10. tbl. 95. árg. 2009

Fræðigrein

Almennt heilsufar íslenskra bænda

General health in Icelandic farmers

Ágrip

Inngangur: Lítið er vitað um almennt heilsufar bænda á Íslandi. Oft er því haldið fram að það sé verra en meðal annarra starfshópa. Sérstakt starfsumhverfi bænda er talið eiga þátt í því. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera almenna heilsu íslenskra bænda við samanburðarhóp og prófa þá tilgátu að almennt heilsufar bænda sé lakara en annarra.

Efniviður og aðferðir: Þverskurðarrannsókn af öllum bændum á Íslandi með bú stærra en 100 ærgildi sem bornir voru saman við hóp fólks sem ekki eru bændur. Alls var 2042 bændum sendur ítarlegur spurningalisti um almenn heilsufarseinkenni og læknisheimsóknir (svarhlutfall 54%). Í samanburðarhópi voru 1500 manns sem ekki voru bændur, valdir með slembiúrtaki (svarhlutfall 46%).

Niðurstöður: Bændur voru eldri og reyktu minna en samanburðarhópur. Þegar heilsufarseinkenni síðustu 12 mánaða voru borin saman kom lítill munur fram. Bændur höfðu sjaldnar fótaóeirð, þreytu, niðurgang, ofnæmi og heyrnartap. Það var enginn munur á læknisheimsóknum vegna margra langvinnra sjúkdóma eins og sykursýki og háþrýstings þrátt fyrir aldursmun hópanna. Bændur voru sjaldnar fjarverandi vegna veikinda og veikindaleyfi þeirra var styttra en samanburðarhóps.

Ályktun: Lítill munur var á almennum heilsufarseinkennum og læknisheimsóknum vegna algengra sjúkdóma þegar bændur voru bornir saman við hóp af fólki sem ekki var í bústörfum þrátt fyrir að bændur væru eldri. Rannsóknin bendir til þess að heilsufar bænda sé ekki lakara en annarra.

Inngangur

Takmarkaðar upplýsingar eru til um almennt heilsufar íslenskra bænda á seinni tímum. Gerðar hafa verið rannsóknir á dánarmeinum1 og krabbameinum bænda.2 Niðurstöður þeirra rannsókna voru mjög samhljóða því sem erlendar rannsóknir höfðu sýnt.3-5 Dánartíðni var marktækt lægri en hjá samanburðarhópnum sem var allir karlar á Íslandi á sama aldri á sama tíma. Dánartíðni vegna krabbameina var einnig marktækt lægri þegar litið var til allra krabbameina. Lungnakrabbamein, hjartasjúkdómar og öndunarfærasjúkdómar voru fátíðari dánarorsakir meðal íslenskra bænda en annarra og það sama átti við um dauðaslys. Talsverðar upplýsingar eru til um heilsufar Íslendinga fyrr á öldum þegar flestir bjuggu í sveitum og voru bændur eða vinnufólk. Þar er getið um margvísleg líkamleg einkenni.6 Flest bóndabýli á Íslandi í dag eru lítil og rekin af einni eða tveimur fjölskyldum. Þar er sinnt um búpening og öflun fóðurs fyrir hann, afurðirnar eru kjöt, mjólk og ullar- og skinnavörur. Vinnustundir eru langar og óreglulegar og lúta engum reglugerðum um vinnutíma. Bændur vinna oft einir eða í litlum hópum, nota vélar og tæki sem mörg hver krefjast mikillar einbeitingar að stýra og geta verið hættuleg. Líf og starf bóndans er þannig háð duttlungum veðurs, vélbúnaðar og búfjársjúkdóma. Þetta vekur spurningar um hvort almennt heilsufar bænda geti verið lakara en annarra, sérstaklega vegna erfiðs starfsumhverfis.

Rannsókn þessi hefur að markmiði að skoða almenn sjúkdómseinkenni og hversu oft meðferðar er leitað vegna algengra sjúkdóma meðal starfandi bænda borið saman við þverskurðarsnið almennings. Með þessu var reynt að svara spurningunni um hvort almennt heilsufar bænda og læknisheimsóknir vegna algengra sjúkdóma væru öðruvísi en annarra í samfélaginu. Sérstaklega var leitað eftir því hvort heilsa þeirra væri verri en annarra. Ef svo hefði verið gæti það haft áhrif á uppbyggingu heilsugæslu í sveitum landsins.

Efniviður og aðferðir

Þetta er þversniðsrannsókn meðal allra bænda á Íslandi sem stóðu árið 2002 fyrir búi með meira en 100 ærgildum eða ígildi þess í mjólkurkvóta. Þessi hópur var borinn saman við þjóðarúrtak valið með slembiaðferð.7 Alls uppfylltu 2042 bændur skilyrði um þátttöku í rannsókninni vegna þess að þeir stóðu fyrir búi með meira en 100 ærgildi samkvæmt skrám Bændasamtakanna. Þessir bændur fengu allir sendan ítarlega spurningalista ásamt bréfi sem skýrði markmið rannsóknarinnar. Svarhlutfall reyndist vera 54% (n=1107) eftir ítrekanir. Í samanburðarhópnum voru 1500 manns, bæði konur og karlar eldri en 25 ára valin með aldursdreifingu samskonar og þjóðarinnar. Þeir fengu senda sambærilega spurningalista og bréf til útskýringar á tilgangi rannsóknarinnar (svarhlutfall 46%, n=689). Athugun á þeim sem ekki svöruðu spurningalista sýndi að bændur eldri en 70 ára svöruðu könnuninni síður en aðrir bændur en enginn annar munur fannst á milli bænda sem svöruðu og bænda sem svöruðu ekki með tilliti til aldurs eða búsetu. Hins vegar voru þeir í samanburðarhópi sem svöruðu líklegri til að vera úr dreifbýli en þeir sem ekki svöruðu úr samanburðarhópi. Ekki svöruðu allir spurningalistanum í heild. Það að svara spurningalistanum jafngilti upplýstu samþykki fyrir þátttöku í rannsókninni. Spurningalistinn var byggður á íslenskri útgáfu Evrópukönnunarinnar Lungu og Heilsa.8 Á listanum var spurt um lýðfræðilega þætti, svo sem aldur, kyn, hjúskaparstöðu, menntun, fjölda barna, vinnu maka, líkamsþyngd og notkun á tóbaki og áfengi. Spurt var um einkenni síðastliðna 12 mánuði, sem og læknisheimsóknir, og til viðbótar var einnig spurt um fjarvistir frá vinnu. Svarendur voru spurðir hvort þeir hefðu leitað læknisskoðunar eða meðferðar fyrir 30 mismunandi einkenni og sjúkdóma (hægt er að fá spurningalistann hjá höfundum).

Tölfræðileg úrvinnsla var gerð með Statistical Package for the Social Sciences (SPSS) útgáfa 12.01. Kí kvaðrat próf var notað á ósamfelldar breytur. Mann-Whitney próf var notað til þess að bera saman meðaltalssvör við mismunandi spurningum á milli bænda og samanburðarhóps.

Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd (03-082 Heilsufar og vinnuumhverfi íslenskra bænda) og vísindasiðanefnd Háskólans í Iowa og tilkynnt til Persónuverndar.

Niðurstöður

Lýðfræðilegir þættir bænda (n=1107) og þeirra sem ekki voru bændur (n=689) er sýnd í töflu I. Nokkurt brottfall er á ýmsum svörum og því er fjöldi svarenda misjafn eftir spurningum. Þannig svöruðu um 960 bændur öllum spurningunum og liðlega 600 úr samanburðarhópi. Af skráðum bændum voru 87% karlkyns en í samanburðarhópi voru 48% karlkyns (p<0,001). Bændur voru eldri, frekar einvörðungu með grunnskólamenntun og maki heimavinnandi. Þá neyttu þeir sjaldnar áfengis og reyktu minna en samanburðarhópurinn. Í töflu II er sýndur samanburður á einkennum síðastliðna 12 mánuði á milli bænda og samanburðarhóps. Lítill munur var á almennum einkennum. Bændur höfðu sjaldnar fótaóeirð og þreyta var sjaldnar til staðar hjá karlkyns bændum. Niðurgangur var sjaldgæfari hjá kvenkyns bændum en hjá konum í samanburðarhópi. Ofnæmi var sjaldgæfara hjá karlkyns bændum en samanburði og það sama átti við bakverki. Heyrnartap var minna hjá bændum en þeim sem ekki voru bændur. Í töflu III er lýst og gerður samanburður á einkennum sem leiddu til læknisheimsóknar síðustu 12 mánuði. Kvenkyns bændur fóru sjaldnar til læknis en konur í samanburðarhópi vegna vefjagigtar og einnig vegna skjaldkirtilsvandamála. Það var enginn munur á læknisheimsóknum bænda og samanburðarhóps vegna ýmissa langvinnra sjúkdóma eins og sykursýki og háþrýstings. Konur í hópi bænda leituðu sjaldnar læknis vegna svefnleysis. Það sama gilti um kvef og flensulík einkenni.

 

 

 

 

Endurteknar fjarvistir frá vinnu voru sjald-gæfari hjá bændum en hjá samanburðarhópi eins og sést í töflu IV. Bændur voru skemur frá vinnu vegna veikinda eins og sést í töflu V.

 

 

 

Umræða

Í þessari rannsókn sem náði til allra íslenskra bænda og var með svarhlutfall yfir 50% fannst ekki mikill munur á almennu heilsufari bænda borið saman við þá sem ekki voru bændur. Þetta átti bæði við einkenni síðastliðna 12 mánuði og einnig læknisheimsóknir vegna einkenna eða sjúkdóma á sama tímabili. Fjarvistir frá vinnu vegna veikinda voru skemmri og færri hjá bændum en samanburðarhópi. Þessar niðurstöður sýna að almennt heilsufar bænda virðist ekki vera verra en annarra og kallar ekki á breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu í sveitum.

Áfengisneysla var minni meðal bænda en í samanburðarhópi. Þetta er svipað og fundist hefur í erlendum rannsóknum.5, 6 Að meðaltali var líkamsþyngdarstuðull hærri en 25 í báðum rannsóknarhópum og eru því báðir hópar yfir kjörþyngd. Kvenbændur voru heldur þyngri en samanburðarhópur en enginn munur var á karlmönnum. Þessar tölur sýna hve algengt er að Íslendingar séu yfir kjörþyngd.9

Marktækur munur fannst á því að bændur höfðu sjaldnar ofnæmi. Þetta er svipað og fundist hefur í öðrum rannsóknum.10 Ein rannsókn sýndi að það var algengt að bændur hættu búskap vegna ofnæmis.11 Minna ofnæmi meðal bænda gæti verið vegna þess að bændur með ofnæmi leiti í önnur störf og hætti búskap. Önnur skýring gæti verið sú að það að alast upp og búa í sveit stuðli að minna ofnæmi.10, 11

Það var enginn munur á læknisheimsóknum bænda og samanburðarhóps vegna ýmissa langvinnra sjúkdóma eins og sykursýki og háþrýstings. Langvinnir sjúkdómar virðast ekki vera algengari hjá bændum en samanburðarhópi og þeir virðast leita læknis í sama mæli og aðrir.12 Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að bændur voru að jafnaði eldri en samanburðarhópur og mætti því ætla að sjúkdómar sem verða algengari með vaxandi aldri ættu að vera algengari hjá þeim og læknisheimsóknir því tíðari.

Fjarvistir frá vinnu voru færri hjá bændum en samanburðarhópi og í styttri tíma. Þetta endurspeglar vinnuumhverfi bænda þar sem sinna þarf búpeningi og almennum bústörfum daglega allan ársins hring þrátt fyrir að upp komi skammvinn veikindi. Erfitt er fyrir bændur að fá afleysingu ef þeir verða veikir.13 Þær tölur sem koma hér fram geta nýst sem viðmiðunartölur um hvað eru lágmarksfjarvistir vegna veikinda í atvinnulífinu.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að heilsufar bænda virðist ekki vera verra en hjá samanburðarhópi. Áhrif heilbrigðra starfsmanna (healthy workers effect) verður að teljast aðalskýring þar sem það er afar erfitt að vera sjálfstæður bóndi ef heilsan bilar að ráði.11, 14 Áhrif heilbrigðra starfsmanna gæti verið til staðar ef í rannsókninni svara fleiri hraustir en veikir vegna þess að þeir veiku eru hættir (svarskekkja, response bias). Þessi mögulega skekkja myndi vanmeta tengslin þar sem þeir sem hefðu svarað væru hraustari og hefðu minni veikindafjarvistir en þeir sem svöruðu. Þetta truflar ekki rannsóknarspurninguna vegna þess að ekki er verið að kanna orsakir sjúkdóma heldur kanna hvaða heilbrigðisþjónusta sé nauðsynleg í sveitum. Ein hugsanleg skýring er valskekkja (selection bias) vegna lítillar þátttöku hjá bændum í rannsókninni. Þeir sem eru með sjúkdóma (til dæmis hjarta- og æðasjúkdóma) væru líklegri til að svara í slíkri könnun en þeir sem engan sjúkdóm hafa.15 Það sést ekki í þessari rannsókn að þetta sé vegna þess að bændur eru með meiri einkenni og fleiri læknisheimsóknir. Ólíklegt er að um falskt jákvæð svör sé að ræða vegna þess að sjúkdómar voru ekki greindir í bændum. Margar rannsóknir hafa sýnt að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er lægri í bændum en í samanburðarhópi.16 Lífsstíll bænda er jákvæður með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsóknir á mataræði íslenskra bænda benda ekki til þess að það sé öðruvísi en annarra Íslendinga.17, 18 Í starfi bænda felst mikil líkamshreyfing sem getur stuðlað að betra heilsufari19, 20 og þeir reykja sjaldnar.

Styrkleikar þessarar rannsóknar eru ýmsir. Hún náði til allra íslenskra bænda og meira en helmingur þeirra tók þátt í henni. Í rannsókninni eru staðlaðir spurningalistar sem notaðir hafa verið áður í íslenskum rannsóknum og eru alþjóðlegir.

Meðal veikleika rannsóknarinnar er lægri svartíðni hjá samanburðarhópi sem og að í honum eru fleiri konur og meðalaldur er lægri. Hafa þarf í huga við túlkun niðurstaðna hvernig sjúkdómar eru greindir, það er að spurt er um hvort viðkomandi hafi leitað meðferðar við viðkomandi vandamáli. Hér geta mörg atriði skipt máli, til dæmis hversu vel læknirinn upplýsir sjúklinginn um greininguna, hvernig sjúklingur man og upplifir greiningu og hversu alvarlegt vandamálið er. Einnig þarf að gera sér grein fyrir að þverskurðarrannsókn eins og þessi gerir ekki nægilega mikið úr mikilvægi heilbrigða starfsmannsins þar sem hraustustu bændurnir eru færir um og tilbúnir til að sinna bústörfum, til að vinna sjálfstætt og í krefjandi vinnuumhverfi. Spurningalistinn var víðtækur og spurt um 30 mismunandi einkenni. Því er mögulegt að mismunur geti í sumum til-vikum stafað af tilviljun. Höfundar litu svo á að allar tölfræðilegar prófanir sem kynntar eru í greininni byggðust á fyrirfram gefinni núlltilgátu. Þetta er umdeilanlegt en beita má til dæmis svokallaðri Bonferroni-leiðréttingu til að leiðrétta fyrir fjölda prófana21 og setja marktækni við 0,002 eða minna.

Samandregið sýndi rannsókn þessi lítinn mun á almennum einkennum bænda þegar þeir voru bornir saman við þá sem ekki voru bændur. Fjarvistir frá vinnu voru minni hjá bændum en samanburðarhópi.

 

 

Þakkir

Lára Sigurvinsdóttir fær þakkir fyrir gagnaúrvinnslu. Eftirtaldir aðilar veittu styrk til þessara rannsókna: Framleiðnisjóður bænda, The University of Iowa Environmental Health Sciences Research Center (ES05605), Rannsóknaráð Íslands (040465031) og Sjóður Odds Ólafssonar árið 2004.

 

 

Heimildir

1. Rafnsson V, Gunnarsdottir H. Mortality among farmers in Iceland. Int J Epidemiol 1989; 18: 146-51.
2. Gunnarsdottir H, Rafnsson V. Cancer incidence among Icelandic farmers 1977-1987. Scand J Soc Med 1991; 19: 170-3.
3. Stiernström E-L, Holmber S, thelin A, Svardsudd K. A prospective study of morbidity and mortality rates among farmers and rural and urban nonfarmers. J Clin Epidem 2001; 54: 121-6.
4. Thelin A. Morbidity in Swedish farmers, 1978-1983, according to national hospital records. Soc Sci Med 1991; 32: 305-9.
5. Stiernström EL, Holmberg S, Thelin A, Svardsudd K. Reported health status among farmers and nonfarmers in nine rural districts. J Occup Environ Med 1988; 40: 917-24.
6. Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005: 133-78.
7. Sigurðarson SÞ, Guðmundsson G, Kline JN, Tómasson K. Respiratory disorders are not more common in farmers. Results from animal farmers in Iceland. Resp Med 2008; 102: 1839-43.
8. Burney PG, Luczynska C, Chinn S, Jarvis D. The European Community Respiratory Health Survey. Eur Respir J 1994; 7: 954-60.
9. Þorgeirsdóttir H, Steingrímsdóttir L, Ólafsson Ö, Guðnason V. Þróun ofþyngdar og offitu meðal 45-64 ára Reykvíkinga á árunum 1975-1994. Læknablaðið 2001; 87: 699-704.
10. Chen Y, Rennie D, Cormier Y, McDuffie H, Pahwa P, Dosman J. Reduced risk of atopic sensitization among farmers: the Humboldt study. Int Arch Allergy Immunol 2007; 144: 338-42.
11. Thelin A, Höglund S. Change of occupation and retirement among Swedish farmers and farm workers in relation to those in other occupations. A study of “elimination“ from farming during the period 1970-1988. Soc Sci Med 1994; 38: 147-51.
12. Jenkins PL, Earle-Richardson G, Bell EM, May JJ, Green A. Chronic disease risk in central New York dairy farmers: results from a large health survey 1989-1999. Am J Ind Med 2005; 47: 20-6.
13. Hartman E, Oude Vrielink HH, Huirne RB, Metz JH. Sick leave analysis among self-employed Dutch farmers. Occup Med (Lond) 2003; 53: 461-8.
14. Li CY, Sung FC. A review of the healthy worker effect in occupational epidemiology. Occ Med 1999; 49: 225-9.
15. Hernberg S. Introduction to epidemiological epidemiology. Chelsea MI: Lewis Publishers Inc, 1992.
16. Pomrehn PR, Wallace RB, Burmeister LF. Ischemic heart disease mortality in Iowa farmers. The influence of life-style. JAMA 1982; 248: 1073-6.
17. Steingrímsdóttir L, Þorgeirsdóttir H, Ægisdóttir S. Könnun á mataræði Íslendinga. 2. Mataræði og mannlíf. Rannsóknir Manneldisráðs III. Reykjavík 1992.
18. Steingrímsdóttir L, Þorgeirsdóttir H, Ólafsdóttir AS. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2002. Helstu niðurstöður. Rannsóknir Manneldisráðs V. Reykjavík 2003.
19. Eaton CB, Nafziger AN, Strogatz DS, Pearson TA. Self-reported physical activity in a rural county: a New York county health census. Am J Public Health 1994; 84: 29-32.
20. Ahonen E, Venalainen JM, Könönen U, Klen T. The physical strain of dairy farming. Ergonomics 1990; 33: 1549-55.
21. Perneger TV. What's wrong with Bonferroni adjustments. BMJ 1998; 316: 1236-8

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica