12. tbl. 95. árg. 2009
Umræða og fréttir
Læknar og loftslagsbreytingar
Miklar vonir eru bundnar við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember. Læknatímaritið Lancet birti í septemberhefti grein eftir tvo af þekktustu og virtustu embættislæknum Bretlands, Jay og Marmot, þar sem þeir reifa mögulega útkomu ráðstefnunnar og afleiðingar ákvarðana sem þar kunna að verða teknar.
Þeir benda á að almennt séu vísindamenn sammála þeirri kenningu að nauðsynlegt sé að komast í 50% hlutfall af losuðum gróðurhúsalofttegundum ársins 1990 fyrir árið 2050 ef markmiðið um að hækka ekki meðalhita lofthjúpsins um meira en 2 gráður á að eiga meira en 50% möguleika að nást. Náist þetta markmið ekki, verði ekki aftur snúið á braut til glötunar. Slæmt efnahagsástand í heiminum gefi ekki heldur tilefni til bjartsýni þar sem dregið verði úr opinberum framlögum þar til betur árar. Atvinnulífið muni einnig leitast við að fá undanþágur til losunar til að draga úr kostnaði og því verði að vera vel á verði til að ástandið versni ekki á næstu misserum.
Jay og Marmot benda á að hlýnun lofthjúpsins sé ekki góðærisvandi, heldur vandi sem taka verði á strax og gera ráð fyrir í efnahagsreikningi þjóðanna þrátt fyrir kreppuástand.
Ennfremur að almennur skilningur sé á því meðal stjórnmálamanna að því fyrr sem byrjað er að snúa við blaðinu því minna muni það kosta; hvert ár sem líður án samhæfðra aðgerða mun margfalda kostnaðinn og jafnframt draga úr líkum á árangri. Margir binda vonir við gjörbreytta afstöðu Bandaríkjanna þar sem Bush-stjórnin setti sig gegn öllum takmörkunum og hindraði alþjóðlega samninga en Obama-stjórnin hefur lýst því yfir að markmið hennar í loftslagsmálum sé að stuðla að alþjóðlegri lausn.
Fátækari ríki heimsins hafa einnig staðið gegn alþjóðlegu samkomulagi um losun gróðurhúsalofttegunda með þeim rökum að iðnríkin hafi skapað vandann og því sé ósanngjarnt að fátæku ríkin borgi brúsann. Þau telja sig jafnvel eiga talsvert inni áður en kemur að þeim að takmarka losunina.
Jay og Marmot leggja áherslu á að vandinn sé alþjóðlegur og ekki bundinn við einstök ríki eða heimssvæði. Því verði öll ríki heimsins að sameinast um lausnir. Þeir segja að líta eigi á aðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda sem tækifæri fremur en kostnað. Hér gefist tækifæri til að leggja niður kolakynt raforkuver og leita annarra leiða til raforkuframleiðslu, bensín- og díselvélar verði lagðar niður og rafbílar komi í staðinn; eyðing regnskóga dragi úr bindingu CO2 og hindri líffræðilega fjölbreytni; þurrkþolið útsæði tryggi uppskeru fátækra bænda á þurrkasvæðum; allt leggist þetta á eitt um að skapa hreinna, heilbrigðara og hagkvæmara umhverfi fyrir mannkynið.
Með þessu er höfðað til læknastéttarinnar á alþjóðavísu þar sem hún beri ábyrgð og skyldur gagnvart opinberum aðilum um að upplýsa um hvað komi samfélaginu best heilsufarslega. Hlýnun lofthjúpsins hafi beinlínis skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi og því sé læknum í rauninni skylt að beita áhrifum sínum á öllum sviðum þjóðfélagsins til að draga úr henni.
Allar ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hafa jákvæð áhrif á heilsu manna. Læknar njóta almennt virðingar í samfélagi sínu og á þá er hlustað þegar þeir tjá sig. Þeir hafi ennfremur skyldur gagnvart samfélaginu og því leggist allt á eitt um að þeir gerist öflugir talsmenn þess að alþjóðasamfélagið taki höndum saman gegn áhrifum hlýnandi lofthjúps. Þurrkar í Afríku hafa bein áhrif á heilsu íbúa, ofneysla kjöts í iðnríkjum hefur bein áhrif á heilsufar og framleiðslan veldur aukinni losun gróðurhúsalofttegunda. Aðgangur fólks að hreinu vatni stendur í beinu samhengi við loftslagsbreytingar, og breytingar á veðurfari í heiminum koma á ýmsan hátt niður á heilsufari og lífslíkum fólks. Allt eru þetta atriði sem læknar eiga að hafa skoðun á samkvæmt áliti Jay og Marmot. Þeir hvetja lækna til að láta sérstaklega vel til sín heyra á næstu vikum fram að ráðstefnunni í Kaupmannahöfn svo embættis- og stjórnmálamenn fari ekki í grafgötur um hver skoðun lækna er á hættunni af vaxandi gróðurhúsaáhrifum.