12. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Ritstýrði kafla í afmælisútgáfu Gray´s Anatomy. Viðtal við Hannes Petersen

Hin fornfræga líffærafræði Grays (Gray´s Anatomy) kom nýverið út í sérstakri afmælisútgáfu til að fagna því að 150 ár eru liðin frá því fyrsta útgáfa verksins kom út í Bretlandi. Þau tíðindi gerast með nýjustu útgáfunni að Hannes Petersen, sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum og dósent við læknadeild HÍ, er ritstjóri kaflans um eyrað og er það í fyrsta sinn sem íslenskur læknir er fenginn til að leggja lið þessari gagnmerku útgáfu.

 

Kápan af glænýrri útgáfu bókarinnar sem er sú fertugasta í 150 ára sögu.

 

Hannes hefur á undanförnum árum stundað rannsóknir á myndun eyrans, þá sérstaklega innra eyranu þar sem hann beitir aðferðum tilraunalegrar fósturfræði (experimental embryology) og notar þá sérstaklega kjúklingafóstur. „Í litningum kjarna okfrumunnar og síðar í kjörnum allra fruma ?næriþekju og fósturkíms og að lokum fullmyndaðs einstaklings eru upplýsingar um byggingu þeirrar lífveru sem um ræðir ásamt upplýsingum um síðari starfsemi. Að þekkja þau gen er liggja að baki ákveðnu útliti, hvað og hvernig þau ræsast og hvernig umritun þeirra er háttað, er mikið rannsakað nú. Minn áhugi hefur fyrst og fremst beinst að myndun innra eyrans frá eyrafragi að eyrablöðrungi, hvaða gen koma þar við sögu og hvort frumur taugakambs taka þátt í lokamyndun innra eyrans,“ segir Hannes. Þessar rannsóknir leiddu til þess að hann vann fyrir nokkrum árum við Developmental Neurobiology einingu King´s College í London þar sem hann kynntist aðalritstjóra Gray´s Anatomy, prófessor Susan Standring. „Hún bað mig að ritstýra kaflanum sem snýr að myndun eyrna og varð ég auðvitað góðfúslega við því. Segja má að stórsæ líffærafræði hafi lítið sem ekkert breyst frá því frumútgáfan kom út og sannarlega hefur hún í meginatriðum staðist tímans tönn þótt bókin sé mun ítarlegri og betri nú en þá. Hinn hefðbundni texti stórsærrar líffærafræði er framsettur á mun kennsluvænni hátt og studdur myndum í hæsta gæðaflokki. Miklar framfarir í þekkingu á smásærri líffærafræði og nátengt myndgreiningu á sama sviði, hefur texti þess efnis aukist mikið og einnig allur texti er snýr að myndun líffæra og líkama. Þannig er vísað til allra nýjustu og helstu heimilda sem lesandinn getur leitað í eftir nánari upplýsingum um hvaðeina. Einnig er lögð gríðarleg vinna í myndefni bókarinnar sem er í algjörum sérflokki, bæði kennslufræðilega og tæknilega.“ Hannes er sannarlega dómbær á gæði teikninga því eftir hann liggur verk læknisfræðilegra teikninga sem notaðar hafa verið við kennslu hérlendis og í útgáfum bóka og bæklinga innanlands og utan. „Ég vann í mörg sumur við líffærafræðiteikningar fyrir forvera minn, prófessor Hannes Blöndal, sem voru síðan notaðar við kennslu í læknadeildinni.“

 

Hannes Petersen er ritstjóri kaflans um eyrað í afmælis-útgáfu Gray´s Anatomy.

 

Gray´s Anatomy kom síðast út fyrir þremur árum 2005 og er því ekki langt stórra högga á milli. Hannes segir þó verulegan mun á bókunum tveimur, sérstaklega hvað varðar gæði myndefnisins. „Kennsla í líffærafræði í grunnnámi læknisfræði hefur á seinni árum færst sífellt meira yfir í vinnu með myndir, tölvuforrit og líkön og því er mjög mikilvægt að slíkt sé fagmannlega og nákvæmlega unnið. Ekki hefur verið kennd líffærafræði með krufningum hér á Íslandi síðan 1980 en það sumar var síðasta krufningaferð íslenskra læknanema á erlenda grund. Það er yfirleitt ekki fyrr en komið er í sérnám í einstökum greinum skurðlækninga sem notast er við lík til kennslu og æfinga. Áherslan sem ég lagði efnislega á ritstjórn kaflans er í sem stystu máli sú að hann gagnist læknum og læknanemum sem best í klínískri vinnu; bókinni er ætlað það hlutverk að veita klíníska nálgun á námi í líffærafræði og hefur áherslan frá einni útgáfu til annarrar stöðugt færst meira í þá átt,“ segir Hannes.

Gray´s Anatomy hefur komið út í fimm milljónum eintaka frá upphafi og er gefin út bæði í Englandi og Bandaríkjunum og hefur það tíðkast frá því í byrjun síðustu aldar. Ekki er mikið vitað um höfundinn Henry Gray, en hann lést aðeins 34 ára gamall úr bólusótt (smallpox), þremur árum eftir útkomu bókarinnar og var hann þá þegar nær búinn að ganga frá endurskoðuðum texta næstu útgáfu, en sá texti hefur aldrei fundist. Engar dagbækur eru til eftir Gray og persónulegt líf hans því að miklu leyti á huldu. „Eins og í nýjustu útgáfunni fólust gæði fyrstu útgáfu bókarinnar ekki aðeins í textanum heldur einnig í frábærum myndum sem annar læknir, Henry Vandyke Carter, teiknaði og voru þær myndir notaðar lengi síðan. Þeir Henryarnir þekktust vitaskuld vel og má í dagbókarfærslum Carters lesa um samskipi þeirra og þaðan höfum við upplýsingar um persónu þessa merkilega manns.“

Í afmælisútgáfunni er útgáfusaga verksins rakin, dregið er saman stutt æviágrip þeirra beggja, Henry Grays og Henry Vandyke Carters, og fleiri sem komið hafa að útgáfunni í þau 150 ár sem liðin eru frá því frumútgáfan leit dagsins ljós. Það er svo deginum ljósara að aldrei hefur titill bókarinnar verið jafntamur jafnmörgum eftir að ein vinsælasta læknasápan í alþjóðlegu sjónvarpi var nefnd Grey´s Anatomy, þótt spurning sé eftir hvaða greyi hún er nefnd.Þetta vefsvæði byggir á Eplica