02. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Nýráðinn hagfræðingur til LÍ

Um áramótin hóf störf á hagdeild Læknafélagsins Sólveig Fríða Jóhannsdóttir. Sólveig útskrifaðist með C.Sc. í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 1997 og M.Sc gráðu í hagfræði frá sama skóla árið 2001. Lengst af hefur hún starfað hjá Hagfræðistofnun HÍ sem sérfræðingur. Þar vann hún meðal annars úttektir og skýrslur um heilbrigðismál eins og spá um þörf fyrir vinnuafl í heilbrigðiskerfinu, kostnaðargreiningu á heilbrigðisþjónustu, fjármögnun og rekstur heilbrigðisþjónustu og ýmsa framreikninga á heilbrigðisútgjöldum.

Verkefnum Sólveigar hjá Læknafélaginu má skipta í fernt. Í fyrsta lagi er forvinna við kjaramál lækna en þau hafa orðið æ flóknari í seinni tíð, ekki síst vegna fjölbreyttara starfsumhverfis en áður var. Í öðru lagi mun hún vinna hagtölur heilbrigðismála og kostnaðargreiningu læknisverka. Það er áríðandi að samtök lækna beri gott skynbragð á eðli slíkra talna og samhengi þeirra hér innanlands og í samanburði við erlendar hagtölur. Í þriðja lagi mun hún koma að forvinnu við stefnumótun samtaka lækna varðandi mótun hins íslenska heilbrigðiskerfis og í fjórða lagi mun hún veita ráðgjöf til fyrirtækja lækna og hópa lækna á sama starfsvettvangi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica