09. tbl. 95. árg. 2009
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Hugleiðingar um upplýsingaveitur í heilbrigðisþjónustu. Kristján G. Guðmundsson
Færa má rök fyrir því að rafræn sjúkraskrá sé mikilvægasta verkfæri heilbrigðisþjónustunnar. Almennt er talið að Íslendingar hafi verið framarlega í tölvuþróun á sínum tíma, og fyrstu forritin þóttu framúrstefnuleg. En hugmyndir um miðlægan gagnagrunn og kauphallarviðskipti með heilbrigðisupplýsingar, og ekki síður þau viðbrögð sem það kallaði fram, ollu verulegum töfum á þróun rafrænnar sjúkraskrár. Hafi verið hér á landi eitthvert forskot er það fyrir löngu tapað.
Helsta forritið, Sagan, er farið að bera þess merki að vera barn síns tíma, og þarf mikillar endurnýjunar við. Margt hefur raunar áunnist á þessum vettvangi á seinustu árum og má þar nefna Heklu og rafrænar sendingar á lyfseðlum.
En að fleiru er að hyggja að en sjúkraskránni sjálfri, eitt er aðgengi að eldri gögnum sem eru á pappír, og að koma þeim upplýsingum á rafrænt form, þannig að ekki þurfi að vera með tvöfalt upplýsingakerfi.
Hér á landi eru margir rannsóknagrunnar sem geyma bæði blóðrannsóknir og myndgreiningar. Sameining þessara grunna og aðgengi allra lækna að þeim væri verulegt framfaraskerf.
Unnið er að gerð vefsvæðis í stíl heimabanka, þar sem notendur heilbrigðisþjónustu skrá sig inn á lokaðan vef heilbrigðisstofnana. Þetta fyrirkomulag gefur margvíslega möguleika á samskiptum í heilbrigðisþjónustu. Fyrst og fremst tryggir það að upplýsingar um heilsufar liggja á öruggu svæði. Þarna er hægt að bóka tíma, senda fyrirspurnir til heilbrigðisstarfsmanna, og óska eftir lyfjaendurnýjunum. Rafrænar tímabókanir sjúklinga hafa verið í þróun, og hægt verður að greiða fyrir þjónustuna á vefnum. Samfara tímabókunum koma einnig til áminningar með smáskilaboðum. Fyrirspurnir verða skráðar á hinu lokaða vefsvæði og varpast í sjúkraskrárkerfið með opnun samskiptaseðils, og sjálfkrafa er bókaður tími í samskiptatíma. Þegar læknir hefur afgreitt fyrirspurnina varpast svarið á heimasíðu sjúklings. Sjúklingur fær smáskilaboð í símann um að svar liggi fyrir. Á sama hátt verður hægt að óska eftir endurnýjun lyfseðla.
Mikið hefur verið rætt um aðgengi sjúklinga að sjúkraskrá sinni. Sjúklingur ætti að hafa aðgang að vissum upplýsingum sem koma fram í sjúkraskrá og rétt á að leiðrétta þær.
Hér er átt við upplýsingar um heimilisfang, aðstandendur, netföng, símanúmer og ofnæmissögu. Það sama ætti að vera með virk lyf og ráðleggingar.
Hví skyldi sjúklingur ekki einnig hafa aðgengi að sjúkdómsgreiningum sínum?
Án vafa verður gerð krafa um að sjúklingar hafi allan aðgang að texta sjúkraskrár á komandi árum. Möguleiki ætti að vera að undanskilja vissa þætti, svo sem fjölskyldusögu og upplýsingar um kynheilsu eða geðheilsu. Þetta gefur einnig möguleika á að sjúklingur skrái í eigin sjúkraskrá lífsstílsþætti, svo sem reykingar og eigin mælingar.
Á að þróa nýtt sjúkraskrárforrit eða taka upp nýtt erlent forrit sem hefur reynst spretthart í alþjóðlegri samkeppni? Því er til að svara að ekkert eitt forrit dugar til að halda utan um alla þætti sjúkraskrár, þannig eru lykilatriðin; samskiptahæfni forrita og sveigjanleiki. Flutningur upplýsinga milli þeirra, aðgengi eldri upplýsinga og aðlögunarhæfni vegna margvíslegra starfsaðstæðna í heilbrigðisþjónustu. Eðlilegast er að nýta það sem við höfum og byggja forritun á því og aðlaga að þeim þörfum sem til staðar eru í stað þess að taka upp algjörlega ný kerfi. Þetta er einnig reynslan erlendis frá. Þannig rennur gamla viðmótið í nýtt viðmót sem er byggt ofan á það eldra. Forritið ætti gjarnan að vera í eigu opinberra aðila sem bjóða út umsjón með kerfinu, þróun og aðlögun. Markmiðið ætti að vera ein rafræn eða samtengd sjúkraskrá fyrir allt landið, aðgengileg öllum læknum.