11. tbl. 95. árg. 2009
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Hvert stefnum við? Sigríður Ólína Haraldsdóttir
Síðasti pistil minn á þessum vettvangi var skrifaður í upphafi nýs árs. Þá var bankahrunið staðreynd og við vorum að reyna að fóta okkur í nýjum aðstæðum. Síðan hefur hið pólitíska landslag breyst eftir kosningar. Nýr forstjóri Landspítala hefur horfið af þeim vettvangi og heilbrigðisráðherrar hafa komið og farið. Þessi tími hefur einkennst af óvissu og heilbrigðiskerfið hefur ekki farið varhluta af henni. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er framundan. Forstjóri Landspítala hefur sagt að fyrirhugaðar séu uppsagnir á milli 450 og 500 starfsmanna spítalans. Ekki er ljóst hvar skera á niður. Starfsmenn mæta á vaktina eins og áður og vinna af samviskusemi og fórnfýsi en óneitanlega hvarflar hugurinn að því hvort sú starfsemi sem viðkomandi vinnur við muni breytast eða jafnvel leggjast niður. Óvissan hefur slæm áhrif á líðan starfsmanna, bæði vegna áhyggna af eigin hag og einnig vegna kvíðboga sem þeir bera vegna afdrifa skjólstæðinganna sem sinnt er á spítalanum. Þetta á ekki síst við núna þegar sannkallaður faraldur inflúensu með tilheyrandi innlögnum og veikindum geisar.
Hvað verður um hin svokölluðu kragasjúkrahús? Starfsfólkið þar virðist ekki vita það, að minnsta kosti ekki þeir sem skrifa í blöðin. Verður hluti af starfsemi kragasjúkrahúsanna færður til Landspítala? Hvað þá með niðurskurðinn sem búið er að boða þar? Hvaða starfsemi á að fara þaðan og þá hvert? Spurningarnar eru margar og þeim er flestum ósvarað. Síðasti heilbrigðisráðherra hvarf af sjónarsviðinu með hvelli, ég verð að segja eins og er að ég hélt að kominn væri 1. apríl þegar ég opnaði vefmiðil og þetta blasti við. Við þurfum síst af öllu á svona óstöðugleika að halda. Það sama á við um okkur á Landspítala þegar fyrrverandi forstjóri hvarf á braut eftir aðeins nokkurra mánaða starf, en miklar væntingar voru gerðar til þeirrar sýnar sem hún boðaði. Við viljum stöðugleika og skýra stefnu. Reyndar hefur stefnan skýrst hvað varðar lyfjamál og er það að mínum dómi vel. Ríkiskassinn er tómur og sjálfsagt að ríkið velji að greiða niður ódýrari lyf í þeim tilvikum þar sem þau virka eins vel og hin dýrari. Við lungnalæknar höfum séð tölur um kostnað vegna innúðalyfja með sterum hér á landi miðað við í Noregi. Á Íslandi eru þessi lyf notuð í mun meira magni en hjá frændum okkar í Noregi. Gefnar hafa verið út alþjóðlegar leiðbeiningar (GOLD) um það við hvaða stig lungnateppu eigi að byrja að nota innúðalyf með sterum að staðaldri. Miðað við hina miklu notkun þessara lyfja hér á landi er ljóst að þessum leiðbeiningum er ekki fylgt sem skyldi. Ég heyrði af því að á einni af heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins var beinn sparnaður ríkisins af því að þar var tekin upp sú stefna að ávísa ódýrasta magalyfinu ein milljón á mánuði að meðaltali á síðasta ári. Þarna getum við læknar tekið okkur á og sparað fyrir okkar sameiginlega sjóð, ríkið.