12. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Dreifibréf Landlæknisembættisins. Leiðir til lækkunar lyfjakostnaðar

Mikill ávinningur hefur náðst í þá veru að lækka lyfjaverð á Íslandi. Gildir það ekki síst um frumlyf, en enn er verð samheitalyfja hærra hér á landi en í mörgum nálægum löndum og markaðshlutdeild þeirra minni.

Ein grein af þessum meiði lýtur að afsláttum lyfjainnflytjenda og lyfjafyrirtækja á lyfjaverði til sjúkrahúsa og stofnana í útboðum. Þeir afslættir gilda síðan ekki um sölu sömu lyfja í apótekum. Sem dæmi má nefna verð blóðfitulækkandi lyfja, en þar veita lyfjafyrirtæki 20% afslátt til Landspítala á simvastatin (Sivacor), 90% afslátt á atorvastatin (Sarator) og 95% af rosuvastatin (Crestor). Kostnaður við innkaup þessara lyfja til spítalans er á þennan hátt áþekkur, en verðmunur úr apóteki eftir útskrift sjúklings er hins vegar verulegur, annars vegar tæplega fimmfaldur og hins vegar tæplega tífaldur.

Almennt er vinnulag á sjúkrahúsum þannig að sjúklingar eru útskrifaðir á þeim lyfjum sem þeim hefur verið ávísað á sjúkrahúsinu. Minna verður á að sú ákvörðun sjúkrahússins að kaupa ódýrustu lyf samkvæmt útboði er eðlileg og reyndar lögbundin. Hins vegar er einnig rétt að minna á að kostnaðarvitund er hluti af siðgæðisvitund lækna.

Með þessu bréfi er því mælst til þess að sjúklingar séu útskrifaðir á ódýrasta lyfi úr hverjum lyfjaflokki, án tillits til þess hvaða lyf þeir hafa fengið á sjúkrahúsinu, ef engar sérstakar klínískar ástæður mæla gegn því. Jafnframt er því beint til lækna sem sjá um framhaldsmeðferð að huga að ofangreindu og breyta lyfjum m.t.t. kostnaðar ef mögulegt er. Með þessu móti getum við lagt lóð okkar á vogarskálar þess að draga úr lyfjakostnaði í landinu.

LandlæknirÞetta vefsvæði byggir á Eplica