12. ráðstefnan um rannsóknin í líf- og heilbrigðisvísindum í HÍ 4.-5. janúar

Tólfta ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands

Ráðstefna um rannsóknir í líf- og heilbrigðis­vísindum í Háskóla Íslands er nú haldin í tólfta sinn. Hún er haldin sameiginlega af læknadeild, tannlæknadeild, lyfjafræðideild og í fyrsta sinn einnig hjúkrunarfræðideild. Umsjón með ráðstefnunni hefur Vísindanefnd læknadeildar, tannlæknadeildar og lyfjafræðideildar Háskóla Íslands auk fulltrúa frá hjúkrunarfræðideild.

Ráðstefnan er haldin í Öskju, nýju og glæsilegu náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands.

Að þessu sinni var ákveðið að fjölga yfir­lits­fyrirlestrum og gefa þannig möguleika á að kynna viðameiri verkefni en hægt er að fjalla um í stuttum kynningum. Við val á þessum er­ind­um var leitast við að velja áhugaverð við­fangsefni af sem fjölbreyttasta tæi til að gefa hugmynd um rannsóknaviðfangsefni þeirra deilda sem að ráðstefnunni standa. Valið var erfitt vegna fjölda verkefna sem standast fylli­lega alþjóðlegan samanburð.

Fjöldi framlaga sem barst er nánast sá sami og fyrir tveimur árum en nú var hægt að auka fjölda erinda þannig að flestir sem óskuðu eftir að halda erindi fá tækifæri til þess. Aðstaða fyrir veggspjöld er mun betri í Öskju en var í Læknagarði og það er von okkar að þau fái nú verðskuldaða athygli. Veggspjöldin verða uppi báða dagana og góður tími er ætlaður til kynningar á þeim.

Ráðstefnunni er ætlað að vekja athygli, bæði innan Háskólans og utan, á þeirri miklu og metnaðarfullu rannsóknastarfsemi sem fer fram innan þessara deilda Háskóla Íslands og í tengslum við þær. Einnig er mikilvægt að gefa ungum vísindamönnum sem þar starfa tækifæri til að kynna rannsóknaverkefni sín. Hlutur nema í rannsóknatengdu framhaldsnámi er mjög stór og hefur greinilega farið vaxandi síð­ustu tvö ár, þrátt fyrir takmarkaðar fjár­veit­ingar. Viðfangsefnin sem kynnt verða eru mjög fjölbreytileg og spanna allt frá grunn­vísindum til heilsufarskannana. Framlög einstakra rannsóknasviða eru mismikil eins og á fyrri ráðstefnum og mótast greinilega nokkuð af fjölda nema í hinum ýmsu greinum í rannsóknatengdu framhaldsnámi.

Birna Þórðardóttir er nú framkvæmdastjóri ráðstefnunnar í fjórða sinn. Vísindanefnd þakk­ar Birnu frábær störf.

Ég vona að ráðstefnugestir njóti vel þess sem fram fer þessa tvo ráðstefnudaga og kynni sér það sem er í boði. Fulltrúar ungra og efnilegra vísindamanna verða verðlaunaðir sérstaklega á ráðstefnunni. Verðlaununum er ætlað að vera hvati til þeirra sem þau hljóta og annarra ungra vísindamanna til enn frekari afreka í vísindum.

Jórunn Erla Eyfjörð

formaður Vísindanefndar læknadeildar,

tannlæknadeildar og lyfjafræðideildar




Þetta vefsvæði byggir á Eplica