07/08. tbl. 95.árg. 2009

Umræða og fréttir

Nýjar starfsreglur Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Kristján Sigurðsson

Starfsreglur Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hafa nú verið endurskoðaðar. Legháls- og brjóstakrabbameinsleit fer fram í Leitarstöðinni í Reykjavík og á ákveðnum heilsugæslustöðvum og sjúkrastofnunum. Starfsreglur leitarinnar eru settar af yfirlæknum Leitarstöðvar, frumurannsóknastofu og röntgendeild Krabbameinsfélagsins að höfðu samráði við landlækni sem er eftirlitsaðili leitarstarfsins. Það eru tilmæli landlæknis að sjálfstætt starfandi læknar fylgi ákvæðum þessara starfsreglna. Samningur við heilbrigðisráðuneyti um krabbameinsleit kveður á um að konur skoðaðar utan skipulegrar leghálskrabbameinsleitar verði skráðar í komuskrá og færslur allra kvenna með afbrigðilegt frumustrok og vefjasýni verði skráðar á svonefnt eftirlitssvæði Leitarstöðvar.

Frá síðustu starfsreglum eru helstu nýmæli þau að tekin hafa verið upp vökvasýni á Leitarstöð við skoðanir í leghálskrabbameinsleit, stafræn tækni við brjóstamyndatökur í brjóstakrabbameinsleit um land allt og rafrænar færslur á heilsusögu og niðurstöðum læknisskoðana. Af þjóðfélagslegum ástæðum hefur verið ákveðið að fresta tilmælum um HPV-áhættumælingu í leghálskrabbameinsleit, upptöku vökvasýna utan Leitarstöðvar, auk þess sem millibil leghálsskoðana hjá konum 40 ára og eldri með fyrri sögu um eðlileg frumustrok verður lengt úr tveimur árum í fjögur ár. Skoðanadögum á Leitarstöð verður fækkað úr fimm í þrjá og skoðanastöðvum á landsbyggðinni fækkað úr 42 í 30. Starfsreglur Leitarstöðvar tóku fyrst gildi í ársbyrjun 1983 (Læknablaðið 1983; 69: 328-33), voru endurskoðaðar 1991, 1997 og 2004 (Læknablaðið, Fréttabréf lækna 9/1991; Læknablaðið 1997; 83: 604-8; Læknablaðið 2004; 90: 139-45). Þessi endurskoðun tók gildi 1. apríl 2009 og er birt á vefsíðu Krabbameinsfélagsins: www.krabb.is/leitÞetta vefsvæði byggir á Eplica