06. tbl. 95. árg. 2009

Domus Medica 1966. Jón Ólafur Ísberg

Hugmyndir um sérstakt hús fyrir íslenska lækna kviknuðu snemma hjá félögum lækna, Læknafélagi Reykjavíkur og síðar Læknafélagi Íslands. Það sem í fyrstu voru óljósar hugmyndir, og kannski óraunhæfar, þróuðust eftir því sem árin liðu. Á fimmta áratugnum mótaðist hugmyndin um sérstakt hús þar sem læknar hefðu starfsaðstöðu og þar væri einnig miðstöð alls félagsstarfs lækna - Domus Medica. Seint á sjötta áratugnum mynduðu læknar í Reykjavík með sér samtök um að byggja Domus Medica og leitað var eftir lóð hjá borgaryfirvöldum fyrir húsið. Loforð fékkst fyrir byggingunni árið 1956 við Miklatorg en síðar var henni valinn staður á horni Egilsgötu og Snorrabrautar, þrátt fyrir andstöðu stjórnar Heilsuverndarstöðvarinnar. Fyrsta skóflustungan var tekin 16. júní 1963 og byggingin var formlega tekin í notkun 3. desember 1966.

 

p01-fig1_opt

 

Domus Medica var teiknað af Gunnari Hanssyni og Halldóri Jónssyni og var byggingin tæpir 1000 fermetrar, turninn sem þá var fimm hæðir en er nú sex hæðir, er 380 fm og það sem nefnt var félagsheimili, það er kjallari og jarðhæð, var 580 fm. Þegar húsið var formlega opnað voru 34 læknar og þrír tannlæknar starfandi þar en fljótlega fjölgaði læknunum. Í Domus Medica var skurðstofa og rannsóknarstofur og fljótlega var einnig opnuð röntgendeild.

Margir læknar í Reykjavík störfuðu eingöngu á eigin stofum en aðrir samhliða störfum á spítölum. Nokkrir voru eingöngu í einu starfi hjá hinu opinbera en slíkt var fátítt enda voru launakjör miðað við venjulegan vinnudag fyrir neðan meðallag. Læknastofur voru um allan bæ en iðulega tóku nokkrir læknar, til dæmis 4-5, sig saman og héldu úti læknastofum. Stofurnar voru yfirleitt í skrifstofuhúsnæði eða jafnvel íbúðarhúsnæði þannig að aðstaða og aðgengi var kannski ekki upp á það besta. Hugmyndin um að sem flestir sjálfstætt starfandi læknar í Reykjavík tækju sig saman um að byggja sérhannað hús fyrir starfsemina var þess vegna heillandi. Margir höfðu þó efasemdir um að slíkt gæti borgað sig fjárhagslega og ekki síður höfðu læknar áhyggjur af innbyrðis samkeppni. Fyrir almenning skipti aðgengið öllu máli og menn höfðu áhyggjur af því að þeir fengju ekki aðgang að „sínum lækni“, þjónustan yrði ópersónuleg og líklega dýrari.

Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur vildu í fyrstu ekki eiga beina aðild að framkvæmdinni og meðal lækna utan Reykjavíkur var töluverð andstaða. Alls lögðu um 30 læknar fram stofnfé í Domus Medica, voru þeir kallaðir Nesstofumenn, en tryggð var lánafyrirgreiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins og Búnaðarbankanum. Vegna dræmrar þátttöku lækna í Reykjavík og dugleysis læknasamtaka var tannlæknum boðin aðstaða í húsinu og þjónusturými á jarðhæð ásamt samkomusölum var leigt út til fyrirtækja og félaga. Þegar ljóst varð að byggingin yrði að veruleika komu læknafélögin meira að verkinu og skrifstofur þeirra var það fyrsta sem flutt var inn í húsið, 9. mars árið 1966.

Domus Medica sannaði gildi sitt þegar frá upphafi sem miðstöð sérfræðilækna í Reykjavík og miðstöð félagsstarfs lækna í landinu. Síðar voru byggðar upp aðrar læknastöðvar, til dæmis í Glæsibæ, þannig að einyrkjabúskapur lækna lagðist að mestu af. Árið 1995 fluttu læknafélögin starfsemi sína í nýtt húsnæði og er húsnæðið nú nær eingöngu nýtt undir lækningastarfsemi, auk þess sem þar er apótek. Í árslok 1996 var sjálfseignarstofnunin Domus Medica lögð niður en eignir hennar lagðar til Fræðslustofnunar lækna. Læknar í Reykjavík sýndu með byggingu Domus Medica að þeir höfðu framsýni og þor til að takast á við nauðsynlegar breytingar í starfsumhverfi lækna til að bæta þjónustu við almenning.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica