02. tbl. 95. árg. 2009

Ritstjórnargrein

Frumkvæði lækna á krepputímum

Bryndís Benediktsdóttirsérfræðingur í heimilislækningum og dósent við læknadeild Háskóla Íslands

r01-fig1Í nýliðnu góðæri bjó heilbrigðisþjónustan við aðhald og sparnað því ekki mátti auka þenslu í þjóðfélaginu. Sagt var að betri tímar væru í nánd þegar slaknaði á þenslu, nýtt sjúkrahús yrði byggt með augljósri hagræðingu og heilsugæsla efld. En eftirlitslaus markaðshyggja var allsráðandi og jafnvel virðist litlu hafa mátt muna að heilbrigðiskerfið yrði blindri nýfrjálshyggju að bráð. Í einni svipan féllu leiktjöldin og við blasti meiri spilling og óstjórn en nokkurn gat órað fyrir. Þjóðin skuldum vafin, atvinnuleysi og kreppa. Heilbrigðisstjórnvöld krefjast mikils sparnaðar en talsmáti þeirra er torskilinn. Í nálægð kosninga er reynt að telja þjóðinni trú um að þjónusta heilbrigðiskerfis muni ekki skerðast!

Hversu reið sem við erum er ljóst að kvöldi dags að íslenska þjóðin hefur minna fé til heilbrigðisþjónustu. Samtímis er brýnt að læknastéttin sýni frumkvæði að stefnumótun og hafi fagleg gildi að leiðarljósi. Hlutverk okkar lækna hlýtur að vera að tryggja skilyrðislausan forgang þeirra sem eru veikir að heilbrigðisþjónustunni; til greiningar, lækningar, hjúkrunar eða umönnunar allt eftir því sem faglega er þörf á. Ef framfylgja á slíkri stefnu þurfa læknar að hætta að ríghalda í aðstöðu, stofnanir og hlutverkaleik innan heilbrigðiskerfisins. Skjólstæðingar okkar eru ekki stofnanir, hagur fyrirtækja eða hlutverk einstakra starfstétta innan kerfisins. Skjólstæðingar okkar eru veikt fólk. Að mínu áliti eiga læknar að sýna frumkvæði og vinna markvisst og af fagmennsku með hag þeirra sem veikir eru að leiðarljósi, stuðla að því að forgangsraða starfsfólki að þeim stofnunum og í störf þeirra sem sinna veikum. Þjónusta og eftirlit með frísku fólki þarf að mæta afgangi. Hugsa þarf upp nýtt vinnulag, hlutverk starfstétta og viðfangsefni. Þetta verður ekki gert sársaukalaust.

Hugmynd kollega míns í heilsugæslunni er dæmi um þessa nýju róttæku hugsun. Hann lagði til að víðtækt þroskamat, sem stendur til að taka upp í ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar, færi betur í höndum leikskólakennara, sem hafa í námi sínu og starfi öðlast kunnáttu og færni til að meta þroska barna. Hann taldi augljóst að vel menntaður leikskólakennari sem sinnir barni allan daginn væri líklegri til að greina þroskafrávik en hjúkrunarfræðingur sem hittir barnið stutta stund á heilsugæslustöð. Langflest börn á umræddum aldri sækja leikskóla (sem nú eru fullmannaðir fagfólki), en bjóða mætti þeim sem ekki gerðu það til skoðunar á heilsugæslustöð. Hann benti á að stór hluti þroskafrávika barna væru á uppeldislegum grunni, en ekki vegna sjúkdóms og því frekar á færi leikskóla og foreldra að takast á við þann vanda. Með þessum breytingum mætti einbeita sér að þeim hópi barna, sem félli á þroskamati og þyrfti raunverulegt liðsinni heilbrigðisstarfsfólks. Spara mætti mikla vinnu hjúkrunarfræðinga, lækna og annars starfsfólks á heilsugæslustöðvum við eftirlit og mat á frískum börnum. Um leið yrði þeim kleift að leggja aukna áherslu á aðkallandi störf við heimahjúkrun og lækningar. Á þann hátt mætti sinna veiku fólki betur. Fólki sem sent hefur verið heim af sjúkrahúsi veikara en áður vegna samdráttar þar.

Ég nefni þessa hugmynd sem dæmi um gagnrýna hugsun og raunverulega tillögu sem sprottin er úr eigin vinnuumhverfi góðs kollega. Því miður vill brenna við að flestar sparnaðarhugmyndir lækna fjalli um störf og aðstæður sem eru bæði faglega og landfræðilega langt í burtu frá þeim sjálfum.

Gera verður kröfu um að starfsumhverfi heilbrigðisstétta kalli ekki á kostnaðarsaman tvíverknað og sem allra fyrst þarf að koma upp miðlægum rafrænum gagnagrunni með nauðsynlegustu upplýsingum. Það er ótrúlegt sinnuleysi hversu litlu hefur verið varið til slíkrar uppbyggingar. Eins má spyrja sig hvers vegna ekki er leitað samráðs við lækna um hvernig megi nýta sem best þá milljarða sem þjóðin ver til lyfjakaupa. Landlæknisembættið hefur unnið mjög góðan grunn sem mætti byggja á.

Þörfin fyrir lækna til að móta bætta stefnu í heilbrigðisþjónustu hefur aldrei verið brýnni. Það verður fróðlegt að sjá á næstu mánuðum hvort heilbrigðisyfirvöld munu leita eftir faglegum lausnum eða hvort önnur sjónarmið ráði ferðinni. Sjálf er ég sannfærð um að hver einasti læknir er reiðubúinn að leggja lið og setja til hliðar hugsunarháttinn ?hvernig held ég mínu? og stuðla að gagnrýninni umræðu um faglegar umbætur í nánasta starfsumhverfi og sýna frumkvæði að því að gera þær að veruleika. Um leið þurfa heilbrigðisyfirvöld miklu virkara aðhald þannig að við þurfum ekki stöðugt að búa við órökstuddar neyðarráðstafanir og tilraunir til brota á gildandi samningum. Í lýðræðisþjóðfélögum er samið. Íslenska þjóðin þarf á öllu sína besta fagfólki að halda til að finna lausnir á erfiðum krepputímum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica