10. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

„Íslenskir læknar eru eftirsóttir“. Viðtal við Sigurð Böðvarsson

Stéttarfélag eða fagfélag eru spurningar sem vakna þegar velt er fyrir sér hlutverki Læknafélags Reykjavíkur þegar það fagnar 100 ára afmæli sínu í ár. Upphaflegur tilgangur félagsins var sannarlega tvíþættur, að gæta hagsmuna lækna sem stéttar og stuðla að faglegum framgangi þeirra. Eflaust var þetta orðað öðruvísi í stofnskránni en efnislega samhljóða.

Eitt hundrað árum síðar hefur margt breyst, í kjölfar Læknafélags Reykjavíkur voru stofnuð svæðafélög lækna um land allt og að því að kom að Læknafélag Íslands var stofnað sem eins konar regnhlíf yfir læknafélögin; sameiginlegur vettvangur lækna í landinu til að ræða mál sín innbyrðis og tala einni röddu út á við.

 

„LR ætti að mínu mati að þróast meira sem fagfélag,“ segir Sigurður Böðvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur.

 

Sigurður Böðvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur frá árinu 2006, hefur velt fyrir sér tilgangi og hlutverki félagsins í nútíð og framtíð.

„Það fer ekkert á milli mála að tilgangur félagsins hefur breyst í tímans rás. Aðgang að félaginu eiga allir starfandi læknar á höfuðborgarsvæðinu og skráðir félagar eru á sjöunda hundrað. Það eru nærri tveir þriðju af öllum læknum í landinu svo LR er langstærsta félagið innan Læknafélags Íslands.“

Því var hvíslað að blaðamanni Læknafélagsins á aðalfundi LR síðastliðið vor að þeir átján félagar sem þar voru mættir, að stjórninni meðtaldri, væru tvímælalaust valdamesti hópurinn innan Læknafélags Íslands. Hvers vegna? Jú, vegna þess að aðalfundur LR skipar 40 af 60 fulltrúum á aðalfund Læknafélags Íslands þar sem allar meiri háttar ákvarðanir um sameiginleg hagsmunamál lækna eru teknar.

„Það má auðvitað segja sem svo að aðalfundur LR hafi mikil völd en þau dreifast á fleiri hendur þegar kemur að því að skipa fulltrúa félagsins á aðalfund LÍ. Engu að síður vildi maður gjarnan sjá fleiri félaga mæta á aðalfund félagsins en það segir þó alls ekki alla söguna um áhuga og þátttöku í starfi félagsins. Mæting á félagsfundi þar sem rædd eru einstök mál, sem efst eru á baugi, eins og málefni Landspítalans, hefur verið mjög góð. Yfir 100 manns hafa mætt á slíka fundi, en almennt mæta á milli 30 og 50 félagar á almenna félagsfundi.“

Sigurður bendir á að læknar hinna ýmsu sérgreina hafi stofnað með sér félög sem gegni hlutverki fagfélags sérgreinarinnar og í einhverjum tilfellum fari þau einnig með samningamál. „Það er eðlilegt að sérfræðingar finni sig betur faglega innan sérgreinarfélags þar sem kollegar í sömu sérgrein koma saman og hagsmunir þeirra eru hinir sömu. Með tilkomu sérgreinafélaganna hefur hlutverk LR þrengst enn frekar en áður var.“

Hlutverk LR sem stéttarfélags er að sjá um samninga fyrir sjálfstætt starfandi lækna á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar talið berst að tilgangi og starfi LR viðurkennir Sigurður að mikilvægi Læknafélags Reykjavíkur í opinberri umræðu hafi minnkað með árunum. „Læknafélag Íslands hefur að miklu leyti annast það hlutverk. Það er hið sameiginlega andlit lækna gagnvart stjórnvöldum og almenningi. Oft eru bæði félögin að sinna sömu verkefnum, veita umsagnir um lagafrumvörp sem snerta heilbrigðismál og skipa fulltrúa í nefndir og starfshópa. Kosturinn við þetta er þó ótvírætt sá að með þessu fáum við læknar tækifæri til að hafa meiri aðgang að stefnumótun og ákvörðunum en annars hefði verið. Á hinn bóginn getur stundum verið óheppilegt að bæði félögin séu að vasast í sömu málunum og þá er það ákvörðun stjórnanna hvort LÍ eða LR eigi að fram fram fyrir hönd lækna. Oftast er það LÍ enda yfirleitt um að ræða hagsmuni allra lækna, ekki bara þeirra sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.“

Sigurður segir það sína skoðun að hlutverk LR í breyttu samhengi eigi að felast meira í starfsemi innávið. „LR ætti að mínu mati að þróast meira sem fagfélag og sinna því hlutverki, á meðan LÍ er stéttarfélagið með hið opinbera andlit sem snýr útávið. Nú eru bæði félögin stéttarfélög og fagfélög og þær raddir hafa heyrst að skerpa þurfi þessi skil, jafnvel skilja alveg þarna á milli.“

 

Læknar eru hreyfanleg stétt

Ekki þarf að hafa mörg orð um þær blikur sem eru á lofti í samfélaginu. Læknar ekki síður en aðrar stéttir hafa fundið fyrir kaldri hönd kreppunnar á eigin skinni og Sigurður segist heyra það allt í kringum sig að afkoman í vetur muni ráða úrslitum fyrir marga lækna hvort þeir taka sig upp og leita betri lífskjara utan íslensku landsteinanna.

„Læknar eru mjög hreyfanleg stétt og íslenskir læknar eru vel liðnir og eftirsóttir starfskraftar. Víða í kringum okkur er læknaskortur svo í sjálfu sér er ekki lengi gert að ráða sig í vinnu erlendis. Það sem heldur í flesta lækna er auðvitað löngunin til að vinna hér heima því ættjarðartaugin er römm. Læknar finna einnig sterkt til ábyrgðar sinnar við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég held að ég tali fyrir munn flestra lækna að þeir vilja helst af öllu vinna fyrir sitt fólk. Því má heldur ekki gleyma að heimurinn hefur minnkað og það er orðið gerlegt að vinna í öðru landi en heimalandinu án þess að rífa fjölskylduna upp. Það eru ýmis teikn á lofti um að læknar fari í meira mæli að líta til annarra landa eftir atvinnu en það sem vekur undrun mína er hversu litlar áhyggjur stjórnvöld virðast hafa af þessari þróun. Það er engu líkara en að þau treysti á að hin ramma taug muni halda, hversu nærri sem gengið er læknum. Margir í læknastétt telja nú þegar að mælirinn í þeim efnum sé fullur; þeir hafa fjárfest í dýrri framhaldsmenntun, komið heim og sett sig í skuldir vegna húsnæðiskaupa miðað við ákveðnar forsendur sem nú eru algerlega brostnar. Það má hafa í huga að íslenskir læknar fjármagna algerlega sjálfir framhaldsnám sitt, laun þeirra meðan á því stendur eru yfirleitt mjög lág miðað við gífurlega mikið vinnuframlag og þegar þeir koma heim eiga þeir ekki neitt annað en þekkingu sína sem er verðlögð mun lægra hér á landi en erlendis. Starfsaldur íslenskra lækna er stuttur, þeir eru að hefja starfsferilinn hér heima um fertugt og þurfa að ná ævitekjunum inn á 10-15 árum styttri tíma en jafnaldrar þeirra. Fyrir vikið verður eign þeirra í lífeyrissjóði að loknu ævistarfi fremur lítil. Í auknum mæli þurfa læknar því ekki að velta því fyrir sér hvort þeir vilji vinna á Íslandi, heldur hvort þeir hafi efni á að vinna á Íslandi.“

Sigurður segir einnig aðra hlið snúa að sérfræðingum í læknisfræði sem kjósa að starfa á Íslandi. „Hlið sem fremur sjaldan er rædd opinberlega og snýr að möguleikum okkar um framgang í starfi og faglega endurnýjun. Hér eru eðli málsins samkvæmt fáar stöður í hverri grein, aðeins ein prófessorsstaða innan hverrar sérgreinar og aðeins einn vinnustaður, Landspítalinn, fyrir margar sérgreinar. Þetta eru ekki mjög hvetjandi aðstæður og að mörgu leyti skiljanlegt ef ungt fólk, sem er sannarlega alþjóðlegra í hugsun en eldri kynslóðin, horfir í aðrar áttir en hingað heim þegar velt er fyrir sér hvar eigi að starfa.“

Sigurður segir að lokum að allir séu sammála um hversu mikilvægt sé að halda heilbrigðiskerfinu sem öflugustu og ekki síst við núverandi aðstæður. „Heilsan er hverjum manni dýrmætust og það má ekki skerða þjónustuna að því marki að hún hafi áhrif á almennt heilsufar þjóðarinnar. Eflaust er hægt að hagræða enn meira en hefur verið gert þó niðurskurður hafi verið viðvarandi í heilbrigðiskerfinu í nokkur ár. Sífellt niðurskurðartal dregur kraft og áhuga úr fólki. Eflaust þjappa erfiðleikar þjóðinni saman en það verður að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Við hljótum að vera ansi aum ef við getum ekki lengur annast þá sem veikir eru.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica