifaríkur frásogshvati fyrir sumatriptan neflyf

Sigríður Ólafsdóttir1, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir2, Þóra Björg Magnús­dóttir1, Alda Ásgeirsdóttir1, Á. Atli Jakobsson1, Davíð R. Ólafsson1, Kol­brún Hrafnkelsdóttir1, Eiríkur Stephensen1, Oddur Ingólfsson1, Friðrik Guðbrandsson3, Sveinbjörn Gizurarson1

1Lyfjaþróun hf., 2taugalækningadeild og 3háls-, nef- og eyrnadeild Land­spítala

sigridur@lyf.is

Inngangur: Mígreni þjakar 5-12% íbúa hins vestræna heims. Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingum finnst mikilvægast að meðferð við mígreniköstum lækni höfuðverkinn algerlega og virki hratt. Sumatriptan stungulyf virkar best og hraðast af þeim lyfjum sem notuð eru við mígreniköstum. Hraði frásogs virðist skipta mestu máli fyrir góða verkun þessa lyfjaforms. Markmið þessa verkefnis var að þróa sumatriptan neflyf með frásogshraða sem svipar til stungulyfsins.

Efniviður og aðferðir: Mæld voru í kanínum frásogshraði og aðgengi sumatriptan neflyfjaforma, sem innihéldu mismunandi frásogshvata. Softigen®767 jók frásogshraðann mest og voru sumatriptan neflyfjaform sem innihéldu efnið prófuð í heilbrigðum einstaklingum í tveimur klínískum tilraunum. Frásogshraði og aðgengi lyfjaforma með Softigeni voru borin saman við sumatriptan nefúða (Imigran®intranasal) og upplýsingar um stungulyfið hafðar til viðmiðunar.

Niðurstöður: Eftir gjöf á Imigran® nefúða náðist hámarksstyrkur í blóði þátttakenda (11 ng/mL) eftir 90 mínútur, en eftir gjöf á neflyfi með Softigen®767 fékkst hámarksstyrkur (50 ng/mL) eftir 10-11 mínútur. Sumatriptan nær hámarksstyrk (64 ng/mL) 10 mínútum eftir gjöf stungulyfsins. Aðgengi Softigen lyfjaformanna fyrstu 20 mínúturnar eftir lyfjagjöf var 40-70% af aðgengi stungulyfsins, meðan aðgengi Imigran® nefúða var aðeins 4%.

Ályktanir: Tekist hefur að þróa sumatriptan neflyfjaform sem hefur frásogseiginleika sem svipar til sumatriptan stungulyfsins.

E 52 Þróun á tjáningarferjum fyrir DNA bólusetningu hesta

Vilhjálmur Svansson1, Guðbjörg Ólafsdóttir1, Eliane Marti2, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2Dpt. of Clinical Veterinary Medicine, University of Berne, Sviss

vsvanss@mail.rhi.hi.is

Inngangur: Tilraunir á músum hafa sýnt að hægt er stýra ónæmissvari inn á Th1 braut með DNA bóluefnum. Sumarexem í hrossum er ofnæmissjúkdómur á Th2 braut sem orsakast af biti mýflugna af ættkvíslinni Culicoides. Komið hefur verið upp tilraunalíkani í hestum þar sem notast er við human serum albumin (HSA) próteinið og gen þess til þróunar á DNA bólusetningaferjum. Markmið verkefnisins er að þróa öflugar tjáningaferjur fyrir hross sem beina ónæmissvari á Th1 braut.

Efniviður og aðferðir: Unnið hefur verið með fjórar mismunandi ferjur; ferju A (pcDNA3.1-GS/HSA), ferju B (pcDNA3.1V5His6/HSA), ferju C (pcDNA3.1-IA/HSA) og ferju D (gWiz-IA/HSA). Tjáning ferja in vitro var athuguð með lipofectamín genaleiðslu og ónæmisþrykki. Ferja A og B voru reyndar í hestum og tveir hestar sprautaðir með hvorri ferju ítrekað undir húð og í vöðva. Samanburðarhestar voru bólusettir undir húð með HSA próteini í alum ónæmisglæði. Sérvirk IgG, IgG undirflokka og IgE mótefni voru mæld í ELISA-prófi og boðefnin, IL-4 og ?-IFN með rauntíma PCR með ?-actin sem viðmið.

Niðurstöður: Í kjölfar genabólusetningar með ferjum A og B var ónæmissvörun borin saman við hesta sem bólusettir voru með HSA/alum og höfðu þróað HSA ofnæmi. Bólusetning með ferjunum gaf mjög veika eða enga ónæmissvörun þrátt fyrir ítrekaðar bólusetningar. Þessi veika svörun reyndist heldur ekki nægilega Th1 miðuð og við ögrun eða eflingu með próteinbólusetningu mynduðu hestarnir ofnæmi. Ljóst er að ferjur A og B örva ekki nægilega kröftugt Th1 miðlað ónæmissvar. Ferja C var hönnuð með því að setja efliröð (Intron A) inn á ferju B aftan við CMV-stýrilinn. Slíkar efliraðir hafa reynst vera mjög áríðandi fyrir góða tjáningu. Þrátt fyrir efliröðina var ferja C verr tjáð í hestafrumum úr húð, lungum og þörmum en ferja B. Því var HSA genið sett inn á ferju af öðrum uppruna, ferju D, sem einnig hefur efliröð IA. Ferja D hefur öflugri tjáningu en B í COS-7 frumum. Verið er að bera tjáningu allra ferjanna fjögurra saman í mismunandi hestafrumulínum.

Ályktanir: Tvær tjáningarferjur hafa verið reyndar í hestum og hafa ónæmisviðbrögð ekki verið nægilega Th1 miðluð til að verja hestana ofnæmi. Bæta þarf ferjurnar til að efla Th1 ónæmissvar, til dæmis með því að auka tjáningu þeirra í hestavefjum.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og RANNÍS.

E 53 Eru tengsl á milli tíðni keisaraskurða og burðarmáls­dauða á Íslandi undanfarin 15 ár?

Guðný Jónsdóttir1, Ragnheiður I. Bjarnadóttir2, Reynir Tómas Geirsson1,2, Alexander Smárason3

1Læknadeild HÍ, 2kvennasvið Landspítala, 3Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

reynirg@landspitali.is

Inngangur: Tíðni keisaraskurða hefur víða tvö- eða þrefaldast undanfarna áratugi án þess að burðarmálsdauði hafi lækkað. Á Íslandi hefur tíðnin aukist verulega, en burðarmálsdauði lækkað á sama tíma. Heildartölur um burðarmálsdauða gefa þó takmarkaða mynd af því hvort fjölgun keisaraskurða skili sér í færri dauðsföllum fullburða barna. Tengsl aukinnar tíðni keisaraskurða við burðarmálsdauða hjá fullburða börnum á Íslandi á tímabilinu 1989-2003 voru athuguð.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um alla einbura ?2500g sem fæddust með keisaraskurði og öll börn ?2500g, án alvarlegra vanskapnaða, sem dóu burðarmálsdauða, voru fengnar úr fæðingaskráningunni og mæðra-/sjúkraskrám. Breytingar á sambandi keisaraskurðatíðni við burðarmálsdauða voru metnar með Pearsons fylgnistuðli.

Niðurstöður: Alls fóru 8332 konur í keisaraskurð og 111 börn <2500g dóu burðarmálsdauða. Tíðni keisaraskurða jókst úr 10% í 16,1% (p<0,001), en burðarmálsdauði lækkaði ekki marktækt (meðaltal 2,01/1000). Lækkun burðarmálsdauða fylgdi ekki aukinni tíðni keisaraskurða hjá fullburða börnum, en þegar heildartölur fyrir öll börn voru skoðaðar (1990-2003) var fylgni til staðar (r>0,55; p <0,04).

Ályktanir: Aukin tíðni keisaraskurða leiðir ekki til fækkunar dauðsfalla hjá fullburða börnum. Burðarmálsdauði allra fæddra barna lækkar þó samfara fleiri keisaraskurðum.

E 54 Árangur ráðgjafar um getnaðarvarnir fyrir fóstureyð­ingu á notkun getnaðarvarna eftir aðgerð

Sóley S. Bender1,2,3, Reynir T. Geirsson2,3

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ, 3kvennasvið Landspítala

ssb@hi.is

Inngangur: Ráðgjöf um getnaðarvarnir hefur lítt verið rann­sök­uð. Hugmyndafræðilegar forsendur gera ráð fyrir því að með einstaklingshæfðari þjónustu sé verið að stuðla að betri meðferðarheldni í notkun getnaðarvarna. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða hvort ráðgjöf um getnaðarvarnir fyrir fóstureyðingu hefði áhrif á notkun getnaðarvarna eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Konum var tilviljunarkennt raðað í tilrauna- (T) og samanburðarhóp (S). Alls voru 148 konur í tilrauna­hópi og 128 í samanburðarhópi. Tilraunahópurinn fékk sérstakt ráðgjafarviðtal um getnaðarvarnir fyrir aðgerð en samanburðarhópurinn venjulega þjónustu. Tekin voru viðtöl við konur í báðum hópum um 4-6 mánuðum eftir aðgerðina og spurt um notkun getnaðarvarna.

Niðurstöður: Enginn munur var á hópunum varðandi notkun getnaðarvarna eftir fóstureyðingu. Um 85% beggja hópa notuðu getnaðarvarnir eftir aðgerð. Samkvæmt því hafði ráðgjöfin ekki áhrif. Hóparnir voru þó marktækt ólíkir hvaða varðaði aldur (meðalaldur T-hópur 22,1 ár; S-hópur 26,7 ár) og barneignir (ekkert barn 60% í T-hópi og 39% í S-hópi). Konur í T-hópi voru minna menntaðar, síður í sambúð eða giftar og höfðu sjaldnar farið í fóstureyðingu áður heldur en konur í S-hópnum. Algengustu getnaðarvarnir sem konur í báðum hópum notuðu eftir fóstureyðingu voru pillan (T-hópur 61%, S-hópur 58%) og hormónasprautan (T-hópur 12%, S-hópur 11%).

Ályktanir: Ekki er unnt að draga afdráttarlausa ályktun af niðurstöðum þar sem að hóparnir voru ekki sambærilegir að ýmsu leyti. Mögulegt er að ráðgjöfin hafi skipt máli varðandi notkun getnaðarvarna meðal ungu stúlknanna. Jafnframt kunna ýmsar aðrar breytur en hér voru skoðaðar að hafa haft áhrif á notkunina.

E 55 Lágsæt og fyrirsæt fylgja við 19 vikna meðgöngu, af­drif þungana

Ragnheiður Oddný Árnadóttir, Hildur Harðardóttir, María Hreinsdóttir

Fósturgreiningardeild kvennadeildar Landspítala

hhard@landspitali.is / ragnoa@islandia.ia

Inngangur: Með ómskoðun við 19-20 vikna meðgöngu er fylgju­staðsetning könnuð. Ef fylgja er lágsæt er fylgjustaðsetning endurmetin við 34 vikur. Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta hve oft fylgja er lágsæt/fyrirsæt við 19-20 vikur og svo aftur við 34 vikur og hver afdrif þessara þungana eru.

Efniviður og aðferðir: Á afturvirkan hátt var safnað upplýsingum um allar konur sem komu á fósturgreiningardeild Landspítala á einu ári við 19-20 vikur. Þær sem greindust með lágsæta/fyrirsæta fylgju voru aftur skoðaðar við 34 vikur. Afdrif móður og barns voru könnuð.

Niðurstöður: 3056 komu í ómskoðun við 19-20 vikur, upplýsingar vantar um afdrif 30. Skilgreining á lágsætri og fyrirsætri fylgju er ekki skýr, stundum var mæld fjarlægð frá innra leghálsopi en ekki var samræmi milli ómskoðara hvaða fjarlægð gerði fylgju lágsæta. Fyrirsæt fylgja var ávallt yfir innra leghálsopi. Við 19 vikur var fylgjan lágsæt/fyrirsæt hjá 128 konum (4,2%). Tvær misstu fóstur við 19 og 20 vikur, ein fæddi tvíbura eftir 29 vikna meðgöngu. Við 34 vikur reyndust 10 konur ennþá vera með lágsæta fylgju og þrjár með fyrirsæta (hópur A). Níutíu og átta konur (hópur B) voru með fylgju sem taldist ekki lengur lágsæt/fyrirsæt, en ein þeirra greind­ist með fyrirsæta fylgju í fæðingu. Tíðni keisaraskurða í hópi A og B var 92 og 23,5%. Í hópi A fengu 46,2% blæðingu fyrir fæðingu, meðalblæðing við fæðingu var 854 ml, blóðgjöf fengu 15,4%, 30,8% barnanna voru fyrirburar og 69,2% voru innlögð á vökudeild. Í hópi B fengu 12,2% blæðingu fyrir fæðingu, meðalblæðing við fæðingu var 609 ml, blóðgjöf fengu 10,2%, 4,1% barnanna voru fyrirburar og 21,4% voru innlögð á vökudeild.

Ályktanir: Konur í hópi A fæða langoftast með keisaraskurði. Konur í hópi B fæða oftar með keisaraskurði, blæðir meira við fæðingu og börn þeirra leggjast oftar á vökudeild samanborið við almennt þýði. Hópur B er áhættuhópur þrátt fyrir að fylgja sé ekki lengur lágsæt.

E 56 Hvað hefur áhrif á ákvarðanir kvenna við tíðahvörf um að nota eða nota ekki tíðahvarfahormón?

Herdís Sveinsdóttir1,2, Ragnar F. Ólafsson2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði HÍ

herdis@hi.is

Inngangur: Um 1990 varð talsverð breyting í allri orðræðu um tíðahvarfahormónameðferð kvenna í þá átt að aukin áhersla var lögð á gildi meðferðar í forvarnarskyni. Frá sama tíma varð mikil aukning á notkun hormóna í vestrænum samfélögum. Árið 2002 urðu hvörf í þessari umræðu í kjölfar Women?s Health Initiative rannsóknarinnar sem sýndi að áhætta var meiri en talið hafði ver­ið af notkun hormónanna. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvaða þættir móta ákvarðanir kvenna um að nota hormón.

Efniviður og aðferðir: Úrtak var 1000 konur á aldrinum 47-53 ára. Svörun var 56%. Gagna var aflað með spurningalista þar sem leitað var ýmissa upplýsinga um tíðahvörf. Hér eru aðhvarfsgreiningarlíkön notuð til að kanna hvaða þættir spá fyrir um viðhorf kvenna til notkunar tíðahvarfahormóna, þar á meðal tilvist einkenna, að vera komin á tíðahvörf, hvaðan upplýsingar um noktun tíðahvarfahormóna eru fengnar. Einnig eru könnuð áhrif ýmissa lýðfræði­legra þátta. Borin eru saman viðhorf fjögurra hópa: Kvenna sem nota hormón, eru hættar notkun hormóna, hafa aldrei notað hormón og eru að hugleiða að hefja notkun hormóna, varðandi þætti sem taldir eru hafa áhrif á ákvarðanatöku þeirra.

Ályktanir: Meðal kvenna sem eru að hugleiða að hefja eða hætta notkun hormóna skiptir máli að ekki er nóg vitað um áhættu af notkun hormóna. Reynsla af einkennum og að vera komin á tíða­hvörf að eigin mati hefur einnig áhrif á ákvörðun þeirra. Konur þurfa greinargóðar upplýsingar um hormónameðferð og hvaða ábendingar eru um notkun þeirra.

E 57 Tengsl DHA í lýsi við fjölda, hreyfanleika og svipgerð sæðisfrumna í ófrjóum körlum

Guðrún V. Skúladóttir1, Anna L. Pétursdóttir1, Steinunn Þorsteinsdóttir2, Berglind Gísladóttir1, Arnar Hauksson3, Hilmar Björgvinsson2

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2tæknifrjóvgunardeild Landspítala, 3Miðstöð mæðra­verndar

gudrunvs@hi.is

Inngangur: Sæðisfrumur innihalda mikið af ómega-3 fitusýrunni DHA. Frumur líkamans framleiða lítið af DHA og telst hún því til lífsnauðsynlegra fitusýra. DHA kemur úr sjávarfangi og lýsi. Lágt DHA gildi hefur mælst í sæðisfrumum þar sem fjöldi og/eða hreyfanleiki þeirra er lítill, eða svipgerð óeðlileg. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl aukinnar neyslu DHA við ofangreinda þætti í sæðisfrumum ófrjórra karla.

Efniviður og aðferðir: Þrettán karlmenn sem leituðu sér hjálpar vegna ófrjósemi tóku 6 EPAX 2050TG lýsishylki (0,81g EPA og 2,1g DHA) á dag í 20 vikur. Blóðsýnum og sæðissýnum var safnað áður en lýsisneyslan hófst, 10 og 20 vikum eftir að hún hófst og síðan 10 vikum eftir að lýsisneyslunni lauk. Fjöldi, hreyfanleiki og svipgerð sæðisfrumna voru rannsökuð samkvæmt WHO staðli. Fitusýrusamsetning fituefna í blóðvökva, sæðisvökva og sæðisfrumum var ákvörðuð í gasgreini.

Niðurstöður: Neysla fitusýra endurspeglast í fituefnum blóðvökva og staðfestu niðurstöður fitusýrugreininga á fituefnum í blóðvökva að þátttakendurnir tóku lýsishylkin. Eftir 10 vikna lýsisneyslu var DHA (%) tvöfalt meiri í fituefnum blóðvökva og fituefni sæðisvökva og sæðisfrumna innihéldu meira af DHA en fyrir lýsisneyslu. Tíu vikum eftir að lýsisneyslu lauk voru jákvæð tengsl milli DHA (%) í fituefnum sæðisfrumna og fjölda sæðisfrumna (r=0,828; p=0,002) annars vegar og hins vegar eðlilegrar svipgerðar sæðisfrumna (r=0,665; p=0,018).

Ályktanir: Niðurstöður sýna að 10 vikna lýsisneysla eykur hlut DHA í fituefnum sæðisfrumna sem er nær óbreytt 10 vikum eftir að lýsisneyslu lýkur. Áhrifa lýsisneyslu á fjölda, hreyfanleika og svipgerð sæðisfrumna gætir aftur á móti ekki fyrr en 10 vikum eftir að lýsisneyslu lýkur, sem er í samræmi við þann tíma sem það tekur að framleiða sæðisfrumur.

E 58 Ómega-3 og ómega-6 fitusýrur í rauðum blóðkornum barnshafandi og ekki barnshafandi kvenna. Tengsl við neyslu og lífsstíl

Anna R. Magnúsardóttir1, Laufey Steingrímsdóttir2, Hólmfríður Þorgeirs­dóttir2, Arnar Hauksson3, Geir Gunnlaugsson4, Guðrún V. Skúladóttir1

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Lýðheilsustöð, 3Miðstöð mæðraverndar, 4Miðstöð heilsuverndar barna

arm@hi.is

Inngangur: Frumuhimnur miðtaugakerfisins hafa mikið af ómega-3 fitusýrunni DHA og ómega-6 fitusýrunni arakídónsýru (AA). Fóstur er háð því að fá þessar fitusýrur um fylgjuna frá móðurinni. DHA er í sjávarfangi og lýsi. Við lýsisneyslu hækkar hlutur DHA í himnum frumna. Sú spurning hefur vaknað hvort lýsisneysla barnshafandi konu leiði til lækkunar á hlut AA í himnum frumna sem síðan getur valdið skorti á AA hjá fóstrinu.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur rannsóknarinnar voru konur af höfuðborgarsvæðinu, 173 barnshafandi konur og 43 konur á barneignaraldri sem ekki voru barnshafandi. Fitusýrusamsetning rauðra blóðkorna (RBK) var ákvörðuð og konurnar svöruðu tíðniskema fyrir neyslu og spurningalista um lífshætti og lýðfræðilegar breytur.

Niðurstöður: DHA og AA voru að meðaltali talsvert lægri og breytileikinn mun meiri í RBK barnshafandi kvenna en þeirra sem ekki voru barnshafandi. Fjórðungur barnshafandi kvennanna hafði DHA undir 2% eða 15 mg/L og AA undir 5% eða 40mg/L. Um sterka jákvæða fylgni var að ræða milli DHA og AA í RBK barnshafandi kvenna en ekki í RBK kvenna sem ekki voru barnshafandi. Fjölþátta aðhvarfsgreining leiddi í ljós að neyslu lýsis fylgdi aukinn hlutur DHA og lægri hlutur AA í RBK þegar búið var að leiðrétta fyrir reykingum og líkamsþyngd. Á meðgöngu höfðu reykingar og offita fylgni við lægri hlut DHA í RBK eftir að leiðrétt hafði verið fyrir lýsisneyslu. Aftur á móti var hin sterka jákvæða fylgni milli DHA og AA í RBK yfirgnæfandi á meðgöngu, sem bendir til þess að líkaminn haldi hlutfallinu milli þessara fitusýra í himnum RBK nokkurn veginn stöðugu.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda ekki til þess að neysla lýsis valdi skorti á AA hjá fóstrinu. Það er hins vegar áhyggjuefni hvað sumar barnshafandi kvennanna hafa lítið af DHA og AA í RBK.

E 59 Netnámskeið um vanlíðan eftir fæðingu/barnsburð og líðan kvenna á tilrauna- og samanburðarheilsugæslustöðvum

Marga Thome, Brynja Örlygsdóttir, Anna Jóna Magnúsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

marga@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að meta að hve miklu leyti netnámskeið fyrir hjúkrunarfræðinga um vanlíðan eftir fæðingu/barnsburð myndi minnka vanlíðan kvenna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarsnið þessarar rannsóknar var aðlagað tilraunasnið. Á tímabilinu 2001-2004 var flestum heilsu­gæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu skipt upp í tilrauna- og samanburðarstöðvar. Hjúkrunarfræðingar á tilraunastöðvum sóttu netnámskeiðið. Allar konur sem sóttu þjónustu heilsugæslu­stöðvanna voru skimaðar með Edinborgarþunglyndiskvarðanum (EPDS). Konur sem veittu upplýst samþykki og fengu gildið ?12 á EPDS mynduðu úrtakið (n=64, árin 2001-2003). Þær svöruðu eftirfarandi spurningalista 9 vikum eftir barnsburð: EPDS, Parenting Stress Index (PSI/SF), Symptom Checklist Revised (SCL-90-R) og þreytukvarða. Mælingarnar voru endurteknar 15 og 24 vikum eftir barnsburð.

Helstu niðurstöður: Það var enginn munur á líðan kvennanna út frá EPDS í byrjun rannsóknarinnar eða 9 vikum eftir barnsburð. Marktækur munur kom fram 15 vikum eftir barnsburð sem benti til marktæks bata kvenna á tilraunastöðvunum. Það var marktæk­ur munur á foreldrastreitu og geðrænum einkennum milli til­rauna- og samanburðarstöðva í byrjun rannsóknarinnar eða níu vikum eftir barnsburð. Það breyttist lítið á rannsóknartímabil­inu.

Helstu ályktanir: Niðurstöðurnar útfrá litlu úrtaki gefa tvíræðnar niðurstöður og takmarka getuna til að álykta um bata kvenna eftir að hjúkrunarfræðingar höfðu sótt netnámskeiðið.

Úrtakið verður stærra árið 2004 og endanlegar niðurstöður munu liggja fyrir í ársbyrjun 2005.

E 60 Ljósmæðraþjónusta fyrstu vikuna eftir fæðingu. Við­horf mæðra til þjónustunnar

Hildur Sigurðardóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

hildusig@hi.is

Inngangur: Þróunin síðastliðin ár hérlendis sem og annars staðar á Vesturlöndum hefur verið sú að konur útskrifast nú fyrr heim eftir barnsburð en áður var. Árið 2002 nutu 58,4% kvenna er fæddu á Landspítala heimaþjónustu ljósmæðra í kjölfar snemmútskrifta. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf mæðra til sængurleguþjónustu fyrstu vikuna eftir fæðingu og bera saman niðurstöður eftir þjónustuformum: Heimaþjónustu ljósmæðra eftir snemmútskrift og þjónustu sængurlegudeildar Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarsniðið er megindlegt og var notast við slembiúrtak 400 kvenna er fætt höfðu börn sín á Landspítala á tímabilinu september til desember 2002. Tvö hundruð konum úr hvoru þjónustuformi var póstsendur spurningalisti sem fylgt var eftir með tveimur ítrekunarbréfum. Spurn­ingalistarnir voru að hluta til sambærilegir og að hluta til sérsniðnir fyrir hvorn hóp. Sambærilegar breytur voru: bakgrunns­breytur, viðhorfakvarðar er mældu á líkert kvarða viðhorf til veittrar fræðslu, ánægju/óánægju með þjónustuþætti og viðhorf til innihalds þjónustunnar. Lýsandi tölfræði var notuð til að lýsa og bera saman bakgrunn þátttakenda. Viðhorfakvarðarnir þrír (fræðsla, ánægja og þjónusta) voru þáttagreindir. Mann-Witney prófið var notað til þess að meta tölfræðilegan mun á viðhorfum kvenna til þjónustu ljósmæðra í heimaþjónustu og á sængurlegudeild.

Niðurstöður og ályktanir: Svörunin var 67% úr hópi kvenna í heimaþjónustu (n=134) og úr hópi sængurlegukvenna 62% (n=124). Þáttagreining kvarðanna þriggja sýndi sterka innri fylgni á svörun innan hvers kvarða sem bendir til innra réttmætis þeirra. Með þáttagreiningu kom einnig í ljós að hver kvarði fyrir sig hlóð hátt á einn þátt og því voru meðalskor kvarðanna notuð í frekari tölfræðiúrvinnslu. Rannsóknarhóparnir tveir voru sambærilegir með tilliti til aldurs (p>0,05), hjúskaparstöðu (X2=2,6; P>0,05) og menntunar (X2=5,2; P>0,05) en í hópi sængurlegukvenna voru hlutfallslega fleiri frumbyrjur (X2=5,7; P<0,05).

Samanburður á niðurstöðum úr öllum kvörðunum þrem­ur sýndi marktækan mun á viðhorfum kvennanna eftir rann­sókn­ar­hópum þar sem konur er þiggja heimaþjónustu ljósmæðra eru al­mennt jákvæðari til þjónustunnar (P<0,01).

E 61 Þekking 47 til 53 ára kvenna á niðurstöðum banda­rísku rannsóknarinnar the Women's Health Initiative (WHI) og afstaða til ýmissa þátta tengdum tíðahvörfum og hor­móna­notkun

Herdís Sveinsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

herdis@hi.is

Inngangur: Á sviði heilsuverndar er miðlun upplýsinga um áhættu til almennings eitt besta forvarnarinngrip sem völ er á. Forsenda þess að veita upplýsingar um áhættu felst í þeirri trú að þekking fólks á áhættu/ávinningi fyrirbyggjandi aðgerða sé drifkraftur fólks við heilsutengda ákvarðanatöku. Óvissa á ávinningi tíðahvarfahormónanotkunar jókst árið 2002 í kjölfar WHI rannsóknarinnar. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða þekkingu íslenskra kvenna við tíðahvörf á WHI rannsókninni og hugleiðingar þeirra um tíðahvörf og notkun hormóna.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið var 1000 konur á aldrinum 47-53 ára. Gagna var aflað með spurningalista þar sem leitað var ýmissa upplýsinga um tíðahvörf. Hér verður greint frá lýsandi niðurstöðum er lúta að markmiði rannsóknar. Svörun var 56%.

Helstu niðurstöður: 65% þátttakenda höfðu heyrt af WHI rannsókninni. Flestar heyrðu af rannsókninni í fjölmiðlum. Af 252 konum sem höfðu notað hormón, notuðu 133 hormón þegar rannsóknin var gerð. 72 þeirra höfðu hugleitt að hætta notkun og sögðu rúm 50% ástæðuna vera niðurstöður WHI rannsóknarinnar, óvissu um áhættu og aukaverkanir. 31% notenda (N=252) notaði hormón til að fyrirbyggja beinþynningu. Konur ráðfæra sig helst við lækni og maka um að hefja eða hætta notkun hormóna. 51% þátttakenda hafði fengið næga fræðslu um tíðahvörf þó 84% segðu að fræðslan mætti vera meiri á vegum heilbrigðisyfirvalda. Viðhorf til tíðahvarfa og notkunar tíðahvarfamóna voru frekar hlutlaus, þó voru viðhorf til notkunar hormóna aðeins jákvæðari en viðhorf til tíðahvarfa. Konur sem aldrei hafa notað hormón höfðu jákvæðari viðhorf til tíðahvarfa í samanburði við hinar sem hafa notað hormón.

Ályktanir: Auka þarf flæði greinargóðra upplýsingar um tíðahvörf og hormónameðferð til kvenna.

E 62 Líðan foreldra forskólabarna með eða án svefnvanda­máls á ungbarnaskeiði

Marga Thome1, Arna Skúladóttir2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2göngudeild fyrir svefntrufluð börn, Barnaspítala Hringsins

marga@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort munur sé á líðan foreldra forskólabarna eftir því hvort barn þeirra hafi fengið meðferð við svefnvandamálum á ungbarnaskeiði eða ekki.

Efniviður og aðferðir: Þverskurðarkönnun var framkvæmd á úrtaki 58 foreldra 2-4 ára forskólabarna. Foreldrarnir skiptust í tvo hópa: 21 foreldri sótti meðferð vegna svefnvandamála og 37 foreldrar sem sóttu ekki slíka þjónustu.

Helstu niðurstöður: Samanburður á hópunum benti til þess að um það bil helmingur barna sem fengu ekki þjónustu vegna svefn­vanda­­mála á ungbarnaskeiði áttu við svefnvandamál að stríða. Vakn­ingum á næturnar fækkaði marktækt með tímanum, óháð því hvort börnin höfðu fengið meðferð sem ungabörn, en var mark­tækt algengari hjá börnum sem ekki höfðu fengið meðferð. Hóp­urinn sem fékk meðferð hafði truflanir sem einkenndust af erfiðleikum með að festa svefn sem ungabörn. Foreldrar barna sem höfðu svefnvandamál sem ungabörn og fengu meðferð, voru marktækt þreyttari til langs tíma í samanburði við hina hópana. Mæður barna sem fengu meðferð fannst svefnvandamálið hins veg­ar hafa síst truflandi áhrif á fjölskyldulífið, miðað við aðra for­eldra.

Helstu ályktanir: Foreldrar barna sem sækja þjónustu vegna svefnvandamála á ungbarnaskeiði eru marktækt þreyttari þegar börnin eru komin á forskólaaldur en þeir foreldrar sem ekki sækja þjónustu eða eiga börn án svefnvandamála. Vakningar forskólabarna á næturnar eru þrálátari ef börn hafa átt það til að vakna sem ungabörn.

E 63 Árangur af tölvutengdum stuðningshópi fyrir foreldra barna sem hafa greinst með krabbamein

Helga Bragadóttir

Landspítali

helgabra@landspitali.is

Inngangur: Rannsókn var gerð á tölvutengdum stuðningshópi fyrir foreldra barna sem höfðu greinst með krabbamein.

Efniviður og aðferðir: Um íhlutunarrannsókn var að ræða með endurteknum mælingum á sama hópnum. Þátttakendur notuðu tölvupóst til frjálsra umræðna um reynslu sína af því að eiga barn með krabbamein. Hópurinn var lokaður og fólst meðferðin í gagnkvæmum stuðningi þátttakenda. Árangursmælingar voru gerðar: a) áður en meðferð hófst (T1), b) tveimur mánuðum eftir upphaf meðferðar (T2) og c) við lok meðferðar sem var fjórum mánuðum eftir að meðferð hófst (T3). Þátttakendur svöruðu stöðluðum spurningalistum um: a) kvíða, b) depurð, c) líkamleg einkenni, d) streitu, e) upplifun á gagnkvæmum stuðningi, f) lýðfræðilegar breytur og g) notkun á hópnum. Ellefu mæður og 10 feður tóku þátt í rannsókninni.

Helstu niðurstöður: Ekki reyndist marktækur munur á þátttakendum og þeim sem ekki tóku þátt hvað varðar kyn, aldur og búsetu foreldra, kyn og aldur barns og tíma frá því barnið greindist með krabbamein (p?.05). Meðalstig heilsutengdu þáttanna lækkaði hjá báðum kynjum frá því fyrir meðferð og þar til meðferð lauk. Tölfræðilega marktækur bati mældist á: a) depurð mæðra frá T2 til T3 (p<.03), b) kvíða feðra frá T1 til T3 (p<.01), og c) streitu feðra frá T2 til T3 (p<.02). Foreldrar upplifðu gagnkvæman stuðning af þátttöku og fannst hjálplegt að lesa skilaboð annarra og skrifa eigin. Bæði kynin notuðu hópinn til að lesa skila­boð frá öðrum en það voru fyrst og fremst mæður sem skrifuðu skilaboð til hópsins.

Ályktanir: Niðurstöður benda til kynjamunar á heilsutengdum þáttum, upplifun á gagnkvæmum stuðningi og notkun á tölvu­tengdum stuðningshópi. Tölvutengdur stuðningshópur getur nýst báðum kynjum og verið kostur fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Styrkja mætti meðferðina með því að hafa umræður stýrðari í kynjaskiptum hópum.

E 64 Byrgjum brunninn... Um heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi

Geir Gunnlaugsson1, Jónína Einarsdóttir2

1Miðstöð heilsuverndar barna, 2mannfræðiskor félagsvísindadeildar HÍ

Geir.Gunnlaugsson@hr.is

Inngangur: Foreldrum er ætlað að veita börnum sínum gott uppeldi og beita þau aga af varúð. Hvað teljast hæfilegar refsingar við uppeldi barna er þó menningarlega bundið og í sumum nágrannaríkjum okkar talið sjálfsagt að beita líkamlegum refsingum í uppeldisskyni. Börn yngri en fjögurra ára eru talin vera í mestri hættu fyrir því að vera beitt líkamlegu ofbeldi af hálfu forsvarsmanna. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða hugmyndir Íslendinga til uppeldis barna í því skyni að styrkja forvarnarstarf hvað varðar líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn börnum.

Efniviður og aðferðir: Söfnun gagna fólst í að kanna íslenskar sögulegar heimildir og rannsóknir sagnfræðinga og fagfólks um uppeldi, refsingar og heimilisofbeldi gegn börnum.

Helstu niðurstöður: Hugmyndir um börn og hvað sé heppilegt uppeldi hefur breyst í tímans rás. Fyrsta uppeldislöggjöfin frá 1746 skyldaði foreldra og aðra uppalendur til að refsa börnum með líkamlegu ofbeldi. Aðferðir sem byggjast á því að höggva, hýða, hirta, hæða, hóta, hafna, hrista og hræða eru nú til dags ekki aðeins taldar vera óheppilegar, heldur geta þær verið refsiverðar samkvæmt núgildandi lögum. Skortur er á upplýsingum um eðli og umfang heimilisofbeldis gegn börnum á Íslandi.

Ályktanir: Þörf er á heildstæðri áætlun hér á landi til að efla fyrsta, annars og þriðja stigs þverfaglegt forvarnastarf um heimilisofbeldi gegn börnum. Löggjöf þarf að vera markviss. Huga þarf að félags- og efnahagslegum aðstæðum foreldra og barna, auka faglega þekkingu þeirra sem vinna með börnum og fjölskyldum og efla fræðslu til barna og foreldra. Einnig þarf að styrkja starf þeirra sem vinna með börnum er hafa orðið fyrir ofbeldi og skapa aðstæður sem gefa þeim og aðstandendum þeirra bestu mögulega meðferð þegar í óefni er komið.

E 65 Félags- og lýðfræðilegir þættir tengdir álagi í foreldra­hlutverki. Niðurstöður landskönnunar meðal íslenskra for­eldra

Rúnar Vilhjálmsson, Guðrún Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

runarv@hi.is

Inngangur: Foreldrar geta átt við ýmiss konar vanlíðan að stríða vegna álags (life strain) í foreldrahlutverki. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga breytileika í foreldraálagi með tilliti til félags- og lýðfræðilegra þátta sem vísbendingar eru um að geti komið við sögu í þessu sambandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á undirúrtaki 872 ís­lenskra foreldra barna undir 18 ára, er tóku þátt í heilbrigðis­könnun meðal fullorðinna Íslendinga (N=1924) sem valdir voru með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá. Heimtur í könnuninni voru 69%.

Niðurstöður: Foreldrar undir 55 ára aldri, foreldrar á stærri heimilum, útivinnandi foreldrar og mæður, einkum einstæðar og tekju­lágar, urðu frekar en aðrir foreldrar fyrir einstökum álagsþáttum í foreldrahlutverki og foreldraálagi í heild.

Ályktanir: Þótt foreldraálag geti talist algengt er því misskipt meðal foreldra. Þekking á umfangi og ástæðum foreldraálags stuðlar að auknum skilningi á lýðgeðheilsu fullorðinna.

E 66 Klínískt notagildi streitukvarða fyrir fólk með sykur­sýki

Árún K. Sigurðardóttir1, Rafn Benediktsson1,2,3

1Læknadeild HÍ, 2innkirtladeild Landspítala, 3Hjartavernd

arun@unak.is

Inngangur: Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til að um 15% allra sem hafa sykursýki stríði við klínískt þunglyndi og hátt í 30% við geðræna truflun af ýmsum toga. Streitukvarði í sykursýki "Problem Areas in Diabetes (PAID)" var þýddur og staðfærður með leyfi höfunda. Kvarðar sem mæla þekkingu og mat á sjálfshæfi voru einnig notaðir í rannsókninni en tilgangur hennar var að athuga áreiðanleika og réttmæti kvarða sem og að greina streitu fólks með sykursýki.

Efniviður og aðferðir: Að fengnu leyfi Vísindasiðanefndar fékk 101 einstaklingur með sykursýki tegund 1 afhenta spurningalista. Nothæfir listar voru 84 (83,2% svarhlutfall). HbA1c gildi einstaklinganna var mælt sama dag og þeir svöruðu spurningalistum.

Niðurstöður: Íslensk þýðing PAID var áreiðanleg og réttmæt og streita meðal íslenskra einstaklinga með sykursýki var svipuð og erlendis. Meðaltalið var 22,14 (sf 14,44) þar sem 80 var versta gildið. Spurningar með hæsta svörun og þá um leið mestri streitu tengdust meðal annars eftirfarandi atriðum; ótta við lágan blóðsykur, hræðslu við framtíð vegna aukaverkana sykursýki og það að hafa ekki skýr markmið með sykursýkismeðferðinni. Bakgrunnsbreyt­ur sem höfðu mest tengsl við streitu voru lítil menntun og það að búa einn. Fleiri streitustig tengdust hærra HbA1c gildi.

Ályktanir: Klínískt gildi streitukvarða er mikið, hann er einungis 20 spurningar og hver þeirra fjallar um mjög afmarkaða þætti lífs með sykursýki. Auk þess tekur ekki nema 5-10 mínútur að svara kvarða. Heilbrigðisstarfsfólk getur notað kvarðann í klínískum sam­töl­um til að greina þá þætti sem valda mestri streitu sem og að finna þá einstaklinga sem eru í mestri áhættu á að þróa streitu í tengslum við meðferð sykursýkinnar og beita viðeigandi meðferð.

E 67 Heildrænt mat sjúklinga í líknarmeðferð

Valgerður Sigurðardóttir1, Ingibjörg Hjaltadóttir2, Guðrún Dóra Guðmanns­dóttir3, Pálmi V. Jónsson2

1Líknardeild lyflækningasviðs 2, 2öldrunarsvið og 3líknardeild öldrunar­sviðs Landspítala

valgersi@landspitali.is

Inngangur: Svonefnt Safn lágmarksupplýsinga (The Minimum Data set, MDS) fyrir hjúkrunarheimili er áreiðanlegt og staðlað mælitæki sem notað hefur verið víða um heim og á Íslandi frá árinu 1994. Svipað mælitæki til nota í líknarmeðferð (MDS-PC) er nú í þróun.

Efniviður og aðferðir: Þetta mælitæki var notað í klínískri faraldsfræðilegri rannsókn sem gerð var á sex mánaða tímabili í þremur mismunandi líknarþjónustum í Reykjavík: í líknarteymi, í sérhæfðri heimaþjónustu og á líknardeildum. Tilgangur rannsóknarinnar var meðal annars að afla nákvæmra upplýsinga um þann hóp sjúklinga sem fær líknarþjónustu. Læknir og hjúkrunarfræðingur fylltu út mælitækið þrisvar sinnum fyrir hvern nýjan sjúkling meðan á rannsókninni stóð: við komu í þjónustu, tveim vikum síðar og við útskrift. Eftirfarandi þættir voru metnir: heilsu­far og líkamleg einkenni, ástand munnhols og næring, ástand húðar, vitræn geta, samskipti, geðræn einkenni og atferli, sálræn og félagsleg líðan, líkamleg geta, útskilnaður, lyf, óskir sjúklings varðandi meðferð, félagsleg tengsl og útskrift.

Niðurstöður: Þessi rannsókn er fyrsta langskyggða rannsóknin þar sem líknarmælitækið er notað og söfnuðust upplýsingar um 174 sjúklinga. Mælitækið nýttist illa í líknarteymi en hentaði bet­ur á legudeildum. Margir þættir mælitækisins taka meira mið af öldruðum en sjúklingum með langt gengna krabbameinssjúkdóma. Á rannsóknartímabilinu voru metnir jafn margir karlar og konur, meðalaldur 71 ár. Fjórðungur sjúklinga var ekki taldinn hafa verki en 32% höfðu sýnilega verki daglega. Um helmingur allra með verki voru álitnir hafa talsverða verki eða verri og hjá 79% var ekki um nýjan verk að ræða. Einungis 23% voru sjálfbjarga við böðun, 30% gengu um án aðstoðar en 41% komst af sjálfs­dáðum á salerni. Við lok rannsóknar hafði helmingur hópsins látist.

Ályktanir: MDS-PC mælitækið gefur mikilvægar upplýsingar um sjúklinga í líknarþjónustu og staðfestir erfið einkenni og mikla umönnunarþörf þessa sjúklingahóps.

E 68 Langvinn lungnateppa: áhættuþættir endurinnlagna. Samnorræn rannsókn

Gunnar Guðmundsson1, Stella Hrafnkelsdóttir1, Christer Janson2, Þórarinn Gíslason1

1Lungnadeild Landspítala, 2lungnadeild Háskólasjúkrahúsinu Uppsölum, Svíþjóð

ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Langvinn lungateppa (LLT) er sjúkdómur af vaxandi tíðni. Versnanir á LLT eru algengar og leiða til endurtekinna sjúkrahúsinnlagna. Ekki eru til upplýsingar um áhættuþætti fyrir endurinnlögnum á Norðurlöndunum og ekki er vitað almennt hvort þunglyndi og kvíði séu áhættuþættir.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða samnorræna rannsókn sem fram fór samtímis á fimm háskólasjúkrahúsum á Norð­ur­löndunum. Safnað var upplýsingum framvirkt um sjúklinga með LLT við útskrift um lyfjagjafir, öndunarmælingar (spíró­metríu) og aðra sjúkdóma. Lögð voru fyrir þá próf um lífsgæði (St. George Respiratory Questionnaire, SGRQ) og merki um kvíða og þunglyndi voru metin með HAD kvarða (Hospital Anxiety and Depression Scale). Öllum var fylgt eftir í eitt ár frá útskrift og kannað hversu margir höfðu verið endurinnlagðir.

Niðurstöður: Af 406 sjúklingum sem fylgt var eftir útskrift af sjúkrahúsi höfðu 246 (60,6%) verið endurinnlagðir ári síðar. Meðal marktækra áhættuþátta voru skert öndunargildi, langtíma súrefnisgjöf, notkun lyfja í loftúða og gjöf teófýllíns um munn. Kvíði var marktækur áhættuþáttur hjá sjúklingum með skert lífsgæði. Fjölþáttagreining sýndi að lágt FEV1 og skert lífsgæði voru einu óháðu áhættuþættirnir eftir að tillit hafði verið tekið til meðferðar og fleiri þátta. "Áhrif" og "virkni" á SGRQ voru mikilvægustu breytur lífsgæða.

Ályktanir: Endurinnlagnir eru tíðar hjá sjúklingum með LLT og skert öndunargildi og lífsgæði eru samverkandi áhættuþættir fyrir endurinnlögnum. Þessar upplýsingar má nota til að velja markhópa fyrir sértæka meðferð til að fækka endurinnlögnum.

E 69 Áhrif azithrómýcíns á þekjuvef lungna

Valþór Ásgrímsson1,3, Þórarinn Guðjónsson1,3, Bjarki Jóhannesson2, Guð­mundur Hrafn Guðmundsson2, Ólafur Baldursson1,4

1Læknadeild HÍ, 2Líffræðistofnun, 3Krabbameinsfélag Íslands, 4lungnadeild Landspítala

valthor@krabb.is

Inngangur: Óljóst er hvernig galli í rafhrifum leiðir til langvinnra sýkinga í lungum sjúklinga með slímseigju. Rannsóknir sýna að leiðrétting á gallanum losar lungnaberkjur við pseudomonas sýkingar. Azithrómýcín (AZM) er almennt mikið notað sýklalyf sem bætir líðan sjúklinga með slímseigju, óháð bakteríudrepandi áhrifum. Okkar tilgáta var sú að AZM hefði áhrif á rafviðnám (TER) í gegnum lungnaþekju úr mönnum.

Efniviður og aðferðir: Við ræktuðum lungnaþekju á brunnum með gegndræpri himnu. AZM (0,4; 4,0 eða 40 µg/ml) var sett undir þekjuna og rafviðnám mælt í átta daga.

Niðurstöður og ályktanir: (TER í ?cm2±SEM og AZM í µg/ml): viðmið=1234±29, AZM 0,4=1615±128, AZM 4,0=1809±90 og AZM 40=2920±195, P<0,05; n=24.

Gögnin gefa til kynna að AZM auki rafviðnám í gegnum þekj­una, skammtaháð. Við töldum að þessi áhrif gætu stafað af breyttri starfsemi eða tjáningu á jónagöngum eða próteinum þéttitengsla. Mótefnalitanir og Western blot sýndu að tjáning á claudin-1 og ?4 breyttist við meðhöndlun með AZM. AZM virð­ist því auka rafviðnám lungnaþekju með því að breyta tján­ingu á claudin-1 og ?4. Niðurstöðurnar benda til nýrra verk­unarmáta AZM og gætu útskýrt gagnsemi þess fyrir slímseigjusjúklinga.

Þakkir: RANNÍS, Vísindasjóður LSH, Sjálfseignarstofnun Landa­­kotsspítala og Sjóður Odds Ólafssonar styrktu rannsókn­ina.

E 70 Árangur eins árs fjölþættrar reykleysismeðferðar fyrir lungnasjúklinga

Helga Jónsdóttir1,2, Rósa Jónsdóttir2, Þóra Geirsdóttir2, Kristlaug Sigríður Sveinsdóttir2, Þórunn Sigurðardóttir2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali Fossvogi

helgaj@hi.is

Inngangur: Reykleysismeðferð er grundvallaratriði í meðferð lungnasjúklinga sem reykja. Slík meðferð þarf að vera fjölþætt, í nægilegu magni og standa nægilega lengi. Í þessari rannsókn var meðferðin auk þessa aðlöguð að grundvallargildum hjúkrunarstarfsins um trausta tengslamyndun þar sem tekið er mið af einstaklingsbundnum einkennum og þörfum hvers sjúklings.

Efniviður og aðferðir: Beitt var aðlöguðu tilraunasniði þar sem öllum sjúklingar sem reyktu og lögðust inn á lungnadeild Landspítala á tveggja ára tímabili var boðin þátttaka (N=85). Sextíu og níu héldu áfram eftir fyrsta mánuð. Meðferðin byggði á klínískum leiðbeiningum með sérstakri áherslu á spírallíkan Prochaskas og félaga, lyfjameðferð og einstaklings- og í hópstuðningi og ráðgjöf og var veitt á sjúkrahúsinu og síðan í gegnum síma í 12 mánuði eftir útskrift.

Niðurstöður: Við lok meðferðar höfðu 39% ekkert reykt (20/51) og 52% (26/50) sögðust vera reyklausir á sama tímapunkti. Ekkert samband var á milli reykleysis og fjölda tilrauna til að hætta að reykja, fúsleika til að hætta við upphaf meðferðar eða lengdar sjúkrahúsdvalar. Fúsleiki til að hætta og nikótínfíkn voru marktækt minni við lok meðferðar samanborið við upphaf hennar. Enginn kynjamunur kom fram.

Ályktanir: Árangur meðferðarinnar er góður í samanburði við erlendar rannsóknir sem þó eru fáar á lungnasjúklingum. Góður árangur er tengdur auknum fúsleika til að hætta og því að nikótínfíkn hafði minnkað, auk þess sem búast má við að mikil samskipti við hjúkrunarfræðinga hafi skipt máli.

E 71 Highly sensitivity C-reactive protein (Hs-CRP) er hækk­að við langvinna lungnateppu, reykingar og tengt hrað­ara tapi á blástursgetu (FEV1)

Þórarinn Gíslason1, Inga Sif Ólafsdóttir1, Bjarni Þjóðleifsson1, Ísleifur Ólafsson2, Davíð Gíslason1, Rain Jogi3, Christer Janson4

1Lyflækningasvið I, 2rannsóknasvið Landspítala, 3lungnadeild Háskólasjúkra­hússins í Tartu, Eistlandi, 4lungna- og ofnæmisdeild Háskólasjúkrahússins, Uppsölum, Svíþjóð

thorarig@landspitali.is

Inngangur: CRP er vel þekkt akút fasa prótein og tengist hækkun þess bólguferlum og sýkingum. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að Hs-CRP er áhættuþáttur hjartasjúkdóma. Minna er vitað um tengsl Hs-CRP við lungnasjúkdóma. Áhugavert var því að kanna þýðingu Hs-CRP í öðrum hluta Evrópurannsóknarinnar Lungu og heilsa www.ecrhs.org Tengsl Hs-CRP voru könnuð við reykingar, lungnaeinkenni, langvinna lungnateppu og hraða lækkunar á blástursgetu (FEV1) mælt með blástursprófi með 9 ára millibili meðal slembiúrtaks á aldrinum 28-54 ára.

Efniviður og aðferðir: Hs-CRP var mælt frá 1.289 einstaklingum við rannsóknastofu LSH úr sýnum frá ECRHS II (1998-2002), frá þremur rannsóknarsetrum: Reykjavík (512 sýni), Uppsalir (489 sýni) og Tartu (288 sýni). Gildin voru á bilinu <0,1 til 70,0 mg/l og var þeim skipt í fjóra jafnfjölmenna flokka/kvartíla (0,45; 0,45-0,96; 0,96-2,21 og >2,21).

Niðurstöður: Marktæk tengsl voru milli Hs-CRP gilda og hækkandi aldurs (p=0,0003) og hækkandi BMI (r=0,41; p<0,0001). Sterk tengsl voru við reykingasögu, OR (95% CI) =1,17 (1,02-1,33) hjá þeim sem reykja. Marktæk tengsl voru milli hækkaðs Hs-CRP og ýls, surgs og píps, áreynslumæði og næturhósta (p<0,0001). Hs-CRP var marktækt hækkað hjá sjúklingum með asma án ofnæmis (p<0,0001), en ekki við ofnæmisasma eða berkju­auðreitni (p=0,51). Þeir sem voru í 3ða og 4ða kvartíl Hs-CRP uppfylltu mun oftar skilmerki GOLD (sjá www.GOLDCOPD.org) fyrir langvinnri lungnateppu: odds ratio (95% vikmörk) 2,17 (1,05-4,48) og 2,73 (1,30-5,72) enda þótt leið­rétt væri fyrir aldri, kynferði, BMI og reykingum. FEV1 hafði einnig lækkað marktækt hraðar s.l. 9 ár hjá þeim sem voru með hærra Hs-CRP.

Ályktanir: Hs-CRP er sterklega tengt reykingum, lungnaeinkennum, asma án ofnæmis, langvinnri lungnateppu og hröðu tapi á blástursgetu mælt sem FEV1.

E 72 PHA ræsing upphefur neikvæð áhrif frystingar á frumu­­fjölgun einkjarna blóðfrumna

Ása Valgerður Eiríksdóttir1,3, Leifur Þorsteinsson2, Brynja Gunnlaugsdóttir1, Helga Kristjánsdóttir1, Kristín Jóhannsdóttir1, Sveinn Guðmundsson2, Björn Guðbjörnsson1,4

1Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum, 2Blóðbankinn, Landspítala, 3Tæknihá­skóli Íslands, 4læknadeild HÍ

bjorngu@landspitali.is

Inngangur: Það er mikilvægt að vita hvaða áhrif frysting og langtímavarðveisla í fljótandi köfnunarefni (N2) hefur á frumur ónæmiskerfisins og hvort unnt sé að nota þær í rannsóknir eftir að þær hafa verið þíddar aftur.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif N2 frystingar á virkni og svipgerð einkjarna blóðfrumna með samanburði á ferskum og frystum frumum úr sömu einstaklingum.

Efniviður og aðferðir: Blóð var tekið úr 12 heilbrigðum sjálfboða­liðum og einkjarna blóðfrumur einangraðar með ficoll aðferð. Frumudauði var metinn, bæði með Acridine orange-ethidium bromide talningu og 7-Amino-actinomycin D (7-AAD) litun fyrir flæðifrumusjá (FACS). Frumurnar voru flokkaðar eftir stærð, kirningu og CD yfirborðssameindum í FACS. Einnig var frumufjölgun með og án PHA ræsingar mæld með [3H] thymidín innlimun í DNA eftir fjögurra daga ræktun. Lífsýni með einangr­uðum einkjarna frumum úr hverjum þátttakanda var jafnframt meðhöndlað með DMSO og fryst í tvær vikur í fljótandi N2. Þá voru frumurnar þíddar og mælingar endurteknar.

Niðurstöður: Í samantekt sýndu niðurstöður litla en þó marktæka aukningu (7%) á frumudauða einkjarna blóðfrumna í kjölfar N2 frystingar. Frystingin hafði ekki áhrif á meðaltjáningarstyrk CD yfirborðssameinda. Hlutfall CD8+ T-frumna hækkaði mest eftir frystinguna, á meðan CD4+ T-frumur dóu frekar. Dauffrumum (neutrophils) fækkaði marktækt við frystingu, en smáætum (mono­cytes) fjölgaði hlutfallslega. Einnig kom í ljós að PHA ræsing frumna kemur í veg fyrir neikvæð áhrif frystingarinnar á frumufjölgun.

Ályktanir: Lifun einkjarna frumna er mjög há og tjáning CD yfirborðssameinda breytist lítið eftir frystingu með aðferðum sem notaðar eru á RG. Þetta tryggir áreiðanlegar niðurstöður framtíðarrannsókna á frystum efniviði.

E 73 Einföld skimun fyrir vannæringu meðal aldraðra á Landspítala

Inga Þórsdóttir1, Pálmi V. Jónsson2,3, Anna E. Ásgeirsdóttir1, Ingibjörg Hjaltadóttir2, Sigurbjörn Björnsson2,3, Alfons Ramel1

1Rannsóknastofa í næringarfræð og Háskóli Íslands, 2öldrunarsvið Land­spít­ala, 3læknadeild HÍ

ingathor@landspitali.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að meta næringar­ástand aldraðra á öldrunarsviði Landspítala og notagildi tveggja aðferða til að skima fyrir vannæringu meðal aldraðra og einnig að hanna einfaldara tæki með því að sameina mikilvægustu spurningar frá þess­um aðferðum, "Mini Nutrition Assessment (MNA)" og skim­un­artæki fyrir vannæringu sem þróað hefur verið á LSH (SVL).

Efniviður og aðferðir: Samtals voru 60 sjúklingar rannsakaðir með tilliti til MNA og SVL (>65 ára). Næmi og sértæki MNA og SVL var reiknað út frá niðurstöðu viðmiðunaraðferðar, það er nákvæmu mati á næringarástandi (NMN) með sjö breytum sem sameiginlega gefa til kynna næringarástand. Til að þróa einfalt skimunartæki voru spurningar frá bæði MNA og SVL sem gáfu marktækan mun milli vel- og vannærðra, samkvæmt NMN, próf­aðar í margþáttagreiningu og línulegri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: 58% sjúklinganna voru vannærðir samkvæmt NMN og ekki greindist munur milli kynja. Líkamsþyngdarstuðull, ósjálf­­rátt þyngdartap, nýleg skurðaðgerð og lystarleysi höfðu forspárgildi samkvæmt aðhvarfslíkani (R2=60,1%). Næmi og sértæki einfaldaðs líkans var 89 og 88%, sem var hærra en fyrir MNA (77 og 36%) og SVL (89 og 60%).

Ályktanir: Samkvæmt fullu mati á næringarástandi er vannæring algeng meðal sjúklinga á öldrunarlækningadeildum. Fjórar spurningar nægja til skima fyrir vannæringu meðal aldraðra.

E 74 Samanburður á aldursbundnum breytingum á beinum karla og kvenna 67-93 ára mælt með tölvusneið­mynda­tækni

Gunnar Sigurðsson1,2, Thor Aspelund1, Birna Jónsdóttir1, Sigurður Sigurðs­son1, Guðný Eiríksdóttir1, Aðalsteinn Guðmundsson1, Tamara B. Harris3, Vilmundur Guðnason1, Thomas F. Lang4

1Hjartavernd, 2Landspítali, 3National Institute on Aging, Bethesda, Maryland, 4University of California, San Francisco, USA

gunnars@lsh.is

Inngangur: Magnákvarðandi tölvusneiðmyndatækni (quanti­tative computed tomography QCT) gerir mögulegt að aðgreina frauðbein og skelbein og gerir kleift að mæla beint flatarmál þverskurðar beina. Þessi aðferð hefur lítið verið notuð í stórum faraldsfræðilegum hóprannsóknum til þessa. Í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES) hefur þessari tækni verið beitt til að kanna kynjamun á aldurstengdu beintapi og breytingum á þversniðsstærð beina.

Efniviður og aðferðir: Öldrunarrannsóknarhópur Hjartaverndar (upphaflega slembiúrtak), fyrstu 2300 þátttakendur á aldrinum 67-93 ára. Þessi rannsókn nær þó einungis til þeirra sem ekki tóku lyf sem hafa áhrif á kalk- eða beinabúskap, alls 638 karlar og 568 konur. QCT var beitt á fyrsta og annan lendaliðbol og nærenda lærleggs (frá acetabulum og niður fyrir trochanter) með eins millimetra sneiðum. Línulegri aðhvarfsgreiningu var beitt við útreikninga og leiðrétt fyrir hæð og þyngd.

Niðurstöður: Flatarmál þverskurðar hryggjarliðbola jókst um 4-5%/10 ár, hélst óbreytt í lærleggshálsi en jókst um 2% á trochanter-svæði, jafnt í báðum kynjum. Beinþéttnin minnkaði um það bil tvöfalt meira meðal kvenna en karla bæði í hrygg og mjöðm svo og útreiknaður beinstyrkleiki.

Ályktanir: Kynjamunur á breytingu á styrk beina á efri árum skapast fyrst og fremst vegna meira beintaps kvenna en ekki vegna meiri ummálsaukningar beina meðal karla.

E 75 Tengsl beinstyrktarstuðuls (anabolic index) við bein­þéttni meðal 70 ára íslenskra kvenna

Ólafur S. Indriðason1, Leifur Franzson2, Guðrún A. Kristjánsdóttir1, Díana Óskarsdóttir1, Gunnar Sigurðsson1

1Lyflækningadeild og 2Rannsóknarstofnun Landspítala

osi@tv.is

Inngangur: Bæði beinmyndunar- og beinniðurbrotsvísar sýna neikvæða fylgni við beinþéttni (BMD). Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl BMD við hlutfall beinmyndunar- og bein­niðurbrotsvísa.

Efniviður og aðferðir: Þetta var þversniðsrannsókn á 70 ára konum af höfuðborgarsvæðinu. Við mældum BMD í mjóhrygg og mjöðm (DEXA), beinmyndunarvísana osteókalsín (OC) og alkalískan fosfatasa (ALP) í sermi og beinniðurbrotsvísinn krosstengd telópeptíð af gerð I kollageni í þvagi (UNTX). Beinstyrktarstuðull (BSS) var reiknaður annars vegar sem OC/UNTX (BSSO) og hins vegar sem ALP/UNTX (BSSA). Fyrir þessa rannsókn voru þær konur útilokaðar er tóku lyf eða höfðu sjúkdóma með áhrif á beinabúskap. Fylgnistuðull Spearmans og línuleg aðhvarfsgreining voru notuð til að kanna tengsl breyta.

Niðurstöður: Af 418 konum sem boðið var, tóku 308 þátt. Eftir útilokun voru 248 eftir í rannsókninni. Fylgni milli OC og UNTX var sterk (r=0,61) en fylgni ALP við OC og UNTX var mun minni, (r=0,16 og 0,19). OC hafði marktækt neikvæða fylgni við BMD í mjóhrygg (r=-0,22; p<0,001) og mjöðm (r=-0,28; p<0,001) sem og UNTX (r=-0,25; p<0,001; r=-0,32; p<0,001, í sömu röð) en fylgni ALP við BMD var ekki marktæk. Hins vegar kom í ljós jákvæð fylgni BMD við bæði BSSO (r=0,18; p=0,009, mjóhryggur; r=0,23; p=0,001, mjöðm) og BSSA (r=0,26; p<0,001, mjóhryggur; r=0,30; p<0,001, mjöðm). Þó leiðrétt væri fyrir fitu- og fitulausum massa og PTH var áfram neikvæð fylgni BMD við OC og UNTX en jákvæð fylgni BMD við BVSO (B=0,14; p=0,02, mjóhryggur; B=0,19; p=0,001 mjöðm) og BVSA (B=0,17; p=0,009, mjóhryggur; B=0,24; p<0,001 mjöðm).

Ályktanir: Svo virðist sem hlutfall beinmyndunar- og bein­niður­brotsvísa gefi betri upplýsingar um beinþéttni en einstakir beinumsetningarvísar. Þessi tengsl þarf að kanna í öðrum aldurshópum og í framsýnum rannsóknum.

E 76 Sameiginlegir erfðaþættir þarmabólgu og hryggiktar á Íslandi

Bjarni Þjóðleifsson1, Sverrir Þorvaldsson3, Árni J Geirsson1, Sigurður Björnsson1, Ingvar Bjarnason2, Valdimar B. Hauksson3, Eva Halapi3, Ari Kárason3, Inga Reynisdóttir3, Kári Stefánsson3, Hákon Hákonarson3

1LYF-1 Landspítala, 2Dpt. of Medicine, Guy's, King's, St Thomas' Medical School, London, UK, 3Íslensk erfðagreining

bjart@mi.is

Inngangur: Hryggikt fylgir þarmabólgum í 3-6% tilfella og ennfremur hefur um helmingur sjúklinga með hryggikt vægt form af þarmabólgu. Þetta bendir til að sjúkdómarnir hafi sameiginlega erfðaþætti.

Tilgangur: Að rannsaka ættlægni þarmabólgu og hryggiktar og að meta sameiginlega erfðaþætti.

Efniviður og aðferðir: Stuðst var við Íslendingabók og gagna­grunn fyrir þarmabólgur og hryggikt sem innihélt nær alla sjúk­linga, greinda með þessa sjúkdóma á Íslandi 1950-1996. Hlut­falls­leg áhætta skyldmenna þarmabólgu- og hryggiktarsjúklinga var reikn­­uð út fyrir að fá sama sjúkdóm og einnig krossáhætta, það er fyrir skyldmenni hryggiktarsjúklinga að fá þarmabólgu og öfugt. Skyld­leikastuðull þarmabólgu- og hryggiktarsjúklinga var reikn­aður.

Niðurstöður: Skyldmenni þarmabólgusjúklinga af fyrsta, öðrum og þriðja ættlið höfðu 4,4-2,2 og 1,4 sinnum aukna áhættu á að fá sama sjúkdóm (p<0,0001). Skyldmenni hryggiktarsjúklinga af fyrsta, öðrum og þriðja ættlið höfðu 94, 25 og 3,5 sinnum aukna áhættu á að fá sama sjúkdóm (p<0,0005). Skyldmenni þarmabólgu­sjúklinga af fyrsta og öðrum ættlið höfðu 3,0 og 2,1 sinnum aukna áhættu á að fá hryggikt (og öfugt) (p<0,002). Skyldleikastuðull þarmabólgu- og hryggiktarsjúklinga var marktækt aukinn og skyldleiki milli sjúkdómanna var einnig aukinn.

Niðurstöður: Erfðaþættir hryggiktar á Íslandi eru mun sterkari en erfðir þarmabólgu. Sjúklingar með hryggikt eða þarmabólgu eru marktækt skyldari en óvalið þýði og líkurnar á að skyldmenni fái annan hvorn sjúkdóminn eru marktækt auknar upp í þriðja ættlið. Þessar niðurstöður benda til að einn eða fleiri óþekktir erfðaþættir eigi þátt í tilurð þessara sjúkdóma.

E 77 eNOS fosfórun og NO myndun af völdum thrombíns og?histamíns er miðlað með AMPK. Innlegg í skilning á æða­sjúkdómum

Brynhildur Thors1, Haraldur Halldórsson1,2, Guðmundur Þorgeirsson1,2

1Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, læknadeild HÍ, 2Landspítali

brynhit@hi.is

Inngangur: Stjórnun á orkuástandi frumna er flókið fyrirbæri og eru viðbrögð frumunnar við breyttu AMP:ATP hlutfalli margvísleg. Allar frumur bregðast við þessum breytingum og er flestum þessara viðbragða miðlað með AMP-dependent prótein kínasa (AMPK) sem nefndur hefur verið aðalrofi efnaskipta. Við fallandi orkustig frumna ræsir kínasinn efnaferli sem framleiða ATP en slekkur á neysluferlum, bæði með því að fosfóra beint stýripró­tein og eins óbeint með því að hafa áhrif á genatjáningu. AMPK kemur víða við í boðferlum innan frumna og hefur meðal annars áhrif á endothelial NO-synthasa (eNOS) og miðlar þannig æðaslökun.

Efniviður og aðferðir: Ræktaðar voru æðaþelsfrumur úr bláæðum naflastrengja. Fosfórun próteina var metin með sértækum mótefnum eftir Western blot. NO myndun var metin með mælingu á myndun geislavirks citrullins úr arginini.

Niðurstöður: Við höfum nýlega sýnt fram á að histamín og thrombín valda fosfórun á eNOS á Ser1177 sem og NO myndun á PI3K-Akt óháðan hátt. Við athuguðum því hlutverk hinna ýmsu kínasa í að miðla eNOS fosfórun af völdum histamíns og thrombíns. Hindrun á CaMKII eða PI3K hafði engin áhrif á þessa fosfórun. H89, sem hindrar bæði PKA og AMPK, kom í veg fyrir fosfórunina á eNOS. Hins vegar hafði PKA hindrinn cAMPS engin áhrif og engin fosfórun varð á eNOS eftir meðhöndlun sem hafði áhrif á styrk cAMP. Thrombín og histamín ollu fos­fórun á AMPK á Thr172 sem og á ACC1 sem er þekkt AMPK substrat. eNOS fos­fórun varð eftir meðhöndlun með AICAR og CCCP sem bæði valda örvun AMPK. Histamín og thrombín ollu greinilegri NO myndun sem var hindruð með H89 og Ca+2 klóbindiefninu BAPTA.

Ályktanir: Við ályktum að fosfórun og örvun eNOS eftir thrombín/histamín gjöf orsakist af aukinni ATP notkun, sé miðlað með AMPK og leiði til æðavíkkunar og þar með aukinnar orku og súrefnismiðlunar til frumnanna.

E 78 Líffæragjafir á Íslandi 1992-2002

Runólfur V. Jóhannsson1, Kristinn Sigvaldason1, Kristín Gunnarsdóttir1, Páll Ásmundsson3, Sigurbergur Kárason1

1Svæfinga- og gjörgæsludeild og 2nýrnadeild Landspítala

skarason@landspitali.is

Inngangur: Með gildistöku nýrra laga um skilgreiningu heila­dauða árið 1991 var Íslendingum gert kleift gefa líffæri. Fram að því höfðu landsmenn þegið líffæri frá öðrum þjóðum án þess að leggja nokkuð til sjálfir. Árið 1992 var gerður samningur við önnur Norðurlönd um líffæragjafir og líffæraígræðslur. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna þörf fyrir líffæri og tilhögun líffæragjafa á Íslandi 1992?2002, einkum á svæfinga- og gjörgæslu­deild Landspítala Fossvogi.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir gögn allra sem létust á gjörgæsludeild spítalans í Fossvogi 1992?2002. Upplýsinga var aflað um líffæragjafa á öðrum deildum, fjölda á biðlistum og fjölda líffæraþega. Niðurstöður eru sýndar sem meðaltal +/-SD.

Niðurstöður: Fjöldi látinna á deildinni á tímabilinu 1992-2002 var 527, eða 48+/-5 árlega. Af þeim voru 68 (13%) úrskurðaðir látnir vegna heiladauða. Sótt var um leyfi til líffæratöku hjá aðstandendum í 50 (74% heiladauðra) þessara tilvika og fékkst leyfi í 30 (60%) skipti. Fjórir reyndust ekki hæfir líffæragjafar en tekin voru líffæri hjá 26 (52% tilvika sem leyfis var leitað). Beiðni um líffæragjöf var hafnað í 40% tilvika og virtist það færast í vöxt þegar leið á tímabilið. Í gögnum fundust 18 einstaklingar (3% látinna) sem hugsanlega hefðu getað gefið líffæri en voru ekki greindir (50% létust fyrstu tvö ár tímabilsins). Á tímabilinu voru líffæri gefin á öðrum deildum hérlendis í sex tilvikum. Líffæragjafar á tímabilinu voru því samtals 32, eða 2,9 +/-1,9 árlega. Áætlaður fjöldi líffæra sem var gefinn var 103, eða 9,4+/-6,0 árlega. Árlegur meðalfjöldi á biðlista eftir nálíffærum var 7,7+/-3,0 og sem fékk ígræðslu 3,3+/-1,9.

Ályktanir: Hér á landi hefur mestur fjöldi líffæragjafa verið á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi en þar er skurðdeild heila- og taugasjúkdóma og stærsta slysamóttaka landsins. Þeir sem gætu hugsanlega orðið líffæragjafar en eru ekki greindir eru fáir. Árlegur fjöldi líffæragjafa er aðeins lægri en annars staðar á Norðurlöndum. Líffæragjafir héðan virðast samsvara þörfum Íslendinga fyrir líffæri. Hugsanlegt áhyggjuefni er að aðstandendur virðast oftar neita beiðnum um líffæragjafir.

E 79 Áhrif æðaherpandi katekólamína á smáæðablóðflæði í brisi, lifur og þörmum í septísku losti

Gísli H. Sigurðsson1, Vladimir Krejci2, Luzius Hiltebrand2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, Háskóla­sjúkrahúsinu í Bern, Sviss

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Æðaherpandi katekólamín eru oft notuð til að hækka blóðþrýsting í losti en lítið er vitað um áhrif þeirra á smáæða­blóðflæði í brisi, lifur og þörmum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að mæla áhrif fenýlefríns, adrenalíns og noradrenalíns á hjarta­útfall (cardiac index), regional blóðflæði (superior mesenteric artery flow; SMA) og smáæðablóðfæði (microcirculatory flow, MBF) í kviðarholslíffærum í septísku losti.

Efniviður og aðferðir: Átta svín voru svæfð og lögð í öndun­ar­vél. Septískt lost var framkallað með faecal peritonitis. Smá­æðablóðflæði (LDF) var mælt með laser Doppler flæðimæli í maga-, smáþarma- og ristilslímhúð svo og í lifur og brisi. Hvert dýr fékk í slembiröð (random order) crossover design, fenýl­efrín, adrenalín og noradrenalín í skömmtum sem hækkuðu meðal blóðþrýsting (MAP) um 20 mmHg. Hvert lyf var gefið í 30 mín­útur en eftir það var 40-60 mínútna aðlögunartími þar sem MAP og CI voru látin jafna sig áður en næsta lyf var gefið.

Helstu niðurstöður: Fenýlefrín (2 mcg/kg/mín) hækkaði MAP um 20 mmHg en hafði lítil sem engin áhrif á CI, SMA eða MBF. Á hinn bóginn hækkaði CI bæði við gjöf adrenalíns (0,75 mcg/kg/mín) og noradrenalíns (1,0 mcg/kg/mín) um rúmlega 40% en SMA flæði minnkaði um 11% við gjöf adrenalíns og um 26% við gjöf noradrenalíns. Bæði lyfin drógu einnig úr MBF í smáþörmum og brisi.

Ályktanir: Þótt adrenalín og noradrenalín hækki blóðþrýsting og auki hjartaútfall beina þau blóðflæði frá mikilvægum líffærum eins og þörmum og brisi. Fenýlefrín sem hækkar blóðþrýsting á svipaðan hátt og adrenalín og noradenalín virðist ekki hafa slík áhrif. Þar sem fenýlefrín er hreinn alfa agónisti er líklegt að beta-2 áhrif adrenalíns og noradrenalíns í háum skömmtum valdi æðavíkkun í öðrum þýðingarminni vefjum, svo sem húð og vöðvum, og beini því blóðflæði frá kviðarholslíffærum í sepsis.

Samstarfsverkefni LSH, HÍ og UniBE #4

E 80 Áhrif TGF-B1 á tjáningu viðloðunarsameinda og efnatogaviðtaka á óreyndum (naive) T-frumum

Sólrún Melkorka Maggadóttir1,3, Brynja Gunnlaugsdóttir2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2,3

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofa í gigtsjúkdómum og 3ónæmisfræðideild rannsóknarstofnunar Landspítala

brynja@landspitali.is

Inngangur: Stjórnun á íferð T-frumna í vefi er flókið samspil viðloðunarsameinda, boðefna og viðtaka þeirra. TGF-B1 er þekkt fyrir mótandi áhrif á ónæmiskerfið en áhrif þess á viðloðun og sækni T-frumna umdeild. Við könnuðum því áhrif TGF-B1 á tjáningu viðloðunarsameinda og efnatogaviðtaka á óreyndum CD4+ og CD8+ T-frumum.

Efniviður og aðferðir: CD3+/CD45RA+ (naive) T-frumur voru einangraðar úr naflastrengsblóði með neikvæðu vali (n=5). Tjáning viðloðunarsameindanna a E- og B 7-integrina auk efnatoga­viðtakanna CXCR3 og CCR4 var metin í frumuflæðisjá fyrir og eftir 96 klukkustunda ræsingu með anti-CD3 (10 ?g/ml) með/án hjálparræsingar (anti-CD28 (10 ?g/ml)) og með/án TGF-B1(10 ng/ml).

Niðurstöður: TGF-B1 jók verulega tjáningu aE-integrins á ræstum CD4+ og CD8+ T-frumum (p<0,02), en meirihluti CD8+ frumnanna (89%) varð aE+. Hins vegar jók TGF-B1 lítið hlutfall ræstra B7+ T-frumna og eingöngu meðal CD8+ (p<0,05). Við viðbót anti-CD28 urðu ofangreind áhrif hverfandi. Slík sundurleitni í tjáningu aE- og B7-integrina kemur á óvart því þau mynda eina starfhæfa einingu, aEB7. TGF-B1 jók hlutfall CD8+ T-frumna sem tjáðu bæði integrinin, aEB7 (p<0,05), en eingöngu ef frumurnar voru ræstar með anti-CD28, auk anti-CD3. Slíkra áhrifa gætti ekki meðal CD4+ T-frumna. Að lokum dró TGF-B1 úr tjáningu efnatogaviðtakanna CXCR3 (Th1) og CCR4 (Th2) meðal ræstra aE+ T-frumna.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að TGF-B1 geti aðskilið stýrt tjáningu aE- og B7 -integrina á óreyndum CD4+ og CD8+ T-frumum. Ennfremur virðist næmi T-frumna fyrir þessum áhrifum TGF-B1 og áhrifunum á tjáningu efnatogaviðtakanna mótast af svipgerð T-frumunnar og ræsingarmáta. Slík mótandi áhrif TGF-B1 gætu reynst mikilvæg við meðferð T-frumu miðlaðra sjálfsofnæmissjúkdóma.

E 81 Eru kverkeitlar uppeldisstöðvar fyrir T-eitilfrumur sem orsaka sóra?

Aron Freyr Lúðvíksson1, Ragna Hlín Þorleifsdóttir1, Hekla Sigmundsdóttir1, Hannes Petersen2, Helgi Valdimarsson1

1Læknadeild og ónæmisfræðideild HÍ, 2HNE-deild Landspítala

helgiv@landspitali.is

Bakgrunnur: Sóri (psoriasis) er T-frumu miðlaður sjálfsofnæm­issjúkdómur sem einkennist af offjölgun keratínócýta. Til að kom­ast út í húð þurfa T-frumur að tjá húðsæknisameindina CLA, auk annarra viðloðunarsameinda og kemokín viðtaka. Streptókokkasýkingar í hálsi hafa verið tengdar byrjun og versn­un á sóra og sumum sjúklingum virðist batna eftir kverkeitlatöku. Vitað er að úteitur ?-hemólýtískra streptókokka geta aukið CLA tjáningu.

Tilgáta: Tilgáta okkar er sú að T-frumur sem valda sóra séu ræstar í kverkeitlum sem meðal annars felur í sér aukna tjáningu á CLA húðsæknisameindinni. Einnig teljum við líklegt að þessar frumur geti greint epitóp sem finnast bæði í M-próteinum streptókokka og keratíni.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru sýni úr kverkeitlum og blóði sórasjúklinga og einstaklinga án sóra, T-frumur úr sýnunum voru einangraðar og litaðar með flúrskinstengdum mótefnum gegn viðloðunarsameindum og kemokín viðtökum og síðan greindar í frumuflæðisjá. Einnig voru fengnir heilir kverkeitlar úr einstaklingum með endurteknar hálsbólgur, sýni tekin frá tveimur mismunandi stöðum úr hverjum eitli og frumurnar meðhöndl­aðar eins og áður. Þetta var gert til að kanna samanburðarhæfni sýnanna miðað við heila kverkeitla. Einnig var tekið blóð úr þessum einstaklingum.

Niðurstöður: Marktæk aukning var á CLA tjáningu T frumna úr kverkeitlum sórasjúklinga miðað við viðmiðunarhóp. Hins vegar var meðalstyrkleiki þessarar tjáningar verulega minni í kverkeitlum þeirra heldur en hjá T-frumum í blóði þeirra.

Ályktanir: Niðurstöðurnar samrýmast því að T-frumur í kverkeitlum sórasjúklinga hafi aukna tilhneigingu til að tjá CLA. Þetta gæti greitt götu T-frumna sem greina epitóp M-próteina í kverkeitlum og keratína í húð.

Þakkir: Styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

E 82 Vakamiðluð liðabólga versnar ef rottur eru útsettar fyrir ?óbeinum tóbaksreyk

Jóna Freysdóttir1,2, Einar Þór Bogason1,3, Ingibjörg Ólafsdóttir1, Fífa Konráðsdóttir1, Sveinbjörn Gizurarson1, Arnór Víkingsson1,2,4

1Lyfjaþróun hf., 2Naturimm ehf., 3læknadeild HÍ, 4gigtardeild Landspítala

jonafreys@simnet.is

Inngangur: Íslenskar rannsóknir benda til þess að reykingamenn fái verri iktsýki. Vitað er að reykingar hafa margvísleg áhrif á ónæm­iskerfið, meðal annars eykst fjöldi eitilfrumna og mótefna­myndun, og í dýratilraunum getur ónæmisþol gegn tilteknum vök­um brostið.

Tilgangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif óbeinna reykinga á liðagigtarlíkan í rottum.

Efniviður og aðferðir: Liðbólga var framkölluð í 20 kvenkyns Lewis rottum með því að sprauta BSA í ónæmisglæði undir húð og tveimur vikum seinna var BSA sprautað í vinstri hnjálið en saltvatni í hægri hnjálið til viðmiðunar. Þvermál beggja hnjáliða var mælt og var munurinn á milli hnjáliða mælikvarði á magn bólgunnar. Ferli liðbólgunnar var fylgt í fimm vikur. Til að meta áhrif óbeinna reykinga var helmingur rottnanna útsettur fyrir sígarettu­reyk hluta úr degi í 27 daga.

Niðurstöður: Reykingarotturnar fengu marktækt meiri liðbólgu en þær reyklausu. Jafnframt breyttist hlutfall eitilfrumna í nef­slímhúð þeirra.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að óbeinar reykingar hafi áhrif á staðbundin ónæmisviðbrögð (það er í nefslímhúðinni sjálfri) sem og áhrif á útbreidd ónæmisviðbrögð (það er í hnjáliðum). Óbeinar reykingar geta því leitt til versnunar í ýmsum sjálfs­ofnæmissjúkdómum.

E 83 Svipgerð og starfshæfni T eitilfrumna í börnum með skertan týmus eftir hjartaaðgerð

Harpa Torfadóttir1, Jóna Freysdóttir2, Inga Skaftadóttir3, Ásgeir Haraldsson4, Gunnlaugur Sigfússon4, Helga M. Ögmundsdóttir5

1Háskóli Íslands, 2Lyfjaþróun hf., 3Rannsóknarstofa í ónæmisfræði Land­spít­ala, 4Barnaspítali Hringsins, 5Rannsóknarstofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði

jonafreys@simnet.is

Inngangur: Í rannsókn frá árinu 2002 var sýnt að börn sem höfðu misst hluta eða allan týmus við hjartaaðgerð í frumbernsku höfðu færri T-eitilfrumur en viðmiðunarhópur. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna frekar svipgerð T eitilfrumnanna og að skima fyrir líffærasértæku sjálfsofnæmi.

Efniviður og aðferðir: Valin voru úr fyrri rannsókn átta börn (meðalaldur 12,1 ár) sem höfðu sýnt marktæk afbrigði í fjölda og svipgerð T-eitilfrumna. Í viðmiðahópi voru jafnmörg heilbrigð börn, pöruð með tilliti til kyns og aldurs. Svipgerð ónæmis­kerfisins var skoðuð með hvítfrumudeilitalningu og mælingu á ýmsum yfirborðssameindum: CD3+ (allar T-frumur), CD4+ (T-hjálparfrumur), CD4+CD62L+ (óreyndar T-hjálparfrumur), CD4+CD69- (óræstar T-hjálparfrumur), CD4+CD25+CD62L+ (óreyndar T-stýrifrumur), CD4+CD25+CD69- (óræstar T-stýrifrumur), CD8+ (T-drápsfrumur), svo og tvær sameindir sem eru algengari á frumum sem þroskast utan týmus en þeim sem þroskast í týmus, CD8aa og TCR yð. Skimað var fyrir líffærasértæku sjálfsofnæmi með mælingu á mótefnum gegn týróglóbúlíni, sýrumyndandi frumum og briskirtilseyjum.

Niðurstöður: Tilfellahópurinn hafði marktæka lækkun á hlutfalli og fjölda T-eitilfrumna, T-hjálparfrumna, óreyndra T-eitilfrumna og T-eitilfrumna sem voru óræstar. Ekki sást munur á hlutfalli óreyndra T-stýrifrumna en óræstar T-stýrifrumur voru í hærra hlutfalli hjá tilfellahóp. Ekki var munur á hlutfalli T-drápsfrumna, T-bælifrumna og yð T-frumna milli hópanna en tilfellahópurinn hafði hærra hlutfall af CD3+CD4-CD8-, CD8aa+ frumum og CD8aa+ yð T-frumum. Enginn í tilfellahópnum sýndi jákvætt svar í skimuninni fyrir sjálfsofnæmi.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa því til kynna að þroskun á T-eitilfrumum utan týmus geti átt sér stað sé týmus fjarlægður í korna­börnum.

E 84 Greining húðofnæmis in vitro og in vivo mat húðprófa með myndrænni tölvulasertækni (laser Doppler perfusion imaging)

Margrét S. Sigurðardóttir1,2,4, Ellen Flosadóttir1,3, Hekla Sigmundsdóttir4, Helgi Valdimarsson4, Bolli Bjarnason1,2

1Útlitslækning ehf., 2læknadeild HÍ, 3tannlæknadeild HÍ, 4ónæmisfræðideild Landspítala

margrs@hi.is

Inngangur: Engin in vitro húðpróf hafa verið fundin upp til greiningar á snertiofnæmi í húð heldur fer greiningin ennþá fram með sjónrænu mati eins og þau voru fyrst kynnt fyrir rúmri öld.

Markmið: 1) Að þróa tvær in vitro aðferðir til greiningar snertiofnæmis, 2) að beita myndrænni tölvulasertækni (LDPI) til aflestrar húðprófa in vivo og 3) að bera niðurstöður úr liðum 1 og 2 saman við niðurstöður sjónræns mats og sögu þátttakenda um ofnæmi.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur með og án ofnæmis fyrir nikkeli voru húðprófaðir með ofnæmisvakanum og samanburðarefni. Prófsvæðin voru metin sjónrænt og með myndrænu tölvu­lasertækninni degi eftir að prófefnin höfðu verið fjarlægð af húðinni. Sogblöðrur voru myndaðar yfir prófsvæðunum og tvær in vitro prófaðferðir þróaðar. Önnur byggir á mælingu styrks boðefna í blöðruvökvanum. Hin byggir á að rækta hyrnisfrumur úr yfirborðshúð blaðranna með ofnæmisvakanum og meta síðan boðefnasvörun þeirra.

Niðurstöður: Allar prófunaraðferðirnar sýndu hærri gildi hjá þeim sem töldu sig hafa ofnæmi borið saman við þá sem töldu sig ekki hafa það. Niðurstöðurnar voru sérlega lofandi fyrir in vitro aðferðina sem byggir á blöðruvökvanum. Hafa ber í huga að eingöngu 12 þátttakendur hafa verið prófaðir og að niðurstöður liggja eingöngu fyrir varðandi hluta þátttakendanna með frumuaðferðinni. Lengri aflestrartími en þrír dagar eins og beitt var í verkefninu kann að henta betur fyrir myndrænu tölvulasertæknina.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að unnt sé að beita in vitro aðferðinni sem byggir á blöðruvökanum til greiningar húðofnæmis fyrir nikkel hjá mönnum. Of snemmt er að segja til um gagnsemi hinna aðferðanna.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af RANNÍS.

E 85 IL-10 og IL-12 hafa gagnstæð áhrif á tjáningu húð­sér­tæku ratvísisameindarinnar (cutaneous lymphocyte associated antigen, CLA) og aEb7 integrini (CD103) hjá CD8+ T-frumum sem örvaðar hafa verið með ofurvaka (super­antigen)

Hekla Sigmundsdóttir, Andrew Johnston, Jóhann Elí Guðjónsson, Helgi Valdimarsson

Læknadeild HÍ, ónæmisfræðideild Landspítala

helgiv@landspitali.is

Inngangur: Sameindin cutaneous lymphocyte associated anti­gen (CLA) er talin vera ratvísisameind sem meðal annars beinir T-eitilfrumum úr blóði út í húð. CD103 (?E) er integrin sem er aðallega tjáð af CD8+ T-frumum og er talið að þessi sameind geti lengt viðdvöl CD8+ T-frumna í þekjuvef, þar með talið í yfirhúð. Þetta eru því sameindir sem skipta miklu máli í húðsjúkdómum sem miðlaðir eru af T-frumum, til dæmis í sóra. Frumuboðefnin interleukin (IL)-10, IL-12 og transforming growth factor (TGF) ? eru mikilvægir stýriþættir í bólgusjúkdómum, ekki síst í húð. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka áhrif IL-10 og IL-12 á viðloðun­ar­sameindirnar CLA (sértæk fyrir húðina) og CD103 (ekki sértæk fyrir húðina).

Efniviður og aðferðir: Eitilfrumur voru einangraðar úr blóði heilbrigðra einstaklinga, örvaðar með ofurvaka (SpeC) og ræktaðar með/án frumuboðefnanna IL-10, IL-12, TGF-? eða mótefna gegn þessum frumuboðefnum. Eftir fjóra daga í rækt voru frumurnar greindar í flæðifrumusjá með flúrskimstengdum mótefnum gegn ýmsum yfirborðssameindum.

Niðurstöður: Örvun eitilfrumna með SpeC jók tjáningu á CLA hjá bæði CD4+ og CD8+ T-frumum, en CD103 einungis hjá CD8+ T-frumum. IL-12 minnkaði tjáningu CD8+ T-frumna á CD103 verulega en jók tjáningu þeirra á CLA. IL-10 bældi hins vegar CLA tjáningu en jók verulega tjáningu CD8+ T-frumna á CD103. TGF-? upphafði IL-12 miðluðu bælinguna á CD103 tjáningu, en mótefni gegn TGF-? jók bælinguna á CD103 tjáninguna enn frekar. TGF-? hafði hins vegar engin áhrif á CLA tjáningu.

Ályktanir: IL-10 og IL-12 hafa gagnstæð áhrif á tjáningu á CLA og CD103 hjá CD8+ T-frumum. Breyting á jafnvægi milli þessara boðefna gæti þess vegna haft áhrif á bólguvirkni í húð.

Þakkir: Styrkt af Rannsóknanámssjóði.

E 86 T-frumur í blóði sórasjúklinga sem svara keratín peptíð­um tjá langflestar húðsæknisameindina cutaneous lymphocyte antigen (CLA)

Andrew Johnston, Jóhann Elí Guðjónsson, Hekla Sigmundsdóttir, Þorvarður T. Löve, Helgi Valdimarsson

Læknadeild HÍ, ónæmisfræðideild Landspítala

andrewj@landspitali.is

Inngangur: Tengslin milli sóra og streptókokkahálsbólgu gefa vísbendingu um hvers konar antigen það er(u) sem T-eitilfrumur eru að bregðast gegn í sóraútbrotum. Það er veruleg samsvörun í amínósýruröðum M-próteina og keratína í húð. Keratín 17 (K17) er nánast ekki til staðar í heilbrigðri húð en er verulega áberandi í sóraútbrotum. Þess vegna er mögulegt að T-frumur sem eru sértækar fyrir og hafa virkjast gegn M-próteinum geti vegna sameindahermunar greint K17 í húð sórasjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Peptíð úr K17 og M6-próteini voru valin með hliðsjón af samsvarandi amínósýruröðum og einnig hversu líkleg þau eru til að bindast HLA-Cw6, en sterk tengsl eru milli HLA-Cw6 og sóra. Fengnir voru til þátttöku í rannsókninni 12 Cw6 jákvæðir, 10 Cw6 neikvæðir sórasjúklingar og 11 viðmið sem eru Cw6 jákvæð en höfðu ekki sóra. Hnattkjarnahvítfrumur, einangraðar úr blóði þátttakenda voru útsettar fyrir samsvarandi K17 og M6 peptíðum og ræsing T-frumnanna metin í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: CD8+ T-frumur Cw6+ sjúklinga sýndu marktæk svör (IFN-? framleiðsla) gegn bæði K17 og M6 peptíðum. Þessi svör voru nánast einskorðuð við CD8+ T-frumur sem tjá húðsæknisameindina CLA. Hins vegar svöruðu CD8+ T-frumur frá heilbrigðum Cw6+ viðmiðum nær einvörðungu M6 peptíðum, þó í minna mæli heldur en sjúklingarnir, svör þeirra við K17 peptíðum voru mjög fátíð og veik. CD8+ T-frumur sórasjúklinganna sem ekki báru Cw6 voru mitt á milli svörunar heilbrigðu viðmiðanna og Cw6+ sjúklinganna. Mjög lítið var um það að CD4+ T-frumur svöruðu K17 peptíðum, enda voru þau valin með hliðsjón af líklegri bindingu þeirra við HLA-Cw6.

Ályktanir: Niðurstöðurnar styðja þá tilgátu að sóri sé sjálfsofnæmissjúkdómur sem beinist gegn antigenum sem eru til staðar bæði í M-próteinum streptókokka og kreatíni sem er yfirtjáð í útbrotum sórasjúklinga.

Þakkir: Styrkt af Evrópusambandinu.

E 87 UVB ljósböðun örvar hnattkjarnahvítfrumur í blóði til að framleiða meira af bólguhamlandi en minna af bólgu­hvetjandi boðefnum (cytókínum)

Hekla Sigmundsdóttir, Andrew Johnston, Jóhann Elí Guðjónsson, Helgi Valdimarsson

Læknadeild HÍ, ónæmisfræðideild Landspítala

helgiv@landspitali.is

Inngangur: Sóri (psoriasis) er langvinnur bólgusjúkdómur í húð sem einkennist af offjölgun hornfrumna (keratinocytes), aukinni íferð T-frumna út í húðina og vexti og útvíkkun smáæða í undirhúð. Lyf sem hafa sértæka bælivirkni gegn T-frumum geta eytt sóraútbrotum og bendir það meðal annars til þess að T-frumur gegni lykilhlutverki í meingerð sjúkdómsins. Ýmsar viðloðunar­sameindir eru mikilvægar til að T-frumur geti farið úr blóðrásinni og út í vefi. Flestar T-frumur sem komast út í húðina tjá húðsértæka ratvísisameind (cutaneous lymphocyte-associated antigen, CLA), sem binst E-selektíni á æðaþeli. UVB ljósböð gefast vel í meðhöndlun á sóra. Frumuboðefni (cýtókín) eru mikilvægir stýri­þættir í bólgusjúkdómum, meðal annars í húð.

Efniviður og aðferðir: Hnattkjarnahvítfrumur (PBMC) voru ein­­angr­að­ar úr blóði sórasjúklinga fyrir UVB-meðferð og einni og tveimur vikum eftir að UVB ljósböðunarmeðferð hófst. Frum­urn­ar voru örvaðar með ofurvaka (superantigen) í fjóra daga og venjulegum vökum (antigen) í fimm daga og boðefnaframleiðsla þeirra (IL-1?, IL-2, IL-4, IL-5, IL-6, IL-8, IL-10, IL-12, IFN-?) mæld.

Niðurstöður: UVB ljósböð leiddu til þess að PBMC sórasjúklinganna framleiddu mun meira af bólguhamlandi boðefninu IL-10 en minna af bólguhvetjandi boðefnum eins og IL-1?, IL-6 og IFN-?.

Ályktanir: Vitað er að UVB ljósböð geta komið af stað stýrðum frumudauða. Einnig er vitað að UVB ljósböð örva keratínfrumur til þess að framleiða IL-10 sem getur bælt tjáningu á CLA sem og framleiðslu á bólguhvetjandi boðefnum. Því er líklegt að sá bati sórasjúklinga sem tengist UVB ljósböðum stafi ekki einvörð­ungu af því að ljósböðin eyði T-frumum í húð þeirra, heldur að aukin framleiðsla á bólguhamlandi boðefnum eins og IL-10 geti einnig torveldað útrás eitilfrumna út í húðina og þar með dempað bólguna.

Þakkir: Styrkt af Rannsóknanámssjóði.

E 88 Slímhúðarþol gegn KLH minnkar BSA-miðlaða lið­bólgu í rottum. Vísbending um notkun nándarþols við með­höndl­un bólgusjúkdóma

Jóna Freysdóttir1,2, Ingibjörg Harðardóttir1, Ingibjörg Ólafsdóttir1, Ragnar B. Pálsson1, Íris Hvanndal1, Kolbrún Hrafnkelsdóttir1, Á. Atli Jakobsson1, Birgitta Ásgrímsdóttir1, Friðrika Harðardóttir1, Fífa Konráðsdóttir1, Erla B. Ólafsdóttir1, Valgerður Gylfadóttir1, Sveinbjörn Gizurarson1, Arnór Víkingsson1,2,3

1Lyfjaþróun hf., 2Naturimm ehf., 3gigtardeild Landspítala

jonafreys@simnet.is

Inngangur: Orsök sjálfsofnæmissjúkdóma er talin liggja í óæskilegum ónæmissvörum gegn sjálfssameindum. Ónæmiskerfi slímhúðar hefur þróað með sér kerfi sem bælir möguleg ónæmissvör gegn sameindum og kallast það fyrirbæri slímhúðarþol. Í mörgum dýra­líkönum er hægt að draga úr bólgumyndandi sjálfsofnæmissvari með því að slímhúðarbólusetja dýrin með ónæmisvakanum sem veldur sjúkdómnum. Í mörgum dýralíkönum af sjálfsofnæmi eru dýrin bólusett með ákveðinni sameind sem veldur bólgusvari sem líkist sjálfsofnæmi í mönnum. Hægt er að draga úr bólgusvarinu er slímhúðarþol gegn sameindinni er myndað áður en dýrin eru bólusett. Vandamálið við að nota slíka aðferð í meðhöndlun sjálfsofnæmis í mönnum felst meðal annars í að ónæmisvakinn sem veldur sjálfsofnæminu er ekki þekktur. Ein lausn á því vanda­máli er að mynda slímhúðarþol gegn alls óskyldri sameind og koma síðan sameindinni á bólgustað þannig að bælandi eitil­frumur ræsist þar og dempi bólgufrumurnar með svokölluðu nándarþoli.

Tilgangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort hægt væri að nota slímhúðarþol gegn KLH sameindinni til að bæla BSA-miðlaða liðagigt.

Efniviður og aðferðir: Lewis rottur voru meðhöndlaðar í nef með KLH til að mynda KLH slímhúðarþol. Allar rotturnar voru bólusettar undir húð með BSA sameind og BSA liðbólga síðan framkölluð í vinstri hnjálið þeirra með því að sprauta BSA inn í hann. Saltvatni var sprautað í hægri hnjálið rottnanna til viðmiðunar. Um leið og BSA og saltvatni var sprautað í hnjáliðina var KLH sprautað í liðina.

Niðurstöður: BSA-innsprautun olli liðbólgu í vinstra hnjálið allra rottnanna en mun minni í þeim rottum sem höfðu myndað KLH slímhúðarþol.

Ályktanir: Þetta gefur vonir um að hægt sé að nota nándarþol í meðhöndlun liðagigtar og annarra sjálfsofnæmissjúkdóma þó að sjálfsantigenin séu ekki þekkt.

E 89 Áhrif NSAID á bráða og króníska liðbólgu í rottum

Sigrún L. Sigurðardóttir1,2, Jóna Freysdóttir3, Þóra Víkingsdóttir2, Helgi Valdimarsson1,2, Arnór Víkingsson1,3,4

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Lyfjaþróun hf., 4gigtardeild Landspítala

sigrunls@landspitali.is

Inngangur: Iktsýki (rheumatoid arthritis) einkennist af langvinnum fjölliðabólgum sem geta leitt til liðskemmda. Bólgueyðandi gigtarlyf (NSAID) eru mikið notuð í meðferð á iktsýki. Þó að lyfin dragi úr einkennum sjúklinga, aðallega verkjum, eru áhrif þeirra á langvinnar bólgur ekki vel rannsökuð. Fræðilega gætu þau jafnvel aukið á liðskemmdir. Lyfin hafa einnig umtalsverðar aukaverkanir og því full þörf á að kanna raunveruleg áhrif lyfjanna á langvinnar bólgur í liðagigt.

Efniviður og aðferðir: Framkölluð var vakasértæk liðbólga í hnjáliðum þriggja hópa Lewis kvenrottna. Í líkaninu kemur fyrst fram bráður bólgufasi og síðan langvinn liðbólga. Fyrsti rottuhópurinn fékk ekkert NSAID (viðmiðunarhópur), annar hópurinn fékk NSAID allan tímann, en þriðji fékk NSAID í þrjár vikur fyrir framköllun liðbólgunnar.

Niðurstöður: Í ljós kom að viðvarandi NSAID-gjöf dró verulega úr bráðabólgu en hafði engin áhrif á langvinna liðbólgu. Tímabundin gjöf NSAID fyrir framköllun bráðafasans jók bráðabólguna verulega en hafði ekki áhrif á langvinna liðbólgufasann. Rannsóknum á áhrifum NSAID á liðskemmdir er ekki lokið.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að bólgueyðandi áhrif NSAID lyfja séu takmörkuð við áhrif á bráðar liðbólgur en hafi engin jákvæð áhrif á langvinnar liðbólgur. Þörf er á að endurskoða notkun NSAID lyfja í iktsýki.

E 90 Eiginleikar nýrrar tegundar frumna sem tjá bæði T-frumu sameindina CD3 og B-frumu sameindina CD19

Ragna H. Þorleifsdóttir1, Jóhann E. Guðjónsson2, Hekla Sigmundsdóttir2, Páll H. Möller3, Hannes Petersen4, Helgi Valdimarsson2

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild, 3skurðdeild og 4háls-, nef- og eyrna­deild Landspítala

rhth@hi.is

Inngangur: Að minnsta kosti þrem tegundum CD4+ og CD8+ bælifrumna hefur verið lýst sem annaðhvort miðla bælingu með beinum frumutengslum eða með seytingu bælandi cýtókína. Rannsókn okkar á húðsæknieiginleikum eitilfrumna í kokeitlum leiddi í ljós nýja tegund eitilfrumna sem virðast hafa ákveðin sérkenni bæði T- og B- frumna að því leyti að þær tjá bæði CD3 og CD19.

Efniviður og aðferðir: Eitilfrumur voru einangraðar úr kokeitlum og blóði einstaklinga, sem fóru í kokeitlatöku vegna endurtekinnar hálsbólgu, og kviðarholseitlum frá einstaklingum sem fóru í aðgerð á kviðarholi. Frumurnar voru litaðar með einstofna mótefnum og skoðaðar í frumuflæðisjá. CD3+CD19+ frumur voru auk þess einangraðar með CD2 og CD19 segulkúlum.

Niðurstöður: CD3+CD19+ frumur voru um 10% eitilfrumna í kokeitlum en aðeins um 1% eitilfrumna í blóði. Tíðni þeirra í óbólgnum kviðarholseitlum var um 5% en há tíðni frumnanna fannst í þremur bólgnum kviðarholseitlum. Auk CD3 og CD19, tjá >90% þeirra CD4, CD2, ??-viðtakann, ICAM, CD5, HLA-DR og CD20. Þessar frumur svara lítið eða ekki PHA og anti-CD3 en þær svara PWM. Svarleysið er hægt að upphefja að vissu marki með IL-2. CD3+CD19+ frumurnar bældu frumufjölgun eitilfrumna úr blóði eftir örvun með PHA, anti-CD3 eða PWM í hlutföllunum 4:1 eða 8:1 (eitilfrumur úr blóði:bælifrumur), sem hélst þótt CD25+ og CD8+ frumur væru fjarlægðar úr CD3+CD19+ hópnum. Auk þess hélst bælingin þrátt fyrir að himna aðskildi frumurnar. Þegar CD3+CD19+ frumurnar voru einangraðar með CD4 og CD19 segulkúlum greindist lítil bæling. Hins vegar kom fram bæling þegar eitilfrumur úr blóði voru ræktaðar með CD2 kúlum eða anti-CD2 mótefnum.

Ályktanir: Það er ekki vitað hvernig CD3+CD19+ frumurnar miðla bælingu sinni en þær virðast þurfa örvun á CD2 viðtakanum. Hátt hlutfall þeirra í bólgnum kviðarholseitlum bendir til hlutverks í bólgu.

E 91 Eru ávaxtasafar verri en gosdrykkir fyrir glerung tanna?

Þorbjörg Jensdóttir1,2,3, Anni Rasch2, Birgitte Nauntofte1, W. Peter Hol­brook3, Allan Bardow1

1Afdeling for Oral Medicin, Københavns Universitet, Kaupmannahöfn, 2TOMS Group A/S, Ballerup, Danmörk, 3tannlæknadeild HÍ

tje@odont.ku.dk

Inngangur: Rannsóknir á rannsóknastofum hafa sýnt að ávaxtasafar hafi verri áhrif á glerung tanna en gosdrykkir, á meðan bæði klínískar og faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á hið gagnstæða. Þetta ósamræmi bendir til þess að núverandi aðferðir sem notaðar eru á rannsóknastofum séu ekki nægilega nákvæmar og meti ekki hin eiginlegu glerungseyðandi áhrif drykkja í munnholi. Markmiðið var því að þróa nýja aðferð á rannsóknastofu sem að mæti glerungseyðandi áhrif drykkja í munnholi.

Efniviður og aðferðir: Úrval ávaxtasafa og gosdrykkja á íslenskum og dönskum markaði voru notaðir. Sýrustig hvers drykkjar og 50 ml drykkjarsýni voru mæld og títreruð upp að meðaltals krítísku sýrustigi munns, pH 5,5. 50 ml drykkjarsýni voru mæld á nýjan leik og 50 mg af hreinum hýdroxíðapatít (HAP) kristölum voru settir í hvert sýni. Hækkun sýrustigs drykkjanna endurspeglaði upplausn HAP kristalanna í drykkjunum, en hækkun pH gildis var skráð á 15 sekúndna millibili í þrjár mínútur eftir að kristalarnir voru settir í drykkina. Glerungseyðandi áhrif drykkjanna (EP) voru skilgreind sem upplausnarhraði HAP kristalanna. Þetta ferli var endurtekið með 7 mg af munnvatnsprótínum (140 µg prótín fyrir hvert mg HAP). Prótínin voru sett í drykkina augnabliki áður en kristalarnir voru settir í drykkina.

Niðurstöður: Glerungseyðandi áhrif gosdrykkja voru að jafnaði tvisvar sinnum meiri en hjá ávaxtasöfum. Marktækt, neikvætt samband fannst á milli glerungseyðandi áhrifa allra drykkja og sýrustigs drykkjanna (rs=-0,96; p<0,001). Ekkert marktækt samband fannst á milli glerungseyðandi áhrifa drykkja og magns basa til hlutleysingar. Munnvatnsprótín drógu marktækt meira úr glerungseyðandi áhrifum gosdrykkja en ávaxtasafa.

Ályktanir: Þessi nýja aðferð styður klínískar og faraldsfræðilegar rannsóknir sem benda til þess að gosdrykkir séu marktækt meira glerungseyðandi en ávaxtasafar. Einnig sýndi rannsóknin að sýrustig drykkja er betri mælikvarði á glerungseyðandi áhrif drykkja en magn basa til hlutleysingar.

E 92 Klínísk rannsókn á glerungseyðingu og tengdum áhættuþáttum

W. Peter Holbrook1, Jussi Furuholm2, Kristján G. Guðmundsson3, Ásgeir Theodórs3, Jukka H. Meurman2

1Tannlæknadeild HÍ, 2University of Helsinki, Finnlandi, 3Landspítali

phol@hi.is

Inngangur: Eftir frumskoðun á 150 sjúklingum var þróuð stöðluð aðferð til skoðunar á sjúklingum með glerungseyðingu. Alls 249 nýir sjúklingar voru skoðaðir með það að markmiði að meta áhættuþætti glerungseyðingar.

Efniviður og aðferðir: Glerungseyðing var skráð sérstaklega fyrir framtennur og jaxla og skráð sem mikil ef eyðing náði inn í dentín, en lítil ef eyðing var aðeins í glerungi. Gögnum var safnað um neyslu súrra drykkja, munnvatnsflæði, pH og buffer virkni. Vélinda var speglað og fylgst með pH í vélinda í 24 klukkustundir og bakflæði, þindarslit og viðvera Helicobacter tegunda var skráð.

Niðurstöður: Marktæk tengsl fundust milli mikillar glerungseyðingar á jöxlum (24 sjúklingar) og að minnsta kosti eins af þáttum sem bentu til bakflæðissjúkdóms (OR 1,58; p<0,001). Marktæk tengsl fundust einnig milli glerungseyðingar á framtönnum (mikil = 72 sjúklingar) og bakflæðis (OR 1,33; p<0,005). Neysla á >0,5 l af súrum drykkjum á dag benti til glerungseyðingar. Engin tengsl fundust milli neyslu drykkja og glerungseyðingar á jöxlum, en marktæk tengsl fundust við mikla eyðingu á framtönnum (OR 3,17; p<0,001). Eiginleikar munnvatns voru minna tengdir glerungseyðingu, að frátöldu lágri buffer virkni munnvatns sem var tengd mikilli eyðingu á framtönnum (kí-kvaðrat=6,57; p<0,05).

Ályktanir: Glerungseyðing er fjölþættur sjúkdómur sem hefur áhrif á bæði framtennur og jaxla. Víxlverkun milli orsakaþátta og varnarkerfa munnholsins eru flókin og hefur enn ekki verið lýst á fullnægjandi hátt til að útskýra dreifingu og alvarleika glerungseyðingar sem sjást í kínískri skoðun.

E 93 Klínískt mat á áhrifum tveggja tannbindiefna á við­kvæmni í jöxlum eftir ísetningu komposit fyllinga

Sigfús Þór Elíasson, Svend Richter

Tannlækningastofnun, tannlæknadeild HÍ

sigfuse@hi.is

Inngangur: Sjálfætandi (self etching) tannbindiefni eru talin hindra betur viðkvæmni við hitabreytingar og tyggingu eftir ísetn­ingu fyll­inga en þegar tannbeinið er heilætað með fosfórsýru (to­tal etching). Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta rétt­mæti þess­arar kenningar við venjulegar klínískar aðstæður á tann­lækn­inga­stofu.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem leituðu á einkatannlækningastofu og þurftu I. og II. klassa fyllingar í jaxla voru valdir. Settar voru 30 komposit fyllingar þar sem sjálfætandi bindiefni (Adper Promt L-Pop, 3M Espe) var notað og 30 fyllingar þar sem preparationin var öll ætuð með 35% fosforsýrugeli áður en bindiefni (Adper Scotchbond 1 XT, 3M Espe) var borið á. Skornar voru hefðbundnar preparationir og þær einungis nýttar sem höfðu allar brúnir í glerungi. Jaxlarnir voru allir fylltir með sama komposit fyllingarefni (Supreme, 3M Espe). Sjúklingar voru spurðir eftir eina viku og aftur eftir 6-8 mánuði frá ísetningu, hvort þeir hafi fundið fyrir óþægindum. Ef svarið var já voru þeir beðnir að lýsa því nánar.

Helstu niðurstöður: Enginn tölfræðilegur munur var milli hópanna, hvorki eftir viku né 6-8 mánuði. Fjórir sjúklingar, tveir úr hvorum hópi, kvörtuðu um einhverja viðkvæmni eftir viku. Ein fyllinganna, sem var úr sjálfætingarhópnum, reyndist greinilega of há og var lagfærð. Við 6-8 mánaða skoðun sagðist einn úr hvorum hópi öðru hverju verða viðkvæmur. Voru það ekki þeir sömu og höfðu kvartað í upphafi.

Ályktanir: Viðkvæmni var mjög sjaldgæf eftir notkun beggja þessara tannbindiefna. Viðkvæmni fer hugsanlega eftir klínískri reynslu og aðferð við ísetningu fyllinga fremur en tegund tannbindiefnis.

E 94 Áhrif brottfalls á langtímarannsóknir á tannheilsu og lífsstíl íslenskra unglinga

Inga B. Árnadóttir, W. Peter Holbrook, Sigurður Rúnar Sæmundsson

Tannlæknadeild HÍ

iarnad@hi.is

Inngangur: Mat á brottfalli úr langtímarannsókn á tannátu og lífsstíl tengdum tannátu meðal unglinga.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak 150 14 ára einstaklinga sem búsettir voru til sjávar, sveita og í borg. Árið 1994 voru þáttakendur skoðaðir með tilliti til tannátu og áhættuþættir tannátu voru metnir með spurningalistum. Úrtakinu var fylgt eftir árið 1996 og 2000 og brottfall einstaklinga metið og greint.

Niðurstöður: Meðalaukning tannátu frá 14-16 ára var 2,4 (sd 4,8; n=123) skemmdir fletir, en 4,46 (sd 5,6; n =51) frá 16-20 ára. Hlutfall af einstaklingum án tannátu við 14, 16 og 20 ára var 29,0%, 20,0% og 11,6%.

Brottfall var 18% frá 14 ára aldrinum til 16 ára aldurs, 59% frá 16 til 20 ára og 66% brottfall alls frá 14-20 ára. Við greiningu á brottfalli árið 2000 kom í ljós að flestir brottfallnir voru búsettir í sjávarþorpi en fæstir bjuggu í sveit (47,4%; p<0,02). Brottfallnir árið 2000 komu sjaldnar til tannlæknis árið 1996 en þátttakendur gerðu (p<0,02) og brottfallnir voru með tíðari sykurneyslu (p<0,05). Brottfallnir höfðu líka hærri tannátutíðni við 16 ára aldurinn, mean DFS hjá brottföllnum var 8,6 (9,4) en 5,5 (8,6) hjá þátttakendum.

Ályktanir: Einstaklingum án tannátu fækkar hratt frá fjórtán ára til tvítugs og tannáta eykst um >1 flöt á ári. Brottfall úr þessari langtímarannsókn tengist tannátu, en slík tenging veldur valskekkju (selection bias). Brottfallnir eru líklegri til að búa í þeim byggðum þar sem tannátutíðni er há, líklegri til að hafa aukna tíðni tannátu í byrjun rannsóknarinnar, líklegri til að fara sjaldnar til tannlæknis og líklegri til að neyta oftar sætinda. Þetta leiðir til þess að valskekkjan er líkleg til að valda vanmati á tannátutíðni og nýgengi tannátu.

E 95 Bakteríurnar Prevotella intermedia/nigrescens og tengsl þeirra við þungunartannholdsbólgu (pregnancy gingi­vitis)

Gunnsteinn Haraldsson1, Mervi Latva-aho2, W. Peter Holbrook1, Eija Könönen2

1Tannlæknadeild HÍ, 2National Public Health Institute (KTL) Helsinki, Finnlandi

gah@hi.is

Inngangur: Hormónabreytingar á meðgöngu hafa áhrif á góm og tannhold. Bacteroides intermedius var áður tengd þungunartannholdsbólgu (pregnancy gingivitis), en tegundinni var skipt í tvær svipfarslega eins tegundir Prevotella intermedia (Pi) og Prevotella nigrescens (Pn), sem engöngu er hægt að aðskilja með sameinda­fræðilegum aðferðum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort aðeins P. intermedia eða P. nigrescens eða þær báðar, eiga þátt í breytingu örveruflórunnar sem verður við þungun.

Efniviður og aðferðir: Samtals 300 stofnar, úr tannholdi og munnvatni 15 heilbrigðra, reyklausra, þungaðra kvenna (aldur 24-34 ár; meðaltal 28,7 ár) við 12-14, 25-27, og/eða 34-38 vikna meðgöngu, og/eða 4-6 vikum eftir fæðingu, voru greindir sem Pi/Pn með svipfarsprófum (brúnir, gram-neikvæðir, stuttir stafir, lipasa og indole jákvæðir). Stofnarnir voru svo frekar greindir með tegunda­sérvirkum PCR prímerum, fyrir Pi (PI3 5?-3? CCC GAT GTT GTC CAC ATA TGG og PI4 5?-3? GCA TAC GTT GCG TGC ACT CAA G) og Pn (PN1-kort 5?-3? TTG AGT ACA CGC AGC GCA GGC G og PN3 5?-3? CCC GAT GGC AAC TGG GAA AGG). Tuttugu viðmiðunarstofnar voru notaðir til að staðfesta tegundasérvirkni prímeranna.

Niðurstöður: Allir viðmiðunarstofnarnir (Pi=14, Pn=6) voru rétt greindir með PCR aðferðinni. Að meðaltali var 8,1 klínískur stofn greindur úr hverju sýni. Þrátt fyrir að allar konur hefðu einkenni þungunartannholdsbólgu fannst Pi ekki, en 292 af 300 stofnum reyndust vera Pn og 8 stofnar greindust ekki til tegundar með PCR aðferðinni.

Ályktanir: Rannsókn okkar sýndi að tannhold þungaðra kvenna var nokkuð heilbrigt og staðfesti fyrri niðurstöður um að Pn er algeng í heilbrigðu tannholdi ungra kvenna og að Pi finnst ekki. Pn virðist tengjast þungunartannholdsbólgu.

E 96 Rannsókn mannleifa úr fornleifauppgreftri á Skelja­stöðum í Þjórsárdal

Svend Richter, Sigfús Þór Elíasson, Sigurjón Arnlaugsson

Tannlækningastofnun, Tannlæknadeild Háskóla Íslands

svend@simnet.is

Inngangur: Á Skeljastöðum í Þjórsárdal fóru fram fornleifarannsóknir 1931 og 1939. Grafnar voru upp beinagrindur 66 manna. Aldur mannleifanna byggist á aldursgreiningu gosösku úr Heklu frá 1104 sem aflagði byggð í Þjórsárdal. Jón Steffensen, sem gerði merkar mannfræðirannsóknir á Skeljastaðaþýðinu, telur að um sé að ræða beinagrindur af fimm kornabörnum, tveimur börnum og 59 fullvöxnum mönnum.

Efniviður og aðferðir: Hæf til mælinga var 51 höfuðkúpa. Við aldursákvörðun voru notaðar sex aðferðir byggðar á þroska tanna og ein á lokun beinsauma kúpu. Kyngreining fullorðinna byggðist á kyneinkennum kúpu, kjálka og í einstaka tilfellum pelvis. Skráð var slit á tönnum, fjarlægð frá glerungsbrún að kjálkabeini, beingarðar, áverkar og sjúklegar breytingar.

Niðurstöður: Í hópnum reyndust þrír einstaklingar vera ?17 ára, tveir 18-20, ellefu 26-35, 29 voru 36-45 ára og sex ?46 ára. Þrettán reyndust vera konur, átta sennilega konur, 17 karlar, fjórir sennilega karlar og sjö með óþekkt kynferði. Af 915 tönnum í 49 einstaklingum var meðaltannslit 1,9 þar sem 0 merkir ekkert slit, 1 slit í glerungi, 2 í tannbeini og 3 inn í kvikuhol. Tíðni torus palatinus var 41% og torus mandibularis 51%. Enginn kynjamunur var á tíðni beingarða. Fjarlægð frá glerungsbrún að kjálkabeini var almennt mikil og jókst eftir aldri.

Ályktanir: Niðurstöður á aldri og kynferði eru nánast þær sömu og Jón Steffensen og Hildur Gestsdóttir fengu í rannsóknum sínum. Nokkur munur reyndist milli rannsóknaraðferða. Mikið tannslit kann að skýrast af mataræði. Tíðni torus mandibularis og palatinus reyndist nokkuð lægri en niðurstöður rannsókna annarra, en mun algengari en nú á dögum. Óvarlegt er að álykta að mikil fjarlægð frá glerungsbrún að kjálkabeini (beintap) stafi eingöngu af tannvegssjúkdómum. Hluta skýringar er að leita í eruption tanna við tannslit.

E 97 Breytingar á sjónlagi í einstaklingum 50 ára og eldri á fimm ára tímabili. Reykjavíkuraugnrannsókn

Elínborg Guðmundsdóttir1, Ársæll Arnarsson1, Friðbert Jónasson1, Hiroshi Sasaki2, Kazuyuki Sasaki2

1Augndeild Landspítala, 2augndeild Kanazawa Medical University, Uchi­n­ada, Japan

elinbgud@landspitali.is

Inngangur: Reykjavíkuraugnrannsókn er viðamikil rannsókn á augnheilsu einstaklinga 50 ára og eldri og fylgst er með breytingum á fimm ára tímabili. Í þessum hluta rannsóknarinnar eru skoðaðar breytingar á sjónlagi á þessum fimm árum hjá einstaklingum 50 ár og eldri.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarhópurinn var slembiúrtak úr þjóðskrá 1700 einstaklinga í Reykjavík 50 ára og eldri. Þeir gengust undir ítarlega augnskoðun 1996 og aftur 2001. Af 1379 einstaklingum sem náðist í 1996 komu 1045 til skoðunar og fimm árum síðar mættu 846 þeirra aftur til ítarlegrar skoðunar. Sjónlag var mælt með Nidek ARK 900 sjálfvirkum sjónlagsmæli. Teknar voru myndir af augasteini með sk. Scheimflug tækni og skoðað hvort ský væri til staðar. Lengd augans var mæld með Nidek Echoscan 800.

Niðurstöður: Niðurstöður eru kynntar fyrir hægra auga. Í aldurshópnum 50-59 ára og 60-69 ára varð aukning á fjærsýni um 0,41 Dioptríu og 0,34 Dioptriur á þessu fimm ára tímabili. Í einstaklingum 70 ára og eldri varð væg aukning á nærsýni um 0,02 Dioptríur. Í einstaklingum sem höfðu ský á augasteini af gráðu 2 og 3 við grunnskoðun varð aukning á nærsýni um 0,65 Dioptríur. Kyn, menntun, reykingar, hornhimnuþykkt, hæð eða BMI höfðu ekki marktæk áhrif á breytingarnar. Á þessu fimm ára tímabili varð aukn­ing á sjónskekkju á móti reglunni um 0,13 Díoptríur.

Ályktanir: Hjá einstaklingum 50-70 ára fer fjærsýni vaxandi með aldri en eftir 70 ára aldur verður vart dálítillar minnkunar á fjærsýni. Ský á augasteini hefur marktæk áhrif á þessar breytingar og hjá einstaklingum með ský af gráðu 2 og 3 við grunnrannsókn sást talsverð minnkun á fjærsýni (aukning á nærsýni). Breyting varð á sjónskekkju með aldri í átt að á móti reglunni.

E 98 Á Íslandi er þurr ellihrörnun ríkjandi lokastig og vota tegundin mun sjaldgæfari. Augnrannsókn Reykjavíkur

Friðbert Jónasson1, Ársæll Arnarsson1, Þórður Sverrisson1, Einar Stefáns­son1, Haraldur Sigurðsson1, Ingimundur Gíslason1, Alan C. Bird2

1Augndeild Landspítala, 2Moorfields augnsjúkrahúsið í London

fridbert@landspitali.is

Inngangur: Við rannsökuðum aldurs- og kynbundið algengi og fimm ára nýgengi ellihrörnunar í augnbotnum Reykvíkinga sem voru 50 ára og eldri við upphaf rannsóknar.

Efniviður og aðferðir: Við notuðum slembiúrtak úr þjóðskrá, sama hlutfall fyrir hvern árgang og hvort kyn. Eitt þúsund fjöru­tíu og fimm einstaklingar voru rannsakaðir 1996, það er svarhlutfall 75,8% og af þeim sem enn lifðu árið 2001 voru 88,2% skoðuð aftur. Við tókum þrívíddarmyndir af augnbotnum. Lesið var úr myndum á Moorfields augnsjúkrahúsinu í London og við notuðum alþjóðlega flokkunar- og stigunarkerfið fyrir elli­hrörnun í augnbotnum til að flokka eftir tegundum og til að stiga breytingar.

Helstu niðurstöður: Algengi þurrar ellihrörnunar á lokastigi á þátttakendum 70 ára og eldri var 9,2% (95% CI 5,6-12,7) og sömu tölur fyrir vota ellihrörnun voru 2,3% (95% CI 0,5-4,1). Fimm ára nýgengi fyrir þá sem voru 70-79 ára við fyrri skoðun var 4,4% (95% CI 0,9-7,9) fyrir þurrar lokastigsbreytingar ellihrörnunar og 0,0% fyrir votu tegundina.

Ályktanir: Þurra lokastigsform ellihrörnunar er mun algengari á Íslandi en meðal annarra hvítra þjóða og vota tegundin er öllu sjaldgæfari en annars staðar.

E 99 Súrefnismettun í sjónhimnu við breytilegt hlutfall súr­efnis í innöndunarlofti

Sveinn Hákon Harðarson1, Gunnar Már Zoëga3, Gísli Hreinn Halldórsson2, Róbert Arnar Karlsson2, Aðalbjörn Þorsteinsson4, Þór Eysteinsson1,3, Jón Atli Benediktsson2, Einar Stefánsson1,3

1Læknadeild og 2verkfræðideild HÍ, 3augndeild og 4svæfingadeild Landspítala

einarste@landspitali.is

Inngangur: Prófaður var tækjabúnaður til að mælingar á súefnismettun í blóðrauða í augnbotnum. Tækið reiknar ljósþéttnihlutfall (ODR) í æðum en ODR lækkar með aukinni súrefnismettun blóðrauða. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tækja­búnaðurinn getur numið breytingar á ODR ef hlutfall súrefnis í innöndunarlofti breytist.

Efniviður og aðferðir: Tækið er augnbotnamyndavél með fjórum ljóssíum og stafrænum skynjara. Það sýnir augnbotninn í ljósi fjögurra bylgjulengda. Tölvuforrit reiknar ODR út frá myndunum. Heilbrigðir sjálfboðaliðar önduðu að sér andrúmslofti (n=5) eða lofti með lækkuðu (n=4) eða hækkuðu (n=5) súrefnishlutfalli. Súrefnismettun blóðrauða í slagæðablóði var mæld með mettunarmæli á fingri. Parað t-próf var notað til að bera saman ODR við mismunandi súrefnisstyrk í innöndunarlofti.

Niðurstöður: Samkvæmt fingurmæli lækkaði mettun blóðrauða niður í 89+/-4% (meðaltal+/-staðalfrávik) þegar súrefnishlutfall í innöndunarlofti var lækkað. Mettun var 99-100% þegar súrefnishlutfall var hækkað. Í slagæðlingum sjónhimnu mældist ODR(558/586) 0,13 (0,03 til 0,24) (meðaltal og 95% öryggisbil) lægra við innöndun andrúmslofts en súrefnisskerts lofts (ómarktækur munur á ODR605/586). Í bláæðlingum sjónhimnu reyndist ODR(605/586) 0,17 (0,12 til 0,22) hærra við innöndun andrúmslofts en súrefnisbætts lofts. ODR(605/586) var 0,02 (0,04 til -0,002, ekki marktækt) lægra í bláæðlingum við innöndun andrúmslofts en súrefnisskerts lofts. Við innöndun andrúmslofts var ODR(605/586) 0,37 (0,19 til 0,55) lægra í slagæðlingum en bláæðlingum.

Ályktanir: Tækjabúnaðurinn getur greint mun á ODR við breytilegt súrefnishlutfall í innöndunarlofti og mun á slagæðlingum og bláæðlingum við innöndun andrúmslofts.

E 100 Indómetacín lækkar súrefnisþrýsting sjóntaugar og dregur úr áhrifum koltvísýrings og hömlun kolanhýdrasa á þrýstinginn

Þór Eysteinsson1,2, Daniella Bach Pedersen3, Jens F. Kiilgaard3, Morten la Cour3, Kurt Bang3, Peter K. Jensen3, Einar Stefánsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2augndeild Landspítala, 3augndeild Kaupmannahafnar­há­skóla

thore@landspitali.is

Inngangur: Innöndun koltvísýrings og hömlun kolanhýdrasa auka súrefnisþrýsting (ONPO2) í sjóntaug og sjónhimnu. Til að kanna nánar þátt prostaglandína í stjórn ONPO2 var skoðað hver áhrif cýkló-oxygenasa-hamlarans indómetacíns væru á ONPO2. Jafnframt voru áhrif indómetacíns á aukingu ONPO2 við innöndun CO2 og hömlun kolanhýdrasa skoðuð í svínum.

Efniviður og aðferðir: ONPO2 var mældur í 11 svínum með pólargrafískum súrefnisskautum. Oddur rafskautsins var staðsettur í 0,5 mm fjarlægð frá sjóntaugarósi. Áhrif indómetacín inngjafar í bláæð, innöndunar CO2 (3%) fyrir og eftir indómetacín inngjöf, og áhrif kolanhýdrasa hamlara með eða án indómetacín inngjafar voru fyrst skoðuð.

Niðurstöður: Inngjöf 300 mg af indómetacíni lækkaði ONPO2 marktækt. Hömlun kolanhýdrasa og innöndun CO2 jók ONPO2 marktækt. Eftir inngjöf indómetacíns var hækkun ONPO2 sem kolanhýdrasa-hömlun og innöndun CO2 valda marktækt lækkuð.

Ályktanir: Inngjafir indómetacíns lækka súrefnisþrýsting sjóntaugar, sem er líklega vegna lækkunar í blóðflæði er orsakast af samdrætti æða í sjóntaug. Að auki dregur indómetacín úr aukn­ingu ONPO2 vegna innöndunar CO2 og hömlunar kolanhýdrasa, og virðist því verka á stjórnun æðavíddar í sjóntaug.

E 101 Þáttur adrenergra viðtaka í stjórnun blóðflæðis í sjón­himnu

Svanborg Gísladóttir, Þór Eysteinsson, Stefán B. Sigurðsson

Lífeðlisfræðistofnun læknadeildar HÍ

stefsig@hi.is

Inngangur: Ein aðalorsök ólæknandi blindu er augnsjúkdómurinn gláka. Einkenni sjúkdómsins er sívaxandi dauði sjóntaugafrumna sem ekki er hægt að bæta upp og leiðir það til stöðugt minnkandi næmi sjónhimnunnar. Oftast mælist hækkaður augnþrýstingur sam­fara sjúkdómnum og hefur það yfirleitt verið talin orsök hans. Nýlegar rannsóknir benda þó til að minnkað blóðflæði til sjónhimnu og/eða sjóntaugar geti verið einn af orsakavöldum sjúkdómsins. Minnkunin gæti stafað af auknum augnþrýstingi og/eða þrengingu æða sem flytja súrefni/næringu til taugafrumna sjónhimnunnar.

Efniviður og aðferðir: Rannsókn okkar snýr að blóðflæðiþætti sjúkdómsins með aðaláherslu á hlutverki adrenerga viðtaka í sléttum vöðvum æða í sjónhimnu. Notuð er sérhæfð tækni svo­kölluð "small vessel myography" til að mæla þrengingu/víkkun æða. Notaðar eru æðar (retinal arteries) úr augnbotni kýrauga.

Niðurstöður: Rannsökuð hafa verið áhrif noradrenalíns (a og B virkjari) sem veldur kröftugum samdrætti í sléttum vöðvum í veggjum æðanna. Fæst fram lágmarkssvörun í styrknum 10-8 M en hámarkssvörun í styrknum 10-5 M. Sértækir B virkjarar gáfu enga marktæka svörun (ísóproterenól, terbútalín og rídodrín). Nærvera ósértækra B hindra (própranólól og tímólól) leiddu að meðaltali til 60% slökunar á samdráttarsvari noradrenalíns. Ósértækur B hindri (fentólamín) gaf að meðaltali 80% slökun.

Ályktanir: Ofangreindar niðurstöður benda til að ? viðtakar séu ekki til staðar í sléttum vöðvafrumum sjónhimnuæða. Einnig að sú slökun sem B hindrar orsaka komi fram í gegnum einhvern annan mekanisma heldur en hindrun B viðtaka. Álitið er að þeir geti dregið úr virkni Ca+ ganga. Þar sem B hindri veldur mikilli slökun á noradrenalínsvari bendir það til að noradrenalín valdi samdrætti í æðum í gegnum B viðtaka. Frekari rannsókna er þörf til að kanna sértæka B virkjara og sértæka B hindra.

E 102 Áhrif mónókapríns og hjálparefna á eiginleika karbo­mer­hlaupa

Þórunn Ó. Þorgeirsdóttir1, Anna-Lena Kjöniksen2, Kenneth D. Knudsen3, Þórdís Kristmundsdóttir1, Bo Nyström2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Dept. of Chemistry Oslóarháskóla, 3Dept. of Physics Institute for Energy Transfer, Noregi

thordisk@hi.is

Inngangur: Vatnssækin hlaup þykja heppileg lyfjaform til lyfja­gjafar á húð og slímhúð. Hlaup eru gerð úr fjölliðum sem loða vel við slímhimnur en sá eiginleiki leyfir ekki einungis betri snertingu við vefinn sem bætir frásogið til muna heldur einnig mun lengri viðveru hlaupsins á frásogsstað. Þær fjölliður sem einna algengast er að nota í vatnssækin hlaup eru karbomerar en það eru akrýl­sýrufjölliður sem eru krosstengdar með allýlsúkrósu. Markmið verkefnisins var að kanna áhrif mónóglýseríðsins mónókapríns svo og hjálparefna, á seigju og teygjanleika karbomerhlaupa.

Efniviður og aðferðir: Framleidd voru hlaup úr karbomer (Carbo­pol 974P®) en breyturnar við samsetningu hlaupanna voru: magn mónókapríns, tegund yfirborðsvirks efnis og sýrustig hlaupsins en það var stillt á bilinu 4 til 7. Áhrif þessara breytna á eiginleika hlaupanna voru könnuð með oscillatory shear, seigjustigs- og SANS (small angle neutron scattering) mælingum.

Niðurstöður: Hækkun á pH gildi frá 4 til 5-7 hafði mikil áhrif á seigju og teygjanleika hlaupsins. Við pH 4 hafði magn mónókapríns svo og yfirborðsvirka efnið töluverð áhrif á byggingu hlaupsins og þar með á seigju og teygjanleika þess en áhrifin voru minni við hærra pH. Niðurstöður benda til þess að við pH 4 myndi fjölliðan þéttari tengsl en að við hærra sýrustig sé minni tilhneiging til tengslamyndunar vegna jónunar fjölliðunnar.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að við lágt pH eru áhrif mónó­kapríns svo og hjálparefna á eiginleika hlaupanna mun meiri heldur en við hærra pH.

E 103 Mannan bindilektín bindur lágþéttni lípóprótein

Katrín Þórarinsdóttir1, Sædís Sævarsdóttir1,2, Þóra Víkingsdóttir2, Bergljót Magnadóttir3, Arna Guðmundsdóttir4, Helgi Valdimarsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Rannsóknastofa HÍ í meinafræði, 4lyflækningadeild Landspítala

saedis@landspitali.is

Inngangur: Niðurstöður úr Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar benda til að sermispróteinið mannan bindilektín (MBL) verndi sjúklinga með sykursýki eða hátt kólesteról fyrir kransæðastíflu. Lágþéttni lípóprótein (low-density lipoprotein, LDL) þessara sjúklinga er gjarnan umbreytt, þannig að sykrur sem MBL bindur vel verða aðgengilegri. MBL er sermisprótein og stuðlar að út­rýmingu sumra sýkla og óeðlilegra sjálfsagna. Tilgátan er sú að MBL hjálpi við hreinsun umbreytts LDL úr blóði, einkum í sykursjúkum.

Efniviður og aðferðir: Aðferðafræði var þróuð til að meta bind­ingu MBL við LDL. Átján sjúklingar með slæma sykursýki (HbA1c>8,5) eldri en 35 ára voru paraðir fyrir kólesterólmagni, aldri og kyni við 18 einstaklinga af hjartaþræðingadeild. Upplýsingar um sykursýki og fylgikvilla hennar, hjartasjúkdóma og áhættuþætti þeirra, þyngd og kólesteról voru fengnar með spurningalista og úr sjúkraskrám auk þess sem teknir voru 40 mL af bláæðablóði. ELISA plötur voru húðaðar með LDL einangruðu úr sermi. MBL var sett ofan á og binding þess við LDL athuguð. Einnig var binding MBL við oxað LDL athuguð með sértækum mótefnum gegn oxuðu LDL.

Niðurstöður: MBL batt LDL in vitro. Þetta var staðfest í rannsóknarhópunum þar sem MBL í fýsíólógískum styrk batt LDL allra þátttakenda við pH 7,4 og var bindingin í réttu hlutfalli við MBL styrk. Hins vegar bast MBL jafnvel við LDL sykursjúkra og viðmiða.

Ályktanir: MBL bindur LDL. MBL gæti þannig verndað gegn kransæðastíflu með því að hjálpa til við hreinsun á blóðfitum.

Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og Vísindasjóði Landspítala.

E 104 Getur mannan bindilektín gagnast við áhættumat á kransæðastíflu?

Sædís Sævarsdóttir1,2, Óskar Örn Óskarsson2, Thor Aspelund3, Þóra Vík­ingsdóttir2, Guðný Eiríksdóttir3, Vilmundur Guðnason1,3, Helgi Valdi­mars­son1,2

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild LSH, 3Hjartavernd

saedis@landspitali.is

Inngangur: Mannan bindilektín (MBL) er sermisprótein sem getur hjálpað við hreinsun bólguvaldandi agna úr líkamanum. Lágur styrkur MBL er algengur, erfðafræðilega vel skilgreindur og virðist geta stuðlað að sýkingum, langvinnum bólgusjúkdómum og æðakölkun. Bólguvirkni er talin auka áhættu á kransæða­stíflu (myocardial infarction, MI) en forspárgildi MBL magns fyrir MI hefur ekki verið athugað áður.

Efniviður og aðferðir: Tveir tilfellaviðmiða hópar, annars vegar þversniðshópur eldri einstaklinga (457 með sögu um MI og 530 viðmið) og hins vegar framvirkur hópur (867 sem síðar fengu MI og 442 viðmið) voru valdir af handahófi úr hópi 19.381 þátttakanda í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar, þýði sem fylgt hefur verið eftir frá árinu 1967. MBL styrkur þeirra var mældur í sýnum sem tekin voru við inngöngu í rannsóknina og athugaður bæði sem samfelld og tvíþátta með fjölþátta aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Langtímastöðugleiki MBL styrks var mjög góður (fylgnistuðull 0,86). Hátt MBL (yfir 1000 ?g/L) tengdist lægri tíðni MI í þversniðshópnum (áhættustuðull (OR) 0,64; p<0,001). Hátt MBL tengdist einnig lægri tíðni MI í framvirka hópnum, en áhættuminnkunin var ekki marktæk hjá heildarhópnum, einstaklingum með sögu um háþrýsting eða reykingar. Áhættan á MI var hins vegar, eins og í þversniðshópnum, verulega minnkuð hjá einstaklingum með sykursýki (0,15; p=0,02) og kólesterólhækkun (0,26; p=0,004) sem höfðu hátt MBL. Sama gilti um sökkhækkun (0,27; p=0,007). Sykursjúkir sem höfðu hátt MBL voru ekki í meiri áhættu á MI en einstaklingar án sykursýki. Samanburður á dreifingu MBL styrks gaf svipaðar niðurstöður.

Ályktanir: Hátt MBL tengist minnkaðri áhættu á kransæðastíflu, einkum hjá sjúklingum með sykursýki. Mæling á MBL gæti hjálpað við að meta þörf á fyrirbyggjandi meðferð.

Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Rannsóknarnámssjóði RANN­ÍS.

E 105 Uppsetning á æðakölkunarlíkani í músum sem skortir ApoE - áhrif slímhúðarþols gegn oxuðu LDL á æðakölkun

Jóna Freysdóttir1,2, Erla B Ólafsdóttir1, Ingibjörg Harðardóttir1, Sverrir Harðarson3, Sveinbjörn Gizurarson1, Arnór Víkingsson1,2,4

1Lyfjaþróun hf., 2Naturimm ehf., 3rannsóknastofa í meinafræði, 4gigtardeild Landspítala

jonafreys@simnet.is

Inngangur: Vefjameinafræðilega einkennist æðakölkun meðal ann­ars af uppsöfnun fitu, kalks og bandvefs og af íferð bólgu­frumna í æðaveggjum slagæða. Á síðustu árum hefur vaxandi athygli beinst að þætti ónæmiskerfisins í meingerð æðakölkunar. Ónæmissvör gegn oxuðu LDL (oxLDL) finnast í ríkum mæli, bæði mótefni gegn oxLDL í blóði og oxLDL sértækar T-frumur í æðakölkunarskemmdum. Einnig gleypa umbreyttar átfrumur (foam cells) oxLDL í ríkum mæli. Slímhúðarþol er þekkt aðferð til að draga úr óæskilegum ónæmissvörum gegn skilgreindum sam­eindum.

Tilgangur: Í þessari forkönnun (pilot study) var kannað hvort hægt væri að draga úr fitusöfnun í ósæð með því að mynda slímhúðarþol gegn oxLDL.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru erfðabreyttar mýs sem skortir ApoE en þessar mýs fá æðakölkun mjög fljótt á lífsleiðinni og er hún verulega mikil. Mýsnar voru settar á fituríkt fæði (western diet) frá fjögurra vikna aldri og fengu vikulega oxLDL í nef, en það getur leitt til myndunar oxLDL slímhúðarþols. Til viðmiðunar voru sumar mýs meðhöndlaðar með saltvatni. Að 10 viknum liðnum voru mýsnar aflífaðar og ósæðin fjarlægð. Magn fituskellna var athugað á tvo vegu. Annars vegar voru skornar þversneiðar af ósæðinni við hjartarætur, þær litaðar með oil-red O sem litar fitu rauða og flatarmál fituskellanna mælt. Hins vegar var ósæðin frá aorta boga að nýrnaslagæð opnuð, lituð og flatarmál skella mælt.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna að þær mýs sem voru meðhöndl­aðar með oxLDL í nef söfnuðu minni fitu í ósæðina miðað við rottur sem voru meðhöndlaðar með saltvatni.

Ályktanir: Þetta bendir til þess að unnt sé að nota slímhúðarþol gegn sameindum sem setjast að í fituskellum í slagæðum til að draga úr myndun æðakölkunar.

E 106 Áhrif lyfja og umhverfisþátta á slímhúðarþol

Jóna Freysdóttir1,2, Einar Þór Bogason1,3, Sigrún L Sigurðardóttir4, Svein­björn Gizurarson1, Arnór Víkingsson1,2,5

1Lyfjaþróun hf., 2Naturimm ehf., 3læknadeild HÍ, 4rannsóknastofa í ónæmis­fræði, 5gigtardeild Landspítala

jonafreys@simnet.is

Inngangur: Ónæmiskerfi slímhúðar hefur þróað með sér kerfi sem bælir möguleg ónæmissvör gegn hættulausum sameindum sem berast inn í líkamann og kallast það fyrirbæri slímhúðarþol. Tekist hefur að draga úr sjúkdómsvirkni í ýmsum dýralíkönum af sjálfsofnæmi með því að mynda slímhúðarþol í dýrunum áður en sjálfsofnæmiseinkenni eru mynduð. Tilraunir með að nota slímhúðarþol til meðferðar á sjálfsofnæmi í mönnum hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem gerðar voru miðað við lofandi niðurstöður dýratilrauna. Þessi munur gæti meðal annars legið í því staðlaða umhverfi sem dýrin lifa í þar sem áhrif sýkinga, annarra lyfja eða mataræðis og umhverfismengunar eru hverfandi.

Tilgangur: Tilgangur þessarar tilraunar var að kanna áhrif óbeinna reykinga og algengra lyfja á myndun slímhúðarþols í liðagigtarlíkani í rottum.

Efniviður og aðferðir: Lewis rottur voru meðhöndlaðar með BSA í nef til að mynda BSA slímhúðarþol eða saltvatni til viðmiðunar. Meðan á nefmeðhöndluninni stóð var rottunum ýmist gefið bólgu­eyðandi gigtarlyf (NSAID lyf) um munn, barksterar í nef eða þær voru útsettar fyrir óbeinum tóbaksreyk. Til viðmiðunar var hluti rottnanna ómeðhöndlaður. Allar rotturnar voru síðan bólusettar með BSA og liðbólga framkölluð með því að sprauta BSA í vinstri hnjálið þeirra.

Niðurstöður: Niðurstöður leiddu í ljós að NSAID lyf drógu ekki úr nefslímhúðarþoli en barksterar gefnir í nef höfðu jákvæð áhrif á myndun slímhúðarþols. Tóbaksreykur hafði mjög slæm áhrif á slímhúðarþol þar sem slímhúðarþolsmeðhöndlun samfara tóbaks­reyk leiddi til aukinnar liðbólgu.

Ályktanir: Þessar niðurstöður styðja þá tilgátu okkar að vissir þættir í lífsvenjum eða umhverfi manna eigi þátt í slakari árangri tilrauna með slímhúðarþol gegn sjálfsofnæmissjúkdómum.

E 107 Klínísk rannsókn á meðferð munnangurs með MMP hindra

Skúli Skúlason2,3, W. Peter Holbrook1, Þórdís Kristmundsdóttir3

1Tannlæknadeild HÍ, 2Líf-Hlaup ehf., 3lyfjafræðideild HÍ

skulis@hi.is

Inngangur: Matrix metalló-próteinasar (MMPs) eiga þátt í bólgusvörun í sárum í munni og niðurbroti vefja. Þekkt er að tetracyklín, sérstaklega doxycyklín, geta hindrað virkni þessara ensíma. Þróað hefur verið smáskammta doxycyklínhlaup sem hindrar virkni MMPs en hefur ekki áhrif á eðlilega bakteríuflóru munnholsins. Frumniðurstöður sýndu að doxycyklín hindraði MMP-2 og MMP-9. Hlaupið reyndist stöðugt og doxycyklín losnar auðveldlega úr því. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort lágskammta doxycyklín hefði græðandi áhrif á ítrekað munnangur.

Efniviður og aðferðir: Fjörutíu og níu sjálfboðaliðar (25 fengu lyf og 24 lyfleysu) sem fengið hafa ítrekað munnangur gáfu upplýst samþykki um að taka þátt í tvíblindri rannsókn með lyfleysu viðmiði og voru túpur randomiseraðar. Sjálfboðaliðar með járn-, fólat- eða B12 vítamínskort voru undanskildir. Hlaup (með doxycyklíni eða lyfleysu) var borið á sárin fjórum sinnum á dag í þrjá daga og sjálfboðaliðar skráðu í dagbók óþægindi eða sársauka og hvort sárið hyrfi.

Niðurstöður: Hlaupið með lyfi og lyfleysu ollu ekki marktækum óþægindum hjá sjúklingum. Það tolldi vel á slímhúð og myndaði þar verjandi himnu, þar sem báðir hópar lýstu minnkun í sárs­auka eftir að hlaupið var borið á sár. Eftir meðferð í þrjá daga höfðu sár gróið hjá 70% sjálfboðaliða sem fengu lágskammta doxycyklín, samanborið við aðeins 25% hjá þeim sem fengu lyfleysu. Stytting tímans sem tók sárið að gróa reyndist marktæk (p<0,005). Engir sjálfboðaliðar fengu yfirsýkingu.

Ályktanir: Notkun lágskammta doxycyklíns sem MMPs hindra hefur græðandi áhrif og hraðar lækningu munnangurs án þess að valda marktækum hliðarverkunum. Lágskammta doxycyklín hlaup er því vænlegt til að meðhöndla ítrekað munnangur.

E 108 In vitro áhrif valdra fjölsykra úr íslenskum fléttu­teg­und­um á angafrumur ónæmiskerfisins

Sesselja Ómarsdóttir1, Jóna Freysdóttir2, Elín Soffía Ólafsdóttir1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Naturimm ehf.

sesselo@hi.is

Inngangur: Fléttur framleiða aðallega fjórar gerðir fjölsykra; B-glúkön, B-glúkön, galaktómannön og heteróglýkön. Margar fléttufjölsykrur hafa sýnt áhugaverða líffræðilega verkun en oft hafa þær ekki verið nægilega vel upphreinsaðar og skilgreindar. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif 11 valdra fjölsykra úr íslenskum fléttum í in vitro angafrumulíkani til að meta tengsl milli byggingar og verkunar.

Efniviður og aðferðir: Fjölsykrurnar voru úrhlutaðar, einangraðar, upphreinsaðar og byggingaákvarðaðar með þekktum aðferðum. Fjölsykrurnar í styrknum 100 µg/ml voru prófaðar í in vitro angafrumulíkani þar sem mónócýtar voru einangraðir úr blóði og látnir þroskast í óþroskaðar angafrumur. Óþroskaðar angafrumur voru síðan ræktaðar með/án fjölsykranna og látnar þroskast yfir í þroskaðar angafrumur. Hluta af flotinu úr angafrumuræktinni var safnað og seytun frumuboða mæld með ELISA. Jafnframt voru þroskaðar angafrumur sem ræktaðar voru með/án sykranna ræktaðar áfram með óreyndum T-frumum.

Niðurstöður: Mikil breidd var í svörun sykranna. Fyrstu niðurstöður benda til þess að línuleg glúkön og heteróglýkön auki IL-10 seytun angafrumnanna á meðan að sykrur þar sem að galaktómannan er meginuppistaðan í byggingunni fái angafrumur frekar til að seyta IL-12p70. Það virðist jafnframt ekki vera sömu sykrurnar sem hafa áhrif á IL-12p40 og IL-12p70 seytun angafrumnanna.

Ályktanir: Greininlegt er að svörun þessara 11 fjölsykra er mjög mismunandi. Sumar fjölsykrurnar eru líklegir kandídatar til þess að ræsa ónæmiskerfið á meðan aðrar virðast bæla ónæmissvar. Skimun á virkni náttúruefna í in vitro angafrumulíkani er aðferð sem hægt er að nota til að velja áhugaverð efnasambönd til að skoða frekar í dýralíkönum.

E 109 Gallað mannan bindilektín getur stuðlað að rauðum úlfum (SLE) í íslenskum ættum

Sædís Sævarsdóttir1,2, Helga Kristjánsdóttir3, Gerður Gröndal3, Þóra Vík­ings­dóttir2, Kristján Steinsson3, Helgi Valdimarsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Rannsóknastofa í gigtsjúk­dóm­um

saedis@landspitali.is

Inngangur: Uppsöfnun apoptótískra frumuleifa getur stuðlað að rauðum úlfum (systemic lupus erythematosus, SLE) með myndun sjálfsmótefna. Mannan bindilektín (MBL) er prótein sem getur hreinsað frumuleifar, sýkla og mótefnafléttur með virkjun komplímentkerfisins. Galli í byggingu MBL er algengur og erfða­fræðilega vel skilgreindur. Honum fylgir lágt magn af virku próteini í sermi. Gallað MBL hefur ásamt skorti á komplímentþætti C4A (C4AQ0) verið tengt aukinni áhættu á SLE miðað við óskyld viðmið.

Efniviður og aðferðir: MBL magn var mælt í sermi, stökkbreytingar í MBL geni greindar (rauntíma PCR) og C4 samsætur ákvarðaðar með próteinrafdrætti í níu SLE ættum með 24 SLE sjúklinga, 83 fyrsta stigs (1°) og 23 annars stigs (2°) ættingja án SLE. Óskyld viðmið voru 30 venslamenn (makar og inngiftir).

Niðurstöður: Tíðni galla í MBL geni var 36% hjá sjúklingum, 26% hjá 1° og 13% hjá 2° ættingjum (p=0,057) en tíðni C4AQ0 var svipuð. Sjúklingar höfðu oftar bæði C4AQ0 og MBL galla (p=0,03). Jafnframt var marktækur munur á MBL magni sjúklinga og ættingja (p=0,006). Venslamenn höfðu hins vegar svipaða tíðni gallaðs MBL og sjúklingar, en enginn þeirra hafði bæði samsettan MBL galla og C4AQ0. Fjórar af ættunum níu höfðu lægri tíðni gallaðs MBL samanborið við venslamenn og voru hinar fimm ættirnar athugaðar sérstaklega. Í þeim var gallað MBL algengara í sjúklingum (64%) en 1° (38%) og 2° (0%) ættingjum (p=0,0002), og allir SLE sjúklingar höfðu annaðhvort C4AQ0 eða gallað MBL (p=0,0005). MBL magn SLE sjúklinga var jafnframt lægra en ættingja í þessum ættum (p<0,001). Ekki voru merki um eyðingu á MBL (consumption).

Ályktanir: Gallað MBL getur stuðlað að SLE hjá einstaklingum með ættlægan sjúkdóm, óháð sem og til viðbótar við C4AQ0. MBL kann því að vernda gegn SLE.

Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Rannsóknarnámssjóði RANNÍS.

E 110 Efnasmíð og rannsóknir á glúkósamínu- og kítósykru­afleiðum með bakteríuhamlandi eiginleika

Ögmundur Viðar Rúnarsson1, Jukka Holappa2, Tapio Nevalainena2, Pasi Soininen2, Martha Hjálmarsdóttir3, Tomi Järvinen2, Þorsteinn Loftsson1, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2University of Kuopio, Finnlandi, 3Tækniháskóli Ís­lands

ovr@hi.is

Inngangur: Kítósykrur skiptast í kítósan og kítín en skilgreiningin á þeim er háð fjölda asetýlhópa á amínhóp glúkósamínunar, sem er grunneinsykra kítósans. Kítósykrur afleiður kítósykra hafa sýnt margskonar áhugaverða lyfjafræðilega eiginleika svo sem bakteríu­drepandi, genaferjunar, sáragræðandi eiginleika og fleira.

Efniviður og aðferðir: Smíðuð var röð katjónískra glúkósamínafleiða með mismunandi langa alkýlkeðju. Eitt af markmiðunum var að finna hentugt efnasmíðaferli sem síðar væri hægt að nýta í smíðar á kítósanafleiðum og skoða þannig lyfjafræðilega virkni þessara efna frá einsykru til fjölsykru. Í fyrsta lagi var notuð tveggja skrefa efnasmíðaleið og í annan stað fimm skrefa efnahvarf sem fól í sér verndun á amín- og hýdroxylhópi glúkósamínsins. Einnig var smíðað röð trimetýleraðra kítósanafleiða (TMK) og reynt að stýra hvarfinu á amínhópi sykrunar án þess að fá O-metýleringu sem er þekkt við smíð á samskonar efni. Efnin voru byggingargreind með NMR, IR og frumefnagreiningu. Virkni var ákvörðuð með bakteríuprófi.

Niðurstöður og ályktanir: Fjórar afleiður tókst að smíða með tveggja skrefa hvarfi; 2-(trímetýlammónía)acetýl-glúkósamín, 2-(pyrídínín)acetýl-glúkósamín, 2-(tríbútýlammónía)acetýl-glúkósamín og 2-(dimetýldódecýlammónía)acetýl-glúkósamín, en greining efnanna var flókin. Þegar verndunarleiðin var farin einfaldaðist öll efnagreining sem og að hreinsun og einangrun varð þægilegri. Eitt katjónískt efni var smíðað með verndunarleiðinni, það er N-trímetýlammónía afleiða. Erfiðlega gekk að stýra smíði trímetýl-kítósans (TMK) en greiningin með NMR og frumefnagreiningu gekk vel. Bakteríuprófunin á TMK sýndi handahófskennda verkun. Hins vegar sýndu prófin samband milli lengdar alkýlhópanna og á katjónísku glúkósamínafleiðanna.

E 111 Algengi lyfjasamsetninga er geta valdið milliverk­un­um

María Heimisdóttir1, Anna Birna Almarsdóttir2, Þórhildur Sch. Thor­steins­son2

1Landspítali, 2lyfjafræðideild HÍ

mariahei@landspitali.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir sýna að allt að 60% sjúklinga eru á lyfjasamsetningum sem geta valdið milliverkunum (LSMV) við innlögn á sjúkrahús. Í þeim tilfellum þar sem um raunverulegar milliverkanir er að ræða geta þær leitt til misalvarlegra einkenna, jafnvel innlagnar, eða haft áhrif á gang sjúkrahúsvistar.

Efniviður og aðferðir: Gagna var aflað úr sjúkraskrám og sjúklingabókhaldskerfi Landspítala um 1111 sjúklinga er útskrifuðust 2003. Sérstakur hugbúnaður (DAX, Drug Advice eXpert) var notaður til að greina LSMV. Tengsl LSMV við eiginleika og afdrif sjúklinga voru könnuð með lýsandi og greinandi aðferðum, meðal annars aðhvarfsgreiningu þar sem dánarlíkur voru leiðréttar fyrir aldri, kyni, fjölda lyfja og fjölda sjúkdómsgreininga.

Niðurstöður: Alls voru 43% sjúklinga á LSMV við innlögn. Sjúklingar á LSMV voru eldri, á fleiri lyfjum og höfðu fleiri sjúkdómsgreiningar. Dánartíðni var nær þrefalt hærri meðal sjúklinga á LSMV en annarra (11,7%, 4,0%, p<0,05). Dánartíðni var marktækt hærri meðal einstaklinga með LSMV (odds ratio 2,18; 95% vikmörk 1,14-4,16; p=0,018) eftir að leiðrétt var fyrir aldri, kyni, fjölda lyfja og fjölda greininga.

Ályktanir: LSMV eru algengar og mögulega skaðlegar. Sýnt var fram á aukna dánartíðni með LSMV eftir að leiðrétt hafði verið fyrir helstu raskandi þáttum en þó má gera ráð fyrir að enn sé röskunarleif til staðar. Því er ekki hægt að álykta eða útiloka að LSMV hafi beinlínis valdið þessari auknu dánartíðni. Hin augljósa ályktun er að hugbúnaður til skráningar lyfjafyrirmæla og greiningar LSMV getur gagnast vel í klínísku starfi með því að vara við hugsanlegum milliverkunum og auðvelda þannig læknum að bregðast við þeim ef ástæða er til samkvæmt klínísku mati. Þannig verður lyfjanotkun öruggari og markvissari til hagsbóta fyrir sjúkling og samfélagið.

E 112 Viðhorf lækna til markaðssetningar nýrra lyfja

Anna Birna Almarsdóttir1, María Heimisdóttir2, Kristín Þóra Jóhannes­dóttir3

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Landspítali, 3Actavis hf.

annaba@hi.is

Inngangur: Mikil umræða hefur verið víða um heim um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja og hvaða áhrif þessi samskipti hafa á lyfjaávísanir lækna. Læknafélag Íslands (LÍ) og Samtök verslunarinnar (FÍS), fyrir hönd lyfjafyrirtækja, hafa gert með sér samning um hvernig þessum samskiptum skal háttað. Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf íslenskra lækna til markaðssetningar nýrra lyfja og hvaða þættir tengjast ákvörðunum lækna við lyfjaávísanir. Auk þess að kanna þekkingu og viðhorf lækna til samnings LÍ og FÍS.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var hannaður og sendur til allra lækna sem eru félagar í Læknafélagi Íslands og búa á Íslandi. Endanlegt úrtak var 1138 læknar.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 46,0%. Meirihluti lækna vildi ekki leyfa auglýsingar á lyfseðilsskyldum lyfjum fyrir almenning. Klínískir þættir og fyrri reynsla skiptu mestu máli við lyfjaávísanir og kostnaður sjúklings skipti meira máli en kostnaður ríkis. Flestum fannst markaðssetning lyfja hafa einhver áhrif á ávísanavenjur sínar. Læknum fannst lyfjakynningar almennt nytsamlegar og virtust treysta þeim. Lyfjakynnar eiga það þó til að ýkja kosti eða draga úr göllum lyfja. Meirihlutinn hafði ekki orðið var við ósiðlegar aðferðir við markaðssetningu lyfja hér á landi. Aðeins 42,7% læknanna þekktu samning LÍ og FÍS.

Ályktanir: Íslenskir læknar hafa almennt nokkuð jákvæð viðhorf til markaðssetningar nýrra lyfja og virðast íslensk lyfjafyrirtæki beita siðlegri aðferðum við markaðssetningu en lyfjafyrirtæki víða erlendis. Ljóst er þó að það myndi auka á trúverðugleika lyfjakynna ef þeir væru duglegri að benda á ókosti lyfjanna sem þeir kynna. Samning LÍ og FÍS um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja verður að kynna betur fyrir læknum.

E 113 Áhættuþættir alvarlegrar gulu hjá nýburum

Gígja Guðbrandsdóttir1, Atli Dagbjartsson2, Hörður Bergsteinsson2, Þórð­ur Þórkelsson2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítali Hringsins

gigja@hi.is

Inngangur: Á síðustu árum hefur gætt aukinnar tíðni alvarlegrar gulu og kernicterus hjá nýburum á Vesturlöndum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhættuþætti alvarlegrar gulu hjá nýburum hér á landi. Einn megintilgangur hennar var að kanna þá tilgátu að þegar mæður fara snemma heim með börn sín eftir fæðingu aukist líkur á því að þau fái alvarlega gulu.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar úr sjúkraskrám þeirra barna sem fæddust á Landspítala á tímabilinu 1994-2003 eftir >37 vikna meðgöngu og mældust með bilirubin þéttni í blóði >350 µmól/L á fyrstu 10 dögum lífsins. Næsta barn sem fæddist á eftir barni í rannsóknarhópi og fékk ekki gulu var notað sem viðmið. Hliðstæðra upplýsinga var aflað um þau börn.

Niðurstöður: Sextíu og fjögur börn uppfylltu rannsóknarskilyrðin. Miðgildi bilirubins var 372 µmól/L (dreifing 350-630 µmól/L). Orsakir gulunnar voru aukið niðurbrot rauðra blóðkorna af völdum spherocytosis hjá tveimur börnum, Rh blóðflokkamisræmi hjá tveimur og ABO blóðflokkamisræmi hjá tveimur. Önnur börn höfðu ekki þekkta áhættuþætti fyrir alvarlega gulu.

Ályktanir: Útskrift heim snemma eftir fæðingu, meðgöngulengd <40 vikur og inngrip í fæðingu auka líkur á alvarlegri gulu hjá nýburum. Leggja verður áherslu á mikilvægi þess að fylgst sé náið með gulu hjá nýburum fyrstu dagana eftir fæðingu, ekki síst hjá þeim sem útskrifast hafa heim snemma eftir fæðingu.

E 114 Er munur á þroska og heilsufari tæknifrjóvgaðra og eðlilega getinna tvíbura?

Ólöf Kristjana Bjarnadóttir1, Reynir Tómas Geirsson1,2, Sveinn Kjartansson3, Ásgeir Haraldsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2kvennasvið og 3Barnaspítali Hringsins

reynirg@landspitali.is

Inngangur: Með tæknifrjóvgunum (TF) hafa vaknað spurningar um heilbrigði barnanna. Þar sem tvíburameðgöngur eru áhættu­meiri og börnin viðkvæmari fyrir áföllum í móðurkviði og á nýburaskeiði ætti hugsanlegur munur á börnum eftir frjóvgunarmáta að vera skýrari þar. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna mun á þroska og heilsufari 10-13 ára tvíburabarna eftir því hvort þau urðu til við tæknifrjóvgun eða ekki.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti um þroska- og heilsufarsatriði var sendur til foreldra tvíbura sem fæddust 1990-1993. Af 254 tvíburapörum voru 216 með lögheimili á Íslandi og bæði börnin lifandi. Allir foreldrar sem svöruðu samþykktu þátttöku. Úrvinnsla var í SPSS forriti. Upplýsingar um tilurð barnanna voru fengnar úr gagnagrunni fyrri rannsóknar* með leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Niðurstöður: Alls bárust svör um 32 TF tvíburapör (32/48 = 67% svarhlutfall) og 112 eðlilega getin (EG) tvíburapör (112/168 = 67% svarhlutfall). Ekki var marktækur munur milli fyrri og seinni tvíbura eða TF og EG hópanna í upphafi tals og gangs, heimsóknir til heimilis- eða sérfræðilækna, röraísetningu, háls- og nefkirtla­töku, gleraugnanotkun, bólusetningu, sýklalyfja- eða aðra lyfja­notkun, þroskafrávik eða séraðstoð í skóla. Marktækur munur var í notkun asmalyfja (TF 51,6%; EG 34,2%; p<0,013). Kynjamunur var milli tvíbura í hópi svarforeldra og þeirra sem ekki svöruðu.

Ályktanir: Þroski og heilsufar tvíbura fyrstu 10-13 árin virðist að mestu leyti óháður getnaðarmáta. Ytri aðstæður gætu skýrt mun á asmalyfjanotkun. Mat á heilsufari þeirra sem ekki svöruðu þarfnast athugunar.

* Ágústsson Þ, Geirsson RT. Athugun á tvíburafæðingum eftir eðlilegan getnað og glasafrjóvgun. Læknablaðið 1995; 81: 242-7.

E 115 Árangur hátíðniöndunarvélameð­ferðar á nýburum

Sólrún B. Rúnarsdóttir1, Hörður Bergsteinsson2, Gestur I. Pálsson2, Sveinn Kjartansson2, Atli Dag­bjartsson2, Þórður Þórkelsson2

1Læknadeild HÍ, 2vökudeild Barnaspítala Hrings­ins

gigja@hi.is

Inngangur: Meðferð með hátíðniöndunarvél (HTÖ) er talin í sumum tilfellum geta gefið betri árangur en meðferð með hefð­bundinni öndunarvél, einkum þegar um mjög alvarlegan lungna­sjúkdóm er að ræða. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur meðferðar með hátíðniöndunarvél á vökudeild Barnaspítala Hringsins frá því sú meðferð hófst þar fyrir 10 árum.?Efniviður og aðferðir: Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám allra þeirra nýbura sem á árunum 1994-2003 voru meðhöndlaðir með HTÖ eftir að meðferð með hefðbundinni öndunarvél hafði ekki borið tilætlaðan árangur. Skráðar voru stillingar á öndunarvélinni, pH og blóðgös rétt áður og tveimur og fjórum klukku­stundum eftir að HTÖ meðferð var hafin. Niðurstöður eru gefnar upp sem meðalgildi + SEM.

Niðurstöður: 64 börn uppfylltu rannsóknarskilyrði. Sjúkdóms­greiningar voru glærhimnusjúkdómur (46), vanvöxtur lungna (4), lungnabólga (3), barnabikssvelging (3) og aðrir sjúkdómar (8). Tveimur klst. eftir að HTÖ meðferð var hafin var blóðildun orðin marktækt betri (slagæða-lungnablöðru súrefnisþrýstings hlutfall (a/ApO2) 0,12+0,01 vs. 0,16+0,01; p=0,005), einnig loftun (pCO2 49+1,0 mmHg vs. 38,6+0,4 mmHg; p<0,001) og sýru-basajafnvægi (pH 7,28+0,01 vs. 7,36+0,01; p<0,001). Það var ekki marktæk breyting á þessum gildum milli 2 og 4 klst. á HTÖ. Hjá börnunum sem lifðu (n=46) var marktæk hækkun á a/ApO2 eftir tvær klukku­stundir á HTÖ (0,12+0,01 vs. 0,18+0,02; p=0,002), en ekki hjá börnunum sem létust (n=8) (0,11+0,01 vs. 0,10+0,01; p=0,3).

Ályktanir: Meðferð með HTÖ bætir blóðildun, loftun og sýru-basavægi flestra nýbura með mjög alvarlegan lungnasjúkdóm. Svörun við HTÖ meðferð mjög fljótlega eftir að hún er hafin hefur visst forspárgildi um lífslíkur þeirra.

E 116 Samanburður á áhrifum þátttöku feðra í umönnun heilbrigðra og veikra nýfæddra barna á aðlögun þeirra fyrstu sex vikur eftir heimferð

Margrét Eyþórsdóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

gkrist@hi.is

Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða að hve miklu leyti feður taka þátt í umönnun nýfæddra barna sinna, hvaða áhrif þátttaka þeirra hefur á aðlögun að foreldrahlutverkinu og að bera saman feður heilbrigðra nýbura og veikra.

Efniviður og aðferðir: Framskyggnu langtímasniði (panel) var beitt á tilviljunarúrtak foreldra heilbrigðra nýbura. Svörun var 63,2%, 100 af Hreiðrinu, 52 af sængurkvennagangi og 68 foreldrar allra barna sem útskrifuð voru af vökudeild á þeim tíma sem rannsóknin stóð yfir. Gögn fengust úr heimsóknum á heimili foreldranna, viku (T I) og sex vikum eftir útskrift (T II). Aðlögun foreldranna var mæld með kvarða Kenners á tíma I og tíma II. Aðlögun á tíma II var metin með hliðsjón af kringumstæðum og stjórnað fyrir aldri foreldra, menntun og búsetu. Auk þess var stjórnað fyrir umönnunarþátttöku feðra á tíma I og lagt mat á áhrif þess og aðlögun á tíma I á umönnunarþátttöku á tíma II.

Helstu niðurstöður: Á T I er marktækur munur á aðlögun feðra á sængurkvennagangi og í Hreiðri. Í aðfallsjöfnu þar sem allar deildir eru settar inn í líkan er vera foreldra í Hreiðrinu eina breytan sem hefur marktæk áhrif á aðlögun á T I til lækkunar (meiri aðlögun). Heildaraðlögun breytist marktækt hjá feðrunum milli tíma I og tíma II en dregur þó marktækt saman með þeim. Aðlögun á T I og næturvöknun á T I hafa marktæk áhrif á aðlögun á T II að teknu tilliti til deildar og umönnunarstigs á T I og T II. Næturvöknun dregur úr aðlögun á TII (Beta=0,231; p<0,02) en góð aðlögun á TI skilar sér í bættri aðlögun á TII og öfugt.

Helstu ályktanir: Niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að gera sér grein fyrir aðlögun feðra barna eftir fæðingu barns. Feður sem fara heim með barn af vökudeild aðlagast verr en taka meiri þátt í umönnun og aðlögun þeirra eykst.

E 117 Áhrif móttökuviðtala á upplifun foreldra af veittum stuðningi þegar börn þeirra leggjast inn á nýburagjörgæslu. Klínísk samanburðarrannsókn

Herdís Gunnarsdóttir1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

gkrist@hi.is

Inngangur: Fáar rannsóknir eru til sem lýsa árangri íhlutana til stuðnings foreldrum sem eiga fyrirbura. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga áhrif hjúkrunar í formi stuðningsviðtals á skynjun foreldra á veittum stuðningi í veikindum fyrirbura nokkr­um dögum eftir innlögn barnsins á nýburagjörgæslu.

Efniviður og aðferðir: Foreldrar sem átt höfðu börn sem fædd voru eftir minna en 37 vikna meðgöngu var skipt af tilviljun í tvo hópa, samanburðarhóp (n=32) og tilraunahóp (n=26). Foreldrum úr báðum hópum var boðið saman í viðtal við reyndan hjúkrunarfræðing innan 10 daga frá fæðingu barns. Í viðtalinu svöruðu allir foreldrar spurningalista um þarfir sínar (Need of Parents Questionnaire) og í lok viðtals um þann stuðning sem þeir töldu sig hafa fengið á deildinni (Nurse Parent Support Tool). Tilraunahópurinn fékk skipulagt stuðningsviðtal en samanburðarhópurinn aðeins viðtal sem var opið og þeim gefið tækifæri á að spyrja. Athugað var hvort stuðningsviðtalið gæfi marktækt betri áhrif en samanburðarviðtal á uppfyllingu þarfa foreldra og skynjun þeirra á veittum stuðningi hjúkrunarfræðinga.

Helstu niðurstöður: Niðurstöður sýndu að þarfir foreldra í samanburðar- og tilraunahópnum voru sambærilegar og að þau telja sig þurfa aðstoð frá heilbrigðisfagfólki til að mæta þörfum sínum. Foreldrar í tilraunahópnum, bæði feður og mæður, töldu sig fá marktækt betri stuðning frá hjúkrunarfræðingum en foreldrar í samanburðarhópi.

Helstu ályktanir: Af niðurstöðum rannsóknarinnar má álykta að hjúkrunarfræðingar þurfi að mæta betur mikilvægustu þörfum foreldra fyrirbura og að stuðningsmóttökuviðtöl gætu verið gagnlegur áfangi þeim til stuðnings. Nauðsynlegt er að þróa slík viðtöl áfram og meta frekari árangur þeirra.

E 118 Siðferðisleg álitamál um meðferð mikilla fyrirbura: sjónarhorn foreldra

Jónína Einarsdóttir

Mannfræðiskor félagsvísindadeildar HÍ

je@hi.is

Inngangur: Lífslíkur mikilla fyrirbura með fæðingarþyngd minni en 1000 g hafa aukist verulega. Slík fæðing er þó algengasta dánarorsök ungbarna í hátekjulöndum. Börn sem lifa af eiga oft við misalvarlega fylgikvilla að stríða. Skiptar skoðanir eru um hvort alltaf sé siðferðislega réttlætanlegt að bjarga lífi þeirra. Ágreiningur er meðal annars um helgi mannlegs lífs, lífsgæði og hlutverk foreldra þegar ákvarðanir eru teknar um að hætta meðferð. Hér verða til umfjöllunar hugmyndir foreldra mikilla fyrirbura um hvort og þá hvenær það geti verið réttlætanlegt að hætta meðferð og hver eigi að taka slíka ákvörðun.

Efniviður og aðferðir: Vettvangsrannsókn fór fram á vökudeild Barnaspítala Hringsins og voru leikskólar, meðferðarstofnanir og heimili barnanna heimsótt eftir því sem við átti. Kynntar verða niðurstöður viðræðna við 22 mæður og 19 feður mikilla fyrirbura sem fæddust á tímabilinu 1. september 1998 til 31. ágúst 2001.

Helstu niðurstöður: Foreldrar eru nánast allir sammála um að til séu aðstæður sem réttlæti að meðferð mikilla fyrirbura sé hætt. Mikil áhersla er lögð á að við slíka ákvörðun sé ekki vafi um að barnið eigi ?ekkert líf? fyrir höndum eða muni búa við mjög alvarlega fötlun. Mat á möguleika barnsins til mannlegra tjáskipta skipti mestu fyrir ákvörðun. Nánast allir töldu að ekki mætti hætta meðferð án samþykkis foreldra. Skoðanir voru skiptar um hvort foreldrar gætu tekið ákvarðanir um meðferð barns síns án samþykkis sérfræðinga. Foreldrar voru misjafnlega meðvitaðir um ágreining sem einkennir umræðu um að hætta meðferð mikilla fyrirbura og hversu erfitt það getur verið að segja til um framtíðarhorfur þeirra.

Ályktanir: Mikilvægt er að foreldrar mikilla fyrirbura séu vel upp­lýstir og hafðir með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um hvort meðferð skuli hætt.

E 119 Framför í fyrirbyggjandi beinvernd hjá einstaklingum á langtímasykursterameðferð

Sólveig Pétursdóttir1, Unnsteinn I. Júlíusson2, Friðrik Vagn Guðjónsson3, Björn Guðbjörnsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, 3Heilsugæsla Akureyrar, 4rannsóknarstofa í gigtsjúkdómum Landspítala

bjorngu@landspitali.is

Bakgrunnur: Beineyðandi áhrif langtímasykursteranotkunar er viðurkennd staðreynd í dag. Klínískar leiðbeiningar þar sem skilgreint er hvernig haga skuli fyrirbyggjandi meðferð gegn steraorsakaðri beinþynningu hafa verið birtar af landlækni. Þrátt fyrir mikla umfjöllun og góða greiningar- og meðferðarmöguleika sýna rannsóknir hérlendis og erlendis að beinvernd er ekki fullnægjandi hjá sjúklingum á langtímasykursterameðferð. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvernig staðið er að beinvernd hjá þessum sjúklingahópi hér á landi. Ennfremur að athuga hvort orðið hefur breyting frá 1995-96 þegar svipuð rannsókn var framkvæmd á sama landsvæði og þessi rannsókn nær til.

Efniviður og aðferðir: Einstaklingar sem fengið höfðu lyfið prednisólón afgreitt í apótekum í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslunum á tímabilinu 01.01.2002-31.12.2003 fengu sent kynningarbréf og spurningakver sem þeir voru beðnir um að svara. Áður höfðu þeir einstaklingar sem ekki áttu lögheimili í sýslunum verið útilokaðir frá þátttöku. Eingöngu þeir sem voru að minnsta kosti í þrjá mánuði á samfelldri prednisólónmeðferð eða höfðu fengið endurtekna meðferðarkúra sem námu þremur mánuðum á ári á umræddu rannsóknartímabili voru teknir með í rannsóknina.

Niðurstöður: Alls svöruðu 183 einstaklingar (66%) spurninga­kverinu og þar af uppfylltu 118 einstaklingar þátttökuskilyrð­in sam­an­ber hér að ofan. Meðalaldur þeirra var 64 ár (19-90ára). Al­geng­ustu ábendingar fyrir meðferð voru gigtarsjúkdómar (50%) og lungnasjúkdómar (19%). 51 einstaklingur (43%) hafði sögu um beinbrot og 21 hafði brotnað eftir að sykursterameðferðin hófst (18%).

Alls höfðu 62 þátttakenda (53%) farið í beinþéttnimælingu með DEXA-mæli og höfðu 14 þeirra greinst með beinþynningu og voru þeir allir á beinverndandi lyfjum. Níu af 14 (64%) sem voru með beingisnun samkvæmt DEXA-mælingu voru á beinverndandi lyfjameðferð. Fjörutíu og einn einstaklingur (meðalaldur 63 ár) tók ?7,5 mg af prednisólóni á dag og af þeim voru 18 á beinverndandi lyfjum (44%), þar af voru 15 á bisfosfónötum. Einungis fjórir þátt­tak­endur af þessum 41 tóku beinverndandi lyf sem fyrsta stigs for­vörn, á meðan aðrir hófu meðferðina sem annars eða þriðja stigs for­vörn.

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda til þess að mikil vakning hafi orðið á meðal heilbrigðisstarfsmanna með tilliti til beinverndar hjá sjúklingum er þurfa langtímasykursterameðferð. Það má hins vegar gera enn betur í því að tryggja öllum fyrsta stigs beinverndandi forvörn strax í upphafi sykursterameðferðar og eru heilbrigðisstéttir eindregið hvattar til dáða hvað þetta varðar.

E 120 Aldursstöðluð beinbrotatíðni í Eyjafirði

Jón Torfi Halldórsson1,3, Þorvaldur Ingvarsson1, Björn Guðbjörnsson2,4

1Slysadeild og 2beinþéttnimóttaka FSA, 3Heilsugæslustöðin á Akureyri, 4rannsóknarstofa í gigtsjúkdómum Landspítala

bjorngu@landspitali.is

Inngangur: Beinbrot er algeng komuástæða á bráðamótttöku. Eðli og tíðni beinbrota eru mismunandi eftir aldri og kyni. Með­ferð þeirra er oft kostnaðarsöm og þau skerða lífsgæði. Hækkandi meðalaldur þjóðarinnar vekur spurningar um framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustunar. Það er því mikilvægt að hafa áreiðanlegar upplýsingar um aldursstaðlaða beinbrotatíðni, en þær liggja ekki fyrir hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Á 12 mánaðar tímabili (01.09.01-31.08.02) var upplýsingum safnað saman um öll beinbrot sem skráð voru hjá slysadeild FSA. Ennfremur var leitað í útskriftargreiningum allra legudeilda. Íbúar í Eyjafirði 01.12.02 voru 21.627. Upplýsingar um aldursdreifingu voru fengnar hjá Hagstofu Íslands.

Niðurstöður: Alls greindust 668 beinbrot, þar af 449 hjá Ey­firð­ingum (67%), sem samsvarar að nýgengi beinbrota við Eyjafjörð sé 208/10.000/ár. Beinbrot voru algengari meðal karla (59%) en kvenna (41%). Nýgengi brota var hæst meðal einstaklinga 80 ára og eldri (542/10.000/ár) og meðal barna á aldrinum 10-19 ára (392/10.000/ár). Lægst var nýgengið hjá konum á aldrinum 30-39 ára (38/10.000/ár), en hæst meðal elstu kvennanna (845/10.000/ár). Karlar höfðu hins vegar hæstu brotatíðnina með­al 10-19 ára drengja (533/10.000/ár) og lægstu hjá 50-59 ára körlum (117/10.000/ár). Beinþynningarbrot gætu verið meira en helmingur allra brota eftir fimmtugt og yfir 80% allra brota hjá 80 ára og eldri.

Ályktun: Rannsóknin staðfestir aldursbreytilegt nýgengi beinbrota og að ungir karlar hafi háa beinbrotatíðni, sem líklega skýrist af atvinnutengdri áhættu eða háskalegri hegðun. Frekari rannsóknir, þar sem beinþéttni þeirra sem brotna er metin, eru nauðsynlegar til að unnt sé að draga ályktanir um sambandið á milli beinbrota og beinþynningar hér á landi.

E 121 Áhættuþættir meiðsla í knattspyrnu

Árni Árnason1,2,3, Stefán B. Sigurðsson2, Árni Guðmundsson, Ingar Holme1, Lars Engebretsen1, Roald Bahr1

1Oslo Sports Trauma Research Center, Norwegian University of Sport and Physical Education, Osló, 2Lífeðlisfræðistofnun læknadeildar HÍ, 3sjúkra­þjálfunarskor læknadeildar HÍ

arnarna@hi.is

Inngangur: Meiðsli í knattspyrnu eru algeng en lítið er vitað um orsakir meiðslanna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort flokka mætti ákveðna þjálffræðilega þætti sem áhættuþætti meiðsla í knattspyrnu.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru leikmenn frá 17 af 20 knattspyrnuliðum í tveimur efstu deildum karla á Íslandi, samtals 306 leikmenn. Áður en keppnistímabilið 1999 hófst svöruðu leikmenn spurningalista um fyrri meiðsli. Eftirfarandi þættir voru einnig prófaðir: hæð, þyngd, fitupró­senta, hámarkssúrefnisupptaka, hreyfanleiki með tilliti til vöðvalengdar aftan-, framan- og innanlærisvöðva, svo og vöðva framan í mjöðmum, hopphæð, sprengikraftur, stöðugleiki í ökklum og hnjám. Á keppnistímabilinu 1999 voru meiðsli skráð af sjúkra­þjálfurum knattspyrnuliðanna og þjálfarar skráðu þátttöku leikmanna í æfingum og leikjum.

Niðurstöður: Meiðslatíðni var há (24,6 meiðsli/1000 klst í leik og 2,1 meiðsli/1000 klst. á æfingu). Algengustu meiðslin voru aftanlæristognanir (3,0 meiðsli/1000 klst. í leik og 0,5 meiðsli/1000 klst. á æfingu). Eldri leikmenn voru í aukinni meiðslahættu samanbor­ið við yngri leikmenn (OR=1,4 per ár; p=0,05). Fyrir aftanlæristognanir voru marktækir áhættuþættir hækkaður aldur (OR=1,4 per ár; p<0,001) og saga um fyrri aftanlæristognanir (OR=11,6; p<0,001). Fyrir náratognanir voru helstu áhættuþættirnir saga um fyrri náratognanir (OR =7,3; p=0,001) og minni frásveigja (abduction) í mjöðm (OR=0,9 per 1°; p=0,05). Fyrri liðbandatognanir í hnjám og ökklum voru einnig áhættuþættir fyrir endurteknar tognanir í hnjám (OR=4,6; p=0,002) og ökklum (OR=5,3; p=0,009).

Ályktanir: Í þessari rannsókn voru aldur og fyrri meiðsli mikilvægustu áhættuþættir meiðsla meðal knattspyrnumanna úr tveimur efstu deildunum í knattspyrnu á Íslandi.

E 122 Er D-vítamínþörfin vanmetin? Samband kalsíumneyslu og serum-25(OH)D við PTH í sermi

Laufey Steingrímsdóttir1, Örvar Gunnarsson2, Ólafur S. Indriðason3, Leifur Franzson3, Gunnar Sigurðsson3

1Lýðheilsustöð, 2læknadeild HÍ, 3Landspítali

laufey@lydheilsustod.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna samband kalsíumneyslu og S-25(OH)D við styrk S-PTH.

Efniviður og aðferðir: Þetta var þversniðsrannsókn á 30-85 ára slembiúrtaki af höfuðborgarsvæðinu. S-25(OH)D var mælt með RIA og S-PTH með ECLIA. Neysla kalsíums var metin með tíðniskema um mataræði og neyslu bætiefna. Þátttakendum var skipt í hópa eftir kalsíumneyslu: <800 mg, 800-1200 mg og >1200 mg/dag og eftir styrk S-25(OH)D: <25nmól/L, 25-45nmól/L og >45 nmól/L. Til að meta samspil þessara þátta við S-PTH var notuð ANCOVA.

Niðurstöður: Þátttaka var 70,6%, lokafjöldi 1005 eftir útilokanir vegna lyfjatöku eða sjúkdóma. Meðalstyrkur S-25(OH)D var breytilegur eftir aldri, árstíð og lýsis- eða bætiefnatöku. Lægstu gildin voru í febrúar-mars hjá þeim sem ekki tóku D-vítamín eða lýsi, eða 28,2 nmól/L, en hæst í júní-júlí, 57,3 nmól/L hjá þeim sem tóku D-vítamín. S-PTH var breytilegt eftir S-25(OH)D og kalsíumneyslu. Eftir að leiðrétt hafði verið fyrir jónuðu kalsíumi, BMI, reykingum og kyni, mældust lægst gildi S-PTH í hópnum með S-25(OH)D >45nmól/L, en innan þess hóps var ekki marktækur munur á S-PTH eftir kalsíumneyslu. Í hópnum með S-25(OH)D frá 25-45nmól/L reyndist S-PTH einungis marktækt hærra samanborið við S-25(OH)D >45 nmól/L hjá þeim sem neyttu <1200 mg af kalsíumi á dag. Hæstu PTH gildin mældust meðal hópsins með S-25(OH)D <25 nmól/L og voru þau marktækt hærri en meðal S-25(OH)D >45 nmól/L fyrir alla kalsíum­neysluflokka.

Ályktanir: Styrkur S-25(OH)D >45nmól/L nægir til að viðhalda grunngildum á S-PTH, jafnvel þótt kalsíumneysla sé undir 800 mg á dag. Há kalsíumneysla >1200 mg/dag nægir til að viðhalda grunngildum S-PTH, eingöngu ef S-25(OH)D er yfir 25 nmól/L. Ríflegt D-vítamín til að viðhalda styrk S-25(OH)D >45nmól/L skiptir sköpum fyrir S-PTH og kalsíumbúskap og dregur jafnframt úr þörf fyrir kalsíum.

E 123 Ræsing og ferill bólgumiðlandi og bólguhemjandi boð­efna í kjölfar liðskiptaaðgerðar

Guðbjörn Logi Björnsson1,3, Leifur Þorsteinsson4, Kristbjörn Orri Guð­munds­son4, Sveinn Guðmundsson4, Halldór Jónsson jr2,5, Björn Guð­björns­son2,3

1Líffræðiskor raunvísindadeildar, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknastofa í gigt­sjúk­dómum, 4Blóðbankinn og 5skurðlækningasvið Landspítala

bjorngu@landspitali.is

Tilgangur: Markmið þessa rannsóknarverkefnis er þríþætt. Að skoða hvernig samspili bólgumiðlandi og bólgudempandi frumu­boðefna er háttað í upphafi bólguviðbragða og hvernig samspil frumuboðefnanna er gagnvart virkjun eitilfrumna. Þá er markmiðið að skoða hvernig bólgumiðlar hafa áhrif á beinumsetningu. Í þessum fyrsta áfanga á að skoða þriggja daga feril bólguhvetjandi (IL-1ß, IL­-6 og TNF-?) og bólguhemjandi (IL-10) boðefna, auk þess að skoða stjórnunarboðefnin IL-8 og IL-12 við ræsingu bráðra bólguviðbragða.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingum sem fóru í gerviliðaaðgerð á mjöðm vegna slitgigtar og höfðu ekki þekktan bólgusjúkdóm né höfðu fengið meðferð með prednisólóni var boðin þátttaka í rannsókninni. Tekin voru níu blóðsýni; fyrir, í og strax að lokinni aðgerð og síðan 3, 6 og 9 tímum eftir liðskiptaaðgerðina og að morgni næstu þrjá sólarhringa (24, 48 og 72 tímum eftir aðgerð). Unnið var eftir stöðluðum aðferðum við vinnslu sermis og það varðveitt í -80°C þar til að boðefnin voru mæld með "Cytometric Bead Array" aðferð með flæðismásjá (Human Inflammation kit B&D).

Niðurstöður: Fimmtán sjúklingar samþykktu þátttöku, fjórir sjúklingar luku ekki rannsókninni (tveir vegna blóðgjafar, einn hætti þátttöku að eigin ósk og sá fjórði var útskrifaður á annað sjúkrahús áður en rannsókninni lauk). Bráðabirgðarniðurstöður þegar lífsýni frá fimm þátttakendum höfðu verið rannsökuð sýna að styrkur IL-6 tuttugufaldaðist strax þremur tímum eftir aðgerð og hélst hækkaður allt fram á þriðja sólarhring, en hafði þá lækkað um meir en helming. Jafnfram tvöfaldaðist styrkur IL-8 aðgerðardaginn, en lækkaði í sama gildi og fyrir aðgerð á öðrum sólarhring. Óveruleg breyting varð á styrk annarra boðefna (IL-1 ß, IL-10, IL-12 og TNF-a).

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna fyrst og fremst að IL-6 og IL-8 hækkar í upphafi bólguviðbragða í kjölfar liðskiptaaðgerðar. Ef til vill endurspeglar þetta fyrst og fremst vefjaskemmd og virkjun einkjarnafrumna og kyrninga, auk æðaþels, frekar en virkjun eitilfrumna. Ítarlegar niðurstöður verða kynntar á þinginu.

E 124 Hjálparleit vegna sálrænnar vanlíðunar eftir þjóð­fé­lags­hópum

Guðrún Guðmundsdóttir,1 Rúnar Vilhjálmsson2

1Lýðheilsustöð, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

runarv@hi.is

Inngangur: Rannsóknin beinist að hópamuni á notkun heilbrigðisþjónustu vegna sálrænnar vanlíðunar.

Efniviður og aðferðir: Byggt er á gögnum úr endurtekinni lands­könnun meðal 18-75 ára Íslendinga. Heimtur í fyrri könnuninni voru 69% (N=1924) og 83% (N=1592) af svarendum fyrri könnunarinnar svöruðu einnig þeirri síðari. Athugaður var fjöldi heimsókna til læknis (annars en geðlæknis), geðlæknis, hjúkrunarfræðings, sálfræðings, félagsráðgjafa, prests og óhefðbundins meðferðaraðila, með tilliti til sálrænnar vanlíðunar og lýðfræðilegra þátta.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar benda til að eðli vanlíðunar ráði nokkru um til hvaða aðila er leitað, þó flestir leiti til almennu heilbrigðisþjónustunnar. Konur, eldri einstaklingar, þeir sem lokið höfðu framhaldsskólanámi og þeir sem þjáðust af kvíða og sállífeðlislegri vanlíðan leituðu oftar en aðrir til lækna (annarra en geðlækna). Marktæk samvirkni (interaction) milli hjúskaparstöðu og einkenna gaf til kynna að fráskildir og ekkjufólk leituðu meira til hjúkrunarfræðinga en aðrir hjúskaparhópar vegna sállífeðlislegra einkenna. Ennfremur voru íbúar á höfuðborgarsvæðinu tíðari notendur sálfræðiþjónustu en landbyggðarfólk þegar kvíði var til staðar. Samvirkni milli menntunar og þunglyndis benti til þess að háskólamenntað fólk leitaði umfram aðra menntunarhópa til sálfræðinga vegna þunglyndis. Yngra fólk, fráskildir og þeir sem glímdu við reiði/árásarhneigð leituðu oftar en aðrir til félagsráðgjafa. Þá kom í ljós að konur, fráskildir og þeir sem þjáðust af sállífeðlislegum einkennum voru tíðustu notendur óhefðbundinnar þjónustu. Loks leituðu þunglyndir fremur aðstoðar hjá prestum, auk þess sem samvirkni milli hjúskaparstöðu og reiði/árásarhneigðar benti til aukinnar notkunar prestþjónustu meðal ekkjufólks í tengslum við reiði.

Ályktanir: Fjöldi einstaklinga sem þjáist af andlegri vanlíðan leitar ekki aðstoðar heilbrigðisþjónustunnar á 12 mánaða tímabili og gefa niðurstöður til kynna að um ójöfnuð í þjónustunni geti verið að ræða. Ástæða er til að rannsaka frekar hópamun og aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

E 125 Geðheilsa bænda

Kristinn Tómasson1,2, Sigurður Sigurðsson1,3, Gunnar Guðmundsson1,4

1Rannsóknastofa í vinnuvernd, 2rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftir­litsins, 3Sjúkrahús Suðurnesja, 4lyflæknasvið Landspítala

kristinn@ver.is

Inngangur: Á samdráttartímum í sveitum hafa komið fram merki um vaxandi tíðni geðraskana í sveitum erlendis, bæði í Bandaríkjunum og Noregi. Hérlendis hafa árvökulir bændur haft áhyggjur af því að sama þróun gæti gerst hér vegna fækkunar í sveitum og einnig vegna almennt versnandi kjara bænda á síðustu árum.

Efniviður og aðferðir: Öllum bændum með 100 ærgildi eða meira (N=2042, svarhlutfall 54%) og 1500 (svarhlutfall 46%) manna slembi­úrtaki 25 til 70 ára var sendur ítarlegur spurninga­listi um heilsufar og búskaparvenjur í mars 2004 og honum fylgt eftir með einu hvatningarbréfi, auk þess sem auglýsing birtist í Bændablaðinu til þess að hvetja til svara. General Health Questionnaire-12 (GHQ-12) spurningalisti var notaður sem skim­tæki fyrir geðröskunum, öðrum en áfengissýki en fyrir hana var notað CAGE.

Helstu niðurstöður: Samkvæmt GHQ-12 voru 65% bænda án nokkurra merkja um geðröskun en 53% annarra. Samkvæmt GHQ-12 með skurðpunkt fyrir geðröskunum settan við meira en 2 þá reyndust 17,3% bænda uppfylla þetta viðmið en 22,3% annarra. Samkvæmt CAGE miðað 3 eða fleiri jákvæð svör uppfylltu 6,1% bænda skilmerki fyrir áfengissýki en 7,5% annarra. Á síðustu 12 mánuðum fyrir rannsóknina leituðu tæp 5% bænda og um 10% annarra aðstoðar vegna svefnraskana, 3,4% bænda og 7% annarra vegna þunglyndis og 4% bænda og rúm 9% annarra vegna kvíðaraskana. Aðeins 0,3% bænda en um 1% samanburðarhóps höfðu leitað aðstoðar vegna áfengis- eða fíkniraskana.

Ályktanir: Algengi geðraskana virðist vera svipað meðal bænda og annarra á Íslandi. Hins vegar eru ákveðin merki um að þeir leiti síður meðferðar vegna geðraskana en aðrir.

E 126 Streita í starfi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Saman­burður við kennara og flugfreyjur

Herdís Sveinsdóttir1,2, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir2,3

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2rannsóknastofa í vinnuvernd HÍ, 3heilbrigðis- og rannsóknadeild Vinnueftirlits ríkisins

herdis@hi.is

Inngangur: Vinnurannsóknir hafa undanfarið beinst að því að skoða samband streitu við meðal annars starfsmannaveltu, heilsu­far og gæði þjónustu. Flugfreyjur, kennarar og hjúkrunarfræðingar eru starfshópar sem eiga margt sameiginlegt. Þá skipa að mestu konur, starfið krefst mannlegra samskipta og þjónustu við einstaklinga og hópa. Álag getur verið mikið þegar uppfylla þarf óskir eða þarfir þjónustuþega og hver einstaklingur krefst óskiptr­ar athygli en margir kalla eftir þjónustu á sama tíma. Markmið þessarar rannsóknar var að bera saman streitu og vinnuaðstæður þessara þriggja hópa.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru kvenkyns kennarar, hjúkrunarfræðingar og flugfreyjur. Gagna var aflað með spurningalista og var 1571 listi sendur út. Svörun var 66-69% háð starfs­stétt. Átta spurningar öfluðu gagna um vinnuumhverfi og 11 um streitu. Við gagnagreiningu var notast við ANOVA og að­hvarfsgreiningu.

Helstu niðurstöður: Hjúkrunarfræðingar upplifa minni streitu og telja starf sitt líkamlega fjölbreyttara en hinir hóparnir tveir. Flugfreyjur greina frá meiri óþægindum í vinnuumhverfi, minna atvinnuöryggi, líkamlega erfiðari og einhæfari vinnu og að þær leiti síður aðstoðar samstarfsfólks en hinir hóparnir. Kennarar segjast síður geta stjórnað vinnuhraða sínum en hinir hóparnir. Í samanburði við hjúkrunarfræðinga leita þeir síður aðstoðar samstarfsfólks. Aðhvarfsgreining leiddi í ljós að innan hverrar starfs­stéttar hafa óþægindi í vinnuumhverfi áhrif á streitu að teknu tilliti til annarra umhverfisþátta og hjá kennurum og flugfreyjum hversu líkamlega erfiða þátttakendur meta vinnuna.

Ályktanir: Hjúkrunarfræðingar greina frá minni streitu og já­kvæð­ara starfsumhverfi en hinir hóparnir tveir. Þetta skýrist líklega af fjölþættara starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.

E 127 Lífsstíll og líðan flugfreyja, hjúkrunarfræðinga og kenn­ara

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir1,2, Herdís Sveinsdóttir1,3, Jón Gunnar Bern­burg4, Kristinn Tómasson1,2

1Rannsóknastofa í vinnuvernd, 2rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnu­eftir­litsins, 3hjúkrunarfræðideild HÍ, 4félagsvísindadeild HÍ

hkg@ver.is

Inngangur: Heilsa flugfreyja, hjúkrunarfræðinga og kennara hefur verið rannsökuð með aðaláherslu á krabbamein, frjósemisheilbrigði og streitu. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort lífsstíll hópanna væri mismunandi og gæti gefið vísbendingar um tengsl vinnu og heilsufars í þremur kvennahópum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarhópurinn var 371 flugfreyja, 600 kvenkyns hjúkrunarfræðingar og 600 kvenkyns grunnskólakennarar. Sami spurningalisti var sendur til allra með undantekningu af fáeinum sértækum spurningum fyrir hvern hóp. Spurt var meðal annars um lýðfræðileg atriði, samspil vinnu og fjölskyldulífs, heilsu og lífsstíl, kvensjúkdóma og tíðamynstur, meðferð og einkenni, vinnuaðstæður, fjarveru frá vinnu, áreitni og annað í vinnuumhverfinu. Aðhvarfsgreiningu var beitt til að meta meðaltalsmismun hópanna varðandi lífsstíl og áreitni að teknu tilliti til lýðfræðilegra breytna.

Niðurstöður: Svörun var 66-69%. Hærra hlutfall flugfreyja en kennara og hjúkrunarfræðinga reykti, neytti áfengis vikulega og stundaði reglulega líkamsrækt. Flugfreyjur voru að meðaltali ívið hávaxnari en mun léttari en hinir hóparnir og höfðu minni áhyggjur af mataræði sínu. Kynferðisleg áreitni var mun algengari meðal þeirra en hinna.

Ályktanir: Rannsóknin varpar ljósi á mikilvæga þætti í vinnuumhverfi þessara hópa og mismunandi lífsstíl þeirra. Að þessu ber að gefa gaum þegar heilsufar þeirra er skoðað.

E 128 Reynsla sjúklinga og aðstandenda þeirra af langtíma­meðferð með heimaöndunarvél og súrefni

Þorbjörg Sóley Ingadóttir1, Helga Jónsdóttir2

1Landspítali Fossvogi, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

helgaj@hi.is

Inngangur: Rannsóknin lýsir reynslu sjúklinga og fjölskyldna þeirra af tæknilegri aðstoð við öndun í svefni með eða án súrefnis. Miklar tækniframfarir hafa átt sér stað í þróun meðferðarinnar og er sífellt fleiri sjúklingum gefinn kostur á henni. Þekking á reynslu sjúklinganna af meðferðinni er nauðsynleg til að koma í veg fyrir óþarfa erfiðleika og ný heilsufarsvandamál. Tækni í heilbrigðis­kerfinu er skilgreind sem hvers konar tæki og tækni sem notuð er til sjúkdómsgreiningar og meðferðar. Hjúkrunarfræðinga greinir á um hvernig beita megi tækni á forsendum umhyggju sem kjarna hjúkrunarstarfsins.

Rannsóknarspurningin er: Hver er reynsla sjúklinga og fjölskyldna þeirra af tæknilegri meðferð til öndunaraðstoðar í svefni?

Efniviður og aðferðir: Eigindleg rannsókn sem byggir á túlkandi fyrirbærafræði og frásögugreiningu. Úrtak var þægindavalið og samanstóð af sex sjúklingum á aldrinum 40-70 ára, ásamt fimm mökum og einni dóttur. Gagnasöfnun byggðist á tveimur einnar klukkustundar löngum opnum viðtölum við hvert par þátttakenda. Gagna­greining fólst í frásögugreiningu.

Niðurstöður: Fjölbreytileg upplifun á áhrifum meðferðar: Algjör lífsnauðsyn ? tilgangslaust erfiði; Að vera í höndum fagfólks ? mikilvægi samkenndar og skilnings; Að hlusta á skilaboð líkamans; Að vera heilbrigður í sjúklingshlutverkinu; Máttur tækninnar ? erfitt að hafna meðferð og Fyrirhöfn í daglegu lífi ? að hleypa í sig kjarki til að fara í vélina.

Ályktanir: Að vera háður öndunaraðstoð í svefni var verulegt inngrip í líf þátttakenda. Meðferðin var þvingandi þrátt fyrir að hún bætti líðan og fyrir þá sem hún bætti ekki líðan hjá spruttu upp spurningar um tilgang hennar. Umhyggjusöm samskipti af hálfu heilbrigðisstarfsmanna og virðing fyrir einstaklingsbundnum þörfum sjúklinga, einkum við upphaf meðferðar, voru lykilatriði.

E 129 Notkunarmynstur verkjalyfja á Íslandi, lýsing á sölu, viðhorfum og þekkingu

Anna Birna Almarsdóttir1, Ingibjörg Ösp Magnúsdóttir2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Actavis hf.

annaba@hi.is

Inngangur: Verkefni þetta var unnið að áeggjan vinnuhóps Landlæknisembættisins um kódeinverkjalyf. Tilgangur þessarar rannsóknar var að rannsaka þróun í notkun verkjalyfja sem fást í lausasölu á Íslandi og hugmyndir almennings um þessi lyf.

Efniviður og aðferðir: Þróun lyfja í ATC flokkum N og M var skoðuð á árunum 1993-2003. Fengnar voru sölutölur og gröf sett upp yfir þróun. Einnig var gerður samanburður við Norðurlöndin árin 1994-2002. Viðhorf og þekking almennings á verkjalyfjum voru rannsökuð í fjórum rýnihópum.

Niðurstöður: Sala parkódíns hefur aukist mjög síðustu 10 ár, eða um 62%. Sala á íbúprófeni í lausasölu hefur aukist um 96% og sala kódeins í samsettum verkjalyfjum hefur aukist um 72%. Ísland hafði minnsta sölu í verkja- og bólgueyðandi lyfjum miðað við Danmörku og Svíþjóð á árunum 1994-2002. Ísland og Finnland höfðu minnstu sölu verkjalyfja í lausasölu en Danmörk hafði allt að tvöfalt hærri sölu allt tímabilið (1994-2002). Afstaða fólks til verkjalyfja reyndist misjöfn, en í fæstum tilfellum var hún neikvæð. Ef fólk hafði neikvæða afstöðu var það yfirleitt vegna slæmrar reynslu. Fólk vissi almennt ekki mikið um verkja­lyf, það er að segja muninn á þeim og hvað þau gerðu. Flestir þátttakendur vissu þó eitthvað um aukaverkanir en ekki hættur. Þó nokkuð margir vissu ekkert um kódein en talað var um að misnotkun væri til staðar í þjóðfélaginu. Fólk þekkti mest seldu tegundir verkjalyfja.

Ályktanir: Þróun í sölu á Íslandi hefur verið til aukningar í notkun verkjalyfja en notkunin er hins vegar ekki meiri en á öðrum Norðurlöndum. Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar er afstaða til verkjalyfja almennt frekar jákvæð þó ekki sé unnt að yfirfæra það á alla þjóðina. Fólk virðist ekki vita nógu mikið um verkjalyf til að taka upplýstar ákvarðanir um val á hentugasta lyfinu.

E 130 Bólusetning þorsks og sandhverfu

Bryndís Björnsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir, Bergljót Magnadóttir, Bjarn­heiður K. Guðmundsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

bjarngud@hi.is

Inngangur: Notkun bóluefna í fiskeldi er ein af undirstöðum þess árangurs sem náðst hefur í atvinnugreininni. Mikill áhugi er nú á eldi sjávarfiska á Íslandi, en einu tiltæku bóluefnin á markaði eru fyrir lax, auk eins þorskabóluefnis. Bakteríurnar Aeromonas salmonicida undirteg. achromogenes (Asa) og Listonella anguillarum (La) valda sjúkómum í öllum fisktegundum sem eru í eldi á Íslandi og Moritella viscosa (Mv) er vandamál í lax- og þorskeldi og sandhverfa er næm fyrir smiti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort fjölgilt laxabóluefni veitti þorski og sandhverfu ónæmisvörn og meta áhrif bólusetningar á vöxt.

Efniviður og aðferðir: Þorsk- og sandhverfuseiði voru bólusett með fjölgildu laxabóluefni og tilraunasýking framkvæmd átta vikum síðar. Fylgst var með þyngdaraukningu seiða og samgróningar í kviðarholi af völdum ónæmisglæðis voru metnir. Magn mótefna gegn hverjum bakteríustofni í blóðvatni var mælt með ELISA-prófi. Ónæmisvörn var metin út frá hlutfallslegri lifun óbólusettra og bólusettra fiska.

Helstu niðurstöður: Bóluefnið veitti þorski góða vörn gegn La, en ekki gegn Asa eða Mv. Það veitti sandhverfu ekki mælanlega vörn. Sértæk anti-Asa og anti-Mv mótefni greindust í sandhverfu, en einu sértæku mótefnin sem greindust í þorski voru gegn Mv. Bólusetning dró úr þyngdaraukningu þorsks en hafði ekki marktæk áhrif á vöxt sandhverfu. Umtalsverðar breytingar í kviðarholi vegna ónæmisglæðis sáust hjá þorski en ekki sandhverfu. Í fyrri rannsóknum veittu hliðstæð bóluefni laxi og lúðu en ekki hlýra vörn gegn kýlaveikibróður.

Ályktanir: Bóluefnið AlphaJect5200 myndar hvorki ónæmisvörn í þorski né sandhverfu gegn Mv og Asa, en það ver þorsk gegn La sýkingu. Bólusetning dregur úr þyngdaraukningu þorsks að minnsta kosti í 13 vikur eftir bólusetningu en hefur ekki áhrif á vöxt sandhverfu.

E 131 Þróun retróveiruhindrans APOBEC3 í spendýrum

Stefán Ragnar Jónsson1,2, Reuben S. Harris2, Sigríður Rut Franzdóttir1, Ólafur S. Andrésson1,3, Valgerður Andrésdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2University of Minnesota, 3Líffræðistofnun HÍ

stefanjo@hi.is

Inngangur: APOBEC próteinin eru fjölskylda cytidine deaminasa. Þessi prótein hafa fengið mikla athygli frá því að sýnt var fram á að APOBEC3G veldur stökkbreytingum í erfðaefni HIV-1 og annarra retróveira með því að afaminera cytidine yfir í uridine í einþátta DNA meðan víxlritun á sér stað. HIV-1 á þó mótleik við þessu, sem er veirupróteinið Vif, en það veldur ubiquitin merkingu APOBEC3G og stuðlar þannig að niðurbroti þess. APOBEC3 prótein er einungis að finna í spendýrum, en þó er mikill munur á fjölda þeirra innan spendýrafánunnar, menn og mannapar hafa átta slík prótein en mýs og rottur einungis eitt. Ekki er vitað um aðra próteinfjölskyldu þar sem orðið hefur slík margföldun á þeim tíma sem liðinn er frá tilkomu spendýra. APOBEC3 próteinin eru einnig sérstök að því leyti að þau eru undir einhverju sterkasta jákvæða vali (positive selection) sem þekkist. Þetta val virðist hafa átt sér stað lengur en sambúðin við lentiveirur og Vif. Sú tilgáta hefur verið sett fram að eitt af upphaflegum hlutverkum APOBEC3 próteinanna hafi verið að hindra endogen retróveirur í því að valda ójafnvægi í erfðamenginu. Í þessari rannsókn var tilvist og fjöldi APOEBEC3 próteina í kindum og öðrum klaufdýrum könnuð.

Efniviður og aðferðir: Raðir úr gagnabönkum voru notaðar til að spá fyrir um basaröð próteinanna byggt á skyldleika próteinanna og varðveislu. Genin voru mögnuð upp úr cDNAi með varðveittum vísum og klónuð inn í vektora sem hægt er að nota til að gera prófanir á virkni þeirra og sértækni. Einnig voru ummerki um APOBEC3 í kindafrumum staðfest með því að raðgreina erfða­efni vif- mæði-visnuveiru.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður okkar benda til þess að í klaufdýrum séu fleiri en eitt APOBEC3 prótein. Genin virðast því hafa fjölfaldast áður en klaufdýr og primatar aðskildust.

E 132 Tjáning komplementpróteina og stýrður frumudauði í þroskun líffæra þorsks (Gadus morhua L.)

Sigrún Lange1, Alister W. Dodds2, Slavko Bambir1, Bergljót Magnadóttir1

1Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 2MRC Immuno­chemistry Unit, Department of Biochemistry, University of Oxford, UK

bergmagn@hi.is

Inngangur: Komplementkerfið er mikilvægur liður í bæði sérvirkum og ósérvirkum sjúkdómsvörnum. Það tekur þátt í vörnum gegn sýkingu og í viðhaldi jafnvægis til dæmis í kjölfar bráðasvars eða vegna stýrðs frumudauða. C3 er helsta prótein allra ferla komplementkerfisins og tekur þátt í áthúðun og frumurofi. Sýnt hefur verið fram á að Apolipoprotein A-I (ApoLP A-I), próteinþáttur eðlisþungra fitupróteina í sermi, hindrar frumurofsferlið með vatnsfælinni tengingu við C3 í sermi þorsks og hefur þannig hugsanlegu stjórnhlutverki að gegna.

C3 hefur verið greint með ónæmislitun þunnsneiða og ónæmisþrykki í ýmsum líffærum þorsks allt frá líffæramyndun á fósturskeiði. Í þessu verkefni var tjáning C3 og ApoLP A-I greind í þorskalirfum auk stýrðs frumudauða.

Efniviður og aðferðir: Sýni voru tekin í formalín af þorskahrognum og lirfum frá 4 til 57 dögum eftir klak og steypt í vax fyrir vefja­skoðun. Digoxigenine merktir þreifarar voru útbúnir fyrir C3 og ApoLP A-I og staðbundin þáttatenging (in situ hybridisation) notuð til að greina tjáningu þessara próteina. TUNEL litun fyrir DNA niðurbroti var notuð til að greina stýrðan frumudauða.

Helstu niðurstöður: Samhliða tjáning á C3 og ApoLP A-I greind­ist í heila og miðtaugakerfi, augum, nýra, lifur, vöðva, meltingarfærum og brjóski á flestum þroskastigum. Stýrður frumudauði greindist í heila, auga og dauft svar í vöðva fjórum dögum eftir klak en svarið var útbreiddara og öflugra í sýnum sem tekin voru frá og með 28 dögum eftir klak.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að C3 og ApoLP A-I eru tjáð í mörgum líffærum á þroskunarferli þorsks og ásamt stýrðum frumudauða. Þessir þættir gegna sennilega mikilvægu hlutverki í líffæramyndun og stjórnun jafnvægis auk þess að taka þátt í sjúkdómsvörnum á fyrstu aldursstigum þorsks.

E 133 Ákvörðun boðefnamynsturs í milta og eitlum nýbura­músa, bólusettra með próteintengdu fjölsykrubóluefni gegn pneumókokkum

Sólveig G. Hannesdóttir1, Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Giuseppe del Giudice3, Emanuelle Trannoy4, Ingileif Jónsdóttir1,2

1 Ónæmisfræðideild Landspítala, 2Læknadeild HÍ, 3IRIS, Chiron SpA, Italía, 4Aventis Pasteur, Frakkland

ingileif@landspitali.is

Inngangur: Ónæmissvör í nýburum eru veikari og koma seinna fram en í fullorðnum. Bólusetning með bóluefnum gerðum úr pneumó­kokkafjölsykrum tengdum burðarpróteinum (Pnc-TT) ásamt ónæmis­glæðum hefur reynst ónæmisvekjandi í nýburamús­um.

Efniviður og aðferðir: Til að skilgreina þá þætti sem takmarka ónæmissvör nýburamúsa voru þær bólusettar einnar eða tveggja vikna gamlar með Pnc-TT einu og sér, ásamt ónæmisglæðunum LT-K63 eða CpG, eða ónæmisglæði eingöngu. Mýsnar voru endur­bólusettar með Pnc-TT fjögurra vikna gamlar. Þeim var fórnað tveggja, fjögurra og fimm vikna gömlum og miltisfrumur einangr­aðar og örvaðar með TT eða LT-K63 og magn boðefnanna IL-4, IL-5, IL-10 og IFN? í frumufloti mælt með ELISA. Með mælingu boðefna má meta ónæmissvör við bólusetningu með tilliti til T-frumusvörunar, en þau eru mismikið tjáð eftir því hvort bólusett er um nef eða undir húð, með eða án mótefnaglæðis. Magn fjölsykrusértækra mótefna í sermi var mælt með ELISA. Angafrumur (dend­ritic cells, DC) gegna lykilhlutverki í að stýra ónæmissvari á Th1 eða Th2 braut. DC voru einangraðar með CD11c segulkúlum og litaðar með flúrljómandi mótefnum gegn CD11c og ýmsum virkjunarsameindum, CD80, CD86, CD40 og MHCII.

Niðurstöður: Myndun Th1 og Th2 boðefna var meiri í músum bólusettum með Pnc1-TT og LT-K63 en í músum bólusettum með Pnc1-TT eingöngu. Mýs sem fengu LT-K63 einum degi fyrir bólusetningu með Pnc1-TT sýndu aukna tjáningu MHCII sameinda á angafrumum, og tjáning á CD86 var aukin hjá þeim sem fengu LT-K63. CD40 tjáning var aukin hjá músum sem fengu CpG.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að áhrif ónæmisglæðanna felist í örvun angafrumna og þar af leiðandi aukinni T-frumu­ræsingu og hjálp við B-frumur til mótefnamyndunar. Með því að kanna áhrif mismunandi ónæmisglæða og bólusetningarleiða verður hægt að skilgreina þá þætti sem geta aukið ónæmissvör hjá nýburamúsum og stuðlað að fullorðinslíkum ónæmissvörum.

E 134 Bólusetning nýbura, minnismyndun og vernd gegn pneumókokkasýkingum

Stefanía P. Bjarnarson1,2, Håvard Jakobsen1,2, Giuseppe del Giudice3, Emanuelle Trannoy4, Claire-Anne Siegrist5, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3IRIS, Chiron, Ítalíu, 4Aventis Pasteur, Frakklandi, 5Genfarháskóli, Sviss

ingileif@landspitali.is

Inngangur: Langtímavernd gegn sýkingum byggist á ónæmis­minni. Við höfum sýnt að bólusetning nýburamúsa með prótein­tengdri pneumókokkafjölsykru (Pnc-TT) ásamt ónæmisglæðinum LT-K63 undir húð (s.c.) eða um nef (i.n.) vekur myndun á fjölsykrusértæku ónæmisminni. Hrein fjölsykra (PPS) örvar minnisfrumurnar (endursvörun) ef hún er gefin i.n., en eyðir/hindrar PPS sértækt minnissvar ef hún er gefin s.c. með/án LT-K63.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að kanna frekar áhrif bólusetningarleiða og LT-K63 á minnismyndun. Nýfæddar mýs voru bólusettar s.c., i.n. eða í kviðarhol (i.p.) með Pnc-TT+LT-K63. Endurbólusett var s.c., i.n. eða i.p. 16 dögum síðar með hreinni PPS með/án LT-K63 eða saltvatni. IgG mótefni gegn PPS voru mæld í sermi með ELISA. Verndandi ónæmi var metið með að sýkja mýsnar um nef með pneumókokkum og telja bakteríuvöxt (CFU/mL) í blóði og lungum 24 klukkustundum síðar.

Niðurstöður: Þegar endurbólusett var i.n. með PPS+LT-K63 varð aukning á PPS sértæku IgG hvort sem frumbólusetning var s.c., i.n. eða i.p. með Pnc-TT+LT-K63. En þegar PPS var gefin s.c. án LT-K63 eða i.p. með LT-K63 mældist ekkert endursvar á mótefnum, hvort sem frumbólusett var s.c. eða i.p. með Pnc-TT+LT-K63, og mótefnamagn var lægra en í músum sem fengu saltvatn. Mikilvægast var að í músum frumbólusettum i.n. mældist endursvar á mótefnum eftir PPS i.p. endurbólusetningu. 80-90% músa sem voru endurbólusettar með PPS+LT-K63 i.n. eða i.p. voru verndaðar gegn blóðsýkingu, en 50-90% ef endurbólusett var s.c.. Lungnasýking var minnst í þeim músum sem voru endurbólusettar i.n.

Ályktanir: Við drögum þá ályktun að slímhúðarbólusetning nýburamúsa með Pnc-TT+LT-K63 sé öflug leið til að vekja myndun á fjölsykrusértækum B-minnisfrumum, sem hægt er að endurörva með hreinni fjölsykru ef hún er gefin um nef eða í kviðarhol, en ekki með stungu undir húð.

E 135 Virkni próteinbóluefna gegn pneumókokkasýkingum í nýfæddum músum

Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Pétur Sigurjónsson1,2, James C. Paton3, Ingileif Jónsdóttir1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Háskólinn í Adelaide, Ástralíu

ingileif@landspitali.is

Inngangur: Próteinbóluefni eru almennt ódýr í framleiðslu og ónæmisvekjandi í börnum. Pneumókokkaprótein eru mörg lík milli hjúpgerða og gætu verið góður kostur til að vekja verndandi ónæmi gegn mörgum hjúpgerðum. Þau prótein sem mest hafa verið rannsökuð með tilliti til þessa eru pneumococcal surface protein A (PspA), pnemolysin og afbrigði þess, PdB, pneumococcal surface antigen A (PsaA) og choline binding protein A (CbpA).

Markmið rannsóknarinnar var að kanna ónæmissvör ný­­fæddra músa gegn ofantöldum próteinum og meta vernd bólu­setn­ingar gegn sýkingu af völdum S. pneumoniae.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (1 viku gamlar) af NMRI stofni voru bólusettar með PspA, PsaA, PdB og CbpA, einum sér eða saman, ásamt ónæmisglæðinum Imject® Alum, undir húð eða um nef. Styrkur mótefna í blóði var mældur vikulega með ELISA. Sýkt var um nef með S. pneumoniae (hjúpgerð 1) og sýking í lungum og blóði metin með talningu bakteríuþyrpinga.

Niðurstöður: Marktæk hækkun varð á sértækum mótefnum gegn öllum próteinunum sem bólusett var með undir húð, hvort sem þau voru gefin ein eða í blöndu. Ekki varð marktæk hækkun á mótefnum gegn CbpA og PspA við slímhúðarbólusetningu um nef en lítil hækkun gegn PdB. Enginn munur var á lungna- og blóðsýkingu hjá bólusettum hópum og óbólusettu viðmiði. Þó svo nýburamýsnar mynduðu sértæk mótefni gegn öllum fjórum pró­teinunum þegar bólusett var með þeim ásamt ónæmisglæði undir húð voru þær ekki verndaðar gegn pneumókokkasýkingu um nef. Aðrir hafa vakið verndandi ónæmi með þessum próteinum gegn sýkingum í kviðarhol eða blóð. Próteinin ásamt Imject® Alum vöktu mjög lítið ónæmissvar þegar bólusett var um nef og þar af leiðandi enga vernd.

Ályktanir: Sterkt mótefnasvar í slímhúð auk mótefna í sermi gæti verndað gegn sýkingu um öndunarveg. Því verður reynt að bólusetja með pneumókokkapróteinum og virkari ónæmisglæðum í formi nefdropa.

Efnisvalmynd
Eining
Eining


Eining

Leita á vefnum


Eining

Yfirlit
Þetta vefsvæði byggir á Eplica