10. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Ekki kosið í 30 ár. Aðalfundur Læknafélags Íslands á Selfossi 17. og 18. september

Þau sögulegu tíðindi urðu á aðalfundi Læknafélags Íslands á dögunum að í fyrsta sinn í 30 ár var kosið milli frambjóðenda í stjórn félagsins. Elínborg Bárðardóttir gekk úr stjórninni og í stað hennar lagði stjórnin til að Ragnar Gunnarsson heilsugæslulæknir á Selfossi yrði kjörinn. Aðrir í stjórn gáfu kost á sér aftur en Teitur Guðmundsson bauð sig einnig fram og þar með þurfti að efna til leynilegrar kosningar aðalfundarfulltrúa þar sem velja átti fjóra af fimm frambjóðendum. Kristinn Tómasson, formaður talningarnefndar, kynnti síðan niðurstöðurnar og varð hún á þann veg að sitjandi stjórnarmenn voru endurkjörnir ásamt Ragnari Gunnarssyni.

 

Ögmundur Jónasson heilbrigisráðherra messar yfir læknum.

 

Fundurinn fór fram á Hótel Selfossi að þessu sinni og hófst á fimmtudegi kl. 17 með ávarpi heilbrigðisráðherra, Ögmundar Jónassonar. Hann gerði að umræðuefni óumflýjanlegan niðurskurð ríkisútgjalda sem blasti við á öllum sviðum og þar væri heilbrigðiskerfið engin undantekning. „Almenna reglan er sú að stofnanir sem ekki sinna heilbrigðisþjónustu með beinum hætti er gert að skera niður um 10% en hinum er gert að skera niður um 5-6%. Niðurskurðarkrafan í heilbrigðiskerfinu er að meðaltali á milli 6-7% og er geigvænlegur niðurskurður sem kemur ofan á niðurskurð þessa árs upp á 6,7-7 milljarða. Það er mjög mikilvægt að okkur takist að gera þetta þannig að kerfið skaðist ekki til langframa.“

 

Birna formaður hugsar sig um.

 

Ráðherrann sagði að hverri stofnun væri að mestu leyti í sjálfsvald sett hvernig hún stæði að niðurskurði en hann kvaðst þó vilja líta þannig á þessar aðgerðir að þær væru umbótastarf og að þrátt fyrir allt myndu þessar aðgerðir skila heilbrigðiskerfinu sterkara en ella inn í framtíðina. „Það er verkefnið.„ Hann gerði árangur í aðhaldi við lyfjakostnað að umtalsefni og sagði hann byggja á góðu samstarfi við lækna. „Við munum halda áfram á þessari braut og taka lyfjaflokkana fyrir hvern af öðrum. Þetta er hins vegar afskaplega viðkvæm umræða og þarf að gæta sín vel þegar teknar eru ákvarðanir um niðurskurð lyfja, sérstaklega sjúkrahúslyfjanna. Þar er mikilvægt að gott samstarf sé við læknastéttina.“

Ráðherrann lýsti sérstakri aðdáun sinni á nýafstöðnu tóbaksvarnaþingi Læknafélags Íslands og sagði lækna hafa þar lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn tóbakinu.

Hann sagði ennfremur að sæmilega góð sátt hefði ríkt um skiptingu heilbrigðisþjónustunnar milli opinberra aðila og einkareksturs en kvaðst hafa ákveðnar efasemdir um að landamæri þessa væru á réttum stað. Hann undirstrikaði að hann hefði ekki áhuga á að auka hlut einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni meðan hann fengi einhverju ráðið.

 

Engilbert Sigurðsson, geðlæknir, Sólveig Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, og Birna Jónsdóttir, formaður, bera saman bækur sínar.

 

Ögmundur lauk máli sínu með þeim orðum að „krísan sem nú ríkir á Íslandi verður ekki notuð til að markaðsvæða heilbrigðiskerfið á Íslandi. Það verður ekki gert undir minni verkstjórn. Í mínum huga er heilbrigðisþjónustan lífæð samfélagsins vegna þess að þegar á reynir og heilsan brestur þá þurfum við öll á ykkur að halda.“

 

Hví ekki sjúkling í embættið?

Í kjölfarið spunnust líflegar umræður með fyrirspurnum til ráðherra og var helst spurt um nánari útlistanir á hugmyndum ráðherrans á einkarekstri, samstarfi við læknastéttina og hvernig ráðherrann hygðist standa að sparnaði í heilbrigðiskerfinu án þess að skerða þjónustu við sjúklinga. Hann var einnig spurður að því hvort ekki hefði komið til álita að læknir tæki að sér embætti heilbrigðisráðherra á sömu forsendum og hagfræðingur væri viðskiptaráðherra og lögfræðingur dómsmálaráðherra. Yfirlæknar og sviðstjórar ýmissa sviða Landspítalans notuðu einnig tækifærið til að vekja athygli ráðherrans á ýmsu sem sneri að þeirra sérsviðum innan spítalans.

 

Vaka Ýr Sævarsdóttir, Tryggvi Þorgeirsson, Valentínus Þór Valdimarsson og Karl Erlingur Oddason, fulltrúar ungu kynslóðarinnar.

 

Ögmundur svaraði því til að hann teldi ekki mögulegt að skera niður án þess að skerða þjónustu en hins vegar mætti velta því fyrir sér hvort eitthvað væri ekki ofgert, svo sem rannsóknir og/eða aðgerðir. Hann sagði það vel koma til álita að læknir væri heilbrigðisráðherra en eflaust mætti einnig hugsa sér að aðrir fulltrúar heilbrigðiskerfisins tækju embættið að sér og varpaði þeirri spurningu fram á móti hvort ekki mætti með sömu rökum ráða sjúkling í embætti heilbrigðisráðherra.

Á föstudagsmorgninum héldu erindi um kreppuna og ýmis einkenni hennar sem snerta lýðheilsu og heilbrigði landsmanna, þeir Matthías Halldórsson landlæknir og Engilbert Sigurðsson geðlæknir. Var gerður góður rómur að erindum þeirra og líflegar umræður spunnust í kjölfarið. Vakti athygli að áhrif kreppunnar á lýðheilsuna virðast samkvæmt tölfræðinni ekki byrjuð að sýna sig fyrir alvöru en almennt voru fundarmenn sammála um að þau ættu eftir að koma betur í ljós.

Hefðbundin aðalfundarstörf tóku við með skipan í vinnuhópa sem síðan skiluðu ályktunum fyrir fundinn. Eru þær birtar í heild sinni á heimasíðu Læknafélagsins www.lis.is.

 

Árdís Ármannsdóttir unglæknir og Jórunn V. Valgarðsdóttir heimilislæknir á Selfossi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica