10. tbl. 95. árg. 2009

Ritstjórnargrein

LR 100 ára - Læknar og samfélagið

Högni Óskarsson geðlæknir og Gestur Þorgeirsson hjartalæknir

Eitt hundrað ár eru ekki langur tími í sögu læknisfræðinnar almennt, enda nær sú saga örugglega langt aftur fyrir elstu skrifuðu heimildir. Mannskepnan hefur örugglega reynt að bæta heilsu sína og græða sár sín frá því hún fór að ganga um á þessari jörð. Í sögu lækninga á Íslandi eru eitt hundrað ár ekki heldur svo langur tími. Skráðar heimildir um lækningar á Íslandi er að finna í Íslendingasögum og í annálum.

Óhætt er að fullyrða að frá næstsíðustu aldamótum hafi framfarir í læknisfræði orðið hvað stórstígastar; sama hvort litið er til rannsókna á uppruna og eðli sjúkdóma, greiningar þeirra eða meðferðar. Bætt heilsa, auknar lífslíkur og lífslengd, eru vissulega ekki aðeins afrakstur þessa heldur ráða hér miklu almennir hollustuhættir, mataræði og betri félagslegur aðbúnaður borgaranna.

Það er því ánægjulegt að hugsa til þess að allt frá stofnun Læknafélags Reykjavíkur á haustmánuðum 1909 og á fyrstu áratugunum í sögu þess var félaginu ekki aðeins beitt til þess að bæta alla starfsaðstöðu lækna og þjónustu við sjúklinga, heldur lagði það einnig mikla áherslu á almenningsfræðslu um heilbrigði og hollustu, á sóttvarnir almennt og varnir gegn kynsjúkdómum. Læknafélag Reykjavíkur tók líka frumkvæði í eða hvatti til stofnunar félaga eins og Berklavarnafélags Íslands og Rauðakrossdeildar Alþjóða Rauða krossins á Íslandi, svo að fátt eitt sé nefnt.

Félagið hefur beitt kröftum sínum á svipaðan hátt í gegnum alla síðustu öld og fram á þá tuttugustuogfyrstu. Vissulega hefur þetta starf verið samofið þróun Læknafélags Íslands, sem hefur haft frumkvæðið meira á sínum höndum eftir að því óx fiskur um hrygg. En vegna stærðar sinnar, og ekki síst þar sem mestu vaxtarbroddar heilbrigðisþjónustunnar hafa verið á félagssvæði Læknafélags Reykjavíkur, þá hefur félagið, að öðrum ólöstuðum, verið hryggjarstykkið í starfi Læknafélags Íslands. Því má þó bæta við að það hefur verið lán íslenska heilbrigðiskerfisins hve íslenskir læknar, hvar sem þeir hafa starfað eða búið á landinu, hafa verið ábyrgir og samhentir í að tengja læknisfræðina við þá félagslegu þætti sem ráða miklu um líf og heilsu. Það hafa þeir gert í gegnum félög sín, með þátttöku í stjórnmálum í héraði eða á Alþingi, og oft með öflugu frumkvöðlastarfi.

Þessum þáttum hafa læknar sinnt samhliða meginmarkmiði sínu að lækna og líkna, að sinna rannsóknum og fræðslu.

Það er því engin tilviljun að stjórn Læknafélags Reykjavíkur skuli á þessum tímamótum hafa ákveðið að yfirskrift afmælishátíðarinnar skuli vera „Læknirinn og samfélagið“. Fyrri dagurinn er helgaður læknum, „Læknaklúbburinn“, en klúbburinn verður opinn læknum kl. 15-18 í húsnæði læknafélaganna. Þar verður bæði litið um öxl og rýnt inn í framtíðina; þar verður röð stuttra rökræðna þar sem tekist verður á um nokkur álitamál heilbrigðiskerfisins, léttar veitingar á milli. En megináherslan verður á klúbbstemninguna; að hittast og rabba saman, sér og öðrum til ánægju.

Laugardagurinn er ætlaður til fræðslu fyrir almenning undir yfirskriftinni „Heilsa - ábyrgð okkar allra“. Nokkur efnisatriði verða tekin fyrir, ekki í formi langra fyrirlestra heldur verða settir upp básar fyrir hvert efni, og verður fræðslunni að miklu leyti miðlað með veggspjöldum, margmiðlunartækni og rabbi við þá sem vilja fræðast um ákveðin atriði. Rúsínan í pylsuendanum er svo Listatorg lækna. Eru allir læknar sem hafa áhuga á að sýna verk sín hvattir til að koma þeim á framfæri.

Um kvöldið verður svo hin eiginlega afmælisveisla, með mat og drykk og skemmtan. Ýmislegt óvænt mun koma upp þar.

Að lokum. Eitt hundrað ára afmæli er ekki markmið í sjálfu sér. Þetta eru tímamót, sem vonandi verður hægt að líta til seinna meir sem áfanga, þar sem læknar blésu til áframhaldandi sóknar í heilbrigðismálum, landi og þjóð til heilla.Þetta vefsvæði byggir á Eplica