05. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Úrskurður siðanefndar LÍ

Birtur í Læknablaðinu skv. tilmælum siðanefndar

Ár 2009, miðvikudaginn 15. apríl, kom Siðanefnd Læknafélags Íslands saman á skrifstofu formanns nefndarinnar í Dómhúsinu við Lækjartorg. Nefndina skipa Allan V. Magnússon, formaður, Ingvar Kristjánsson læknir og Stefán B. Matthíasson læknir.

Fyrir var tekið gagnkærumálið

Jóhann Tómasson, læknir

gegn

Sigurbirni Sveinssyni, lækni,

Jóni Steinari Jónssyni, lækni

Tryggva Ásmundssyni, lækni

Erni Bjarnasyni, lækni

Sigurði Guðmundssyni, landlækni

Matthíasi Halldórssyni, lækni

Ólafi Ólafssyni, fyrrverandi landlækni

Óskari Einarssyni, lækni

Huldu Hjartardóttur, lækni

Sigurði E. Sigurðssyni, lækni

Birnu Jónsdóttur, lækni

Sigríði Ólínu Haraldsdóttur, lækni

Bjarna Þór Eyvindssyni, lækni

Ófeigi Þorgeirssyni, lækni

Páli Möller, lækni

Elínborgu Bárðardóttur, lækni

Karl Andersen, lækni

Emil Sigurðssyni, lækni

Hannesi Petersen, lækni

Ragnheiði Ingibjörgu Bjarnadóttur, lækni

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 20. febrúar sl., á sér þann aðdraganda að í máli þar sem fjallað var um það álitaefni hvort Jóhann Tómasson læknir hefði gerst brotlegur gegn siðareglum beindi Jóhann Tómasson gagnkæru að 21 lækni. Sá þáttur málsins var skilinn frá fyrrgreindu álitaefni sem leyst var úr með úrskurði Siðanefndar 7. desember 2007.

Af hálfu Jóhanns Tómassonar er þess krafist að siðanefnd LÍ kveði á um að kærðu hafi brotið gegn siðareglum LÍ og finni að háttsemi þeirra og veiti þeim formlega áminningu.

Af hálfu læknanna er þess krafist að þeir verði sýknaðir.

 

Í greinargerð lögmanns Jóhanns, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl. kveður hann upphaf máls þessa vera til þess að rekja, að Jóhann Tómasson, læknir, ritaði grein í Læknablaðið 9. tbl. 2005 undir fyrirskriftinni „Nýi sloppur keisarans“. Grein þessi hafi einnig birst á vefsíðum LÍ, svo sem annað efni í Læknablaðinu. Tilefnið hafi verið að birst höfðu fréttir í fjölmiðlum um vikuráðningu læknis til afleysinga á taugasjúkdómadeild Landspítalans. Hinn 17. júlí 2005 muni tvö af stóru dagblöðunum hafa birt tíðindin á forsíðu sinni og í ríkissjónvarpinu hafi frétt hafist með þessum orðum „Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar stendur vaktina þessa dagana í afleysingum á taugasjúkdómadeild Landspítalans.“ Muni hafa staðið til að Kári Stefánsson læknir leysti af á greindri deild í eina viku. Fyrrnefnd auglýsingamennska af hálfu læknisins sé brýnt brot á upphafsákvæði 20. gr. siðareglna LÍ þar sem segi að lækni sé ósæmandi að vekja á sér ótilhlýðilega athygli. Jóhann Tómasson hafi hins vegar verið að gæta skyldu sinnar skv. 3. mgr. 5. gr. siðareglna LÍ þar sem segir að lækni sem fær vitneskju um aðstæður sem hann telur faglega óviðunandi sé skylt að gera grein fyrir þeim skoðunum sínum. Jóhann hafi talið eðlilegast að gera grein fyrir þessum skoðunum sínum á viðeigandi stað, sem sé Læknablaðið, sem muni berast til flestra eða allra lækna í landinu. Hafi hann vakið athygli á því að Kári Stefánsson hefði „skilyrt, takmarkað lækningaleyfi útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977.“ Þær tvær setningar sem lögmaðurinn lýsir sem tilefni Siðanefndar máls þessa eru sem hér segir:

 

Kári hefur skilyrt, takmarkað lækningaleyfi og útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977. Önnur lækningaleyfi sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt honum eru því sennilega ólögleg.

 

Margvísleg viðbrögð hefðu orðið við þessum ummælum, annars vegar hjá stjórn Læknafélags Íslands og hins vegar hjá Kára Stefánssyni. Lögmaður Kára Stefánssonar hafi ritað ábyrgðarmanni Læknablaðsins bréf 12. september 2005 og talið að í greininni hafi verið veist að Kára Stefánssyni og starfsheiðri hans sem læknis og telji hann ummæli Jóhanns vera „svigurmæli“. Hinn 21. nóvember 2005 hafi Læknablaðið sent Jóhanni Tómassyni upplýsingar um og kynnt honum að grein hans hefði verið ritskoðuð og teknar tvær setningar úr greininni á vefsíðu. Jafnframt hafi honum verið send bréfaskipti (föxuð) um málið sem fyrirhugað hafi verið að birta í blaðinu í desember 2005. Hinn 21. nóvember 2005 hafi Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur ritað Kára Stefánssyni bréf þar sem vísað sé í grein Jóhanns og sagt að þar sé gefið í skyn að Kári stundi lækningar án tilskilinna leyfa. Síðan segi orðrétt „þetta hefur reynst að vera rangt. Þú ert beðinn afsökunar á því að þessi ummæli skyldu hafa birst í Læknablaðinu. Þau verða umsvifalaust fjarlægð úr netútgáfu blaðsins. Greinin í heild er til umfjöllunar hjá siðanefnd LÍ að beiðni stjórnar LÍ og mun nefndin skera úr um hvort þörf sé frekari aðgerða.“ Hér kveður lögmaður Jóhanns Tómassonar ekki vera farið með rétt mál. Landlæknir Sigurður Guðmundsson hafi vitað eða átt að vita að það lækningaleyfi sem hann vitni til í yfirlýsingunni og hafði verið gefið út 10. júní 1977 hafi þá fyrst orðið gefið út þegar Kári Stefánsson hefði undirgengist að uppfylla skilyrði lækningaleyfis að lokinni námsdvöl í Ameríku. Með þessu vottorði virðist Sigurður Guðmundsson, læknir, hafa stuðlað að þeirri trú stjórnar Læknafélags Íslands og fleiri að Kári Stefánsson hefði raunverulega haft skilyrðislaust lækningaleyfi allt frá 1977. Lögmaðurinn telur að sú undanþága sem Kári Stefánsson fékk til að unnt væri að veita honum lækningaleyfi 1977 eigi sér ekki neina lagastoð og hafi allir aðrir læknar sem útskrifuðust um svipað leyti úr læknadeild HÍ orðið að gegna læknisskyldu sinni í héraði eins og kallað er áður en þeir hafi getað hafist handa um framhaldsnám í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta skipti miklu máli þar sem verið var að breyta reglum í Bandaríkjunum um aðgang erlendra lækna að framhaldsnámi þar og hafi það getað seinkað framhaldsnáminu og hafi gert það hjá þeim sem orðið hafi að fara að lögum og gegna héraðsskyldu. Undan því hafi Kári Stefánsson hins vegar komist með heitvinningu sinni hjá landlæknisembættinu. Samkvæmt þessu teljist sannað að lækningaleyfi Kára Stefánssonar hafi verið skilyrt þótt það kæmi ekki fram í lækningaleyfinu sjálfu, enda hefði það þá verið ógilt. Í stað þess að færa skilyrðið inn í lækningaleyfið hafi það verið sett á sérstakt skjal og Kári Stefánsson látinn vinna það heit að standa við skilyrðið. Það hafi Kári Stefánsson ekki gert að því er best sé vitað og hafi því enn ekki uppfyllt skilyrðið, en hann geti að sjálfsögðu gert það þótt síðar verði. Almennt lækningaleyfi sé forsenda sérfræðilækningaleyfis og hefði því ekki átt að veita Kára Stefánssyni það leyfi nema að uppfylltu skilyrðinu.

 

Af hálfu kæranda segir að krafa hans beinist að læknum sem sátu í stjórn LÍ, ritstjórn Læknablaðsins að undanskildum Vilhjálmi Rafnssyni, bráðabirgðaritstjórn Læknablaðsins, svo og að Sigurði Guðmundssyni, lækni, sem var landlæknir á þeim tíma og undirritaði yfirlýsingu þá sem fyrr er vitnað til. Enn fremur gegn Matthíasi Halldórssyni, aðstoðarlandlækni og Ólafi Ólafssyni, fyrrverandi landlækni, fyrir yfirlýsingar í fjölmiðlum til varnar þeim gerðum að gefa út lækningaleyfi til handa Kára Stefánssyni, enda þótt hann hafi ekki uppfyllt skilyrði til þess, og mismuna þar með læknum sem svipað var ástatt um. Efnislega hafi þessar yfirlýsingar falið í sér að kærandi færi með rangt mál með því að gagnrýna ráðningu Kára Stefánssonar til Landspítala í fáeina daga með hliðsjón af því að hann hefði ekki fengið óskilyrt lækningaleyfi og uppfyllti því ekki skilyrði til starfans. Allir gagnkærðu hafi lagt á það áherslu að það væri ekki hlutverk kæranda að fjalla um þessa óheimilu meðferð embættisvalds og það lægi betur í þagnargildi. Verði ekki séð að gagnkærðu beri fyrir brjósti hagsmuni sjúklinga, sem verði að treysta því að þeir læknar sem þá annast á viðurkenndum heilbrigðisstofnunum hafi til þess ekki aðeins menntun heldur og löggild starfsleyfi og þeir hafi viðhaldið starfsþjálfun sinni. Gagnkærðu hafi með beinum eða óbeinum hætti ýmist einir sér eða í sameiningu leitast við að stuðla að því að útiloka kæranda frá því að sinna skyldum sínum samkvæmt 3. mgr. 5. gr. siðareglna LÍ. Hafi þessir aðilar notað aðstöðu sína til þess að vega að læknisheiðri kæranda með ýmsum hætti. Stjórn LÍ hafi rekið Vilhjálm Rafnsson sem ábyrgðarmann blaðsins fyrir það eitt að hafa birt grein kæranda. Í þeirri ákvörðun stjórnar LÍ felst árás á kæranda og með aðgerðinni gagnvart ábyrgðarmanni tímarits LÍ hafi stjórn LÍ tekið afstöðu gegn kæranda og gegn þeirri nauðsynlegu gagnrýni sem hann hafi fært fram í grein sinni. Á sama hátt hafi ritstjórnarmenn brugðist að undanteknum Vilhjálmi Rafnssyni við grein kæranda og þeir sagt sig frá störfum í ritstjórninni til þess að lýsa yfir vanþóknun sinni á þeirri gagnrýni sem kærandi hefði borið fram og þeir talið beinast að Kára Stefánssyni. Fram komi í ummælum framkvæmdastjóra LÍ að flestir þessara ritstjórnarmanna hafi verið vanhæfir að fjalla um málefnið vegna tengsla við Íslenska erfðagreiningu ehf. og Kára Stefánsson. Stjórn LÍ hafi nánast ákveðið og beint því til bráðabirgðaritstjórnarinnar að orða afsökunarbeiðni til Kára Stefánssonar. Sú afsökunarbeiðni sé síðan á ábyrgð bæði bráðabirgðaritstjórnarmanna og stjórnarmanna í LÍ og þar sé að sjálfsögðu farið með rangt mál að því er varðar efni greinar kæranda og réttmæti staðhæfinga hans í greininni. Í afsökunarbeiðninni felist og aðför að læknisheiðri kæranda.

Það sé athyglisvert að gagnkærðu hafa ekki talið neina ástæðu til að gera grein fyrir því að lækni sé ósæmandi að vekja á sér ótilhlýðilega athygli eins og segi í 20. gr. siðareglnanna, en það hafi gerst þegar Kári Stefánsson tók að sér að starfa í fáeina daga á Landspítalanum. Ekki sé gætt jafnræðis.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að rangt sé að Kári Stefánsson hafi haft skilyrðislaust almennt lækningaleyfi og skilyrðislaust sérfræðileyfi hér á landi. Hafi hann ekki uppfyllt skilyrði til að fá almennt lækningaleyfi og þar af leiðandi ekki heldur skilyrði þess að fá sérfræðilækningaleyfi. Þetta sé byggt á skjölum úr skjalasafni landlæknis. Gögn um þetta hafi einnig birst í sagnfræðiritinu „Kári í jötunmóð“. Hins vegar virðist Kári Stefánsson á yfirborðinu hafa greind starfsleyfi, þar sem landlæknisembættið hafi leitast við að leyna því að hin útgefnu leyfi séu háð því skilyrði sem Kári Stefánsson hafi unnið heit að að uppfylla. Slík leynd breyti engu um það að Kári Stefánsson hafi ekki uppfyllt efnisleg skilyrði þess að fá útgefin leyfi og landlæknisembættið og forsvarsmenn þess hafi ekki verið í góðri trú um gildi starfsleyfanna. Þeim hafi borið skylda til að taka undir orð kæranda og upplýsa um hin óuppfylltu skilyrði. Engu skipti um gildi leyfanna hvort skilyrðið um héraðsskyldu hafi verið numið úr lögum síðar. Það sem skipti máli sé hvernig lögum hafi verið háttað að þessu leyti þegar leyfin hafi verið sögð gefin út.

Kærandi hafi fengið úr fjölmiðlum vitneskju um þessar aðstæður, þ.e. að „læknir“ sem ekki hefði fengið óskilyrt lækningaleyfi hefði tekið að sér að gegna sérfræðistörfum á Landspítalanum, þó aðeins væri um fárra daga bil. Kærandi hafi gert sér og grein fyrir því að læknir þessi hefði ekki fengist við lækningar um langa hríð og þar af leiðandi ekki verið í nauðsynlegri þjálfun. Mjög brýnt hafi verið að kærandi gerði grein fyrir þessari vitneskju sinni í Læknablaðinu, sem hafi verið rétti staðurinn til að birta gagnrýnina. Telja megi næsta víst að þessi saga muni ekki endurtaka sig á Landspítalanum og hafi grein kæranda því gert sitt gagn. Minnt sé á að í 2. gr. siðareglna segi að lækni beri að viðhalda þekkingu sinni og endurnýja hana og leitast við að fullnægja þeim kröfum sem gerðar séu til starfa lækna á hverjum tíma. Þá segi að lækni hlýði í starfi sínu að fara sem minnst út fyrir þau verksvið sem menntunarstig hans taki til. Þetta ákvæði merki í raun að læknir sem taki að sér störf á tilteknu sviði læknisfræði þurfi bæði að hafa til þess leyfi og menntun og vera í þjálfun til að gegna starfinu. Nauðsynlegt sé að hagsmuna sjúklinga sé gætt og komið í veg fyrir að þeir sæti læknisaðgerðum eða læknisráðum af hálfu lækna sem ekki hafi nauðsynlega starfsþjálfun. Læknisfræðin geti ekki verið öðruvísi en öll önnur sérfræðifög að þeir einir geti leyst úr vandamálum sem annars vegar hafi til þess menntun og hins vegar nægilega þjálfun. Sá sem ekki hafi fengist við starfsgrein sína um ára- eða áratugabil með því að taka þátt í hinum daglegu störfum sé ekki hæfur til að sinna sérfræðiráðgjöf og sérfræðiaðgerðum.

Það sé hættulegt fordæmi af hálfu stjórnar Læknafélags Íslands og meirihluta ritstjórnar, bráðabirgðaritstjórnar, landlæknis Sigurðar Guðmundssonar og aðstoðarlandlæknis Matthíasar Halldórssonar, svo og fyrrverandi Landlæknis Ólafs Ólafssonar, að stuðla að því að svona aðstæður geti komið upp aftur með því að verja það sem gerst hafi.

Eins og fram sé komið hafi grein kæranda verið ritskoðuð og hluti hennar numin úr þeirri gerð hennar sem birst hafi á vef Læknablaðsins. Í þessu felist óheimil ritskoðun og takmarkanir á tjáningarfrelsi kæranda. Fari þessi athöfn gegn ákvæði stjórnarskrár um vernd tjáningarfrelsis og gegn ákvæðum siðareglna LÍ.

 

Af hálfu gagnkærðu er til þess vísað að í 24. gr. siðareglna lækna segi að stjórn Læknafélags Íslands ásamt með stjórnum svæðafélaga hafi eftirlit með því, að siðareglum félagsins sé fylgt. Að Siðanefnd félagsins skeri úr um ágreining um skilning á reglum þessum og fjalli um siðamál sem til hennar sé vísað. Skiptar skoðanir hafi verið á meðal stjórnarmanna í Læknafélagi Íslands um greinarskrif Jóhanns Tómassonar, læknis og hafi það orðið niðurstaða meirihluta stjórnarmanna, að stjórnin hafi óskað eftir því að Siðanefnd Læknafélags Íslands tæki til umfjöllunar og úrskurðar eftir því sem við ætti hvort Jóhann Tómasson, læknir hefði í grein sinni, gerst brotlegur gegn siðareglum lækna með einhverjum ummælum sínum í henni.

Samkvæmt lögum Læknafélags Íslands sé það m.a. tilgangur félagsins að efla hag og sóma hinnar íslensku læknastéttar. Setji félagið félagsmönnum siðareglur, Codex Ethicus, sem séu reglur um góða læknishætti. Séu siðareglur Læknafélags Íslands reistar á Alþjóðasiðareglum lækna.

Stjórnir Læknafélags Íslands og aðildarfélaganna skuli skv. lögum félagsins hafa eftirlit með og stuðla að því, að siðareglurnar, svo og lög og samþykktir félaganna, séu höfð í heiðri. Stjórnirnar skulu vera læknum til ráðuneytis um siðareglur lækna og um samskipti lækna innbyrðis og þær skuli fjalla um meint brot á Codex Ethicus og á lögum og samþykktum LÍ og aðildarfélaganna. Siðanefnd sem starfi á vegum félagsins hafi það hlutverk að fjalla um siðamál, sem til hennar sé vísað. Þegar stjórn Læknafélags Íslands hafi beint máli þessu til Siðanefndar hafi hún byggt þá ráðstöfun á lögum félagsins.

Stjórn Læknafélags Íslands hafi kosið að fela óvilhöllum aðila skoðun þessa máls í samræmi við starfsreglur sínar. Erindi stjórnar Læknafélags Íslands frá 26. október 2005 til Siðanefndar félagsins eigi sér stoð í lögum félagsins og sé stjórnin með því að gegna lögboðnum eftirlitsskyldum sínum. Er því alfarið mómælt að stjórn Læknafélags Íslands eða einstakir stjórnarmenn hafi byggt á öðrum viðhorfum þegar erindi þessu var beint til Siðanefndarinnar.

Samkvæmt 6. gr. viðauka við lög LÍ vísi Siðanefnd frá sér þeim málum, sem hún álítur sér óviðkomandi eða hún telur að vísa beri til almennra dómstóla. Geri þeir læknar sem gagnkrafa Jóhanns Tómassonar beinist að þá kröfu aðallega að Siðanefnd vísi öllum þeim atriðum sem þar er fjallað um frá sér með stoð í greindu ákvæði. Til vara er krafist sýknu.

Engin rök séu færð fyrir því í greinargerð Jóhanns Tómassonar vegna gagnkröfu hans hver aðild hvers og eins upptalinna lækna sé að málinu og hver háttsemi þeirra sé, sem Siðanefnd skuli taka afstöðu til á grundvelli þeirra reglna sem hún starfar eftir. Skýrleika skorti um hvert meint sakarefni gagnkröfunnar sé og afmörkun þess sé ófullnægjandi. Tilgreind atvik gagnkröfu Jóhanns Tómassonar séu ósamrætt innbyrðis og standi utan vettvangs eða lögsögu Siðanefndar félagsins.

 

 

NIÐURSTAÐA

 

Af hálfu kæranda er megináhersla lögð á að lækningaleyfi til Kára Stefánssonar sem hafi verið gefið út 10. júní 1977 hafi þá fyrst orðið gefið út þegar Kári Stefánsson hefði undirgengist að uppfylla skilyrði lækningaleyfis að lokinni námsdvöl í Ameríku. Sú undanþága sem Kári Stefánsson hafi fengið til að unnt væri að veita honum lækningaleyfi 1977 eigi sér ekki neina lagastoð og hafi allir aðrir læknar sem útskrifast hafi um svipað leyti úr læknadeild HÍ orðið að gegna læknisskyldu sinni í héraði eins og kallað er áður en þeir hafi getað hafist handa um framhaldsnám í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta skipti miklu máli þar sem verið hafi verið að breyta reglum í Bandaríkjunum um aðgang erlendra lækna að framhaldsnámi þar og hafi það getað seinkað framhaldsnáminu og hafi gert það hjá þeim sem orðið hafi að fara að lögum og gegna héraðsskyldu. Undan því hafi Kári Stefánsson hins vegar komist með heitvinningu sinni hjá landlæknisembættinu. Samkvæmt þessu teljist sannað að lækningaleyfi Kára Stefánssonar hafi verið skilyrt þótt það kæmi ekki fram í lækningaleyfinu sjálfu, enda hefði það þá verið ógilt. Í stað þess að færa skilyrðið inn í lækningaleyfið hafi það verið sett á sérstakt skjal og Kári Stefánsson látinn vinna það heit að standa við skilyrðið. Það hafi Kári Stefánsson ekki gert að því er best sé vitað og hafi því enn ekki uppfyllt skilyrðið, en hann geti að sjálfsögðu gert það þótt síðar verði. Almennt lækningaleyfi sé forsenda sérfræðilækningaleyfis og hefði því ekki átt að veita Kára Stefánssyni það leyfi nema að uppfylltu skilyrðinu.

Af hálfu kæranda hafa verið lögð fram gögn sem varða útgáfu leyfis þessa. Þar á meðal er að finna bréf Kára Stefánssonar til Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins dagsett 31. maí 1977 þar sem segir í lok bréfsins að ef Landlæknir sjái í gegnum fingur við hann og mæli með því, að hann fái lækningaleyfi án þess að starfa í héraði, væri honum það ljúft að heita því að gera það að loknu sérnámi. Þá liggur fyrir vottfest skjal, undirritað af Kára Stefánssyni, dagsett sama dag og fyrrnefnt bréf þar sem segir: „Hér með heiti ég því að vinna 3já mánuði í héraði að lokinni námsdvöl í Amríku.“ Ekki kemur fram í málinu að vinnuskylda þessi hafi verið innt af hendi.

 

Fyrir liggur úrskurður Siðanefndar Læknafélags Íslands frá 7. desember 2007 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Jóhann Tómasson hafi brotið gegn siðareglum lækna með eftirfarandi ummælum í grein hans sem birtist í 9. tbl. 91. árgangs Læknablaðsins:

 

„Kári hefur skilyrt, takmarkað lækningaleyfi, útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977. Önnur lækningaleyfi, sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt honum, eru því sennilega ólögleg.“

 

„Ferill Kára í verklegu og klínísku námi í læknadeild Háskóla Íslands og á kandídatsári var með endemum.“

 

Úrskurður þessi er ekki til endurskoðunar hér og ástæða þykir til þess að árétta að fullyrðingar læknisins um gildi leyfis sem stjórnvald gaf út fyrir rúmum 30 árum og um feril starfsbróður kæranda á síðasta námsári hans í læknadeild Háskóla Íslands þóttu fela í sér brot á siðareglum lækna. Hins vegar voru engar athugasemdir gerðar við umfjöllun um málefni það sem greinin fjallaði um.

 

Kærandi beinir kæru sinni m.a. að læknunum Matthíasi Halldórssyni, Ólafi Ólafssyni og Sigurði Guðmundssyni og telur að þeir hafi gerst brotlegir við siðareglur með annars vegar afskiptum sínum af margnefndri leyfisveitingu og hins vegar umfjöllun um hana á opinberum vettvangi. Hér verður ekki fram hjá því litið að afskipti kærðu fólust í framkvæmd starfa þeirra sem stjórnvalds og á Siðanefnd Læknafélags Íslands ekki lögsögu yfir þeim þætti starfa þeirra og er kæru hvað þá snertir því vísað frá Siðanefnd.

Þá telur Siðanefnd að stjórn Læknafélags Íslands verði á engan hátt fundið það til foráttu að hafa vísað því sem hún taldi álitaefni til Siðanefndar né heldur verður talið að afskipti stjórnarinnar og stjórnar Læknafélags Reykjavíkur af málum í framhaldi af greinarskrifum kæranda hafi farið út fyrir þau mörk sem stjórnum eru sett við meðferð málefna félaga en ljóst er af gögnum málsins að nokkurs óróa gætti meðal félagsmanna vegna máls þessa. Þá verður ekki á það fallist að afstaða þeirra ritstjórnarmanna Læknablaðsins sem sögðu sig úr ritstjórn til greinar kæranda hafi falið í sér brot á siðareglum. Þá er ekki heldur fallist á það að bráðabirgðaritstjórn Læknablaðsins hafi með afskiptum sínum af máli þessu brotið gegn siðareglum.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Kröfum kæranda á hendur læknunum Sigurði Guðmundssyni, Matthíasi Halldórssyni og Ólafi Ólafssyni er vísað frá Siðanefndinni.

Læknarnir Sigurbjörn Sveinsson, Jón Steinar Jónsson, Tryggvi Ásmundsson, Örn Bjarnason, Óskar Einarsson, Hulda Hjartardóttir, Sigurður E. Sigurðsson, Birna Jónsdóttir, Sigríður Ólína Haraldsdóttir, Bjarni Þór Eyvindsson, Ófeigur Þorgeirsson, Páll Möller, Elínborg Bárðardóttir, Karl Andersen, Emil Sigurðsson, Hannes Petersen og Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir skulu sýknir af kröfum kæranda Jóhanns Tómassonar.

Allan V. Magnússon

Ingvar Kristjánsson

Stefán B. Matthíasson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica