10. tbl. 95. árg. 2009

Fræðigrein

Bein útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðismála

Out-of-pocket health care expenditures among population groups in Iceland

Ágrip

Tilgangur: Heilbrigðisútgjöld heimila hafa áhrif á aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þróun heilbrigðisútgjalda heimilanna og hvort ákveðnir hópar verðu hærri upphæðum og hefðu meiri kostnaðarbyrði en aðrir.

Efniviður og aðferðir: Byggt er á tveimur heilbrigðiskönnunum sem fóru fram árin 1998 og 2006 meðal þjóðskrárúrtaks 18-75 ára Íslendinga. Heimtur voru 69% í fyrri könnuninni (N=1924) og 60% í þeirri síðari (N=1532). Meðalútgjöld heimila vegna heilbrigðismála og kostnaðarbyrði (hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum) voru borin saman milli hópa og ára.

Niðurstöður: Raunútgjöld heimila vegna heilbrigðismála jukust um 29% frá 1998 til 2006. Stærstu útgjaldaliðir 2006 voru lyf og tannlæknisþjónusta. Kostnaðarbyrðin var þyngst meðal kvenna, yngra og eldra fólks, einhleypra og fráskilinna, minni heimila, fólks utan vinnumarkaðar og atvinnulausra, fólks með litla menntun og lágar tekjur, langveikra og öryrkja. Samanburður á kostnaðarbyrði 1998-2006 sýnir versnandi stöðu ungs fólks, skólafólks, atvinnulausra og fólks með minnsta menntun, en batnandi stöðu eldra fólks, ekkjufólks og barnaforeldra.

Ályktun: Verulegur munur er á útgjöldum og útgjaldabyrði vegna heilbrigðisþjónustu eftir hópum. Endurskoða þyrfti tryggingavernd í heilbrigðiskerfinu og huga sérstaklega að öryrkjum, fólki utan vinnumarkaðar, lágtekjufólki og ungu fólki.

Inngangur

Undanfarna áratugi hefur heildarkostnaður við heilbrigðisþjónustu vaxið víðast hvar á Vesturlöndum, hvort sem miðað er við kostnað á mann á föstu verðlagi eða hlutfall kostnaðar af landsframleiðslu. Síðustu ár hefur hægt á kostnaðaraukningu flestra vestrænna heilbrigðiskerfa þótt kostnaðurinn aukist áfram í langflestum þeirra.1

Opinber útgjöld vestrænna ríkja vegna heilbrigðismála hafa aukist síðustu áratugi þótt almennt hafi dregið úr opinberum vexti síðustu ár. Hið opinbera ber þó áfram langstærstan hluta heilbrigðisútgjaldanna í flestum ríkjanna og í öllum nema tveimur (Bandaríkjunum og Mexíkó) stendur hið opinbera undir meirihluta kostnaðarins.1 Vaxandi hlutur heilbrigðismála í opinberum útgjöldum hefur víða torveldað stjórnvöldum að ná jafnvægi í rekstri hins opinbera. Meðal annars hefur verið brugðist við með auknu aðhaldi í fjárveitingum til heilbrigðisstofnana, takmörkun á framboði þjónustu (til dæmis rekstri biðlista), einkavæðingu, endurskoðun á greiðsluþátttöku hins opinbera og aukinni þátttöku sjúklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna.2

Aðhaldsaðgerðir stjórnvalda eru meðal ástæðna þess að bein heilbrigðisútgjöld heimilanna hafa aukist innan margra vestrænna ríkja.1, 2 Því hafa vaknað spurningar um hvort aðgengi að heilbrigðisþjónustunni sé í reynd jafnt eða hvort vaxandi ójafnaðar gæti í þjónustunni. Erlendar rannsóknir benda til að aukin bein útgjöld vegna heilbrigðisþjónustu og skert tryggingavernd fækki læknaheimsóknum og spítalainnlögnum.3-5

Á Íslandi hefur hlutfall heilbrigðisútgjalda af vergri landsframleiðslu hækkað síðustu áratugi, en lækkaði þó frá 2000 til 2006, einkum vegna aukinnar landsframleiðslu. Árið 2006 námu heildarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi 9,1% af vergri landsframleiðslu og var Ísland í 10.-11. sæti OECD-ríkja. Sama ár nam hlutfall hins opinbera í heilbrigðisútgjöldum á Íslandi 82% og var Ísland í sjötta sæti OECD-ríkjanna í opinberu hlutfalli heilbrigðisútgjalda.1 Íslenska heilbrigðiskerfið er að grunni til félagslegt kerfi (socialized health system). Meginmarkmið slíkra kerfa er að þegnarnir hafi jafnan og greiðan aðgang að þjónustunni.6, 7 Í lögum um heilbrigðisþjónustu á Íslandi segir meðal annars í fyrstu grein að markmiðið sé að „allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“.8 Þá segir í íslenskri heilbrigðisáætlun til ársins 2010 að samstaða sé um það hér á landi „að heilbrigðisþjónustan sé að mestu leyti kostuð af almannafé. Bein útgjöld einstaklinga megi aldrei vera það mikil að þau komi í veg fyrir að fólk leiti sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu.“9

Opinberar tölur hérlendis leiða í ljós að bein útgjöld einstaklinga og heimila vegna heilbrigðismála hafa aukist verulega að raungildi undanfarin ár.10, 11 Jafnframt benda innlendar niðurstöður til að bein kostnaðarhlutdeild sjúklinga bitni á aðgengi að þjónustunni. Í rannsókn meðal fullorðinna Íslendinga kom í ljós að kostnaður var önnur algengasta ástæða þess að fólk frestaði læknisheimsókn sem það taldi þörf á (32% allra frestana). Jafnframt kom í ljós að það voru einkum yngra fólk, einhleypir og fráskildir, og tekjulágt fólk sem frestaði eða felldi niður ferð til læknis af kostnaðarástæðum.12 Í annarri innlendri rannsókn kom fram að heildarútgjöld fjölskyldna vegna heilbrigðismála á níu mánaða tímabili og hlutfall þessara útgjalda af fjölskyldutekjum (útgjaldabyrði) tengdust aukinni frestun læknisþjónustu mánuðina á eftir. Nánari athugun leiddi í ljós að útgjaldabyrðin hafði meiri áhrif á frestun læknisþjónustu en sjálf upphæð útgjaldanna.13 Samkvæmt þessum niðurstöðum virðist ekki hafa tekist sem skyldi að tryggja almenningi á Íslandi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustunni eins og lög og heilbrigðisáætlun kveða á um, meðal annars vegna beins kostnaðar sjúklinga.

Í rannsókn á útgjöldum íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu 1998 kom meðal annars í ljós að mest krónutöluútgjöld var að finna hjá fólki á miðjum aldri (45-54 ára), giftum og sambúðarfólki, foreldrum ungra barna, stórum heimilum, fólki í fullu starfi og fólki með háskólamenntun og háar tekjur. Þegar aftur á móti var litið til kostnaðarbyrði (heilbrigðisútgjalda í hlutfalli við heimilistekjur) skáru konur, eldra fólk og yngra fólk, fólk utan vinnumarkaðar, atvinnulausir og lágtekjufólk sig úr.14

Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna útgjöld og útgjaldabyrði íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega er skoðað hver þróun útgjaldanna hefur verið frá 1998 til 2006. Þá er einnig athugaður útgjaldamunur eftir samfélagshópum (aldri, kynferði, foreldra-, atvinnu- og námsstöðu, heimilisstærð, búsetu, menntun, heimilistekjum, langvinnum veikindum og örorku) og hvort hópamunur hafi breyst á umræddu tímabili.

Efniviður og aðferðir

Byggt er á gögnum úr tveimur heilbrigðiskönnunum. Annars vegar er landskönnunin Heilbrigði og lífskjör Íslendinga frá hausti 199812 og hins vegar landskönnunin Heilbrigði og aðstæður Íslendinga frá hausti 2006.15 Úrtak beggja kannana var dregið með tilviljunaraðferð úr hópi íslenskra ríkisborgara í þjóðskrá á aldrinum 18-75 ára. Báðar voru póstkannanir og byggðu á svonefndri Heildaraðferð.16, 17 Aðferðin felst í því að spurningalisti er sendur út allt að þrisvar sinnum á sjö vikna tímabili. Að auki er sent út ítrekunar- og þakkarkort viku eftir fyrstu útsendingu spurningalista. Í framhaldi af síðustu útsendingu spurningalista er hringt í alla sem ekki hafa skilað lista eða neitað þátttöku. Heimtur í fyrri könnuninni voru 69%, en 60% í þeirri síðari. Tölvunefnd, síðar Persónuvernd, auk Vísindasiðanefndar veittu leyfi fyrir framkvæmd kannananna.

Lýðfræðileg samsetning svarendahóps og þýðis var mjög áþekk í báðum könnunum, nema hvað svörun var hærri meðal kvenna en karla og íbúa á landsbyggðinni en íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður beggja kannana voru því vegnar eftir búsetu og kynferði svo þær gæfu betri mynd af þýðinu.12, 15

Til að meta kostnað vegna heilbrigðisþjónustu var spurt: Hver áætlar þú að sé samanlagður kostnaður vegna notkunar þinnar og heimilismanna þinna (svo sem maka, barna og foreldra á heimili þínu) á eftirfarandi þáttum það sem af er þessu ári (1998 eða 2006)? a) Komur til lækna, komur á göngu- og slysadeild og bráðamóttöku, húsvitjanir lækna (ekki lyf), b) Lyf samkvæmt lyfseðli, c) Lyf án lyfseðils, d) Tannlæknisþjónusta, e) Sjúkraþjálfun, f) Sálfræðiþjónusta, g) Hjálpartæki (svo sem hækjur, hjólastóll, hálskragi, spelkur, gerviútlimur), h) Gleraugu (kaup á nýjum eða viðhald), i) Heyrnartæki (kaup á nýjum eða viðhald), j) Sjúkra- og hjúkrunarvörur (til dæmis sjúkrakassi, plástur, teygjubindi, mælar af ýmsu tagi, bleyjur fyrir fullorðna), k) Óhefðbundin heilbrigðisþjónusta (svo sem hnykklæknar, svæðanudd, náttúrulyf og -lækningar, huglækningar, nálastungur, jóga), l) Sjúkraflutningar (þessi liður var einungis með í könnuninni frá 2006).

Rannsóknin kannaði tengsl útgjaldaliða við eftirfarandi breytur: Kynferði, aldur, hjú-skaparstöðu (gift(ur)/í sambúð, í föstu sambandi/einhleyp(ur), fráskilin(n), ekkja/ekkill), foreldrastöðu (barn 5 ára eða yngra, ekki barn 5 ára eða yngra), fjölda heimilismanna, atvinnustöðu (ekki í starfi, hlutastarf, fullt starf), námsstöðu (í skóla, ekki í skóla), atvinnuleysi (atvinnulaus nú, ekki atvinnulaus nú), búsetu (höfuðborgarsvæði, landsbyggð), menntun (grunnskóla-, gagnfræða- eða landspróf, sérskóla- eða stúdentspróf, háskóla-stigspróf), heimilistekjur (árstekjur í krónum árið 2005), örorku (75%) og langvinna sjúkdóma/kvilla (svarendur gáfu upp hvort þeir hefðu haft einhvern af 48 langvinnum sjúkdómum og kvillum, og hvort læknir hefði staðfest það, svo sem astma, þrálát húðútbrot, háan blóðþrýsting, heilablóðfall, krabbamein í lungum, sykursýki, þrálátan verk í mjóbaki og alkóhólisma).

Við úrvinnslu gagna var notast við tölfræðifor-ritið SPSS. Útgjaldatölur hvers heimilis voru reiknaðar á ársgrundvelli samkvæmt formúlunni Y=(X/k-l)*365, þar sem Y eru framreiknuð ársútgjöld, X eru útgjöldin til þess dags þegar spurningalista er svarað, k er raðnúmer dagsins (frá áramótum) þegar viðkomandi spurningalisti er móttekinn og l er áætlaður dagafjöldi milli útfyllingar og móttöku lista (l er áætlað þrír dagar ef listi er móttekinn á mánudegi, en annars tveir dagar).14 Meðaltals- og prósentutöflur voru settar upp til að kanna meðalútgjöld vegna þjónustuþátta, og hlutfall útgjalda af heimilistekjum. Hópamunur á útgjöldum var metinn með t-prófi þegar hópar voru tveir og F-prófi þegar hópar voru þrír eða fleiri.

 

 

Niðurstöður

Bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála árið 2006 voru mjög breytileg. Lægst voru þau 0 krónur, en hæst rúmar 402.000 krónur (staðalfrávik: 67.600). Útgjöldin jukust að raungildi um 29% á tímabilinu frá 1998 til 2006, úr tæpum 82.000 að meðaltali í tæp 106.000. Ef óhefðbundin heilbrigðisþjónusta er undanskilin jukust raunútgjöld heimilanna um tæp 27% á tímabilinu (úr 79.000 í 100.000). Jafnframt hækkaði kostnaðarbyrði heimila (heilbrigðisútgjöld í hlutfalli við heildartekjur heimilis) úr 1,82% að meðaltali árið 1998 í 2,52% árið 2006. Heilbrigðisútgjöldin 2006 samsvöruðu tæplega 39.000 krónum á hvern heimilismann að meðaltali ef allt er meðtalið, en tæplega 37.000 ef óhefðbundin heilbrigðisþjónusta er undanskilin. Nánar tiltekið námu meðalútgjöld 2006 vegna læknisþjónustu 16.778 krónum á heimili (6064 krónum á heimilismann), lyfseðilskyldra lyfja 20.314 krónum á heimili (7737 krónum á heimilismann), tannlæknisþjónustu 26.840 krónum á heimili (9467 krónum á heimilismann), sjúkraþjálfunar 6284 krónum á heimili (2234 krónum á heimilismann), og sálfræðiþjónustu 2633 krónum á heimili (996 krónum á heimilismann).

 

Samkvæmt töflu I varð raunaukning í öllum liðum heilbrigðisútgjalda heimilanna á tímabilinu, langmest í sálfræðiþjónustu (120%) og óhefðbundinni heilbrigðisþjónustu (104%), en raunaukning var einnig mikil í sjúkraþjálfun (49%) og lyfjum án lyfseðils (43%). Minnst var raunaukning heilbrigðisútgjalda heimilanna í tannlæknisþjónustu (15%). Þá sýnir tafla I að innbyrðis hlutdeild útgjaldaliða breyttist lítið milli 1998 og 2006. Þó varð lyfjakostnaður stærsti útgjaldaliður heimilanna 2006 (en var í öðru sæti 1998), en tannlæknakostnaður lenti í öðru sæti 2006 (var í fyrsta sæti 1998).

 

 

Tafla II sýnir hvernig ársútgjöld heimila vegna heilbrigðismála skiptust eftir helstu útgjaldaliðum og hópum árið 2006. Taflan sýnir meðal annars að tannlæknakostnaður var hæstur hjá 45-54 ára og lægstur meðal 65 ára og eldri. 55-64 ára höfðu hæst útgjöld vegna lyfja. Giftir/sambúðarfólk höfðu hæst heimilisútgjöld hjúskaparstétta í öllum útgjaldaliðum, en ekkjufólk hafði lægst útgjöld. Samband var milli fjölda heimilismanna og heimilisútgjalda í flestum útgjaldaliðum. Heimili skólafólks vörðu minna fé í lyf og læknisþjónustu en önnur heimili. Heimili atvinnulausra vörðu mun minna fé í tannlækningar og tæki og lyfjabúðarvörur en önnur heimili. Heimili háskólamenntaðra vörðu meira fé í tannlækningar en önnur heimili og hátekjuheimili vörðu meira fé í tannlækningar, lyf, tæki og lyfjabúðarvörur og læknisþjónustu.

 

 

Tafla III sýnir heildarútgjöld vegna heilbrigðis-mála á ársgrundvelli 2006 eftir hópum (að undan-skilinni óhefðbundinni heilbrigðisþjónustu). Taflan sýnir mest heimilisútgjöld hjá fólki á aldrinum 45-54 ára en minnst hjá elsta aldurshópnum (65 ára eða eldri). Meðal hjúskaparstétta voru heimilisútgjöld giftra/sambúðarfólks hæst, en ekkjufólks lægst. Þeir sem áttu barn fimm ára eða yngra höfðu lægri heimilisútgjöld en þeir sem ekki áttu svo ungt barn. Eins og við var að búast hækkuðu útgjöld vegna heilbrigðismála með fjölgun heimilismanna. Atvinnulausir höfðu lægri útgjöld en þeir sem ekki voru atvinnulausir. Af einstökum tekjuhópum vörðu heimili tekjulægsta hópsins minnstu fé, en tekjuhæsta hópsins mestu. Þá voru heimilisútgjöld langveikra og öryrkja umtalsvert hærri en annarra.

Þegar heilbrigðisútgjöld heimila eru athuguð skiptir krónutalan ekki aðeins máli heldur ekki síður kostnaðarbyrðin, það er hlutfall útgjalda af heimilistekjum. Tafla III sýnir þetta hlutfall í einstökum hópum. Samkvæmt töflunni vörðu heimili kvenna meiru (2,89%) af tekjum sínum til heilbrigðismála en heimili karla (2,21%). Þá vekur athygli hátt hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum yngsta fólksins (3,35%), og einnig fólks á aldrinum 65 ára og eldri (2,83%). Þá báru heimili einhleypra og fráskilinna meiri byrðar (3,18% og 3,06%) en heimili annarra hjúskapar-hópa. Meðalstór heimili báru minni byrðar en lítil eða stór heimili. Heimili fólks utan vinnumarkaðar báru meiri byrðar (4,05%) en heimili útivinnandi fólks. Heimili námsmanna vörðu einnig meiru af tekjum sínum til heilbrigðismála en önnur heimili. Heimili atvinnulausra báru hærra hlutfall heilbrigðisútgjalda (3,77%) en heimili annarra. Þá báru heimili grunnskólamenntaðra meiri byrðar en heimili framhalds- og háskólamenntaðra. Þá vekja sérstaka athygli háar kostnaðarbyrðar lágtekjufólks vegna heilbrigðisþjónustu (4,80%) samanborið við aðra tekjuhópa (2,09% og 1,37%). Loks sýnir tafla III að heimilisútgjöld langveikra (3,07%) voru hærri en annarra, en þó sérstaklega öryrkja sem vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála.

Samanburður á kostnaðarbyrði einstakra hópa (heilbrigðisútgjöldum heimilis sem hlutfalls af heildartekjum heimilis) milli áranna 1998 og 2006 leiðir almennt í ljós svipaðan mun milli hópa (tölur árið 1998 eru ekki sýndar í töflu). Þó er rétt að nefna að kostnaðarbyrði yngra fólks (18-24 ára) jókst mikið á tímabilinu, eða úr 2,50% af heimilistekjum 1998 í 3,35% 2006. Hins vegar lækkaði kostnaðarbyrði eldra fólks (65 og eldri) og ekkjufólks (úr 3,14% og 4,22% árið 1998 í 2,83% og 2,14% árið 2006). Þá höfðu barnaforeldrar marktækt hærri kostnaðarbyrði vegna heilbrigðismála en aðrir 1998, en munurinn var ekki marktækur (og raunar í gagnstæða átt) 2006. Kostnaðarbyrði námsmanna hækkaði á tímabilinu (úr 2,40% í 3,12%) og staða þeirra reyndist marktækt lakari en annarra 2006. Sömuleiðis hækkaði kostnaðarbyrði atvinnulausra (úr 3,28% í 3,77%). Þá báru grunnskólamenntaðir meiri kostnaðarbyrðar en aðrir menntunarhópar 2006 (3,09%), en 1998 var ekki marktækur munur á kostnaðarbyrði menntunarhópanna.

 

Umræða

Samkvæmt rannsókninni jukust raunútgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðismála um 29% á tímabilinu 1998-2006 og kostnaðarbyrði heimilanna jókst. Stærstu útgjaldaliðir 2006 voru lyf, tannlæknisþjónusta, tæki og lyfjabúðarvörur, og læknisþjónusta (í þessari röð). Athygli vekur að hækkun raunútgjalda 1998-2006 var minnst í tannlæknisþjónustunni (15%). Engu að síður var hópamunur á heimilisútgjöldum 2006 mikill í tannlæknisþjónustunni, enda almenn tryggingavernd ekki fyrir hendi þar eins og í læknisþjónustunni.

Mest heimilisútgjöld í krónum vegna heilbrigðismála var að finna hjá fólki á miðjum aldri (45-54 ára), giftum/sambúðarfólki, þeim sem ekki höfðu ung börn á framfæri, stórum fjölskyldum, þeim sem ekki voru atvinnulausir, fólki með háar tekjur, langveikum og öryrkjum. Þegar litið var til kostnaðarbyrði blasti við nokkuð önnur mynd. Mestar byrðar báru heimili kvenna, yngra og eldra fólks, einhleypra og fráskilinna, minni heimili, heimili fólks utan vinnumarkaðar og atvinnulausra, námsmanna, fólks með litla menntun og lágar tekjur, og heimili langveikra og öryrkja. Þessar niðurstöður eru hliðstæðar erlendum niðurstöðum.18-21 Þyngstar kostnaðarbyrðar allra hópa báru heimili lágtekjufólks (4,80%) og öryrkja (5,98%). Samanburður á kostnaðarbyrði heimila milli áranna 1998 og 2006 sýnir versnandi stöðu ungs fólks, skólafólks, atvinnulausra og fólks með minnsta menntun, en batnandi stöðu eldra fólks, ekkjufólks og barnaforeldra.

Öðru hverju við áramót endurskoða heilbrigðisyfirvöld reglur um komugjöld sjúklinga, hámarkskostnað og afsláttarkort. Þar að auki endurskoða yfirvöld á ýmsum tímum reglur um greiðsluþátttöku sjúklinga vegna lyfseðilsskyldra lyfja, þjálfunar, tannlækninga, sjúkraflutninga og fleiri þátta. Um áramótin 2008-2009 urðu talsverðar hækkanir á komugjöldum einstaklinga til sérfræðinga og vegna rannsókna og aðgerða, auk þess sem tekið var upp nýtt 6000 króna innlagnargjald á sjúkrahús (komugjöld á heilsugæslustöðvar og til heimilislækna á dagvinnutíma voru þó óbreytt). Breytingarnar voru umdeildar22, 23 og meðal fyrstu verka nýs heilbrigðisráðherra var að afnema innlagnargjaldið og tók ný gjaldskrá gildi strax 4. febrúar 2009. Þetta dæmi undirstrikar að ákvarðanir stjórnvalda um greiðsluþátttöku sjúklinga eru hápólitískar, enda snerta þær grundvallarmarkmið um jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðisþjónustunni. Færa má rök fyrir því að gjöld sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu séu komin á varasamt stig með hliðsjón af markmiðinu um jafnt aðgengi. Nýlegar rannsóknir hérlendis sýna að þeir sem hafa hærri krónutöluútgjöld vegna heilbrigðismála, og þó einkum þeir sem hafa hærra hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum, fresta frekar en aðrir læknisþjónustu þó þeir telji sig hafa þörf fyrir þjónustuna.13 Sérstaka athygli vekur kostnaðarbyrði öryrkja, lágtekjufólks, fólks utan vinnumarkaðar og ungs fólks. Með reglum um kostnað sjúklinga vegna læknishjálpar, tannlæknisþjónustu, lyfja og þjálfunar hefur verið lögð sérstök áhersla á að halda í skefjum kostnaði vegna þjónustu barna, lífeyrisþega (aldraðra og öryrkja) og hópa langveikra. Þörf virðist á heildstæðari tryggingaverndarstefnu. Þannig virðist sem tryggingavernd öryrkja sé alls ófullnægjandi (þrátt fyrir gildandi almennar reglur) og ástæða til að auka enn frekar vernd þessa hóps. Þá nýtur lágtekjufólk og fólk utan vinnumarkaðar ekki sömu tryggingaverndar og aldraðir og öryrkjar þrátt fyrir háa kostnaðarbyrði vegna heilbrigðisþjónustu. Sama er að segja um ungt fólk sem náð hefur 18 ára aldri. Full ástæða virðist til að endurskoða tryggingavernd þessara hópa við læknis- og tannlæknisþjónustu, þjálfun og lyfjakostnað. Jafnframt er þörf á að leiðrétta það misræmi að tryggingaverndin fer eftir því til hvaða starfsstéttar í sérfræðiþjónustu sjúklingar leita. Nægir þar að nefna misræmið í tryggingaverndinni þegar farið er til tannlæknis eða einhvers sérfræðilæknis, eða þegar farið er til sálfræðings eða geðlæknis. Þá er þörf á að endurskoða misræmi í tryggingavernd nauðsynlegra lyfseðilsskyldra lyfja, og nægir þar að nefna misræmið milli tryggingaverndar þeirra sem eru á hjartalyfjum og þurfa að standa undir hluta kostnaðar, og hinna sem taka krabbameinslyf sér að kostnaðarlausu.24 Loks er full ástæða til að endurskoða gildandi reglur og framkvæmd varðandi endurgreiðslur samanlagðra heilbrigðisútgjalda heimila, en mjög fá heimili sækja um og fá slíkar endurgreiðslur.

Stjórnvaldsákvarðanir er varða hækkanir á komugjöldum og öðrum þjónustukostnaði sjúklinga og takmarkanir á endurgreiðslu vegna lyfja eru iðulega teknar án þess að fram fari greining á áhrifum breyttrar skipanar, meðal annars með tilliti til kostnaðar sjúklinga og aðgengis að þjónustu. Þörf er á frekari rannsóknum hérlendis á heilbrigðisútgjöldum einstakra hópa (svo sem aldurshópa, atvinnuhópa, tekjuhópa, langveikra og öryrkja) eftir útgjaldaliðum og áhrifum útgjaldanna á notkun og aðgengi hópanna að heilbrigðisþjónustunni. Þá er þörf á því hérlendis að komið verði á laggirnar skipulegri söfnun og úrvinnslu gagna um veikindi og sjúkdóma, þjónustukostnað og þjónustunotkun, bæði almennt og í einstökum hópum, svo að rannsaka megi afleiðingar stjórnvaldsaðgerða og annarra áhrifaþátta og fylgjast með breytingum á kostnaði, þjónustunotkun og aðgengi að þjónustu yfir tíma. Þannig væri hægt að leggja traustari grundvöll en verið hefur undir heilbrigðismálaumræðu og stjórnvaldsaðgerðir í heilbrigðismálum hérlendis og leggja raunverulegt mat á hvort við nálgumst eða fjarlægjumst á hverjum tíma þau megin- markmið sem íslenska heilbrigðiskerfinu hafa verið sett.

 

Þakkir

Heilbrigðiskannanirnar Heilbrigði og lífskjör Íslendinga og Heilbrigði og aðstæður Íslendinga hlutu styrki frá Rannsóknarráði Íslands (Vísindasjóði/Rannsóknasjóði) og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

 

 

 

Heimildir

1. OECD Health Data 2008. OECD, Frakklandi 2008.
2. Saltman RB, Figueras J. European health care reform: Analysis of current strategies. World Health Organization, Copenhagen 1997.
3. Berk ML, Schur CL, Cantor JC. Ability to obtain health care: Recent estimates from the Robert Wood Johnson Foundation National Access to Care Survey. Health Aff 1995; 14: 139-46.
4. Donelan K, Blendon RJ, Hill CA, et al. Whatever happened to the health insurance crisis in the United States? Voices from a national survey. JAMA 1996; 276: 1346-50.
5. Newhouse JP, Manning WG, Morris CN. Some interim results from a controlled trial of cost sharing in health insurance. N Eng J Med 1981; 305: 1501-7.
6. Cockerham WC. Medical Sociology, 10th ed.: Prentice-Hall, Upper Saddle River, NJ 2006.?
7. Vilhjálmsson R. Íslenska heilbrigðiskerfið á krossgötum. Í: Jóhannesson GÞ, ritstj. Rannsóknir í félagsvísindum VIII. Félagsvísindastofnun, Reykjavík 2007.
8. Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007.
9. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Heilbrigðisáætlun til ársins 2010: Langtímamarkmið í heilbrigðismálum. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavík 2001.
10. Þjóðhagsstofnun. Útgjöld heimila til heilbrigðismála 1987-2000. Þjóðhagsstofnun, Reykjavík 2002.
11. Heilbrigðisútgjöld á Íslandi. Hagtíðindi 2008; 93: 1-43.
12. Vilhjálmsson R, Ólafsson Ó, Sigurðsson JÁ, et al. Aðgangur að heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Landlæknisembættið, Reykjavík 2001.
13. Vilhjálmsson R. Failure to seek needed medical care: Results from a national health survey of Icelanders. Soc Sci Med 2005; 61: 1320-30.
14. Vilhjálmsson R, Sigurðardóttir GV. Bein útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu. Læknablaðið 2003; 89: 25-31.
15. Vilhjálmsson R. Landskönnunin Heilbrigði og aðstæður Íslendinga ? Aðferð og framkvæmd. Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Reykjavík 2007.
16. Dillman DA. Mail and telephone surveys: The Total Design Method. Wiley, New York 1978.
17. Dillman DA. Mail and internet surveys: The Tailored Design Method, 2nd ed. Wiley, New York 2000.
18. Acs G, Sabelhaus J. Trends in out-of-pocket spending on health care, 1980-92. Mon Labor Rev 1995; 118: 35-45.
19. Hong G, Kim SY. Out-of-pocket health care expenditure patterns and financial burden across the life cycle stages. J Consumer Affairs 2000; 34: 291-313.
20. Makinen M, Waters H, Rauch M, et al. Inequalities in health care use and expenditures: Empirical data from eight developing countries and countries in transition. Bull World Health Organ 2000; 78: 55-65.
21. Mapelli V. Health needs, demand for health services and expenditure across social groups in Italy: An empirical investigation. Soc Sci Med 1993; 36: 999-1009.
22. Alþýðusamband Íslands (2. janúar, 2009). Gjaldtaka af sjúklingum stórlega aukin. Sótt 17. mars 2009: asi.is/Desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-1398/
23. Öryrkjabandalag Íslands (21. janúar, 2009). ÖBÍ mótmælir aðför að velferðarkerfinu! Sótt 17. mars 2009: www.obi.is/umobi/frettir/nr/397http://www.visir.is/article/20080108/FRETTIR01/80108064/121517
24. Tryggingastofnun ríkisins (mars 2009). Greiðsluskipting milli sjúkratrygginga og einstaklinga vegna lyfjakaupa. Sótt 17. mars 2009: www.tr.is/media/eydublod//Greidsluskipting_sjukratrygginga_og_einstaklinga.pdf 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica