01. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Framlag yngri lækna æ mikilvægara. Viðtal við Hjördísi Þóreyju Þorgeirsdóttur

„Mikil ábyrgð, mikið vinnuálag og lág laun,“ er lýsingin sem Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir, formaður Félags ungra lækna, gefur á starfsumhverfi yngri lækna.

Hjördís Þórey var kjörin formaður á aðalfundi FUL í september. Hún segir að aðstæður í þjóðfélaginu hafi gerbreyst svo á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því hún tók við formennskunni að allar áætlanir um áherslur í starfi félagsins hafi breyst og kalli á endurskoðun.

Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir, formaður Félags ungra lækna.

„Ég gerði ráð fyrir að aðalstarfið myndi snúast um endurskoðun samninga og nýjan kjarasamning fyrir lækna í mars á næsta ári, enda var samningurinn sem gerður var í haust í rauninni samþykktur á þeim forsendum að hann væri bráðabirgðasamningur. En þá brast skyndilega á með kreppu og nú er ljóst að allar fyrri áætlanir eru í uppnámi og þarfnast endurmats.“

Nú liggur fyrir fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og spurning hvaða áhrif það mun hafa á starfsumhverfi yngri lækna.

„Það hefur vissulega áhrif á okkur. Efst í huga okkar á þessum tíma er þó hvaða áhrif þetta mun hafa á þjónustu við sjúklinga. Nú hefur verið boðaður 3% niðurskurður á fjárlögum til heilbrigðismála. Því hefur sums staðar verið haldið fram að þetta muni ekki koma niður á þjónustunni. Ég held þó að flestir sem starfi á spítalanum og í heilsugæslunni séu sammála um að það sé mjög ólíklegt. Við skulum ekki gleyma því að í „góðærinu“ undanfarin ár hefur verið sparað, hagrætt og skorið niður á Landspítala svo það er mjög erfitt að sjá hvernig vinda á þessar fjárhæðir til viðbótar úr kerfinu.“

Hjördís segir að góðærið svokallaða hafi ekki skilað sér til lækna og kjarabarátta yngri lækna fyrr á þessu ári hafi snúist um leiðréttingu til jafns við aðra hópa í samfélaginu. „Það voru alls ekki allir sem nutu góðs af góðærinu og ég get heldur ekki séð að sjúklingar hafi notið þess sérstaklega og því finnst manni óréttlátt að sá hópur skuli eiga að taka á sig enn frekari skerðingu vegna hruns bankakerfisins. Ég set líka spurningarmerki við þjóðhagslegan ávinning af því að skera niður í heilbrigðisþjónustunni við þessar aðstæður. Leið okkar út úr kreppunni byggist jú á mannauði landsins sem aftur byggist á heilbrigði fólks og menntun.“

Yngri læknar hverfa annað

Hjördís segir að margir yngri læknar séu í þeim sporum að stefna fyrr eða seinna á framhaldsnám erlendis og aðstæðurnar hér heima verði eflaust til þess að margir taki sig upp fyrr en þeir ætluðu.

„Það hefur verið talsverð óánægja meðal yngri lækna um nokkurt skeið; ekki bara með launakjör heldur líka vinnuaðstæður og það að oft á tíðum er vinnuálag óásættanlega mikið. Þegar síðan við bætist þessi boðaði niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og ástandið í samfélaginu almennt tel ég að þetta verði til þess að yngri læknar fari fyrr út og komi seinna heim en annars hefði verið. Eflaust munu fleiri en ella setjast að erlendis til frambúðar. Þetta leiðir að sjálfsögðu til fækkunar í stétt yngri lækna. Yngri læknum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum vegna þess að sífellt meira framboð hefur verið á sérnámi hér heima, hægt hefur verið að taka fyrrihluta nokkurra sérgreina og einstaka greinar alveg og fyrir vikið eru yngri læknar fleiri en áður, og um leið verður framlag þeirra mikilvægara í heilbrigðisþjónustunni. Fækkun þeirra mun ekki verða sársaukalaus fyrir kerfið.“

Þegar eðli FUL sem félags er skoðað segir Hjördís að vandinn við að halda öflugu félagsstarfi gangandi sé þríþættur.

„Í fyrsta lagi hefur fólk lítinn tíma til að sinna félagsstörfum þegar vinnan tekur svo mikinn tíma. Í öðru lagi eru félagsmenn á þeim aldri að þeir eru margir með ung börn og fjölskylduaðstæður bjóða ekki upp á mikla félagslega þátttöku. Í þriðja lagi er þetta mjög hverfull hópur, það er að segja að fólk er tiltölulega stutt í félaginu áður en það fer út eða öðlast sérfræðiréttindi. Einmitt vegna þessa, ásamt því að yngri læknar hafa engin formleg völd yfir sínu vinnuumhverfi, tel ég að það sé mikil þörf á öflugri starfsemi félags ungra lækna, til að standa vörð um vinnutengd mál félagsmanna.“

Í starfi unglækna er gert ráð fyrir þjálfun og kennslu en Hjördís segir að oft verði minna úr þeim þætti en skyldi, meðal annars vegna þess að vinnuálagið sé oft á tíðum allt of mikið. „Það segir sig sjálft að þegar fólk er á hlaupum við að slökkva elda allan daginn, bjarga hlutum og tímapressan er mikil, þá verður lítill tími til þess að læra. Það gefst ekki tími til að velta fyrir sér þeim tilfellum sem mæta manni og leita svara við spurningum sem vakna. Þetta er mjög slæmt. Á Landspítala er unnið mjög gott starf á skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar og góður vilji þar til að stuðla að bættri kennslu yngri lækna. Vandinn er sem fyrr segir að svigrúmið til þess er hreinlega allt of lítið vegna vinnuaðstæðna. Þetta á sérstaklega við um kandídatana sem upplifa oft á tíðum að þeim sé hent í djúpu laugina og sagt að læra að synda. Vinnuálagið var eitt af því fyrsta sem stakk mig þegar ég byrjaði sem kandídat. Það er ríkjandi misskilningur í okkar hópi að streita og áhyggjur af því að ná ekki að sinna öllum sínum verkefnum sé einkamál viðkomandi; það er það ekki heldur vísbending um óhóflegt álag og ætti að skoðast sem lært mat viðkomandi á því að sjúklingar geti verið í hættu. Þetta þarf að taka mjög alvarlega og ég vil vinna að þessu á vettvangi FUL, að verksvið og verkmagn yngri lækna verði betur skilgreind.Víða erlendis eru mjög skýrar reglur um hversu marga sjúklinga kandídat megi hafa, hversu marga deildarlæknir og svo framvegis. Sé vikið frá þessu er það skráð og fylgst vandlega með því. Hér vantar slíka umgjörð og sjálfsagt eftirlit. Svo lengi sem svo er ekki getur vinnuálagið hæglega farið langt yfir öryggismörk, án þess að nokkrar viðvörunarbjöllur hringi. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú þegar frekari niðurskurður er boðaður því hætt er við því að það leiði til kröfu um enn aukið vinnuálag yngri lækna.“

Breytingar kalla á breytt viðhorf

Annað sem Hjördís segir FUL vilja vinna að er að auka á samstarf og jákvæða samvinnu milli heilbrigðisstétta.

„Yngri læknum er að fjölga og samsetning ?hópsins að breytast frá því sem áður var. Konum fjölgar jafnt og þétt í læknastétt. Þetta kallar á breytt viðhorf til samstarfs þeirra stétta sem vinna innan heilbrigðiskerfisins og við viljum leggja okkar af mörkum til að samvinnan verði sem best. Þetta er eitt af því sem þarf að huga að í þróun læknisstarfsins. Þjóðfélagið hefur breyst og allir hafa málfrelsi og tillögurétt í samstarfi, alveldi og einræði tíðkast ekki lengur á vinnustöðum, og það þarf að hugsa ýmsa hluti upp á nýtt svo breytingarnar hafi jákvæð áhrif.“

Breytingar í samfélaginu hafa haft sín áhrif á kröfur og hugmyndir fólks um hvernig forgangsraða eigi í tilverunni. „Það hefur lengst af verið gengið út frá því að vinnusemi og ósérhlífni séu göfugustu eiginleikar sem fólk hafi og ekki síst meðal karla í læknastétt. Vinnuálagið sem læknar búa við er arfur þessara sjónarmiða. Samhliða því sem konum fjölgar í læknastétt breytast þessi viðhorf því þau samræmast illa fjölskyldusjónarmiðum. Ég tala örugglega fyrir munn mjög margra kollega minna þegar ég segi að ég hafi mikinn faglegan metnað sem læknir, en ég hef líka mikinn metnað til þess að vera gott foreldri. Ég vil hafa tíma og aðstöðu til að gegna báðum hlutverkunum mjög vel. Ég vil reyndar taka það fram að ég tel að yngri læknar af karlkyni geri einnig þessar kröfur til samþættingar fjölskyldu- og einkalífs og vinnu enda er föðurhlutverkið að breytast. Möguleikar yngri lækna til að aðlaga starfið að fjölskylduaðstæðum þyrftu að að vera mun meiri en þeir eru í dag. Fjölskyldusjónarmið þurfa að fá meira vægi og við þurfum að gera okkur skýra grein fyrir því að vinnufyrirkomulag innan ákveðinna spítalasérgreina kalla á lífsstíl sem æ færri eru tilbúnir að gangast inn á.“

Hjördís segir að áherslan í starfi FUL á næstunni verði á þessi mál. „Þó má alls ekki sofna á verðinum varðandi kjaramál og nauðsynlegt er að halda áfram að vinna undirbúningsvinnu, svo sem PR-vinnu og fleira. Við munum líka gæta þess vel að ekki sé verið að brjóta kjarasamninga á félagsmönnum okkar og skiptir þá engu hvort kreppa ríkir eða ekki. Við þekkjum mörg dæmi þess að vinnuálagið sé svo mikið að fólk sé að sinna skýrslugerð og frágangi í sínum eigin tíma og það er auðvitað ekki viðunandi.“ Hjördís Þórey nefnir að lokum ábyrgð lækna í samfélagslegri umræðu og hvernig lýðheilsa í sínu stærsta samhengi grundvallist á samfélagslegum og pólitískum þáttum. „Ég tel að læknar ættu í auknum mæli að láta til sín taka í þjóðfélagsumræðu því gott heilbrigðiskerfi byggist á sömu gildum og gott þjóðfélag. Ég tel jafnvel að líta megi svo á að það sé hluti af því að rækja skyldur sínar við sjúklinga því það er til einskis fyrir sjúkling að læknir hans hafi gríðargóða fagþekkingu ef kerfið gerir honum ekki kleift að nýta hana í þágu sjúklingsins. Eins og aðrir hafa nefnt hefur heilbrigðiskerfið á undanförnum árum verið mótað og því stýrt af öðrum fagstéttum en læknum; lögfræðingum, hagfræðingum og stjórnmálafræðingum og sérþekking lækna á málaflokknum hefur á stundum verið fyrir borð borin. Hana mætti nýta miklu betur. Lýðræði, fagleg vinnubrögð stjórnvalda, heiðarleiki og sanngirni eru þau grunngildi þjóðfélagsins sem læknar geti óhikað staðið vörð um, hvar í flokk sem þeir vilja annars skipa sér.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica