09. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Mynd mánaðarins. Ólafur Þ. Jónsson

Kristinn Guðmundsson og Bjarni Hannesson, heila- og taugaskurðlæknar. Mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, ljósmyndari óþekktur, merkt ALB 003-024-7-2. Hún birtist væntanlega í Alþýðublaðinu í nóvember 1975. Birt með leyfi safnsins.

 

Þessi mynd er af heila og taugaskurðlæknunum Kristni Guðmundssyni og Bjarna Hannessyni. Þeir hófu störf á Borgarspítalanum samtímis árið 1971 að loknu sérfræðinámi vestanhafs: Bjarni við Dartmouth Medical School Affiliated Hospitals, í Hanover, New Hampshire, og Kristinn við Mayo Graduate School of Medicine, í Rochester, Minnesota.

Þeir voru árum saman einu heilaskurðlæknarnir á landinu. Mikið annríki var hjá þeim, vinnudagur oft langur og vaktabyrði mikil. Fyrstu árin tengdust þeir skurðlækningadeildinni en árið 1982 var stofnuð sérstök heila- og taugaskurðlækningadeild og voru þeir báðir ráðnir yfirlæknar.

Áður en Kristinn og Bjarni komu til starfa voru flestir sjúklingar sem þurftu aðgerðir á heila sendir á heilaskurðdeild Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn. Tveir læknar hér á landi höfðu þó stundað afmörkuð svið heilaskurðlækninga meðfram öðrum störfum: Bjarni Oddsson (1907-1953) og Bjarni Jónsson (1909-1999) en sá síðarnefndi hafði kynnt sér meðferð höfuðslysa og annaðist þau frá 1957-1971 er þeir Bjarni og Kristinn hófu störf.

Tilefni myndar þeirrar sem hér birtist og var að eitt dagblaðanna heiðraði þá fyrir vel unnin störf með „(h)rós í hnappagatið“.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica