04. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

FÍFLagangur að vori. Tómas Guðbjartsson, Engilbert Sigurðsson

Á síðustu mánuðum hefur verið hljótt um starfsemi Félags íslenskra fjallalækna (FÍFL). Félagsmenn hafa notað tímann vel til rannsókna á háfjallaveiki og undirbúið sig fyrir verkefni vorsins sem nálgast óðfluga.

Hópurinn á toppi Kerlingar, hæsta tinds í Eyjafirði (1538 m). Útsýni var frábært af tindinum og sást m.a. til Herðubreiðar, Dyngjufjalla og Mývatns. Mynd: Haraldur Sigurðarson.

 

Síðasta hópferð var farin 20. september síðastliðinn en þá gengu 26 FÍFL ásamt vinum á Kerlingu (1538 m) sem er hæsta fjall Eyjafjarðar. Skipulag var í höndum Norðandeildar FÍFLs undir forystu Orra Einarssonar röntgenlæknis á FSA. Göngugarpar úr röðum svokallaðs Glerár-dalsgönguhóps sáu um leiðsögn og tók gangan rúmar 8 klukkustundir. Veður var frábært og allir náðu toppnum.

Á næstu mánuðum er FÍFL með ýmislegt á prjónunum. Ber þar hæst dagsgöngu á Tindfjallajökul (1462 m) föstudaginn 1. maí en þetta er í fyrsta skipti sem FÍFL stendur fyrir göngu á þennan mikilfenglega jökul. Helsta verkefnið er síðan ganga á Hrútfjallstinda í Öræfajökli (1875 m) 22.-23. maí. Þetta er erfið ganga sem tekur um 18 klukkutíma og er aðeins ætluð vönu göngufólki með útbúnað eins og mannbrodda og ísaxir. Með í för verður reyndur fjallaleiðsögumaður og er gert ráð fyrir að gista í Skaftafelli bæði fyrir og eftir gönguna. Hámarksfjöldi þátttakenda í þessa göngu eru 18 manns og er hægt að skrá sig í ferðina á heimasvæði FÍFL á www.facebook.com eða með netpósti tomasgudbjartsson@hotmail.com Í júní er síðan fyrirhuguð fjallaskíðaferð á Heklu og í sumar ganga á Herðubreið og Snæfell sem auglýstar verða nánar síðar.

 

Hrútfjallstindar í Öræfajökli (1875 m). Mynd: Sverrir Jónsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica