10. tbl. 95. árg. 2009

Ritstjórnargrein

Enn um hlutverk Læknablaðsins

Jóhannes Björnsson meinafræðingur á Landspítala og ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins

Löng hefð er fyrir því að íslenzkir læknar birti niðurstöður vísindarannsókna sinna í Læknablaðinu, reyndar aftur til ársins 1915. Það einkennir þó þessar birtingar, að niðurstöðurnar höfðu oft birzt í erlendum tímaritum áður og birting í Læknablaðinu var ætluð til þess að kynna íslenzkum kollegum niðurstöðuna sérlega. Við þessi vinnubrögð er ekkert að athuga. Í fyrsta lagi er öldungis ljóst, að til lítils er að stunda rannsóknavinnu ef vísindasamfélagið í sem stærstum skilningi þess orðs nýtur ekki niðurstöðunnar. Í öðru lagi er tvíbirting greina fyllilega heimil undir tilteknum kringumstæðum, sem tilgreindar eru í leiðbeiningum alþjóðasamtaka ritstjóra læknarita (http://www.icmje.org). Á þetta sérstaklega við þegar lesendahópar ritanna eru ólíkir og þá fyrst og fremst ef um er að ræða birtingu á tveimur óskyldum tungumálum. Undantekningar eru til frá því sem áður greinir um fyrstu birtingar íslenzkra greina í erlendum tímaritum og í Læknablaðinu frá 20. öldinni leynast nokkrar vísindagreinar, sem náðu seint eða ekki til alþjóðasamfélagsins og hefðu þó átt að gera það.

Ritstjórnir Læknablaðsins hafa lengi áttað sig á mikilvægi þess að vísindahluti Læknablaðsins nái til alþjóðasamfélagsins. Reyndar má spyrja þeirrar spurningar, hvort máli skipti hvar vísindaniðurstöður birtist, hin svokallaða hnatt-/alþjóðavæðing hafi brotið niður múra milli þjóða. Það hefur hins vegar verið sannfæring ritstjórna Læknablaðsins og vafalaust meirihluta íslenzkra lækna að alþjóðasamfélaginu væri ljóst að um væri að ræða vísindavinnu íslenzkra lækna og að sú vinna hefði verið unnin á Íslandi. Það er reyndar hluti af sjálfsímynd okkar og viðhaldi hennar, að okkur sjálfum og alþjóðasamfélaginu sé ljóst að Íslendingar hafi unnið þessa vinnu og það á Íslandi.

Í þessu hefti Læknablaðsins rekja Tómas Guðbjartsson og Engilbert Sigurðsson, báðir virkir rannsakendur og reyndar báðir ritstjórnarmenn í Læknablaðinu, þróun birtinga vísindagreina í Læknablaðinu undanfarin ár.1 Þeir benda á, að fjöldi birtra vísindagreina hefur haldizt því sem næst óbreyttur síðastliðin fimm ár. Til þess liggja ýmsar ástæður, líklega ein sú helzta að fjöldi þeirra greina, sem hafnað er, hefur aukizt undanfarin ár, fyrst og fremst eftir að Læknablaðið fékkst skráð í Medline-gagnagrunninn fyrri hluta árs 2005. Þetta höfnunarhlutfall, sem er um það bil 15% innsendra greina, verður beinlínis rakið til skerptra vinnureglna, sem við tókumst á hendur að virða. Þótt ekki liggi fyrir tölur um höfnunarhlutfall fyrri ára er óhætt að fullyrða að það hefur verið sýnu lægra.

Önnur afleiðing breyttra vinnubragða er að greinar geta nú oft orðið lengur en áður í vinnslu hjá ritstjórn. Erfitt getur reynzt að finna ritrýna í fámennum sérgreinum og þarf oft að leita endurtekið til sömu aðila, sem skiljanlega verða mishrifnir enda ritrýni oftast tímafrekt starf, stundum vanþakklátt og bein umbun engin í þessari jarðvist. Læknablaðið sendi ritrýnum þó þakklætisvott árið 2008. Ástæða er til þess að vara greinahöfunda við að tafir geta stundum orðið á ritrýni og biðja þá velvirðingar þegar tilefni er til.

Læknablaðið er í senn vísinda- og félagsrit. Þessi samsetning, eða tvískipting, er fremur sjaldgæf, á sér helzt hliðstæður á Norðurlöndum. Erfitt getur reynzt að samræma afstöðu eða sjónarmið beggja þáttanna, það er að halda uppi viðunandi vísindahluta og sinna jafnframt félagslegum þörfum eigenda, í okkar tilviki íslenzkra lækna. Síðustu ritstjórnum hefur tekizt að „alþjóðavæða“ vísindahlutann með skráningu í erlenda gagnagrunna. Þessir áfangar eru allir endurkræfir, það er Læknablaðið mun falla út úr þessum grunnum takist ekki að viðhalda skriði. Læknablöð frændþjóðanna í austri hafa til dæmis orðið fyrir hvorutveggja, ýmist ekki komizt í gagnagrunna eða fallið út úr þeim. Það er meginverkefni íslenzkra lækna, og ritstjórna Læknablaðsins í umboði þeirra, að viðhalda og auka veg Læknablaðsins að þessu leyti.

Heimild

1. Guðbjartsson T, Sigurðsson E. Hverjir skrifa í Læknablaðið - Yfirlit yfir fræðigreinar síðustu fimm ára. Læknablaðið 2009; 95: 683-6.Þetta vefsvæði byggir á Eplica