01. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Læknir, stjórnmálamaður og skátahöfðingi. Viðtal við Pál Gíslason

Páll Gíslason er einn þeirra lækna sem sett hafa mark sitt á umhverfið og komið víða við á ferlinum, bæði sem læknir og stjórnmálamaður. Hann var sjúkrahúslæknir á Akranesi um 15 ára skeið, 1955-1970 og yfirlæknir á handlækningadeild Landspítala frá 1970-1994. Hann var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi frá 1962-1970 og borgarfulltrúi í Reykjavík frá 1974-1994. Störf hans fyrir skátahreyfinguna ná aftur á æskuár en hann var Skátahöfðingi Íslands árin 1971-1981. Með þessu er aðeins fátt upptalið af félags- og trúnaðarstörfum sem Páll hefur gegnt um ævina en hann féllst góðfúslega á að rifja upp sitthvað af því sem á daga hans hefur drifið þó ekki verði öllu til skila haldið í svo stuttu spjalli sem hér fer á eftir. Páll var brautryðjandi í æðaskurðlækningum hérlendis og hóf slíkar aðgerðir á Sjúkrahúsinu á Akranesi. Hann vann síðan að uppbyggingu æðaskurðdeildar Landspítala eftir að hann varð yfirlæknir þar.

„Hef að miklu leyti dregið mig í hlé frá opinberu lífi,“ segir Páll Gíslason læknir.

Í starfi sínu sem borgarfulltrúi kom Páll að byggingu fjölmargra þjónustuíbúða og hjúkrunarheimila fyrir aldraða og gegndi formennsku í byggingarnefndum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Hann var jafnframt formaður Veitustofnana Reykjavíkur um árabil og átti sinn þátt í að uppbygging Orkuversins á Nesjavöllum varð að veruleika. Hann tekur undir það sjónarmið margra kollega sinna að læknum beri nokkur skylda til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum stjórnmál eða félagslega þátttöku, hafa skoðun á stefnumörkun í heilbrigðismálum og fylgja henni eftir. „Mér hefur alltaf þótt kostur að vera læknir í þeim verkefnum sem ég hef tekið að mér og tel að læknismenntunin sé góður grunnur fyrir stjórnmálaþátttöku,“ segir Páll.

Páll segir að oft hafi verið mikið að gera þegar mest gekk á í læknistarfinu og pólitíkinni og sumum hafi þótt nóg um. „Þess var krafist að rannsakað yrði hvort ég sinnti starfi mínu á Landspítalanum nægilega vel vegna umsvifa í borgarpólitíkinni. Það kom í ljós að enginn hafði gert fleiri aðgerðir á spítalanum en ég á þeim tíma sem var til skoðunar. Það var ekki minnst á þetta aftur.“

Þegar Páll rifjar upp atvik úr læknisstarfinu segist hann alltaf hafa lagt áherslu á að kynnast sjúklingum sínum og alls ekki viljað gera aðgerðir á fólki sem hann hafði ekki rætt við áður og skoðað. „Ég barðist gegn því að sett yrði upp innlagnaskrifstofa þar sem ein manneskja réði því hverjir legðust inn til aðgerða. Með því fyrirkomulagi sér skurðlæknirinn jafnvel ekki sjúklinginn fyrr en á skurðarborðinu en það eru vinnubrögð sem ég kann ekki að meta. Þetta eru ekki bílaviðgerðir.“

Mikilvægt að þekkja sjúklingana

Það er greinilegt að tengsl við sjúklinga skipta Pál miklu og hann kveðst hafa lagt áherslu á það í starfi sínu sem yfirlæknir að ræða við sjúklingana, læknana og hjúkrunarfólkið á deildinni til að halda yfirsýn og góðum tengslum. „Þetta þótti mér vera hlutverk yfirlæknisins og reyndi að fylgja þeirri sannfæring“. Á langri starfsævi hafa aðgerðirnar orðið æði margar og Páll segist oftar en ekki hitta fólk sem rifjar upp aðgerð sem hann gerði á því. „Þá er mikilvægt að muna eftir nafninu.“

Páll býr nú ásamt eiginkonu sinni, Soffíu Stefánsdóttur, í þjónustuíbúð fyrir aldraða að Árskógum í Reykjavík. Þar una þau hag sínum vel, á 10. hæð og hafa útsýni til vesturs yfir borgina, allt upp á Snæfellsnes. „Hér er gott að vera,“ segja þau.

Á læknisferli sínum segist Páll hafa séð gríðarlegar breytingar í starfinu og ekki að undra þar sem ferillinn nær yfir allan síðari hluta 20. aldarinnar. Hann lýkur kandídatsprófi frá HÍ vorið 1950 og hlýtur sérfræðingsleyfi í handlækningum haustið 1955. Þá ræðst hann sem sjúkrahúslæknir til Akraness og býr þar og starfar næstu 15 árin. „Á Akranesi gerði maður bókstaflega allt. Tók á móti börnum, gerði við beinbrot og allt þar á milli. Ég var á vakt þar í 15 ár má segja, utan eitt ár sem ég var í London við að kynna mér æðaskurðlækningar. Auðvitað hafði ég héraðslæknana með mér en sjúkrahúsið var á mína ábyrgð og þar lauk ég yfirleitt dagsverkinu með því að ganga um sjúkrahúsið milli 10 og 11 á kvöldin og fullvissa mig um að allt væri í lagi fyrir nóttina. Síðan var ég á bakvaktinni þar til morguninn eftir. Ef ég ætlaði að fara frá varð fyrirvarinn að vera góður. Það tók tvo tíma að keyra til Reykjavíkur og oft í misjöfnu veðri. Skátastarfið tók sinn tíma líka, bæði á Akranesi og víðar. Á Skaganum voru um 10% bæjarbúa tengdir skátafélaginu og við hjónin vorum bæði vakin og sofin í skátastarfinu. Við erum bæði alin upp í skátunum og það hefur mótað okkar líf mjög mikið.“

Páll er fæddur á Vífilsstöðum 3. október 1924, sonur Gísla Pálsonar læknis og Svanlaugar Jónsdóttur. „Ég var nú ekki lengi á Vífilsstöðum heldur fluttum við til Reykjavíkur en fljótlega aftur þaðan til Eskifjarðar þar sem pabbi varð héraðslæknir. Eftir rúmlega þrjú ár þar fluttum við til Hafnarfjarðar og þá var kreppan í algleymingi. Atvinnuleysið var mikið og hart í ári hjá mörgum og hinir frægu gulu seðlar í umferð. Þá fengu þeir sem áttu ekkert fyrir sig að leggja gula miða á bæjarskrifstofunni og gátu tekið út mat í verslunum. Kannski stefnum við inn í svipað ástand núna. Síðan kom stríðið sem margir kölluðu ?blessað stríðið? og þeir sem svartsýnastir voru töldu að þessi gósentíð gæti ekki varað nema í nokkrar vikur.“

Áhrif skátahreyfingarinnar mikil

Páll var sendur í sveit 10 ára gamall að Litlu-Drageyri í Skorradal sem þá lá í þjóðbraut þar sem ekki var kominn vegurinn fyrir Hafnarfjall. „Þetta var heilmikil reynsla fyrir mig því ég hafði ekki séð skepnu svo heitið gæti og var skíthræddur við þær til að byrja með. Þarna var ég fimm sumur og þroskaðist mikið á þessu, vann alls kyns störf og kynntist ýmsu. Þarna var sett upp refabú og ég fékk þann starfa að reyta lunda sem keyptur var úr Breiðafirðinum í refafóður. Það var leiðinlegt verk en fiðrið var notað í sængurföt.“

 

Páll á skurðdeild Landspítalans í maí 1974.

 

Páll útskrifast stúdent úr MR vorið 1943 og segir að stúdentshópurinn hafi haldið vel saman allar götur þó talsvert hafi fækkað með árunum. „Við erum orðin svo ansi gömul.“

Páll segist hafa velt því fyrir sér allan menntaskólann hvað hann ætti að taka sér fyrir hendur að loknu stúdentsprófi. „Ég spáði talsvert í verkfræði en svo varð læknisfræðin ofaná þar sem ég taldi að það væri meira lifandi starf og hafði fyrirmynd frá föður mínum. Þá tíðkaðist það að heimilislæknar færu í vitjanir á heimili fólksins og heimili læknisins var í ýmsu tilliti eins konar miðstöð heilsugæslu þeirra fjölskyldna sem læknirinn sinnti. Það hafði sín áhrif að ég var mjög virkur í skátahreyfingunni á þessum tíma og lengi áður og fannst læknisstarfið eiga vel við þann lífsstíl.“

Skátahreyfingin átti sitt blómaskeið á Íslandi frá miðri síðustu öld og næstu áratugina á eftir. Páll segir miður að áhrif hreyfingarinnar hafi minnkað á seinni árum og færri sækja í skátastarfið nú. „Það á sér sínar eðlilegu skýringar en á þessum tíma var þátttaka í skátahreyfingunni eini möguleiki margra unglinga til að upplifa ferðalög og útilegur, læra grundvallaratriði um útivist og fjallgöngur. Nú þykir þetta sjálfsagður hluti af lífsstíl fjölskyldunnar og eflaust er þetta að miklu leyti fyrir áhrif frá skátahreyfingunni.“

Páll kveðst ekki hafa tölu á þeim fjölmörgu ferðum innanlands og utan með skátum sem hann og þau hjón hafa farið, en nefnir skátaskálann í Lækjarbotnum sem eins konar miðpunkt starfsins á gagnfræða- og menntaskólaárum sínum „Við fórum þangað nánast um hverja einustu helgi vetur eftir vetur. Slíkar ferðir hafa ekki sama aðdráttarafl í dag. Skátahreyfingin í dag telur 38 milljónir í heiminum og fjöldinn er mestur í þriðjaheimsríkjunum. Í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum hefur heldur fækkað í hreyfingunni.“

Páll minnist nokkurra kennara sinna úr læknadeild með mikilli ánægju og nefnir Guðmund Thoroddssen sem sérlega minnisstæðan. „Hann hélt klukkutíma fund með okkur læknanemunum á hverjum morgni og fór yfir ýmis konar tilfelli og aðgerðir. Hann hafði mikil áhrif á okkur til góðs. Jóhann Sæmundsson var frábær maður og fleiri ágætir menn voru í hópi kennara, Níels Dungal og Jón Steffensen. Jón kenndi allan fyrrihlutann læknanámsins nema efnafræðina. Hann hélt ekki fyrirlestra heldur hlýddi manni yfir. Þeir sem töldu sig vel lesna settust á fremsta bekk en aðrir héldu sig aftar. Síðan var prófað í fyrrihlutanum eftir þrjú ár. Menn máttu endurtaka prófið árið eftir en síðan ekki meir. Margir sem féllu fóru á taugum yfir þessu og treystu sér ekki í endurtekningarprófið. Þá voru þrjú ár farin í súginn. Pétur Jakobsson kenndi okkar fæðingarfræði og gerði það ágætlega en þetta var alltof lítil kennsla sem við fengum. Við vorum átta sem útskrifuðumst saman og eldri læknarnir spurðu okkur hvað við ætluðum að gera. Það væri enga vinnu að fá fyrir lækna. Það rættist nú úr því.

Dró úr sér 14 tennur

Svo voru stúdentar sendir út á land lítt kunnandi og ég var hræddastur við að lenda í erfiðum fæðingum. Ég fór fyrst á Patreksfjörð og þar voru fáar fæðingar en síðan var ég hálft ár á Norðfirði eftir kandídatsprófið og á þeim tíma tók ég á móti 30 börnum. Það gekk allt vel og ég lærði að láta náttúruna ráða. Þar voru aðstæður hins vegar mjög slæmar, engin áhöld eða tæki til á sjúkrahúsinu, engar samgöngur á landi, heldur aðeins með bát og læknishúsið svo lélegt að ég hafði kúst við rúmstokkinn til að berja rotturnar þegar þær gerðust of nærgöngular. Þetta var auðvitað erfitt en maður lærði að bjarga sér og þetta mótaði mann sem manneskju og lækni.“

Páll rifjar upp að á námsárunum fór hann til afleysingastarfa í einn mánuð í Búðardal. „Eina bjarta sumarnóttina hringir ljósmóðirin í mig og segir að kona í sveitinni sé að fæða sitt ellefta barn. Allar fæðingarnar hefðu gengið vel en nú væri allt stopp og konan komin með hita. Ég notaði tímann þar til ég var sóttur og rétt náði að rifja upp það helsta í bókinni um fæðingarfræðin. Þegar ég kom til konunnar voru börnin tíu öll á baðstofugólfinu en hún lá þungt haldin í rúminu. Hún var spikfeit og ég gat ekki með nokkru móti áttað mig á því hvernig barnið lá með því að þreifa hana, gat ekki einu sinni fundið hvort hún var með barni, svo ég varð að þreifa hana neðan frá. Þar fann ég strax fyrir barninu og þegar ég dró höndina út fylgdi barnið á eftir. Ég var heldur léttari í spori þegar ég fór en þegar ég kom og margir töldu þetta kraftaverk. Ég minnist þess einnig að hafa þurft að kippa áttræðum karli í axlarliðinn og hann kveinkaði sér ekki hið minnsta enda hafði hann dregið úr sér fjórtán tennur með naglbít og þótti þetta ekki nú ekki mikið. Líklega hafa tennurnar samt verið farnar að losna.“

Páll segist hafa haft mestan hug á að komast í nám í skurðlækningum til Bandaríkjanna en á árunum eftir stríð hafi læknaskólar nánast verið lokaðir útlendingum. „Skólarnir fylltust af fyrrverandi hermönnum svo engin pláss voru laus fyrir útlendinga. Ég fór því til Danmerkur og var í þrjú ár í Kaupmannahöfn. Mér líkaði þar ágætlega en læknisfræðin í Danmörku var ekki á hærra stigi en á Íslandi. Þeir höfðu fylgt Þjóðverjum sem stóðu höllum fæti í læknisfræði eftir stríðið. Allir þeirra bestu læknar höfðu verið gyðingar og voru ýmist dauðir eða flúnir. Ég fékk stöðu á Landspítala undir Snorra Hallgrímssyni sem var frábær maður og þar lærði ég gríðarmargt enda fékk ég tækifæri til að sinna alls kyns skurðaðgerðum. Ég tók svo við sjúkrahúslæknisstöðu á Akranesi af Hauki Kristjánssyni sem síðar varð yfirlæknir slysavarðstofu Borgarspítalans. Á Akranesi var aðstaðan ekki sem best í upphafi, áhöld og tæki vantaði, en það rættist smám saman úr því öllu saman, nýtt sjúkrahús var byggt af mikilli framsýni og hefur um árabil verið ein helsta máttarstoð atvinnulífsins á Akranesi, með á þriðja hundrað starfsmanna. Með nýja sjúkrahúsinu fjölgaði sjúkrarúmum úr 33 í 100 og skorturinn var orðinn svo mikill að það kólnaði aldrei rúm hjá okkur þrátt fyrir aukninguna.“

 

Páll ásamt Haraldi Böðvars-syni útgerðarmanni úti fyrir Sjúkrahúsi Akraness í október 1963.

 

Það var einmitt bygging nýja sjúkrahússins sem varð til þess að Páll fór út bæjarpólitíkina á Akranesi. „Það var deilt um þessa byggingu og framsóknarmenn sögðu að við ætluðum að byggja annan Landspítala á Akranesi með tilheyrandi ?hallarekstri. Það var talið líklegt að framsóknarmenn næðu meirihluta í bæjarstjórn og sjálfstæðismenn skoruðu á mig að gefa kost á mér í bæjarstjórnina. Mér þótti það tilvinnandi ef sjúkrahúsbyggingin næði fram að ganga. Þetta kostaði það að ég varð að ganga í hús og kynna mín stefnumál. Ég gerði þetta með nokkrum kvíða og hjartslætti en fann fljótt að fólkinu í bænum þótti vænt um þetta og við náðum 17 atkvæða meirihluta. Þá var ákveðið að hefja byggingu nýja sjúkrahússins og ég fór þá í eins árs leyfi til London til að kynna mér nýjungar í læknisfræði. Þar sá ég að allt önnur læknisfræði var í gangi en ég hafði áður kynnst. Þarna kynntist ég skurðlækningum á slagæðum og byrjaði á því þegar ég kom til baka. Þetta hafði ekki verið gert hérlendis fyrr og ég fann fljótlega fyrir því hversu fáar aðgerðir á ári ég gat gert á Akranesi. Sjúklingarnir voru í Reykjavík og ég sá að ef ég ætlaði að fylgja þessari kunnáttu eftir yrði ég að nýta tækifærið sem gafst þegar Friðrik Einarsson skurðlæknir hætti á Landspítala og fór yfir á Borgarspítala. Það var barist um þessa stöðu en ég átti hauk í horni sem var Snorri Hallgrímsson yfirlæknir. Það urðu talsverðar deilur um þetta og Læknafélagið blandaði sér í þær en ég lét mig hafa það að taka stöðuna í trássi við Læknafélagið.“

 

Skátamessa í Bessastaða-kirkju í september 1976. Fremstur gengur forseti Íslands dr. Kristján Eldjárn og við hlið hans Borghildur Fenger aðstoðarskátahöfðingi. Á eftir henni gengur Páll Gíslason skátahöfðingi og við hlið hans Halldóra Ingólfsdóttir forsetafrú.

 

Það var ekki sársaukalaust fyrir fjölskylduna að taka sig upp frá Akranesi og flytja til Reykjavíkur. „Þrjú barnanna okkar eru fædd á Akranesi og hafa til skamms tíma talið sig Skagamenn en þá var ekki kominn framhaldsskóli á Akranesi svo við sáum fram á að þurfa að senda þau í skóla til Reykjavíkur.“

Páll tók við hluta af handlækningadeild Landspítalans sem þá var í rauninni aðeins ein deild af tveimur á spítalanum. Hin var lyflækningadeild. „Snorri hafði stýrt handlækningadeildinni og ég tók við hluta af henni. Á næstu árum var svo deildinni sem ég stýrði skipt í fleiri, eins og lýtalækningadeild, bæklunarskurðdeild og gjörgæsludeild svo að ég hafði lengi eina deild sem sinnti aðgerðum á æðum, brjóstholi og kviðarholi. Með aukinni sérhæfingu voru svo smám saman stofnaðar fleiri deildir um sérgreinarnar.

Þróunin á þeim 25 árum sem ég var yfirlæknir var mikil og mjög ánægjulegt að taka þátt í henni. Þetta var allt gert af jákvæðni og góðum hug. Það myndaðist mikil og góð vinátta á milli lækna á spítalanum og það var mikill munur frá því sem áður var þegar núningur var á milli lækna á handlækningadeild og lyflækningadeild. Þetta voru skemmtilegir tímar. Þá voru haldnir fjölmennir læknafundir á laugardögum þar sem nær allir mættu en nú er búið að leggja þetta niður. Á hinn bóginn eru Læknadagar haldnir árlega og eru orðnir að mikilli uppskeruhátíð íslenskrar læknisfræði. Þar hef ég reynt að mæta og fylgjast með sem flestu en það háir mér í seinni tíð hvað sjónin er orðin döpur og þrekið farið að minnka. Ég hef orðið að draga mig að miklu leyti í hlé af þeim sökum.“

Allt á sér sinn tíma og Páll Gíslason kveðst sáttur við lífið og tilveruna. „Öll tímabil ævinnar eiga sér góðar hliðar. Nú nýt ég þess að fylgjast með úr fjarlægð héðan ofan af tíundu hæð í Árskógunum.“

 

Myndirnar eru fengnar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica