09. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Lykill að myndheimi. Viðtal við Markús Þór Andrésson. Anna Ólafsdóttir Björnsson

Forsíða Læknablaðsins hefur um langt skeið verið helguð myndlist. Síðastliðin fimm ár hefur Markús Þór Andrésson séð um val myndlistarfólks og myndverka fyrir blaðið og fylgt hverri forsíðu úr hlaði með pistli um verkið og myndlistarmanninn. Markús er myndlistarmenntaður og mikilvirkur sýningarstjóri og meðal nýjustu verkefna hans á því sviði er uppsetning sýningarinnar Lífróður í Hafnarborg í Hafnarfirði, sem nú stendur yfir, og Brennið þið vitar, sýning sem sett var upp í fjórum vitum á Listahátíð síðastliðið vor. Vitarnir voru hver um sig útvörður eins landshluta. Sýningarnar skipulagði hann í félagi við eiginkonu sína, Dorothée Kirch. Þau eru einnig sýningarstjórar íslensku sýningarinnar á Feneyjatvíæringnum sem nú stendur yfir. Markús gaf sér tíma fyrir spjall við Læknablaðið þegar hann var að setja upp sýninguna í Hafnarborg og greindi stuttlega frá því hvernig hann velur forsíðumyndir blaðsins og hvaða sjónarmið liggja þar að baki.

Markús lætur fara vel um sig á ritstjórnarskrifstofu Læknablaðsins þar sem kápumyndir blaðsins frá síðustu árum eru innrammaðar uppi á vegg. Mynd Anna.

 

Sumir gera sérstök verk fyrir forsíðuna

„Þegar Védís Skarphéðinsdóttir, ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins, hafði samband við mig og bað mig að taka að mér að velja myndverk á forsíðu blaðsins, var ég strax spenntur fyrir verkefninu. Ég tók þegar ákveðna stefnu sem ég hef fylgt að miklu leyti. Mig langar að forsíðan endurspegli það sem er að gerast núna. Frá upphafi beindi ég sjónum að yngri deildinni meðal myndlistarmanna en seinna hef ég einnig valið verk eftir eldri listamenn á forsíðuna inn á milli.

Ég vissi af þessum vettvangi, forsíðu Læknablaðsins, þar sem samtímalist var kynnt á óhefðbundinn hátt og að það ríkti almenn ánægja með þetta framtak. Mín reynsla er sú að allir sem ég hef leitað til hafa tekið því mjög vel og flestir getað sinnt beiðni minni um forsíðuverk. Ef þeir hafa ekki getað það, þá er það vegna annríkis en ekki áhugaleysis. Ég hef aldrei komið að lokuðum dyrum þegar ég leita eftir verki fyrir Læknablaðið. Sumir vinna verk sérstaklega fyrir forsíðuna. Aðrir birta myndir af nýlegum verkum og þau eru af ýmsu tagi, innsetningar, gjörningar, ljósmyndaverk og í rauninni endurspegla forsíðuverkin alltaf eitthvað sem er að gerast í myndlistinni á þeim tíma. Þeir sem vinna verk sérstaklega af þessu tilefni ákveða það sjálfir, ég fer ekki fram á það, en sumir vilja það gjarnan og finnst gaman að nota þennan miðil til þess að skapa eitthvað nýtt. Auðvitað skila verk sér misjafnlega vel og val myndlistarmanna ber stundum með sér að aftur er leitað til þeirra sem vinna með form sem henta forsíðunni vel. Það á til dæmis við um ljósmyndaverk og einn af þeim sem hefur átt forsíðuverk oftar en einu sinni er Hrafnkell Sigurðsson, en verk hans hafa notið sín sérlega vel í þessum miðli.

 

Teikn á lofti um yfirvofandi hrun í myndverki 2005

Viðbrögðin við forsíðunum eru flest mjög jákvæð, læknar sem hafa rætt þær við mig hafa yfirleitt talið það sem þar birtist áhugavert. Það eru að minnsta kosti þau viðbrögð sem berast í mín eyru. En ég veit það hafa komið fyrirspurnir og bréf til blaðsins frá fólki sem er ekki sátt við einhverja forsíðuna eða skilur ekki verkin og þá hef ég sent útskýringar til baka eða beðið Védísi að gera það. Ekki svo að skilja að við séum í vörn fyrir verkin, en það er alltaf gaman að segja frá því hvað er í gangi, því sumt sem við höfum birt er fólki framandlegt. Útskýringarnar felast ekki í því að taka upplifunina frá þeim sem skoðar verkið, því hvert myndverk byggist á því sem áhorfandinn sér út úr því, rétt eins og gerist með aðrar listgreinar. En það er hægt að bjóða upp á ákveðna lykla að verkunum eða brú til að gera þau aðgengilegri.

Oft endurspeglast samfélagið í myndverkunum. Talsvert löngu áður en núverandi kreppa skall á voru ákveðin teikn á lofti um það sem koma skyldi, hrunið. Það mátti til dæmis sjá ádeilu á græðgina og gróðærið í verkum einstakra myndlistarmanna. Sem dæmi má nefna verk eftir Ásmund Ásmundsson á forsíðu Læknablaðsins í desember 2005. Á vissan hátt speglar myndlistin samfélagið en hún er oft mælikvarði á það fyrirfram hvert við erum að stefna. Það kemur fram á ótvíræðan hátt og oft löngu áður en hið raunverulega ástand kemur upp á yfirborðið. En myndlistin endurspeglar líka á mjög afgerandi hátt hvernig við bregðumst við. Það ástand sem nú er í þjóðfélaginu mun eflaust halda áfram að birtast í verkum listamanna á næstu misserum, við erum bara rétt að byrja að sjá hvernig afleiðingar hrunsins koma fram í myndlistinni. Margt af því sem er að gerast í myndlist núna, bæði það sem sýnt er á sýningunni Lífróður og Brennið þið vitar, væri ekki að gerast í íslenskri myndlist núna ef ekki hefði komið til þessi umbreyting síðastliðið haust. Myndlistarmenn, líkt og fleiri, hafa beint sjónum sínum að hafinu umhverfis landið og öllu því fjölbreytilega sem tengist því, hvort sem litið er á sjósundkappa, sæstrengi, fiskinn í sjónum eða olíuna. Skyndilega sjáum við að gripið er til gamalla og nýrra hugmynda um hafið, hetjur hafsins og notagildi þess. Það er komið nýtt og áþreifanlegra gildismat í stað þess gamla, þegar bankar og verðbréf voru uppspretta auðs en eru núna tákn loftkastala. Og jafnframt erum við að róa lífróður þannig að tengingin við hafið hefur margar hliðar, bæði lýrískar og pólitískar.

 

Lögbirtingur eða Læknablaðið

Læknar eru ákveðinn hluti samfélagsins sem spennandi er að höfða til. Læknablaðið er miðill sem berst út um allt land, bæði á stofnanir og heimili. Í gegnum blaðið getum við kynnt íslenska samtímalist fyrir ákveðnum þverskurði þjóðarinnar. Þetta hefði alveg eins getað verið einhver annar hluti þjóðarinnar, ef sams konar forsíðumyndir hefðu til dæmis birst framan á hverju hefti af Lögbirtingarblaðinu. Þá hefði markhópurinn verið svolítið annar. Nokkrir myndlistarmannanna sem unnið hafa verk fyrir Læknablaðið hafa sérstaklega reynt að höfða til læknastéttarinnar í verkum sínum eða þá að ég dreg fram slíkar tengingar í verkunum. Þar get ég nefnt Guðnýju Rósu Ingimarsdóttir sem var með mjög lífrænt verk á forsíðu Læknablaðsins í desember 2006. Hún vinnur gjarnan út frá tilfinningum og myndverki hennar má jafnvel líkja við æðakerfi sálarlífsins. Gabríela Friðriksdóttir hefur verið að fást við líkamann, meðal annars brotin bein, í sinni myndlist og það sem hún er að gera í þeim efnum er ákveðin skírskotun beint til vísinda, þar á meðal lækninga. En fyrst og fremst má segja að verkin séu mjög fjölbreytt. Þótt ég reyni að sýna sem margbreytilegastar aðferðir í listum veit ég að fólk verður oft mjög þakklátt fyrir að fá inn á milli myndlist af því tagi sem það þekkir betur til en innsetninga og gjörninga, til dæmis olíumálverk eftir Eggert Pétursson, sem var á forsíðu Læknablaðsins í desember 2008.

 

Skrýtin umfjöllun um myndlist í ýmsum miðlum

Hvatningin er að vekja áhuga fólks á listum og fá það til þess að skoða sem fjölbreyttasta list, jafnvel að kynnast listformum sem það hefur aldrei áður vitað um. Þannig venst það því að skoða alls konar list. Ef myndirnar í Læknablaðinu og umfjöllun um þær leiða í einhverjum tilvikum til þess að einhverjir fara á sýningu sem annars hefði farið fyrir ofan garð og neðan hjá þeim, þá er tilganginum náð. Fyrir flesta er öll nýrri myndlist mjög framandleg vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekki komist í tæri við hana. Við erum öll mjög vön því að fá miklar upplýsingar um íþróttir í öllum miðlum, flest án þess að við biðjum um það. Þess vegna verðum við með tímanum öll miklir sérfræðingar í íþróttum og höfum jafnvel sterkar skoðanir á þeim, hvort sem við höfum nokkurn tíma lagt stund á þær eða ekki. Þarna hefur endurtekningin og stöðugar upplýsingar mikið að segja. Mikið vantar upp á að sama máli gegni um myndlist og því er ég að reyna að breyta, þó í smáum stíl sé, með umfjölluninni í Læknablaðinu. Með því að miðla upplýsingum um myndlist jafnt og þétt er hægt að gera hana skiljanlegri þeim sem eru vanastir því að sjá bara málverk og skúlptúra. Fjölmiðlar hafa svo sannarlega ekki staðið sig í stykkinu og þá sjaldan sem sjónvarpið sýnir eitthvað annað en hefðbundna myndlist er það yfirleitt í hálfkæringi og hreinlega til þess að hæða eða spotta þann sem fyrir gjörningnum stendur eða hverju öðru sem myndverkið snýst um. Þessi afstaða til myndlistar er svolítið merkileg því engum dytti í hug að gera svona upp á milli tónlistarstefna, að hæða eða spotta það sem ekki er kunnuglegt. Við erum vön því að til séu margar tónlistarstefnur og allar eigi rétt á sér.

 

Þekkt framtak meðal myndlistarmanna

Læknablaðið á heiður skilinn fyrir að brjóta þetta mynstur upp og það er þekkt stærð í heimi myndlistarmanna, þarna er einn miðill sem er opinn og fordómalaus gagnvart allri myndlist. Þeir fáu sem ekki þekkja til þessa framtaks, til dæmis ungir listamenn sem eru nýfarnir að hasla sér völl, verða yfirleitt mjög glaðir þegar þeir heyra af því að verið sé að fjalla um myndlist í Læknablaðinu og kynna það nýjasta sem þar er að gerast.“

Af orðum Markúsar Þórs Andréssonar má ráða að enn um sinn sé nóg af nýrri og ferskri myndlist í bland við eitthvert ögn eldra efni sem lesendur Læknablaðsins eiga kost á að kynnast á næstunni. Markús er reiðubúinn að rétta þeim lykilinn að þeirri gróskumiklu veröld sem íslensk myndlist nútímans er, byggja brýr og leiða þá út í óvænt ævintýri.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica