04. tbl. 95. árg. 2009

Ritstjórnargrein

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Engilbert Sigurðssonsviðsstjóri á skrifstofu kennsluֽ vísinda og þróunar (SKVÞ)ֽ yfirlæknir og kennslustjóri á geðsviði LSH

engilbertVinnusemi, nægjusemi og nýtni hafa um aldir verið meðal höfuðdyggða Íslendinga. Atvinnuþátttaka hefur áratugum saman verið mjög mikil, 83% samkvæmt ársskýrslu Vinnumálastofnunar árið 2006, og atvinnuleysi lítið síðastliðna áratugi, mest 5% árið 1995. Ljóst er að atvinnuleysi hefur aukist hraðar en reiknað var með, einkum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þenslan var mest. Það stefnir í að hlutfall atvinnulausra fari yfir 10% með vorinu. Svo kemur sumarið. Tugir þúsunda skólafólks munu þá streyma inn á vinnumarkaðinn.

Nú eru ungir og miðaldra karlar í meirihluta meðal fólks í atvinnuleit. Margir þeirra muna ekki annað en að ganga að atvinnu sem sjálfsögðum hlut. Sjálfsmynd eldri hluta hópsins er oft nátengd því að hafa vinnu og vera aðalfyrirvinna heimilisins. Reynslan sýnir að ýmsir úr hópnum, einkum þeir yngri, eiga á hættu að missa tök á daglegum lífstakti, snúa sólarhringnum við og leita í vímugjafa. Nýlegar innlendar rannsóknir sýna meiri aðlögunarhæfni atvinnuleitandi kvenna en karla.1

Akureyringar þekkja böl atvinnuleysisins vel frá níunda áratug síðustu aldar. Eftir bankahrunið í byrjun október stofnuðu hagsmunaaðilar þar í bæ strax Almannaheillanefnd sem hefur fundað reglulega. Íþróttafélögin á Akureyri hafa einnig staðið að ókeypis virknidagskrá fyrir bæjarbúa. Valsmenn riðu á vaðið sunnan heiða þegar þeir opnuðu í mars virknisetur í íþróttaaðstöðu sinni á dagvinnutíma. Reykjanesbær og Akureyri hafa einnig tryggt fólki í atvinnuleit ókeypis aðgang að sundlaugum, Rauði krossinn hefur opnað hús með námskeiðum, ráðgjöf og virkni í Borgartúni í Reykjavík, og Reykjanesbær opnaði í janúar aðstöðu fyrir námsmenn og atvinnuleitendur undir einu þaki. Háskóli Íslands hefur kvikmyndað fyrirlestraröðina „Mannlíf og kreppur“ og eru fyrirlestrarnir aðgengilegir á heimasíðu skólans, hi.is.2

„Óvanalegar aðstæður kalla á óvanaleg viðbrögð,“ sagði hagfræðingur nokkur nýlega í sjónvarpsviðtali. Í fréttum hljómar það raunar oft eins og um spilapeninga sé að ræða þegar rætt er um að setja hundruð milljarða í að fjármagna banka til að atvinnulíf og fólk fái þrifist. Þegar rætt er um að verja fé milliliðalaust í aðkallandi þjónustu eða tímabundin störf til að auka atvinnuþátttöku mætti hins vegar ætla að um gullpeninga eða blóðpeninga væri að ræða. Þá er gjarnan talað í milljónum eða í besta falli í milljónatugum. Viðbótarfé sem ríkið (við) ver í vinnu og námskeið fyrir skólafólk er vel varið við þessar aðstæður. Eftirspurnin eftir sumarstörfum mun að óbreyttu aukast og framboðið minnka. Fréttir herma að það þurfi færri tugi milljarða en ráð var fyrir gert til að fjármagna nýju bankana. Nýtum að minnsta kosti einn, jafnvel bara einn, til ráðast í fleiri atvinnuskapandi sumarverkefni fyrir ungt fólk.

Þegar áhættuþættir heilsubrests og vanlíðunar aukast hjá fjölmennum hópum innan samfélags, þarf víðtækar aðgerðir til að milda áhrifin á hópana til skemmri og lengri tíma. Slík nálgun skilar mestu í lýðheilsu.3 Föllum ekki í sömu gryfju og Finnar sem telja vaxandi örorku í góðærinu upp úr aldamótum tengjast óheillaáhrifum kreppunnar á börn, unglinga, ungt fólk og foreldra á áratugnum eftir að járntjaldið féll. Mat aðila í félags- og heilbrigðisþjónustu í Finnlandi er að gengið hafi verið of langt þar í niðurskurði á félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu á krepputímunum 1991-1995. Við Íslendingar fáum ekki annað tækifæri til að kanna hvort skynsamlegra hefði verið að bregðast öðruvísi við hér á landi eftir fimm ár. Það verður of seint. Reynslu Finna má túlka þannig að það sé ekki aðeins mannúðlegt að þétta sálfélagslega netið í kringum börn, unglinga og atvinnuleitendur á tímum kreppu og atvinnuleysis, heldur sé það einnig hagkvæmt. Þá er horft til stöðugrar aukningar langtíma örorku í Finnlandi á góðæristímum, á árunum 2000-2007. Siðferðilega ber okkur að milda áhrif glópsku eldri kynslóða og heimskreppu á þær kynslóðir sem á eftir koma.

Ríkisstjórn og sveitarstjórnir þurfa að taka höndum saman með athafnafólki frá frjálsum félagasamtökum, fólki sem kann til verka við að skipuleggja virkni með leikjanámskeiðum, námi og tímabundnum verkefnum fyrir börn, unglinga og atvinnuleitendur. Nýstofnuð Velferðarvakt, samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, getur unnið að greiningu á þörfum hópa sem verða illa úti og stuðlað að samhæfingu viðbragða. Jafnframt er full ástæða til að læknar spyrji atvinnulausa sem til þeirra leita hvort þeir geti virkjað þekkingu sína og krafta með sjálfboðavinnu í þágu nærsamfélags síns. Sælla er að gefa en þiggja. Hverfamiðstöðvar, íþróttafélög, Rauði krossinn, björgunarsveitir og skátarnir geta haldið utan um slíkt framtak og byrjað á því að vinna með atvinnuleitandi félagsmönnum úr eigin röðum. Ekki skortir verkefnin.

 

 

Heimildir

1. Guðmundsson HS. Aftur til vinnu. Þróun úrræða fyrir langtímaatvinnulausa. Ritstjórar Jóhannesson GÞ, Björns-dóttir H. Rannsóknir í félagsvísindum IX 2008.
2. www.hi.is/mannlif_og_kreppur
3. Rose H. The Strategy of Preventive Medicine. Oxford University Press, 1992.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica